Categories
Fréttir Greinar

Frístundastyrkur og íþróttaskólinn

Deila grein

09/12/2025

Frístundastyrkur og íþróttaskólinn

Þegar íþróttaskóli HSV var stofnaður árið 2011 var stigið mikilvægt skref í að tryggja jafnt aðgengi allra barna í 1.–4. bekk grunnskóla að fjölbreyttu og uppbyggilegu íþróttastarfi. Markmiðið var skýrt; að fá sem flest börn til að iðka íþróttir, að fyrstu kynni yrðu jákvæð, að börn fái að kynnast sem flestum íþróttagreinum, auka almenna hreyfingu, hreyfiþroska og hreyfigetu og ekki síst að lækka kostnað heimila við íþróttaiðkun barna. Íþróttafélög sýndu sameiginlega ábyrgð, héldu æfingum fyrir þennan aldurshóp í hófi og rukkuðu ekki æfingagjöld yfir vetrartímann.

Breytt staða í íþróttastarfi yngstu barnanna

Á undanförnum árum hefur landslagið hins vegar breyst. Sum félög hafa dregið sig út úr íþróttaskólanum og önnur tekið gagnstætt skref með því að auka æfingatíðni og sérhæfingu hjá yngstu iðkendum.

Þegar rekstur íþróttaskólans færðist frá HSV til Ísafjarðarbæjar hefur þessi þróun orðið enn skýrari. Æfingum hefur fjölgað og æfingagjöld hækkað á sama tíma. Þetta hefur óumdeilanlega aukið fjárhagsábyrgð foreldra og skapað aðstöðumun milli barna.

Frístundastyrkur

Fyrir ári síðan lagði Framsókn til að komið yrði á frístundastyrk fyrir börn í 5. – 10. bekk grunnskóla sem eru utan íþróttaskólans. Rökin voru að gera sveitarfélagið enn samkeppnishæfara þegar kemur að búsetu ákvörðun fjölskyldufólks. Einnig sem hvatning fyrir börn á þessum aldri til íþrótta- og tómstundaiðkunar og styrkja það að öll börn geti tekið þátt óháð efnahag og félagslegum aðstæðum.

Með breyttum forsendum og auknu fjárhagslegu byrði sem foreldrar standa frammi fyrir vegna íþróttaiðkunar barna var einhugur í skóla- íþrótta og tómstundanefnd nú að leggja til að færa frístundastyrkinn niður í 1. bekk. og halda óbreyttri upphæð sem er 40.000 kr. á ári á barn.

Ekki má gleyma því að frístundastyrkur nær út fyrir hefðbundið íþróttastarf. Hann getur nýst í tónlistarnám, listnám, dans og  aðrar skipulagðiar frístundir sem efla þroska, heilbrigði og félagsfærni barna.

Aukning styrkjapottarins úr 10 í 15 milljónir króna er ánægjulegt skref og mikilvægt til að tryggja að styrkurinn nái til fleiri barna. En slíkar ákvarðanir skila sér einungis ef þáttökugjöld í íþróttum- og tómstundum hækka ekki í kjölfarið og éta upp ávinninginn. Það er því lykilatriði að félög fari varlega í gjaldskrárbreytingar og taki virkan þátt í samfélagslegri ábyrgð gagnvart barnafjölskyldum.

Tími til að endurskoða hlutverk íþróttaskólans

Í ljósi breyttra aðstæðna er tímabært að endurskoða stöðu íþróttaskólans. Upphaflegt markmið hans hefur smám saman vikið fyrir aukinni sérhæfingu og hærri kostnaði. Nú þarf að spyrja: Hvaða hlutverki á íþróttaskólinn að þjóna til framtíðar? Hvernig má samræma starf íþróttafélaga og skólans þannig að hann verði raunverulegur vettvangur fyrir hreyfingu allra barna, óháð áhuga, getu eða efnahag?

Slík endurskoðun er ekki aðeins æskileg heldur nauðsynleg ef tryggja á að íþróttastarfið á svæðinu haldi áfram að þróast með hagsmuni barnanna í forgangi.

Áhyggjur vegna minnkandi þátttöku ungmenna

Athygli vekur að einungis um 70% barna í 5.–10. bekk hafa nýtt sér frístundastyrkinn það sem af er ári. Það gæti verið vísbending um að stór hópur barna og ungmenna taki ekki þátt í neinu skipulögðu íþrótta- eða frístundastarfi. Slík þróun getur haft neikvæð áhrif á líkamlega, félagslega og andlega heilsu þeirra til lengri tíma. Það er staða sem við megum ekki horfa framhjá.

Við berum sameiginlega ábyrgð á því að skapa aðstæður sem hvetja börn til þátttöku, efla þau og styðja fjölskyldur. Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt og núna í okkar samfélagi þar sem áskoranir barnafjölskyldna hafa sjaldan verið meiri.

Elísabet Samúelsdóttir, bæjarfulltrúi og nefndarmaður í skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðabæjar.

Greinin birtist fyrst á bb.is 9. desember 2025.