Categories
Fréttir

Framtíðin ræðst á miðjunni

Deila grein

26/08/2021

Framtíðin ræðst á miðjunni

Framsókn hefur á náð verulegum árangri í ríkisstjórnarsamstarfinu á kjörtímabilinu. Framtíðin hefur ráðist á miðjunni í samstarfi við flokkana til vinstri og til hægri. Framsókn hefur leitt mikil umbótamál sem hafa orðið að veruleika og má þar nefna byltingu kerfisins í þágu barna, nýjan Menntasjóð námsmanna, hlutdeildarlán, Loftbrú og stórsókn í samgöngum um allt land. Þessi stórmál og fleiri hefur Framsókn látið verða að veruleika þrátt fyrir heimsfaraldurinn.

 • Fjárfestum í fólkiupptaka frá kynningu Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns Framsóknar á málefnaáherslunum.

Framsókn heldur áfram veginn á næsta kjörtímabili í anda samvinnu, manngildis, raunsæis og hófsamra lausna. „Við erum öll í þessu saman“ hefur oft verið sagt á kjörtímabilinu. Í þeim anda vill Framsókn nálgast viðfangsefni stjórnmálanna.

Á næsta kjörtímabili leggjum við áherslu á að fjárfesta í fólki. Við leggjum ekki fram hugmyndir að töfra- eða allsherjarlausnum, heldur viljum að hið opinbera geti komið til móts við fólk á þeirra eigin forsendum, gefa því fjölbreytt tækifæri til að þroska hæfileika sína, skapa verðmæti og taka sem virkastan þátt í samfélaginu eftir þeirra möguleikum. Það er best fyrir alla ef hver og einn leggur sig fram.

Heimsfaraldurinn hefur sett mark sitt á íslenskt samfélag síðustu misseri og gerir enn. Framsókn leggur áherslu á að vinna áfram að því að samfélagið þróist hratt í eðlilegt horf en undirstrikar að vernda verður viðkvæmustu hópana. Markmiðið er að samfélagið búi aftur við það frjálsræði sem ríkti fyrir heimsfaraldurinn við fyrsta mögulega tækifæri. Framsókn vill nýta allar leiðir til að tryggja að daglegt líf okkar, atvinnulíf og menningarlíf geti gengið sinn vanagang, til dæmis með notkun hrað- og sjálfsprófa.

Fjárfestum í fólki

Heilbrigðisþjónustan – Einstaklingurinn í öndvegi

 • Framsókn vill fara í almennar aðgerðir til þess að fjárfesta í fólki til framtíðar. Fara þarf í markvissa vinnu við að endurmeta og samþætta þjónustu við fólk sem hefur lent í áföllum á lífsleiðinni. Lykilinn er að velferðarþjónustan bregðist snemma við og leggi áherslu á að fyrirbyggja vandamál með fjölþættum aðgerðum líkt og gert hefur verið í barnamálum á kjörtímabilinu. Tryggja verður að þjónustan vinni betur og meira saman og geti fylgt málum eftir þvert á einstakar stofnanir. Þær lausnir þarf að móta með samvinnu.
 • Framsókn vill fjárfesta í fólki sem hefur lent í alvarlegum áföllum á sinni lífsleið. Áföll geta verið mismunandi og eru því jafn ólík og þau eru mörg. Þessa einstaklinga á að aðstoða við að byggja sig upp að nýju og ná fyrri styrk. Það skiptir sköpum fyrir þá að fá viðeigandi aðstoð og skilning, en einnig liggja í því mikil verðmæti fyrir samfélagið í heild. Þetta gerum við með því að taka heildstætt utan um viðfangsefnið, tengja saman ríki, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og aðra viðkomandi aðila og móta heildstæða umgjörð um það hvernig tekið er utan um hvern og einn sem þarf á þjónustu að halda.
 • Framsókn vill fara í þjóðarátak í lýðheilsutengdum forvörnum til að efla einstaklinga til virkni og velgengni í íslensku samfélagi. Það er þýðingarmikil fjárfesting í fólki.
 • Framsókn vill að skoðað verði hvort frekari tilefni sé til aukins einkareksturs innan heilbrigðisgeirans. Það þarf einfaldlega að nota þær aðferðir sem skila bestum árangri á sem skjótasta máta.
 • Framsókn leggur áherslu á að gæði heilbrigðisþjónustunnar séu ávallt eins og best verður á kosið. Vitanlega þarf að leita hagkvæmra og skilvirkra lausna því að um 60% útgjalda ríkisins fara til heilbrigðis- og velferðarmála, en markmið Framsóknar er og verður alltaf að tryggja öllum íbúum landsins þjónustu óháð búsetu og efnahag. Það skiptir meira máli en hvort að hið opinbera veiti alla þjónustuna sjálft eða kaupi hana af öðrum.
 • Framsókn vill efla geðheilbrigðisþjónustu í forvarnaskyni. Það er skynsamlegt eins og á öðrum sviðum heilbrigðisþjónustunnar til að fyrirbyggja frekari vanda með því að bregðast snemma við – áður en vandinn verður stærri. Ekki síst þarf að auka geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og félagslega veika hópa.
 • Framsókn vill stórefla heilbrigðisþjónustu utan sjúkrastofnana, sérstaklega fyrir eldra fólk. Finnar hafa náð þar eftirtektarverðum árangri við að hjálpa eldra fólki að varðveita sjálfstæði sitt og virka samfélagsþátttöku. Hugsa þarf  þjónustuna í samræmi við aðstæður, möguleika og vilja hvers og eins.
 • Framsókn vill nýta tæknilausnir eins og kostur er til að efla heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni þar sem þjónusta hefur minnkað hjá íbúum utan þéttbýlustu svæðanna.
 • Framsókn vill að þriðji skammtur bóluefnis standi þeim sem vilja til boða.

Réttindi barna – Þjónustutrygging og jafnræði í þjónustu við börn.

 • Framsókn ætlar að tryggja að öll börn njóti sömu réttinda til opinberrar þjónustu í anda nýrrar löggjafar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, sem mun fækka alvarlegum tilvikum. Eitt flóknasta viðfangsefni íslenskra stjórnvalda síðustu áratugi er sú staðreynd að börn hér á landi þurfa oft að bíða óhóflega lengi eftir greiningu eða þjónustu við mögulegum vanda. Oft er jafnvel um að ræða þekktan vanda sem þarfnast staðfestingar opinberra aðila til að geta hlotið nauðsynlega þjónustu.
 • Framsókn ætlar að stytta biðlista eftir greiningarúrræðum, s.s. einhverfu, taugaþroskaröskunum, þroskahömlunum og geðrænum vanda með því að fjölga sérhæfðu starfsfólki og grípa fyrr inn í aðstæður barns til að koma í veg fyrir alvarlegan vanda.
 • Framsókn vill að barnið sé ávallt í forgangi. Framsókn vill að komið verði á þjónustutryggingu, sem þýðir að ef einstaklingur fær ekki heilbrigðis- eða félagsþjónustu hjá hinu opinbera er honum vísað til einkaaðila, samanber danska módelið.
 • Framsókn vill að öll réttindi sem tengjast fullorðinsaldri verði virk við 18 ára aldur.
 • Framsókn vill styðja foreldra með því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Leita þarf leiða til þess að brúa bilið með lengingu fæðingarorlofs og stuðla að því að börn fái leikskólapláss fyrr. Einnig vill Framsókn tryggja styrki til foreldra sem ekki eru með börn hjá dagforeldri. Ríkið verður að leiða samtalið við Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ná samkomulagi um að brúa þetta bil, sem margir foreldrar kljást við í dag.

Jöfnum leikinn – Frístundastarf barna og íþróttastarf.

 • Framsókn vill að ríkið styðji við frístundir barna með árlega 60 þúsund króna greiðslu til allra barna og lækka þannig útgjöld fjölskyldna vegna frístunda. Sýnt hefur verið fram á að vaxtastyrkir styrkja þroska barna, líkamlega og andlega, og ýta undir sjálfstæði þeirra og styrkja sjálfsmynd. Þessi aðgerð jafnar tækifæri barna til virkrar þátttöku í tómstundastarfi.
 • Framsókn vill byggja nýja þjóðarleikvanga á næsta kjörtímabili í samstarfi við íþróttahreyfinguna.
 • Framsókn vill styðja betur við afreksíþróttafólk með auknum fjárframlögum til afrekssjóðs sérsambanda.
 • Framsókn vill auka framlög í ferðajöfnunarsjóð íþróttafélaga til að jafna aðstöðumun íþróttafólks á landsbyggðinni.
 • Framsókn vill styðja sérstaklega við íþróttafélög sem starfrækja meistaraflokka kvenna til að jafna fjárhagslegan mun milli karla- og kvennadeilda í afreksstarfi í hópíþróttum.

Sókn í þágu eldra fólks – Aldur skiptir ekki máli, heldur einstaklingurinn.

 • Framsókn vill afnema reglur um að fólk fari á eftirlaun eða hætti störfum við ákveðinn aldur. Þeir sem vilja áfram vera virkir á vinnumarkaði  eiga að hafa kost á því ef vilji bæði launafólks og vinnuveitanda stendur til þess.
 • Framsókn leggur áherslu á að ráðist verði í endurskipulagningu á málaflokki eldra fólks út frá grunngildum aldursvæns samfélags, samþættingu, persónumiðaðrar þjónustu og skýrrar sýnar á hlutverk og skyldur þeirra sem að þjónustunni koma. Horfa ætti til reynslunnar af endurskipulagningu opinberrar þjónustu við börn sem unnin var á kjörtímabilinu. Lykilatriðið er aukin samvinna innan kerfisins.
 • Framsókn vill gera stórátak í uppbyggingu heimahjúkrunar og dagþjálfunarrýma, bæta og fjölga endurhæfingarúrræðum og skapa fjölbreyttari þjónustu sem styður eldra fólk til að búa sem lengst heima hjá sér, eftir því sem það vill og heilsa leyfir. Með því móti getur það haldið sjálfstæði sínu, sjálfræði, reisn og virðingu m.a. með fyrirbyggjandi aðgerðum.
 • Framsókn vill leggja áherslu á aukna og samhæfða heimaþjónustu, sveigjanleg dagþjálfunarúrræði, aukna tæknivæðingu og markvissan stuðning við aðstandendur eldra fólks. Stórefla þarf samstarf milli félags- og heilbrigðisþjónustunnar m.a. svo þjónustan sé persónumiðuð og sé að mestu veitt á heimilum fólks. 
 • Nútímavæða þarf þjónustuna og aðgengi að henni með aukinni notkun á velferðatækni, rafrænni þjónustu, fjarþjónustu og upplýsingagáttum.
 • Framsókn leggur áherslu á að upplýsingakerfi verði samræmd og byggð verði upp öflug upplýsingagátt. Með henni verði hægt að innleiða eina gátt umsókna um þjónustu hins opinbera. Notendur þjónustunnar þurfa þá ekki að sækja um þjónustu á mörgum stöðum heldur fari umsókn í eina þjónustugátt og í gegnum hana fái viðkomandi viðeigandi þjónustu á hverjum tíma.
 • Samhæfa þarf fjölbreytt úrræði og sníða að hverju svæði fyrir sig. Sveitarfélög eru misjafnlega sett með aðstöðu út frá stærð, mannfjölda og fl. Sömu úrræðin ganga ekki alls staðar.
 • Framsókn leggur áherslu á að almenna frítekjumarkið hækki í skrefum og að lífeyrisskerðingar vegna atvinnutekna verði afnumdar. Framsókn vill mæta þeim verst stöddu og horfir þá sérstaklega til húsnæðismála, en flestir þeir sem búa við bág kjör búa í mjög skuldsettu húsnæði eða greiða háa leigu. Skoða þarf möguleika á hlutdeildarlánum fyrir eldra fólk.

Örorka – Allir þurfa þak yfir höfuðið

 • Framsókn vill heildarendurskoðun á málefnum öryrkja hér á landi. Sú endurskoðun verður gerð með þau markmið bæta stöðu öryrkja og virkni innan samfélagsins og vinnumarkaðsins.
 • Framsókn vill aðstoða öryrkja við að komast í vinnu. Fólk undir fertugu á ekki að neyðast til að fara á örorku.
 • Framsókn vill ýta húsnæðisátaki úr vör sem aðstoðar öryrkja við að hafa tryggt þak yfir höfuðið.

Húsnæðismál – Aukið framboð

 • Framsókn vill að skipulags- og húsnæðismál séu í sama ráðuneyti til að auka skilvirkni þegar kemur að skipulagsmálum sveitarfélaga. Með því má stytta tímann sem þau taka, gera sveitarfélögum kleift að bregðast fyrr við lóðaskorti og tryggja nægilegt framboð af lóðum til húsbygginga á hverjum tíma.
 • Framsókn vill auka framboð á almennum íbúðum fyrir öryrkja og fatlaða.
 • Framsókn vill útfæra hlutdeildarlán fyrir fleiri hópa en fyrstu kaupendur. Þá er sérstaklega horft til eldra fólks og félagslega veikra hópa í samfélaginu.
 • Framsókn leggur áherslu á að samræma umsóknargátt almennra og sérstakra húsnæðisbóta. Farið verði í heildarendurskoðun á húsnæðismálunum með það að leiðarljósi og finna leiðir til að hjálpa þeim verst stöddu.

Menntamál – Áhersla á skólaþróun með breiðri þátttöku

 • Menntastefna til ársins 2030 er leiðarljós Framsóknar í menntamálum, enda er hún lögð fyrir Alþingi af núverandi mennta- og menningarmálaráðherra.
 • Framsókn vill áfram leggja áherslu á skólaþróun með þátttöku skólanna sjálfra, enn frekari eflingu kennarastéttarinnar og mikilvægi þess að halda menntuðum kennurum í starfi.
 • Framsókn vill bæta þjónustu hins opinbera við skólana, uppfæra námsgagnakost og virkja fleiri aðila í námsgagnagerð.
 • Framsókn vill leggja ríka áherslu á snemmtæka íhlutun og samþættingu ólíkra stuðningskerfa svo skólakerfið bregðist skjótt við ef barn glímir við erfiðleika.
 • Framsókn ætlar áfram að auka vægi iðn- og tæknimenntunar og tryggja enn frekar aukið jafnræði bók- og verknáms.
 • Framsókn vill tryggja öllum menntun og kennslu sem tekur mið af þeirra þörfum og aðstæðum. Við ætlum að sýna lestrarvanda drengja sérstaka athygli.
 • Framsókn vill að áfram verði lögð áhersla á að styðja kröftuglega við íslenska tungu í sífellt alþjóðlegri og stafrænni heimi.
 • Framsókn vill tryggja öllum sem eru af erlendu bergi brotnir sem flytja hingað til lands tækifæri til að læra íslensku.

Atvinnu- og efnahagslífið eftir heimsfaraldur

Fjórða stoðin – fjölþættari verðmætasköpun

 • Framsókn vill efla efnahagslífið til að skjóta fleiri stoðum undir innlenda verðmætasköpun svo sem uppbyggingu í skapandi greinum. Fyrstu skrefin hafa verið stigin með hagvísum skapandi greina og sérstöku rannsóknarsetri. Næsta skref er sérstakt ráðuneyti skapandi greina.
 • Framsókn vill efla kvikmyndagerð á Íslandi og hækka endurgreiðslur á kostnaði við kvikmyndagerð hérlendis í 35%. Samhliða þarf stuðning við uppbyggingu innviða fyrir kvikmyndagerð, skv. nýrri kvikmyndastefnu.
 • Nær ótakmörkuð tækifæri eru í hugverkaiðnaði, svo sem líftækni, lyfjaframleiðslu og tengdum greinum. Framsókn vil hvetja til enn frekari fjárfestinga á sviði hugverkaiðnaðar með fjárfestingastuðningi við stærri verkefni sem skapa verðmæti og störf fyrir þjóðina.
 • Framsókn vill styrkja Tækniþróunarsjóð og bæta skattaumhverfi nýsköpunarfyrirtækja sem og frumkvöðla.

Lítil og meðalstór fyrirtæki – Lykill að uppbyggingu og þróun.

 • Framsókn er málsvari lítilla og meðalstórra fyrirtækja og vill taka upp þrepaskipt tryggingagjald og lækka það á lítil og meðalstór fyrirtæki. Samhliða því er nauðsynlegt að taka upp fleiri þrep í tekjuskatti fyrirtækja. Hreinan hagnað fyrirtækja umfram 200 m.kr. á ári þarf að skattleggja hærra á móti lækkuninni til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þannig dregur hún ekki úr getu ríkissjóðs til að standa undir öflugu velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfi.
 • Framsókn leggur áherslu á að tekið sé tillit til stærðar fyrirtækja við álagningu ýmissa opinberra gjalda, sem nú eru í formi flatra gjalda og/eða skatta, svo sem gjöld vegna starfsleyfa og úttekta eftirlitsaðila. Þó þessi gjöld skipti litlu máli í heildarsamhenginu er ljóst að þau geta verið íþyngjandi fyrir smærri fyrirtæki, einkum í upphafi reksturs.
 • Framsókn vill nota skattkerfið til að jafna aðstöðu fólks á landsbyggðinni ásamt því að styðja betur við rekstur lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þannig er skattkerfið notað til að fjárfesta í fólki og hvetja til fjölþættari verðmætasköpunar.

Loftslagsmál – græn orka – tækifæri Íslands

 • Framsókn telur veruleg tækifæri liggja í útflutningi á þekkingu í formi ráðgjafar og fjárfestinga á erlendum vettvangi þar sem menntun og þekking á hlutum eins og endurnýjanlegri orku skipta miklu máli.
 • Framsókn vill efla grænan iðnað, þar á meðal vetnisframleiðslu, og nýta tækifærin í landinu til nýsköpunar, þróunar og verðmætasköpunar í loftslagsmálum. Verkefnin þurfa að vera markvissari og skilvirkari og til þess að leiða það telur Framsókn nauðsynlegt að koma á sérstöku loftslagsráðuneyti. Stefnan er kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.
 • Framsókn vill stuðla að innleiðingu hringrásarhagkerfisins í íslenskt samfélag og atvinnulíf. Hringrásarhagkerfið snýst í megindráttum um að viðhalda verðmæti auðlinda og lágmarka myndun úrgangs.
 • Í samstarfi við vísindasamfélagið, félagasamtök og sveitarfélög þarf að vinna að almennri vitundarvakningu um tækifæri almennings til að hafa áhrif. Framsókn vill að markvisst verði stefnt að því að uppfylla Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna, þar á meðal þau sem varða umhverfis- og loftlagsmál.
 • Framsókn vill að tekin verði enn stærri skref á næstu árum í áframhaldandi orkuskiptum í samgöngum og flutningum á landi og á sjó. Markmiðið er að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti og að raforkukerfið sé forsenda orkuskipta og efnahagslegra framfara með nýtingu innlendra, hagkvæmra og hreinna orkugjafa í samgöngum. Til þess verða nauðsynlegir innviðar að vera fyrir hendi.
 • Eftirspurn eftir framleiðslu úr grænni orku og hreinu vatni fer hraðvaxandi um alla heim. Framsókn vill nýta tækifæri til útflutnings á orkuþekkingu og orku í formi rafeldsneytis. Fari svo sem horfir gæti hér sprottið upp nýr og spennandi iðnaður sem mundi grundvallast á öflugri atvinnusköpun, nýsköpun, gjaldeyrissparnaði og ávinningi í loftslagsmálum.

Samgöngumál – innviðir verðmætasköpunar

 • Stórkostleg aukning í framlögum til samgöngumála er raunveruleiki. Alls staðar er verið að byggja upp. Öflugir og öruggir innviðir eru grunnurinn að betri lífsgæðum. Á kjörtímabilinu hefur aldrei áður verið varið jafn miklum fjármunum til samgangna. Mikið hefur áunnist, en framkvæmda og viðhaldsþörf er hvergi nærri lokið.
 • Framsókn vill halda áfram bæta umferðaröryggi og miðar að því m.a. að fækka einbreiðum brúm á hringveginum og halda áfram að aðskilja akstursstefnur á umferðarþyngstu vegköflum landsins. Framundan eru einu mestu umbreytingar í samgöngum sem sést hafa. Tvöföldun Reykjanesbrautar, tvöföldun vega á milli Hveragerðis og Selfoss og tvöföldun vegar um Kjalarnes.
 • Framsókn leggur áherslu á að stytta vegalengdir milli byggða, efla atvinnusvæði á landinu öllu og draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda.
 • Framsókn vill sjá áframhaldandi uppbyggingu samkvæmt Samgönguáætlun. Halda þarf áfram með samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum og samstarfi á milli hins opinbera og atvinnulífs. Sem dæmi má nefna nýja brú yfir Ölfusá, brú yfir Hornafjarðarfljót og nýjan veg yfir Öxi.
 • Sundabraut hefur verið á dagskrá allt kjörtímabilið og verður stórkostleg samgöngubót sem losar um umferðarhnúta. Á kjörtímabilinu hefur verið unnið að undirbúningi svo framkvæmdir geta hafist árið 2026 eins og áætlanir gera ráð fyrir.
 • Framsókn vill að í uppbyggingu innviða á hálendinu verði hugað að því til framtíðar að rafmagnsbílar komist um. Þá verði sérstök áhersla lögð á vegina um Kjöl og að Fjallabaki. Ekki síst vegna mögulegs öryggishlutverks þeirra ef náttúruvá ber að dyrum.
 • Framsókn vill halda áfram að styrkja og efla innanlandsflugvelli, fjölga tækifærum í ferðaþjónustu og skapa atvinnu heima fyrir.
 • Framsókn hefur lagt áherslu á uppbyggingu hafna og mun halda henni áfram. Þær gegna lykilhlutverki í verðmætasköpun.
 • Framsókn vill tryggja framgang Samgöngusáttmálans til að liðka fyrir umferð á höfuðborgarsvæðinu og vinna að kolefnishlutlausu Íslandi.
 • Framsókn vill að á hverjum tíma sé alltaf unnið að byggingu að minnsta kosti einna jarðganga á landinu.

Byggðamál – Við erum eitt samfélag

 • Framsókn vill beita fjárhagslegum hvötum til að bæta aðgengi að opinberri þjónustu við íbúa á á skilgreindum brothættum svæðum á landsbyggðinni til að jafna aðstöðumun. Dæmi um velheppnaða aðgerð er Loftbrúin. Einnig er hægt að nýta ákvæði í lögum um nýjan Menntasjóð til að stuðla að búsetu sérfræðinga, til dæmis lækna, fjarri höfuðborginni.
 • Framsókn vill auka fjármagn til byggðaáætlunar. Grundvallarendurskoðun hefur átt sér stað á byggðamálum síðustu ár með nýrri byggðaáætlun. Nýta þarf betur þau tæki sem hún býr yfir.
 • Framsókn vill auka við eigið fé Byggðastofnunar til að auka möguleika stofnunarinnar við að styðja við atvinnuuppbyggingu og nýsköpun á landsbyggðinni.
 • Framsókn vill að byggðir verði klasar í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs út um landið til að tryggja betur framgang hugmyndafræðinnar um störf án staðsetningar. Sett verði í forgang því tengdu að þróa skattalega hvata til að flýta þeirri uppbyggingu svo klasar eða samvinnuhús rísi sem víðast. Aðstöðuleysi má ekki koma í veg fyrir að störf á vegum hins opinbera og einkaaðila verði til á landsbyggðinni.
 • Framsókn vill efla smærri þorp sem standa höllum fæti. Sú reynsla sem hefur skapast af klæðskerasaumuðum aðgerðum á Flateyri er góð fyrirmynd.
 • Nú þegar hillir undir að verkefnið Ísland ljóstengt, sem Framsókn var í forystu um, ljúki með því að dreifbýlið um landið hefur aðgang að ljósleiðaratengingu þá þurfum við að stíga það næsta. Ísland fulltengt verður forgangsmál hjá Framsókn þannig að minni þéttbýlisstaðir fái ljósleiðartengingu og geti þannig tekið þátt í fjórðu iðnbyltingunni og íbúar þeirra búi við sömu lífsgæði og aðrir íbúar landsins sem felast í góðum fjarskiptum.
 • Starfsemi fiskeldis hefur hleypt nýjum krafti í byggðir sem áður stóðu höllum fæti með auknum tekjum og fjölgun íbúa. Framsókn vill áframhaldandi stuðning við uppbyggingu fiskeldis.  Regluverkið þarf að vera skýrt. Gæta þarf vel að umhverfisáhrifum starfseminnar með virku eftirliti, rannsóknum og aðkomu vísindamanna á viðeigandi sviðum.
 • Mikilvægt er að regluverk um fiskeldi verði endurskoðað til að tryggja sanngjarna gjaldtöku fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum. Skipting þeirra tekna milli ríkis og sveitarfélög verði sanngjörn.

Landbúnaður – vanmetin auðlind

 • Framsókn vill standa vörð um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi með dyggum stuðningi við íslenska matvælaframleiðslu sama í hverju hún felst.
 • Framsókn leggur mikla áherslu á að viðhalda áframhaldandi stöðu Íslands í fremstu röð í  vörn gegn sýklalyfjaónæmi. Það er risastórt heilbrigðismál að komið sé í veg fyrir útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi með ströngum ráðstöfunum, en við sjáum að sýklalyfjaónæmi er orðinn stór vandi víða erlendis. Forskot innlends landbúnaðar liggur ekki síst í lítilli lyfja- og varnarefnanotkun samanborið við flest önnur ríki.
 • Framsókn vill stórefla nýsköpun í matvælaframleiðslu og landnýtingu. Stefna ber að því að öll landnýting og ræktun sé sjálfbær og stuðningur hins opinbera þarf í meira mæli að beinast að því að efla fjölbreyta ræktun og landnýtingu, þar með talið kolefnisbindingu.
 • Jafna þarf samkeppnisstöðuna betur með því að heimila frumframleiðendum samstarf eins og þekkist í öllum Evrópulöndum og afurðastöðvum í kjöti sams konar samstarf og í mjólkurframleiðslu. Bændum ætti að heimila slátrun og vinnslu að undangengnu áhættumati og nauðsynlegri fræðslu.
 • Gagnvart innflutningi þarf að endurskoða tollasamning við ESB vegna forsendubrests m.a. eftir útgöngu Bretlands úr sambandinu.  Þá þarf að efla tolleftirlit verulega og gera sambærilegt og þekkist í samanburðarríkjum.
 • Stofnað verði nýtt landbúnaðar og matvælaráðuneyti þar sem skógrækt og landgræðsla koma saman við eftirlitsstofnanir matvælaöryggis og landbúnaðar.
 • Framsókn vill styðja betur við landgræðslu og skógrækt til að mæta betur skuldbindingum okkar í loftslagsmálum.