Categories
Fréttir Greinar

Skýr skref í þágu lög­gæslunnar

Deila grein

06/12/2022

Skýr skref í þágu lög­gæslunnar

Við höfum öll orðin vör við aukna hörku og breyttar aðstæður í glæpastarfsemi á Íslandi. Síðustu vikur hafa fregnir af hrottalegum árásum og auknum umsvifum glæpasamtaka verið daglegt brauð. Lögreglan gerir allt sem hún getur með þann mannafla og þá tækni sem hún hefur í höndum sér, en þó sjáum við íbúa óttaslegna við þróun skipulagðrar glæpastarfsemi hér á landi. Með stöðugri þróun glæpasamtaka, t.d. með aukinni notkun internetisins, hefur reynst sífellt erfiðara að rannsaka starfsemi þeirra og fara í viðeigandi aðgerðir. Það er öllum ljóst að taka þurfi á þessum málaflokki af krafti og styðja löggæsluna í sínum viðbrögðum við nýjan veruleika. Til þess að halda uppi reglu og koma í veg fyrir glæpi þarf að stíga ákveðin skref í rannsóknum, greiningum og viðbrögðum.

Löggæslan komin að þolmörkum

Allir fasar löggæslunnar eru komnir að þolmörkum. Lögreglustjórar hafa þurft að hagræða hverri krónu, lögreglan er undirmönnuð og fangelsin þarfnast umbótunar. Verkefnin eru fjölmörg og við þurfum að klára þau svo að hægt sé að bregðast við breyttum aðstæðum af ákveðni. Ríkisstjórnin hefur brugðist við þessu með auknum fjárveitingum til almennrar löggæslu, Landhelgisgæslunnar og fangelsanna. Með auknum fjárveitingum geta viðbragðsaðilar okkar og rannsakendur verið betur í stakk búnir til að mæta sífellt flóknari verkefnum.

Sjaldséð aukning

Ríkisstjórnin hyggst auka fjárframlög um 2,5 milljarða króna frá því sem upphaflega var áætlað. Af þessu eiga 900 milljónir króna að fara í aukið öryggi, aukinn viðbragðstíma og málsmeðferðarhraða og 500 milljónir í sérstakar aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Þetta eru skýr skilaboð frá ríkisstjórninni að styðja skuli við löggæslu landsins. Slíkur stuðningur við löggæsluna hefur ekki sést í langan tíma, marga áratugi, og gerir okkur kleift að bregðast við ástandinu í dag af krafti.

Mikilvægi frumkvæðislöggæslu

Ásamt þessu mun lögreglan geta unnið enn frekar í þágu forvarna. Oft er horft fram hjá mikilvægi forvarnarstarfs lögreglunnar, en bestu aðgerðirnar eru fyrirbyggjandi aðgerðir. Með öflugu forvarnarstarfi er hægt að koma í veg fyrir að ungmenni taki ranga beygju á lífsleiðinni. Það er ungmennum og samfélaginu í heild til hagsbóta.

Undirrituð fagnar því að efla skuli löggæslu landsins og tryggja það að við Íslendingar búum í enn öruggara landi.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. desember 2022.

Categories
Greinar

Vörðusteinar

Deila grein

16/11/2022

Vörðusteinar

Verklagsreglur ríkislögreglustjóra um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála hefur reynst vel, samstarf við fagaðila heftur aukist og þolendum verið tryggð betri þjónusta. Þolendur heimilisofbeldis veigra sér oft við því að tilkynna lögreglu um ofbeldi enda gerandinn oft einstaklingur sem er nákominn þolanda. Í smærri sveitarfélögum þar sem íbúar þekkja flestir hvern annan getur það ekki síður verið þungbært að tilkynna um heimilisofbeldi. Því er mikilvægt að þau stjórnvöld sem starfa náið með íbúunum hafi víðtækar heimildir til þess að eiga frumkvæði að því að grípa inn í og eiga samstarf við önnur stjórnvöld um viðbrögð við slíkum brotum. Þótt verklagsreglur ríkislögreglustjóra hafi tryggt samstarf lögreglu við önnur stjórnvöld þarf samstarfið einnig að verða formfast í hina áttina, þ.e. með tilkynningum félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntastofnana til lögreglu og með samstarfi þeirra á milli að frumkvæði annarra yfirvalda. En til þess að slík upplýsingagjöf geti átt sér stað með skilvirkum hætti, með hagsmuni brotaþola að leiðarljósi, þarf skýrari lagaheimildir til upplýsingamiðlunar. Allt samráð milli stofnana samfélagsins þarf að eiga sér stað með þátttöku og samþykki brotaþola. Þegar ástæða er til að ætla að barn hafi orðið vitni að heimilisofbeldi eða orðið þolandi þess þarf þó að tryggja að skilyrði um þátttöku og samþykki brotaþola komi ekki í veg fyrir inngrip stjórnvalda sem sé andstætt hagsmunum barnsins. Kanna þarf hvort rýmka þurfi og skilgreina betur tilkynningarskyldu stjórnvalda, sem hafa afskipti af málum barna, til barnaverndarnefndar og lögreglu og kerfin utan um barnið geti miðlað upplýsingum sín á milli til að grípa börnin betur í þeim aðstæðum sem þau eru því miður alltof oft sett í.

Fleiri steinar styrkja vörðuna.

Í lok síðustu viku bárust fréttir frá Heilbrigðisráðuneytinu um að unnið sé að því að innleiða samræmt verklag og bæta þjónustu heilbrigðiskerfisins við þolendur heimilisofbeldis. Markmið þeirrar vinnu er að þolendum heimilisofbeldis verði tryggð sem best þjónusta og þjónustan þróuð og efld til lengri tíma litið. Vinnan er gerð í samstarfi við embætti Landlæknis í kjölfar niðurstaðna skýrslu sem unnin var fyrir ráðuneytið á síðasta ári. Skýrslan fól í sér mat á því hvernig heilbrigðisþjónusta mætir ólíkum þörfum kynjanna og tillögur að úrbótum. Ein tillagan var ákvörðun um að móta samræmt og bætt verklag. Þjónustan felur m.a. í sér þær breytingar að framvegis geti allir þeir sem þurfa að leita til heilbrigðisþjónustunnar í kjölfar heimilisofbeldis fengið tilvísun til félagsráðgjafa sem hefur sérfræðiþekkingu í málaflokknum. Einnig bætist við boð um þjónustu sálfræðings. Þá er hafin vinna við að setja upp rafrænt skráningarform í sjúkraskrá sem áætlað er að verði komið inn hjá öllum heilbrigðisstofnunum á næsta ári. Þar verða skráðar niðurstöður á réttarlæknisfræðilegum skoðunum á þolendum ofbeldis þegar svo ber við og framkvæmdar eru í alvarlegustu tilfellunum.

Hér er um að ræða mikilvægan stein í vörðuna og þetta ýtir áfram þingmáli sem ég lagði fram um að starfshópur yrði settur á fót sem yrði falið að móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldi á milli kerfa. Markmiðið með þingsályktunartillögunni er að endurskoðun fari fram á núverandi kerfum með það fyrir augum að einfalda upplýsingamiðlun milli barnaverndaryfirvalda, félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntamálayfirvalda við að miðla upplýsinga milli stofnana og til lögreglu. Skoðanir og skráning áverka í heimilisofbeldismálum og skráning sönnunargagna sem fást hjá heilbrigðisyfirvöldum þurfa að fara fram með óyggjandi hætti svo þær upplýsingar séu nothæfar ef til sakamáls kemur.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Lyfti­stöng fyrir heil­brigðis­þjónustu á Suður­nesjum

Deila grein

19/10/2022

Lyfti­stöng fyrir heil­brigðis­þjónustu á Suður­nesjum

Undanfarin ár hefur orðið hröð fólksfjölgun á Suðurnesjum með tilheyrandi vaxtarverkjum. Lýðheilsuvísar sem Embætti Landlæknis birtir reglulega hafa sýnt að ýmsir þættir í daglegu lífi sem hafa áhrif á líðan og heilsu hafa verið óhagstæðari á Suðurnesjum en annar staðar á landinu. Í dag búa um 30 þúsund íbúar á svæðinu og það hefur blasað við um tíma að Heilsugæslan á Suðurnesjum nái ekki að anna öllum þessum fjölda. Íbúar á svæðinu hafi um tíma barist yfir bættri heilsugæslu á svæðinu og hefur sú barátta nú skilað árangri.

Tvær nýjar heilsugæslustöðvar

Heilbrigðisráðuneytið fékk það verkefni að bæta heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum eftir að þverfaglegur starfshópur sem hafði það að markmiði að gera stöðumat og aðgerðaráætlun um eflingu þjónustu ríkisins á svæðinu skilaði skýrslu sinni. Til þess að bregðast við stöðunni þá fól Heilbrigðisráðherra Sjúkratryggingum Íslands að auglýsa eftir rekstraraðila til þess að reka nýja heilsugæslustöð í Reykjanesbæ. Sjúkratryggingar hafa nú gengið að tilboði Heilsugæslunnar Höfða í rekstur nýrrar einkarekinnar heilsugæslustöðvar í Reykjanesbæ. Samkvæmt útboðsgögnum skal heilsugæslustöðin vera opnuð 4-6 mánuðum eftir undirritun samnings, en undirritun er fyrirhuguð á allra næstu dögum. Það er því ljóst að ný heilsugæslustöð mun líta dagsins ljós á vormánuðum.

Hér er um að ræða fyrstu einkareknu heilsugæslustöðina utan höfuðborgarsvæðisins og má svo sannarlega segja að hér sé um að ræða lyftistöng fyrir alla heilbrigðisþjónustu á svæðinu. Mikilvægt er að tryggja heilsugæslu fyrir alla, enda er heilsugæslunni ætlað stórt hlutverk í heilbrigðisþjónustunni við landsmenn samkvæmt lögum. Samhliða þessu mikilvæga skrefi hefur verið tekin ákvörðun um byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar í Innri-Njarðvík í Reykjanesbæ sem á að þjóna um 15.000 íbúum. Húsnæði stöðvarinnar verður um 1.350 fermetrar. Ríkissjóður fjármagnar framkvæmdina að fullu en Reykjanesbær leggur til lóðina og liggur fyrir ákvörðun um að heilsugæslustöðin verði reist við Tjarnarbraut/Njarðarbraut.

Blandaður rekstur er leið til bættrar þjónustu

Reynslan af einkareknum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið góð og njóta þær trausts meðal notenda sinna og auka val. Við í Framsókn með Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í fararbroddi teljum það vera skynsamlega þróun að hafa einkareknar heilsugæslustöðvar samhliða ríkisreknum. Með því má tryggja að fleiri læknar sæki sér menntun sem heilsugæslulæknar og aukin þjónusta verður í boði. Erfitt hefur verið að fá lækna til þess að fara í sérnám í heimilislækningum. Meðal annars vegna þess að þeir hafa bara eitt form til að fara inn í, það er að starfa á ríkisreknum heilsugæslum á meðan aðrir sérgreinalæknar hafa farið í rekstur með ólíkum hætti. Horfa þarf heildstætt á allan rekstur í heilbrigðiskerfinu en þó er mikilvægast af öllu að allir geti sótt sér heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Alþingismaður fyrir Framsókn í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. október 2022.

Categories
Greinar

Tímamót í heilsufarssögu Íslendinga

Deila grein

26/09/2022

Tímamót í heilsufarssögu Íslendinga

Ný Brjóstamiðstöð á Landspítala við Eiríksgötu hefur verið starfandi frá því í apríl á seinasta ári en var með formlegum hætti opnuð af Willum Þór, heilbrigðisráðherra í gær. 

Aðstaðan á Brjóstamiðstöðinni er til fyrirmyndar en þjónustu miðstöðvarinnar er ætlað að ná yfir alla skimun og klíníska brjóstamyndagreiningu, göngudeildarþjónustu tengdra sérgreina, meðferð og eftirlit allra brjóstameina. Miðstöðin mun einnig sinna þjónustu úti á landi og fólki sem er í áhættuhópi á að fá krabbamein vegna stökkbreytinga í genum. Henni er því ætlað að vera miðpunktur í þjónustu við þá sem greinast með mein eða sjúkdóm í brjóstum. 

Grundvallarþáttur við undirbúning og skipulagningu þjónustu brjóstamiðstöðvarinnar var að sameina á einum stað sérfræðinga á sviði krabbameinslækninga, brjóstaskurðlækninga, geislalækninga og lýtalækninga. Brjóstamiðstöðin felur í sér fordæmi og fyrirmynd sem byggt verður á við áframhaldandi þróun göngudeildarþjónustu í starfsemi Landspítala.

Framtíðarsýn miðstöðvarinnar er að gera þeim sem á þurfa að halda auðveldara að leita aðstoðar, að tryggja notendum samfellda og samþætta þjónustu við greiningu brjóstameina. Heildræn lausn fyrir öll vandamál frá brjóstum. Hér er um að ræða afar stórt framfaraskref í þjónustu og raun eru þetta tímamót í heilsufarssögu Íslendinga.

Krabbamein er óboðinn gestur

Að meðaltali greinast um 240 einstaklingar með mein í brjóstum á ári. Konum á Íslandi er boðin reglubundin skimun fyrir krabbameini í brjóstum. Konum á aldrinum 40 til 69 ára er boðin skimun fyrir brjóstakrabbameini á tveggja ára fresti og konum á aldrinum 70 til 74 ára á þriggja ára fresti. Einkennalausar konur 40 til 74 ára geta pantað tíma í skimun fyrir brjóstakrabbameini. Ekki nærri því allar konur þiggja þessi boð og við á Íslandi þurfum að bæta okkur þar. Algengasta krabbamein hjá konum á Íslandi er brjóstakrabbamein og því fyrr sem sjúkdómurinn greinist því betri eru lífslíkurnar. Skipuleg skimun er því afar mikilvæg til þess að finna og greina sjúkdóminn snemma. Við megum heldur ekki gleyma að skoða brjóstin okkar sjálfar, t.d. þegar við undirbúum okkur fyrir daginn eða í sturtunni. Ef við gerum þetta einu sinni til tvisvar í hverjum mánuði er mögulega auðveldara að gera sér grein fyrir breytingum á milli skipta og grípa óboðna gestinn áður en hann fer að valda alvöru ónæði.

Við í Framsókn viljum halda áfram að tryggja að heilbrigðisþjónusta hérlendis verði í fremstu röð. Við viljum leggja áherslu á að gæði heilbrigðisþjónustu sé ávallt eins og best verður á kosið með því að leita hagkvæmra og skilvirkra lausna. Einstaklingsmiðuð þjónusta, teymisvinna og nýsköpun eru lykilatriði í þjónustu nýrrar brjóstamiðstöðvar sem byggir á nútímalegri nálgun við skipulag og veitingu göngudeildarþjónustu. Brjóstamiðstöðin við Eiríksgötu felur í sér fordæmi og fyrirmynd sem hægt verður að byggja á við áframhaldandi þróun göngudeildarþjónustu í starfsemi Landspítala.

Landspítala appið

Önnur tímamót í heilbrigðismálum á Íslandi er smáforrit í boði Landspítala. Smáforritið er enn í þróun en í nokkrum áföngum er verið að innleiða það. Upplýsingar sem finna má í appinu eru t.d. innlagnir/komur, tímabókanir, staða rannsókna o.fl. Upplýsingar sem birtast í smáforritinu og tengjast dvöl þinni á spítalanum eru t.d. upplýsingar um lífsmarkamælingar, lyf, starfsmenn, feril dvalar þinnar og svo framvegis. Nýtt Landspítala smáforrit verður einnig tekið til notkunar á brjóstamiðstöðinni fljótlega og verður það bylting í stafrænni upplýsingagjöf og öllu utanumhaldi fyrir einstaklinga sem þurfa á þjónustunni að halda.

Hér er því sannarlega um að ræða tímamótaskref í heilsufarssögu Íslendinga og berum við öll miklar vonir og væntingar við áframhaldandi velgengni á þessu sviði og öllum öðrum sviðum heilbrigðismála. Með Willum Þór í forsvari heilbrigðismála á Íslandi erum við sannarlega á réttri leið.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. september 2022.

Categories
Greinar

Nám­skeið fyrir for­eldra barna með ADHD

Deila grein

20/09/2022

Nám­skeið fyrir for­eldra barna með ADHD

Fjölmargir einstaklingar glíma við ofvirkni og athyglisbrest, sem oft er kallað ADHD (e. Attention Deficit Hyperactivity Disorder) í daglegu tali. Einkenni ADHD skjóta almennt upp kollinum snemma á æviskeiði einstaklings, þ.e. kringum 7 ára aldur, og getur haft áhrif á alla fasa lífsins t.d. í námi, í vinnu og í félagslegum samskiptum. Rannsóknir sýna að allt að eitt af hverjum tíu börnum glímir við ADHD, sem þýðir að í 20-30 manna kennslutíma eru líklega um 2-3 einstaklingar með ADHD.

Uppeldi barna með ADHD getur reynst frábrugðið uppeldi barna án ADHD. Foreldrar þurfa að aðlaga sig að aðstæðum, upplifunum og einkennum ADHD, sem getur leitt til þess að foreldrar eru óvissir um hvaða skref þeir eigi að stíga næst í uppeldinu. Flestir kynna sér ADHD ítarlega og allt sem hún felur í sér. Það hefur oft gefið góða raun, en foreldrar barna með ADHD eru þó allflestir á sama máli. Þeir vilja læra meira sem getur aðstoðað þá við uppeldið og börnum þeirra við komast gegnum nám og vinnu ásamt því að auka félagslega færni þeirra.

Á síðustu árum hafa verið sett á laggirnar námskeið sem bjóða upp á fræðslu og þjálfun fyrir foreldra barna með ADHD og gerðar hafa verið rannsóknir á gagnsemi þeirra fyrir foreldra og börn. Á þeim námskeiðum sitja foreldrar fyrirlestra, fá lesefni og gera verkefni sem tengjast uppeldi barna með ADHD. Námskeið sem þessi hafa verið talin árangursrík. Foreldrar hafa almennt veitt námskeiðunum jákvæða umsögn þar sem þeir telja námskeiðin hafa hjálpað þeim og börnunum. Rannsakendur og foreldrar töldu námskeiðin hafa haft jákvæð áhrif á námshæfileika og félagslega færni barnanna ásamt því að auka þekkingu og skilning foreldrana á ADHD.

Hér á landi eru mikil tækifæri til staðar með setningu slíkra námskeiða. Einnig er nauðsynlegt að slík námskeið verði aðgengileg öllum foreldrum og/eða forráðamönnum barna með ADHD óháð efnahag, og því er talið að seta á námskeiði eigi að bjóðast þeim að kostnaðarlausu. Við eigum að hafa það að markmiði að einstaklingar með ADHD eigi auðveldara með alla fasa daglegs lífs ásamt því að byggja frekari skilning og þekkingu á ADHD, sem margir Íslendingar, bæði ungir sem aldnir, glíma við í dag.

Á næstu dögum mun undirrituð leggja fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um aukna fræðslu og þjálfun foreldra barna með ADHD. Það er mín von að ályktunin verði samþykkt og ríkisstjórnin hefji strax vinnu að setningu slíkra námskeiða hér á landi, sem standi foreldrum og forráðamönnum barna með ADHD til boða þeim að kostnaðarlausu og með markvissum hætti. Það er mikilvægt að við hugum að því hvernig við ætlum að gefa foreldrum barna með ADHD aukin verkfæri og aukið sjálfstraust til að leiðbeina börnunum í gegnum lífið. Því það að vera með ADHD getur verið ofurkraftur ef við sköpum börnum réttar aðstæður bæði heima og í skólakerfinu.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. september 2022.

Categories
Greinar

Hjúkrunarheimilið verður að veruleika!

Deila grein

08/08/2022

Hjúkrunarheimilið verður að veruleika!

Áskoranir hjúkrunarheimilisins Skjólgarðs á Höfn í Hornafirði hafa verið ærnar undanfarin ár og löngu ljóst að húsnæðið er ábótavant og tímabært að ráðast í stækkun hjúkrunarheimilisins.

Undirbúningurinn hefur tekið sinn tíma og það er því mikil gleðitíðindi að nýverið tilkynnti Heilbrigðisráðherra um samþykkt tilboð í byggingu hjúkrunarheimilisins.

Öryggissjónarmið

Núverandi húsnæði Skjólgarðs uppfyllir ekki nútíma gæða kröfur sem gerðar eru til húsnæðis og aðbúnaðar á hjúkrunarheimilum. Það skiptir máli að við búum þeim, sem byggðu grunninn að því sem við byggjum framtíðina á, öruggt ævikvöld.

Framkvæmdin eru liður í átaksverkefni ríkisstjórnarinnar í að fjölga hjúkrunarrýmum um allt land og stytta bið eftir rými. Fyrirhuguð framkvæmd felur í sér nýbyggingu upp á 1.400 m² að stærð auk breytinga á núverandi byggingu sem er 880 m² að stærð og er því um 2.280m² framkvæmd að ræða. Hjúkrunarheimilið verður mikil lyftistöng fyrir sveitafélagið og eflir heilbirgðisþjónustu á svæðinu.

Samvinna ríkis og sveitarfélags

Heilbrigðisráðuneytið og Sveitarfélagið Hornafjörður standa saman að byggingu hússins og þeim breytingum sem verða gerðar á eldri hluta húsnæðisins. Miðað er við að framkvæmdir við heimilið hefjist nú þegar á haustmánuðum 2022 og það tekið í notkun árið 2024.

Áætlaður framkvæmdakostnaður vegna byggingar hjúkrunarheimilisins eru tæplega 2,5 milljarðar króna. Verkefnið er fjármagnað með þeim hætti að ríkissjóður greiðir 75,3% heildarkostnaðar og sveitarfélagið Hornafjörður 24,7%.

Sem þingmaður Suðurkjördæmis fagna ég því innilega að það sé loksins komið að þessu og þakka heilbrigðisráðherra fyrir klára málið sem jafnframt er mikið hagsmunamál fyrir Hornfirðinga.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin byrtist fyrst á visir.is 27. júlí 2022.

Categories
Greinar

Á­fram­haldandi stuðningur við ný­sköpun

Deila grein

21/06/2022

Á­fram­haldandi stuðningur við ný­sköpun

Hlutverk stjórnvalda er að finna leiðir til að byggja traustan grunn fyrir nýsköpun hér á landi. Stuðningur við nýsköpun hefur sjaldan verið mikilvægari en einmitt nú og ljóst er að hugvit og nýsköpun eru að verða að styrkri stoð í hagkerfi Íslands. Í dag starfa um 12.000 manns í þessum iðnaði eða um 6% vinnandi fólks í landinu. Hugverka- og nýsköpunariðnaðurinn er vaxandi útflutningsstoð sem treystir á fjárfestingu í rannsóknum og þróun. Treystir á traust og fyrirsjáanlegt umhverfi. Þetta vita stjórnvöld á Íslandi sem hafa sett sér metnaðarfull markmið sem endurspeglast í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar með það að markmiði að fjölga störfum og gera hugviti hærra undir höfði innan íslensks efnahagslífs.

Framlenging bráðabirgðaákvæða

Þær ívilnanir sem settar voru með bráðabirgðaákvæðum til þess að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldur kórónuveru hafa skipt sköpum fyrir nýsköpunarfyrirtæki hér á landi. Ívilnanirnar hafa stuðlað að frekari uppbyggingu öflugrar nýsköpunar í atvinnu og efnahagslífi þjóðarinnar. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði til, í samræmi við tillögur umsagnaraðila, breytingar á frumvarpinu eins og það lá fyrir að frádráttarhlutfall myndi haldist óbreytt frá því bráðabirgðaákvæði sem hefur verið í gildi en að hámarkskostnaður verði sá sami og lagður var til í frumvarpinu, eða 1.000 milljónir króna í stað 1.100 milljónir króna. Frádráttarhlutfall nýsköpunarfyrirtækja verður því áfram 35 hundraðshlutar frá álögðum tekjuskatti þeirra árin 2021 og 2022 vegna útlagðs kostnaðar á rannsóknar- og þróunarverkefnum. Markmið skattfrádráttar vegna rannsókna- og þróunarverkefna er að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja. Þær ívilnanir sem felast í bráðabirgðaákvæðum laganna hafa skipt sköpum fyrir nýsköpunarfyrirtæki í þeirri efnahagslegu óvissu sem fylgt hefur heimsfaraldri kórónuveirunnar. Breytingarnar eru því til þess fallnar að koma til móts við:

a) annars vegar við þau sjónarmið sem höfð voru uppi fyrir nefndinni í umræðum um frumvarpið.

b) hins vegar við þá auknu kröfu um ábyrga stjórn ríkisfjármála í ljósi óvissu um efnahagsþætti, svo sem verðbólgu og vaxtahækkanir.

Fyrirsjáanleiki er nauðsynlegur

Meiri hlutinn telur mikilvægt að samkeppnishæfni íslenskra nýsköpunarfyrirtækja sé áfram tryggð eftir því sem dregur úr efnahagslegum áhrifum faraldursins hér á landi og á heimsvísu, en jafnframt að samhliða þessum ívilnunum sé mikilvægt að það fari fram heildarúttekt á árangri þessa verkefnis. Aðeins þannig er hægt að fá nauðsynlegar upplýsingar þannig hægt sé að stýra enn frekar með hvaða hætti fjármunir ríkisins nýtist til þess að efla þróun og rannsóknir á Íslandi. Fyrirsjáanleiki skipti miklu máli þegar komi að fjárfestingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og að breytingar á hlutfalli styrkja, þó ekki séu nema að litlu leyti, geti skipt sköpum þegar kemur að því að laða erlenda sem innlenda aðila að fjárfestingu í íslensku hugviti. OECD vinnur nú að greiningu á stöðu nýsköpunariðnaðarins hér á landi og í framhaldi hennar er nauðsynlegt að móta heildstæða stefnu um greinina og starfsumhverfi hennar til framtíðar. Við fögnum þessum áfanga og áframhaldandi stuðningi við nýsköpun á Íslandi. Grundvöllur efnahagslegrar velgengni ásamt lausnum við áskorunum framtíðarinnar má finna í nýsköpun, rannsóknum og þróun.

Ágúst Bjarni Garðarsson þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi og situr í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. júní 2022.

Categories
Uncategorized

Geðheilbrigði er lýðheilsumál

Deila grein

20/06/2022

Geðheilbrigði er lýðheilsumál

Á lokadögum þingsins var stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 samþykkt. Stefnan ber með sér að rík áhersla er lögð á grunngildi sem hvetja til einstaklingsmiðaðrar heilbrigðisþjónustu á félagslegum grunni og stuðning í heilsueflingu á öllum æviskeiðum.

Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að auka skuli áherslu á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu. Ýmsu hefur verið áorkað undanfarin ár en ljóst er að enn skortir heildstæða og samhæfða nálgun í geðheilbrigðismálum. Það á við allt frá geðrækt, forvörnum og snemmbærum úrræðum til geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum og á milli velferðarþjónustukerfa og við dómskerfi.

Stefnan tekur mið af framangreindu og er sett fram með hliðsjón af fjórum kjarnaþáttum og áherslum, sem munu endurspeglast í þeim aðgerðum sem heilbrigðisráðuneytið mun móta.

Það skiptir miklu máli að við leggjum áherslu á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og tryggjum að úrræði verði til staðar sem veitir viðeigandi þjónustu til þeirra barna sem eiga við geðræn vandamál að stríða. Aukin þekking og reynsla hefur leitt af sér aukinn skilning á mikilvægi þessa tímabils í lífi einstaklinga.

Gagnreyndar og fyrirbyggjandi aðgerðir

Hvaða varðar geðheilsu og vellíðan er mikilvægt að litið verði til fyrstu 1000 daga barnsins, sbr. skýrslu landlæknis um framtíðarsýn og tillögur að aðgerðum frá því í júní árið 2021.Í henni eru lagðar fram aðgerðir sem brýnt er að ráðast í á næstu árum. Þá er einnig mikilvægt að skoða sóknarfæri til að efla geðheilsu í æsku og líta þar til verndandi þátta sem vega hvað þyngst hvað hana varðar er tengjast æskuárunum.

Varðandi gagnreyndar og fjölbreyttar aðferðir við meðferð geðraskana er mikilvægt að nýta í ljósi bestu þekkingar sem fyrir hendi er hverju sinni. Auk þess ber að leggja áherslu á þverfaglega mönnun og fjölgun fagstétta. Heildræn geðheilbrigðisþjónusta á að vera samþætt og byggð á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð og endurhæfingu.

Notendasamráð og mælaborð geðheilsu

Stefnan gerir ráð fyrir stofnun Geðráðs þar sem allir helstu hagsmunaaðilar, stjórnvöld, fagfólk, notendur og aðstandendur koma saman og fjalla um málaflokkinn. Lagt er áherslu á að samhliða stofnun þess taki upp svokallað mælaborð geðheilsu. Slíkur gagnagrunnur væri til þess fallinn að auðvelda vinnslu og aðgengi að upplýsingum um geðheilbrigðismál og átta sig betur á stöðunni hverju sinni.

Með framtíðarsýn að leiðarljósi

Hér er um mikilvægt framfararskref að ræða og með samþykkt þessarar stefnu í geðheilbrigðismálum erum við að senda skýr skilaboð.

Skilaboð um að við ætlum að fjárfesta í geðheilsu fólks. Fjárfesta í fólki. Það skiptir máli að við tökum utan um þennan málaflokk af festu með framtíðarsýn að leiðarljósi.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. júní 2022.

Categories
Greinar

Ekki spretta grös við ein­samlan þurrk

Deila grein

08/06/2022

Ekki spretta grös við ein­samlan þurrk

Sú staða sem uppi er í heiminum í dag minnir okkur rækilega á hversu mikilvægt það er að tryggja fæðuöryggi í landinu. Innlend framleiðsla mun seint geta uppfyllt alla þá fjölbreytni sem eftirspurnin krefst. Þó er það ljóst að við getum spýtt verulega í til að tryggja að neytendur hafi ávallt aðgang að góðum og heilnæmum matvælum. Stefna um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi er liður í stefnu almannavarna- og öryggismálum sem er hluti af þjóðaröryggisstefnu landsins.

Íslenskir matvælaframleiðendur í ólgusjó

Staða íslenskra bænda er grafalvarleg, svo alvarleg að sársaukamörkum hefur fyrir löngum verið náð. Sauðfjár- og nautgripabændur standa mjög illa og ef ekkert verður að gert þá horfir við algjört hrun í greininni og það mjög hratt. Verð til bænda hefur þróast nær öfugt við vísitölu neysluverðs. Matvælaverð til neytenda hefur hækkað og kemur til með að hækka enn frekar ef ekki verður brugðist rétt við. Verð til kjötframleiðenda hefur lækkað á sama tíma og öll aðföng hafa hækkað verulega. Það er útséð að bændur þurfa að fá afurðaverð hækkað verulega svo hægt sé að halda framleiðslu í jafnvægi, og að óbreyttu kemur það niður á neytendum.

Íslensk matvælaframleiðsla er mikilvæg

Við í Framsókn höfum ávallt verið óhrædd við að benda á það augljósa, þörfina og mikilvægi þess að styðja og vernda íslenskan landbúnað. Með því að styðja við íslenska landbúnaðarframleiðslu tryggjum við ekki aðeins fæðuöryggi, heldur verndum einnig störf fólks og tryggjum fjölbreytt atvinnulíf. Það gleymist nefnilega oft að þúsundir einstaklinga starfa við matvælaframleiðslu hér á landi. Með því að efla íslenskan landbúnað er hægt að draga úr niðursveiflu í hagkerfinu og um leið tryggja fæðu- og matvælaöryggi í landinu

Undirrituð vilja minna á tillögu okkar í Framsókn að horft verði til þess að heimila afurðastöðvum í kjötiðnaði undanþága frá samkeppnisreglum, þ.e. heimild til samvinnu og samstarfs, sambærilegum og hafa verið í mjólkuriðnaði síðustu 17 ár. Leið að lausn snýr að afurðastöðvakerfinu og hagræðingu þess. Þá kalla ófyrirséðar breytingar í heiminum á tafarlausar aðgerðir. Það liggur fyrir að sauðfjárbændur þurfa um 40% hækkun á sínu innleggi í haust, aðeins þá til að standa á sléttu. Sama á við um greinarnar, nautakjöt og svínakjöt. Þessum hækkunum er ekki hægt að hrinda út á markaðinn í því efnahagsástandi sem er í dag. Við þurfum að horfa til þess að stjórnvöld komi að málum.

Tökum sprettinn, fellum niður virðisaukaskattinn tímabundið

Þórarinn Ingi lagði inn hugmynd hjá matvælaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í gær að komið verði á tímabundinni undanþágu frá virðisaukaskatti til frumframleiðenda. Matvælaráðherra hefur tekið undir að hugmyndin sé vel skoðunarverð og ætlar að koma henni á framfæri við spretthópinn sem hluti af tímabundinni lausn.

Á öll innlegg bænda er lagður virðisaukaskattur og varðandi þær kjötgreinar, sem talað er um hér að ofan, snýr hugmyndin að því að komið verði á undanþágu frá virðisaukaskatti, sem kemur sem útskattur á framleiðandann, til tveggja ára. Þar sem bændur greiða þá ekki útskatt af sínu innleggi en á móti fá þeir innskattinn endurgreiddan, eins og gengur. Þannig má tryggja allt annan rekstrargrundvöll.

Með því að gera innlendar afurðastöðvar öflugri þannig að þær geti hagrætt í rekstri og hækkað verð til frumframleiðenda ásamt því að koma á tímabundinni undanþágu frá virðisaukaskatti verða íslenskir kjötframleiðendur styrktir án þess að velta hækkunum inn í verð til neytenda. Heimsfaraldur og stríð í Evrópu kallar á breyttar áherslur og hvetur okkur til að huga enn frekar að innlendri matvælaframleiðslu. Þessar breytingar eiga sér sannarlega tilverurétt, nú sem aldrei fyrr.

Hugum að hagsmunum heildarinnar

Framsókn hefur löngum bent á að hagsmunir bænda og neytenda fari saman og nú sem aldrei fyrr verðum við að brýna samvinnu og þrótt. Aukin hagkvæmni í virðiskeðju búvara er mikilvægt lóð á þær vogarskálar. Stjórnvöld geta lagt lið með öflugum aðgerðum.

Aukin samvinna í afurðavinnslu myndi styðja við verðhækkanir á afurðum til bænda. Það er það sem þarf til að efla framleiðsluvilja og getu kjötframleiðenda á Íslandi. Þessar tillögur leiða ekki til hærra matvælaverðs til neytenda og halda því einnig við verðbólguna. Þannig hugum við að heildarhagsmunum íslenskra neytenda og íslensku þjóðarinnar til framtíðar.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson

þingmenn Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. júní 2022

Categories
Greinar

Verðum að gera betur!

Deila grein

01/06/2022

Verðum að gera betur!

Á síðustu árum höfum við fylgst með baráttu foreldra og annarra aðstandenda einstaklinga sem látið hafa lífið þar sem lögregla taldi tilefni til að hefja lögreglurannsókn á orsökum andlátsins. Dæmi eru um að lögregla hafi ekki haft heimild til að upplýsa aðstandendur um framvindu rannsóknar máls vegna þess að t.d. foreldri er ekki sjálft aðili að málinu. En núgildandi ákvæði sakamálalaga gera ekki ráð fyrir því að aðstandendur hafi formlega stöðu á neinn hátt gagnvart lögreglu/ákæruvaldi og þar af leiðandi þröngur stakkur sniðinn við að komast til botns í því hvað varð þess valdandi að viðkomandi lést. Við höfum heyrt af því að foreldrar barna sem eru nýorðnir lögráða hafi verið haldið utan við rannsókn mála, fengið litlar sem engar upplýsingar þar sem réttarstaða þeirra sem aðstandandendur hins látna er ekki tryggð að þessu leiti í ákvæðum sakamálalaga eins og staðan er í dag. Í núgildandi lögum öðlast aðstandendur ekki formlega stöðu á neinn hátt gagnvart lögreglu og hafa þar af leiðandi ekki mörg úrræði til að fylgjast með framgangi rannsóknar hjá lögreglu. Úrbóta er verulega þörf því hagsmunirnir eru veigamiklir fyrir eftirlifandi aðstandendur og með réttu ættu að fá að geta farið þess á leit við lögreglu að fá upplýsingar um rannsókn á andláti og framvindu hennar.

Breytingin sem beðið er eftir

Til umræðu á Alþingi hefur verið frumvarp um breytingu á lögum um meðferð sakamála og fullnustu refsinga. Það frumvarp felur í sér tímamótabreytingar í þágu réttarstöðu brotaþola en ekki síður gefur lögreglu betri verkfæri í hendurnar til að vinna með. Þá á einnig sjá þá réttarbót sem kallað hefur verið eftir og þar eru að finna ákvæði sem bætir réttarstöðu aðstandenda í þeim tilvikum þar sem rannsókn lögreglu beinist að orsök andláts einstaklings.

Umrædd breyting felur í sér að aðstandanda er heimilt að koma fram sem fyrirsvarsmaður hins látna undir rannsókn málsins hjá lögreglu og í ákveðnum tilvikum unnt að tilnefna fyrirsvarsmanni réttargæslumann. Þessar breytingar varða t.d. aukna upplýsingaskyldu lögreglu til fyrirsvarsmanns og gefur lögreglu heimild til að veita réttargæslumanni aðgangi að gögnum.

Það er afar mikilvægt að þessi breyting verði á löggjöfinni og við gefum aðstandendum þá hugarró við erfiðar aðstæður og mikla sorg að geta verið upplýst um hvernig framvindur með rannsókn á andláti sinna nánustu. Nú þegar höfum við séð hávært ákall um að þessi breyting verði á okkar réttarkerfi til og það er mín einlæga von að við getum komið skikki á þau atriði sem að þessum málum snúa og lögregla geti betur starfað í þeim lagaramma sem gildir um þeirra störf. Ljóst er að núverandi löggjöf gerir lögreglu það afar torvelt að upplýsa aðstandendur um framvindu rannsóknar vegna andláts og því getur, eins og gefur að skilja, mjög erfið staða komið upp beggja vegna borðsins.

Við fengum ákall um breytingar, fylgjum ákallinu eftir og það er mín einlæga von að við sjáum þessa breytingu á löggjöfinni verða að veruleika án tafar! Við eigum að gera betur og átta okkur á mikilvægi þess að við uppfærum löggjöfina í takt við þróun samfélagsins. Við þurfum að læra að horfa og hlusta. Við þurfum að breytast!

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, er þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. júní 2022