Flestir þekkja söguna af manninum í Biblíunni sem reisti húsið sitt á sandi. Allt var í himnalagi þar til óveðrið skall á og leiddi í ljós að grunnurinn var veikur og húsið hrundi. Fjárlög sem byggjast á veikum forsendum eru af sama toga.
Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2026 virðist vera að lenda í sömu vandræðunum og hús mannsins sem reist var á sandi. Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabanka Íslands er gert ráð fyrir mun minni hagvexti í ár eða 0,9% í stað 2,3%. Við blasir hagkerfi þar sem umsvif dragast saman og viðvarandi slaki hefur tekið við af tímabundinni kólnun. Fyrri forsendur um hagvöxt eru brostnar.
Röð áfalla í útflutningsdrifnum atvinnugreinum þjóðarbúsins hefur dunið á okkur, ásamt nýjum tollum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Þessi staða hefur rýrt horfur um vöxt og tekjuöflun. Afleiðingin er sú að tekjustofnar ríkisins eru líklegir til að þróast með öðrum hætti en fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Á sama tíma bendir Seðlabankinn á að árið 2026 geti orðið enn erfiðara, með minni fjárfestingu, auknu atvinnuleysi og slaka í þjóðarbúinu. Þetta hefur bæði áhrif á tekju- og útgjaldahlið ríkissjóðs og kallar á meiri varfærni.
Óvissa er einkennandi fyrir flesta þætti efnahagskerfisins og nær ekki bara til útflutnings heldur einnig lánamarkaða, verðbólguvæntinga og gengisþróunar. Í slíkum aðstæðum ætti fjárlagagerð að byggjast á varfærnum forsendum og traustri áhættustýringu. Þrátt fyrir það er almennur varasjóður ríkissjóðs skorinn niður í 1% af heildarútgjöldum, sem er aðeins lögbundið lágmark. Í ljósi þess óvissustigs sem nú ríkir er eðlilegt að varasjóður sé frekar á bilinu 1,5-2% til að mæta þeim áföllum sem fyrirsjáanlegt er að geti átt sér stað.
Niðurstaðan er sú að forsendur fjárlaga næsta árs eru byggðar á of veikum grunni. Fjármálastefna sem miðast við þróttmikinn hagvöxt og öflugan útflutning endurspeglar ekki lengur efnahagslegan veruleika. Trúverðugleiki ríkisfjármála er forsenda þess að heildstæð efnahagsstefna njóti trausts. Þegar tekjuáætlanir byggjast á bjartsýni frekar en raunsæi, þá er hætt við að traustið minnki.
Ég hvet ríkisstjórnina til að sýna meiri fyrirhyggju, skerpa forgangsröðun og tryggja að opinber fjármál standist raunsæispróf. Að öðrum kosti má segja að verið sé byggja hús ríkisfjármálanna á sandi.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. desember 2025.
