Categories
Fréttir

Haustfundur miðstjórnar Framsóknar

Deila grein

21/10/2021

Haustfundur miðstjórnar Framsóknar

Landstjórn Framsóknar hefur samþykkt að boða til haustfundar miðstjórnar helgina 4.-5. desember á Bifröst í Norðurárdal. Fundurinn hefst kl. 10:00 á laugardagsmorgun og stendur fram á seinnipart sunnudags. Kvöldverðarhóf verður á laugardagskvöldinu.

Hægt verður að fá gistingu á Hótel Bifröst og Hótel Hamri og mun rúta ganga frá Borgarnesi og upp á Bifröst fyrir og eftir kvöldverðarhófið á laugardagskvöldinu.

Hægt er að panta gistingu á Hótel Hamar í síma 433 6600 og segjast vera að bóka vegna Framsóknar. Til að bóka á Hótel Bifröst á að smella hér á tilboðið með bókunarkóða.

Upplýsingar um gistinguna:

Hótel Hamar (sími 4336600):

 • Gisting með morgunverði laugardaginn 4. des.  18.000 kr. (sama verð á eins og tveggja manna)
 • Aukanótt með morgunverði föstudaginn 3. des. 12.000 kr. ( sama verð á eins og tveggja manna)

Hótel Bifröst:

Smella hér á tilboðið með bókunarkóða:

 • Gisting með morgunverði 14.500 kr. fyrir tveggjamanna herbergi
 • Gisting með morgunverði 12.500 kr. fyrir einsmanns herbergi

Við hvetjum fólk til að panta sem fyrst til þess að hægt sé að bregðast við ef tryggja þarf fleiri herbergi.

Aðalmenn í miðstjórn eru vinsamlegast beðnir um að staðfesta komu eða forföll til skrifstofu Framsóknar í síma 540-4300 eða á netfangið framsokn@framsokn.is. Mikilvægt er að vita um forföll í tíma til að geta boðað varamenn á fundinn.

***

Á haustfundi skal taka félagsstarf flokksins á komandi starfsári sérstaklega til umræðu. Fastanefndir miðstjórnar munu flytja skýrslu um störf sín og jafnframt skulu miðstjórnarmenn kjósa úr sínum hópi til eins árs í senn:

a) fjóra fulltrúa í fræðslu- og kynningarnefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara og

b) fjóra fulltrúa í málefnanefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara.

Fræðslu- og kynningarnefnd. Hana skipa formaður sem framkvæmdastjórn skipar og fjórir meðstjórnendur skv. a-lið gr. 10.4. Hlutverk nefndarinnar er að skipuleggja og hafa umsjón með framkvæmd kynningar- og fræðslumála Framsóknarflokksins.

Málefnanefnd. Hana skipa formaður sem framkvæmdastjórn skipar og fjórir meðstjórnendur skv. b-lið gr. 10.5. Hlutverk nefndarinnar er að skipuleggja og hafa umsjón með málefnastarfi og stefnumótunarvinnu Framsóknarflokksins.

Miðstjórnarmenn eru hvattir til að gefa kost á sér í þessar nefndir og senda framboð á netfangið framsokn@framsokn.is.

Landsstjórn Framsóknar

Categories
Greinar

Draugagangur

Deila grein

19/10/2021

Draugagangur

Göm­ul óværa hef­ur minnt á sig á und­an­förn­um miss­er­um. Sam­kvæmt gam­alli þjóðtrú er ekki hægt að drepa drauga, en hins veg­ar má kveða þá niður svo ekki spyrj­ist til þeirra um styttri eða lengri tíma. Sú lýs­ing virðist eiga við um verðbólgu­draug­inn, sem reglu­lega er vak­inn upp og get­ur svifið um hag­kerfið allt ef ekki er haldið fast um stjórn­artaum­ana.

Nú ber reynd­ar svo við, að verðbólga hef­ur auk­ist um all­an heim en ekki aðeins á Íslandi. Önnur óværa er a.m.k. að hluta ábyrg fyr­ir þess­ari alþjóðlegu þróun, því verðbólga virðist vera fylgi­fisk­ur Covid-19 í mörg­um lönd­um heims – ekki síst í Banda­ríkj­un­um, þar sem verðbólga hef­ur fimm­fald­ast frá árs­byrj­un. Skýr­inga er einkum að leita í mikl­um og snörp­um efna­hags­bata, hækk­un olíu- og hrávöru­verðs, vöru­skorti og hærri fram­leiðslu- og flutn­ings­kostnaði. Eft­ir­spurn hef­ur auk­ist hratt og á mörg­um mörkuðum hef­ur virðiskeðjan rofnað, með til­heyr­andi raski á jafn­vægi milli fram­boðs og eft­ir­spurn­ar. Fyr­ir vikið hef­ur inn­flutt verðbólga auk­ist á Íslandi og mæld­ist verðbólga í sept­em­ber 4,4% ásamt því að verðbólgu­vænt­ing­ar hafa auk­ist á ný. Þar spil­ar inn í hækk­andi verðlag á nauðsynja­vör­um og svo auðvitað hús­næðisliður­inn, en ört hækk­andi hús­næðis­verð er aðkallandi vandi sem verður að leysa. Góðu frétt­irn­ar eru hins veg­ar þær, að und­ir­liggj­andi verðbólga hélt áfram að hjaðna, þótt hún sé enn nokk­ur. Grein­inga­deild­ir bú­ast við því að há­marki verði náð í kring­um ára­mót­in, en þaðan í frá muni verðbólga lækka og verða um 2,5% á seinni hluta næsta árs.

Þetta þarf að hafa í huga við hag­stjórn­ina og brýnt er að grípa til mót­vægisaðgerða svo lang­tíma-verðbólg­an verði hóf­leg. Nú þegar hef­ur Seðlabank­inn gripið til aðgerða, hækkað vexti ásamt því að setja þak á hlut­fall veðlána og greiðslu­byrði hús­næðislána. Stefn­an í rík­is­fjár­mál­um þarf að taka mið af þess­ari þróun og leggja sitt lóð á vog­ar­skál­arn­ar, en hér skipt­ir tíma­setn­ing­in miklu máli. Ekki má draga úr efna­hags­leg­um aðgerðum og stuðningi vegna Covid-19 of snemma, en held­ur ekki of seint.

Þrátt fyr­ir allt eru þó góð teikn á lofti. Mik­il­væg­ar at­vinnu­grein­ar eru smám sam­an að styrkj­ast, með já­kvæðum áhrif­um á ís­lenska hag­kerfið. Þannig má ætla að auk­inn fjöldi er­lendra ferðamanna styrki gengi krón­unn­ar, auk þess sem út­lit er fyr­ir óvenju góða loðnu­vertíð. Ef vænt­ing­ar í þá veru raun­ger­ast mun út­flutn­ing­ur aukast og gengið styrkj­ast, sem myndi leiða til verðlækk­ana á inn­flutt­um vör­um. Þá er rétt að rifja upp eðlis­breyt­ingu á ís­lensk­um lána­markaði, en vegna auk­ins áhuga á óverðtryggðum lán­um eru stý­ritæki Seðlabank­ans skil­virk­ari en áður. Stýri­vaxta­hækk­an­ir, sem áður þóttu bit­laus­ar á verðtryggðum hús­næðislána­markaði, hafa nú mun meiri áhrif á efna­hag heim­il­anna og eru lík­legri til að slá á þenslu. Frétt­ir af viðræðum formanna rík­is­stjórn­ar­flokk­anna um end­ur­nýjað sam­starf gefa líka til­efni til bjart­sýni. Við erum á réttri leið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. október 2021.

Categories
Greinar

Norðurslóðir eru vettvangur breytinga

Deila grein

18/10/2021

Norðurslóðir eru vettvangur breytinga

Mál­efni norður­slóða eru meðal helstu for­gangs­mála Íslands á alþjóðavett­vangi, en bæði vís­inda­leg og staðbund­in þekk­ing er ómet­an­leg við ákv­arðana­töku sem hef­ur áhrif á heim­inn. Vís­inda­rann­sókn­ir og vökt­un breyt­inga á norður­slóðum er und­ir­staðan fyr­ir frek­ari stefnu­mót­un, bæði inn­an ríkja og í alþjóðlegu sam­starfi. Áhrif lofts­lags­breyt­inga eru einna sýni­leg­ast­ar á norður­slóðum þar sem hlýn­un er meira en tvö­falt hraðari en ann­ars staðar. Hring­borð norður­slóða fer fram þessa dag­ana í Reykja­vík. Það er alþjóðleg­ur sam­starfs- og sam­ráðsvett­vang­ur um mál­efni norður­slóða og stærsta alþjóðlega sam­kom­an þar sem framtíð norður­slóða er rædd. Ísland nýt­ur góðs af þess­um sam­ráðsvett­vangi og mik­il­vægt að hann sé nýtt­ur af vís­inda­sam­fé­lag­inu og at­vinnu­líf­inu.

Kort­lagn­ing norður­slóðarann­sókna á Íslandi

Um­fang norður­slóðarann­sókna á Íslandi hef­ur auk­ist mikið und­an­far­inn ára­tug og hafa rann­sókn­ar­verk­efni á mál­efna­sviðinu sprottið upp víða um land. Ný­verið kom út skýrsl­an: Kort­lagn­ing norður­slóðarann­sókna á Íslandi sem unn­in var af Rannís, Stofn­un Vil­hjálms Stef­áns­son­ar og Norður­slóðaneti Íslands, en verk­efnið naut góðs af sér­stöku átaki rík­is­stjórn­ar­inn­ar um sum­arstörf fyr­ir náms­menn á tím­um heims­far­ald­urs. Skýrsl­an inni­held­ur meðal ann­ars grein­argott yf­ir­lit um norður­slóðastefnu ís­lenskra stjórn­valda og lýs­ingu á ís­lensk­um aðilum sem stunda norður­slóðarann­sókn­ir. Meg­in­efni skýrsl­urn­ar er grein­ing á norður­slóðaverk­efn­um út frá út­hlut­un­um inn­lendra og er­lendra sam­keppn­is­sjóða und­an­far­inn ára­tug. Þar kem­ur fram að yfir millj­arði króna hafi verið út­hlutað hér­lend­is til norður­slóðaverk­efna úr Rann­sókna­sjóði, en há­skól­ar, stofn­an­ir og fyr­ir­tæki á Íslandi hafa jafn­framt sótt verk­efna­styrki fyr­ir yfir millj­arð króna í Horizon 2020, rann­sókn­ar- og ný­sköp­un­ar­áætl­un Evr­ópu­sam­bands­ins á sjö ára tíma­bili áætl­un­ar­inn­ar. Niður­stöður skýrsl­unn­ar leiða í ljós að á Íslandi kem­ur öfl­ug­ur hóp­ur aðila að norður­slóðarann­sókn­um og að ís­lensk­ir há­skól­ar, stofn­an­ir og fyr­ir­tæki eru eft­ir­sótt­ir sam­starfsaðilar í alþjóðlegu sam­starfi.

Póli­tísk for­ysta um vís­inda­sam­starf á norður­slóðum og auk­in sam­skipti við Jap­an

Ísland hef­ur gert sig gild­andi í alþjóðlegu norður­slóðasam­starfi og hef­ur verið með for­mennsku í Norður­skauts­ráðinu árin 2019-2021. Ísland hef­ur einnig í sam­starfi við Jap­an staðið að þriðja fundi vís­inda­málaráðherra um vís­indi norður­slóða. Upp­haf­lega stóð til að fund­ur­inn færi fram í nóv­em­ber síðastliðnum en líkt og hef­ur gerst með aðra alþjóðlega viðburði hafa skipu­leggj­end­ur þurft að aðlaga sig að breytt­um aðstæðum vegna Covid-19-heims­far­ald­urs­ins. Megin­áhersla ís­lenskra stjórn­valda hef­ur verið opin umræða, gagn­sæi og ný­sköp­un. Áhrif um­hverf­is- og tækni­breyt­inga á sam­fé­lög og líf­ríki á norður­slóðum hafa verið dreg­in upp sem mik­il­vægt viðfangs­efni. Meðal þess sem komið hef­ur í ljós er mik­il þörf á auk­inni vökt­un og frek­ari rann­sókn­um á sam­spili um­hverf­is­breyt­inga og sam­fé­lagsþró­un­ar á norður­slóðum og þýðingu þess­ara breyt­inga á heimsvísu. Meðal þess sem hef­ur komið út úr sam­starfi vís­inda­málaráðherra norður­slóða er nýr gagna­grunn­ur um alþjóðlegt vís­inda­sam­starf og sam­ráðsvett­vang­ur fjár­mögn­un­araðila norður­slóðarann­sókna.

Sókn­ar­færi fyr­ir at­vinnu­lífið og frek­ari rann­sókn­ir

Á und­an­förn­um árum hef­ur byggst upp öfl­ugt þekk­ing­ar­sam­fé­lag hér­lend­is um mál­efni sem get­ur vaxið og dafnað frek­ar. Í því sam­hengi hef­ur Ísland tæki­færi til að styrkja stöðu sína enn frek­ar sem alþjóðleg miðstöð fyr­ir norður­slóðarann­sókn­ir og ný­sköp­un, þar sem hag­felld land­fræðileg lega og öfl­ug­ir innviðir eru lyk­il­for­senda í sam­spili við það marg­breyti­lega hug­vit sem hér fyr­ir­finnst. Síðastliðið haust var kynnt vís­inda- og tækni­stefna fyr­ir árin 2020-2022, þar sem blásið er til stór­sókn­ar til stuðnings við þekk­ing­ar­sam­fé­lagið á Íslandi, meðal ann­ars með efl­ingu sam­keppn­is­sjóða og til rann­sókna og ný­sköp­un­ar á sviði um­hverf­is­mála. Ég vænti þess að vinn­an sem nú fer fram styðji við kom­andi kyn­slóð rann­sak­enda og frum­kvöðla sem leita munu nýrra tæki­færa á norður­slóðum.

Í mín­um huga er það ljóst að tækni­fram­far­ir verða leiðandi í lausn­inni á lofts­lags­vand­an­um. Græn fjár­fest­ing og hug­vit Íslend­inga get­ur orðið lyk­ill­inn að raun­veru­leg­um fram­förum.

Ísland hef­ur margt fram að færa í mál­efn­um norður­slóða. Við eig­um að halda áfram að leggja áherslu á mál­efni norður­slóða í víðum skiln­ingi; tryggja stöðu okk­ar sem strand­rík­is inn­an svæðis­ins og taka virk­an þátt í alþjóðlegri vís­inda­sam­vinnu er því teng­ist.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. október 2021.

Categories
Greinar

Samfélagslegur ávinningur sjókvíaeldis

Deila grein

15/10/2021

Samfélagslegur ávinningur sjókvíaeldis

Í dag ef­ast fáir ef nokkr­ir um mik­il­vægi fisk­eld­is sem at­vinnu­grein­ar hér á landi. Fjár­fest­ing upp á tugi millj­arða króna ligg­ur í grein­inni og frek­ari fjár­fest­ing bíður eft­ir leyf­um til rekstr­ar. Útflutn­ings­verðmæti eld­islax juk­ust um 29% á milli ára og fór vægi hans í 70% út­flutn­ings­verðmæt­is eldisaf­urða á ár­inu. Nú er svo komið að út­flutn­ing­ur á eld­islaxi skil­ar næst­mest­um verðmæt­um allra fisk­teg­unda sem flutt­ar eru frá Íslandi.

Það er skemmti­leg staðreynd sem kom fram á góðum fund­um Vest­fjarðastofu um fisk­eldi nú í sept­em­ber að 3% af út­flutn­ings­verðmæt­um Íslands verða til í 1.500 fer­metra slát­ur­húsi á Bíldu­dal. Sam­fé­lög­in sem hýsa þessa vax­andi at­vinnu­grein mega hafa sig alla við að tryggja þá innviði sem þurfa til að mæta þörf­um og halda þræði í upp­bygg­inga­ferl­inu. Upp­bygg­ing á innviðum er grund­völl­ur að vexti grein­ar­inn­ar og sam­eig­in­leg­um ábata.

Fisk­eld­is­sjóður­inn

Fisk­eld­is­sjóður á sér stoð í lög­um sem voru samþykkt vorið 2019 um töku gjalds vegna fisk­eld­is í sjó og fisk­eld­is­sjóð. Þar er gert ráð fyr­ir að þriðjung­ur tekna af gjald­töku af fisk­eldi renni á kom­andi árum í Fisk­eld­is­sjóð sem sveit­ar­fé­lög geta sótt í til innviðaupp­bygg­ing­ar. Á dög­un­um var út­hlutað fyrstu greiðslum úr fisk­eld­is­sjóði og var til skipt­anna 105 m. kr. sem út­hlutað var út frá um­sókn­um sveit­ar­fé­laga þar sem sjókvía­eldi er stundað.

Þarna hefst kapp­hlaup um hver eigi bita­stæðustu um­sókn­ina en mik­il vinna ligg­ur á bak við hverja um­sókn. Þá eru sveit­ar­fé­lög­in í mis­jafnri stöðu til þess að vinna um­sókn­ir. Tvö sveit­ar­fé­lög á Vest­fjörðum fengu sam­tals 34 m. kr. og 70 m. kr. fóru til Aust­fjarða, þrátt fyr­ir að meiri­hluta eldisaf­urða verði til á Vest­fjörðum. Það er ljóst út frá þess­ari út­færslu að sveit­ar­fé­lög geta ekki gert raun­hæfa fjár­hags­áætl­un eða fram­kvæmda­áætl­un með hliðsjón af starf­semi at­vinnu­grein­ar­inn­ar eins og hægt er að gera út frá öðrum grein­um sem stundaðar eru á svæðinu.

Brýnt að end­ur­skoða gjald­töku­heim­ild­ir

Í ljósi þess­ar­ar reynslu verður því að segj­ast að þessi út­færsla sem gerð var varðandi fisk­eld­is­sjóð árið 2019 voru mis­tök. Það er best að viður­kenna það strax og bretta upp erm­ar. Þörf er á að yf­ir­fara laga- og reglu­gerðaum­hverfi gjald­töku í fisk­eldi og sér­stak­lega það sem snýr að sveit­ar­fé­lög­um þar sem sjókvía­eldi er stundað. Það þarf ekki að snúa að auk­inni gjald­töku held­ur þarf að tryggja að tekj­ur af slíkri gjald­töku standi und­ir nauðsyn­leg­um verk­efn­um þeirra sveit­ar­fé­laga sem standa næst eld­inu.

Sveit­ar­fé­lög eiga ekki að þurfa að ganga bón­leið í sam­keppn­is­sjóð til að fjár­magna upp­bygg­ingu sem nauðsyn­leg er til þess að há­marks­ábati af fisk­eldi skili sér til sam­fé­lag­anna held­ur verða stjórn­völd að tryggja sann­gjarna dreif­ingu þess­ara tekna.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. október 2021.

Categories
Greinar

Áskorun mætt

Deila grein

11/10/2021

Áskorun mætt

Á tíma­mót­um reik­ar hug­ur­inn til baka. Á síðustu fjór­um árum í mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­inu höf­um við lagt allt kapp á að styrkja mennta­kerfið. Eitt stend­ur upp úr; hvernig okk­ur tókst með öfl­ugri sam­vinnu að snúa vörn í sókn í mennta­mál­um hér á landi.

Við sáum fram á mik­inn nýliðun­ar­vanda í kenn­ara­stétt, að brott­hvarf fram­halds­skóla­nema væri hátt, að sam­keppn­is­hæfni okk­ar færi minnk­andi á alþjóðavísu og að fjölga þyrfti iðnmenntuðum. Við hóf­umst strax handa við að greina þess­ar áskor­an­ir, svo við gæt­um brugðist hratt og ör­ugg­lega við. Hér dugðu eng­in vett­linga­tök, við boðuðum stór­sókn í mennta­mál­um.

Við vit­um að starfs­ánægja kenn­ara og trú þeirra á eig­in getu hef­ur bein áhrif á frammistöðu og hvata nem­enda. Kenn­ar­ar eru hið sanna hreyfiafl fram­fara inn­an skóla­sam­fé­lags­ins. Við þurf­um að treysta kenn­ur­um og leyfa ár­ang­urs­rík­um starfs­hátt­um þeirra að festa sig í sessi.

Til að sporna gegn nýliðun­ar­vand­an­um þurfti að fjölga kenn­ara­nem­um, minnka brott­hvarf úr kenn­ara­stétt, koma á einu leyf­is­bréfi kenn­ara og auka virðingu kenn­ara í sam­fé­lag­inu. Við kynnt­um til sög­unn­ar launað starfs­nám og styrki til kenn­ara­nema. Við stuðluðum að bættri mót­töku og leiðsögn kenn­ara­nema og nýliða, styðjum mark­viss­ar við nýliða í starfi og fjölguðum kenn­ur­um með sér­hæf­ingu í starfstengdri leiðsögn.

Við hóf­um kort­lagn­ingu á brott­hvarfi nem­enda í fram­halds­skól­um til þess að greina mark­viss­ar ástæður og þróun brott­hvarfs nem­enda. Ljóst er að brott­hvarfið hefst ekki í fram­halds­skóla held­ur miklu fyrr, og því þarf mennta­kerfið að halda þétt utan um nem­end­ur frá upp­hafi til enda.

Hindr­un­um var rutt úr vegi í iðnnám­inu í sam­vinnu við Sam­tök iðnaðar­ins og fræðsluaðila. Ra­f­ræn fer­il­bók tek­in upp, vinnustaðanámið tengt skól­un­um og jöfnuðum aðgengi að há­skóla­námi. Kynnt voru áform um að reisa nýj­an Tækni­skóla sem svara þörf­um framtíðar­inn­ar.

Til þess að efla sam­keppn­is­hæfni fór­um við í fjöl­marg­ar aðgerðir. Við lit­um til Svíþjóðar til að efla starfsþróun kenn­ara og skóla­stjórn­enda, hóf­um sam­starf við Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ina og sett­um af stað mennt­a­rann­sókna­sjóð. Stærsta skrefið var þó að marka nýja mennta­stefnu til árs­ins 2030, hvers mark­mið er að tryggja framúrsk­ar­andi mennta­kerfi hér á landi.

Við erum stolt af þeim ár­angri sem náðst hef­ur á und­an­förn­um fjór­um árum, hann hef­ur styrkt grunnstoðir mennta­kerf­is­ins svo um mun­ar, brott­hvarf hef­ur minnkað og braut­skrán­ing­ar­hlut­fall fram­halds­skóla­nem­enda auk­ist um 37%. Um­sókn­um um kenn­ara­nám hef­ur fjölgað um 118% og fjöldi nem­enda í húsa­smíði og í grunn­námi bygg­inga- og mann­virkja­greina hef­ur auk­ist um 56% á síðustu tveim­ur árum.

Ég þakka þeim fjöl­mörgu sem lögðu hönd á plóg til þess að breyta stefnu skút­unn­ar. Við erum á réttri leið!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. október 2021.

Categories
Greinar

Fjárfesting í fólki er líka efnahagsmál

Deila grein

30/09/2021

Fjárfesting í fólki er líka efnahagsmál

Skila­boðin sem kjós­end­ur sendu stjórn­völd­um um liðna helgi voru skýr. Þjóðin valdi ann­ars veg­ar áfram­hald­andi stöðug­leika í efna­hags­mál­um og hins veg­ar að fjár­festa í fólki. Rík­is­stjórn­in jók þingstyrk sinn og fékk umboð til að end­ur­nýja sam­starfið. Sam­ræður þar að lút­andi eru hafn­ar og á næstu dög­um ættu lín­ur að skýr­ast. Í samn­ingaviðræðum geng­ur eng­inn að neinu vísu og fólk mæt­ir til leiks með opn­um hug, en mark­miðið er skýrt; að vinna þjóðinni gagn og auka vel­sæld í land­inu.

Efna­hags­horf­urn­ar fyr­ir árið hafa styrkst, eft­ir því sem hjól at­vinnu­lífs­ins snú­ast hraðar og áhrif heims­far­ald­urs minnka. Gert er ráð fyr­ir 4% hag­vexti í ár og at­vinnu­leysi hef­ur minnkað hratt. At­vinnuþátt­taka nálg­ast það sem hún var fyr­ir Covid og horf­ur eru góðar.

Mót­vægisaðgerðir vegna áhrifa heims­far­ald­urs kostuðu sitt, en í sam­an­b­urði við önn­ur lönd er staða rík­is­sjóðs góð. Vissu­lega er halli á rík­is­sjóði um þess­ar mund­ir, en sterk staða fyr­ir Covid og mark­viss niður­greiðsla skulda á und­an­förn­um ára­tug skap­ar góða viðspyrnu sem stjórn­völd munu nýta til að snúa við tíma­bundn­um halla­rekstri. Rétt er að minna á, að rík­is­út­gjöld­um vegna Covid var fyrst og fremst ætlað að verja af­komu fólks og sam­fé­lags­lega innviði svo áhrif heims­far­ald­urs yrðu ekki var­an­leg.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn legg­ur ríka áherslu á stöðug­leika í efna­hags­mál­um. Að sam­spil pen­inga­stefnu, rík­is­fjár­mála og vinnu­markaðar­ins sé gott og sjálf­bært til langs tíma. Þá er mik­il­væg að vaxta­stig í land­inu sé hag­stætt, en með eðlis­breyt­ingu á lána­markaði eru stý­ritæki Seðlabank­ans nú skil­virk­ari en áður. Stór hluti hús­næðislána er nú óverðtryggður og fyr­ir vikið skil­ar stýri­vaxta­hækk­un sér miklu hraðar en áður inn í neysl­una. Það er fagnaðarefni, enda betra til að halda niðri verðbólgu sem er eitt helsta hags­muna­mál al­menn­ings.

Á und­an­förn­um árum hef­ur Fram­sókn lagt áherslu á að fjár­festa í fólki. Þeirri stefnu héld­um við til streitu í aðdrag­anda kosn­inga, og það mun­um við gera í viðræðum um mynd­un rík­is­stjórn­ar. Í mennta­mál­um eru spenn­andi tím­ar fram und­an, þar sem fyr­ir ligg­ur aðgerðaáætl­un til þriggja ára sem mun efla mennt­un í land­inu, ár­ang­ur og skil­virkni í skóla­starfi, læsi ung­menna og sköp­un­ar­kraft þeirra. Allt miðar að því tryggja heild­stæða skólaþjón­ustu, með viðeig­andi stuðningi við þá sem þurfa og inn­grip strax í upp­hafi skóla­göngu til að bæta nám og far­sæld barna. Sam­hliða er mik­il­vægt að kerf­is­breyt­ing­ar í mál­efn­um barna nái fram að ganga, en barna­málaráðherra hef­ur verið óþreyt­andi í bar­áttu sinni fyr­ir auk­inni vel­sæld barna og mun fyr­ir hönd Fram­sókn­ar leiða vinnu til hags­bóta fyr­ir eldri borg­ara. Staða þeirra er mis­jöfn, því á meðan sum­ir hafa það gott eru aðrir illa stadd­ir. Brýnt er að leysa þann vanda, í góðri sam­vinnu við alla helstu hagaðila svo eng­inn verði út und­an.

Höf­und­ur er mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Höf­und­ur: Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. september 2021.

Categories
Fréttir

Framsókn sigurvegari kosninganna – 34.501 atkvæði eða 17,3%

Deila grein

27/09/2021

Framsókn sigurvegari kosninganna – 34.501 atkvæði eða 17,3%

Framsókn er óumdeildur sigurvegari alþingiskosninganna s.l. laugardag. Flokkurinn bætir við sig fimm þingmönnum og verða þá alls 13 alþingismenn í þingflokki Framsóknarmanna á Alþingi á komandi kjörtímabili. Það er besta niðurstaða Framsóknar í kosningum frá árinu 2013.

Að lokinni talningu í öllum kjördæmum var ljóst að Framsókn hafði hlotið 34.501 (17,3%) atkvæði og bætti sig um 6,6 prósentustig frá alþingiskosningunum 2017. Framsókn er núna með fyrsta þingmann bæði í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi og fékk til að mynda þingmann í báðum Reykjavíkurkjördæmunum.

Framsóknarflokkurinn er sigurvegari kosninganna. Við erum að bæta mjög miklu fylgi við okkur og við erum ótrúlega þakklát fyrir það.“ – Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.

Ágúst Bjarni Garðarsson, nýkjörinn alþingismaður, sem skipaði annað sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi, telur aukið fylgi flokksins meðal annars mega rekja til starfa flokksins í barna- og samgöngumálum.  „Flokkurinn hefur verið að fjárfesta í innviðum og fólki, en um leið sýna aðhald í rekstri og ég held að fólk almennt sé að kalla eftir stöðugleika í þjóðfélaginu okkar.“

Þetta var alltaf markmiðið en þetta kom vissulega á óvart. Ég er ótrúlega spennt og auðmjúk fyrir þessu tækifæri að fá að vinna að sameiginlegum markmiðum okkar allra á þessum vettvangi.“ – Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, er skipaði þriðja sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi.

Heimild: Kosningasaga.

Reykjavík

Framsókn fékk kjörna alþingismenn í báðum Reykjavíkurkjördæmunum en vert að geta þess að síðast fékk flokkurinn kjörin þingmanna í Reykjavíkurkjördæmi norður árið 2013. Þetta er sérlega góður árangur í Reykjavík. Í Reykjavík suður fékk flokkurinn 4.077 (11,5%) atkvæði. Í Reykjavík norður fékk flokkurinn 4.329 (12,3%) atkvæði. Alþingismenn Framsóknar í Reykjavík eru: 

 • Lilja Dögg Alfreðsdóttir (Reykjavík suður)
 • Ásmundur Einar Daðason (Reykjavík norður)

Suðvesturkjördæmi

Framsókn fékk tvo alþingismenn kjörna í Suðvesturkjördæmi þar sem Willum Þór Þórsson hefur leitt frá árinu 2017. Flokkurinn fékk 8.520 (14,5%) atkvæði og er næststærsti flokkurinn í kjördæminu. Gaman að geta þess að Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar, er annar alþingismaðurinn er Framsóknarfólk í Hafnarfirði fær kjörinn á Alþingi. Eygló Þóra Harðardóttir, fyrrv. alþingismaður og ráðherra var fyrsti fulltrúinn, kjörin í alþingiskosningunum 2016. Alþingismenn Framsóknar í Suðvestur eru: 

 • Willum Þór Þórsson
 • Ágúst Bjarni Garðarsson

Norðvesturkjördæmi

Framsókn er sigurvegari kosninganna í Norðvesturkjördæmi. Flokkurinn bætir við sig þingmanni og nær inn þremur mönnum. Flokkurinn fékk 4.448 (25,8) atkvæði og á fyrsta þingmann kjördæmisins, Stefán Vagn Stefánsson. Alþingismenn Framsóknar í Norðvestur eru:

 • Stefán Vagn Stefánsson
 • Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir
 • Halla Signý Kristjánsdóttir

Norðausturkjördæmi

Framsókn er sigurvegari kosninganna í Norðausturkjördæmi. Flokkurinn bætir við sig þingmanni og nær inn þremur mönnum. Flokkurinn fékk 6.016 (25,6%) atkvæði og er Ingibjörg Ólöf Isaksen, oddviti flokksins, fyrsti þingmaður kjördæmisins. Alþingismenn Framsóknar í Norðaustur eru:

 • Ingibjörg Ólöf Isaksen
 • Líneik Anna Sævarsdóttir
 • Þórarinn Ingi Pétursson

Suðurkjördæmi

Framsókn er næststærsti flokkurinn í Suðurkjördæmi og bætir við sig þingmanni og nær inn þremur mönnum. Flokkurinn fékk 7.111 (23,9%) atkvæði og er 186 atkvæðum frá því að eiga fyrsta þingmann kjördæmisins. Alþingismenn Framsóknar í Suður eru:

 • Sigurður Ingi Jóhannsson
 • Jóhann Friðrik Friðriksson
 • Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir
Categories
Fréttir Greinar

Er ekki bara best að kjósa Framsókn?

Deila grein

25/09/2021

Er ekki bara best að kjósa Framsókn?

Þegar þessi orð eru sett á blað er stillt haust­veður í höfuðborg­inni. Veður­spá­in fyr­ir kjör­dag ekki eins og best verður á kosið en ég er þó bjart­sýnn á að kosn­inga­vilji fólks sé það mik­ill að það mæti á kjörstað til að ákv­arða stefn­una inn í framtíðina. Það er mik­il­vægt að all­ir nýti þann rétt sem fyrri kyn­slóðir börðust fyr­ir: Rétt­inn til að hafa áhrif.

Við erum stolt af ár­angr­in­um

Við höf­um á því kjör­tíma­bili sem er að ljúka unnið hörðum hönd­um í breiðri stjórn að mik­il­væg­um fram­fara­mál­um og vil ég sér­stak­lega nefna bylt­ingu kerf­is­ins í þágu barna, nýj­an Mennta­sjóð náms­manna, 12 mánaða fæðing­ar­or­lof, hlut­deild­ar­lán fyr­ir fyrstu kaup­end­ur og tekju­lægri, Loft­brú og þær stór­kost­legu fram­kvæmd­ir í sam­göng­um sem lands­menn hafa orðið var­ir við á ferðum sín­um um landið okk­ar í sum­ar. Allt þetta höf­um við fram­kvæmt, og meira til, þrátt fyr­ir heims­far­ald­ur kór­ónu­veirunn­ar.

Við vilj­um fjár­festa í fólki og heil­brigði

Þau sem búa á þessu landi hafa sýnt það á síðustu mánuðum og árum að sam­taka­mátt­ur­inn og samstaðan er mik­il þegar á reyn­ir. Á þess­um krafti sam­vinn­unn­ar vilj­um við í Fram­sókn byggja til að bæta sam­fé­lagið okk­ar enn frek­ar. Við höf­um í kosn­inga­bar­átt­unni sett mál­efni barna og ung­menna sér­stak­lega á dag­skrá. Við vilj­um að hvert og eitt barn yfir sex ára aldri fái sér­stak­an 60 þúsund króna vaxt­ar­styrk til að öll börn geti sprungið út í tóm­stund­um sín­um.

Við vilj­um fjár­festa í heil­brigði þjóðar­inn­ar með áherslu á for­varn­ir og geðheil­brigði. Eitt af verk­efn­um næstu rík­is­stjórn­ar er að leiða sam­an full­trúa heil­brigðis­stétta, sér­fræðinga, frjálsra fé­laga­sam­taka og þeirra sem nota þjón­ustu spít­al­anna til að móta heild­stæða og fram­sýna stefnu þegar kem­ur að heil­brigði þjóðar­inn­ar. Við vilj­um auka þjón­ustu við eldra fólk með það að mark­miði að þau sem geta og vilja geti búið þar sem þeim líður best: heima hjá sér.

Við vilj­um jafn­vægi og fjár­festa í framtíðinni

Við vilj­um treysta enn und­ir­stöður lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja til að auka verðmæta­sköp­un og at­vinnu­tæki­færi um land allt. Við vilj­um hækka end­ur­greiðslur vegna kvik­mynda­gerðar. Við vilj­um auka græna fjár­fest­ingu. Allt miðar þetta að því að skapa for­send­ur fyr­ir stöðugt öfl­ugra at­vinnu­lífi sem er for­senda öfl­ugr­ar vel­ferðar á Íslandi.

Við þekkj­um það flest úr okk­ar dag­lega lífi að það er mik­il­vægt að búa við jafn­vægi. Við í Fram­sókn stönd­um fyr­ir um­bæt­ur. Við vilj­um byggja á því sem er gott og laga það sem laga þarf. Við vilj­um vinna að stefnu­mál­um okk­ar með sam­vinnu og jöfnuð að leiðarljósi. Þessi sam­vinnu­hugs­un hef­ur gert stór um­bóta­mál að veru­leika á því kjör­tíma­bili sem er að ljúka og mun gera það áfram ef við fáum til þess stuðning þinn. Stjórn­mál snú­ast nefni­lega ekki aðeins um að setja fram stefnu og stefnu­mál held­ur líka vinnu­brögð – og heil­indi.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Höf­und­ur er sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. september 2021.

Categories
Fréttir

Huga skal að endurskoðun alls verklags og vinnu í baráttunni við riðuna

Deila grein

24/09/2021

Huga skal að endurskoðun alls verklags og vinnu í baráttunni við riðuna

Það er alltaf mjög erfitt að sjá á bak áralöngu jafnvel áratuga ræktunarstarfi þegar skorið er niður vegna riðu. Í sjálfu sér er nægjanlega erfitt að verða fyrir áfallinu. Þess vegna er mikilvægt að allt umleikis ákvörðunina, framkvæmdina og eftirfylgdina sé klárt, tilbúið, úthugsað. Því miður er það ekki svo.

Vissulega er árangur af baráttunni við riðuna. Engu að síður er rétt að staldra við og huga að endurskoðun alls verklags og vinnu. Markmiðið hlýtur áfram að vera að útrýma vágestinum.

Því þarf að stórauka rannsóknir, setja kraft í vísindalega umræðu og stefnumörkun. Samhliða að yfirfara vegferðina, meta árangurinn og fórnarkostnaðinn. Það er til mikið af gögnum.

Spurningin sem vaknar er það hægt með öðrum leiðum? Það er óvíst. En er hægt að ná markmiðinu með minni fórnarkostnaði. Öðruvísi niðurskurði, t.a.m. eftir ættlínum, aldri eða hverju öðru sem vísindaleg nálgun gæfi. Væri hægt að ná árangri samhliða – vissulega á löngum tíma – með markvissum rannsóknum og ræktunarstarfi sbr. það sem nú er í gangi? Gagnvart bændum þarf að bæta umgjörðina. Þegar greining á sjúkdómnum liggur fyrir þarf að taka ákvörðunina fljótt, upplýsa alla viðkomandi og þá ekki síst um framkvæmdina. Þ.e.a.s. hvenær verður féð tekið, hvernig verður staðið að því og hvernig fargað. Endurskoða þarf hvernig upphæð bóta er ákveðin. Það er ómögulegt að styðjast við heildarmeðaltöl í samningum, breyta þarf reglum þannig að stuðst sé við búsmeðaltal. Samningar eiga að tryggja framfærslu og möguleg kaup á nýju fé eftir hreinsun. Fylgja þarf eftir nægjanlega tímalega að öll hreinsun sé yfirstaðin og út tekin þannig að bændur geti tekið fé sem fyrst sé vilji til þess. Samningsskilyrði eiga að vera skýr og aðgengileg en um leið sveigjanleg eftir ólíkum aðstæðum. Því enginn er eins.

Með öðrum orðum – stjórnvöld þurfa að yfirfara verklagið frá því sem nú er. Það þarf meiri stuðning í gegnum ferlið sem þarf að líta til þess manneskjulega um leið og þess efnahagslega og sóttvarna.

Categories
Greinar

Lítil og meðalstór fyrirtæki – lykill að uppbyggingu og þróun

Deila grein

24/09/2021

Lítil og meðalstór fyrirtæki – lykill að uppbyggingu og þróun

Lítil og meðalstór fyrirtæki sinna lykilhlutverki á atvinnumarkaðnum hér á landi. Þau tryggja meirihluta Íslendinga atvinnu, stuðla að fjölbreyttri atvinnu ásamt því að vera lykillinn að uppbyggingu og þróun þvert yfir landið. Fyrir Covid sýndi tölfræðin að lítil og meðalstór fyrirtæki greiddu laun rúman meirihluta landsmanna, eða kringum 70% þeirra. Líklega hefur tölfræðin breyst töluvert eftir komu Covid, en talið er að staðan verði aftur sambærileg þegar við höfum náð tökum á veirunni.

Skattar og álögur

Lítil og meðalstór fyrirtæki eiga mörg hver erfitt með greiðslubyrðina á m.a. tryggingagjaldi og opinberum álögum. Þetta hindrar vöxt þeirra og leiðir jafnvel til þess fyrirtækin neyðast til að hætta rekstri. Almennt er um litla upphæð gjalds að ræða í tilfelli opinberra álagna, en þegar á botninn er hvolft þá geta þetta orðið töluverðar fjárhæðir sem geta reynst mörgum litlum og meðalstórum fyrirtækjum íþyngjandi. Þetta á sérstaklega við um fyrirtæki í upphafi rekstrar.

Framsókn vill bæta rekstrarumhverfið

Við í Framsókn erum vel meðvituð um mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja hér á landi og viljum bæta hag þeirra. Framsókn vill taka upp þrepaskipt tryggingagjald og lækka það á lítil og meðalstór fyrirtæki. Einnig vill Framsókn létta undir greiðslubyrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja á opinberum álögum, til dæmis úttektum eftirlitsaðila og leyfisveitingar frá hinu opinbera. Þetta eru raunhæfar lausnir sem geta aðstoðað þessi fyrirtæki við að koma rekstri sínum á réttan kjöl.

Að auki vill Framsókn nota skattkerfið til að jafna aðstöðu fólks á landsbyggðinni ásamt því að styðja betur við rekstur lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þannig er skattkerfið notað til að fjárfesta í fólki og hvetja til fjölþættari verðmætasköpunar.

Með leiðum sem þessum getum við bætt rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja, og með því stuðlað að auknum og fjölbreyttum atvinnumöguleikum um allt land.

Stefán Vagn Stefánsson

Höfundur er oddviti Framsóknar í Norðvesturkjördæmi og yfirlögregluþjónn í Skagafirði.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 24. september 2021.