Categories
Greinar

Draugagangur

Deila grein

19/10/2021

Draugagangur

Göm­ul óværa hef­ur minnt á sig á und­an­förn­um miss­er­um. Sam­kvæmt gam­alli þjóðtrú er ekki hægt að drepa drauga, en hins veg­ar má kveða þá niður svo ekki spyrj­ist til þeirra um styttri eða lengri tíma. Sú lýs­ing virðist eiga við um verðbólgu­draug­inn, sem reglu­lega er vak­inn upp og get­ur svifið um hag­kerfið allt ef ekki er haldið fast um stjórn­artaum­ana.

Nú ber reynd­ar svo við, að verðbólga hef­ur auk­ist um all­an heim en ekki aðeins á Íslandi. Önnur óværa er a.m.k. að hluta ábyrg fyr­ir þess­ari alþjóðlegu þróun, því verðbólga virðist vera fylgi­fisk­ur Covid-19 í mörg­um lönd­um heims – ekki síst í Banda­ríkj­un­um, þar sem verðbólga hef­ur fimm­fald­ast frá árs­byrj­un. Skýr­inga er einkum að leita í mikl­um og snörp­um efna­hags­bata, hækk­un olíu- og hrávöru­verðs, vöru­skorti og hærri fram­leiðslu- og flutn­ings­kostnaði. Eft­ir­spurn hef­ur auk­ist hratt og á mörg­um mörkuðum hef­ur virðiskeðjan rofnað, með til­heyr­andi raski á jafn­vægi milli fram­boðs og eft­ir­spurn­ar. Fyr­ir vikið hef­ur inn­flutt verðbólga auk­ist á Íslandi og mæld­ist verðbólga í sept­em­ber 4,4% ásamt því að verðbólgu­vænt­ing­ar hafa auk­ist á ný. Þar spil­ar inn í hækk­andi verðlag á nauðsynja­vör­um og svo auðvitað hús­næðisliður­inn, en ört hækk­andi hús­næðis­verð er aðkallandi vandi sem verður að leysa. Góðu frétt­irn­ar eru hins veg­ar þær, að und­ir­liggj­andi verðbólga hélt áfram að hjaðna, þótt hún sé enn nokk­ur. Grein­inga­deild­ir bú­ast við því að há­marki verði náð í kring­um ára­mót­in, en þaðan í frá muni verðbólga lækka og verða um 2,5% á seinni hluta næsta árs.

Þetta þarf að hafa í huga við hag­stjórn­ina og brýnt er að grípa til mót­vægisaðgerða svo lang­tíma-verðbólg­an verði hóf­leg. Nú þegar hef­ur Seðlabank­inn gripið til aðgerða, hækkað vexti ásamt því að setja þak á hlut­fall veðlána og greiðslu­byrði hús­næðislána. Stefn­an í rík­is­fjár­mál­um þarf að taka mið af þess­ari þróun og leggja sitt lóð á vog­ar­skál­arn­ar, en hér skipt­ir tíma­setn­ing­in miklu máli. Ekki má draga úr efna­hags­leg­um aðgerðum og stuðningi vegna Covid-19 of snemma, en held­ur ekki of seint.

Þrátt fyr­ir allt eru þó góð teikn á lofti. Mik­il­væg­ar at­vinnu­grein­ar eru smám sam­an að styrkj­ast, með já­kvæðum áhrif­um á ís­lenska hag­kerfið. Þannig má ætla að auk­inn fjöldi er­lendra ferðamanna styrki gengi krón­unn­ar, auk þess sem út­lit er fyr­ir óvenju góða loðnu­vertíð. Ef vænt­ing­ar í þá veru raun­ger­ast mun út­flutn­ing­ur aukast og gengið styrkj­ast, sem myndi leiða til verðlækk­ana á inn­flutt­um vör­um. Þá er rétt að rifja upp eðlis­breyt­ingu á ís­lensk­um lána­markaði, en vegna auk­ins áhuga á óverðtryggðum lán­um eru stý­ritæki Seðlabank­ans skil­virk­ari en áður. Stýri­vaxta­hækk­an­ir, sem áður þóttu bit­laus­ar á verðtryggðum hús­næðislána­markaði, hafa nú mun meiri áhrif á efna­hag heim­il­anna og eru lík­legri til að slá á þenslu. Frétt­ir af viðræðum formanna rík­is­stjórn­ar­flokk­anna um end­ur­nýjað sam­starf gefa líka til­efni til bjart­sýni. Við erum á réttri leið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. október 2021.

Categories
Greinar

Norðurslóðir eru vettvangur breytinga

Deila grein

18/10/2021

Norðurslóðir eru vettvangur breytinga

Mál­efni norður­slóða eru meðal helstu for­gangs­mála Íslands á alþjóðavett­vangi, en bæði vís­inda­leg og staðbund­in þekk­ing er ómet­an­leg við ákv­arðana­töku sem hef­ur áhrif á heim­inn. Vís­inda­rann­sókn­ir og vökt­un breyt­inga á norður­slóðum er und­ir­staðan fyr­ir frek­ari stefnu­mót­un, bæði inn­an ríkja og í alþjóðlegu sam­starfi. Áhrif lofts­lags­breyt­inga eru einna sýni­leg­ast­ar á norður­slóðum þar sem hlýn­un er meira en tvö­falt hraðari en ann­ars staðar. Hring­borð norður­slóða fer fram þessa dag­ana í Reykja­vík. Það er alþjóðleg­ur sam­starfs- og sam­ráðsvett­vang­ur um mál­efni norður­slóða og stærsta alþjóðlega sam­kom­an þar sem framtíð norður­slóða er rædd. Ísland nýt­ur góðs af þess­um sam­ráðsvett­vangi og mik­il­vægt að hann sé nýtt­ur af vís­inda­sam­fé­lag­inu og at­vinnu­líf­inu.

Kort­lagn­ing norður­slóðarann­sókna á Íslandi

Um­fang norður­slóðarann­sókna á Íslandi hef­ur auk­ist mikið und­an­far­inn ára­tug og hafa rann­sókn­ar­verk­efni á mál­efna­sviðinu sprottið upp víða um land. Ný­verið kom út skýrsl­an: Kort­lagn­ing norður­slóðarann­sókna á Íslandi sem unn­in var af Rannís, Stofn­un Vil­hjálms Stef­áns­son­ar og Norður­slóðaneti Íslands, en verk­efnið naut góðs af sér­stöku átaki rík­is­stjórn­ar­inn­ar um sum­arstörf fyr­ir náms­menn á tím­um heims­far­ald­urs. Skýrsl­an inni­held­ur meðal ann­ars grein­argott yf­ir­lit um norður­slóðastefnu ís­lenskra stjórn­valda og lýs­ingu á ís­lensk­um aðilum sem stunda norður­slóðarann­sókn­ir. Meg­in­efni skýrsl­urn­ar er grein­ing á norður­slóðaverk­efn­um út frá út­hlut­un­um inn­lendra og er­lendra sam­keppn­is­sjóða und­an­far­inn ára­tug. Þar kem­ur fram að yfir millj­arði króna hafi verið út­hlutað hér­lend­is til norður­slóðaverk­efna úr Rann­sókna­sjóði, en há­skól­ar, stofn­an­ir og fyr­ir­tæki á Íslandi hafa jafn­framt sótt verk­efna­styrki fyr­ir yfir millj­arð króna í Horizon 2020, rann­sókn­ar- og ný­sköp­un­ar­áætl­un Evr­ópu­sam­bands­ins á sjö ára tíma­bili áætl­un­ar­inn­ar. Niður­stöður skýrsl­unn­ar leiða í ljós að á Íslandi kem­ur öfl­ug­ur hóp­ur aðila að norður­slóðarann­sókn­um og að ís­lensk­ir há­skól­ar, stofn­an­ir og fyr­ir­tæki eru eft­ir­sótt­ir sam­starfsaðilar í alþjóðlegu sam­starfi.

Póli­tísk for­ysta um vís­inda­sam­starf á norður­slóðum og auk­in sam­skipti við Jap­an

Ísland hef­ur gert sig gild­andi í alþjóðlegu norður­slóðasam­starfi og hef­ur verið með for­mennsku í Norður­skauts­ráðinu árin 2019-2021. Ísland hef­ur einnig í sam­starfi við Jap­an staðið að þriðja fundi vís­inda­málaráðherra um vís­indi norður­slóða. Upp­haf­lega stóð til að fund­ur­inn færi fram í nóv­em­ber síðastliðnum en líkt og hef­ur gerst með aðra alþjóðlega viðburði hafa skipu­leggj­end­ur þurft að aðlaga sig að breytt­um aðstæðum vegna Covid-19-heims­far­ald­urs­ins. Megin­áhersla ís­lenskra stjórn­valda hef­ur verið opin umræða, gagn­sæi og ný­sköp­un. Áhrif um­hverf­is- og tækni­breyt­inga á sam­fé­lög og líf­ríki á norður­slóðum hafa verið dreg­in upp sem mik­il­vægt viðfangs­efni. Meðal þess sem komið hef­ur í ljós er mik­il þörf á auk­inni vökt­un og frek­ari rann­sókn­um á sam­spili um­hverf­is­breyt­inga og sam­fé­lagsþró­un­ar á norður­slóðum og þýðingu þess­ara breyt­inga á heimsvísu. Meðal þess sem hef­ur komið út úr sam­starfi vís­inda­málaráðherra norður­slóða er nýr gagna­grunn­ur um alþjóðlegt vís­inda­sam­starf og sam­ráðsvett­vang­ur fjár­mögn­un­araðila norður­slóðarann­sókna.

Sókn­ar­færi fyr­ir at­vinnu­lífið og frek­ari rann­sókn­ir

Á und­an­förn­um árum hef­ur byggst upp öfl­ugt þekk­ing­ar­sam­fé­lag hér­lend­is um mál­efni sem get­ur vaxið og dafnað frek­ar. Í því sam­hengi hef­ur Ísland tæki­færi til að styrkja stöðu sína enn frek­ar sem alþjóðleg miðstöð fyr­ir norður­slóðarann­sókn­ir og ný­sköp­un, þar sem hag­felld land­fræðileg lega og öfl­ug­ir innviðir eru lyk­il­for­senda í sam­spili við það marg­breyti­lega hug­vit sem hér fyr­ir­finnst. Síðastliðið haust var kynnt vís­inda- og tækni­stefna fyr­ir árin 2020-2022, þar sem blásið er til stór­sókn­ar til stuðnings við þekk­ing­ar­sam­fé­lagið á Íslandi, meðal ann­ars með efl­ingu sam­keppn­is­sjóða og til rann­sókna og ný­sköp­un­ar á sviði um­hverf­is­mála. Ég vænti þess að vinn­an sem nú fer fram styðji við kom­andi kyn­slóð rann­sak­enda og frum­kvöðla sem leita munu nýrra tæki­færa á norður­slóðum.

Í mín­um huga er það ljóst að tækni­fram­far­ir verða leiðandi í lausn­inni á lofts­lags­vand­an­um. Græn fjár­fest­ing og hug­vit Íslend­inga get­ur orðið lyk­ill­inn að raun­veru­leg­um fram­förum.

Ísland hef­ur margt fram að færa í mál­efn­um norður­slóða. Við eig­um að halda áfram að leggja áherslu á mál­efni norður­slóða í víðum skiln­ingi; tryggja stöðu okk­ar sem strand­rík­is inn­an svæðis­ins og taka virk­an þátt í alþjóðlegri vís­inda­sam­vinnu er því teng­ist.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. október 2021.

Categories
Greinar

Samfélagslegur ávinningur sjókvíaeldis

Deila grein

15/10/2021

Samfélagslegur ávinningur sjókvíaeldis

Í dag ef­ast fáir ef nokkr­ir um mik­il­vægi fisk­eld­is sem at­vinnu­grein­ar hér á landi. Fjár­fest­ing upp á tugi millj­arða króna ligg­ur í grein­inni og frek­ari fjár­fest­ing bíður eft­ir leyf­um til rekstr­ar. Útflutn­ings­verðmæti eld­islax juk­ust um 29% á milli ára og fór vægi hans í 70% út­flutn­ings­verðmæt­is eldisaf­urða á ár­inu. Nú er svo komið að út­flutn­ing­ur á eld­islaxi skil­ar næst­mest­um verðmæt­um allra fisk­teg­unda sem flutt­ar eru frá Íslandi.

Það er skemmti­leg staðreynd sem kom fram á góðum fund­um Vest­fjarðastofu um fisk­eldi nú í sept­em­ber að 3% af út­flutn­ings­verðmæt­um Íslands verða til í 1.500 fer­metra slát­ur­húsi á Bíldu­dal. Sam­fé­lög­in sem hýsa þessa vax­andi at­vinnu­grein mega hafa sig alla við að tryggja þá innviði sem þurfa til að mæta þörf­um og halda þræði í upp­bygg­inga­ferl­inu. Upp­bygg­ing á innviðum er grund­völl­ur að vexti grein­ar­inn­ar og sam­eig­in­leg­um ábata.

Fisk­eld­is­sjóður­inn

Fisk­eld­is­sjóður á sér stoð í lög­um sem voru samþykkt vorið 2019 um töku gjalds vegna fisk­eld­is í sjó og fisk­eld­is­sjóð. Þar er gert ráð fyr­ir að þriðjung­ur tekna af gjald­töku af fisk­eldi renni á kom­andi árum í Fisk­eld­is­sjóð sem sveit­ar­fé­lög geta sótt í til innviðaupp­bygg­ing­ar. Á dög­un­um var út­hlutað fyrstu greiðslum úr fisk­eld­is­sjóði og var til skipt­anna 105 m. kr. sem út­hlutað var út frá um­sókn­um sveit­ar­fé­laga þar sem sjókvía­eldi er stundað.

Þarna hefst kapp­hlaup um hver eigi bita­stæðustu um­sókn­ina en mik­il vinna ligg­ur á bak við hverja um­sókn. Þá eru sveit­ar­fé­lög­in í mis­jafnri stöðu til þess að vinna um­sókn­ir. Tvö sveit­ar­fé­lög á Vest­fjörðum fengu sam­tals 34 m. kr. og 70 m. kr. fóru til Aust­fjarða, þrátt fyr­ir að meiri­hluta eldisaf­urða verði til á Vest­fjörðum. Það er ljóst út frá þess­ari út­færslu að sveit­ar­fé­lög geta ekki gert raun­hæfa fjár­hags­áætl­un eða fram­kvæmda­áætl­un með hliðsjón af starf­semi at­vinnu­grein­ar­inn­ar eins og hægt er að gera út frá öðrum grein­um sem stundaðar eru á svæðinu.

Brýnt að end­ur­skoða gjald­töku­heim­ild­ir

Í ljósi þess­ar­ar reynslu verður því að segj­ast að þessi út­færsla sem gerð var varðandi fisk­eld­is­sjóð árið 2019 voru mis­tök. Það er best að viður­kenna það strax og bretta upp erm­ar. Þörf er á að yf­ir­fara laga- og reglu­gerðaum­hverfi gjald­töku í fisk­eldi og sér­stak­lega það sem snýr að sveit­ar­fé­lög­um þar sem sjókvía­eldi er stundað. Það þarf ekki að snúa að auk­inni gjald­töku held­ur þarf að tryggja að tekj­ur af slíkri gjald­töku standi und­ir nauðsyn­leg­um verk­efn­um þeirra sveit­ar­fé­laga sem standa næst eld­inu.

Sveit­ar­fé­lög eiga ekki að þurfa að ganga bón­leið í sam­keppn­is­sjóð til að fjár­magna upp­bygg­ingu sem nauðsyn­leg er til þess að há­marks­ábati af fisk­eldi skili sér til sam­fé­lag­anna held­ur verða stjórn­völd að tryggja sann­gjarna dreif­ingu þess­ara tekna.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. október 2021.

Categories
Greinar

Áskorun mætt

Deila grein

11/10/2021

Áskorun mætt

Á tíma­mót­um reik­ar hug­ur­inn til baka. Á síðustu fjór­um árum í mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­inu höf­um við lagt allt kapp á að styrkja mennta­kerfið. Eitt stend­ur upp úr; hvernig okk­ur tókst með öfl­ugri sam­vinnu að snúa vörn í sókn í mennta­mál­um hér á landi.

Við sáum fram á mik­inn nýliðun­ar­vanda í kenn­ara­stétt, að brott­hvarf fram­halds­skóla­nema væri hátt, að sam­keppn­is­hæfni okk­ar færi minnk­andi á alþjóðavísu og að fjölga þyrfti iðnmenntuðum. Við hóf­umst strax handa við að greina þess­ar áskor­an­ir, svo við gæt­um brugðist hratt og ör­ugg­lega við. Hér dugðu eng­in vett­linga­tök, við boðuðum stór­sókn í mennta­mál­um.

Við vit­um að starfs­ánægja kenn­ara og trú þeirra á eig­in getu hef­ur bein áhrif á frammistöðu og hvata nem­enda. Kenn­ar­ar eru hið sanna hreyfiafl fram­fara inn­an skóla­sam­fé­lags­ins. Við þurf­um að treysta kenn­ur­um og leyfa ár­ang­urs­rík­um starfs­hátt­um þeirra að festa sig í sessi.

Til að sporna gegn nýliðun­ar­vand­an­um þurfti að fjölga kenn­ara­nem­um, minnka brott­hvarf úr kenn­ara­stétt, koma á einu leyf­is­bréfi kenn­ara og auka virðingu kenn­ara í sam­fé­lag­inu. Við kynnt­um til sög­unn­ar launað starfs­nám og styrki til kenn­ara­nema. Við stuðluðum að bættri mót­töku og leiðsögn kenn­ara­nema og nýliða, styðjum mark­viss­ar við nýliða í starfi og fjölguðum kenn­ur­um með sér­hæf­ingu í starfstengdri leiðsögn.

Við hóf­um kort­lagn­ingu á brott­hvarfi nem­enda í fram­halds­skól­um til þess að greina mark­viss­ar ástæður og þróun brott­hvarfs nem­enda. Ljóst er að brott­hvarfið hefst ekki í fram­halds­skóla held­ur miklu fyrr, og því þarf mennta­kerfið að halda þétt utan um nem­end­ur frá upp­hafi til enda.

Hindr­un­um var rutt úr vegi í iðnnám­inu í sam­vinnu við Sam­tök iðnaðar­ins og fræðsluaðila. Ra­f­ræn fer­il­bók tek­in upp, vinnustaðanámið tengt skól­un­um og jöfnuðum aðgengi að há­skóla­námi. Kynnt voru áform um að reisa nýj­an Tækni­skóla sem svara þörf­um framtíðar­inn­ar.

Til þess að efla sam­keppn­is­hæfni fór­um við í fjöl­marg­ar aðgerðir. Við lit­um til Svíþjóðar til að efla starfsþróun kenn­ara og skóla­stjórn­enda, hóf­um sam­starf við Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ina og sett­um af stað mennt­a­rann­sókna­sjóð. Stærsta skrefið var þó að marka nýja mennta­stefnu til árs­ins 2030, hvers mark­mið er að tryggja framúrsk­ar­andi mennta­kerfi hér á landi.

Við erum stolt af þeim ár­angri sem náðst hef­ur á und­an­förn­um fjór­um árum, hann hef­ur styrkt grunnstoðir mennta­kerf­is­ins svo um mun­ar, brott­hvarf hef­ur minnkað og braut­skrán­ing­ar­hlut­fall fram­halds­skóla­nem­enda auk­ist um 37%. Um­sókn­um um kenn­ara­nám hef­ur fjölgað um 118% og fjöldi nem­enda í húsa­smíði og í grunn­námi bygg­inga- og mann­virkja­greina hef­ur auk­ist um 56% á síðustu tveim­ur árum.

Ég þakka þeim fjöl­mörgu sem lögðu hönd á plóg til þess að breyta stefnu skút­unn­ar. Við erum á réttri leið!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. október 2021.

Categories
Greinar

Fjárfesting í fólki er líka efnahagsmál

Deila grein

30/09/2021

Fjárfesting í fólki er líka efnahagsmál

Skila­boðin sem kjós­end­ur sendu stjórn­völd­um um liðna helgi voru skýr. Þjóðin valdi ann­ars veg­ar áfram­hald­andi stöðug­leika í efna­hags­mál­um og hins veg­ar að fjár­festa í fólki. Rík­is­stjórn­in jók þingstyrk sinn og fékk umboð til að end­ur­nýja sam­starfið. Sam­ræður þar að lút­andi eru hafn­ar og á næstu dög­um ættu lín­ur að skýr­ast. Í samn­ingaviðræðum geng­ur eng­inn að neinu vísu og fólk mæt­ir til leiks með opn­um hug, en mark­miðið er skýrt; að vinna þjóðinni gagn og auka vel­sæld í land­inu.

Efna­hags­horf­urn­ar fyr­ir árið hafa styrkst, eft­ir því sem hjól at­vinnu­lífs­ins snú­ast hraðar og áhrif heims­far­ald­urs minnka. Gert er ráð fyr­ir 4% hag­vexti í ár og at­vinnu­leysi hef­ur minnkað hratt. At­vinnuþátt­taka nálg­ast það sem hún var fyr­ir Covid og horf­ur eru góðar.

Mót­vægisaðgerðir vegna áhrifa heims­far­ald­urs kostuðu sitt, en í sam­an­b­urði við önn­ur lönd er staða rík­is­sjóðs góð. Vissu­lega er halli á rík­is­sjóði um þess­ar mund­ir, en sterk staða fyr­ir Covid og mark­viss niður­greiðsla skulda á und­an­förn­um ára­tug skap­ar góða viðspyrnu sem stjórn­völd munu nýta til að snúa við tíma­bundn­um halla­rekstri. Rétt er að minna á, að rík­is­út­gjöld­um vegna Covid var fyrst og fremst ætlað að verja af­komu fólks og sam­fé­lags­lega innviði svo áhrif heims­far­ald­urs yrðu ekki var­an­leg.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn legg­ur ríka áherslu á stöðug­leika í efna­hags­mál­um. Að sam­spil pen­inga­stefnu, rík­is­fjár­mála og vinnu­markaðar­ins sé gott og sjálf­bært til langs tíma. Þá er mik­il­væg að vaxta­stig í land­inu sé hag­stætt, en með eðlis­breyt­ingu á lána­markaði eru stý­ritæki Seðlabank­ans nú skil­virk­ari en áður. Stór hluti hús­næðislána er nú óverðtryggður og fyr­ir vikið skil­ar stýri­vaxta­hækk­un sér miklu hraðar en áður inn í neysl­una. Það er fagnaðarefni, enda betra til að halda niðri verðbólgu sem er eitt helsta hags­muna­mál al­menn­ings.

Á und­an­förn­um árum hef­ur Fram­sókn lagt áherslu á að fjár­festa í fólki. Þeirri stefnu héld­um við til streitu í aðdrag­anda kosn­inga, og það mun­um við gera í viðræðum um mynd­un rík­is­stjórn­ar. Í mennta­mál­um eru spenn­andi tím­ar fram und­an, þar sem fyr­ir ligg­ur aðgerðaáætl­un til þriggja ára sem mun efla mennt­un í land­inu, ár­ang­ur og skil­virkni í skóla­starfi, læsi ung­menna og sköp­un­ar­kraft þeirra. Allt miðar að því tryggja heild­stæða skólaþjón­ustu, með viðeig­andi stuðningi við þá sem þurfa og inn­grip strax í upp­hafi skóla­göngu til að bæta nám og far­sæld barna. Sam­hliða er mik­il­vægt að kerf­is­breyt­ing­ar í mál­efn­um barna nái fram að ganga, en barna­málaráðherra hef­ur verið óþreyt­andi í bar­áttu sinni fyr­ir auk­inni vel­sæld barna og mun fyr­ir hönd Fram­sókn­ar leiða vinnu til hags­bóta fyr­ir eldri borg­ara. Staða þeirra er mis­jöfn, því á meðan sum­ir hafa það gott eru aðrir illa stadd­ir. Brýnt er að leysa þann vanda, í góðri sam­vinnu við alla helstu hagaðila svo eng­inn verði út und­an.

Höf­und­ur er mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Höf­und­ur: Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. september 2021.

Categories
Fréttir Greinar

Er ekki bara best að kjósa Framsókn?

Deila grein

25/09/2021

Er ekki bara best að kjósa Framsókn?

Þegar þessi orð eru sett á blað er stillt haust­veður í höfuðborg­inni. Veður­spá­in fyr­ir kjör­dag ekki eins og best verður á kosið en ég er þó bjart­sýnn á að kosn­inga­vilji fólks sé það mik­ill að það mæti á kjörstað til að ákv­arða stefn­una inn í framtíðina. Það er mik­il­vægt að all­ir nýti þann rétt sem fyrri kyn­slóðir börðust fyr­ir: Rétt­inn til að hafa áhrif.

Við erum stolt af ár­angr­in­um

Við höf­um á því kjör­tíma­bili sem er að ljúka unnið hörðum hönd­um í breiðri stjórn að mik­il­væg­um fram­fara­mál­um og vil ég sér­stak­lega nefna bylt­ingu kerf­is­ins í þágu barna, nýj­an Mennta­sjóð náms­manna, 12 mánaða fæðing­ar­or­lof, hlut­deild­ar­lán fyr­ir fyrstu kaup­end­ur og tekju­lægri, Loft­brú og þær stór­kost­legu fram­kvæmd­ir í sam­göng­um sem lands­menn hafa orðið var­ir við á ferðum sín­um um landið okk­ar í sum­ar. Allt þetta höf­um við fram­kvæmt, og meira til, þrátt fyr­ir heims­far­ald­ur kór­ónu­veirunn­ar.

Við vilj­um fjár­festa í fólki og heil­brigði

Þau sem búa á þessu landi hafa sýnt það á síðustu mánuðum og árum að sam­taka­mátt­ur­inn og samstaðan er mik­il þegar á reyn­ir. Á þess­um krafti sam­vinn­unn­ar vilj­um við í Fram­sókn byggja til að bæta sam­fé­lagið okk­ar enn frek­ar. Við höf­um í kosn­inga­bar­átt­unni sett mál­efni barna og ung­menna sér­stak­lega á dag­skrá. Við vilj­um að hvert og eitt barn yfir sex ára aldri fái sér­stak­an 60 þúsund króna vaxt­ar­styrk til að öll börn geti sprungið út í tóm­stund­um sín­um.

Við vilj­um fjár­festa í heil­brigði þjóðar­inn­ar með áherslu á for­varn­ir og geðheil­brigði. Eitt af verk­efn­um næstu rík­is­stjórn­ar er að leiða sam­an full­trúa heil­brigðis­stétta, sér­fræðinga, frjálsra fé­laga­sam­taka og þeirra sem nota þjón­ustu spít­al­anna til að móta heild­stæða og fram­sýna stefnu þegar kem­ur að heil­brigði þjóðar­inn­ar. Við vilj­um auka þjón­ustu við eldra fólk með það að mark­miði að þau sem geta og vilja geti búið þar sem þeim líður best: heima hjá sér.

Við vilj­um jafn­vægi og fjár­festa í framtíðinni

Við vilj­um treysta enn und­ir­stöður lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja til að auka verðmæta­sköp­un og at­vinnu­tæki­færi um land allt. Við vilj­um hækka end­ur­greiðslur vegna kvik­mynda­gerðar. Við vilj­um auka græna fjár­fest­ingu. Allt miðar þetta að því að skapa for­send­ur fyr­ir stöðugt öfl­ugra at­vinnu­lífi sem er for­senda öfl­ugr­ar vel­ferðar á Íslandi.

Við þekkj­um það flest úr okk­ar dag­lega lífi að það er mik­il­vægt að búa við jafn­vægi. Við í Fram­sókn stönd­um fyr­ir um­bæt­ur. Við vilj­um byggja á því sem er gott og laga það sem laga þarf. Við vilj­um vinna að stefnu­mál­um okk­ar með sam­vinnu og jöfnuð að leiðarljósi. Þessi sam­vinnu­hugs­un hef­ur gert stór um­bóta­mál að veru­leika á því kjör­tíma­bili sem er að ljúka og mun gera það áfram ef við fáum til þess stuðning þinn. Stjórn­mál snú­ast nefni­lega ekki aðeins um að setja fram stefnu og stefnu­mál held­ur líka vinnu­brögð – og heil­indi.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Höf­und­ur er sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. september 2021.

Categories
Greinar

Lítil og meðalstór fyrirtæki – lykill að uppbyggingu og þróun

Deila grein

24/09/2021

Lítil og meðalstór fyrirtæki – lykill að uppbyggingu og þróun

Lítil og meðalstór fyrirtæki sinna lykilhlutverki á atvinnumarkaðnum hér á landi. Þau tryggja meirihluta Íslendinga atvinnu, stuðla að fjölbreyttri atvinnu ásamt því að vera lykillinn að uppbyggingu og þróun þvert yfir landið. Fyrir Covid sýndi tölfræðin að lítil og meðalstór fyrirtæki greiddu laun rúman meirihluta landsmanna, eða kringum 70% þeirra. Líklega hefur tölfræðin breyst töluvert eftir komu Covid, en talið er að staðan verði aftur sambærileg þegar við höfum náð tökum á veirunni.

Skattar og álögur

Lítil og meðalstór fyrirtæki eiga mörg hver erfitt með greiðslubyrðina á m.a. tryggingagjaldi og opinberum álögum. Þetta hindrar vöxt þeirra og leiðir jafnvel til þess fyrirtækin neyðast til að hætta rekstri. Almennt er um litla upphæð gjalds að ræða í tilfelli opinberra álagna, en þegar á botninn er hvolft þá geta þetta orðið töluverðar fjárhæðir sem geta reynst mörgum litlum og meðalstórum fyrirtækjum íþyngjandi. Þetta á sérstaklega við um fyrirtæki í upphafi rekstrar.

Framsókn vill bæta rekstrarumhverfið

Við í Framsókn erum vel meðvituð um mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja hér á landi og viljum bæta hag þeirra. Framsókn vill taka upp þrepaskipt tryggingagjald og lækka það á lítil og meðalstór fyrirtæki. Einnig vill Framsókn létta undir greiðslubyrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja á opinberum álögum, til dæmis úttektum eftirlitsaðila og leyfisveitingar frá hinu opinbera. Þetta eru raunhæfar lausnir sem geta aðstoðað þessi fyrirtæki við að koma rekstri sínum á réttan kjöl.

Að auki vill Framsókn nota skattkerfið til að jafna aðstöðu fólks á landsbyggðinni ásamt því að styðja betur við rekstur lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þannig er skattkerfið notað til að fjárfesta í fólki og hvetja til fjölþættari verðmætasköpunar.

Með leiðum sem þessum getum við bætt rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja, og með því stuðlað að auknum og fjölbreyttum atvinnumöguleikum um allt land.

Stefán Vagn Stefánsson

Höfundur er oddviti Framsóknar í Norðvesturkjördæmi og yfirlögregluþjónn í Skagafirði.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 24. september 2021.

Categories
Greinar

Fæðingarorlof sterkt jafnréttismál

Deila grein

24/09/2021

Fæðingarorlof sterkt jafnréttismál

Sér­stök staða Íslands í rétt­inda­mál­um for­eldra til fæðing­ar­or­lofs hef­ur farið síbatn­andi í ár­anna rás og nú síðast á þessu ári. Ef litið er til sög­unn­ar þá hef­ur þró­un­in verið hæg. Þörf kvenna hér áður fyr­ir fæðing­ar

or­lof var há­vær og aðkallandi þegar kon­ur fjöl­menntu út á vinnu­markaðinn á ár­un­um 1970-1980.

Fyrsta fæðing­ar­or­lofið var veitt til 3ja mánaða en í tíð Ragn­hild­ar Helga­dótt­ur aþing­is­manns og ráðherra var það lengt í 5 mánuði og síðar í 6 mánuði og þá fyrst kallað fæðing­ar­or­lof í lög­um og feður nefnd­ir. En svo kom löng bið. Árið 2000 er svo merk­is­ár í þess­ari sögu og má þar þakka Fram­sókn og Páli Pét­urs­syni sér­stak­lega fyr­ir það merka og mik­il­væga skref sem þá var stigið með því að feður fengju fæðing­ar­or­lof og kon­ur lengra or­lof. Páll hef­ur minnst þess að víða er­lend­is var þetta svo merk­ur áfangi að hann var hyllt­ur af kon­um sem vildu fá eig­in­hand­arárit­un frá ráðherr­an­um sem þorði.

En hvaða áhrif hafði þessi mik­il­væga breyt­ing til framtíðar nú rúm­um tutt­ugu árum síðar. Gerðar hafa verið rann­sókn­ir og vil ég því gefa Ingólfi V. Gísla­syni dós­ent í fé­lags­fræði orðið en hann skrifaði um rann­sókn á veg­um HÍ um fram­gang og áhrif breyt­ing­ar­inn­ar:

„Á vor­dög­um 2000 samþykkti Alþingi mót­atkvæðalaust lög um fæðing­ar- og for­eldra­or­lof. Í lög­un­um fólust nokkr­ar rót­tæk­ar breyt­ing­ar. Or­lofið var lengt í áföng­um úr þrem­ur mánuðum í sex. Greiðslur sem áður höfðu verið flat­ar og lág­ar voru nú 80% af laun­um. Sveigj­an­leiki var inn­leidd­ur þannig að mögu­legt var að vera í hluta­or­lofi og hluta­vinnu. Þrír mánuðir voru bundn­ir hvoru for­eldri en þrír voru skipt­an­leg­ir. Mark­mið lag­anna var ann­ars veg­ar að tryggja börn­um um­hyggju beggja for­eldra og hins veg­ar að auðvelda kon­um og körl­um samþætt­ingu fjöl­skyldu­lífs og at­vinnuþátt­töku. Nú stend­ur yfir heild­ar­end­ur­skoðun þess­ara laga og því við hæfi að líta yfir hverju þau hafa áorkað.

Aug­ljós­asta breyt­ing­in er að 85-90% feðra taka or­lof til að vera með börn­um sín­um í stað 0,2-0,3% fyr­ir breyt­ing­una. Þeir taka að meðaltali þann tíma sem ein­ung­is þeir geta nýtt. Það er í fullu sam­ræmi við það sem sjá má hjá öðrum þjóðum.

Um­hyggju barna er miklu jafn­ar skipt milli for­eldra en áður og ekki aðeins meðan á or­lofinu stend­ur. Byggt á mati for­eldra (mæðra) sjálfra var um­hyggju barna sem fædd­ust 1997, þrem­ur árum fyr­ir setn­ingu lag­anna, jafnt skipt í um 40% fjöl­skyldna þegar börn­in náðu þriggja ára aldri. Um­hyggju barna sem fædd­ust 2014 var jafnt skipt í 75% fjöl­skyldna þegar þau voru þriggja ára. Rann­sókn­ir á hinum Norður­lönd­un­um sýna það sama, feður sem nýta fæðing­ar­or­lof sitt eru virk­ari við umönn­un barna sinna en þeir sem ekki gera það, alla tíð.

Þetta hef­ur meðal ann­ars skilað sér í því að ís­lensk ung­menni meta sam­skipti sín við feður já­kvæðari en ung­menni 43ja sam­an­b­urðarlanda sam­kvæmt alþjóðlegu rann­sókn­inni Health and behavi­our in school-aged children. Það hef­ur ekki grafið und­an stöðu ís­lenskra mæðra, þær eru eft­ir sem áður með alþjóðlega for­ystu á þessu sviði.

Tvær ís­lensk­ar rann­sókn­ir hafa kom­ist að svipuðum niður­stöðum varðandi sam­spil fæðing­ar­or­lofs og skilnaða. Fæðing­ar­or­lof feðra dreg­ur úr skilnuðum. Það ætti ekki að koma á óvart, sam­eig­in­leg reynsla styrk­ir sam­bönd. Einnig þetta atriði er í fullu sam­ræmi við er­lend­ar rann­sókn­ir.

Þátt­taka feðra í umönn­un barna sinna frá upp­hafi veg­ferðar þeirra hef­ur sýnt sig hafa mik­il­væg­ar af­leiðing­ar fyr­ir börn­in. Virkni feðranna dreg­ur úr hegðun­ar­vand­kvæðum hjá drengj­um og sál­fræðileg­um vanda stúlkna. Hún ýtir und­ir vits­muna­leg­an þroska, dreg­ur úr af­brot­um og styrk­ir stöðu fjöl­skyldna sem standa höll­um fæti, fé­lags­lega og efna­hags­lega.

Það er hafið yfir all­an skyn­sam­leg­an vafa að þessi lög hafa haft þau áhrif sem þeim var ætlað. Alþingi hef­ur ekk­ert bet­ur gert síðustu ára­tugi til að jafna stöðu kynja á vinnu­markaði og í fjöl­skyldu­lífi en að samþykkja þessi lög. Það sem meira er, lík­lega hef­ur Alþingi held­ur ekk­ert bet­ur gert síðustu ára­tugi til að styrkja sam­heldni fjöl­skyldna og bæta stöðu og lífs­ham­ingju ís­lenskra barna.“

Áhrif­in á stöðu kvenna á vinnu­markaði eru líka ótví­ræð. Áður var sagt við ráðum síður konu á barneign­ar­aldri en nú geng­ur það ekki því for­eldr­ar­ir eru jafn­ir.

Tíma­lengd fæðing­ar­or­lofs ræðst af því á hvaða ári barn er fætt, frumætt­leitt eða tekið í var­an­legt fóst­ur. Tíma­lengd árs­ins 2021 er alls 12 mánuðir. Hvort for­eldri um sig á rétt á 6 mánuðum og eru 6 vik­ur fram­selj­an­leg­ar. Tíma­lengd árs­ins 2020 er alls 10 mánuðir. Hvort for­eldri um sig á rétt á 4 mánuðum sem eru ófram­selj­an­leg­ir en 2 mánuðir eru sam­eig­in­leg­ir sem annað for­eldrið get­ur tekið í heild eða for­eldr­ar skipt með sér. Tíma­lengd árs­ins 2019 er 9 mánuðir. Hvort for­eldri um sig á rétt á 3 mánuðum sem eru ófram­selj­an­leg­ir en 3 mánuðir eru sam­eig­in­leg­ir sem annað for­eldrið get­ur tekið í heild eða for­eldr­ar skipt með sér.

Þess­ir áfang­ar hafa orðið í fé­lags­málaráðuneyt­inu í tíð Fram­sókn­ar. Bið aðra að reyna ekki að eigna sér málið.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, skip­ar 3 sæti á lista Fram­sókn­ar í Reykja­vík norður.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. september 2021.

Categories
Greinar

Nauð­syn­leg inn­leiðing hring­rásar­hag­kerfisins

Deila grein

23/09/2021

Nauð­syn­leg inn­leiðing hring­rásar­hag­kerfisins

Á síðastliðnum árum höfum við sem samfélag áttað okkur á því að við þurfum öll að spýta í lófana þegar það kemur að umhverfismálum. Stórt skref í baráttu okkar við hin neikvæðu umhverfisáhrif er að takmarka úrgangsmyndun. Óþarfa myndun úrgangs verður í okkar daglega lífi sem og innan atvinnulífsins. Augljósasta leiðin til þess að sporna við óþarfa úrgangsmyndun er að nýta allar auðlindir til hins ýtrasta.

Hringrásarhagkerfið

Flestar auðlindir geta verið endurnýttar, endurunnar, endurnotaðar o.fl. Þó er það allt of algengt að auðlindum sé fargað þrátt fyrir að eiga enn töluverðan líftíma. Til að sporna við þessu þarf viðhorfsbreytingu, fræðslu og aðgerðir í þágu betri nýtingar auðlinda. Aukin nýting allra auðlinda þarf að gerast vani sem samfélagið temur sér.

Meðal þeirra aðgerða sem við þurfum að koma til framkvæmda er innleiðing hringrásarhagkerfið hér á Íslandi, bæði innan samfélagsins sem og í atvinnulífinu. Hringrásarhagkerfið er hugmyndafræði sem snýst í megindráttum um að viðhalda verðmæti auðlinda og lágmarka myndun úrgangs. Það er gert með hönnun og framleiðslu sem lengir líftíma vöru með t.d. endurnotkun, viðgerðum og endurvinnslu að notkun lokinni.

Sem dæmi um hringrásarhugmyndafræðina má taka verslanir sem selja notuð föt. Þannig er komið í veg fyrir að þau hráefni sem nýtt voru í fötin verði fargað of snemma. Þess í stað finnur fatnaðurinn nýtt heimili og líftími hráefnanna framlengist. Annað dæmi væri sú klassíska endurvinnsla flaska og dósa, sem við könnumst öll við í dag. Með slíkri endurvinnslu er stuðlað að því að auðlindirnar, t.d. ál, endurnýtast í stað þess að enda á haugunum þrátt fyrir augljóst notagildi.

Grænn flokkur, grænar lausnir

Framsókn vill stuðla að innleiðingu hringrásarhagkerfisins í íslenskt samfélag og atvinnulíf. Í þeirri innleiðingu má engan tíma missa. Auðlindir fara til spillis að óþörfu á degi hverjum, og því fyrr sem brugðist verður við, því fyrr er hægt að hámarka líftíma þeirra. Það er hagkvæmt fyrir umhverfið ásamt því að vera einstaklingum og fyrirtækjum til hagsbóta fjárhagslega séð. Hringrásarhagkerfið felst í nútímalausnum í þágu framtíðarinnar.

Framtíðin er græn, eins og við í Framsókn!

Kristín Hermannsdóttir, situr í 4. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Ívar Sigurjónsson, situr í 5. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. september 2021.

Categories
Greinar

Við þurfum byltingu fyrir eldra fólk

Deila grein

23/09/2021

Við þurfum byltingu fyrir eldra fólk

Það er þroska­ferli að eld­ast, ferli þar sem marg­ir upp­lifa auk­inn tíma til að sinna áhuga­mál­um og því sem skipt­ir hvern og einn mestu máli í líf­inu. Á síðustu ára­tug­um hef­ur þetta ferli og ævi­skeið eldra fólks lengst svo um mun­ar og ald­urs­sam­setn­ing þjóðar­inn­ar tekið mikl­um breyt­ing­um. Þessi þróun fel­ur í sér stór­ar áskor­an­ir fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag, áskor­an­ir sem nauðsyn­legt að bregðast við.

Banda­ríski rit­höf­und­ur­inn Betty Fried­an sagði eitt sinn að það að eld­ast ætti að vera æv­in­týri, ekki vanda­mál. Því miður er allt of al­gengt að litið sé á hækk­andi ald­ur þjóðar­inn­ar og aukna þörf eft­ir þjón­ustu­úr­ræðum fyr­ir eldra fólk sem vanda­mál. Birt­ist þetta ekki síst því að mála­flokkn­um hef­ur ekki verið for­gangsraðað hingað til og að framtíðar­sýn og heild­ar­stefnu í mál­efn­um eldra fólk hef­ur skort. Af­leiðing þessa er lífs­gæðaskerðing eldra fólks, aukið álag á aðstand­end­ur, minni starfs­geta en til­efni er til og svo fram­veg­is. Þörf er fyr­ir aukna fjöl­breytni og öfl­ugri þjón­ustu sem ger­ir eldra fólki kleift að búa sem lengst á eig­in heim­ili með reisn og veit­ir því mögu­leika á að upp­lifa þau æv­in­týri sem það kýs.

Staðan í mála­flokki eldra fólks kall­ar á stór­tæk­ar breyt­ing­ar. Nauðsyn­legt er að skoða þau þjón­ustu­kerfi og úrræði sem standa til boða, sam­spil þeirra og samþætt­ingu og ábyrgð ólíkra aðila. Hér duga eng­in vett­linga­tök, þörf er fyr­ir aðgerðir og kerf­is­breyt­ing­ar byggðar á sama grunni og unn­ar voru í mál­efn­um barna á líðandi kjör­tíma­bili af Ásmundi Ein­ari Daðasyni, fé­lags- og barna­málaráðherra. Ásmundi Ein­ari hef ég kynnst í gegn­um störf mín hjá Lands­sam­bandi eldri borg­ara og hef séð hvernig hann tækl­ar verk­efn­in af krafti og af heil­ind­um. Ég treysti hon­um því full­kom­lega til að leiða þessa vinnu og hlakka til að taka slag­inn með hon­um.

Brjót­um upp kerfi – fjár­fest­um í fólki!

Á kom­andi kjör­tíma­bili legg­ur Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn áherslu á að ráðist verði í end­ur­skipu­lagn­ingu á mála­flokkn­um út frá grunn­gild­um ald­ur­svæns sam­fé­lags, samþætt­ingu og per­sónumiðaðri þjón­ustu. Við leggj­um áherslu á að út­rýma „grá­um svæðum“ í þjón­ustu við eldra fólk og að öll þjón­usta bygg­ist á fag­legu mati á ein­stak­lings­bund­inni þörf. Við ætl­um okk­ur að samþætta þjón­ustu í heima­hús, þátt­töku og virkni aldraðra sam­hliða þess sem við ætl­um okk­ur að efla lýðheilsu og for­varn­ir. Við ætl­um okk­ur að tryggja heild­stæðari end­ur­hæf­ingu og auk­inn sveigj­an­leika í þjón­ustu, má þar til dæm­is nefna dagþjálf­un.

Við ætl­um að gera stór­átak í upp­bygg­ingu heim­il­is­hjálp­ar, heima­hjúkr­un­ar og dagþjálf­un­ar­rýma. Þörf er fyr­ir að bæta og fjölga end­ur­hæf­ingar­úr­ræðum og skapa fjöl­breytt­ari þjón­ustu sem styður eldra fólk til að búa heima hjá sér sem lengst, en með því móti að það haldi sjálf­stæði sínu, reisn og virðingu. Sam­hliða þessu er mik­il­vægt að skoða þeim tæki­fær­um sem fel­ast í betri nýt­ingu fjöl­breyttr­ar vel­ferðar­tækni.

Á næsta kjör­tíma­bili ætl­um við enn frem­ur að sam­ræma upp­lýs­inga­kerfi og byggja upp öfl­uga upp­lýs­ingagátt. Með henni verður miðlæg gátt fyr­ir um­sókn­ir um þjón­ustu hins op­in­bera inn­leidd. Not­end­ur munu þannig ekki þurfa að sækja um þjón­ustu á mörg­um stöðum held­ur gegn­um eina þjón­ustugátt og gegn­um hana fengi viðkom­andi viðeig­andi þjón­ustu á hverj­um tíma.

Lífs­kjör eldra fólks

Á næsta kjör­tíma­bili ætl­um við í Fram­sókn að beita okk­ur fyr­ir að hækka al­menna frí­tekju­markið í skref­um. Við vilj­um mæta þeim verst stöddu og horf­um þar sér­stak­lega til hús­næðismála en flest­ir þeir sem búa við bág kjör búa í mjög skuld­settu hús­næði eða greiða háa leigu.

Við vilj­um sam­ræma um­sóknagátt al­mennra og sér­stakra hús­næðis­bóta. Fram­sókn vill að farið verði í heild­ar­end­ur­skoðun á hús­næðismál­um með það að leiðarljósi að finna leiðir til að hjálpa þeim verst stöddu, ásamt því að af­nema frí­tekju­mark at­vinnu­tekna og end­ur­skoða lög um starfs­lok rík­is­starfs­manna. Ásmund­ur Ein­ar hef­ur sýnt að hann get­ur og vill koma í gegn stór­um kerf­is­breyt­ing­um. Sam­an ætl­um við að um­bylta mál­efn­um eldra fólks og fjár­festa í fólki. Við erum nefni­lega rétt að byrja.

Ásmundur Einar Daðason og Þórunn Sveinbjörnsdóttir.

Höf­und­ar skipa fyrsta og þriðja sæti á lista Fram­sókn­ar í Reykja­vík norður.

eldra­folk@fram­sokn.is