Categories
Fréttir Greinar

Geðheilbrigðismál á Ís­landi er lang­tíma­verk­efni

Deila grein

21/11/2024

Geðheilbrigðismál á Ís­landi er lang­tíma­verk­efni

Síðastliðin þrjú ár hefur markvisst verið unnið að umbótum í geðheilbrigðismálum. Stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 og aðgerðaráætlun frá 2023-2027 var samþykkt og markar þessi vinna mikilvæg skref í uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu landsins.

Stefnan og aðgerðaráætlunin hefur haft það að markmiði að bæta geðheilbrigðisþjónustu með því að fjölga úrræðum, styrkja forvarnir og auka fræðslu. Stefnan er byggð á fjórum megin þáttum, geðrækt og forvörnum, samþættri og heildrænni þjónustu, notendasamráði og notendamiðaðri þjónustu. Nýsköpunar, þróunar, vísundum og bættu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.

Aukið fjármagn hefur verið lagt í geðheilbrigðismál á kjörtímabilinu og aðgengi hefur verið bætt. Nær tvöfalt fleiri börn hafa fengið aðgang að sálfræðiþjónustu með greiðsluþáttöku Sjúkratrygginga og þá hefur í fyrsta sinn verið opna á að fullorðnir fái niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu. Komið hefur verið á fót almennum og svæðisbundnum geðheilsuteymum á heilsugæslum um allt land og stöðugildum sálfræðinga á heilsugæslustöðvum hefur verið fjölgað úr 14 í 60. Nú þegar kominn er góður grunnur, en næsta skref er að stækka þessi teymi enn frekar. Þannig má tryggja að allir hafi aðgang að nauðsynlegum úrræðum, ekki síst á landsbyggðinni.

Geðheilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni stendur frammi fyrir mörgum áskorunum, svo sem skorti á sérfræðingum og fjarlægð milli íbúa og þjónustu. Það er því mikilvægt að viðhalda og efla þjónustuna á þessum svæðum, þar sem það er oft áskorun fyrir íbúa að nálgast aðstoð. Aukin fjárfesting í þjónustu á landsbyggðinni, auk fræðslu og stuðningur, er nauðsynleg til að tryggja að allir í landinu hafi jafnan aðgang að geðheilbrigðisúrræðum. Þetta getur falið í sér fjölgun sérhæfðra geðheilsuteyma sem jafnvel fara á milli svæða eða sveitarfélaga.

Mikilvægt er að safna gögnum um notkun geðheilbrigðisþjónustu og áhrif hennar á samfélagið. Þetta mun veita mikilvægar upplýsingar sem hægt er að nýta til að bæta þjónustuna enn frekar. Með því að efla geðheilbrigðisþjónustu, auka aðgengi og byggja upp stuðningsnet fyrir einstaklinga, má ná settu marki um betri geðheilbrigði á Íslandi.

Þó að mikilvæg skref hafi verið tekin í rétta átt, þá er enn mikið verk að vinna. Framfarir í geðheilbrigðismálum eru langtímaverkefni sem kallar á samstarf, stefnumótun og skuldbindingu frá öllum aðilum samfélagsins.

Ingibjörg Isaksen fyrsti þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Í­þróttir fyrir alla!

Deila grein

18/11/2024

Í­þróttir fyrir alla!

Hver króna sem fer til íþróttafélaga er króna sem skilar sér margfalt til baka í samfélagið. Um kosti íþróttastarfs á Íslandi verður ekki deilt. Starfið er faglegt, fjölbreytt og gott. Það sem hefur breyst á undanförnum árum er að íþróttir eru gríðarlega atvinnuskapandi. Félögin á Íslandi í dag eru orðin stærri og komin með fleiri starfsmenn í full störf. Ásamt því að afleidd störf tengd íþróttum á Íslandi, t.d. í ferðaþjónustu, eru orðin ansi mörg og drjúg.

Við getum verið stolt af því starfi sem íþróttahreyfingin á Íslandi sinnir og vinnur. Framsókn leggur áherslu á fjölbreytt og faglegt íþróttastarf. Þannig hefur Framsókn stutt við ÍSÍ m.a. með ráðningu Vésteins Hafsteinssonar og innkomu svæðisfulltrúa ÍSÍ sem eiga að styðja við íþróttastarfið á öllu landinu.

Það er hinsvegar áhyggjuefni hversu mikið það kostar að stunda íþróttir á Íslandi. Fyrir utan hið augljósa sem eru æfingagjöld og búnaðarkaup þá eru ferðalög liða og félaga á landsbyggðinni farin að taka verulegan toll af fjárhagi heimilina. Dæmi eru um að foreldrar með þrjú börn að stunda íþróttir á landsbyggðinni þurfi að reiða fram um 800.000 kr. í ferðakostnað á ári fyrir börnin sín, ofan á áðurnefnd æfingagjöld og búnaðarkaup.

Íþróttastarf á að vera fyrir alla. Það eiga allir að geta stundað sína íþrótt óháð efnahagsstöðu foreldra. Og óháð búsetu! Þarna vill Framsókn stíga fast til jarðar með auknum framlögum í ferðajöfnunarsjóð ÍSÍ og með víðtækari nýtingu Loftbrúar. Einnig er vert að skoða hugmyndir um ívilnanir til fyrirtækja sem sjá um að keyra íþróttalið víðsvegar um landið. Auk þess er mikilvægt að skoða hugmyndir um hvernig hægt er að draga úr kostnaði við gistingu.

Með fjárfestingu í íþróttum er verið að styðja við forvarnarstarf! Við ölum upp heilbrigðari einstaklinga og styrkjum samfélagið okkar til lengri tíma. Það er dýrt að vera ekki með öflugt íþróttastarf. Það mun kalla á aukin fjárframlög annarstaðar í kerfinu okkar.

Fjárfesting í íþróttum er fjárfesting í framtíðinni.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Allt mannanna verk – orkuöryggi á Ís­landi

Deila grein

08/11/2024

Allt mannanna verk – orkuöryggi á Ís­landi

Raforka er ein af grunnþörfum okkar samfélags og er afhendingaröryggi raforku ekki aðeins grundvallarþjónusta heldur einnig lykilþáttur í daglegu lífi landsmanna og í efnahagslegum vexti og velferð landsins. Það hefur varla vafist fyrir neinum að það sé skortur á raforku hér á landi, sem hamlar frekari vexti og veldur áhyggjum sérfræðinga. Þeir hafa í langa hríð bent á að næstu ár gætu orðið erfið vegna hugsanlegra raforkuskerðinga og takmarkaðs framboðs á raforku.

Leyfum staðreyndum að segja söguna

Umræða um orkumál hefur breyst á undanförnum árum. Sú orðræða að hér sé til næg raforka er að snúast upp í andhverfu sína og einstaklingar og fyrirtæki eru að átta sig á því að það þarf aukna raforku ef við viljum sjá samfélagið okkar vaxa og dafna. Raforka er ríflega fjórðungur þeirrar orku sem notuð er á Íslandi ef miðað er við frumorkunotkun, en innflutt olía er um 15% af orkunotkun á Íslandi. Við erum langt frá því að vera sjálfstæð í orkumálum þegar við notum olíu fyrir meira en 100 milljarða árlega til að knýja verðmætaskapandi starfsemi. Já, það er rétt að heimilin nota einungis um 5% raforkunnar, og tryggja þarf að heimilin fái áfram raforku á sanngjörnu og viðráðanlegu verði. Hins vegar má verðið ekki vera svo lágt að mikil sóun verði í kerfinu þar sem við göngum að raforkunni sem vísri. Hins vegar er það yfirlýst markmið okkar að heimili, ásamt smærri fyrirtækjum, hafi ávallt greitt aðgengi að raforku þó svo að það komi til skerðinga, en í slíkum tilfellum eru það stórnotendur sem líða skerðinguna.

Undanfarin ár hefur staðan í lónum verið lægri en oft áður, sem hefur kallað á tíðari og lengri skerðingar gagnvart stórnotendum. Sumir myndu segja, „er það ekki allt í lagi? Fyrirtækin mega alveg við því,“ og gera líklega ráð fyrir því þar sem þau eru með samning um skerðanlega raforku, sem er mjög mikilvægur til að fullnýta kerfið okkar.

Skerðingar hafa afleiðingar

Í mínum huga snýst þetta um hvernig samfélag við viljum búa í. Frekari skerðingar á stórnotendur hafa afleiðingar. Framleiðsla minnkar samhliða því að útflutningur minnkar, sem leiðir til þess að útflutningstekjur lækka. Vegna skerðinga á afhendingu raforku á fyrri hluta ársins töpuðust útflutningstekjur upp á 14-17 milljarða króna. Í þessu ástandi neyðast fyrirtæki eins og fiskimjölsverksmiðjur til að keyra starfsemi sína áfram á olíu.

Sviðsmyndin er einföld; græn orka út og mengandi orka inn = öfug orkuskipti og glötuð tækifæri til atvinnuuppbyggingar.

Skortur á raforku hefur því víðtæk áhrif, ekki síst á atvinnulífið á landsbyggðinni, þar sem mikilvægar þjónustugreinar treysta á stöðuga raforkuafhendingu. Með því að tryggja fyrirtækjum stöðugan aðgang að endurnýjanlegri raforku tryggjum við tækifæri til frekari vaxtar um land allt, sinnum skyldum okkar gagnvart markmiðum í loftlagsmálum og verðum minna háð sveiflum í alþjóðlegu orkuverði.

Aðgerðir fyrir framtíðina

Það er ýmislegt sem þarf að gera til að afstýra skorti á raforku og tryggja áframhaldandi vöxt.

Við þurfum að huga að eflingu flutningskerfisins. Sterkara og öflugra flutningskerfi tryggir öruggan flutning raforkunnar um land allt og gerir okkur kleift að besta heildarnýtingu raforkukerfisins.

Við þurfum að draga úr sóun. Við þurfum að bera virðingu fyrir auðlindunum okkar og nýta þær skynsamlega til að draga úr losun og stuðla að sjálfbærni.

Við þurfum að leysa flækjur hvað varðar feril framkvæmda frá umsókn alveg til nýtingar. Það er brýnt að næsta ríkisstjórn taki til og einfaldi leyfisveitingaferli fyrir virkjanir, sem er orðið allt of flókið og tímafrekt. Rafræn þjónusta og samræmd vefgátt leyfisveitinga myndu spara tíma og auka skilvirkni. Slík aðgerð er nauðsynleg

Við þurfum að auka orkuframleiðslu á Íslandi. Við búum við aragrúa tækifæra hér á landi og við eigum að nýta möguleika vatnsafls, vindorku, jarðvarma og nýrrar tækni sem gæti opnað dyr að nýjum orkuöflum. Auka þarf framboð nýrra virkjana, halda áfram með fyrstu skrefin í vindorku. Marka þarf stefnu í vindorkumálum en mikilvægt er að huga að staðsetningu vindorkuvera og horfa frekar til færri staða en fleiri. Um leið þurfum við að átta okkur á því að þó vindorkan hjálpi til, þá er hún ekki endanleg lausn við framboðsskorti á raforku, enda þarf að sveiflujafna hana að hluta til með fyrirsjánlegu afli, en þar er vatnsaflið raunhæfasti kosturinn.

Framsókn vinnur í þágu framtíðarinnar

Í ljósi breytinganna sem við sjáum í heiminu í dag er ljóst að tíminn til aðgerða er núna. Hvert þreif í átt að sjálfbærum orkuskiptum og orkuöryggi skiptir öllu máli fyrir framtíð okkar og láta okkur í té að lifa í samfélagi sem er ekki aðeins sterkt heldur einnig tilbúið að mæta áskorunum tímans. Við þurfum að standa saman og hlusta á sérfræðinga á sviði orkumála, til að tryggja nægt framboð á raforku, orkuöryggi og gæði raforu til framtíðar. Orkumál okkar eru ekki aðeins tal um megavött og gígavattstundir heldur grundvallarþáttur sem hefur áhrif á alla þætti lífsins.

Við í Framsókn erum reiðubúin til þess að standa vörð um og efla orkuöflun landsins. Slík verkefni skapa ekki aðeins störf, heldur stuðla að auknu orkuöryggi sem hefur jákvæð áhrif á hagkerfið í heild sinni.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og oddviti lista flokksins í Norðausturkjördæmi

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Bleikur dagur

Deila grein

23/10/2024

Bleikur dagur

Í dag, 23. október, er Bleikur dagur, sem er hluti af októberátakinu. Á þessum degi fögnum við styrknum og seiglunni sem einkennir baráttuna gegn brjóstakrabbameini. Það er tilefni til að íhuga mikilvægi forvarna, klæðast bleikum litum til stuðnings, og hvetja konur til að mæta í skimun. Október er tími umhyggju þar sem við minnumst samstöðu og sýnum stuðning í baráttunni gegn þessum alvarlega sjúkdómi.

Lægri kostnaður

Krabbamein er eitt helsta heilsufarsvandamál okkar tíma, og sérstaklega brjóstakrabbamein, sem er algengasta krabbameinið meðal kvenna. Rannsóknir hafa leitt í ljós að regluleg skimun getur lækkað dánartíðni brjóstakrabbameins um allt að 20%. Skimun auðveldar greiningu á sjúkdómnum á fyrri stigum, sem býður upp á betri meðferðarúrræði og auknar lífslíkur.

Til að auka aðgengi að skimun hefur heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson ákveðið að lækka kostnað við brjóstaskimun niður í 500 krónur. Þetta er mikilvægur áfangi í því að tryggja að þátttaka í skimanir verði ekki háð fjárhagslegri stöðu, og sömuleiðis að fleiri konur sjái sér fært að taka þátt.

Sveigjanleiki atvinnurekenda

Stuðningur atvinnurekenda er einnig ómetanlegur í þessari baráttu. Með átakinu „Skrepp í skimun“ er hvatt til þess að konur njóti sveigjanleika á vinnustöðum til að sækja þessa mikilvægu þjónustu. Það þarf skýra stefnu í að mynda svigrúm fyrir konur svo þær geti nýtt sér skimun sem oft gefst aðeins möguleiki á úti á landsbyggðinni í nokkra daga í einu.

Við höfum öll hlutverk að gegna í því að hvetja konur í okkar nærumhverfi – í vinnunni, innan fjölskyldur og í vinahópum – til að nýta sér skimun. Með hvatningu og samstöðu sýnum við ekki bara stuðning okkar, heldur tökum þátt í að tryggja heilsu fyrir framtíðina.

Tökum þátt, sýnum kærleik og vitund – skreppum í skimun.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Á ríkið að svíkja samninga?

Deila grein

14/10/2024

Á ríkið að svíkja samninga?

Í vik­unni birt­ist frétt í Morg­un­blaðinu um til­lög­ur Viðskiptaráðs, en þær hafa það að mark­miði að spara rík­inu ákveðnar fjár­hæðir. Það sem þar kem­ur aðallega á óvart er að marg­ar til­lög­ur snú­ast um það að ríkið eigi að virða skuld­bind­ing­ar sín­ar að vett­ugi og draga úr mik­il­væg­um aðgerðum fyr­ir fólkið í land­inu.

Að eiga aðild að samn­ing­um er ábyrgð sem ber að sinna af heiðarleika og heil­ind­um og það er eng­um til heilla ef ríkið á að draga til baka lof­orð, skuld­bind­ing­ar og und­ir­ritaða samn­inga. Slík rík­is­stjórn myndi varla vera traust­vekj­andi í aug­um þjóðar­inn­ar, hvað þá ein­stak­linga sem binda mikl­ar von­ir við þær aðgerðir sem ríkið hef­ur skuld­bundið sig til.

Að sjálf­sögðu á ríkið að vera með ábyrga og skyn­sam­lega hag­stjórn. Við sjá­um að aðhald og aðgerðir nú­ver­andi rík­is­stjórn­ar eru far­in að hafa áhrif á lækk­un verðbólgu og vext­ir eru byrjaðir að lækka.

Aðkoma að kjara­samn­ing­um

Það er um­hugs­un­ar­vert að svo virðist sem að Viðskiptaráð beri ekki mikla virðingu fyr­ir rót­gró­inni meg­in­reglu samn­inga­rétt­ar um að samn­inga skuli halda. Það er rétt að skipt­ar skoðanir eru á því hvort ríkið hefði átt að stíga inn í síðustu kjaraviðræður. Einnig er rétt að það er mik­il­vægt að við tök­um þátt í slík­um samn­ingaviðræðum af var­færni, eins og Viðskiptaráð hef­ur bent á. En þegar búið er að gefa fyr­ir­heit, þá er mik­il­vægt að standa við það sem lagt hef­ur verið fram.

Und­ir­rit­un kjara­samn­inga í mars sl. á al­menn­um markaði var mik­il­væg skref. Aðilar al­menna vinnu­markaðar­ins sýndu með þess­um samn­ing­um mikla ábyrgð og fram­sýni. Aðkoma stjórn­valda, bæði rík­is og sveit­ar­fé­laga, skipti sköp­um í þeirri samn­inga­gerð. Þær aðgerðir, sem ríkið skuld­batt sig til, eru til þess falln­ar að auka ráðstöf­un­ar­tekj­ur heim­ila með sér­stakri áherslu á hús­næðis­upp­bygg­ingu, tryggja hús­næðisstuðning og stór­efla stuðning við barna­fjöl­skyld­ur. Þetta er stuðning­ur við þau sem standa höll­um fæti á hús­næðismarkaði og hafa orðið fyr­ir auk­inni byrði vegna hús­næðis­kostnaðar. Aðgerðir til að auka fram­boð íbúðar­hús­næðis stuðla að auknu jafn­vægi á hús­næðismarkaði og lægri hús­næðis­kostnaði.

Er Viðskiptaráð virki­lega að leggja til að auka byrði barna­fjöl­skyldna og auka byrði hús­næðis­kostnaðar þeirra sem síst geta? Það að svíkja skuld­bind­ing­ar sín­ar og láta þann hóp bera auk­inn kostnað get­ur haft langvar­andi áhrif þó svo að það myndi spara rík­is­sjóð ein­hverj­ar fjár­hæð í dag.

Mik­il­væg­ar aðgerðir rík­is­ins í hús­næðismál­um

Hvað varðar til­lögu Viðskiptaráðs um lækk­un vaxta­bóta­kerf­is­ins og hlut­deild­ar­lána er nauðsyn­legt að ít­reka að ríki og sveit­ar­fé­lög hafa aðkomu að þriðjungi af bygg­ingu hús­næðis ár hvert. Það er ekki nýtt að ríkið gangi til aðgerða á hús­næðismarkaði með það að mark­miði að grípa viðkvæma hópa og jafna aðgengi að markaðnum.

Tíma­bilið 2019-2024 hef­ur verið mesta upp­bygg­ing­ar­tíma­bil Íslands­sög­unn­ar, en það hef­ur þó ekki dugað til. Eft­ir­spurn eft­ir hús­næði hef­ur auk­ist um­tals­vert á stutt­um tíma sam­hliða mik­illi fólks­fjölg­un hér á landi. Því erum við að byggja und­ir áætlaðri íbúðaþörf, en ekki vegna aðgerðal­eys­is í hús­næðismál­um.

Við í Fram­sókn höf­um lagt höfuðáherslu á að auka aðgengi að hús­næði, sér­stak­lega fyr­ir ungt fólk, fyrstu kaup­end­ur og leigj­end­ur. Þetta ger­um við m.a. með hlut­deild­ar­lán­un­um, sem hafa reynst þess­um hóp­um vel og reynst mik­il­væg aðgerð í hús­næðismál­um.

Hlut­deild­ar­lán fyr­ir fyrstu kaup­end­ur eru kom­in til að vera og rík­is­stjórn­in hef­ur nú þegar samþykkt að veita 4 millj­arða til hlut­deild­ar­lána á þessu ári. Ann­ars veg­ar til að styðja við fyrstu kaup­end­ur og til að hvetja fram­kvæmdaaðila til að halda áfram að byggja. Eins var þetta til þess að fram­kvæmdaaðilar lækkuðu verð til að passa inn í viðmið hlut­deild­ar­lána. Hlut­deild­ar­lán­in stuðluðu bein­lín­is að því að halda fast­eigna­verði niðri, þvert á orð Viðskiptaráðs.

Við stönd­um við það sem segj­um

Til að mæta aukn­um vaxta­kostnaði heim­il­anna síðustu miss­eri var á ár­inu 2024 greidd­ur út sér­stak­ur vaxt­astuðning­ur til heim­ila með íbúðalán. Grunn­fjár­hæðir hús­næðis­bóta og eigna­skerðinga­mörk í hús­næðis­bóta­kerf­inu hækka 1. júní 2024 auk þess sem aukið til­lit verður tekið til fjöl­skyldu­stærðar og munu fram­lög til hús­næðis­bóta aukast um 2,5 ma.kr. á árs­grund­velli vegna þessa.

Áfram verður dregið úr tekju­skerðing­um barna­bóta þannig að mun fleiri for­eldr­ar njóta stuðnings. Barna­bæt­ur hækka því ríf­lega og unnið verður að því í sam­starfi rík­is og sveit­ar­fé­laga að skóla­máltíðir grunn­skóla­barna verði gjald­frjáls­ar frá og með hausti 2024. Þá verða há­marks­greiðslur úr Fæðing­ar­or­lofs­sjóði hækkaðar í þrem­ur áföng­um á næstu tveim­ur árum. Þegar breyt­ing­ar á fram­lagi til Fæðing­ar­or­lofs­sjóðs verða að fullu komn­ar til fram­kvæmda árið 2027 nem­ur upp­söfnuð hækk­un um 5,7 ma.kr. á árs­grund­velli.

Við í Fram­sókn leggj­um mikla áherslu á hag ís­lensku þjóðar­inn­ar í heild m.a. með nauðsyn­legri íhlut­un rík­is­ins á hús­næðismarkaði. Við höld­um áfram með aðgerðir til að tryggja stöðug­leika og draga úr nei­kvæðum áhrif­um á hag­kerfið og vilj­um stuðla að því að áfram verði unnið með þann grund­völl sem þegar hef­ur verið lagður.

Ingibjörg Isaksen, þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Sam­eigin­legt verk­efni okkar allra

Deila grein

10/10/2024

Sam­eigin­legt verk­efni okkar allra

Í vikunni lagði undirrituð fram tillögu til þingsályktunar um rannsókn á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana. Þetta er í annað sinn sem tillagan er lögð fram, nú með nokkrum breytingum sem byggðar eru á góðri þróun, þar sem starfshópur á vegum Lífsbrúar hjá embætti landlæknis hefur tekið til starfa.

Málið snertir okkur öll sem samfélag. Sjálfsvíg og andlát vegna óhappaeitrana eru viðkvæmir og sársaukafullir atburðir sem hafa djúpstæð áhrif á aðstandendur, fjölskyldur og samfélagið í heild. Áhrifin teygja anga sína víða en samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni verða að meðaltali 135 einstaklingar fyrir áfalli eða samskonar áhrifum í kjölfar sjálfsvígs eins einstaklings. Talið er að um sex þúsund manns verði fyrir áhrifum af sjálfsvígum á hverju ári hér á landi. Sjálfsvíg eru því ekki einungis persónulegur harmleikur, heldur verkefni sem við berum öll ábyrgð á að vinna með virkum hætti.

Þegar andlát á sér stað, er það rannsakað til að gera grein fyrir dánarmeini. Rannsóknir lögreglu og héraðslækna fara fram til að ákveða hvort andlát hafi borið að með saknæmum hætti eða ekki. Sjálfsvíg eru ekki rannsökuð afturvirkt þar sem undanfari þeirra er skoðaður í þaula í leit að þáttum sem komu einstaklingnum í það hugarástand sem hann var í við andlátið. Nauðsynlegt er að slík rannsókn fari fram með þeim hætti að fara afturvirkt yfir lýðfræðilegar breytur, aðstæður, atburði og möguleg áföll sem einstaklingurinn upplifði í undanfara sjálfsvígs eða dauðsfall vegna óhappaeitrunar. Þá er m.a. átt við brottfall úr skóla, atvinnumissi eða langvarandi atvinnuleysi, sambandsslit, makamissi, ofbeldi, neyslu vímugjafa og hvað annað sem getur haft áhrif.

Starfshópur á vegum Lífsbrúar, miðstöðvar sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis, hefur þegar hafið mikilvæga vinnu við að rannsaka afturvirkt mögulegt orsakaferli og áhrifaþætti sem geta verið viðvarandi í lífi einstaklinga í undanfara sjálfsvígs og óhappaeitrana. Þessi rannsókn er metnaðarfull og mikilvæg í áframhaldandi vinnu okkar við að bæta forvarnir og myndun fyrirbyggjandi aðgerða í þeirri von að geta komið í veg fyrir andlát af þessu tagi. Markmið tillögunnar er að styðja starfshópinn í vinnu sinni við að afla nauðsynlegra gagna og uppsetningu þeirra svo að rannsóknin skili árangri, sem nýtist til framtíðar, við að ná til einstaklinga í áhættuhópum og öðlast betri skilning á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana.

Í lok rannsóknarinnar skal starfshópurinn skila skýrslu til ráðherra með viðeigandi tölfræði og tillögum að aðgerðum, bæði fyrirbyggjandi og í forvarnarstarfi. Einnig þarf að tryggja að hægt verði að skoða ofangreindar breytur reglulega og á aðgengilegan hátt svo að hægt sé meta árangur aðgerða. Í kjölfar þessarar vinnu verði ákveðið hvort koma eigi á fót sambærilegum starfshópi eða rannsóknarnefnd, sem væri varanlegur liður innan stjórnsýslunnar.

Mikilvægi tillögunnar

Þingheimur hefur allur sameinast á bak við tillöguna, þvert á flokka, sem sýnir fram á mikilvægi hennar. Það er fáheyrt að slíkur stuðningur myndist um þingsályktunartillögu þingmanns, og fyrir það er ég þakklát.

Gagnaöflun af þessu tagi þarf að vera yfirgripsmikil svo hægt sé að gefa heildræna mynd af orsakaferlum, vinna árangursríkar forvarnir og greina áhættuhópa í samfélaginu, þ.e. þá hópa sem líklegri eru til að upplifa sjálfsvígshugsanir, gera tilraun til sjálfsvígs eða deyja í sjálfsvígi eða sökum óhappaeitrunar, umfram hefðbundnar breytur á borð við kyn, aldur og búsetu. Það er mikilvægt að öll gögn sem safnað er séu sett fram á skýran og aðgengilegan hátt svo þau nýtist við að stýra stefnumörkun.

Við verðum að horfa á málið með opnum hug og viðurkenna að sjálfsvíg og andlát vegna óhappaeitrana eru oft niðurstaða margra flókinna þátta sem þarf að greina og skilja til hlítar. Með betri skilningi á orsakaferlum og helstu áhrifaþáttum er hægt að styðja betur við þá sem eiga við andlega erfiðleika að stríða, og gera viðeigandi ráðstafanir áður en hættan á sjálfsskaða eykst. Þetta er ein af þeim leiðum sem hægt er að fara til að tryggja að einstaklingar í áhættuhópum fái þá aðstoð sem þeir þurfa til að ná jafnvægi í lífi sínu og komast í gegnum erfiðleikatímabil.

Við viljum alltaf gera betur

Það er ljóst að við höfum öfluga aðila í samfélaginu okkar sem vinna dag hvern að því að bæta líðan fólks og grípa inn í þar sem þörfin er mest. Við höfum marga sem starfa af heilum hug að geðheilbrigðismálum, sjálfsvígsforvörnum og stuðningi við aðstandendur. Það er nauðsynlegt að þessi vinna verði áfram efld og að við höldum áfram að vera vakandi fyrir leiðum til að bæta geðheilbrigði og lýðheilsu í samfélaginu.

Við verðum að sýna samstöðu, hlúa að þeim sem þurfa á hjálp að halda og tryggja að enginn þurfi að ganga einn í gegnum erfiða tíma. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra.

Ég vona að sú vinna sem starfshópur Lífsbrúar vinnur skili þeim árangri sem við viljum öll sjá – að draga úr sjálfsvígum og dauðsföllum vegna óhappaeitrana með greinagóðri rannsókn og nýtingu afurðar hennar við að mynda árangursríkar aðgerðir.

Það er vel við hæfi að birta þessa grein í dag þar sem Gulur september, sem tileinkaður er geðheilbrigði og sjálfsvígsforvörnum, lýður undir lok í dag, alþjóða geðheilbrigðisdeginum. Ég vil hvetja öll þau, sem glíma við andleg vanlíðan, að leita hjálpar og brýna fyrir okkur öllum að vera vakandi fyrir merkjum um andleg vanlíðan hjá þeim sem standa okkur nærri og vera til staðar.

Ég vil einnig nýta tækifærið og þakka Guðrúnu Jónu hjá embætti landlæknis og Högna Óskarssyni, geðlækni, fyrir aðstoðina við þetta mikilvæga mál.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Jöfn tæki­færi til menntunar

Deila grein

09/10/2024

Jöfn tæki­færi til menntunar

Menntun er einn af hornsteinum samfélagsins og okkar hlutverk er meðal annars að jafna stöðu einstaklinga til náms óháð búsetu. Þannig styrkjum við enn frekar tækifæri, velferð og lífsgæði fólks í heimabyggð og tækifæri til áframhaldandi búsetu.

Það er óásættanlegt að árið 2024 séu landsmenn ekki í sömu stöðu þegar kemur að því að sækja sér háskólanám. Við Íslendingar búum í dreifðu landi þar sem fjarlægðir geta verið miklar og veðurskilyrði stundum erfið. Það skiptir miklu máli að menntakerfið sé í stakk búið að taka tillit til námsmanna, enda er tækni og þekking á slíkum aðstæðum til staðar.

Því vil ég vekja athygli á þörfinni fyrir brýnar breytingar á fyrirkomulagi inntökuprófa til háskóla. Slíkar breyting eru ekki aðeins réttlætismál, heldur einnig lykill að því að tryggja jöfn tækifæri fyrir alla nemendur, óháð búsetu.

Þarf próftaka einungis að vera í Reykjavík?

Núverandi fyrirkomulag inntökuprófa til grunnnáms í læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði og tannlæknisfræði krefst þess að allir próftakar mæti til Reykjavíkur. Þetta getur sett þá nemendur sem búa utan höfuðborgarsvæðisins í flókna stöðu. Ferðakostnaður, gisting og annar tilfallandi kostnaður getur haft áhrif á nemendur og fjölskyldur þeirra. Þessi kostnaður er ekki aðeins fjárhagslegur heldur er þetta einnig spurning um jafnræði kynjanna, skuldbindingar og hvernig við verjum tíma okkar.

En kostnaðurinn einn skapar ekki allar hindranirnar. Íslenskt veðurfar getur verið óútreiknanlegt og ferðalög á milli landshluta geta fallið niður sökum ófærðar. Eins og dæmi frá síðasta vori sýna þegar nemendur komust ekki að Austan þar sem flug var fellt niður vegna óveðurs. Mikil óvissa og óöryggi skapaðist hjá nemendum í tengslum við aflýsingu flugsins til Reykjavíkur. Þetta er ekki í fyrsta skiptið né það síðasta sem slíkar ófyrirséðar aðstæður koma upp.

Það er óásættanlegt að nemendur verði af tækifærinu til próftöku vegna ófærðar í landi þar sem allra veðra er von, þegar lausnin eru til staðar svo að nemendur geti tekið þessi inntökupróf, í heimabyggð eða nálægt heimili.

Tryggjum aðgengi

Rafrænt prófakerfi, eins og Inspera, hefur m.a. verið tekið í notkun hjá Háskóla Íslands og og Háskólanum á Akureyri sem gerir mögulegt að bjóða próftöku á fleiri stöðum á landinu. Aðrar menntastofnanir hafa einnig lokið að innleiða sérstök kerfi sem bjóða upp á rafræna próftöku. Með slíkum tækifærum getum við skapað betra aðgengi að menntun fyrir nemendur um allt land. Það er bæði réttlætismál og samfélagslega hagkvæmt að nýta þessar tæknilausnir til að gera menntun aðgengilegri fyrir alla.

Lausnirnar eru til. Við getum boðið upp á inntökupróf í grunnnámi læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði og tannlæknisfræði á fleiri stöðum en aðeins í Reykjavík. Staðir eins og m.a. Ísafjörður, Akureyri, Egilsstaðir og Hornafjörður hafa þegar reynslu af því að veita háskólaþjónustu og sjá um prófaumsýslu í samstarfi við Háskóla Íslands og aðrar háskólastofnanir. Með góðum undirbúningi og samvinnu við staðbundin þekkingarsetur sem uppfylla gæðakröfur, er hægt að tryggja að próftaka á þessum stöðum verði jöfn og örugg.

Jöfn tækifæri eru arðbær fjárfesting

Reikna má með að aukinn kostnaður fylgi því að bjóða upp á próftöku á fleiri stöðum, en sá kostnaður er nauðsynleg fjárfesting í jafnrétti til náms. Huga þarf að ýmsum þáttum eins og undirbúningi prófstaða, þjálfun starfsfólks til að sinna tækniaðstoð, og tryggja að búnaður og aðstaða sé til staðar. Þetta eru verkefni sem krefjast aukins kostnaðar og vinnu, en það er mikilvægt að við gerum það sem þarf til að tryggja að allir hafi jöfn tækifæri til að sækja háskólanám.

Það er skylda okkar sem samfélag að tryggja jöfn tækifæri til menntunar fyrir alla, óháð búsetu. Með því að nýta tæknina og bjóða próftöku í heimabyggð stuðlum við ekki aðeins að jafnrétti heldur einnig að betri frammistöðu nemenda. Menntun er lykillinn að framtíðinni og það er á okkar ábyrgð að tryggja að allir hafi aðgang að þeim lykli, óháð því hvar þeir búa.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is. 8. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Hækkað frítekjumark eldri borgara

Deila grein

19/09/2024

Hækkað frítekjumark eldri borgara

Við í Fram­sókn höf­um lagt áherslu á að vernda hag eldri borg­ara og síðustu ár hafa mik­il­væg skref verið tek­in í átt að því að bæta kjör þeirra. Eitt af þess­um skref­um er til­laga í fjár­lög­um sem nú eru til umræðu í þing­inu. Hækk­un á al­menna frí­tekju­mark­inu fyr­ir eldri borg­ara er mik­il­vægt skref til að stuðla að betri lífs­kjör­um fyr­ir þenn­an hóp. Á sama tíma og þetta skref er tekið er brýnt að greina sér­stak­lega þá ein­stak­linga inn­an hóps­ins sem eiga í mest­um efna­hags­leg­um erfiðleik­um og beina aðstoð til þeirra með mark­viss­ari hætti.

Al­menna frí­tekju­markið nær til allra eldri borg­ara og er það hlut­fall tekna sem eldri borg­ar­ar geta haft án þess að þær hafi áhrif á greiðslur þeirra frá Trygg­inga­stofn­un eða öðrum al­manna­trygg­ing­um. Nú ligg­ur fyr­ir til­laga í fjár­lög­um að hækka frí­tekju­markið, úr 25.000 kr. í 36.500 kr. á mánuði. Hækk­un frí­tekju­marks­ins þýðir að fleiri eldri borg­ar­ar geti haft aukn­ar tekj­ur án þess að þær skerði rétt­indi þeirra til líf­eyr­is­greiðslna. Slík­ar breyt­ing­ar stuðla að meira fjár­hags­legu ör­yggi og bættri af­komu þeirra eldri borg­ara sem eru virk­ir á vinnu­markaði eða hafa aðrar tekju­lind­ir. Hækk­un frí­tekju­marks­ins hef­ur því bein áhrif á lífs­gæði eldri borg­ara og ger­ir þeim kleift að lifa með meiri reisn. Fyr­ir marga er þetta mik­il­vægt, sér­stak­lega þegar horft er til hækk­andi verðlags, auk­ins hús­næðis­kostnaðar og kostnaðar við heil­brigðisþjón­ustu. Þessi hækk­un er tíma­bært skref en einnig er mik­il­vægt að hafa í huga þörf­ina á að halda áfram hækk­un frí­tekju­marks­ins í þrep­um á næstu árum.

Mik­il­vægi mark­vissr­ar aðstoðar

Þrátt fyr­ir þessi mik­il­vægu skref í að bæta lífs­kjör eldri borg­ara er staðreynd­in sú að efna­hags­staða þeirra er mjög mis­mun­andi. Fjár­hags­leg staða eldri borg­ara er al­mennt sterk þar sem sum­ir eiga tölu­verð eigna­söfn eða hafa áunnið sér eft­ir­laun úr líf­eyr­is­sjóðum, en aðrir búa hins veg­ar við fjár­hags­leg­an skort. Ein­stak­ling­ar sem hafa litla sem enga inn­eign í líf­eyr­is­sjóðum, búa við hátt leigu­verð og/​eða eiga ekki íbúðar­hús­næði eða hafa verið utan vinnu­markaðar stór­an hluta ævi sinn­ar, t.d. vegna heim­il­is­starfa eða veik­inda, geta upp­lifað fjár­hags­lega veika stöðu. Því er mik­il­vægt að greina þenn­an hóp sér­stak­lega svo stuðning­ur­inn rati í rétt­an far­veg. Eins mun verða nauðsyn­legt að skoða það bil sem orðið hef­ur á milli lægstu launa og elli­líf­eyr­is. Þenn­an mun verður að minnka í áföng­um yfir næstu ár.

Sam­fé­lags­leg ábyrgð

Sam­fé­lagið ber ríka ábyrgð á að tryggja að all­ir eldri borg­ar­ar fái tæki­færi til að lifa með reisn og ör­yggi á efri árum. Hækk­un frí­tekju­marks­ins er mik­il­vægt skref í þessa átt, en það er jafn­framt brýnt að við gleym­um ekki þeim sem búa við mest­an fjár­hags­leg­an skort eins og áður sagði. Með mark­vissri aðstoð og skýr­ari grein­ingu á þörf­um þessa hóps get­um við byggt upp rétt­lát­ara sam­fé­lag þar sem all­ir eldri borg­ar­ar fá sömu tæki­færi til að njóta ævikvölds­ins. Það er ekki nóg að horfa á meðal­töl­in eða al­menn­ar breyt­ing­ar; við verðum að skilja að það eru hóp­ar sem þurfa á sér­tæk­um aðgerðum að halda. Með því að sam­eina hækk­un frí­tekju­marks við mark­viss­ar aðgerðir fyr­ir þá sem hafa það verst get­um við tryggt betri lífs­kjör fyr­ir alla eldri borg­ara.

Ingibjörg Isaksen, þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Heilsugæsla á Akureyri

Deila grein

21/08/2024

Heilsugæsla á Akureyri

Á undanförnum árum hefur verið lögð sérstök áhersla á að efla og bæta aðgengi heilsugæslu á Akureyri sem og efla heilsugæslur á landinu öllu sem fyrsta viðkomustað. Breytingar hafa orðið á skipulagi heilsugæslna til að mæta einstaklingum með betri hætti en starf heimilislækna er fjölbreytt, samskiptafjöldi mikill og vinna utan dagvinnutíma töluverð.

Fjölgun heimilislækna

Aðgengi að fast skráðum heimilislækni, sem þekkir skjólstæðing sinn og sögu hans vel, hefur jákvæð áhrif á lífsgæði og ævilengd.

Rannsóknir hafa sýnt þá mörgu kosti við að einstaklingur hafi skráðan heimilislækni um lengri tíma. Það styttir biðtíma eftir viðtali, minnkar vinnuálag á heimilislæknum og í heilbrigðiskerfinu öllu ásamt því að fækka samskiptum utan dagvinnutíma og komum á síðdegis- og vaktmóttökur. Komum á bráðamóttökur sjúkrahúsa og innlögnum fækkar einnig auk þess að eftirfylgd með lyfjameðferð verður betri.[1]

Aðgengi að heimilislæknum á Akureyri hafði á undanförnum árum ekki verið nægilega gott en því hefur nú verið snúið við. HSN var lánsamt í sumar að fá til sín heilsugæslulæknanema, sem stytti bið eftir þjónustu umtalsvert. Einnig hafa breytingar á sérnámi í heimilislækningum orðið til þess að yfir 100 sérnámslæknar eru í sérnámi í dag og munu skila sér inn í kerfið jafnt og þétt á næstu árum. Framtíðin er því alls ekki eins svört og einhverjir vilja láta uppi.

Ég hef í gegnum tíðina verið ötull talsmaður þess að fjölga tækifærum fyrir heilbrigðismenntað fólk til þess að setjast að og starfa á landsbyggðinni. Það getur þó aldrei verið sjálfstætt markmið þegar kemur að skipulagningu þjónustu heldur þarf fyrst og fremst að horfa til aðgengis, gæða og þjónustu við notendur þar sem þeir eru í fyrsta sæti.

Ný heilsugæsla í Sunnuhlíð

Síðasta vetur var opnuð ný og glæsileg heilsugæslustöð á Akureyri í sérhönnuðu 1800 fermetra húsnæði og nú hefur Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, heimilað Heilbrigðisstofnun Norðurlands að taka um 250 fermetra húsnæði til leigu í Sunnuhlíð til að skapa enn meira rými fyrir starfsemina.

Það má með sanni segja að þessi nýja heilsugæsla hafi umbylt allri aðstöðu fyrir bæði starfsfólk og íbúa og verið lyftistöng fyrir svæðið. Með bættum húsnæðiskosti og stærri húsakynnum hefur verið mögulegt að færa ýmsa starfsemi sem rekin hefur verið í leiguhúsnæði annars staðar í bænum undir einn hatt, til bóta fyrir starfsfólk og þá sem þurfa að sækja sér þjónustu.

Þessu til viðbótar er rétt að geta þess að stefnt er að stækkun að Hvannarvöllum um 320 fermetra. Það má því segja að HSN sé með á leigu eða hafi í hyggju að leigja húsnæði sem samsvarar fyrirhugaðri suðurstöð en þegar heilsugæslustöð suður opnar þá verður starfsemin rekin frá tveimur starfsstöðum.

Áframhaldandi umbætur

Unnið er að því þessa dagana að koma nýrri heilsugæslustöð fyrir á lóð Sjúkrahússins á Akureyri, en klínískri þjónustu verður skipt jafnt á milli stöðvanna auk þess að heimahjúkrun og heimaþjónusta munu hafa aðstöðu í Suðurstöðinni. Ákvörðun um rekstrarfyrirkomulag þessara nýju stöðvar hefur ekki verið tekin, enda væri það ótímabært en samkvæmt lögum er Heilbrigðisstofnunar Norðurlands falið að skipuleggja og veita heilsugæsluþjónustu á svæðinu.

Eins og sést þá hefur markvisst verið unnið að því að bæta þjónustu við íbúa á svæðinu og áfram er unnið að því markmiði. Við erum hvergi nærri hætt og höldum ótrauð áfram með verkefnin sem liggja fyrir, enda eru sum þeirra löngu orðin tímabær.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis

[1] University of Cambridge, June 2, 2023: Having a „regular doctor“ can significantly reduce GP workload, study finds.

Categories
Fréttir Greinar

Það eina örugga í lífinu

Deila grein

06/06/2024

Það eina örugga í lífinu

Síðustu misseri hafa verið fréttir af rekstrarvanda líkhúsa á Íslandi. Það er morgunljóst að skýra þarf frekar stöðu þeirra hér á landi og hvernig rekstri þeirra verði best háttað til framtíðar. Móta þarf stefnu og skilgreina hver ber ábyrgð á látnum einstaklingi frá dánarvottorði til greftrunar í kirkjugarði og heimila líkhúsum gjaldtöku. En það er ekki einungis rekstrarvandi líkhúsa sem þarf að greina og finna framtíðarlausn á, við þurfum einnig að huga að með hvaða hætti sé best að koma okkur öllum fyrir til eilífðarnóns.

Dýrmætt landrými

Eftir því sem okkur fjölgar, fjölgar þeim látnu. Það liggur fyrir að andlátum mun fjölga um 100% á næstu 20 árum. Samkvæmt lögum má ekki grafa látinn einstakling nema í viðurkenndum grafreit eða kirkjugarði. Sífellt meira landsvæði fer því undir kirkjugarða og erfiðleikar við að finna hentugan stað aukast eftir því sem árin líða. Landrými í þéttbýli er dýrmætt og leggst það á sveitarfélög að leggja til aukið landrými fyrir kirkjugarða.

Þróun síðustu ára sýnir að sífellt fleiri kjósa að láta brenna sig en áður, duftreitir taka mun minna pláss og því væri ákjósanlegt að við myndum færa okkur í auknum mæli í þá áttina. Veruleikinn er sá að bálstofur og líkbrennsla er þjóðhagslega hagkvæmt verkefni. Því fylgir að minna landsvæði þarf að skipuleggja og hirða. Undir eina gröf þarf að gera ráð fyrir 2,5 m á lengd og 1,40 m á breidd. Undir duftker eru stærðarmörkin 75cm*75cm.

Jafnt aðgengi að bálstofum

En eins og staðan er í dag er aðeins ein bálstofa á landinu. Hún var byggð árið 1946, er fyrir löngu komin til ára sinna og er rekin á undanþágu. Ef horft er blákalt á stöðuna er ljóst að það borgar sig að hafa einungis eina bálstofu á landinu vegna fámennis og smæðar. En þá þarf að huga að með hvaða hætti hægt er að jafna kostnaðinn fyrir alla landsmenn þannig að bálför sé raunverulegur og aðgengilegur kostur.

Hver er framtíðin?

En þá komum við aftur að rekstrarvandanum, hver er það sem á að starfrækja líkhús og bálstofur hér á landi? Á það að vera á hendi ríkisins, sveitarfélaga eða einkaaðila? Hvernig viljum við að líkhús og kirkjugarðar landsins þróist á komandi árum? Þessa umræðu þurfum við að taka. Ef við horfum til nágrannalanda okkar er það afar misjafnt með hvaða hætti þetta er gert. Eitt er þó víst og það er að þörf á gagngerri endurskoðun á lögum um kirkjugarða.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. júní 2024.