Categories
Greinar

Ný byggð og flugvöllurinn

Deila grein

04/06/2023

Ný byggð og flugvöllurinn

Um Reykjavíkurflugvöll hefur verið tekist á frá því áður en ég fæddist. Sum hafa verið á móti veru hans í Vatnsmýrinni, önnur ekki talið neinn annan stað koma til greina. Skoðanirnar hafa meðal annars markast af því hvar fólk býr og myndað gjá milli höfuðborgar og landsbyggðar sem og ríki og borgar. Sá skotgrafahernaður sem hefur verið háður hefur ekki verið neinu til framdráttar heldur skapað sundrung og ósætti.

Hafandi búið úti á landi á stað sem reiðir sig mikið á flug til höfuðborgarinnar skil ég umræðuna vel. Flugvöllurinn er samgöngumiðstöð og sennilega margir sem tengja flugvöllinn við fagnaðarfundi við ættingja og vini, upphaf ferðalags eða flutninga á milli landshluta. Tilfinningartengsl eru á milli margra og staðsetningar flugvallarins. Staðsetningin hefur bjargað mörgum mannslífum vegna nálægðar við Landspítalann. Það er lífisins alvara að greiðar flugsamgöngur séu til og frá höfuðborginni og ég þekki ófáa sem eiga líf sitt eða barna þeirra að þakka sjúkraflugi til Reykjavíkur.

Verandi íbúi í nálægð við flugvöllinn í Vatnsmýri þekki ég líka og skil skoðanir af andstæðum meiði. Þótt mörgum þyki huggulegt að hafa flugvöll í næsta nágrenni við sig og börnum spennandi að sjá flugvélar fljúga yfir borgina finnst öðrum flugvöllurinn engan veginn passa inn í miðja borg og vilja frekar reisa nýja byggð á svæðinu.

Sitt sýnist hverjum en mikilvægt er að byggja alla umræðu um flugvöllinn og staðsetningu hans á rökum og gögnum. Með samkomulagi ríkisins og borgarinnar frá því 2019 á grunni skýrslu um flugvallakosti á suðvesturhorninu skapaðist ákveðin sátt um flugvöllinn. Samkomulagið felur m.a. í sér sátt um að tryggja rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli á meðan undirbúningur og gerð nýs flugvallar, á jafngóðum eða betri stað, stendur yfir, þar með talið eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja og miðað er við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, greindi frá því um nýliðna helgina að ný flugstöð muni rísa á Reykjavíkurflugvelli enda er núverandi flugstöð til lítils sóma fyrir flugvallargesti og þjónar illa nútíma þörfum.

Flug- og rekstraröryggi verður áfram tryggt

Í nýrri skýrslu starfshóps um áhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug– og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar kemur fram að hægt sé að tryggja áframhaldandi flugöryggi með mótvægisaðgerðum þó ný byggð rísi í Skerjafirði. Mótvægisaðgerðirnar eru til þess fallnar að draga úr áhrifum eða áhættu sem annars gæti stafað af nýrri byggð. Vinna við mótvægisaðgerðir er nú þegar hafin og mun þeim verða hrint til framkvæmdar. Fulltrúar Framsóknar í borgarstjórn hafa og munu áfram leggja áherslu á að unnið sé eftir þeim ábendingum sem koma fram í niðurstöðu skýrslu starfshóps um áhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug- og rekstraröryggi. Þannig verður tryggt að samkomulag ríkis og borgar frá 2019 um að tryggja flug- og rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli haldi. Ekki mun því rísa byggð í Vatnsmýrinni sem mun hafa áhrif á flug- og rekstraröryggi flugvallarins.

Innanlandsflug í Reykjavík heldur velli

Reykjavíkurflugvöllur verður áfram samgöngumiðstöð fyrir fólk sem ferðast til og frá höfuðborginni. Þótt ný byggð rísi í Skerjafirði verður áfram lendingarstaður fyrir innanlandsflug í Vatnsmýri.

Sjúkraflugið verður áfram á sínum stað

Sjúkraflug með lendingarstað í návígi við Landspítalann verður áfram tryggt en það er mikilvægt öryggisatriði fyrir fólk um allt land og á sjó. Það er algjört forgangsatriði að flugvöllurinn mæti þörfum sjúkraflugs.

Ný byggð rís

Í nýrri byggð verða reist hús fyrir stúdenta, lágtekjuhópa og aðra. Verið að koma til móts við mikla þörf á húsnæði í Reykjavík og þá sérstaklega fyrir stúdenta í návígi við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur m.a. ályktað að það fagni því ,,að niðurstaða skýrslunnar sé skýr um að ekki sé þörf á því að hætta við byggingaráform í Nýja Skerjafirði, heldur sé nóg að grípa til mótvægisaðgerða.” Í ályktun stúdentaráðs kemur jafnframt fram að um 900 stúdentar séu á biðlista eftir húsnæði hjá Félagsstofnun stúdenta. Grænar áherslur í takt við kröfur samtímans eru forgangsatriði í skipulagi hverfisins. Það verður umlukið nýju strandsvæði og milli húsa er gert ráð fyrir torgum, leiksvæðum og gróðursæld.

Traust og sættir

Í grunninn snýst umræðan um flugvöllinn um traust. Traust til að kjörinna fulltrúa í Reykjavík um að grípa til mótvægisaðgerða til að tryggja að rekstraröryggi flugvallarins skerðist ekki með frekari húsnæðisuppbygging á svæðinu. Nú þegar er hafin vinna til að tryggja að mótvægisaðgerðir verði að veruleika. Flugvöllurinn er mikilvægur fyrir flugsamgöngur til og frá Reykjavík og er brú milli landsbyggðar og höfuðborgarinnar, sannkölluð tengimiðstöð okkar Íslendinga. Afstaðan er skýr; flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýrinni þar til og ef annar betri kostur finnst. Með mótvægisaðgerðum er komið tækifæri til að sætta sjónarmið, leysa gamlar deilur, tryggja öruggan rekstur flugvallarins og horfa til framtíðar og þeirra miklu áskoranna og verkefna sem landsmenn, sveitarfélög og ríki þurfa að takast á við í náinni framtíð.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. júní 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Íslensk ferðaþjónusta leiðandi á heimsvísu

Deila grein

02/06/2023

Íslensk ferðaþjónusta leiðandi á heimsvísu

Hér áður fyrr stóð ytri staða þjóðarbús­ins oft og tíðum tæpt, þar til straum­hvörf á viðskipta­jöfnuðinum áttu sér stað fyr­ir rúm­lega tíu árum með til­komu sterkr­ar ferðaþjón­ustu hér á landi. Fyr­ir lítið opið hag­kerfi er nauðsyn­legt að hafa styrk­ar út­flutn­ings­stoðir. Viðskipta­af­gang­ur­inn vegna ferðaþjón­ust­unn­ar hef­ur einnig gert líf­eyr­is­sjóðum kleift að dreifa sparnaði fé­laga og byggja mynd­ar­lega sjóði er­lend­is. Á tím­um kór­ónu­veirunn­ar kom glöggt í ljós hversu hag­fellt var að vera með gjald­eyr­is­forða sem gat jafnað mestu sveifl­ur.

Það skipt­ir miklu máli að skapa ferðaþjón­ust­unni, stærstu gjald­eyr­is­skap­andi at­vinnu­grein lands­ins, hag­felld skil­yrði til þess að vaxa og dafna með sjálf­bær­um hætti, með það fyr­ir aug­um að skapa auk­in verðmæti og lífs­gæði fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag.

Eitt helsta for­gangs­verk­efnið í nýju menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyti er að móta nýja og öfl­uga aðgerðaáætl­un á sviði ferðamála á grunni Framtíðar­sýn­ar og leiðarljóss ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu til 2030. Und­ir­bún­ing­ur þeirr­ar vinnu hef­ur staðið yfir af full­um þunga inn­an ráðuneyt­is­ins en í vik­unni skipaði ég sjö starfs­hópa, sem hver og einn er skipaður 6-8 sér­fróðum aðilum, og verður þeim falið að vinna til­lög­ur að aðgerðum en miðað er við að þeir skili drög­um að aðgerðum fyr­ir 1. októ­ber næst­kom­andi og loka­til­lög­um fyr­ir 15. des­em­ber 2023. Hóp­arn­ir ná utan um sjálf­bærni og orku­skipti, sam­keppn­is­hæfni og verðmæta­sköp­un, rann­sókn­ir og ný­sköp­un, upp­bygg­ingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veit­inga- og hvata­ferðaþjón­ustu og svo menn­ing­ar­tengda ferðaþjón­ustu. Stefni ég að því að leggja fram nýja ferðamála­stefnu til árs­ins 2030 ásamt aðgerðaáætl­un fyr­ir vorþing 2024, eins og kom fram í nýrri fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem kynnt var í mars.

Framtíðar­sýn ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu er að vera leiðandi í sjálf­bærri þróun á grunni efna­hags­legs og sam­fé­lags­legs jafn­væg­is. Í því felst að ferðaþjón­ust­an sé arðsöm og sam­keppn­is­hæf, í sátt við nátt­úru, ís­lenska menn­ingu og tungu. Þjóðríki sem hafa mikl­ar út­flutn­ings­tekj­ur, stönd­ug­an gjald­eyr­is­forða og góðan inn­lend­an sparnað eru í mun sterk­ari stöðu til að kljást við óvænt ytri áföll og njóta betri láns­kjara á alþjóðleg­um fjár­mála­mörkuðum. Þar mun ferðaþjón­ust­an skipta lyk­il­máli til framtíðar og því er gríðarlega mik­il­vægt að styrkja um­gjörð henn­ar enn frek­ar til framtíðar, með skýr­um aðgerðum til að hrinda til fram­kvæmda.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. júní 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Við búum í góðu samfélagi

Deila grein

02/06/2023

Við búum í góðu samfélagi

Árið 2020 var samþykkt tillaga í ríkisstjórn Íslands um notkun svokallaðra velsældarvísa. Velsældarvísar eru mælingar sem gefa yfirsýn yfir hagsæld og lífsgæði á Íslandi og eru mikilvægir til að tryggja að árangur sé mældur út frá velsæld samfélaga en ekki eingöngu á efnahagslegum forsendum. Mælingar sýna að Ísland stendur sig mjög vel og hér er gott að búa.

Markvisst hefur verið unnið að því að draga úr fátækt og byggja upp sterkt velferðarkerfi. Auk þess getum við státað okkur af því að Ísland er í fararbroddi þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Heilt yfir höfum við verið á góðri leið þó svo að ýmsar áskoranir blasi við okkur vegna yfirstandandi verðbólgu sem við þurfum að ná niður. Það er hægt og það er forgangsverkefni okkar allra.

Tölulegar staðreyndir

Búið er að greina álagningu opinberra gjalda eftir tekjutíundum út frá skattframtölum. Í tekjutíund felst að búið er að skipta einstaklingum í 10 jafn stóra hópa þar sem sú fyrsta er með lægstu tekjurnar og sú tíunda með þær hæstu. Þegar litið er til baka til síðustu ára og skattframtöl rýnd má glögglega sjá að heildartekjur allra hópa á Íslandi hafa hækkað, almenningur greiðir minna í skatt fyrir utan þá allra tekjuhæstu sem borga meira en aðrir. Þessi greining sýnir fram á að þær tekjuskattsbreytingar sem ráðist hefur verið í hafa dregið úr skattbyrði lág- og millitekjuhópa en það hefur verið sú vegferð sem ríkisstjórnin hefur haft að leiðarljósi síðustu ár. Velsældarvísarnir eru á sama máli en þegar rýnt er í þá kemur fram að jafnvægi milli vinnu og einkalífs hafi aukist jafnt og þétt síðustu ár, tekjur og ráðstöfunartekjur hafa hækkað auk þess sem hlutfall skulda heimila sem hlutfall af hreinni eign hafi farið lækkandi. Með öðrum orðum, við höfum búið við verulega aukinn kaupmátt. Þetta er hreint ekki svo slæm saga.

Stuðningur við barnafjölskyldur

Samkvæmt tölum OECD er óvíða meiri stuðningur við barnafjölskyldur en á Íslandi. Hér á landi beinast barnabætur sérstaklega að tekjulægri fjölskyldum, þeim fjölskyldum sem þurfa mest á þeim að halda. Á síðasta ári voru gerðar breytingar á barnabótakerfinu sem tryggðu barnafjölskyldum enn hærri barnabætur auk þess sem skerðingarmörk voru lækkuð. Það kemur kannski einhverjum á óvart en staðreyndin er sú að óskertur stuðningur til tekjulágra barnafjölskyldna er næstum því í öllum tilfellum hæstur hér miðað við annars staðar á Norðurlöndum. Þrátt fyrir að einhverjir hafi hátt og segi að lítið hafi verið gert fyrir barnafjölskyldur í landinu þá sýnir veruleikinn annað. Staðreyndin er sú að það er gott að ala upp barn á Íslandi í samanburði við önnur lönd.

Enn að húsnæðismálum

Sá sem hér skrifar þreytist ekki á að skrifa um húsnæðismálin. Fólki á Íslandi er að fjölga hratt, hraðar en spár hafa gert ráð fyrir og það er fyrirséð að hér þurfi að byggja meira. En á sama tíma er að hægjast verulega á markaðnum, fjármagnskostnaður hefur hækkað og byggingaraðilar halda að sér höndum. Af þessum ástæðum er samdráttur að verða í uppbyggingu íbúða á landinu sem er algjörlega þvert á það sem við þurfum á að halda. Ég hef bent á það í fjöldanum öllum af greinum síðustu misseri að keðjan er að rofna og ef ekkert er að gert muni ástandið nú aðeins leiða til mun hærra fasteignaverðs og hærra leiguverðs en við erum að horfa fram á í dag. Þetta mun auka þrýsting á verðbólguna.

Undir forystu Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra, hafa verið kynnt metnaðarfull markmið um uppbyggingu 35 þúsund íbúða til ársins 2032 í samvinnu við sveitarfélögin í landinu. Vinnan felst m.a. í að kortleggja lóðir sem til staðar eru, hvort sem það eru nýbyggingarsvæði eða þéttingarreitir, og gera kostnaðarmat svo hægt sé að framkvæma íbúðir á viðráðanlegu verði fyrir almenning. Hér er um að ræða mikla vinnu þar sem verið er að greina stöðuna á íslenskum íbúðamarkaði og nú í fyrsta skipti eru til haldbær gögn sem hægt er að styðjast við og vinna út frá. Sá sem hér skrifar telur afar mikilvægt til að ná tökum á núverandi ástandi verði að gefa í húsnæðisuppbygginu frekar en hitt og það með fleiri íbúðum byggðum með stofnframlögum. Íbúðir byggðar með stofnframlögum er ætlað að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga sem eru undir tekju- og eignamörkum með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði. Hér þarf einnig að rýmka viðmið þegar kemur að hlutdeildarlánum. Við sjáum að með þessari leið eiga fleiri einstaklingar möguleika á að fjárfesta í eigin húsnæði og á sama tíma fá byggingaraðilar aukna tiltrú á að halda áfram með framkvæmdir. Um þetta hef ég auðvitað skrifað áður og lagt til ýmsar tillögur til að tryggja nauðsynlega uppbyggingu húsnæðis.

Það kemur sumar eftir kaldan vetur

Verðbólgan hefur vissulega sett allar okkar áætlanir upp í loft og sú góða saga sem við höfum haft frá að segja síðustu ár er fljót að gleymast. Líkt og ég hef áður fjallað um er verðbólgan sameiginlegt verkefni okkar allra og eitt helsta verkefni stjórnvalda í dag er að draga úr opinberum útgjöldum án þess þó að skerða heilbrigðis- og grunnþjónustu í landinu. Almenningur getur tekið þátt með því að draga saman seglin og þá hafa fyrirtæki landsins ákveðnu hlutverki að gegna og mega ekki falla í þá freistni að ýta öllum hækkunum út í verðlagið. Samkvæmt nýlegu verðlagseftirliti ASÍ hefur verð á matvöru hækkað um 14% á einu ári. Ég veit að ástandið er snúið ef svo má segja. Við erum að glíma við erfiða verðbólgu en við megum ekki missa augun af boltanum. Ég hef fullan skilning á að almenningur sé þreyttur á stýrivaxtahækkunum og sólarleysi en það má þó ekki vera þannig að við gleymum hversu gott við höfum það í raun og veru. Þegar öllu er á botninn hvolft þá búum við í góðu samfélagi, með sameiginlegu átaki allra höfum við möguleika til þess að halda áfram þeirri góðu vegferð sem við höfum verið á.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. júní 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Síðasti bóndinn í dalnum?

Deila grein

02/06/2023

Síðasti bóndinn í dalnum?

Saga íslenska bóndans nær langt aftur, allt aftur til landnáms, og hefur verið í lykilhlutverki við að móta íslenska menningu og samfélag. Í gegnum aldirnar hafa Íslendingar aðlagað búskaparhætti sína að náttúrulegum aðstæðum landsins og skapað með því djúpa tengingu milli náttúrunnar og þjóðarinnar. Það er fátt íslenskara en hin íslenska lopapeysa og lambalæri með brúnni. Íslenskur landbúnaður hefur ekki bara verið mikilvægur út frá hagfræðilegum sjónarmiðum og skapað atvinnutækifæri heldur hefur hann haft djúpstæð áhrif á sjálfsmynd okkar sem þjóð. Það sjáum við einna best í áhrifum hans á menningu landsins enda á hann margar birtingarmyndir í skáldskap, tónlist, kvikmyndum, myndlist og handverki. Ferðamaðurinn sem sækir Ísland heim vill fá að njóta alls þess sem við höfum upp á að bjóða, hann vill íslenskan mat á diskinn sinn ekki innflutta kengúru eða lopapeysu frá Kína.

Hvers virði eru góð orð?

Sá sem hér skrifar hefur velt fyrir sér í ljósi núverandi ástands hvort öll sú umræða um fæðuöryggi þjóðarinnar og mikilvægi þess að vera sjálfbær sé bara innantómt hjal sem draga megi fram á tyllidögum. Á sólardögum berjum við okkur á brjóst og segjumst standa fyrir dýravelferð, viljum að sú fæða sem við neytum sé án sýklalyfja og að aðbúnaður sé góður, bæði fyrir dýr og þá einstaklinga sem vinna við greinina. Við gerum ríkar kröfur til íslensk landbúnaðar og það er vel, því sætir það furðu að margir hverjir snúa blinda auganu við þegar hingað flæðir inn innfluttar landbúnaðarvörur sem margar hverjar koma úr stórverksmiðju búskap sem á ekkert skylt við öll okkar grunngildi.

Innflutningur gerir út af við innlendan landbúnað

Síðasta sumar samþykkti Alþingi að fella niður tolla af landbúnaðarvörum sem eiga uppruna sinn að rekja til Úkraínu. Tilgangurinn með þessum aðgerðum var að efla vöruviðskipti milli landanna og halda efnahag Úkraínu gangandi þrátt fyrir stríðsátök. Með þessum aðgerðum var svo litið á að Alþingi sameinaðist um sýna Úkraínu stuðning í verki. Við mat á áhrifum frumvarpsins var ekki talið líklegt að áhrifin yrðu veruleg en annað hefur síðan komið á daginn. Í dag er það ljóst að niðurfelling á tollum á vörum frá Úkraínu hefur haft veruleg áhrif á framleiðendur landbúnaðarvara hér á landi, sér í lagi vegna gríðarlegs innflutnings á kjúklingakjöti sem ekki var talið líklegt að fluttur yrði inn. Flutt hafa verið inn um 200 tonn af kjúklingakjöti frá því að lögin tóku gildi og út febrúar á þessu ári. Það er 200 tonn á sex mánuðum. Þar sem tölur fyrir mars, apríl og maí liggja ekki fyrir má gera ráð fyrir enn meira magn hafi komið til landsins. Það er erfitt ef ekki ómögulegt fyrir innlenda bændur að keppa við innflutningsverð á kjúklingi frá Úkraínu, en meðalinnflutningsverð hefur verið um 540 kr. og er það talsvert undir framleiðsluverði á Íslandi. Íslenskir alifuglabændur eiga ekki roð erlend stórfyrirtæki sem framleiða á einum degi sama magn og íslenskur bóndi framleiðir á einu ári.

Við þurfum að breyta um stefnu

Sem betur fer hefur ekki borið á innflutningi á mjólkur- og undanrennudufti á þessum tíma, það kann þó að vera sökum þess að verð á mjólkur- og undanrennudufti hækkaði mjög í upphafi árs 2022 en hefur nú farið lækkandi aftur. Útflutningur á undanrennu- og nýmjólkurdufti frá Úkraínu árið 2022 var um 24.600 tonn en það er 18 föld innanlandssala á Íslandi. Það tekur um 4 mánuði að byggja upp viðskiptasambönd og við sjáum það að ef við ætlum okkur að halda áfram þessum táknræna stuðningi sem þessum tekur það ekki langan tíma að gera út af við innlenda framleiðslu. Fréttir eru einnig að berast af því að öllu óbreyttu sé nautakjötið einnig á leiðinni frá Úkraínu. Það má ekki verða þannig að táknrænar aðgerðir Íslands í alþjóðasamfélaginu kippi hreinlega stoðunum undan heilu atvinnugreinunum hérlendis. Hér þurfum við frekar að líta til nágranna okkar í Noregi sem í staðinn fyrir að fórna innlendum landbúnaði með niðurfellingu tolla hefur styrkt Úkraínu og þannig úkraínska bændur með fjárframlögum í gegnum alþjóðastofnanir.

Vissulega er breytinga þörf

Í staðinn fyrir óheftan og gegndarlausan innflutning á landbúnaðarvörum til landsins þurfum við að gera betur við íslenskan landbúnað, og við viljum gera vel. Til marks um það liggur nú fyrir Alþingi Landbúnaðarstefna til ársins 2040, þessi stefna rímar margt í hverju við stefnu Framsóknar í landbúnaðarmálum síðustu ár. Stefnan markar nokkuð vel þann veg sem skynsamlegt er að fara við að nýta landið, auðlindir landsins, til góðra verka. Það gerum við með því að nýta landið til þess að framleiða matvæli. Nokkur umræða hefur verið síðustu misseri um stuðningskerfi landbúnaðarins, það fyrirkomulag sem við höfum í dag er að mínu mati svo sannarlega ekki meitlað í stein. Það er þörf á að gera breytingar á því með það að markmiði að hvetja bændur til þess að framleiða hollar og góðar afurðir, stuðningurinn á ekki að vera reiknaður út frá fjöldi ærgilda o.s.frv. heldur sé til þess fallin að hvetja bændur til þess að framleiða næg matvæli og að bændur hafi afkomu af sínum búskap. Í því samhengi er mikilvægt fyrir stjórnvöld að horfa á hvernig starfsumhverfið er í greininni. Við eigum að vera ófeiminn að ræða stuðning við landbúnað og við bændur þurfum að koma að þessu samtali líka með stjórnvöldum.

Að lokum, landbúnaður er ekki bara kjöt og mjólk, hann er einnig akuryrkja, garðyrkja, skógrækt og landgræðsla. Líkt og ég kom að í upphafi er landbúnaður eining hluti af menningu okkar og aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Með íslenskum landbúnaði, með því að nýta auðlindir landsins höfum við rík tækifæri til verðmætasköpunar ásamt því að tryggja afkomu þjóðarinnar. Töpum ekki niður því sem við höfum byggt upp frá landnámi, stöndum vörð um innlenda framleiðslu.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. júní 2023.

Categories
Greinar

Lýð­heilsu fórnað fyrir inn­flutning

Deila grein

31/05/2023

Lýð­heilsu fórnað fyrir inn­flutning

Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs voru flutt inn rúm 200 tonn af úkraínsku kjúklingakjöti til Íslands, íslenskir kjúklingabændur hafa gagnrýnt innflutninginn vegna áhrifa á sölu íslensks kjúklings. Innflutningur á samskonar kjöti frá Úkraínu var í kringum 80 tonn á síðasta ári. Í júní 2022 lagði fjármála- og efnahagsráðherra fram frumvarp til laga um breytingu á tollalögum sem fólu í sér tímabundna einhliða niðurfellingu tolla á vörur sem eru upprunnar í Úkraínu.

Þar er um að ræða hreina tollaniðurfellingu án fyrirvara, formaður deildar kjúklingabænda hjá Bændasamtökunum kveðst uggandi yfir þeim áhrifum sem innflutningur frosins, úrbeinaðs kjúklingakjöts frá Úkraínu getur haft á framtíð alifuglabænda.

Að mínu mati er slík tollaniðurfelling algjörlega fráleitt, það er vegið að kjúklingabændum með þessum innfluttningi og setur maður spurningar við aðbúnað dýranna í landi sem ríkir stríð.

Hlustum á sérfræðinga

Vilhjálmur Arason heimilislæknir, sem er með doktorsgráðu í rannsóknum um fjölónæmar bakteríur hefur bent á að þegar innflutningur kjöts var gerður frjáls með EES samningi á sínum tíma var opnað á aukna áhættu að við færum að fá fjölónæmu bakteríur sem koma óhjákvæmilega með kjöti hingað til lands. Og hefur hann talað um að þetta séu svokallaðar súnubakteríur, sameiginlegar bakteríur með dýrum og mönnum, sem berast með sláturkjöti.

Slíkar bakteríur séu stórt vandamál víða erlendis og Íslendingar hafi hingað til búið við þau forréttindi að heilnæmi íslenskra landbúnaðar afurða sé einstakur með lítilli notkun sýklalyfja, eða sú minnstu sem gerist í heiminum. En aðra sögu er að seigja frá Úkraínu, þar eru þessar bakteríur sérstakt vandamál, þar sem nær-alónæmar bakteríur finnast í meira magni en annars staðar í álfunni.

Aukin hætta er á að þessar bakteríur sem við erum að flytja hingað til lands blandast inn í íslenska flóru, bæði dýra- og mannaflóru. Einnig hefur Vilhjálmur bent á að Þegar þær valda sýkingum er það stórmál því að venjuleg sýklalyf virka oftast ekki og stundum engin sýklalyf. Þannig er íslenskri sérstöðu fórnað fyrir viðskiptahagsmuni og reglugerðir.

Bakteríur sem berast í menn

Súnubakteríur séu algengustu sára- og sýklabakteríur mannsins en geta líka lifað með dýrum og komið með innfluttu kjöti. Vilhjálmur hefur líka talað um flórubakteríur sem lifa lengi í görnum okkar og jafnvel stundum í öndunarvegi og húð. Mögulegt er þegar við fáum sár eða sýkjumst eins og þvagfærasýkingu getur sú sýking verið ómeðhöndlanleg Þetta er áhættan. í Úkraínu hefur þetta hlutfall verið hvað hæst og eru 20-40 prósent af blóðeitrunum og heilahimnubólgum með bakteríum sem eru algjörlega ónæmar fyrir lang flestum sýklalyfjum. Það segir sig sjálft að við erum að taka gríðarlega áhættu með því að vera að heimila slíkan innflutning í kjúklinga kjöti frá Úkraínu.

Varan er seld í flest öllum matvöruverslunum landsins ásamt því að vera notuð í miklu magni inn í veitingahús og mötuneyti landsins og jafnvel selt undir fölsku flaggi og neytendur hafa ekki nokkra vitneskju um uppruna vörunar.

Alþingi hefur val

Alþingismenn þurfa að huga að heilsu íslensku þjóðarinnar. Efnahags- og viðskiptanefnd þingsins mun fjalla um tollfrjálsan innflutning úkraínskra vara á næstu dögum, þar skora ég á nefndarmenn að stoppa strax þann innflutning sem á sér stað frá Úkraínu, með þeim formerkjum að huga að heilsu íslensku þjóðarinnar.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Eitt dauðs­fall er of mikið

Deila grein

30/05/2023

Eitt dauðs­fall er of mikið

Í gær voru áhrifaríkir og fallegir tónleikar haldnir í Hörpu til að vekja athygli á ópíóðafíkn og styrkja skaðaminnkandi úrræði Rauða krossins. Undanfarið hefur mikil umræða skapast í samfélaginu um ópíóðafíkn og þann skaða sem af henni getur hlotist. Hér á landi eru vísbendingar um að ópíóðar séu í aukinni umferð í samfélaginu og að notkun þeirra sé að aukast þrátt fyrir það að dregið hafi úr lyfjaávísunum á ópíóða undanfarin ár. Það er mikilvægt að fylgjast vel með þróuninni, bregðast hratt við og tryggja að viðeigandi úrræði séu til staðar og aðgengi að þeim sé tryggt.

Ráðist í aðgerðir

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögur undirritaðs um víðtækar aðgerðir og fjölbreytt úrræði til að sporna við vímuefnavanda með áherslu á skaðlega notkun ópíóíða og alvarlegar afleiðingar ópíóíðafíknar. Tillögur þessa efnis voru nýlegar kynntar fyrir ríkisstjórn. Þær voru í kjölfarið ræddar í ráðherranefnd um samræmingu mála og ákveðið að útvíkka þær enn frekar í samráði við forsætisráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og auka áður áætlað fjármagn í aðgerðir úr 170 milljónum króna í 225 milljónir króna. Auk aðgerða sem miða að forvörnum, meðferð, endurhæfingu og skaðaminnkun verður gagnasöfnun tengd vímuefnavanda samræmd og efld. Áhersla verður jafnframt lögð á stefnumótun, aukna upplýsingagjöf og fræðslu til almennings.

Aukið fjármagn í rannsóknir, gagnasöfnun og upplýsingamiðlun

Verkefni og aðgerðir sem ráðist verður í á þessu ári eru fjölmörg. Fjármagn verður eyrnamerkt styrkjum til félagasamtaka í verkefni til að vinna gegn fíknisjúkdómum, veita lágþröskuldaþjónustu, stuðning, fræðslu og styðja við fjölskyldur og aðstandendur einstaklinga með fíknisjúkdóma. Aðgengi að viðhaldsmeðferð verður aukið og aðgengi að neyðarlyfi við ofskömmtun ópíóíða bætt enn frekar um allt land. Viðbragðsþjónusta verður efld, afeitrunarplássum fjölgað og samstarf stofnana fyrir fólk í vanda með áherslu—á ópíóíðamisnotkun—verður aukið. Einnig verður ráðist í tilraunaverkefni að norskri fyrirmynd um þverfaglega endurhæfingu við ópíóíðafíkn.

Ráðist verður í vinnu þvert á viðeigandi ráðuneyti og stofnanir við að samræma öflun og birtingu gagna sem gefa raunsanna mynd af umfangi vandans og þróun þessara mála. Með því móti fæst betri yfirsýn, forgangsröðun verður markvissari, öll umræða verður gegnsærri og ákvarðanataka verður markvissari. Setja þarf upp rafrænt skráningarkerfi og gagnagrunn í þessu skyni. Enn fremur verður hlutverk Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum aukið og rannsóknargeta efld með áherslu á mælingar, rannsóknir og tölfræði sem tengjast fíknisjúkdómum. Að lokum er vert að nefna að rekstur neyslurýmis hefur nú þegar verið fjármagnaður af heilbrigðisráðuneytinu og beðið er eftir að Reykjavíkurborg finni neyslurými varanlegt húsnæði.

Stefnumótun um fíknisjúkdóma

Alþingi samþykkti á liðnu ári ályktun um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum er nú til umfjöllunar í þinginu. Þar eru lagðar til fjölmargar aðgerðir sem snúa almennt að geðþjónustu þvert á velferðarkerfið og munu nýtast vel við að þróa og efla þjónustu m.a. vegna fíknisjúkdóma. Til lengri tíma litið er mikilvægt að móta heildstæða stefnu um fíknisjúkdóma sem tekur til forvarna, heilsueflingar, skaðaminnkunar, greiningar, meðferðar og endurhæfingar með áherslu á samvinnu og samhæfingu. Því hefur undirritaður ákveðið að hefja þá vinnu.

Skaðaminnkun

Á liðnum árum hefur hugmyndafræði skaðaminnkunar rutt sér til rúms víða um heim. Skaðaminnkun miðar að því að draga úr skaðlegum afleiðingum hegðunar eða lífsstíls, óháð því hvort hún sé æskileg, lögleg eða ólögleg. Skaðaminnkandi úrræði í fíknisjúkdómum eru meðal annars lyfjameðferð við ópíóðum, neyslurými og afglæpavæðing. Hér á landi hafa nú þegar verið stigin mikilvæg skref varðandi þróun og innleiðingu skaðaminnkandi úrræða en það er tímabært að taka enn stærri skref og vinna að stefnu og aðgerðaáætlun sem styður við það.

Skýr stefna er nauðsynleg

Í viðkvæmum málaflokkum skiptir miklu máli að skýr stefna liggi fyrir til að skapa sátt um aðgerðir. Sérstaklega þegar þær þarfnast aðkomu margra ólíkra hagsmunaaðila. Undirritaður hefur því ákveðið að hefja vinnu við að móta stefnu í skaðaminnkun út frá þeirri þekkingu og reynslu sem hefur myndast og þróa aðgerðaáætlun byggða á henni. Sú vinna mun einnig styrkja og tengjast heildarstefnumótun fyrir fíknisjúkdóma. Starfshópurinn sem verður skipaður er hugsaður sem fámennur kjarnahópur sem verður falið að hafa vítt samráð og eiga virkt samtal við helstu hagaðila til að stuðla að samþættingu, samvinnu og sátt.

Víðtækt samstarf

Vímuefnavandinn er fjölþættur og ekki aðeins einskorðaður við ópíóða eða alvarlegustu birtingarmynd vandans, ótímabær dauðsföll. Því þarf að nálgast verkefnið heildstætt. Hér á landi eru dauðsföll af völdum eitrana ávana- og fíkniefna í flestum tilfellum vegna blandaðrar neyslu og í gegnum tíðina hafa ófá dauðsföll orðið af óbeinum völdum ávana- og fíkniefna sem erfiðara er að henda reiður á. Þegar kemur að ópíóðum vitum við að þeir eru einna hættulegastir vímuefna og því er full ástæða til að rýna í stöðuna og kanna hvar þarf að þétta öryggisnetið. Eitt dauðsfall af völdum vímuefna er einu dauðsfalli of mikið.

Þau verkefni sem hér hefur verið fjallað um kalla á víðtækt samstarf og samráð milli áðurnefndra ráðuneyta, stofnana, stjórnsýslustiga og félagasamtaka til að ná þeim árangri sem að er stefnt. Síðast en ekki síst skiptir aðkoma einstaklinga í vanda og aðstandenda þeirra miklu máli og því verður aukin áhersla á notendasamráð og notendamiðaða þjónustu, hvort sem fjallað er um þau úrræði sem þegar eru fyrir hendi, þróun nýrra úrræða eða stefnumótun.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. maí 2023.

Categories
Greinar

Umferðaröryggi stóreflt!

Deila grein

25/05/2023

Umferðaröryggi stóreflt!

Þann 8. apríl 2020 skrifuðu fulltrúar Vegagerðarinnar og Íslenskra aðalverktaka undir samning um annan áfanga breikkunar Suðurlandsvegar á milli Selfoss og Hveragerðis. Verkinu átti skv. þeim samningi að ljúka haustið 2023.

Í dag er Suðurlandsvegur orðinn tvöfaldur að stórum hluta en hér er um að ræða nýbyggingu Hringvegarins að hluta og breikkun og endurgerð að hluta á alls 7,1 km kafla. Á þeim kafla sem um ræðir hafa fjölmörg og alvarleg slys átt sér stað í gegnum tíðina. Umferðarþungi mikill og fjölmargir leggja leið sína um hann á degi hverjum til dæmis til vinnu eða í frí austur fyrir Hellisheiði. Markmið framkvæmdarinnar var að bæta umferðaröryggi og tryggja greiðari samgöngur um Suðurlandsveg. Framkvæmdin hefur óneitanlega mikil og jákvæð áhrif á samfélagið í heild á Suðurlandi.

Slysatíðni á Suðurlandsvegi hefur verið mikil undanförnum árum og alvarleg umferðarslys verið fleiri en við kærum okkur um. Ferðamenn leggja leið sína á Suðurlandið og samfélagið austan Hellisheiðar er sívaxandi og tækifærin fjölmörg sem þar eru. Fólksfjölgun mikil og stór hluti þeirra sem hafa flutt þangað m.a. sækja störf á Höfuðborgarsvæðið. Það skiptir fólk máli að upplifa öryggi á vegunum okkar og það hefur verið talið grundvöllur að stækkandi vinnusóknarsvæði víða um land. Þar af leiðandi fagna ég því að þessi framkvæmd sé orðin að veruleika en ekki stóð til að hleypa umferð inn á nýja vegarkaflann fyrr en í haust. Nú er svo komið að vegurinn hefur verið formlega opnaður og er verkefnið því um það bil 3 mánuðum á undan áætlun.

Ölfusárbrúin

Þessu til viðbótar mun ný Ölfusárbrú verða að veruleika því þann 6. mars sl. óskaði Vegagerðin eftir þátttakendum í alútboð vegna byggingar nýrrar brúar á Ölfusá ásamt aðliggjandi vegum, vegamótum, brúm og undirgöngum en stefnt er að því að klára verksamning um verkefnið fyrir lok þessa árs. Samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir að framkvæmdirnar taki rúmlega tvö ár og því hægt að áætla að öllu óbreyttu að Sunnlendingar fái að keyra um nýja Ölfusárbrú árið 2026. Þar er annar áfangi sem beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu og því ánægjulegt að það verkefni sé komið af stað.

Umferðaröryggi er forgangsmál

Það er augljóst að frá því að Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra tók við samgöngumálunum hér á landi hefur umferðaröryggi aukist til muna en það hefur verið forgangsmál ráðherra og okkar í Framsókn. Við erum hvergi nærri hætt á þessari vegferð og haldið verður stöðugt áfram að bæta samgöngur hér á landi með umferðaröryggi í forgrunni í þeirri vinnu. Ég má til að senda þakkir til Sigurðar Inga, innviðaráðherra, fyrir hans ötulu baráttu í þágu umferðaröryggis og einnig vil ég hrósa öllum þeim sem að verkinu stóðu. Það hefur verið virkilega aðdáunarvert að keyra í gegnum framkvæmdasvæðið á hverjum degi og finna á eigin skinni þær umbætur sem hafa orðið á veginum. Þetta er verkefni sem markar tímamót í vinnu okkar að auknu umferðaröryggi í landinu við finnum öll fyrir umbótum sem þessum.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á sunnlenska.is 25. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Tvö­földun Reykja­nes­brautarinnar, takk fyrir!

Deila grein

23/05/2023

Tvö­földun Reykja­nes­brautarinnar, takk fyrir!

Það var á sumarmánuðum 2019 sem þáverandi bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hófu viðræður við innviðaráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, um að flýta framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni að mislægum gatnamótum við Krýsuvík. Þetta krafðist mikillar vinnu og meðal annars góðs samstarfs við Vegagerðina, Carbfix og álverið í Straumsvík um skipulagsmál á svæðinu.

Á sínum tíma voru áform uppi um stækkun álversins í Straumsvík og keypti álverið þá land undir þá fyrirhuguðu stækkun. Á því landi sem álverið keypti liggur núverandi vegstæði Reykjanesbrautarinnar. Vegna þessa var vegstæði Reykjanesbrautarinnar á aðalskipulagi Hafnarfjarðarbæjar fært ofar og átti sá flutningur brautarinnar að eiga sér stað um leið og álverið þyrfti landið og lóðina til stækkunar. Áform álversins um stækkun voru hins vegar felld naumlega í vel þekktri íbúakosningu árið 2007 og varð því ekkert af tilfærslu brautarinnar.

Skýrsla Vegagerðarinnar og Mannvits sýndi að hagkvæmast væri að breikka Reykjanesbrautina í núverandi vegstæði í stað þess að færa hana líkt og aðalskipulagið gerði ráð fyrir. Góð og lausnamiðuð samtöl við Sigurð Inga Jóhannsson innviðráðherra, fulltrúa Vegagerðarinnar og álversins í Straumsvík urðu svo til þess að þessari mikilvægu framkvæmd var flýtt og aðalskipulagi bæjarfélagsins breytt. Hér er um að ræða 5,6 kílómetra vegkafla, en einnig byggingu brúarmannvirkja og undirganga fyrir akandi, gangandi og hjólandi. Fyrir alla þessa vinnu og skilning ber að þakka og þar set ég undir alla þá aðila sem að þessum málum komu með einum eða öðrum hætti.

Þann 17. maí skrifuðu Vegagerðin og ÍAV undir verksamning um þessa mikilvægu framkvæmd. ÍAV bauð tæpa fjóra milljarða í verkið sem er talsvert undir þeirri kostnaðaráætlun sem lagt var upp með. Undirbúningur hefst strax og framkvæmdir munu hefjast í sumar. Umferðaröryggi er málefni sem snertir okkur öll og nú hyllir undir að kláraðar verði framkvæmdir við tvo slysamestu vegi landsins, Suðurlandsveg og svo Reykjanesbraut. Þetta eru því mikil gleðitíðindi fyrir okkur Hafnfirðinga og landsmenn alla.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

126 milljarða tekjur í menningu

Deila grein

23/05/2023

126 milljarða tekjur í menningu

Ný­verið samþykkti Alþingi til­lög­ur mín­ar til þings­álykt­an­ir um mynd­list­ar­stefnu og tón­list­ar­stefnu til árs­ins 2030 ásamt því að samþykkja frum­varp um fyrstu heild­ar­lög­gjöf um tónlist á Íslandi. Mark­miðið er skýrt; að efla um­gjörð þess­ara list­greina til framtíðar.

Með mynd­list­ar­stefn­unni er sett framtíðar­sýn mynd­list­ar­um­hverf­is­ins til árs­ins 2030 með meg­in­mark­miðum um að á Íslandi ríki kraft­mik­il mynd­list­ar­menn­ing, að stuðnings­kerfi mynd­list­ar á Íslandi verði ein­falt og skil­virkt, að ís­lensk mynd­list verði sýni­leg og vax­andi at­vinnu­grein og að ís­lensk mynd­list skipi alþjóðleg­an sess.

Lagðar eru til mark­viss­ar aðgerðir til að ein­falda en að sama skapi styrkja stofn­ana- og stuðnings­kerfi mynd­list­ar og hlúa mark­viss­ar en áður að innviðum at­vinnu­lífs mynd­list­ar. Með því má bæta sam­keppn­is­hæfni fyr­ir­tækja og efla út­flutn­ing og markaðssetn­ingu á ís­lenskri mynd­list.

Ný tón­list­ar­stefna og heild­ar­lög­gjöf um tónlist er af sama meiði; að efla um­gjörð tón­list­ar­lífs­ins á Íslandi. Með lög­un­um hill­ir und­ir nýja Tón­list­armiðstöð sem stofnuð verður í ár og er ætlað að sinna upp­bygg­ingu og stuðningi við hvers kon­ar tón­list­ar­starf­semi sem og út­flutn­ings­verk­efni allra tón­list­ar­greina. Þar að auki mun miðstöðin sinna skrán­ingu, um­sýslu og miðlun ís­lenskra tón­verka. Með stofn­un Tón­list­armiðstöðvar er stigið stórt skref í átt­ina að því að veita list­grein­inni aukið vægi og til að greiða leið ís­lensks tón­listar­fólks, inn­an lands sem utan. Nýr og stærri Tón­list­ar­sjóður verður einnig að veru­leika. Mun hann sam­eina þrjá sjóði sem fyr­ir eru á sviði tón­list­ar. Lyk­il­hlut­verk hans verður að efla ís­lenska tónlist, hljóðrita­gerð og þró­un­ar­starf í tón­list­ariðnaði. Með til­komu sjóðsins verður styrkjaum­hverfi tón­list­ar ein­faldað til muna og skil­virkni og slag­kraft­ur auk­in veru­lega!

Í lög­un­um er sömu­leiðis að finna ákvæði um sér­stakt tón­list­ar­ráð sem verður stjórn­völd­um og tón­list­armiðstöð til ráðgjaf­ar um mál­efni tón­list­ar. Tón­list­ar­ráði er ætlað að vera öfl­ug­ur sam­ráðsvett­vang­ur milli stjórn­valda, Tón­list­armiðstöðvar og tón­list­ar­geir­ans enda felst í því mik­ill styrk­ur að ólík og fjöl­breytt sjón­ar­mið komi fram við alla stefnu­mót­un­ar­vinnu á sviði tón­list­ar.

Of­an­greint mun skipta miklu máli til að styðja enn frek­ar við menn­ingu og skap­andi grein­ar á land­inu og styðja vöxt þeirra sem at­vinnu­greina. Til marks um um­fang þeirra þá birti Hag­stof­an ný­verið upp­færða Menn­ing­ar­vísa í annað sinn. Sam­kvæmt þeim voru rekstr­ar­tekj­ur í menn­ingu og skap­andi grein­um rúm­lega 126 millj­arðar króna árið 2021 og hækkuðu um 5,6% frá fyrra ári. Þá starfa um 15.400 ein­stak­ling­ar á aldr­in­um 16-74 við menn­ingu, eða um 7,3% af heild­ar­fjölda starf­andi, sam­kvæmt vinnu­markaðsrann­sókn Hag­stof­unn­ar.

Ég er staðráðin í því að halda áfram að tryggja und­ir­stöður þess­ara greina þannig að þær skapi auk­in lífs­gæði og verðmæti fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag til framtíðar. Ég vil einnig þakka þeim kraft­mikla hópi fólks úr gras­rót­inni sem kom að fyrr­nefndri stefnu­mót­un, fram­lag þess skipti veru­legu máli.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Samdráttur í byggingu íbúða – hvað er til ráða?

Deila grein

19/05/2023

Samdráttur í byggingu íbúða – hvað er til ráða?

Mér er hugsað til þeirra orða sem Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, lét falla á vaxtaákvörðunarfundi bankans í maí 2021. Þar sagði hann að ákvörðun Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að byggja ekki íbúðir og ný hverfi á nýju landi væri meðal annars ástæða þess að fasteignaverð hafi hækkað á þeim tíma. Ég held að þetta hafi verið hárrétt mat hjá seðlabankastjóra þá og við bæði erum og verðum áfram á sama stað ef ekki verður stefnubreyting hjá sveitarfélögunum hér á höfuðborgarsvæðinu í þessum málum.

Sífelldar hækkanir eru farnar að hafa veruleg áhrif á fjárhag fólks og gengur þetta ekki til lengdar. Okkar helsta verkefni er því að ná tökum á verðbólgunni sem er of mikil um þessar mundir. Þar er margt sem hefur áhrif, en augljóst er að það ójafnvægi sem hér hefur ríkt á húsnæðismarkaði á undanförnum árum og sú staðreynd að hér hefur ekki verið byggt nægilega mikið af íbúðum hefur haft mikil og neikvæð áhrif á þróun verðbólgunnar.

Vond tíðindi úr nýlegri greiningu Samtaka iðnaðarins

Í byrjun maí kynntu Samtök iðnaðarins greiningu sem unnin var að þeirra frumkvæði um uppbyggingu íbúða, en í henni var gerð könnun meðal verktaka sem byggja íbúðir í eigin reikning. Greiningin gefur til kynna að verulegur samdráttur sé fram undan í byggingu nýrra íbúða næstu tólf mánuði og að fjöldi íbúða í byggingu verði 65% færri en tólf mánuðina þar á undan. Þetta eru tölur sem við viljum ekki sjá og eru algjörlega þvert á það sem þörf er á og nauðsynlegt er. Nokkrar ástæður eru tilgreindar fyrir þessum harkalega samdrætti og má þar meðal annars nefna að fjármagnskostnaður hefur hækkað gríðarlega og að sala eigna hefur gengið erfiðlega upp á síðkastið, sem er bein afleiðing þeirra harkalegu aðgerða sem Seðlabanka Íslands réðst í og snerta lánþegaskilyrðin sérstaklega. Þar voru sett þrengri viðmið fyrir greiðslumat og heimild lækkuð til veðsetningar við kaup á fyrstu íbúð. Þetta er meðal þeirra þjóðhagsvarúðartækja sem Seðlabankinn hefur úr að spila til að takmarka kerfisáhættu og lágmarka hættuna á fjármálaáföllum. Þessi aðgerð hefur hins vegar útilokað fyrstu kaupendur og aðra hópa, svo sem þá sem einstæðir eru og tekjulægri. Skortur á þessum kaupendum inn á markaðinn hefur rofið keðjuna. Hér er að myndast snjóhengja af kynslóðum sem munu á einhverjum tímapunkti ryðjast út á markaðinn með miklum afleiðingum ef ekkert verður að gert. Hér vantar eignir og því eru allar fréttir um samdrátt í uppbyggingu húsnæðis vondar og kalla á raunverulegar aðgerðir sem hafa raunveruleg áhrif.

Leiðin að lausn vandans

  1. Fjölgum lóðum: Tökum upp Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins án kollvörpunar á hugmyndafræði. Með þessum einfalda hætti er hægt að fjölga lóðum og byggja ný hverfi. Slíkt þarf áfram að haldast í hendur við skynsamlega og ekki síður nauðsynlega þéttingu byggðar. Sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu verða öll að hafa svigrúm og getu til að taka þátt í þeirri nauðsynlegu uppbyggingu íbúðarhúsnæðis sem þörf er á.
  2. Stígum skref til baka: Nauðsynlegt er að stíga varfærin skref til baka þegar kemur að reglum lánþegaskilyrða. Þar þarf að breyta reglum er varða veðsetningu lána fyrstu kaupenda svo að auðveldara sé að festa kaup á húsnæði en samhliða horfa enn frekar á greiðslugetu. Við sjáum marga hafa góða greiðslugetu og vilja komast út á markaðinn og eignast húsnæði. Þetta eru jafnvel hópar sem eru nú þegar að greiða háa húsaleigu. Við höfum ekkert með það að gera að lausar íbúðir endi í höndum fjármagnseigenda með þeim afleiðingum að þeir ríku verði ríkari.
  3. Tímabundnar sértækar aðgerðir: Ráðast í sértækar aðgerðir fyrir þá sem fyrirhuga byggingu hagkvæmra íbúða á næstu mánuðum og þar má horfa til sérstakra lánaskilmála hjá fjármálafyrirtækjum og/eða undanskilja þá aðila frá fyrirhugaðri lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts úr 60% í 35% vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði.
  4. Þátttaka lífeyrissjóða í uppbyggingu heilbrigðs leigumarkaðar: Þá þurfa lífeyrissjóðirnir að axla ábyrgð og taka þátt í uppbyggingu heilbrigðs leigumarkaðar. Nauðsynlegar lagabreytingar eru að mínu mati engin fyrirstaða.
  5. Beitum hlutdeildarlánum enn frekar: Tímasetja þarf rýmkun á reglum og kröfum hvað varðar veitingu hlutdeildarlána til fyrstu kaupenda. Hér erum við með gott úrræði í höndunum sem nauðsynlegt er að beita við núverandi kringumstæður og gagnast vel ákveðnum hópum samfélagsins, sérstaklega þeim sem tekjulægri eru. Þetta mun ýta við framkvæmdaaðilum að byggja hentugar eignir í kerfið.

Öruggt húsnæði fyrir alla

Í einhvers konar hagfræðileik er vel hægt að færa fyrir því rök að þær aðgerðir sem ég legg hér til séu þensluhvetjandi, en líkt og ég hef margoft sagt áður, þá mun núverandi ástand einungis leiða til hærra leiguverðs og ýta undir mjög hátt fasteignaverð þegar núverandi ástand líður undir lok. Það mun aftur auka þrýsting á verðbólgu og hærri vexti (vegna skorts á eignum og mikillar eftirspurnar) – ástand sem hægt er að koma í veg fyrir og við viljum ekki sjá raungerast að óþörfu. Húsnæði er óneitanlega ein af grundvallarþörfum mannsins. Það að búa í öruggu húsnæði hefur áhrif á alla þætti okkar daglega lífs; allt frá líkamlegri og andlegri vellíðan til menntunar, efnahagslegs stöðugleika og aukinnar samheldni í samfélaginu.

Það er afar brýnt að tryggja áframhaldandi uppbyggingu húsnæðis á landinu og það á að vera forgangsverkefni stjórnvalda. Hér þurfa allir að taka þátt og ég hef áður rætt mikilvægi allra þessara aðgerða. Það má líkja þessu við keðju og aðgerðir sem þurfa allar að haldast í hendur. Aðgerð 3. væri þá sú sértæka aðgerð sem þyrfti til svo til tryggja mætti nauðsynlega uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til framtíðar og koma í veg fyrir fyrirsjáanlega stöðnun með miklum afleiðingum fyrir samfélagið í heild. Þær aðgerðir sem ég legg hér til eru ekki olía á eldinn heldur eru þær meðal á það ástand sem við erum í og eru leiðin í átt að betri heilsu samfélagsins.

Tökum höndum saman!

Ágúst Bjarni Garðssonar, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Greinin birtist fyrst á eyjan.is 18. maí 2023.