Categories
Fréttir Greinar

Sam­staða um aukna vel­sæld

Deila grein

13/03/2024

Sam­staða um aukna vel­sæld

Skrifað hefur verið undir langtíma kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og SGS, Eflingar og Samiðnar – breiðfylkingar stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði. Það er rétt að hrósa samningsaðilum fyrir þeirra góðu vinnu og þann metnað sem lagður var í það verkefni að ná saman. Samningarnir skipta okkur sem samfélag gríðarlega miklu máli, sér í lagi í baráttunni við að ná niður verðbólgu. Hér hefur fólk ákveðið að standa bak í bak með það að markmiði að bæta lífskjör hér á landi, lækka vexti, minnka verðbólgu og auka kaupmátt.

Á samningstímanum verða lagðir allt að 80 milljarðar í aðgerðir sem eiga að m.a. að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og fjölskylduvænna samfélagi samhliða. Með þessum aðgerðum munu ráðstöfunartekjur fjölskyldna aukast verulega á samningstímanum, eða um allt að 500 þúsund krónur á ári.

Mikill ávinningur

Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga lögðu lóð á vogarskálarnar við gerð þessara samninga með aðgerðum til næstu fjögurra ára. Hér vilja allir leggjast á eitt við að auka velsæld. Almennt má segja að kjarasamningarnir samrýmist þeim spám sem hafa komið út nýlega og gera ráð fyrir áframhaldandi markverðri lækkun verðbólgu í ár sem tryggja á lækkun vaxta.

Mikill ávinningur er af lækkun á vaxtastigi hvort sem er fyrir heimilin í landinu, fyrirtæki, ríki og sveitarfélög. Fyrir heimili sem skuldar 40 m.kr. húsnæðislán er 1% lækkun um 400 þús. kr. á ári. Ef við horfum til sveitarfélaganna má gera ráð fyrir að 1% lækkun á vöxtum samsvari um 5,7-6,0 milljörðum króna. Þá er rétt að það komi fram að skuldir ríkissjóðs eru með föstum kjörum. Það þýðir að vaxtalækkun hefur eingöngu áhrif á nýjar lántökur. Fyrir hvern 1 milljarð sem ríkið tekur að láni þýða 1% lægri vextir 10 m.kr. lægri vaxtagjöld á ári. Það er fljótt að safnast saman við hverja prósentulækkun og til mikils að vinna.

Öruggt heimili fyrir alla

Aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði og vinna gegn auknum kostnaði almennings vegna húsnæðis er forgangsmál og nú þegar er búið að fjármagna þær aðgerðir. Heilbrigður húsnæðismarkaður er mikilvæg kjarabót fyrir almenning í landinu. Til að mæta auknum vaxtakostnaði heimila nú um stundir verða á árinu 2024 greiddir út allt að 7 milljarðar króna í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán. Stuðningurinn tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Þessu til viðbótar og til að daga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda verða húsnæðisbætur hækkaðar frá 1. júní nk. og munu grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda hækka um 25%, auk þess sem tillit verður tekið til fjölskyldustærðar þannig að greiddar verða húsnæðisbætur fyrir allt að sex heimilismenn í stað fjögurra áður.

Fyrir fjölskyldurnar í landinu

Sérstök áhersla er lögð á stuðla að fjölskylduvænna samfélagi með aðgerðum sem miða að því að auka velsæld barnafjölskyldna. Auka á framlög til barnabóta um 18 milljarða króna á samningstímanum. Barnabætur verða hækkaðar og dregið verður úr tekjuskerðingum sem mun fjölga þeim foreldrum sem fá stuðning um 10.000. Þá verður útfærð leið til að skólamáltíðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024. Þessum lið fögnum við sérstaklega enda mikilvægt að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum. Hér er um lýðheilsu- og jafnréttismál að ræða. Við í Framsókn höfum í gegnum árin lagt mikla áherslu á að bæta fæðingarorlofskerfið og með þeim aðgerðum sem hér hafa verið lagðar til verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Þá munu stjórnvöld og sveitarfélögin taka höndum saman og vinna með markvissum hætti að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla á samningstímanum með því að tryggja öllum börnum leikskólavist.

Markvisst er unnið að því að draga úr kostnaði við að sækja heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð. Á síðasta ári bætti heilbrigðisráðherra við þriðju flugferðinni og með þessum aðgerðum eru þær nú orðnar fjórar. Þá á að gera breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna sem lúta að því að létta vaxtabyrði og draga úr skyndilegum og ófyrirséðum hækkunum vegna verðbólgu og vaxta á afborganir námslána. Þá líkt og lengi hefur verið kallað eftir á að afnema ábyrgðarmannakerfi námslána. Fleiri aðgerðir eru hér lagðar til og um þær má lesa á vef Stjórnarráðsins, en allar miða þær að sama marki; styðja með öflugum hætti við fólkið í landinu og lækkun verðbólgu og vaxta.

Mál málanna

Allt of lengi höfum við verið að berjast við að ná niður verðbólgunni og vaxtakostnaður hefur rokið upp úr öllu valdi með tilheyrandi hækkunum og þar með minnkandi ráðstöfunartekjum. Með þessum samningum og sér í lagi loforðum ríkis og sveitarfélaga um að halda aftur að gjaldskrárhækkunum er verið að bregðast við með markvissum hætti. Við höfum áður rætt um hvað einkennir gott samfélag, það er að standa saman og rétta fram hjálparhönd. Um þessar mundir reynir á að sýna samstöðu og samfélagslega ábyrgð í því verkefni að ná niður verðbólgu. Því vil viðbótar köllum við eftir að hin „breiðu bök“ standi nú með þjóðinni á vegi til aukinnar velsældar.

Fyrir þetta stendur Framsókn – framtíðin ræðst á miðjunni.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar 

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Hér rís önnur heilsugæslustöð

Deila grein

07/03/2024

Hér rís önnur heilsugæslustöð

Það er ekkert launungamál að margir Akureyringar hafa lengi verið án heimilislæknis og má rekja þá staðreynd mörg ár aftur í tímann. Bið eftir tíma hjá heimilislæknum er í dag yfirleitt mjög löng og í sumum tilfellum nær fólk ekki að fá tíma sem verður til þess að álag eykst á öðrum stöðum í heilbrigðiskerfinu. Tel ég það eitt af okkar forgangsmálum að ráða bót þar á. Rannsóknir hafa sýnt hversu mikilvægt það er að allir hafi fastan heimilislækni um lengri tíma auk þess sem sýnt hefur verið fram á að það minnki einnig marktækt vinnuálag á heimilislæknum og í heilbrigðiskerfinu öllu.

Þegar sagan er skoðuð er athyglisvert að sjá að á Akureyri hefur aldrei verið byggð heilsugæsla frá grunni heldur hefur heilsugæslu verið komið fyrir í eldra húsnæði, sbr. í gamla Amarohúsinu og nú í Sunnuhlíð. En það er ekki þar með sagt að ekki geti vel tekist til eins og ný og glæsileg heilsugæslustöð sem var opnuð á þriðjudaginn sl. ber gott vitni um og er mikið fagnaðarefni fyrir íbúa svæðisins.

Á Akureyri þarf tvær heilsugæslustöðvar

Fyrir fimm árum var gerð ítarleg úttekt á svæðinu sem leiddi í ljós að bærinn þyrfti tvær heilsugæslustöðvar. Þörfin í dag er brýnni ef eitthvað er þar sem íbúum svæðisins hefur farið fjölgandi á síðustu árum. Yfir 20.000 manns eru skráðir á heilsugæslustöðina í Sunnuhlíð sem er töluvert meiri fjöldi en gengur og gerist í höfuðborginni. Heilbrigðisráðherra hefur sjálfur sagt að rýna þurfi hvernig stöðin í Sunnuhlíð muni nýtast og hvar þurfi svo að bæta í. En fyrirætlanir um aðra heilsugæslustöð hafi ekkert breyst á þessum tímapunkti.

Ríkiskaup fh. Framkvæmdasýslu – Ríkiseigna og Heilbrigðisráðuneytið hafa auglýst eftir aðilum til að hanna og byggja nýja heilsugæslu, í tvígang.  Því miður skiluðu tilraunirnar ekki tilætluðum árangri þar sem enginn aðili sá sér fært um að taka þátt.

Vangaveltur um hvort hin heilsugæslustöðin verður ríkis- eða einkarekin er síðan framtíðarmúsík sem verður að koma í ljós með tíð og tíma. Þar þarf áfram að horfa til þarfa samfélagsins, fyrst og fremst snýst þetta um að þjónusta íbúana sem hér eru. Það má aldrei gleymast að heilbrigðisþjónusta þarf fyrst og fremst að snúast um fólkið okkar sem þangað leitar.

Að lokum get ég svo ekki annað gert en að benda á að góðir stjórnmálamenn kynna sér málin vandlega áður en þeir fara að básúna illa ígrundaðar ályktanir. Það er að mínu mati algjört lágmark að vera með allar staðreyndir á hreinu áður en maður setur fram fullyrðingar sem eiga ekki við rök að styðjast.

Við munum byggja aðra heilsugæslustöð, þau áform hafa ekki breyst!

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 7. mars 2024.

Categories
Fréttir

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Deila grein

26/02/2024

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar verða á ferð og flugi um land allt næstu daga. Þingflokknum er mikilvægt að heyra raddir kjósenda með reglubundnum hætti. Áhersla verður á heimsóknir í bland við opna fundi.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir alla opna fundi, en einnig má nálgast viðburðina á Facebook: https://fb.me/e/3vOUaC0mJ

Mánudagur 26. febrúar:
Reykjavík – Sykursalnum Grósku, kl. 20.00.
Suðurnesjabær – Samkomuhúsinu Sandgerði, kl. 20.00.

Þriðjudagur 27. febrúar:
Mosfellsbær – Skátaheimili Mosverja, kl. 20.00.
Bláskógabyggð – Efsti Dalur, kl. 20.00.
Borgarbyggð – Landnámssetrinu, kl. 20.00.

Miðvikudagur 28. febrúar:
Kópavogur – Siglingafélaginu Ými, Naustavör 14, kl. 20.00.
Akranes – Dalbraut 4, kl. 20.00.
Vopnafjörður – Safnaðarheimilinu, kl. 18.00.

Fimmtudaginn 29. febrúar:
Reyðarfjörður – Þórðarbúð, Austurvegi 39, kl. 17.30.
Sauðárkrókur – Kaffi Krók, kl. 20:15.
Egilsstaðir – Tehúsið, kl 20.00.
Árborg – Hótel Selfoss, kl 20.00.

Föstudagur 1. mars:
Húsavík – Félagsheimili eldri borgara, Hlyn, kl. 16.00.

Laugardagur 2. mars:
Hafnarfjörður – Kiwanissalnum, Helluhrauni 22, kl. 11.00.

Á næstu vikum munu þingmenn og ráðherrar heimsækja Höfn, Vestmannaeyjar, Vestfirði, en nánari upplýsingar verða birtar síðar.

ATH. að dagskráin kann að taka breytingum með skömmum fyrirvara.

Við erum Framsókn!

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi.

Í meira en öld höfum við unnið að framfaramálum fyrir Ísland með hugsjónir samvinnunnar að leiðarljósi.

Við í Framsókn trúum því að yfirvegað samtal skili samfélaginu meiri árangri en upphrópanir.
Við setjum manngildi ofar auðgildi.

Categories
Fréttir Greinar

Við þurfum á Reykja­víkur­flug­velli að halda

Deila grein

19/02/2024

Við þurfum á Reykja­víkur­flug­velli að halda

Hvort sem okkur líkar betur eða verr er staðreyndin sú að eldgosatímabil er hafið á Reykjanesskaga, tímabil sem talið er að geti staðið í upp undir 400 ár. Þessi breytta sviðsmynd neyðir okkur til þess að breyta fyrri plönum og taka nýjar ákvarðanir. Síðustu ár hefur mikið verið rætt um uppbyggingu á nýjum flugvelli og ber þar einna hæst hugmyndir um uppbyggingu á flugvelli í Hvassahrauni. Undirrituð telur að flestir séu nú sammála um það að sú staðsetning sé líklega ekki vænlegur kostur en rétt er þó að bíða með allar yfirlýsingar. Skýrslan um Hvassahraun er væntanleg í mars og þá fáum við endanlega niðurstöðu. Til þess að sú mikla vinna sem lögð var í skýrsluna komi að fullum notum og að hún er á lokametrunum er auðvitað skynsamlegast að sjá hvað hún hefur að segja.

Við getum ekki beðið í 20 ár

Það er þó ljóst er að það tekur um 15 til 20 ár að hanna og byggja flugvöll sem rúmað getur innanlandsflug, sjúkraflug og þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar. Á sama tíma ekki hægt að una við núverandi aðstæður til flugsamgangna, brýn þörf er á úrbótum. Sú sem hér skrifar telur að við höfum góðan flugvöll sem getur þjónustað okkur áfram um ókomin ár, Reykjavíkurflugvöll, en hann þarf að efla og bæta. Sigurður Ingi Jóhannsson tilkynnti á síðasta ári um uppbyggingu á nýrri flugstöð, hér er um að ræða uppbyggingu sem lengi hefur verið beðið eftir enda þjónar núverandi flugstöð illa nútíma þörfum. Þá ber að halda því til haga að það er Reykjavíkurborg sem fer með skipulagsvaldið í Vatnsmýrinni og mikilvægt er að það skipulag komi ekki til með að draga úr flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar.

Hlutverk höfuðborgar

Það gleymist oft í umræðunni hversu Reykjavíkurflugvöllur er samfélagslega mikilvægur, nálægð við miðborg, stjórnsýslu, háskóla og Landspítala spilar þar lykilhlutverk. Eins gleymist í umræðunni um uppbyggingu íbúðabyggðar í Vatnsmýrinni mikilvægi nálægðar Reykjavíkurflugvallar við Landspítalann. Samkvæmt lögum eiga allir landsmenn rétt á sömu heilbrigðisþjónustu. Í því samhengi er mikilvægt að einfalt sé að nálgast þá þjónustu, flugvöllur í Reykjavík tryggir það. Það má ekki gleyma að Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna og tryggja verður að allir landsmenn geti sótt þangað þá þjónustu sem þar er veitt.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Orkumál í stóra samhenginu

Deila grein

29/01/2024

Orkumál í stóra samhenginu

Síðastliðinn þriðju­dag voru orku­mál lands­ins sér­stak­lega rædd á Alþingi. Umræðan fór fram fyr­ir til­stilli und­ir­ritaðrar og var um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra til andsvara. Ásamt okk­ur mættu full­trú­ar allra þing­flokka til að út­skýra af­stöðu sína varðandi orkuþörf lands­ins og orku­ör­yggi okk­ar til framtíðar. Umræðan var líf­leg og áhuga­verð og kom væg­ast sagt á óvart á köfl­um.

Er orku­skort­ur á Íslandi?

Þrátt fyr­ir að sér­fræðing­ar inn­an orkuiðnaðar­ins hafi lengi bent á aukna orkuþörf þjóðar­inn­ar og yf­ir­vof­andi orku­skort hér á landi þá eru greini­lega aðilar sem enn eru ekki sann­færðir um vand­ann.

Eft­ir­spurn eft­ir raf­orku hér á landi er orðin meiri en fram­boð og sam­fé­lagið er hvatt til þess að spara orku, hvort sem um er að ræða fyr­ir­tæki eða heim­ili. Æ oft­ar ger­ist það að fyr­ir­tæki neyðast til þess að brenna olíu til að halda dag­legri starf­semi sinni gang­andi í sam­ræmi við samn­inga vegna ótryggr­ar orku, sem mik­il­væg­ir eru til að full­nýta kerfið. Í þessu felst kostnaður fyr­ir okk­ur öll ásamt þeim nei­kvæðu um­hverf­isáhrif­um sem slík brennsla hef­ur í för með sér.

Heim­il­in í for­gangi

Í nú­ver­andi ástandi hef­ur rík­is­stjórn­in sett það í al­gjör­an for­gang að yf­ir­vof­andi orku­skort­ur hafi lít­il sem eng­in áhrif á heim­ili fólks né lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki.

Þingið hef­ur nú til meðferðar frum­varp um raf­orku­ör­yggi, en þar kem­ur fram að not­end­ur sem kaupa raf­orku til heim­il­is­nota, mik­il­væg­ir sam­fé­lags­innviðir og fyr­ir­tæki með færri en 50 starfs­menn og ár­sveltu eða efna­hags­reikn­ing sem er ekki yfir 1,5 millj­örðum kr. og hafa ekki samið sér­stak­lega um skerðan­lega notk­un skuli njóta for­gangs ef skerðing á raf­orku á sér stað. Miðað við ræðurn­ar í fram­an­greind­um umræðum býst ég ekki við öðru en að all­ir þing­menn, þvert á flokka, ýti á græna takk­ann þegar frum­varpið fer í at­kvæðagreiðslu.

Stöðnun at­vinnu­lífs­ins vegna skerðinga

Þó svo að heim­ili og lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki verði að mestu óhult ef til skömmt­un­ar á raf­orku kem­ur þá þurf­um við að horfa á stóru mynd­ina. Ef við öfl­um ekki meiri raf­orku og dreif­um henni á sem best­an máta þá mun það hafa tals­verð áhrif á at­vinnu­líf hér á landi. Stór­not­end­ur raf­orkunn­ar okk­ar bera þung­ann af skerðing­um á raf­orku. Um er að ræða þjóðhags­lega mik­il­væg fyr­ir­tæki sem skila sam­fé­lag­inu tals­verðum út­flutn­ings­tekj­um og það kom nokkuð á óvart að tals­menn sumra flokka á Alþingi hefðu tak­markaðar áhyggj­ur af því að slík­ar skerðing­ar eigi sér stað í rekstri þeirra, með til­heyr­andi áhrif­um á vöru þeirra og þjón­ustu.

Þegar öllu er á botn­inn hvolft þá verðum við að ákveða í hvernig sam­fé­lagi við vilj­um búa. Vilj­um við tak­marka orku fyr­ir stór­not­end­ur og þar með gera þá nauðbeygða til að nýta óhreina raf­orku­kosti í sín­um rekstri eða vilj­um við tryggja að stór og stönd­ug fyr­ir­tæki hafi nægj­an­lega orku fyr­ir hendi til að skapa út­flutn­ings­tekj­ur, sem skila sér til fram­kvæmda á mik­il­væg­um innviðum og í vel­ferð sam­fé­lags­ins? Hér er átt við öfl­ug fyr­ir­tæki sem flokk­ast sem stór­not­end­ur og bjóða upp á hald­bær­ar vör­ur og/​eða þjón­ustu. Hér þurf­um við að gera grein­ar­mun á milli slíkra fyr­ir­tækja og annarra stór­not­enda á borð við raf­mynta­gröft, en ekki setja alla stór­not­end­ur und­ir sama hatt.

Auk­in öfl­un í þágu um­hverf­is­sjón­ar­miða

Í umræðunni um orku­mál virða sum­ir áhyggj­ur um orku­skort að vett­ugi. Al­mennt er sagt að við eig­um nóg af hreinni raf­orku í dag og að auk­in eft­ir­spurn þýði ekki endi­lega að orku­skort­ur sé yf­ir­vof­andi.

Sú út­breidda skoðun að við eig­um nóg stenst ekki þegar um 40% af þeirri orku sem við not­um í dag til verðmæta­sköp­un­ar kem­ur í formi inn­fluttr­ar olíu líkt og Sig­urður Hann­es­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka iðnaðar­ins, seg­ir í viðtali við Morg­un­blaðið 24. janú­ar sl. Það get­ur varla tal­ist já­kvætt með til­heyr­andi um­hverf­isáhrif og mark­mið Íslands í loft­lags­mál­um til hliðsjón­ar. Það er um­hugs­un­ar­vert að höfuðáhersla er lögð á að fólk fari frek­ar á raf­magns­bíl­um og breyti dag­leg­um neyslu­venj­um þegar skerðing­ar verða fleiri og óhrein­ir orku­gjaf­ar eru notaðir í tals­verðu magni.

Niðurstaðan hlýt­ur að vera sú að auk­in virkj­un og fram­leiðsla á raf­orku ásamt betra dreifi­kerfi þjóni hags­mun­um okk­ar allra í stóra sam­heng­inu.

Ingibjörg Isaksen, þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Rann­sókn á or­saka­ferli í kjöl­far sjálfs­vígs

Deila grein

26/01/2024

Rann­sókn á or­saka­ferli í kjöl­far sjálfs­vígs

Þann 1. desember sl. lagði undirrituð fram tillögu til þingsályktunar um rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs. Tillagan hefur það að markmiði að stuðla að öflun gagna sem nýtast við greiningu á áhættuhópum, í forvarnastarfi og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða með það að markmiði að koma í veg fyrir sjálfsvígstilraunir og sjálfsvíg. Þess er farið á leit í tillögunni að starfshópurinn skili skýrslu með tölfræði og tillögum að aðgerðum, bæði fyrirbyggjandi og í forvarnarstarfi til framtíðar, eigi síðar en 1. maí 2024. Tillagan er unnin í miklu samstarfi við embætti Landlæknis og vil ég sérstaklega þakka Guðrúnu Jónu Guðlaugsdóttur, verkefnastjóra sjálfsvígsforvarna og Högna Óskarssyni, geðlækni og ráðgjafa fyrir þeirra þátt í vinnunni, sem var ómetanlegur.

Þörf á breytingum

Þegar andlát á sér stað, er það rannsakað til að gera grein fyrir dánarmeini. Rannsóknir lögreglu og héraðslækna fara fram til að ákveða hvort andlát hafi borið að með saknæmum hætti eða ekki. Ef raunin er ekki sú, þá er almennt ekki aðhafst meira. Rannsókninni lýkur og orsökin er skráð í dánarmeinaskrá. Það á m.a. við ef um sjálfsvíg er að ræða. Sjálfsvíg eru ekki rannsökuð afturvirkt þar sem undanfari þeirra er skoðaður í þaula í leit að þáttum sem komu einstaklingnum í það hugarástand sem hann var í við andlátið. Nauðsynlegt er að slík rannsókn fari fram með þeim hætti að fara afturvirkt yfir lýðfræðilegar breytur, aðstæður, atburði og möguleg áföll sem einstaklingurinn upplifði í undanfara sjálfsvígs. Þá er m.a. átt við brottfall úr skóla, atvinnumissi eða langvarandi atvinnuleysi, sambandsslit, makamissi, ofbeldi, neyslu vímugjafa og hvað annað sem getur haft áhrif. Með slíkri rannsókn er hægt að afla hagnýtra gagna sem geta skipt sköpum í áframhaldandi vinnu samfélagsins gegn sjálfsvígum, bæði í forvarnavinnu og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða. Gögnin myndu einnig nýtast við það mikilvæga verkefni að greina áhættuhópa í samfélaginu, þ.e. þá hópa sem líklegri eru til að upplifa sjálfsvígshugsanir, gera sjálfsvígstilraunir eða deyja í sjálfsvígi, umfram hefðbundnar breytur á borð við kyn, aldur og búsetu. Nú eru slík gögn ekki til staðar.

Lífsbrú – miðstöð sjálfsvígsforvarna

Í gær kynnti Landlæknir aðgerðir gegn sjálfsvígum og nýja miðstöð sjálfsvígsforvarna. Miðstöðin, sem hlotið hefur nafnið Lífsbrú, varð að veruleika þegar föstu fjármagni frá Heilbrigðisráðuneytinu var veitt ótímabundið í sjálfsvígsforvarnir. Hér er verið að taka risastórt skref í átt að breytingum til hins betra og því ber sannarlega að fagna. Á heimasíðu verkefnisins, www.lifsbru.is segir:

„Markmið Lífsbrúar er að fækka sjálfsvígum á Íslandi í samræmi við áætlun stjórnvalda. Það verður gert með því að velja gagnreyndar aðferðir sem reynst hafa vel í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Einnig að þróa og innleiða verklag, fræðsluefni og leiðbeiningar til að nota á öllum stigum forvarna, ásamt því að stuðla að vitundarvakningu og símenntun.

Markmiðum verður náð með breiðri samvinnu fagfólks, notenda, stofnana og félagasamtaka en einnig með fjáröflun til sjálfsvígsforvarna. Í því skyni hefur verið stofnaður sjóður með sama nafni.“

Sem samfélag viljum við alltaf gera betur

Sjálfsvíg eru viðkvæmt samfélagslegt málefni. Þau hafa mikil áhrif á aðstandendur og jafnvel heilu samfélögin. Áhrifin teygja anga sína víða en samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni verða að meðaltali 135 einstaklingar fyrir áfalli í kjölfar sjálfsvígs eins einstaklings. Talið er að um sex þúsund manns verði fyrir áhrifum af sjálfsvígum á hverju ári hér á landi. Samfélagið vill gera betur, grípa einstaklinga í áhættuhópum, ganga í fyrirbyggjandi aðgerðir, efla forvarnastarf og bjóða upp á sálræna aðstoð fyrir bæði einstaklinga í áhættuhópum og aðstandendur þeirra. Við höfum þörf fyrir að ávallt fari fram rannsókn, svo að komast megi að því hvað hafi gerst og finna alla annmarka sem eru á öryggisneti samfélagsins.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. janúar 2024.

Categories
Greinar

Þakkir fyrir liðið ár

Deila grein

30/12/2023

Þakkir fyrir liðið ár

Það er ávallt sérstök stund í lok árs hvers árs að setjast niður og hugsa um árið sem er að líða, má segja að árið í ár hafi verið viðburðaríkt og verkefnin fjölbreytt.

Stóra áskorunin hefur verið og verður áfram að vinna að auknum stöðugleika með því að vinna bug á verðbólgu og ná niður vaxtastigi. Má segja að takist það náist mesta kjarabótin fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

Framsókn hefur alltaf lagt áherslu á jöfnun búsetuskilyrða um land allt og þar spila samgöngumál mikilvægt hlutverk. Góðar samgöngur eru forsenda byggðar, hvort sem um er að ræða aukið öryggi á vegum, styttingu vegalengda eða tengingu atvinnusvæða.

Við missum ekki sjónar á mikilvægi heilbrigðiskerfisins okkar en efling þjónustu á landsbyggðinni vegur þungt þegar kemur að lífsgæðum og hagsæld. Samningar við sérfræðilækna, stytting biðlista fyrir liðskipti, aðgerðir vegna endómetríósu og hækkun framlags ríkisins til tannréttinga barna eru á meðal nýrra áfanga sem náðust á árinu.

Fjölmörg tækifæri

Fjárlög komandi árs gefa góða mynd af stöðu efnahagsmála, en þau miða að því að auka fjármagn til tiltekinna verkefna á sama tíma og gætt er aðhalds til þess að auka ekki frekar við þenslu og verðbólgu.

Við höfum fjölmörg tækifæri til að búa okkur gott samfélag, við búum við lítið atvinnuleysi, höfum öflug atvinnulíf. Engu að síður verður að halda að byggja upp innviði, fjölga íbúðum og tryggja húsnæðisöryggi.

Efling ferðaþjónustunnar hér á Norðurlandi eystra hefur verið mikil enda tækifærin fjölmörg.  Mikilvægt er að halda áfram uppbyggingu flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum. Nú líður að því að tekin verður í notkun bætt aðstaða innan flugvallarins á Akureyri sem innviðaráðherra Sigurður Ingi hefur unnið ötullega að undanfarin ár, að ógleymdri stækkun flughlaðsins auk þess sem unnið er að því að bæta aðflug og tengingu við svokallað EGNOS kerfi.

Koma EasyJet til Akureyrar hefur opnað möguleika á svæðinu, aukið lífsgæði íbúa og má því segja að það sé bjart framundan hvað varðar frekari uppbyggingu ferðaþjónustu í kjördæminu. Í þessu samhengi má ekki gleyma þeirri braut sem Niceair ruddi.

Öflugri þjónusta

Við í Framsókn höfum lagt ríka áherslu á að grunnþjónusta heilsugæslunnar sé efld enn frekar og sjáum við nú fram á opnun nýrrar heilsugæslustöðvar sem og fjölgun hjúkrunarrýma í bænum. Þá höfum við tækifæri til þess að styrkja heilbrigðisþjónustu á svæðinu með því að efla enn frekar Sjúkrahúsið á Akureyri. Sjúkrahúsið hefur kallað eftir frekari verkefnum tengdum háskólasjúkrahúsi enda hefur starfsfólkið þar dýrmæta þekkingu og getu til að miðla áfram. Ef af verður opnast frekari tækifæri fyrir öflugt starf innan SAk, sem er leitt áfram af einstöku fagfólki.  

Áframhaldandi umbætur

Í desember var til umræðu í þinginu frumvarp sem á að tryggja forgang raforku til heimila og lítilla fyrirtækja sem er afar brýnt og ég hef ítrekað rætt á undanförnum árum. Umfjöllun um málið verður haldið áfram á nýju ári.  

Huga þarf að nýtingu flutningskerfis raforku svo hægt sé að nýta betur þá orku sem þegar er til í landinu en einnig þurfum við að ákveða hversu mikillar orku við áætlum að þjóðin þurfi m.t.t. fjölgunar, meiri framleiðslu og ekki síst vegna orkuskipta og setja fram áætlun um hvernig við ætlum að afla þeirrar orku.

Bændur hafa kallað eftir framtíðarsýn í landbúnaði og aðgerðum til að bregðast við stöðu atvinnugreinarinnar. Með bráðaaðgerðum í lok árs voru lagðar inn 2.3 milljarðar í greinina, til þeirra er verst standa. Við í Framsókn höfum talað fyrir því að meira þurfi til. Möguleikar á endurfjármögnun lána til langs tíma, hlutdeildarlán til nýliða, endurskoðun tolla, raforkuverð og fleira til að skapa bændum möguleikann á sjálfbærum atvinnurekstri.

Samtal lykill að samstöðu

Á komandi ári eru mikilvægar kjaraviðræður þar sem framtíðarsýn og aðkoma margra aðila er nauðsynleg svo að tilætlaður árangur náist, aukin hagsæld og fjármálaöryggi fyrir landsmenn alla.  Það er mikilvægt að allir standi saman að auknum stöðugleika, finni jafnvægi í þeim mikilvægu samræðum sem fram undan eru.

Að lokum vil ég þakka fyrir samtöl og samstarfið á árinu. Það eru forréttindi að fá að starfa fyrir kjördæmið, það geri ég best með því að eigi í opnum og góðum samskiptum við ykkur öll.  

Með þökkum fyrir liðin ár óska ég ykkur öllum gæfu og góðs gengis á nýju ári.

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 29. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Loksins kviknað á perunni?

Deila grein

22/12/2023

Loksins kviknað á perunni?

Síðustu daga hafa þingmenn og heilu þingflokkarnir lýst því yfir að þeir ætli að beita sér fyrir aukinni orkuöflun til að mæta yfirvofandi raforkuskorti hér á landi. Ítrekaðar áhyggjur hafa verið hunsaðar og nú, þegar vandinn er farinn að vera virkilega alvarlegur og er orðinn öllum kýrskýr, keppast þingmenn við að koma með háfleygar yfirlýsingar eins og að hulunni hafi verið svipt.

Ég fagna því vissulega að kollegar mínir hafi loksins kveikt á perunni og áttað sig á þeim vanda sem lengi hefur legið í loftinu. Vonandi eru þetta ekki tóm orð í von um aukið fylgi. Því það er ljóst að margir þessara þingmanna þurfa að taka U-beygju á sinni afstöðu t.d. hvað varðar friðun og regluverk.

Takmarkaður áhugi hingað til

Ýmsar aðgerðir hafa verið lagðar til með það að markmiði að geta framleitt meiri orku, nýtt hana betur og efla dreifingu hennar. Lengi hafa sérfræðingar í orkugeiranum bent á yfirvofandi orkuskort og kallað eftir aðgerðum, en undirrituð hefur unnið að því að koma skilaboðum þeirra áleiðis bæði í þingsal, á fundum og í hinum ýmsu fjölmiðlum. Áhugi þingheims fyrir alvöru aðgerðum hefur verið takmarkaður hingað til.

Stjórnkerfið í kringum leyfisveitingar og rannsóknir er óþarflega flókið og hægfara. Það líða jafnvel áratugir frá því að virkjanakostur kemur upp sem hugmynd þar til hann verður að veruleika. Við höfum of lengi beðið eftir aðgerðaráætlun og regluverki í kringum nýtingu nýrra grænna orkukosta eins og vindorku. Friðun vatnasviða og þar með útilokun mögulegra virkjunarframkvæmda er sett á dagskrá þrátt fyrir að þörfin fyrir aukna orku liggur fyrir.

Þörf á hugarfarsbreytingu

Stjórnvöld og samfélagið allt þurfa að horfa á orkumál landsins með öðru viðhorfi. Núverandi hugarfar virkar greinilega ekki og það gengur ekki að seinka mikilvægum fyrirbyggjandi aðgerðum um mörg ár og jafnvel virða þær að vettugi. Við viljum vera sjálfum okkur nóg í orkuöflun og tryggja orkuöryggi hér á landi en við sjáum dæmi erlendis um það hversu mikilvægt það reynist að þurfa ekki að stóla á önnur ríki til að fullnægja grundvallarþörfum samfélagsins.

Standið við stóru orðin

Nú er komið að þingheimi að taka á honum stóra sínum og sýna fram á að yfirlýsingarnar séu ekki bara orðin tóm. Miðað við fjölda yfirlýsinga þingmanna og þingflokka þá ætti það ekki að reynast erfitt að skapa sátt og komast að niðurstöðu.

Ég er, og hef lengi verið, tilbúin í þá vinnu.

Við þurfum að setja okkur markmið; hversu mikla orku þurfum við á að halda til framtíðar? Í kjölfarið getum við sett á laggirnar alvöru aðgerðir til að mæta þeirri framtíðarorkuþörf í stað þess að bregðast við aðstæðum hverju sinni.

Á meðan er það virkilega óábyrgt að ræða frekari friðun heilu vatnasviðanna. Það er óforsvaranlegt að setja friðun á dagskrá þegar við höfum ekki gert áætlun til framtíðar. Við megum ekki við því að útiloka heilu virkjunarmöguleikana í því ástandi sem við erum.

Á ríkisstjórnarborðinu er það nauðsyn að endurskoða rammaáætlun á nýjan leik með það að leiðarljósi að endurskoða friðlýsingu vatnasviða, nýta þau tækifæri sem okkur bjóðast og alls ekki útiloka virkjunarmöguleika til framtíðar.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Opinská samtöl í átt að betri landbúnaði

Deila grein

01/12/2023

Opinská samtöl í átt að betri landbúnaði

Matarkista okkar Íslendinga er fjölbreytt og margþætt. Hér á landi eru framleiddar heilnæmar afurðir sem unnar eru af alúð. Íslensk matvælaframleiðsla göfgar okkar samfélag og menningu.

Við erum rík af náttúrutengingu okkar, en einn af hornsteinum landbúnaðarins er að tryggð sé rétt nýting lands og verndun þess. Með öflugum landbúnaði, sem hingað til hefur verið eitt einkenna okkar Íslendinga, er stuðlað að bæði fæðuöryggi landsmanna og afli til að viðhalda blómlegri byggð um landið. Framleiðslan hefst hjá bændum, sem hafa unnið hörðum höndum við að tryggja að íslensk matvæli eru heilnæm, örugg og í hæsta gæðaflokki. Þrátt fyrir þrotlausa vinnu á stéttin undir þungt högg að sækja.

Við í Framsókn höfum alltaf unnið við að styðja þessa mikilvægu stétt og þeirri vinnu mun aldrei ljúka. Við höfum talað fyrir þeim sjónarmiðum að áfram þurfi að leita leiða til að styrkja landbúnað sem atvinnugrein, stuðla að aukinni sjálfbærni og gæta að búsetuöryggi á landsbyggðinni.

Ein elsta starfsgrein landsins sinnir mjög mikilvægu hlutverki til framtíðar og við verðum að tryggja henni tækifærin til þess.

Grafalvarleg staða

Þó svo að bændur séu því vanir að staða starfsgreinarinnar sé sveiflukennd þá hefur útlitið sjaldan verið eins slæmt né óvissan jafnmikil og núna. Það hefur varla farið fram hjá landsmönnum að aðstæður bænda og rekstrargrundvöllur fara versnandi með hverjum mánuði.

Margar ástæður eru fyrir þessari stöðu, en hana má aðallega rekja til utanaðkomandi atburða og aðstæðna. Við í Framsókn horfum á núverandi stöðu innan stéttarinnar alvarlegum augum, en hún er í raunverulegri hættu sem við verðum að gera út af við.

Á undanförnum vikum buðum við bændum á opna fundi á Norður- og Austurlandi, enda er það allra mikilvægasta að heyra áhyggjur þeirra beint. Andrúmsloftið á fundunum var skiljanlega þungt á köflum, en þeir voru góðir, gagnlegir og vel sóttir þar sem farið var yfir stöðuna og ekki síður horfur innan greinarinnar á opinskáan máta.

Af umfjöllun síðustu mánaða og framangreindum fundum með bændum er ljóst að fjöldi verkefna hefur beðið úrlausnar í of langan tíma þegar kemur að málefni landbúnaðarins og styrkingu á öflugri byggð á dreifðari svæðum. Allir eru sammála um að einfalda þurfi regluverkið í kringum atvinnugreinina, bæta aðgengi og efla rekstrarumhverfi innan landbúnaðarins.

Langur verkefnalisti

Bændur hafa lengi bent á að bú sé langtímastarfsemi, en bændur hafa farið í nauðsynlegar fjárfestingar sem hafa leitt til talsverðrar skuldsetningar.

Takmarkaðir fjármögnunarmöguleikar hafa, í samspili við hátt vaxtaumhverfi, leitt til þess að þungbærar horfur blasa nú við.

Á fundum okkar með bændum kom m.a. fram að rík þörf er fyrir endurfjármögnunarmöguleikum þar sem horft er til lengri tíma lánveitingu. Við viljum skoða möguleika á opinberu fyrirkomulagi sem getur styrkt greinina í heild og miðar að eðli starfseminnar.

Á sama tíma er mikilvægt að einfalda rekstrarumhverfi svo að unnt sé að skapa aukin tækifæri í landbúnaði með sjálfbærni að leiðarljósi. Þau sjónarmið eru í samræmi við það sem ungir bændur og nýliðar í greininni hafa lagt mikla áherslu á. Þau úrræði sem komið hafa fram að undanförnu, svo sem hlutdeildarlán, hafa ekki nýst ungum fjölskyldum í búrekstri sem skyldi. Þessar leiðir eru áhugaverðar og jákvæðar en þarfnast frekari útfærslu svo þær gefi góða raun, enda teljum við brýnt að nýliðun í landbúnaði verði útfærð þannig að hún hjálpi til við að lækka þröskuldinn fyrir þá aðila sem hyggjast hefja búrekstur.

Við í Framsókn tökum undir með bændum um að endurskoða þurfi fyrirkomulag tolla hér á landi og innflutning á afurðum erlendis frá. Tollavernd er innlendri matvælaframleiðslu afar mikilvæg og á að stuðla að því að hún geti stundað eðlilega samkeppni við sívaxandi innflutning á réttum og sanngjörnum forsendum. Á fundum okkar með bændum voru ræddar þær kröfur  sem við eigum að gera til innfluttra matvæla. Þær verða að vera í samræmi við þær kröfur sem við gerum hér heima. Þá eiga að vera gerðar kröfur m.t.t. sýklalyfjanotkunar, aðbúnað dýra og túlkun á gildandi löggjöf.

Tekjur og málefni afurðastöðva voru einnig rædd. Ekki síst í tengslum við verðmið við innflutning, sem er krónutölubundinn að hluta en fylgir ekki verðlagi. Það eru fjölmörg skýr dæmi um hversu brýnt er að huga sérstaklega að tekjum afurðastöðva innan landbúnaðarins.

Augljóst er að verkefnin eru fjölmörg og geta ekki beðið úrlausnar í langan tíma. Sjaldan hefur verið jafn nauðsynlegt að bretta upp ermar í þessum málaflokki. Bændur eiga það skilið að ríkið vinni með þeim á erfiðum tímum og aðstoði þá við að bæta stöðu þeirra og rekstrargrundvöll áður en að stór hluti greinarinnar heyri sögunni til í stað þess að spila sitt hlutverk til framtíðar.

Ingibjörg Isaksen og Þórarinn Ingi Pétursson, þingmenn Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 30. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Nýtum hagkvæma kosti

Deila grein

11/11/2023

Nýtum hagkvæma kosti

Í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar seg­ir að Ísland eigi að vera í far­ar­broddi í um­hverf­is­mál­um á alþjóðavísu. Stjórn­valda bíður verðugt verk­efni við að sjá til þess að orkuþörf sam­fé­lags­ins sé upp­fyllt á sama tíma og við ætl­um okk­ur að draga úr gróður­húsaloft­teg­und­um. Stefna stjórn­valda er að hætta al­farið notk­un jarðefna­eldsneyt­is og nýta þess í stað græna orku. Orku­skipti eru rík­ur þátt­ur í fram­lagi Íslands til að ná ár­angri í bar­átt­unni við lofts­lags­vá. En svo þeim mark­miðum sé náð verðum við að tryggja aðgang að grænni orku með sjálf­bæra þróun að leiðarljósi.

Stækk­un smá­virkj­ana

Af þessu til­efni hef­ur und­ir­rituð lagt fram skýrslu­beiðni þar sem um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra er falið að greina hvaða smá­virkj­an­ir á Íslandi á þegar röskuðum svæðum þoli stækk­un. Und­ir­rituð tel­ur þetta vera skyn­sam­lega leið til þess að greina hvar sé mögu­legt með ein­föld­um hætti að ná í orku án þess að fjölga virkj­un­um. Það ligg­ur fyr­ir að auka þarf fram­boð á inn­lendri, end­ur­nýj­an­legri orku svo hægt sé að leysa af hólmi aðflutta orku­gjafa líkt og olíu. Staðreynd­in er sú að um þess­ar mund­ir er orku­vinnslu­kerfi lands­ins full­nýtt og skort­ur á orku er far­inn að valda vanda. Sam­kvæmt raf­orku­spá Landsnets munu orku­skipt­in kalla á aukna eft­ir­spurn eft­ir raf­orku í takt við að þau munu raun­ger­ast ásamt því að raf­orku­notk­un heim­ila og þjón­ustuaðila mun halda áfram að aukast í takt við auk­inn fólks­fjölda. Þá er einnig gert ráð fyr­ir að þörf at­vinnu­lífs­ins fyr­ir aukna raf­orku muni halda áfram að þró­ast í svipuðum takt og verið hef­ur. Sam­kvæmt spánni er því fyr­ir­sjá­an­legt að aflskort­ur verði viðvar­andi og því þörf á að bregðast hratt við og mæta vax­andi þörf fyr­ir raf­orku.

Skyn­sam­leg nýt­ing

Smá­virkj­an­ir eru mik­il­væg­ar til þess að styrkja dreifi­kerfi raf­orku um landið en allt að fimmt­ung­ur allr­ar raf­orku sem RARIK dreif­ir til viðskipta­vina kem­ur frá smá­virkj­un­um um landið. Smá­virkj­an­ir stuðla ekki bara að auknu orku­ör­yggi lands­ins held­ur geta þær einnig verið mik­il­væg­ur þátt­ur í að tryggja vaxt­ar­mögu­leika lands­byggðar­inn­ar. Sam­kvæmt grein­ing­ar­vinnu Orku­stofn­un­ar á smá­virkj­un­ar­kost­um eru fjöl­marg­ir virkj­un­ar­kost­ir til staðar með sam­an­lagða afl­getu yfir 2.500 MW. Ein­hverj­ar af þess­um smá­virkj­un­um búa þó yfir tæki­fær­um til að auka fram­leiðslu­getu sína enn frek­ar og því mik­il­vægt að skoða þann mögu­leika með þeim fyr­ir­vara að það hafi ekki um­framá­hrif á um­hverfið.

Í ljósi þeirr­ar al­var­legu stöðu sem upp er kom­in í orku­mál­um þjóðar­inn­ar tel­ur und­ir­rituð mik­il­vægt að end­ur­skoða lög um vernd­ar- og ork­u­nýt­ingaráætl­un nr. 48/​2011 og legg­ur því til að um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra, í kjöl­farið á grein­ing­ar­vinnu um mögu­leg­ar stækk­an­ir smá­virkj­ana, leggi fram frum­varp með það að mark­miði að nýta bet­ur þá orku sem hægt er að afla með virkj­un­um á þegar röskuðum svæðum og þola stækk­un um­fram 10 MW. Þannig má tryggja skyn­sam­lega nýt­ingu á sama tíma og vernd er tryggð á öðrum svæðum. Sú sem hér skrif­ar tel­ur þó jafn­framt afar mik­il­vægt að smá­virkj­an­ir sem færu yfir 10 MW lytu lög­um um um­hverf­is­mat fram­kvæmda nr. 111/​2021 og öðrum lög­um sem gilda um slík­ar fram­kvæmd­ir. Staðreynd­in er sú að lang­an tíma tek­ur að virkja nýja orku­kosti, lang­tíma­áætlan­ir þurfa því að gera ráð fyr­ir orku­kost­um til að mæta framtíðarþörf­um og auka þannig fyr­ir­sjá­an­leika og stöðug­leika. Með því að fjár­festa í grænni orku og til­einka okk­ur nýja tækni get­um við hjálpað til við að tryggja orku­framtíð okk­ar og tryggja að við leggj­um okk­ar af mörk­um til að vernda jörðina fyr­ir kom­andi kyn­slóðir.

Inigbjörg Isaksen, þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. nóvember 2023.