Categories
Greinar

Ísland fulltengt – ljósleiðaravæðing byggðakjarna

Deila grein

23/04/2021

Ísland fulltengt – ljósleiðaravæðing byggðakjarna

Í lok þessa mánaðar mun ég staðfesta síðustu samn­inga rík­is­ins við sveit­ar­fé­lög á grund­velli sam­vinnu­verk­efn­is­ins Ísland ljóstengt, en um það verk­efni hef­ur ríkt þver­póli­tísk samstaða. Margt má læra af skipu­lagi og fram­kvæmd þessa verk­efn­is sem ég lagði horn­stein að með grein minni „Ljós í fjós“ árið 2013. Það vega­nesti þurf­um við að nýta við áfram­hald­andi upp­bygg­ingu fjar­skiptainnviða á landsvísu. Fjar­skiptaráð, sem starfar á veg­um sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneyt­is­ins, fundaði ný­verið með öll­um lands­hluta­sam­tök­um utan höfuðborg­ar­svæðis­ins um stöðu og áskor­an­ir í fjar­skipt­um. Niðurstaða þess­ara funda var m.a. sú að áskor­an­ir eru ekki alls staðar þær sömu þó að brýn­asta úr­lausn­ar­efnið sé hið sama um allt land, en það er ljós­leiðara­væðing byggðakjarna.

Stóra mynd­in í ljós­leiðara­væðingu lands­ins er sú að eft­ir sitja byggðakjarn­ar vítt og breitt um landið, sem hafa ekki aðgang að ljós­leiðara nema að tak­mörkuðu leyti. Það er ein­fald­lega ekki boðleg staða á fyrstu árum fjórðu iðnbylt­ing­ar­inn­ar. Skila­boð sveit­ar­fé­laga eru af­drátt­ar­laus og skýr í þess­um efn­um – það er for­gangs­mál að ljós­leiðara­væða alla byggðakjarna.

Í ný­legri grein okk­ar Jóns Björns Há­kon­ar­son­ar, for­manns fjar­skiptaráðs, und­ir yf­ir­skrift­inni „Ísland full­tengt – ljós­leiðari og 5G óháð bú­setu“, er kynnt framtíðar­sýn um al­menn­an aðgang heim­ila og fyr­ir­tækja að ljós­leiðara án þess þó að fjalla um hvernig sam­fé­lagið geti náð henni fram. Tíma­bært er að taka upp þann þráð. Eft­ir því sem nær dreg­ur verklok­um í Ísland ljóstengt er oft­ar spurt hvort ríkið ætli að láta sig ljós­leiðara­væðingu byggðakjarn­anna varða og þá hvernig. Fram til þessa hef ég talið mik­il­vægt að draga ekki at­hygli sveit­ar­fé­laga of snemma frá ljós­leiðara­væðingu dreif­býl­is­ins, sem hef­ur reynst tölu­verð áskor­un, einkum fyr­ir minni og dreif­býlli sveit­ar­fé­lög. Von­ir stóðu til þess að ljós­leiðara­væðing byggðakjarna færi fram sam­hliða Ísland ljóstengt-verk­efn­inu á markaðsleg­um for­send­um en sú upp­bygg­ing hef­ur því miður ekki gengið eft­ir sem skyldi.

Ég hyggst svara ákalli um ljós­leiðara­væðingu byggðakjarna og leggja grunn að nýju sam­vinnu­verk­efni, Ísland full­tengt, í sam­ræmi við mark­mið fjar­skipta­áætl­un­ar um að ljúka ljós­leiðara­væðingu lands­ins alls fyr­ir árs­lok 2025. Fjar­skiptaráði og byggðamálaráði hef­ur þegar verið falið að greina stöðuna á landsvísu í sam­vinnu við Póst- og fjar­skipta­stofn­un, í því skyni að und­ir­byggja val­kosti og ákvörðun­ar­töku um aðkomu stjórn­valda að einu brýn­asta byggðamáli sam­tím­ans.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. apríl 2021.

Categories
Greinar

Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu

Deila grein

11/03/2021

Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu

Öflugir fjarskiptainnviðir eru forsenda búsetu og fjölbreyttrar atvinnustarfsemi á landsbyggðinni. Ísland er í röð fremstu ríkja heims í fjarskiptainnviðum samkvæmt mati Alþjóðafjarskiptastofnunarinnar. Sú staða er ómetanleg en enginn endapunktur því tækninni fleygir fram og nýjar áskoranir blasa við. Þörf er á metnaðarfullri framtíðarsýn fyrir útbreiðslu og áreiðanleika fjarskipta um land allt nú þegar landsátakinu Ísland ljóstengt, sem á stóran þátt í að þessari góðu stöðu, fer að ljúka.

Landsátakið Ísland ljóstengt og uppbygging opinberra aðila á fjarskiptaaðstöðu á undanförnum árum er lýsandi dæmi um sérstaka fjármögnun á vegum ríkis og heimafólks til að jafna aðstöðumun milli dreifbýlis og þéttbýlis. Með lokaúthlutun fjarskiptasjóðs seinna í þessum mánuði hefur ríkið styrkt með beinum hætti tengingu um 6.000 lögheimila og annarra styrkhæfra staða í dreifbýli landsins og stuðlað óbeint að tengingu þúsunda sumarhúsa og annarra bygginga. Þetta landsátak hefur þegar bylt forsendum búsetu og atvinnurekstrar í sveitum landsins. 

Rúmt ár er síðan óveður afhjúpaði veikleika í raforkukerfinu sem olli truflun á fjarskiptum einkum á Norðurlandi og Austurlandi. Brugðist var hratt við og hafa stjórnvöld þegar m.a. bætt varaafl á rúmlega 68 fjarskiptastöðum víða um land. Framhald verður á verkefninu í ár í samvinnu fjarskiptasjóðs sem leggur til fjármuni og Neyðarlínunnar sem sér um framkvæmdir. Öryggiskröfur samfélagsins eru einfaldlega ríkari en það sem fjarskiptafyrirtæki eru skuldbundin til að gera eða geta tryggt á markaðslegum forsendum, einkum á landbyggðinni.

Fyrirsjáanleiki aðalatriði

Fólk vill aðgang að nýjustu og bestu fjarskiptaþjónustu hverju sinni og gerir jafnframt kröfu um að þjónustan sé áreiðanleg, örugg og á viðráðanlegu verði. Regluverkið, með áherslu á samkeppni og markaðslausnir, tryggir það upp að vissu marki. Þolinmæði gagnvart óvissu og bið eftir markaðslausnum er þó á undanhaldi.

Áhyggjur íbúa utan helstu þéttbýlissvæða hafa lengi snúist um hvort ljósleiðarinn eða nýjar kynslóðir farneta verði yfir höfuð í boði. Vissan fyrir því að ljósleiðarinn komi á grundvelli Ísland ljóstengt, hefur skapað ákveðna sátt og skilning gagnvart því að slík uppbygging getur ekki átt sér stað samtímis um allt land. Einhver byggðarlög verða á undan öðrum. Stóra málið er fyrirsjáanleiki um að ljósleiðarinn sé í það minnsta á leiðinni.

Kveikjan að Ísland ljóstengt var framtíðarsýn og markmið stjórnvalda um að ljósleiðaravæða dreifbýlið. Það gleðiefni að sjá nú fyrir endann á þessu samvinnuverkefni sem hornsteinn var lagður að með blaðagrein sem birtist 30. mars 2013 undir yfirskriftinni „Ljós í fjós“.

Landsdekkandi þráðlaus fjarskiptakerfi í opinberri eigu

Þó að 5G uppbygging sé ekki mjög brýn í þeim afmarkaða tilgangi að auka bandbreidd hér á landi, er sannarlega tímabært að huga að almennum markmiðum og aðgerðum til þess að gera samfélagið í stakk búið að hagnýta þá fjölbreyttu þjónustu sem 5G gerir mögulega á næstu árum.

Við þessi tímamót er viðeigandi að setja fram nýja framtíðarsýn sem er verðugur arftaki „Ljós í fjós“.

Neyðarlínan, sem er í opinberri eigu, á og rekur landsdekkandi neyðarfjarskiptakerfið TETRA fyrir neyðar- og viðbragðsaðila af miklum myndarskap. Hugað er nú að endurnýjun eða arftaka þess kerfis hér á landi, í Noregi og víðar.

Rekstur fjarskiptaaðstöðu og sendakerfa reynist Ríkisútvarpinu umtalsverð áskorun og tímabært er fyrir félagið að huga að endurnýjun/arftaka eigin og útvistaðra sendakerfa.

Margt bendir til þess að 5G tæknin geti hæglega leyst þarfir þeirra sem nýta TETRA og RÚV til framtíðar er varðar þráðlaus fjarskipti eða útsendingar. Í því felast tækifæri til tækniuppfærslu og hagræðingar. Fátt bendir til þess að skynsamlegt sé fyrir opinbera aðila að reka mörg sjálfstæð þráðlaus fjarskiptakerfi með háu öryggisstigi til framtíðar á sömu svæðum.

Ljósleiðari og 5G í byggðakjörnum

Ljósleiðaravæðing landsins heldur áfram og eru það eingöngu byggðakjarnar á landsbyggðinni sem búa nú við óvissu um hvort eða hvenær röðin kemur að þeim og á hvaða forsendum. Búast má við að fyrirhugað útboð á tveimur NATO-ljósleiðurum verði útfært m.a. með aukna samkeppni á landshringnum í huga og hvata til ljósleiðarauppbyggingar fjarskiptafyrirtækja í byggðakjörnum. Sú ljósleiðaravæðing, og þar með landsins alls, gæti því verið langt komin fyrir lok næsta kjörtímabils.

Líklegt er að uppbygging 5G gagnvart helstu þéttbýlissvæðum fari fram á markaðslegum forsendum og án sérstakra opinberra hvata. Slík uppbygging er hafin. Fyrirsjáanleiki í uppbyggingu markaðsaðila á 5G gagnvart litlum byggðakjörnum og utan þéttbýlis er hins vegar minni. 

Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu

Á kjörtímabilinu hefur margt áunnist, hvort tveggja er varðar uppfærslu regluverks fjarskipta og netöryggis og uppbyggingu fjarskiptainnviða. Tímabært er að leggja línur fyrir nýja framsókn í fjarskiptum. Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu.

Með slíkri framtíðarsýn og tilheyrandi aðgerðum væri óvissu eytt um það hvort fólk, óháð búsetu, fái notið þeirrar þjónustu sem verður forsenda og hvati samfélagslegra framfara og nýsköpunar um land allt í fyrirsjáanlegri framtíð. Standi hún til boða er eðlilegt að hún verði jafnframt áreiðanleg, örugg og á sanngjörnu verði.

Á svæðum þar sem forsendur fyrir samkeppni í innviðum er ekki til staðar virðist vera skynsamlegt að byggja og reka eitt gott dreifikerfi sem bæði opinberir aðilar og markaðsaðilar geta nýtt. Hagkvæmni í innviðauppbyggingu skiptir máli. Kominn er tími til að opinberir aðilar sem eiga og reka fjarskiptainnviði ræði uppbyggingu fjarskiptainnviða til framtíðar og ákveðið verði hvernig hið mikilvæga hlutverk þeirra og samspil verður útfært með hliðsjón af heildstæðri framtíðarsýn og áherslu á byggðasjónarmið. Þar gæti komið til greina full sameining eða verulega aukið samstarf fjarskiptainnviðafyrirtækja í opinberri eigu.

5G verður bráðlega nauðsynleg innviðaþjónusta gangi spár eftir. Verður nokkurs konar grunnþjónusta og því enn ríkari ástæða til þess að setja fram heildstæða nálgun þess hvernig við ætlum að tryggja þá grunnþjónustu íslensku samfélagi til hagsbóta, óháð búsetu. Sundabraut verður ekki byggð á einum degi og það sama á við um 5G þjónustu um land allt, en framtíðarsýnin og markmiðin þurfa að vera skýr.

Verkefnið hlýtur að vera að tryggja fyrirsjáanleika í aðgengi, öryggi og verðlagningu 5G þjónustu gagnvart byggð, atvinnulífi, samgöngum og samfélagslega mikilvægum svæðum á landsbyggðinni sem og annars staðar. Einn lykill að þeirri vegferð er að nýta tækifæri til uppfærslu og langtíma hagkvæmni í fjárfestingum og rekstri landsdekkandi þráðlausra fjarskiptakerfa opinberra aðila, þ.m.t. Neyðarlínu og Ríkisútvarps. Annar lykill er að auka samvinnu og samþætta starfsemi fjarskiptainnviðafyrirtækja í opinberri eigu þannig að styðji við þessa vegferð, þ.m.t. að efla fjarskiptaaðstöðu og ljósleiðarastofnnet um landið.

Valkostir við uppbyggingu á landsbyggðinni

Fyrir liggur hvert viðfangsefnið er en ekki hvernig eigi að leysa það. Líkt og oftast eru valkostir í þeim efnum.

Nýstárlegur valkostur væri að efla Neyðarlínuna og fela henni að byggja og reka 5G kerfi, a.m.k. á markaðsbrestssvæðum, sem leysti af TETRA og kerfi RÚV á þeim svæðum. Með því gæti skapast möguleiki fyrir markaðsaðila að semja um aðgang að öruggum 5G sendum Neyðarlínunnar og möguleiki fyrir Neyðarlínuna að semja um aðgang að öruggum 5G sendum markaðsaðila á markaðssvæðum þeirra.

Aðrir hefðbundnari valkostir koma til greina, t.d. væri hægt að bíða og sjá hvað markaðsaðilum hugnast að gera á næstu árum. Þar má horfa til aukins samstarfs og samnýtingar við innviðauppbyggingu og jafnvel bjóða út 5G þjónustu svæðisbundið. Einnig mætti fela markaðsaðilum með útboðsleið að leysa verkefni Neyðarlínunnar og RÚV heildstætt um allt land með 5G og svo framvegis.

Það eru sem sagt fleiri en einn valkostur um leiðir og gaumgæfa þarf útfærslu þeirra. Aðalatriðið er að sammælast um það markmið að ná samlegð, hagræði og auknu öryggi með þróun kerfa RUV og Neyðarlínunnar í ljósi þeirrar 5G uppbyggingar sem fyrir dyrum stendur, almenningi í landinu öllu til heilla.

Áfram veginn

Greina þarf og bera saman mismunandi leiðir til að ná fram þeirri framtíðarsýn sem lögð er hér fram, Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu. Þær hafa tiltekna kosti og galla, mismunandi eftir því hver metur. Hér er ekki talað fyrir almennri ríkisvæðingu fjarskipta, heldur raunsæi gagnvart þeim fyrirsjáanlega markaðsbresti sem verður m.a. í uppbyggingu framtíðarkerfa og ekki síst 5G innviða. Þróunin er ör og mikilvægt er að taka verkefnið traustum tökum. Endurskoðun fjarskiptaáætlunar er hafin og því er tímabært að ræða um sameiginlega framtíðarsýn fyrir samfélagið og færar leiðir. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðarbyggðar og formaður Fjarskiptaráðs.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. mars 2021.

Categories
Greinar

Sjálfsögðu hlutirnir

Deila grein

18/02/2021

Sjálfsögðu hlutirnir

Lífsgæði, hagsæld, og staða innviða eru nátengd hvert öðru. Í gegnum tíðina höfum við líkast til farið að taka því sem gefnum hlut að búa við trausta og góða innviði, hafa heimilið upplýst allan sólarhringinn, alla daga ársins, vera með háhraða nettengingu, jafnvel víðs fjarri þéttbýli og að úr krananum renni bæði heitt vatn og kalt. Besta neysluvatn í heimi, fyrir 0 krónur. Að við komumst ferðar okkar að vild, bæði innanlands og utan. Að vísu skal það viðurkennt að við höfum ekki enn fundið endanlega lausn á ófærð, en við gerum okkar besta.

En svo gerist allt í einu eitthvað sem fær okkur til að staldra við og muna hvílík verðmæti þetta eru. Á landinu skellur stormur og í nokkra daga missir hluti landsmanna aðgang að hluta þessara innviða; vegir loka, rafmagnið dettur út og fjarskiptasamband rofnar. Algjört neyðarástand skapast. Ástand sem ekki er hægt að sætta sig við.

Endurreisn

Samtök iðnaðarins gaf út innviðaskýrslu árið 2017 í aðdraganda síðustu kosninga. Það var ljómandi góð tímasetning. Í mínum augum var sú skýrsla mjög gagnlegt því hún dró upp mynd af innviðum landsins í sennilega því slakasta ástandi sem þeir hafa verið í langan tíma. Árin á undan, allt frá bankahruni, voru ár vanfjárfestingar í samgönguinnviðum og þeir liðu fyrir og létu á sjá.

Þeir innviðir sem undir mitt ráðuneyti heyra, þjóðvegir, hafnir og flugvellir fengu ekki háa einkunn þá.

Í ríkisstjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar var kveðið á um nauðsynlega endurreisn íslenskra samgönguinnviða þar sem uppbyggingu væri hraðað, bæði í nýbyggingu og viðhaldi. Frá því ég tók við embætti samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hafa framlög í samgönguframkvæmdir aukist hratt.

Vegir, hafnir, flugvellir

Árið 2016, ári áður en umrædd skýrsla kom út, voru heildarframlög til framkvæmda og viðhalds vegakerfisins 16,4 milljarðar á verðlagi dagsins í dag. Þar af fóru rúmir 6 milljarðar í viðhald. Framlög til viðhalds höfðu haldist á bilinu 4,5-6 milljarðar frá 2010 og jafnvel lengur.

Í ár erum við að gera ráð fyrir að heildarframlög til framkvæmda og viðhalds vegakerfisins verði 35,5 milljarðar, þar af 11 milljarðar í viðhald, sjá meðfylgjandi töflu.

Framlög til hafnarframkvæmda úr hafnarbótasjóði voru 660 milljónir 2016 og 412 milljónir árið 2017. Á þessu ári verða framlögin rúmir 1,6 milljarðar.

Framlög til flugvalla og flugleiðsögu voru rúmir 1,9 milljarðar 2016 og 1,8 árið 2017. Á þessu ári verða framlögin 4,4 milljarðar. Allar þessar upphæðir eru á sama verðlagi og skiptast í viðhald og nýframkvæmdir í samræmi við ráðgjöf og forgangsröðun þeirra sem til þekkja.

Áfram veginn

Tveimur samgönguáætlunum og einu fjárfestingarátaki síðar fullyrði ég að staðan nú er allt önnur og betri. Það besta er að við erum rétt að byrja. Á næstu árum höfum við lagt grunn að  miklum uppbyggingaráformum um allt land. Nýtum við þar öll trixin í bókinni; stóraukin bein framlög til framkvæmda, þjónustu og viðhalds, aukin þátttaka einkaaðila og einkafjármagns með hinni svokölluðu samvinnuleið (PPP) ásamt möguleika á að nýta sértæka gjaldtöku til enn frekari framfara. Ég ætla að leyfa mér að slá því föstu að næstu 15 ár verði tímabil framfara og uppbyggingar sem muni búa í haginn fyrir hagvexti morgundagsins og lífskjörum framtíðar kynslóða þessa lands.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Categories
Greinar

Frelsi og fjötrar

Deila grein

10/02/2021

Frelsi og fjötrar

Víðtæk sátt þarf að nást um hálendisþjóðgarð allra Íslendinga eigi hann að verða að veruleika. Málið er umdeilt og sjónarmið eru margvísleg og því brýnt að vanda til undirbúnings með hliðsjón af því markmiði sem sátt verður um. Óheft aðgengi að miðhálendinu eru verðmæti í hugum almennings sem hefur kynnst náttúru og menningu og haft frelsi til athafna og upplifunar. Hefðbundin landnýting og nytjar hafa verið stundaðar á hálendi Íslands í hundruði ára og hafa margar hverjar menningarlegt gildi. Þannig er svæðið mikilvægt fyrir það fólk sem hefur um áraraðir haft umsjón með hálendinu, sinnt því af trúmennsku og á faglegan hátt. Þá sé um að ræða eitt mikilvægasta útivistarsvæði almennings til ýmissa nytja og afþreyingar.

Vernd og nýting

Almennt má segja að mikilvægt er að vernda viðkvæma hluta landsins, nýta náttúruauðlindir á sjálfbæran hátt og um leið að auðvelda fólki að upplifa og njóta frelsis í náttúrunni. Samvinna þarf að vera um vernd og nýtingu miðhálendisins eins og annars lands í sameign þjóðarinnar.

Í stjórnarsáttmálanum var fjallað um að stofnaður yrði þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila. Í stjórnarsáttmálanum var ekki tilgreint um stærð þjóðgarðs né stjórnfyrirkomulagið. Því fór það svo að þingflokkur Framsóknar lagðist gegn óbreyttu frumvarpi umhverfis- og auðlindaráðherra um hálendisþjóðgarð. Fyrirvararnir lúta að stærðartakmörkunum, valdi sveitarfélaga, frjálsri för, orkunýtingu ofl.

Fyrirvarar þingflokks Framsóknar

Ein nálgun gæti verið að byrja smátt í stað þess að teygja sig yfir stórt svæði en fyrirhuguð stærð hálendisþjóðgarðs nær yfir 30% af Íslandi með snertiflöt við mörg sveitarfélög sem liggja að þjóðgarðsmörkum. Sveitarfélögin hafa lagt áherslu á að þau sé höfð með í ráðum og að samþykki þurfi frá viðeigandi sveitarstjórnum um nákvæma afmörkun og skiptingu svæða í verndarflokka. Já, áskoranir eru margar. Til að mynda er töluverð áskorun að koma á stjórnunarfyrirkomulagi Hálendisþjóðgarðs sem nær á fullnægjandi hátt til allra sjónarmiða sem eiga erindi í stefnumótun og ákvarðanatöku sem og valdsvið umdæmisráða. Þá er óvíst hvernig farið verður með valdheimildir einstakra sveitafélaga yfir eigin mannvirkjum og öðrum eignum innan þjóðgarðsins.

Frjáls för

Enn er mörgum spurningum ósvarað um reglugerðir sem á eftir að semja, til dæmis um umferð og dvöl á hálendinu. Þingflokkur Framsóknar leggur því áherslur á að tryggja þurfi frjálsa för almannaréttar þannig að gangandi, hjólandi, ríðandi og akandi geti ferðast eins og nú um þjóðgarðinn án takmarkana. Margvísleg sjónarmiðið eru um útfærslur á stjórnun og vernd hálendisins en flest eiga þau það sameiginlegt að bera hag hálendisins og þar með landsins alls fyrir brjósti. Fólk sem býr við jaðar hálendisins ber sterkar taugar til þess líkt og þeir sem búa fjarri hálendinu. Skilningur á náttúrunni gerist best með umgengni við landið og skynsamlegri nýtingu þeirra er það byggja. Mikilvægt er að hlusta vel á þessar raddir og virða tilfinningar þeirra sem láta sig málið varða áður en ákvörðun er tekin um svæði sem spannar um þriðjung af Íslandi.

Kjalvegur

Til að tryggja aðgengi að miðhálendinu er nauðsynlegt að viðurkenna og setja inn í lagatexta að byggja þurfi upp vegi t.a.m. Kjalveg og setja fjármuni í umhverfismat og hönnun. Jafnframt þarf að liggja fyrir að skipuleggja eigi aðra vegi með beinni tilvísun til skipulags og valdheimilda einstakra sveitarfélaga á sínu svæði. Einnig er óljóst með núverandi starfsemi einkaaðila og sveitarfélaga við hugmyndir um starfsemi og fjármögnun þjóðgarðs. Þá gerir þingflokkur Framsóknar fyrirvara um að afmarka þurfi orkuvinnslusvæði, svæði í biðflokki í rammaáætlun 3 og flutningsleiðir raforku á miðhálendinu, hvort sem þau verða innan eða utan þjóðgarðs.

Samtalið

Að þessu sögðu er umtalsverð vinna eftir sem verður ekki hrist fram úr erminni á nokkrum mánuðum. Samtalið sem umhverfis- og auðlindaráðherra hefur átt um allt land þarf að halda áfram því enn er langt í land ef áformin eiga ná að verða að veruleika. Alls bárust 149 umsagnir til umhverfis- og samgöngunefndar sem hefur nú málið til umfjöllunar. Umsagnirnar koma víða að úr þjóðfélaginu sem ber þess merki að almenningi er virkilega annt um að ekki verði gerðar stórar breytingar eða byltingar sem skerða frelsi og lífsgæði fólks. Lífsgæði Íslendinga byggjast á því að skapa tækifæri af þeim verðmætum sem landið gefur okkur á sjálfbæran hátt. Landnýting þjóðgarðs er stór ákvörðun sem þarfnast víðtækrar sáttar.

Hálendið er ekki í hættu. Á síðustu árum hefur ríkt víðtæk sátt um að hálendið sé mikilvægur hluti af landinu, af okkur sjálfum. Þeir fyrirvarar sem við í Framsókn setjum fyrir framhaldinu snúast um að varðveita þá sátt, þann frið, sem ríkir um hálendið.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Dagskránni á Suðurlandi 10. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Fjarfundafært

Deila grein

27/01/2021

Fjarfundafært

„Þú ert á mjút“ er líklega setning síðasta árs, enda hefur fjarfundaformið rutt sér hratt og örugglega til rúms sem viðbragð við samkomutakmörkunum. Þessi hraða þróun í fjarfundum mun ef laust nýtast okkur til frambúðar af því að þetta form nýtist einkar vel í stóru og dreif býlu landi. Við höfum ekki aðeins nýtt fjarfundina í vinnunni heldur hefur netið verið mikilvægur gluggi milli fjölskyldu og vina á erfiðum tímum.

Það er ekki langt síðan samfélagið og atvinnulífið hefði lamast algjörlega við samkomutakmarkanir eins og þær sem við höfum búið við að mestu síðasta árið. Lykillinn að því að allir þessir fjarfundir, oft landshorna á milli, hafa getað farið fram, er sú mikla uppbygging sem hefur verið í ljósleiðaratengingum um allt land. Sú stefna sem síðar fékk nafnið Ísland ljóstengt, á upphaf sitt í grein sem ég skrifaði árið 2013 og bar yfirskriftina „Ljós í fjós“. Því verkefni lýkur á þessu ári og þá verða yfir 99% heimila og fyrirtækja með ljósleiðaratengingu, sem er samkvæmt síðustu upplýsingum einsdæmi í heiminum.

Byggðamálin hafa lengi verið mér sérstaklega hugleikin. Það er mikilvægt að þau skilyrði séu sköpuð að fólk geti búið og starfað um allt land. Nú stendur yfir vinna við metnaðarfulla byggðaáætlun sem lögð verður fyrir þingið á vormánuðum. Sú áætlun sem nú er í gangi hefur reynst vel og náðst að sameina krafta ólíkra aðila í því að hugsa um hvað það er sem þarf til að byggðir geti dafnað á ólíkum stöðum. Byggðaáætlun er þó ekki eina áætlunin sem snýr að blómlegum byggðum um allt land því samgöngur og fjarskipti leika þar lykilhlutverk. Stórsókn í samgöngum er hafin og metnaðarfullar áætlanir eru um áframhaldandi eflingu fjarskipta um allt land.

Það er aðeins ein leið út kófinu: Áfram, áfram veginn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. janúar 2021.

Categories
Greinar

Nýtt ár og ný framsókn fyrir landið allt

Deila grein

02/01/2021

Nýtt ár og ný framsókn fyrir landið allt

Ég kom heim úr vinnu einn dag­inn og brotnaði niður og gat ekki hætt að gráta.“ Þetta sagði Anna Sig­ríður Sig­urðardótt­ir í viðtali við Frétta­blaðið rétt fyr­ir jól­in. Í viðtal­inu lýs­ir hún því þegar snjóflóð féll á húsið henn­ar á Flat­eyri í janú­ar síðastliðnum. Dótt­ir Önnu Sig­ríðar bjargaðist giftu­sam­lega úr flóðinu sem fyllti her­bergið henn­ar. Í viðtöl­um strax eft­ir þetta áfall vakti það at­hygli hversu yf­ir­vegaðar þær voru. En áfallið kom síðar, af öllu afli.

Við þekkj­um þetta flest, hvernig hug­ur­inn vinn­ur úr áföll­um, hvernig hann hjálp­ar okk­ur að kom­ast í gegn­um erfiðar aðstæður. Og við vit­um það líka að það er mik­il­vægt að vera meðvitaður um hvaða áhrif áföll hafa á okk­ur og tak­ast á við þau af auðmýkt fyr­ir líf­inu sjálfu. Það verk­efni hafa þær mæðgur einnig tek­ist á við af æðru­leysi. Vil ég óska þeim góðs geng­is í sínu ferðalagi og þakka þeim fyr­ir að veita okk­ur inn­sýn í verk­efni sín.

Við mót­umst öll af þeim áföll­um sem við verðum fyr­ir á lífs­leiðinni og það á líka við um sam­fé­lög. Viðbrögð rík­is­stjórn­ar­inn­ar við þeirri miklu vá sem heims­far­ald­ur­inn er hafa ann­ars veg­ar miðað að því að standa vörð um líf og heilsu fólks og hins veg­ar að því að tryggja eft­ir fremsta megni lífsaf­komu þeirra sem misst hafa vinn­una. Góð staða þjóðarbús­ins sem byggð hafði verið upp af skyn­semi síðustu árin var notuð til þess að standa vörð um störf og skapa störf með um­fangs­mikl­um fram­kvæmd­um rík­is­ins. Verk­efni næstu ára verður fyrst og fremst að skapa at­vinnu til að vinna aft­ur þau miklu lífs­gæði sem við höf­um notið síðustu ár hér á landi. At­vinn­an er grund­völl­ur lífs­gæða.

Af þeim aðgerðum sem ráðist hef­ur verið í hef­ur hluta­bóta­leiðin að öll­um lík­ind­um verið mik­il­væg­ust ásamt fram­leng­ingu á tekju­tengd­um at­vinnu­leys­is­bót­um. Einnig hef­ur verið lögð mik­il áhersla á að vernda þá hópa sem veik­ast standa í sam­fé­lag­inu með stuðningi við barna­fjöl­skyld­ur með lág­ar tekj­ur, ein­greiðslum til barna­fjöl­skyldna, hækk­un at­vinnu­leys­is­bóta, hækk­un ör­orku­bóta og svo mætti áfram telja. Verk­efnið Nám er tæki­færi er einnig mik­il­væg­ur þátt­ur í því að veita at­vinnu­leit­end­um færi á að mennta sig og standa sterk­ar að vígi á at­vinnu­markaði þegar far­aldr­in­um lýk­ur.

Verk­efn­in hafa verið mörg og brýn og sem bet­ur fer hafa stór um­bóta­mál sem ekki tengj­ast far­aldr­in­um náð fram að ganga á ár­inu 2020. Alþingi samþykkti á vor­mánuðum frum­varp mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra um bylt­ingu á náms­lána­kerf­inu með stofn­un mennta­sjóðs sem trygg­ir ung­um náms­mönn­um betri kjör, stór­auk­inn stuðning við barna­fólk og 30% niður­færslu á höfuðstól lána sé námi lokið inn­an ákveðins tíma. Þetta skref er stórt og jafn­ar enn tæki­færi til náms á Íslandi.

Annað stórt um­bóta­verk­efni var leng­ing fæðing­ar­or­lofs í 12 mánuði. Með því held­ur Fram­sókn áfram bar­áttu sinni fyr­ir aukn­um lífs­gæðum fjöl­skyldna á Íslandi en 20 ár eru liðin frá því stór­merk lög Páls heit­ins Pét­urs­son­ar um fæðing­ar­or­lof voru samþykkt á Alþingi sem tryggðu feðrum sér­stak­an rétt á or­lofi. Þau lög sem fé­lags- og barna­málaráðherra hef­ur unnið að allt kjör­tíma­bilið eru stór­kost­legt um­bóta­mál sem trygg­ir barni sam­vist­ir við báða for­eldra á fyrstu mánuðum lífs­ins og er risa­skref í átt til auk­ins jafn­rétt­is.

Hús­næðismál voru eitt af stóru mál­un­um í bar­áttu Fram­sókn­ar fyr­ir kosn­ing­arn­ar 2017 og bar sú bar­átta ríku­leg­an ávöxt þegar mál fé­lags- og barna­málaráðherra um hlut­deild­ar­lán varð að lög­um. Það fel­ur í sér magnaðar um­bæt­ur fyr­ir efnam­inna fólk og fel­ur í sér að fleiri geta keypt sér þak yfir höfuðið og kom­ist af óhag­stæðum leigu­markaði í eigið hús­næði.

Í sam­göng­un­um varð eitt af stefnu­mál­um Fram­sókn­ar að veru­leika þegar Loft­brú­in var tek­in í gagnið í sept­em­ber síðastliðnum. Í Loft­brú felst að íbú­ar fjarri höfuðborga­svæðinu fá 40% af­slátt af ákveðnum fjölda flug­ferða á ári. Loft­brú­in er stórt skref í því að jafna aðstöðumun byggðanna og ger­ir fólki til dæm­is auðveld­ara að sækja sér lækn­isþjón­ustu og afþrey­ingu í höfuðborg­inni. Stór­sókn er haf­in í upp­bygg­ingu á vega­kerf­inu, höfn­um og flug­völl­um um allt land og má þar sér­stak­lega nefna nýja flug­stöð á Ak­ur­eyri sem veit­ir tæki­færi til að opna nýja gátt í flugi til lands­ins.

Ísland er gott og sterkt sam­fé­lag. Það sýndi sig á þessu um­brota­ári. Samstaða mik­ils meiri­hluta al­menn­ings í sótt­vörn­um og um­hyggja fyr­ir þeim hóp­um sem veik­ast­ir eru fyr­ir sýndi það svo ekki verður um villst. Íslend­ing­ar nýttu líka þá upp­styttu í far­aldr­in­um sem ríkti í sum­ar til að ferðast um fal­lega landið sitt og upp­lifa nátt­úr­una og kynn­ast þeirri mögnuðu upp­bygg­ingu sem orðið hef­ur í ferðaþjón­ustu um landið allt. Þau kynni fólks af land­inu sínu og lönd­um sín­um hring­inn um landið hafa aukið skiln­ing og virðingu okk­ar hvers fyr­ir öðru. Sú reynsla verður mik­il­væg­ur hluti af viðspyrn­unni þegar hún hefst af full­um krafti.

Þróun bólu­efn­is gegn kór­ónu­veirunni hef­ur sýnt hvað þekk­ing vís­ind­anna og sam­taka­mátt­ur­inn get­ur skilað mann­kyn­inu í bar­áttu við vá­gesti. Af hraðri þróun þess get­um við lært margt, ekki síst hvað sam­vinn­an get­ur skilað okk­ur langt. Það hug­ar­far sem ein­kenndi viðbrögð heims­ins á að vera okk­ur fyr­ir­mynd þegar kem­ur að bar­áttu okk­ar gegn lofts­lags­breyt­ing­um. Hnign­un po­púlí­skra afla um all­an heim vek­ur með manni von um að lönd heims­ins geti sam­ein­ast um aðgerðir til að bjarga heim­in­um. Það verður ekki gert með trú­ar­leg­um refsi­vendi held­ur með því að nýta afl vís­ind­anna og kraft sam­taka­mátt­ar­ins til að finna leiðir til að viðhalda lífs­gæðum án þess að ganga á nátt­úr­una. Eyðing­ar­mátt­ur nátt­úr­unn­ar, hvort sem er í líki veiru eða nátt­úru­ham­fara, vek­ur líka með okk­ur sköp­un­ar­kraft til að mæta þeim verk­efn­um sem fram und­an eru í lofts­lags­mál­um. Sá kraft­ur sem ungt fólk, öðrum frem­ur, hef­ur sýnt í bar­átt­unni gegn lofts­lags­breyt­ing­um er okk­ur öll­um inn­blást­ur.

Með vor­inu mun aft­ur fær­ast líf í ferðaþjón­ustu á Íslandi. Nátt­úr­an og menn­ing­in verða áfram mikið aðdrátt­ar­afl fyr­ir er­lenda gesti og þeir innviðir sem byggðir hafa verið upp bíða þess að kom­ast aft­ur í fulla notk­un. Síðast en ekki síst bíður fólk með mikla þekk­ingu og orku eft­ir því að nýta hæfi­leika sína í ferðaþjón­ust­unni. At­vinnu­grein­ar eins og fisk­eldi, kvik­mynda­gerð og skap­andi grein­ar hafa gríðarleg tæki­færi til að stækka og byggja und­ir lífs­gæði framtíðar­inn­ar í góðu sam­spili við sjáv­ar­út­veg og land­búnað. Framtíðin er björt ef okk­ur tekst að nýta þau tæki­færi sem okk­ur bjóðast.

Já, viðspyrn­an er hand­an við hornið, nú þegar sól hækk­ar á lofti og bólu­setn­ing­ar eru hafn­ar. Ríkið hef­ur ráðist í viðamikl­ar fram­kvæmd­ir, ekki síst á sviði sam­gangna og ný­sköp­un­ar. Sam­göng­ur eru lífæð lands­ins, stór þátt­ur í lífs­gæðum fólks og styrk­ir byggðir og sam­fé­lög. Ný­sköp­un á öll­um sviðum, hvort sem það eru sta­f­ræn­ar lausn­ir í stjórn­sýslu eða stuðning­ur við frjóa sprota í at­vinnu­líf­inu.

Næstu mánuði og ár verður það verk­efni stjórn­mál­anna að vinna úr þeim áföll­um sem gengu yfir okk­ur árið 2020. Þar er efst á blaði að skapa at­vinnu til að standa und­ir frek­ari lífs­gæðasókn fyr­ir Ísland. Líkt og áfall Önnu Sig­ríðar og dótt­ur henn­ar þá mun árið 2020 vera verk­efni sem við vinn­um úr sam­an eft­ir því sem mánuðirn­ir og árin líða. Höggið sem rík­is­sjóður hef­ur tekið á sig vegna far­ald­urs­ins má ekki leiða til þess að sam­heldni þjóðar­inn­ar gliðni og veik­ari hóp­ar sam­fé­lag­ins verði skild­ir eft­ir þegar viðspyrn­an hefst af full­um krafti. Hug­sjón Fram­sókn­ar um gott sam­fé­lag þar sem all­ir hafa tæki­færi til að blómstra í þeim stóru verk­efn­um sem eru fram und­an mun skipta lyk­il­máli. Við mun­um leggja all­an okk­ar kraft og alla okk­ar reynslu í að skapa nýja fram­sókn fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag, nýja fram­sókn fyr­ir fjöl­skyld­ur og fyr­ir­tæki, nýja fram­sókn fyr­ir landið allt.

Ég óska öll­um lands­mönn­um gleðilegs nýs árs.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2020.

Categories
Greinar

Höfn í höfn í Þorlákshöfn

Deila grein

22/12/2020

Höfn í höfn í Þorlákshöfn

Fyrir rúmum þremur árum urðu vörusiglingar til Þorlákshafnar að veruleika, eftir hundrað ára bið. Aðdraganda þeirra má rekja til þess þegar bændur af öllu landinu komu saman til fundar að Þjórsártúni í janúar 1916. Tilefnið var að berjast fyrir jákvæðri byggðaþróun og uppbyggingu landsins. Í framhaldinu varð Framsóknarflokkurinn stofnaður, 16. desember sama ár, og er því nýorðinn 104 ára. Enn er þörf fyrir flokk sem berst fyrir uppbyggingu landsins. Á fundinum að Þjórsártúni, sem haldinn var úti um miðjan vetur, var samþykkt ályktun um nauðsyn þess að byggja upp höfn í Þorlákshöfn sem myndi tryggja bændum ódýrari og betri flutninga til og frá landinu án afskipta Reykjavíkurvaldsins og kaupmanna.

Haustið 2017 skrifaði ég grein sem birtist í Dagskránni um vörusiglingar til Þorlákshafnar sem þá voru loks nýhafnar, eftir 100 ára bið. Þar hvatti ég Sunnlendinga sem aðra að nýta tækifærin sem út- og innflutningshöfn hefur að færa. Forsenda þess að stærri höfn gæti orðið að veruleika væri sú að ríkisstjórnin kæmi að með aukna fjármuni. Það er því afar ánægjulegt að geta sagt nú, að ríkisstjórnin hefur samþykkt að auka fjármagn svo um munar, til hafnarbótasjóðs og styðja dyggilega við stækkun hafnarinnar í Þorlákshöfn og aðrar brýnar framkvæmdir við hafnir og sjóvarnir. Þetta hefur verið staðfest á Alþingi með nýsamþykktri fjármálaáætlun.

Það er engum blöðum um það að fletta að vöruflutningar um Þorlákshöfn hafa opnað nýja möguleika fyrir ferskflutning á sjávarföngum frá Íslandi til meginlands Evrópu. Eftirspurn eftir vöruflutningum hefur aukist jafnt og þétt á ekki lengri tíma og er árangurinn framar vonum. Tvær vöruflutningaferjur, Mykines og Mistral, sigla á vegum færeyska skipafélagsins Smyril-Line vikulega og hugmyndir eru uppi um farþegasiglingar frá Þorlákshöfn til Evrópu. Kostirnir eru ótvíræðir með verulegum ávinningi fyrir sunnlenskt atvinnulíf og byggðaþróun. Fyrir utan störf sem skapast við löndun og ýmsa aðra þjónustu þá er sjóflutningstíminn sá stysti til og frá landinu sem styrkir ferskfiskútflutninginn til muna. Flutningur á ferskum sjávarafurðum kemur til með að stóraukast á næstunni þar sem meiri krafa er um að afurðir séu fluttar á markað á sem hagkvæmastan hátt, fyrir umhverfið. Ef fyrirætlanir um stækkun í fiskeldi verða að veruleika þurfa innviðir að vera í stakk búnir til þess að afkasta aukinni framleiðslu á markaði erlendis. Núverandi skip sem venja komu sína til Þorlákshafnar fullnýta stærðarramma hafnarinnar og því er ekki möguleiki á að taka við stærri skipum ef uppfylla á alþjóðlegar öryggiskröfur.

Inn á núgildandi samgönguáætlun er endurbygging á tveimur stálþilsbryggjum í Þorlákshöfn, við Svartaskersbryggju og Suðurvarabryggju auk dýpkunar framan við Svartaskersbryggju. Aukið fjármagn í fjármálaáætlun gefur sveitarfélaginu svigrúm til að ráðast í þær breytingar sem þarf að gera á höfninni til þess að taka á móti stærri skipum og er ekki inn á samþykktri samgönguáætlun. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis vinnur að forgangsröðun verkefna miðað við aukið fjármagn sem verður lögð fram á nýju ári.

Þolinmæði er dyggð og ekkert gerist af sjálfu sér. Samstaða sunnlenskra sveitarfélaga með Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) hefur skilað sér. Stuðningur þingmanna kjördæmisins var mikilvægur. Áratuga löng barátta er loks í höfn. Jú, það er sagt að við Sunnlendingar séum þolinmóðir. Það þarf þrautseigju og dugnað til. Áfram veginn.

Sigurður Ingi Jóhansson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. desember 2020.

Categories
Greinar

Jólakveðja frá Framsókn

Deila grein

18/12/2020

Jólakveðja frá Framsókn

Það eru að koma jól. Og eins og alltaf fyrir jólin síðustu ár, í ati þingsins, verður mér hugsað til þess þegar dýralæknirinn Sigurður Ingi fékk símtal seint að kvöldi aðfangadags um að lítil tík ætti í erfiðleikum með fæðingu. Á þessum tíma var ég ekki með fullkomna aðstöðu fyrir skurðaðgerðir þannig að ég bað fólkið um að koma með hundinn heim til mín. Síðar um nóttina framkvæmdi ég keisaraskurð á tíkinni sem fæddi heilbrigða hvolpa. Þessi minning frá jólanótt er mér alltaf kær.

Það líður að lokum þessa árs, sem betur fer, myndi einhver segja. Það er ljóst að það verður lengi í minnum haft. Ekki hefur aðeins geisað heimsfaraldur heldur hafa náttúruöflin verið okkur erfið; síðasti vetur með sín vályndu veður og jarðskjálftar sunnanlands og norðan. Maður finnur fyrir þreytu í kringum sig og sér á samfélaginu að fólk er komið með nóg af þessu ástandi. Það er skiljanlegt. Maður finnur til með þeim sem hafa misst ástvini og strítt við erfið veikindi og þeim sem hafa misst vinnuna vegna faraldursins. Við í ríkisstjórninni höfum lagt mikla áherslu á að milda höggið með fjölbreyttum aðgerðum eins og hlutabótaleiðinni, lengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta, viðspyrnustyrkja og svo mætti lengi telja. Og áfram munum við leita leiða til að brúa bilið þangað til bóluefni tryggir hjarðónæmi þjóðarinnar. Þegar því verður náð hef ég trú á því að efnahagslífið nái hröðum bata. Verkefnið er, eins og ég hef áður sagt, að standa vörð um störf og skapa störf. Atvinna, atvinna, atvinna.

Þótt ég sé kannski ekki mjög aldraður maður, hef ég lifað þá tíð að horfa upp á íslenskt efnahagslíf rísa og hníga til skiptis. Það mun halda áfram. En ég er búinn að átta mig á því að það er beinlínis óskynsamlegt að treysta of mikið á eitthvað eitt. Við þurfum fjölbreytt atvinnulíf. Við þurfum að styðja við nýjar greinar en hlúa áfram að rótgrónari atvinnuvegum. Eitt á ekki að útiloka annað. Við verðum að byggja á samvinnu, málamiðlunum og árangri. Við finnum leiðir.

Mér þykir það augljóst að styðja verður dyggilega við íslenska matvælaframleiðslu, hvort heldur hún felst í því að yrkja jörðina, rækta búpening eða veiða eða ala fisk. Það er mikilvægt að standa vörð um matvælaöryggi og þá framleiðslu sem er hér á landi. Það er ekki síður mikilvægt að við breikkum þann grundvöll sem verðmætasköpun á Íslandi stendur á.

Við þekkjum öll mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir atvinnu um allt land. Hún er augljóslega lykillinn að hraðri viðspyrnu. Við sáum það í ferðum okkar um landið í sumar hversu metnaðarfull uppbygging ferðaþjónustunnar hefur verið. Nú standa flest hótel tóm og tækifæri þeirra sem störfuðu í ferðaþjónustu fá og jafnvel engin. En, og þetta er mikilvægt en, allir þeir glæstu innviðir sem byggðir hafa verið upp, hvort heldur í samgöngum eða gistingu, öll sú þekking sem ferðaþjónustufólk hefur öðlast og síðast en ekki síst náttúran, landið sjálft, er enn til og bíður þess að ferðalangar leggi leið sína að nýju til okkar. Því hingað mun fólk vilja koma. Þá mun aftur lifna yfir landinu.

Við eigum eftir að minnast þessara jóla lengi vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem við búum við. Veturinn verður erfiður fyrir marga en með krafti samfélagsins, með krafti samvinnunnar þá mun hann verða auðveldari. Og eftir vetur kemur vor og þá verðum við vonandi aftur farin að faðma fólkið okkar og getum horft grímulaus fram á veginn.

Ég óska þér, lesandi góður, gleðilegra jóla.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 17. desember 2020.

Categories
Greinar

Hugrekki stýrir för

Deila grein

14/12/2020

Hugrekki stýrir för

Óvæntar aðstæður eru stundum ógnvekjandi. Þær bera með sér áskoranir, sem við getum valið að taka eða hafna. Við slíkar aðstæður sést úr hverju stjórnmálamenn eru gerðir – hvort þeir takast á við aðsteðjandi vanda með kreppta hnefana og hugann opinn, eða hræðast og láta kylfu ráða kasti.

Frá því Covid-faraldurinn skall á Íslandi í mars hefur reynt á hugrekki okkar allra. Vilja okkar til að mæta ógninni sem steðjar að samfélaginu; heilbrigðis- og hagkerfinu, menntun og menningu, börnum og ungmennum. Það krefst áræðis að hugsa í lausnum og ráðast í fordæmalausar og kostnaðarsamar aðgerðir, en einmitt þá er hugrekkið mikilvægast. Það smitar út frá sér og sameinar fólk.

Kórónuveirukreppan er um margt lík Kreppunni miklu. Árið 1929 reyndi hún mjög á stjórnmálamenn og -kerfi þess tíma. Atvinnuleysi varð sögulega mikið og í tilraun til að skilja aðstæður mótaði John M. Keynes þá kenningu sína, að í kreppum ættu stjórnvöld að örva hagkerfið með öllum tiltækum ráðum; ráðast í framkvæmdir og halda opinberri þjónustu gangandi, jafnvel þótt tímabundið væri eytt um efni fram. Skuldsetning ríkissjóðs væri réttlætanleg til að tryggja umsvif í hagkerfinu, þar til það yrði sjálfbært að nýju. Kenningin var í algjörri andstöðu við ríkjandi skoðun á sínum tíma, en hefur elst vel og víðast hvar hafa stjórnvöld stuðst við hana í viðleitni sinni til að lágmarka efnahagsáhrif kórónuveirunnar.

Á Íslandi ákváðu stjórnvöld að verja grunnkerfi ríkisins og tryggja afkomu þeirra sem tóku á sig þyngstu byrðarnar. Miklum fjármunum hefur verið varið til heilbrigðismála, fjárfestinga í menntun og atvinnuleysistryggingakerfisins. Hlutabótaleiðin er í mörgum tilvikum forsenda þess að ráðningarsamband hefur haldist milli vinnuveitanda og starfsmanns. Ríkið hefur líka fjárfest í innviðum og m.a. ráðist í auknar vegaframkvæmdir.

Aðgerðirnar lita að sjálfsögðu afkomu ríkissjóðs og nemur umfang þeirra um 10% af landsframleiðslu. Það bendir til ákveðnari inngripa hér en víða annars staðar, því þróuð ríki hafa að meðaltali ráðist í beinar aðgerðir sem jafngilda rúmum 8% af landsframleiðslu.

Stjórnvöld sýna hugrekki í þeirri baráttu að lágmarka efnahagssamdráttinn, vernda samfélagið og mynda efnahagslega loftbrú þar til þjóðin verður bólusett. Það er skylda okkar að styðja við þá sem hafa misst vinnuna, bæta tímabundið tekjutap og koma atvinnulífinu til bjargar.

Sjálfbær ríkissjóður eykur farsæld

Staða ríkissjóðs Íslands í upphafi faraldursins var einstök. Skuldir voru aðeins um 20% af landsframleiðslu, en til samanburðar voru skuldir ríkissjóðs Bandaríkjanna um 100%. Góður og traustur rekstur hins opinbera undanfarin ár hefur þannig reynst mikil þjóðargæfa, enda býr hann til svigrúmið sem þarf þegar illa árar. Viðvarandi hallarekstur er hins vegar óhugsandi og því er brýnt að ríkissjóður verði sjálfbær, greiði niður skuldir og safni í sjóði að nýju um leið og efnahagskerfið tekur við sér. Þá mun líka reyna á hugrekki stjórnvalda, að skrúfa fyrir útstreymi fjármagns til að tryggja stöðugleika um leið og atvinnulífið þarf að grípa boltann.

Íslenska hagkerfið hefur alla burði til að ná góðri stöðu að nýju. Landið er ríkt að auðlindum og við höfum fjárfest ríkulega í hugverkadrifnum hagvexti. Við höfum alla burði til að ná aftur fyrri stöðu í ríkisfjármálum, en fyrst þarf að gefa vel inn og komast upp brekkuna fram undan.

Markmið ríkisstjórnarinnar hafa náðst að stórum hluta. Heilbrigðis- og menntakerfið hefur staðist prófið og ýmsar hagtölur þróast betur en óttast var. Á þriðja ársfjórðungi var einkaneysla t.d. meiri en víðast hvar þrátt fyrir sögulegan samdrátt. Auknar opinberar fjárfestingar ríkisins og aukin samneysla hafa gefið hagkerfinu nauðsynlegt súrefni. Nú ríður á, að við höfum hugrekki til að klára vegferðina sem mun að lokum skila okkur öruggum í höfn. Þótt hugrekki snerti bæði áræði og ótta er þessum tengslum ólíkt háttað. Án hugrekkis fetum við aldrei ótroðna slóð. Án ótta gerum við líklega eitt og annað heimskulegt. Leitin að jafnvæginu milli þessara tveggja póla er viðvarandi, sameiginlegt verkefni okkar allra.

Eftir Sigurð Inga Jóhannsson, Lilju D. Alfreðsdóttur og Willum Þór Þórsson.

Sigurður Ingi er formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, Lilja er varaformaður Framsóknarflokksins og mennta- og menningarmálaráðherra og Willum Þór er formaður fjárlaganefndar Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. desember 2020.

Categories
Fréttir

Opnun Dýrafjarðarganga – ræða Sigurðar Inga

Deila grein

26/10/2020

Opnun Dýrafjarðarganga – ræða Sigurðar Inga

Ég fagna því að vera með ykkur á öldum ljósvakans – hvar sem þið eruð stödd í dag – og fá að opna Dýrafjarðargöng. Þetta eru mikil og langþráð tímamót í samgöngum á Vestfjörðum og skipta sköpum fyrir byggðir þar. Gögnin koma í stað fjallvegarins um Hrafnseyrarheiði sem  hingað til hefur aðeins verið fær á sumrin. Þetta eru mikil tímamót.  Með göngunum og framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru á Dynjandisheiði opnast ný heilsársleið – hringtenging um Vestfirði.

Eitt fyrsta embættisverk nýkjörins forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, var að fara í opinbera heimsókn til sunnanverðra Vestfjarða í september 1996. Hann sá tækifæri til að bæta lífskjör á svæðinu ekki síst á sviði ferðaþjónustu. Hann kvaðst sannfærður um að Vestfirðir yrðu næsta framtíðarland í ferðaþjónustu á Íslandi. Það yrði þó aðeins að veruleika ef vegakerfið stæðist samanburð við aðra landshluta. Enn fremur sagði hann:

„Það kemst enginn hjá því sem um Barðaströnd fer að kynnast því að því miður er verulegur munur á vegakerfinu í Barðastrandasýslu og öðrum landshlutum. Það er greinilegt að það þarf að gera verulegt átak á næstu árum til að Barðastrandasýsla haldi jöfnuði á við aðra landshluta.“          

Síðan eru liðin 24 ár. Unnið hefur verið að verkefninu með mismiklum hraða síðan en stórar og umfangsmiklar framkvæmdir hafa fengið að bíða. Í þeirri samgönguáætlun sem lögð var fram og samþykkt á Alþingi í sumar er með sanni hægt að segja að Vestfirðingar muni loks sjá smiðshöggið rekið á þetta risavaxna verkefni.

Í dag opnum við eitt þessara stóru verka, sjálf Dýrafjarðargöng, en framkvæmdir hófust árið 2017. Göngin eru ein umfangsmesta einstaka framkvæmd í vegakerfinu og munu leysa erfiðan farartálma af hólmi, Hrafnseyrarheiði. Göngin munu bæta umferðaröryggi, spara tíma á ferðalögum og nýtast vel um ókomin ár.

Í framhaldi af Dýrafjarðargöngum er eðlilegt að vegurinn yfir Dynjandisheiði verði endurbyggður. Nýverið var fyrsti áfangi þess verkefnis boðinn út af Vegagerðinni þar sem gert er ráð fyrir verklokum næsta haust. Heildarverkið á svo að klárast á fyrsta tímabili samgönguáætlunar eða fyrir árið 2024.

Annað risastórt samgönguverkefni hér á svæðinu er Vestfjarðavegur um Gufudalssveit. Hluti þess vegstæðis liggur eins og þjóðkunnugt er um Teigsskóg. Sú framkvæmd hefur hangið í lausu lofti um árabil vegna kærumála. Með úrskurði umhverfis- og auðlindamála fyrr í haust gefst nú loks kostur á að ýta þessari nauðsynlegu samgöngubót úr vör. Hún mun stytta vegalengdir og auka umferðaröryggi mikið. Strax í haust stefnir Vegagerðin að því að bjóða út þverun Þorskafjarðar en  heildarverkið á að klárast fyrir árið 2024, rétt eins og með Dynjandisheiði.

Á samgönguáætlun er einnig þriðja risaverkefnið í landshlutanum, nýr Bíldudalsvegur frá flugvellinum á Bíldudal og upp á Dynjandisheiði. Þetta verkefni er á á öðru tímabili  samgönguáætlunar, og ætti því að vera lokið á tímabilinu 2025-2029.

Í þessum þremur verkefnum ásamt Dýrafjarðargöngum munu alls um 105 km af nýjum, greiðum og öruggum vegum bætast við vegakerfið hér á Vestfjörðum og koma í stað erfiðustu og hættulegustu vegkafla á svæðinu.

Þetta er þó ekki það eina sem við ætlum að bæta í samgöngukerfi Vestfjarða á næstu árum. Á undanförnum misserum hafa staðið yfir endurbætur á 7 km kafla af Djúpvegi milli Hestfjarðar og Seyðisfjarðar. Á Ströndum eru komin á áætlun framkvæmdir á Veiðileysuhálsi og Innstrandavegi, alls 17 km. Einnig mætti telja til framkvæmdir um Hattardalsá í Álftafirði, Örlygshafnarveg um Hvallátur auk þess sem við erum að breikka brýrnar yfir Botnsá í Tálknafirði og Bjarnardalsá í Önundarfirði.

Þar fyrir utan höfum við aukið umtalsvert framlög í uppbyggingu á tengivegum, en það nýtist ekki síst í hinum dreifðu byggðum. Að lokum er rétt að benda á að á síðustu árum höfum við tekið viðhald vega föstum tökum og stóraukið framlög til þess, en það tryggir að vegakerfið, verðmætasta einstaka eign ríkisins, hér og annars staðar haldist öruggt og áreiðanlegt.

Í almenningssamgöngum höfum við tekið það mikilvæga skref að opna Loftbrú, sem veitir 40% afslátt af flugfargjöldum fyrir íbúa sem búa fjarri höfuðborgarsvæðinu, svo sem hér á Vestfjörðum. Þetta tel ég vera mikið jafnréttismál. Þetta breytir öllu fyrir íbúana sjálfa sem nú greiða talsvert lægra verð til að sótt sækja þjónustu, menningu eða bara gert það sem þá langar til á höfuðborgarsvæðinu. Þetta hefur einnig gríðarlega mikla þýðingu fyrir flugreksturinn sjálfan. Hagfræðin og heilbrigð skynsemi segir okkur að verð skiptir máli þegar kemur að eftirspurn. Það að hér um vil helminga verð til almennings á þessari mikilvægu samgönguleið ætti að skila sér í bættum lífskjörum almennings á Vestfjörðum auk þess að skjóta styrkari stoðum undir flugsamgöngur sem vonandi leiðir til aukinnar tíðni áætlunarflugs. 

Dýrafjarðargöng er enn einn áfanginn í þeirri vegferð að koma Vestfjörðum öllum í almennilegt heilsársvegasamband og sumir myndu segja við umheiminn. Ferðaþjónustan mun styrkjast þegar greið leið liggur allt árið að náttúruperlum Vestfjarða. Ég er þess fullviss að menning og afþreying mun styrkjast með tilkomu heilsárstengingar milli Suðurfjarða og norður um. Nú opnast til dæmis möguleikar fyrir krakkana á Bíldudal, Patreksfirði og Tálknafirði og víðar að bregða sér t.d. til Ísafjarðar á skíði. Og á sama verður auðveldara fyrir þá sem koma norðan frá, að skreppa til þessara staða, nú eða fara suður til Reykjavíkur. En síðast og ekki síst þá munu Dýrafjarðargöng auka umferðaröryggi íbúa á svæðinu.

Það er ekki nokkur spurning í mínum huga að allar þessar framkvæmdir muni skila sér margfalt til baka til samfélagsins. Það var hárrétt hjá hinum nýkjörna forseta á sínum tíma að góðir samgönguinnviðir eru grunnforsenda þess að atvinnulíf geti haldið áfram að þróast og eflast. Samfélagslegur ábati verður ekki til vegna efnahagslegra umsvifa heldur ekki síst ef okkur tekst að fækka slysum.

Við sjáum skýr merki um það í slysatölum að við erum að ná árangri í fækkun alvarlegra slysa á Vestfjörðum (sjá graf) og miðað við metnaðarfull uppbyggingaráform okkar ættum við að geta gert okkur vonir um að svo haldi áfram.

Fyrir mig sem ráðherra samgöngumála er ánægjulegt að sjá að allt hefur gengið að óskum við þessa framkvæmd. Ég vil þakka öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóginn síðastliðin ár svo göngin gætu orðið að veruleika. Það eru liðin rétt rúm þrjú ár frá því að vinna hófst við göngin. Það er ekki á hverjum degi sem risaframkvæmd eins og þessi opnar samkvæmt áætlun.

Síðasta haftið var sprengt fyrir rúmu ári síðan, haustið 2019, og hér stöndum við svo í dag með þessa mikilvægu samgöngubót. Allt er klárt, og það þrátt fyrir Covid sem setti strik í reikninginn, þökk sé snurðulausri samvinnu hins íslenska Suðurverks og hins tékkneska fyrirtækis Metrostav.

Góðir gestir – ég endurtek hamingjuóskir – til Vestfirðinga sérstaklega – í tilefni dagsins og megi þetta verða upphaf að lokaáföngum í Vestfjarðahringnum.

Líkast til er enginn hópur sem á eftir að njóta Dýrafjarðarganga jafn vel og lengi og börnin. Enda voru það börnin, nánar tiltekið nemendur við Grunnskólann á Þingeyri, sem að eigin frumkvæði tóku fyrstu skóflustunguna fyrir svo löngu síðan, heilum áratug, að þau sem það gerðu eru orðin fullorðin. Það er því viðeigandi að það séu vestfirsk börn sem fara fyrst í gegnum göngin í sannkallaðri vígsluferð. Það er einnig gaman að segja frá því að í þessari fyrstu ferð um Dýrafjarðargöng verður hann Gunnar Gísli Sigurðsson, með nemendum Grunnskólans á Þingeyri. Hann hefur hátt í hálfa öld haldið Hrafnseyrarheiðinni opinni, alltaf þegar það var hægt.

En áður en ég hringi vestur til að biðja um að slárnar við gangamunnana verði reistar fyrir almennri umferð, gef ég Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar orðið.

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formanns Framsóknarflokksins, við vígslu Dýrafjarðarganga laugardaginn 25. október í húsnæði Vegagerðinnar í Reykjavík.