Categories
Greinar

Aldrei fór ég suður

Deila grein

08/04/2022

Aldrei fór ég suður

Við getum örugglega öll verið sammála um mikilvægi þess að um allt land séu blómlegar byggðir með hamingjusömum íbúum. Á landsbyggðinni eru starfandi öflug fyrirtæki sem skapa tekjur inn í þjóðarbúið. Lífið á landsbyggðinni er allskonar og kallar á mismunandi nálganir. En ekkert gerist af sjálfu sér, svo við getum haldið öflugum byggðum allt í kringum landið er nauðsynlegt að hafa raunhæfa byggðaáætlun.

Hvað er byggðaáætlun?

Byggðaáætlun leggur grunn að aðgerðum til að jafna búsetuskilyrði hvað varðar húsnæðismál, heilbrigðisþjónustu, fjarskipta, menntunar og jafnari tækifæri til atvinnu svo fátt eitt sé nefnt. Með byggðaáætlun má lesa stefna stjórnvalda hverju sinni í byggðamálum. Er hún samhæfing við aðra stefnumótun og áætlunargerð hins opinbera og samráð við ráðuneyti, sveitarfélög og landshlutasamtök. Samvinna er lykilinn í að viðhalda sjálfbærni byggða um land allt.

Innviðaráðaherra hefur lagt fram á Alþingi stefnu í byggðamálum til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára. Byggðaáætlunin er lögð til grundvallar við gerð fjárlaga og í henni má finna metnaðarfull markmið að því marki að landsbyggðin vaxi og dafni.

Heimsmarkmiðin í byggðaáætlun

Sú byggðastefna sem nú hefur verið lögð fram á Alþingi styðst við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, enda eru þau mikilvægur vegvísir samfélagsþróunar næstu ára. Heimsmarkmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þau fela einnig í sér fimm meginþemu sem er mannkyn, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Sem leiða okkur að aðalinntakinu sem er að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir.

Það er þess vegna sem þau falla svo sérstaklega vel við byggðaáætlun. Því það er mikilvægt að þessar stoðir séu virtar sem leiðarljós til að nálgast jafnrétti til búsetu út frá kröfum okkar og viðmiðum við þau byggðarlög sem við berum okkur saman við.

Vegvísir

Að lokum langaði mig að koma inn á sérstaklega skemmtilega nýjung. En fylgjast má með metnaðarfullum markmiðum íslenskra stjórnvalda í byggða- fjarskipta og samgönguáætlunum á nýrri heimasíðu sem haldið er úti af innviðaráðuneytinu.  Vefurinn er undir léninu vegvisir.is og er gagnvirkur upplýsingarvefur þar sem hægt er að fylgjast með fjármögnun, framvindu og árangri verkefna og árangursmælikvarða.  

Á vefnum er hægt að skoða allar áætlanir í einu, einstaka áætlun eða tiltekinn hluta af áætlun. Sem dæmi er hægt að skoða allar aðgerðir byggðaáætlunar á landsvísu, eða aðgerðir byggðaáætlunar eftir landshlutum og til að mynda styrki til verslana eða fjarheilbrigðisþjónustu. Fyrir áhugafólk um stöðu á  byggðastefnu og aðgerða stjórnvalda í þeim efnum er upplagt að nýta sér þennan vef.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á bb.is 8. apríl 2022.

Categories
Greinar

Að vera vinur í raun

Deila grein

07/04/2022

Að vera vinur í raun

Fæst okkar hefðu trúað því að árið 2022 væri stríð í Evrópu og undirbúa þyrfti komu flóttamanna frá Úkraínu til landsins. Í einum vettvangi er lífi fjölda fólks snúið á hvolf. Í upphafi árs áttu þau venjulegt líf, keyptu í matinn, mættu í skóla og vinnu, héldu barnaafmæli, elskuðu og voru elskuð. Hversdagurinn í reynd en nú tilheyrir hann annarri vídd. Í dag eru þau á flótta frá heimalandinu með ekkert nema handfarangur og sorg í hjarta. Borgir hafa verið lagðar í rúst og saklaust fólk tapað lífinu. Á meðan stjórnvöld bregðast við í alþjóðasamvinnu hefur almenningur á Íslandi fylgist sorgmæddur á þróun mála og fyllst vanmætti. Það er erfitt að fylgjast með úr fjarlægð og geta lítið gert.

Stjórnvöld þurfa að bregðast hratt við

Íslensk stjórnvöld tóku strax ákvörðun um að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu, fyrstu hóparnir eru þessar vikurnar að koma til landsins. 4,6 milljónir barna eru á flótta vegna stríðsins í Úkraínu, þessi börn verða fyrir miklu áfalli og óvíst er hvaða áhrif stríðið kemur til með að hafa á þessi börn og þeirra fjölskyldur, hvort sem litið er til skemmri eða lengri tíma. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra hefur sett á laggirnar sérstakt viðbragðsteymi ásamt sérstöku vöktunarteymi vegna þess fjölda barna sem komin er og væntanleg eru til landsins. Mikilvægt er að þær fjölskyldur sem hingað koma geti leitað á einn staða varðandi þjónustu við börn. Þau þurfa að finna að tekið sé utan um þau með öllum mögulegum hætti.

Íslenska þjóðin er með stórt hjarta

Þá fyllist ég stolti þegar ég sé viðbrögð fyrirtækja og almennings á Íslandi. Fljótt var ljóst að útvega þyrfti húsnæði fyrir allan þann fjölda fólks sem væntanlegur er til landsins. Nú þegar er búið er að semja um pláss fyrir tvö þúsund einstaklinga á mismunandi stigum dvalar flóttamanna. Er það vel gert á svo stuttum tíma, en enn er þó þörf fyrir meira húsnæði. Þá er það sérstaklega ánægjulegt að nokkrir aðilar, fyrirtæki, einstaklingar og stofnanir hafa tekið ákvörðun um að innheimta ekki leigu fyrir húsnæðið sitt.

Síðustu daga hef ég séð inn á hópum á Facebook þar sem unnið er að undirbúningi komu flóttamanna til landsins. Sjálfboðaliðar eru að safna saman fötum, húsgögnum og leikföngum fyrir börn. Allskonar húsbúnaði til þess að búa flóttamönnum fallegt heimili. Þá sá ég að starfsfólk Háskólans á Bifröst ásamt fleiri sjálfboðaliðum gengu úr vinnu til þess að bera inn húsgögn, dusta sængur og búa um rúm. Lítill bangsi var settur ofan á sæng.

Þessi samstaða kemur mér ekki á óvart, en samt sem áður fyllist ég þakklæti að búa í landi sem tekur opnum örmum á móti fólki á flótta og er tilbúið að leggja á sig auka vinnu fyrir aðra. Við erum öll ein stór fjölskylda.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. apríl 2022.

Categories
Greinar

Lofts­lags­váin kallar á aukna og græna raf­orku­fram­leiðslu

Deila grein

16/03/2022

Lofts­lags­váin kallar á aukna og græna raf­orku­fram­leiðslu

Í síðustu viku kom út skýrsla um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum. Í henni er gerð grein fyrir orkuþörf þjóðarinnar með vísan til áherslna og markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum. Í skýrslunni er einnig er farið yfir stöðuna á flutningskerfinu og orkumarkaði, framboði og eftirspurn á raforku sem og hvernig fyrirséð er að þau mál geta þróast næstu mánuði og ár.

Skýrslan er ítarleg og við lestur hennar má sjá að lögð er til grundvallar vinna sem fram kom í Orkustefnu Íslands til ársins 2050 sem unnin var af þverpólitískri nefnd á síðastliðnu kjörtímabili. Þar kemur fram að það sé mikilvægt markmið í baráttunni við loftslagsvánna að orkuskipti fari fram í lofti, láði og legi. Við á Íslandi höfum þá sérstöðu að nánast ekkert jarðefnaeldsneyti er notað við raforkuframleiðslu og húshitun. Það er öfundsverð staða sem okkur ber að viðhalda.

Háleit markmið í loftslagsmálum

Til þess að geta staðið við háleit markmið okkar í loftslagsmálum verðum við að skoða af fullri alvöru aukna orkukosti. Þá þurfum við ekki bara að auka framleiðsluna á raforku heldur verðum við einnig að bæta flutningsleiðir þar sem flutningstakmarkanir á raforku eru verulegar á milli landsvæða. Staðan í þeim efnum er sérstaklega slæm á Vestfjörðum og á norðausturhorni landsins. Þegar horft er til kerfisáætlunar Landsnets um styrkingu meginflutningskerfis á Vestfjörðum er hún á langtímaáætlun en í allt of fjarlægri framtíð. Þá er betra að huga frekar að valkostum á virkjunum innan svæðis til að tryggja raforkuöryggi á Vestfjörðum.

Orkuskipti á Vestfjörðum

Árið2017 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga um aðgerðaráætlun um orkuskipti. Þar er vörðuð leið með það að markmiði að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa. Með orkuskiptum verði enn fremur stuðlað að aukinni nýsköpun og sjálfbærri þróun. Í aðgerðaáætluninni er talað um hagræna hvata fyrir neytendur og fyrirtæki við val á vistvænni tækni og orkugjöfum.

Verkefnið Blámi er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Vestfjarðastofu. Markmið Bláma er að ýta undir og styðja við orkuskipti í samgöngum og sjávartengdum iðnaði ásamt því að efla nýsköpun á sviði orkunýtingar, eins og segir á heimasíðu verkefnisins. Ýmsar raunhæfar hugmyndir hafa litið dagsins ljós. Orkuskipti í sjávarútvegi er enn á hugmyndastigi því eru tækifærin mörg.

Smábátaútgerð á Vestfjörðum er tilvalin til að ýta á stað tilraunaverkefni í orkuskiptum. Yfirleitt er stutt á miðin og úthaldið því styttra í hverjum róðri. Hægt væri að beita hagrænum hvötum í þessum efnum. Línuívilnun hefur dregist verulega saman á Vestfjörðum og hægt væri að hugsa sér orkuívilnun þess í stað sem rynni til þeirra sem nýttu vistvæna orku. Þeir fengju aflaívilnun sem byggði á svipuðum grunni og línuívilnun. Þá má hugsa fleiri hagræna hvata til að flýta fyrir orkuskiptum rétt eins og er verið að gera í orkuskiptum í samgöngum.

Það þarf að framleiða meiri raforku

En staðreyndin er sú að til þess að hægt sé að fara í orkuskipti af alvöru þá vantar rafmagn inn á svæðið, það verður að auka raforkuframleiðslu. Raforka er forsenda þess að uppbygging atvinnu, samfélaga og orkuskipta verði á svæðinu. Án þess getur fjórðungurinn ekki tekið þátt í loftslagsmarkmiðum stjórnvalda.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. mars 2022

Categories
Greinar

Skýrsla Ríkis­endur­skoðunar stað­festir mis­ræmi í toll­flokkun land­búnaðar­af­urða

Deila grein

28/02/2022

Skýrsla Ríkis­endur­skoðunar stað­festir mis­ræmi í toll­flokkun land­búnaðar­af­urða

Þrátt fyrir gríðarlega aukningu á innflutningi landbúnaðarafurða síðustu ára, sérstaklega mjólkurafurða, hefur eftirlit með innflutningi ekki aukist að sama skapi, því miður. Þó þessi mál hafi verið nokkuð í kastljósinu undan farin misseri virðist sem ekkert hafi verið reynt til að bæta úr né að gera hana skilvirkari. Ríkisendurskoðandi birti á mánudaginn skýrslu um úttekt á tollframkvæmd vegna landbúnaðarafurða þar sem segja má að eftirlit með tollaframkvæmd landbúnaðarafurða hafi fengið falleinkunn. Í skýrslunni voru gerðar alvarlegar athugasemdir við tollaframkvæmd hér á landi. Úttektin staðfestir því sem haldið hefur verið fram um allnokkurt misræmi í útflutningstölum Evrópusambandsins og innflutningstölum Hagstofu Íslands í tilviki ákveðinna landbúnaðarvara.

Staðfest misræmi

Í grein hér á Vísi fer formaður Félags atvinnurekanda mikinn og talar um að ásakanir Bændasamtaka Íslands og MS á hendur innflutningsfyrirtækjum um stórfellt svindl við innflutning og að úttekt Ríkisendurskoðanda hafi hrakið það þær ásakanir. Ég veit ekki með hvaða gleraugum hann las skýrsluna en í raun staðfestir hún það misræmi sem Bændasamtökin og fleiri hafa haldið fram og misræmið er verulegt. Hver ber ábyrgðina ? Framkvæmd tollflokkunar er að Tollurinn eða Skatturinn núna, tollflokkar vöruna í samræmi við upplýsingar frá innflytjendum. Í skýrslu Ríkisendurskoðenda kemur fram að Tollurinn hafi farið í sérstakt verkefni að greina áreiðanleika tollskýrslna og í ljós kom að í 23% tollskrýslna finnast misræmi eða villur og þá er ekki laust við að það vakni grunur um að einbeittur brotavilji sé hér um að ræða. Það þarf ekki fleiri vitnanna við, og nægir að vísa í dóma Landsréttar og Hæstaréttar og bindandi álit um þessi mál. Innflutningsaðili ber ábyrgð á tollskýrslu sem skilað er inn til Skattsins þar sem hann hefur leyfi til rafrænna tollflokkunnar.

Undanskot við innflutning

Ríkisendurskoðun fullyrðir að möguleg misflokkun eða undanskot á landbúnaðarafurðum geti numið háaum fjárhæðum sem ríkissjóður verður af auk þess að með misflokkun varðað mikilvæga hagsmuni um heilbrigði manna, dýra og plantna.

Samræmt flokkunarkerfi

Nú vinnum við eftiralþjóðlegu flokkunarkerfi yfir vörur sem samin er af Tollasamvinnuráðinu í Brussel, því ætti samræming tolleftirlits ekki að vera nein stjarneðlisfræði. Þá komum við að mikilvægi eftirlitsins. Það er nauðsynlegt að Skatturinn sem sér um tollaframkvæmd, sé í betri samvinnu við aðrar tollastofnanir erlendis. Eftirgrennslan Ríkisendurskoðenda leiddi af sér niðurstöður um að setja þurfi gæði gagna í forgrunn þar sem áræðanleiki og nákvæmni tollskrýslna sé enn ábótavant. Eftirlit og tollendurskoðun þurfi að efla því endurskoðun á innflutningi sé bæði veikburða og ómarkviss. Ríkisendurskoðun telur að endurskipuleggja og efla þurfi tollsvið Skattsins svo unnt sé að sinna því lögbundna hlutverki sem henni er ætlað. Þangað til að úr því verður bætt munu áfram eiga sér stað ósanngjarnir viðskiptahættir hér á landi og fjárhagstap fyrir ríkissjóð

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Sam­fylkingin á villi­götum

Deila grein

04/02/2022

Sam­fylkingin á villi­götum

Verðtrygging er mannanna verk, ekki náttúrleg þótt hún virðist haga sér þannig. Þegar henni var komið á hér á landi var um neyðarástand um að ræða. Það átti að tryggja sparifé landsmanna, lánsfé og laun. Vextir voru ekki frjálsir og vandinn óx, en núna erum við á öðrum stað á öðrum tíma.

Því hefur verið gert hérlendum stjórnvöldum skóna að verðbólguskotið núna sé þeim að kenna. Það heyrist talað um óstjórn og ráðaleysi. Samfylkingin rýkur í fjölmiðla með bundið fyrir augun án þess að líta til hvað sé að gerast í öðrum löndum í kringum okkur þar sem verðbólgan rís jafnvel hærra en hérlendis. Hér er um að ræða kostnaðarverðbólga því verðlag og heildareftirspurn hefur aukist umfram þjóðarframleiðslu. Það má gera ráð fyrir að hrávara til framleiðslu haldi áfram að hækka tímabundið bæði til matvælaframleiðslu og í iðnaði, þetta er að gerast út um allan heim. Það er þó von til að síðar á árinu lægi öldur og jafnvægi aukist.

Endurmeta forsendur

Nei, verðtrygging er ekki óklífanlegt fjall. Við getum nefnilega haft áhrif á gang mála. Það er nauðsynlegt að endurmeta forsendur og útreikninga verðbólgu og verðtryggingar. Framsókn hefur ítrekað kallað eftir því að stjórnvöld beiti sér fyrir því að vísitala neysluverðs til verðtryggingar verði hér eftir reiknuð án húsnæðisliðar. Fasteignaverð er liður í neysluvísitölu hér á landi og af þeim sökum hafa stýrivextir og höfuðstólar verðtryggðra lána verið hærri en í nágrannalöndum þar sem stuðst er við samræmda vísitölu neysluverðs.

Húsnæðismarkaðurinn óútreiknanleigur

Sá darraðadans sem hefur átt sér stað á húsnæðismarkaði landsmanna hefur skapað óyndi verðbólgu og hún vex vegna aukinnar eftirspurnar. Þetta hófst á höfuðborgarsvæðinu þar sem eftirspurn eftir húsnæði er umfram framboðinu. Höfuðborgin hefur alls ekki staðið sig undanfarin áratug í framboði á lóðum heldur einblínt á þéttingu byggðar og því fer sem fer. Vaxtasvæði í kringum höfuðborgina hefur staðið sig betur með að bregðast við eftirspurninni. Nágrannalönd okkar nota aðrar forsendur við útreikninga verðbólgu og þar sem húsnæðismarkaðurinn er lítill og auðhreyfður verðum við í alvöru að skoða hvort ekki sé komin tími til að horfa fram hjá honum.

Nú þegar vorar verðum við að líta til sólar. Stjórnvöld hafa borið gæfu til að leggja fram efnahagslegar mótvægisaðgerðir til að minnka þau efnahagslegu áhrif sem heimsfaraldurinn hefur hrundið af stað. Mótvægisaðgerðir eru komnar á þriðja tug. Nú þurfum við enn frekar að horfa til fjölskyldna í landinu.

Afnemum húsnæðisliðinn úr vísitölunni.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Fjölbreytni í sveitarstjórnum

Deila grein

02/02/2022

Fjölbreytni í sveitarstjórnum

Þann 14. maí nk. verður kosið til sveitarstjórna í landinu. Í dag eru nærri 70 sveitarfélög í landinu, og þau eru grundvallareining í stjórnskipan landsins. Stjórnsýsla þeirra er mikilvæg í lýðræðislegri ákvörðun um grunnþjónustu í nærsamfélagi íbúa landsins. Það er því gríðarlega mikilvægt hverju sveitarfélagi að sveitastjórnin endurspegli sem best íbúasamsetningu þess.

Í núgildandi byggðaáætlun kemur fram mikilvægi þess að auka þátttöku kvenna í sveitarstjórnum og að það þurfi að hvetja konur til þátttöku. Í aðgerðaráætlun með byggðaáætlun er lögð áhersla á þennan þátt með því að fara í fræðslu- og auglýsingaherferð með þetta að markmiði.

Hver er staðan?

Eftir síðustu sveitastjórnarkosningar var niðurstaðan ásættanleg því að 47% sveitarstjórnarfólks voru konur og hefur það aldrei verið hærra. Það er brýnt að viðhalda þeirri skiptingu í komandi kosningum.

Listar endurspegli fjölbreytni

Kvenréttindafélag Íslands, Innviðaráðuneytið, Fjölmenningasetrið og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa hrint á stað framtaki sem kallast Játak. Játak vekur athygli íbúa sveitarfélaga og þeim sem fara í forsvari til þess að huga að fjölbreytni og að standa vörð um rétt allra kynja og að komandi listar til framboðs í komandi sveitarfélögum spanni litróf mannlífsins í viðkomandi sveitarfélagi. Einnig þarf að huga að dreifingu fulltrúa í fjölkjarnasveitarfélögum.

Við erum svo heppin að mannlífið er fjölbreytt um allt land. Til þess að nýta kraftinn og sköpunargleðina sem felst í því þarf að tryggja það að þessi atriði skila sér að ákvarðanatöku innan stjórnsýslu sveitarfélagsins. Ef þess er ekki gætt fer fljótt að gæta togstreitu mismunandi skoðana og hætt er á að samkeppnisstaða samfélagsins verði ekki eins kröftug og ella. Það er jú vilji allra sveitarfélaga að fólk vilji og geti þrifist í samfélaginu.

Af hverju að taka þátt?

Viltu hafa áhrif á samfélagið þitt? Hefur þú hugmyndir og sýn um uppbyggingu og tækifæri sveitafélagsins? Sveitarstjórnir og nefndir þess eru einmitt vettvangurinn til þess. Það fylgir því mikil ábyrgð að taka þátt í stjórnmálum, en það getur líka verið ótrúlega gaman.

Ef þú hefur áhuga þá hvetjum við þig til að íhuga framboð.

Ef þú situr í uppstillinganefnd eða hyggst kjósa í prófkjöri þá hvetjum við þig til að huga að fjölbreytni á lista.

Halla Signý Kristjánsdóttir og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, eru þingmenn Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist í Bæjarins besta 2. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Endómetríósa

Deila grein

01/02/2022

Endómetríósa

Fram að þessu hef­ur lít­il at­hygli beinst að þeim sjúk­dóm­um sem leggj­ast sér­stak­lega á kon­ur. Þær hafa mætt höfn­un þegar þær leita til heil­brigðis­kerf­is­ins og gengið gegn­um erfitt grein­ing­ar­ferli, en skort­ur er á al­mennri fræðslu um slíka sjúk­dóma.

Einn þeirra sjúk­dóma sem hrjá kon­ur og hef­ur fengið litla at­hygli hingað til, er en­dómetríósa. En­dómetríósa er krón­ísk­ur, fjöl­kerfa sjúk­dóm­ur sem get­ur verið þung­bær og afar sárs­auka­full­ur. Sjúk­dóm­ur­inn leggst á ein­stak­linga sem fæðast í kven­lík­ama og er gjarn­an kallaður „endó“ í dag­legu tali, en einnig er not­ast við hug­takið legs­límuflakk. Af þeim sem hafa sjúk­dóm­inn eru um 60% með ein­kenni og um 20% með mjög sár ein­kenni. Sjúk­dóm­ur­inn ein­kenn­ist meðal ann­ars af mikl­um sárs­auka við blæðing­ar, sárs­auka við egg­los, verkj­um í kviðar­holi á milli blæðinga, verkj­um við sam­far­ir, þvag­lát og hægðalos­un. Auk þess ger­ir sjúk­dóm­ur­inn það erfitt að verða barns­haf­andi og leiðir til erfiðleika á meðgöngu og við fæðingu. Á 20 ára tíma­bili greind­ust um 1.400 kon­ur með sjúk­dóm­inn á Íslandi. Því má reikna með að á hverj­um tíma eigi hundruð ef ekki þúsund­ir kvenna í vanda vegna sjúk­dóms­ins hér á landi, en hjá mörg­um þeirra grein­ist sjúk­dóm­ur­inn seint og ekki fyrr en óaft­ur­kræf­ar vefja­skemmd­ir hafa orðið. Í gegn­um tíðina hafa verið uppi rang­hug­mynd­ir um en­dómetríósu og upp­lýs­inga­gjöf vill­andi, enda er ekki auðvelt að út­skýra sjúk­dóms­mynd­ina. Það hef­ur leitt til þess að minna er gert úr hon­um en ella. Ein rang­hug­mynd­in er að verk­ir séu eðli­leg­ur hluti af lífi kon­unn­ar eða að tíðaverk­ir séu fyrst og fremst sál­ræn­ir.

Jafn­rétti í heilsu og heil­brigðisþjón­ustu

Nú­ver­andi stjórn­völd hafa lagt áherslu á jafn­rétti lands­manna til heil­brigðisþjón­ustu eins og fram kem­ur í heil­brigðis­stefnu sem samþykkt var á Alþingi á vor­dög­um 2019. Það þarf líka að huga að heil­brigðisþjón­ustu út frá kynj­um. Í skýrslu sem dr. Fann­borg Salome Steinþórs­dótt­ir, nýdoktor í kynja­fræði við Há­skóla Íslands, tók sam­an fyr­ir heil­brigðisráðherra á liðnu ári um heilsu­far og heil­brigðisþjón­ustu út frá kynja- og jafn­rétt­is­sjón­ar­miðum kem­ur fram að kon­ur lifi mun fleiri ár við slæma heilsu en karl­ar þótt meðalævi þeirra sé lengri. Það seg­ir kannski til um að nokkuð vanti upp á að kon­ur hafi haft nægj­an­lega aðkomu að heil­brigðisþjón­ustu.

Beina þarf at­hygli að heilsu kvenna

Fyr­ir tveim­ur árum fékk ég samþykkta þings­álykt­un mína um að fela heil­brigðisráðherra að beita sér fyr­ir fræðslu til al­menn­ings um vefjagigt og láta fara fram end­ur­skoðun á skip­an sér­hæfðrar end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu sjúk­linga. Vorið 2020 kom út end­ur­hæf­ing­ar­stefna sem fel­ur í sér að gera sam­an­tekt um end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu sem til staðar er í land­inu og benda á leiðir til úr­bóta í þeim efn­um. Í kjöl­farið var unn­in aðgerðaáætl­un um end­ur­hæf­ingu til fimm ára þar sem m.a. er lögð áhersla á end­ur­hæf­ingu sjúk­linga með vefjagigt. Í maí 2021 komu fram stöðuskýrsla og til­lög­ur starfs­hóps heil­brigðisráðherra um end­ur­hæf­ingu fyr­ir fólk með lang­vinna verki. Í skýrsl­unni eru tekn­ar sam­an tölu­leg­ar upp­lýs­ing­ar um fjölda þess fólks og þær meðferðir sem standa til boða kortlagðar. Auk þess eru gerðar til­lög­ur að úr­bót­um og auk­inni þjón­ustu við ein­stak­linga með lang­vinna verki. Ekk­ert er talað um en­dómetríósu í þess­ari skýrslu þó sjúk­dóm­ur­inn sé or­sök lang­vinnra verkja fjölda kvenna hér á landi. Í loka­orðum skýrsl­unn­ar er tekið fram að hér á landi skorti veru­lega upp á hvert skuli vísa ein­stak­ling­um þegar meðferð hef­ur ekki gagn­ast og talað um að tölu­vert vanti upp á að heil­brigðis­starfs­fólk fái fræðslu og þjálf­un í meðferð lang­vinnra verkja.

Auka þarf fræðslu og þjón­ustu

Ég hef lagt fram þings­álykt­un­ar­til­lögu um að fela heil­brigðisráðherra að beita sér fyr­ir að efla fræðslu meðal al­menn­ings og starfs­fólks heil­brigðis­stofn­ana. Í álykt­un­inni er ráðherra falið að láta fara fram end­ur­skoðun á heild­ar­skipu­lagi þjón­ust­unn­ar með það að mark­miði að stytta grein­ing­ar­ferlið og bjóða upp á heild­ræna meðferð, en í því felst m.a. að skoða verk­ferla, niður­greiðslu lyfja og fjár­mögn­un til að tryggja mönn­un og aðstöðu til að sinna ein­stak­ling­um með en­dómetríósu með sem bestu móti.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. janúar 2022.

Categories
Greinar

Það vorar og veiran veikist

Deila grein

22/01/2022

Það vorar og veiran veikist

Í upp­hafi árs 2020 fóru að ber­ast frétt­ir af því að heims­far­ald­ur væri yf­ir­vof­andi vegna skæðrar veiru. Nokkuð sem við átt­um svo sann­ar­lega ekki von á. Síðan eru liðin tvö ár. Það er óhætt að segja að við höf­um farið hæðir og lægðir í far­aldr­in­um. Nú erum við stödd á enn ein­um toppn­um, sem virðist vera og er von­andi hæst­ur en ekki verst­ur. Stjórn­völd fengu óvænt það öfl­uga verk­efni í fangið að bregðast við af­leiðing­um far­ald­urs­ins með marg­vís­leg­um hætti. Í upp­hafi var tek­in sú skyn­sam­lega ákvörðun að fylgja sér­fræðing­um í sótt­varnaaðgerðum, það var okk­ar gæfa.

Rétt­ar sótt­varnaaðgerðir

Við sjá­um það nú að með því að fylgja sér­fræðing­um náðum við að halda heil­brigðis­kerf­inu það öfl­ugu að það hélt í við veiru­skömm­ina. Ég ætla ekki að leyfa mér að hugsa til þess hvernig ástandið væri ef okk­ur hefði ekki tek­ist það. Í því sam­hengi get­um við litið til annarra þjóða sem börðust í bökk­um þrátt fyr­ir öfl­ugt heil­brigðis­kerfi. Í Banda­ríkj­un­um voru á þessu tíma­bili fleiri lík­geymslugám­ar fyr­ir utan sjúkra­hús í New York en bíl­ar starfs­manna. Fólk hér á landi ger­ir sér kannski ekki al­mennt grein fyr­ir því að heil­brigðis­stofn­an­ir víða um Ísland voru með plön um hvar ætti að geyma lík­in. Við get­um þakkað fyr­ir að sú sviðsmynd raun­gerðist ekki.

Eitt það mik­il­væg­asta er að okk­ur hef­ur tek­ist að halda skól­um lands­ins opn­um. Sér­fræðing­ar eru þegar farn­ir að tala um að langvar­andi sótt­kví og aðskilnaður frá skóla geti haft nei­kvæð áhrif á náms­ár­ang­ur barna og and­lega líðan. Hvernig ætli staðan sé hjá þeim börn­um víða er­lend­is sem voru skikkuð heim í marga mánuði, og eru jafn­vel nú, tveim­ur árum seinna, að sækja skóla tak­markað?

Aðgerðir á aðgerðum ofan

Veir­an hef­ur boðið upp á marg­vís­leg verk­efni og enn blæs úr öll­um átt­um. Stjórn­völd hafa borið gæfu til að leggja fram efna­hags­leg­ar mót­vægisaðgerðir til að minnka þau efna­hags­legu áhrif sem heims­far­ald­ur­inn hef­ur hrundið af stað. Stjórn­völd hafa þurft að hugsa hratt og bregðast við, þær aðgerðir sem stjórn­völd hafa lagt fram telja á þriðja tug. Þær fela í sér stuðning við rekstr­araðila vegna ófyr­ir­séðs tekju­falls, aðgerðir til að örva eft­ir­spurn, aðgerðir til að viðhalda ráðning­ar­sam­bandi og skapa störf, aðgerðir til að varðveita kaup­mátt heim­ila og ekki síst vernd­un viðkvæmra hópa.

Í haust var lagt mat á ár­ang­ur af þess­um aðgerðum. Var það mat sér­fræðings að hag­stæð skuld­astaða rík­is­sjóðs, hag­kvæmt sam­spil pen­inga­stefnu og rík­is­fjár­mála og aðgerðir stjórn­valda hefðu mildað áhrif heims­far­ald­urs­ins á efna­hags­lífið sem end­ur­spegl­ast í hratt minnk­andi at­vinnu­leysi.

Jaka­hlaup

Að standa í stafni og taka ákv­arðanir í þessu ástandi má líkja við jaka­hlaup, erfitt er að taka lang­tíma­ákv­arðanir. Þegar fót­un­um er náð á einn jaka þarf að ákv­arða hvaða jaka skal stefnt á næst. Það eru næg verk­efni fram und­an að fást við eftir­köst veirunn­ar, geðheilsu þjóðar­inn­ar og áfram­hald­andi upp­bygg­ingu at­vinnu­lífs og efl­ingu sam­fé­lags­ins.

Við erum orðin lúin eft­ir þenn­an tíma. En við verðum að halda áfram veg­inn ásamt því að halda okk­ur við skyn­sam­leg­ar sótt­varnaaðgerðir og ár­ang­urs­rík­ar efna­hags­leg­ar aðgerðir. Við meg­um held­ur ekki gleyma því að brosa. Það vor­ar og veir­an gef­ur eft­ir, það er ekki í boði að gef­ast upp núna.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. janúar 2022.

Categories
Greinar

Farðu var­lega, það gæti komið snjó­flóð

Deila grein

19/01/2022

Farðu var­lega, það gæti komið snjó­flóð

Þorrinn er á næsta leiti með öllum sínum tilbrigðum í veðri sem okkur býðst á þessu landi. En það þarf ekki þorrann til að vá liggi yfir á vegum landsins. Í þessari viku urðu öfgar í veðrabrigðum þess valdandi að vegir um Súðavíkur- og Eyrarhlíð lokuðust vegna snjóflóða. Lokunin um Súðarvíkurhlíð stóð yfir í 14 klukkustundir. Þar á undan hafði verið viðvörun vegna snjóflóðahættu í tvo sólarhringa. Þegar veginum var lokað síðastliðið sunnudagskvöld urðu 25 manns veðurtepptir í Súðavík. Súðvíkingar eru þekktir fyrir taka vel á móti fólki í þessum aðstæðum en það er þó ekki auðvelt sérstaklega á tímum samkomutakmarkanna.

Það má segja að Vestfirðingar séu orðnir vanir öðru eins í gegnum árin en þrátt fyrir það er grundvallarþörf þess samfélags sem við erum búin að hanna greiðar samgöngur. Kröfur um enn meiri samvinnu í samfélögum krefjast betri og öruggari samgangna. Gríðarlegar samgöngubætur hafa orðið á Vestfjörðum, þá sérstaklega á norðanverðu svæðinu. Mikil aukning hefur orðið á vetrarþjónustu sl. áratugi en úrbóta er enn þörf. Sér í lagi þegar frekari uppbygging atvinnulífs við Djúp eru fyrirhugaðar, bæði í laxeldinu og á vinnslu kalkþörunga í Súðavík.

Jarðgöng er lausnin

Það er ljóst að það þarf að ráðast í jarðgangnaframkvæmdir milli Súðavíkur og Ísafjarðar, aðeins þannig er hægt að tryggja öryggi vegfarenda. Það er ekki bara lokun vegarins sem skapar vanda heldur eru oft í gildi óvissustig, þá falla snjóflóð utan lokana sem og grjóthrun. Það ber þó að taka fram að vöktun á hættunni hefur aukist og orðið betri. Þrátt fyrir að vegfarendur pirri sig á lokunum, þá er gott að vita af því að fylgst er vel með þegar hættuástand skapast og brugðist við því. Það vill enginn að slys verði á veginum.

Uppbygging samfélaga

Samgöngubætur og greiðar samgöngur er grunnur fyrir uppbyggingu og þéttingu samfélaga. Það er gríðarlega mikilvægt að skoða hugmyndir um jarðgöng milli byggðakjarna á Vestfjörðum af fullri alvöru. Á Vestfjörðum býr fólk sem sækir vinnu daglega milli svæða, fólk sem vinnur m.a. við fiskeldi en það skilar þjóðarbúinu milljarða í útflutningstekjur. Svo að þessi atvinnugrein sem og aðrar á svæðinu haldi áfram að skila tekjum til þjóðarinnar þá þurfa að vera til staðar skilvirkar, öruggar, heilsárs samgöngur. Í þessu samhengi er einnig mikilvægt að huga að jarðgöngum frá Patreksfirði yfir í Tálknafjörð og undir Hálfdán.

Við þurfum að horfa til framtíðar, fleiri jarðgöng eru og eiga að vera möguleg. Mikilvægt er að um þau sé kveðið í samgönguáætlunum næstu ára. Ég get lofað ykkur því að jarðgöng koma til með að borga sig á margan hátt.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. janúar 2022.

Categories
Greinar

Lokað vegna raf­magns­leysis

Deila grein

09/12/2021

Lokað vegna raf­magns­leysis

Fréttir vikunnar þar sem Landsvirkjun tilkynnti að skerða þyrfti nú þegar afhendingu á raforku til fyrirtækja vegna raforkuskorts og annmarka á flutningsgetu hafa væntanlega ekki farið fram hjá mörgum. Þurfum við að vera hissa Nei! Þetta getur ekki komið á óvart. Það er staðreynd að raforkuöryggi víða um land er ábótavant.

Flutningslínur eru mannvirki sem komin eru í mikla viðhaldsþörf og enn eru landshlutar sem hreinlega vantar tengingu við meginstofnæðar landsins og búa við skert raforkuöryggi allt árið.

Lítið hefur þokast síðustu ár

Þetta ástand skapar óþægindi fyrir almenning og veldur því að atvinnutækifæri eru andvana fædd vegna skorts á öruggri raforku. Erfitt er að sjá fyrir vinnutapi ásamt því að margur búnaður er viðkvæmur og þolir ekki rafmagnsleysi.

Fyrir sléttum tveimur árum gekk óveður yfir landið með tilheyrandi tjóni á flutningslínum raforku bæði í dreifikerfi og flutningskerfi Landsnets. Í kjölfarið fóru stjórnvöld á stað með samráðshópa um hvernig mætti koma í veg fyrir slíkt tjón endurtæki sig og að finna veikustu hlekkina í flutningskeðjunni. Hrundið var af stað átaksverkefni og ýmislegt var bætt og endurnýjað. En þau landsvæði sem búa ekki við hringtengingu búa enn við sama óöryggið.

Árið 2009 skipaði þáverandi iðnaðarráðherra ráðgjafahóp til að þess að meta leiðir til að bæta raforkuöryggið á Vestfjörðum og í fyrra kom út skýrsla samstarfshóps um bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. En því er nú verr og miður að lítið hefur þokast í þessum efnum síðasta áratuginn.

Biluð jólaséría

Það á ekki að vera hluti af aðventustemmingunni að uppgötva vanmátt flutningskerfis raforku í landinu, líkt og þegar jóla sería er tekin úr geymslu á þorláksmessukvöld og allar perur eru ónýtar og búið að loka verslunum. Við getum ekki beðið lengur, það verður að huga að fullri alvöru að virkjunarkostum á Vestfjörðum ásamt því að flýta viðhaldi og nýbyggingu flutningskerfis.

Smávirkjanir eru mikilvægur liður í þessari uppbyggingu. Svo hægt sé að nýta þær í auknu mæli þarf að endurskoða lög og reglugerðir sem gilda um leyfisveitingar til uppsetningar smávirkjana með það að markmiði að einfalda umsóknarferli í tengslum við þær. Smávirkjanir tengjast raforkukerfinu um dreifiveitur landsins og styrkja þannig þær flutningsleiðir. Með smávirkjunum er verið að nýta, styrkja og bæta rekstur þess raforkukerfis sem nú þegar hefur verið byggt upp af samfélaginu. Smávirkjunum á Vestfjörðum hefur fjölgað og þær hafa sannað sig sem mikilvægur liður í raforkuöryggi á svæðinu.

Vinna sem þarf að vinna

Það er morgunljóst að við þurfum að fara að sinna þessum málum af fullri alvöru. Útbúa þarf sérstaka rammaáætlun sem nær bæði til minni og stærri virkjunarkosta líkt og lagt er til í skýrslu samstarfshóps um bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Við þurfum að huga að uppbyggingu og leggja fram lausnir til framtíðar. Þá fyrst þá getum við treyst raforkuöryggi um allt land.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. desember 2021.