Forystan

Forystufólk Framsóknar

Sigurður Ingi Jóhannsson er formaður Framsóknar,  Lilja Dögg Alfreðsdóttir er varaformaður og Ásmundur Einar Daðason er ritari.

Framsókn er ekki flokkur byltinga, við erum umbótaafl

Síðasta öld er af mörgum kölluð öld öfganna. Á þeirri öld léku Framsókn og samvinnuhugsjónin oft lykilhlutverk í að leiða saman ólík öfl við stjórn landsins. Við aðhyllumst frjálslynda hugmyndafræði og teljum farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð er á hófsemi og heiðarleika.
Framsókn hefur komið að stjórn landsins stóran hluta af rúmlega aldarsögu sinni. Árangur okkar í stjórn landsins kemur ekki af sjálfu sér. Við búum að því í Framsókn að vera rótgróinn flokkur með langa sögu. Og ekki síst skýra sýn. Við trúum því að samtakamáttur og samvinna séu lykilinn að því að færa samfélagið fram á við.

Við horfum á þann góða grunn sem samfélagið byggir á og styðjum við breytingar á því sem þarf að laga.
Framsókn er ekki flokkur byltinga, við erum umbótaafl, við erum flokkur framfara sem byggjast á menntun, dugnaði og hugsjónum.

  • Við viljum samfélag þar sem hlúð er að fjölskyldunni sem hornsteini samfélagsins.
  • Við viljum samfélag þar sem hlúð er að atvinnurekstri og sprotum.
  • Við viljum sjá samfélag þar sem allir borgarar búa við jöfn tækifæri og geta blómstrað, hver á sinn hátt.
  • Við viljum samfélag þar sem ríkir frelsi með ábyrgð.
 
Líklega hefur aldrei verið nauðsynlegra að rödd og hugmyndafræði Framsóknar heyrist en einmitt nú þegar pólar stjórnmálanna verða ýktari. Nú er mikilvægt að hlusta vel á ólíkar raddir og leiða mál til lykta með samvinnu.
 
Ég hvet alla þá sem vilja vinna að umbótum í samfélaginu með samvinnu að leiðarljósi að skrá sig í Framsókn.

Skilaboð frá Lilju

Framsóknarflokkurinn blés til stórsóknar í menntamálum með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi. Við höfum haft það að markmiði að tryggja öllum jafnt aðgengi að námi við hæfi, óháð efnahag eða búsetu. Við höfum stóreflt iðn-, verk og starfsnám til að draga úr færnimisræmi á vinnumarkaði. Mikill kennaraskortur var yfirvofandi en með baráttuviljann að vopni hefur okkur tekist að snúa því við og tryggja metaðsókn í kennaranám í háskólum. Nýr Menntasjóður námsmanna er ein veigamesta breyting í þágu námsmanna sem hefur tekist á síðari árum.
Þetta er mikið fagnaðarefni.

Eitt af stórum baráttumálum flokksins snýr að tungumálinu okkar, íslenskunni, og stöðu hennar í hinum stafræna heimi. Jákvætt viðhorf til íslensku og aukin meðvitund um mikilvægi tungumálsins skiptir sköpum svo aðrar aðgerðir til stuðnings henni skili árangri. Það hefur lengi verið mér hjartans mál að tryggja að hægt sé að nota íslensku í samskiptum við nútímatæknina. Þannig tryggjum við enn fremur framtíð íslenskunnar og málþroska barnanna okkar.

Jafnt aðgengi að íþróttastarfi er einnig gríðarlega mikilvægt. Framsóknarflokkurinn er einhuga um að hlúa vel að íþróttastarfi og efla það frekar, enda hefur forvarnargildi skipulagðs íþróttastarfs margsannað gildi sitt. Íþróttir gera samfélagið okkar öflugra og skipa mikilvægan sess í íslensku þjóðlífi.

Íslensk menning og listir eru auðlind sem skilar miklum efnahagslegum gæðum til samfélagsins. Íslendingar eru listhneigðir og menningarneysla er mikil hér á landi. Framsóknarflokkurinn leggur mikla áherslu á að efla og styrkja menninguna, en ekki síður skapandi greinar. Þetta er okkar mesti auður til framtíðar og viljum við rækta hann áfram.

Til að tryggja lífsgæði á Íslandi þarf sterkt og öflugt efnahagslíf. Framsókn leggur mikla áherslu á að stuðla að hagvexti til framtíðar með mikilli atvinnusköpun og fjárfestingum. Styðja þarf við grunnstoðir samfélagsins, vernda afkomu fólks og fyrirtækja og veita öfluga viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf á óvissutímum. Íslenska þjóðarbúið er í góðri stöðu til að takast á við þær áskoranir sem eru fram undan. Við leggjum mikla áherslu á að halda áfram að sýna þann sveigjanleika sem er nauðsynlegur til að tryggja hag fólksins í landinu.

Með áframhaldandi uppbyggingu íslensks mennta- og hagkerfis mun okkur takast að koma Íslandi í fremstu röð. Þannig tryggjum við grunn að sterku samfélagi.

Framsóknarflokkurinn er flokkur samvinnu og flokkur án öfga

Við höfum unnið fyrir þjóðina í meira rúma öld og komið á margvíslegum nýjungum til bóta, til að mynda fæðingarorlofi, lengingu þess, endurgreiðslum í kvikmyndagerð, hækkun þeirra, og margt fleira hefur áunnist sem ekki er rými til að nefna hér.

Hornsteinninn í flokksstarfinu er að standa með fjölskyldum á allan hátt, hvort sem er gegnum beina þjónustu og stuðning við fjölskyldurnar, gegnum atvinnulífið, eða á annan hátt. Þjóð sem styður vel við uppvöxt barna sinna er þjóð sem nær árangri. Við í Framsókn leggjum áherslu á jöfn tækifæri og jafnt aðgengi allra að þjónustu og menntun við hæfi.

Við viljum veita öllum tækifæri á að blómstra í samfélaginu og það gerum við með því að styðja við einstaklinga strax í æsku og halda áfram þeim stuðningi þegar líður á ævina. Samfélag þar sem allir einstaklingar fá að blómstra á eigin forsendum er gott samfélag.

Líklega hefur aldrei verið meiri þörf en nú er á stjórnmálum án öfga og stjórnmálum sem leggja áherslu á samvinnu. Ef við náum að vinna saman að úrbótum í þjóðfélaginu náum við árangri fyrr og við náum einnig betri árangri.

Ég vona að við getum sem flest sammælst um samvinnu.

Ásmundur Einar Daðason, ritari Framsóknarflokksins