Meirihluti bæjarstjórnar í Kópavogi hefur undanfarin ár lagt mikla áherslu á uppbyggingu íþróttamannvirkja. Fyrir því er löng hefð og ríkar ástæður. Flest höfum við ánægju af því að fylgjast með iðkendum úr hinum ýmsu greinum etja kappi. Íþróttir eru samt svo miklu meira en keppni, árangur og afrek. Þær eru eitt öflugasta verkfæri samfélagsins til að efla heilsu, samkennd og jafnrétti. Þær eru einstaklega vel til þess fallnar að brúa bilið milli ólíkra hópa þar sem fjölbreyttur bakgrunnur er ekki lengur hindrun fyrir þátttöku, Þær byggja upp samheldni, skapa mikilvæga félagslega innviði og kenna gildi sem skipta máli út lífið.
Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar 2026 gerir ráð fyrir að nálægt 5 milljörðum verði varið til fjárfestinga á af hálfu bæjarins á árinu. Þar vega íþróttamannvirki þungt. Framkvæmdir við nýja stúku og keppnisvöll HK hefjast á árinu og verður sú framkvæmd mikil lyftistöng í aðstöðumálum knattspyrnudeildar félagsins. Þá eru lagðir til fjármunir til byggingar á félagshesthúsi á félagssvæði hestamannafélagsins Spretts. Þessi verkefni koma beint í framhaldi af tveimur stórframkvæmdum árin 2024-2025 á félagssvæði Breiðabliks þar sem reistur hefur verið nýr gervigrasvöllur auk mikilsháttar endurnýjunar á undirlagi og yfirborði vallar inni í Fífunni.
Þótt mannvirkin séu mikilvæg þá gegna íþróttafélögin lykilhlutverki því þar býr félagsauðurinn. Ekki dugir að byggja hús ef öflugt félagsstarf er ekki til staðar. Íþróttafélög af öllum gerðum og stærðum eru óvíða jafn kröftug og í Kópavogi og þau sjá til þess að markvisst og faglegt starf sé rekið í mannvirkjunum.
Heilbrigt íþróttastarf á því allt sitt undir því að skilningur og traust samband ríki ávallt milli íþróttafélaganna og bæjarfélagsins.
Orri Hlöðversson, oddviti B lista og formaður bæjarráðs Kópavogs.
Greinin birtist fyrst á kpg.is 8. janúar 2026.
