Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður og 2. varaformaður fjárlaganefndar, segir „með ólíkindum að horfa upp á raun útgjaldaaukningu á milli fjárlaga um 143 m.kr. og hvernig má það ríma við markmið fjárlaga 2026 og peningastefnu Seðlabankans.“
Stefán Vagn mælti fyrir nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar við 2. umræðu um frumvarp til fjárlaga, fyrir árið 2026, og sagði hann þau byggju á „of veikum grunni“ og endurspegluðu ekki lengur raunveruleg efnahagsskilyrði í landinu. Stefán Vagn varaði við því að afkomumarkmið fjármálastefnunnar, þar á meðal loforð um hallalausan ríkisrekstur árið 2027, séu í uppnámi nema gripið verði til markvissra aðgerða, bæði á tekju- og útgjaldahlið.
Stefán Vagn dró upp í máli sínu dökka mynd af stöðu þjóðarbúsins: hagvöxtur á árinu 2025 er nú metinn um 0,9% og Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að árið 2026 geti orðið enn erfiðara, með viðvarandi slaka í hagkerfinu, auknu atvinnuleysi og veikari fjárfestingu en áður var talið. Jafnframt bent hann á röð áfalla í útflutningsgreinum, frá álframleiðslu og fiskeldi til ferðaþjónustu og tollaákvarðana Evrópusambandsins á kísilmálm. „Forsendur fjárlaga næsta árs byggi á of veikum grunni,“ sagði Stefán Vagn og varaði við því að stefnumörkun stjórnvalda í opinberum fjármálum njóti ekki tiltrúar almennings og markaðsaðila ef ekki sé brugðist hratt við breyttri stöðu.
- Sjá nánar: Ræða frsm. 1. minni hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson)
- Sjá nánar: Nefndarálit 1. minni hluta um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2026.
- Sjá nánar: Breytingartillaga 1. minni hluta við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2026.
Krefst varfærni í stað bjartsýni
Stefán Vagn leggur í nefndaráliti 1. minni hluta þunga áherslu á að fjárlögin verði að laga að breyttu efnahagsástandi. Nú sé ekki tími til að mála fallegar sviðsmyndir í fjármálum ríkisins heldur sýna raunsæi og aga.
Í nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar er gagnrýnt að frumvarpið byggi enn á bjartsýnni spám um innlenda eftirspurn og útflutning, þrátt fyrir að tekjustofnar ríkisins séu augljóslega að veikjast. Sem dæmi er vísað til áforma um breytingar á vörugjöldum af bifreiðum sem eiga að skila um 8,5 milljörðum króna í ríkiskassann. Stefán Vagn bendir hins vegar á að bílaleigur og almenningur hafi þegar flýtt bílakaupum til að sleppa við hærri gjöld og að bílamarkaður sé mjög verðnæmur.
Slík framsetning „rýri trúverðugleika efnahagsstefnunnar í heild“ og grafi undan tiltrú á því að stjórnvöld og Seðlabankinn hafi samræmda og ábyrga hagstjórn til lengri tíma litið.
Fjárlög langt umfram fyrra ár – vaxtagjöld á sögulegu hámarki
Í nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar er bent á að heildargjöld ríkisins séu nú áætluð um 1.626 milljarðar króna árið 2026, sem er tugum milljarða umfram fjárlög 2025. Á sama tíma er fjárlagahalli næsta árs metinn yfir 27 milljarða króna og vaxtagjöld nálgast 150 milljarða.
Minni hlutinn segir ljóst í nefndarálitinu að staða ríkissjóðs sé „afar viðkvæm“ og að óvissa hafi aukist í öllum helstu þáttum efnahagslífsins, frá útflutningsgreinum og lánamarkaði til húsnæðismarkaðar og gengis krónunnar.
Sérstaklega er gagnrýnt í nefndaráliti 1. minni hluta að almennur varasjóður ríkissjóðs sé skorinn niður í lágmark samkvæmt lögum um opinber fjármál, eða um 1%. Minni hlutinn telur að í ljósi aukinnar óvissu ætti varasjóður fremur að vera á bilinu 1,5–2% til að mæta hugsanlegum áföllum á næstu árum.
Fimm meginstoðir breytingatillagna
Tillögur 1. minni hluta fjárlaganefndar byggja á fimm meginstoðum sem eiga að mynda heildstæða nálgun að endurskoðun fjárlagafrumvarpsins:
1. Endurmat á útgjaldaáherslum og sjálfbærni þeirra
Útgjaldavöxtur ríkissjóðs á milli ára er tekinn til skoðunar í ljósi versnandi efnahagshorfa. Lögð er áhersla á varfærni og raunsæi í stað of bjartsýnna spáforsendna.
2. Markvissari framkvæmd fjárlaga með skýrum markmiðum
Minni hlutinn gagnrýnir harðlega að markmið 35 málefnasviða ríkisins séu víða loðin, tæknileg og illa mælanleg. Krafist er skýrra, mælanlegra og árangurstengdra markmiða sem gera Alþingi kleift að fylgjast raunverulega með því hvort fjárveitingar skili þeim árangri sem stefnt er að.
3. Metnaðarfullar, en markvissar breytingar á fjárlögum
Lagt er til að fjárheimildir verði auknar á lykilsviðum, sérstaklega þar sem samfélagsleg þörf er brýnust:
- 400 m.kr. til geðheilbrigðisþjónustu barna
- 500 m.kr. til að lækka lyfjakostnað almennings
- 200 m.kr. til eflingar sérgreinalækna
- 200 m.kr. til að efla lestrarfærni og íslenskukunnáttu barna, m.a. með þróun námsgagna og stuðningi við kennara
- 500 m.kr. í nýsköpun, þar á meðal Nýsköpunarsjóð landsbyggðarinnar
- 1.000 m.kr. í markaðsátak fyrir ferðaþjónustu
- 500 m.kr. til að styrkja íslenskan iðnað og matvælaframleiðslu
- 200 m.kr. til stuðnings ungu fólki á vinnumarkaði í ljósi áhrifa gervigreindar og stafrænnar þróunar
4. Ábyrgar sparnaðaraðgerðir til mótvægis
Til að mæta um 3,7 milljarða króna útgjaldaaukningu leggur minni hlutinn til sparnað og aðhald að fjárhæð 3,5-4,5 milljarða. Þar á meðal:
- almenn 2% aðhaldskrafa í rekstri ríkisins, einkum með einföldun stjórnsýslu og hagræðingu, en án þess að skerða grunnþjónustu,
- frestun óbrýnna framkvæmda, þar á meðal byggingar nýs nefndahúss Stjórnarráðsins.
5. Undirbúningur næstu fjármálaáætlunar
Endurskoðun markmiða málefnasviða er lykilforsenda þess að fjármálaáætlun 2027-2031 verði trúverðug og í takt við breyttar efnahagsforsendur. Sú vinna verður að hefjist strax.
„Alþingi getur ekki sinnt fjárstjórnarhlutverki sínu“
Einn harðasti tónn nefndarálits 1. minni hluta fjárlaganefndar beinist að því hvernig fjármálaáætlun og fjárlög hafi verið fram sett undanfarin ár. Minni hlutinn segir það grafalvarlegt að markmið málefnasviða hafi ekki verið skýr í fjármálaáætlun 2026-2030, heldur að hluti upplýsinganna hafi verið falinn í sérstöku „mælaborði“ á vef stjórnvalda.
Slíkt verklag, að mati 1. minni hluta fjárlaganefndar, sé „ekki lögmætt“ og í beinni andstöðu við anda og texta laga um opinber fjármál. Alþingi sé einfaldlega ekki veittar þær upplýsingar sem þurfi til að það geti sinnt stjórnskipulegu eftirlitshlutverki sínu með fjármálum ríkisins.
„Núverandi staða er sú að Alþingi getur ekki uppfyllt nægilega vel fjárstjórnarhlutverk sitt,“ segir Stefán Vagn, þar sem bent er á að óljós markmið og skortur á mælikvörðum geri það nánast ógerlegt að meta hvort fjárfest sé í réttum verkefnum og hvort markmið séu raunverulega fjármögnuð.
Krefjast gagnsærri fjárlagagerðar og sterkari grunns
Niðurstaða 1. minni hlutans í fjárlaganefnd er skýr: ekki sé forsvaranlegt að samþykkja fjárlagafrumvarpið óbreytt. Endurskoða verði forsendur þess, styrkja varasjóði, skýra markmið og færa Alþingi aftur raunverulegt vald yfir forgangsröðun og útgjöldum ríkisins.
Í nefndarálitinu er jafnframt lögð áhersla á að margt jákvætt sé að finna í fjárlagafrumvarpinu, sérstaklega þegar kemur að innviðauppbyggingu og tilteknum samfélagsverkefnum. En án skýrrar heildarsýnar, trúverðugra efnahagsforsenda og raunhæfrar tekjuáætlunar sé hætt við að fjárlögin verði enn ein bjartsýnisæfingin á pappír, á meðan raunveruleiki þjóðarbúsins segir allt annað.
Helstu tillögur 1. minni hluta fjárlaganefndar
Útgjaldatillögur (aukning um 3,7 ma.kr.):
- Geðheilbrigðisþjónusta barna: 400 m.kr.
- Lækkun lyfjakostnaðar: 500 m.kr.
- Efling sérgreinalækna: 200 m.kr.
- Lestrarfærni og íslenska: 200 m.kr.
- Nýsköpun og Nýsköpunarsjóður landsbyggðarinnar: 500 m.kr.
- Markaðsátak í ferðaþjónustu: 1.000 m.kr.
- Markaðsátak fyrir íslenskan iðnað og matvæli: 500 m.kr.
- Stuðningur við ungt fólk á vinnumarkaði: 200 m.kr.
Sparnaðaraðgerðir (3,5–4,5 ma.kr.):
- Almenn 2% aðhaldskrafa í rekstri ríkisins, án skerðingar á grunnþjónustu.
- Frestun óbrýnna framkvæmda, m.a. nýs nefndahúss Stjórnarráðsins.
***
- Sjá nánar: Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2026.
- Sjá nánar: Fylgirit með frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2026.
