Categories
Fréttir Greinar

Loksins kviknað á perunni?

Deila grein

22/12/2023

Loksins kviknað á perunni?

Síðustu daga hafa þingmenn og heilu þingflokkarnir lýst því yfir að þeir ætli að beita sér fyrir aukinni orkuöflun til að mæta yfirvofandi raforkuskorti hér á landi. Ítrekaðar áhyggjur hafa verið hunsaðar og nú, þegar vandinn er farinn að vera virkilega alvarlegur og er orðinn öllum kýrskýr, keppast þingmenn við að koma með háfleygar yfirlýsingar eins og að hulunni hafi verið svipt.

Ég fagna því vissulega að kollegar mínir hafi loksins kveikt á perunni og áttað sig á þeim vanda sem lengi hefur legið í loftinu. Vonandi eru þetta ekki tóm orð í von um aukið fylgi. Því það er ljóst að margir þessara þingmanna þurfa að taka U-beygju á sinni afstöðu t.d. hvað varðar friðun og regluverk.

Takmarkaður áhugi hingað til

Ýmsar aðgerðir hafa verið lagðar til með það að markmiði að geta framleitt meiri orku, nýtt hana betur og efla dreifingu hennar. Lengi hafa sérfræðingar í orkugeiranum bent á yfirvofandi orkuskort og kallað eftir aðgerðum, en undirrituð hefur unnið að því að koma skilaboðum þeirra áleiðis bæði í þingsal, á fundum og í hinum ýmsu fjölmiðlum. Áhugi þingheims fyrir alvöru aðgerðum hefur verið takmarkaður hingað til.

Stjórnkerfið í kringum leyfisveitingar og rannsóknir er óþarflega flókið og hægfara. Það líða jafnvel áratugir frá því að virkjanakostur kemur upp sem hugmynd þar til hann verður að veruleika. Við höfum of lengi beðið eftir aðgerðaráætlun og regluverki í kringum nýtingu nýrra grænna orkukosta eins og vindorku. Friðun vatnasviða og þar með útilokun mögulegra virkjunarframkvæmda er sett á dagskrá þrátt fyrir að þörfin fyrir aukna orku liggur fyrir.

Þörf á hugarfarsbreytingu

Stjórnvöld og samfélagið allt þurfa að horfa á orkumál landsins með öðru viðhorfi. Núverandi hugarfar virkar greinilega ekki og það gengur ekki að seinka mikilvægum fyrirbyggjandi aðgerðum um mörg ár og jafnvel virða þær að vettugi. Við viljum vera sjálfum okkur nóg í orkuöflun og tryggja orkuöryggi hér á landi en við sjáum dæmi erlendis um það hversu mikilvægt það reynist að þurfa ekki að stóla á önnur ríki til að fullnægja grundvallarþörfum samfélagsins.

Standið við stóru orðin

Nú er komið að þingheimi að taka á honum stóra sínum og sýna fram á að yfirlýsingarnar séu ekki bara orðin tóm. Miðað við fjölda yfirlýsinga þingmanna og þingflokka þá ætti það ekki að reynast erfitt að skapa sátt og komast að niðurstöðu.

Ég er, og hef lengi verið, tilbúin í þá vinnu.

Við þurfum að setja okkur markmið; hversu mikla orku þurfum við á að halda til framtíðar? Í kjölfarið getum við sett á laggirnar alvöru aðgerðir til að mæta þeirri framtíðarorkuþörf í stað þess að bregðast við aðstæðum hverju sinni.

Á meðan er það virkilega óábyrgt að ræða frekari friðun heilu vatnasviðanna. Það er óforsvaranlegt að setja friðun á dagskrá þegar við höfum ekki gert áætlun til framtíðar. Við megum ekki við því að útiloka heilu virkjunarmöguleikana í því ástandi sem við erum.

Á ríkisstjórnarborðinu er það nauðsyn að endurskoða rammaáætlun á nýjan leik með það að leiðarljósi að endurskoða friðlýsingu vatnasviða, nýta þau tækifæri sem okkur bjóðast og alls ekki útiloka virkjunarmöguleika til framtíðar.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Opinská samtöl í átt að betri landbúnaði

Deila grein

01/12/2023

Opinská samtöl í átt að betri landbúnaði

Matarkista okkar Íslendinga er fjölbreytt og margþætt. Hér á landi eru framleiddar heilnæmar afurðir sem unnar eru af alúð. Íslensk matvælaframleiðsla göfgar okkar samfélag og menningu.

Við erum rík af náttúrutengingu okkar, en einn af hornsteinum landbúnaðarins er að tryggð sé rétt nýting lands og verndun þess. Með öflugum landbúnaði, sem hingað til hefur verið eitt einkenna okkar Íslendinga, er stuðlað að bæði fæðuöryggi landsmanna og afli til að viðhalda blómlegri byggð um landið. Framleiðslan hefst hjá bændum, sem hafa unnið hörðum höndum við að tryggja að íslensk matvæli eru heilnæm, örugg og í hæsta gæðaflokki. Þrátt fyrir þrotlausa vinnu á stéttin undir þungt högg að sækja.

Við í Framsókn höfum alltaf unnið við að styðja þessa mikilvægu stétt og þeirri vinnu mun aldrei ljúka. Við höfum talað fyrir þeim sjónarmiðum að áfram þurfi að leita leiða til að styrkja landbúnað sem atvinnugrein, stuðla að aukinni sjálfbærni og gæta að búsetuöryggi á landsbyggðinni.

Ein elsta starfsgrein landsins sinnir mjög mikilvægu hlutverki til framtíðar og við verðum að tryggja henni tækifærin til þess.

Grafalvarleg staða

Þó svo að bændur séu því vanir að staða starfsgreinarinnar sé sveiflukennd þá hefur útlitið sjaldan verið eins slæmt né óvissan jafnmikil og núna. Það hefur varla farið fram hjá landsmönnum að aðstæður bænda og rekstrargrundvöllur fara versnandi með hverjum mánuði.

Margar ástæður eru fyrir þessari stöðu, en hana má aðallega rekja til utanaðkomandi atburða og aðstæðna. Við í Framsókn horfum á núverandi stöðu innan stéttarinnar alvarlegum augum, en hún er í raunverulegri hættu sem við verðum að gera út af við.

Á undanförnum vikum buðum við bændum á opna fundi á Norður- og Austurlandi, enda er það allra mikilvægasta að heyra áhyggjur þeirra beint. Andrúmsloftið á fundunum var skiljanlega þungt á köflum, en þeir voru góðir, gagnlegir og vel sóttir þar sem farið var yfir stöðuna og ekki síður horfur innan greinarinnar á opinskáan máta.

Af umfjöllun síðustu mánaða og framangreindum fundum með bændum er ljóst að fjöldi verkefna hefur beðið úrlausnar í of langan tíma þegar kemur að málefni landbúnaðarins og styrkingu á öflugri byggð á dreifðari svæðum. Allir eru sammála um að einfalda þurfi regluverkið í kringum atvinnugreinina, bæta aðgengi og efla rekstrarumhverfi innan landbúnaðarins.

Langur verkefnalisti

Bændur hafa lengi bent á að bú sé langtímastarfsemi, en bændur hafa farið í nauðsynlegar fjárfestingar sem hafa leitt til talsverðrar skuldsetningar.

Takmarkaðir fjármögnunarmöguleikar hafa, í samspili við hátt vaxtaumhverfi, leitt til þess að þungbærar horfur blasa nú við.

Á fundum okkar með bændum kom m.a. fram að rík þörf er fyrir endurfjármögnunarmöguleikum þar sem horft er til lengri tíma lánveitingu. Við viljum skoða möguleika á opinberu fyrirkomulagi sem getur styrkt greinina í heild og miðar að eðli starfseminnar.

Á sama tíma er mikilvægt að einfalda rekstrarumhverfi svo að unnt sé að skapa aukin tækifæri í landbúnaði með sjálfbærni að leiðarljósi. Þau sjónarmið eru í samræmi við það sem ungir bændur og nýliðar í greininni hafa lagt mikla áherslu á. Þau úrræði sem komið hafa fram að undanförnu, svo sem hlutdeildarlán, hafa ekki nýst ungum fjölskyldum í búrekstri sem skyldi. Þessar leiðir eru áhugaverðar og jákvæðar en þarfnast frekari útfærslu svo þær gefi góða raun, enda teljum við brýnt að nýliðun í landbúnaði verði útfærð þannig að hún hjálpi til við að lækka þröskuldinn fyrir þá aðila sem hyggjast hefja búrekstur.

Við í Framsókn tökum undir með bændum um að endurskoða þurfi fyrirkomulag tolla hér á landi og innflutning á afurðum erlendis frá. Tollavernd er innlendri matvælaframleiðslu afar mikilvæg og á að stuðla að því að hún geti stundað eðlilega samkeppni við sívaxandi innflutning á réttum og sanngjörnum forsendum. Á fundum okkar með bændum voru ræddar þær kröfur  sem við eigum að gera til innfluttra matvæla. Þær verða að vera í samræmi við þær kröfur sem við gerum hér heima. Þá eiga að vera gerðar kröfur m.t.t. sýklalyfjanotkunar, aðbúnað dýra og túlkun á gildandi löggjöf.

Tekjur og málefni afurðastöðva voru einnig rædd. Ekki síst í tengslum við verðmið við innflutning, sem er krónutölubundinn að hluta en fylgir ekki verðlagi. Það eru fjölmörg skýr dæmi um hversu brýnt er að huga sérstaklega að tekjum afurðastöðva innan landbúnaðarins.

Augljóst er að verkefnin eru fjölmörg og geta ekki beðið úrlausnar í langan tíma. Sjaldan hefur verið jafn nauðsynlegt að bretta upp ermar í þessum málaflokki. Bændur eiga það skilið að ríkið vinni með þeim á erfiðum tímum og aðstoði þá við að bæta stöðu þeirra og rekstrargrundvöll áður en að stór hluti greinarinnar heyri sögunni til í stað þess að spila sitt hlutverk til framtíðar.

Ingibjörg Isaksen og Þórarinn Ingi Pétursson, þingmenn Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 30. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Nýtum hagkvæma kosti

Deila grein

11/11/2023

Nýtum hagkvæma kosti

Í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar seg­ir að Ísland eigi að vera í far­ar­broddi í um­hverf­is­mál­um á alþjóðavísu. Stjórn­valda bíður verðugt verk­efni við að sjá til þess að orkuþörf sam­fé­lags­ins sé upp­fyllt á sama tíma og við ætl­um okk­ur að draga úr gróður­húsaloft­teg­und­um. Stefna stjórn­valda er að hætta al­farið notk­un jarðefna­eldsneyt­is og nýta þess í stað græna orku. Orku­skipti eru rík­ur þátt­ur í fram­lagi Íslands til að ná ár­angri í bar­átt­unni við lofts­lags­vá. En svo þeim mark­miðum sé náð verðum við að tryggja aðgang að grænni orku með sjálf­bæra þróun að leiðarljósi.

Stækk­un smá­virkj­ana

Af þessu til­efni hef­ur und­ir­rituð lagt fram skýrslu­beiðni þar sem um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra er falið að greina hvaða smá­virkj­an­ir á Íslandi á þegar röskuðum svæðum þoli stækk­un. Und­ir­rituð tel­ur þetta vera skyn­sam­lega leið til þess að greina hvar sé mögu­legt með ein­föld­um hætti að ná í orku án þess að fjölga virkj­un­um. Það ligg­ur fyr­ir að auka þarf fram­boð á inn­lendri, end­ur­nýj­an­legri orku svo hægt sé að leysa af hólmi aðflutta orku­gjafa líkt og olíu. Staðreynd­in er sú að um þess­ar mund­ir er orku­vinnslu­kerfi lands­ins full­nýtt og skort­ur á orku er far­inn að valda vanda. Sam­kvæmt raf­orku­spá Landsnets munu orku­skipt­in kalla á aukna eft­ir­spurn eft­ir raf­orku í takt við að þau munu raun­ger­ast ásamt því að raf­orku­notk­un heim­ila og þjón­ustuaðila mun halda áfram að aukast í takt við auk­inn fólks­fjölda. Þá er einnig gert ráð fyr­ir að þörf at­vinnu­lífs­ins fyr­ir aukna raf­orku muni halda áfram að þró­ast í svipuðum takt og verið hef­ur. Sam­kvæmt spánni er því fyr­ir­sjá­an­legt að aflskort­ur verði viðvar­andi og því þörf á að bregðast hratt við og mæta vax­andi þörf fyr­ir raf­orku.

Skyn­sam­leg nýt­ing

Smá­virkj­an­ir eru mik­il­væg­ar til þess að styrkja dreifi­kerfi raf­orku um landið en allt að fimmt­ung­ur allr­ar raf­orku sem RARIK dreif­ir til viðskipta­vina kem­ur frá smá­virkj­un­um um landið. Smá­virkj­an­ir stuðla ekki bara að auknu orku­ör­yggi lands­ins held­ur geta þær einnig verið mik­il­væg­ur þátt­ur í að tryggja vaxt­ar­mögu­leika lands­byggðar­inn­ar. Sam­kvæmt grein­ing­ar­vinnu Orku­stofn­un­ar á smá­virkj­un­ar­kost­um eru fjöl­marg­ir virkj­un­ar­kost­ir til staðar með sam­an­lagða afl­getu yfir 2.500 MW. Ein­hverj­ar af þess­um smá­virkj­un­um búa þó yfir tæki­fær­um til að auka fram­leiðslu­getu sína enn frek­ar og því mik­il­vægt að skoða þann mögu­leika með þeim fyr­ir­vara að það hafi ekki um­framá­hrif á um­hverfið.

Í ljósi þeirr­ar al­var­legu stöðu sem upp er kom­in í orku­mál­um þjóðar­inn­ar tel­ur und­ir­rituð mik­il­vægt að end­ur­skoða lög um vernd­ar- og ork­u­nýt­ingaráætl­un nr. 48/​2011 og legg­ur því til að um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra, í kjöl­farið á grein­ing­ar­vinnu um mögu­leg­ar stækk­an­ir smá­virkj­ana, leggi fram frum­varp með það að mark­miði að nýta bet­ur þá orku sem hægt er að afla með virkj­un­um á þegar röskuðum svæðum og þola stækk­un um­fram 10 MW. Þannig má tryggja skyn­sam­lega nýt­ingu á sama tíma og vernd er tryggð á öðrum svæðum. Sú sem hér skrif­ar tel­ur þó jafn­framt afar mik­il­vægt að smá­virkj­an­ir sem færu yfir 10 MW lytu lög­um um um­hverf­is­mat fram­kvæmda nr. 111/​2021 og öðrum lög­um sem gilda um slík­ar fram­kvæmd­ir. Staðreynd­in er sú að lang­an tíma tek­ur að virkja nýja orku­kosti, lang­tíma­áætlan­ir þurfa því að gera ráð fyr­ir orku­kost­um til að mæta framtíðarþörf­um og auka þannig fyr­ir­sjá­an­leika og stöðug­leika. Með því að fjár­festa í grænni orku og til­einka okk­ur nýja tækni get­um við hjálpað til við að tryggja orku­framtíð okk­ar og tryggja að við leggj­um okk­ar af mörk­um til að vernda jörðina fyr­ir kom­andi kyn­slóðir.

Inigbjörg Isaksen, þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. nóvember 2023.

Categories
Fréttir

Bréf frá formanni Þingflokks Framsóknar

Deila grein

09/11/2023

Bréf frá formanni Þingflokks Framsóknar

Ágætu vinir!

Haustfundur miðstjórnar Framsóknar verður haldinn helgina 18.-19. nóvember í Vík í Mýrdal. Skrifstofa flokksins hefur verið önnum kafin við undirbúning fundarins, útlit er fyrir góða mætingu og má reikna með öflugum umræðum og góðri skemmtun.

Undanfarnar vikur hafa verið haldin kjördæmisþing flokksins víða um land. Í heildina hefur mæting á þingin verið góð, umræður öflugar og á stöku þingum hafa stjórnmálaályktanir verið ræddar og afgreiddar. Kynning á innra starfi flokksins hefur verið sérstakur dagskrárliður og þeirri vinnu verður framhaldið á komandi miðstjórnarfundi.

Fjölmörg mál hafa komið til kasta þingsins á liðnum vikum. Hæst ber eins og áður fjárlög næsta árs en stefnt er að annarri umræðu fjárlaga 21. nóvember ef allt gengur eftir. Formaður, Sigurður Ingi mælti fyrir Samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 í þinginu á dögunum en henni hefur nú verið vísað til umhverfis- og samgöngunefndar. Reikna má með að málið verði fyrirferðarmikið á þeim vettvangi en áhersla er lögð á að vinna málið jafnt og þétt.
Þingmenn flokksins hafa verið öflugir það sem af er vetri og mælt fyrir sínum þingmannamálum auk þess að óska eftir sérstökum umræðum.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir var málshefjandi í sérstakri umræðu um slysasleppingar í sjókvíaeldi við matvælaráðherra. Óhætt er að taka undir með Lilju Rannveigu um mikilvægi þess að ef sjókvíaeldi eigi að byggjast upp í sátt við umhverfi og samfélag, verði að tryggja að eftirlitið sé í lagi.

Samtök ungra bænda boðuðu til baráttufundar á dögunum. Fundurinn var kröftugur þar sem ungir bændur komu skilaboðum sínum vel á framfæri. Lögð var fram ályktun þess efnis hve erfitt væri fyrir unga bændur að koma inn í greinina en eðlileg nýliðun sé forsenda áframhaldandi landbúnaðar og fæðuöryggis í landinu. Beint var þeim mikilvægu skilaboðum til stjórnvalda að hlusta vel þegar rekstrarumhverfi landbúnaðarins er rætt.

Verulegar breytingar hafa orðið á rekstrarumhverfi bænda undanfarna mánuði vegna hækkun stýrivaxta og hefur undirrituð ásamt Þórarni Inga boðað til opinna funda með bændum í Norðausturkjördæmi. Þegar þetta er ritað hafa tveir af þremur fundum verið haldnir við mikla aðsókn. Umræður hafa verið málefnalegar en ljóst að staðan er þung og aðgerða er þörf.

Náttúruöflin hafa minnt rækilega á sig undanfarna daga með jarðhræringum á Reykjanesskaga og sjáum við hversu vanmáttug við erum í aðstæðum sem þessum. Innviðir og innviðaöryggi hefur verið í umræðunni enda töluverð hætta komi til eldgoss að ekki sé til nægur búnaður hér á landi sem gæti tekið við, skyldi heitavatnsframleiðsla í Svartsengi stöðvast.
Sérfræðingar fara yfir viðbragðsáætlanir enda miklir almannahagsmunir í húfi.
Upplýsingafundir hafa verið mikilvægt innlegg í atburði þessa daga, þar sem Orkumálastjóri og sérfræðingar HS Orku og HS Veitna hafa farið yfir sviðið.

Á Alþingi í dag var lögð fram og rædd þingsályktunartillaga utanríkismálanefndar um afstöðu Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs. Dregin eru fram skýr sjónarmið Ísland en hér meðfylgjandi er tillagan eins og hún var lögð fram og samþykkt samhljóða.

   „Alþingi ályktar að án tafar skuli komið á vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza-svæðinu svo tryggja megi öryggi almennra borgara, jafnt palestínskra sem ísraelskra.
   Alþingi fordæmir öll ofbeldisverk sem beinast gegn almennum borgurum í Palestínu og Ísrael. Alþingi krefst þess að alþjóðalögum sé fylgt í einu og öllu í þágu mannúðar, öryggis almennra borgara og verndar borgaralegra innviða.
   Alþingi fordæmir hryðjuverkaárás Hamasliða á almenna borgara í Ísrael sem hófst 7. október 2023. Alþingi fordæmir sömuleiðis allar aðgerðir ísraelskra stjórnvalda í kjölfarið sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum, þ.m.t. óheyrilega þjáningu, manntjón, mannfall almennra borgara og eyðileggingu borgaralegra innviða. Brýnt er að öll brot stríðandi aðila á alþjóðalögum verði rannsökuð til hlítar.
   Alþingi kallar eftir mannúðlegri meðferð á og tafarlausri lausn gísla, aðgengi hjálpar- og mannúðarsamtaka og að neyðarvistum og læknisaðstoð verði komið til almennings tafarlaust.
   Alþingi felur ríkisstjórninni að beita sér fyrir viðbótarframlagi til mannúðaraðstoðar og rannsóknar á brotum á alþjóðalögum til að fylgja eftir þeim áherslum sem fram koma í ályktun þessari.“

Í máli sem þessu er mikilvægt að samstaða ríki. Skilaboðin eru skýr og mikilvæg þar sem þingheimur sameinast um fordæmingu á ofbeldi, virðingu fyrir alþjóðalögum, vernd almennra borgara og varanlega friðsamlega lausn fyrir þjóðirnar fyrir botni Miðjarðarhafs.

Hlakka til að sjá ykkur á miðstjórnarfundinum!

Framtíðin er björt með Framsókn!
Með kveðju frá Austurvelli,
Ingibjörg Isaksen
Categories
Fréttir Greinar

Bjart fram undan í ferða­þjónustu á Norður- og Austur­landi

Deila grein

31/10/2023

Bjart fram undan í ferða­þjónustu á Norður- og Austur­landi

Í dag lenti fyrsta flugvél EasyJet á Akureyrarflugvelli og hóf þar með vikulegt áætlunarflug í vetur. Þetta er stórmerkur áfangi og vart hægt að hugsa sér betri leið til að fagna vetrarkomunni. EasyJet er eitt öflugasta flugfélag Evrópu sem getur, ef vel gengur, gjörbreytt öllum forsendum fyrir heilsársferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi. Þennan fyrsta vetur eru áætlaðar 44 ferðir, eða yfir 8.000 ný flugsæti sem ferja hingað til lands ferðaþyrsta gesti sem munu án efa fara vítt og breitt um landshlutana. Þessar ferðir bætast við það framboð sem erlendar ferðaskrifstofur hafa þegar boðað. Eftir jól heldur Voigt Travel áfram með vetrarferðir frá Amsterdam, og svissneska ferðaskrifstofan Kontiki býður upp á ferðir til Akureyrar frá Zurich í febrúar og mars. Allt spennandi áfangastaðir fyrir okkur heimafólkið sömuleiðis. Þetta er stórkostleg framför og ljóst að það góða uppbyggingar- og kynningarstarf sem hefur verið leitt í gegnum markaðsstofurnar er að skila okkur markverðum árangri.

Aukin fjárfesting í hótelrekstri

Lenging ferðamannatímabilsins er forsenda þess að áfangastaðir geti vaxið og dafnað. Aukinn stöðugleiki og minni árstíðarsveiflur gera fjárfestingar í ferðaþjónustu meira aðlaðandi fyrir erlenda sem innlenda fjárfesta. Stórfelld uppbygging við Grenivík, yfirstandandi og fyrirhuguð uppbygging við Hafnarstræti á Akureyri og við Skógarböðin í Eyjafirði – og svo mætti áfram telja – er vonandi vitnisburður um töluverða bjartsýni þegar kemur að áframhaldandi vexti í landshlutanum. Slíkar fjárfestingar skila sér ekki bara til þeirra aðila sem standa að hótelrekstrinum, heldur til ótal ferðaþjónustuaðila sem selja þjónustu, vörur og veitingar til ferðamanna. Þar með talin einstök náttúruböð og laugar sem hafa glatt bæði heimamenn og gesti.

Varaflugvallagjald grundvöllur frekari vaxtar

Ferðaþjónustan hefur vaxið og dafnað sem mikilvæg stoð í innlendum efnahag en innviðirnir þurfa að sjálfsögðu að fylgja þeirri þróun. Það er því ekki síður ástæða til að fagna góðum gangi í framkvæmdum á flughlaðinu á Akureyri sem kemst í gagnið fljótlega á nýju ári. Viðbyggingin við flugstöðina er risin og þá verður farið í breytingar á eldri byggingum og framkvæmdum þar lokið næsta sumar. Stækkun flugstöðvarinnar er lykilatriði í uppbyggingu ferðaþjónustu og mun gera völlinn betur í stakk búinn til þess að þjóna alþjóðaflugi. Hér erum við að sjá í verki aukna áhersla á uppbyggingu innanlandsflugvalla en alls fara um 1.350 m.kr. til þeirra verkefna með tilkomu varaflugvallagjalds þar sem lögð verður áhersla á uppbyggingu varaflugvallanna í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum. Sé horft til næstu skrefa er mikilvægt að hraða vinnu við GPS aðflug, sem getur bætt öryggi og nýtingarmöguleika, og jafna eldsneytiskostnað milli landshluta. Með samhentu átaki getum við aukið samkeppnishæfni flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum, styrkt stöðu ferðaþjónustu á bæði Norður- og Austurlandi og ýtt undir betri dreifingu ferðamanna.

Uppbygging sem auðveldar markaðssetningu á Íslandi öllu

Öll þessi uppbygging eru góð tíðindi ekki bara fyrir landshlutana tvo heldur landið allt. Fjöldi ferðamanna er nú svipaður og fyrir heimsfaraldur og allt útlit fyrir áframhaldandi aukningu næstu ár. Einhverjir þessara ferðamanna hafa komið áður og eru að snúa aftur til landsins – og einhver hluti þeirra sem eru að koma í fyrsta skipti munu vilja koma aftur, ef við tökum vel á móti gestunum. Það er þó nokkuð ljóst að við ýtum ekki undir áhuga þeirra með því að selja sömu vöruna tvisvar. Ef við ætlum að gera sem mest úr ferðaþjónustu, til hagsbóta fyrir nærsamfélögin okkar um allt land, þá verðum við að skapa spennandi áfangastaði, með öfluga innviði og góðar gáttir til landsins.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis og Gunnar M. Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Fæðuöryggi á krossgötum

Deila grein

25/10/2023

Fæðuöryggi á krossgötum

Íslenskur landbúnaður, matarkista þjóðarinnar stendur um margt á krossgötum. Hann hefur gengið í gegnum miklar breytingar á undanförnum áratugum. Tæknibylting hefur gjörbreytt framleiðslu aðstæðum, ekki síst vegna aukinna krafna um aðbúnað dýra og eins kröfu markaðarins um lægra verð á matvælum.

Breytt umhverfi

Síðustu ár hefur orðið mikil hagræðing í landbúnaði þar sem búum hefur fækkað og stækkað. Framleiðsla í mjólk, hvítu kjöti og eggjum líklega aldrei verið keyrð á jafn hagkvæman máta, með stærri einingum án þess að mannskap hafi fjölgað mikið við vinnu á hverju búi og framleiðslan hefur aldrei verið meiri. Allt eins og áður segir er þetta gert til þess að framleiða gæða matvöru við sem bestar og hagkvæmastar aðstæður, enda staðreyndin að fá lönd geta státað sig af jafn hreinum landbúnaði og gæða afurðum eins og Íslendingar gera nú. En til þess að komast á þennan stað hefur landbúnaður þurft að fjárfesta verulega á undanförnum 15-20 árum. Þetta er fjárfesting til framtíðar, hús, vélar, tæki og ræktun sem munu nýtast næstu áratugina.

Aukin skuldsetning

Krossgöturnar eru þær að með stærri og meiri fjárfestingu hefur skuldsetning búanna líka aukist verulega og þegar vaxtarstig er með þeim ætti sem nú er mikil hætta á að illa fari. Það þarf þolinmótt fjármagn því það er hagur okkar allra að við búum að blómlegum landbúnaði til lengri tíma. Fjármagn sem þetta hefur tæplega verið í boði hjá lánastofnunum á þeim kjörum og þeim lánstíma sem hefði þurft. Íslenskur landbúnaður snýst um fæðuöryggi þjóðarinnar. Það hefur sannarlega sýnt sig í þeim átökum sem hafa átt sér stað í Austur Evrópu hversu mikilvægt fæðuöryggi er hverri þjóð. Því er mikilvægt að við stöndum í fæturna og styðjum þessa grein eins og best verður á kosið svo íslenskir bændur geti sinnt sínu hlutverki hvernig sem árar.

Ný nálgun

Íslendingar þurfa að fara hugsa landbúnað með nýrri nálgun á framtíð hans og vaxtarmöguleika. Snýr það bæði að fjármögnun atvinnugreinarinnar og ekki síður endurskoðun á fyrirkomulagi tolla og innflutnings á afurðum erlendis frá. Ný nálgun sem Þórarinn Ingi Pétursson þingmaður Framsóknar og formaður atvinnuveganefndar kom inn á í grein nýlega gæti verið áhugaverð. Þar sem hann varpar því fram að við höfum tækifæri til þess að nota í ríkari mæli Byggðastofnun sem útlánaaðila til kynslóðaskipta í landbúnaði. Ásamt því sem hann veltir því upp hvort hægt væri að nýta hugmyndafræði sem búin var til með hlutdeildarlánum fyrir fyrstu kaupendur fasteigna til þess að hjálpa ungu fólki að komast inn í landbúnað, þar sem ríkið myndi leggja til 20-30% í formi hlutdeildarlána við jarðakaup. Í landbúnaði þar sem þarf þolinmótt fjármagn þurfa lán sem þessi helst að vera til a.m.k. 50 ára á lágum vöxtum.

Með þessum aðgerðum væri hægt að skapa umhverfi þar sem eðlileg fjárfesting getur átt sér stað, þar sem búin geta fjárfest og hagrætt án þess að vera sokkin í fen skulda og vaxta og þegar hriktir í stoðum efnahagslífsins geta orðið stórslys með tilheyrandi gjaldþrotum og flótta úr landbúnaði. Íslendingar hafa einfaldlega ekki efni á að eiga ekki blómlegan landbúnað til að sinna grundvallarþörfum þjóðarinnar.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

At­vinnu­öryggi vegna barn­eigna

Deila grein

23/10/2023

At­vinnu­öryggi vegna barn­eigna

Einn af hornsteinum jafnréttisbaráttunnar hér á landi er að tryggja rétt til fæðingarorlofs og tryggja atvinnuöryggi barnshafandi kvenna og síðar beggja foreldra, þannig að óheimilt sé að segja starfsmanni upp störfum vegna fyrirhugaðs fæðingar- eða foreldraorlofs.

Það að eiga vona á barni og bjóða einstakling í heiminn er sennilega eitt af því fallegasta og dýrmætasta sem margir gera í lífinu, ef svo má segja. Að verða foreldri er einstakt í sjálfu sér, umsvifalaust fer margt að snúast um það barn sem er á leiðinni. Ábyrgðartilfinning í bland við eftirvæntingu.

Tæknifrjóvgun og tengdar meðferðir eru oft langt og erfitt ferli, inngrip sem hefur áhrif á líkamlega- og andlega líðan. Kostnaður sem fólk ber er þónokkur í dag og felur jafnframt í sér áhættu. Ferlið getur verið afar tímafrekt og algjör ógjörningur að tryggja að allt heppnist í fyrstu tilraun. Í einhverjum tilfellum þarf nokkrar tilraunir áður en ferlið heppnast, það er ef það heppnast. Á sama tíma getur það tekið á að ná ekki að sinna vinnu sinni eins og best verður á kosið og engum til hagsbóta að starfsmaðurinn standi mögulega höllum fæti gagnvart vinnuveitanda sínum á þeim tíma sem hann freistar þess að eignast barn og stofna til fjölskyldu.

Einstaklingar sem þurfa að leita í slíkt ferli hafa ekki sömu möguleika og aðrir til þess að halda áformum sínum leyndum um að eignast barn og stofna til fjölskyldu. Þeir einstaklingar sem ekki þurfa að gangast undir ferli sem þetta eru alla jafna ekki að upplýsa yfirmenn um áform um barneignir, enda er um að ræða einkamál hvers og eins.

Við eigum að vera vakandi fyrir því hvað má betur fara, bregðast við nýjum þörfum og þétta velferðarkerfi okkar á grundvelli jafnréttismála, því hef ég lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Það er stækkandi hópur sem hér um ræðir, en slíkum meðferðum hefur fjölgað um fjölgaði um meira en helming hér á landi á síðustu fjórum árum, en á síðasta ári voru 571 tæknifrjóvgunaraðgerð framkvæmd hér á landi, sem í mínum huga undirstrikar mikilvægi þessa máls, enda tel ég að við megum engan tíma missa.

Mikilvægar breytingar

Í mínum tillögum felast annars vegar viðurkenning á réttindum þeirra sem eru í tæknifrjóvgunarferli og hins vegar styrking á atvinnuöryggi fólks sem eru í meðferð vegna tæknifrjóvgana. Þannig að það sé skýrt í lögunum að óheimilt sé að segja starfsfólki á því tímabili sem virk meðferð með tæknifrjóvgun fer fram. Að því sögðu, þó það sé heimilt sé að geyma fósturvísa í allt að 10 ár þá ber að hafa í huga að vernd gegn uppsögn með þessum hætti er ætluð að eiga við á þeim tíma sem starfsmaðurinn undirgengst virka meðferð og getur sýnt fram á staðfestingu þess eðlis. Það er mikilvægt að halda áfram að styrkja réttaröryggi í jafnréttisbaráttunni, þeirri vegferð er aldrei lokið fremur en öðrum verkefnum.

Við höfum tök á að tryggja framangreint með samþykki á frumvarpinu sem hér um ræðir. Það er því einlæg von mín að frumvarpið hljóti brautargengi í þinginu á yfirstandandi löggjafarþingi.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Byggðir í sókn í 10 ár

Deila grein

10/10/2023

Byggðir í sókn í 10 ár

Í síðustu viku fór fram kjördæmavika og þingmenn voru á ferð og flugi að heimsækja fyrirtæki, fólk og stofnanir. Margt stendur upp úr en sérstaklega ánægjulegt var að taka þátt í afmælismálþingi um byggðaþróunarverkefnið Brothættar byggðir sem var haldið á Raufarhöfn. Verkefnið stendur á þeim tímamótum að fagna tíu ára starfsafmæli. 

Jákvæðni og samheldni

Allt frá fyrstu skrefum vakti verkefnið athygli stjórnvalda og hefur öðlast fastan sess í stefnu ríkisins í byggðamálum. Verkefnið er fjármagnað sem ein af 44 aðgerðum byggðaáætlunar sem ætlað er að styðja við blómleg byggðarlög um land allt. Það má með sanni segja að margt hafi breyst á áratug og mikilvægt er að nýta þessi tímamót til að meta árangurinn og halda áfram að finna leiðir til að efla smærri þorp og sveitir landsins. Hugmyndafræðin og vinnulagið sem unnið er eftir hefur hins vegar unnið sér verðskuldaðan sess. Sú hugmyndafræði gengur út á að efla þátttöku og frumkvæði íbúa. Á Norðausturlandi höfum við séð hvernig verkefni Brothættra byggða getur ýtt undir jákvæðni og samheldni íbúa. Byggðarlögin eru ólík að stærð og gerð, atvinnuvegirnir geta verið ólíkir en alltaf eru það íbúarnir sjálfir sem vita best á hverju skal byggja. 

Næg verkefni fram undan

Landsbyggðirnar eiga mikið inni og víða eru fræ í jörðu sem geta sprottið með næringu og alúð. Fjórtán byggðarlög hafa tekið þátt í Brothættum byggðum frá upphafi og í gegnum þetta átak hafa um 650 frumkvæðisverkefni íbúa fengið stuðning við að verða að veruleika. Þessir styrkir hafa hvatt fólk til dáða og leitt af sér alls kyns framtak sem hefur ekki bara auðgað nærsamfélögin, heldur auðgað íslenska menninguog sannarlega átt þátt í því að gera hvern landshluta enn skemmtilegri heim að sækja. 

Það eru næg verkefni eftir þegar horft er fram á við, verkefni sem stjórnvöld þurfa að koma að með einum eða öðrum hætti. Sameiginlegt viðfangsefni í öllum byggðum, svo eitthvað sé nefnt, eru húsnæðismálin. Þar er þörf á átaki svo húsnæðisskortur standi ekki uppbyggingu fyrir þrifum, hvorki í þessum landshluta né annars staðar. Samgöngur og aðrir innviðir eru grunnstoð samfélaga og forsenda uppbyggingar atvinnulífs. Núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir mikilli uppbyggingu í þessum málaflokki en margt óunnið enn. Eins þurfum við að skipuleggja fiskveiðar við landið þannig að þær styðji við atvinnulíf og uppbyggingu sem víðast. Þessi og mörg önnur verkefni eru fram undan, og gott að hafa í huga nú þegar við fögnum þessum tímamótum. Brothættar byggðir eru frábært verkfæri og nú þurfum við bara að bæta í verkfærakistuna.

Til hamingju – byggðir í sókn í 10 ár!

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður NA.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 10. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Heilbrigðisþjónusta í heimabyggð

Deila grein

19/09/2023

Heilbrigðisþjónusta í heimabyggð

Íbúar landsbyggðarinnar eru nánast farnir að taka því sem sjálfsögðum hlut að leggja land undir fót með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn til þess að sækja sér sérfræðiþjónustu til Reykjavíkur. Greiningar hafa sýnt að fólk á landsbyggðinni er ólíklegra til þess að sækja sér þjónustu sérfræðilækna heldur en fólk af höfuðborgarsvæðinu og er ólíklegt að það sé vegna þess að fólk á landsbyggðinni sé hraustara heldur fyrir sunnan. Staðreyndin er sú að oft er um langan veg að fara og aðgengi að þjónustu er ekki jafnt.

Það þarf að fjölga ferðum

Líkt og staðan er í dag getur það verið verulega kostnaðarsamt fyrir þá sem eru búsettir á landsbyggðinni að sækja sér heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðið. Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í kostnaði við tvær ferðir sjúkratryggðs á 12 mánaða tímabili, þegar um er að ræða nauðsynlega ferð og þjónustan er ekki í boði í heimabyggð. Undirrituð telur það jafnréttismál fyrir íbúa landsbyggðarinnar að endurgreiðslum vegna slíkra ferða verði fjölgað og jafna með þeim hætti aðgengi íbúa landsins að heilbrigðisþjónustu. Í því samhengi þyrfti í auknum mæli að horfa til þarfa hvers og eins. Rétt er þó að geta þess til að koma í veg fyrir misskilning að ef um alvarlega sjúkdóma er að ræða þá endurgreiða Sjúkratryggingar ferðakostnaði vegna fleiri ferða.

Jafnt aðgengi að sérfræðingum

Með nýjum samningum við sérgreinalækna var stigið mikilvægt skref í átt að betri heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn. Að ná samningunum var meðal mikilvægustu verkefna ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili og það var virkilega ánægjulegt að heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, hafi náð að landa þeim. Tækifærin eru til staðar, verkefnið er að halda áfram á sömu leið. Markmið stjórnvalda er að halda markvisst áfram að bæta heilbrigðiskerfið, tryggja öfluga heilbrigðisþjónustu og jafna aðgengi.

Sú sem hér skrifar telur þörf á að efla enn frekar þjónustu sérfræðilækna við íbúa landsbyggðarinnar. Þónokkrir sérfræðilæknar leggja land undir fót og þjónusta fólk í hinum ýmsu byggðum um land allt. Í því ljósi telur undirrituð það ákjósanlegra að fækka markvisst ferðum fólks af landsbyggðinni þar sem því verður við komið og efla enn frekar ferðir sérfræðinga út á land.

Sérfræðilæknar eru takmörkuð auðlind og því er erfitt að gera kröfu um að þeir hafi fasta starfstöðvar á hverjum degi á landsbyggðinni. En það er mögulegt að auka samstarf milli sérfræðilækna og heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og nýta þá aðstöðu sem víða er til staðar. Sú sem hér skrifar telur mikilvægt að gengið verði til samræðna við sérfræðilækna með það að markmiði að færa þjónustu þeirra nær fólkinu. Með því að fjölga ferðum sérfræðinganna út á land fyrir tilstilli ríkisins til að sinna þjónustunni í heimabyggð er það ekki bara hagræði fyrir þá sem þurfa að leita sér heilbrigðisþjónustu heldur kæmi það einnig til með að spara ríkissjóði talsverðar fjárhæðir. Með einni ferð sérfræðingsins er tugum annarra sparað sömu ferð. Þá eru ótalin jákvæð umhverfisáhrif vegna minni ferðalaga.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Raf­magns­leysi

Deila grein

05/09/2023

Raf­magns­leysi

Rafmagn er grundvallarorkugjafi okkar. Það lýsir upp heimili okkar og án þess gæti verið flókið að elda kvöldmatinn, þvo þvott og geyma matvæli. Þá er rafmagn mikilvægt í heilbrigðisþjónustu þar sem það knýr áfram lífsnauðsynleg lækningatæki. Sífellt fleiri rafmagnsbílar koma á göturnar, jafnvel rafmagnsflutningabílar.

Auk þess er rafmagn notað á öllum sviðum atvinnulífsins. Ekkert okkar gæti hugsað sér að lifa lífi án rafmagns líkt og forfeður okkar gerðu áður fyrr. Rafmagnið er okkur í dag jafn mikilvægt og vatnið.

Hvað þarf til?

Hreyfiafl breytinga eru af ýmsum toga en oftar en ekki eru það bæði innri ytri áhrifaþættir sem skapa nýjar þarfir og hraða þróun. Við höfum á undanförnum árum heyrt rætt um framtíðarþarfir á sviði orkumála, hugsanlegan orkuskort, sem í huga margra Íslendinga hljómar sem fjarlægur veruleiki.

En er hann svo fjarlægur?

Við erum lánsöm að búa í landi sem framleiðir endurnýjanlega græna orku. Jafnt og þétt bætist í orkuþörf, ekki bara hér á landi heldur alls staðar í heiminum. Sérfræðingar hafa bent á aukna orkuþörf hér á landi í takt við aukinn fjölda íbúa og vaxandi atvinnulíf. Tryggja þarf að á hverjum tíma sé næg græn orka í boði fyrir bæði heimilin og fyrirtækin í landinu. Ég þarf ekki að tíunda í þessari grein hvaða afleiðingar orkuskortur kann að hafa fyrir atvinnuuppbyggingu og fyrirhuguð orkuskipti í landinu.

Að vinna bug á orkuskorti krefst margvíslegra aðgerða. Ekki bara það að virkja meira. Til dæmis þarf að draga úr sóun á orkunni okkar með öflugra dreifikerfi og horfa þarf til notkunar á fleiri nýtingarvalmöguleikum, þ.e. orkukosta á borð við vind, sjávarfall og jafnvel fleiri sem koma til með að vera nýttir í meiri mæli í framtíðinni.

Höfum við brugðist við?

Yfirstandandi stríð og heimsfaraldur hafa hvort á sinn hátt fært okkur nær því að horfast í augu við mikilvægi sjálfbærni þjóðarinnar m.a. í orkumálum. Þannig þurfum við að horfa á heildarþarfir landsins, en um leið að horfa á öryggi innan hvers landshluta og svæðis. Þegar betur er að gáð sjáum við að það búa ekki allir við sömu gæði og öryggi í orkumálum.

Við þurfum bæði að hugsa til lengri og skemmri tíma þegar við horfum til breytinga. Þá bæði hvað varðar alla heildina og möguleika í stærri og smærri einingum. Það er mitt mat að tækifærin leynast víða, tækifæri sem við eigum að nýta til lengri og skemmri tíma. Hugsanlega getum við einnig styrkt innviði fyrr með breyttu verklagi og betri nýtingu á því sem fyrir er.

Nauðsynlegar úrbætur stjórnvalda

Það skiptir miklu máli að uppbygging raforkukosta og dreifingu raforkunnar geti haldið áfram í takt við stórauknar þarfir. Viðbrögð og geta innra stjórnkerfis okkar er of hægfara og þung. Lagaumhverfi rammaáætlunar þarf að endurskoða því eins og staðan er í dag líða mörg ár frá umsókn um leyfi þar til að rafmagnið skilar sér til notanda. Því þurfum við að kappkosta að vinda ofan af þeim flækjum við ákvarðanatöku, en ekki síður að minnka kostnað við umsýslu þegar við tökum ákvarðanir um orkunýtingu. Þó þannig að ekki verði á nokkurn hátt minnkuð krafa um rannsóknir og náttúruvernd. Löng og farsæl virkjanasaga síðustu 100 ára segir okkur að vernd og nýting geta haldist í hendur.

Einnig er kallað eftir skýrari afstöðu ríkisins til nýtingar á eigin vatnsréttindum. Ég tek heilshugar undir að mikilvægt er skýra þá afstöðu, bæði til lengri og skemmri tíma. Samningaferlið við landeigendur og vatnsréttarhafa er langt og stundum erfiðasti hjallurinn í virkjunarmálum. Í flestum tilfellum þarf að ræða við og ná saman við stóran hóp með ólíkar skoðanir og samningsmarkmið. En það eitt að hefja viðræður við landeigendur um nýtingu orku gæti flýtt nýjum og smærri virkjanakostum til muna. Ríkisvaldið hefur fram til þessa ekki viljað ræða við rekstraraðila um leigu á vatnsréttindum og landnotkun fyrr en verkefni hefur verið samþykkt í nýtingarflokk af Alþingi. Þessu væri hægt að breyta auðveldlega og þar með stytta heildarvinnslutímann á þann hátt að hefja samningaviðræður samhliða ferli rammaáætlunar með fyrirvara um að viðkomandi verkefni verði samþykkt í nýtingarflokk.

Þó að við viljum flýta okkur hægt og vinna eftir vel ígrunduðu ferli vil ég þó í lokin staldra við tímamörk, því vissulega þarf fleira að koma til. Þar vil ég benda á möguleika sem við höfum til að bæta gæði stjórnsýslu er varðar lögbundnar umsagnir, en þar koma fjölmargir aðilar að. Frestir eru langir í ferlinu en þrátt fyrir það þarf ítrekað að lengja tímafresti vegna umsagnaraðila á ýmsum vinnslustigum. Hver frestur hefur mikil áhrif á þann tíma sem ferlið tekur og vinnur gegn okkar markmiðum um frekari orkuöflun. Við þessu þarf að bregðast.

Allt þetta hafa sérfræðingar ítrekað bent á. Orkuþörfin er áríðandi og það blasir við að alvarlegur orkuskortur muni raungerast ef engu er breytt. Umræðan hefur átt sér stað meðal þeirra sem starfa við raforkuframleiðslu og dreifingu og víðar í langan tíma. Það er þó löngu tímabært að ganga í aðgerðir og láta hugmyndir okkar verða að veruleika.

Þörfin varðar ekki einungis atvinnulífið heldur heimilin okkar líka. Við þurfum að nýta orkuna og innviðina skynsamlega, finna leiðir að settu marki og tryggja öllum örugga orku hvar sem þeir búa á landinu. Það hlýtur að vera réttlætismál sem knýr okkur öll áfram. Enginn vill vera rafmagnslaus í miðju óveðri aftur.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. september 2023.