Málefnin

Flokkur samvinnu og frjálslyndis

Rúmlega aldarlöng saga Framsóknar er samtvinnuð framförum og framsækni

Síðasta öld er af mörgum kölluð öld öfganna. Á þeirri öld lék Framsókn og samvinnuhugsjónin oft lykilhlutverk í að leiða saman ólík öfl við stjórn landsins. Eins og segir í grunnstefnu flokksins aðhyllumst við frjálslynda hugmyndafræði og teljum farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð er á hófsemi og heiðarleika. Líklega hefur sjaldan verið nauðsynlegra að rödd og hugmyndafræði Framsóknar heyrist en einmitt nú þegar pólar stjórnmálanna verða ýktari. Nú er mikilvægt að hlusta vel á ólíkar raddir og leiða mál til lykta með samvinnu.

Stefnumál Framsóknarflokksins eru sett fram með þrennum hætti:

  • Grundvallarstefnuskrá flokksins er kjarninn í stefnu flokksins – eða það leiðarljós sem önnur stefnumótun byggist á. Hún er ekki endurskoðuð á hverju flokksþingi, en það var síðast gert 2022 og þar áður 2001 og 1987.
  • Í ályktunum flokksþings er að finna ítarlegri stefnu í einstökum málaflokkum. Flokksþing endurskoðar þá stefnu annað hvert ár. Síðasta flokksþing var haldið í mars 2022.
  • Í kosningastefnuskrá er að finna þær áherslur sem flokkurinn setur fram í kosningabaráttu fyrir alþingiskosningar og gilda um komandi kjörtímabil.
 

Stjórnmálaályktun – 36. Flokksþings Framsóknar, 19. – 20. mars 2022

Framsókn stendur heils hugar með fólkinu í Úkraínu og á sama tíma fordæmir flokkurinn harðlega stríðsrekstur Rússlands gegn frjálsu og fullvalda ríki. Með innrás sinni brjóta yfirvöld í Rússlandi þar með landamæri og alþjóðleg lög og stefna milljónum saklausra borgara á flótta frá heimilum sínum. Hugur okkar er fyrst og fremst hjá almenningi í Úkraínu, lífi þeirra og tilveru er stefnt í hættu. Við verðum að gera allt það sem i okkar valdi stendur til að hjálpa úkraínsku þjóðinni og þar með taka á móti fólki sem neytt hefur verið á flótta. Þá er afdráttarlaus stuðningur Framsóknar á bak við þær viðskiptaþvinganir sem Ísland ásamt öðrum Vesturlandaþjóðum hefur sett á Rússland.

Framsóknarfólk um allt land finnur fyrir miklum meðbyr fyrir komandi sveitarstjórnarkosningum og þakkar á sama tíma fyrir hið mikla traust og fylgi sem flokkurinn fékk í nýafstöðnum alþingiskosningum. Miklar áskoranir eru fram undan, takast þarf á við efnahagsleg eftirköst heimsfaraldursins, endurheimta fyrri styrk ferðaþjónustunnar og bregðast við erfiðu ástandi á húsnæðismarkaði.

Tryggja þarf að öflug umræða eigi sér stað um fæðuöryggi þjóðarinnar. Við búum við breyttan raunveruleika, stríð geisar í Evrópu og heimsfaraldur plagar enn stærstan hluta heimsins. Ekki er sjálfsagt að geta treyst á óheftan innflutning um ókomna framtíð. Það er þjóðaröryggismál að fæðuöryggi þjóðarinnar sé tryggt og að við séum sjálfbær þegar kemur að grunn innviðum. Tryggja þarf matvælaframleiðendum á Íslandi sanngjörn starfsskilyrði og ýta undir nýsköpun í allri matvælaframleiðslu. Sækja þarf fram í íslenskum matvælaiðnaði og draga fram sérstöðu íslenskra matvæla. Áhersla á sjálfbærra nýtingu auðlinda þjóðarinnar er mikilvægt leiðarljós í öllum iðnaði.  

Takast þarf á við hækkandi verðbólgu og afleiðingar hennar sem við finnum flest fyrir í okkar daglega lífi. Halda þarf áfram að reka ábyrga hagstjórn sem byggir á stöðugleika og hefur það að markmiði að tryggja kaupmátt hins almenna borgara.

Mikilvægt er að koma á jafnvægi á húsnæðismarkaði. Eftirspurn og framboð á húsnæði verður að haldast í hendur, því er mikilvægt að tryggt sé nægjanlegt lóðaframboð. Stórauka þarf húsnæðisbyggingu á næstu árum um allt land og tryggja húsnæðisstuðning fyrir þá sem það þurfa.

Áframhaldandi uppbygging innviða er undirstaða þess að tryggja jafnrétti til búsetu um  land allt. Þar gegna samgöngur og fjarskipti meginhlutverki og uppbyggingarvinna á því sviði verður að halda áfram bæði með beinni þátttöku ríkisins sem og með samvinnuleiðinni.

Heimsfaraldurinn hefur minnt okkur á mikilvægi öflugrar heilbrigðisþjónustu á landsvísu. Halda þarf áfram markvissri uppbyggingu heilsugæslunnar og auka þátt hennar í fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu. Auka þarf fjarheilbrigðisþjónustu og bæta aðgengi að sérfræðiþjónustu á landsbyggðinni. Skoða þarf einnig til hlítar hvernig skilvirkni í heilbrigðiskerfinu er aukin, hvort sem þjónustan byggir á einka- eða ríkisrekstri. Öll heilbrigðisþjónusta þarf alltaf að vera aðgengilega óháð efnahag og búsetu fólks. Þá þarf að draga lærdóm af heimsfaraldrinum og halda áfram að byggja upp Landspítalann sem hryggjarstykki í heilbrigðisþjónustu landsins. Framsókn vill tryggja niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu. Niðurgreiðsla á sálfræðiþjónustu er mikilvægt skref til að tryggja öllum jafnt aðgengi að þessari nauðsynlegu heilbrigðisþjónustu. Jafnframt er brýnt að stytta biðlista í allri heilbrigðisþjónustu t.a.m. í greiningarferlum. 

Loftslagsváin er raunveruleg ógn sem taka ber alvarlega og nauðsynlegt er að innleiða aðgerðir gegn henni í öllum framtíðaráætlunum. Tekin hafa verið skref í rétta átt undanfarin ár og árangur náðst til að mynda í orkuskiptum. Sú vegferð verður að halda áfram og heldur verður að gefa í. Til að uppfylla heimsmarkið Sameinuðu þjóðanna, Parísarsáttmálann og markmiði okkar um kolefnihlutleysi árið 2040 þarf aukna vitundarvakningu í samfélaginu. Samfélagið sem heild þarf að taka virkan þátt. Nýta þarf öll verkfæri, þar með talið bætta orkunýtingu, skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis.

Ísland hefur öll tækifæri til þess að verða leiðandi í grænum lausnum sem leysa munu jarðefnaeldsneyti af hólmi og í því samhengi er mikilvægt að hið opinbera og almenningur styðji við nýsköpunarfyrirtæki. Tryggja þarf að nægt framboð sé til staðar af grænni orku fyrir heimilin í landinu, atvinnulífið og orkuskiptin, ásamt framleiðslu á rafeldsneyti. Þá er brýnt fara í stóruppbyggingu á flutningskerfi raforku og styrkja það þannig að það þjóni landinu öllu. Finna þarf framtíðarorkuvinnslu stað í skipulagi þar sem sátt ríkir um staðsetningu og tryggja að umhverfisáhrif verði lágmörkuð. Í því samhengi þarf að tryggja afgreiðslu rammaáætlana með eðlilegum hætti.

Hlúa þarf vel að fjölskyldufólki og létta byrðar á þeim sem þyngstar bera og þá sérstaklega einstæðum foreldrum. Endurskoða þarf sérstaklega stuðningskerfi ríkisvaldsins með hliðsjón af þessu. Tryggja þarf öllum börnum jöfn tækifæri til frístundaiðkunar óháð efnahag. Öll börn og ungmenni eiga að hafa tækifæri til að stunda þá íþrótt eða tómstund sem þau hafa áhuga á.

Áfram þarf að vinna að aðgengi náms á öllum skólastigum fyrir öll, uppbyggingu háskólaútibúa og eflingu fjarnáms um land allt, og tryggja viðeigandi framfærslu námsmanna.

Huga þarf að okkar eldri fólki og tryggja að þau hafi sjálfræði yfir eigin lífi. Efla þarf dagdvöl og frístundastarf aldraðra. Tryggja þarf heimaþjónustu svo fólk geti búið heima eins lengi og það kýs ásamt því að fjölga rýmum á hjúkrunarheimilum.

Fara þarf í heildarendurskoðun á málefnum öryrkja með það að markmiði að bæta stöðu þeirra og virkni innan samfélagsins og vinnumarkaðarins. Koma þarf til móts við húsnæðisvanda öryrkja með húsnæðisátaki. Mikilvægt er að samráð sé haft við örykja í allri uppbyggingu og stefnumótun innan málaflokksins.

Enn eru eftirköst faraldursins okkur óljós. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að huga að lýðheilsu þjóðar. Við leggjum áherslu á þjóðarátak í lýðheilsutengdum forvörnum. Efla þarf einstaklinga til virkni og velgengni. Við höfum verið minnt á mikilvægi þess að hlúa að andlegri heilsu þjóðarinnar. Einmanaleiki, þunglyndi og kvíði eru raunverulegar áskoranir hjá öllum aldurshópum sem mikilvægt er að bregðast við enda felast mestu verðmæti þjóðarinnar í mannauði. Við ætlum að fjárfesta í fólki.