Categories
Fréttir Greinar

Leikskólagjöld hækka um 2.900 kr.

Deila grein

02/12/2025

Leikskólagjöld hækka um 2.900 kr.

Hækkun leikskólagjalda á næsta ári verður rúmlega 2.900 krónur á mánuði fyrir 8 tíma vistun með fæði, eða sem samsvarar um 9,5%.

Þrátt fyrir þessa hækkun verður Mosfellsbær áfram með lægstu leikskólagjöldin á höfuðborgarsvæðinu. Engar breytingar verða gerðar á reglum um afslætti.

Að hækka leikskólagjöld er aldrei létt ákvörðun. En hækkunin er nauðsynleg til að mæta auknum rekstrarkostnaði og til að tryggja áframhaldandi vandaða þjónustu fyrir börn og foreldra. Þróunin frá árinu 2013 hefur verið þannig að hlutdeild foreldra í kostnaði hefur sífellt orðið lægri, farið úr 32% árið 2013 í 8% í dag.

Fyrsta skólastigið og lykilþáttur í lífi barna og fjölskyldna

Leikskólar eru þó miklu meira en tölur í fjárhagsáætlun. Þeir eru fyrsta skólastigið og grundvöllur þess að fjölskyldur geti náð jafnvægi milli vinnu, heimilis og uppeldis. Þar skapast umgjörð sem tryggir börnum öryggi, þroska og nám og foreldrum tækifæri til að vera þátttakendur á vinnumarkaði á eigin forsendum.

Það þarf einnig að hafa hugfast að leikskólar eru ekki lögbundið verkefni sveitarfélaga. Samt sem áður myndi íslenskt samfélag einfaldlega ekki virka án þeirra. Mosfellsbær hefur árum saman tekið þá skýru stefnu að standa vörð um þessa þjónustu og byggja upp leikskólakerfi sem styður við börn, fjölskyldur og atvinnulíf.

Jafnrétti og leikskólar

Leikskólar hafa verið ein af mikilvægustu stoðunum í jafnréttisbaráttunni. Það var ekki sjálfsagt mál að konur gætu tekið þátt í atvinnulífinu – það var baráttumál. Aðgengi að leikskólum hefur því verið gríðarlega mikilvægt í því að tryggja konum jafna stöðu á vinnumarkaði. Sterkt leikskólakerfi er ekki aðeins menntamál, heldur einnig jafnréttis- og velferðarmál.

Starfsfólkið – grunnur að gæðum og stöðugleika

Það er áskorun að ná jafnvægi í leikskólarekstri sem þjónar bæði börnum, foreldrum og starfsfólki. Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að því að bæta starfsaðstæður í leikskólunum. Þannig var ákveðið að taka upp skráningu barna eftir klukkan 14 á föstudögum ásamt því að skráningardagar voru teknir upp milli jóla og nýárs og í dymbilviku fyrir páska. Þessi breyting gerði okkur kleift að innleiða að fullu styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki leikskólanna auk þess að uppfylla 30 daga orlofsrétt. Rétt er að taka fram að foreldrar þeirra barna sem þurfa að nýta leikskólaplássið á skráningartíma eða skráningardegi greiða ekki viðbótargjald vegna þess. Þeir foreldrar sem geta nýtt styttinguna fá afslátt af leikskólagjöldum sem nemur tímafjölda.

Framtíðarsýn

Við viljum halda áfram að geta tryggt öllum börnum sem eru orðin 12 mánaða 1. ágúst ár hvert leikskólapláss. Eins viljum við halda áfram að niðurgreiða vistun hjá dagforeldrum frá 12 mánaða aldri og tryggja þannig að allir foreldrar sitji við sama borð hvað varðar kostnað fyrir vistun barna þeirra.

Með þessum breytingum öllum vonumst við til að halda öflugu og faglegu starfsfólki, laða að nýtt starfsfólk og halda áfram að byggja allt leikskólastarf á gæðum, fagmennsku og góðum starfsskilyrðum fyrir starfsfólk – sem er grunnurinn að metnaðarfullu og öflugu leikskólastarfi og kærleiksríkri umönnun barna.

Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 27. nóvember 2025.