Við göngum inn í nýtt ár á tímum mikillar óvissu. Stríðsátök, spenna í samskiptum stórvelda, uppskerubrestir, ójöfnuður og almennur óstöðugleiki víða um heim minna okkur á að friður, öryggi og velmegun eru ekki sjálfsagðir hlutir. Þótt Ísland sé fjarri ófriði og samfélagið búi almennt við mikinn jöfnuð finnum við vel fyrir áhrifum heimsmála, meðal annars í efnahagslegum sveiflum, verðbólgu og þeirri tilfinningu að framtíðin sé ófyrirsjáanlegri en áður.
Áramót eru því merkileg tímamót. Þau gefa okkur færi á að staldra við, líta yfir farinn veg og horfa fram á við. Á slíkum tímum er það á ábyrgð okkar allra að finna það sem sameinar okkur og styrkir samfélagið, fremur en að festast í sundrung og skammtímadeilum.
Samstaða í verki felur í sér að við hlustum hvert á annað, jafnvel þegar við erum ósammála. Hún felur í sér að við kjósum samvinnu fram yfir sundrung og viðurkennum að samfélaginu gengur betur þegar allir geta lagt sitt af mörkum á eigin forsendum. Þetta á jafnt við um einstaklinga og fyrirtæki, stjórnvöld og stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök.
Staðreyndin er sú að við höfum tilhneigingu til að ræða vandamál og gagnrýna lausnir út frá okkar eigin sjónarhorni, án þess að taka nægilegt tillit til sjónarmiða annarra. Áskoranir samtímans kalla hins vegar á víðsýni og þegar við leggjum áherslu á það sem sameinar okkur fremur en það sem sundrar, styrkjum við samfélagið í heild.
En fögur orð duga ekki ein og sér. Þau verða að birtast í áþreifanlegum árangri. Við þurfum aðgerðir í menntamálum, aðgerðir í atvinnumálum, aðgerðir og aftur aðgerðir. Raunverulegar lausnir sem bæta líf fólksins í landinu.
Verðmætasköpun er undirstaða velmegunar
Verðmætasköpun er undirstaða alls þess sem við viljum standa vörð um. Hún er forsenda öflugrar velferðar, traustrar heilbrigðisþjónustu og menntunar sem undirbýr okkur fyrir framtíðina. Gegnsæi í störfum hins opinbera og kraftmikið atvinnulíf eru samverkandi þættir sem skapa grundvöll öryggis og stöðugleika.
Útflutningsgreinar landsins eru og verða burðarás hagkerfisins. Sjávarútvegur, ferðaþjónusta, skapandi greinar, hugverkaiðnaður, orkutengd starfsemi og nýsköpun skapa tekjur, störf og gjaldeyri sem gera samfélaginu kleift að halda úti sameiginlegum kerfum. Þessar greinar byggja á þekkingu, mannauði og skýru regluverki en þær þurfa stöðugt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi.
Reynslan af aðgerðum stjórnvalda í heimsfaraldri covid-19 sýnir þetta vel. Þá stóð þjóðin saman og samfélagið studdi við atvinnulífið á margvíslegan hátt. Sú stefna, ásamt sanngjörnum og hóflegum aðgerðum, hefur skilað sér í miklum styrk og sveigjanleika íslensks atvinnulífs síðustu ár. En sú staða krefst áframhaldandi fyrirhyggju. Til að verðmætasköpun haldi áfram að vaxa þarf fyrirsjáanleika, stöðuga efnahagsstefnu, hófsemi í opinberum útgjöldum, skýra forgangsröðun og ábyrga skattastefnu. Því án sjálfbærrar verðmætasköpunar veikist velferðin smám saman.
Áskoranir atvinnulífsins birtast á mismunandi hátt eftir greinum. Í ferðaþjónustu, sem er ein af stoðum hagkerfisins, hafa árin í kjölfar covid-tímabilsins verið krefjandi. Greinin hefur þó tekist á við breyttar aðstæður og þarf nú að finna jafnvægi milli vaxtar og sjálfbærni. Það eru þó ýmsar blikur á lofti og mikilvægt að sýna þeim áskorunum skilning og vinna að lausnum sem styðja við greinina til framtíðar.
Heilbrigðiskerfið krefst langtímasýnar
Öflugt atvinnulíf og sterkt velferðarkerfi eru ekki andstæður. Þau eru háð hvort öðru. Án verðmætasköpunar er engin velferð, og án velferðar veikist samfélagið til lengri tíma. Þetta samhengi blasir skýrt við þegar horft er til heilbrigðiskerfisins. Þar hefur fagfólk sýnt mikla seiglu og ábyrgð, oft við krefjandi aðstæður. En ekkert kerfi getur byggt framtíð sína á fórnfýsi einni saman.
Flestar þjóðir glíma við svipaðar áskoranir og við og brestir heyrast víða. Því leggja þjóðir nú aukna áherslu á fjárfestingu í mannauði og innviðum, skýra stefnu um fjármögnun heilbrigðismála og raunhæfa langtímasýn. Það krefst þess að við finnum saman raunhæfar leiðir til að tryggja nægjanlegar tekjur ríkissjóðs til að halda úti traustri heilbrigðisþjónustu.
Menntakerfið mótar framtíðina
Menntakerfið er þó sú fjárfesting sem skiptir einna mestu máli til framtíðar. Þar er grunnur lagður að verðmætasköpun morgundagsins og þar mótast framtíð og viðhorf næstu kynslóða. En þróunin síðustu ár er áhyggjuefni. Brottfall nemenda, slakur árangur og hækkandi meðalaldur kennara kalla á viðbrögð. Hlutfall ungra kennara er með því lægsta í Evrópu.
Ef ekki verður brugðist við mun það hafa áhrif langt út fyrir veggi skólanna. Áhrifin munu smám saman koma fram í getu okkar til að skapa verðmæti og tryggja velmegun. Við þurfum að fjárfesta til langs tíma í eflingu kennaranáms, bættu starfsumhverfi kennara, tryggja öryggi í skólum og styrkja námsgagnagerð. Þetta er verkefni þjóðarinnar allrar.
Ungt fólk þarf tækifæri
Við þurfum umfram allt að skapa raunveruleg tækifæri fyrir ungt fólk. Húsnæðismarkaðurinn er orðinn ein stærsta áskorunin í lífi ungra fjölskyldna og fyrstu kaupenda sem of oft eiga erfitt með að eignast húsnæði. Þegar ungt fólk getur ekki séð fyrir sér framtíð á Íslandi vegna húsnæðisskorts er það vandamál sem snertir alla þjóðfélagshópa.
Við þurfum að auka framboð, auka gæði húsnæðis og tryggja að fólk geti byggt sér framtíð hér á landi. Það krefst samstarfs ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila, sem og nýrrar hugsunar í skipulagsmálum. Þegar við fjárfestum í húsnæðismálum ungs fólks fjárfestum við í framtíð þjóðarinnar.
Tækifæri um allt land
Áreiðanlegar samgöngur eru ekki bara þægindi heldur forsenda blómlegs atvinnulífs og að fólk geti búið og starfað um land allt. Þegar samgöngur eru ótryggar skerðast tækifæri, verðmætasköpun minnkar og ójöfnuður eykst.
Við þurfum að tryggja að innviðir samgangna séu öflugir, hvort sem um er að ræða vegakerfi, flugsamgöngur eða sjósamgöngur. Fjárfesting í samgöngum er fjárfesting í jöfnuði, byggð og framtíð landsins alls.
Innflytjendur hluti af samfélaginu
Málefni innflytjenda hafa verið áberandi síðustu misseri. Í því ljósi þurfum við að móta skýrari stefnu um hvernig við tökum á móti þeim sem koma hingað til að leggja sitt af mörkum. Ísland þarf á vinnandi höndum að halda og margir innflytjendur gegna lykilhlutverkum í heilbrigðisþjónustu, skólum og atvinnulífi.
Lausnin felst ekki í útilokun heldur í skýrri og sanngjarnri stefnu sem byggist á gagnkvæmum réttindum og skyldum. Þekking á íslensku er lykillinn að þátttöku, við eigum að gera kröfur til kunnáttu í íslensku en um leið verður samfélagið að tryggja raunhæf tækifæri til náms, samhliða skýrum kröfum um virðingu fyrir lögum, reglum og menningu.
Saman erum við sterkari
Á óvissutímum skiptir mestu að þjóðin standi saman. Ekki með orðum einum saman, heldur með ábyrgum ákvörðunum og raunverulegum árangri. Þegar við skiljum að verðmætasköpun og velferð styðja hvort annað, styrkjum við samfélagið í heild. Með því að fjárfesta í heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Með því að skapa tækifæri fyrir ungt fólk og tengja landið saman með öflugum innviðum. Með því að styðja við atvinnulíf sem getur dafnað og skapað störf fyrir alla.
Þar liggur mesti styrkur okkar sem þjóðar og þar liggja tækifærin á nýju ári.
Gleðilegt nýtt ár.
Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. janúar 2026.
