Categories
Fréttir Greinar

Brosum breitt

Deila grein

14/06/2024

Brosum breitt

Fyrsti heildstæði langtímasamningurinn um þjónustu tannlækna var undirritaður í morgun milli Tannlæknafélags Íslands og Sjúkratrygginga. Það má með sanni segja að það hafi verið nóg að gera síðasta ár hjá Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra við að leiða saman hópa að samningaborðinu. Nú er búið að semja við sérfræðilækna, sjúkraþjálfara og tannlækna allt með 5 ára samningum sem unnir eru í breiðri sátt. Þessi góði árangur á svo skömmum tíma er eftirtektarverður.

Greiðsluþátttaka tryggð

Með nýjum samningi er greiðsluþátttaka vegna tannlækninga fyrir börn, aldraða og öryrkja tryggð næstu fimm árin. Þá mun meðferðum sem greiddar eru af Sjúkratryggingum Íslands vera fjölgað. Auk þess er horft í samningnum til nútímavæðingar með hliðsjón af nýjungum á fjölda sviða tannlækninga en samningurinn mun að mestu snerta á verklagi tannlækna og gagnasamskiptum við Sjúkratryggingar. Samningurinn mun taka að í gildi að hluta til þann 1. júlí nk. og að fullu leyti þann 1. september nk.

Endurskoðun á reglugerð

Samhliða samningsgerðinni hefur verið unnið að heildarendurskoðun reglugerðar um þátttöku sjúkratryggðra við tannlækningar. Meðal annars verður fallið frá skilyrði um mat tannlæknadeildar sem forsendu fyrir greiðsluþátttöku í tannréttingum vegna alvarlegra meðfæddra galla en Sjúkratryggingum Íslands verður heimilt að kalla eftir slíku mati við upphaf tannréttingaferilsins. Lengi hefur verið kallað eftir þessum breytingum og nú hefur verið hlustað.

Bætt tannheilsa

Það er ljóst að þessi samningur mun leiða af sér bætta tannheilsu barna, aldraðra og öryrkja. Hér er um að ræða enn einn samning sem hefur það að markmiði að draga úr greiðsluþátttöku fólks fyrir heilbrigðisþjónustu og stuðla að jöfnu aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Aukin greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga síðustu fjögur ár hefur stuðlað að því að fjöldi einstaklinga sem leita sér þjónustu tannlækna aukist. Rétt er að geta þess að til viðbótar við þennan samning voru styrkfjárhæðir vegna almennra tannréttinga nær þrefaldaðar í september á síðasta ári. Sú hækkun varð möguleg í kjölfar tímamótasamnings Sjúkratrygginga og tannréttingasérfræðinga sem undirritaður var í júlí í fyrra.

Það ber að hrósa því sem vel er gert, og langar mig í dag að hrósa samningsaðilum sérstaklega fyrir vel unnin störf. Lengi hefur verið kallað eftir samningum sem þessum og nú eru þeir loksins í höfn. Það er svo sannarlega ástæða til þess að brosa breytt.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. júní 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fjarheilbrigðisþjónusta

Deila grein

05/06/2024

Fjarheilbrigðisþjónusta

Nú í maímánuði voru samþykktar breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Með þessum breytingum var verið að bæta inn í lögin ákvæðum um fjarheilbrigðisþjónustu, skýringum á þeirri þjónustu sem flokkast þar undir ásamt ákvæði um upplýsingaöryggi. Hér er um að ræða enn eitt góða málið frá Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra og því ber að fagna.

En hvað er fjarheilbrigðisþjónusta?

Fjarheilbrigðisþjónusta er ört vaxandi hluti almennrar heilbrigðisþjónustu og notkunarmöguleikar hennar eru fjölmargir og þróunin hröð. Hugtakið fjarheilbrigðisþjónusta er nú í lögunum skilgreint sem nýting stafrænnar samskipta- og upplýsingatækni til að veita heilbrigðisþjónustu þar sem aðilar eru ekki á sama stað á sama tíma. Undir þetta falla þættir eins og fjarsamráð, fjarvöktun, myndsamtöl, netspjall og hjálparsími og er nánar fjallað um inntak þessara þátta í lögunum. Þá fellur velferðartækni einnig þarna undir og er þá vísað til notkunar á stafrænum tæknilausnum í heilbrigðisþjónustu sem styður búsetu einstaklinga í heimahúsi.

Hagnýting tækni á sviði fjarheilbrigðisþjónustu og notkun ýmiss konar snjallforrita skapar stöðugt ný tækifæri óháð staðsetningu. Ljóst er að ávinningurinn af árangursríkri innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu er ótvíræður fyrir sjúklinga, fyrir heilbrigðisstarfsmenn, heilbrigðisstofnanir og samfélagið í heild.

Betri nýting á mannauði

Við þekkjum öll þá umræðu að manna stofnanir okkar með okkar helsta fagfólki til að mæta aukinni eftirspurn. Með fjarheilbrigðisþjónustu höfum við möguleika á að nýta betur þann mannauð sem býr í kerfinu ásamt því að efla samvinnu milli stofnana og landsvæða, auka hagkvæmni, gera þjónustu aðgengilega óháð búsetu og stuðla að nýsköpun. Tækifæri opnast á samvinnu sérfræðinga og teymisvinnu við heilsugæslur á landsbyggðinni og með því færi á að nýta betur fjölbreytta menntun og reynslu heilbrigðisstarfsmanna.

Áframhaldandi innleiðing fjarheilbrigðisþjónustu er liður í því að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í heilbrigðisþjónustu með breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og aukinni eftirspurn eftir þjónustu.

Betra aðgengi

Með markvissri uppbyggingu fjarheilbrigðisþjónustu skapast ráðrúm til að veita enn betri heilbrigðisþjónustu um land allt. Betri tækifæri eru til staðar til þess að veita snemmtæka íhlutun, samfellu í umönnun sjúklinga ásamt því að auðveldara verður að fylgjast með einstaklingum með langvinna sjúkdóma. Auk þess, með því að nýta tæknina í auknum mæli má draga úr tímafrekum ferðalögum sjúklinga sem þurfa að sækja sérhæfða þjónustu í öðrum landshlutum með tilheyrandi raski á daglegu lífi og tilkostnaði. Það þekkjum við sem búum úti á landi.

Hér er um að ræða mikilvægt og stórt skref inn í framtíðina. Ávinningurinn er skýr, ekki síst í því að ná markmiðum okkar um að auka og jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og draga úr kostnaði almennings við að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Það er og hefur verið stefna okkar í Framsókn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. júní 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ferðamálastefna til fram­tíðar

Deila grein

28/05/2024

Ferðamálastefna til fram­tíðar

Nú er sumarið komið og farfuglarnir sem koma með vélknúnum farartækjum til landsins farnir að fara á stjá. Það má með sanni segja að ferðaþjónustan sé orðin lykilatvinnugrein hér á landi og þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustu hefur aukist ár frá ári. Fjöldi fólks starfar í greininni auk þess sem hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu fer sífellt stækkandi. Aukning í komu ferðamanna til landsins er góð en kallar á sama tíma eftir á skýrri framtíðarsýn í málefnum ferðaþjónustunnar.

Sameiginleg stefnumótun

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra lagði af því tilefni fyrr í þessum mánuði fram ferðamálastefnu til ársins 2030. Meginmarkmið ferðamálastefnunnar og aðgerðaáætlun henni tengdri er að tryggja framtíðarsýn í greininni og styðja við sjálfbærni í ferðaþjónustu á öllum sviðum. Þessi stefna er unnin á breiðum grunni og í virku samráði við hagaðila. Skipaðir voru sjö hópar sem falið var að vinna tillögur að aðgerðum inn í aðgerðaáætlun ferðamálastefnu. Afraksturinn er stefnumótun í greininni sem kemur jafnt frá stjórnvöldum og atvinnugreininni sem endurspeglar sameiginlegar áherslur og sýn til framtíðar. Fullyrða má að aldrei fyrr hafi jafn ítarlegt samráð átt sér stað við stefnumótun á sviði ferðaþjónustu hér á landi, segja má að það sé forsenda fyrir því að vel takist til með þessa lykilatvinnugrein okkar.

Markmið og stefna

Í stefnunni má finna skýra framtíðarsýn, markmið og áherslur auk aðgerðaráætlunar í 43 skilgreindum aðgerðum til þess að fylgja eftir stefnunni. Lögð er áhersla á samþættingu milli fjögurra lykilstoða, efnahags, samfélags, umhverfis og gesta. Það er, lögð er áhersla á aukna framleiðni í ferðaþjónustu, verðmætasköpun og samkeppnishæfni um land allt ásamt því að tyggja framþróun sem byggir á tækni, gögnum, nýsköpun, vöruþróun, mannauði og menntun. Þá er lögð áhersla á jákvæð áhrif ferðaþjónustu á nærsamfélög ásamt því að tryggja aukin lífsgæði um land allt. Eitt af markmiðunum stefnunnar að efla sjálfbær samfélög, uppbyggingu áfangastaða og dreifingu ferðamanna um landið allt árið um kring. Í samræmi við kröfur nútímans er að sjálfsögðu lögð rík áhersla á umhverfisvernd, minna kolefnisspor og orkuskipti. Sérstök áhersla er lögð á að fagmennska, gæði og öryggi einkenni íslenska ferðaþjónustu og upplifun gesta sé í samræmi við væntingar og náttúru.

Opið gagnarými fyrir ferðaþjónustu

Eitt af þeim atriðum sem mér líst afar vel á í stefnunni er opið gagnarými fyrir ferðaþjónustuna. Markmiðið með gagnarýminu er að þjóna hagaðilum innan ferðaþjónustunnar og afleiddum greinum með tryggu aðgengi að áreiðanlegum, opnum, samþættanlegum og stafrænum gögnum. Gagnarými sem þetta styður við gagnadrifna ákvörðunartöku, virka notkun á Jafnvægisás ferðaþjónustunnar, rannsóknir, greiningar og nýsköpun. Það mun gera öll opinber gögn sem tengjast ferðaþjónustu aðgengileg og taka á móti gögnum sem nýst geta atvinnugreininni, þar með talið frá einkaaðilum. Um er að ræða verkfæri sem kemur til með að nýtast til margs góðs.

Álagsstýring á áfangastöðum

Mikill árangur hefur náðst í að bæta aðstöðu á ferðamannastöðum á síðustu árum, bæði að frumkvæði stjórnvalda og einkaaðila. En betur má ef duga skal ef bregðast á við þeim áskorunum sem hröð fjölgun ferðamanna hefur haft í för með sér. Í stefnunni er því lagt til að útfæra fyrirkomulag álagsstýringar til þess að sporna við of miklu álagi og bæta flæði umferðar ferðamanna þar sem þörf er á. Markmiðið með álagsstýringunni er að stýra og jafna álag á áfangastöðum ferðamanna, svo vernda megi viðkvæma náttúru, menningarminjar og innviði og leitast við að koma í veg fyrir neikvæða upplifun gesta og heimamanna. En þannig má stuðlað að sjálfbærri þróun áfangastaða.

Samstarf um móttöku skemmtiferðaskipa og innviðagjald

Komur skemmtiferðaskipa til landsins hafa aukist verulega á undanförnum árum og þau hafa getu til að koma víðar við en vegakerfi landsins býður upp á. Ágangur ferðamanna um svæði getur verið vandamál. Hér vil ég sérstaklega nefna landtöku skemmtiferðaskipa inn á friðlýst svæði. Það er því sérstaklega ánægjulegt að í stefnunni sé fjallað um samstarf um móttöku skemmtiferðaskipa og nýtingu innviða. En stofna á samstarfshópa sveitarfélaga og ferðaþjónustu í hverjum landshluta sem vinni eiga að greiningu og móti stefnu landshlutans um umgjörð og komur skemmtiferðaskipa og landtöku utan hafna. Er hlutverk þeirra meðal annars að skoða þörf á álagsstýringu og uppbyggingu innviða.

Þá á að hefja sérstaka gjaldtöku á komur erlendra skemmtiferðaskipa og eiga þær tekjur að renna til uppbyggingar innviða á sviði ferðaþjónustu. Erlend skemmtiferðaskip hafa hingað til almennt greitt takmarkaða skatta til íslenska ríkisins, helst hefur verið um að ræða þjónustugjöld á borð við hafnargjöld til hafnarsjóðs, vitagjald og farþegagjald fyrir hvern farþega og nú ný nýlega gistináttagjald. Með þessu hafa skemmtiferðaskip haft ákveðið samkeppnisforskot á innlenda ferðaþjónustu en farþegar skipanna njóta með líkum hætti íslenskrar náttúru og innviða og aðrir ferðamenn sem eru hér á landi. Með þessum hætti er verið að jafna samkeppnisstöðu innlendra og erlendra fyrirtækja í ferðaþjónustu ásamt því að efla verðmætasköpun sem fjármagnar og stuðlar að aukinni uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu.

Tímamót á sviði ferðaþjónustu

Stefnan inniheldur líkt og fyrr segir marga aðra þætti og aðgerðaráætlanir. Ég hvet áhugasama til þess að kynna sér hana frekar enda um að ræða stórt og áhugaverða tillögu og ekki hægt í einni grein að fjalla um alla þætti hennar. En segja má að með framlagningu þessarar heildstæðu stefnu sé um að ræða ákveðin tímamót á sviði ferðaþjónustu á Íslandi. Fjöldinn allur af hagaðilum hefur sett mark sitt á þessa stefnu og mikilvægast er að hún er unnin sátt og samráði. Ég bind vonir við að okkur beri gæfa til að klára að afgreiða hana á þessu þingi, enda jafn mikilvæg fyrir ferðaþjónustuna, land og þjóð.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Vel gert!

Deila grein

26/05/2024

Vel gert!

Nú í liðinni viku var undirritaður nýr samningur til fimm ára milli Sjúkratrygginga Íslands og Félags sjúkraþjálfara. Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar hafa starfað án samnings frá því í janúar 2020 og hefur samningsleysið á þeim tíma bitnað á notendum þjónustunnar. Hér er um að ræða mikilvæg tímamót og ber að þakka samningsaðilum fyrir góða vinnu og Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra fyrir tryggja enn einn samninginn sem hefur það að markmiði að bæta hag landsmanna og tryggja jöfnuð.

Nýr samningur

Það er ljóst að samningurinn kemur til með að bæta aðgengi og hag þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda. Öll aukagjöld sem lögð hafa verið á þjónustuþega munu falla niður frá og með 1. júní nk. en nýr samningur mun taka að fullu gildi þann 1. október 2024 með fyrirvara um samþykki sjúkraþjálfara. Langtímasamningur sem þessi veitir sjúkraþjálfurum langþráðan stöðugleika til að styrkja og skipuleggja sín störf á komandi árum. Í samningnum er lögð áhersla á gæðastarf og upplýsingaöflun til að styðja við forgangsröðun og mótun þjónustunnar. Einnig er horft til þess að efla möguleika til fjölbreyttari þjónustuleiða til að mæta ólíkum þörfum skjólstæðinga og auka gæði. Áhersla er lögð á þróunarverkefni tengd samningnum er geta m.a. snúið að þarfagreiningum sem og nýsköpunarverkefnum.

Það má með sanni segja að þessi nýi samningur marki þýðingarmikið skref í átt að betri og aðgengilegri heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn. Sjúkraþjálfarar sinna mikilvægri þjónustu og þetta vita þeir sem hafa þurft að leita til þeirra. Þeir spila lykilrullu við að koma í veg fyrir eða draga úr afleiðingum áverka, álagseinkenna, sjúkdóma og lífsstíls sem raskað geta lífi einstaklingsins og eru mikilvægur þáttur við að viðhalda lýðheilsu þjóðarinnar.

Jákvæð áhrif

Samkvæmt upplýsingum Sjúkratrygginga sóttu rúmlega 62.000 einstaklingar þjónustu sjúkraþjálfara á liðnu ári. Heimsóknirnar voru mun fleiri, eða um 928.000. Fyrirséð er að þörfin kemur aðeins til með að aukast á komandi árum með breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og auknum kröfum um lífsgæði og virkni. Samningurinn er í samræmi við stefnu stjórnvalda um að fjárfesta í fólki. Þjónusta sjúkraþjálfara getur verið lykilþáttur í því að auðvelda eldra fólki að búa sem lengst heima ásamt því að koma fólki aftur í virkni eða viðhalda henni.

Það eru sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, efnahagslegir og félagslegir, að lögð sé aukin áhersla á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðismál. Heilbrigði snýst ekki aðeins um öfluga heilbrigðisþjónustu heldur það að gera fólki betur kleift að huga að eigin heilsu með því að nýta alla þá þekkingu og öll þau úrræði sem eru til staðar í samfélaginu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ein­faldara fyrir­komu­lag til­vísana

Deila grein

15/05/2024

Ein­faldara fyrir­komu­lag til­vísana

Í gær kom inn lítill og nett tilkynning inn á vef Stjórnarráðsins frá heilbrigðisráðuneytinu. Tilkynningin fjallar um að einfalda eigi tilvísanakerfi fyrir börn vegna heilbrigðisþjónustu. Það má með sanni segja að tilvísanakerfið hafi sætt nokkurri gagnrýni síðustu misseri, ekki síst frá læknum sem hafa talið það taka frá þeim dýrmætan tíma og valdi óþarfa skriffinnsku. Það verður ekki af hæstvirtum heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórssyni tekið að hann hlustar og gengur í verkin.

Núverandi kerfi

Nú hafa verið birt drög að reglugerðarbreytingum í Samráðsgátt. Samkvæmt gildandi reglugerð um tilvísanir fyrir börn er áskilið að heilsugæslulæknar skrifi tilvísun fyrir börn frá tveggja ára að 18 ára aldri, þurfi þau á þjónustu sérgreinalæknis að halda. Slík tilvísun er m.a. forsenda þess að þjónusta sérgreinalæknis sé gjaldfrjáls. Án tilvísunar þarf hins vegar að greiða fyrir þjónustuna sem nemur þriðjungi af því gjaldi sem sjúkratryggðir greiða almennt fyrir læknisheimsóknir. Gildistími tilvísunar er að hámarki eitt ár en heimilt er að ákveða að tilvísun fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun gildi í allt að 10 ár. Tilvísun heilsugæslulæknis er áskilin fyrir alla þjónustu sérgreinalækna. Þetta felur m.a. í sér að ef barn hefur fengið tilvísun til sérgreinalæknis sem telur barnið þurfa þjónustu læknis í annarri sérgrein þarf að leita aftur til heilsugæslulæknis eftir tilvísun. Þetta kerfi verður nú einfaldað til muna.

Góðar breytingar

Eftir reglugerðarbreytingar getur sérgreinalæknir sem fær til sín barn samkvæmt tilvísun heilsugæslulæknis vísað því sjálfur til læknis í annarri sérgrein telji hann þörf á því, án aðkomu heilsugæslunnar. Þá getur læknir sem fær barn til meðhöndlunar á sjúkrahúsi vísað barni til sérfræðings telji hann þörf á því. Auk þessa verður gildistími tilvísana fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun sem nú er 10 ár lengdur og getur gilt allt þar til barn nær 18 ára aldri. Þá verður hjúkrunarfræðingum veitt heimild til að gera tilvísanir fyrir börn vegna þjónustu talmeinafræðinga en hingað til hafa aðeins heilsugæslulæknar getað vísað börnum í þjónustu þeirra. Fleiri góðar breytingar er að finna í reglugerðardrögunum en þær miða allar að því að bæta þjónustu og auka skilvirkni, meðal annars með áherslu á að tími lækna nýtist betur til að sinna beinni þjónustu við sjúklinga.

Með þessum breytingum er ekki bara verið að stytta bið barna eftir mikilvægri þjónustu heldur einnig verið að bæta starfsumhverfi lækna sem kallað hefur verið eftir. Þessar breytingar eru einn hluti af þeirri vegferð að bæta þjónustu og auka skilvirkni, meðal annars með áherslu á að tími lækna nýtist betur til að sinna beinni þjónustu við sjúklinga. Vel gert!

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­sókn klárar verkin

Deila grein

17/04/2024

Fram­sókn klárar verkin

Á helginni verður flokksþing Framsóknar haldið hér í Reykjavík, á þinginu hittist flokksfólk og fer yfir liðna daga og horfir til framtíðar. Ég hlakka til, það er alltaf gott að taka stöðina með grasrótinni. Enda getur Framsókn lagt sín verk á kjörtímabilinu og lengra aftur fram kinnroðalaust. Við höfum sömu orku og vilja til að klára verkin fram að næstu kosningum.

Sú ríkisstjórn sem setið hefur frá hausti 2017 eða í 2329 daga, og var endurkjörin með öruggum meirihluta árið 2021 hefur tekist á við fjölmörg og fjölbreytt verkefni, átt góða og slæma daga enda hefur oft gefið á bátinn á þessu tímabili. Til þess að klára þau verkefni hefur þurft ákveðni, víðsýni og seiglu.

Sterk staða þrátt fyrir áföll

Í nýrri fjármálaáætlun kemur fram sterk staða þjóðarbúsins þrátt fyrir áföll síðustu ára. Við höfum þurft að glíma við heimsfaraldur, stríð og jarðhræringar á Reykjanesskaga sem standa enn yfir og ekki sér fyrir endann á. Í þessu umhverfi er á næstu misserum mikilvægt að beita skynsamri fjármálastefnu til að halda jafnvægi, ná niður verðbólgu og halda í við skuldahlutfall ríkisins. Við neyðumst til að einblína á þau markmið þrátt fyrir stöðugan og góðan hagvöxt sem hefur verið 20% á síðustu þremur árum. Á sama tíma eru nágrannaríkin okkar sum hver að berjast við neikvæðan hagvöxt auk þess sem það mælist enginn hagvöxtur í Evrópu.

Atvinnustigið hér á landi er hátt og íslenska þjóðarsálin vill hafa það þannig, því fylgir þó spenna sem þarft er að halda í við. Meðallaun hafa verið að hækka og það sem mikilvægast er að nú í vetur náðust langtímakjarasamningar sem eru á okkar ábyrgð að haldi, það er öllum til framdráttar. Óvissan er þó áfram og því þarf að fara varlega líkt og þegar þarf að lækka undir pottunum þegar sjóða fer upp úr. Það þýðir að bata og áframhaldandi vöxt þarf að tryggja með því að halda aftur af útgjaldavexti. Þetta lætur ekki vel í eyrum en er staðreynd engu að síður. Þess vegna er ég ánægð með að í stól fjármálaráðherra er sestur maður sem beitir bæði skynsemi og horfir til framtíðar.

Lífið er list

Það er af mörgu góðu að taka þegar kemur að verkum Lilju Daggar Alfreðsdóttur í menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Hún hefur hlotið sérstaklega mikið lof fyrir störf sín sem snúa að listum og skapandi greinum, enda mál sem alltaf þarf að hafa í fararbroddi í framþróun þjóðar. Okkur hefur tekist að koma upp endurgreiðslukerfi í kvikmyndum sem kemur okkur í raðir meðal fremstu þjóða á því sviði. Með því að leggja framlag til kvikmynda með þessum hætti tryggjum við að það sé þjóðhagslega hagkvæmt enda hefur hver króna skilað sér nærri sjöfalt til baka aftur, miðað við bein og óbein og afleidd áhrif. Undir þetta tekur Jonathan Olsberg einn eigandi Olsberg•SPI og sérfræðingur í efnahagslegum áhrifum kvikmyndagerðar. Hann bendir á að það sé mikilvægt að byggja á sterkum grunni og segir að íslenska endurgreiðslukerfið kalli á vandaða kvikmyndagerð og efli íslenskt fagfólk á því sviði. Þá hafa verið mótaðar mikilvægar stefnur fyrir komandi ár, má þar nefna tónlistarstefnu, myndlistarstefnu, bókmenntastefnu og ferðamálastefnu auk góðrar vinnu í málefnum íslenskrar tungu og táknmáls.

Heilbrigði þjóðar

Heilbrigðiskerfið okkar stóðst álagspróf þegar heimsfaraldur gekk yfir, öflugt fagfólk leiddi okkur í gegnum ólgusjó og sannaði að íslenskt heilbrigðisstarfsfólk er meðal þeirra fremstu á heimsvísu. Verkefnin eru fjölmörg og stöðugt þarf að viðhalda og bæta og standast álag. Þá bætast stöðugt við auknar áskoranir eins og mikil og stöðug fjölgun íbúa. Núverandi heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson hefur frá því að hann tók við embætti tekist ná mörgum af þeim markmiðum sem horft var til í framtíðarstefnu okkar í heilbrigðismálum. Mikilvægir og langþráðir samningar við sérfræðilækna náðust loksins á vakt Willums Þórs en þeir eru stór liður í því að jafna aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu. Biðlistar hafa styðst víða, má þar m.a. nefna í liðskiptiaðgerðum, aðgerðum á augasteinum og ekki síst hefur verið brugðist við ákalli kvenna í varðandi endómetríósu og vefjagigt. Það hefur verið gert bæði með fræðslu sem leiðir til breyttra viðhorfa og samningi sem Sjúkratryggingar Íslands hafa gert við Klíníkina um kaup á nauðsynlegum aðgerðum vegna endómetríósu.

Farsæld til framtíðar

Þær breytingar sem gerðar voru af Ásmundi Einari Daðasyni barnamálaráðherra á síðasta kjörtímabili varðandi farsæld barna er bylting sem samfélagið er nú farið að vinna eftir, það tekur vissulega tíma að innleiða svo stóra breytingu en hvar sem maður fer er þessari hugmynd fagnað og sveitarfélög leggja sig fram við að koma þessu inn í sína ferla. Það helst í hendur við breytt barnaverndarlög og til þess að tryggja heildstæða umgjörð er markmiðið að fylgjast með velferð og farsæld barna og foreldra, bregðast við þörf þeirra fyrir þjónustu með skilvirkum hætti strax í upphafi og að tryggja að kerfin tali saman með það að markmiði að þjónusta sé samfelld og samþætt. Þetta eru breytingar sem skila sér í bættu samfélagi til framtíðar.

Áfram veginn

Það tæki of langan tíma að telja upp öll þau góðu atriði sem við í Framsókn höfum staðið að á síðustu árum, því stikla ég hér aðeins á stóru í þessari stuttu grein. En við þig lesandi góður vil ég segja að það er ekki að ástæðulausu að Framsókn vilji áfram vera hluti af þeim sem standa vaktina í stýrishúsinu. Við viljum stefna áfram án átaka, erum ávallt á vaktinni og tökum þannig þátt í sögunni sem horft verður til. Hittumst í Framsókn og tökum þátt.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. apríl 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Eftir­liti með snyrtistofum á­bóta­vant

Deila grein

28/03/2024

Eftir­liti með snyrtistofum á­bóta­vant

Í kastljósi á RÚV á þriðjudag var fjallað um eftirlit með snyrtistofum vegna hugsanlegs mansals og eftirlits með fagmenntun þeirra sem starfa þar. Snyrtifræði er löggild iðngrein hér á landi og er varin í lögum um handiðnað. Á grundvelli þeirra laga ber lögreglu að hafa eftirlit með framkvæmd ákvæða laganna. Það er ljóst að lítið sem ekkert eftirlit er haft með snyrtistofum hér á landi og réttindum þeirra sem þar starfa. Hvað þá eftirlit með öðrum ólöglegum athæfum líkt mansali sem er öllu alvarlegri og athæfi sem aldrei á að líða.

Í vetur hef ég lagt fram fyrirspurnir til dómsmálaráðherra á Alþingi um eftirlit með snyrtistofum hér á landi sem staðfestir umfjöllunina um vöntun á eftirliti. Í svari við fyrirspurn minni kom fram að samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra hefur lögreglan á síðastliðnum þremur árum haft til rannsóknar tvær snyrtistofur vegna brota á lögum um handiðnað, á grundvelli ábendingar, en í báðum tilvikum var rannsókn hætt. Ekki var svarað hversu mörgum snyrtistofum lögreglan hefur haft eftirlit með til þess að kanna hvort starfsmenn uppfylli skilyrði þess að starfa sem snyrtifræðingar í samræmi við lög um handiðnað, og gefur svarið vísbendingu um hversu virkt eftirlitið er.

Verjum lögverndaða iðnmenntun

Þeir snyrtifræðingar sem starfa hér á landi hafa sótt sér menntun og reynslu samkvæmt þeim stöðlum sem settir hafa verið. Þá menntun ber að virða líkt og aðra iðnmenntun. Okkur ber líka einnig að fagna erlendum iðnmeisturum sem koma hingað til lands og sannarlega eru með fagmenntun til slíkra starfa. Þá er nauðsynlegt að heilbrigðiseftirlitið og vinnueftirlitið skerpi á eftirlitinu og að staðfest sé með einhverjum ferlum að þeir sem starfi í greininni séu með löggildingu í faginu.

Lélegt eftirlit með snyrtistofum vekur einnig upp spurningar hvort sama sé upp á teningnum þegar kemur að eftirliti öðrum iðngreinum sem falla undir lög um handiðnað. Á undanförnum árum hefur eftirspurn aukist hér á landi eftir iðnaðarfólki og öllum vinnandi höndum á því sviði verið fagnað. En það þarf að fylgja eftir með eðlilegu eftirliti þannig að iðnaðarfólk sem fyrir eru geti treyst því að sömu kröfur séu gerðar til allra sem starfa í faginu og ekki síst til þess að önnur ólögleg starfsemi fái síður að blómstra hér á landi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Heil­brigðis­ráðu­neytið er með for­ystu

Deila grein

26/03/2024

Heil­brigðis­ráðu­neytið er með for­ystu

Nýverið kom út skýrsla Ríkisendurskoðunar „Ópíóíðavandi – staða, stefna og úrræði“. Farið varið í hraðúttekt til þess að greina misnotkun á ópíóðum í ljósi þess að fréttaflutningur um aukinn vanda hafði aukist á síðustu árum. Ekki þótti ljóst hvaða aðilar hefðu bestu yfirsýn um vandann og hvernig væri tekið á honum. Það er margt gott og áhugavert sem kemur fram í þessari skýrslu en annað sem er þess fallið að valda misskilningi þar með talið umræða um forystuleysi í málaflokknum. Í skýrslunni kemur fram að enginn aðili hafi fulla yfirsýn yfir hve margir glími við ópíóíðavanda á landinu. Staðreyndin er sú að heilbrigðisráðuneytið tekur fulla forystu í málaflokknum og hefur ekki skorast undan því. Hér er um að ræða sjúkdóm sem er líf- sál og félagslegur og því eru félagsaðstæður einstaklinga margbrotnar og flóknar. Verkefnið kallar á samstarf milli ráðuneyta sem og sveitarfélaga, enda er stór liður í bataferli þessara einstaklinga að hafa skjól yfir höfuðið. Ópíóíðavandinn er alvarlegur og hvert mannslífs sem tapast þar er einu lífi of mikið.

Margvíslegar aðgerðir

Heilbrigðisráðuneytið með Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í fararbroddi hefur síðustu misseri unnið að krafti við að berjast við misnotkun á ópíóðum. Tillögur heilbrigðisráðherra um aðgerðir til að sporna við skaða af völdum ópíóíða voru samþykktar í ríkisstjórn í apríl 2023 og á samkvæmt fjárlögum á að verja 150 milljónum í aðgerðirnar á þessu ári og eru margar þeirra vel á veg komnar. Tilraunaverkefni er hafið um niðurtröppun ópíóíða, svefn- og róandi lyfja í heilsugæslu. Þá hefur starfshópur tekið til starfa um skaðaminnkun og fleira. Auk þess vinnur heilbrigðisráðuneytið að stefnum í málaflokknum. Það er skaðaminnkunarstefnu og stefnu í áfengis- og vímuvörnum. Í lýðheilsustefnu til ársins 2030 er lögð áhersla á mikilvægi skýrrar stefnumörkunar og aðgerða í málefnum áfengis- og vímuvarna.

Þá má nefna að Sjúkratryggingum Íslands hefur verið falið að gera heildarsamning um þjónustu SÁÁ og aukið aðgengi að viðhaldsmeðferð. Auk þess hefur heilbrigðisráðuneytið í tvígang lagt 30 milljónir til félagasamtaka í verkefni til þess að sporna við skaða af völdum fíknisjúkdóma auk þess sem Lýðheilsusjóður hefur verið stækkaður. Þá er búið er að dreifa Naloxone í bíla hjá viðbragðsaðilum þá sjá Vorteymi og Frú Ragnheiður einnig um að dreifa nefúðanum. Þess utan hefur Lyfjastofnun hafist handa við að kanna hvort mögulegt sé að gera naloxon nefúða að lausasölulyfi á Íslandi. Lyfið er notað þegar þörf er á tafarlausri neyðarmeðferð vegna ofneyslu ópíóða sem valdið getur öndunarstoppi og dauða.

Forvarnir númer eitt, tvö og þrjú

Í baráttunni við fíknivandann er er hvert líf sem glatast ekki aðeins tölfræði heldur djúpstæður harmleikur og áminning um sögu einstaklings sem varð undir í baráttunni við fíknisjúkdóm. Fíkn er langt frá því að vera eingöngu viljabrestur heldur er fíkn flókið samspil erfðafræðilegra, umhverfis- og sálfræðilegra þátta sem krefjast margþættra viðbragða. Aðgerðir sem miða að því að draga úr neyslu ávana- og vímuefna, hverju nafni sem þær nefnast, skila samfélaginu ávinningi. Árangur Íslands í forvörnum ungmenna hefur verið einstakur og eftirtektarverður og þann árangur megum við ekki gefa eftir. Þróun vímuefnaneyslu ungmenna hafa tekið stakkaskiptum í jákvæða átt síðustu ár. Leiðin niður á við getur tekið mun skemmri tíma en að ná árangri og því skipta forvarnir og heilsuefling miklu máli. Mikilvægt er að fræða og þjálfa þá sem vinna með ungmennum í daglegu starfi, með því að gera forvarnir og heilsueflingu sem hluta af skipulögðu uppeldis- og fræðslustarfi höfum við meiri möguleika á að ná til þeirra sem ella gætu orðið fíknisjúkdómum að bráð.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Deila grein

25/03/2024

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Í síðustu viku voru samþykkt lög um breytingar á búvörulögum nr. 99/1993, framleiðendafélög. Þær miklu umræður sem fylgt hafa í kjölfarið hafa væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum manni enda hafa stór orð verið látin falla sem eiga ekki öll rétt á sér.

Staða íslenskra bænda hefur verið erfið um langt skeið. Stóraukning á innfluttum landbúnaðarvörum og stökkbreytingar í verði á aðföngum hefur reynst greininni erfið síðustu ár, bara á síðasta ári jókst innflutningur á kjöti um 17%. Rekstur afurðastöðva í sauðfjár- og nautakjöti hefur lengi átt undir höggi að sækja og augljóst er ef að íslenskt lamba- og nautakjöt á að standast samkeppni frá innfluttu kjöti þarf að bregðast við. Hagræðing verður að eiga sér stað hjá afurðastöðvum til að standast erlenda samkeppni. Afurðastöðvar eru almennt að hluta í eigu bænda. Með þessum breytingum á búvörulögum sem nú hafa verið samþykkt er kjötafurðarstöðvum gert kleift að vinna saman eða sameinast til að ná fram rekstrarhagræði sem gagnast bæði bændum og neytendum.

Hagur bænda og neytenda

Því hefur verið haldið á lofti að þessar breytinga komi til með að stuðla að einokun, hækka vöruverð og verðbólgu. Þessar fullyrðingar eru á þunnum ís. Staðreyndin er sú að hagur bænda og neytenda fer saman. Íslenskur landbúnaður þarf á íslenskum neytendum að halda og á sama tíma þarf innlend framleiðsla að vera samkeppnishæf við innflutta matvöru. Ef ekki er veitt svigrúm til hagræðingar í greininni er næsta víst að neytendur færi sig í auknu mæli yfir í erlenda staðgönguvöru með þeim afleiðingum að það fjari undan íslenskum landbúnaði. Það sama myndi gerast ef sú hagræðing sem nú er möguleg skilar sér ekki til íslenskra neytenda. Hátt verð á innlendri landbúnaðarvöru veldur því að neytendur versla aðrar vörur. Þetta er einfalt reiknisdæmi. Að þessu leyti fara hagsmunir bænda og neytenda saman.

Rétt skal vera rétt

Þá er það hreinlega rangt það sem hefur verið haldið fram að afurðastöðvum sé nú heimilt að sameinast án takmarkana. Þeir sem skoða lögin geta séð að í þau eru skrifuð ákveðin skilyrði hyggist afurðastöðvar nýta sér þessa heimild. Þessi skilyrði voru sett inn í ljósi þess að samrunareglur eiga ekki lengur við. Þessi skilyrði tryggja að allir framleiðendur eru jafnsettir hvað varðar möguleika á að koma búfé til slátrunar óháð staðsetningu. Þá er afurðastöðvum skylt að selja öðrum vinnsluaðilum afurðir til frekari vinnslu á sömu viðskiptakjörum og vinnsluaðilum sem lúta þeirra stjórn. Með þessum skilyrðum er stuðlað að samkeppni og tryggt að aðrir vinnsluaðilar greiði sama verð fyrir sömu vöru og aðilar sem lúta stjórn framleiðendafélaga.

Þá er ekki heimilt að setja skorður við því að framleiðendur færi viðskipti sín til annars aðila. Er þessu skilyrði ætlað að efla og tryggja samningsstöðu bænda og tryggja að samkeppni ríki áfram á markaði. Að lokum er tryggður réttur til að eiga einungis viðskipti við framleiðendafélag um afmarkaða þætti, svo sem slátrun. Með þessu skilyrði er stuðlað að því að tryggja samningsstöðu bænda og fyrirbyggja hindranir fyrir minni keppinauta í slátrun og vinnslu. Þannig verður bændum auðveldað að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir ef þeir kjósa að gera það.

Sérstaða íslenskra kjörframleiðslu

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklalyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag. Nýútkomin skýrsla hóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins í samvinnu við matvæla og umhverfis-, orku- og loflagsráðherra um aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería tekur undir þær staðhæfingar. Í skýrslu hópsins kemur fram að fæðuöryggi muni enn minnka þar sem sýklalyfjaónæmi hefur einnig áhrif á dýraheilbrigði og þar með matvælaframleiðslu. Sýklalyfjanotkun hér á landi í landbúnaði er með því minnsta sem þekkist og hefur það verið staðfest í eftirliti Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar um notkun sýklalyfja í landibúnaði

Það er ekki ofsagt að íslensk matvælaframleiðsla eigi sér sérstöðu á heimsvísu og undir þetta taka helstu sérfræðingar á sviði sýkla- og veirufræða. Þeir hafa brýnt fyrir okkur að verja þurfi þá sérstöðu sem við búum við á Íslandi. Á grunni sérstöðunnar á Ísland að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með banni á dreifingu matvæla sem í greinist sýklalyfjaónæmar bakteríur. Það er bein skylda okkar að standa með íslenskri matvælaframleiðslu. Þá þarf að þora að stíga þau skref sem þarf til að koma því þannig fyrir að heilnæmt kjöt sé á boðstólum íslenskra neytanda á viðráðanlegu verði.

Samstaða frekar en sundrung

Við sem smáþjóð þurfum að standa vörð um innlenda framleiðslu og fyrir því eru fleiri en ein ástæða. Fyrst má þar nefna mikilvægi þess að halda framleiðslunni innanlands vegna allra þeirra starfa sem hún skapar, fyrir utan þá staðreynd að við viljum viðhalda innlendum landbúnaði og matvælaframleiðslu í landinu. Að ótöldu fæðuörygginu, matvælaöryggi með heilnæmi landbúnaðarvara og mikilvægi þess að vera sjálfbær.

Framsókn hefur í gegnum tíðina staðið með landbúnaði og mun ávallt gera, enda á flokkurinn uppruna sinn í sveitum landsins og hefur sú taug aldrei slitnað öll þessi ár. Þingmenn Framsóknar hafa í gegnum tíðina gert sitt besta til þess að vera öflugir málsvarar bænda í landinu. Okkar verkefni nú er að halda áfram að ræða mikilvægi innlends landbúnaðar og koma sjónarmiðum okkar á framfæri við samstarfsflokkanna sem og aðra flokka á Alþingi með hag bænda og neytenda að leiðarljósi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ís­lenska páska­lambið

Deila grein

22/03/2024

Ís­lenska páska­lambið

Í gær voru samþykktar breytingar á búvörulögum, um er að ræða að breytingar sem skipta verulegu máli fyrir íslenskan landbúnað. Þeim er ætlað að styðja við endurskipulagningu og hagræðingu í slátrun og kjötvinnslu. Með þessum breytingum eru afurðastöðvum í kjötiðnaði veitt heimild til að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu að því er varðar framleiðslu einstakra kjötafurða og hafa með sér annars konar samstarf. Samkvæmt frumvarpinu þá er það tryggt að samkeppniseftirlitið fer með eftirlit með framkvæmdinni. Niðurstaðan er að nú er hægt að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara.

Samkeppni

Íslenskar landbúnaðarvörur eiga í gríðarlegri og stigvaxandi samkeppni við innfluttar vörur. Það er því mikilvægt að fundin verði samvinnugrundvöllur matvælaframleiðenda hér á landi til að bregðast við breyttri stöðu. Í alþjóðlegum samanburði eru innlendar afurðastöðvar í kjötiðnaði örsmáar og því ekki samkeppnishæfar við afurðastöðvar á erlendum mörkuðum sem eru mun stærri og hagkvæmari rekstrareiningar. Árið 2004 var starfsumhverfi mjólkuriðnaðarins gerbreytt með breytingu á 71. gr. búvörulaga. Sú breyting veitti afmarkaða undanþágu til afurðarstöðva í mjólkuriðnaði frá gildissviði samkeppnislaga. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur orðið mikil nýsköpun og stórfelld hagræðing í söfnun, vinnslu og dreifingu mjólkur og mjólkurvara. Nú er komið að kjötinu.

Úrtölurödd

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins hefur brugðist við með stóryrðum og myrkri og boðar heimsósóma fyrir íslenska bændur og íslenska neytendur. Segir hér verið að raska samningsstöðu bænda gagnvart viðsemjendum sínum. Það er rétt að það komi fram að framleiðendur eru tryggðir í fjórða kafla búvörulaga sem fjallar um verðskráningu á búvörum. Þar eru framleiðendur með lagalega stoð fyrir að verðlagsnefnd hafi heimild til þess að ákveða lágmarksverð til bænda á afurðum þeirra. Þá erum við hér að ganga mun skemur en Noregur, þar hafa verið samþykktar undanþágur fyrir stórar afurðastöðvar frá banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Ef Noregur getur sérsniðið undanþágu fyrir norskan landbúnað þá getur Ísland sérsniðið undanþágu fyrir íslenskan landbúnað sem tekur mið af aðstæðum hér á landi.

Það má heyra það á viðbrögðum bænda og samtökum þeirra að þetta er það sem beðið hefur verið eftir og nú er fagnað um allt land. Þeir láta ekki úrtölur tala úr þeim kjarkinn við að berjast fyrir bættum kjörum.

Framsókn með forystu

Framsókn hefur ávallt verið óhrædd við að benda á það augljósa, og hefur lagt til þessar breytingar allt frá árinu 2018, loksins náum við meirihluta fyrir þessum mikilvægubreytingum, Því það er þó naumur meirihluti sem vill í alvöru vernda íslenska landbúnaðinn. Með því að styðja við íslenska landbúnaðarframleiðslu tryggjum við ekki aðeins fæðuöryggi, heldur verndum við einnig störf fólks og tryggjum fjölbreytni atvinnulífsins.

Framsókn hefur tryggt að íslenska páskalambið rennur ljúflega niður í ár.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. mars 2024.