Categories
Greinar

Nám verður raunhæfur kostur fyrir alla

Deila grein

15/04/2021

Nám verður raunhæfur kostur fyrir alla

Þau ríki sem ætla sér stóra sigra í sam­keppni þjóðanna á kom­andi árum þurfa að tryggja góða mennt­un. Mennt­un legg­ur grunn að hag­sæld og vel­ferð ein­stak­linga og jafnt aðgengi að námi er ein af stoðum vel­ferðarsam­fé­lags­ins. Þess vegna er stjórn­völd­um skylt að skapa stuðnings­kerfi sem hjálp­ar fólki að sækja sér mennt­un – kerfi sem er gagn­sætt, hvetj­andi og sann­gjarnt. Kerfi sem trygg­ir að náms­menn geti fram­fleytt sér og sín­um á náms­tím­an­um, án þess að stefna fjöl­skyldu-, fé­lags­lífi, heils­unni eða náms­ár­angr­in­um í hættu!

Á síðasta ári vannst mik­ill áfanga­sig­ur, þegar ný lög um mennta­sjóð náms­manna voru samþykkt. Mennta­sjóður gjör­breyt­ir stöðu náms­manna, betri fjár­hags­stöðu við náms­lok og lægri end­ur­greiðslur lána. Höfuðstóll náms­lána lækk­ar nú um 30% við náms­lok á rétt­um tíma og beinn stuðning­ur er nú veitt­ur til fram­færslu barna, en ekki lán eins og áður.

Bar­átt­unni fyr­ir náms­menn er þó ekki lokið, því enn á eft­ir að breyta fram­færslu­viðmiðum fyr­ir náms­menn. Þau viðmið liggja til grund­vall­ar lán­veit­ing­um og eiga að duga náms­mönn­um til að fram­fleyta sér; kaupa klæði og mat, greiða fyr­ir hús­næði og aðrar grunnþarf­ir. Fram­færslu­viðmið náms­manna eru hins veg­ar lægri en önn­ur neyslu­viðmið, hvort sem horft er til at­vinnu­leys­is­bóta, neyslu­viðmiða fé­lags­málaráðuneyt­is­ins eða þeirra sem umboðsmaður skuld­ara miðar við. Sam­kvæmt sam­eig­in­legri könn­un Maskínu, ráðuneyt­is­ins og LÍS vinna um 64% náms­manna með námi. Fyr­ir marga náms­menn dug­ar því grunn­fram­færsla ekki til að ná end­um sam­an og ein­hverj­ir þurfa ein­fald­lega að loka skóla­tösk­unni í eitt skipti fyr­ir öll.

Rík­is­stjórn­in er meðvituð um þessa mik­il­vægu áskor­un og ný­verið lagði ég til að grunn­fram­færsla mennta­sjóðs yrði hækkuð. Til­lög­unni var vel tekið og var hópi ráðuneyt­is­stjóra falið að út­færa til­lög­una nán­ar.

Sum­arið fram und­an mun lit­ast af heims­far­aldr­in­um, þar sem at­vinnu­tæki­færi verða færri en í venju­legu ár­ferði. Stjórn­völd hafa út­fært ýms­ar sum­araðgerðir fyr­ir náms­menn, sem miða að því að skapa sum­arstörf eða náms­tæki­færi fyr­ir fram­halds­skóla- og há­skóla­nema. Við byggj­um m.a. á reynsl­unni frá síðasta sumri þegar 5.600 manns stunduðu sum­ar­nám í fram­halds- og há­skól­um og nú verður 650 millj­ón­um varið til að tryggja fjöl­breytt náms­fram­boð; stutt­ar og hag­nýt­ar náms­leiðir, sér­sniðna verk­lega kynn­ingaráfanga og ís­lensku­áfanga fyr­ir nem­end­ur með annað móður­mál en ís­lensku. Ný­sköp­un­ar­sjóður náms­manna mun styrkja 351 nem­anda til sum­ar­vinnu við rann­sókn­ar- og þró­un­ar­verk­efni. Þá er ótal­in 2,4 millj­arða fjár­veit­ing til að skapa 2.500 sum­arstörf fyr­ir náms­menn 18 ára og eldri.

Stjórn­völd vilja virkja krafta náms­manna, skapa tæki­færi til náms og virðis­auk­andi at­vinnu fyr­ir ungt fólk. Það er hag­ur okk­ar allra.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. apríl 2021.

Categories
Greinar

Hvaðan á orka fram­tíðarinnar að koma?

Deila grein

08/04/2021

Hvaðan á orka fram­tíðarinnar að koma?

Stærsta framlag Íslands til loftlagsmála er nýting þjóðarinnar á grænni orku. Í dag státar engin önnur þjóð af jafn mikilli nýtingu á grænni orku líkt og við Íslendingar gerum. 85-90% af allri orku sem Íslendingar nota er græn orka og mikill meirihluti raforkunnar er framleidd innan fyrirhugaðs hálendisþjóðgarðs.

Samkvæmt orkustefnunni viljum við halda þessu og jafnvel stíga stærri skref en nú þegar hefur verið gert.

Orkustefna

Þverpólitísk nefnd skilaði orkustefnunni til ársins 2050 í mikilli sátt og horfa stjórnvöld á þá stefnu sem leiðarljós inn í framtíðina. Í orkustefnu segir meðal annars: „Til að skapa verðmæti og tryggja lífsgæði verður samfélagið að geta treyst því að orkuþörf sé mætt á hverjum tíma. Framboð og innviðir orkunnar teljast til þjóðaröryggishagsmuna þar sem öryggi borgaranna og samfélags og atvinnulífs er háð þessum mikilvægu grunnþáttum.“ Af þessari ástæðu er mikilvægt að gera ráð fyrir mögulegri framtíðaruppbyggingu á nauðsynlegum innviðum í flutningi og dreifingu raforku fyrir samfélagið.

Við erum flest kunnug umræðunni um orkuskipti og öll sammála um að það sé framtíðin þó svo mismunandi skoðanir séu hversu langan tíma við tökum í þau.

Í orkustefnunni eru sett metnaðarfull markmið þar sem lagt er áherslu á að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneti fyrir 2050. Í stað þess að kaupa olíu og bensín erlendis frá væri þjóðin sjálfbær hvað eldsneyti varðar.

Parísarsamkomulagið eitt og sér kallar á 300 MW af rafafli til að ná skuldbindingum okkar hvað varðar orkuskipti í samgöngum á landi, samkvæmt tölum sem Samorka birti nýlega. Til að skipta alveg út jarðefnaeldsneyti fyrir hreina, innlenda orkugjafa í samgöngum á landi þyrfti um 600 MW. Ef við ætlum að leysa málið í öllum samgöngum innan lands þurfum við 1200 MW. Til að hætta að flytja inn olíu á millilandaflugvélar og skip þá þyrfti rúmlega annað eins. Þetta þýðir að ef Ísland ætlar að vera alveg óháð jarðefnaeldsneyti gæti þurft samtals um 2500 MW, sem er jafn mikið og er notað á landinu í dag. Gengið er út frá því að hluti farartækjanna noti rafmagn beint en hluti þeirra gangi fyrir rafeldsneyti s.s. vetni. Þessar tölur miðast við núverandi tækni sem vonandi á eftir að taka framförum og þar með lækka þessar tölur eitthvað. Til viðbótar þarf svo rafmagn til almennra nota fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu, en nýjasta raforkuspá gerir ráð fyrir að til þess þurfi allt að 1500 MW fyrir árið 2060.

Forsætisráðherra tilkynnti efld markmið Íslands í loftlagsmálum á leiðtogafundi í desember síðastliðnum. Þar er markið fært úr 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2030, í 55% samdrátt. Þessum efldu aðgerðum fylgir fjármagn, sem er vel, en eftir því sem við aukum metnað okkar í loftlagsmálum þurfum við líka meiri græna orku. Hvaðan á hún að koma?

Hálendisfrumvarp er þvert á samþykkta orkustefnu – Ein höndin á móti annarri

Orkustefnan segir að orkuþörf samfélagsins verði mætt með öruggum hætti til lengri og skemmri tíma. Jafn aðgangur verði á landsvísu að orku á samkeppnishæfu verði. Að við verðum alltaf með græna orku til heimila og fyrirtækja. Þessi markmið eru metnaðarfull og góð en spurningunni hvernig við ætlum að afla þessarar grænu orku er enn ósvarað. Fyrir liggur hálendisfrumvarp þar sem lokað er á orkuríkasta svæði landsins án þess að búið sé að svara því hvernig við ætlum að afla orku til framtíðar og hvaðan.

Svo virðist vera að við gerð hálendisfrumvarps hafi ekki verið horft á heildarmyndina með tilliti til nýrrar orkustefnu auk annarra þátta s.s. þjóðaröryggis og efnahags. Hvernig sjáum við fram á að uppfylla sett markmið í orkustefnunni ef frumvarpið verður að veruleika?

Með óbreyttu frumvarpi verður ekki hægt að endurnýja flutningslínur né Byggðalínuna sem komin er á tíma, auk þess sem lokað er á möguleika til nýtingar á endurnýjanlegum orkugjöfum á svæðinu til framtíðar.

Framtíðarsýn

Við erum sístækkandi þjóð og eru vísbendingar um að hagkerfið verði tvöfalt stærra 2050 og tvöföldun verður á útflutningsverðmætum. Við megum gera ráð fyrir fjölgun starfa og íbúa í framtíðinni sem kallar á meiri orkuþörf. Það sama blasir við öllum öðrum þjóðum sem eru að vaxa og dafna eins og við. Danir sem hafa verið í sviðsljósinu varðandi grænu endurreisnina sína gera ráð fyrir tvöföldun raforkuþarfar á næstu tíu árum. Því má búast má við að orkuþörf heimsins muni aukast hér eftir sem hingað til og ef horft er til hinna Norðurlandanna spá þau því að eftirspurn eftir raforku hjá þeim muni aukast um allt að helming á næstu áratugum frá því sem nú er. Má ekki búast við því að það sama eigi við um Ísland?

Hverjar eru þarfir samfélagsins, hver verður orkuþörf Íslands í framtíðinni? Það hefur ekki verið hluti af undirbúningnum að spyrja að því hversu mikið af orkulindum sé inn á svæðinu sem skilgreint er sem hálendisþjóðgarður og hvað við þurfum mikla orku til framtíðar?

Hver sem endanlega þörfin verður er augljóst að við þurfum meiri orku.

Það er mikilvægt að sýna framsýni þegar kemur að orkuþörf og þar með orkuöryggi þjóðarinnar til framtíðar. Slíku er ekki fyrir að fara í frumvarpi umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð, þvert á móti.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri og stjórnarformaður Norðurorku.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. apríl 2021.

Categories
Greinar

Góður kennari skiptir sköpum!

Deila grein

06/04/2021

Góður kennari skiptir sköpum!

Oft og tíðum eru fjöl­mörg mál sem bíða úr­lausnar mennta- og menningar­mála­ráð­herra, enda sinnir ráðu­neytið mikil­vægum mála­flokkum. Í störfum mínum sem ráð­herra legg ég ætíð á­herslu á stóru sam­fé­lags­myndina. Ég velti því fyrir mér hvernig sam­fé­lag við viljum sem þjóð og hvernig fram­tíð við óskum okkur.

Stóra myndin er sú að við erum sam­fé­lag sem leggur sig fram við að veita fram­úr­skarandi menntun. Rann­sóknir sýna okkur t.d. að góður náms­orða­forði og hug­taka­skilningur, á­lyktunar­hæfni, á­nægja af lestri og fjöl­breytni les­efnis vega mjög þungt í því að nem­endur nái tökum á náms­efni. Við vitum það einnig að góður kennari skiptir sköpum, og því tel ég kennara sinna einu mikil­vægasta starfinu í okkar sam­fé­lagi. Eitt það fyrsta sem blasti við mér í mennta- og menningar­mála­ráðu­neytinu var yfir­vofandi kennara­skortur. Þess vegna er mikil á­hersla lögð á kennara­menntun og ný­liðun í nýrri mennta­stefnu sem sam­þykkt var ný­lega á Al­þingi.

Við höfum þegar markað stefnuna og sjáum árangurinn strax. Ný lög um menntun og hæfi kennara og skóla­stjórn­enda hafa orðið að veru­leika. Við höfum ráðist í um­fangs­miklar og mark­vissar að­gerðir til að fjölga kennurum, t.d. með því að bjóða nem­endum á loka­ári meistara­náms til kennslu­réttinda á leik- og grunn­skóla­stigi launað starfs­nám. Annað sem við gerðum var að bjóða nem­endum á loka­ári að sækja um náms­styrk sem gæti skapað hvata til að klára námið. Eftir að þetta á­taks­verk­efni hófst árið 2018 fjölgaði um­sóknum í kennara­nám á grunn- og meistara­stigi árin 2018 og 2019 um 454 um­sóknir. Fjölgunin hélt á­fram árin 2019 og 2020 en þá sóttu 585 fleiri um nám. Tölurnar sýna al­gjöran við­snúning. Heildar­fjölgun um­sókna frá árinu 2018 er 153%. Mark­vissar að­gerðir skila árangri til fram­tíðar.

Þessi þróun er ein­stak­lega á­nægju­leg. Ég fagna því á hverjum degi að við erum skrefi nær því að ná mark­miðum okkar um fram­úr­skarandi mennta­kerfi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. apríl 2021.

Categories
Greinar

Varða á veginum

Deila grein

30/03/2021

Varða á veginum

Gott menntakerfi er grundvöllur þess að samfélag geti þróast í takt við áskoranir hvers tíma og að atvinnulífið standist alþjóðlegt samkeppnisumhverfi. Alþingi samþykkti nýlega í fyrsta sinn menntastefnu frá menntamálaráðherra, tekur hún fyrir tímabilið 2020-2030. Umsagnaraðilar voru einróma um að gott væri að stefnan væri komin fram.

Við gerð innleiðingaráætlunar er mikilvægt að horfa til allra fimm stoða menntakerfisins, þ.e. leik-, grunn- og framhaldsskóla og sí- og endurmenntunar. Menntakerfið verður að vera til þess gert að hægt sé að tryggja að vinnandi fólk geti aukið hæfni sína til að fylgja ákalli atvinnulífsins um þekkingu og hæfni starfsfólks. Menntun kostar peninga og því er það þjóðhagslega verðmætt að menntunin skili sér til uppbyggingar samfélagsins. Við þurfum að vera markvissari á þessu sviði og kortleggja menntunarog færniþörf til að bæta samspil menntakerfis og vinnumarkaðar. Nauðsynlegt er að fyrir liggi góð þekking, greining eða mat á starfstækifærum í einstökum fögum, greinum og starfssviðum til nokkurra ára og munu færnispár nýtast í öllu skóla- og fræðslustarfi.

Tækifæri til náms eiga að vera þau sömu alls staðar á landinu og fyrir alla hópa þjóðfélagsins. Tæknin gerir okkur kleift að mæta ólíkum þörfum fólks. Hún getur nýst til að skapa aukin tækifæri til menntunar á landsbyggðinni, aukið aðgengi fatlaðs fólks og þeirra sem þurfa óhefðbundnari nálgun í námi. Við eigum að sjálfsögðu að efla nám án staðsetningar og með aukinni stafrænni námsgagnaútgáfu á öllum skólastigum verður auðveldara að uppfæra námsgögnin í takt við tímann.

Aðsókn hefur aukist í kennaranám en á sama tíma er ekki næg endurnýjun í stéttinni. Fyrir því eru margar ástæður. Ein þeirra er starfsumhverfi kennara, sem er oft krefjandi. Létta mætti álagi af kennurum og bæta þjónustu við nemendur með því að styrkja stöðu annarra fagstétta í skólum eins og félagsráðgjafa, sálfræðinga, iðjuþjálfa o.s.frv. Síðast en ekki síst þarf að sjá til þess að þroskapróf verði endurskoðuð og uppfærð í takt við tímann. Nú er staðan sú að engin stofnun ber ábyrgð á útgáfu þroskaprófanna sem eiga að meta hvort og hvaða stuðning börn þurfa að fá.

Menntastefnan er fyrsta skrefið á langri vegferð. Góðar innleiðingaráætlanir, samráð, styrk verkstjórn og fjármögnun verkefna er það sem mun skila okkur alla leið.

Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. mars 2021.

Categories
Greinar

Tekjur sveitarfélaga af gjaldtöku fiskeldis

Deila grein

30/03/2021

Tekjur sveitarfélaga af gjaldtöku fiskeldis

Fisk­eldi er ný­leg at­vinnu­grein hér á landi sem hef­ur byggst upp á und­an­förn­um ára­tug. Ef fram­leiðsla í fisk­eldi fer í það magn sem burðarþols­getu svæða er af­markað er talið að út­flutn­ings­verðmæti fisk­eld­is geti verið nær 65 millj­örðum kr. Fjár­fest­ing upp á tugi millj­arða króna ligg­ur í grein­inni og frek­ari fjár­fest­ing bíður eft­ir frek­ari leyf­um til rekstr­ar. Mun­ar þar mest um út­flutn­ing á eld­islaxi en út­flutn­ings­verðmæti hans jókst um 29% á milli ára og fór vægi hans í 70% út­flutn­ings­verðmæt­is eldisaf­urða á ár­inu. Nú er svo komið að út­flutn­ing­ur á eld­islaxi skil­ar næst­mest­um verðmæt­um allra fisk­teg­unda sem flutt­ar eru frá Íslandi. Þessi grein hef­ur farið hratt vax­andi á und­an­förn­um ára­tug og má eiga von á að at­vinnu­grein­in skili tug­millj­arða króna verðmæt­um í þjóðarbúið. Svo að allt gangi upp þá þurfa innviðir að vera fyr­ir hendi sem og viðhald á þeim. Þannig má tryggja vöxt grein­ar­inn­ar og sem mest­an ávinn­ing af henni.

Vaxt­ar­verk­ir og innviðaupp­bygg­ing

Á vor­dög­um 2019 voru samþykkt lög um töku gjalds vegna fisk­eld­is í sjó og fisk­eld­is­sjóð. Þar er gert ráð fyr­ir að þriðjung­ur tekna af gjald­töku af fisk­eldi renni á kom­andi árum í fisk­eld­is­sjóð sem sveit­ar­fé­lög geta sótt í til innviðaupp­bygg­ing­ar. Það dug­ar þó skammt fyr­ir þeirri innviðaupp­bygg­ingu sem sveit­ar­fé­lög þurfa að ráðast í svo að koma megi til móts við vax­andi þörf vegna auk­inna um­svifa fisk­eld­is. Lít­il vissa er hjá sveit­ar­fé­lög­um um hve mik­illa tekna er að vænta þar sem sveit­ar­fé­lög­in sækja um hvert fyr­ir sig í sjóðinn og örðugt er að áætla tekj­ur fram í tím­ann.

Sveit­ar­fé­lög­in njóta þess mikla drif­krafts sem fisk­eldið hef­ur í för með sér. Íbúum fjölg­ar, at­vinnu­tæki­færi verða fjöl­breytt­ari og ald­ur­spíra­míd­inn breyt­ist, því að hlut­falls­leg fjölg­un yngra fólks hef­ur orðið í um­rædd­um sveit­ar­fé­lög­um. Þessu fylgja auk­in verk­efni og áskor­an­ir til sveit­ar­fé­laga svo um mun­ar. Sum sam­fé­lög þar sem íbú­um hafði fækkað tak­ast nú á við vaxt­ar­verki í um­fangs­mik­illi og kostnaðarsamri innviðaupp­bygg­ingu.

Heild­ar­grein­ing af gjald­töku

Und­ir­rituð hef­ur lagt fram þings­álykt­un­ar­til­lögu sem snýr að því að yf­ir­fara laga- og reglu­gerðaum­hverfi gjald­tök­unn­ar í heild og sér­stak­lega það sem snýr að sveit­ar­fé­lög­um þar sem sjókvía­eldi er stundað og skýra heim­ild­ir sveit­ar­fé­laga til gjald­töku. Til­lag­an snýr ekki að auk­inni gjald­töku held­ur þarf að tryggja að tekj­ur af slíkri gjald­töku standi und­ir nauðsyn­leg­um verk­efn­um þeirra sveit­ar­fé­laga sem standa næst eld­inu ásamt því að tryggð sé sjálf­bærni þeirra hafna og sam­fé­laga þar sem þessi at­vinnu­starf­semi er stunduð. Til­lag­an geng­ur út á að Alþingi álykt­ar að fela sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra og sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra að skipa starfs­hóp til þess að yf­ir­fara laga- og reglu­gerðaum­hverfi sjókvía­eld­is með hliðsjón af gjald­töku af fisk­eldi. Til­lag­an fel­ur einnig í sér end­ur­skoðun á heild­ar­grein­ingu á gjald­töku rík­is og sveit­ar­fé­laga af fisk­eldi og til­lög­ur að laga­breyt­ingu sem skýra heim­ild­ir til töku gjalda til að standa und­ir nauðsyn­legri þjón­ustu rík­is og sveit­ar­fé­laga af sjókvía­eldi. Alþingi verði kynnt skýrsla eigi síðar en í lok árs 2021.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. mars 2021.

Categories
Greinar

Að rjúfa stöðnun á hús­næðis­markaði

Deila grein

26/03/2021

Að rjúfa stöðnun á hús­næðis­markaði

Stöðnun á húsnæðismarkaði á landsbyggðinni er og hefur verið viðvarandi vandamál í mörgum byggðum landsins undanfarna áratugi og hefur hindrað atvinnuuppbyggingu og eðlilega samfélagsþróun.

Að rjúfa þá stöðnun er brýnt og stórt byggðaverkefni sem kallar á fjölþættar aðgerðir stjórnvalda.

Við upphaf kjörtímabilsins settum við húsnæðismál á landsbyggðinni á oddinn. Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að stuðla skuli að eflingu og auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði, óháð búsetu.

Í skýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um þróun húsnæðismarkaðar utan suðvesturhornsins, sem kom út á dögunum, er það augljósa staðfest, þ.e. að stöðnun hefur ríkt í húsnæðismálum margra byggðarlaga. Í sömu skýrslu er einnig farið yfir ástæður þess að uppbygging á landsbyggðinni hefur verið sáralítil í samanburði við höfuðborgarsvæðið.

„Helstu ástæður má rekja til þess að víða á landsbyggðinni stendur söluverð eigna ekki undir byggingarkostnaði, seljanleiki eigna er minni og fólksfækkun hefur verið í sumum sveitarfélögum sem veldur minni eftirspurn. Á sama tíma hefur fjölgun verið í öðrum sveitarfélögum sem hefur skapað húsnæðisskort. Þá hafa lánastofnanir haft minni áhuga á að lána til íbúðakaupa og íbúðauppbyggingar á landsbyggðinni,“ segir í skýrslunni

Þær aðgerðir sem við höfum farið í á þessu kjörtímabili í húsnæðismálum undir forystu Framsóknar snúa einmitt að þessum þáttum og ráðast að rót vandans. Það eru sérstök landsbyggðarlán, stofnframlög og byggðaframlög, hlutdeildarlán, samstarf við opinbera leigufélagið Bríeti og tilraunaverkefni á vegum HMS í samstarfi við sveitafélög. Á dögunum kynnti svo Ásmundur Einar félags- og barnamálaráðherra nýtt verkefni, Tryggð Byggð, sem er samstarfsvettvangur allra þeirra sem koma að húsnæðismálum á landsbyggðinni.

Vefur verkefnisins sýnir svart á hvítu að árangurinn af þessum aðgerðum hefur ekki látið á sér standa en framkvæmdir eru hafnar við yfir 400 íbúðir í 34 sveitafélögum og heildarfjárfestingin nálgast 10 milljarða.

Upplýsingarnar á vefnum geta nýst öllum sem huga að byggingu húsnæðis á landsbyggðinni við leit að leiðum og fyrirmyndum. Það er mikilvægt að við höldum áfram á þessari braut inn í framtíðina og tryggjum aðgengi að fjölbreyttum húsnæðiskostum við hæfi, óháð búsetu.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. mars 2021.

Categories
Greinar

Nýjar bú­greinar og blómstrandi sveitir

Deila grein

24/03/2021

Nýjar bú­greinar og blómstrandi sveitir

Við Íslendingar höfum frá landnámi lifað á því að rækta jörðina, halda skepnur og sækja sjóinn. Dugnaður, útsjónarsemi og hyggjuvit hafa verið okkar besta veganesti. Sem betur fer hafa orðið stórstígar framfarir á ýmsum sviðum. Sjávarútvegurinn er orðinn tæknivæddur og nýjar búgreinar og búskaparhættir hafa breytt meiru en nokkurn gat órað fyrir. Þrátt fyrir þetta er kjarni lífsbaráttunnar enn sá sami. Við verðum að nýta það sem náttúran gefur af virðingu og skynsemi.

Verðmætir vænlegir vaxtarbroddar

Þótt ég sitji nú á þingi fyrir Framsóknarflokkinn er ég samt fyrst og fremst bóndi. Fáir skilja það líklega betur en við bændurnir að nýsköpun í landbúnaði er forsenda þess að sveitirnar blómstri um ókomin ár. Sem betur fer eigum við mörg dæmi um farsælar nýjungar í búvöruframleiðslu. Nú um stundir eru vænlegustu vaxtarbroddarnir líklega þar sem samruni er á milli landbúnaðar og vísinda eins og líftækni. Eitt fyrirtækið í þeim geira framleiðir verðmætt lyfjaefni úr hryssublóði.

Gjaldeyrisskapandi nýsköpun

Fyrirtækið er til fyrirmyndar á alla vegu. Nánast allar afurðir eru fluttar úr landi og skapa árlegar gjaldeyristekjur upp á einn og hálfan milljarð. Þetta hjálpar ekki bara hinum dreifðari byggðum og bændum í öllum landshlutum að skjóta styrkari stoðum undir búskapinn. Þessi nýja búgrein er dýralæknum líka aukin verkefni og býr til góð störf. Blóðgjöf til lyfjaframleiðslu er að verða ein allra öflugasta nýja búgreinin á Íslandi.

Blóðgjöfin er dýrunum meinalaus

Um 5.000 hryssur eru í verkefninu og blóðgjöfin er framkvæmd af dýralæknum að undangenginni staðdeyfingu. Blóðgjöf er að hámarki 5 lítrar í hvert sinn. Vel er farið með dýrin fyrir blóðgjöf, á meðan hún er framkvæmd og að henni lokinni. Að jafnaði gefur hryssa blóð fimm sinnum á sumri og aldrei oftar en átta sinnum. Rannsóknir hafa sýnt að þetta er öruggt fyrir hryssurnar, þeim verður ekki meint af og ekki er eitt einasta dæmi um að dýr hafi drepist vegna blóðgjafar.

Sérstakir velferðarsamningar

Fyrirtækið gerir sérstaka velferðarsamninga við alla sína eitt hundrað bændur, og það er eftirtektarvert að þau bú sem eru í samstarfi við Ísteka hafa mörg hver bætt sig í allri umhirðu og umgjörð. Þetta má líklega rekja til þess að bændurnir fara eftir sérstakri gæðahandbók og starfa samkvæmt fyrrnefndum velferðarsamningum. Fyrir utan það að blóðgjöfin er framkvæmd af dýralækni eins og fyrr segir, þá er allt ferlið undir opinberu eftirliti Matvælastofnunnar.

Öflug dýravelferð er bændum eðlislæg

Því miður eiga bændur, landsbyggðin og þetta fyrirtæki sér óvildarmenn sem hafa dreift óhróðri um starfsemina. Ómálefnaleg gagnrýni, sem byggir á röngum upplýsingum eða hreinum ósannindum, hittir auðvitað helst í mark fyrir það fólk sem í henni stendur. Fullyrða má að öll umgjörðin um blóðgjafir á Íslandi sé til fyrirmyndar, hvort sem er í íslenskum eða alþjóðlegum samanburði. Ég fagna því að sjá nýjar búgreinar verða til sem hjálpa Íslandi að blómstra.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. mars 2021.

Categories
Greinar

Vefjagigt – heildræn meðferð

Deila grein

23/03/2021

Vefjagigt – heildræn meðferð

Á haustþingi 2019 var samþykkt þings­álykt­un­ar­til­laga sem und­ir­rituð lagði fram. Með til­lög­unni var heil­brigðisráðherra falið að beita sér fyr­ir fræðslu til al­menn­ings um vefjagigt og láta fara fram end­ur­skoðun á skip­an sér­hæfðrar end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu. Mark­miðið með sér­hæfðri end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu er að styrkja grein­ing­ar­ferlið og geta boðið upp á heild­ræna meðferð byggða á niður­stöðum gagn­reyndra rann­sókna.

Það er ánægju­legt að sjá að heil­brigðisráðuneytið hef­ur brugðist við þess­ari til­lögu með ýms­um hætti. Ráðuneytið end­ur­nýjaði samn­ing við Þraut – miðstöð vefjagigt­ar og tengdra sjúk­dóma. Við end­ur­nýj­un samn­ings­ins var lögð sér­stök áhersla á þrennt, þar á meðal var fræðsla til al­menn­ings og starfs­fólks heilsu­gæslu um vefjagigt og er gert ráð fyr­ir að sú vinna hefj­ist á þessu ári. Þá var einnig lögð áhersla á að stytta biðlista eft­ir grein­ing­armati þannig að hefja megi end­ur­hæf­ing­armeðferð fyrr ásamt snemm­tæk­um inn­grip­um til að fyr­ir­byggja fram­gang sjúk­dóms­ins og koma í veg fyr­ir ör­orku.

End­ur­hæf­ing­ar­stefna var sett á síðasta ári og í fram­haldi lögð fram aðgerðaráætl­un til fimm ára. Í aðgerðaráætl­un­inni má finna áhersl­ur um að styrkja þátt end­ur­hæf­ing­ar í grunn­námi heil­brigðis­stétta. Þá er lögð áhersla á stofn­un end­ur­hæf­ing­ar­t­eyma í hverju heil­brigðisum­dæmi sem leggja áherslu á að beita heild­rænni nálg­un við end­ur­hæf­ingu og fyrst um sinn þjón­usta ein­stak­linga með þráláta verki vegna stoðkerf­is­vanda.

Það skipt­ir máli að bjóða upp á heild­ræna meðferð við vefjagigt. Síðastliðið haust var skipaður þverfag­leg­ur starfs­hóp­ur um lang­vinna verki. Hlut­verk hóps­ins er að taka sam­an tölu­leg­ar upp­lýs­ing­ar um fjölda, ald­ur og kyn skjól­stæðinga; meðferðir sem veitt­ar eru, hvar og af hverj­um og gera til­lög­ur að úr­bót­um í þjón­ustu og skipu­lagi sem auðveld­ar aðgengi og ferli sjúk­linga í kerf­inu. Það stend­ur til að starfs­hóp­ur­inn muni skila stöðuskýrslu í næsta mánuði sem mun verða inn­legg í frek­ari vinnu við sér­hæfðari end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu vegna lang­vinnra verkja, þ.m.t. þjón­ustu vegna vefjagigt­ar.

Vefjagigt­ar­grein­ing var tal­in meðvirk­andi þátt­ur í 75% ör­orku hjá 14% allra kvenna sem voru á ör­orku. Örorka vefjagigt­ar­sjúk­linga or­sak­ast oft af sam­verk­andi þátt­um vefjagigt­ar, annarra stoðkerf­is­sjúk­dóma og geðsjúk­dóma. Þetta er lang­vinn­ur sjúk­dóm­ur sem ekki lækn­ast og því fjölg­ar í hópi vefjagigt­ar­sjúk­linga með hækk­andi aldri. Því skipt­ir máli að bregðast við með heild­rænni meðferð sem held­ur sjúk­ling­um virk­ari eins lengi og hægt er.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. mars 2021.

Categories
Greinar

Reykir verða áfram miðstöð garðyrkjunáms

Deila grein

23/03/2021

Reykir verða áfram miðstöð garðyrkjunáms

Garðyrkju­skól­inn á Reykj­um hef­ur í rúm 80 ár verið bak­beinið í ís­lensku garðyrkju­námi. Skól­inn hef­ur menntað fólk til starfa í garðyrkju­tengd­um at­vinnu­grein­um og skapað þekk­ingu sem hef­ur sjald­an verið mik­il­væg­ari en nú.

Þegar Land­búnaðar­há­skóli Íslands tók til starfa árið 2005 var starf­semi Garðyrkju­skól­ans færð und­ir hinn nýja skóla, að frum­kvæði Garðyrkju­skóla rík­is­ins. Starf­sem­in hélt áfram á Reykj­um, en yf­ir­stjórn skól­ans færðist til Hvann­eyr­ar. Ætluð sam­legð af há­skóla­starf­semi LBHÍ og fram­halds­skóla­starf­semi Reykja hef­ur hins veg­ar ekki raun­gerst, enda hef­ur komið á dag­inn að þarf­irn­ar eru ólík­ar. Lyk­ilfólk hef­ur talið að skól­arn­ir eigi ekki leng­ur sam­leið og ætlaður ávinn­ing­ur af nánu sam­starfi hef­ur því ekki gengið eft­ir að öllu leyti.

Full­trú­ar garðyrkj­unn­ar hafa kallað eft­ir breyt­ing­um á nú­ver­andi fyr­ir­komu­lagi og því fól ég sér­fræðing­um ráðuneyt­is­ins að kanna málið vand­lega og gera til­lög­ur, ef slíkra reynd­ist þörf. Útgangspunkt­ur­inn var að tryggja sem best starf­sem­ina á Reykj­um, starfs­ör­yggi þeirra sem þar starfa og hags­muni nem­enda. Að vel at­huguðu máli var ákveðið að efla námið á Reykj­um, skilja það frá LBHÍ og vinna með Fjöl­brauta­skóla Suður­lands – ein­um öfl­ug­asta starfs­mennta­skóla lands­ins. Við þá breyt­ingu þarf að huga vel að stjórn­sýslu­regl­um, fag­leg­um kröf­um til mennta­stofn­ana, fjár­veit­ing­um til starf­sem­inn­ar og rétt­ind­um starfs­fólks og nem­enda.

Við und­ir­bún­ing breyt­ing­anna þarf að huga að starfs­ör­yggi og fjölda stöðugilda á Reykj­um og vissa að skap­ast um fjár­mögn­un garðyrkju­náms­ins. Tryggja þarf af­not af jarðnæði og eign­um, bæta aðgengi nem­enda að aðstöðu til verk­legr­ar kennslu og fjár­festa til framtíðar. Þá fel­ast ótelj­andi tæki­færi í sam­starf­inu við aðrar deild­ir Fjöl­brauta­skól­ans, þar sem garðyrkju­nem­ar geta stundað viðbót­ar­nám í öðrum grein­um og öf­ugt. Sam­band Fjöl­brauta­skól­ans við at­vinnu­líf á Suður­landi er sterkt og við blas­ir að nem­end­ur á Reykj­um njóti góðs af frá­bæru starfi og ný­sköp­un einka­rek­inna gróðrar­stöðva á Suður­landi. Und­ir­bún­ing­ur breyt­inga geng­ur vel og þarfagrein­ing­ar skól­anna liggja fyr­ir, en þær hafa m.a. verið unn­ar með full­trú­um Garðyrkju­skól­ans og at­vinnu­lífi garðyrkj­unn­ar.

Nokk­ur umræða hef­ur skap­ast um Reyki á und­an­förn­um miss­er­um og m.a. hafa stjórn­mála­menn kvatt sér hljóðs með greina­skrif­um og fyr­ir­spurn­um. Ég fagna aukn­um áhuga á mál­inu, enda er það mark­mið allra málsaðila að tryggja viðveru og vöxt hins glæsi­lega mennt­a­starfs sem fram fer á Reykj­um. Ábend­ing­ar nem­enda og kenn­ara eru jafn­framt gott inn­legg í sam­vinn­una, sem er í full­um gangi, svo hinir sögu­frægu Reyk­ir muni blómstra um ókomna tíð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. mars 2021.

Categories
Greinar

Fræðilega er allt ómögulegt þar til það hefur verið gert

Deila grein

22/03/2021

Fræðilega er allt ómögulegt þar til það hefur verið gert

Íslenska þjóðin hef­ur um nokk­urt skeið verið þátt­tak­andi í stóru og fjöl­breyttu grunn­nám­skeiði í vís­ind­um. Þar er m.a. fjallað um hvernig vís­inda­menn nýta vís­inda­leg­ar niður­stöður og aukna þekk­ingu til að byggja und­ir stöðumat og mögu­lega þróun. Þeir hika ekki við að skipta um skoðun eða breyta mati sínu ef vís­inda­leg­ar mæl­ing­ar gefa til­efni til, eða til að mæta ófyr­ir­sjá­an­legri þróun.

Loðna, jarðhrær­ing­ar og far­sótt

Vís­indi og rann­sókn­ir tengj­ast með bein­um hætti mörg­um af stóru spurn­ing­un­um sem Íslend­ing­ar leita svara við. Stofn­stærðarmæl­ing­um á fiski­stofn­um og afla­heim­ild­um, jarðskjálfta­virkni á Reykja­nesi og lík­um á eld­gosi. Aðgerðum sótt­varna­lækn­is vegna Covid-19, vökt­un og viðbrögðum við snjóflóðum og skriðuföll­um, hag­nýt­ingu upp­lýs­inga­tækni og fjar­skipta til að halda sam­fé­lag­inu gang­andi í miðjum heims­far­aldri o.s.frv.

Öllum ætti því að vera ljóst að rann­sókn­ir og hag­nýt­ing vís­inda­starfs er mik­il­væg for­senda fyr­ir þróun sam­fé­lags­ins og er þá eng­inn hluti þess und­an­skil­inn. Kennslu­dæm­in í nám­skeiðinu sem við sitj­um nú hafa einnig leitt hug­ann að því frá­bæra og öfl­uga vís­inda­fólki og stofn­un­um sem við eig­um.

Í áætl­un vís­inda- og tækni­ráðs eru m.a. til­greind­ar aðgerðir sem eru á ábyrgð mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­is. „Mik­il­vægt er að vís­indastarf nýt­ist ís­lensku sam­fé­lagi í stefnu­mót­un og lýðræðis­leg­um ákvörðunum. Ekki verður unnt að ná tök­um á sam­fé­lags­leg­um áskor­un­um, svo sem lýðheilsu­vanda­mál­um og lofts­lags­vá, nema stefnu­mót­andi aðilar og al­menn­ing­ur hafi greiðan aðgang að áreiðan­legri þekk­ingu.“ Með þessu er ætl­un­in að skapa um­gjörð sem trygg­ir sýni­leika vís­inda, stuðlar að auk­inni þekk­ingu á aðferðum vís­inda, eyk­ur skiln­ing, traust og virðingu fyr­ir niður­stöðum vís­inda og sér­fræðiþekk­ing­ar, trygg­ir aðgang að gagn­reynd­um upp­lýs­ing­um og vinn­ur mark­visst gegn áhrif­um fals­frétta og rangra upp­lýs­inga í sam­fé­lag­inu.

Stærsta út­hlut­un Rann­sókna­sjóðs frá upp­hafi

Rann­sókna­sjóður gegn­ir lyk­il­hlut­verki við fjár­mögn­un vís­inda­verk­efna hér á landi. Hann styður verk­efni á öll­um sviðum vís­inda og veit­ir fjór­ar teg­und­ir styrkja til doktorsnema, nýdok­tora, rann­sókn­ar­verk­efna og önd­veg­is­styrki til stórra verk­efna sem skara fram úr á sínu sviði og hafa alþjóðlega teng­ingu.

Úthlut­un styrkja úr sjóðnum hef­ur aldrei verið hærri en nú og fleiri ný verk­efni njóta stuðnings en áður – alls 82 tals­ins. Sjóður­inn hef­ur frá ár­inu 2004 verið leiðandi sam­keppn­is­sjóður hér á landi, en hlut­verk hans er að styrkja vís­inda­rann­sókn­ir og rann­sókn­artengt fram­halds­nám á Íslandi. Síðustu ár hafa fram­lög til sjóðsins verið um 2,5 millj­arðar kr. en á síðasta ári bætt­ist við 776 millj­óna Covid-fram­lag. Á þessu ári voru fjár­veit­ing­ar hins veg­ar hækkaðar í 3,7 millj­arða, í sam­ræmi við stefnu vís­inda- og tækni­ráðs frá síðasta ári.

Um 2 millj­arðar kr. renna til eldri verk­efna en styrk­veit­ing­ar til nýrra verk­efna nema á 1,3 millj­örðum kr. á ár­inu. Rann­sókna­sjóður styrk­ir einnig þátt­töku ís­lenskra aðila í mörg­um alþjóðlega sam­fjár­mögnuðum verk­efn­um.

Bú­ast má við að heild­ar­fram­lag vegna nýju verk­efn­anna verði um 4 millj­arðar áður en yfir lýk­ur, enda ná verk­efn­in yf­ir­leitt yfir þriggja ára tíma­bil. Á grund­velli þess­ara rann­sókna, og annarra sem sjóður­inn hef­ur stutt, skap­ast þekk­ing sem hjálp­ar okk­ur að þróa sam­fé­lagið okk­ar og bæta lífs­gæðin.

Skýrt merki um öfl­ugt vís­indastarf

Um­sókn­um í Rann­sókna­sjóð hef­ur fjölgað und­an­far­in ár og ár­ang­urs­hlut­fallið hafði lækkað stöðugt þar til nú. Með stækk­un sjóðsins hef­ur þró­un­inni verið snúið við, því þrátt fyr­ir 402 um­sókn­ir var ár­ang­urs­hlut­fallið nú rúm 20% og hef­ur ekki verið hærra síðan 2017. Þessi mikla eft­ir­spurn er til marks um öfl­ugt vís­indastarf á Íslandi, metnað vís­inda­fólks og vís­bend­ing um framtíðarávinn­ing fyr­ir okk­ur öll.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. mars 2021.