Categories
Fréttir Greinar

Fullveldið á tímum gervigreindarinnar

Deila grein

02/12/2025

Fullveldið á tímum gervigreindarinnar

107 ár eru liðin frá því að deilum um fullveldi Íslands lauk með undirritun sambandslagasamningsins, sem tók gildi 1. desember 1918. Frelsisþráin var drifkrafturinn, að Íslendingar réðu sínum málum sjálfir og mótuðu framtíð barna sinna. Saga fullveldisins er saga framfara. Á rúmri öld hefur okkur tekist að byggja upp afar öflugt velferðarsamfélag, nýta auðlindir landsins af ábyrgð og skapa list sem dáðst er að um heim allan. Allir Íslendingar hafa lagt sig fram við að móta samfélagið okkar með þessum hætti.

Ein af mikilvægustu stoðunum í samheldni þjóðarinnar og framgangi hennar er tungumálið okkar, íslenskan. Þjóðin hefur ætíð verið stolt af tungumálinu sínu og hverju það hefur áorkað. Jónas Hallgrímsson skáld var fremstur í flokki að lyfta okkar ástkæra og ylhýra máli. Allt bendir til þess að þær þjóðfélagsbreytingar sem fram undan eru vegna innreiðar gervigreindar séu ámóta miklar og íslenskt samfélag upplifði á 20. öld, ef ekki umfangsmeiri. Í mínum huga skiptir öllu að íslenskan sjálf, tungumálið okkar, haldi áfram að vera framsækin í heimi gervigreindar með tilkomu öflugrar máltækni. Íslensk máltækni er ekki munaður heldur nauðsyn. Við verðum að tryggja að hægt sé að tala við símann, tölvuna og bílinn á íslensku. Þetta krefst áframhaldandi skýrrar stefnu, fjárfestinga og samstöðu fræðasamfélags, atvinnulífs og stjórnvalda.

Um leið og við erum í sókn fyrir íslenskuna, þá verðum við að horfa til þeirra tækifæra sem felast í gervigreindinni sjálfri. Sé gervigreindin innleidd af ábyrgð og sanngirni, þá getur hún aðstoðað okkur við ýmsar meiriháttar framfarir í atvinnulífinu. Til þess verðum við þó að tryggja að ávinningurinn nái til allra, óháð aldri, búsetu eða bakgrunni. Gervigreind má hvorki verða tæki til að auka misskiptingu né grafa undan trausti á lýðræði. Hún á að vera þjónn samfélagsins, ekki húsbóndi þess. Þess vegna þarf að byggja upp stafræna hæfni og gagnalæsi frá grunnskóla og upp í háskóla ásamt símennt.

En tæknin leysir okkur ekki undan ábyrgð þess að tryggja bjarta framtíð íslenskunnar. Hvert og eitt okkar ber ábyrgð með því hvaða mál við veljum í snjalltækjum, í merkingum í verslunum, í tungumáli vinnustaða, í því hvaða efni við búum til og deilum. Við getum aldrei sætt okkur við að framtíðarsaga fullveldis Íslands verði ekki sögð á íslensku.

Markmiðið hlýtur að vera að næstu hundrað ár fullveldis verði ekki síður farsæl en þau sem að baki eru. Að sama skapi skal sagan áfram verða skrifuð á íslensku. Fullveldið á tímum gervigreindarinnar felst í því að við ráðum sjálf ferðinni, nýtum tæknina í okkar þágu og tryggjum að hún styrki íslenska tungu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. menningarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. desember 2025.