Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, vakti athygli í störfum þingsins á nýrri tungumálastefnu Landspítalans og sagði hana mikilvægt fordæmi fyrir aðrar stofnanir. Hún óskaði spítalanum til hamingju með „skýra afstöðu með íslenskunni“ og lagði áherslu á að slík stefna skipti verulegu máli fyrir samfélagið.
Halla Hrund benti á að á síðustu árum hefðu komið til landsins um 50 þúsund innflytjendur, sem sé mjög hátt hlutfall miðað við stærð þjóðarinnar. Í því ljósi dugi engin ein aðgerð til að efla íslenskuna; þvert á móti þurfi heildstæða, fjármagnaða innviðaáætlun fyrir tungumálið, á borð við samgönguáætlun. „Tungumálið er vegakerfið okkar á milli,“ sagði hún og minnti á að íslenskan geymdi menningu þjóðarinnar og væri forsenda samheldni.
Halla Hrund sagði að verið sé að leggja til viðbótarfjárframlag, tæplega 200 milljónir króna umfram það sem fram kemur í meirihlutaáliti fjárlaganefndar, til verkefna tengdra íslenskukennslu. Nemur heildarupphæðin þá 486 milljónum króna. Fjármununum eigi að verja í kennslu, kennslugögn, samtalsþjálfun og þróun mælitækja til að meta árangur í íslensku.
Nefndi Halla Hrund sérstaklega hugmynd um eins konar „TOEFL-próf í íslensku“, þar sem skýr viðmið yrðu sett um tungumálakunnáttu. Slíkt próf gæti, að hennar mati, nýst bæði við inngöngu í háskóla og í tengslum við veitingu dvalarleyfa og atvinnuréttinda, líkt og þekkist í ýmsum löndum. Með betri mælikvörðum væri auðveldara að fylgjast með árangri af auknum framlögum til íslenskunnar.
Í lok ræðunnar hvatti Halla Hrund til þess að áætlanir Landspítalans yrðu teknar sem fyrirmynd. Meira í þá átt, sagði hún, myndi skila meiri samheldni í íslensku samfélagi.
