Categories
Greinar

At­vinna, at­vinna, at­vinna gegn at­vinnu­leysi

Deila grein

26/08/2021

At­vinna, at­vinna, at­vinna gegn at­vinnu­leysi

Það er á allra vitorði að atvinnuleysi fór að stóraukast strax í kjölfar komu Covid-19 hingað til lands. Mörg vandamál spruttu í kjölfar komu veirunnar til landsins, en meðal þeirra stærstu var án efa það gífurlega atvinnuleysi sem birtist samfélaginu. Atvinnuleysið hafði vissulega mikil áhrif á ríkissjóð, vinnumarkaðinn, efnahaginn og andlega líðan samfélagsins í heild. Þessum vanda var nauðsynlegt að mæta af ákveðni til að snúa við blaðinu, og þar kom Framsókn sterk inn.

Vinnumarkaðsaðgerðir

Vegna fjölgunar atvinnulausra í kjölfar Covid-19 talaði Framsókn fyrir vinnumarkaðsaðgerðum af hálfu ríkisins til að bregðast við ástandinu og standa vörð um ráðstöfunartekjur heimilanna. Formaður Framsóknar, Sigurður Ingi, stóð á ræðupúlti Alþingis í stefnuræðum og sagði hin fleygu orð:

Við stöndum vörð um störfin og við sköpum ný störf. Það er atvinna, atvinna, atvinna sem málið snýst um.“

Það er rétt. Í þessu ástandi var það mikilvægasta málið að ná vinnumarkaðnum aftur á réttan kjöl með því að sporna við hækkandi atvinnuleysi og standa vörð um lifibrauð fólksins í landinu. Vinnumarkaðsaðgerðir að hálfu ríkisins voru settar á laggirnar, til dæmis átak Ásmundar Einars, félags- og barnamálaráðherra, „Hefjum Störf“. Með því voru sjö þúsund störf sköpuð fyrir þá sem höfðu dottið af atvinnumarkaðinum vegna Covid.

Aðgerðirnar hafa skilað áþreifanlegum árangri

Nú í ágúst hefur Vinnumálastofnun birt nýjustu skýrslu um stöðu atvinnumarkaðsins. Þar sjáum við svart á hvítu að umræddar vinnumarkaðsaðgerðir hafa skilað okkur áþreifanlegum árangri. Tölfræðin segir okkur að aðgerðirnar, ásamt bólusetningum, hafa virkað. Í júlímánuði hafði hlutfall atvinnulausra (6,1%) lækkað um 1,3% milli mánaða og um 3% frá upphafi sumars. Einnig spáir Vinnumálastofnun áframhaldandi minnkun atvinnuleysis á næstu mánuðum, sem hefur lækkað um 6,7% frá upphafi árs.

Höldum áfram

Að sjálfsögðu er það mikið ánægjuefni að sjá atvinnuleysið minnka ört, en ferðinni er ekki lokið. Betur má ef duga skal, og atvinnuleysið þarf að minnka meira. Nú horfum við upp á sóttvarnarráðstafanir innan samfélagsins sem hafa gífurleg áhrif á hinar ýmsu starfsstéttir. Fyrir sumar boða þessar ráðstafanir dauðadóm ef takmörkunum verða ekki aflétt fljótlega. Næsta skrefið er að aðstoða aðila við að byggja upp störfin að nýju. Ferðaþjónustan, skemmtanaiðnaðurinn og fleiri starfsstéttir eiga enn erfitt með að ná endum saman og nú er kominn tími til að standa vörð um þær og veita þeim viðeigandi athygli. Vinnumarkaðurinn á Íslandi má ekki við því að þessar starfstéttir heltast úr lestinni.

Höldum áfram veginn í átt að minnkun atvinnuleysis og tryggjum störf!

Aðalstein Haukur Sverrisson, situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík Suður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. ágúst 2021.