Menntun

Menntun

 • Menntastefna til ársins 2030 er leiðarljós Framsóknar í menntamálum, enda var hún lögð fyrir Alþingi af þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra Framsóknar.

 • Framsókn vill áfram leggja áherslu á skólaþróun með þátttöku skólanna sjálfra, enn frekari eflingu kennarastéttarinnar og mikilvægi þess að halda menntuðum kennurum í starfi á öllum skólastigum.

 • Framsókn vill bæta þjónustu hins opinbera við skólana, vill tryggja eðlilega þróun á námsgagnamarkaði og að óhófleg miðstýring standi ekki í vegi fyrir þeirri þróun.

 • Framsókn vill leggja ríka áherslu á snemmtæka íhlutun og samþættingu ólíkra stuðningskerfa svo hægt sé að bregðast skjótt við ef barn glímir við erfiðleika.

 • Framsókn ætlar áfram að auka vægi iðn- og tæknimenntunar og tryggja enn frekar aukið jafnræði bók- og verknáms.

 • Framsókn vill tryggja öllum menntun og kennslu sem tekur mið af þeirra þörfum og aðstæðum.

 • Framsókn leggur áherslu á vægi skapandi greina á öllum skólastigum, meðal annars með það í huga að auka vellíðan nemenda og koma til móts við ólíka styrkleika þeirra.

 • Framsókn vill að áfram verði lögð áhersla á að styðja kröftuglega við íslenska tungu í sífellt alþjóðlegri og stafrænni heimi.

 • Framsókn vill tryggja öllum tækifæri til að læra íslensku og leggur sérstaka áherslu á þá sem eru af erlendu bergi brotnir, fjöltyngdir eða hafa annars alist upp erlendis. Góð tök á íslensku eru lykillinn að farsælu lífi og þátttöku í samfélaginu.

 • Framsókn vill leita allra leiða til að vinna gegn brotthvarfi úr framhaldsskólum.

 • Framsókn vill lögbinda starf félagsmiðstöðva og ungmennahúsa. Þessi starfsemi er mikilvægur þáttur til að koma til móts við þann viðkvæma hóp barna og ungmenna sem finna sig ekki í íþróttastarfi og eiga við félagslega erfiðleika að stríða.

 • Framsókn vill standa vörð um öfluga háskóla á landinu

 • Framsókn leggur áherslu á að styðja við vísinda og rannsóknastarf

 • Framsókn vill að samstarf verði aukið milli háskóla og atvinnulífsins

Inngangur

Framsókn leggur áherslu á jöfn tækifæri fyrir alla þegar kemur að menntun,  aðgengi að menningarlífi og þátttöku í fjölbreyttu íþrótta- og tómstundastarfi.  Leggja þarf áfram áherslu á skólaþróun með þátttöku skólanna sjálfra, enn frekari eflingu kennarastéttarinnar og mikilvægi þess að halda menntuðum kennurum í starfi á öllum skólastigum. Menntastefna til ársins 2030 er metnaðarfull og framsækin og Framsókn hefur hana að leiðarljósi í sínum störfum. Unnið hefur verið markvisst að umbótum í menntun barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn og telur Framsókn mikilvægt að sú vinna haldi áfram. Framsókn vill að áfram verði staðinn vörður um íslenska tungu. Framsókn leggur áherslu á skjóta og markvissa innleiðingu farsældarlaganna.

Framfaraskref var stigið með tilkomu menntasjóðs námsmanna og aukin áhersla hefur verið lögð á úrbætur til að fjölga umsækjendum í starfs-, iðn- og tækninám með tilkomu reglugerðar um vinnustaðanám. Framsókn leggur áherslu á að koma á samstarfi hagsmunaaðila og að tryggja fjármögnun og þróun starfs-, iðn- og tæknináms til að fleiri nemendur geti valið þessar námsleiðir. Framsókn vill einnig að aðgengi verði aukið að fjölbreyttum námsleiðum, meðal annars með því að efla dreifnámsmiðstöðvar víðs vegar um landið og fjarnám óháð staðsetningu.

Áhrif heimsfaraldurs COVID-19 á skóla- og menningarstarf voru mikil og hægt er að draga heilmikinn lærdóm  af aðgerðum sem þurfti að ráðast í með stuttum fyrirvara. Framsókn telur mikilvægt að taka það jákvæða sem kom út úr skóla- og menningarstarfi í heimsfaraldri COVID-19 og nýta það áfram.

Að efla og standa vörð um íslenska tungu

Framsókn hefur lagt á það ríka áherslu að standa vörð um íslenskuna og mikilvægt er að þeirri vinnu verði haldið áfram, í sífellt alþjóðlegri og stafrænni heimi. Vinna verður áfram markvisst að því að bæta læsi í gegnum fjölbreytt verkefni í samvinnu við sveitarfélög og skóla og þar lögð áhersla á að auka áhuga nemenda á landsvísu á læsi fjölbreyttra gæðatexta sem eru merkingarbærir og aldurssvarandi. Jafnframt skal að hugað að aðgengi nemenda að hljóðbókum, jafnt námsbókum sem öðrum bókmenntum ætluðum börnum og ungmennum. Framsókn telur einnig að móta þurfi samfélagslega stefnu í samstarfi við atvinnulífið þar sem aðgengi fullorðinna að íslenskunámi verði bætt til muna. Í því tilliti mætti meta hvort hægt sé að bjóða upp á íslenskunám m.a. á vinnutíma. Allir sem hingað flytja til að setjast hér að eiga að fá tækifæri til að læra íslensku.

Sérstaklega þarf að beina athygli að lesskilningi drengja og barna af erlendum uppruna. Kveikja þarf áhuga á lestri, tryggja þjálfun í skóla og heima með áhugahvetjandi lesefni. Vinna þarf að umbótum í útgáfu námsgagna fyrir alla aldurshópa með sérstakri áherslu á nemendur af erlendum uppruna. Þörf er á sérstöku átaki til að koma betur til móts við börn innflytjenda og foreldra þeirra. Meta þarf hvort Menntamálastofnun getur leitt það verkefni eða hvort vænlegra er að leita til annarra útgefenda.

Framsókn vill enn fremur að áfram verði lögð áhersla á að gæta íslenskrar tungu í innlendri dagskrárgerð. Sérstaklega þarf að vinna áfram að talsetningu íslensks barnaefnis. Þýðingarmikið er að dagskrárefni sé alltaf í boði með íslenskum texta en ekki er síður mikilvægt að viðmót og algengasti hugbúnaður sé það líka.

Mikilvægi samstarfs hagsmunaaðila og að tryggja fjármögnun í starfs-, iðn- og tækninámi Framsókn fagnar reglugerð en með henni var stigið gríðarlega stórt skref í átt að bættri þjónustu við nemendur. Með reglugerðinni færist ábyrgðin á að komast á námssamning frá nemandanum yfir á skólana sjálfa sem hefur leitt til þess að umsóknum í starfs, iðn- og tækninám hefur fjölgað. Einnig telur Framsókn að ítarlega skilgreindir hæfniþættir fyrir hverja námsgrein munu verða þess valdandi að vinnustaðanámið mun verða markvissara en það hefur verið hingað til. Framsókn telur mikilvægt að allir hagsmunaaðilar vinni saman að þessum breytingum nemendum til góða og að fjármagn verði tryggt til að breytingarnar nái fram að ganga á sem farsælastan og skilvirkastan hátt. Framsókn leggur áherslu á að koma á samstarfi hagsmunaaðila og að tryggja fjármögnun og þróun starfs-, iðn- og tækninám til að fleiri nemendur geti valið þessar námsleiðir.

Tímamót í þjónustu við börn

Framsókn fagnar þeim tímamótum sem urðu þegar Alþingi samþykkti lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Breytingunum er ætlað að tryggja börnum og aðstandendum þeirra, snemmtækan, samþættan stuðning þvert á kerfi. Því er ætlað að auka samvinnu og bæta samfellu þjónustu við börn og tryggja að hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi. Markmiðið með því er að láta mismunandi hluta kerfisins tala betur saman og loka gráum svæðum, þannig að barnið verði hjartað í kerfinu. Það tekur til allrar þjónustu sem fer fram innan skólakerfisins, í leik-, grunn- og framhaldsskólum, á frístundaheimilum og í félagsmiðstöðvum.  Það er gríðarlega þýðingarmikið að þessum breytingum verði komið til framkvæmda sem fyrst og innleiðingu þeirra lokið.

Meðal annars er þörf á að setja geðheilbrigðismál nemenda á öllum skólastigum í forgang og að bið eftir slíkri þjónustu verði stytt. Einnig mætti skoða hvort fleiri ólíkar fagstéttir ættu að veita þjónustu innan skólanna, svo sem félagsráðgjafar, sálfræðingar þroskaþjálfar, iðjuþjálfar eða annað fagfólk sem starfar þá í nærumhverfi nemenda og greiður aðgangur er að ráðgjöf og stuðningi hjá þegar svo ber undir.

Unnin verði greining á kostum og göllum við að lögbinda leikskóla

Framsókn vill skoða fýsileika þess að gera leikskólann að skyldubundnu skólastigi. Með aðgerð sem þessari er stigið skref í átt að því að leikskólinn verði óumdeilanlega fyrsta skólastigið. Framsókn leggur til að settur verði saman starfshópur fagfólks sem vinni að greiningu á kostum og göllum við slíka breytingu. Hún verði unnin í samvinnu við skólasamfélagið.

Aukið aðgengi að námi án staðsetningar – dreifnámsstöðvar

Framsókn vill að nemendum sé gert kleift að sækja nám óháð búsetu til dæmis með eflingu dreifnámsstöðva nálægt búsetustað og fjarnámi. Mikilvægt er að ungt fólk geti stundað framhaldsnám á sínum forsendum, sama hvort þau ákveða að vera í námi í heimabyggð eða flytji til að stunda nám. Heimavistir í nálægð við framhaldsskóla eru góð leið til að styðja við jafnrétti til náms. Ýmsar lausnir eru nú þegar til staðar og hafa reynst vel en fjölga mætti slíkum úrræðum til að mæta þörfum nemenda víðs vegar um landið, m.a. á höfuðborgarsvæðinu. Dreifmenntun gerir kennurum einnig kleift að búa hvar sem er og miðla þekkingu gegnum þær skólastofnanir sem við eiga hverju sinni

Raunfærnimat verði nýtt í auknum mæli til að meta margvíslega hæfni umsækjenda inn í fjölbreyttara nám en nú er gert, svo sem á háskólastigi. Einnig þarf að leggja áherslu á raunfærnimat sem staðfestir færni einstaklings án tillits til þess hvernig eða hvar hennar hefur verið aflað. Raunfærnimat byggist á því að nám fari ekki eingöngu fram innan formlega skólakerfisins heldur með ýmsum hætti við fjölbreyttar aðstæður. Mikilvægt er að sú þekking og hæfni sem einstaklingar ná sér í á starfsævinni hafi gildi enda er það mikilvægt til að tryggja jöfn tækifæri fyrir alla.

(Ályktun 36. Flokksþings Framsóknarmanna 2022.)