Categories
Fréttir Greinar

Ferðamálastefna til fram­tíðar

Deila grein

28/05/2024

Ferðamálastefna til fram­tíðar

Nú er sumarið komið og farfuglarnir sem koma með vélknúnum farartækjum til landsins farnir að fara á stjá. Það má með sanni segja að ferðaþjónustan sé orðin lykilatvinnugrein hér á landi og þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustu hefur aukist ár frá ári. Fjöldi fólks starfar í greininni auk þess sem hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu fer sífellt stækkandi. Aukning í komu ferðamanna til landsins er góð en kallar á sama tíma eftir á skýrri framtíðarsýn í málefnum ferðaþjónustunnar.

Sameiginleg stefnumótun

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra lagði af því tilefni fyrr í þessum mánuði fram ferðamálastefnu til ársins 2030. Meginmarkmið ferðamálastefnunnar og aðgerðaáætlun henni tengdri er að tryggja framtíðarsýn í greininni og styðja við sjálfbærni í ferðaþjónustu á öllum sviðum. Þessi stefna er unnin á breiðum grunni og í virku samráði við hagaðila. Skipaðir voru sjö hópar sem falið var að vinna tillögur að aðgerðum inn í aðgerðaáætlun ferðamálastefnu. Afraksturinn er stefnumótun í greininni sem kemur jafnt frá stjórnvöldum og atvinnugreininni sem endurspeglar sameiginlegar áherslur og sýn til framtíðar. Fullyrða má að aldrei fyrr hafi jafn ítarlegt samráð átt sér stað við stefnumótun á sviði ferðaþjónustu hér á landi, segja má að það sé forsenda fyrir því að vel takist til með þessa lykilatvinnugrein okkar.

Markmið og stefna

Í stefnunni má finna skýra framtíðarsýn, markmið og áherslur auk aðgerðaráætlunar í 43 skilgreindum aðgerðum til þess að fylgja eftir stefnunni. Lögð er áhersla á samþættingu milli fjögurra lykilstoða, efnahags, samfélags, umhverfis og gesta. Það er, lögð er áhersla á aukna framleiðni í ferðaþjónustu, verðmætasköpun og samkeppnishæfni um land allt ásamt því að tyggja framþróun sem byggir á tækni, gögnum, nýsköpun, vöruþróun, mannauði og menntun. Þá er lögð áhersla á jákvæð áhrif ferðaþjónustu á nærsamfélög ásamt því að tryggja aukin lífsgæði um land allt. Eitt af markmiðunum stefnunnar að efla sjálfbær samfélög, uppbyggingu áfangastaða og dreifingu ferðamanna um landið allt árið um kring. Í samræmi við kröfur nútímans er að sjálfsögðu lögð rík áhersla á umhverfisvernd, minna kolefnisspor og orkuskipti. Sérstök áhersla er lögð á að fagmennska, gæði og öryggi einkenni íslenska ferðaþjónustu og upplifun gesta sé í samræmi við væntingar og náttúru.

Opið gagnarými fyrir ferðaþjónustu

Eitt af þeim atriðum sem mér líst afar vel á í stefnunni er opið gagnarými fyrir ferðaþjónustuna. Markmiðið með gagnarýminu er að þjóna hagaðilum innan ferðaþjónustunnar og afleiddum greinum með tryggu aðgengi að áreiðanlegum, opnum, samþættanlegum og stafrænum gögnum. Gagnarými sem þetta styður við gagnadrifna ákvörðunartöku, virka notkun á Jafnvægisás ferðaþjónustunnar, rannsóknir, greiningar og nýsköpun. Það mun gera öll opinber gögn sem tengjast ferðaþjónustu aðgengileg og taka á móti gögnum sem nýst geta atvinnugreininni, þar með talið frá einkaaðilum. Um er að ræða verkfæri sem kemur til með að nýtast til margs góðs.

Álagsstýring á áfangastöðum

Mikill árangur hefur náðst í að bæta aðstöðu á ferðamannastöðum á síðustu árum, bæði að frumkvæði stjórnvalda og einkaaðila. En betur má ef duga skal ef bregðast á við þeim áskorunum sem hröð fjölgun ferðamanna hefur haft í för með sér. Í stefnunni er því lagt til að útfæra fyrirkomulag álagsstýringar til þess að sporna við of miklu álagi og bæta flæði umferðar ferðamanna þar sem þörf er á. Markmiðið með álagsstýringunni er að stýra og jafna álag á áfangastöðum ferðamanna, svo vernda megi viðkvæma náttúru, menningarminjar og innviði og leitast við að koma í veg fyrir neikvæða upplifun gesta og heimamanna. En þannig má stuðlað að sjálfbærri þróun áfangastaða.

Samstarf um móttöku skemmtiferðaskipa og innviðagjald

Komur skemmtiferðaskipa til landsins hafa aukist verulega á undanförnum árum og þau hafa getu til að koma víðar við en vegakerfi landsins býður upp á. Ágangur ferðamanna um svæði getur verið vandamál. Hér vil ég sérstaklega nefna landtöku skemmtiferðaskipa inn á friðlýst svæði. Það er því sérstaklega ánægjulegt að í stefnunni sé fjallað um samstarf um móttöku skemmtiferðaskipa og nýtingu innviða. En stofna á samstarfshópa sveitarfélaga og ferðaþjónustu í hverjum landshluta sem vinni eiga að greiningu og móti stefnu landshlutans um umgjörð og komur skemmtiferðaskipa og landtöku utan hafna. Er hlutverk þeirra meðal annars að skoða þörf á álagsstýringu og uppbyggingu innviða.

Þá á að hefja sérstaka gjaldtöku á komur erlendra skemmtiferðaskipa og eiga þær tekjur að renna til uppbyggingar innviða á sviði ferðaþjónustu. Erlend skemmtiferðaskip hafa hingað til almennt greitt takmarkaða skatta til íslenska ríkisins, helst hefur verið um að ræða þjónustugjöld á borð við hafnargjöld til hafnarsjóðs, vitagjald og farþegagjald fyrir hvern farþega og nú ný nýlega gistináttagjald. Með þessu hafa skemmtiferðaskip haft ákveðið samkeppnisforskot á innlenda ferðaþjónustu en farþegar skipanna njóta með líkum hætti íslenskrar náttúru og innviða og aðrir ferðamenn sem eru hér á landi. Með þessum hætti er verið að jafna samkeppnisstöðu innlendra og erlendra fyrirtækja í ferðaþjónustu ásamt því að efla verðmætasköpun sem fjármagnar og stuðlar að aukinni uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu.

Tímamót á sviði ferðaþjónustu

Stefnan inniheldur líkt og fyrr segir marga aðra þætti og aðgerðaráætlanir. Ég hvet áhugasama til þess að kynna sér hana frekar enda um að ræða stórt og áhugaverða tillögu og ekki hægt í einni grein að fjalla um alla þætti hennar. En segja má að með framlagningu þessarar heildstæðu stefnu sé um að ræða ákveðin tímamót á sviði ferðaþjónustu á Íslandi. Fjöldinn allur af hagaðilum hefur sett mark sitt á þessa stefnu og mikilvægast er að hún er unnin sátt og samráði. Ég bind vonir við að okkur beri gæfa til að klára að afgreiða hana á þessu þingi, enda jafn mikilvæg fyrir ferðaþjónustuna, land og þjóð.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. maí 2024.

Categories
Fréttir

„Blómlegt fram undan í barnamenningu“

Deila grein

27/05/2024

„Blómlegt fram undan í barnamenningu“

Tilkynnt hefur verið um úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands fyrir árið 2024. Sjóðurinn styrkir 41 metnaðarfullt verkefni og er heildarupphæð úthlutunarinnar 102,4 milljónir króna. Alls bárust 117 umsóknir og var sótt um 383 milljónir króna. Úthlutun var tilkynnt við athöfn í Safnahúsinu á degi barnsins, sunnudaginn 26. maí 2024.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra og Guðný Hilmarsdóttir formaður stjórnar Barnamenningarsjóðs ávörpuðu gesti og greindu frá úthlutun. Kammersveit skipuð ungum listamönnum, þeim Sigrúnu Mörtu Arnaldsdóttur, Sólu Björnsdóttur og Sveindísi Eir Steinunnardóttur, lék tvö lög við góðar undirtektir.

„Það er blómlegt fram undan í barnamenningu og gleður mig ósegjanlega mikið að sjá hversu margar umsóknir bárust. Það segir okkur að efling ungra listhuga er eftirsóknarvert viðfangsefni hjá listafólkinu okkar sem lýsir metnaði fyrir skapandi framtíð landsins og það mun skila sér margfalt til baka til okkar allra. Því langar mig að þakka öllum þeim er sóttu um, fyrir hugmyndirnar og kraftinn því það er ekki alltaf auðsótt að koma hugmyndum í framkvæmd og það krefst eldmóðs sem er svo sannarlega til staðar hér,“ sagði Lilja Dögg.

Hæsta styrkinn 11,5 milljónir, fær Reykjavíkurborg í samstarfi við Akureyrar- og Ísafjarðarbæ fyrir Leikskólaverkefnið sem byggir á samstarfi leik- og tónlistarskóla í öllum þremur sveitarfélögunum. Nemendur í tónlistarskóla vinna með elstu börnum leikskóla og lýkur verkefninu með sameiginlegum lokatónleikum. Næsthæsta styrkinn, 6 milljónir, fær Vestfjarðarstofa fyrir barnamenningahátíð Vestfjarða, Púkann 2025, en hátíðin fer fram vítt og breitt um Vestfjarðakjálkann. Þriggja manna fagráð fjallaði um umsóknirnar og menningarmálaráðherra samþykkti tillögu stjórnar sjóðsins um úthlutun.

Barnamenningarsjóður Íslands var stofnaður í tilefni aldarafmælis fullveldisins með ályktun Alþingis á hátíðarfundi 18. júlí 2018. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Í starfi sjóðsins er m.a. horft til áherslu menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga, ásamt því markmiði að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Sjóðurinn var festur í sessi 23. maí 2023 með Þingsályktun um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024–2028.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir Greinar

Vel gert!

Deila grein

26/05/2024

Vel gert!

Nú í liðinni viku var undirritaður nýr samningur til fimm ára milli Sjúkratrygginga Íslands og Félags sjúkraþjálfara. Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar hafa starfað án samnings frá því í janúar 2020 og hefur samningsleysið á þeim tíma bitnað á notendum þjónustunnar. Hér er um að ræða mikilvæg tímamót og ber að þakka samningsaðilum fyrir góða vinnu og Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra fyrir tryggja enn einn samninginn sem hefur það að markmiði að bæta hag landsmanna og tryggja jöfnuð.

Nýr samningur

Það er ljóst að samningurinn kemur til með að bæta aðgengi og hag þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda. Öll aukagjöld sem lögð hafa verið á þjónustuþega munu falla niður frá og með 1. júní nk. en nýr samningur mun taka að fullu gildi þann 1. október 2024 með fyrirvara um samþykki sjúkraþjálfara. Langtímasamningur sem þessi veitir sjúkraþjálfurum langþráðan stöðugleika til að styrkja og skipuleggja sín störf á komandi árum. Í samningnum er lögð áhersla á gæðastarf og upplýsingaöflun til að styðja við forgangsröðun og mótun þjónustunnar. Einnig er horft til þess að efla möguleika til fjölbreyttari þjónustuleiða til að mæta ólíkum þörfum skjólstæðinga og auka gæði. Áhersla er lögð á þróunarverkefni tengd samningnum er geta m.a. snúið að þarfagreiningum sem og nýsköpunarverkefnum.

Það má með sanni segja að þessi nýi samningur marki þýðingarmikið skref í átt að betri og aðgengilegri heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn. Sjúkraþjálfarar sinna mikilvægri þjónustu og þetta vita þeir sem hafa þurft að leita til þeirra. Þeir spila lykilrullu við að koma í veg fyrir eða draga úr afleiðingum áverka, álagseinkenna, sjúkdóma og lífsstíls sem raskað geta lífi einstaklingsins og eru mikilvægur þáttur við að viðhalda lýðheilsu þjóðarinnar.

Jákvæð áhrif

Samkvæmt upplýsingum Sjúkratrygginga sóttu rúmlega 62.000 einstaklingar þjónustu sjúkraþjálfara á liðnu ári. Heimsóknirnar voru mun fleiri, eða um 928.000. Fyrirséð er að þörfin kemur aðeins til með að aukast á komandi árum með breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og auknum kröfum um lífsgæði og virkni. Samningurinn er í samræmi við stefnu stjórnvalda um að fjárfesta í fólki. Þjónusta sjúkraþjálfara getur verið lykilþáttur í því að auðvelda eldra fólki að búa sem lengst heima ásamt því að koma fólki aftur í virkni eða viðhalda henni.

Það eru sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, efnahagslegir og félagslegir, að lögð sé aukin áhersla á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðismál. Heilbrigði snýst ekki aðeins um öfluga heilbrigðisþjónustu heldur það að gera fólki betur kleift að huga að eigin heilsu með því að nýta alla þá þekkingu og öll þau úrræði sem eru til staðar í samfélaginu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Samningar við sjúkraþjálfara í höfn

Deila grein

24/05/2024

Samningar við sjúkraþjálfara í höfn

Á meðan blekið er enn að þorna á stór­um samn­ing­um fyr­ir heil­brigðis­kerfið okk­ar þá mund­ar heil­brigðisráðherra, Will­um Þór Þórs­son, penn­ann á ný. Það fór ekki fram­hjá mörg­um þegar samið var við sér­greina­lækna og er fólk farið að finna fyr­ir já­kvæðum áhrif­um þess samn­ings. En nú hef­ur einnig verið samið við sjúkraþjálf­ara eft­ir fjög­urra ára samn­ings­leysi. Um er að ræða mik­il­væga samn­inga og tals­verða kjara­bót fyr­ir fólk sem þarf að sækja þjón­ustu sjúkraþjálf­ara.

Not­end­ur í fyrsta sæti

Með nýj­um lang­tíma­samn­ing­um við sjúkraþjálf­ara falla niður auka­gjöld sem not­end­ur þjón­ust­unn­ar hafa greitt á tím­um samn­ings­leys­is. Samn­ing­ur­inn stuðlar að bættu aðgengi að þjón­ust­unni og að aukn­um jöfnuði. Það á eng­inn að neyðast til þess að neita sér um þjón­ustu af þessu tagi sök­um kostnaðar en mark­mið samn­ings­ins er einnig að koma í veg fyr­ir slík til­vik.

Veru­lega bætt aðgengi að þjón­ustu sjúkraþjálf­ara hef­ur já­kvæð áhrif bæði á not­end­ur henn­ar og sam­fé­lagið allt til framtíðar. Meðal ann­ars í ljósi þess að starf sjúkraþjálf­ara felst til að mynda í fyr­ir­byggj­andi meðferð eins og að draga úr af­leiðing­um áverka, álags­ein­kenna, sjúk­dóma og lífs­stíls sem með trufl­un á hreyf­ingu geta raskað lífi ein­stak­lings­ins.

Ekki vanþörf á

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Sjúkra­trygg­ing­um Íslands hafa næst­um 42.000 manns sótt þjón­ustu sjúkraþjálf­ara á þessu ári. Í fyrra sóttu rúm­lega 62.000 ein­stak­ling­ar þjón­ust­una og heim­sókn­irn­ar voru um 928.000 tals­ins. Það eru kring­um 14,9 heim­sókn­ir á hvern ein­stak­ling. Það gef­ur auga­leið að tals­verður fjöldi lands­manna þarfn­ast þjón­ustu af þessu tagi til að fá bót meina sinna. Það verður al­mennt að fara oft til sjúkraþjálf­ara og vinna í skref­um. Allt þetta leiðir til þess að fram­an­greind auka­gjöld, sem þess­ir samn­ing­ar fella niður, geta reynst mjög há að öllu sam­an­lögðu.

Framþróun sjúkraþjálf­un­ar

Ásamt þessu er kveðið á í samn­ing­um þess­um að unnið verði að út­færslu ým­issa úr­bóta- og þró­un­ar­verk­efna ásamt því að lögð er áhersla á efl­ingu gæðastarfs með því að veita hvata til þess að sjúkraþjálf­ar­ar vinni inn­an svo­kallaðra starfs­heilda sem einnig munu ann­ast skipu­lagn­ingu og eft­ir­lit með þjón­ust­unni.

Allt þetta trygg­ir frek­ari gæði þjón­ust­unn­ar sem sjúkraþjálf­ar­ar veita, not­end­um og starfs­stétt­inni sjálfri til hags­bóta.

Fjöldi mik­il­vægra samn­inga

Það hef­ur verið nóg að gera inn­an veggja heil­brigðisráðuneyt­is­ins og Sjúkra­trygg­inga Íslands. Þar hef­ur verið unn­in þrot­laus vinna á þessu kjör­tíma­bili við að klára viðræður við mik­il­væg­ar starfstétt­ir í heil­brigðis­geir­an­um, ná samn­ing­um og binda enda á samn­ings­leys­is­tíma­bil. Samn­ing­ar við sér­fræðilækna, sjúkra­liða og samn­ing­ur um tann­læknaþjón­ustu eru góð dæmi um vinnu sem vert er að fagna. Þess­ir samn­ing­ar og þau verk­efni sem tengj­ast þeim eru not­end­um til veru­legra hags­bóta þegar horft er á stóru mynd­ina. Þeir eru til þess falln­ir að auka aðgengi fólks að nauðsyn­legri þjón­ustu og stuðla að jafn­vægi í sam­fé­lag­inu.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Lík­hús

Deila grein

23/05/2024

Lík­hús

Við á Íslandi eigum við ákveðinn húsnæðisvanda að etja og á það ekki aðeins við um íbúðarhúsnæði. Líkhús og líkgeymslur eru hús sem flestir þurfa afnot af þegar yfir lýkur en það virðist hvorki vera mikill áhugi á að eiga slík hús né á að reka þau.

Á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri sjá kirkjugarðarnir alfarið um þetta verkefni. Á öðrum stöðum hefur samfélagið leyst verkefnið með ólíkum hætti. Oftar en ekki hafa líknarfélög tekið þátt í stofnkostnaði og eru líkgeymslur þar ýmis í húsnæði á vegum kirkju, ríkis eða sveitarfélaga, oft í tengslum við heilbrigðisstofnanir. Í einhverjum tilvikum reka einkaaðilar líkhús og þá oft og tíðum líkhús sem einhver af þessum aðilum hefur komið á fót. Í sumum tilvikum tengjast kapellur eða sambærileg herbergi líkgeymslunum.

Þróun síðustu ára

Á síðustu árum hefur líkgeymslum fækkað, með bættum samgöngum, sameiningu sveitarfélaga og sókna. Samfara því hefur ágreiningur vegna reksturs þeirra og aðgengis að þeim víða komið upp á yfirborðið. Sennilega hefur líka dregið úr því að sjálfboðaliðar sinni verkefnum af þessu tagi.

Óljóst er hver á að greiða kostnaðinn við rekstur líkhúsa. Kostnaðurinn við rekstur hefur einnig aukist ár frá ári, annars vegar vegna fólksfjölgunar en hins vegar vegna tilhneigingar til að lengja tímann sem líður frá andláti að útför. Þá hefur einnig komið upp ágreiningur þegar kemur að viðhaldi eða endurnýjun búnaðar tengdum líkhúsum.

Mér finnst blasa við að skýra þurfi ábyrgð á því að halda úti og reka líkgeymslur. Eins er mikilvægt að skýra réttindi til aðgengis að líkgeymslum. Í minni byggðarlögum sýnist mér blasa við að eðlilegast væri að tengja staðsetninguna heilbrigðisstofnunum eða hjúkrunarheimilum og því að þar þurfa að vera til kælar til að geyma lík til skemmri tíma og vandséð að það sé skynsamlegt að reka fleiri en einn líkkæli í sama byggðarlagi. Á heilbrigðisstofnun er jafnframt starfsfólk til staðar sem hefur sérþekkingu í meðferð líka.

Ljóst er að þörf er á misjöfnum útfærslum á milli byggðalaga, enda er þau jafn ólík og þau eru mörg og engin ein lausn sem gengur upp fyrir alla.

Ágreiningur um rekstur líkhúsa

Svo virðist sem lengi hafi verið uppi ágreiningur milli Kirkjugarðasambands Íslands og dómsmálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis um það hvort rekstur líkhúsa sé meðtalinn í framlagi ríkisins eða ekki. Kirkjugarðsstjórn er heimilt að láta reisa kapellu og líkhús en ber ekki skylda til þess. Engin lög ná yfir það hvernig skuli fara með hinn látna frá andláti til brennslu og/eða greftrunar. Lög kveða hvorki á um hvers konar húsnæði eða geymslu skuli notast við fyrir líkhús, né hver skuli bera kostnað af líkhúsi, rekstri þess og stofnkostnaði. Nú eru engar kröfur gerðar til þess húsnæðis sem notað er sem líkhús skv. gildandi lögum. Í verklagsreglum sóttvarnarlæknis frá árinu 2018, um meðferð og flutning á líkum, má finna leiðbeiningar m.a. um hreinlæti í líkgeymslum. Í reglunum er skilgreint hvað þurfi að vera til staðar í slíku rými.

Ég lagði fram fyrirspurn um málið í janúar. Fyrir áhugasama má finna umræðuna við dómsmálaráðherra hér fyrir neðan, en umræðan fór fram þann 18. mars: https://www.althingi.is/altext/upptokur/lidur/?lidur=lid20240318T191201

Er ekki tímabært að bundið verði í lög að ríkissjóður kosti tímabilið frá andláti til greftrunar miðað við ákveðna grunnþjónustu? Lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu eru frá árinu 1993 og þau þarfnast sannarlega endurbóta, sérstaklega hvað varðar að tryggja líkhúsum landsins fullnægjandi rekstrarheimildir.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Uppbygging verk- og starfsnámsaðstöðu

Deila grein

23/05/2024

Uppbygging verk- og starfsnámsaðstöðu

Upp­bygg­ing verk- og starfs­námsaðstöðu um allt land hef­ur verið al­gjört for­gangs­atriði mitt sem mennta­málaráðherra. Mark­miðið er að byggja um 12.000 fer­metra við flesta verk- og starfs­náms­skóla á land­inu á næstu árum. Nú þegar hef­ur verið skrifað und­ir samn­inga um stækk­un Mennta­skól­ans á Ísaf­irði, Fjöl­brauta­skóla Norður­lands vestra, Verk­mennta­skól­ans á Ak­ur­eyri og Fjöl­brauta­skóla Suður­nesja um sam­tals allt að 5.800 fer­metra auk þess sem fram­kvæmd­ir við Fjöl­brauta­skól­ann í Breiðholti eru á næsta leiti. Til viðbót­ar verða nýj­ar höfuðstöðvar Tækni­skól­ans byggðar í Hafnar­f­irði.

Að auka fram­boð og fjöl­breytni iðnnáms hef­ur verið eitt af for­gangs­mál­um okk­ar á þessu kjör­tíma­bili og hef­ur það skilað sér í bæði auk­inni aðsókn og mik­illi umræðu um mik­il­vægi þess að byggja upp sterkt og öfl­ugt iðnnám um allt land. Það er liðin tíð að umræðan snú­ist um að iðnnám sé síðri val­kost­ur fyr­ir ungt fólk. Nú eru nýir tím­ar, aðsókn hef­ur aldrei verið jafn mik­il og vísa þarf hundruðum um­sækj­end­um frá ár hvert. Við verðum að gera bet­ur, það er ekki nóg að benda á mik­il­vægi þess­ara greina, við sem sam­fé­lag verðum að tryggja að þeir sem hefja nám geti lokið því og gera sem flest­um kleift að sækja sér nám sem þeir hafa áhuga á.

Við sem skóla­sam­fé­lag verðum að skapa um­hverfi inn­an skól­anna sem ger­ir þeim kleift að bregðast við fram­förum í tækni og þörf­um vinnu­markaðar­ins. Þessi áform okk­ar um upp­bygg­ingu og stækk­un starfs­námsaðstöðu er til marks um að við ætl­um að bregðast við þessu ákalli og þess­ari þörf. Hverj­um hefði dottið það í hug um alda­mót að raf­magns­bíl­ar yrðu jafn vin­sæl­ir og þeir eru í dag en breyt­ing á starfi bif­véla­virkja er ein­mitt gott dæmi um iðnnám þar sem heil starfs­stétt hef­ur þurft að bregðast við hröðum tækni­breyt­ing­um. Að sama skapi þurfa málm- og vél­tækni­grein­ar sí­fellt að færa sig nær tölvu­stýrðum verk­fær­um og svo mætti lengi telja. Við þurf­um að geta boðið upp á nám sem bregst við ákalli sam­tím­ans og horf­ir til framtíðar.

Rétt und­ir 50 þúsund manns vinna í iðnaði á Íslandi í dag og hef­ur upp­bygg­ing sjald­an verið jafn mik­il. All­ar okk­ar spár gefa sterk­lega til kynna að sú upp­bygg­ing komi til með að halda áfram á næstu árum og ára­tug­um. Við eig­um ekki og ætl­um ekki að sitja og bíða eft­ir að aðstaða til verk- og starfs­náms springi og biðlist­ar inn í verk­nám leng­ist enn frek­ar. Lát­um verk­in tala, sýn­um vilja í verki og lyft­um upp því öfl­uga fólki sem kem­ur til með að stunda verk- og starfs­nám í framtíðinni.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ný­sköpun inn­viða

Deila grein

23/05/2024

Ný­sköpun inn­viða

Innviðir og stafræn þróun

Verkefni sveitarfélaga eru fjölbreytt og verkefnum fjölgar frekar en fækkar.

Hvert og eitt sveitarfélag leggur metnað sinn í góða grunnþjónustu. Aukin krafa er á sveitarfélög um samkeppnishæfni við nágrannasveitarfélög um val á búsetu sem kallar á framúrskarandi þjónustu talsvert út fyrir hin lögbundnu verkefni.

Þessu ákalli vilja sveitarfélögin standa undir og kallar þetta því á forgangsröðun hvers sveitarfélags. Það er því nú sem fyrr hlutverk okkar sveitarstjórnarmanna, að leita allra mögulegra leiða til hagkvæmrar ráðstöfunar á fjármagni.

Eitt stærsta innviðamálið í dag

Stafræn þróun er mikilvægt innviðamál og jafnframt lykilatriði í byggðaþróun. Með stafrænni þróun getum við minnkað álag á starfsfólk stofnana og þar með náð fram aukinni skilvirkni, við getum sparað fjármagn og við getum aukið þjónustu við íbúana. Þjónustan verður nær íbúanum og ávallt til staðar hvort sem sveitarfélagið er lítið eða stórt.

Við sem sveitarstjórnarmenn berum ábyrgð á rekstri sveitarfélaga og því er það okkar hlutverk að leita leiða til að þjónusta sem best á sem hagkvæmastan hátt.

Stafrænt ráð sveitarfélaga

Stafrænt ráð sveitarfélaga er teymi sem sett var saman með fulltrúum landshlutasamtaka sveitarfélaganna árið 2020 til að styðja við stefnumótun og forgangsröðun um stafræna framþróun.

Sex markmið hafa verið samþykkt af landsþingi Sambandsins en markmiðin snúa beint að stafrænni þróun.

  • Sambandið vinni stefnumörkun og aðgerðaáætlun í stafrænni umbreytingu sveitarfélaga í góðu samstarfi við sveitarfélög og ríkið
  • Auka þekkingarstig kjörinna fulltrúa og annarra stjórnenda sveitarfélaga, starfsfólks og annarra hagaðila á tækifærum stafrænnar umbreytingar, nýtingu tækni og nýsköpunar við úrlausn áskorana.
  • Vinna að pappírslausri stjórnsýslu sveitarfélaga og beita sér fyrir rafrænum skilum.
  • Upplýsingartækniinnviðir sveitarfélaga verði þróaðir á grundvelli sameiginlegra kröfulýsinga og út frá sjálfvirkni með það að markmiði að ná fram auknu rekstrarhagræði og bættri þjónustu samhliða því sem öryggi gagna sé tryggt.
  • Stafrænt umbreytingateymi sveitarfélaga verði miðlægur þjónustukjarni með skilgreint umboð og hlutverk, mannað stafrænum leiðtogum í öllum landshlutum sem veita sveitarfélögum stuðning.
  • Efla samstarf við ríkið (Stafrænt Ísland) til að sveitarfélög geti nýtt miðlægan vettvang, ísland.is, við þróun þjónustu fyrir sveitarfélög.

Frá því í haust hefur verið settur enn meiri þungi í að vinna með stefnumótunina og markmiðin sex.

Mikilvægi samstarfs

Samstarf sveitarfélaga innbyrðis og samstarf sveitarfélaga og ríkis – er gríðarlega mikilvægt. Að sveitarfélögin sjálf stígi fram sem ein rödd í samskiptum við ríki. Það er á ábyrgð okkar sveitarstjórnarmanna að eiga samtalið, sameina krafta okkar, fara vel með opinbert fjármagn og forðast tvíverknað.

Stafræn þróun byggir upp sjálfstraust. Við sköpum notendavænar lausnir, aukum sjálfstæði notandans og léttum á innviðunum – enda er hér um nýsköpun innviða að ræða.

Það er von mín að sveitarfélögin og ríki starfi sem ein heild í átt að aukinni þjónustu fyrir íbúa landsins með stafræna þróun að leiðarljósi.

Erindi þetta var flutt á afar gagnlegum nýsköpunardegi hins opinbera sem fram fór þann 15. maí s.l.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir formaður bæjarráðs Hveragerðisbæjar og formaður starfræns ráðs Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. maí 2024.

Categories
Fréttir

Streymisveitur greiði svokallað „menningarframlag“ til íslensks samfélags

Deila grein

22/05/2024

Streymisveitur greiði svokallað „menningarframlag“ til íslensks samfélags

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur birt drög að frumvarpi til laga um menningarframlag streymisveitna í samráðsgátt. Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný skylda innlendra og erlendra streymisveitna til að greiða svokallað „menningarframlag“ til íslensks samfélags. Frumvarpið er á meðal þess sem lagt er til í nýrri skýrslu starfshóps um gjaldtöku á streymisveitur og tæknifyrirtæki.

Streymisveitur eru fjölmiðlaveitur sem miðla efni eftir pöntun (e. VOD), sumar eingöngu innanlands en aðrar yfir landamæri til fleiri ríkja. Stærstu einkareknu streymisveiturnar hér á landi eru Stöð 2+ í eigu Sýnar og Sjónvarp Símans Premium, í eigu Símans. Erlendar streymisveitur með starfsemi hér á landi eru Netflix, Disney+, Viaplay og Amazon Prime Video. Á síðustu árum hefur samkeppni við alþjóðlegar streymisveitur og samfélagsmiðla haft neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi og samkeppnisstöðu innlendra fjölmiðla, sem kemur niður á framleiðslu innlends efnis og veikir þar með stöðu íslenskrar tungu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, var viðmælandi í Kastljósþætti RÚV. „Undanfarin ár hefur samkeppni við alþjóðlegar streymisveitur og samfélagsmiðla haft neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi og samkeppnisstöðu innlendra fjölmiðla sem kemur niður á framleiðslu innlends efnis og veikir um leið stöðu íslenskrar tungu.“

Markmið frumvarpsins er að efla íslenska menningu og tungu með því að hvetja til fjárfestingar í framleiðslu á innlendu efni sem er að meginhluta á íslensku eða með aðra íslenska skírskotun. Frumvarpið er því liður í að jafna samkeppnisstöðu innlendra fjölmiðla gagnvart erlendum streymisveitum. Þá kann aukin fjárfesting í framleiðslu á innlendu efni að leiða til fleiri atvinnutækifæra fagfólks sem starfar við sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu hér á landi.

Lagt er til að innheimta geti verið í formi fjárframlags og/eða beinnar fjárfestingar:

        1) skyldu til að greiða fjárframlag til Kvikmyndasjóðs, sem nemi að hámarki 5%* af áskriftartekjum af starfsemi streymisveitunnar á Íslandi á ársgrundvelli.

        2) skyldu til að fjárfesta með beinum hætti í framleiðslu í innlendu hljóð- og myndefni, í skilningi laganna, fyrir 5% af áskriftartekjum af starfsemi streymisveitunnar á Íslandi á ársgrundvelli.

Áætlað er að frumvarp um menningarframlag streymisveitna muni afla tekna sem renna til Kvikmyndasjóðs. Gert er ráð fyrir að áhrif frumvarpsins verði mest á streymisveitur sem fjárfesta lítið eða takmarkað í nýju, íslensku efni. Til glöggvunar má nefna að innlendar streymisveitur eru nú þegar að fjárfesta í innlendu efni og því yrði kallað eftir upplýsingum um umfang þeirrar framleiðslu. Ef fjárfesting er 5% eða hærra hlutfall af áskriftartekjum á ársgrundvelli félli gjaldtakan niður.Málið er í samráðsgátt til 9. júní nk. Að lokinni birtingu í samráðsgátt verður farið yfir umsagnir og ábendingar sem þar berast. Að því loknu, og með fyrirvara um samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA, verður frumvarpið fullunnið og lagt fram á Alþingi haustið 2024.

*Að hámarki 5% vísar í að hægt sé að notast við bæði leið 1 og 2. Td ef fjárfesting nær ekki 5% væri hægt að greiða það sem útaf stendur til Kvikmyndasjóðs.

Skýrsla um gjaldtöku á streymisveitur og tæknifyrirtæki

Frumvarpið byggir meðal annars á tillögum í skýrslu starfshóps um gjaldtöku á streymisveitur og tæknifyrirtæki sem skipaður var af menningar- og viðskiptaráðherra 23. júní 2023 og skilaði skýrslu sinni til ráðherra 27. febrúar 2024. Starfshópinn skipuðu dr. María Rún Bjarnadóttir (formaður), Heiðdís Lilja Magnúsdóttir, fulltrúi menningar- og viðskiptaráðuneytisins, og Vilmar Freyr Sævarsson, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Við undirbúning skýrslunnar fundaði hópurinn með fulltrúum nokkurra hagsmunaaðila á vettvangi sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu og fjölmiðlunar.

Starfshópurinn lagði fram tvær tillögur auk tillögu um menningarframlag: 

Ákvæði um höfundarrétt sem veitir útgefendum fréttaefnis einkarétt til eintakagerðar og stafrænnar miðlunar útgáfu sinnar á netinu.
– að lögfest verði ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2019/790 um höfundarrétt og skyld réttindi á stafræna innri markaðinum, sem kveður á um skyldu aðildarríkja til að veita útgefendum fréttaefnis einkarétt til eintakagerðar og stafrænnar miðlunar útgáfu sinnar á netinu, sem vara skal í tvö ár. Leggur hópurinn til að fordæmi annarra þjóða verði fylgt og lögfest samningskvaðaheimild til að tryggja samninga vegna þessa nýja réttar. Samningar miði að því að fjölmiðlar fái aukinn hlut í þeim fjárhagslegu verðmætum sem skapast við stafræna dreifingu fréttaefnis á erlendum samfélagsmiðlum og leitarvélum.

Stafrænn þjónustuskattur
– að fylgst verði náið með framgangi vinnu á vettvangi OECD um skattlagningu stafræna hagkerfisins og að stjórnvöld verði undirbúin fyrir mögulegar einhliða aðgerðir til að skattleggja alþjóðlega tæknirisa ef sameiginleg niðurstaða fæst ekki á vettvangi OECD.

Categories
Fréttir Greinar

Tímamót með nýrri ferðamálastefnu

Deila grein

22/05/2024

Tímamót með nýrri ferðamálastefnu

Ferðaþjón­ust­unni hef­ur vaxið fisk­ur um hrygg á und­an­förn­um árum en ferðamenn sem hingað koma hríf­ast af menn­ingu okk­ar og hinni stór­brotnu ís­lensku nátt­úru sem er ein­stök á heimsvísu. Mæl­ing­ar sýna ein­mitt að þeir ferðamenn sem hingað koma njóta veru sinn­ar mikið og gefa Íslandi afar góða um­sögn.

Í liðinni viku tók Alþingi til um­fjöll­un­ar til­lögu mína til þings­álykt­un­ar um nýja ferðamála­stefnu til árs­ins 2030 og aðgerðaáætl­un henni tengda. Þjóðhags­legt mik­il­vægi ferðaþjón­ustu hér á landi hef­ur auk­ist veru­lega sam­hliða vexti grein­ar­inn­ar. Ytri staða þjóðarbús­ins stóð oft á tím­um tæpt hér á árum áður en straum­hvörf urðu á viðskipta­jöfnuði þjóðarbús­ins fyr­ir rúm­lega tíu árum þegar ferðaþjón­ust­an fór á flug í kjöl­far eld­goss­ins í Eyja­fjalla­jökli. Ferðaþjón­ust­an er í dag stærsti gjald­eyr­is­skap­andi at­vinnu­veg­ur þjóðar­inn­ar og mik­il­væg­ur drif­kraft­ur hag­vaxt­ar í land­inu.

Það skipt­ir máli að búa þess­ari stóru og þjóðhags­lega mik­il­vægu at­vinnu­grein sterka um­gjörð og marka skýra sýn á það hvert skal haldið. Þar mun ný ferðamála­stefna skipa veiga­mik­inn sess. Vinna við hina nýju ferðamála­stefnu hef­ur verið eitt af for­gangs­mál­um mín­um í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu. Sjö starfs­hóp­ar hafa unnið að ferðamála­stefn­unni, sem hafa verið skipaðir af 6-8 sér­fróðum aðilum. Ferðaþjón­ust­an er fjöl­breytt og skemmti­leg at­vinnu­grein, sem end­ur­spegl­ast ein­mitt í hóp­un­um en þeir náðu utan um sjálf­bærni og orku­skipti, sam­keppn­is­hæfni og verðmæta­sköp­un, rann­sókn­ir og ný­sköp­un, upp­bygg­ingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veit­inga- og hvata­ferðaþjón­ustu og svo menn­ing­ar­tengda ferðaþjón­ustu.

Framtíðar­sýn ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu er að vera leiðandi í sjálf­bærri þróun á grunni efna­hags­legs og sam­fé­lags­legs jafn­væg­is. Í því felst að ferðaþjón­ust­an sé arðsöm og sam­keppn­is­hæf, í sátt við nátt­úru, ís­lenska menn­ingu og tungu. Það skipt­ir miklu máli að hlúa að ferðaþjón­ust­unni um allt land og skapa þannig skil­yrði að hægt sé að lengja ferðamanna­tíma­bilið hring­inn um landið. Það rík­ir mik­il alþjóðleg sam­keppni í ferðaþjón­ustu og við verðum ávallt að vera á tán­um að tryggja að sam­keppn­is­hæfni ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu sé eins og best verði á kosið.

Það skipt­ir nefni­lega lítið opið hag­kerfi eins og okk­ar öllu máli að hér séu styrk­ar út­flutn­ings­stoðir eins og ferðaþjón­ust­una.

Sag­an kenn­ir okk­ur að þjóðríki sem hafa mikl­ar út­flutn­ings­tekj­ur, mynd­ar­leg­an gjald­eyr­is­forða sem og inn­lend­an sparnað eru í mun sterk­ari stöðu til að kljást við óvænt ytri áföll í efna­hags­líf­inu. Þar mun ferðaþjón­ust­an skipta lyk­il­máli til framtíðar. Leikplanið sem felst í nýrri ferðamála­stefnu er metnaðarfullt, verk­efnið framund­an verður að hrinda því í fram­kvæmd og sækja fram fyr­ir ís­lenska ferðaþjón­ustu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Gæði sem skipta máli ‒ tökum flugið

Deila grein

21/05/2024

Gæði sem skipta máli ‒ tökum flugið

Síðustu ár hafa orðið miklar framfarir þegar kemur að millilandaflugi um Akureyrarflugvöll. Við þekkjum lífsgæðin sem því fylgja, enda er ferðlagið til Keflavíkur oft kostnaðarsamasti og tímafrekasti leggur ferðalagsins þegar haldið er utan. Beint millilandaflug um Akureyrarflugvöll skiptir atvinnulífið einnig verulegu máli enda ein megin forsenda fyrir auknum komum ferðamanna, ekki síst utan háannatíma þegar ferðalög eru að jafnaði styttri. Stærsti einstaki áfanginn á þessari leið er tilkoma Easy Jet, sem flogið hefur beint milli Akureyrar og London frá því síðastliðið haust. Ekkert kemur til af sjálfu sér og fjölmargt hefur þurft að koma saman svo að Akureyri og Egilsstaðir séu raunhæfir valkostir þegar kemur að millilandaflugi.

Heimafólk dregur vagninn

Um árabil hefur heimafólk unnið þrotlaust að því að efla Akureyrarflugvöll, sem þjónar ekki aðeins höfuðstað Norðurlands, heldur víðfeðmu nærsvæði Akureyrar. Má þar nefna frumkvöðla í fluggeiranum, bæjarfulltrúa, áhugafólk um samgöngur og aðra sem lagt hafa hönd á plóg. Markaðsstofa Norðurlands hefur með ýmsum hætti unnið að og sett þrýsting á þróun vallarins og markaðssetningu á honum. Sama má segja um Austurbrú og íbúa Austurlands, þó þróun flugs um Egilsstaðaflugvöll sé skemur á veg komin. Þessi vinna skiptir miklu máli og skilar árangri.

Flugþróunarsjóður

Ein varðan á langri leið var stofnun Flugþróunarsjóðs. Grunnurinn var lagður árið 2015, en sjóðurinn tók til starfa árið 2016. Flugþróunarsjóður hefur það að markmiði að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði. Þannig er stuðlað að betri dreifingu ferðamanna um landið í samræmi við Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030, bættri nýtingu innviða ríkisins, bættum búsetuskilyrðum og lífsgæðum heimamanna og bættum rekstrarskilyrðum atvinnureksturs á Norður- og Austurlandi. Frá stofnun sjóðsins hefur verið unnið markvisst að kynningu hans til flugfélaga og ferðaskrifstofa. Sú vinna er farin að skila sér þrátt fyrir miklar áskoranir. Til að mynda Covid faraldurinn, sem setti verulegt strik í reikninginn.

Uppbygging innviða

Uppbygging og rekstur flugvalla er kostnaðarsöm og veigamikil fjárfesting og ekki sjálfsagt að fjármunum sé forgangsraðað í þágu slíkrar uppbyggingar. Á síðustu árum hefur gríðarmikil uppbygging verið sett á oddinn, bæði hvað varðar uppbyggingu á Akureyrarflugvelli, en einnig á Egilsstöðum. Má þar nefna fjárfestingar í tæknibúnaði, flugstöð og flughlöðum. Síðastliðið sumar var nýtt flughlað tekið í notkun við Akureyrarflugvöll og undirbúningur framkvæmda við Egilsstaðaflugvöll er á fullu skriði. Skóflustunga að nýrri flugstöð við Akureyrarflugvöll markaði langþráð tímamót og nýverið fóru fyrstu farþegarnir í millilandaflugi þar í gegn. Innan skamms verður flugstöðin fullgerð og má með sanni segja að uppbyggingin marki nýja sókn þegar kemur að lífsgæðum íbúa og starfsskilyrðum atvinnulífs á svæðinu. Stefnan til framtíðar var formfest í Flugstefnu Íslands árið 2019, en þar kemur fram að stutt verði við uppbyggingu Akureyrar- og Egilsstaðarflugvalla sem alþjóðlegra fluggátta. Enn fremur að við uppbyggingu innviða vallanna verði lögð áhersla á að þeir mæti sem best þörfum flugrekenda fyrir varaflugvelli hér á landi, en þar verði Egilsstaðaflugvöllur í forgangi.

Stefna Framsóknar

Stefna Framsóknar er skýr þegar kemur að þessu máli, enda hafa þingmenn og ráðherrar flokksins stutt rækilega við þetta brýna verkefni um langt skeið. Sérstaklega má í því samhengi nefna áherslur og verk Sigurðar Inga Jóhannssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem farið hefur með samgöngumál og þar með talið flugvelli landsins um árabil og Lilju Daggar Alfreðsdóttur, viðskipta- og menningarráðherra sem fer með málefni ferðaþjónustunnar. Flokkurinn stendur heilshugar að baki þessum áherslum en í nýsamþykktri ályktun 37. Flokksþings Framsóknar kemur fram að: ,,Framsókn leggur áherslu á styrkingu millilandaflugs um Akureyri og Egilsstaði til að stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna um landið. Tryggja þarf samkeppnishæfni flugvallanna m.t.t. aðstöðu, lendingargjalda og eldsneytisverðs. Byggja þarf upp samhæft samgöngunet í landinu, sem tengir saman innlent og alþjóðleg samgöngunet, hvort heldur sem er flug eða áætlunarferðir á sjó og landi.“

Að lokum

Mikilvægt er að áfram verði unnið markvisst að uppbyggingu beins flugs til Akureyrar og Egilsstaða. Nauðsynlegt er að þróun innviða á alþjóðaflugvöllunum taki mið af framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 einkum hvað varðar dreifingu ferðamanna, samkeppnishæfni og ávinning heimamanna.

Við þekkjum vel hversu viðkvæmt verkefnið er, það krefst úthalds og þrautseigju og þó það ári vel núna megum við ekki missa dampinn. Samstaða og framsýni allra sem að þessu verkefni koma skiptir verulegu máli því alltaf verða til staðar tækifæri til að gera enn betur.

Helgi Héðinsson, varaþingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi og framkvæmdastjóri Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 20. maí 2024.