Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar var lögð fram til fyrri umræðu 12. nóvember sl. og endurspeglar hún áherslur meirihlutans um heilbrigt og fjölskylduvænt samfélag þar sem lýðheilsan er sett í forgang.
Rekstur bæjarins stendur traustum fótum, heildartekjur áætlaðar um 24,7 milljarðar og rekstrarafgangur tryggður. Á sama tíma horfum við til áframhaldandi íbúafjölgunar og þar með aukinna krafna um þjónustu – sérstaklega fyrir börn og barnafjölskyldur.
Mikil áhersla er lögð á leik- og grunnskóla, sem eru hjarta samfélagsins. Á næsta ári verður rúmlega 11 milljörðum króna ráðstafað til reksturs fræðslu- og frístundastarfs, til að tryggja áframhaldandi öflugt og faglegt starf fyrir nærri 900 leikskólabörn og rúmlega 1800 grunnskólanema bæjarins. Þrátt fyrir hækkun leikskólagjalda helst hlutdeild foreldra í rekstri leikskóla lág og við höldum áfram að tryggja að þjónustan sé aðgengileg öllum fjölskyldum, óháð efnahag.
Lýðheilsa er rauður þráður fjárhagsáætlunarinnar. Í fyrsta sinn í langan tíma eru íþrótta- og tómstundamannvirki stærsti einstaki liðurinn í fjárfestingum bæjarins, eða 37% af heildarfjárfestingum. Frístunda- og íþróttastarf er einn af burðarásum lýðheilsu og félagslegra tengsla barna og unglinga. Forvarnargildi slíks starfs er óumdeilt og skilar sér í sterkari félagsfærni og bættri heilsu. Félagsmiðstöðvar verða áfram forgangsverkefni, enda skipta þær sköpum fyrir andlega heilsu og félagslega þátttöku ungs fólks. Auk þess munum við halda áfram að byggja upp og hlúa að útivistartengdum innviðum. Með því hvetjum við fjölskyldur til hreyfingar og sköpum umhverfi sem styður vellíðan barna jafnt sem fullorðinna.
Ég hvet íbúa Mosfellsbæjar til að kynna sér fjárhagsáætlunina fyrir komandi ár og þá sérstaklega greinargerðina sem henni fylgir. Þar er helstu upplýsingum miðlað á einstaklega skýran og aðgengilegan hátt. Seinni umræður um fjárhagsáætlun fara svo fram 3. desember þegar áætlunin verður afgreidd í bæjarstjórn.
Fjárhagsáætlun 2026 er ekki aðeins fjárfestinga– og rekstraráætlun — hún er yfirlýsing um forgangsröðun: Að fjárfesta í börnum, fjölskyldum og lýðheilsu samfélagsins alls. Með ábyrgri fjármálastjórn, skýrri stefnu og markvissri forgangsröðun tryggum við að Mosfellsbær verði áfram eitt fjölskylduvænsta og heilsusamlegasta sveitarfélag landsins.
Sævar Birgisson, bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ.
Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 27. nóvember 2025.
