Categories
Fréttir Greinar

Byggðir í sókn í 10 ár

Deila grein

10/10/2023

Byggðir í sókn í 10 ár

Í síðustu viku fór fram kjördæmavika og þingmenn voru á ferð og flugi að heimsækja fyrirtæki, fólk og stofnanir. Margt stendur upp úr en sérstaklega ánægjulegt var að taka þátt í afmælismálþingi um byggðaþróunarverkefnið Brothættar byggðir sem var haldið á Raufarhöfn. Verkefnið stendur á þeim tímamótum að fagna tíu ára starfsafmæli. 

Jákvæðni og samheldni

Allt frá fyrstu skrefum vakti verkefnið athygli stjórnvalda og hefur öðlast fastan sess í stefnu ríkisins í byggðamálum. Verkefnið er fjármagnað sem ein af 44 aðgerðum byggðaáætlunar sem ætlað er að styðja við blómleg byggðarlög um land allt. Það má með sanni segja að margt hafi breyst á áratug og mikilvægt er að nýta þessi tímamót til að meta árangurinn og halda áfram að finna leiðir til að efla smærri þorp og sveitir landsins. Hugmyndafræðin og vinnulagið sem unnið er eftir hefur hins vegar unnið sér verðskuldaðan sess. Sú hugmyndafræði gengur út á að efla þátttöku og frumkvæði íbúa. Á Norðausturlandi höfum við séð hvernig verkefni Brothættra byggða getur ýtt undir jákvæðni og samheldni íbúa. Byggðarlögin eru ólík að stærð og gerð, atvinnuvegirnir geta verið ólíkir en alltaf eru það íbúarnir sjálfir sem vita best á hverju skal byggja. 

Næg verkefni fram undan

Landsbyggðirnar eiga mikið inni og víða eru fræ í jörðu sem geta sprottið með næringu og alúð. Fjórtán byggðarlög hafa tekið þátt í Brothættum byggðum frá upphafi og í gegnum þetta átak hafa um 650 frumkvæðisverkefni íbúa fengið stuðning við að verða að veruleika. Þessir styrkir hafa hvatt fólk til dáða og leitt af sér alls kyns framtak sem hefur ekki bara auðgað nærsamfélögin, heldur auðgað íslenska menninguog sannarlega átt þátt í því að gera hvern landshluta enn skemmtilegri heim að sækja. 

Það eru næg verkefni eftir þegar horft er fram á við, verkefni sem stjórnvöld þurfa að koma að með einum eða öðrum hætti. Sameiginlegt viðfangsefni í öllum byggðum, svo eitthvað sé nefnt, eru húsnæðismálin. Þar er þörf á átaki svo húsnæðisskortur standi ekki uppbyggingu fyrir þrifum, hvorki í þessum landshluta né annars staðar. Samgöngur og aðrir innviðir eru grunnstoð samfélaga og forsenda uppbyggingar atvinnulífs. Núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir mikilli uppbyggingu í þessum málaflokki en margt óunnið enn. Eins þurfum við að skipuleggja fiskveiðar við landið þannig að þær styðji við atvinnulíf og uppbyggingu sem víðast. Þessi og mörg önnur verkefni eru fram undan, og gott að hafa í huga nú þegar við fögnum þessum tímamótum. Brothættar byggðir eru frábært verkfæri og nú þurfum við bara að bæta í verkfærakistuna.

Til hamingju – byggðir í sókn í 10 ár!

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður NA.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 10. október 2023.