Fjárlögin segja meira en mörg orð. Þau sýna í verki hvar ríkisstjórn hvers tíma hyggst forgangsraða og hverjir sitja eftir. Fjárlög ársins 2026 benda því miður til þess að fólk í landinu, sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins, sé ekki í forgangi. Þvert á móti er verið að leggja auknar byrðar á heimilin með skattahækkunum, þjónustuskerðingu og útgjaldaaukningu sem standast ekki grunngildi um varúð og ábyrgð.
Loforð um skatta stóðust ekki
Ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins lofaði því hátíðlega að skattar á almenning yrðu ekki hækkaðir. En loforðin stóðust ekki. Samsköttun hjóna er afnumin, kílómetragjald kemur til framkvæmda og vörugjöld hækka. Þar að auki eru lagðar 90 milljónir króna í auknar álögur á akstursíþróttir og lyfjakostnaður einstaklinga hækkar.
Allar þessar skattahækkanir lenda á almenningi.
Grundvallarforsendur fjárlaga næsta árs byggjast á afar veikum grunni. Tekjuforsendur fela í sér verulega bjartsýni og jafnvel óskhyggju. Atburðir síðustu mánaða hafa breytt efnahagshorfum verulega til hins verra. Jafnframt má leiða að því líkum að markmið gildandi fjármálastefnu, sem byggjast á forsendum um þróttmikinn hagvöxt, mikla innlenda eftirspurn og stöðugan útflutning, standist ekki lengur.
Útlit er fyrir að hagvöxtur verði mun minni árið 2025 en spáð var, og einnig árið 2026. Í ljósi þess er brýnt að efla verðmætasköpun og styðja við atvinnulífið með raunverulegum aðgerðum sem styðja við nýsköpun, frumkvöðla, matvælaframleiðendur og hugverkaiðnað. Fjárlögin 2026 tryggja ekki nægilegan stuðning eða metnað á þessum sviðum.
Útgjöld ríkisins aukast um 143 milljarða á milli áranna 2025 og 2026, sem er 9% hækkun í 4% verðbólgu. Þetta er mesta hækkun fjárlaga að nafnvirði frá árinu 2007. Við vitum hvernig það endaði en tveimur árum síðar varð efnahagshrun. Með þessu er ekki átt við að hrun sé í vændum nú, en þessi staða minnir okkur á að samhliða auknum útgjöldum verður að huga vel að stöðugleika, verðmætasköpun atvinnulífsins og stuðningi við það.
Fjárlögin fela einnig í sér að hætt er við að fjármagna varasjóði ráðuneyta annað árið í röð. Varasjóðir málaflokka eru til að auka sveigjanleika og draga úr notkun fjáraukalaga. Slíkur niðurskurður takmarkar verulega svigrúm ráðherra til að bregðast við óvæntum aðstæðum.
Heilbrigðisþjónusta vanfjármögnuð
Mikilvægar stoðir samfélagsins fá ekki það fjármagn sem þær þurfa. Meðferðarstofnanir eins og Ljósið, Reykjalundur og Náttúrulækningahælið fá samtals 700 milljónir króna, sem dugar skammt miðað við fyrirliggjandi þörf.
Lyfjamál eru einnig í ólestri. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir undirritaðrar í velferðarnefnd hafa engar haldbærar upplýsingar fengist frá ráðuneyti heilbrigðismála um lyfjakostnað. Ekki er nægilegt fjármagn sett í lyfjamál til að tryggja Íslendingum sem veikastir eru aðgang að bestu fáanlegu krabbameinslyfjum. Þeir sem greinast með krabbamein á Íslandi búa því miður ekki við sömu tækifæri til lækningar og sjúklingar annars staðar á Norðurlöndum. Það er óásættanlegt.
Menntamál vanfjármögnuð
Í menntamálum blasir enn fremur við skortur á faglærðum kennurum, íslenskukennslu og aðgengi að nútímalegum námsgögnum. Í minnihlutaáliti okkar í Framsókn lögðum við til aukin framlög og skýrari markmið um gæði menntunar til að snúa þeirri þróun við og styrkja íslenska menntun til framtíðar. Þeim var hafnað af stjórnarmeirihlutanum.
Margt er jákvætt í fjárlögum ársins 2026 og mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir þeim framförum sem þar birtast. En við verðum jafnframt að gera betur. Á Alþingi höfum við tækifæri til að bæta úr og tryggja að fjárlög næsta árs leggi raunhæfan grunn að framtíðinni. Það þýðir meiri varúð í áætlanagerð ríkisins, stuðning við verðmætasköpun og skýra forgangsröðun þar sem velferð fólks er í fyrsta sæti. Það hefur sjaldan verið mikilvægara en nú!
Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. desember 2025.
