Með ákveðinni einföldun má líkja efnahagsmálum þjóða við siglingu á úthafi þar sem aðstæður geta breyst hratt. Nú er aukinn mótvindur, vaxandi ölduhæð og óvissan um þróun mála meiri en vænlegt er. Hagvöxtur verður minni en vonast var til, helstu útflutningsgreinar hafa upplifað mótbyr og Seðlabankinn spáir áframhaldandi áskorunum í efnahagslífi þjóðarinnar.
Á slíkum tímum reynir sérstaklega á forystu ríkisstjórnar og Alþingis að sýna samstöðu, festu og raunsæi. Við höfum áður siglt í gegnum margs kyns öldurót og það gerum við áfram með árvekni og ábyrgum aðgerðum.
Jákvæð skref í fjárlagafrumvarpinu
Heilt yfir er jákvætt að ríkisstjórn Íslands haldi fast við markmiðið um jafnvægi í ríkisfjármálum árið 2027 í fjárlögum. Það markmið skiptir máli fyrir stöðugleika og trúverðugleika ríkisfjármála. Þá eru auknar fjárfestingar í lykilinnviðum fagnaðarefni, ekki síst í heilbrigðiskerfi s.s. í málefnum fólks með fíknivanda og í samgöngum sem snerta landið í heild.
Þetta eru allt dæmi um mikilvægar forsendur fyrir öflugu og sanngjarnara samfélagi sem hrósa má fyrir.
Þrátt fyrir þetta eru ýmsar brotalamir í frumvarpi til fjárlaga. Hér eru fimm dæmi um hvar gera þarf betur.
1. Þörf er á átaki og skýrari markmiðum í menntamálum
Staða menntamála er ein helsta áskorun þjóðarinnar. Árangur nemenda er langt frá því að vera ásættanlegur og þróunin á lestrarfærni bendir til kerfislægs vanda. Ef ekkert verður af hálfu ríkisins blasir við hrun í færni, tækifærum og þátttöku ungs fólks í samfélaginu á næstu árum. Þetta varðar ekki aðeins íslenskukunnáttu heldur verðmætasköpun, atvinnulíf og framtíðarstöðu íslenskunnar sjálfrar.
Markmið fjárlagafrumvarpsins um menntamál bera þess ekki nægilega skýr merki að um neyðarástand sé um að ræða.
Þess vegna þarf sameiginlegt menntunarátak þjóðarinnar. Við þurfum að hraða heildarendurskoðun á skipulagi kerfisins, skýra gæðaramma, samræmt ytra mat og gagnadrifnar ákvarðanir. Það þarf líka að auka aga innan skólakerfisins og virðingu fyrir námi í gegnum samvinnu heimilis og skóla.
Við þurfum framtíðarsýn með skýrum mælanlegum markmiðum sem nær yfir leik-, grunn- og framhaldsskóla og tryggir öllum börnum menntun sem stenst bestu alþjóðlegar kröfur. Nú þarf metnað, hugrekki og viljastyrk til breytinga. Ekki orð á blaði.
2. Auka þarf sókn í nýsköpun og efla aðgang að alþjóðlegum mörkuðum
Það blasir einnig við að sókn í nýsköpun og atvinnuþróun er of veikburða miðað við aðstæður. Hagkerfið er að kólna en fjárfestingar í nýjum tækifærum hafa ekki fylgt eftir. Landbúnaður, svo dæmi sé tekið, þarf aukna nýliðun og sókn, ekki hindranir. Fæðuöryggi er hluti af þjóðaröryggi og á að endurspeglast í auknum fjárheimildum til öryggismála.
Þá þarf að styrkja innviði nýsköpunar um allt land. Sprotafyrirtæki og frumkvöðlar eru lykillinn að því að fá meira virði fyrir auðlindir, efla hugvit og móta tækni. Þess vegna leggjum við til aukna fjárfestingu í nýsköpunarverkefnum. Jafnframt leggjum við til átak í alþjóðlegri markaðssetningu fjölbreyttrar íslenskrar framleiðslu; allt frá íslenskum matvælum yfir í hugbúnað og hönnun. Sama á við um ferðaþjónustuna sem er í krefjandi alþjóðlegri samkeppni.
Sóknarfæri Íslands eru til staðar en þau þurfa aukið eldsneyti og kraft. Með því byggjum við fleiri stoðir undir atvinnulífið sem núverandi áskoranir í iðnaði sýna svo glöggt að þörf er á.
3. Varasjóður ríkisins þarf að vera raunhæfur
Almennur varasjóður ríkisins á að vera öryggisventill þegar áföll dynja yfir. Í fjárlögum er hann aðeins 1% af heildarútgjöldum sem er lögbundið lágmark. Það er einfaldlega ekki nægilegt. Forsendur ársins 2026 eru brothættar og reynslan sýnir að óvænt áföll eru regla frekar en undantekning hérlendis.
Ef varasjóðurinn er of rýr er fjárlagafrumvarpið að öllum líkindum of bjartsýnt. Þá næst jafnvægi aðeins ef allt gengur upp og það gerist sjaldan. Við þurfum raunhæf fjárlög, borð fyrir báru og meiri varfærni í áætlanagerð.
4. Tungumálið og menningin eru verðmæti sem þarf að hlúa betur að
Við verðum einnig að horfast í augu við að við fjárfestum ekki nægilega í mikilvægustu innviðum samfélagsins; tungumálinu sem tengir okkur saman og varðveitir að auki bæði menningu okkar og sögu. Án skýrra og róttækra aðgerða heldur staða íslenskunnar áfram að versna. Menningarleg sjálfsmynd okkar, samheldni þjóðarinnar og framtíðarmöguleikar ungs fólks eru í húfi. Hér þarf að fjárfesta mun meira, skýra umgjörð og setja mælanleg markmið í framkvæmd, eins konar TOEFL-próf íslenskunnar. Fjármagn og aðgerðir skila litlu ef ekki er hægt að meta hvernig tekst til.
5. Að standa vörð um landið er skynsamleg fjárfesting
Þá er kominn tími til að endurmeta hvernig við hugsum um landið sjálft. Eignarhald auðlinda skiptir máli. Nýting lands og auðlinda er mikilvægur grunnur fjölbreyttrar verðmætasköpunar á Íslandi en er oft rædd með áherslu á hraða og skammtímaverðmæti. Verndun býr líka til verðmæti og oftar en ekki til lengri tíma.
Sjónarmið þess að fara vel með hálendið þurfa ekki endilega að felast í fórn heldur geta búið til langtímafjárfestingu. Við þurfum að vera opin fyrir því samtali. Ósnortin víðerni eru eins konar náttúruauðlindasjóður sem hækkar í virði eftir því sem þau verða fágætari og eykur sérstöðu Íslands til framtíðar.
Á sama tíma styrkir varfærin innviðauppbygging sérstöðu Íslands í ferðaþjónustu. Hér má enn upplifa eina raunverulega ósnortna hálendisupplifun Evrópu. Slík sérstaða er mikils virði bæði beint og óbeint.
Hugsun um verndun náttúru og ábyrga nýtingu með langtímasýn á að vera leiðarljós í allri okkar áætlunargerð, samhliða öflugri uppbyggingu grunninnviða á borð við heilbrigðisþjónustu, menntun og samgöngur.
Styrkur Íslands eykst með þessum áherslum
Þjóð sem menntar sig vel og fjölgar eggjum í körfu hagkerfisins þegar á móti blæs með áherslu á nýsköpun og sókn atvinnuvega eflir seiglu sína og kraft.
Þjóð sem sýnir ráðdeild á óvissutímum á meiri möguleika ef það gefur á bátinn.
Þjóð sem ver náttúru, tungu og menningu hefur skýran áttavita um hver eru hennar mestu verðmæti.
Með slíkum fjárfestingum hefur Ísland meiri möguleika óháð því hvort við siglum á lygnum sjó eða í ölduhæð úthafsins.
Högum fjárlögum á þá vegu.
Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 11. desember 2025.
