Categories
Greinar

160 prósent fjölgun útskrifaðra kennara

Deila grein

30/01/2023

160 prósent fjölgun útskrifaðra kennara

Þegar ég gekk inn í mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneytið í des­em­ber­mánuði 2017 blasti við að öllu óbreyttu yf­ir­vof­andi kenn­ara­skort­ur á Íslandi, en al­gjört hrun hafði orðið í braut­skrán­ing­um frá 2008; 80% í leik­skóla­kenn­ara­námi og 67% í grunn­skóla­kenn­ara­námi.

Sam­fé­lag án kenn­ara er ekki sam­keppn­is­hæft enda er kenn­ara­starfið mik­il­væg­asta starf sam­fé­lags­ins þar sem það legg­ur grunn­inn að öll­um öðrum störf­um. Kenn­ar­ar hafa leikið stórt hlut­verk í lífi okk­ar allra þar sem fyrstu tveir ára­tug­ir hverj­ar mann­eskju fara að tals­verðum hluta fram í kennslu­stofu. Við mun­um öll eft­ir kenn­ur­um sem höfðu mik­il áhrif á okk­ur sem ein­stak­linga, námsval og líðan í skóla. Góður kenn­ari skipt­ir sköp­um. Góður kenn­ari mót­ar framtíðina. Góður kenn­ari dýpk­ar skiln­ing á mál­efn­um og fær nem­andann til að hugsa af­stætt í leit að lausn­um á viðfangs­efn­um. Góður kenn­ari opn­ar augu nem­enda fyr­ir nýj­um hlut­um, hjálp­ar þeim áfram á beinu braut­inni og stend­ur við bakið á þeim sem þurfa á því að halda.

Það var því ekk­ert mik­il­væg­ara en að snúa þess­ari nei­kvæðu þróun við, tak­ast á við yf­ir­vof­andi kenn­ara­skort og sækja fram af full­um krafti fyr­ir kenn­ara­starfið. Strax í byrj­un síðasta kjör­tíma­bils var málið sett í for­gang í þáver­andi mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyti og voru aðgerðir kynnt­ar á fyrsta árs­fjórðungi 2019. Þær fólu í sér:

Launað starfs­nám fyr­ir nem­end­ur á loka­ári meist­ara­náms til kennslu­rétt­inda á leik- og grunn­skóla­stigi.

Náms­styrk til nem­enda á loka­ári meist­ara­náms til kennslu­rétt­inda á leik- og grunn­skóla­stigi til að auðvelda nem­end­um að sinna loka­verk­efn­um sín­um sam­hliða launuðu starfs­námi og skapa hvata til þess að nem­end­ur klári nám sitt á til­sett­um tíma.

Styrki til starf­andi kenn­ara til náms í starfstengdri leiðsögn til að fjölga kenn­ur­um í ís­lensk­um skól­um sem hafa þekk­ingu á mót­töku nýliða í kennslu.

Sam­hliða var kenn­ara­frum­varp lagt fram og samþykkt af Alþingi til að leiða til meiri sveigj­an­leika og flæðis kenn­ara milli skóla­stiga til þess að auka starfs­mögu­leika þeirra.

Ég er stolt og glöð nú fjór­um árum síðar að sjá frétt­ir þess efn­is að út­skrifuðum kenn­ur­um hafi fjölgað um 160% sé miðað við meðaltal ár­anna 2015-2019 sem var 174. 454 út­skrifuðust sem kenn­ar­ar árið 2022!

Þetta er stór­sig­ur fyr­ir sam­fé­lagið okk­ar og hefði aldrei tek­ist nema fyr­ir frá­bæra sam­vinnu mennta­mála­yf­ir­valda, Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, Kenn­ara­sam­bands Íslands, Há­skól­ans á Ak­ur­eyri, Menntavís­inda­sviðs Há­skóla Íslands, Lista­há­skóla Íslands, Sam­taka iðnaðar­ins og sam­tak­anna Heim­ili og skóli.

Þetta sýn­ir svart á hvítu að aðgerðir dags­ins í dag skipta sköp­um fyr­ir framtíðina og það er vel hægt að tak­ast vel á við stór­ar áskor­an­ir á til­tölu­lega stutt­um tíma þegar all­ir róa í sömu átt með sam­vinn­una að leiðarljósi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. mennta­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. janúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Ís­lenskt ra­f­elds­neyti í eigu þjóðarinnar

Deila grein

28/01/2023

Ís­lenskt ra­f­elds­neyti í eigu þjóðarinnar

Fyrir áramótin mælti ég fyrir tillögu minni til þingsályktunar á Alþingi um að fela ríkisstjórninni að taka til frumathugunar stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi. Líta má við þessa frumathugun til starfsemi Equinor í Noregi, fyrrum Statoil, sem er nú 67% í eigu norska ríkisins.

Rafeldsneyti og framtíðin

Hugmyndin að þessari þingsályktunartillögu er nokkuð löng en orkuskiptin hafa kallað á umræðu um rafeldsneyti sem einn af þeim orkukostum sem til greina koma sem eldsneyti framtíðarinnar.

Við sem þjóð höfum ákveðin markmið í átt að kolefnishlutleysi og ætlum okkur að standast skuldbindingar okkar í loftlagsmálum. Ásamt því að framleiða endurnýjanlega orkugjafa til að fullnægja þörfum innanlands, liggja einnig gríðarleg tækifæri í að hefja útflutning á rafeldsneyti. Framleiðsla á rafeldsneyti er kostnaðarsöm aðgerð en þó framleiðsla á rafeldsneyti og sala sé í dag hlutfallslega lítil þá er áhugi fjárfesta mikill og það felast ákveðin tækifæri í því að fjármagna framleiðsluna þegar markaðir eru orðnir tryggir. Á heimsvísu er gert ráð fyrir að kostnaðarliðir fari lækkandi á næstu árum. Eitt af tækifærum Íslands við framleiðslu rafeldsneytis er að nýta mögulega árstíðabundna umframorku og hámarka arðsemi.

Fjölmargir aðilar hafa sýnt áhuga á að hefja framleiðslu á rafeldsneyti hér á landi sem er jákvætt. Er bæði um innlenda en þó aðallega erlenda aðila að ræða. Forstjóri Landsvirkjunar hefur sagt opinberlega að Landsvirkjun sé ekki að fara að leggja til orku í slík verkefni enda sé hún ekki til í því magni sem þarf til að slík framleiðsla beri sig. En áhugi þessara aðila er til kominn sökum þess að tækifærin í því að framleiða grænt rafeldsneyti hér á landi eru gríðarleg og mjög ábatasöm fjárfesting til lengri tíma litið. Rafeldsneytisframleiðsla er einnig stór þáttur í orkuskiptum þjóðarinnar og partur af því að ná þeim markmiðum í loftlagsmálum sem við höfum sett okkur.

Gagnrýnt hefur verið á undanförnum árum að arður stóriðjunnar og fiskeldis hér á landi fari úr landi. Gera má ráð fyrir að svipuð umræða fari af stað þegar umsóknir rafeldsneytisfyrirtækjanna koma til afgreiðslu. Til að skapa megi um það betri sátt hef ég horft til Noregs og hvernig Norðmenn, árið 1972 stofnuðu Statoil, ríkisrekið olíufyrirtæki, til að halda utan um vinnslu og dreifingu á olíu og gasi sem fyrirtækið vinnur í norskri lögsögu.

Nýtum sóknarfærin

Framangreint leiðir okkur að þeirri spurningu hvort ekki sé skynsamlegt að stofnað verði fyrirtæki í eigu ríkisins, jafnvel undir eða í samstarfi við Landsvirkjun sem sjái um framleiðslu á rafeldsneyti til orkuskipta á Íslandi með möguleika á útflutningi, enda óljóst hvort markaður hér á landi sé nægilega stór svo framkvæmdin sé arðbær. Með þessu móti getum við orðið sjálfbær um orku, stigið risa skref í orkuskiptum og stutt við markmið stjórnvalda í loftlagsmálum. Arðinn af framkvæmdinni mætti setja í samfélagssjóð, að fyrirmynd Norðmanna, ásamt hluta eða öllum hagnaði Landsvirkjunar og því ljóst að um verulegar upphæðir yrði að ræða á ári hverju. Slíkan sjóð mætti t.d. nota til að bregðast við áföllum í efnahagslífi landsins eða öðrum óvæntum atvikum sem við þekkjum því miður aðeins of vel þessi misserin. Högg ríkissjóðs yrði þá minna og efnahagslegur stöðugleiki meiri.

Ég vona að vel verði tekið í tillöguna, en í henni er óskað eftir því að málið verði skoðað. Ég er sannfærður um að framleiðsla á íslensku rafeldsneyti í eigu þjóðarinnar sé farsælt skref og muni skila okkur áfram í orkuskiptunum og setja Ísland í sérflokk þegar kemur að sjálfbærni í orkumálum.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. janúar 2023.

Categories
Greinar

Gott sam­fé­lag

Deila grein

27/01/2023

Gott sam­fé­lag

Hvað er samfélag og hvað einkennir gott samfélag? Ég held að við flest teljum að við tilheyrum og séum hluti af góðu samfélagi.

Ég sjálfur er alinn upp í Hafnarfirði og bý þar ásamt fjölskyldu minni. Þar var gott að alast upp, þar er gott vera og þar er gott að ala upp börnin sín.

Vaxtarverkir

Hafnarfjörður hefur stækkað gríðarlega frá því að ég sleit barnsskónum, en í þeirri miklu stækkun og öllum þeim vaxtarverkjum sem slíku fylgir tel ég að vel hafi tekist til við að halda utan um fólkið.

Hafnarfjörður er bær í sveit ef svo má segja og ég tel almennt að íbúar upplifi sig sem hluta af heild, þátttakendur í góðu samfélagi. Það er mikilvægt.

Góð umgjörð

Ég veit að þegar á reynir er samhugurinn mikill í samfélaginu. Það þekki ég úr mínum heimabæ. Fólk stendur saman þegar á bjátar, það er tilbúið að koma og rétta fram hjálparhönd eða sýna samkennd með öðrum hætti.

Við erum gott samfélag með góða umgjörð, en það er eins og annað í lífinu að víða má gera betur og laga til eða fínstilla ákveðna þætti eins og það er stundum orðað.

Samstaða og samfélagsleg ábyrgð

Íbúar um allt land finna nú fyrir þeim miklu hækkunum sem eru að verða hvar sem litið er. Við sjáum það á lánum okkar, leigugreiðslum, matarkörfunni, tryggingum og svo mætti lengi telja.

Fólk tekur eftir og finnur fyrir því á eigin skinni að þetta hefur áhrif á fjármálin. Það reynir því víða á um þessar mundir og mikilvægt að sýna samstöðu og samfélagslega ábyrgð í því verkefni að ná niður verðbólgu.

Breiðu bökin

Nú reynir einnig á hin svokölluðu breiðu bök og að þau sýni að ekki þurfi að velta öllum hækkunum beint út í samfélagið með tilheyrandi áhrifum á fjármál heimila. Þau geta, en það er víst annað en að vilja.

Ágúst Bjarni Garðsson, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. janúar 2023.

Categories
Greinar

Fram­farir í þágu þol­enda of­beldis

Deila grein

26/01/2023

Fram­farir í þágu þol­enda of­beldis

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra í samstarfi við dómsmálaráðherra, hafa tekið höndum saman í að tryggja brotaþolum kynferðisofbeldis viðeigandi stuðning hjá sálfræðingi að lokinni skýrslutöku hjá lögreglu. Meðfram því á að stuðla að aukinni samvinnu lögreglu og heilbrigðiskerfisins um þjónustu vegna kynferðisofbeldis í samræmi við tillögur starfshóps um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynbundnu ofbeldi. Framangreint er ein af áherslum ríkisstjórnarinnar og einnig kemur þetta fram í aðgerðaráætlun um bætta meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu sem gildir til lok árs 2022. Þar segir að tryggja þurfi brotaþolum viðeigandi stuðning innan kerfisins, s.s. sálfræðimeðferð innan heilbrigðiskerfisins eða önnur úrræði óháð búsetu og efnahag, meðal annars eftir skýrslutöku hjá lögreglu.

Reglubundið samráð

Dómsmálaráðherra mun síðan styrkja reglubundið samráð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og starfsmanna neyðarmóttöku og áfallateymis LSH um þjónustu við brotaþola kynferðisofbeldis. Það felur m.a. í sér hvernig lögregla skuli standa að tilvísun sem tryggir brotaþolum stuðningsviðtal sálfræðings að lokinni skýrslutöku og tryggja þar með rétta miðlun upplýsinga um meðferð mála innan réttarvörslukerfisins til brotaþola. Þá skal Rannsóknarmiðstöð gegn ofbeldi við Háskólann á Akureyri framkvæma úttekt á árangri samstarfsins auk þess sem gerð verður úttekt á reynslu lögreglu og heilbrigðisstarfsfólks af því aukna samstarfi sem hér er lýst.

Þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis

Þá hefur félags- og vinnumarkaðsráðherra, í samvinnu við heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra, ákveðið að ráðast í greiningu á þjónustumiðstöðvum fyrir þolendur ofbeldis. Kortlögð verður aðkoma, hlutverk og ábyrgð ráðuneyta, sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila, einkum þolendasamtaka að rekstri þeirra og leggja á að því drög að fyrirkomulagi til framtíðar. Vinnan hefur það markmið að finna hentugustu leiðina til að tryggja framtíðarstarfsemi þolendamiðstöðva á Íslandi, bæði út frá skiptingu verkefna milli ráðuneyta og stjórnsýslustiga og við að móta stefnu um aðkomu lögreglunnar að þjónustumiðstöðvum. Einnig verður tekin inn í vinnuna samræming við verklag lögreglu í heimilisofbeldismálum sem og við rannsókn á öðrum ofbeldisbrotum. Þá hefur verið ákveðið að veita lögregluembættum sem hafa beina aðkomu að stjórnun þjónustumiðstöðva 18 millj. kr. styrk til að þróa áfram þverfaglegt og svæðisbundið samstarf í því skyni að efla stuðning og vernd brotaþola en það er í samræmi við ákvæði Istanbúlsamningsins. Embættunum er svo falið að veita nauðsynlega aðstoð við greiningu á framtíðarfyrirkomulagi þjónustumiðstöðva og huga að því að samræma og kynna starfsemi miðstöðvanna með það fyrir augum að samræma og kynna starfsemina út um allt land.

Aðgerðir í þágu þolenda og samstarf milli stofnana

Í Samráðsgátt Stjórnvalda þann 21. desember síðastliðinn birtust áform um fyrirhugað lagafrumvarp frá heilbrigðisráðuneytinu um það að lögfesta skýra heimild fyrir heilbrigðisstarfsmenn til að upplýsa lögreglu um heimilisofbeldismál sem rata inn á borð heilbrigðisstarfsmanna að höfðu samráði við þolanda og til að miðla nauðsynlegum upplýsingum til lögreglu í málum vegna sérstaklega hættulegra einstaklinga. Þar kemur einnig fram að ef um ítrekaðar komur vegna heimilisofbeldis á heilbrigðisstofnun er að ræða, ef ófrísk kona kemur á heilbrigðisstofnun í kjölfar heimilisofbeldis og/eða ef þolandi greinir frá því að hafa verið tekinn kyrkingartaki í tengslum við heimilisofbeldi myndi samræmt verklag heilbrigðisstofnana vegna móttöku þolenda heimilisofbeldis virkjast og lögregla þegar í stað upplýst um málið að höfðu samráði við þolanda. Það er mikilvægt að slíkt samráð sé til staðar svo það verði ekki fælandi fyrir þolendur að leita sér heilbrigðisþjónustu og að heilbrigðisstarfsmenn líti ekki á það sem þvingun því rannsóknir hafa sýnt fram á að skyldutilkynning er slæm ef hún er ekki í samráði við sjúklinginn bæði fyrir þolanda og heilbrigðisstarfsmanninn.

Með fyrirhuguðu lagafrumvarpi yrði sett skýr lagaheimild fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að taka við og til að miðla upplýsingum til lögreglu vegna sérstaklega hættulegra einstaklinga að fengnu rökstuddu mati lögreglu um að viðkomandi einstaklingur sé verulega hættulegur. Miðlun þeirra upplýsinga færi þá fram á lokuðum fundum í formi þverfaglegs samráðs og að frumkvæði lögreglu. Þetta er almannaheillamál og mikilvægt skref því samkvæmt 2. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu þá ber okkur að vernda rétt hvers manns til lífs með lögum.

Eins og staðan er í dag þá eru heilbrigðisstarfsmenn bundnir fyllstu þagmælsku samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn og mega aðeins víkja frá þagnaskyldunni vegna brýnnar nauðsynjar, á grundvelli samþykkis sjúklings eða ákvæðum annarra laga líkt og barnaverndarlaga o.þ.h. Skilyrðið um þessa brýnu nauðsyn getur talist uppfyllt í heimilisofbeldismálum en það hefur reynst vera mjög matskennt og ekki til þess fallið að hagur og öryggi þolenda sé í forgrunni. Það skiptir máli vegna alvarleika heimilisofbeldismála gagnvart þolendum og jafnvel þeim börn sem á heimilinu búa, stöðu þolenda almennt og í ljósi þess að heimildir til að tilkynna lögreglu um heimilisofbeldi eru óljósar er brýnt að endurskoða lögin og veita heilbrigðisstarfsfólki sérstaka heimild til að tilkynna lögreglu um heimilisofbeldi. Slík lagabreyting myndi hafa það í för með sér að lögreglu yrði í auknum mæli gert kleift að veita aðstoð sína, þar sem líkur eru á að þolendur heimilisofbeldis veigri sér oft við að leita réttar síns og þekki jafnvel réttindi sín ekki nægilega vel við þær aðstæður. Án lagabreytingar geta lög og reglur hvað varðar þagnarskyldu hamlað framgangi mála hjá lögreglu og jafnvel komið í veg fyrir að þolandi fái viðunandi aðstoð í réttarkerfinu og réttar upplýsingar um réttarstöðu sína.

Undirrituð lagði fram þingsályktunartillögu á haustþinginu þar sem dómsmálaráðherra yrði falið að setja á fót starfshóp sem myndi móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfa barnaverndaryfirvalda, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði m.a. falið að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda. Fyrirhugað frumvarp er fagnaðarefni í þessu samhengi, skýrt og mikilvægt skref í rétta átt til að tryggja öryggi þolenda heimilisofbeldis og þeirra barna sem verða fyrir áhrifum þess.

Með framangreindum aðgerðum er markmiðið að tryggja sem jafnast aðgengi þolenda að stuðningi og heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu, efnahag eða öðrum aðstæðum. Þá hefur einnig verið lagt til að ráðist verði í vinnu á skipulagðri fræðslu fyrir heilbrigðisstarfsfólk og það er yfirleitt einstaklingarnir sem fyrst mæta þolendum eftir ofbeldi. Lengi hefur verið kallað eftir skýrum aðgerðum í þessum málaflokki og því mikið fagnaðarefni að við séum að sjá breytingar og alvöru aðgerðir í þágu þolenda. Okkur ber að tryggja faglega og trausta þjónustu við þolendur og með þeim hætti að þeir upplifi raunverulega og trygga aðstoð eftir áfallið því þarna er um einstaklinga að ræða þar sem traust þeirra hefur verið brotið með mjög grófum hætti. Þessar aðgerðir eru sannarlega þáttur í því að tryggja öryggi og þjónustu við þolendur heimilisofbeldis.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. janúar 2023.

Categories
Greinar

Vaxandi vegur hönnunar og arkitektúrs

Deila grein

19/01/2023

Vaxandi vegur hönnunar og arkitektúrs

Á þessu kjör­tíma­bili verða mál­efni hönn­un­ar og arki­tekt­úrs í önd­vegi í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu í góðri sam­vinnu við hagaðila. Mark­mið þeirr­ar vinnu er skýrt; við ætl­um að kynna stefnu og aðgerðir sem skila ár­angri, fag­mennsku og gæðum til hags­bóta fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag. Ný hönn­un­ar­stefna verður mótuð og kynnt en henni er ætlað að virkja mannauð í hönn­un­ar­grein­um til þess að leysa brýn verk­efni sam­tím­ans, auka lífs­gæði og stuðla að sjálf­bærri verðmæta­sköp­un. Meðal lyk­ilaðgerða eru setn­ing laga um hönn­un og arki­tekt­úr, efl­ing Hönn­un­ar­sjóðs, bætt aðgengi ný­skap­andi hönn­un­ar­verk­efna að sam­keppn­is­sjóðum, end­ur­skoðun menn­ing­ar­stefnu í mann­virkja­gerð og að tryggja þátt­töku Íslands í Fen­eyjat­víær­ingn­um í arki­tekt­úr.

Í ár munu fram­lög til Hönn­un­ar­sjóðs hækka um 30 millj­ón­ir króna og um­fang sjóðsins því aukast í 80 m.kr. Sjóður­inn út­hlut­ar styrkj­um til marg­vís­legra verk­efna á sviði hönn­un­ar og arki­tekt­úrs en hlut­verk hans er að efla þekk­ingu, at­vinnu- og verðmæta­sköp­un og að stuðla að aukn­um út­flutn­ingi ís­lenskr­ar hönn­un­ar með því að styrkja kynn­ing­ar- og markaðsstarf er­lend­is.

Fyr­ir til­stilli fram­laga sjóðsins hef­ur mörg­um spenn­andi ný­skap­andi verk­efn­um verið hrint í fram­kvæmd og þau hjól halda mörg áfram að snú­ast af krafti, en sam­tals hafa 386 verk­efni hlotið styrk úr sjóðnum frá upp­hafi. Stuðning­ur úr Hönn­un­ar­sjóði er mik­il­væg lyfti­stöng og viður­kenn­ing, og oft fyrsta skref að ein­hverju stærra.

Það eru stór efna­hags­leg tæki­færi fólg­in í því að styðja við skap­andi grein­ar líkt og hönn­un og arki­tekt­úr með skipu­lögðum hætti. Næg­ir þar að líta til Dan­merk­ur þar sem um­fang hönn­un­ar, arki­tekt­úrs og annarra skap­andi greina hef­ur farið vax­andi í hag­kerf­inu und­an­far­in ár. Tug­ir þúsunda starfa eru inn­an slíkra greina þar í landi og hef­ur vöxt­ur í út­flutn­ingi þeirra verið um 4,8% ár­lega síðan 2011. Árið 2020 fóru út­flutn­ings­verðmæti skap­andi greina yfir 14 millj­arða evra en tísku­varn­ing­ur er til að mynda fjórða stærsta út­flutn­ings­stoð Dan­merk­ur.

Hönn­un og arki­tekt­úr snerta dag­legt líf okk­ar á ótal vegu og flest höf­um við skoðanir á hönn­un og arki­tekt­úr í ein­hverju formi. Ég hef sterka sann­fær­ingu fyr­ir því að leggja áherslu á að efla ís­lenska hönn­un og arki­tekt­úr, sem fag- og at­vinnu­grein, út­flutn­ings­grein og mik­il­væga aðferðafræði – sem mun á end­an­um leiða til auk­inna lífs­gæða fyr­ir sam­fé­lagið. Með hækk­un fram­laga í Hönn­un­ar­sjóð er stigið skref á þess­ari veg­ferð, slag­kraft­ur sjóðsins mun aukast og von­ir standa til þess að áhrifa hans gæti enn víðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. janúar 2023.

Categories
Greinar

Ný Þjóðar­höll tekur á sig mynd

Deila grein

17/01/2023

Ný Þjóðar­höll tekur á sig mynd

Það var fagnaðarefni að kynna mikilvægan áfanga í átt að nýrri Þjóðarhöll fyrir innanhússíþróttir í gær, ásamt forsætisráðherra og borgarstjóra. Við gerum öll kröfu til okkar íþróttafólks um framúrskarandi árangur og eðlilegt að okkar íþróttafólk geri kröfu til okkar um framúrskarandi aðstöðu til æfinga og keppni. Það er mér kappsmál að greiða götu þessarar uppbyggingar og erum við nú einu skrefi nær. Frumathugun er lokið og hefur Þjóðarhöllin tekið á sig mynd.

Eitt af mínum fyrstu verkum sem ráðherra íþróttamála var að skipa stýrihóp um undirbúning uppbyggingar þjóðarleikvanga fyrir innanhússíþróttir, knattspyrnu og frjálsíþróttir. Ákveðið var að byrja á Þjóðarhöllinni og vinna áfram að undirbúningi þjóðarleikvanga í knattspyrnu og frjálsíþróttum samhliða.

Verkefnið er unnið í breiðu samstarfi ríkis, borgar og íþróttahreyfingarinnar. Framkvæmdanefndin hóf störf í ágúst í kjölfar viljayfirlýsingar ríkis og borgar um byggingu nýrrar Þjóðarhallar. Hún nýtur ráðgjafar sérfræðinga í íþróttastarfi og skilar tillögum til stýrihópsins.

Laugardalshöllin, eins vel og hún hefur þjónað þjóðinni, er komin til ára sinna og uppfyllir ekki alþjóðakröfur. Ný höll verður stærri með 8.600 manns í sæti og allt að 12.000 manns á tónleikum í 19.000m2 húsnæði með bætta aðstöðu fyrir íþróttafólk, áhorfendur, skipuleggjendur og fjölmiðla.

Laugardalurinn, verður sem og áður, hjarta íþróttastarfs hérlendis. Þjóðarhöllin er fyrirhuguð sunnan Laugardalshallar upp að Suðurlandsbraut. Þannig næst góð tenging við almenningssamgöngur og önnur mannvirki á svæðinu.

Áhersla er á að Þjóðarhöllin verði fjölnota, að hún uppfylli þarfir íþróttafélaga og landsliða og alþjóðakröfur en nýtist einnig fyrir stóra viðburði s.s. tónleika og sýningar. Gert er ráð fyrir greiðu aðgengi almennings dagsdaglega með veitingarekstri, möguleikum til æfinga og góðu flæði milli Þjóðarhallar, Laugardalshallar og Frjálsíþróttarhallar sem áfram munu nýtast vel.

Málefni þjóðarleikvanga hafa lengi verið í umræðunni og málið brýnt. Gott samstarf stjórnvalda, borgar og íþróttahreyfingarinnar hefur gegnt lykilhlutverki í framgangi málsins og að finna útfærslu sem mætir þörfum samfélagsins. Við erum komin á góða ferð en nú þarf kné að fylgja kviði. Næstu skref eru að klára deiliskipulag og hefja útboð. Markmiðið er fyrirmyndaraðstaða til íþróttaiðkunar og keppni. Áfram Ísland.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. janúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Gott að eldast

Deila grein

13/01/2023

Gott að eldast

Breytingar í aldurssamsetningu þjóðarinnar eru ein af stóru áskorunum íslensks samfélags. Fjöldi eldra fólks eykst og hlutfall aldraðra af heildarmannfjölda fer ört hækkandi á næstu árum og áratugum. Kröfur eldra fólks til þjónustu hafa að sama skapi breyst verulega frá því sem áður var.

Því er þörf er á breyttum viðhorfum í þjónustu við eldra fólk með áherslu á aldursvænt, heilsueflandi og styðjandi samfélag. Af þessu tilefni mælti undirrituð fyrir þingsályktunartillögu í haust um markvissa öflun gagna um líðan, velferð og efnahag eldra fólks. Tillögu sem gengur út á að safna saman markvissum, samræmdum og tímanlegum upplýsingum um líðan, stöðu og velferð eldra fólks á hverjum tíma.

Markmiðið með þessari gagnaöflun er að geta mælt aðstæður eldra fólks svo hægt sé að marka stefnu til framtíðar, vinna að aðgerðaáætlun og úthluta fjármagni á rétta staði. Ánægjulegt er að segja frá því að vel var tekið undir þessa tillögu og hún hefur verið færð inn í annað og stærra verkefni.

Aðgerðaáætlun til fjögurra ára

Þær fréttir bárust í desember að Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra hefðu sett af stað vinnu við heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk.

Tillaga stjórnvalda birtist á samráðsgátt stjórnvalda 19. desember sl. og hófst þá opið samráð. Þar segir að aðgerðaáætluninni sé ætlað að vera leiðarvísir fyrir stjórnvöld til að skapa skýra framtíðarsýn um hvaða leiðir verði farnar til að bæta þjónustu við eldra fólk og vinna heildarstefnu sem felur í sér að eitt þjónustustig taki hnökralaust við af öðru, að ábyrgð á þjónustuþáttum milli aðila sé skýr og að gráum svæðum verði útrýmt.

Um er að ræða aðgerðaráætlun til fjögurra ára um þjónustu við eldra fólk og er markmiðið að tryggja að eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um ræðir heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu. Þá segir að mikilvægt sé að þjónustan sé veitt þegar hennar er þörf, á forsendum fólksins sjálfs og á réttu þjónustustigi. Farið verður samhliða í þróunarverkefni og prófanir sem nýtast munu til ákvarðanatöku um framtíðarfyrirkomulag þjónustu við eldra fólk.

Nú er því komin af stað heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk þar sem lögð verður áhersla á þjónustukeðjuna, það er; hjúkrunarheimilin, sérhæfða heimaþjónustu og endurhæfingu, dagþjálfun, heimaþjónustu félags- og heilbrigðisþjónustu ásamt þjónustu sveitarfélaga til þess að hámarka virkni.

Ólíkar þarfir

Ég fagna þessari vinnu enda skiptir það verulegu máli að huga að með allra besta móti að eldra fólki hér á landi. Hér er verið að fara af stað með verkefni í sama anda og farsæld í þágu barna þar sem einstaklingurinn er þungamiðjan sem verkefnið og velferðarkerfið snýst um.

Eldra fólk er fjölbreyttur hópur, það sem hentar einum, hentar ekki endilega öðrum. Það er mikilvægt að geta mætt einstaklingum á þeim stað þar sem þeir eru og þróa úrræði til þess að mæta mismunandi þörfum eldra fólks. Markmiðið ætti ávallt að vera að bæta lífsgæði ásamt því að viðhalda færni og virkni einstaklingsins en forvarnir, heilsuefling og endurhæfing spila stóran þátt í heilbrigðri öldrun þjóðarinnar.

Það er virkilega ánægjulegt að sjá þetta verkefni sé farið af stað enda, hér er um að ræða eitt af stóru áherslumálum okkar í Framsókn fyrir síðustu kosningar. Vinna er hafin af fullum krafti og breytingar munu strax fara að skila sér með margvíslegum hætti.

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. janúar 2023.

Categories
Greinar

Hlúð að framboðshlið hagkerfisins til að leysa krafta úr læðingi

Deila grein

12/01/2023

Hlúð að framboðshlið hagkerfisins til að leysa krafta úr læðingi

Verðbólga mæld­ist 9,7% á þriðja árs­fjórðungi og hækk­un hús­næðisliðar­ins var áfram sá þátt­ur sem hafði mest áhrif. Hins veg­ar varð líka nokk­ur hækk­un á verði ým­iss kon­ar þjón­ustu og mat­vöru. Af­leiðing­ar auk­inn­ar verðbólgu eru versn­andi lífs­kjör, auk­inn ójöfnuður og fjár­magns­kostnaður ásamt óróa í fjár­mála­kerf­inu. Það sem er merki­legt við þróun verðbólg­unn­ar er ekki aðeins að hún hafi auk­ist um heim all­an held­ur eru und­ir­liggj­andi or­sak­ir henn­ar, að und­an­skildu hús­næðis­verði hér á landi, af svipuðum toga: Hækk­un alþjóðlegs hrá­ol­íu- og olíu­verðs, fram­boðshnökr­ar ásamt auk­inni eft­ir­spurn í kjöl­far þrótt­mik­illa stuðningsaðgerða í rík­is- og pen­inga­mál­um til að vinna gegn efna­hags­sam­drætt­in­um í tengsl­um við far­sótt­ina. Þróun verðbólg­unn­ar er þó að breyt­ast ef við lít­um á stærstu hag­kerf­in. Verðbólga virðist vera á niður­leið í Evr­ópu, þar sem orku­verð hef­ur hjaðnað, en verðbólguþró­un­in í Banda­ríkj­um virðist áfram vera þrálát og það sama má segja um Ísland. Þessi tvö síðast­nefndu lönd eiga það sam­eig­in­legt að vinnu­markaður­inn er kröft­ug­ur. En hvað veld­ur og hvað er til ráða?

Sam­band verðbólgu og at­vinnu­stigs hef­ur verið að veikj­ast en…

Sam­band verðbólgu og at­vinnu­stigs hef­ur farið þverr­andi síðustu þrjá ára­tugi, þ.e. verðbólga hef­ur ekki verið eins næm fyr­ir slaka eða þenslu á vinnu­markaðnum. Marg­ar hagrann­sókn­ir benda til þess að skamm­tíma­sam­band verðbólgu og at­vinnu­leys­is hafi verið að fletj­ast út eins og það birt­ist í hag­fræðinni í svo­kallaðri Phillips-kúrfu. Líta má á tvær meg­in­skýr­ing­ar að mínu mati. Ann­ars veg­ar: Auk­in alþjóðavæðing, þar sem ver­öld­in er að ein­hverju leyti orðin að ein­um markaði. Fyr­ir­tæki sem selja vör­ur sín­ar í mörg­um lönd­um og mæta sam­keppni frá er­lend­um fyr­ir­tækj­um séu ólík­legri til að hækka verð sem bygg­ist ein­göngu á inn­lend­um efna­hagsaðstæðum og fram­leiðslu­kostnaður­inn hef­ur lækkað veru­lega með alþjóðavædd­um vinnu­markaði. Tækn­in spil­ar stórt hlut­verk í þessu sam­hengi, eins og fyr­ir­tækið Amazon. Hins veg­ar hef­ur fram­kvæmd pen­inga­stefnu styrkst veru­lega á síðustu ára­tug­um. Ben Bern­ar­ke, fyrr­ver­andi seðlabanka­stjóri Banda­ríkj­anna, held­ur því fram að for­ysta Pauls Volckers hafi gert þar gæfumun, en þá tókst að festa verðbólgu­vænt­ing­ar al­menn­ings gagn­vart verðbólgu. Niður­stöður rann­sókna Bo­beica o.fl. benda t.d. til þess að traust­ari kjöl­festa verðbólgu­vænt­inga leiki lyk­il­hlut­verk í því að skýra minnk­andi tengsl milli launa­hækk­ana og verðbólgu í Banda­ríkj­un­um und­an­farna þrjá ára­tugi. Að sama skapi kemst Alþjóðagreiðslu­bank­inn að þess­ari niður­stöðu, þ.e. áhrif launa­hækk­ana á verðbólgu eru minni í lönd­um þar sem verðstöðug­leika hef­ur verið náð en í lönd­um þar sem verðbólga er jafn­an meiri.

…munu vax­andi skort­ur á vinnu­afli og versn­andi verðbólgu­horf­ur breyta því?

Það eru hins veg­ar blik­ur á lofti um að sam­bandið milli verðbólgu og at­vinnu­stigs sé að styrkj­ast að nýju og hin hefðbundna Phil­ips-kúrfa end­ur­fædd. Þrennt kem­ur til: Í fyrsta lagi virðist vinnu­markaður­inn breytt­ur í Banda­ríkj­un­um eft­ir far­sótt­ina. Hag­töl­ur gefa til kynna að marg­ir hafi ekki skilað sér aft­ur inn á vinnu­markaðinn eða ákveðið að breyta um starfs­vett­vang. Að sama skapi eru stór­ir ár­gang­ar að detta út af vinnu­markaðnum sök­um ald­urs. Kenn­ing­ar eru uppi um að fram und­an gæti verið veru­leg­ur skort­ur á vinnu­afli sem muni leiða til launa­hækk­ana og svo kostnaðar­hækk­ana. Fram­leiðni, sam­kvæmt nýj­ustu töl­um, hef­ur einnig minnkað veru­lega. Í öðru lagi, þá hef­ur um nokk­urra ára skeið verið viðskipta- og tækn­i­stríð á milli Banda­ríkj­anna og Kína. Það, ásamt viðvar­andi fram­boðshnökr­um sem komu fyrst upp þegar far­sótt­in skall á, leiðir til þess að ákveðin störf hafa verið að fær­ast aft­ur til Banda­ríkj­anna og kostnaður fer hækk­andi sam­fara því. Í þriðja lagi hafa verðbólgu­vænt­ing­ar versnað veru­lega. Þegar þetta þrennt, bæði skamm­tíma- og lang­tíma­vanda­mál, kem­ur sam­an gæti orðið snún­ara fyr­ir banda­ríska seðlabank­ann að koma bönd­um á verðbólgu.

Ef við lít­um á ís­lenska hag­kerfið í þessu sam­hengi, þá er það sama upp á ten­ingn­um. Mik­il þensla á vinnu­markaði og at­vinnu­leysi lítið. Að sama skapi hafa verðbólgu­vænt­ing­ar versnað veru­lega. Sam­kvæmt síðustu Pen­inga­mál­um Seðlabanka Íslands hef­ur hlut­fall þeirra sem bú­ast við að verðbólga verði meiri en 5% á næstu fimm árum hækkað tölu­vert á þessu ári. Það er ný saga og göm­ul að þegar verðbólga er yfir mark­miði í lang­an tíma eykst hætt­an á að kjöl­festa verðbólgu­vænt­inga veikist og það get­ur tekið lang­an tíma að ná þeim aft­ur niður í mark­mið. Til að koma bönd­um á verðbólg­una þarf að viðhalda góðu sam­ræmi á milli rík­is­fjár­mála og pen­inga­mála. Að sama skapi er mik­il­vægt að tryggja öfl­ugt fjár­mála­kerfi sem tek­ist get­ur á við óróa á fjár­mála­mörkuðum og viðhaldið viðun­andi kjör­um. Það má jafn­framt ekki missa sjón­ar á mik­il­vægi þess að tryggja jafn­vægi í ut­an­rík­is­viðskipt­um og koma þar marg­ir þætt­ir að. Enn frem­ur verður það verk­efni að sjá til þess að fram­boðshlið hag­kerf­is­ins verði ekki hamlandi þátt­ur fyr­ir al­menn­ing og at­vinnu­lífið, en fram­boðshliðin er alltumlykj­andi og skoða verður gaum­gæfi­lega hvar fram­boðshnökra er að finna í hag­kerf­inu til að leysa krafta úr læðingi án þess að það hafi áhrif á verðlagið.

„Eigi skal gráta Björn bónda, held­ur skal safna liði,“ sagði Ólöf Lofts­dótt­ir, kona Björns Þor­leifs­son­ar hirðstjóra, þegar hún frétti að ensk­ir sjó­ræn­ingj­ar hefðu vegið mann sinn vest­ur á Rifi á Snæ­fellsnesi árið 1467. Þessa hvatn­ingu má heim­færa á verðbólguógn­ina og að halda verði áfram að grípa til aðgerða til að hamla því að hún nái fót­festu í ís­lensku efna­hags­lífi með skelfi­leg­um af­leiðing­um.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. janúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Öflugt í­þrótta­starf eftir heims­far­aldur

Deila grein

11/01/2023

Öflugt í­þrótta­starf eftir heims­far­aldur

Íþróttir eru gríðarlega mikilvægar þegar kemur að uppeldi barna og unglinga og forvarnargildi þeirra er margsannað. Íþróttafélög um allt land halda úti ómetanlegu starfi sem skilar sér margfalt til baka til samfélagsins. Þegar Covid-19 faraldurinn reis sem hæst stóð íþróttahreyfingin hins vegar frammi fyrir fordæmalausum aðstæðum sem höfðu veruleg áhrif á starf íþróttafélaga um allt land.

Af þessum sökum lagði ég fram tillögur þess efnis að ráðist yrði í aðgerðir til að koma til móts við íþrótta- og æskulýðsfélög landsins vegna þeirrar röskunar sem Covid-19 faraldurinn hefur valdið á starf þeirra.

Nú í byrjun árs er mennta- og barnamálaráðuneytið að ljúka greiðslum á síðustu styrkjum til íþróttahreyfingarinnar til að bæta upp það tekjutap sem hún varð fyrir vegna sóttvarnaaðgerða stjórnvalda. Lokagreiðslan nemur alls 450 milljónum króna. Sambærileg úthlutun að upphæð 450 milljónir króna átti sér stað vorið 2020 og önnur úthlutun að upphæð 300 milljónir króna í árslok sama ár. Þá fengu íþróttafélög rúmlega 1,6 milljarða króna í gegnum úrræði Vinnumálastofnunar. Að auki var 100 milljónum sérstaklega úthlutað á fjáraukalögum 2021 til íþrótta- og tómstundafélaga vegna viðburða sem féllu utan framangreindra styrkja og sérstakra verkefna sem talin voru brýn fyrir starfsemi viðkomandi félaga. Alls nemur stuðningurinn því tæpum þremur milljörðum króna vítt og breitt innan hreyfingarinnar.

Markmiðið með stuðningnum var að gera íþróttafélögum kleift að brúa það gat sem myndaðist þegar allt starf féll niður vegna samkomutakmarkana og að tryggja að sem minnstar raskanir yrðu á íþróttaiðkun barna til lengri tíma litið. Stjórnvöld þurftu að stíga fast til jarðar svo að starfsemi íþróttafélaga myndi ekki leggjast af og að viðspyrnan yrði sem best eftir faraldurinn. Það tókst. Við búum áfram við öflugt íþróttastarf sem þakka má elju starfsfólks og þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem koma að starfi íþróttahreyfingarinnar á hverjum degi. Áfram Ísland.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. janúar 2023.

Categories
Greinar

Nú árið er liðið

Deila grein

11/01/2023

Nú árið er liðið

Við tökum á móti nýju ári og nýju upphafi. Veðurguðirnir sem virtust hafa gleymt sér í sumrinu hrukku í takt í upphafi aðventu og lögðu snjó með kulda yfir landið. Allt hefur sinn tíma og árstíðir hafa sitt hlutverk sem fyrr. Þó kemur það landanum alltaf jafn mikið á óvart þegar fer að snjóa og það í desember. Ófærðin veldur írafári en það er mögulega merki um breytta samfélagsmynd. Fólk er háð greiðum samgöngum, sækir vinnu og skóla í næstu byggðalög og ferðaþjónustan reiðir sig á að samgöngur séu góðar allt árið um kring.

Það eru sannarlega tímamót að taka móti nýju ári, nýju upphafi fylgir uppgjör þess liðna, söknuður og tilhlökkun í senn.

Þannig hefur árið 2022 liðið. Hófst í samkomutakmörkunum og það ótrúlega gerðist að stríð hófst í Evrópu og stendur enn. Okkur finnst það ótrúlegt og það er líkt og mannkynið læri aldrei af sögunni því þrátt fyrir góð áform birtast vond öfl sem ná of oft yfirhöndinni og allir tapa. Óvissan er mikil og áhrifin breiða sig yfir alla Evrópu þar sem enn sér ekki fyrir endann á áhrifunum og hugur okkar er hjá fólki sem býr við ógnir stríðs í Evrópu og reyndar víðar um heiminn. Áhrif stríðsins vara í nokkrar kynslóðir og enginn verður krýndur sigurvegari.

Staðan hér á landi

Heimsfaraldur og áhrif stríðs í Evrópu gætir hér á landi sem víðar. Traustar undirstöður ríkisfjármála eru lykill að því að mæta sveiflum og áskorunum sem þeim fylgja.  Áherslan fram að heimsfaraldri var að greiða niður skuldir og lækka vaxtabirgði. Ríkissjóður stóð sterkur þegar við gengum inn í öldusjó sem gaf okkur möguleika á viðspyrnu og dýrmætu samspili við peningastefnu og vinnumarkað. Við afgreiðslu fjárlaga 2023 erum við viðbúin að sækja fram og halda áfram að byggja upp inniviði samfélagsins og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Miklu skipir að kjaraviðræður í haust gengu með ágætum og má þar þakka vilja allra aðila til að byggja áfram undir velferð fólks í landinu.

Samgöngur

Síðustu fimm ár hefur verið stórsókn í samgöngubótum á Vestfjörðum sem hófust með Dýrafjarðargöngum en áfram skal haldið þangað til að við getum talað um nútímavegi allan Vestfjarðarhringinn. Unnið er að 12-14 km vegbótum á Dynjandisheiðinni og stórframkvæmdir eru í Gufudalssveitinni þar sem framkvæmdir ganga vel en áfangar þar eru fimm. Einum er lokið, þrír eru í framkvæmd og enn á eftir að bjóða út þann síðasta. Allt eru þetta áfangar í að gera samgöngur greiðari fyrir vaxandi samfélag á Vestfjörðum

Sveitarfélög í sveiflu

Sveitastjórnarkosningar settu svip sinn á síðasta ár. Sem fyrr urðu nokkrar breytingar og margt nýtt og öflugt sveitastjórnarfólk tók við keflinu. Við í Framsókn erum gríðarlega þakklát og auðmjúk yfir sigri okkar í sveitarstjórnarkosningunum og erum stolt af kosningabaráttunni um land allt ekki síst af okkar glæsta árangri í höfuðborginni þar sem náðum inn fjórum fulltrúum. Í Ísafjarðarbæ jókst fylgið þótt fulltrúatalan sé sú sama og í Bolungarvík náði okkar kona að leiða M-listann til sigurs sem eru stórtíðindi. Áfram vinnur okkar fólk að því að leiða starfið í samvinnu til að ná fram árangri.

Sterk sveitarfélög

Unnið hefur verið að sameiningu sveitarfélaga á landsvísu og bara á síðasta ári fækkaði þeim um fimm og eru í dag 64 sveitarfélög á landinu. Fjöldi sveitarfélaga á Vestfjörðum eru níu og hafa verið svo síðustu tuttugu árin. Nú hafa tvö þeirra hafið sameiningarviðræður og ef niðurstaðan verður sú að þeim sé betur borgið saman fækkar enn í hópnum. Stjórnvöld hafa unnið að átaki í að styrkja sveitastjórnarstigið með sjálfbærni sveitarfélaga og lýðræðislegri starfsemi þeirra að markmiði. Auk þess þarf alltaf að vinna að því að tryggja sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að grunnþjónustu. Á síðustu 20 árum hafa vissulega verið breytingar á verkefnum og skyldum sveitarfélaga.  Ber þar hæst flutning á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga. Þar hafa minni sveitarfélög séð hag sínum betur borgið að vinna að verkefninu saman og breytingar eru að verða á sviði barnaverndar og ný farsældarlög í málefnum barna kalla á nýtt verklag. Auknar skyldur og umsýsla hefur aukist og þar skiptir ekki máli hver stærð sveitarfélagsins er.

Nú stendur til að kanna grundvöll fyrir því að sveitarfélögin á Vestfjörðum sameinist um velferðarþjónustu sem sinni barnaverndarþjónustu, þjónustu við fatlað fólk og móttöku flóttafólks. Byggðasamlög um verkefni og skyldur eru góð og oft nauðsynleg en það er þó staðreynd að lýðræði og aðkoma sveitarfélaganna innan slíkra samlaga færist lengra frá stjórnsýslu hvers sveitarfélags fyrir sig en ella.  Sjókvíeldi á Vestfjörðum kallar á aukna samvinnu sveitarfélaga og ábati að nýrri atvinnugrein skiptir öll sveitarfélag fjórðungsins máli.

Það er gott að staldra við og hækka flugið, líta yfir svæðið og horfa á samvinnu og/eða sameiningu sveitarfélaga út frá nýjum sameiginlegum áskorunum og verkefnum. Það er alltaf gott að taka samtalið og svo ákvörðun út frá því.

Áfram veginn

Áherslan næstu ár er á fólkið í landi og að nýta auð íslensks samfélags hvar á landinu sem fólk býr. Hvert samfélag og hver einstaklingur skiptir máli. Öflugt velferðarkerfi er undirstaða jöfnuðar. Vinna að kerfisbreytingum í þágu barna í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna heldur áfram. Nýta skal sömu hugmyndafræði til að samþætta þjónustu annarra hópa eins og eldra fólks, en það mun án efa skila okkur betri lýðheilsu og meiri virkni út lífið. Þjóðin er að eldast og því þarf sérstaklega að huga að þessum þáttum til að virkni eldra fólks í samfélaginu sé virt. Við þurfum að leiða leiða til að auðvelda fólki að búa lengur heima. Samþætting þjónustu er nauðsynleg til að ná fram virkni og aukinni þátttöku eldra fólks í lifandi samfélagi.

Samfélög í blóma

Það má svo sannarlega segja að það hafi verið byr í seglum samfélaga á Vestfjörðum undanfarinn áratug. Ef horft er til síðustu þriggja áratuga má segja að það ríki meiri bjartsýni og þróttur nú en skynja mátti í upphafi þessarar aldar. Uppbygging nýrra atvinnugreina líkt og fiskeldis og ferðaþjónustu hafa komið inn með nýjan kraft og afleidd störf sem leiðir af sér að nú vex íbúatalan á ný.

Það eykur slagkraft, ef við í sameiningu í fjórðungnum vinnum að baráttumálum til að geta staðið jafnfætis við önnur landssvæði. Við ætlum okkur ekki að halla okkur aftur og slaka á í ferðalaginu, heldur standa áfram vörð um verkefni sem eru undirstaða frekari vaxtar og samkeppnishæfni fjórðungsins í heild á komandi árum.

Gleðilegt ár.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst á bb.is 9. janúar 2023.