Byggðir

Byggða- og sveitarstjórnarmál

Byggðamál
  • Framsókn vill beita fjárhagslegum hvötum til að bæta aðgengi að opinberri þjónustu við íbúa á á skilgreindum brothættum svæðum á landsbyggðinni til að jafna aðstöðumun. Dæmi um vel heppnaða aðgerð er Loftbrúin. Einnig er hægt að nýta ákvæði í lögum um nýjan Menntasjóð til að stuðla að búsetu sérfræðinga, til dæmis lækna, á landsbyggðinni.

  • Framsókn vill auka við eigið fé Byggðastofnunar til að auka möguleika stofnunarinnar við að styðja við atvinnuuppbyggingu og nýsköpun á landsbyggðinni.

  • Framsókn vill að byggðir verði klasar í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs út um landið til að tryggja betur framgang hugmyndafræðinnar um störf án staðsetningar. Sett verði í forgang því tengt að þróa skattalega hvata til að flýta þeirri uppbyggingu svo klasar eða samvinnuhús rísi sem víðast. Aðstöðuleysi má ekki koma í veg fyrir að störf á vegum hins opinbera og einkaaðila verði til á landsbyggðinni.

  • Framsókn vill efla smærri þorp sem standa höllum fæti. Sú reynsla sem hefur skapast af klæðskerasaumuðum aðgerðum á Flateyri er góð fyrirmynd.

  • Nú þegar hillir undir að verkefnið Ísland ljóstengt, sem Framsókn var í forystu um, ljúki með því að dreifbýlið hafi aðgang að ljósleiðaratengingu þá þurfum við að stíga það næsta. Ísland fulltengt verður forgangsmál hjá Framsókn þannig að minni þéttbýlisstaðir, sem búa við markaðsbrest, fái ljósleiðaratengingu og geti þannig tekið þátt í fjórðu iðnbyltingunni og íbúar þeirra búi við sömu lífsgæði og aðrir íbúar landsins sem felast í góðum fjarskiptum. Framsókn leggur áherslu á að fjarskiptaöryggi á þjóðvegum landsins, verði tryggt og þau svæði sem eru utan þjónustusvæðis fjarskiptafyrirtækjanna verði efld með fjölgun senda. Á þetta einnig við um Tetra fjarskiptakerfið.

  • Starfsemi fiskeldis hefur hleypt nýjum krafti í byggðir sem áður stóðu höllum fæti með auknum tekjum og fjölgun íbúa. Framsókn vill áframhaldandi stuðning við uppbyggingu fiskeldis.  Regluverkið þarf að vera skýrt. Gæta þarf vel að umhverfisáhrifum starfseminnar með virku eftirliti, rannsóknum og aðkomu vísindamanna á viðeigandi sviðum.

  • Mikilvægt er að regluverk um fiskeldi verði endurskoðað til að tryggja sanngjarna gjaldtöku fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum. Skipting þeirra tekna milli ríkis og sveitarfélaga verði sanngjörn.

Framsókn setur byggðamál í öndvegi og leggur áherslu á jafnrétti óháð búsetu. Taka þarf tillit til byggðasjónarmiða þvert á öll málefnasvið.  Styðja verður við nýsköpun og atvinnuuppbyggingu fyrirtækja og einstaklinga um allt land. Jafnframt er Framsókn fylgjandi sérstökum ívilnunum fyrir fyrirtæki og einstaklinga í landsbyggðunum, sem hafa það að markmiði að efla byggð og jafna aðstöðumun meðal annars með auknu fjármagni og bættri nýtingu verkfæra byggðaáætlunar.

Framsókn vill jafna búsetuskilyrði með almennum og sértækum aðgerðum og að viðurkennt verði að hagsæld þjóðarinnar til lengri tíma litið sé undir því komin að viðhalda fjölbreyttum samfélögum í dreifbýli og þéttbýli um land allt.

Skapa þarf hvata til að laða ungt fólk að til þess að setjast að um land allt. Beita á námslána- og skattkerfinu sem hvata fyrir atvinnu og búsetu í dreifðum byggðum landsins, eins og ný lög um Menntasjóð heimila. Fjölga ber störfum án staðsetningar á vegum hins opinbera og þannig auka möguleika fólks til þess að setjast að hvar sem er á landinu. Nú sem fyrr verði lögð áhersla á að ný opinber störf verði staðsett um land allt. Síðustu tvö ár hefur verið góð reynsla af því að vinna heima, fyrir þá sem það kjósa, og er Framsókn hlynnt þeirri þróun ef slíkt stendur til boða.

Sjálfbær þróun verður ætíð að vera leiðarstef í allri atvinnustarfsemi sem byggir á nýtingu náttúruauðlinda. Með skynsamlegri nýtingu þeirra auðlinda tryggjum við best byggð um allt land til framtíðar. Þýðingarmikið er að lögmál hringrásarhagkerfisins um endurnýtingu og endurvinnslu séu ávallt höfð í huga, og útfærð í samræmi við aðstæður í hverju samfélagi.

Framsókn vill stórauka og þróa áfram opinbera þjónustu á smærri stöðum og í dreifðum byggðum, til að mynda heilbrigðisþjónustu og sjúkraflutninga. Lakari þjónusta og skert aðgengi að heilbrigðisþjónustu eykur ójöfnuð til búsetu.

Raforkuöryggi er ennþá skert víða um landið. Hraða þarf uppbyggingu á flutningskerfi raforku með sérstaka áherslu á þau landsvæði sem búa við skert afhendingaröryggi í samræmi við gildandi áætlun stjórnvalda um uppbyggingu innviða. Ljúka þarf lagningu ljósleiðara og þriggja fasa rafmagns um land allt. Framsókn vill að orkukostnaður í verði jafnaður að fullu og jöfnun orkukostnaðar (dreifikostnaður raforku) verði fest í sessi til framtíðar.

Ísland fulltengt er forgangsmál þannig að minni þéttbýlisstaðir sem búa við markaðsbrest, fái ljósleiðartengingu og geti þannig tekið þátt í fjórðu iðnbyltingunni og íbúar þeirra búi við sömu lífsgæði og aðrir íbúar landsins sem felast í góðum fjarskiptum.

Aðgangur atvinnulífsins á landsbyggðinni að lánsfjármagni þarf að vera greiðara en nú er og aðgangur einstaklinga að fjármagni til byggingar íbúðarhúsnæðis og endurnýjunar þess. Auka þarf hvata til nýbygginga um allt land og einfalda regluverk.

Sveitarstjórnarmál

Framsókn telur að með öflugum sveitarfélögum sé lagður mikilvægur grunnur að valddreifingu og mikilvægt er að sveitarfélögin fái enn frekari verkefni og hlutverk í nærþjónustu við íbúa ásamt tilsvarandi tekjustofnum. Miklu má áorka með eflingu sveitarstjórnarstigsins til að valda þeim verkefnum sem því eru falin.

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að sveitarfélögin á Íslandi séu öflugar og sjálfbærar staðbundnar stjórnsýslueiningar ásamt því að vera ein meginstoð velferðar íbúanna.

Mikilvægt er að sveitarfélög hafi ávallt nægilegan styrk til að takast á við áskoranir framtíðarinnar, svo sem aukna sérhæfingu, breytta aldurssamsetningu, búferlaflutninga, tæknibreytingar, þróun á sviði umhverfis- og loftslagsmála, lýðheilsumál o.fl. Mikilvægt er að tryggja fjárhagslega og rekstrarlega getu sveitarfélaga til að standa til lengri tíma undir lögbundinni þjónustu við íbúana, innviðauppbyggingu og öðrum brýnum viðfangsefnum nærsamfélagsins. Fjármögnun sveitarfélaga stuðli að hagkvæmu skipulagi sveitarstjórnarstigsins og góðri nýtingu opinberra fjármuna.  

 Framsóknarflokkurinn telur mikilvægt að umbætur á sveitarstjórnarstiginu miði að því að styrkja lýðræðislega þátttöku íbúa og auka virkni og aðkomu þeirra að ákvarðanatöku og stefnumótun. Leita þarf leiða til að fá íbúa til að taka þátt í ákvarðanatöku og stefnumótun fyrir nærsamfélagið. Sérstök áhersla verði lögð á fjölskylduvænt starfsumhverfi sveitarstjórnarfulltrúa.

Gæta verði að sjálfstjórn sveitarfélaga og rétti þeirra til að ráða málefnum sínum á eigin ábyrgð.

Lykilatriði er að verka- og ábyrgðarskipting milli ríkis og sveitarfélaga við veitingu opinberrar þjónustu verði skýr og þjónustukröfur metnar og fjármögnun vel skilgreind.   Í því samhengi er grundvallaratriði að skýr stefna og sýn sé um hverjir eigi að vera tekjustofnar sveitarfélaga, og ekki sé ágreiningur þar að lútandi. Meginsjónarmiðið er að sveitarfélögum séu tryggðir nauðsynlegir tekjustofnar í samræmi við þau verkefni sem þeim eru falin með lögum og geti staðið undir þeirri þjónustu sem íbúar kalla eftir. Nýjar reglur eða kröfur af hálfu ríkisins í garð sveitarfélaga skulu ávallt háðar kostnaðarmati og ákvörðun sem tryggir fullnægjandi fjármögnun.

Sveitarfélög verði í stakk búin til að takast á við samfélagsbreytingar og byggðaþróun. Þau búi yfir afli til uppbyggingar og sóknar til hagsbóta fyrir íbúa sína og landsmenn alla.

Tækifæri til hagnýtingar nýjustu tækni og þekkingar verði nýtt, svo sem við þróun stjórnsýslu, rekstur þjónustu og nýsköpun

Tekjustofnar sveitarfélaga þurfa að haldast í hendur við verkefni þeirra. Endurskoða þarf tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að þau fái fjármagn til að takast á við lögmælt verkefni og sinna nærþjónustu við íbúa. Tekjustofnar endurspegli raunverulegan kostnað við veitingu þjónustu. Staðið verði við kostnaðarmat við ný lög og þingsályktunartillagna og að tekjustofnar fylgi með.

Vinna þarf að því að auka áhuga almennings á þátttöku á samfélagsmálum m.a. með auknu íbúalýðræði.  Mikil gerjun er á því sviði meðal annars með auknum fjölda hverfis- ungmenna-, öldunga- og nýbúaráða þar sem leitast er við að virkja ákveðna hópa til þátttöku og framhald þarf að verða á þeirri þróun.

(Ályktun 35. Flokksþings Framsóknarmanna 2022.)