Menntun

Fjárfestum í fólki

Menntamál – Áhersla á skólaþróun með breiðri þátttöku.

 • Menntastefna til ársins 2030 er leiðarljós Framsóknar í menntamálum, enda er hún lögð fyrir Alþingi af núverandi mennta- og menningarmálaráðherra.
 • Framsókn vill áfram leggja áherslu á skólaþróun með þátttöku skólanna sjálfra, enn frekari eflingu kennarastéttarinnar og mikilvægi þess að halda menntuðum kennurum í starfi.
 • Framsókn vill bæta þjónustu hins opinbera við skólana, uppfæra námsgagnakost og virkja fleiri aðila í námsgagnagerð.
 • Framsókn vill leggja ríka áherslu á snemmtæka íhlutun og samþættingu ólíkra stuðningskerfa svo skólakerfið bregðist skjótt við ef barn glímir við erfiðleika.
 • Framsókn ætlar áfram að auka vægi iðn- og tæknimenntunar og tryggja enn frekar aukið jafnræði bók- og verknáms.
 • Framsókn vill tryggja öllum menntun og kennslu sem tekur mið af þeirra þörfum og aðstæðum. Við ætlum að sýna lestrarvanda drengja sérstaka athygli.
 • Framsókn vill að áfram verði lögð áhersla á að styðja kröftuglega við íslenska tungu í sífellt alþjóðlegri og stafrænni heimi.
 • Framsókn vill tryggja öllum sem eru af erlendu bergi brotnir sem flytja hingað til lands tækifæri til að læra íslensku.

(Kosningastefnuskrá Framsóknar 2021.)

Hér að neðan er álytkun Framsóknar frá síðasta Flokksþingi 2018:

Menntamál

Framsókn vill að staðinn verði vörður um íslenskuna.

 • Áfram verði unnið að því að bæta læsi í gegnum fjölbreytt verkefni einstakra skóla og sveitarfélaga, með baklandi í læsisverkefni Menntamálastofnunar. Jafnframt verði unnið að umbótum á sviðum sem styðja við læsi s.s. útgáfu námsgagna, eflingu skólabókasafna, gegnum bókmenningarstefnu og stefnumörkun um aðgang að íslensku hljóð- og myndefni. Sem lið í að efla aðgengi að bókum til lestrar og náms vill Framsóknarflokkurinn afnema virðisaukaskatt af bókum. Fjárfest verði í íslenskri máltækni með það að markmiði að hægt verði að nota íslensku í samskiptum við tæki og í allri upplýsingavinnslu. Þá verði aukinn kraftur settur í markvissar aðgerðir til stuðnings kennslu í íslensku sem annað tungumál, fyrir nemendur á öllum aldri. Komið verði á fót umbótateymi sem hafi faglega forystu í verkefninu. Samhæfa þarf aðgerðir þeirra sem kenna íslensku sem annað tungumál.

Framsókn vill tryggja framboð á gæðanámsefni á íslensku.

 • Nemendum á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi verði tryggt gæða námsefni á íslensku, á því formi sem hentar hverju sinni og jafnt fyrir nemendur sem eiga íslensku að móðurmáli eða sem annað eða þriðja mál. Einnig þarf að auka framboð á námsefni fyrir einstaklinga með hvers konar skerðingar. Námsgagnasjóður grunnskóla og Þróunarsjóður námsgagna verði efldir verulega og Menntamálastofnun efld og falið stærra hlutverk á sviði þróunar, útgáfu og gæðaeftirlits með námsgögnum.
 • Framsókn vill auka virðingu fyrir kennarastarfinu og fjölga menntuðum kennurum. Hæfir og góðir kennarar eru forsenda þess að nemendur njóti sín og nái árangri sem leggur grunn að framtíð þeirra.Til að skólastefna um menntun án aðgreiningar geti gengið þarf að skýra hugtakið, verkaskiptingu, endurskoða fjármögnun og auka stoðþjónustu við nemendur, kennara og skólastjórnendur.
 • Hækka þarf laun kennara til að laða að hæfa nemendur í kennaranám og laða að kennara sem starfa utan skólanna. Þjóðarátaks er þörf til að auka virðingu fyrir kennurum og kennarastarfinu t.d. með öflugu kynningarstarfi. Auka þarf tengsl kennaranáms við starfsvettvang og koma á launuðu starfsnámi innan kennaranámsins. Samhliða þarf að auka fjárhagslega hvata til kennaranema í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Framsókn vill styrkja samfélagslega umgjörð skólastarfs.

 • Heildstæð geðheilbrigðis- og velferðarþjónusta fyrir börn og ungmenni þarf að vera hluti af þjónustu heilbrigðiskerfisins og félagsþjónustu sveitarfélaga. Þannig verður hægt að veita þjónustuna óháð starfstíma skóla og óháð því hvort ungmenni sækir skóla. Útrýma þarf biðlistum eftir greiningu og meðferð. Efla þarf náms- og starfsráðgjöf, sálfræðiþjónustu og alla stoðþjónustu við nemendur óháð búsetu og efnahag. Koma þarf á samtali aðila vinnumarkaðarins um styttingu vinnuvikunnar til að aðstoða foreldra við að samþætta betur starfsskyldur og fjölskyldulíf.

Framsókn vill tryggja að leikskólapláss eða sambærileg vistun standi foreldrum til boða að loknu fæðingarorlofi.

 • Lengja þarf fæðingarorlof hvors foreldris fyrir sig í fimm mánuði en til viðbótar verði sameiginlegur fæðingarorlofsréttur foreldra tveir mánuðir. Koma þarf á samstarfi ríkis og sveitarfélaga um að tryggja börnum dagvistunarúrræði að fæðingarorlofi loknu, frá 12 mánaða aldri. Horfa skal þar sérstaklega til leikskólans sem er fyrsta skólastigið í skólakerfinu.
  Framsókn vill gera góða leikskóla enn betri.
 • Bæta skal starfsumhverfi barna, kennara og starfsfólks í leikskólum. Mikill skortur er á leikskólakennurum til að lög um menntun og ráðningu leikskólakennara séu uppfyllt. Meta þarf kosti og galla þess að endurskilgreina leikskólann í námstíma annars vegar og daggæslu hins vegar þar sem leikskólahlutinn yrði gjaldfrjáls en greitt yrði fyrir daggæslu. Færa þarf starfsumhverfi leikskólakennara og annarra starfsmanna leikskólans nær því sem þekkist á öðrum skólastigum til að auka nýliðun í stéttinni. Leita þarf leiða til að draga úr álagi á börn og starfsfólk leikskóla, t.d. með því að fækka börnum í hverju rými.

Framsókn vill treysta stoðir grunnskólans.

 • Markmið grunnskólans er að byggja upp góða grunnþekkingu og námsáhuga á mörgum sviðum. Styðja þarf við þróun fjölbreyttra kennsluhátta s.s. iðn-, starfs- og verknám og einstaklingsmiðað nám. Ráðgjöf til foreldra og skóla verði aukin. Greining á vanda leiði til ráðleggingar til nemanda, foreldra og kennara um hvernig nemandinn geti náð árangri á eigin forsendum. Góð grunnmenntun, læsi og talnaskilningur er undirstaða náms og grundvöllur þess að einstaklingar geti bætt við sig þekkingu og tekist á við þjóðfélagsbreytingar alla ævi. Ekki má slá af kröfum um líðan og samskiptafærni og að hver einstaklingur fái að blómstra á eigin forsendum og njóta hæfileika sinna.

Framsókn vill byggja upp og þróa framhaldsskólann í takt við áskoranir framtíðarinnar og að hærra hlutfall hvers árgangs innritist í starfs- og verknám.

 • Sett verði markmið um að hærra hlutfall (20% árið 2022) hvers árgangs innritist í starfs og verknám að loknum grunnskóla og útskrifist innan viðmiðunartíma. Sérstök áhersla er lögð á að jafna hlutfall kynja. Skipaður verði verkefnahópur til að tryggja heildarsýn og vinna að samhæfingu þeirra breytinga sem framundan eru á iðnnáminu. Hópurinn vinni á grunni þróunarverkefna síðustu ára, hafi heildarsýn yfir áframhaldandi þróun og sýni forystu og frumkvæði að breytingum eftir því sem við á.
 • Framhaldsskólarnir eru að ganga í gegnum miklar breytingar vegna styttingar náms á framhaldsskólastigi og þá er mikilvægt að þeir fái næði og svigrúm til að takast á við áskoranirnar sem því fylgja og tækifæri til áframhaldandi þróunar. Endurskoða þarf skil á milli skólastiga, grunn- og framhaldsskóla. Það fjármagn sem sparast með styttingunni til stúdentsprófs haldist innan framhaldsskólanna og skal nota í þróunarverkefni sem auka gæði starfsins.

Framsókn vill fjárfesta í menntun, nýsköpun og rannsóknum.

 • Auka skal gæði náms og starfs í íslenskum háskólum og vísindastofnunum. Samhliða verði framlög til háskóla hækkuð svo þau nái meðaltali OECD þjóða 2020 og Norðurlanda 2024. Fjárfesting í menntun, nýsköpun og rannsóknum er fjárfesting til framtíðar. Styrkja verður brú á milli vísinda og nýsköpunarstarfs sem og þekkingaryfirfærslu úr rannsóknum til hagnýtingar í atvinnulífi. Mótuð verði stefna um námsframboð og stuðning við fjarnám á háskólastigi. Þekkingarstarfsemi á landsbyggðinni verði efld. Styrkja verður tengsl atvinnulífs og menntastofnana til opna nýjar leiðir í iðn-, starfs- og verknámi. Hugað verður að nýsköpun og frumkvöðlamennt.

Framsókn vill að jöfnunarhlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna verði styrkt.

 • Framsóknarflokkurinn hefur alla tíð staðið vörð um jafnan rétt fólks til menntunar, óháð búsetu og efnahag. LÍN gegnir þar lykilhlutverki. Hækka þarf frítekjumark og endurskoða reglulega raunverulegan framfærslukostnað svo að Lánasjóðurinn geti staðið undir hlutverki sínu sem jöfnunarsjóður. Vísbendingar eru um að nemendur hverfi frá námi vegna framfærslukostnaðar og hefur erfitt ástand á húsnæðis- og leigumarkaði þar einnig áhrif. Lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna verði endurskoðuð, með það að markmiði að koma á samtímagreiðslum, til að losa námsmenn undan dýrum yfirdráttarlánum. Jafnframt þarf að koma á styrkja- og hvatakerfi. Hvatar verði nýttir til að fjölga námsmönnum í greinum þar sem skortur er á fagmenntuðu starfsfólki á vinnumarkaði eins og í leikskóla- og kennarafræðum.

Framsókn vill samþætta frístundastarf, tónlistarkennslu og íþróttir inn í daglegt starf grunnskóla.

 • Mikið álag getur verið á fjölskyldum og vinnudagur margra barna langur. Með samþættingu gæðastarfs á vegum íþróttafélaga, tónlistarskóla og æskulýðsfélaga við starf grunnskóla má styðja betur við fjölskyldur og börn. Möguleikar til að læra á hljóðfæri eða stunda íþróttir fari ekki eftir fjárhag heimila heldur á að gera öllum börnum kleift að rækta líkama og sál í gegnum skipulagt frístundastarf. Stjórnvöld, í samráði við sveitarfélögin í landinu, móti og innleiði sérstaka æskulýðsstefnu.

Framsókn vekur jafnframt athygli á ítarlegri skýrslu starfshóps flokksins um framtíðarsýn í menntamálum sem birt hefur verið opinberlega.

(Ályktun 35. Flokksþings Framsóknarmanna 2018.)

Deila