Categories
Greinar

Hvaðan á orka fram­tíðarinnar að koma?

Deila grein

08/04/2021

Hvaðan á orka fram­tíðarinnar að koma?

Stærsta framlag Íslands til loftlagsmála er nýting þjóðarinnar á grænni orku. Í dag státar engin önnur þjóð af jafn mikilli nýtingu á grænni orku líkt og við Íslendingar gerum. 85-90% af allri orku sem Íslendingar nota er græn orka og mikill meirihluti raforkunnar er framleidd innan fyrirhugaðs hálendisþjóðgarðs.

Samkvæmt orkustefnunni viljum við halda þessu og jafnvel stíga stærri skref en nú þegar hefur verið gert.

Orkustefna

Þverpólitísk nefnd skilaði orkustefnunni til ársins 2050 í mikilli sátt og horfa stjórnvöld á þá stefnu sem leiðarljós inn í framtíðina. Í orkustefnu segir meðal annars: „Til að skapa verðmæti og tryggja lífsgæði verður samfélagið að geta treyst því að orkuþörf sé mætt á hverjum tíma. Framboð og innviðir orkunnar teljast til þjóðaröryggishagsmuna þar sem öryggi borgaranna og samfélags og atvinnulífs er háð þessum mikilvægu grunnþáttum.“ Af þessari ástæðu er mikilvægt að gera ráð fyrir mögulegri framtíðaruppbyggingu á nauðsynlegum innviðum í flutningi og dreifingu raforku fyrir samfélagið.

Við erum flest kunnug umræðunni um orkuskipti og öll sammála um að það sé framtíðin þó svo mismunandi skoðanir séu hversu langan tíma við tökum í þau.

Í orkustefnunni eru sett metnaðarfull markmið þar sem lagt er áherslu á að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneti fyrir 2050. Í stað þess að kaupa olíu og bensín erlendis frá væri þjóðin sjálfbær hvað eldsneyti varðar.

Parísarsamkomulagið eitt og sér kallar á 300 MW af rafafli til að ná skuldbindingum okkar hvað varðar orkuskipti í samgöngum á landi, samkvæmt tölum sem Samorka birti nýlega. Til að skipta alveg út jarðefnaeldsneyti fyrir hreina, innlenda orkugjafa í samgöngum á landi þyrfti um 600 MW. Ef við ætlum að leysa málið í öllum samgöngum innan lands þurfum við 1200 MW. Til að hætta að flytja inn olíu á millilandaflugvélar og skip þá þyrfti rúmlega annað eins. Þetta þýðir að ef Ísland ætlar að vera alveg óháð jarðefnaeldsneyti gæti þurft samtals um 2500 MW, sem er jafn mikið og er notað á landinu í dag. Gengið er út frá því að hluti farartækjanna noti rafmagn beint en hluti þeirra gangi fyrir rafeldsneyti s.s. vetni. Þessar tölur miðast við núverandi tækni sem vonandi á eftir að taka framförum og þar með lækka þessar tölur eitthvað. Til viðbótar þarf svo rafmagn til almennra nota fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu, en nýjasta raforkuspá gerir ráð fyrir að til þess þurfi allt að 1500 MW fyrir árið 2060.

Forsætisráðherra tilkynnti efld markmið Íslands í loftlagsmálum á leiðtogafundi í desember síðastliðnum. Þar er markið fært úr 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2030, í 55% samdrátt. Þessum efldu aðgerðum fylgir fjármagn, sem er vel, en eftir því sem við aukum metnað okkar í loftlagsmálum þurfum við líka meiri græna orku. Hvaðan á hún að koma?

Hálendisfrumvarp er þvert á samþykkta orkustefnu – Ein höndin á móti annarri

Orkustefnan segir að orkuþörf samfélagsins verði mætt með öruggum hætti til lengri og skemmri tíma. Jafn aðgangur verði á landsvísu að orku á samkeppnishæfu verði. Að við verðum alltaf með græna orku til heimila og fyrirtækja. Þessi markmið eru metnaðarfull og góð en spurningunni hvernig við ætlum að afla þessarar grænu orku er enn ósvarað. Fyrir liggur hálendisfrumvarp þar sem lokað er á orkuríkasta svæði landsins án þess að búið sé að svara því hvernig við ætlum að afla orku til framtíðar og hvaðan.

Svo virðist vera að við gerð hálendisfrumvarps hafi ekki verið horft á heildarmyndina með tilliti til nýrrar orkustefnu auk annarra þátta s.s. þjóðaröryggis og efnahags. Hvernig sjáum við fram á að uppfylla sett markmið í orkustefnunni ef frumvarpið verður að veruleika?

Með óbreyttu frumvarpi verður ekki hægt að endurnýja flutningslínur né Byggðalínuna sem komin er á tíma, auk þess sem lokað er á möguleika til nýtingar á endurnýjanlegum orkugjöfum á svæðinu til framtíðar.

Framtíðarsýn

Við erum sístækkandi þjóð og eru vísbendingar um að hagkerfið verði tvöfalt stærra 2050 og tvöföldun verður á útflutningsverðmætum. Við megum gera ráð fyrir fjölgun starfa og íbúa í framtíðinni sem kallar á meiri orkuþörf. Það sama blasir við öllum öðrum þjóðum sem eru að vaxa og dafna eins og við. Danir sem hafa verið í sviðsljósinu varðandi grænu endurreisnina sína gera ráð fyrir tvöföldun raforkuþarfar á næstu tíu árum. Því má búast má við að orkuþörf heimsins muni aukast hér eftir sem hingað til og ef horft er til hinna Norðurlandanna spá þau því að eftirspurn eftir raforku hjá þeim muni aukast um allt að helming á næstu áratugum frá því sem nú er. Má ekki búast við því að það sama eigi við um Ísland?

Hverjar eru þarfir samfélagsins, hver verður orkuþörf Íslands í framtíðinni? Það hefur ekki verið hluti af undirbúningnum að spyrja að því hversu mikið af orkulindum sé inn á svæðinu sem skilgreint er sem hálendisþjóðgarður og hvað við þurfum mikla orku til framtíðar?

Hver sem endanlega þörfin verður er augljóst að við þurfum meiri orku.

Það er mikilvægt að sýna framsýni þegar kemur að orkuþörf og þar með orkuöryggi þjóðarinnar til framtíðar. Slíku er ekki fyrir að fara í frumvarpi umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð, þvert á móti.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri og stjórnarformaður Norðurorku.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. apríl 2021.

Categories
Greinar

Ís­lenskan mat í skóla

Deila grein

25/01/2021

Ís­lenskan mat í skóla

Börnin okkar eru þau dýrmætustu verðmæti sem við eigum og viljum við þeim allt hið besta. Það á við um menntun, uppeldi og vöxt þeirra og viðgang. Eitt af því sem við erum meðvituð um er að maturinn sem börnin okkar borða sé hollur og næringarríkur. Fræðsluráði Akureyrarbæjar barst erindi fyrir skömmu síðan þar sem dregnar voru þær ályktanir að ekki væri farið eftir tilmælum Landlæknis þegar kemur að viðmiðum varðandi mat í grunn og leikskólum Akureyrar. Í kjölfar þessa er nauðsynlegt að árétta nokkur atriði. Teknir voru upp sjö vikna matseðlar fyrir alla leik og grunnskóla bæjarins, matseðlarnir voru yfirfarnir af næringafræðingi sem reiknaði þá út, út frá næringarþörf barnanna og manneldismarkmiðum. Síðan hafa matseðlarnir verið yfirfarnir og uppskriftum bætt við. Eitt af meginmarkmiðum með sameiginlegum matseðlum er að tryggja að öllum skólabörnum standi til boða hollur og næringaríkur hádegisverður.Það var mikil bragabót þegar þessir matseðlar voru teknir upp en Akureyrarbær gerir þá kröfu að fylgt sé eftir markmiðum Embætti landlæknis. Vissulega má alltaf leitast við að gera enn betur og bókaði fræðsluráð á síðasta fundi sínum að komið yrði á reglubundnum úttektum á matseðlum og gæðum matarins í mötuneytum skólanna.

Heilnæmur íslenskur matur

Við Íslendingar erum þeirrar gæfu aðnjótandi að aðstæður okkar til matvælaframleiðslu eru að mörgu leiti einstakar, lítil notkun sýklalyfja, hreint vatn og hreint loft er eitthvað sem aðrar þjóðir öfunda okkur af og reglur um aðbúnað dýra eru með þeim ströngustu sem þekkjast. Grænmetið, kjötið og mjólkin eru hollustuvara sem við getum verið stolt af. Landbúnaður er öflugur í nærsveitum okkar og mikið af þeirri framleiðslu er síðan fullunnin hér í bænum. Leiðin úr haga í maga er því oft stutt. Akureyrarbær fer í útboð á matvælum og meðal annars var gerður samningur við Kjarnafæði eftir slíkt útboð. Kjarnfæði hefur unnið að því að draga mikið úr óæskilegum aukefnum í sinni framleiðslu. Vöruþróun síðustu ára hefur snúið mikið að því að fækka óþolsvöldum ásamt aukefnum og hefur fyrirtækið verið í fararbroddi þegar kemur að vottunum, bæði innlendum og erlendum. Minna salt og sykur er öllum til heilla hvort sem það er framleiðslufyrirtækjum eða neytendum.

Frasinn „unnar matvörur“ hefur á síðustu árum verið notaður af sumum sem samheiti við óhollustu sem er mikil einföldun. Vinnsla á matvörum er oft nauðsynlegur og eðlilegur hluti af því að gera matvörur heppilegri til neyslu og auka matvælaöryggi. Dæmi um slíkt er t.d. gerilsneyðing á mjólk og framleiðsla á undanrennu og léttmjólk fyrir þá sem kjósa minni fitu. Vinnsla á matvælum er einnig oft til þess fallin að auka geymsluþol sem stuðlar að minni matarsóun. Unnar kjötvörur eru gríðarlega fjölbreyttur flokkur matvæla hafa farið í gegnum mismunandi framleiðsluferla og er stór hluti af daglegri neyslu fólks. Akureyrarbær setur strangar kröfur um heilnæmar unnar kjötvörur í útboð sitt og hefur Kjarnafæði unnið þétt með þeim stóru samstarfsaðilum að heilnæmari matseðli hverju sinni.

Íslenskar hefðir

Við Íslendingar höfum alist upp við alls kyns hefðir, m.a. gagnvart mat. Líkt og hjá öðrum þjóðum hafa matarhefðir okkar þróast með hliðsjón af þeim aðstæðum sem þjóðin bjó við í gegnum aldirnar og eru stór hlut af okkar menningararfleifð. Ég tel afar mikilvægt að við týnum ekki ríkum hefðum í okkar samfélagi eins og sprengidegi, hátíðarmat og þorramat svo dæmi séu tekin. En einmitt þessa dagana eru börnin okkar mörg hver að fá að bragða á þorramat og sum hver í fyrsta sinn. Skólar landsins eiga heiður skilinn fyrir að halda þessum hefðum á lofti og kynna börnin fyrir þessum matvælum sem tengjast þeim.

Vinnsla matvæla er hluti af matvælaframleiðslu. Eins og umræðan hefur verið síðustu ár ekki bara í síðustu viku þá, er aukin áhersla á heilnæmi vara og er það vel, því það er mikilvægt að ný þekking um betri næringu og hollustu skili sér til neytenda allra tegunda matvæla.

Ingibjörg Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri og formaður sveitarstjórnarráðs Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. janúar 2021.