Categories
Greinar

 Vín­búðir opnar á sunnu­dögum?

Deila grein

22/02/2022

 Vín­búðir opnar á sunnu­dögum?

Um áralangt skeið hafa frjálshyggjan og íhaldssemin tekist á um aðgengi neytenda að áfengi. Málefni sem við fyrstu sýn er ekki það stórt, en hefur orðið einn holdgervinga reipitogsins milli tveggja póla. Því miður hefur lítið breyting orðið í þessum málum þrátt fyrir breyttan tíðaranda. Það má líklega rekja til þess að fólk tekst á um málið með öfgahugmyndum bæði til hægri og vinstri. Eins og oft áður, þá er það skynsemin sem ætti að ráða för. Samvinna allra aðila við leit að lausn sem mætir sjónarmiðum heildarinnar.

Matvöruverslanir eða pöntunarfélög

Frjálshyggjan hefur lengi viljað koma víni í matvöruverslanir og á frjálsan markað. Sem betur fer hefur það ekki gengið eftir. Á sama tíma hafa íhaldsamari öfl viljað óbreytt fyrirkomulag eða jafnvel leita aftur til tíma frekari takmarkana á útsölustöðum og opnunartíma. Eiga þessi sjónarmið bæði rétt á sér en hvorugt kannski í takt við nútímann og skynsemi. Aukið frelsi til verslunar á hverskyns varningi er sú þróun sem við höfum séð á undanförnum áratugum í verslun hér á landi. Á það líka við um verslun með vín sem og annan munað. Pöntunarfélögin heyra sem betur fer sögunni til. Breyttur tíðarandi kallar hins vegar á nýjar nálganir. Breytt neyslumynstur og aukið frelsi í verslun kallar á breytingar. En breytingarnar þurfa ekki endilega að felast í 100% frelsi.

Er til önnur lausn?

Hins vegar spyr maður sig hvort rétt lausn sé að leysa upp ÁTVR og heimila sölu áfengis í næstu búð, næstu bensínstöð eða nánast hvaða verslun sem er? Það er vitað að tækninýjungar hafa leitt til þess að starfsfólki, sem gæti fylgst með hvort einstaklingar séu með aldur til þess að kaupa vín, fækkar í almennum verslunum. Þeir sem eftir eru hafa ekki allir náð 20 ára aldri, en samkvæmt lögum má enginn yngri en 20 ára afgreiða áfengi.

Á meðan er strangt eftirlit til staðar hjá Vínbúðinni þar sem starfsmenn eru bæði með aldur og þekkingu á þeim reglum sem ber að fylgja. Þá fyrst og fremst reglum um aldur. Við viljum ekki auka aðgengi barna að áfengi þó svo að við viljum gera markaðinn þægilegri fyrir neytendur.

Eitt stærsta sjónarmiðið fyrir „vín í búðir“ er það að opnunartími Vínbúðarinnar henti neytendum ekki sérlega vel. Verslunin er ávallt lokuð á sunnudögum og öðrum helgidögum Þjóðkirkjunnar. Þennan hnút getum við auðveldlega leyst.

Já hún er til!

Ég hef lagt fram frumvarp til Alþingis þess efnis að afnema bann á því að áfengisútsölustaðir hafi sínar hurðir opnar á helgidögum. Það eru m.a. allir sunnudagar. Með þessu aukum við þjónustu Vínbúðarinnar enn meir og getum lagt hugmyndina um vín í búðir til hliðar, sú hugmynd um hið fullkomna frelsi er þreytt og skortir ábyrgð. Þarna er komið til móts við frjálslyndari sjónarmið en einnig hugsað til forvarna og eftirlits með áfengissölu. Það er brýnt að við stígum ekki skref aftur á bak í þessum málaflokki. Gerum frjálslyndar breytingar á skynsaman hátt.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Stöðvum of­beldi

Deila grein

21/01/2022

Stöðvum of­beldi

Í dag mælti ég fyrir þingsályktunartillögu um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál. Um er að ræða endurflutning en Silja Dögg Gunnarsdóttir fyrrverandi þingmaður Framsóknar hefur lagt málið tvisvar áður fram. Hér er um að ræða samfélagslega mikilvægt mál sem mér finnst brýnt að komist í gegnum þingið. Hver einstaklingur á að geta lifað frjáls og notið lífsins. Enginn á að þurfa að búa við ofbeldi en engu að síður eru fjölmargir einstaklingar sem búa við daglegt ofbeldi á heimilum sínu. Heimilum sem ættu öllu jafna að vera griðastaður hvers einstaklings.

Heimilisofbeldi í vexti

Frá því Ríkislögreglustjóri opnaði vefgátt Neyðarlínunnar vegna ofbeldis hafa að meðaltali 235 manns heimsótt hana á dag. Samkvæmt tilkynningu frá Ríkislögreglustjóra er algengt að fólk lesi sér til um andlegt ofbeldi og að ungt fólk afli sér upplýsinga um ofbeldi. 600 sinnum hefur heimsókn í vefgáttina leitt til netspjalls við viðbragðsaðila. Tilkynningum til lögreglu um heimilisofbeldi hefur fjölgað jafnt og þétt á síðustu sjö árum sem og tilkynningum til barnaverndarnefnda vegna heimilisofbeldis.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að líkja má aðstæðum barns sem býr við heimilisofbeldi við aðstæður barns sem býr á stríðshrjáðu svæði. Þá eru þolendur ofbeldis fjórum sinnum líklegri að glíma við geðröskun en þeir sem ekki hafa upplifað ofbeldi. Mikilvægt er að löggjafinn standi með þessum einstaklingum og geri allt sem í hans valdi stendur til þess að verja þolendur heimilisofbeldis.

Hið opinbera þarf að bregðast við

Í þingsályktunartillögunni sem nú liggur fyrir er lagt til að Alþingi feli innanríkisráðherra að setja á fót starfshóp sem verði falið að móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfa barnaverndaryfirvalda, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði m.a. falið að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda.

Þolendur heimilisofbeldis veigra sér oft að tilkynna lögreglu um ofbeldi. Þess vegna er brýnt að þeir aðilar sem starfa náið með íbúunum geti tekið frumkvæði að því að grípa inn í með viðeigandi hætti. Þó verklagsreglur ríkislögreglustjóra hafi reynst vel og tryggt samstarf lögreglu við önnur stjórnvöld, er ljóst að formfesta þarf samstarfið í hina áttina, þ.e. milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntastofnana til lögreglu. En til þess að slík upplýsingagjöf geti átt sér stað með skilvirkum hætti, með hagsmuni brotaþola að leiðarljósi, þarf skýrari forvirkar lagaheimildir til upplýsingamiðlunar.

Okkar er ábyrgðin

Ég bind einlægar vonir við Alþingi samþykki þessa þingsályktunartillögu. Löggjafinn þarf að standa með þolendum heimilisofbeldis, stjórnvöld eiga að geta gripið inn í aðstæður án þess að brotaþoli þurfi að vera þátttakandi í aðgerðum. Við verum að geta stöðvað ofbeldi.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. janúar 2022.

Categories
Greinar

Jöfn tæki­færi til vel­sældar og þroska

Deila grein

07/01/2022

Jöfn tæki­færi til vel­sældar og þroska

Eftir stutt en snarpt desemberþing liggja nú fyrir helstu áherslur fyrir árið 2022. Það er mér sérstakt ánægjuefni að samþykktur hefur verið áframhaldandi íþrótta- og tómstundastyrkur barna á tekjulágum heimilum. Það er mér sem og félögum mínum í Framsókn mikið hjartans mál að öll börn eigi rétt á að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi óháð efnahag foreldra. Endurspeglaðist það meðal annars í áherslum flokksins fyrir síðustu kosningar þar sem lagt var upp með viðbótar tómstundarstyrk fyrir öll börn.

Áframhaldandi stuðningur

Í fjáraukalögum fyrir 2020 samþykktu stjórnvöld að veita sérstakan 50.000 kr. íþrótta- og tómstundastyrki til barna á tekjulágum heimilum. Tryggja átti að úrræðið beindist að börnum foreldra sem höfðu lágar tekjur eða höfðu misst atvinnu að hluta eða öllu leyti. Úrræðið nýttist jafnframt börnum á heimilum einstæðra foreldra og öryrkja.

Við gerð fjárlaga fyrir árið 2021 samþykktu stjórnvöld að veita fjármuni í íþrótta- og tómstundastyrki að fjárhæð 25.000 kr. fyrir hvert barn. Styrkurinn miðaðist við að heildartekjur heimilisins væru lægri en 787.200 kr. á mánuði, á tímabilinu mars til júní 2021. Við gerð núverandi fjárlaga er þessum styrk áframhaldið og samþykkt hefur verið að veita 50.000 kr. styrk fyrir hvert barn á tekjulágum heimilum árið 2022. Gert er ráð fyrir að um 10.400 börn nýti styrkinn í ár.

Tækifæri skipta máli

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að þátttaka barna og unglinga í íþrótta- og tómstundastarfi hafi forvarnargildi. Sýnt hefur verið fram á að unglingar og börn sem leggja reglulega stund á íþróttir eða aðra hreyfingu eru síður líkleg til þess að þróa með sér neikvætt atferli. Auk forvarnargildis þá hafa rannsóknir einnig sýnt fram á að þátttaka í skipulögðu íþrótta og/eða tómstundastarfi skilar sér með betri námsárangri, betri líðan, betri félags þroska, meiri sjálfsvirðingu og jákvæðri líkamsmynd.

Með því að gefa börnum jöfn tækifæri til þess að stunda tómstundir eru stjórnvöld á sama tíma að veita börnum jöfn tækifæri til þess að ná árangri, bæta félagslegan þroska sinn og samskiptahæfileika. Börn sem stunda tómstundir verða alla jafnan sterkari einstaklingar á uppvaxtarárum sínum. Það hlýtur því að vera markmið samfélagsins í heild að búið sé í haginn fyrir börnin okkar og að við skilum af okkur sterkum og sjálfstæðum einstaklingum sem hafa tækifæri til að blómstra í samfélaginu.

Við erum rétt að byrja

Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar á að vinna áfram í samstarfi við sveitarfélög að jafna tækifæri barna til að stunda tómstundastarf óháð efnahag, aðstæðum og búsetu. Þar segir að lögð verði áhersla á að öll börn geti tekið þátt í íþrótta og tómstundastarfi enda sé slíkt starf mikilvægur þáttur í þroska og uppvexti barna. Áframhaldandi stuðningur við íþrótta- og tómstundastarf er upptakturinn að því sem koma skal á þessu kjörtímabili.

Hafdís Hörnn Hafsteinsdóttir, þingmaður Suðurkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. janúar 2022.

Categories
Greinar

Hvað þarf til?

Deila grein

29/10/2021

Hvað þarf til?

Undanfarna daga hefur verið hávær umræða um byrlun ólyfjan og nauðganir. Margar konur hafa stígið fram og greint frá atvikum þar sem þeim hafi verið byrlað ólyfjan á skemmtanalífinu. Eigendur skemmtistaða hafa talað um byrlunarfaraldur geysi í miðbæ Reykjavíkur.

Margar þessar sögur eiga það sameiginlegt að þolendur upplifa úrræðaleysi, hvort sem það er hjá lögreglunni eða á bráðamóttöku í kjölfar gruns um byrlun. Það er mikilvægt að tryggja hraða og vandaða rannsókn í kynferðisbrotamálum og það er ótrúlega sárt að sjá dómstóla neydda til þess að kveða upp vægari dóma vegna þess að rannsókn kynferðisbrota tekur of langan tíma.

Byrlun er í raun frelsissvipting þar sem verið er að hindra frjálsa för viðkomandi með nauðung þar sem verið er að þvinga viðkomandi til að gera eitthvað sem ekki er vilji fyrir og brýtur verulega gegn ákvörðunarrétti viðkomandi yfir eigin líkama.

Það er ljóst að slík brot brjóta gegn ákvæðum hegningarlaga. Þegar grunur er um að brotaþola hafi verið byrlað er nauðsynlegt að ákveðið verklag fari í gang og til þess að bæta sönnunarstöðu brotaþola þarf verklag lögreglu og landspítala að vera hnökralaust til þess að tryggja megi sönnun í þeim málum líkt og dómsmálaráðherra hefur einnig réttilega bent á. Þegar komið er á bráðamóttöku og grunur er um að brotaþola hafi verið byrlað vekur undrun að blóðsýni séu ekki send undantekningalaust frá bráðamóttöku Landspítalans á rannsóknarstofu Háskóla Íslands til að staðfestingar án þess að beiðni þar um komi beint frá lögreglu.

Það verður ekki hjá því litið að byrlun ólyfjan í þeim tilgangi að misnota sér ástand viðkomandi með nauðgun sýnir einbeittann brotavilja Byrlun í þessum tilgangi er ekki ný af nálinni og virðist færast í aukana með sífellt kræfari aðferðum. Það er mikilvægt að endurskoða rannsóknaraðferðir og fyrstu viðbrögð lögreglu og landspítala þegar brotaþoli telur sér hafa verið byrlað. Samhliða þurfum við að taka umræðuna um hvernig við getum komið í veg fyrir að þetta sé að eiga sér stað frekar en að orkan fari öll í að segja að við konur þurfum að passa okkur og drykkina okkar betur þegar við förum út á lífið. Án gerenda eru ekki þolendur og við þurfum að byggja grunninn rétt.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. október 2021.

Categories
Greinar

Efling geðheilbrigðisþjónustu

Deila grein

17/09/2021

Efling geðheilbrigðisþjónustu

Á síðastliðnum árum höfum við sem samfélag betur áttað okkur á mikilvægi góðs geðheilbrigðis fyrir einstaklinga sem og samfélagsins alls. Þá á það sérstaklega við nú á Covid tímum þar sem við höfum horft á hrakandi geðheilbrigði innan samfélagsins, aðallega meðal ungs fólks, og þau áhrif sem það getur haft. Að auki hafa rannsóknir sýnt að myndun fíknivanda fylgir oft geðrænum vanda. Geðrænir vandar geta því oft leitt til neyslu óæskilegra vímugjafa líkt og fíkniefna, ofneyslu áfengis o.fl.

Langflestir landsmenn glíma við einhvern geðrænan vanda á sinni lífsleið sér í lagi á yngri árum. Vandinn getur verið allt frá tímabundinni vanlíðan til langvarandi þunglyndis. Oft reynist glíman erfið, og því getur það skipt sköpum að einstaklingur fái aðstoð og stuðning sem fyrst. Það er grundvallaratriði að allir landsmenn eigi greiðan og góðan aðgang að geðheilbrigðisþjónustu til jafns við hverja aðra heilbrigðisþjónustu.

Bregðumst fyrr við og fjárfestum í fólki

Með snemmtækri íhlutun og auknum forvörnum er hægt að grípa fyrr inn í og koma í veg fyrir alvarlega geðræna vanda síðar á lífsleiðinni. Þannig bregðumst við fyrr við og stuðlum að auknu geðheilbrigði innan samfélagsins og takmörkum áframhaldandi vöxt fjölþætts vanda meðal fólks og komum í veg fyrir að fjölgi í jaðarsettum hópum samfélagsins. 

Eitt af áherslumálum Framsóknar fyrir komandi kosningar að greiða aðgang að geðheilbrigðisþjónustu. Þannig stuðlum við að því að geðrænir vandar takmarki ekki tækifæri fólks til að blómstra innan samfélagsins, á atvinnumarkaði og meðal vina og fjölskyldu.

Þannig fjárfestum við í fólki.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, situr í 3. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í leidarhofdi.is 13. september 2021.

Categories
Greinar

Framsókn boðar vaxtarstyrki

Deila grein

06/09/2021

Framsókn boðar vaxtarstyrki

Við lifum við þann munað hér á Íslandi að hágæða íþrótta- og tómstundastarf er okkur tiltölulega aðgengilegt. Kostir þess að einstaklingar stundi skipulagt frístundastarf eru óumdeilanlegir og þá sérstaklega þegar það kemur að börnum og ungmennum. Skipulagt frístundastarf hefur almennt jákvæð áhrif á börn og ungmenni, bæði á andlega og líkamlega heilsu. Að auki hefur forvarnagildi iðkunar frístunda verið margsannað. Þau börn og ungmenni sem stunda skipulagt frístundastarf eru ólíklegri til að sýna óæskilega hegðun eða neyta vímugjafa.

Styrkir hafa virkað
Hér á landi hafa ríki og sveitarfélög landsins lengi verið í virku samstarfi við íþrótta- og tómstundahreyfingar landsins með það markmið að börn hafi jöfn tækifæri til taka þátt í heilbrigðu og uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegra aðstæðna. Ein viðurkennd aðgerð í átt að því markmiði er frístundastyrkur. Mörg sveitarfélög veita ákveðna upphæð í frístundastyrk til fjölskyldna, sem hægt er að nýta til að niðurgreiða hvaða skipulagða íþrótta- og tómstundaiðkun sem barnið hefur áhuga á að stunda. Þetta hefur vissulega leitt til aukningar á íþrótta- og tómstundaiðkun barna og ungmenna innan þeirra sveitarfélaga. Tölfræðin segir okkur að börn og ungmenni sem iðka íþrótt eða tómstund fara fjölgandi samhliða notkunar á frístundastyrk. Mörg börn iðka jafnvel fleiri en eina íþrótt eða tómstund á sama tíma. Þessi þróun sýnir að styrkur sem þessi virkar, en betur má ef duga skal.

Betur má ef duga skal – Vaxtarstyrkir
Enn eru fjölskyldur sem sjá sig ekki færa fjárhagslega til að greiða fyrir frístundaiðkun barna sinna. Það er markmið Framsóknar að tryggja það að öll börn og ungmenni hafi tækifæri til að stunda þá íþrótt eða tómstund sem þau hafa áhuga á, með meðfylgjandi forvarnar- og lýðheilsusjónarmið í huga. Það að öll börn geti stundað skipulagt frístundastarf er samfélaginu öllu til góða.
Til að ná þessu markmiði vill Framsókn að ríkið greiði árlega 60 þúsund króna vaxtarstyrk til fjölskyldna fyrir hvert barn. Sem dæmi má benda á að það eru 180 þúsund krónur fyrir þriggja barna fjölskyldu. Með þessu er hægt að stuðla að jafnari tækifærum til frístundaiðkunar óháð efnahag.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir
Höfundur er frambjóðandi í 3. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birist fyrst á sunnlenska.is 2. september 2021.