Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Geislameðferð sem lífsbjörg

Deila grein

09/07/2025

Geislameðferð sem lífsbjörg

,,Ég held að við upplifum flest áhyggjur þegar við lesum fréttir af því að bið fólks með krabbamein eftir því að komast í geislameðferð sé orðin tvöfalt lengri en sú hámarksbið sem miðað er við. Flest þekkjum við til og vitum hversu mikið álag er á fólki sem gengur í gegnum þessa erfiðu meðferð og sömuleiðis á ástvini þess. Það er hálfóhugsandi að ímynda sér stöðu þeirra sem hafa lokið lyfjameðferð og bíða bara eftir að geta haldið áfram sinni meðferð við þennan lífsógnandi óvin.

Það er þess vegna gríðarlega mikilvægt að gripið verði strax í taumana. Það þarf að greina ástæður þessarar þróunar og ráðast strax í aðgerðir sem leysa málin til framtíðar. Við heyrum fréttir af því að nú sé verið að leita til starfsmannaleiga erlendis og að fólk verði sent á sjúkrahús í öðrum löndum til að fara í geislameðferð. Á meðan að það er skiljanlegt að verið sé að leita leiða til að leysa þennan bráðavanda, er líka alveg ljóst að þetta eru plástrar sem mega alls ekki festast í sessi. Við getum ekki boðið upp á það að fólk í sinni allra viðkvæmustu stöðu þurfi að kveðja bæði öryggið sitt og félags- og stuðningsnet til að fá meðferð í öðru landi.

Vandinn er auðvitað flókinn, eins og oft er. En ég er fullviss um að hægt sé að snúa málum á rétta braut og það þarf að gerast ekki seinna en strax. Fram hefur komið að tækjakostur og fjöldi starfsmanna sé meginskýring á biðtímanum. Það þarf að tryggja fjármagn fyrir húsnæði og tækjakaupum en það má ekki gleyma því að tryggja þarf einnig mönnun sem getur staðið undir starfsemi við þrjá til fjóra línuhraðla sem heilbrigðisráðherra hefur sagt þurfa til. Ég tek undir það mat, en Krabbameinsfélagið hefur greint frá spám um að krabbameinstilfellum á Íslandi muni fjölga um 57% til ársins 2040.

Það þarf að ráðast í greiningu og aðgerðir sem tryggja að á Íslandi verði nægilegur fjöldi geislafræðinga og sérfræðinga í geislalækningum sem sinna geislameðferð og hafi hæfni í íslensku. Við höfum staðið framarlega í baráttunni við krabbamein og skulum ekki missa þau verðmæti úr höndunum.”

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. júlí 2025

Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Hver borgar brúsann?

Deila grein

28/06/2025

Hver borgar brúsann?

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður, skrifar á Vísi:

,,Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Efni frumvarpsins varðar svokallaða víxlverkun. Verði frumvarpið að lögum verður lífeyrissjóðum óheimilt að taka tillit til greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins við útreikning örorkulífeyris. Í reynd þýðir það að tvö aðskilin kerfi, þ.e. almannatryggingar annars vegar og lífeyrissjóðir hins vegar, greiða út bætur án samræmis eða gagnkvæmrar aðlögunar.

Markmiðið virðist í fyrstu bæði réttlátt og mannúðlegt: að bæta stöðu örorkulífeyrisþega. En undir yfirborðinu krauma alvarlegar afleiðingar sem varða réttindi annarra lífeyrisþega, sjálfbærni kerfisins og jafnvel stjórnarskrárvarin eignarréttindi.

Frá eldri borgurum til örorkulífeyrisþega

Eins og Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra, hefur bent á felur frumvarpið í sér beina tilfærslu fjármuna frá ellilífeyrisþegum yfir til örorkulífeyrisþega. Í umsögn hans til Alþingis segir meðal annars: „Augljóst er að þyngri örorkubyrði hlýtur að skerða annan lífeyri. Þannig felur frumvarpið í sér tilfærslu frá ellilífeyrisþegum til örorkulífeyrisþega og í raun eignaupptöku. Þetta er þeim mun alvarlegra vegna þess að verið að færa stórum hluta örorkulífeyrisþega meiri greiðslur en þeir fengu áður en þeir urðu fyrir orkutapi.“

Þetta brýtur jafnframt gegn meginreglu skaðabótaréttar: að enginn skuli verða fjárhagslega betur settur eftir tjón en fyrir það. Frumvarpið býður hins vegar upp á að stór hluti örorkulífeyrisþega fái hærri greiðslur en fyrri laun þeirra voru.

Ekki má svo gleyma því að Tryggingastofnun mun áfram taka tillit til tekna úr lífeyrissjóðum til skerðingar á bótum.

Ólík áhrif milli sjóða

Áhrifin verða einkum á sjóðum sem þegar bera þunga örorkubyrði, svo sem Festa, Gildi, Stapi, Lífeyrissjóður Rangæinga og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja. Samkvæmt mati Benedikts Jóhannessonar (Talnakönnun) gæti tryggingafræðileg staða þessara sjóða versnað um 5–7%, sem leiddi til skerðingar á greiðslum til annarra sjóðfélaga og ekki síst eldri borgara.

Það er hvorki sanngjarnt né sjálfbært að auka réttindi eins hóps með því að rýra réttindi annars. Lífeyriskerfið byggir á samtryggingu og forsendum um jafnræði. Ef sjóðir missa möguleikann á að samræma greiðslur við almannatryggingar brotnar sú grunnforsenda.

Ellilífeyrir er stjórnarskrárvarin eign

Ellilífeyrir telst stjórnarskrárvarin eign samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar. Verði réttindum ellilífeyrisþega raskað með þessum hætti, án nægilegrar jöfnunar eða lagastoðar, getur ríkið bakað sér skaðabótaskyldu. Þetta er lagalegt álitaefni sem vert er að taka alvarlega

Veikt traust og veikari hvatar

Frumvarpið hefur einnig áhrif á hegðun einstaklinga og kerfishvata. Ef greiðslur til örorkulífeyrisþega verða óháðar fyrri tekjum og öðrum stuðningi, dregur það úr hvatningu til endurhæfingar og þátttöku á vinnumarkaði. Samhliða því rýrnar traust almennings til kerfisins, sérstaklega þegar í ljós kemur að sambærileg iðgjöld leiða til ósambærilegra réttinda.

Engin jöfnun og engin lausn

Í fjármálaáætlun fyrir árin 2026–2030 kemur skýrt fram að ekki er gert ráð fyrir neinu framlagi til jöfnunar örorkubyrði árið 2026. Þó er rétt að nefna að nú stendur yfir vinna við endurskoðun jöfnunarframlaga, þótt ekkert liggi fyrir um niðurstöðu. Ekki er því ljóst hver áhrifin verða á afkomumarkmið ríkissjóðs (um milljarða króna er að ræða), sem þegar virðast vera í hættu.

Það má vilja gott en framkvæma það vel

Það er sjálfsagt og eðlilegt að bæta kjör örorkulífeyrisþega en það verður að gera með ábyrgum hætti, með sanngjarnri skiptingu byrða og í sátt við aðra þætti kerfisins. Annars verður góð hugsun að vondri niðurstöðu.

Við getum ekki byggt upp traust lífeyriskerfi á ósamræmi og óskýrleika. Slíkt mun ekki aðeins grafa undan réttindum ellilífeyrisþega heldur veikja kerfið í heild sinni.

Við hljótum að geta gert betur

Til lengri tíma litið hefur þessi tilfærsla neikvæð áhrif á bæði almannatryggingar og lífeyrissjóði. Hún getur stuðlað að aukinni örorku, veikara trausti og lægri greiðslum til framtíðarlífeyrisþega. Enn fremur virðist frumvarpið hafa verið samið án fullnægjandi greininga eða vandaðs samráðsferlis. Slíkt verklag, sem virðist eiga sér stað ítrekað í frumvörpum vorþingsins 2025, vekur ugg.

Verstu áhrif frumvarpsins eru þó þau að verið er að etja saman eldri borgurum og öryrkjum sem er í raun skammarlegt.

Við hljótum að geta gert betur.”

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. júní 2025

Categories
Fréttir Greinar

Rétt­læti næst ekki með rang­læti

Deila grein

13/06/2025

Rétt­læti næst ekki með rang­læti

Í umræðum á Alþingi spurði ég hæstvirtan dómsmálaráðherra, Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur einfaldrar, en mikilvægrar spurningar: Telur hún sem dómsmálaráðherra að það standist stjórnarskrá að skerða áunnin réttindi tugþúsunda sjóðfélaga í lífeyrissjóðum? Þetta eru réttindi sem fólk hefur unnið sér inn með áratugalangri þátttöku í atvinnulífinu – réttindi sem njóta verndar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Í stað málefnalegrar umræðu kaus ráðherra að svara með hroka, umvöndunum og útúrsnúningum í stað þess að fjalla af ábyrgð um eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Svarið bar fremur keim af hroka og útúrsnúningum en ábyrgð.

En þetta mál snýst ekki um leikþátt og hroka ráðherrans í þingsal – þetta mál snýst um grundvallarréttindi fólks.

Þungar áhyggjur lífeyrissjóðanna

Í umsögnum lífeyrissjóða, verkalýðshreyfingar og Landssambands eldri borgara er lýst yfir áhyggjum af því að með frumvarpinu sé verið að færa milljarða króna kostnað frá ríkinu og yfir á sjóðfélaga. Lífeyrissjóðir eins og Stapi á Norðurlandi, þar sem margt af okkar fólki í matvælaframleiðslu og sjávarútvegi greiðir til, gætu þurft að lækka réttindi um allt að 7,5%, réttindum sem njóta verndar stjórnarskrár. Réttindi sem fólk hefur áunnið sér með því að greiða af heilindum til samfélagsins alla sína starfsævi.

Í því ljósi er eðlilegt að spyrja hvort hægt sé að auka réttindi eins hóps með því að skerða rétt annarra? Er það í anda réttaríkis að framkvæma slíkar breytingar án raunverulegs samráðs – og gegn vilja þeirra sem fyrir áhrifunum verða?

Við í Framsókn styðjum heilshugar bætt kjör öryrkja og viljum tryggja réttláta þátttöku þeirra í samfélaginu – það er hins vegar leiðin að markmiðinu sem við gagnrýnum. Við gerum það ekki með því að etja þjóðfélagshópum saman. Ef það er vilji þessarar ríkisstjórnar að ryðja út lagafrumvörpum í nafni verkstjórnar – frumvörpum sem skerða lífeyrisréttindi verkafólks, í beinni andstöðu við grunnréttindi fólks í landinu – þá er illa fyrir okkur komið.

Réttlæti næst ekki með ranglæti

Við getum dregið þetta frumvarp til baka, kallað til samráð og leitað sáttar um útfærslu sem er bæði lögleg, réttlát og sanngjörn. Og það skiptir öllu – því það á enginn að þurfa að horfa upp á það að áunninn lífeyrir þeirra sé tekinn til að bæta útgjaldaáætlun ríkisins.

Ég mun ekki sitja þegjandi hjá í grundvallarmáli sem þessu – sama hvernig ráðherra bregst við eða reynir að snúa umræðunni. Öryrkjar og eldri borgarar – allt þetta fólk á það sameiginlegt að það á rétt á virðingu og réttlæti frá þeim sem fara með völd. Það er ábyrgð okkar hér á þingi að standa vörð um þau réttindi.

Réttlæti næst ekki með ranglæti.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. júní 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Heil­brigðis­kerfið í bakk­gír

Deila grein

12/06/2025

Heil­brigðis­kerfið í bakk­gír

Velferðarnefnd hefur haft til umfjöllunar nú í vor frumvarp til laga um breytingar á lögum um sjúkratryggingar. Yfirlýst markmið þessa frumvarps er að stytta þann tíma sem tekur að bjóða upp á nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og þar með tiltekna meðferð. Á meðal þeirra breytinga sem lagðar eru til er að fest verði í lög ákvæði um greiðsluþátttöku fyrir læknismeðferð erlendis vegna biðtíma hér á landi.

Fljótt á litið virðast hér vera um að ræða göfugt og gott markmið en þegar betur er að gáð kemur annað í ljós. Sambærilegt ákvæði vegna niðurgreiðslu fyrir fram ákveðinnar læknismeðferðar sem sjúkratryggður undirgengst hjá einkareknum veitendum heilbrigðisþjónustu á Íslandi er ekki að finna í frumvarpinu. Hér sitja því innlendir þjónustuveitendur ekki við sama borð og þjónustuveitendur erlendis.

Það er eðlilegt að leitað sé leiða til að bregðast hraðar við þegar þörfin er brýn. Enginn á að þurfa að bíða lengur en nauðsynlegt er eftir aðgerð eða greiningu sem getur bætt lífsgæði og stuðlað að betri heilsu. En það hlýtur að vera forgangsmál að tryggja að sú þjónusta sem er í boði hér heima – og uppfyllir fagleg skilyrði – sé nýtt áður en horft er til úrræða erlendis.

Tækifæri sem ríkisstjórnin nýtir ekki

Undirrituð lagði fram breytingartillögu við ofangreint frumvarp þar sem gert var ráð fyrir að þessi grundvallarregla – að nýta fyrst heilbrigðisþjónustu innanlands áður en leitað yrði erlendis – yrði lögfest. Sú tillaga var felld af stjórnarmeirihlutanum. Þar með liggur fyrir að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur kýs að hafa ekki í lögum þá eðlilegu skyldu að bjóða einstaklingum upp á meðferð hér á landi, ef hún er til staðar, áður en gripið er til dýrari og flóknari úrræða utan landsteinanna.

Þessi nálgun er ekki eingöngu kostnaðarsöm og ámælisverð út frá hagkvæmnissjónarmiðum – hún er einnig táknræn fyrir þann skort á trausti og framtíðarsýn sem birtist í afstöðu ríkisstjórnarinnar til einkareksturs í heilbrigðiskerfinu.

Snúið upp á einkarekstur

Stefna nýrrar ríkisstjórnar í heilbrigðismálum er svo sannarlega umhugsunarverð. Hvers vegna velur ríkisstjórnin að senda sjúklinga úr landi í leit að heilbrigðisþjónustu, þótt sambærileg þjónusta sé í boði hér heima?

Jú, ætlun ríkisstjórnarinnar blasir við, það á greinilega að snúa upp á einkareksturinn og það er byrjað, og það fyrst á konum með endómetríósu. En ekki á að semja um fleiri slíkar aðgerðir í ár. Hér sýnir Samfylkingin sitt rétta andlit í sinni tærustu mynd og andúð við einkarekstur hér á landi. Það sætir furðu að Viðreisn sé sammála þessari stefnu, enda þvert á þeirra málflutning síðustu ár. Undirrituð spyr sig, er stefna Viðreisnar nú allt í einu að draga enn frekar úr aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu með því að vega að einkarekstri og fækka valkostum?

Við höfum góða reynslu

Við höfum á undanförnum árum séð að samstarf opinberra og sjálfstætt starfandi heilbrigðisþjónustuaðila getur gengið vel þegar markmiðin eru skýr og sjúklingurinn er í forgrunni. Willum Þór Þórsson lagði áherslu á í tíð sinni sem heilbrigðisráðherra að semja um lýðheilsutengdar aðgerðir og létta þannig á opinbera kerfinu. Afköst Landspítalans jukust um 10% vegna þess að létt var á álagi af honum, landsliðið okkar á skurðstofum sjúkrahúsanna hafði tíma til að sinna flóknum aðgerðum á meðan samið var um einfaldari aðgerðir við einkaaðila.

Það er með öllu óskiljanlegt að loka á þessa leið og beina fjármunum til erlendra heilbrigðisþjónustuaðila áður en fullreynt er hvað hægt sé að gera hér heima. Þessi pólitíska ákvörðun dregur úr getu okkar til að byggja upp innlent kerfi og stytta biðlista til lengri tíma.

Nýtum þekkinguna sem er hér innanlands

Það liggur fyrir að fjölbreytt heilbrigðisþjónusta er í boði hér heima, bæði innan opinbera kerfisins og hjá fagfólki sem starfar utan þess. Að baki innlendri heilbrigðisþjónustu eru aðilar sem búa yfir sérþekkingu og geta sinnt sjúklingum án tafar ef þeim er gert kleift að taka að sér þær aðgerðir sem um ræðir.

Að nýta þennan dýrmæta mannauð er ekki bara skynsamlegt – það er einnig í þágu fólksins sem þarf á þjónustunni að halda. Það skiptir máli að einstaklingurinn fái lausn sem er bæði fagleg og raunhæf, án þess að þurfa að yfirgefa heimili sitt, ferðast þúsundir kílómetra og treysta á flókin milligöngukerfi.

Heilbrigðisþjónusta á að byggja á trausti, samvinnu og sameiginlegri ábyrgð. Við eigum að nýta krafta þeirra sem vilja leggja sitt af mörkum, hvort sem það er innan stofnana eða utan þeirra. Þannig búum við til kerfi sem þjónar fólki – ekki kerfinu sjálfu.

Ingibjörg Isaksend, formaður þingflokks Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. júní 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Púslið sem passar ekki

Deila grein

02/06/2025

Púslið sem passar ekki

Ég er á skjön við það sem ég þekki,

það er sama hvernig ég sný,

því ég er púslið sem að passar ekki

við púsluspilið sem það er í, við púsluspilið sem það er í.“

Þessar línur úr laginu Púslið úr Óvitunum lýsir með einföldum, en áhrifaríkum hætti þeirri tilfinningu að tilheyra ekki. Sú upplifun er veruleiki margra einhverfra einstaklinga, einkum þeirra sem hafa náð fullorðinsaldri. Þeir finna sig ekki innan þess kerfis sem samfélagið hefur byggt – ekki af því að þeir passi ekki, heldur af því að kerfið hefur ekki verið hannað með þá í huga.

Foreldrar einhverfra einstaklinga lýsa sameiginlegri reynslu: Þjónustan sem barnið hafði aðgang að fram að 18 ára aldri hverfur skyndilega, og ekkert tekur við. Stuðningurinn sem áður skapaði öryggi og festu dettur út án samfellu við önnur úrræði. Foreldrar standa eftir með alla ábyrgðina – oft án leiðsagnar, úrræða eða raunhæfs stuðnings.

Þjónustutómarúm sem dregur úr virkni og lífsgæðum

Skýrslan „Hvert á ég að leita?“, sem kom út í nóvember 2024, staðfestir það sem foreldrar og aðstandendur hafa lengi vitað: að fullorðnir einhverfir einstaklingar – um 7.000 talsins – búa við óásættanlegan aðstöðumun þegar kemur að heilbrigðis- og félagsþjónustu. Margir hafa aldrei fengið greiningu. Aðrir fá hana aðeins til að uppgötva að þjónustan er ekki til staðar. Enn aðrir detta úr kerfinu þegar þeir ná fullorðinsaldri, án skýrra úrræða eða ábyrgðar.

Mörg þeirra sem útskrifast úr meðferð í geðheilbrigðiskerfinu – en eru hvorki tilbúin í nám né störf – lenda í tómarúmi. Þau eru ekki talin nógu veik til að fá áframhaldandi meðferð, né nógu virk til að komast í starfsendurhæfingu. Afleiðingin er félagsleg einangrun, skerðing á lífsgæðum og aukin áhætta á geðrænum vanda.

Hvað þarf að breytast?

Við búum yfir fjölbreyttum úrræðum – en þau eru illa samtengd, ósveigjanleg og mörg hver útilokandi. Þjónusta þarf að fylgja fólki áfram, byggja á þekkingu og virðingu fyrir margbreytileikanum. Einhverfa fylgir einstaklingnum alla ævi – og þjónustan á að gera það líka.

Við getum lært af öðrum þjóðum. Í Danmörku hefur verið byggt upp samfellt stuðningskerfi sem mætir einstaklingnum þar sem hann er staddur, með raunverulegum sveigjanleika og teymisvinnu. Þar eru engar útilokanir byggðar á greiningarformi eða aldri – heldur mat á þörfum og virk samvinna fagfólks, notenda og aðstandenda.

Slíkt kerfi þarf einnig að verða að veruleika hér. Þjónustan á að vera samfelld og aðgengileg – laus við þröskulda og ónauðsynlegar hindranir. Þjónusta sem byggir á virðingu fyrir sjálfræði og mannlegri reisn. Það má ekki kosta tugþúsundir að fá greiningu sem ætti að vera lykill að stuðningi. Það á ekki að vera þannig að þegar einstaklingur með einhverfu lendir í bráðu áfalli séu einu viðbrögðin lögregluíhlutun í stað samhæfðs fagteymis.

Skrefin eru skýr – og framkvæmanleg

Skýrslan leggur til að stofnað verði þjónustu- og þekkingarsetur sem veitir greiningu, ráðgjöf og fræðslu. Þar verði einnig ráðnir málastjórar sem fylgja einstaklingum eftir og tryggja samfellu í þjónustu. Slík nálgun léttir ekki aðeins álagi af aðstandendum, heldur dregur úr hættu á alvarlegum vanda síðar.

Við getum einnig horft til góðra fyrirmynda innanlands. Við höfum byggt upp þjónustu fyrir eldra fólk þar sem hvert þjónustustigið tekur við af öðru og gerir þeim kleift að búa heima lengur með stuðningi. Við getum gert hið sama fyrir einstaklinga með einhverfu – hvort sem greining kemur fram í barnæsku eða síðar á ævinni.

Þetta snýst ekki um að laga einstaklinga að kerfinu – heldur að laga kerfið að fólkinu. Það er ábyrgð okkar að tryggja að allir eigi sér raunhæfan farveg – ekki bara í þjónustunni, heldur í samfélaginu í heild.

Við eigum ekki að spyrja hvort púslið passi – heldur hvort púsluspilið sé nógu stórt, nógu sveigjanlegt og nógu manneskjulegt til að gera öllum kleift að finna sinn stað.

Nú er tími til kominn að breyta púsluspilinu.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. júní 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Heyrn er ekki munaður – hún er þátttaka

Deila grein

16/05/2025

Heyrn er ekki munaður – hún er þátttaka

Það var ánægju­legt að sækja fund hjá Fé­lagi eldri borg­ara á Ak­ur­eyri (EBAK) síðastliðinn föstu­dag. Rétt rúm­lega hundrað manns mættu – áhuga­sam­ir, upp­lýst­ir og mál­efna­leg­ir. Þar skapaðist gott sam­tal um þau mál sem brenna mest á eldra fólki í dag. Ábend­ing­ar komu víða að og spurn­ing­arn­ar voru marg­ar og skýr­ar. Það var sér­stak­lega áber­andi að umræðan sner­ist ít­rekað að sömu kjarna­mál­un­um: skerðing­um, líf­eyr­is­sjóðum en einnig að heil­brigðisþjón­ustu.

Heyrn­ar­tæki – ekki munaður held­ur nauðsyn

Þegar fólk eld­ist verður þörf­in fyr­ir hjálp­ar­tæki meiri, rætt var um frek­ari niður­greiðslu á gler­aug­um og tannviðgerðum en oft­ast kom upp staða heyrn­ar­tækja og niður­greiðslur þeim tengd­ar. Það er ekki sjálf­gefið að hafa efni á góðum heyrn­ar­tækj­um, sem kosta oft hundruð þúsunda króna og þurfa að end­ur­nýj­ast reglu­lega. Samt er það svo að góð heyrn skipt­ir öllu máli fyr­ir þátt­töku, sam­skipti og lífs­gæði.

Jafn­rétti til þátt­töku í sam­fé­lag­inu

Það þarf ekki langa um­fjöll­un til að átta sig á að aðgengi að heyrn­ar­tækj­um er jafn­rétt­is­mál. Ef ein­stak­ling­ar á efri árum hafa ekki tök á að fjár­magna þessi nauðsyn­legu hjálp­ar­tæki er verið að úti­loka fólk frá eðli­legri þátt­töku í sam­fé­lag­inu – í sam­töl­um, fjöl­skyldu­sam­skipt­um, fé­lags­starfi og fleiru. Þetta hef­ur áhrif á líðan og get­ur leitt til fé­lags­legr­ar ein­angr­un­ar sem við vilj­um öll forðast.

Þess vegna verðum við að skoða hvort hægt sé að gera bet­ur í þess­um efn­um. Horfa til annarra landa, til dæm­is má líta til Bret­lands. Þar sjá einkaaðilar um heyrn­ar­mæl­ing­ar, sjón­mæl­ing­ar og grein­ing­ar, en ríkið tek­ur stærri þátt í kostnaði við hjálp­ar­tæk­in sjálf. Slík skipt­ing get­ur létt á op­in­bera kerf­inu, aukið fram­boð og stuðlað að betri þjón­ustu en ekki síður aukið tæki­færi til frek­ari niður­greiðslu – svo fremi sem gæði og aðgengi eru tryggð.

Hagræðing sem skil­ar sér í aukn­um stuðningi

Þetta er ekki ein­göngu spurn­ing um þjón­ustu – held­ur líka um skil­virkni og hag­kvæmni. Með því að nýta sérþekk­ingu og innviði í kerf­inu öllu, líkt og gert er í Bretlandi og víðar, væri unnt að veita þjón­ust­una hraðar og víðar – og á sama tíma nota þá fjár­muni sem spar­ast til að greiða niður heyrn­ar­tæki sjálf í aukn­um mæli. Slík hagræðing myndi gera rík­is­valdi kleift að styðja bet­ur við eldri borg­ara, sér­stak­lega þá sem eru tekju­lág­ir, án þess að auka heild­ar­kostnað í kerf­inu.

Við þurf­um að ræða þetta op­in­skátt, lausnamiðað og finna leiðir sem virka í ís­lensku sam­hengi. Hvort sem það felst í auk­inni niður­greiðslu, breyttri skipt­ingu á þjón­ustu og tækj­um, reglu­legri skimun, sam­starfi við einkaaðila eða öðrum lausn­um – þá er ljóst að það þarf að bregðast við. Fólk á ekki að þurfa að velja á milli grunnþarfa og þess að geta tekið þátt í sam­tali við barna­börn sín.

Við í Fram­sókn höf­um talað skýrt fyr­ir því að setja mál­efni eldri borg­ara í for­gang – og það ger­um við með því að hlusta, mæta til sam­tals og vinna með þær upp­lýs­ing­ar sem koma frá fólk­inu í land­inu. Fund­ur­inn með EBAK var skýr áminn­ing um að margt hef­ur tek­ist vel, mörg mál eru enn óleyst – en líka vitn­is­b­urður um mik­inn vilja fólks til að leggja sitt af mörk­um til að leysa þau.

Við ætl­um að fylgja mál­um eft­ir. Við ætl­um að vinna með eldra fólki og fé­laga­sam­tök­um þeirra. Og við ætl­um að styðja við öll mál­efna­leg og fram­kvæm­an­leg skref sem miða að bætt­um kjör­um og þjón­ustu þessa hóps.

Heyrn er ekki munaður. Hún er for­senda fyr­ir þátt­töku – og þátt­taka er lífs­gæði.

Ingibjörg Isaksen, þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Skýr og lausnamiðuð af­staða Fram­sóknar til veiðigjalda

Deila grein

15/05/2025

Skýr og lausnamiðuð af­staða Fram­sóknar til veiðigjalda

Framsókn hefur tekið skýra og málefnalega afstöðu í umræðunni um veiðigjöld. Við styðjum heilshugar réttmæta kröfu samfélagsins um að sameiginleg sjávarauðlind þjóðarinnar skili arði sem gagnast samfélaginu öllu. Hins vegar skiptir máli hvernig það er gert. Óvönduð skattheimta getur skaðað atvinnulíf, dregið úr nýsköpun og veikt byggðir sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi.

Við í Framsókn teljum að það sé svigrúm til hækkunar veiðigjalda, en þær breytingar verða að gerast á yfirvegaðan, gagnsæjan og skynsamlegan hátt. Áhrifin af frumvarpinu sem nú liggur fyrir eru of víðtæk og hafa ekki verið nægilega vel metin, sérstaklega hvað varðar sveitarfélög sem byggja útsvarstekjur sínar á útgerð, vinnslu og tengdum atvinnugreinum. Framsókn hefur bent á nauðsyn þess að gera ítarlega áhrifagreiningu áður en slíkar breytingar eru festar í lög.

Sveitarfélög víða um land hafa lýst yfir áhyggjum vegna hugsanlegra neikvæðra áhrifa á grunnþjónustu ef útsvarstekjur skerðast. Það er staðreynd að þegar sjávarútvegurinn dregst saman hefur það bein áhrif á getu sveitarfélaga til að reka skóla, félagsþjónustu og viðhalda mikilvægum innviðum svo fátt eitt sé nefnt.

Eru aðrar skynsamlegri leiðir?

Í ljósi þessa leggur Framsókn fram aðra leið sem tryggir sanngjarnar og stöðugar tekjur fyrir ríkissjóð án þess að veikja byggðir eða draga úr atvinnusköpun og fjárfestingum. Við höfum lagt til þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt á útgreiddan arð og söluhagnað. Þannig tryggjum við að skattheimtan beinist að raunverulegum hagnaði sem er tekinn út úr sjávarútveginum, en ekki að rekstrinum sjálfum, sem tryggir áframhaldandi verðmætasköpun og fjárfestingu.

Gagnsæi

Við í Framsókn höfum einnig lagt ríka áherslu á gagnsæi í útreikningum á áhrifum frumvarpsins. Nauðsynlegt er að skýrt sé hvernig mismunandi fyrirtæki, stór sem smá, staðsett í dreifðum byggðum eða stærri sveitarfélögum verða fyrir áhrifum.

Við erum einnig mjög meðvituð um hættu á samþjöppun og ójafnræði sem illa útfærðar skattbreytingar geta valdið. Slíkar breytingar gætu skert rekstrarumhverfi smærri útgerða sem eru mikilvægar fyrir byggðir víðs vegar um landið.

Fyrirsjáanleiki

Framsókn hefur tekið undir mikilvægi fyrirsjáanleika og aðlögunartíma ef breytingar verða á veiðigjöldum, líkt og Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra var tíðrætt um í aðdraganda kosninganna í nóvember 2024. Það er mikilvægt fyrir stöðugleika atvinnulífsins og til að treysta fjárfestingu til framtíðar.

Að lokum hefur Framsókn lagt áherslu á raunverulegt samráð. Samráð snýst ekki aðeins um formsatriði heldur um virkt samtal milli stjórnvalda, atvinnulífs og samfélagsins þar sem lausnir eru unnar í sameiningu.

Vöndum til verka

Að þessu sögðu er mjög mikilvægt að vandað sé til verka. Sjávarútvegurinn er ekki aðeins órjúfanlegur hluti þjóðarsálarinnar og sögunnar heldur flaggskip Íslands í nútímanum. Við erum í fararbroddi á heimsvísu þegar kemur að veiðum, vinnslu, nýsköpun og sölu á sjávarafurðum og íslenskur sjávarútvegur er einstakur á heimsvísu hvað varðar sjálfbærni. Við getum með vönduðum og yfirveguðum vinnubrögðum tryggt að svo verði áfram.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Líflínan

Deila grein

07/05/2025

Líflínan

Í þessari viku legg ég fram þingsályktunartillögu sem snýr að því að tryggja áframhaldandi starfsemi Janusar endurhæfingar eða tryggja sambærilega geðendurhæfingu fyrir ungmenni með fjölþættan vanda.

Markmið tillögunnar er skýrt: Að tryggja að einn viðkvæmasti hópur samfélagsins — ungt jaðarsett fólk með fjölþætt geðræn vandamál og félagslegan vanda — fái áfram þá þjónustu sem reynst hefur vel, meðan unnið er að heildstæðri framtíðarsýn um fyrirkomulag þjónustu við þennan viðkvæma hóp.

Janus endurhæfing hefur starfað í rúm 26 ár og veitt samþætta, einstaklingsmiðaða þjónustu sem sameinar heilbrigðis-, mennta- og velferðarsvið í þágu einstaklingsins. Þeir sem þekkja starfsemina best — fagfólk, notendur og aðstandendur — hafa lýst þeirri miklu óvissu og ógn sem steðjar að nú þegar ekki liggja fyrir neinar skýrar tillögur eða hugmyndir um hvað taki við. Yfir 3.000 manns hafa lýst yfir stuðningi við áframhaldandi starfsemi, sem og fjölmörg fagfélög og sérfræðingar. Leitun er að þeim sem geta útskýrt hvers vegna leggja eigi starfsemina niður.

Að standa við gefin loforð

Ríkisstjórnin hefur ítrekað lagt áherslu á að efla geðheilbrigðisþjónustu og tryggja jafnt aðgengi að úrræðum — sérstaklega fyrir ungt fólk í viðkvæmri stöðu. Þessi þingsályktun er í fullu samræmi við þær áherslur og býður upp á raunhæfar aðgerðir sem hægt er að hrinda í framkvæmd án tafar: bráðabirgðasamning við Janus endurhæfingu, virkt samráð við fag- og notendahópa, og að unnið sé markvisst að heildstæðri framtíðarsýn.

Það er ósk mín að tillagan verði grunnur fyrir ríkisstjórnina til að sýna pólitískan vilja, hugrekki og ábyrgð. Það verður því áhugavert að sjá hversu margir þingmenn stjórnarflokkanna standa með tillögunni — en þegar þessi grein er rituð hef ég fengið fjölmarga tölvupósta með staðfestingu um stuðning þingmanna stjórnarandstöðuflokka. Á sama tíma hafa engin viðbrögð borist frá stjórnarþingmönnum. Ekki einum.

Þetta mikilvæga málefni á ekki að snúast um pólitík eða hvort við styðjum einkarekstur í heilbrigðiskerfinu eður ei. Þetta snýst um viðkvæma einstaklinga sem þurfa á þjónustu á borð við Janus endurhæfingu að halda. Þetta er líflínan þeirra!

Við getum valið að grípa inn í

Aðgerðarleysi í þessu máli er aðgerð í sjálfu sér — og slík aðgerð bitnar á fólki sem getur engan veginn brugðist við. Með þessari tillögu vil ég leggja mitt af mörkum til að skapa brú yfir það óhuggulega bil sem nú blasir við og hefja vinnu að nýrri lausn sem nýtur trausts notenda, fagfólks og samfélagsins alls.

Ungt fólk með fjölþættan vanda á ekki að falla á milli kerfa. Það er okkar að grípa það og útvega þjónustuúrræði við hæfi.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Við stöndum saman með íþróttafólkinu – en hvað með fólkið á bak við það?

Deila grein

07/04/2025

Við stöndum saman með íþróttafólkinu – en hvað með fólkið á bak við það?

Það er fátt sem sameinar okkur eins og þegar íslenskt íþróttafólk stígur inn á stóra sviðið erlendis. Flest þekkjum við tilfinninguna þegar við setjumst saman fyrir framan sjónvarpið, klædd í landsliðstreyju, með hjartað í buxunum og full af stolti. Við hvetjum íþróttafólkið okkar áfram, lifum okkur inn í leikinn. Fögnum þegar vel gengur, syrgjum saman og styðjum okkar fólk – sama hvar það er í heiminum. Við stöndum saman sem þjóð.

Dýrmætt starf sjálfboðaliða

En það gleymist stundum að í hvert skipti sem íslenskur íþróttamaður stendur á sviðinu, þá standa ótal sjálfboðaliðar að baki hans – ósýnilegir en ómissandi. Á bak við hvert mark, hverja medalíu og hvern leik liggur þrotlaus vinna sem á sér rætur í hverfinu heima. Á íþróttasvæðinu, í félagsheimilinu, á æfingunni, á mótunum – þar eru sjálfboðaliðarnir mættir til að aðstoða, skipuleggja, keyra, moka snjó af vellinum, setja upp rásir, selja vöfflur og svo margt fleira – allt án þess að fá borgað fyrir. Án þessa fólks væru engin landslið – og ekkert EM.

Áætlað er að sjálfboðaliðar í íþróttum vinni um 7,7 milljónir klukkustunda á ári. Verðmæti þeirrar vinnu er metið á yfir 15 milljarða króna á ári ef miðað er við tímagjald upp á um 1.950 kr. Þetta er byggt á greiningum og svörum félaga innan ÍSÍ og UMFÍ og birtist í skýrslu ÍSÍ um sjálfboðaliða 2024. Þetta sýnir svart á hvítu að íslenskt íþróttastarf stendur og fellur með þessu gríðarlega ólaunaða framlagi. Í raun er þetta stærsti „sjóðurinn“ sem hreyfingin byggir á – og hann er algjörlega háður vilja fólks til að gefa vinnu sína. Þó að starfið hafi haldist öflugt lengi, þá standa blikur á lofti.

Stöndum með sjálfboðaliðunum okkar

Vísbendingar eru um að erfiðara sé að fá fólk til sjálfboðastarfa en áður. Sérstaklega í ábyrgðarhlutverk eins og stjórnir og nefndir, fá fólk til að sjá um viðburði og halda utan um starfið. Hluti þess skýrist af auknum kröfum og væntingum – en einnig af því að sjálfboðaliðar búa oft við óljósa réttstöðu og takmarkaðan stuðning. Það dregur úr vilja fólks til þátttöku ef það veit ekki hvaða ábyrgð það ber – eða hvort það fái aðstoð ef eitthvað kemur upp á.

Þess vegna lagði undirrituð fram þingsályktunartillögu um aukið réttaröryggi sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Með því að skipa starfshóp með fulltrúum úr öllum lykilstofnunum viljum við greina stöðuna, skýra ábyrgð, bæta tryggingavernd, efla fræðslu og styðja við sjálfboðaliða með markvissum hætti.

Það þarf að tryggja að tryggingar séu til staðar – bæði gegn slysum og mögulegri ábyrgð ef eitthvað fer úrskeiðis. Að verklýsingar séu skýrar. Að fræðsla og þjálfun sé aðgengileg. Að fólk viti hvað er verið að fara fram á – og hvað það fær til stuðnings. Það mun auka öryggi, draga úr brottfalli og ekki síst – hvetja fleiri til þátttöku.

Við viljum nefnilega hvetja fleiri til þátttöku. Það gerum við með því að gera hlutverk sjálfboðaliða skýrara, bjóða upp á handbækur, kynningar, aðgengi að upplýsingum – og ekki síst: sýna þakklæti. Það getur verið í formi viðurkenninga, fríðinda eða einfaldlega þess að einhver segi „takk fyrir“.

Íþróttahreyfingin hefur ekki efni á því að missa þetta fólk

Það er auðvelt fyrir okkur að fagna og hvetja áfram okkar afreksfólk og landslið Íslands. Við stöndum þétt saman þegar að þau keppa úti í heimi. En til að landsliðið verði til þurfa tugir, jafnvel hundruð sjálfboðaliða að hafa staðið vaktina árum saman. Nú er tími til kominn að við stöndum með fólkinu sem vinnur ósýnilegu vinnuna til að ryðja veginn svo afreksfólkið okkar geti haldið áfram að láta ljós sitt skína og skila árangri í hús.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Að bregðast ungu fólki í við­kvæmri stöðu

Deila grein

03/04/2025

Að bregðast ungu fólki í við­kvæmri stöðu

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að sérstök áhersla verði lögð á að efla geðheilbrigðisþjónustu og styðja fjölbreytt rekstrarform. Þessi loforð eru innantóm, því fyrsta stórtæka aðgerðin í geðheilbrigðismálum nýrrar ríkisstjórnar er að loka Janusi endurhæfingu – úrræði sem hefur í 25 ár þjónustað einn viðkvæmasta hóp samfélagsins; ungt fólk með alvarlegan geðrænan og félagslegan vanda.

Þetta eru ungmenni sem hafa dottið út úr skóla og vinnu. Mörg þeirra með greiningu á einhverfurófi, þunglyndi, kvíða, áfallasögu og félagslega einangrun að baki. Þau hafa leitað víða í kerfinu – og fengið þau svör að úrræði sniðið að þeirra þörfum sé ekki til staðar. Í Janusi endurhæfingu hafa þau fundið skjól, fundið von og náð árangri. Rúmlega 56% (meðaltal) þeirra sem hafa lokið þjónustu síðastliðin 3 ár hafa farið í nám, vinnu eða virka atvinnuleit. Þjónustan sem Janus veitir skjólstæðingum sínum er veitt af sérfræðiteymi með sértæka þekkingu undir forystu geðlæknis með áratuga reynslu. Janus er einstök, þverfagleg og samhæfð þjónusta, sem finnst hvergi annarsstaðar í kerfinu.

Úrræðinu lokað – ekkert sambærilegt tekur við

Nú á að leggja þessa þjónustu niður. Starfsfólki hefur verið sagt upp. Engin sambærileg lausn er tilbúin. Fjöldi ungmenna – sem og þeir sem bíða eftir plássi – standa eftir í algjöru tómarúmi, óvissan um framtíðina þjakar aðstandendur þeirra líka.

Í fyrirspurn á Alþingi á dögunum, spurði ég heilbrigðisráðherra út í hvað taki við fyrir þetta unga fólk. Engin skýr svör fengust. Ekki hvar, ekki hvenær, ekki hvernig! Ekki einu sinni viðurkenning á því hversu alvarleg staðan er þegar ljóst er að ekkert úrræði mun taka á móti þessum viðkvæma og jaðarsetta hópi með sama hætti.

Það sem er einnig alvarlegt er að hvorki heilbrigðisráðherra né stjórnarþingmenn hafa sýnt því sóma að kynna sér starfsemi Janusar endurhæfingar á vettvangi. Fulltrúar Janusar endurhæfingar hafa boðið ráðherrum að koma og skoða aðstöðuna, kynna sér starfsemina. En engin heimsókn hefur orðið að veruleika. Þögnin er ærandi. Ábyrgðarleysið augljóst.

Fagfólk varar við

Geðlæknafélagið, Píeta samtökin, Þroskahjálp, Einhverfusamtökin og fleiri hafa varað við að úrræði á vegum VIRK starfsendurhæfingarsjóðs – sem nú eiga að taka við hlusta af þjónustunni – hafi ekki þá fagþekkingu sem til þarf. Ungmennin sem Janus endurhæfing þjónustar eru ekki tilbúin í hefðbundin atvinnutengd úrræði – þau þurfa fyrst geðræna endurhæfingu, í öruggu og samþættu umhverfi veitta af fagaðilum með sértæka þekkingu, reynslu og tryggum aðgangi að geðlækni.

Það er erfitt að sjá þessa ákvörðun sem annað en hugmyndafræðilega aðför að einkaframtaki. Það læðist að grunur – sem ekki er úr lausu lofti gripinn – að ef Janus endurhæfing hefði verið ríkisrekið úrræði, þá væri þetta ekki að gerast. En hér er það ekki kerfið sem þarf að verja – heldur unga fólkið.

Í þjónustukönnunum og viðtölum lýsa þátttakendur hvernig Janus endurhæfing hefur bjargað lífi þeirra, veitt þeim tilgang, sjálfstraust og nýja byrjun. Foreldrar ungmenna segja frá því að þar hafi þau loksins fundið stað sem skilur þarfir barnanna þeirra. Hvers konar samfélag lítur fram hjá þessari reynslu?

Það er siðferðilega rangt – og faglega ábyrgðarlaust – að loka virku úrræði án þess að annað jafngott sé tilbúið. Það er ekki boðlegt að færa slíka þjónustu yfir í almennara kerfi án mats, aðlögunar eða raunverulegs samtals við þá sem þekkja þjónustuna best.

Enn er glugginn opinn

En það er enn tími til stefnu. Heilbrigðisráðherra getur snúið frá þessari ákvörðun. Hún getur gert bráðabirgðasamning, tryggt áframhaldandi starfsemi á meðan unnið er að framtíðarsýn í samstarfi við fagfólk, notendur og aðstandendur.

Við eigum ekki að fórna framtíð ungs fólks fyrir kerfisreglur. Við eigum ekki að þegja þegar þjónusta sem virkar er tekin niður – af því hún er ekki hluti af stóru opinberu myndinni. Við verðum að láta í okkur heyra. Vegna þeirra sem ekki fá rödd – og vegna þess sem í húfi er.

Ef Janusi endurhæfingu verður lokað – þá er það í boði stjórnarmeirihlutans. Ráðamenn bera þá ábyrgð – bæði pólitíska og siðferðilega.

Unga fólkið okkar hefur stofnað undirskriftalista til að mótmæla þessari aðför að lífsbjargandi úrræði þeirra. Sýnum stuðning í verki;

https://island.is/undirskriftalistar/ace3bde9-f921-4833-b2ff-21e966be072d

Höfundur er þingflokksformaður Framsóknar.