Byggðir

Byggðir

Framsóknarflokkurinn er byggðastefnuflokkur og leggur því áherslu á jafnrétti til búsetu. Framsóknarflokkurinn vill skoða af alvöru ívilnanir fyrir fyrirtæki og einstaklinga til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni.

Leitað verði leiða til að jafna búsetuskilyrði með almennum aðgerðum og að viðurkennt verði að hagsæld þjóðarinnar til lengri tíma litið sé undir því komin að viðhalda dreifðari byggðum.

Skapa þarf hvata til að laða ungt fólk að til þess að setjast að á landsbyggðinni, líkt og t.d. Norðmenn1 hafa gert. Framsókn vill beita námslána- og skattkerfinu sem hvata fyrir atvinnu og búsetu í dreifðum byggðum landsins.

Framsóknarflokkurinn telur að sjálfbær þróun verði ætíð að vera leiðarstef í allri atvinnustarfsemi sem byggir á nýtingu náttúruauðlinda. Með skynsamlegri nýtingu þeirra auðlinda tryggjum við sem best byggð um allt land.

Í ljósi dóms EFTA-dómstólsins um innflutning á hráu kjöti, ógerilsneyddum mjólkurvörum og eggjum er ljóst að vegið er að íslenskum búfjárstofnum og lýðheilsu landsmanna. Framsóknarflokkurinn vill að bann við innnflutningi á hráu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og eggjum verði áfram tryggt í íslenskum lögum.

Innanlandsflug er ekki raunhæfur kostur fyrir almenning í landinu vegna hárra flugfargjalda. Framsóknarflokkurinn vill taka upp niðurgreiðslu á flugi innanlands fyrir íbúa á landsbyggðinni að skoskri fyrirmynd2 .

Það er ótækt að horfa upp á skerðingu sjúkraflutninga á smærri stöðum og í dreifðum byggðum. Framsóknarflokkurinn hafnar frekari breytingum á þjónustu utan sjúkrahúsa áður en fyrir liggur stefnumörkun í málaflokknum. Lakari þjónusta og skert aðgengi að heilbrigðisþjónustu eykur ójöfnuð til búsetu.

Raforkuöryggi er skert víða um landið. Hraða þarf uppbyggingu á flutningskerfi raforku með sérstaka áherslu á þau landsvæði sem búa við skert afhendingaröryggi. Ljúka þarf við lagningu ljósleiðara og þriggja fasa rafmagns um land allt.

Framsóknarflokkurinn stendur vörð um fullveldi Íslands í orkumálum og hafnar því að orkulöggjöf Evrópusambandsins verði tekin inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu nú sem fyrr á að ný opinber störf verði staðsett um land allt.

***

1 Norsk fyrirmynd – Landinu er skipt upp í ákveðin dreifibýlissvæði og eftir þeim lagðar til almennar byggðajöfnunaraðgerðir þannig að skattar og gjöld á einstaklinga og fyrirtæki, afborganir af námslánum og orkukostnaður séu hagstæðari fyrir þá sem búa fjær þéttbýli og þjónustu.

2 Skosk fyrirmynd – Ríkið greiðir flugfargjöld niður um 50% til þeirra sem búa á jaðarsvæðum. Þannig eru flugsamgöngur gerðar að eðlilegum hluta af almenningssamgögnum.

Sveitarstjórnarmál

Með öflugum og sjálfstæðum sveitarfélögum er lagður mikilvægur grunnur að valddreifingu og mikilvægt er að sveitarfélögin fái enn frekari verkefni og hlutverk í nærþjónustu við íbúa.

Skipulagsvald sveitastjórna ber að virða. Við gerð langtímasýnar og landsskipulags skal ekki gengið frekar á sjálfstæði sveitarfélaga og skipulagsvald þeirra. Einnig þarf að tryggja skipulagsvald sveitarstjórna á haf- og strandsvæðum.

Tekjustofnar sveitarfélaga þurfa að haldast í hendur við verkefni þeirra. Endurskoða þarf tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Gistináttagjöld renni til sveitarfélaga.

Styrkja þarf sveitarstjórnarstigið og auka áhuga almennings á þátttöku í sveitarstjórnarmálum m.a. með auknu íbúalýðræði. Einnig þarf frekari tilraunir með hverfisráð og lækkun kosningaaldurs til sveitarstjórna.

Flokksþingið styður framkomnar hugmyndir þess efnis að hjón geti átt sitthvort lögheimilið. Framsóknarflokkurinn styður tvöfalda lögheimilisskráningu barna.

Framsóknarflokkurinn telur að miklu megi áorka með frekari sameiningu sveitarfélaga og eflingu sveitarstjórnarstigsins til að valda þeim verkefnum sem þeim er falið.

Deila