Velferð

Velferðarmál

Framsóknarflokkurinn vill standa vörð um velferð allra landsmanna og tryggja jafnt aðgengi að öflugri velferðarþjónustu, óháð efnahag og búsetu.

Sú stefna samræmist grunngildum framsóknarstefnunnar um samvinnu, sjálfsábyrgð, lýðræði, sanngirni, jafnrétti og samfélagslega ábyrgð, þar sem manngildi er ætíð sett ofar auðgildi. Framsóknarmenn fagna því að ráðherra flokksins leiði félags- og jafnréttismál í nýrri ríkisstjórn og að áfram verði velferðarmál sett í forgang, m.a. með aukinni áherslu á jöfnuð og jafnrétti í samfélaginu.

Það er stefna Framsóknarflokksins að á Íslandi séu lífskjör þau bestu í heimi í alþjóðlegum samanburði. Til þess að svo megi verða þarf að tryggja efnahags- og félagslegan stöðugleika til framtíðar. Framsóknarflokkurinn fagnar því að ný ríkisstjórn ætli að setja á fót þverpólitískan hóp um þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði hér á landi.

Framsóknarflokkurinn telur að huga þurfi sérstaklega að stöðu þeirra hópa sem höllum fæti standa í samfélaginu. Allir landsmenn eiga að njóta jafnræðis og hafa jafnan rétt til þjónustu. Framsóknarflokkurinn stendur vörð um grundvallarmannréttindi. Framsóknarflokkurinn hvetur til þess að stuðningur byggi á stöðu einstaklingsins óháð hjúskaparstöðu og styðji þannig fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga.

Framsóknarflokkurinn telur mikilvægt að efla enn frekar samvinnu stofnana sem sinna félags-, heilbrigðis- og skólamálum þar sem sérstaklega er tekið tillit til barna og þeirra sem höllum fæti standa. Framsóknarmenn telja að standa þurfi vörð um hagsmuni barna með því að hafa lögbundna þjónustu gjaldfrjálsa. Efnahagsleg staða foreldra á ekki að hafa áhrif á skólagöngu grunnskólabarna. Framsóknarflokkurinn telur því að öll námsgögn á grunnskólastigi eigi að vera gjaldfrjáls.

Tryggja þarf áfram að örorkulífeyrir fylgi lágmarkslaunum. Einfalda þarf lífeyriskerfi öryrkja, afnema skerðingar og hvetja til starfsendurhæfingar. Halda þarf áfram að fjölga leiguheimilum fyrir öryrkja og fatlað fólk í almenna íbúðakerfinu. Draga þarf úr heilbrigðiskostnaði þeirra sem njóta greiðslna úr almannatryggingum með því að lækka enn frekar þakið í greiðsluþátttökukerfinu. Framsóknarflokkurinn telur að frjáls félagasamtök gegni veigamiklu hlutverki í samfélaginu. Tryggja þarf faglega nálgun þeirra og efla eftirlitshlutverk ríkisins með gerðum þjónustusamningum.

Heilbrigðismál

Framsóknarflokkurinn vill að innlend heilbrigðisþjónusta verði áfram í fremstu röð. Nýta þarf fjármuni betur og efla þjónustu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar. Auka þarf þjónustu við sjúklinga og lækka kostnaðarþátttöku. Vinna ber að sameiningu greiðsluþátttökukerfis læknisþjónustu og lyfja. Tryggja ber að tannlækninga-, sálfræðiog ferðakostnaður sjúklinga falli undir greiðsluþátttökukerfið. Fólk á aldrei að þurfa að glíma við fjárhagsörðugleika vegna veikinda sinna, barna eða skyldmenna. Takmarkið er að veikir borgi ekki.

Þá verður að leggja meiri áherslu á menntun starfsmanna framtíðarinnar í heilbrigðiskerfinu, m.a. með auknum framlögum til heilbrigðissviða háskólanna og auknum stuðningi við nemendur sem fara erlendis í nám.

Varað er við hagnaðardrifnum einkarekstri í heilbrigðiskerfinu.

Hefja þarf strax undirbúning nýs þjóðarsjúkrahúss á nýjum stað um leið og unnið er að uppbyggingu við Hringbraut. Horfa þarf til framtíðar og gera ráð fyrir því að nýtt þjóðarsjúkrahús rúmi alla nauðsynlega starfsemi og öll aðstaða þar verði til fyrirmyndar. Reynslan sýnir að full þörf er á að hefja undirbúning fyrr en seinna. Starfsskilyrði heilbrigðisstarfsmanna eru áhyggjuefni. Við svo búið má ekki standa.

Ávallt skal tryggja landsmönnum bestu heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Leiðrétta þarf þá mismunun sem er á þjónustu á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins, til dæmis í geðheilbrigðisþjónustu. Sérstaklega þarf að taka til endurskoðunar greiðsluþátttöku fólks á landsbyggðinni sem leita þarf sérfræðiþjónustu á milli landshluta. Efla þarf fjarlækningar og þannig nýta færni sérfræðinga til þess að þjónusta alla landsmenn. Áhersla er lögð á að sjúkrahótel séu starfandi í Reykjavík og á Akureyri fyrir þá sjúklinga og aðstandendur sem þess þurfa.

Ráðast þarf í þjóðarátak gegn sjálfsvígum og stofna rannsóknarnefnd um orsakir sjálfsvíga svo efla megi fyrirbyggjandi aðgerðir.

Utanspítalaþjónusta er oft fyrsta þjónusta heilbrigðiskerfisins við bráðar uppákomur, en það vill oft gleymast að sjúkraflutningar eru heilbrigðismál. Flokksþing Framsóknarflokksins hvetur heilbrigðisyfirvöld til að ljúka við stefnumörkun um fyrirkomulag utanspítalaþjónustu um land allt. Þannig verði til heildstætt kerfi, sem uppfylli viðmið um lágmarks viðbragðstíma og lagaumhverfi tryggi að þessi þjónusta sé hluti af heilbrigðiskerfinu.

Efla þarf sérstaklega lýðheilsustarf Landlæknis með auknum fjárheimildum til málaflokksins, s.s. til rannsókna og þróunar og eflingu lýðheilsusjóðs. Leggja þarf aukna áherslu á forvarnir á sviði lýðheilsu með samvinnu og stuðningi heilbrigðiskerfisins. Bregðast þarf tafarlaust við mikilli aukningu lífstílstengdra sjúkdóma, með virkari forvörnum og aðgerðum.

Vinna þarf markvisst eftir settri lýðheilsustefnu, til að mynda með því að innleiða lýðheilsumat þar sem allar stjórnvaldsákvarðanir verði metnar út frá því hvaða áhrif þær hafa á heilsu. Jafnframt skal bjóða öllum 50 ára einstaklingum í heilbrigðismat í forvarnarskyni. Stefna skal að því að öll sveitarfélög verði heilsueflandi samfélög fyrir árið 2025 og allir skólar, leikskólar og framhaldskólar séu þátttakendur í heilsueflandi verkefnum. Mikilvægt er að efla heilsueflandi vinnustaði með auknu samstarfi Vinnueftirlitsins og Landlæknis á því sviði.

Framsóknarflokkurinn telur að áfram eigi að byggja á faglegum og vísindalegum niðurstöðum í lýðheilsumálum og hafnar því að áfengi sé selt í matvöruverslunum.

Málefni öryrkja

Ástand í húsnæðismálum fatlaðs fólks er algerlega óásættanlegt. Langir biðlistar hafa myndast þrátt fyrir lagalega skyldu sveitarfélaga að sinna þessum málaflokki. Margir fatlaðir einstaklingar þurfa að bíða fram á fullorðinsár eftir að fá úrlausn og þar með er brotið á rétti þeirra til einkalífs. Skorað er á sveitarfélög að leggja fram sérstakt fjármagn og framkvæmdaáætlun til að stytta biðlistana og gera jafnframt tímasettar þjónustuáætlanir með hverjum og einum eins og lög kveða á um.

Skorað er á stjórnvöld að fullgilda valkvæðan viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fullgilding þessa viðauka eykur aðhald með stjórnvöldum og er stuðningur við mannréttindi fatlaðs fólks.

Öllum ábendingum um að fatlaðir einstaklingar hafi verið órétti beittir ber að taka alvarlega og tryggja að þeir sem í hlut eiga fái sanngirnisbætur ef niðurstaða greiningar leiðir í ljós að tilefni sé til slíkra bóta.

Börnum sem þurfa hjálpartæki og búa á tveimur heimilum verði tryggð þau á báðum stöðum.

Málefni aldraðra

Öldruðum fjölgar nú umfram aðra aldurshópa í íslensku samfélagi. Þá breytingu þarf velferðarþjónustan að geta ráðið við til að tryggja að aldraðir eigi öruggt ævikvöld og geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu sem lengst. Aldraðir eiga að njóta virðingar, jafnræðis og sanngirni. Framsóknarflokkurinn telur það mikinn ávinning fyrir samfélagið að allir þeir sem vilja og geta unnið fái tækifæri til þess og því beri að afnema frítekjumark atvinnutekna eldri borgara.

Aldraðir þurfa að geta búið sem lengst á eigin heimilum með öflugum stuðningi heimaþjónustu og heimahjúkrunar, í samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Lögð verði áhersla á kvöld-, nætur- og helgarþjónustu, dagvistunarúrræði og skammtímadvöl, jafnframt því sem unnið verði að nýsköpun og eflingu tæknilausna á þessu sviði. Tannheilsu aldraðra hefur hrakað, m.a. vegna þess að ríkisvaldið hefur ekki staðið við 75% niðurgreiðslu kostnaðar og því mikilvægt að sú niðurgreiðsla verði tryggð.

Ekki er fullnægjandi að bjóða upp á heilbrigðisþjónustu heldur þarf þessum hópi að standa til boða viðeigandi félags-, tómstunda- og íþróttatengd þjónusta sem bætir lífsgæði.

Efla þarf Framkvæmdasjóð aldraðra til uppbyggingar hjúkrunarheimila og dagvistunarúrræða og tryggja jafnframt rekstrargrundvöll þeirra. Tryggja þarf fjárhagslegt sjálfstæði og góðan aðbúnað heimilismanna, m.a. að þeim standi til boða sérbýli. Lífeyrir almannatrygginga til aldraðra þarf að taka breytingum í samræmi við lágmarkslaun.

Deila