Categories
Fréttir Greinar

Má bjóða þér lægri vexti?

Deila grein

14/06/2025

Má bjóða þér lægri vexti?

Undir lok síðasta kjörtímabils var ráðist í metnaðarfullt verkefni um úrbætur á húsnæðislánakerfinu. Sigurður Ingi Jóhannsson, þá fjármála- og efnahagsráðherra, fól hagfræðingnum Jóni Helga Egilssyni að leiða vinnu við greiningu og tillögur um óverðtryggð húsnæðislán til langs tíma. Jón Helgi er reyndur sérfræðingur (PhD í hagfræði) og skilaði hann ítarlegri skýrslu í janúar 2025.

Markmið verkefnisins var að greina hvernig bankar geti boðið íslenskum fasteignakaupendum hagstæðari kjör á löngum, óverðtryggðum lánum – sambærileg þeim sem bjóðast í nágrannalöndum okkar. Það er brýnt hagsmunamál fyrir heimili að hafa aðgang að slíkum lánum. Þau veita fjölskyldum fyrirsjáanleika og stöðugleika í greiðslubyrði og draga úr óvissu, en núverandi fyrirkomulag – með skammtíma breytilegum vöxtum eða verðtryggingu – getur þvert á móti kollvarpað fjárhag á lánstímanum.

Tillögur sem krefjast pólitísks vilja

Megin niðurstöður Jóns Helga eru að breyta þurfi umgjörð lánamarkaðarins til að tryggja betri kjör. Til dæmis er bent á að endurskoða þurfi lög um uppgreiðslugjöld og draga úr hömlum á löngum föstum vöxtum. Jafnframt þurfi að þróa virkari afleiðumarkað fyrir vaxta- og gjaldmiðlaskipti. Í skýrslunni er lagt til að stjórnvöld taki virkan þátt í að byggja upp markað fyrir vaxtaskiptasamninga, meðal annars með aukinni fræðslu og beinni þátttöku ríkissjóðs í slíkum samningum til að draga úr vaxtaáhættu og auðvelda bönkum að bjóða fasta vexti til langs tíma. Slíkar aðgerðir myndu hjálpa bönkunum að fjármagna óverðtryggð lán á hagkvæmari hátt og bjóða neytendum betri kjör, en einnig gætu slík viðskipti dregið úr fjármagnskostnaði ríkissjóðs, sem er óásættanlegur. Einnig er bent á að lífeyrissjóðir og ríki gætu unnið saman að gjaldmiðlaskiptasamningum til að sækja hagstæðari fjármögnun erlendis en tryggja að lánin séu í íslenskum krónum.

Þögn í skjóli ESB hugmyndafræði

Skýrslan var kynnt í byrjun árs og afhent nýjum fjármála- og efnahagsráðherra, Daða Má Kristóferssyni. En þrátt fyrir að hér sé um trausta, vel rökstudda greiningu að ræða hefur ráðherrann látið hjá líða að bregðast við. Engar tilraunir hafa sést til að hrinda í framkvæmd þeim úrbótum sem lagðar eru til. Þögnin er áberandi – og margir velta fyrir sér hvers vegna. Ein skýringin gæti verið óþægileg pólitísk staðreynd: Tillögur skýrslunnar kalla á aðgerðir sem falla illa að grunnstefnu Viðreisnar. Viðreisn hefur lengi byggt efnahagsstefnu sína á ESB-aðild og upptöku evru sem lausn fyrir stöðugleika. Í stefnuskrá flokksins er fullyrt að full aðild að Evrópusambandinu og evra bæti lífskjör og auki kaupmátt. Í ljósi þess er hætt við að ráðherra úr þeim flokki hafi lítinn áhuga á að ráðast í umbætur sem styrkja íslenskt lánakerfi innan ramma krónunnar – enda telja forystumenn Viðreisnar að raunveruleg lausn felist í því að skipta um gjaldmiðil. Í stuttu máli: Það skortir ekki efnislegar tillögur um hvernig lækka megi vexti á húsnæðislánum; það sem skortir er pólitískur vilji til að nýta þær.

Hættan á að tækifærið fari forgörðum

Af hverju skiptir þetta máli núna? Staðan á húsnæðislánamarkaði er grafalvarleg fyrir almenning. Verðbólga hefur verið þrálát og þótt hún hafi hjaðnað þá spáir Seðlabankinn því nú að verðbólgan gæti orðið þrálát og hætti að lækka frekar næstu misseri. Vaxtabyrðin er því enn mjög þung: stýrivextir standa í 7,5% og bankar velta þeim kostnaði út til almennings. Seðlabankastjóri hefur sjálfur varað við að ekki sé víst að hægt verði að lækka vexti frekar á næstunni og að mikil óvissa ríki – meðal annars á fasteignamarkaði. Því megum við alls ekki við því að hunsa góð ráð sem gætu dregið úr fjármagnskostnaði heimilanna. Nauðsynlegt er að ítreka að fjárhagslegt svigrúm heimilanna og stöðugleiki á lánamarkaði er ekki eitthvað sem má tefjast í deilum um hugmyndafræði. Það þarf að bregðast við núna með þeim tækjum sem við höfum. Sleggja Kristrúnar Frostadóttur, sem hún mundaði svo myndarlega í kosningabaráttunni haustið 2024 til að „berja niður verðbólguna“, virðist ekki vera að virka eða í það minnsta hittir hún ekki rétta nagla á höfuðið. Mögulega er hún bara flogin af skaftinu.

Skýrslu Jóns Helga ber að taka alvarlega og fylgja eftir í verki. Hagsmunir íslenskra heimila af sanngjörnum lánskjörum hljóta að ganga framar flokkspólitískum draumsýnum um Evrópusambandsaðild einhvern daginn.

Helgi Héðinsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. júní 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Rétt­læti næst ekki með rang­læti

Deila grein

13/06/2025

Rétt­læti næst ekki með rang­læti

Í umræðum á Alþingi spurði ég hæstvirtan dómsmálaráðherra, Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur einfaldrar, en mikilvægrar spurningar: Telur hún sem dómsmálaráðherra að það standist stjórnarskrá að skerða áunnin réttindi tugþúsunda sjóðfélaga í lífeyrissjóðum? Þetta eru réttindi sem fólk hefur unnið sér inn með áratugalangri þátttöku í atvinnulífinu – réttindi sem njóta verndar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Í stað málefnalegrar umræðu kaus ráðherra að svara með hroka, umvöndunum og útúrsnúningum í stað þess að fjalla af ábyrgð um eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Svarið bar fremur keim af hroka og útúrsnúningum en ábyrgð.

En þetta mál snýst ekki um leikþátt og hroka ráðherrans í þingsal – þetta mál snýst um grundvallarréttindi fólks.

Þungar áhyggjur lífeyrissjóðanna

Í umsögnum lífeyrissjóða, verkalýðshreyfingar og Landssambands eldri borgara er lýst yfir áhyggjum af því að með frumvarpinu sé verið að færa milljarða króna kostnað frá ríkinu og yfir á sjóðfélaga. Lífeyrissjóðir eins og Stapi á Norðurlandi, þar sem margt af okkar fólki í matvælaframleiðslu og sjávarútvegi greiðir til, gætu þurft að lækka réttindi um allt að 7,5%, réttindum sem njóta verndar stjórnarskrár. Réttindi sem fólk hefur áunnið sér með því að greiða af heilindum til samfélagsins alla sína starfsævi.

Í því ljósi er eðlilegt að spyrja hvort hægt sé að auka réttindi eins hóps með því að skerða rétt annarra? Er það í anda réttaríkis að framkvæma slíkar breytingar án raunverulegs samráðs – og gegn vilja þeirra sem fyrir áhrifunum verða?

Við í Framsókn styðjum heilshugar bætt kjör öryrkja og viljum tryggja réttláta þátttöku þeirra í samfélaginu – það er hins vegar leiðin að markmiðinu sem við gagnrýnum. Við gerum það ekki með því að etja þjóðfélagshópum saman. Ef það er vilji þessarar ríkisstjórnar að ryðja út lagafrumvörpum í nafni verkstjórnar – frumvörpum sem skerða lífeyrisréttindi verkafólks, í beinni andstöðu við grunnréttindi fólks í landinu – þá er illa fyrir okkur komið.

Réttlæti næst ekki með ranglæti

Við getum dregið þetta frumvarp til baka, kallað til samráð og leitað sáttar um útfærslu sem er bæði lögleg, réttlát og sanngjörn. Og það skiptir öllu – því það á enginn að þurfa að horfa upp á það að áunninn lífeyrir þeirra sé tekinn til að bæta útgjaldaáætlun ríkisins.

Ég mun ekki sitja þegjandi hjá í grundvallarmáli sem þessu – sama hvernig ráðherra bregst við eða reynir að snúa umræðunni. Öryrkjar og eldri borgarar – allt þetta fólk á það sameiginlegt að það á rétt á virðingu og réttlæti frá þeim sem fara með völd. Það er ábyrgð okkar hér á þingi að standa vörð um þau réttindi.

Réttlæti næst ekki með ranglæti.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. júní 2025.

Categories
Fréttir

„Stjórnarskrárbrot á kostnað verkafólks“

Deila grein

13/06/2025

„Stjórnarskrárbrot á kostnað verkafólks“

Harðorð gagnrýni hefur komið fram síðustu daga á frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á almannatryggingum, þar sem meðal annars er lagt til að skerða lífeyrisréttindi á almennum vinnumarkaði til að bæta kjör örorkulífeyrisþega.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, segir að með frumvarpinu sé „með einu pennastriki“ verið að lækka eftirlaun þeirra sem hafa greitt í lífeyrissjóði alla starfsævina. „Um leið rýra framtíðarréttindi verkafólks á almennum vinnumarkaði um 5-6%,“ segir hann og bætir við að málið hafi verið „keyrt áfram rétt fyrir þinglok“ og án nægilegs samráðs.

Sigurður Ingi leggur áherslu á að Framsókn styðji bætt kjör örorkulífeyrisþega, en ekki með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir. „Það gerum við ekki með því að skerða áunnin, stjórnarskrárvarin réttindi fólks. Verkalýðshreyfingin, eldri borgarar og atvinnulífið hafa öll varað við afleiðingunum.“

„Þjóðfélagshópum er stillt upp hvorum gegn öðrum. Málið er hroðvirknislega unnið, og ef þetta er dæmi um frábæra verkstjórn ríkisstjórnarinnar þá eru mjög fáir sammála því,“ segir hann og krefst þess að frumvarpinu verði hafnað. „Í grundvallarmáli sem þessu krefjumst við vandaðra vinnubragða, betri greininga og raunverulegs samráðs.“

LÍV varar einnig við áhrifum frumvarpsins

Stjórn Landsambands íslenskra verslunarmanna (LÍV) hefur einnig lýst yfir miklum áhyggjum af frumvarpinu. Í tilkynningu frá sambandinu segir að verði frumvarpið samþykkt muni það „grafa undan samtryggingarkerfi lífeyrissjóða“ og leiða til „eignaupptöku frá ellilífeyrisþegum til örorkulífeyrisþega“.

„Sú tilfærsla sem lögð er til í frumvarpinu mun hafa neikvæð áhrif á lífskjör eftirlaunaþega þar sem tekjur þeirra verða lægri,“ segir í yfirlýsingu stjórnar LÍV. Þar kemur jafnframt fram harð mótmæli við því að stjórn­völd „rjúfi samkomulag sem gert var við aðila vinnumarkaðarins“ án þess að forsendur hafi breyst eða nýtt fyrirkomulag hafi verið samið.

LÍV segir frumvarpið háð „alvarlegum annmörkum“ og krefst samráðs við lífeyrissjóði og aðila vinnumarkaðarins. Samkvæmt sambandinu sé eðlilegt að stjórnvöld tryggi framfærslu örorkulífeyrisþega, en ekki með lausnum sem veikja stoðir lífeyriskerfisins.

Formaður eldri borgara: „Ríkið má ekki etja hópunum saman“

Björn Snæbjörnsson, formaður Landssambands eldri borgara, tekur í sama streng og segir að frumvarpið hafi í för með sér „umtalsverðar skerðingar til ellilífeyrisþega“. Hann segir að ríkisvaldið verði að koma til móts við lífeyrissjóðina til að forða því að skerðingar bitni á eldri borgurum.

„Með þessu frumvarpi þá er raunverulega verið að lofa öryrkjum að hækka við þá bæturnar, en á móti… þá mun það hafa áhrif á ellilífeyrinn til lækkunar,“ segir hann og varar við því að „etja þessum tveimur hópum saman.“

„Við viljum að þetta nái fram að ganga með öryrkjana… en ríkisvaldið verður að jafna þessa byrði svo það verði ekki skerðingar hjá láglaunafólki í almennu verkamannasjóðunum.“

Óvissa um framhald málsins á lokaspretti þingsins

Frumvarpið er nú í meðförum Alþingis, en mótstaða virðist vera að aukast bæði innan þings og utan. Meðal gagnrýnenda eru stjórnarandstaðan, verkalýðsfélög og félagasamtök eldri borgara. Ljóst er að málið mun skapa miklar umræður á lokaspretti þingsins.

Stjórnarskrárbrot á kostnað verkafólks Með einu pennastriki hyggst ríkisstjórnin lækka eftirlaunin hjá fólki sem hefur…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Föstudagur, 13. júní 2025
Categories
Fréttir

Ríkisstjórnin hafnar innlendum heilbrigðisúrræðum

Deila grein

12/06/2025

Ríkisstjórnin hafnar innlendum heilbrigðisúrræðum

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, gagnrýndi harðlega stefnu ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur í heilbrigðismálum, í störfum þingsins. Tilefnið er frumvarp sem heimilar greiðslu fyrir meðferð erlendis þegar bið eftir heilbrigðisþjónustu innanlands er of löng. Ingibjörg gagnrýndi að frumvarpið skyldi ekki tryggja að sambærileg meðferð hér á landi yrði nýtt fyrst.

„Þetta er bæði dýrara fyrir samfélagið og brot á jafnræðisreglu,“ sagði hún og bætti við að með þessu sitji ekki allir við sama borð. Framsókn hafi lagt fram breytingartillögu sem hefði tryggt að innlend úrræði yrðu nýtt áður en gripið væri til meðferðar erlendis, en sú tillaga var felld með stuðningi Viðreisnar.

Skref aftur á bak í heilbrigðisþjónustu

Ingibjörg líkti núverandi stefnu við aðdraganda langra biðlista fyrri ára, þar sem vinstri stjórnir hafi dregið úr möguleikum á fjölbreyttum rekstrarformum í heilbrigðiskerfinu. Hún sagði þetta vera „skref aftur á bak“ sem muni leiða til lakari nýtingar á sérþekkingu innanlands og hægari þjónustu við sjúklinga.

Sérstaklega gagnrýndi hún Viðreisn, sem hún sagði hafa barist fyrir fjölbreyttari heilbrigðisþjónustu árum saman, en nú styðji stefnu sem þrengi að einkarekstri.

Minnir á árangur fyrri samstarfs

Þingmaðurinn minnti jafnframt á árangur sem náðist í tíð Willums Þórs Þórssonar sem heilbrigðisráðherra, þegar samstarf við einkaaðila hafi skilað styttri biðlistum og hraðari afgreiðslu flókinna aðgerða. „Sjúklingar fengu betri þjónustu án biðar,“ sagði Ingibjörg og bætti við að það væri „með öllu óskiljanlegt“ að núverandi ríkisstjórn lokaði vísvitandi á slíkar lausnir.

Að lokum hvatti hún til þess að öll úrræði yrðu nýtt – bæði opinber og einkarekin – í þágu þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. „Heilbrigðisþjónusta á að byggja á raunhæfum lausnum, ekki pólitískri þrákelkni,“ sagði hún að lokum.

Categories
Fréttir Greinar

Skref aftur á bak fyrir konur með endómetríósu

Deila grein

12/06/2025

Skref aftur á bak fyrir konur með endómetríósu

Fyrir margar konur sem lifa með endómetríósu hefur lífið snúist um langvarandi verki, bið og baráttu fyrir því að fá hlustun og viðeigandi meðferð. Í gegnum árin hefur Endófélagið unnið ómetanlegt starf við að vekja athygli á þessum ósýnilega sjúkdómi og skapa umræðu sem snýst um skilning, stuðning og virðingu. Það hefur skipt sköpum fyrir fjölmargar konur sem áður voru ósýnilegar í heilbrigðiskerfinu.

Framsókn hefur lengi lagt áherslu á málefni kvenna með endómetríósu og unnið að bættri þjónustu. Eygló Harðardóttir vann ötullega að því að varpa ljósi á þennan sjúkdóm á meðan hún gegndi þingmennsku. Henni tókst, ásamt öðru baráttufólki, að koma umræðunni af stað á stjórnmálavettvangi og leggja grunn að þeirri vitundarvakningu sem hefur átt sér stað á undanförnum árum.

Með áherslum nýs heilbrigðisráðherra hefur skapast óvissa um hvernig sinna eigi þeim konum sem bíða eftir nauðsynlegum aðgerðum vegna endómetríósu. Þess vegna er brýnt að þessari óvissu verði eytt og að stór hópur kvenna þurfi ekki að bera fjárhagslega byrði til að endurheimta lífsgæði sín. Framsókn hefur einmitt lagt áherslu á að heilbrigðiskerfið eigi að snúast um einstaklinginn, ekki kerfið. Það þarf að nálgast þessi mál af yfirvegun, með skilningi og samráði, rétt eins og Willum Þór gerði þegar hann gegndi embætti heilbrigðisráðherra. Við skuldum konunum með endómetríósu skýr svör, raunhæfar lausnir og heilbrigðiskerfi sem setur lífsgæði þeirra í forgang.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. júní 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Heil­brigðis­kerfið í bakk­gír

Deila grein

12/06/2025

Heil­brigðis­kerfið í bakk­gír

Velferðarnefnd hefur haft til umfjöllunar nú í vor frumvarp til laga um breytingar á lögum um sjúkratryggingar. Yfirlýst markmið þessa frumvarps er að stytta þann tíma sem tekur að bjóða upp á nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og þar með tiltekna meðferð. Á meðal þeirra breytinga sem lagðar eru til er að fest verði í lög ákvæði um greiðsluþátttöku fyrir læknismeðferð erlendis vegna biðtíma hér á landi.

Fljótt á litið virðast hér vera um að ræða göfugt og gott markmið en þegar betur er að gáð kemur annað í ljós. Sambærilegt ákvæði vegna niðurgreiðslu fyrir fram ákveðinnar læknismeðferðar sem sjúkratryggður undirgengst hjá einkareknum veitendum heilbrigðisþjónustu á Íslandi er ekki að finna í frumvarpinu. Hér sitja því innlendir þjónustuveitendur ekki við sama borð og þjónustuveitendur erlendis.

Það er eðlilegt að leitað sé leiða til að bregðast hraðar við þegar þörfin er brýn. Enginn á að þurfa að bíða lengur en nauðsynlegt er eftir aðgerð eða greiningu sem getur bætt lífsgæði og stuðlað að betri heilsu. En það hlýtur að vera forgangsmál að tryggja að sú þjónusta sem er í boði hér heima – og uppfyllir fagleg skilyrði – sé nýtt áður en horft er til úrræða erlendis.

Tækifæri sem ríkisstjórnin nýtir ekki

Undirrituð lagði fram breytingartillögu við ofangreint frumvarp þar sem gert var ráð fyrir að þessi grundvallarregla – að nýta fyrst heilbrigðisþjónustu innanlands áður en leitað yrði erlendis – yrði lögfest. Sú tillaga var felld af stjórnarmeirihlutanum. Þar með liggur fyrir að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur kýs að hafa ekki í lögum þá eðlilegu skyldu að bjóða einstaklingum upp á meðferð hér á landi, ef hún er til staðar, áður en gripið er til dýrari og flóknari úrræða utan landsteinanna.

Þessi nálgun er ekki eingöngu kostnaðarsöm og ámælisverð út frá hagkvæmnissjónarmiðum – hún er einnig táknræn fyrir þann skort á trausti og framtíðarsýn sem birtist í afstöðu ríkisstjórnarinnar til einkareksturs í heilbrigðiskerfinu.

Snúið upp á einkarekstur

Stefna nýrrar ríkisstjórnar í heilbrigðismálum er svo sannarlega umhugsunarverð. Hvers vegna velur ríkisstjórnin að senda sjúklinga úr landi í leit að heilbrigðisþjónustu, þótt sambærileg þjónusta sé í boði hér heima?

Jú, ætlun ríkisstjórnarinnar blasir við, það á greinilega að snúa upp á einkareksturinn og það er byrjað, og það fyrst á konum með endómetríósu. En ekki á að semja um fleiri slíkar aðgerðir í ár. Hér sýnir Samfylkingin sitt rétta andlit í sinni tærustu mynd og andúð við einkarekstur hér á landi. Það sætir furðu að Viðreisn sé sammála þessari stefnu, enda þvert á þeirra málflutning síðustu ár. Undirrituð spyr sig, er stefna Viðreisnar nú allt í einu að draga enn frekar úr aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu með því að vega að einkarekstri og fækka valkostum?

Við höfum góða reynslu

Við höfum á undanförnum árum séð að samstarf opinberra og sjálfstætt starfandi heilbrigðisþjónustuaðila getur gengið vel þegar markmiðin eru skýr og sjúklingurinn er í forgrunni. Willum Þór Þórsson lagði áherslu á í tíð sinni sem heilbrigðisráðherra að semja um lýðheilsutengdar aðgerðir og létta þannig á opinbera kerfinu. Afköst Landspítalans jukust um 10% vegna þess að létt var á álagi af honum, landsliðið okkar á skurðstofum sjúkrahúsanna hafði tíma til að sinna flóknum aðgerðum á meðan samið var um einfaldari aðgerðir við einkaaðila.

Það er með öllu óskiljanlegt að loka á þessa leið og beina fjármunum til erlendra heilbrigðisþjónustuaðila áður en fullreynt er hvað hægt sé að gera hér heima. Þessi pólitíska ákvörðun dregur úr getu okkar til að byggja upp innlent kerfi og stytta biðlista til lengri tíma.

Nýtum þekkinguna sem er hér innanlands

Það liggur fyrir að fjölbreytt heilbrigðisþjónusta er í boði hér heima, bæði innan opinbera kerfisins og hjá fagfólki sem starfar utan þess. Að baki innlendri heilbrigðisþjónustu eru aðilar sem búa yfir sérþekkingu og geta sinnt sjúklingum án tafar ef þeim er gert kleift að taka að sér þær aðgerðir sem um ræðir.

Að nýta þennan dýrmæta mannauð er ekki bara skynsamlegt – það er einnig í þágu fólksins sem þarf á þjónustunni að halda. Það skiptir máli að einstaklingurinn fái lausn sem er bæði fagleg og raunhæf, án þess að þurfa að yfirgefa heimili sitt, ferðast þúsundir kílómetra og treysta á flókin milligöngukerfi.

Heilbrigðisþjónusta á að byggja á trausti, samvinnu og sameiginlegri ábyrgð. Við eigum að nýta krafta þeirra sem vilja leggja sitt af mörkum, hvort sem það er innan stofnana eða utan þeirra. Þannig búum við til kerfi sem þjónar fólki – ekki kerfinu sjálfu.

Ingibjörg Isaksend, formaður þingflokks Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. júní 2025.

Categories
Fréttir

Eldhúsdagsumræður: Halla Hrund

Deila grein

11/06/2025

Eldhúsdagsumræður: Halla Hrund

Ræða Höllu Hrundar Logadótturalþingismanns, í eldhúsdagsumræðum á Alþingi miðvikudaginn 11. júní 2025:

Kæru landsmenn.

Fyrir stuttu rakst ég af tilviljun á merkilegan fyrirlestur um áhrif valds á hegðun og samskipti. Þar fjallaði prófessor við Berkeley háskóla í Bandaríkjunum um rannsókn sem nýtti Matador-spilið til að skoða þessi tengsl, en spilið sem við þekkjum flest, gengur út á að sá sem nær að safna sem mestum auð í gegnum fasteignakaup og fjárfestingar, vinnur leikinn. Hinir verða gjaldþrota.

Í Matador tilrauninni fékk helmingur þátttakenda umtalsvert forskot; Þeir fengu tvisvar sinnum meiri pening, 2 teninga, og tvöföld verðlaun í leiknum. Niðurstaðan var áhugaverð; þeir sem fengu slíkt forskot sýndu fljótt valdmeiri hegðun og minni samkennd í spilinu. Þegar þeir voru svo spurðir út í árangurinn, gleymdu flestir nefna forskotið sem þeir fengu en þökkuðu árangurinn þess í stað hæfni sinni og góðum ákörðunum.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru í takt við fleiri sem benda til þess að völd geti aukið sjálfhverfu. Og stóra áhyggjuefnið er að þegar þegar slíkur hroki nær yfirhöndinni að þá töpum við hæfninni til að hlusta á ólík sjónarmið og átök dýpka.

Slík átök birtast okkur oft í þessum þingsal og mig langar að nefna þrjú dæmi um áskoranir þar sem þurfum að hlusta betur, óháð því hver fer með valdið.

Fyrsta dæmið er eftirfarandi. Í auðlindamálunum höfum við skapað orkumarkað sem minnir óþægilega á eftirlitslausan fjármálamarkaðinn fyrir hrun. Raforkuverð hefur aldrei hækkað jafn hratt. Skortur á framtíðarsýn hefur leitt af sér að tugir vindorkuverkefna í erlendri eigu eru í bígerð og valdið er hjá þeim sem vilja margar virkjanir hratt á meðan rödd náttúruverndar þagnar. Við eigum að framleiða meiri orku en við megum ekki líta á ráðstöfun takmarkaðra auðlinda, lands og víðerna, sömu augum og kaup á götum eða húsum í Matador leiknum.

Lítum á annað dæmi. Veiðigjöldin eru afar mikilvægt úrlausnarefni en það er óásættanlegt að ofbeldi, líkt og í skólum barnanna okkar í vetur fái ekki sömu athygli hér á þingi. Við þurfum kjark til að ræða orsakir, eins og ójöfnuð, árekstra við innflytjendur, og þverrandi andlega líðan. Sættum okkur ekki við hnífaburð. Bregðumst við faraldri ofbeldis af sömu festu og Almannavarnir grípa til þegar náttúruvá eins og eldgos steðjar á. Þá koma allir saman, aðgerðir eru skýrar og mat á árangri er stöðugt þar til hættan er yfirstaðin. Ofbeldi er sem þarf sams konar aðgerðarfestu.

Þriðja dæmið er húsnæðismarkaðurinn. Við þurfum að passa að forgjöf og heppni ráði því ekki hvort þú eigir þak yfir höfuðið og vextir verða að lækka. Uppbygging íbúðarhúsnæðis á ekki bara að vera á forsendum þeirra ríku. Áður var hagkvæmara húsnæði byggt svo að fleiri kæmust að. Húsnæðismál eru lífsspursmál og húsnæðismarkaður má ekki vera í leikur anda Matador spilsins.

Kæru landsmenn.

Þegar Íslenska þjóðin varð sjálfstæð áttum lítið annað en landið sjálft og fullveldið. Með einstakri samvinnu byggðum við hins vegar upp tengsl við aðrar þjóðir og framsýna innviði líkt og héraðsskólinn á Laugarvatni og hitaveitan eru dæmi um: Þessi verkefni höfðu samfélagslegt gildi langt umfram fjárhagslegan ávinning þess tíma. Þess vegna erum við rík þjóð í dag með dýrmæt spil á hendi og okkur eru allir vegir færir.

Förum því úr sundrung í samvinnu. Því meira sem við sýnum auðmýkt, samvinnuvilja og hlustun á ólík sjónarmið, ekki síst hér á þingi, óháð því hver fer með valdið, þeim mun betur mun okkur farnast.

Ég vil enda á orðum ömmu minnar heitinnar, sem bar hið fallega og táknræna nafn Friðgerður, sem merkir vörn friðarins, sagði eitt sinn við mig; „Það verður enginn betri manneskja á því að hafa það betra.“ Það sem skilgreinir okkur eru verkin og heilindin á bakvið þau. Og þar er samvinna okkar sterkasta afl.

***

Categories
Fréttir

Eldhúsdagsumræður: Þórarinn Ingi

Deila grein

11/06/2025

Eldhúsdagsumræður: Þórarinn Ingi

Ræða Þórarins Inga Péturssonar, alþingismanns, í eldhúsdagsumræðum á Alþingi miðvikudaginn 11. júní 2025:

Kæru landsmenn!

Jónas Jónsson frá Hriflu var einn áhrifamesti stjórnmálamaður og hugsuður Íslands á sinni tíð.  Honum hefur verið lýst sem eldheitum samvinnumanni. Hann trúði því statt og stöðugt að þjóðin næði mestum árangri þegar við stæðum saman og byggðum á þeim gildum sem sameina okkur sem heild. Samvinnuhugsjónin hefur alltaf verið leiðarljós okkar Íslendinga og nú þurfum við á henni að halda meira en nokkru sinni fyrr.

Sannleikurinn er sá að Ísland hefur í aldanna rás verið ein heild þar sem við höfum unnið saman og þess vegna náð árangri sem þjóð. Þessu verðum við að halda áfram.  

Ísland er meira en Reykjavík eða höfuðborgarsvæðið. Þrátt fyrir að Ísland sé fámennt land, er það meira en tvisvar sinnum stærra að flatarmáli en Danmörk. Þetta er mikil áskorun. Samgöngur, innviðir og þjónusta hins opinbera um allt land er dýr. En þetta þýðir um leið að þvert á landshluta býr fólk, sem skapar og leggur grunninn að verðmætasköpun þjóðarinnar, oft í hundruða kílómetra fjarlægð hvert frá öðru.

Landið allt – allir með.

En hver er staðan í dag? Erum við öll í sama liði? Er verkstjórn Kristrúnar Frostadóttur að sameina þjóðina? Stutt svar: NEI. Því miður. En við getum gert betur. Höldum áfram.  

Án auðlinda landsins og sjálfbærrar nýtingar þeirra í öllum landshlutum byggjum við ekki að þeirri hagsæld sem ríkt hefur á Íslandi frá lýðveldisstofnun. Við megum aldrei gleyma því að sjávarútvegurinn hefur skapað verðmæti sem allir Íslendingar njóta góðs af. Við getum deilt um umfang gjaldtöku og skattlagningar á atvinnuvegi, en enginn getur deilt um þau verðmæti sem hafið í kringum landið veitir samfélaginu sem heild.

Sama á við um landbúnaðinn okkar, matvælaframleiðslu, iðnaðinn, menninguna og síðast en ekki síst ferðaþjónustuna, sem nú nýtir nánast öll svæði landsins, alla þessa 103 þúsund ferkílómetra, til verðmætasköpunar. Öll þessi svið hagkerfisins mynda eina heild – hagkerfi sem er eins sterkt og veikasti hlekkurinn. Við verðum að styrkja þessa hlekki saman.

Og í ljósi alþjóðamála hefur sjaldan verið mikilvægara að Ísland geti treyst á eigin framleiðslu þegar kemur að matvælum. Við þurfum því algerlega nýja hugsun í matvælaframleiðslu sem tryggir fæðuöryggi þjóðarinnar. Það að geta verið okkur sjálfum nóg, jafnvel þegar utanaðkomandi aðstæður eru erfiðar, er lykilatriði.

Við þurfum því að styðja markvisst við rannsóknir og þróun í matvælaframleiðslu með áherslu á sjálfbærni, nýsköpun og umfram allt skilvirkni. Síðast en ekki síst þurfum við kerfislæga breytingu sem tryggir að ungt fólk hafi möguleika á að hefja búskap, kaupa jarðir og taka þátt í endurnýjun og þróun íslensks landbúnaðar. Þess vegna hefur Framsókn mótað hugmyndir um að styðja við jarðakaup ungs fólks sem er tilbúið að sýna frumkvæði, taka áhættu og fjárfesta eigin tíma í að búa til verðmæti – fyrir okkur öll. Við köllum hugmyndina Nýjar rætur.

Og þegar við segjum „Landið allt – allir með“ þá þýðir það við verðum að tryggja jafnt aðgengi að þjónustu um allt land. Öryggismál þjóðarinnar geta ekki aðeins snúist um höfuðborgarsvæðið. Heilbrigðisþjónusta, menntun og samgöngur eru ekki forréttindi fárra – heldur réttindi allra Íslendinga, hvar sem þeir búa.  

Kæru landsmenn.

Ég byrjaði ræðu mína á tilvísun til Jónasar frá Hriflu. Hans grunnstef í lífinu var menntun, samvinna og þjóðleg sjálfsvirðing. Og þegar við stöndum saman höfum við sannað hvað við getum afrekað. Við þurfum hvert á öðru að halda – fólk á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu – ungir og þeir sem eldri eru. Þrátt fyrir þær áskoranir sem bíða okkar getum við saman haldið áfram að byggja upp betra land á grunni samstöðu og samvinnu. Fyrir það stendur Framsókn.

Landið allt – allir með.

Góðar stundir.

***

Categories
Fréttir

Ríkisstjórnin bregst landsbyggðinni

Deila grein

09/06/2025

Ríkisstjórnin bregst landsbyggðinni

Það er með ólíkindum hvernig ríkisstjórnin hefur hagað sér í málinu um uppbyggingu verkmenntaskóla á landsbyggðinni. Hér er ekki um smáframkvæmd að ræða heldur verkefni sem hefur verið undirbúið árum saman með dyggu samstarfi ríkis og sveitarfélaga, verkefni sem átti að tryggja að íslenskt atvinnulíf fengi það iðnmenntaða starfsfólk sem það sárlega vantar.

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, hóf umræðuna á Alþingi. Hann vakti athygli á því að verkefnið væri í uppnámi, verkefni sem var ætlað að fjölga iðnmenntuðu fólki og styrkja landsbyggðina. En ríkisstjórnin ákvað, að því er virðist í skjóli nætur, að hliðra fjármagni verkefnisins til næsta árs. Enginn skólameistari fékk tilkynningu, enginn bæjarstjóri fékk símtal, enginn skólanefndarmaður fékk tölvupóst. Sveitarfélögin sitja eftir í forundran.

„Þetta er algjörlega blaut tuska í andlitið,“ segir Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir starfandi bæjarstjóri í Reykjanesbæ. Hún lýsti því hvernig sveitarfélagið hafði staðið sína plikt, lagt fram sinn 40% kostnaðarhlut, gert ráð fyrir fjármagni í fjárhagsáætlun, en ríkisstjórnin svaraði með þögn. Á Ísafirði segir Sigríður Júlía Brynleifsdóttir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar þetta vera „fyrir neðan allar hellur“ og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrarbæjar segir þetta koma „mjög á óvart og mjög í opna skjöldu.“

Ríkisstjórnin hefur nú slaufað verkefninu, sem var samkomulag um og fjármögnun samþykkt af Alþingi. Sveitarfélögin sitja uppi með biðlista sem telur 800-1.000 ungmenni sem komast ekki að í verknámi. Nemendur sem þurfa á iðnmenntun að halda fá ekkert nema gámakennslu. Þau bíða eftir menntun sem átti að vera lykillinn að framtíð þeirra, en ríkisstjórnin frestar framtíðinni af miklum hroka.

Það var ekki bara samkomulag um fjármögnun. Það voru teikningar á borðinu, verkefni í stjórnsýslu, sveitarfélögin voru tilbúin með sinn hlut fjármögnunar. Þau sýndu ábyrgð og útsjónarsemi, en ríkisstjórnin sýndi skeytingarleysi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, komst vel að orði: „Það eru allir forviða á því að það eigi að fara að forgangsraða upp á nýtt.“ Það er ekki hægt að byggja upp atvinnulíf með því að taka peningana út úr samfélaginu þegar þeirra er sárlega þörf. Það er ekki hægt að byggja upp traust þegar sveitarfélögin fá ekki einu sinni tilkynningu um svona stórar ákvarðanir.

Húsnæðið er sprungið. Biðlistarnir lengjast. Það er reiði í sveitarfélögunum. Nemendurnir eru í lausu lofti. Þetta er ekki bara vanræksla heldur alvarleg atlaga að framtíð landsbyggðarinnar. Þetta er lýsandi dæmi um ríkisstjórn sem kýs að fresta framtíðinni frekar en að byggja hana upp.

Ábendingar til Alþingis

Við skorum á Alþingi allt, stjórnarþingmenn jafnt sem stjórnarandstöðu, að grípa inn í málið af fullri alvöru. Það þarf að tryggja að verkmenntaskólarnir fái nauðsynlegt fjármagn strax á þessu ári svo hægt sé að hefja framkvæmdir þegar í stað.

Það þarf líka að tryggja skýra, gegnsæja upplýsingagjöf milli ráðuneyta, sveitarfélaga og skólastjórnenda svo að samvinna haldist. Það þarf að hlusta á sveitarfélögin sem hafa sýnt ábyrgð og lagt sitt af mörkum.

Verkmenntaskólarnir eru ekki bara hús með gluggum og hurðum. Þeir eru lykill að því að fjölga iðnmenntuðu fólki í atvinnulífinu, efla samfélögin á landsbyggðinni og tryggja að fjölbreytt samfélag fái að dafna. Þeir eru verkefni okkar allra og við eigum ekki að láta þá standa eftir í gámum eða biðlistum. Við eigum að byggja framtíðina saman.

Categories
Fréttir Greinar

Damóklesarsverð ríkisstjórnarinnar

Deila grein

09/06/2025

Damóklesarsverð ríkisstjórnarinnar

Horf­ur í heims­bú­skapn­um versna sam­kvæmt nýj­ustu hagspá Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (OECD). Fjög­ur meg­in­at­riði valda þess­ari þróun: aukn­ar viðskipta­hindr­an­ir, hærri fjár­mögn­un­ar­kostnaður, minni vænt­ing­ar neyt­enda og fyr­ir­tækja, og veru­leg óvissa í efna­hags­mál­um. Gert er ráð fyr­ir að hag­vöxt­ur á heimsvísu lækki úr 3,3% árið 2024 í 2,9% árin 2025 og 2026. Í Banda­ríkj­un­um er spáð mestri lækk­un hag­vaxt­ar, úr 2,8% í 1,6% milli ár­anna 2024 og 2025. Á evru­svæðinu er bú­ist við 1% hag­vexti árið 2025. Sam­drátt­ur blas­ir einnig við í Kína.

Í slíkri óvissu er brýnt að rík­is­stjórn­in sýni styrk og for­ystu með því að skapa hag­felld skil­yrði fyr­ir verðmæta­sköp­un, sem stuðla að aukn­um hag­vexti og minni óvissu. Einnig er mik­il­vægt að stjórn­völd sýni gott for­dæmi á vinnu­markaði og að laun ráðherra og kjör­inna full­trúa fylgi þróun al­menns vinnu­markaðar. Því miður virðist rík­is­stjórn­in gera hið gagn­stæða: hún eyk­ur óvissu með skatta­hækk­un­um á lyk­ilút­flutn­ings­grein­ar og hækk­ar eig­in laun um­fram það sem gild­ir bæði á al­menn­um og op­in­ber­um vinnu­markaði.

Í skýrslu OECD seg­ir að auðlinda­skatt­ar, þar með tal­in hækkuð veiðigjöld og ný komu­gjöld á ferðaþjón­ustu, muni styðja við sjálf­bæra nýt­ingu nátt­úru­auðlinda. Þessu fylgja þó eng­in rök eða út­skýr­ing­ar. Þá er einnig lagt til að und­anþágur frá virðis­auka­skatti verði af­numd­ar og ferðaþjón­ust­an nefnd. Ekki kem­ur skýrt fram hvort ís­lensk stjórn­völd hafi til­kynnt OECD áform um bæði hækk­un virðis­auka­skatts og komu­gjöld í ferðaþjón­ustu, en slík­ar til­lög­ur eru tíðar í ráðgjöf alþjóðastofn­ana, jafn­vel þótt meðaltal virðis­auka­skatts í Evr­ópu á ferðaþjón­ustu sé 12%. Ef af þess­um aðgerðum verður má bú­ast við að það dragi úr hvata til fjár­fest­inga.

Stöðug­leiki á vinnu­markaði skipt­ir sköp­um fyr­ir hag­sæld sam­fé­lags­ins. Þrátt fyr­ir að 5,6% launa­hækk­un æðstu ráðamanna sé úr takt við þróun á al­menn­um og op­in­ber­um vinnu­markaði hef­ur rík­is­stjórn­in ákveðið að hún skuli standa – sem er galið. Nú­ver­andi for­sæt­is­ráðherra tjáði sig ein­mitt um álíka stöðu og nú er uppi, þá í stjórn­ar­and­stöðu: „Það er mín skoðun að þetta gangi ekki upp. Þetta eru kol­röng skila­boð til vinnu­markaðar­ins.“ Þetta var hár­rétt mat hjá þing­mann­in­um. Síðasta rík­is­stjórn passaði að laun æðstu ráðamanna fylgdu þróun al­menns vinnu­markaðar. Já, laun­un­um var hand­stýrt til að skapa skil­yrði fyr­ir lang­an kjara­samn­ing vorið 2024. Þá var leitt með for­dæmi – nú eru send röng skila­boð.

Efna­hags­stefna rík­is­stjórn­ar Kristrún­ar Frosta­dótt­ur er að koma í ljós og lof­ar því miður ekki góðu fyr­ir ís­lenskt hag­kerfi til framtíðar. Von­ir stóðu til að megin­áhersla yrði á hag­vöxt og stöðug­leika, en í staðinn virðist hag­kerfið nú þurfa að lifa við sí­fellda óvissu og ótt­ann við Damók­les­ar­sverð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. júní 2025.