Categories
Greinar

Íslenskur landbúnaður á sjálfstætt landbúnaðarráðuneyti skilið

Deila grein

22/07/2021

Íslenskur landbúnaður á sjálfstætt landbúnaðarráðuneyti skilið

Land­búnaður er ein stærsta at­vinnu­grein Íslands. Sam­kvæmt vefsíðu at­vinnu­vegaráðuneyt­is­ins telj­ast eft­ir­far­andi grein­ar til land­búnaðar: garðyrkja, ali­fugla­rækt, eggja­f­ram­leiðsla, æðarrækt, svína­rækt, geit­fjár­rækt, hross­a­rækt, jarðrækt, loðdýra­rækt, naut­griparækt, sauðfjár­rækt og skóg­ar­fram­leiðsla.

Land­búnaður er jafn­framt ein stærsta at­vinnu­grein­in í Norðvest­ur­kjör­dæmi og því skipt­ir miklu máli fyr­ir okk­ur sem þar búa hvernig um­gjörð stjórn­valda um mála­flokk­inn er háttað. Í nú­ver­andi skipt­ingu ráðuneyta deila sjáv­ar­út­veg­ur og land­búnaður heim­ili. Það er að vissu leyti skilj­an­legt þar sem báðar at­vinnu­grein­arn­ar eiga margt sam­eig­in­legt eins og að stuðla að mat­væla­fram­leiðslu. Þó virðist þessi sam­búð þeirra hafa orðið til þess að land­búnaður­inn hafi því miður gleymst, a.m.k. að hann hafi ekki fengið þá at­hygli og þá þyngd inn­an ráðuneyt­is­ins sem hon­um ber. Sú ákvörðun um sam­eig­in­legt sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðuneyti er, eins og öll önn­ur verk okk­ar, ekki meitluð í stein og henni er vel hægt að breyta sé fyr­ir því vilji. Sá sem tek­ur við mála­flokki land­búnaðar­ins á næsta kjör­tíma­bili mun mæta mörg­um áskor­un­um og krefj­andi verk­efn­um, og að okk­ar mati er gríðarlega mik­il­vægt að mála­flokk­ur­inn fái þá at­hygli sem hon­um svo sann­ar­lega ber. Því telj­um við að sú skipt­ing ráðuneyta sem nú er viðhöfð verði breytt og aft­ur verði komið á sér­stöku land­búnaðarráðuneyti með sér­stök­um ráðherra. Íslensk­ur land­búnaður á það skilið.

Land­búnaður og sjáv­ar­út­veg­ur skipta höfuðmáli fyr­ir fæðu- og mat­væla­ör­yggi Íslend­inga, en vegna þess hve harðbýlt er á Íslandi þurfa þess­ar at­vinnu­grein­ar tölu­vert meiri stuðning en á suðlæg­ari svæðum. Einnig eru ís­lensku búfjár­stofn­arn­ir viðkvæm­ir fyr­ir sjúk­dóm­um vegna marga alda ein­angr­un­ar, en það hef­ur einnig stuðlað að miklu heil­brigði ís­lenskra dýra sem og minni þörf á lyfja­notk­un í land­búnaði. Á Íslandi er lyfja­notk­un­in í land­búnaði sú minnsta í heim­in­um. Á síðasta ári kom ber­sýni­lega í ljós hversu viðkvæm staða okk­ar get­ur verið þegar flutn­ing­ur milli landa raskaðist veru­lega í kjöl­far Covid-19. Heims­far­ald­ur­inn varð til þess að inn­flutn­ing­ur og út­flutn­ing­ur vara var óstöðugur og þar kom mik­il­vægi þess að lönd tryggi eig­in mat­væla­fram­leiðslu vel í ljós.

Við vilj­um viðhalda sterk­um land­búnaði sem lands­menn geta treyst á. Íslensk­ur land­búnaður á að vera sterk­ur og unn­inn með sjálf­bærni að leiðarljósi. Það er mik­il­vægt fyr­ir um­hverfið, fyr­ir fæðuör­yggið, fyr­ir byggðirn­ar, fyr­ir neyt­end­ur og fyr­ir framtíðina.

Framtíðar­sýn land­búnaðar­ins verður að vera okk­ur öll­um skýr og við vilj­um tryggja það að hann fái aukna at­hygli hjá næstu rík­is­stjórn. Það ger­um við m.a. með nýju öfl­ugu ráðuneyti land­búnaðar­mála.

Stefán Vagn Stefánsson og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, varaþing­menn Fram­sókn­ar og sitja í 1. og 2. sæti á lista flokks­ins í Norðvest­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. júní 2021.

Categories
Greinar

Börn í umferðinni

Deila grein

15/07/2021

Börn í umferðinni

Nýtt sam­fé­lags­mynst­ur og auk­in þétt­býl­is­mynd­un á síðustu árum hafa breytt þörf­um fólks um aðstöðu og skipu­lag í þétt­býli. Um­hverfi hvers og eins skipt­ir mestu máli í dag­legu lífi flestra. Staðsetn­ing skóla, göngu- og hjóla­leiðir, skóla­akst­ur og um­ferð eru þætt­ir sem hafa áhrif á ákvörðun fólks hvar sem það býr. Flest­ir þeir sem koma með ein­um eða öðrum hætti að upp­bygg­ingu og skipu­lagn­ingu sam­göngu­innviða hafa hingað til verið á á full­orðins­aldri, fólk tví­tugt og eldra. Það er því kannski ekki skrítið að sú vinna hafi verið unn­in að mestu út frá sjón­ar­hóli full­orðinna. Stór hluti sam­fé­lagsþegna hef­ur þó oft viljað gleym­ast og það eru þarf­ir barna og ör­yggi þeirra í um­ferðinni.

Staða barna í sam­göng­um

Ef hlustað er á börn og þau fá tæki­færi til að láta rödd sína heyr­ast eru þau fær um að hafa áhrif á líf sitt. Það er m.a. í sam­ræmi við ákvæði Barna­sátt­mála og Heims­mark­miða Sam­einuðu þjóðanna og þings­álykt­un um Barn­vænt Ísland fyr­ir árin 2021-2024. Sam­göng­ur og áhrif þeirra á börn hafa til þessa lítið verið til um­fjöll­un­ar og ekki greind með nægi­lega skýr­um hætti. Með sam­göngu­áætlun 2020-2034 var ákveðið að hefja vinnu við að greina stöðu barna og ung­menna í sam­göng­um. Það er ein­stak­lega ánægju­legt að sjá að fyrstu skref­in hafa verið stig­in með grein­ar­gerð sem kem­ur út í dag um stöðu barna og ung­menna í sam­göng­um hér á landi. Skýrsl­an er unn­in í sam­vinnu við Vega­gerðina, Sam­göngu­stofu og Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga.

Í henni kem­ur m.a. fram að ferðavenj­ur barna og ung­menna eru mun fjöl­breytt­ari en þeirra sem eldri eru. Þau eru engu minni not­end­ur og ferðast jafn­vel að jafnaði ívið fleiri ferðir á degi hverj­um. Börn og ung­menni eru mestu not­end­ur virkra sam­göngu­máta og al­menn­ings­sam­gangna. Börn og ung­menni ferðast hlut­falls­lega minna með inn­an­lands­flugi en þeir sem eldri eru. Lægri far­gjöld vegna Loft­brú­ar virðast nýt­ast þeim sér­stak­lega vel. Bestu sókn­ar­færi til þess að stuðla að breytt­um ferðavenj­um allra fel­ast í því að hlúa bet­ur að þessu ferðamynstri barna og ung­menna, enda eru þau ekki með sama fast­mótaða ferðavenju­mynst­ur og þeir sem eldri eru.

Ung­ir sem aldn­ir

Stefnu­mörk­un í sam­göngu­mál­um þarf að snú­ast um að börn og ung­menni séu ör­ugg á leið sinni til og frá skóla, leik­svæðum, íþrótt­um, tóm­stund­um eða áfanga­stöðum sem þau þurfa að sækja. Taka þarf mið af þörf­um þeirra sem birt­ist í ferðavenju­könn­un­inni sem gerð var um land allt. Í henni kom fram að börn eru helstu not­end­ur virkra sam­göngu­máta, þ.e. að ganga, hjóla, nota skóla­akst­ur eða al­menn­ings­sam­göng­ur. Hönn­un og upp­bygg­ing innviða þarf að taka mið af því og er það okk­ar sem eldri eru að fylgja því fast eft­ir. Þá er öfl­ugt for­varn­astarf og fræðsla á öll­um skóla­stig­um ár­ang­urs­rík leið.

Ríki og sveit­ar­fé­lög þurfa að vinna sam­an að því að bæta sam­göng­ur barna og ung­menna og eru tæki­færi í skipu­lagðri vinnu sveit­ar­fé­laga með gerð og fram­fylgni um­ferðarör­ygg­is­áætl­ana. Tónn í þá átt hef­ur verið sleg­inn með sam­vinnu rík­is og Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga við gerð skýrsl­unn­ar.

Greiðar og ör­ugg­ar sam­göng­ur skipta okk­ur öll máli. Hvort sem við erum ung eða göm­ul höf­um við þörf til þess að fara á milli staða. Mál­efnið er ung­menn­um mik­il­vægt og hug­leikið. Þau vilja verða þátt­tak­end­ur í stefnu­mót­un og við tök­um fagn­andi á móti þeim. Við þurf­um að eiga upp­byggi­legt sam­tal þar sem hlúð er bet­ur að ferðamynstri barna og bor­in virðing fyr­ir ólík­um sjón­ar­miðum. Skipu­lagn­ing sam­göngu­innviða sem miðar við þarf­ir fólks frá unga aldri og upp úr skil­ar sér í betra og skiln­ings­rík­ara sam­fé­lagi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. júlí 2021.

Categories
Fréttir

Sumarlokun skrifstofu

Deila grein

12/07/2021

Sumarlokun skrifstofu

Skrifstofa Framsóknar er lokuð vegna sumarleyfa starfsmanna frá og með 13. júlí til 2. ágúst. Opnum aftur þriðjudaginn 3. ágúst.

Hægt er að senda erindi og fyrirspurnir á netfangið: framsokn@framsokn.is.

FRAMSÓKNARFLOKKURINN

Categories
Fréttir

Þórunn Egilsdóttir látin

Deila grein

11/07/2021

Þórunn Egilsdóttir látin

Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður, er látin 56 ára að aldri. Þórunn lést á föstudaginn eftir baráttu við krabbamein. Þórunn greindi frá því milli jóla og nýárs í fyrra að hún hefði greinst aftur með krabbamein eftir að hafa lokið meðferð. Þórunn var þingflokksformaður Framsóknarmanna og oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

Þórunn var fædd í Reykjavík 23. nóvember 1964. Foreldrar: Egill Ásgrímsson (fæddur 1. apríl 1943) bólstrari og Sigríður Lúthersdóttir (fædd 28. apríl 1939). Maki: Friðbjörn Haukur Guðmundsson (fæddur 21. apríl 1946) bóndi. Foreldrar: Guðmundur Jónsson og Guðlaug Valgerður Friðbjarnardóttir. Börn: Kristjana Louise (1989), Guðmundur (1990), Hekla Karen (2004).

Þórunn lauk stúdentsprófi frá VÍ 1984. B.Ed.-próf KHÍ 1999. Sauðfjárbóndi síðan 1986. Grunnskólakennari 1999–2008, áður leiðbeinandi. Skólastjórnandi 2005–2008. Verkefnastjóri hjá Þekkingarneti Austurlands, nú Austurbrú, 2008–2013. Í sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps 2010–2014, oddviti 2010–2013.

Formaður Málfundafélags VÍ 1983–1984. Í stjórn Kvenfélagsins Lindarinnar 1991–1998. Í félagsmálanefnd Vopnafjarðarhrepps 1998–2006. Í stjórn Menntasjóðs Lindarinnar síðan 1998, formaður 2006–2010. Í orlofsnefnd húsmæðra á Austurlandi 2001–2009. Í stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi 2010–2014. Í sveitarstjórnarráði Framsóknarflokksins 2010–2014. Í miðstjórn Framsóknarflokksins síðan 2010. Í ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 2011–2015. Í hreindýraráði 2011–2016. Formaður samgönguráðs síðan 2018.

Alþingismaður Norðausturkjördæmis síðan 2013 (Framsóknarflokkur).

2. varaforseti Alþingis 2015–2016. 1. varaforseti Alþingis 2016–2017. 5. varaforseti Alþingis 2017. 4. varaforseti Alþingis 2017–2019.

Formaður þingflokks Framsóknarflokksins 2015 og síðan 2016.

Atvinnuveganefnd 2013–2016, velferðarnefnd 2013–2015, allsherjar- og menntamálanefnd 2016–2017 og 2019–2020, kjörbréfanefnd 2017–, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd 2017–.

Íslandsdeild NATO-þingsins 2013–2016 (formaður), Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 2017–.

Við Framsóknarmenn minnumst alþingismanns og fyrrv. formanns þingflokks Framsóknarmanna með djúpri virðingu og þakklæti fyrir störf í þágu Framsóknarflokksins og þjóðarinnar. Framsóknarmenn votta aðstandendum innilega samúð.

Categories
Greinar

Nýr alþjóðaflugvöllur vestur á Mýrum?

Deila grein

10/07/2021

Nýr alþjóðaflugvöllur vestur á Mýrum?

Nú hef­ur eld­gosið á Reykja­nesi staðið í hátt á fjórða mánuð. Það hef­ur tekið sér nokkr­ar kúnst­pás­ur upp á síðkastið en frem­ur en fyrr þá get­um við lítið sagt um hvernig það á eft­ir að haga sér. Lýk­ur því á morg­un? Stend­ur það í 50 ár? Hvar kem­ur það upp næst? Eitt er víst að allt er breytt. Eld­stöð á Reykja­nesskag­an­um hef­ur rumskað af löng­um svefni og við vit­um ekki hvert fram­haldið verður. Sam­gönguráðherra hef­ur rætt um að það þurfi að fara að huga að nýrri flótta­leið af Suður­nesj­um þar sem hraun gæti mögu­lega lokað Suður­strand­ar­vegi á næstu vik­um.

Við þurf­um fleiri flug­velli

Við þurf­um að vera meðvituð um mik­il­vægi þess að byggja upp ann­an alþjóðaflug­völl í ná­lægð við Reykja­vík. Í nóv­em­ber 2019 kom út skýrsla um flug­valla­kosti á suðvest­ur­horni lands­ins. Sú skýrsla var unn­in fjarri hug­mynd­um um jarðhrær­ing­ar eða eld­gos á Reykja­nesi. Í skýrsl­unni kem­ur fram sú meg­in­for­senda að á suðvest­ur­horni lands­ins verði tveir flug­vell­ir sem séu bæði fyr­ir milli­landa- og inn­an­lands­flug. Það er talið mik­il­vægt upp á sam­keppn­is­hæfni lands­byggðar og höfuðborg­ar. Þá seg­ir í skýrsl­unni að það styrki viðskipta­tæki­færi og þjón­ustu við lands­menn. Þá er tæpt á í skýrsl­unni að það þurfi vara­flug­völl fyr­ir Kefla­vík­ur­flug­völl, hann get­ur lokast, ým­ist vegna veðurs, nátt­úru­ham­fara eða slysa. Ak­ur­eyr­arflug­völl­ur og Eg­ilsstaðaflug­völl­ur hafa verið notaðir sem vara­flug­vell­ir og mik­il­vægi þeirra dreg­ur eng­inn í efa í þeim efn­um. Þá þarf áfram að styrkja í fram­hald­inu á þeim at­b­urðum sem hafa orðið á Reykja­nesi.

Ísland er eld­fjalla­eyja, eld­stöðin á Reykja­nesi hef­ur rumskað, hvað er þá til ráða? Það er mik­il­vægt að stjórn­völd bregðist við eins og sam­gönguráðherra hef­ur nú þegar gert með því að hugsa um nýja flótta­leið fyr­ir íbúa Reykja­ness vegna yf­ir­vof­andi at­b­urða. Nú þarf að horfa til framtíðar og við verðum að und­ir­búa okk­ur und­ir að finna nýja staðsetn­ingu á alþjóðleg­um flug­velli. Nú­ver­andi staðsetn­ing er frá­bær við þær aðstæður sem hafa verið uppi á suðvest­ur­horn­inu en það þarf að hugsa upp nýj­ar sviðsmynd­ir. Með fjölg­un ferðamanna og auknu milli­landa­flugi er ekki óraun­hæft að hafa tvo alþjóðaflug­velli á suðvest­ur­horn­inu, hvort sem er fyr­ir elds­um­brot eða ekki.

Svæðið í kring­um Borg­ar­nes er aðlaðandi

Loks er farið að hilla und­ir stór­huga fram­kvæmd við Sunda­braut sem bæt­ir teng­ingu milli höfuðborg­ar­svæðis, Vest­ur­lands og Norður­lands. Unnið er að tvö­föld­un Vest­ur­lands­veg­ar upp í Borg­ar­nes. Sunda­braut gæti verið lokið árið 2030 ef allt geng­ur eft­ir og opn­ar mögu­leika á greiðar og góðar heils­árs­sam­göng­ur, þá sér í lagi við allt Vest­ur­land. Við þess­ar sam­göngu­bæt­ur er ný staðsetn­ing­in fyr­ir alþjóðaflug­völl á Vest­ur­landi raun­hæf­ur kost­ur. Kannski er hent­ugt að setja niður nýj­an alþjóðarflug­völl vest­ur á Mýr­um? Ein­hverj­ir hrökkva kannski við vegna þess­ara skrifa. Eitt er víst, við verðum að þora að setj­ast niður og horfa til framtíðar út frá nýj­um en reynd­ar alda­göml­um staðreynd­um um nátt­úru lands­ins. Orð eru til alls fyrst.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþing­ismaður Fram­sókn­ar­flokks­ins í NV-kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júlí 2021.

Categories
Greinar

Að kunna að sigra

Deila grein

07/07/2021

Að kunna að sigra

Í leik og starfi telst það góður eig­in­leiki að kunna að tapa. Taka ósigri með reisn, læra af reynsl­unni og nýta hana til góðs. Að sama skapi er mik­il­vægt að kunna að sigra. Sýna hóg­værð þegar vel geng­ur, sýna aðstæðunum virðingu og gæta þess að van­meta ekki fyr­ir­liggj­andi áskor­an­ir.

Þótt enn sé ótíma­bært að lýsa yfir sigri í bar­átt­unni við Covid-19 geta Íslend­ing­ar glaðst yfir góðum ár­angri. Staðan er góð, mik­ill meiri­hluti full­orðinna hef­ur verið bólu­sett­ur og sam­komutak­mörk­un­um inn­an­lands hef­ur verið aflétt. Sú staðreynd lyft­ir lund­inni, stuðlar að hag­vexti og leys­ir marg­vís­lega starf­semi úr hlekkj­um kór­ónu-veirunn­ar. Þannig er óend­an­lega gam­an að sjá menn­ing­ar­starf kom­ast á fulla ferð, sjá tón­leika­hald glæðast og for­send­ur fyr­ir leik­hús­starfi gjör­breyt­ast til hins betra. Fjölda­sam­kom­ur eru nú leyfi­leg­ar, hvort sem fólk vill sækja í tón­list­ar­húsið Hörpu, sam­komu­húsið á Ak­ur­eyri eða bæj­ar­hátíðir um land allt. Stór og smá leik­hús horfa björt­um aug­um til hausts­ins og menn­ing­arþyrst­ir lands­menn geta loks­ins svalað þorst­an­um, um leið og lista­menn geta að nýju aflað sér fullra tekna eft­ir langa bið. Ferðaþjón­ust­an hef­ur tekið við sér og flest horf­ir til betri veg­ar.

Í þess­um aðstæðum er rétt að rifja upp lífs­spek­ina um drambið og fallið. Hvernig of­lát get­ur snúið góðri stöðu í slæma og hvað við get­um lagt af mörk­um til að viðhalda ár­angr­in­um í Covid-stríðinu. Við þurf­um að kunna að sigra, sýna aðstæðunum virðingu en ekki missa stöðuna frá okk­ur. Gár­ung­arn­ir töluðu um vímu­skyldu sem eðli­legt fram­hald grímu­skyldu og ef marka má frétt­ir af næt­ur­líf­inu und­an­farna daga virðast ýms­ir hafa tekið þá á orðinu. Von­andi rjátl­ast það fljót­lega af skemmtanaglaðasta fólk­inu, enda er bar­átt­unni við Covid-19 ekki lokið. Við þurf­um að halda áfram að sýna ábyrgð og í leiðinni meta hvað við get­um lært af reynslu und­an­far­inna 16 mánaða, svo ein­stak­ling­ar, fyr­ir­tæki og stjórn­völd geti brugðist rétt við.

Stjórn­völd þurfa einnig að meta hvort ár­ang­ur­inn af stuðningi við at­vinnu­líf og fé­laga­sam­tök hafi verið næg­ur og op­in­bert fé hafi nýst sem skyldi. Sú umræða er að eiga sér stað. Við höf­um öll í sam­ein­ingu lifað sögu­lega tíma. Ljóst er að það reyn­ir á sam­fé­lagið okk­ar í fram­hald­inu, en við höf­um alla burði til að koma sterk­ari út úr þess­ari áskor­un.

Horf­urn­ar eru góðar og sum­ar­leyf­is­tím­inn er geng­inn í garð. Björt sum­ar­nótt­in er tákn­ræn fyr­ir góðan ár­ang­ur, sem okk­ur ber að varðveita í sam­ein­ingu.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. júlí 2021.

Categories
Greinar

Verður héraðið læknislaust?

Deila grein

07/07/2021

Verður héraðið læknislaust?

Heilsugæslur um landið eiga að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðisþjónustunni. Þær eru mikilvægur hlekkur og eiga fyrst og fremst að þjóna íbúum viðkomandi sveitarfélags eða hverfis. Fjöldi lækna og starfsfólks á heilsugæslum tekur mið út frá fjölda skráðra íbúa hvers umdæmis fyrir sig. Hvert sveitarfélag eða umdæmi hverrar heilsugæslu getur verið mjög mismunandi að stærð, fjölda íbúa og að landfræði. Vegalengd að næstu heilsugæslu getur verið allt frá nokkrum kílómetrum upp í hundruð kílómetra endana á milli, þá sér í lagi á landsbyggðinni.

Óeðlilegt álag á starfsfólk

Á undanförnum árum hefur reynst erfitt að manna stöður lækna á heilsugæslum víða á landsbyggðinni. Starfsumhverfi heilsugæslunnar er erfitt í fámennum en víðfeðmum héruðum. Læknar sem gefa sig í slíkt umhverfi þurfa að standa langar vaktir og oft og tíðum undir miklu álagi. Til lengdar eru þessar vinnuaðstæður lítt spennandi né heilbrigt umhverfi fyrir fjölskyldufólk. Sólarhringurinn getur verið undir í vinnu, álagið og ábyrgðin mikil. Enginn endist í slíku vinnuumhverfi.

Þrír læknar fyrir allt að tólf þúsund manns

Starfssvæði heilsugæslunnar í Borgarnesi samanstendur af Borgarbyggð, Skorradalshreppi ásamt Eyja- og Miklaholtshreppi. Fjöldi íbúa á starfssvæðinu eru um 3.900 manns en fjöldi lækna við heilsugæslustöðina er að jafnaði þrír. Já, það eiga þrír læknar að þjóna þessu víðfeðma landsvæði, en ekki hefur þó verið fullmannað í þessar stöður undanfarin ár. Þrátt fyrir að íbúar séu skráðir 3900 þá er mikil dulin búseta á svæðinu. Þessi tala getur þrefaldast yfir sumartímann þar sem fjöldi fólks er staðsett í sumarbústöðum vítt og breitt um Borgarfjörð nokkra mánuði á ári. Þá er ótalin sú mikla umferð ferðamanna um svæðið. Læknir sem yfirgefur heilsugæslustöð eftir 8 tíma vinnudag getur átt von á því að fá útkall upp í Húsafell sem er í 62 km. fjarlægð frá Borgarnesi. Hann verður að sinna aðilanum þrátt fyrir að hann sé ekki „skráður“ á  viðkomandi heilsugæslu. Þá liggur þjóðvegur 1 í gegnum svæðið með tilheyrandi umferð sem því fylgir, læknir í Borgarnesi þarf að vera tilbúinn til hendast með sjúkrabíl upp á Holtavörðuheiði um miðja nótt til þess að sinna slysi.

Ástandið alvarlegt

Nú hafa tveir læknar við heilsugæsluna í Borgarnesi sagt starfi sínu lausu. Heilsugæslan í Borgarnesi hefur verið viðurkennd sem kennslustöð og má því ráða inn sérnámslækna eða kandídata sem vinna undir handleiðslu sérfræðilæknis á staðnum.  Eins og staðan er í dag hefur ekki tekist að ráða í þrjár sérfræðistöður lækna. Þriðja staðan hefur hingað til verið skipuð sérnámslækni eða kandídat. Til þess að hægt sé að manna stöðina með kandídötum eða sérnámslæknum þarf að vera sérfræðilæknir á stöðinni. Eins og staðan er núna er ekki búið að ráða sérfræðilækni í fullt starf í haust, hvað tekur þá við?

Íbúar finna nú þegar fyrir miklu álagi á heilsugæslunni, erfitt er að fá tíma hjá lækni og getur biðin talið nokkrar vikur. Það er erfitt að sjá eftir góðum læknum og enn erfiðara þegar er algjör óvissa ríkir um framhaldið. Miklu skiptir að fólk hafi aðgang að lækni sem er á staðnum og þekkir sögu fólks og fjölskyldna. Við vitum öll að einstaklingur sem þekkir vel til er fljótari að setja sig inn í flókar aðstæður heldur en afleysingarlæknar sem koma og fara. Það er samfélagslega mikilvægt að hafa fastráðna lækna á heilsugæslum.

Horfa þarf á starfsumhverfið í heild

Það er orðið augljóst að breytinga er þörf, það þarf að meta hvert svæði fyrir sig. Það þarf að taka með í reikninginn stærð landsvæðis, umfang, samgöngur og landslag mannlífs og náttúru. Starfssvæði heilsugæsla eru margvísleg og mismunandi um allt land. Ekki er lengur hægt að horfa einungis í íbúatölu þegar meta á starfsumhverfi lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks.

Hér áður fyrr létu læknar bjóða sér ýmsar aðstæður en það er ekki boðlegt lengur. Læknar, ljósmæður og þeir sem sinna svæðinu vilja og þurfa að eiga sér eðlilegt fjölskyldulíf ef þeir eiga að endast í starfi í fámennu en víðfeðmu héraði. Fjarlækningar eru góðar og gildar en þeim verður ekki viðkomið ef tilkynnt er um hjartaáfall í Húsafelli eða slys á Holtavörðuheiði. Það þarf að standa vörð um heilsugæsluna, fyrsta skrefið í því væri að meta hvert starfssvæði upp á nýtt þegar horft er til fjölda starfandi lækna og gera vinnuumhverfið meira aðlaðandi. Þannig má betur hlúa að heilsu þjóðarinnar.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir flokkinn í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 7. júlí 2021.

Categories
Fréttir

36. Flokksþing Framsóknarmanna

Deila grein

05/07/2021

36. Flokksþing Framsóknarmanna

36. Flokksþing Framsóknarmanna verður haldið dagana 28.-29. ágúst á Hótel Hilton Nordica í Reykjavík.

Framsóknarflokkurinn heldur reglulegt flokksþing sem haustfundur miðstjórnar boðar til, eigi sjaldnar en annað hvert ár og skal það að jafnaði haldið fyrri hluta árs.

Flokksþing Framsóknarmanna ákveður meginstefnu flokksins í landsmálum, setur flokknum lög og hefur æðsta vald í málefnum hans. Á flokksþingi skal kjósa formann Framsóknarflokksins og skal hann jafnframt vera formaður miðstjórnar flokksins. Þá skal á flokksþingi kjósa varaformann, ritara og tvo skoðunarmenn reikninga. Einnig skal kjósa tvo meðstjórnendur í laganefnd og tvo til vara. Ennfremur skal kjósa tvo meðstjórnendur siðanefndar og tvo til vara.

Hvert flokksfélag hefur rétt til að senda einn fulltrúa með atkvæðisrétt á flokksþing fyrir hverja 15 félagsmenn eða brot úr þeirri tölu. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir. Fulltrúatala skal miðast við félagatal eins og það liggur fyrir á skrifstofu flokksins 30 dögum fyrir flokksþing, þó að teknu tilliti til gr. 2.4. Um fyrirkomulag kosninga fulltrúa fer eftir lögum einstakra aðildarfélaga. Aðildarfélög skulu tilkynna val sitt á fulltrúum á flokksþing til skrifstofu flokksins eigi síðar en viku áður en flokksþing er sett. Allir félagsmenn í flokknum hafa rétt til að sækja flokksþing og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.

Miðstjórnarmenn eiga sæti á flokksþingi með atkvæðisrétti.

Mikilvægar dagsetningar:

  • 29. júlí – viðmiðunardagur fulltrúatölu á flokksþingi
  • 14. ágúst – skil á tillögum til lagabreytinga til skrifstofu
  • 21. ágúst – skil á kjörbréfum til skrifstofu
Categories
Greinar

Ísland fulltengt – farnet á vegum

Deila grein

01/07/2021

Ísland fulltengt – farnet á vegum

Við lifum á tímum tæknisamruna. Á sama tíma og verið er að leggja niður gamla einfalda heimasímann huga fjarskiptafyrirtæki og stjórnvöld nú að uppbyggingu fimmtu kynslóðar farnets (5G) sem veitir hnökralausan aðgang að háhraðaneti, stafrænum samskiptum og háskerpu afþreyingu, tölvuvinnslu í skýinu o.fl. um lófastór handtæki.

Á samráðsfundum fjarskiptaráðs með landshlutasamtökum nýverið var tvennt sem stóð upp úr. Ljósleiðaravæðing þéttbýlis á landsbyggðinni bar þar hæst. Ég brást við því ákalli með grein hér í blaðinu 22. apríl síðastliðinn „Ísland fulltengt – ljósleiðaravæðing byggðakjarna“. Hitt atriðið var slitrótt farsíma- og farnetssamband á vegum. Mikilvægi farsímans sem öryggisbúnaðar er að aukast enda það samskiptatæki sem yfirleitt er með í för á öllum ferðalögum. Skilningur gagnvart sambandsleysi á vegum er að hverfa og greina þarf leiðir til úrbóta.

Farnet á vegum er samgöngumál

Opinber markmið um farnet á vegum er eðlilega að finna í fjarskiptaáætlun. Í drögum að nýrri byggðaáætlun er jafnframt að finna slíka áherslu. Góð fjarskipti eru meðal helstu byggðamála og því eðlilegt að það endurspeglist í byggðaáætlun.

Aðgengi, gæði og öryggi farnets á vegum verður í fyrirsjáanlegri framtíð eitt af stærri viðfangsefnum í samgöngum. Tímabært er að áherslur og eftir atvikum verkefni er varða farnet á vegum verði einnig í samgönguáætlun. Skortur á farneti á vegum getur verið dauðans alvara. Um er að ræða brýnt og vaxandi öryggismál fyrir vegfarendur, veghaldara og viðbragðsaðila.

Undirbúningur hafinn

Póst- og fjarskiptastofnun, sem brátt fær nafnið Fjarskiptastofa, vinnur nú að undirbúningi langtíma úthlutunar á farnetstíðnum á landsvísu til rekstraraðila farneta. Liður í því er verkfræðileg greining á uppbyggingarþörf og kostnaði við aðstöðusköpun og farnetskerfi sem tryggir fulla útbreiðslu af tilteknum gæðum á skilgreindum vegum um allt land. Niðurstaða þeirrar greiningar mun liggja fyrir í haust og opnar möguleika á að útbúa sviðsmyndir um hagkvæma uppbyggingu farnets í vegakerfinu og aðkomu ólíkra aðila. Óhjákvæmilegt er að horfa þar m.a. til tæknisamruna opinberra dreifikerfa og hagnýta eiginleika 5G til að leysa af hólmi a.m.k. víðast hvar, núverandi dreifikerfi útvarps og TETRA kerfi neyðar- og viðbragðsaðila. Eitt öflugt landsdekkandi kerfi í stað þriggja.

Hraðvirkt, slitlaust og öruggt farnet á öllum helstu vegum landsins er í senn byggða-, fjarskipta- og samgöngumál sem varðar hagsmuni allra landsmanna. Undirbúningur fyrir næstu samgönguáætlun og fjarskiptaáætlun er hafinn. Ég hef því falið formönnum samgönguráðs og fjarskiptaráðs að sjá til þess að undirbúningur þessara tveggja lykil innviðaáætlana samfélagsins verði í takt og að þær vinni þétt saman er kemur að farneti gagnvart vegum. Áfram Ísland – fulltengt.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu-og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. júlí 2021.

Categories
Greinar

Hamfarir og tryggingarvernd

Deila grein

28/06/2021

Hamfarir og tryggingarvernd

Nátt­úru­ham­far­ir hafa alla tíð reynst Íslend­ing­um áskor­un og valdið um­tals­verðu eigna- og rekstr­artjóni, en þar næg­ir að nefna aðventu­storm­inn í des­em­ber 2019, snjóflóð á Flat­eyri og aur­flóð á Seyðis­firði. Sam­kvæmt nýj­ustu árs­skýrslu Nátt­úru­ham­fara­trygg­ing­ar Íslands urðu 14 stór­tjón á ár­inu 2020, en frá ár­inu 1987 hafa slík tjón verið að meðaltali sjö á ári.

Sam­ræmi í trygg­ing­ar­vernd

Mik­il­vægt er að sam­ræm­is gæti í trygg­ing­ar­vernd vegna nátt­úru­ham­fara og að öll úr­vinnsla í kjöl­far ham­fara sé eins skil­virk og sann­gjörn og mögu­legt er. Nátt­úru­ham­far­ir geta ógnað til­vist heilu sam­fé­lag­anna og tjón af þeirra völd­um hafa oft reynst ein­stak­ling­um, fyr­ir­tækj­um eða ann­arri starf­semi ofviða.

Farið hef­ur verið í marg­vís­leg­ar aðgerðir til að koma á sam­trygg­ingu og verj­ast nátt­úru­ham­förum hér á landi. Má þar nefna viðfangs­efni Nátt­úru­ham­fara­trygg­ing­ar Íslands, Of­an­flóðasjóðs og Bjargráðasjóðs, þróun verklags stjórn­valda í viðbrögðum og úr­vinnslu af­leiðinga ein­stakra at­b­urða, ásamt lög­boðnum og val­frjáls­um trygg­ing­um.

En bet­ur má ef duga skal. Mik­il reynsla hef­ur safn­ast upp við úr­vinnslu tjóna, sem mik­il­vægt er að læra af og nýta til að bæta vinnu­brögð. Eft­ir skriðuföll­in á Seyðis­firði hafa komið fram ýms­ar áskor­an­ir sem ekki hafa endi­lega verið til umræðu áður, ásamt öðrum sem vakið hef­ur verið máls á áður. Þar má nefna ósam­ræmi í bót­um til þeirra sem missa hús­næði sitt í ham­förum og þeirra sem þurfa að flytja úr hús­næði vegna hættu á ham­förum. Þá er margt óljóst varðandi vernd og trygg­ing­ar at­vinnu­lífs­ins, at­vinnu­tækja og at­vinnu­hús­næðis.

Mik­il­vægi út­tekt­ar

Ljóst er að til­efni er til þess að gerð verði út­tekt á þess­um mál­um. Í slíkri út­tekt þyrfti að greina hverju helst er ábóta­vant í trygg­ing­ar­vernd og úr­vinnslu tjóna og leita leiða til úr­bóta. Meta þyrfti sam­ræmi í viðbrögðum, mögu­leg göt í kerf­inu, hvað ekki fæst bætt og hvers vegna, og á hverja kostnaður vegna hreins­un­araðgerða og annarra verk­efna í kjöl­far ham­fara fell­ur. Mark­miðið væri að auka skil­virkni, jafn­ræði og sann­girni í úr­vinnslu tjóna vegna nátt­úru­ham­fara ásamt því að finna leiðir til að bæta upp­lýs­inga­gjöf og fræðslu til þeirra sem búa við nátt­úru­vá eða hafa lent í ham­förum. Þá er mik­il­vægt að upp­lýs­ing­ar um tjón á fast­eign­um séu skráðar skipu­lega, þótt farið sé í viðgerðir.

Í vor lagði und­ir­rituð fram þings­álykt­un­ar­til­lögu ásamt fleiri þing­mönn­um Fram­sókn­ar, um að ríkið léti fram­kvæma slíka út­tekt, til­lag­an hlaut ekki af­greiðslu á Alþingi. Ég mun áfram leggja mikla áherslu á að slík út­tekt verði gerð, enda löngu tíma­bær. Það þarf að nýta upp­safnaða þekk­ingu og reynslu til frek­ari fram­fara.

Lín­eik Anna Sæv­ars­dótt­ir, alþingismaður Fram­sókn­ar og fram­bjóðandi flokks­ins í Norðaust­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. júní 2021.