Categories
Fréttir

Heilbrigðisþjónusta á ekki vera háð hagsveiflum

Deila grein

15/09/2022

Heilbrigðisþjónusta á ekki vera háð hagsveiflum

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, sagði í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi að Íslendingar standa frammi fyrir mörgum áskorunum en ekki megi gleyma að við búum við ákjósanlegri lífsskilyrði en margir aðrir.

„Á Íslandi er orkan okkar græn og umhverfisvæn. Hér er friðsælt, lífskjör eru almennt góð og jöfnuður er óvíða meiri. Já, það er stundum hollt að við minnum okkur á hversu lánsöm við raunverulega erum.“

Willum Þór minnti á að með vaxandi lífaldri og auknum kröfum okkar um meiri lífsgæði verða viðfangsefnin æ fleiri og meira krefjandi á sviði heilbrigðismála. Þriðjungur af heildarfjárhæð fjárlaga fer til heilbrigðismála.

„Notandinn er í forgrunni þeirrar ákvörðunartöku. Þjóðin er að eldast. Tækniframförum fleygir fram og sjúkdómur sem var ólæknandi fyrir nokkrum árum er í dag er læknanlegur. En heilbrigðiskerfið snýst ekki aðeins um öfluga heilbrigðisþjónustu heldur það að gera fólki betur kleift að huga að eigin heilsu,“ sagði Willum Þór.

„Heilsan er okkar dýrmætasta eign“

Willum sagði mikilvægt að aukna áherslu á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðismál. Áhersla á lýðheilsu sést í aðgerðaáætlun í lýðheilsumálum og árlegu heilbrigðisþingi sem verður helgað lýðheilsu.

„Alþingi ályktaði nú í vor um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Markviss áætlun á grunni stefnunnar um aðgerðir í geðheilbrigðismálum er í mótun og mun koma fyrir þingið sem þingsályktunartillaga í byrjun næsta árs. Mönnun í heilbrigðisþjónustu er gríðarleg áskorun hér á landi, á heimsvísu, nú og til framtíðar.

Heilbrigðisstarfsfólk þarf í kjölfar heimsfaraldurs endurheimt og stuðning. Það er okkar stjórnvalda að tryggja að umgjörðin sé í lagi, nýr spítali, nýsköpun, tækni, lyf, menntun, vísindi, húsnæði — já, listinn er langur — innviðir, samningar um þjónustu, allt sem tryggir bættan aðbúnað og kjör fyrir mannauðinn, þjónustuveitendur og þiggjendur,“ sagði Willum.

Willum minnti á nýskipað endurhæfingarráð sem hefur það hlutverk að vera til ráðgjafar um faglega stefnumörkun og skipulag þjónustu á sviði endurhæfingar. Ráðuneyti og sveitarfélög vinna að umbótum í málefnum aldraðra og er sérstök verkefnastjórn að leiða það verkefni.

„Heilbrigðisþjónusta getur ekki verið háð hagsveiflum“

„Í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi eru framlög til heilbrigðismála aukin og það er engin aðhaldskrafa sett á heilbrigðisstofnanir, sjúkrahús og öldrunarstofnanir. Í því felast skýr skilaboð: Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur stendur vörð um heilbrigðiskerfið. Sameinumst um stöðugar umbætur heilbrigðiskerfisins. Öflugt samfélag byggir ekki síst á sterku heilbrigðiskerfi,“ sagði Willum að lokum.

Categories
Fréttir

Nýtum tækifærin vel í orkumálum, verum ábyrg, verum framsýn

Deila grein

15/09/2022

Nýtum tækifærin vel í orkumálum, verum ábyrg, verum framsýn

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, sagði í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi að viðsnúningur í efnahagslífi Íslands megi að miklu leyti þakka nýfengna ferðafrelsi, til landsins streymi að nýju ferðamenn. Náttúra landsins dragi ferðamenn til landsins, fóstri landbúnað og sjávarútveg og sé uppspretta orkuauðlindarinnar.

Sigurður Ingi sagði að fortíðin sýndi að lykillinn að lífsgæðum á Íslandi sé að feta einstigi verndar og nýtingar.

„Samtíminn í nágrannalöndum okkar sýnir að við erum einstaklega lánsöm með okkar innlendu orku. Ef rétt er á spilum haldið mun framleiðsla á innlendri orku fyrir ökutæki, skip og flugvélar veita okkur einstakt orkusjálfstæði. Fyrir þessari ríkisstjórn liggur að nýta tækifærin vel þegar kemur að orkumálum, vera ábyrg, vera framsýn,“ sagði Sigurður Ingi.

Rammasamning um húsnæðisuppbyggingu í stað skammtímalausna

„Í sumar undirritaði ég ásamt formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga rammasamning um húsnæðisuppbyggingu. Í gær hleyptum við formlega af stokkunum næstu lotu sem felur í sér samtal og samningsgerð við einstaka sveitarfélög. Í þessu starfi sem fjölmargir fagaðilar hafa komið að má segja að hafi orðið til sannkallað þjóðarátak í uppbyggingu, húsnæðis enda ekki vanþörf á því að við finnum öll hvernig skortur á húsnæði hefur valdið miklum hækkunum, bæði á húsnæði en ekki síður á verðbólgu og vöxtum. Sú vinna sem þegar er hafin í húsnæðisuppbyggingu markar að mörgu leyti tímamót. Hér eru ekki á ferðinni neinar skammtímalausnir. Kerfið er ekki plástrað heldur er lagður grunnur að markvissri uppbyggingu til lengri tíma. Með þessum aðgerðum verður skapað jafnvægi sem kemur í veg fyrir miklar sveiflur sem leggjast ólíkt á nýjar kynslóðir sem koma inn á húsnæðismarkaðinn,“ sagði Sigurður Ingi.

„Að grípa ekki til aðgerða nú væri eins og að gefa í á leiðinni yfir blindhæð“

Sigurður Ingi minnti á að ríkisstjórnin hafi orðið að stíga á útgjaldabremsuna fyrir árið 2023 til þess að ná tökum á þenslunni, á verðbólgunni. Við munum strax sjá árangur af ábyrgri stjórn. En að fara verði varlega þegar þenslan er mest og verðbólga geisar. „Afleiðingar verðbólgunnar eru Íslendingum vel kunnar og ekki af góðu. Að grípa ekki til aðgerða nú væri eins og að gefa í á leiðinni yfir blindhæð.“

Ríkisstjórnin ætli að varða leiðina til framtíðar, til aukinnar hagsældar, til meiri jöfnuðar og fleiri tækifæra.

„Við sjáum kraftinn í matvælageiranum, í ferðaþjónustunni, í orkugeiranum, hinum skapandi greinum og við sjáum hugverkaiðnaðinn vaxa hratt. Þessi ríkisstjórn mun áfram standa fyrir uppbyggingu í samgöngum, í heilbrigðiskerfinu, í menntakerfinu, í menningunni og öðrum grundvallarþáttum þjóðarinnar, þessum sem skapa samfélag. Þessi ríkisstjórn mun áfram vinna að því að skapa samfélaginu okkar betri umgjörð, betri skilyrði. Þessi ríkisstjórn mun áfram vinna að því að bæta kjör almennings af því að til þess vorum við kosin,“ sagði Sigurður Ingi að lokum.

Categories
Fréttir

Ingibjörg leiddi viðræður þingmannanefndar EFTA við Tæland

Deila grein

12/09/2022

Ingibjörg leiddi viðræður þingmannanefndar EFTA við Tæland

Þingmannanefnd EFTA undir forystu Ingibjargar Isaksen heimsótti Tæland dagana 5.–9. september, eftir að fyrsta lota fríverslunarsamninga Tælands og EFTA hófst að nýju í Bangkok í júní sl. EFTA mun hýsa næstu umferð tvíhliða fundi viðræðnanna dagana 31. október – 4. nóvember nk. í Genf í Sviss.

Í viðtali við Bangkok Post sagði Ingibjörg að fríverslunarsamningurinn við Tæland og EFTA myndi ekki aðeins hjálpa til við að bæta efnahagsleg tengsl milli þessara tveggja aðila heldur myndi hann einnig þróa sjálfbæran vöxt.

„Samtökin miða einnig að því að opna nýja markaði á heimsvísu með því að gera viðskiptasamninga við mikilvæg lönd um allan heim, eins og Tæland,“ sagði Ingibjörg.

EFTA eru öll Vestur-Evrópuríki en þau sem eru ekki aðilar að Evrópusambandinu (ESB). EFTA ríkin hafa sjálfstæða viðskiptastefnu og sameina krafta sína um að gera viðskiptasamninga og opna markaði um allan heim.

EFTA samanstendur af Íslandi, Liechtenstein, Noregi og Sviss. Það er alþjóðleg stofnun sem sett er á laggirnar til að stuðla að viðskiptum og efnahagslegum samþættingu milli fjögurra aðildarríkja sinna.

Ingibjörg sagði að nálganir EFTA nái yfir ýmis svið eins og vöruskipti, þjónustuviðskipti, rafræn viðskipti, hugverkarétt, opinber innkaup, almenn viðskipti og sjálfbæra þróun.

„EFTA leitast við að setja metnaðarfull ákvæði í viðskiptasamninga og ákvæði um sjálfbærri þróun til tryggingar að samningur sé í samræmi við sjálfbærni, með ákvæði um kolefnislosun hagkerfisins, sjálfbærri stjórnun náttúruauðlinda og að virt séu réttindi launafólks,“ sagði Ingibjörg.

Aðspurð hvers vegna EFTA hefði áhuga á fríverslunarviðræðum við Tæland sagði hún EFTA-löndin lítil og útflutningsmiðuð hagkerfi með sterkt og fjölbreytt hagkerfi, þeir höfðu hins vegnar tiltölulega takmarkaða innri markaði.

„Það er nauðsynlegt að opna nýja markaði til að fá hráefni eða íhluti erlendis að og auka útflutningstækifæri um allan heim,“ bætti Ingibjörg við.

Fríverslunarsamningurinn myndi færi fólk í Evrópu og Tælandi nær með viðskiptum þar sem margir ríkisborgarar frá EFTA-löndunum búa nú í Tælandi og margir Tælendingar búa í EFTA-löndum. Fríverslunarsamningur mun augljóslega auka ferðaþjónustu á milli þessara svæða.

EFTA ríkin eru þegar á meðal helstu fjárfesta í Tælandi og í fararbroddi í grænni tækni og höfðu aðilar því gott tækifæri til að skiptast á upplýsingum til að hjálpa Tælandi að takast á við áskoranir tengdum orku- og loftslagsmálum.

EFTA leitast einnig við að setja fram metnaðarfull ákvæði í viðskipsamninga, stuðla að sjálfbærri þróun til að tryggja að samningurinn verði í samræmi við sjálfbærni, kolefnislosun hagkerfisins, sjálfbæra stjórnun náttúruauðlinda og tryggja að réttindi launafólks séu virt.

Categories
Fréttir

Ingvar Gíslason látinn

Deila grein

19/08/2022

Ingvar Gíslason látinn

Ingvar Gíslason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, er látinn. Ingvar lést sl. miðvikudag á hjúkrunarheimilinu Seltjörn á Seltjarnarnesi, 96 ára að aldri.

Ingvar fæddist í Nesi í Norðfirði 28. mars 1926. Foreldrar hans voru hjónin Gísli Hjálmarsson Kristjánsson útgerðarmaður og Fanný Kristín Ingvarsdóttir húsmóðir.

Ingvar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1947. Hann stundaði nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands 1947-1948 og í sagnfræði við háskólann í Leeds á Englandi 1948-1949. Hann lauk lögfræðiprófi við Háskóla Íslands árið 1956. Héraðsdómslögmaður varð hann 1962.

Ingvar gegndi ýmsum störfum eftir námið og var m.a. skrifstofustjóri Framsóknarflokksins á Akureyri 1957-1963 og stundaði jafnframt ýmis lögfræðistörf.

Ingvar var árið 1961 kjörinn á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn og var alþingismaður Norðurlandskjördæmis eystra frá 1961 til 1987. Árið 1980 var Ingvar skipaður menntamálaráðherra og gegndi því embætti til 1983. Hann var forseti neðri deildar Alþingis á árunum 1978-1979 og 1983-1987. Hann var formaður þingflokks Framsóknarmanna 1979-1980.

Ingvar sat um árabil í stjórn atvinnubótasjóðs, síðar atvinnujöfnunarsjóðs. Hann átti m.a. sæti í rannsóknaráði, í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins og sat í húsafriðunarnefnd 1974-1983.

Ingvar átti sæti í Kröflunefnd 1974-1980. Hann var fulltrúi á þingi Evrópuráðsins 1971-1980 og 1983-1987 og sat nokkur ár í forsætisnefnd þess. Hann var í útvarpsréttarnefnd og í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í mörg ár.

Þá var Ingvar um skeið í úthlutunarnefnd starfslauna rithöfunda. Ingvar var einnig ritstjóri tímarita og blaða, m.a. Stúdentablaðsins, Vikutíðinda og var ritstjóri Tímans 1987-1991. Hann ritaði fjölda greina í blöð og tímarit og birt voru eftir hann nokkur ljóð. Hlaut hann verðlaun í ljóðasamkeppni á vegum menningarmálanefndar Akureyrar 1989. Árið 2016 sendi hann frá sér bókina Úr lausblaðabók – Ljóðævi.

Eiginkona Ingvars var Ólöf Auður Erlingsdóttir, fædd 1928, dáin 2005. Börn þeirra eru: Fanný, Erlingur Páll, Gísli, Sigríður og Auður Inga.

Við Framsóknarfólk minnumst ráðherra og alþingismanns með djúpri virðingu og þakklæti fyrir störf í þágu Framsóknarflokksins og þjóðarinnar.

Framsóknarfólk vottar aðstandendum innilega samúð.

Categories
Fréttir

Tryggja skal eldra fólki samhæfða þjónustu við hæfi á réttu þjónustustigi og á réttum tíma

Deila grein

23/06/2022

Tryggja skal eldra fólki samhæfða þjónustu við hæfi á réttu þjónustustigi og á réttum tíma

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Helgi Pétursson, formaður Landsambands eldri borgara, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk. Þar lýsa þessir aðilar yfir vilja til þess að auka samstarf og samvinnu varðandi málefni eldra fólks með það að markmiði að tryggja eldra fólki samhæfða þjónustu við hæfi, á réttu þjónustustigi og á réttum tíma hvort sem um er að ræða stuðningsþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu á vegum ríkisins.

Skipuð hefur verið verkefnastjórn sem hefur það hlutverk að leiða vinnu við heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk, að stuðla að samvinnu og samhæfingu á milli ráðuneyta, sveitarfélaga og annarra þjónustuaðila, forgangsraða og útfæra tímasett markmið í aðgerðaáætlun til fjögurra ára sem lögð verði fram á Alþingi vorið 2023. Í framhaldi af því skal verkefnastjórnin vinna skipulega að innleiðingu og framkvæmd fyrrgreindrar aðgerðaáætlunar meðal annars með tillögum um hvaða breytingar á lögum og reglugerðum þarf að ráðast í til að ná fram þeim markmiðum sem sett eru fram.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram það markmið að tryggja eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um er að ræða stuðningsþjónustu eða heilbrigðisþjónustu, á forsendum þess sjálfs, á réttu þjónustustigi og á viðunandi tíma. Þverfaglegt samstarf félags- og heilbrigðisþjónustu er grundvallaratriði til að ná fram samlegðaráhrifum fagþekkingar á hvoru sviði fyrir sig og tryggja þannig betri þjónustu við stækkandi þjóðfélagshóp meðal annars með samþættingu á þjónustu, forvörnum, heilsueflingu og aukinni virkni fólks.

Categories
Fréttir

17. júní ávarp formanns!

Deila grein

17/06/2022

17. júní ávarp formanns!

Kæra Framsóknarfólk!

Upp er runninn sautjándi júní, þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga. Landið okkar hefur tekið græna litinn sem fer því svo vel. Og það á ekki einungis við tún, hlíðar og skóga heldur hefur græni liturinn færst yfir samfélagið. Sumir tala um grænu bylgjuna þegar rætt er um árangur Framsóknar í kosningunum í haust og vor. Fyrir ári síðan, í byrjun júní, var fylgi Framsóknar að mælast 10,4% sem var örlítið undir fylgi okkar í þingkosningunum 2017. Við höfðum á því kjörtímabili búið við slakar skoðanakannanir. Í september 2020, réttu ári fyrir þingkosningar, mældumst við með 6,7% fylgi í könnun Gallup. En við misstum ekki móðinn, gleymdum ekki erindi okkar og uppruna, heldur héldum ótrauð áfram að berjast fyrir stefnumálum okkar og hugsjónum.

Árangur Framsóknar hefur ekki orðið að veruleika fyrir einhverja heppni. Að baki þessa árangurs er þrotlaus vinna flokksfólks um allt land. Metnaðarfullir frambjóðendur mega síns lítils ef ekki væri fyrir öfluga grasrót sem leggur nótt við dag í kosningabaráttu fyrir þing- og sveitarstjórnarkosningar.

Á þjóðhátíðardaginn 2022 horfi ég stoltur á árangur okkar í Framsókn. Stoltur af því öfluga fólki sem flokkurinn hefur á að skipa um allt land. Stoltur af þeim krafti sem í fólkinu mínu býr, fólki sem gefst aldrei upp, fólki sem vinnur saman að því að bæta samfélagið okkar.

Ég er þakklátur fyrir það að standa í stafni þessa merka umbótaafls sem Framsókn er.

Ég óska ykkur, kæru félagar, gleðilegs þjóðhátíðardags og vona að sumarið verði ykkur gjöfult og gott.

Kær kveðja, Sigurður Ingi

Categories
Fréttir

Ísland á að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu

Deila grein

14/06/2022

Ísland á að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður Þingflokks Framsóknar, sagði í umræðu um Rammaáætlun á Alþingi í dag að til að geta leyst farsællega úr misflóknum verkefnum verði að hafa þá eiginleika að geta horft til allra átta og geta átt gott samtal og samvinnu.

Rammaáætlun er mikilvægt stjórntæki, eitt af mörgum sem varðar vernd svæða og orkunýtingu, sem vert sé að halda í, efla og styrkja frekar. Hins vegar liggja fyrir fjölmargar athugasemdir um nauðsyn þess að löggjöfin verði endurskoðuð.

Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun verði endurskoðuð frá grunni til að tryggja ábyrga og skynsamlega nýtingu og vernd virkjunarkosta á Íslandi. Í ljósi reynslunnar er mikilvægt að í þá endurskoðun verði ráðist án tafar. Við þá endurskoðun skiptir höfuðmáli að skapa traust á því ferli sem rammaáætlun er, útrýma tortryggni og auka sátt um einstaka virkjunarkosti og forsendur fyrir því að ráðist yrði í nýtingu og vernd þeirra. Enn fremur er mikilvægt að endurskoðað ferli stuðli að markmiðum um orkuöryggi, orkusjálfstæði og sjálfbærni í takt við orkustefnu Íslands.

Ræða Ingibjargar Isaksen:

„Virðulegi forseti!

Ábyrgð okkar sem störfum hér á Alþingi er mikil og fyrir okkur liggja mörg misflókin verkefni. Til að geta leyst farsællega úr þeim þurfum við að hafa þá eiginleika að geta horft til allra átta. Hvort sem er til nútíðar, fortíðar en ekki síður til framtíðar. Að geta átt gott samtal og samvinnu verður oft og tíðum til þess að niðurstaða næst í flókin verkefni – svo var í vinnu tengdum svokölluðum ramma.

Allt í frosti frá 2013

Saman höfum við í umhverfis- og samgöngunefnd loksins náð sátt um ramman sem segja má að legið hafi í frosti allt frá árinu 2013. Þýðingarmikil og langþráð sátt og samstaða hefur nú verið náð, en fyrir nefndina hafa komið fjölmargir gestir og þakka ég þeim fyrir góð innlegg og umræður.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að Ísland eigi að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu. Við viljum að Ísland skipi sér í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsvánni og ætlum okkur að uppfylla ákvæði Parísarsamningsins. Við höfum jafnframt sett okkur markmið um að Íslands nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja.

Orkuskipti eru ríkur þáttur í framlagi Íslands til að ná árangri í baráttunni við loftslagsvánni. En svo þeim markmiðum sé náð verðum við að tryggja aðgang að grænni orku með sjálfbærri þróun að leiðarljósi. Okkar hlutverk er að nýta ekki meira en við þurfum, huga að sjálfbærni og umhverfisvænni lifnaðarháttum. Það er brýnt að við temjum okkur betra og heilbrigðara neyslumynstur.

Mikilvægt er að sátt ríki um þær virkjanir sem þarf til þess að byggja upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag. Mestu skiptir að það verði gert af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins samhliða því að horft sé til betri orkunýtingar, þá þarf að koma í veg fyrir tap á orku úr orkukerfinu ásamt því að bæta nýtingu á þeim virkjunum sem fyrir eru.

Ósvarað um hvaðan orka framtíðarinnar eigi að koma

Rammaáætlunin er mikilvægt stjórntæki sem varðar vernd svæða og orkunýtingu og sem vert er að halda í og styrkja enn frekar. Hún nær yfir helstu orkulindir landsins og í meðferð hennar á að taka tillit til ólíkra hagsmuna á breiðum grundvelli. Rammaáætlun er ætlað að tryggja að nýting landsvæða byggist á langtímasjónarmiðum og víðtæku samráði um verndargildi náttúru og menningar, hagkvæmni og arðsemi.

Mikilvægt er að þróa áfram þetta góða verkfæri okkar í ljósi breyttra áherslna í ferðaþjónustu, samfélaginu, skuldbindingum Íslands og stöðu í heimsmálum.  Ég fagna því að samstaða hafi loks náðist um þau atriðið sem tiltekin eru í nefndaráliti, það er vissulega ekki sjálfgefið.

Stór hluti af landinu er nú þegar í nýtingu eða vernd sem einnig telst til nýtingar. Það er mikilvægt að við nýtum landið okkar af varfærni því við viljum að komandi kynslóðir fái að njóta ósnortinnar náttúru. Okkar dýrmætasti arfur til komandi kynslóða er hrein og tær náttúra, en svo við getum skilað af okkur arfinum með þeim hætti þurfum við að skipuleggja hvernig við göngum um náttúru landsins með skýrri framtíðarsýn.

Vernd og friðun á tilteknum landsvæðum er góðra gjalda verð, en gæta þarf varúðar þegar ákveðið er að friðlýsa stór svæði til framtíðar. Enn er ósvarað um hvaðan orka framtíðarinnar eigi að koma og það er ekki okkar að taka ákvarðanir um það fyrir komandi kynslóðir. Þó að við hér tökum ekki ákvarðanir að friðlýsa tiltekin svæði þýðir það þó ekki að við höfum fyrirætlanir að nýta þau, heldur skiljum við þær ákvarðanir eftir fyrir þingmenn framtíðarinnar.

Orkusjálfstæði þjóða verður sífellt mikilvægara í kvikum heimi og nauðsynlegt að þjóðir geti brugðist hratt við breyttum forsendum.

Í þessu samhengi má þar nefna virkjunarkostir í Skjálfandafljóti, þ.e. Fljótshnúksvirkjun, Hrafnabjargavirkjun A, B og C, en þeir eru í verndarflokki samkvæmt fyrirliggjandi tillögu og telur meiri hlutinn ekki tilefni til að leggja til breytingar á því. Skjálfandafljót er eitt af þeim svæðum þar sem leggja þarf mat á friðlýsingu heilla vatnasviða samhliða endurskoðun á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Ekki er rétt að taka ákvörðun um friðlýsingu heilla vatnasviða fyrr en þetta mat liggur fyrir.

Þá hefur í samræmi við markmið stjórnarsáttmálans kostum í biðflokki verið fjölgað. Betra fer á því að virkjunarkostir séu flokkaðir í biðflokk heldur en verndar eða nýtingarflokk á meðan frekari gagna er aflað. Mikilvægt er að samfélagsleg áhrif og óvissa um raunveruleg áhrif framkvæmda á náttúru og lífríki liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin um hvort svæði eigi að fara í verndar eða nýtingarflokk.

Það að svæði séu flutt í biðflokk þýðir ekki að þau séu sjálfkrafa komin í nýtingarflokk eða verndarflokk heldur er verið að endurmeta og endurskoða þessa kosti, það er langt síðan að fyrri verkefnastjórn gerði tillögu um þessi svæði og síðan hefur margt breyst.

Þá hafa einnig kostir sem ekki áttu heima í biðflokki verið teknir út. Athugasemdir komu fram að fjölmarga virkjunarkosti væri að finna í biðflokki áætlunarinnar sem enginn virkjunaraðili hafi óskað eftir mati á. Má þar nefna meðal annars virkjunarkosti á Torfajökulssvæðinu, í laxveiðiám á Austurlandi og aðra kosti sem Orkustofnun hefur að eigin frumkvæði og á grundvelli heimildar í lögum nr. 48/2011 falið verkefnisstjórn að fjalla um.

Um er að ræða 28 virkjunarkosti, ýmist til nýtingar vatnsafls eða jarðhita. Ástæða þess að viðkomandi virkjunarkostir eru flokkaðir í biðflokk er fyrst og fremst sú að ekki eru til nægjanleg gögn um viðkomandi virkjunarkost og því ekki nægilegar forsendur til að hægt sé að leggja til flokkun í verndarflokk eða nýtingarflokk.

Á meðan virkjunarkosturinn flokkast í biðflokk eru hins vegar takmörk lögð á aðra landnýtingu á svæðinu. Þannig eru dæmi um að ekki sé hægt að friðlýsa virkjunarkosti í verndarflokki gegn orkuvinnslu þar sem virkjunarkostur innan sama svæðis er í biðflokki.

Því mætti segja að viðkomandi virkjunarkostur sé að vissu leyti fastur í biðflokki þar sem enginn virkjunaraðili er að vinna í þróun hans, og þar á meðal öflun nauðsynlegra gagna til að hægt sé að leggja til endanlega flokkun í vernd eða nýtingu. Því leggur meiri hlutinn til sem hluti af þeirri sátt sem mikilvægt er að náist um áætlunina að fella þessa tilteknu kosti úr áætluninni þar sem enginn virkjunaraðili stendur að baki þeim. Þetta tel ég vera mikilvægt og nauðsynlegt skref.

Framtíðin býr í vindinum

Þá er beislun vindorku loksins komin á dagskrá fyrir alvöru. Fjölbreytni í orkuöflun stuðlar að bættu orkuöryggi og sveigjanleika orkukerfisins. Þó að Ísland búi enn yfir óbeisluðu vatnsafli og jarðvarma, er skynsamlegt að auka fjölbreytni í orkugjöfum með hagnýtingu vindorku og annarra nýrra endurnýjanlegra orkukosti fyrir raforkuvinnslu.

Vindorka er bæði hagkvæm og endurnýjanleg og sem slík einn af betri kostum til framtíðar orkuvinnslu. Í fyrirliggjandi tillögu er í fyrsta sinn að finna virkjunarkosti í vindorku. Vindorkukostinum í Búrfellslundi er raðað í biðflokk í fyrirliggjandi tillögu með þeim rökum að hann sé á röskuðu svæði sem hafi lágt verndargildi en áhrif hans á ferðamennsku og útivist séu hins vegar mikil.

Meirihluti nefndarinnar leggur þó til að virkjunarkosturinn verði færður úr biðflokki í nýtingarflokk með þeim rökum að virkjunarkosturinn er á hendi opinbers fyrirtækis og á svæði sem er þegar raskað og með lágt verndargildi. Auk þess sem sjónræn áhrif eru töluvert minni en upphaflega var áætlað. Þá telur meirihlutinn að Búrfellslundur geti verið mikilvægur hluti þess að tryggja betur nýtingu þeirra vatnsaflsvirkjana sem fyrir eru á svæðinu auk þess sem það rennir styrkari stoðum undir orkuöryggi.

Öll sú orka sem býr í vindinum getur verið lykilþáttur þegar kemur að því að tappa af þeim þrýstingi sem skapast hefur á kerfið síðustu ár vegna tafa í afgreiðslu á rammanum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að setja eigi sérstök lög um nýtingu vindorku með það að markmiðið að einfalda uppbyggingu vindorkuvera. Leggja á áherslu á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verður að tryggja afhendingaröryggi og lágmarka umhverfisáhrif. Framtíðin býr svo sannarlega í vindinum.

Í dag státar engin önnur þjóð af jafn háu hlutfalli grænnar orku af heildarorkunotkun og við Íslendingar gerum. Af því getum við verið stolt. Langan tíma tekur að virkja nýja orkukosti, langtímaáætlanir þurfa að gera ráð fyrir orkukostum til að mæta framtíðarþörfum og auka þannig fyrirsjáanleika og stöðugleika. Því skiptir gríðarlegu máli að sátt hafi náðst um þann ramma sem við leggjum fram hér í dag. Takk fyrir góða vinnu.“

Categories
Fréttir

Störf þingsins: Stefán Vagn og Ágúst Bjarni

Deila grein

14/06/2022

Störf þingsins: Stefán Vagn og Ágúst Bjarni

Stefán Vagn Stefánsson og Ágúst Bjarni Garðarsson voru í störfum þingsins á Alþingi í dag.

Stefán Vagn ræddi löggæslumál og stöðu löggæslunnar á Íslandi. Fór hann yfir að mat sitt væri að þær breytingar að lögregluembættin fengu sérstakan lögreglustjóra hafi verið mikið gæfuspor og lyft lögreglunni og löggæslunni upp á annan og miklu betri stall. En það veki undrun sína með nýju lögregluráði að ekki er einn einasti lögreglumaður í því lögregluráði. Mikilvægt væri að rödd lögreglumanna fái að heyrast á slíkum samráðsvettvangi þegar verið er að ræða um framtíð og stefnu lögreglunnar til komandi ára.

Ágúst Bjarni sagði það mikilvægt og nauðsynlegt að tryggja hér öfluga uppbyggingu um land allt, samvinnuverkefnið milli ríkis og sveitarfélaga og sagðist hann fagna þeim aðgerðum sem ríkið hefur boðað í þeim efnum til að tryggja að svo verði. Nefndi hann að spennan sem er nú á markaðnum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, hafi margvísleg áhrif á heimili og stöðu þeirra. Ákveðnir hópar hafa verið að stækka við sig og spennt bogann og hækkandi vaxtastig hafi haft veruleg áhrif á mánaðarlegar greiðslur þess hóps og auðvitað annarra. Vill hann hvetja sveitarfélög til að stilla álagningarstuðulinn af með þeim hætti að hækkunin bitni ekki öll á íbúum sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafi til þess fullt vald.

Stefán Vagn Stefánsson í störfum þingsins:

„Virðulegur forseti. Það sem mig langar að gera að umtalsefni mínu hér í ræðu í dag eru löggæslumál og staða löggæslunnar á Íslandi. Sá málaflokkur er reyndar efni í umræðu í heilan dag en mig langar að taka eitt mál sérstaklega til umfjöllunar úr þeim fjölmörgu álitaefnum sem koma til greina þegar lögreglan er annars vegar.

Sameining lögregluembættanna og aðskilnaður við sýslumenn 2015 var mikið framfaraskref fyrir lögregluna. Ég vil meina að þær breytingar að lögregluembættin fengu sérstakan lögreglustjóra hafi verið mikið gæfuspor og lyft lögreglunni og löggæslunni upp á annan og miklu betri stall. Þær breytingar tókust almennt vel þó svo að í slíkum breytingum séu alltaf einhverjir hnökrar sem þarf að laga, en núna árið 2022 eru þeir flestir ef ekki allir í baksýnisspeglinum. Engin stofnun er þó sterkari en starfsfólkið sem í henni starfar. Mikill mannauður er í lögreglunni og það er mikilvægt að hlúa vel að starfsmönnum og tryggja að þeir geti þroskast og eflst í starfi, sér og embættunum til framdráttar. Með nýju lögregluráði var komið á samstarfsvettvangi lögreglustjóra um framtíð og stefnu löggæslunnar til komandi ára. Það er vel. Það er þó eitt sem vekur undrun mína og hefur gert frá stofnun lögregluráðs, það er einfaldlega sú staðreynd að ekki er einn einasti lögreglumaður í því lögregluráði. Það er mikilvægt að rödd lögreglumanna fái að heyrast á slíkum samráðsvettvangi þegar verið er að ræða um framtíð og stefnu lögreglunnar til komandi ára.

Virðulegur forseti. Ég skora á dómsmálaráðherra að gera bragarbót á því og tryggja að rödd lögreglumanna, fagstéttarinnar, fái að heyrast í lögregluráði í framtíðinni og gera breytingar sem til þarf á lögregluráði svo lögreglan muni eiga fulltrúa þar í framtíðinni.“

***

Ágúst Bjarni Garðarsson í störfum þingsins:

„Virðulegur forseti. Ég vil gera stöðuna á húsnæðismarkaði að umtalsefni mínu og hef svo sem gert það áður í þessum ræðustól. Það er mikilvægt í ljósi þeirrar stöðu sem við öll stöndum frammi fyrir og það er nauðsynlegt og samvinnuverkefni milli ríkis og sveitarfélaga að tryggja hér öfluga uppbyggingu um land allt. Ég fagna þeim aðgerðum sem ríkið hefur boðað í þeim efnum til að tryggja að svo verði. Það þarf að stytta alla ferla — ég þekki það bara af eigin raun og ég held að við könnumst öll við það sem hér erum inni — án þess auðvitað að það bitni á vinnubrögðum framkvæmdaraðila. Í þessu samhengi er mikilvægt að treysta þær stofnanir sem mikilvægar eru svo tillögur að uppbyggingu fái sanngjarna og faglega meðferð og afgreiðslu. Við sjáum það öll að það álag sem er nú á markaðnum, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, hefur margvísleg áhrif á heimili og stöðu þeirra. Ákveðnir hópar hafa verið að stækka við sig og spenna bogann, ef svo má segja, og hækkandi vaxtastig hefur haft veruleg áhrif á mánaðarlegar greiðslur þess hóps og auðvitað annarra. Við sjáum það núna á nýlegri hækkun á miklu fasteignamati og ég held að það sé rétt í því sambandi að hvetja sveitarfélög til að stíga þar inn og — hvað segir maður? — éta þessa hækkun ekki í einum bita heldur stilla álagningarstuðulinn af með þeim hætti að hækkunin bitni ekki öll á íbúum sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafa til þess fullt vald.“

***

Categories
Fréttir

Störf þingsins: Halla Signý og Jóhann Friðrik

Deila grein

09/06/2022

Störf þingsins: Halla Signý og Jóhann Friðrik

Halla Signý Kristjánsdóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson voru í störfum þingsins á Alþingi í dag. Halla Signý segir Vestfirðinga eiga Íslandsmet í þolinmæði er kemur að samgöngubótum en nú hillir loks undir aðgerðir enda fullfjármagnaðar framkvæmdir komnar á rekspöl. Metnaðarfullar samgönguáætlanir á Vestfjörðum upp á 20 milljarða kr. eru nú á áætlun í samræmi við samgönguáætlun til 2024.

Jóhann Friðrik benti á að áfengislög eru frá 1998 og að margt breyst frá þeim tíma, ekki síst á sviði forvarna og rannsókna. Lagði hann áherslu á mikilvægi þess að fram fari heildarendurskoðun á áfengislögum með að markmiði að taka tillit til samkeppnissjónarmiða, misræmis á milli innlendra og erlendra aðila, en fyrst og síðast sjónarmiða er snúa að forvörnum, áhrifum áfengisneyslu á börn og unglinga og lýðheilsu í landinu.

Halla Signý Kristjánsdóttir í störfum þingsins:

„Virðulegi forseti. Við Vestfirðingar, líkt og íbúar annarra landshluta, erum háð greiðum samgöngum í okkar daglega lífi alla daga ársins. Með samþjöppun grunnþjónustu og stærri atvinnusvæðum skiptir enn meira máli en áður að hafa greiðar samgöngur og sú þróun er ekki að fara að breytast næstu áratugi. Vestfirðingar eiga örugglega Íslandsmet í þolinmæði þegar kemur að samgöngubótum og nú er útlit fyrir að þeir sem búa og starfa á Vestfjörðum geti farið að anda léttar. 20 milljarða kr. metnaðarfullar samgönguáætlanir á Vestfjörðum eru nú í áætlun og fullfjármagnaðar í samræmi við fimm ára samgönguáætlun, 2020–2024. Upphafið var stórframkvæmd við Dýrafjarðargöng sem kallar á enn meiri framkvæmdir. Já, við skulum tala um Dynjandisheiðina. Framkvæmdir við mikilvægar endurbætur á Vestfjarðavegi um Dynjandisheiði eru þegar hafnar. Í síðustu viku var auglýst útboð á 13 km kafla sem skal vera lokið árið 2024. Þegar þessum kafla lokið erum við að sjá nýframkvæmdir á 25 km kafla á heiðinni. Frá opnun Dýrafjarðarganga hefur ekki alltaf verið auðvelt að halda veginum um heiðinna opnum yfir verstu vetrarmánuðina. Uppbygging vegarins bætir aðstæður til vetrarþjónustu og þegar hann verður tilbúinn verður það raunverulegur möguleiki að halda greiðum samgöngum milli norður- og suðursvæðis allt árið um kring.

Virðulegi forseti. Enn eitt stóra verkefnið er hafið í Gufudalssveit. Það hillir undir að vegur um Teigsskóg verði að veruleika. Vinna við veginn hafin og þar með er séð fyrir áratugadeilur um vegstæðið. Það er ánægjulegt að sjá að þeir sem fengu verkið eru meðvitaðir um að það er verið að vinna á ósnortnu landi og hafa það að leiðarljósi að lágmarka röskun. Víðar er verið að vinna að endurbótum í fjórðungnum og samtals er verið að vinna á nærri 18 km kafla á þessu svæði. Allar þessar endurbætur eru mikilvægar fyrir okkur, hvort sem við búum á Vestfjörðum eða annars staðar á landinu.“

Jóhann Friðrik Friðriksson í störfum þingsins:

„Virðulegi forseti. Eitthvert vinsælasta viðfangsefni hér á þingi ár eftir ár snýr að áfengislöggjöfinni í landinu. Enginn þarf að velkjast í vafa um þá staðreynd að áfengi er alls ekki eins og hver önnur vara. Heilsufarslegur og samfélagslegur skaði af áfengisneyslu er gríðarlegur og veldur umtalsvert meiri skaða en öll önnur vímuefni, enda eina löglega vímuefnið á markaði. Sem betur fer nota flestir áfengi í hófi en rannsóknir sýna að hömlur á aðgengi skila árangri í þeirri viðleitni stjórnvalda að lágmarka óæskileg áhrif á lýðheilsu í landinu. Sem dæmi um frumvörp sem snúa að breytingum á áfengislögum og koma upp í hugann má nefna frumvarp um aðkomu sveitarfélaga að staðarvali áfengisverslana, sala áfengis á framleiðslustað, frumvarp um sölu áfengis á sunnudögum og leyfi til sölu áfengis í íslenskum netverslunum. Mér að vitandi liggur ekki lýðheilsumat til grundvallar þessum frumvörpum. Myndi það vera verulega til bóta og mun ég því leggja slíkt til.

Virðulegi forseti. Sjálfur er ég hlynntur frelsi með ábyrgð og vill því taka fram að í 1. gr. áfengislaga segir, með leyfi forseta: „Tilgangur laga þessara er að vinna gegn misnotkun áfengis.“ Lögin eru frá 1998, en frá þeim tíma hefur margt breyst, sér í lagi á sviði forvarna og rannsókna. Ég tel því mikilvægt að farið verði í heildarendurskoðun á áfengislögum með það að markmiði að taka tillit til samkeppnissjónarmiða, misræmis á milli innlendra og erlendra aðila, en fyrst og fremst þeirra sjónarmiða er snúa að forvörnum, áhrifum áfengisneyslu á börn og unglinga og lýðheilsu í landinu.“

Categories
Fréttir

Treystum atvinnu og byggð um land allt

Deila grein

09/06/2022

Treystum atvinnu og byggð um land allt

Ingibjörg Isaksen og Stefán Vagn Stefánsson töluðu fyrir hönd Framsóknar í eldhúsdagsumræðum á Alþingi.

Ingibjörg talaði um orkumál, fæðuöryggi og heilbrigðismál. Hún sagði að á síðustu árum hafi verið gríðarlegt álag á heilbrigðiskerfið en það væri ekkert nema fyrir mannauðinn sem þar starfar.

Takk, framlínufólk í heilbrigðiskerfinu!

Covid faraldurinn reyndi mikið á framlínufólkið í heilbrigðiskerfinu, sem lagði á sig ómælda vinnu. Samstaða þess og ósérhlífni hélt heilbrigðiskerfinu gangandi. Sagði hún að við getum seint þakkað þeim nægilega. Nýtti hún tækifærið og sagði takk!

Nauðsynlegt að gefa út ný virkjanaleyfi

Hún sagði að það sé Alþingis að standa vaktina að ná kolefnishlutleysi. Það þurfi fjölbreyttar lausnir í orkumálum; nýjar virkjanir og styrking núverandi virkjana. Nauðsynlegt sé að gefa út ný virkjanaleyfi, því vernd og virkjun geti haldist í hendur. Hún sagði nóg af grænni orku sem mætti nýta í sátt við náttúruna.

Ingibjörg sagði afleiðingar stríðsins í Úkraínu hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir bændur. Það geti leitt til þess að framboð á innlendri vöru dragist saman og leitt til þess að fæðuöryggi verði í hættu. Það þurfi að bregðast við.

Samtal og samvinna leiðarljós í þágu samfélagsins alls

Stefán Vagn fór yfir það sem ríkisstjórninni hefur tekist vel upp með og að nú þurfi að halda áfram. Með samtali og samvinnu að leiðarljósi vinnum við best í þágu samfélagsins alls. Fólk á ekki að sæta mismunun vegna búsetu í neinni mynd og hvað þá innan stjórnsýslunnar.

Byggðamál og byggðaþróun eru málaflokkar sem við eigum að gera hátt undir höfði. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa skref verið stigin í átt að jöfnun búsetuskilyrða.

Búsetuskilyrði jöfnuð enn frekar með skattkerfinu

Stefán Vagn nefndi t.d. verkefnið „Óstaðbundin störf“ og að tryggja þurfi góðar samgöngur um allt land því það skapi fleiri atvinnutækifæri. Hann ræddi hvort ekki væri kominn tími til að nýta skattkerfið til að jafna búsetuskilyrði enn frekar og aðstöðumun fólks í dreifðari byggðum. Þannig mætti t.d. hvetja lítil og meðalstór fyrirtæki áfram utan höfuðborgarsvæðisins.

Stefán Vagn sagði engan tíma mega missa að bregðast við vanda bænda, og að mikilvægt sé að taka samtalið en á sama tíma bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum. Það sé mikilvægt til þess að ná árangri.