Velferð

Fjárfestum í fólki

Heilbrigðisþjónustan – Einstaklingurinn í öndvegi

 • Framsókn vill fara í almennar aðgerðir til þess að fjárfesta í fólki til framtíðar. Fara þarf í markvissa vinnu við að endurmeta og samþætta þjónustu við fólk sem hefur lent í áföllum á lífsleiðinni. Lykilinn er að velferðarþjónustan bregðist snemma við og leggi áherslu á að fyrirbyggja vandamál með fjölþættum aðgerðum líkt og gert hefur verið í barnamálum á kjörtímabilinu. Tryggja verður að þjónustan vinni betur og meira saman og geti fylgt málum eftir þvert á einstakar stofnanir. Þær lausnir þarf að móta með samvinnu.
 • Framsókn vill fjárfesta í fólki sem hefur lent í alvarlegum áföllum á sinni lífsleið. Áföll geta verið mismunandi og eru því jafn ólík og þau eru mörg. Þessa einstaklinga á að aðstoða við að byggja sig upp að nýju og ná fyrri styrk. Það skiptir sköpum fyrir þá að fá viðeigandi aðstoð og skilning, en einnig liggja í því mikil verðmæti fyrir samfélagið í heild. Þetta gerum við með því að taka heildstætt utan um viðfangsefnið, tengja saman ríki, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og aðra viðkomandi aðila og móta heildstæða umgjörð um það hvernig tekið er utan um hvern og einn sem þarf á þjónustu að halda.
 • Framsókn vill fara í þjóðarátak í lýðheilsutengdum forvörnum til að efla einstaklinga til virkni og velgengni í íslensku samfélagi. Það er þýðingarmikil fjárfesting í fólki.
 • Framsókn vill að skoðað verði hvort frekari tilefni sé til aukins einkareksturs innan heilbrigðisgeirans. Það þarf einfaldlega að nota þær aðferðir sem skila bestum árangri á sem skjótasta máta.
 • Framsókn leggur áherslu á að gæði heilbrigðisþjónustunnar séu ávallt eins og best verður á kosið. Vitanlega þarf að leita hagkvæmra og skilvirkra lausna því að um 60% útgjalda ríkisins fara til heilbrigðis- og velferðarmála, en markmið Framsóknar er og verður alltaf að tryggja öllum íbúum landsins þjónustu óháð búsetu og efnahag. Það skiptir meira máli en hvort að hið opinbera veiti alla þjónustuna sjálft eða kaupi hana af öðrum.
 • Framsókn vill efla geðheilbrigðisþjónustu í forvarnaskyni. Það er skynsamlegt eins og á öðrum sviðum heilbrigðisþjónustunnar til að fyrirbyggja frekari vanda með því að bregðast snemma við – áður en vandinn verður stærri. Ekki síst þarf að auka geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og félagslega veika hópa.
 • Framsókn vill stórefla heilbrigðisþjónustu utan sjúkrastofnana, sérstaklega fyrir eldra fólk. Finnar hafa náð þar eftirtektarverðum árangri við að hjálpa eldra fólki að varðveita sjálfstæði sitt og virka samfélagsþátttöku. Hugsa þarf  þjónustuna í samræmi við aðstæður, möguleika og vilja hvers og eins.
 • Framsókn vill nýta tæknilausnir eins og kostur er til að efla heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni þar sem þjónusta hefur minnkað hjá íbúum utan þéttbýlustu svæðanna.
 • Framsókn vill að þriðji skammtur bóluefnis standi þeim sem vilja til boða.

Sókn í þágu eldra fólks – Aldur skiptir ekki máli, heldur einstaklingurinn.

 • Framsókn vill afnema reglur um að fólk fari á eftirlaun eða hætti störfum við ákveðinn aldur. Þeir sem vilja áfram vera virkir á vinnumarkaði  eiga að hafa kost á því ef vilji bæði launafólks og vinnuveitanda stendur til þess.
 • Framsókn leggur áherslu á að ráðist verði í endurskipulagningu á málaflokki eldra fólks út frá grunngildum aldursvæns samfélags, samþættingu, persónumiðaðrar þjónustu og skýrrar sýnar á hlutverk og skyldur þeirra sem að þjónustunni koma. Horfa ætti til reynslunnar af endurskipulagningu opinberrar þjónustu við börn sem unnin var á kjörtímabilinu. Lykilatriðið er aukin samvinna innan kerfisins.
 • Framsókn vill gera stórátak í uppbyggingu heimahjúkrunar og dagþjálfunarrýma, bæta og fjölga endurhæfingarúrræðum og skapa fjölbreyttari þjónustu sem styður eldra fólk til að búa sem lengst heima hjá sér, eftir því sem það vill og heilsa leyfir. Með því móti getur það haldið sjálfstæði sínu, sjálfræði, reisn og virðingu m.a. með fyrirbyggjandi aðgerðum.
 • Framsókn vill leggja áherslu á aukna og samhæfða heimaþjónustu, sveigjanleg dagþjálfunarúrræði, aukna tæknivæðingu og markvissan stuðning við aðstandendur eldra fólks. Stórefla þarf samstarf milli félags- og heilbrigðisþjónustunnar m.a. svo þjónustan sé persónumiðuð og sé að mestu veitt á heimilum fólks. 
 • Nútímavæða þarf þjónustuna og aðgengi að henni með aukinni notkun á velferðatækni, rafrænni þjónustu, fjarþjónustu og upplýsingagáttum.
 • Framsókn leggur áherslu á að upplýsingakerfi verði samræmd og byggð verði upp öflug upplýsingagátt. Með henni verði hægt að innleiða eina gátt umsókna um þjónustu hins opinbera. Notendur þjónustunnar þurfa þá ekki að sækja um þjónustu á mörgum stöðum heldur fari umsókn í eina þjónustugátt og í gegnum hana fái viðkomandi viðeigandi þjónustu á hverjum tíma.
 • Samhæfa þarf fjölbreytt úrræði og sníða að hverju svæði fyrir sig. Sveitarfélög eru misjafnlega sett með aðstöðu út frá stærð, mannfjölda og fl. Sömu úrræðin ganga ekki alls staðar.
 • Framsókn leggur áherslu á að almenna frítekjumarkið hækki í skrefum og að lífeyrisskerðingar vegna atvinnutekna verði afnumdar. Framsókn vill mæta þeim verst stöddu og horfir þá sérstaklega til húsnæðismála, en flestir þeir sem búa við bág kjör búa í mjög skuldsettu húsnæði eða greiða háa leigu. Skoða þarf möguleika á hlutdeildarlánum fyrir eldra fólk.

Örorka – Allir þurfa þak yfir höfuðið

 • Framsókn vill heildarendurskoðun á málefnum öryrkja hér á landi. Sú endurskoðun verður gerð með þau markmið bæta stöðu öryrkja og virkni innan samfélagsins og vinnumarkaðsins.
 • Framsókn vill aðstoða öryrkja við að komast í vinnu. Fólk undir fertugu á ekki að neyðast til að fara á örorku.
 • Framsókn vill ýta húsnæðisátaki úr vör sem aðstoðar öryrkja við að hafa tryggt þak yfir höfuðið.

(Kosningastefnuskrá Framsóknar 2021.)

Velferðarmál

Framsóknarflokkurinn vill standa vörð um velferð allra landsmanna og tryggja jafnt aðgengi að öflugri velferðarþjónustu, óháð efnahag og búsetu.

Sú stefna samræmist grunngildum framsóknarstefnunnar um samvinnu, sjálfsábyrgð, lýðræði, sanngirni, jafnrétti og samfélagslega ábyrgð, þar sem manngildi er ætíð sett ofar auðgildi. Framsóknarmenn fagna því að ráðherra flokksins leiði félags- og jafnréttismál í nýrri ríkisstjórn og að áfram verði velferðarmál sett í forgang, m.a. með aukinni áherslu á jöfnuð og jafnrétti í samfélaginu.

Það er stefna Framsóknarflokksins að á Íslandi séu lífskjör þau bestu í heimi í alþjóðlegum samanburði. Til þess að svo megi verða þarf að tryggja efnahags- og félagslegan stöðugleika til framtíðar. Framsóknarflokkurinn fagnar því að ný ríkisstjórn ætli að setja á fót þverpólitískan hóp um þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði hér á landi.

Framsóknarflokkurinn telur að huga þurfi sérstaklega að stöðu þeirra hópa sem höllum fæti standa í samfélaginu. Allir landsmenn eiga að njóta jafnræðis og hafa jafnan rétt til þjónustu. Framsóknarflokkurinn stendur vörð um grundvallarmannréttindi.

Framsóknarflokkurinn hvetur til þess að stuðningur byggi á stöðu einstaklingsins óháð hjúskaparstöðu og styðji þannig fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga.

Framsóknarflokkurinn telur mikilvægt að efla enn frekar samvinnu stofnana sem sinna félags-, heilbrigðis- og skólamálum þar sem sérstaklega er tekið tillit til barna og þeirra sem höllum fæti standa. Framsóknarmenn telja að standa þurfi vörð um hagsmuni barna með því að hafa lögbundna þjónustu gjaldfrjálsa. Efnahagsleg staða foreldra á ekki að hafa áhrif á skólagöngu grunnskólabarna. Framsóknarflokkurinn telur því að öll námsgögn á grunnskólastigi eigi að vera gjaldfrjáls.

Tryggja þarf áfram að örorkulífeyrir fylgi lágmarkslaunum. Einfalda þarf lífeyriskerfi öryrkja, afnema skerðingar og hvetja til starfsendurhæfingar. Halda þarf áfram að fjölga leiguheimilum fyrir öryrkja og fatlað fólk í almenna íbúðakerfinu. Draga þarf úr heilbrigðiskostnaði þeirra sem njóta greiðslna úr almannatryggingum með því að lækka enn frekar þakið í greiðsluþátttökukerfinu.

Framsóknarflokkurinn telur að frjáls félagasamtök gegni veigamiklu hlutverki í samfélaginu. Tryggja þarf faglega nálgun þeirra og efla eftirlitshlutverk ríkisins með gerðum þjónustusamningum.

Heilbrigðismál

Framsóknarflokkurinn vill að innlend heilbrigðisþjónusta verði áfram í fremstu röð. Nýta þarf fjármuni betur og efla þjónustu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar. Auka þarf þjónustu við sjúklinga og lækka kostnaðarþátttöku. Vinna ber að sameiningu greiðsluþátttökukerfis læknisþjónustu og lyfja. Tryggja ber að tannlækninga-, sálfræði
og ferðakostnaður sjúklinga falli undir greiðsluþátttökukerfið. Fólk á aldrei að þurfa að glíma við fjárhagsörðugleika vegna veikinda sinna, barna eða skyldmenna. Takmarkið er að veikir borgi ekki.

Þá verður að leggja meiri áherslu á menntun starfsmanna framtíðarinnar í heilbrigðiskerfinu, m.a. með auknum framlögum til heilbrigðissviða háskólanna og auknum stuðningi við nemendur sem fara erlendis í nám.

Varað er við hagnaðardrifnum einkarekstri í heilbrigðiskerfinu.

Hefja þarf strax undirbúning nýs þjóðarsjúkrahúss á nýjum stað um leið og unnið er að uppbyggingu við Hringbraut. Horfa þarf til framtíðar og gera ráð fyrir því að nýtt þjóðarsjúkrahús rúmi alla nauðsynlega starfsemi og öll aðstaða þar verði til fyrirmyndar. Reynslan sýnir að full þörf er á að hefja undirbúning fyrr en seinna. Starfsskilyrði heilbrigðisstarfsmanna eru áhyggjuefni. Við svo búið má ekki standa.

Ávallt skal tryggja landsmönnum bestu heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Leiðrétta þarf þá mismunun sem er á þjónustu á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins, til dæmis í geðheilbrigðisþjónustu. Sérstaklega þarf að taka til endurskoðunar greiðsluþátttöku fólks á landsbyggðinni sem leita þarf sérfræðiþjónustu á milli landshluta. Efla þarf fjarlækningar og þannig nýta færni sérfræðinga til þess að þjónusta alla landsmenn. Áhersla er lögð á að sjúkrahótel séu starfandi í Reykjavík og á Akureyri fyrir þá sjúklinga og aðstandendur sem þess þurfa.

Ráðast þarf í þjóðarátak gegn sjálfsvígum og stofna rannsóknarnefnd um orsakir sjálfsvíga svo efla megi fyrirbyggjandi aðgerðir.

Utanspítalaþjónusta er oft fyrsta þjónusta heilbrigðiskerfisins við bráðar uppákomur, en það vill oft gleymast að sjúkraflutningar eru heilbrigðismál. Flokksþing Framsóknarflokksins hvetur heilbrigðisyfirvöld til að ljúka við stefnumörkun um fyrirkomulag utanspítalaþjónustu um land allt. Þannig verði til heildstætt kerfi, sem uppfylli viðmið um lágmarks viðbragðstíma og lagaumhverfi tryggi að þessi þjónusta sé hluti af heilbrigðiskerfinu.

Efla þarf sérstaklega lýðheilsustarf Landlæknis með auknum fjárheimildum til málaflokksins, s.s. til rannsókna og þróunar og eflingu lýðheilsusjóðs. Leggja þarf aukna áherslu á forvarnir á sviði lýðheilsu með samvinnu og stuðningi heilbrigðiskerfisins. Bregðast þarf tafarlaust við mikilli aukningu lífstílstengdra sjúkdóma, með virkari forvörnum og aðgerðum.

Vinna þarf markvisst eftir settri lýðheilsustefnu, til að mynda með því að innleiða lýðheilsumat þar sem allar stjórnvaldsákvarðanir verði metnar út frá því hvaða áhrif þær hafa á heilsu. Jafnframt skal bjóða öllum 50 ára einstaklingum í heilbrigðismat í forvarnarskyni. Stefna skal að því að öll sveitarfélög verði heilsueflandi samfélög fyrir árið 2025 og allir skólar, leikskólar og framhaldskólar séu þátttakendur í heilsueflandi verkefnum. Mikilvægt er að efla heilsueflandi vinnustaði með auknu samstarfi
Vinnueftirlitsins og Landlæknis á því sviði.

Framsóknarflokkurinn telur að áfram eigi að byggja á faglegum og vísindalegum niðurstöðum í lýðheilsumálum og hafnar því að áfengi sé selt í matvöruverslunum.

Málefni öryrkja

Ástand í húsnæðismálum fatlaðs fólks er algerlega óásættanlegt. Langir biðlistar hafa myndast þrátt fyrir lagalega skyldu sveitarfélaga að sinna þessum málaflokki. Margir fatlaðir einstaklingar þurfa að bíða fram á fullorðinsár eftir að fá úrlausn og þar með er brotið á rétti þeirra til einkalífs. Skorað er á sveitarfélög að leggja fram sérstakt fjármagn og framkvæmdaáætlun til að stytta biðlistana og gera jafnframt tímasettar þjónustuáætlanir með hverjum og einum eins og lög kveða á um.

Skorað er á stjórnvöld að fullgilda valkvæðan viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fullgilding þessa viðauka eykur aðhald með stjórnvöldum og er stuðningur við mannréttindi fatlaðs fólks.

Öllum ábendingum um að fatlaðir einstaklingar hafi verið órétti beittir ber að taka alvarlega og tryggja að þeir sem í hlut eiga fái sanngirnisbætur ef niðurstaða greiningar leiðir í ljós að tilefni sé til slíkra bóta.

Börnum sem þurfa hjálpartæki og búa á tveimur heimilum verði tryggð þau á báðum stöðum.

Málefni aldraðra

Öldruðum fjölgar nú umfram aðra aldurshópa í íslensku samfélagi. Þá breytingu þarf velferðarþjónustan að geta ráðið við til að tryggja að aldraðir eigi öruggt ævikvöld og geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu sem lengst. Aldraðir eiga að njóta virðingar, jafnræðis og sanngirni. Framsóknarflokkurinn telur það mikinn ávinning fyrir samfélagið að allir þeir sem vilja og geta unnið fái tækifæri til þess og því beri að afnema frítekjumark atvinnutekna eldri borgara.

Aldraðir þurfa að geta búið sem lengst á eigin heimilum með öflugum stuðningi heimaþjónustu og heimahjúkrunar, í samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Lögð verði áhersla á kvöld-, nætur- og helgarþjónustu, dagvistunarúrræði og skammtímadvöl, jafnframt því sem unnið verði að nýsköpun og eflingu tæknilausna á þessu sviði. Tannheilsu aldraðra hefur hrakað, m.a. vegna þess að ríkisvaldið hefur ekki staðið við 75% niðurgreiðslu kostnaðar og því mikilvægt að sú niðurgreiðsla verði tryggð.

Ekki er fullnægjandi að bjóða upp á heilbrigðisþjónustu heldur þarf þessum hópi að standa til boða viðeigandi félags-, tómstunda- og íþróttatengd þjónusta sem bætir lífsgæði.

Efla þarf Framkvæmdasjóð aldraðra til uppbyggingar hjúkrunarheimila og dagvistunarúrræða og tryggja jafnframt rekstrargrundvöll þeirra. Tryggja þarf fjárhagslegt sjálfstæði og góðan aðbúnað heimilismanna, m.a. að þeim standi til boða sérbýli. Lífeyrir almannatrygginga til aldraðra þarf að taka breytingum í samræmi við lágmarkslaun.

Fjölskyldan

Framsóknarflokkurinn leggur ríka áherslu á velferð barna. Rannsóknir sýna að líðan barna í skólum landsins fer versnandi. Mikilvægt er að rannsaka þær orsakir sem liggja þar að baki og bregðast strax við.

Umgengnisforeldri fái skattaafslátt með hverju greiddu meðlagi. Skilgreina ber ástæðulausar umgengnistálmanir sem ofbeldi í lögum og brot þess efnis verði sjálfkrafa barnaverndarmál.

Framsóknarflokkurinn hafnar lögleiðingu fíkniefna. Auka þarf fræðslu um skaðsemi ávana- og fíkniefna og ráðast skal í sérstakt fræðsluátak gegn kannabisneyslu. Horft verði heildstætt til fjölskyldna þegar barn lendir í vanda vegna fíkniefna og vinna þarf bug á biðlistum eftir meðferðarúrræðum. Foreldrum standi til boða stuðningur, m.a. til að standa straum af kostnaði sem til fellur en lendir utan almannatryggingakerfisins.

Hvatt er til þess að nýbökuðum foreldrum um land allt gefist kostur á fræðslu um uppeldisaðferðir til eflingar jákvæðrar sjálfsmyndar barna og ungmenna. Jafnframt þarf að efla fræðslu til starfsmanna í leik- og grunnskólum og heilbrigðisstarfsmanna vegna tilkynningarskyldu í barnaverndarmálum, því skipt getur sköpum í lífi einstaklings ef gripið er inn í nógu fljótt. Félagsþjónusta sveitarfélaga þarf að geta tryggt fjárhagslegt og félagslegt öryggi íbúa ásamt því að stuðla að velferð á grundvelli samhjálpar. Hún þarf að vera sambærileg um allt land og í boði fyrir alla íbúa. Þörf fyrir félagsleg úrræði leggst mjög misjafnlega á félagsþjónustu sveitarfélaga. Þá skal tryggt að sveitarfélögin hafi burði til að veita þá þjónustu sem þeim er skylt að gera lögum samkvæmt.

Sveitarfélögin þurfa að geta boðið upp á leikskóla mannaða fagfólki, strax að loknu fæðingarorlofi þannig að samfella verði tryggð í umönnun barna. Foreldrar sem þurfa að dvelja fjarri heimili sínu vegna fæðingar barns fái styrk úr fæðingaorlofssjóði til að mæta þeim tíma þannig að fæðingaorlof sé nýtt í þágu barns að lokinni fæðingu.

Framsóknarflokkurinn styður lengingu sameiginlegs fæðingaorlofs foreldra í 12 mánuði og að foreldrar sem þiggja fæðingastyrk fái að dreifa honum á lengri tíma en sex mánuði, eins og býðst þeim foreldrum sem þiggja fæðingarorlof. Greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi skulu ekki vera undir lágmarkslaunum. Þá þarf að finna leiðir til að fjölga dagvistunar- og leikskólaplássum í þeim tilgangi að tryggja að foreldrar komist að fullu á vinnumarkaðinn að fæðingarorlofi loknu.

Framsóknarflokkurinn fagnar tilraunaverkefni BSRB og Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar en rannsóknir sýna að styttri vinnuvika getur leitt til aukinnar ánægju í starfi, meiri afkasta, betri heilsu og þar með betri lífsgæða. Velferðarráðuneytið hefur stýrt sambærilegu verkefni af hálfu hins opinbera með góðum árangri og því mikilvægt að skoða af alvöru styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar á íslenskum vinnumarkaði í heild.

Jafnrétti

Jafnrétti er eitt af grunnstefjum samvinnu- og framsóknarstefnunnar. Framsóknarflokkurinn hafnar allri mismunun á grundvelli kyns, aldurs, fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, trúar, bakgrunns, þjóðernis eða stöðu að öðru leyti. Það er eitt af hlutverkum Framsóknarflokksins að ganga ávallt á undan með góðu fordæmi í jafnréttismálum og útrýma kynbundnum launamun.

Framsóknarflokkurinn vill berjast gegn kynbundnu ofbeldi í íslensku samfélagi með virkum aðgerðum á sem flestum sviðum. Fagna ber opinni umræðu um kynferðislega áreitni sem því miður hefur fengið að líðast víða í okkar samfélagi í skjóli þöggunar. METOO byltingin er dæmi um jákvæða valdeflingu þar sem kraftur fjöldans veitir þolendum styrk til þess að stíga fram í dagsljósið. Framsóknarflokkurinn var fyrstur flokka til þess að bregðast við METOO byltingunni og hefja vinnu við siðareglur gagnvart kynferðislegri áreitni í stjórnmálastarfi. Sérstaklega ber að fagna framlagi félags- og jafnréttismálaráðherra sem hefur ákveðið að skipa nefnd til að meta umfang kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni, ofbeldis og eineltis á íslenskum vinnumarkaði. Niðurstöður þeirrar vinnu verða að skila sér í aðgerðum.

Mikilvægt er að við móttöku útlendinga sé unnið með mannréttindi að leiðarljósi, að framkvæmd laga sé skilvirk og vel sé staðið að skipulagi hvort sem er vegna umsókna um dvöl, atvinnuréttindi eða þjónustu samfélagsins.

Leggja þarf áherslu á góða upplýsingagjöf opinberra aðila til innflytjenda. Þjónusta skóla og velferðarkerfis þarf að taka mið af auknum hreyfanleika fólks milli landa og huga þarf að þörfum innflytjenda, eins og annarra hópa samfélagsins, við opinbera stefnumótun og aðgengi að opinberri þjónustu.

Framsóknarflokkurinn vill stuðla að því að fjölbreyttur bakgrunnur fólks leiði til betri og samkeppnishæfari vinnumarkaðar og að ólík færni starfandi fólks ýti undir framþróun atvinnulífs og skili þannig árangri fyrir samfélagið allt. Brýnt er að fólki af erlendum uppruna sé kynnt réttindi og skyldur bæði starfsmanna og vinnuveitenda. Tryggja þarf að til séu leiðir fyrir innflytjendur til að fá menntun sína metna hérlendis, og auðvelda og samræma afgreiðslu á mati á menntun og starfsréttindum.

Bæta þarf tækifæri innflytjenda til þátttöku í félagsstarfi, lýðræðislegri umræðu og stjórnmálum. Stuðla þarf að faglegri, vandaðri og upplýsandi umfjöllun um málefni innflytjenda og þátttöku þeirra í samfélaginu. Leggja skal áherslu á að draga fram tækifærin sem felast í ólíkum menningarlegum bakgrunni landsmanna og nýta þekkingu innflytjenda til að efla íslenskt samfélag. Mikilvægt er að efla stuðningsnet innflytjenda og vinna þarf markvisst gegn ofbeldi í garð innflytjenda.

Húsnæðismál

Framsóknarflokkurinn leggur sem fyrr áherslu á að landsmenn búi við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins og hafi raunverulegt val um búsetuform.

Fjarlægja þarf húsnæðisliðinn út úr vísitölu neysluverðs en verð á húsnæði hefur að jafnaði hækkað meira en annað verðlag. Afleiðing þess eins er að verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað um tugi milljarða undanfarin ár. Fylgja þarf fast eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í átt að afnámi verðtryggingar samhliða mótvægisaðgerðum, til þess að standa vörð um möguleika efnaminni fjölskyldna og ungs fólks til að eignast sitt eigið húsnæði.

Húsnæðisvandi ungs fólks er áhyggjuefni og við honum þarf að bregðast af festu. Fagna ber stefnu ríkisstjórnarinnar þar sem ætlunin er að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn og skoða meðal annars nýtingu lífeyrissparnaðar til lausnar.

Framsóknarflokkurinn vill að unnt verði að sækja um afborgunarhlé á námslánum í allt að fimm ár til að mæta ungum fjölskyldum sem eru að kaupa íbúð. Framsóknarflokkurinn fagnar innkomu húsnæðisfélaga sem rekin eru án hagnaðarmarkmiða.

Framsóknarflokkurinn lýsir yfir áhyggjum af sértækum húsnæðisskorti á landsbyggðinni og styður fyrirætlanir félags- og jafnréttismálaráðherra sem ætlaðar eru til að bregðast við því.

Óska á eftir samstarfi við lífeyrissjóðina um uppbyggingu á hagkvæmum íbúðum og hjúkrunarrýmum fyrir aldraða á þeim svæðum þar sem þörfin er brýnust.

Stuðningur við fötluð og langveik börn

Tryggja þarf rétt foreldra eftir andlát barns og að stuðningurinn við foreldra á ummönnunargrieðslum verði í samræmi við rétt foreldra til fæðingarorlofs eftir andvana fæðingu eftir 22. viku.

Félagsþjónustu sveitarfélaganna verði falið að gera tillögu að umönnunarmati fyrir langveik börn, líkt og er fyrir fötluð börn í dag.

Nauðsynlegt er að einfalda kerfið sem veitir foreldrum fatlaðra og langveikra barna fjárhagslegan stuðning. Einn liður í því er að breyta áherslum við mat á greiðslum með því að draga úr áherslum á læknisfræðilegar greiningar og auka í stað þess vægi umönnunarinnar sem slíkrar. Þannig verði dregið úr vægi greininga og innlagna á sjúkrahús við mat á umönnun en stuðningur við foreldra langveikra og fatlaðra barna vegna umönnunar verði í samræmi við raunverulega umönnunarþörf barnanna og verði nægjanlegur til að tryggja langveikum og fötluðum börnum og foreldrum þeirra eðlilegt líf og þátttöku í samfélaginu.

Innleiddar verði sérstakar greiðslur vegna umframkostnaðar foreldra vegna langveikra og/eða fatlaðra barna sem verði óháðar efnahag foreldra og mati á umönnunarþörf. í núgildandi kerfi sjúkratrygginga er umframkostnaður ekki bættur. Með umframkostnaði er átt við kostnað sem til fellur vegna fötlunar eða veikinda barns og er umfram það sem almennt er hjá börnum.

Framsóknarflokkurinn leggur til að gerð verði landsáætlun í kringum sjaldgæfa sjúkdóma á Íslandi eins og hin Norðurlöndin hafa þegar komið sér upp.

(Ályktun 35. Flokksþings Framsóknarmanna 2018.)

Deila