Categories
Fréttir Greinar

Nýtum kosningaréttinn

Deila grein

13/05/2022

Nýtum kosningaréttinn

Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinum að kosningar eru á næsta leiti en á síðustu vikum hafa frambjóðendur Framsóknar verði á ferð og flugi um sveitarfélagið til þess að kynnast íbúum, fyrirtækjum og einstaklingum og vita hvað brennur á þeim.

Það er gríðarlega mikilvægt að ná snertingu við íbúana. Þessi samtöl taka frambjóðendur með sér sem veganesti næstu fjögur árin. Það hefur verið tekið vel á móti frambjóðendum Framsóknar og það er ánægjulegt að finna meðbyrinn. Fyrir það ber að þakka.

Það er mikilvægt að í sveitastjórnir veljist fólk sem hefur ríka samvinnuhugsjón. Við í Framsókn höfum ávallt lagt áherslu á samvinnu innan bæjarstjórna, nefnda og ráða sem og samvinnu við íbúa. Við þurfum að hlusta á þá sem þiggja þjónustuna.

Sveitarstjórnarkosningar eru á fjögra ára fresti, ólíkt kosningum til Alþingis þar sem hægt er að rjúfa þing og boða til kosninga ef ósætti kemur upp. Því skiptir máli að það fólk sem velst í sveitarstjórn sem með hugann að samvinnu allt kjörtímabilið

Það skiptir fleira máli en stefnumál

Í Framsókn býr mikil mannauður, ólíkir einstaklingar sem koma úr ólíkum hópum en ganga saman í takt. Það skiptir máli að hafa kröftugt fólk í framboði sem hefur áhuga, vilja og getu til að leysa hnúta saman og ganga í framkvæmdir. Á lista Framsóknar í Múlaþingi situr traust fólk í hverju sæti sem státar af mikill og breiðri reynslu. Fólk sem vill leggja sitt fram til þess að gera gott samfélag enn betra.

Stefnumál skipta vissulega máli, en það sem skiptir mestu er að í sveitastjórn sé fólk sem vinnur af samviskusemi, samheldni og samvinnu að leiðarljósi. Framboð Framsóknar í Múlaþingi hefur svo sannarlega þá eiginleika til að bera.

Höfum áhrif á nærsamfélagið

Á laugardaginn fáum við tækifæri til þess að nýta kosningarétt okkar. Fullt af frambærilegu fólki hefur gefið kost á sér, og það er svo sannarlega ekki sjálfgefið. Í kosningunum höfum við tækifæri til þess að hafa bein áhrif á stjórn í okkar nær samfélagi og það er mikilvægt að sem flestir nýti þann rétt. Ég vil biðla til ykkar að mæta á kjörstað og nýta kosningaréttinn Þá vil ég biðla til þín kæri kjósandi að veita Framsókn traust til þess að starfa fyrir þig og setja X við B á kjördag.

Ingibjörg Isaksen

Undirrituð er þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 13. maí 2022.

Categories
Greinar

Stuðningur á erfiðum stundum

Deila grein

04/04/2022

Stuðningur á erfiðum stundum

Í síðustu viku voru samþykkt í ríkisstjórn tvö frumvörp sem hófust í félagsmálaráðuneytinu í tíð Ásmundar Einars Daðasonar en frestuðust því miður vegna kórónuveirufaraldursins. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur nú lagt þau fram og koma þau til umræðu á Alþingi á næstu dögum.

Sorgarorlof

Annars vegar er um að ræða frumvarp um sorgarorlof, en hingað til hefur það verið undir vinnuveitanda komið hvort foreldrar fái orlof eða leyfi eftir að þeir missa barn. Að sjálfsögðu á það að vera hlutverk ríkisins að grípa utan um foreldra og fjölskyldur sem verða fyrir áfalli sem þessu. Ekkert foreldri á að þurfa að standa í því að hafa áhyggjur af framfærslu eða vinnuskyldu þegar tekist er á við sorgina við að missa barn. Með frumvarpinu verður foreldrum á vinnumarkaði tryggt leyfi frá störfum auk þess sem þeir fá greiðslur til að koma til móts við tekjutap á tilteknu tímabili í tengslum við fjarveru frá vinnumarkaði í kjölfar barnsmissis. Foreldrum á vinnumarkaði sem verða fyrir barnsmissi verður því tryggður réttur til sorgarleyfis í sex mánuði sem og greiðslur til að koma til móts við tekjutap á tímabilinu. Markmiðið með frumvarpinu er að viðurkenna áhrif sorgarinnar vegna barnsmissis á fjölskylduna í heild, ásamt því að auka líkur á að foreldrar eigi farsæla endurkomu á vinnumarkað og taki frekar virkan þátt í samfélaginu í kjölfar barnsmissis.

Varla er til verri tilhugsun hjá foreldrum en að missa barnið sitt, getur það tekið langan tíma að vinna úr sorginni og áfalli við barnsmissi. Margir foreldra eru lítt vinnufærir fyrstu mánuðina eða árið og þurfa sumir hverjir að leita sér aðstoðar í langan tíma. Í mínum hug er það skylda ríkisins að styðja við þá örfáu foreldra sem missa börn sín ár hvert. Það er það minnsta sem við sem samfélag getum gert.

Umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna

Hins vegar er um að ræða frumvarp um umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna. Þar er lagt er til að sett verði sérstök lög um greiðslur til umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna sem koma í stað gildandi laga, með það að markmiði að styðja betur við umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna. Meðal annars með því að auka skilvirkni stuðningskerfisins og draga úr félagslegri einangrun umönnunaraðila. Frumvarp um umönnunargreiðslur er byggt á skýrslu starfshóps um umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna, en hópurinn skilaði skýrslu til ráðherra í ársbyrjun 2020 með tillögum um breytingar á stuðningskerfinu. Þetta frumvarp er mikið framfaraskref, en það fylgir því oft gríðarlegt álag að eiga fatlað eða langveikt barn sem krefst mikillar umönnunar. Markmiðið með frumvarpinu er að létta byrðarnar á foreldrum þessara barna þannig að þeirra kraftur geti farið í sinna því sem mikilvægast er, barninu.

Einstaklingar sem lenda í þeirri stöðu að missa eða annast langveikt barn eiga ekki að þurfa að glíma við fjárhagsáhyggjur ofan á allt annað. Nóg er álagið fyrir. Ég fagna því að þessi mál eru að koma til umræðu á Alþingi og bind einlægar vonir við þau komist hratt í gegnum þingið. Við hljótum að vera sammála um það hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. apríl 2022.

Categories
Greinar

Meira bíó!

Deila grein

01/04/2022

Meira bíó!

Nýlega fjallaði RÚV um gott gengi kvikmyndaiðnaðarins hér á landi en áætlað er að hann hafi skilað samfélaginu 9 milljörðum króna á síðasta ári. Þá er gert er ráð fyrir áframhaldandi velgengni íslenskrar kvikmyndagerðar á næstkomandi árum. Þetta er fagnaðarefni en kemur þó lítið á óvart, enda býr Ísland yfir stórum hópi af fagfólki í greininni sem vinnur frábært starf á hverjum degi hvort sem um er að ræða leikstjóra, leikara, tónskáld, tæknimenn eða aðra. Velgengni Íslendinga er aðdáunarverð og hróður íslenskar kvikmyndagerðar hefur farið vaxandi á erlendri grundu síðustu ár.

Suðupottur tækifæra

Íslenskt kvikmyndaefni er sýnt í erlendri dagskrá í auknu mæli ásamt erlendum kvikmynda- og sjónvarpsverkefnum sem tekin hafa verið upp hér á landi. Af því leiðir að Ísland fær mikilvæga landkynningu sem hefur aftur jákvæð áhrif á ferðaþjónustu og ímynd landsins. Tækifærin sem felast í öflugum kvikmyndaiðnaði eru fjölmörg. Við sjáum að erlendir aðilar sækja til landsins í auknu mæli. Nú um stundir er verið að taka upp fjögur erlend kvikmyndaverkefni í stærri kantinum hér á landi. Þar á meðal er stórt verkefni frá Sony og annað frá Netflix og BBC. Eitt af þessum verkefnum er hasarmyndin Heart of Stone, sem framleidd er af Netflix. Um er að stóra framleiðslu, fyrstu myndina í flokki mynda sem ætlað er að sverja sig í ætt við hasarmyndir á borð við Mission: Impossible og James Bond myndirnar. Söguþráður myndarinnar á sér stað að hluta til hér á landi og ýmis konar kennileiti Íslands koma til sögunnar. Þvílík auglýsing fyrir Ísland.

Auknum umsvifum í kvikmyndagerð fylgja fjölbreytt og spennandi atvinnutækifæri um land allt sem kallar á ýmsa sérfræðiþekkingu. Á bak við eina bíómynd eru mörg handtök og mörg sérhæfð störf lista- og kvikmyndagerðarmanna. Þá skapast við framleiðslu á kvikmynd fjöldi annarra afleiddra starfa. Hótel, gistiheimili, leiðsögumenn, bílaleigur og veitingastaðir víða um land njóta góðs af. Þúsundir starfa og auknar tekjur í ríkissjóð eru skýr dæmi um jákvæð áhrif kvikmyndagerðar hér á landi – og þar getum við náð enn lengra. Framsókn lagði ríka áherslu á kvikmyndagerð fyrir síðustu alþingiskosningar en við höfum óbilandi trú á getu kvikmyndaiðnaðarins til að skapa raunveruleg verðmæti fyrir samfélagið.

Í orði og á borði

Þessi þróun sýnir og sannar að afslættir til iðnaðarins virka. Í stóru myndinni leiða þeir til aukinnar velmegunar innan hans til lengri tíma. Ríkisstjórnin hefur sett það á oddinn að hækka endurgreiðsluhlutfall í kvikmyndagerð til þess að laða stór verkefni sem væru að stærstum hluta tekin upp hér á landi. Það er í samræmi við fyrstu heildstæðu kvikmyndastefnuna fyrir Ísland sem Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra kynnti til leiks á síðasta kjörtímabili. Í stefnunni er að finna metnaðarfullar aðgerðir sem munu auka verulega samkeppnishæfni kvikmyndagerðar hér á landi. Strax hefur verið hafist handa við að hrinda þeim í framkvæmd.

Við í Framsókn skiljum mikilvægi þess að styðja við íslenska kvikmyndagerð. Á okkar vakt hefur verið staðið fyrir stofnun Kvikmyndasjóðs Íslands og Kvikmyndasafns Íslands ásamt því að komið var á fyrstu endurgreiðslum í kvikmyndagerð á laggirnar. Sagan hefur sannað gildi þessara mikilvægu aðgerða og undirstrikað tækifærin sem felast í kvikmyndagerð fyrir land og þjóð. Framtíðin er björt og það verður ánægjulegt að taka þátt í því að styðja menningarmálaráðherra og ríkisstjórnina í því verkefni að ná enn lengra fyrir kvikmyndagerð í landinu.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. mars 2022.

Categories
Greinar Uncategorized

 Við drögum ekki orkuna upp úr hatti

Deila grein

16/03/2022

 Við drögum ekki orkuna upp úr hatti

Það virðist sem að á síðustu árum hafi ríkt ákveðin hræðsla að ræða orkumál á Íslandi sem leitt hefur til ákveðnar stöðnunar hér á landi. Skort hefur hugrekki til þess að taka þessa umræðu af fullri alvöru og afleiðingarnar blasa við okkur. Staðan í orkumálum er alvarleg, ný útgefin grænbók – stöðuskýrsla áskorana í orkumálum staðfestir það. Áframhaldandi orkuskortur er fram undan og þá eru til staðar flutningstakmarkanir á milli landsvæða, það á tímum þegar græn orka hefur aldrei verið mikilvægari.

Takmarkað hefur verið virkjað á undanförnum árum miðað við eftirspurn og engin ný virkjun yfir 10 MW hefur fengið virkjunarleyfi sl. 5 ár, en veitt hafa verið virkjunarleyfi fyrir aflaukandi aðgerðum í vatnsafls og jarðvarmavirkjunum sem og fyrir allnokkrum smávirkjunum. Þær sviðsmyndir sem dregnar eru upp í Grænbókinni um aukna orkuþörf Íslands með vísan í loftslagsmarkmið spanna allt frá lítilli sem engri viðbót við raforkuframleiðslu Íslands til ríflega tvöföldunar hennar eða 124% aukningar fram til ársins 2040. Allt eftir því hvort stefnt er að stöðnun eða auknum hagvexti.

Verndun og nýting getur haldist í hendur eins og dæmin hafa sannað. En mikilvægt er að framtíðarorkuvinnslu sé fundin staður í skipulagi þar sem mest sátt ríkir um staðsetningu þeirra, jafnframt sem að umhverfisáhrif verði lágmörkuð eins og kostur er.

Ísland og græna orkan

Stærsta framlag Íslands til loftlagsmála er nýting þjóðarinnar á grænni orku. Í dag státar engin önnur þjóð af jafn mikilli nýtingu á grænni orku líkt og við Íslendingar gerum. 85-90% af allri orku sem Íslendingar nota er græn orka. Við getum verið stolt af því. Þá skilaði þverpólitísk nefnd orkustefnunni til ársins 2050 í mikilli sátt og horfa stjórnvöld á þá stefnu sem leiðarljós inn í framtíðina. Í stefnunni voru sett metnaðarfull markmið þar sem lögð er áhersla á að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneti fyrir 2050.

Þá tilkynnti Forsætisráðherra efld markmið Íslands í loftlagsmálum á leiðtogafundi í desember síðastliðnum. Þar er markið fært úr 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2030, í 55% samdrátt. Þessum efldu aðgerðum fylgir fjármagn sem er vel, eftir því sem við aukum metnað okkar í loftlagsmálum þurfum við meiri græna orku – græna orkan er lykillinn.

Sjálfbærni er eftirsóknarverð

Það er einlægur vilji minn að þjóðin verði sjálfbær hvað eldsneyti varðar og hætti alfarið að kaupa olíu og bensín erlendis frá. Við hljótum öll að vilja ná þessum markmiðum og leggja okkar af mörkum í loftlagsmálum. Ávinningurinn fyrir loftslagið er eitt en ef Ísland nær að verða sjálfbært varðandi orku mun það einnig hafa jákvæð efnahagsleg áhrif fyrir Ísland. Við komum til með að spara gríðarlegar gjaldeyristekjur ásamt því að mörg verðmæt störf geta skapast.

Ísland hefur öll tækifæri til þess að verða leiðandi í grænum lausnum sem leysa munu jarðefnaeldsneyti af hólmi og því samhengi er mikilvægt að hið opinbera og almenningur styðji við nýsköpunarfyrirtæki. Sjálfbærni er eftirsóknarvert markmið hvort heldur sé í eldsneyti eða fæðuöryggi þjóða og hagvöxtur framtíðarinnar mun byggjast á grænni orku.

Hvernig ætlum við okkur að ná í þessa orku?

Orkustefnan segir að orkuþörf samfélagsins verði mætt með öruggum hætti til lengri og skemmri tíma og að jafn aðgangur verði á landsvísu að orku á samkeppnishæfu verði. Að við verðum alltaf með græna orku til heimila og fyrirtækja. Þessi markmið eru metnaðarfull og góð en spurningunni hvernig við ætlum að afla þessarar grænu orku er enn ósvarað. Nú þurfum við að fara að taka ákvarðanir, sem sumum geta þótt erfiðar, en þær eru þó nauðsynlegar.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. mars 2022

Categories
Greinar

Landsvirkjun er ekki til sölu

Deila grein

09/03/2022

Landsvirkjun er ekki til sölu

Undanfarna daga hefur sú umræða sprottið upp hvort íslenska ríkið eigi að selja hluti sína í Landsvirkjun til að bregðast við halla á ríkissjóði sem tilkominn er vegna kórónuveirufaraldursins. Einstaka þingmenn hafa viðrað hugmyndir um að selja hluti í Landsvirkjun en þingmenn Framsóknar eru alfarið á móti þessum hugmyndum og koma ekki til með að breyta þeirri afstöðu.

Landsvirkjun er samfélagslega mikilvægt fyrirtæki og mun halda því áfram með aukinni eftirspurn eftir grænni orku á komandi árum. Landsvirkjun hefur verið að greiða upp skuldir sínar og mun því geta á næstu árum farið að skila ríkissjóði arði árlega. Sá hagnaður getur skipt sköpum um afkomu ríkissjóðs, sem þarf traustan og tryggan hagnað næstu áratugi, sérstaklega eftir efnahagslegar aðgerðir ríkisins vegna Covid-19. Fjölbreyttur kaupendahópur mun smám saman styðja við og auka verðmæti seldrar orku, þ.e. hámarka afrakstur orkuauðlindanna á eðlilegum nýtingartíma.

Framsókn tekur afstöðu með almenningi

Það er skýrt að samfélagið allt á að njóta arðsins sem Landsvirkjun mun skila um ókomin ár. Landsvirkjun gegnir lykilhlutverki í nýtingu hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa til framtíðar. Áframhaldandi eignarhald íslenska ríkisins í Landsvirkjun getur leitt til mikillar hagsældar fyrir þjóðina. Við stjórnmálamenn allra flokka þurfum að hlusta á og vinna að vilja almennings, enda er vilji hans skýr að orkumál verði ekki færð í hendur einkaaðila. Áskorunin er að sigra þann freistnivanda sem myndast við skjótan gróða af einkavæðingu. Einkavæðing getur lagað fjárhag ríkisins í nokkur ár, en í stóru myndinni er langtímahagnaður af áframhaldandi eignarhaldi í Landsvirkjun töluvert meira aðlaðandi. Það hefur aldrei talist góð hugmynd að slátra mjólkurkúnni fyrir skjótfenginn gróða.

Við eigum að nýta náttúruauðlindir þjóðarinnar af varúð og virðingu. Nýting þeirra á að vera samfélaginu öllu til hagsbóta. Arðurinn á að vera til uppbyggingar og velferðar. Landsvirkjun er eitt af fjöreggjum þjóðarinnar og mun gegna lykilhlutverki í nýtingu hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa til framtíðar. Því kemur ekki til greina að einkavæða félagið, selja í því hluti eða framkvæmdir. Ekki á okkar vakt.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. mars 2022.

Categories
Greinar

Framfarir í flugmálum

Deila grein

02/03/2022

Framfarir í flugmálum

Stundum er sagt að flugsamgöngur séu lestarsamgöngur okkar Íslendinga. Það gefur auga leið að með flugi styttist ferðatími milli áfangastaða og með greiðari aðgengi að flugi styttist ferðatíminn enn meira. Því var sérlega ánægjulegt þegar fregnir bárust af ákvörðun Lilju Alfreðsdóttur ferðamálaráðherra um að verja 40 milljónum króna til Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrúar til þess að efla kynningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sem alþjóðaflugvöllum og setja aukinn slagkraft í markaðssetningu á Norður- og Austurlandi sem vænlegum áfangastöðum með beinu millilandaflugi. Í þessu eru fólgin mikilvæg skilaboð um stefnu stjórnvalda í ferðaþjónustu; hana skal efla um allt land.

Hluti af nútímasamfélagi

Um mikið hagsmunamál er að ræða fyrir atvinnuþróun á svæðunum og ekki síður íbúa þeirra. Beint millilandaflug er ein skilvirkasta leiðin við að dreifa ferðamönnum betur um landið. Því má líkja við vítamínsprautu fyrir svæðisbundna ferðaþjónustu, meðal annars með betri nýtingu innviða utan háannatíma. Að sama skapi breytir miklu máli fyrir íbúa svæðanna að geta flogið beint úr heimabyggð í stað þess að ferðast í fjölda klukkustunda á alþjóðaflugvöllinn í Keflavík. Í nútímasamfélagi er það hluti af lífsgæðum að eiga kost á greiðum samgöngum til útlanda – hvort sem er í leik eða starfi.

Aðgerðir og árangur

Undanfarin ár hefur gangskör verið gerð í flugmálum og er fyrrnefndur stuðningur við flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum liður í því. Þannig kynnti Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra fyrstu flugstefnuna fyrir Ísland – en hún gildir til ársins 2034. Með henni var lögð fram heildstæð stefna í flugmálum, sem hafist hefur verið handa við að hrinda í framkvæmd. Má þar meðal annars nefna Loftbrúna, sem notið hefur mikilla vinsælda. Með henni eiga íbúar á landsbyggðinni sem búa fjarri höfuðborginni kost á lægri flugfargjöldum. Loftbrú veitir 40% afslátt af heildarfargjaldi fyrir allar áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu, þrjár ferðir á ári. Innviðir hafa einnig verið bættir en fjármagn var tryggt í stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri, meðal annars með millilandaflug í huga, en framkvæmdum mun ljúka árið 2023. Endurbætur hafa einnig átt sér stað á Egilsstaðaflugvelli, en árið 2021 var nýtt malbik lagt á flugbrautina og unnið er að tillögum um stækkun flughlaðs og lagningu akbrauta. Einnig hefur flugþróunarsjóður verið starfræktur til þess að styðja flugfélög í að þróa og markaðssetja bein flug til Akureyrar og Egilsstaða. Allt þetta skiptir máli.

Nýverið bárust gleðitíðindi um stofnun flugfélagsins Niceair, sem mun hefja beint áætlunarflug frá Akureyri til útlanda í sumar. Bætist það við félagið Voigt Travel sem einnig er á markaðnum.

Áfram veginn

Það eru fjölmörg tækifæri fólgin í ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi rétt eins og fjölmargir Íslendingar hafa kynnst á ferðalögum sínum um landið undanfarin tvö sumur. Gæði gisti- og veitingastaða, innviði og afþreying hafa aukist og eru eitthvað sem við getum verið stolt af. Þessum gæðum viljum við deila með erlendum gestum og breiða út fagnaðarerindinu. Að sama skapi hlakka ég sem íbúi til þess að geta bókað mér flug úr kjördæminu til útlanda og njóta þess hægðarauka sem því fylgir. Ég er því bjartsýn á framtíð innlendrar sem og erlendrar ferðaþjónustu í kjördæminu okkar og er sannfærð um að hún muni vaxa vel og dafna.

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 2. mars 2022.

Categories
Greinar

Komdu inn úr kuldanum

Deila grein

17/02/2022

Komdu inn úr kuldanum

Þing­flokk­ur Fram­sókn­ar mun eins og und­an­far­in ár leggja upp með metnaðarfulla fundaröð í kjör­dæm­a­viku. Við verðum með opna fundi Fram­sókn­ar í kjör­dæm­a­viku um land allt. Það er okk­ur mik­il­vægt að ná að nálg­ast og hlusta á radd­ir kjós­enda, ekki aðeins á fjög­urra ára fresti, held­ur með reglu­bundn­um hætti. Þannig leggj­um við okk­ar af mörk­um til að hlusta á fólkið okk­ar og skapa okk­ur öll­um sam­fé­lag sem við erum stolt af, tryggja fólki góð lífs­kjör og treysta bú­setu í land­inu. Það er og verður meg­in­verk­efni okk­ar í þing­flokki Fram­sókn­ar nú sem endra­nær.

Í kosn­inga­bar­átt­unni síðasta haust fund­um við vel að fólk vill sjá alþing­is­menn sinna brýn­um hags­mun­um sam­fé­lags­ins. Kjós­end­ur vildu heyra að við ynn­um að lausn­um, um­bót­um og jafn­vel rót­tæk­um kerf­is­breyt­ing­um. Þing­flokk­ur Fram­sókn­ar hef­ur sýnt fram á að hann er hóp­ur fólks er hef­ur fólk í fyr­ir­rúmi, við fjár­fest­um í fólki og mun­um halda því áfram. Við fór­um m.a. í rót­tæk­ar kerf­is­breyt­ing­ar á mál­efn­um barna. Slík­ar breyt­ing­ar og fleiri til hafa og munu skipta fólk máli, um land allt.

Í grunn­stef­inu Fram­sókn­ar seg­ir að við aðhyll­umst frjáls­lynda hug­mynda­fræði og að far­sæl­ast sé að ná fram niður­stöðu með sam­vinnu ólíkra afla og hags­muna sem byggð er á hóf­semi og heiðarleika. Það er aldrei mik­il­væg­ara en nú að hlusta vel á ólík­ar radd­ir og leiða mál til lykta með sam­vinnu. Við tryggj­um öfl­ugri og sterk­ari þing­flokk Fram­sókn­ar með því að hlusta á þarf­ir og vænt­ing­ar fólks á brýn­um hags­muna­mál­um.

Við erum nefni­lega rétt að byrja!

Okk­ur alþing­is­mönn­um er kjör­dæm­a­vika sér­stak­lega mik­il­væg. Okk­ur gefst tími og ráðrúm til að sinna hags­mun­um kjör­dæm­anna, það þarf sterka full­trúa með skýra sýn til að styðja og styrkja það val fólks að halda byggð í land­inu. Þing­flokk­ur Fram­sókn­ar vill áfram vera for­ystu­afl í brýn­um hags­mun­um lands­byggðar. Við vilj­um tryggja áfram að sam­göng­ur, mennt­un, menn­ing og síðast en ekki síst fjöl­breytt tæki­færi á at­vinnu­markaði séu fyr­ir hendi.

Ég vil nefna sér­stak­lega gríðarlega mik­il­vægt tæki­færi er við upp­götvuðum í heims­far­aldr­in­um; að fólk gat unnið heim­an frá sér, og þetta eig­um við að nýta og skapa já­kvæðan hvata til að fram­kvæma í frek­ari mæli. Nýta okk­ur þekk­ing­una og tækn­ina og skapa um leið sterk­ari byggðir. Fram­sókn er stjórn­mála­aflið til að standa við orð sín og gerðir.

Skyn­sem­in ligg­ur á miðjunni.

Ingibjörg Isaksen, formaður þing­flokks Fram­sókn­ar.

ingi­bjorg.isak­sen@alt­hingi.is

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. febrúar 2022.

Categories
Fréttir

Þjóðin er að þyngjast með tilheyrandi fylgikvillum

Deila grein

03/02/2022

Þjóðin er að þyngjast með tilheyrandi fylgikvillum

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, ræddi notkun á blóðsykurslækkandi lyfjum í störfum þingsins á Alþingi. Fleiri og fleiri einstaklingar eru að greinast með sykursýki 2 og eru lyf notuð í auknum mæli til að meðhöndla sykursýki 2 og hefur fjöldi notenda nærri tvöfaldast frá árinu 2015. Þá voru þeir nærri 9.000 en eru orðnir meira en 16.000 árið 2021.

„Allt of oft erum við að bregðast við afleiðingum í stað þess að einbeita okkur frekar að forvörnum. Rannsóknir sýna okkur að fjölgun sykursjúkra hér á landi er sambærileg Bandaríkjunum fyrir 20 árum síðan. Innlendar rannsóknir hafa einnig sýnt að aukning á sykursýki dreifist yfir allan aldur fullorðinna og eykst hjá báðum kynjum,“ sagði Ingibjörg.

„Lyf og inngrip með skurðaðgerðum mega ekki vera fyrsti valkostur. Við þurfum að mæta fólki af virðingu og fordómaleysi og veita þeim þá þjónustu og stuðning sem það þarf til að ná markmiðum sínum. Þá þurfum við sem þjóð að líta í eigin barm. Hvað er það sem veldur því að þjóðin er að þyngjast með tilheyrandi fylgikvillum? Það er mikilvægt að heilsuefling og bætt lýðheilsa fái stuðning frá stjórnvöldum og heilbrigðisþjónustan, þá sérstaklega heilsugæslan, taki áfram virkan þátt í því starfi,“ sagði Ingibjörg.

Categories
Greinar

Orkuskortur – sorgleg staða sem varðar okkur öll

Deila grein

31/01/2022

Orkuskortur – sorgleg staða sem varðar okkur öll

Und­an­farn­ar vik­ur höf­um við fengið frétt­ir af yf­ir­vof­andi orku­skorti hér á landi. Í des­em­ber fengu fiski­mjöls­verk­smiðjur þá til­kynn­ingu frá Lands­virkj­un að ekki væri hægt að veita þeim hreina raf­orku í upp­hafi loðnu­vertíðar. Þær neyðast til að skipta yfir í óákjós­an­lega orku­gjafa, eins og olíu, með til­heyr­andi kostnaði og um­hverf­isáhrif­um. Áætlað er að um 20 millj­ón­um lítra af olíu verði brennt á yf­ir­stand­andi vertíð.

Neyðarkall

Á þriðju­dag­inn í síðustu viku sendu um­hverf­is- og auðlindaráðuneytið og Orku­stofn­un neyðarkall til ís­lenskra raf­orku­fram­leiðenda. Óskað var eft­ir auk­inni orku­fram­leiðslu um­fram þær skuld­bind­ing­ar sem áður höfðu verið gerðar. Of­an­greint neyðarkall varðar hús­hit­un á köld­um svæðum því vegna raf­orku­skorts búa t.d Orku­bú Vest­fjarða og RARIK sig und­ir að brenna millj­ón­um lítra af olíu á næstu mánuðum til þess að tryggja hús­hit­un á Vest­fjörðum og á Seyðis­firði. Þessu fylg­ir tölu­verður kostnaður fyr­ir íbúa og fyr­ir­tæki þess­ara svæða. Og nú ber­ast fregn­ir af því að til standi að skerða raf­orku til ferj­unn­ar Herjólfs og mun ol­íu­notk­un skips­ins þá marg­fald­ast.

Þetta er sorg­leg og ótrú­leg staða sem við eig­um ekki að þurfa að búa við sem ís­lensk þjóð með all­ar okk­ar end­ur­nýj­an­legu orku­auðlind­ir. Þetta get­ur ekki verið svona til fram­búðar. Þetta er ástand sem við vilj­um ekki búa við, svo ein­falt er það.

Ástandið er al­var­legt

Staðan í orku­mál­um er al­var­leg og kom meg­inþorra lands­manna lík­leg­ast veru­lega á óvart. Þessi staða hef­ur hins veg­ar haft sinn aðdrag­anda. Landsnet varaði í skýrslu um afl- og orku­jöfn­um 2019-2023 við mögu­leg­um aflskorti árið 2022. Þar var bent á að á tíma­bil­inu myndi ekki nægi­lega mikið af nýj­um orku­kost­um bæt­ast inn á kerfið til að duga fyr­ir sí­vax­andi eft­ir­spurn eft­ir raf­magni sam­kvæmt raf­orku­spá.

Skilj­an­lega spyrja lands­menn sig; hvað kem­ur til? Hvernig end­ar þjóð, sem er þekkt fyr­ir sjálf­bæra hreina orku, í ástandi sem þessu? Staðreynd­in er sú að mörg ljón eru á veg­in­um. Nauðsyn­legt er að kljást við þau til að leysa orku­mál, tryggja orku­ör­yggi og hag­sæld þjóðar­inn­ar. Tryggja þarf nægt fram­boð af grænni orku fyr­ir heim­il­in í land­inu, at­vinnu­lífið og orku­skipt­in. Upp á síðkastið hef­ur í umræðunni verið rætt um hvort þörf sé á meiri raf­orku fyr­ir orku­skipt­in. Ég spyr, hvernig get­ur verið að ekki þurfi meiri orku fyr­ir orku­skipt­in þegar svo lítið má út af bera til að ekki sé næg raf­orka fyr­ir nú­ver­andi not­end­ur?

Glöt­um bæði orku og tæki­fær­um

Styrk­ing flutn­ings­kerf­is raf­orku þolir enga bið. Í viðtali við fjöl­miðla áætlaði for­stjóri Landsnets að ork­an sem tap­ast í flutn­ings­kerf­inu á hverju ári sam­svari af­kasta­getu Kröflu­virkj­un­ar sök­um ann­marka flutn­ings­kerf­is­ins. Á hverju ári tap­ast millj­arðar króna vegna þess og enn meira vegna glataðra at­vinnu og upp­bygg­ing­ar­tæki­færa um allt land.

Í dag er verið að leggja nýj­ar raflín­ur á hinum ýmsu stöðum. Þó eru sum­ir hlut­ar kerf­is­ins hátt í 50 ára gaml­ir og því er aug­ljóst að þörf er á bráðnauðsyn­legri upp­færslu. Sí­fellt fleiri gíga­vatt­stund­ir tap­ast á þenn­an hátt og í fyrra var talið að um 500 gíga­vatt­stund­ir hefðu glat­ast sök­um ann­marka flutn­ings­kerf­is­ins. Það sam­svar­ar meðal­orku­notk­un 100.000 heim­ila, sem eru tveir þriðju allra heim­ila á Íslandi. Sér­fræðing­ar telja þá tölu ein­ung­is fara vax­andi í óbreyttu ástandi. Af þessu er ljóst að bregðast þarf hratt við. Viðfangs­efnið er stórt en ekki óyf­ir­stíg­an­legt.

Tími aðgerða er núna

Mik­il­vægt er að ráðast í efl­ingu fyr­ir­liggj­andi virkj­ana þar sem það er hægt, hefja und­ir­bún­ing að þeim orku­kost­um sem auðveld­ast er að hrinda í fram­kvæmd fljót­lega og ein­falda svo ferlið frá hug­mynd að fram­kvæmd þannig að nýt­ing orku­kosta sem sam­fé­lagið þarfn­ast gangi bet­ur og hraðar fyr­ir sig í framtíðinni. Á Íslandi hef­ur það sýnt sig að tím­inn sem það tek­ur frá hug­mynd um hefðbundna orku­kosti þar til fram­kvæmd­ir verða að veru­leika er um 10-20 ár. Sag­an sýn­ir að það er of lang­ur tími ef tryggja á orku­ör­yggi þjóðar­inn­ar. Vissu­lega eru til aðstæður þar sem það er vel skilj­an­legt og alltaf þarf að vanda til verka. En oft og tíðum eru óþarfa taf­ir sem sóa dýr­mæt­um tíma án þess að það skili sér í betri fram­kvæmd með til­liti til um­hverf­is­ins. Við okk­ur blas­ir að úr­bóta er þörf og tími aðgerða er núna.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. janúar 2022.

Categories
Greinar

Hvað er sam­úðar­þreyta?

Deila grein

25/01/2022

Hvað er sam­úðar­þreyta?

Mannauður er ein mikilvægasta auðlind hverra fyrirtækja. Þessa auðlind ber að nýta af virðingu og líkt og aðrar auðlindir þá geta þær tæmst ef við skiljum ekkert eftir. Fjölmargar erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að heilbrigðis- og menntakerfinu stafi ógn af samúðarþreytu. En hvað er það? Segja má í mjög einfölduðu máli að samúðarþreyta sé þegar fagfólk gefi meira af eigin orku til vinnu sinnar en það fær til baka.

Samúðarþreytu má greina í tvennt, annars stigs áfall og kulnun. Annars stigs áfall á við þegar starfsmaðurinn, finnur að vinnan hefur veruleg áhrif á líðan hans. Þetta getur meðal annars komið fram í endurupplifunum tengt atviki sem hann vann með í starfi, óöryggi, vonleysi, forðun, kvíða, depurð og /eða tilfinningalegum doða. Það getur komið í kjölfar staks atburðar eða vegna endurtekinna atburða. Samkvæmt skilgreiningu áfalls þá eru það ekki eingöngu þeir sem hafa sjálfir upplifað áfallaatburð sem geta þróað með sér áfallastreituröskun heldur einnig þeir sem heyra um eða verða vitni að atburði. Kulnun er talin þróast smám saman yfir langvarandi tímabil sé ekki brugðist við afleiðingum streitu eða áfalla í vinnu. Áður en heimsfaraldurinn skall á okkur bentu rannsóknir til þess að samúðarþreyta væri að aukast meðal heilbrigðisstarfsfólks, ætla má að samúðarþreyta sé enn meiri eftir Covid-19 þar sem öryggi fagfólks hefur verið ógnað og starfsaðstæður verið óvenjulega krefjandi.

Við þurfum að stuðla að samúðarsátt

Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að greina ástandið, því hefur undirrituð lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að skipaður verði starfshópur sem hafi það að markmiði að greina og gera tillögur að fyrirkomulagi til þess að efla andlega heilsu fagfólks sem vinnur við að hjálpa öðrum s.s. starfsfólk heilbrigðiskerfisins, lögreglu, slökkviliðs og í leik-grunn og framhaldsskólum o.fl.

Við þurfum að stuðla að samúðarsátt ef svo mætti kalla. Samúðarsátt væri þá verndandi þáttur gegn samúðarþreytu. Hægt er að láta starfsmann upplifa samúðarsátt með nokkrum leiðum. Meðal annars þegar honum líður vel í vinnu, upplifir öryggi á vinnustað, að það ríki traust á meðal samstarfsfélaga, að það sem hann gerir skipti máli fyrir einstaklinginn sem hann þjónar, aðstandendur og samfélagið. Þá fær starfsmaðurinn orku til baka frá umhverfinu sem vegur á móti orkunni sem hann gaf af sér við það að hjálpa öðrum. Hægt er að stuðla að samúðarsátt með íhlutun, t.d. með fræðslu og námskeiðum, fá handleiðslu frá fagaðila, hafa skýr mörk á milli einkalífs og vinnu, gefa svigrúm fyrir slökun, hugleiðslu og núvitundaræfingar og loks með því að taka eftir því sem vel er gert og veita styrkleikum athygli.

Hanna þarf gagnalíkan út frá rannsóknum um hverjir séu í meiri áhættu til að þróa með sér samúðarþreytu. Ef til vill má þannig grípa fyrr inn í með því að samlesa gögn og þekkja formerkin um veikindadaga og draga ályktanir um hverjir séu í mestri þörf fyrir handleiðslu og úrvinnslu annars stigs áfalla.

Forvarnir eru mikilvægar

Mikilvægt er að huga að forvörnum og tryggja heilbrigða vinnustaði. Við þurfum að skoða hvernig kerfið hlúir að þeim sem vinna við að hjálpa öðrum og bregðast við. Kostnaður vegna veikinda, ofþreytu og neikvæðra afleiðinga álagseinkenna er hár, hvort sem er fyrir einstaklinginn eða kerfið. Við erum með margra ára reynslu sem sýnir okkur að forvarnir skipta máli, en við erum alltaf að tileinka okkur forvarnir á nýjum sviðum, nú þurfum við að einbeita okkur að þessum starfsstéttum.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. janúar 2022.