Categories
Fréttir

„Horfum á það að halli hefur tvöfaldast á innan við mánuði“

Deila grein

03/12/2025

„Horfum á það að halli hefur tvöfaldast á innan við mánuði“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, spurði í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi hvort markmið um hallalaus fjárlög 2027 standist. Sagði hún hallaspá ríkissjóðs nær tvöfaldast á örfáum vikum og varasjóði nánast þurrkaða út. Ingibjörg gagnrýndi forsendur fjárlagafrumvarpsins í umræðu á Alþingi um fjárlög næsta árs og spurði fjármálaráðherra hvaða skref hann hygðist stíga til að halda hallanum í skefjum.

Ingibjörg rakti að afkomaáætlun ríkissjóðs hafi breyst verulega á örfáum vikum. „Í september var talað um að hallinn væri um 15 milljarðar kr. og nú er ljóst samkvæmt meirihlutaáliti fjárlaganefndar að hallinn stefnir í 25-27 milljarða kr. Það er nær tvöföldun á áætlun á innan við mánuði.“

Á sama tíma hafi ríkisstjórnin lækkað almennan varasjóð í lágmark og í fjárlögum 2026 sé ekki lengur gert ráð fyrir varasjóðum einstakra málaflokka. „Þannig að nánast ekkert má út af bregða,“ sagði Ingibjörg og benti á að tekjuforsendur væru svo þandar að „það má engu muna að þær bregðist“.

„Þessi staða þýðir einfaldlega að öll áhættan hvílir á því að tekjur standist og að engin ófyrirséð útgjöld komi til, sem við vitum, búandi á Íslandi, að raungerist eflaust ekki,“ sagði Ingibjörg. Hún minnti á að ríkisstjórnin hefði ítrekað talað um stöðugleika og ábyrg fjármál, sem sé mikilvægt, en að ekki sé síður mikilvægt að fjárlögin „standist raunveruleikann“.

Ingibjörg vék einnig að því að lykilstærðir í hagkerfinu virðast ekki þróast í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins. „Þegar við horfum á það að varasjóður er tekinn í lágmark, þegar við horfum á það að halli hefur tvöfaldast á innan við mánuði, að tekjuáætlanir um breytingar á vörugjöldum standast ekki og að lykiltölur í hagkerfinu, atvinnuleysi, útflutningur, vaxtagjöld, þróast með allt öðrum hætti en frumvarpið gerir ráð fyrir.“

Í lok ræðu sinnar beindi Ingibjörg beinni spurningu til fjármálaráðherra um næstu skref. Hún spurði hvað hann hygðist gera til að tryggja að hallinn á næsta ári verði ekki meiri en 25-27 milljarðar króna og hvort hann teldi enn raunhæft að markmiðið um hallalaus fjárlög árið 2027 standist.