Verðbólga mælist 4,5%. Hagvöxtur er að minnka hratt á Íslandi og gert ráð fyrir að hann hafi verið 0,9% á síðasta ári. Atvinnuleysi mælist 6,5% og hefur vaxið hratt. Þetta eru ekki bara tölur á blaði: þær lýsa veikburða efnahagsstjórn.
Fyrsta stóra áskorunin 2026 er að ná verðbólgu niður og fara í raunverulegar aðgerðir sem ná tökum á verðbólguvæntingum. Ríkisstjórnin hefur ekki lagst á árarnar með Seðlabankanum og það sést best á fjárlagafrumvarpinu 2026. Þar er bætt við útgjöldum upp á 143 ma.kr.! Heildarútgjöld aukast um 5,4% á föstu verðlagi. Ljóst er að þau koma ekki til með að slá á verðbólgu. Gjöld og þjónusta ríkisins er einnig að hækka um 3,7%. Skilaboðin í þessum fjárlögum eru einföld. Ríkisstjórnin hefur ekki áhyggjur af verðbólguþróun. Hér þarf að gera betur með meiri aga og framsýni. Ríkisfjármál verða að styðja við aðhald peningastefnunnar með skýrri forgangsröðun, minni óvissu og ráðstöfunum sem draga úr þrýstingi í stað þess að kynda undir verðbólgunni, annars lengist hávaxtatímabilið og kostnaðurinn færist á heimilin.
Önnur áskorunin er hagvöxtur. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur síðasta árs sé tæp 1% og hóflegum vexti í ár. Meginorsakir má finna í erfiðum skilyrðum á fjármálamarkaði, þrengt er að helstu útflutningsgreinum þjóðarbúsins í boði ríkisstjórnarinnar og svo er áframhaldandi óvissa um alþjóðaviðskipti. Aukin verðmætasköpun og hagvöxtur haldast í hendur. Ef þrengt er verulega að atvinnulífinu, þannig að verðmætasköpun og hagvöxtur minnki – þá getur það samfélag ekki vaxið og dafnað. Velferðarkerfið þarfnast þess að hér sé góður hagvöxtur.
Þriðja áskorunin er atvinnuleysi en það hefur aukist. Atvinnuleysi er mesta böl allra samfélaga. Franklin D. Roosevelt, fv. forseti Bandaríkjanna, skildi skaðsemi atvinnuleysis manna best og sagði í innsetningarræðunni: „Það er forgangsatriði að koma fólki í vinnu!“ Atvinnuleysi í kreppunni miklu hljóp á tugum prósenta og gríðarleg fátækt ríkti sökum þessa.
Skilaboð mín eru einföld. Við getum aldrei tekið góðum lífskjörum sem sjálfsögðum. Hafa þarf hugfast að íslenska þjóðin hefur lagt hart að sér. Ef efnahagsstefna er ekki skynsöm og þeir sem stýra skilja ekki í hverju samkeppnisstaða okkar liggur, þá getur fjarað ansi hratt undan. Það er skortur á skýrri stefnu í efnahagsmálum. Skilaboð ríkisstjórnarinnar eru fálmkennd. Fjármála- og efnahagsráðherra talar um að fjárlögin 2026 séu nokkuð aðhaldssöm en þau eru það ekki. Forsætisráðherra segir að um sé að ræða ákveðna aðlögun og hvetur þjóðina til að sýna þolinmæði – ég spyr á móti. Hvaða aðlögun? Eigum við að aðlaga okkur að hærra atvinnuleysi og litlum hagvexti, eins og sum ríki Evrópusambandsins. Ég segi: Nei, takk!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. janúar 2026.
