Categories
Greinar

Viðsnúningurinn er hafinn

Deila grein

09/12/2022

Viðsnúningurinn er hafinn

Á fundi borgarstjórnar í gær var fjárhagsáætlun borgarinnar aðalumræðuefnið. Það eru ávallt ákveðin tímamót þegar að nýr meirihluti, hvort sem er í borgarstjórn, sveitarstjórn eða á Alþingi Íslendinga leggur fram sitt fyrsta frumvarp að fjárhagsáætlun og ekki síður fyrstu fimm ára áætlun í rekstri borgarinnar.

Ljóst er að fjárhagsáætlun nýs meirihluta gefur tóninn varðandi þau verkefni framundan eru í rekstri borgarinnar á þessu nýja kjörtímabili. Stærsta og mesta áskorunin er að stíga á bremsuna á útgjaldahlið borginnar, leita nýrra og fjölbreyttari leiða til að fá meira út úr rekstrinum og þannig stuðla sterkari og sjálfbærari rekstri A hluta borgarinnar á sama tíma og sterk grunnþjónusta er tryggð.

Krefjandi aðstæður

Verkefnið sem RVK-borg stendur frammi fyrir er verðugt og hefur því miður vaxið að umfangi frá því að ársreikningur ársins 2021 lá fyrir með um 3.8 milljarða halla á A hluta. Afkomuspá þessa árs hefur versnað frá hálfsársuppgjöri 2022 .Gert er ráð fyrir að hallinn verði alls 15,3 milljarðar á árinu 2022 – ári sem hefur verið ár áskoranna á heimsvísu, og Reykjavíkurborg hefur svo sannarlega ekki farið varhluta af þeim.

Áframhaldandi áhrif covid heimsfaraldurins á áfangakeðjur í heiminum sem og ógeðfelld innrás Rússa inn í Úkraínu hafa knúið áfram kostnaðarverðshækkanir og hökt í heimshagkerfinu með tilheyrandi hækkun verðbólgu og vaxta. Á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum hefur óvissan aukist samhliða og þannig hríslast niður í hækkandi ávöxtunarkröfur á skuldabréfamörkuðum sem fólk, fyrirtæki, ríki og sveitarfélög finna fyrir svo um munar.

Það dylst því engum að verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er krefjandi, en er langt í frá óyfirstíganlegt. Sú fjárhagsáætlun sem var samþykkt á fundinum þriðjudaginn s.l. hefur að geyma fjölmargar aðgerðir sem markar upphafið að viðsnúningum í rekstri borgarinnar. Í þessari áætlun er boðað aukið aðhald, aukna ráðdeild og skýrari forgangsröðun til þess styrkja stöðu borgarinnar til lengri tíma. Á sama tíma verður staðið vörð um grunnþjónustu borgarinnar og haldið áfram að fjárfesta í borginni okkar með skipulögðum hætti.

Jákvæðar tölur 2025

Meðal þeirra markmiða og megináherslna sem birtast okkur í fjármálastefnu Reykjavíkurborgar næstu fimm árin eru m.a.:

•Að ná jafnvægi í rekstri A-hluta borgarsjóðs og aðveltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum standi undir fjármögnun fjárfestinga, lántökum og öðrum fjárhagslegum skuldbindingum. Þannig stefnum við á að rekstrarniðurstaða borgarinnar verði jákvæð frá og með árinu 2025.

•Að ná fram lækkun launaútgjalda íhlutfalli af tekjum þannig að hann verði að hámarki 80% af samanlögðum útsvars- og Jöfnunarsjóðstekjum frá og með árinu 2025.

•Að fjármagnsskipan hjá B-hluta fyrirtækjum Reykjavíkurborgar verði grandskoðuð og unnin áætlun um að ná fram eðlilegri arðsemi eigin fjár og hagkvæmri samsetningu eigin fjár, skulda og skuldbindinga.

Aðgerðir sem skipta máli

Samhliða ofangreindu verður umfangsmestu hagræðingaðgerðir borgarinnar frá fjármálahruninu verið hrint í framkvæmd – aðgerðir sem svo sannarlega skipta máli. Þær marka upphafið að nauðsynlegum viðsnúningi til að ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem eru sett í fjármálaáætlun borgarinnar til ársins 2027.

Strax á næsta ári mun hagræðingarkrafan nema að lágmarki 3,1 milljarði króna og fara vaxandi í komandi árum. Þannig mun hún að lágmarki nema rúmum 5 milljörðum árið 2024 og tæpum 7 milljörðum árið 2025.

Á næsta ári verður gerð 1% hagræðingarkrafa á öll sviðborgarinnar. Að sama skapi verður gerð viðbótarhagræðingarkrafa upp á einn milljarð króna, sem byggð verður á tillögum frá einstökum sviðum.

Ljóst er að starfsmönnum borgarinnar hefur fjölgað talsvert umfram lýðfræðilega þróun. Ein af þeim aðgerðum sem mun skipta verulegu máli í að ná betri árangri í rekstri borgarinnar er krafan um hagræðingu í starfsmannahaldi til næstu ára, þar á meðal með aðhaldi í ráðningum samhliða því að leitað verði leiða til samræmingu á verkefnum og breytingar eða niðurlagningu þjónustu.

Framtíðin engu að síður björt

Í þessari vinnu verður þó sérstaklega hugað að mönnun í grunnþjónustu þar sem ávallt skal tryggt að áætluð mannaflþörf samþykktra fjárheimilda sé til staðar.

Þrátt fyrir þær rekstrarlegu áskoranir í rekstri borgarinnar og þær tímabæru hagræðingaraðgerðir sem af þeim leiða, er framtíð Reykjavíkurborgar engu að síður björt. Borgin er þrátt fyrir allt burðug og með eignarhald á góðum fyrirtækjum sem styðja við rekstur hennar. Því eru tækifæri til þess að bæta borgina okkar enn frekar og auka samkeppnishæfni hennar líkt og boðað er í fjárhagsáætlun næstu ára.

•Með uppfærðri húsnæðisáætlun borgarinnar í samningum við Húsnæðis og mannvirkjastofnun verður framboð af lóðum stóraukið í samræmi við stefnu okkar í Framsókn. Mikill þungi verður lagður í að tryggja að þær verði byggingarhæfar á sem skemmstum tíma .

•Uppbygging á nýjum skólum og leikskólum verður í forgangi og tryggt verður að viðhaldsáætlun vegna mannvirkja borgarinnar, sér í lagi skólahúsnæðis, verði vel unnin.

•Útsvar verður ekki hækkað á næstu árum og fasteignaskattar á atvinnuhús verða lækkaðir í lok kjörtímabilsins.

•Fá fram leiðréttingu á fjármögnun verkefna sem fluttst hafa frá ríkinu til borgarinnar, en þar er um að ræða verulegar upphæðir sem miklu skipta.

Ég hlakka til þess að vinna að þessum markmiðum með samstarfsfólki mínu í Borgarstjórn og sækja fram fyrir Reykjavíkurborg. Áskoranir borgarinnar munum við takast á við af festu og í góðri samvinnu. Ég er bjartsýnn á að við munum ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem birtast okkur í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar og á sama tíma gera borgina okkar enn betri en hún var í gær.

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. desember 2022.

Categories
Greinar

Er betra að búa annars staðar en í Reykjavík?

Deila grein

03/05/2022

Er betra að búa annars staðar en í Reykjavík?

Nýlega birti Félagsvísindastofnun HÍ niðurstöður úr Þjóðmálakönnun um þjónustu sveitarfélaga í aðdraganda kosninga. Ánægja íbúa er mun minni í Reykjavík en að jafnaði í öðrum sveitarfélögum. Einungis 42,1% Reykvíkinga eru frekar ánægðir eða mjög ánægðir með þjónustuna sem borgin veitir samanborið við 65,8% íbúa nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur og 62,1% íbúa landsbyggðarinnar. Niðurstöðurnar eru blaut tuska í andlit borgaryfirvalda. En koma þær eitthvað sérstaklega á óvart?

Listinn er langur og auðvelt er að benda á atriði eins og viðvarandi lóðaskort, langa biðlista í leikskólum, myglaða skóla vegna skorts á viðhaldi, samgöngur í ólestri, sorphirðu og svo mætti lengi telja. Það bíður betri tíma en hér ætla ég að fjalla um þjónustu sem er mun sértækari og vill oft gleymast með hækkandi sól en það er snjómokstur á götum borgarinnar.

Snjómokstur í ólestri

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um nýliðinn vetur. Hann var harðari en gengur og gerist. En við búum á Íslandi. Eins og afi minn sagði alltaf „ Á Íslandi er allra veðra von… með korters fyrirvara.“ Þrátt fyrir að Veðurstofan og Almannavarnir gefi út mun nákvæmari spár og viðvaranir en áður þá er eins og borgaryfirvöld séu minna undirbúin til að takast á við áskoranir Vetur konungs. Margar vikur í röð var ekki hægt að moka götur borgarinnar sem olli því að smærri bílar áttu erfitt um vik. Þegar lengra leið á voru göturnar orðnar að eins konar lestarteinum með tilheyrandi skemmdum á bílum vegna hjólfara sem voru allt að 25-30 sentimetra djúp. Þegar klakabrynjuðu göturnar voru loks mokaðar olli það gríðarlegum skemmdum á götum með tilheyrandi kostnaði. Ástandið var svo slæmt að fyrirtæki í borginni tóku sig saman og greiddu fyrir mokstur gatna sem voru á forræði borgarinnar.

En hvað klikkaði? Vissulega stjórnum við ekki veðri og færð en fyrirhyggja og skilningur á verkefnum skiptir miklu máli um hvernig til tekst. Borgaryfirvöld fengu sent kvörtunarbréf frá starfsfólki vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar þar sem talað var um hringlandahátt, þekkingar- og skilningsleysi á verkefninu og hreint út sagt virðingarleysi af hálfu borgaryfirvalda. Snjómoksturstæki máttu ekki vera á nagladekkjum vegna stefnu borgarstjórnarmeirihlutans um að draga úr notkun nagladekkja alveg óháð því hvers konar aðstæður við er að glíma. Starfsfólk er því sett í ómögulega stöðu og engan veginn gert kleift að sinna starfi sínu af kostgæfni.

Snjómokstur er kannski ekki ofarlega í huga okkar núna þegar grasið er að grænka en punkturinn er þessi. Fyrst ekki er haldið betur á afmörkuðu verkefni eins og snjómokstri, hvernig fer þá með öll stóru verkefnin?

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, framkvæmdastjóri, varaþingmaður og skipar 4. sæti lista Framsóknar í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. maí 2022.

Categories
Greinar

Ný­sköpun – Sleppum te­skeiðinni og mundum skófluna

Deila grein

08/04/2022

Ný­sköpun – Sleppum te­skeiðinni og mundum skófluna

Ísland er eitt mesta velsældarríki heims. Þrátt fyrir góða stöðu landsins þá eigum við alltaf að bæta okkur til aukinnar velsældar. Það hefur sýnt sig á síðustu árum að margt er hægt að bæta, til dæmis í heilbrigðiskerfinu og samgöngumálum (sérstaklega í höfuðborginni) til að mæta væntingum almennings.

Til þess að við getum tryggt áframhaldandi uppbyggingu og bættri velferð þá þurfum við einnig að tryggja langtímasjálfbærni. Það er gert með því að stækka hagkerfið okkar m.a. með því að hlúa að vænlegustu vaxtasprotum þess.

Hagstætt veðmál

Okkar vænlegustu vaxtasprotar eru ung tæknifyrirtæki. Þau skapa góð og fjölbreytt störf ásamt því að auka útflutnings- og skatttekjur. Við eigum að gefa rækilega í til uppbyggingar á tækniiðnaði hér á landi. Það er til hagsbóta samfélagsins alls og skilar sér í auknum tekjum ríkissjóðs til langs tíma.

Með slíkri uppbyggingu værum við ekki að finna upp hjólið. Í mörgum af auðugustu þjóðum heims má finna mýmörg dæmi um ágæti þess að styðja þétt við bakið á tæknifyrirtækjum. Í þessu samhengi er sérstaklega litið til Ísrael, en ísraelska hagkerfið var tiltölulega veikt fyrir nokkrum áratugum. Þar byrjuðu þarlend stjórnvöld að styðja tækniiðnað með ráðum og dáð. Í kjölfarið hefur iðnaðurinn vaxið hratt og örugglega. Við sjáum jákvæðu áhrifin sem það hefur haft á ísraelskan atvinnumarkað, ríkissjóð þeirra og samfélag.

Árið 2021 var það besta í ísraelskum tækniiðnaði frá upphafi frá en þarlend tæknifyrirtæki sóttu sér 25,4 milljarða dala vaxtafjármagn, sem er 136% vöxtur frá 2020. Ísraelskum einhyrningum, þ.e. tæknifyrirtæki sem metin eru á meira en milljarð dala, fjölgaði um 33 á árinu 2021 og eru núna orðin samtals 53. Þetta er öfundsverð staða, en fjárfestingar og stuðningur ísraelska ríkisins er núna að skila sér margfalt til baka og hefur umbyltað hagkerfi landsins. Gjöf sem heldur áfram að gefa.

Veðjum á tæknifyrirtæki

Það sama getur gerst hér á landi. Við höfum nú þegar byggt grundvöllinn og búum yfir kröftugum iðnaði sem bíður spenntur eftir tækifæri. Margt hefur verið gert hér á landi samanber aukin endurgreiðsla á rannsókna- og þróunarkostnaði og skattalegir hvatar til einstaklinga sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum.

Það er hægt að gera svo margt fleira í kjölfarið. Til dæmis þarf að mæta skorti á tæknimenntuðum sérfræðingum. Við þurfum að geta verið samkeppnishæf á atvinnumarkaði og laðað að erlenda sérfræðinga til starfa svo að íslenskur tækniiðnaður vaxi og dafni enn meir.

Í því sambandi er nauðsynlegt fyrir hið opinbera að fara í gagngera endurskoðun á lögum um innflytjendur og atvinnuleyfi svo að núverandi regluverk fyrir erlenda sérfræðinga sem koma utan ESB verði mun skilvirkara en það er í dag. Ásamt þessu getum við aukið skattalega hvata til að gera Ísland meira aðlagandi. Árið 2016 var opnað fyrir að erlendir sérfræðingar gætu fengið 25% lækkun á tekjuskattsstofni í þrjú ár. Ég tel að við eigum bæði að hækka þetta hlutfall og lengja tímann.

Núna er kominn tími til að hugsa stórt. Við höfum innviðina og fjármunina en okkur sárvantar fólk. Ráðumst í aðgerðir til að ná í þann fjölda erlendra tæknimenntaðra sérfræðinga sem þarf.

Sleppum teskeiðinni og mundum skófluna.

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, varaþingmaður Framsóknar og situr í 4. sæti á lista flokksins í Reykjavík fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Categories
Greinar

Leyfum eldra fólki að vinna

Deila grein

13/09/2021

Leyfum eldra fólki að vinna

Eldra fólk hefur mætt ákveðnum órétti hér á landi varðandi starfslok. Þó er það viðurkennd staðreynd að í dag lifir fólk lengur og að fólk kringum sjötugt er enn margt fullfært um að vinna sína vinnu, en í dag gilda reglur um starfslokaaldur á fjölmörgum vinnustöðum. Víðast frá 65 til 70 ára en um það gilda lög um opinbera starfsmenn. Með þessu er vinnumarkaðurinn að neita sér um öflugan starfskraft, starfsreynslu og verðmæta þekkingu á öllum sviðum. Ásamt þessu er verið að vísa einstaklingum á dyr sem vilja vinna og eru enn fullfærir um það. Hér eru augljós sóknarfæri bæði í þágu eldra fólks sem og vinnumarkaðarins.

Framsókn vill leyfa ömmu og afa að vinna

Eldra fólk á að fá að vinna eins og það vill óháð aldri og starfslok eiga að miðast við færni en ekki aldur. Þeir einstaklingar sem vilja og geta haldið áfram að vinna eftir ákveðið „aldurstakmark“ eiga ekki að neyðast til að ljúka störfum. Framsókn vill afnema reglur um að fólk fari á eftirlaun eða hætti störfum við ákveðinn aldur. Þeir sem vilja áfram vera virkir á vinnumarkaði eiga að hafa kost á því ef vilji bæði þeirra og vinnuveitanda er fyrir hendi. Einnig hafa sveigjanleg starfslok hjálpað æði mörgum við að auðvelda breytinguna. Það ætti að vera valkostur í samtali starfsmanns og yfirmanns þegar starfslok eru rædd.

Framsókn vill afnema skerðingar

Að auki á eldra fólk að eiga tækifæri að vinna án þess að þurfa að gjalda fyrir dugnað. Fjölmargt eldra fólk hefur brennandi áhuga á að fara út úr húsi, hitta fólk og starfsfélaga, vinna og taka þannig þátt í samfélaginu, en sjá ekki virði þess með þeim reglum sem eru við lýði í dag. Ásamt því er eldra fólk sem hefur þörf fyrir viðbótartekjur. Það á ekki að hindra fólk í að geta aflað sér tekna. Framsókn leggur áherslu á að almenna frítekjumarkið hækki í áföngum og að lífeyrisskerðingar vegna atvinnutekna verði afnumdar. Áhrif þess á ríkissjóð væru ekki svo gífurleg að það sé ótækt að ganga í slíkar breytingar.

Við eigum að leyfa eldra fólki að vinna. Sú samfélagsmyndun sem blasir við í dag er allt önnur en áður og eldra fólk er margt í töluvert betra formi en tíðkaðist árum áður. Fólk lifir lengur, en lífaldur hefur lengst um meira en tíu ár á síðastliðnum áratugum og enn að lengjast. Fólk vill taka virkan þátt í samfélaginu og á vinnumarkaði eftir getu og þörfum. Ef amma vill vinna eftir sjötugt þá á amma bara að fá að vinna!

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, situr í 3. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík norður

Aðalsteinn Haukur Sverrirsson, situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík suður

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. september 2021.

Categories
Greinar

Tvær leiðir til að bæta starfsumhverfi lögreglunnar

Deila grein

31/08/2021

Tvær leiðir til að bæta starfsumhverfi lögreglunnar

Mikið mæðir á okk­ar fram­lín­u­starfs­mönn­um þessa dag­ana vegna Covid- far­ald­urs­ins. Þá á ég fyrst og fremst við hjúkr­un­ar­fólk, lækna, sjúkra­flutn­inga­fólk, slökkviliðsmenn og lög­regluþjóna. Hægt væri að skrifa lýs­ing­ar um sér­hverja starfs­grein en ég ætla nú að beina at­hygli minni að okk­ar frá­bæra fólki í lög­regl­unni. Und­an­farna mánuði hef ég átt mörg sam­töl við lög­regluþjóna um hvernig þeir upp­lifa sig í störf­um sín­um.

Fjölg­un lög­regluþjóna

Á vef Alþing­is er til­greint að fjöldi lög­regluþjóna á Íslandi hafi verið 662 þann 1. fe­brú­ar 2020. Þetta sam­svar­ar að á Íslandi er einn lög­regluþjónn á hverja 557 íbúa. Í skýrslu dóms­málaráðherra frá ár­inu 2001 kem­ur fram að fjöldi lög­regluþjóna var þá hlut­falls­lega mest­ur á Íslandi af öll­um Norður­lönd­um eða einn á hvern 441 íbúa, en meðaltalið á Norður­lönd­um var þá 573 íbú­ar á lög­regluþjón. Í dag hef­ur fjöldi lög­regluþjóna á Norður­lönd­um hald­ist óbreytt­ur eða einn á 577 íbúa. Ljóst er að á meðan fjöldi lög­regluþjóna hef­ur staðið í stað á Norður­lönd­um þá hef­ur þeim hlut­falls­lega fækkað veru­lega á Íslandi. Þess­ar töl­ur eru í sam­ræmi við þau sam­töl sem ég hef átt. Jafn­framt hef­ur ný­leg ákvörðun um stytt­ingu vinnu­tíma orðið til þess að vakt­ir eru nú mannaðar með færri lög­reglu­mönn­um, sem eyk­ur enn meira það álag sem fyr­ir er. Þegar tekið er til­lit til auk­inna og nýrra verk­efna lög­regl­unn­ar, tveggja millj­óna ferðamanna, net­glæpa, viðveru af­brota­gengja frá Evr­ópu, fjár­mála­af­brota, man­sals og auk­inna verk­efna varðandi fjöl­skyldu­tengd af­brot, verk­efni sem flest þekkt­ust vart hér á landi fyr­ir 20 árum, er ljóst að ástandið er grafal­var­legt.

Lausn­in er mjög skýr. Það þarf að fara í aðgerðir til að fjölga lög­regluþjón­um á land­inu strax.

End­ur­vakn­ing lög­reglu­skól­ans

Þegar lög­reglu­skól­inn var lagður niður 2016 var það gert skil­yrt að verðandi lög­regluþjón­ar þyrftu að ljúka tveggja ára skóla­námi (diplóma) á há­skóla­stigi og að starfs­náms­hluti yrði síðan í um­sjá mennta- og starfsþró­un­ar­set­urs rík­is­lög­reglu­stjóra sem stofnað var í kjöl­farið. Farið var í þess­ar aðgerðir til að ná fram sparnaði í rík­is­rekstri. Það er gott og vel að reyna að spara þar sem hægt er, en það sem hef­ur skap­ast í kjöl­farið er að praktísk/​raunþjálf­un lög­reglu­nema hef­ur verið minnkuð til muna. Ekki er leng­ur kennt yfir heilt náms­ár eins og var í lög­reglu­skól­an­um hér áður held­ur er þetta nokk­urra vikna nám­skeið sem kem­ur í kjöl­far þess að nem­end­ur ljúka sínu diplóma­námi. Þetta hef­ur leitt til þess að lög­regluþjón­ar eru ekki jafn vel und­ir­bún­ir til að tak­ast á við hin dag­legu vanda­mál sem koma upp í þeirra vinnu. Hvort lausn­in sé að end­ur­vekja starf­semi gamla lög­reglu­skól­ans skal ég ekki segja en það er ein­róma skoðun viðmæl­enda minna að lengja þurfi verk­lega námið til muna, svo að nýliðar í lög­regl­unni séu bet­ur und­ir­bún­ir til að tak­ast á við þær áskor­an­ir sem þeir mæta á hverj­um degi.

Fyr­ir þjóð sem tel­ur aðeins 360 þúsund íbúa og eng­an her er nauðsyn­legt að efla stöðugt og styrkja lög­gæsluaðila rík­is­ins, þannig að ávallt sé vel þjálfað starfs­fólk fyr­ir hendi í lög­regl­unni.

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, sit­ur í 2. sæti á lista Fram­sókn­ar í Reykja­vík suður.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. ágúst 2021.

Categories
Greinar

At­vinna, at­vinna, at­vinna gegn at­vinnu­leysi

Deila grein

26/08/2021

At­vinna, at­vinna, at­vinna gegn at­vinnu­leysi

Það er á allra vitorði að atvinnuleysi fór að stóraukast strax í kjölfar komu Covid-19 hingað til lands. Mörg vandamál spruttu í kjölfar komu veirunnar til landsins, en meðal þeirra stærstu var án efa það gífurlega atvinnuleysi sem birtist samfélaginu. Atvinnuleysið hafði vissulega mikil áhrif á ríkissjóð, vinnumarkaðinn, efnahaginn og andlega líðan samfélagsins í heild. Þessum vanda var nauðsynlegt að mæta af ákveðni til að snúa við blaðinu, og þar kom Framsókn sterk inn.

Vinnumarkaðsaðgerðir

Vegna fjölgunar atvinnulausra í kjölfar Covid-19 talaði Framsókn fyrir vinnumarkaðsaðgerðum af hálfu ríkisins til að bregðast við ástandinu og standa vörð um ráðstöfunartekjur heimilanna. Formaður Framsóknar, Sigurður Ingi, stóð á ræðupúlti Alþingis í stefnuræðum og sagði hin fleygu orð:

Við stöndum vörð um störfin og við sköpum ný störf. Það er atvinna, atvinna, atvinna sem málið snýst um.“

Það er rétt. Í þessu ástandi var það mikilvægasta málið að ná vinnumarkaðnum aftur á réttan kjöl með því að sporna við hækkandi atvinnuleysi og standa vörð um lifibrauð fólksins í landinu. Vinnumarkaðsaðgerðir að hálfu ríkisins voru settar á laggirnar, til dæmis átak Ásmundar Einars, félags- og barnamálaráðherra, „Hefjum Störf“. Með því voru sjö þúsund störf sköpuð fyrir þá sem höfðu dottið af atvinnumarkaðinum vegna Covid.

Aðgerðirnar hafa skilað áþreifanlegum árangri

Nú í ágúst hefur Vinnumálastofnun birt nýjustu skýrslu um stöðu atvinnumarkaðsins. Þar sjáum við svart á hvítu að umræddar vinnumarkaðsaðgerðir hafa skilað okkur áþreifanlegum árangri. Tölfræðin segir okkur að aðgerðirnar, ásamt bólusetningum, hafa virkað. Í júlímánuði hafði hlutfall atvinnulausra (6,1%) lækkað um 1,3% milli mánaða og um 3% frá upphafi sumars. Einnig spáir Vinnumálastofnun áframhaldandi minnkun atvinnuleysis á næstu mánuðum, sem hefur lækkað um 6,7% frá upphafi árs.

Höldum áfram

Að sjálfsögðu er það mikið ánægjuefni að sjá atvinnuleysið minnka ört, en ferðinni er ekki lokið. Betur má ef duga skal, og atvinnuleysið þarf að minnka meira. Nú horfum við upp á sóttvarnarráðstafanir innan samfélagsins sem hafa gífurleg áhrif á hinar ýmsu starfsstéttir. Fyrir sumar boða þessar ráðstafanir dauðadóm ef takmörkunum verða ekki aflétt fljótlega. Næsta skrefið er að aðstoða aðila við að byggja upp störfin að nýju. Ferðaþjónustan, skemmtanaiðnaðurinn og fleiri starfsstéttir eiga enn erfitt með að ná endum saman og nú er kominn tími til að standa vörð um þær og veita þeim viðeigandi athygli. Vinnumarkaðurinn á Íslandi má ekki við því að þessar starfstéttir heltast úr lestinni.

Höldum áfram veginn í átt að minnkun atvinnuleysis og tryggjum störf!

Aðalstein Haukur Sverrisson, situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík Suður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Skipulagt starf um stafræn áhugamál – fjárfesting til framtíðar!

Deila grein

08/06/2021

Skipulagt starf um stafræn áhugamál – fjárfesting til framtíðar!

Son­ur minn var fermd­ur síðastliðna helgi í Bú­staðakirkju ásamt skóla­fé­lög­um sín­um. Heil röð af stolt­um for­eldr­um, systkin­um, öfum og ömm­um fylgd­ist með þegar þessi ljúfi, hæg­láti og hjarta­góði strák­ur varð að ung­um manni. Mik­il gleðistund!

Hann var sjö ára þegar hann greind­ist með ódæmi­gerða ein­hverfu, reynd­ar hafði grun­ur um hans rösk­un vaknað fyrst þegar hann var þriggja ára en niðurstaðan, sem lá fyr­ir fjór­um árum seinna, er efni í aðra grein. Eins og marg­ir sem eru greind­ir á ein­hverfuróf­inu á hann erfitt með að halda uppi því sem er skil­greint sem „eðli­leg fé­lags­leg sam­skipti“, hvað svo sem það þýðir. En það hef­ur vissu­lega haft áhrif á getu hans til að rækta og halda vin­skap og valdið ákveðinni fé­lags­legri ein­angr­un, sér­stak­lega síðustu árin þegar krakk­ar hætta að vera krakk­ar og verða ung­ling­ar. Sem bet­ur fer hef­ur þessi fé­lags­lega ein­angr­un ekki þró­ast í að hann hafi lent í einelti eða ein­hverju slíku, það þakka ég fyrst og fremst hon­um sjálf­um og skól­un­um tveim­ur, Breiðagerðis- og Rétt­ar­holts­skól­um, og hvernig var haldið utan um hans mál. Þó hef­ur þessi ein­angr­un auk­ist meira sl. þrjú ár. Sem for­eldr­ar höf­um við skilj­an­lega áhyggj­ur af slíkri þróun og Covid hef­ur sett ákveðið strik í reikn­ing­inn þar sem ekki var mögu­leiki fyr­ir hann að sækja skáta­fundi sem hann hef­ur gert síðan hann var sex ára.

Líkt og marg­ir krakk­ar hef­ur son­ur minn mikið dá­læti á tölvu­leikj­um, hann hef­ur sér­staka ánægju af að spila tölvu­leiki þar sem maður bygg­ir upp borg­ir með allri til­heyr­andi þjón­ustu sem hver borg þarf á að halda. Þegar hann spil­ar sína tölvu­leiki ger­ir hann það yf­ir­leitt í slag­togi við aðra spil­ara, ým­ist á Íslandi eða í út­lönd­um, og þá er oft mikið fjör. Eft­ir að hann fór að eiga sam­skipti við aðra á net­inu fór­um við mamma hans að taka eft­ir því að færni hans til að eiga sam­ræður tók mikl­um fram­förum. Það voru samt erfiðir hlut­ir sem þurfti að tækla sem komu upp í kjöl­far tölvu­notk­un­ar­inn­ar; að fylgj­ast með að ekki væri verið að svíkja þar til gerða samn­inga um skil­greind­an skjá­tíma og tryggja að hann stundaði ein­hverja úti­veru á hverj­um degi. Þó að þetta hafi að mestu gengið vel vild­um við ólm fá hjálp við að styðja bet­ur við þetta áhuga­mál hans.

Fyr­ir rétt rúm­um tveim­ur árum fékk ég boð frá vini mín­um um að mæta á kynn­ingu hjá GMI (Game Makers Ice­land). Þar var há­vax­inn ung­ur maður að nafni Ólaf­ur Hrafn Stein­ars­son sem hélt fyr­ir­lest­ur um ný­stofnuð rafíþrótta­sam­tök og þá sýn sem hann og sam­tök­in höfðu á framtíð tölvu­leikja­áhuga­máls­ins á Íslandi. Í er­indi sínu benti Ólaf­ur á að tölvu­leik­ir ættu snerti­flöt við yfir 90% barna og ung­menna í land­inu, en það var áhuga­mál sem bauð upp á næst­um enga skipu­lagða iðkun eða þjálf­un. Á þessu boðaði hann breyt­ing­ar; með vax­andi rafíþróttaum­hverfi á heimsvísu væru for­send­ur fyr­ir því að færa tölvu­leikja­áhuga­málið í skipu­lagt starf sem und­ir­býr rafíþrótta­menn framtíðar­inn­ar á heild­stæðan hátt fyr­ir að tak­ast á við krefj­andi um­hverfi at­vinnu­manns­ins í rafíþrótt­um. Þá væri mik­il­vægt að huga að því að byggja heild­stæðan ramma utan um starfið sem miðaði að því að skila já­kvæðum ávinn­ingi til allra iðkenda en ekki bara af­reks­spil­ara. Til þess boðaði Ólaf­ur skil­grein­ingu Rafíþrótta­sam­taka Íslands á rafíþrótt­um sem „heil­brigða iðkun tölvu­leikja í skipu­lögðu starfi“ og að sú iðkun feli í sér að iðkandi upp­lifi sig sem hluta af liði, taki þátt í lík­am­leg­um og and­leg­um æf­ing­um, fái fræðslu um mik­il­vægi og ávinn­ing heil­brigðra spila­hátta og lífs­stíls, allt hlut­ir sem eru mik­il­væg­ir til að feta veg at­vinnu­manns­ins í rafíþrótt­um.

Þessi fyr­ir­lest­ur bæði heillaði og sann­færði mig um að þessi nálg­un sem Ólaf­ur kynnti væri skyn­sam­leg og rök­rétt leið til að kenna börn­um heil­brigða tölvu­leikjaiðkun. Svo mjög að ég skráði son minn í rafíþrótta­deild Ármanns. Það leið ekki á löngu þar til ég og móðir hans tók­um eft­ir mikl­um fram­förum. Hann var mun ánægðari al­mennt, sam­skipti við hann á heim­il­inu voru auðveld­ari og hann var far­inn að setja sín­ar eig­in regl­ur varðandi skjá­tíma sem upp­fyll­ir þær regl­ur sem við for­eldr­arn­ir höfðum skil­greint. Ekki nóg með það held­ur mætti þessi flotti strák­ur, sem hef­ur aldrei haft áhuga á iðkun hefðbund­inna íþrótta, einn dag­inn með stolt bros á vör og kvartaði yfir því að vera drep­ast úr harðsperr­um eft­ir rafíþróttaæf­ingu. Hann ákvað svo í vik­unni að kaupa sér lóð og upphíf­inga­stöng fyr­ir ferm­ingar­pen­ing­ana. Það var ótrú­legt fyr­ir mig sem for­eldri að sjá barnið mitt loks­ins blómstra í skipu­lögðu starfi, þegar ein­hver var til­bú­inn að mæta hon­um þar sem hann var stadd­ur í sínu áhuga­máli og hvetja hann til þess að gera meira, reyna meira og að hann geti meira. Þetta var ein­mitt það sem heillaði mig við fyr­ir­lest­ur­inn hans Ólafs og það sem ég tel að við þurf­um meira af; ný­stár­leg­ar aðferðir fyr­ir okk­ar ört breyti­lega sam­fé­lag til þess að taka utan um og fjár­festa í ein­stak­lingn­um til framtíðar.

Ég hlakka til að fylgj­ast með framtíð hans í rafíþrótt­um og framtíð okk­ar í sam­fé­lagi þar sem fjár­fest er í fólk­inu!

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, formaður Fram­sókn­ar­fé­lags Reykja­vík­ur og skip­ar 2. sæti á lista Fram­sókn­ar í Reykja­vík suður. adal­steinn@recon.is

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júní 2021.