Categories
Greinar

Að vera í sambandi við önnur lönd

Deila grein

19/09/2020

Að vera í sambandi við önnur lönd

„Að vera í sam­bandi við annað fólk er mér lífs­nauðsyn“ ortu Stuðmenn og hlýt­ur það að vera heil­ag­ur sann­leik­ur eins og annað sem hef­ur komið frá þeim mætu mönn­um. Sam­skipti eru okk­ur öll­um mik­il­væg og eft­ir því sem tím­inn líður verður það æ mik­il­væg­ara fyr­ir okk­ur sem á þess­ari fal­legu eyju búum að hafa ör­uggt og öfl­ugt sam­band við út­lönd. Eins og stend­ur er fjar­skipta­sam­band okk­ar við út­lönd tryggt með þrem­ur fjar­skipt­a­strengj­um, tveim­ur sem liggja til Evr­ópu, Farice og Danice, og ein­um sem teng­ir okk­ur við Norður-Am­er­íku, Green­land Conn­ect.

Í fjar­skipta­áætl­un sem ég lagði fyr­ir Alþingi árið 2019 og var samþykkt, legg ég áherslu á að lagður verði nýr fjar­skiptasæ­streng­ur til að tryggja enn frek­ar sam­band okk­ar við um­heim­inn. Ástæðurn­ar fyr­ir lagn­ingu nýs strengs varða allt í senn ör­ygg­is-, efna­hags-, varn­ar- og al­manna­hags­muni. Fjöl­marg­ir hafa tekið und­ir mik­il­vægi slíkr­ar aðgerðar, þar á meðal Sam­tök iðnaðar­ins og Sam­tök gagna­vera.

Það var því ánægju­legt þegar rík­is­stjórn­in samþykkti á fundi sín­um fyr­ir skemmstu til­lögu mína og fjár­mála- og efna­hags­ráðherra um að tryggja fjár­mögn­un nýs fjar­skiptasæ­strengs milli Íslands og Írlands sem nefnd­ur hef­ur verið Íris.

Mik­il­vægt er að end­ur­nýja kerfið tím­an­lega þar sem Farice-streng­ur­inn er kom­inn til ára sinna. Þeir tím­ar sem við höf­um gengið í gegn­um und­an­farið und­ir­strika enn frem­ur nauðsyn ör­uggs og öfl­ugs út­landa­sam­bands þegar sam­göng­ur í heim­in­um eru tak­markaðar um ófyr­ir­séðan tíma.

Þótt ör­ygg­isþátt­ur­inn ráði miklu er efna­hagsþátt­ur­inn ekki síður mik­il­væg­ur. Hér á landi hef­ur byggst upp öfl­ug starf­semi sem reiðir sig mjög á ör­uggt og gott sam­band. Má þar nefna ört vax­andi geira eins og tölvu­leikja­geir­ann sem nýt­ir sér styrk skap­andi greina á Íslandi, geira sem ég tel mik­il­vægt að hlúa að og efla á kom­andi tím­um. Þá eru mik­il tæki­færi fólg­in í upp­bygg­ingu gagna­vera en ný og öfl­ug teng­ing eyk­ur mjög mögu­leik­ana þegar kem­ur að gagna­ver­um fyr­ir stóra aðila eins og Google og Face­book, svo ein­hver fyr­ir­tæki séu nefnd.

„Að vera í takt við tím­ann get­ur tekið á. Að vera up to date er okk­ar innsta þrá“ ortu Stuðmenn einnig og má segja að þessi miklu og já­kvæðu tíðindi af upp­bygg­ingu full­kom­ins sam­bands við út­lönd séu í takt við nýja tíma þar sem áhersla stjórn­valda er á fjöl­breytt­ari at­vinnu­vegi. Og af því ég var byrjaður að garfa í textum Stuðmanna get ég ekki annað en endað á þess­ari línu sem er eins og töluð út úr hjarta fram­sókn­ar­manns­ins: „Hvers kyns fana­tík er okk­ur fram­andi. Hún er hand­bremsa á hug­ann, lam­andi.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. september 2020.

Categories
Greinar

Fram­sókn í efna­hags­málum

Deila grein

18/09/2020

Fram­sókn í efna­hags­málum

Bjartar sumarnætur eru að baki og bláberin komin í hús. Þá njótum við hvítra fjallatoppa nú í byrjun september sem eru sem upptaktur fyrir komandi vetur. Allt bendir til þess að við séum að ganga inn í djúpa efnahagslægð vegna heimsfaraldurs Covid-19. Í upphafi árs var staða ríkissjóðs sterk og á þeim grunni getum við nú byggt þegar bregðast þarf við því ástandi sem blasir við okkur. Við erum að horfa fram á alvarlegt atvinnuleysi sem vonandi verður tímabundið. Í þessu ástandi er mikilvægt að nýta þau tækifæri sem koma okkur fyrr á þurrt land auk þess að byggja til framtíðar.

Þegar við stöndum föst í miðju kófinu þá er freistandi að leita gamalla leiða en happadrýgst er að finna nýjar leiðir og halda áfram. Okkar litla hagkerfi gruggast auðveldlega en er því fljótar að kyrrast. Okkar sterku innviðir hafa þegar sannað sig eins og okkar öfluga heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Með slíkar grunnstoðir höldum við örugg áfram. Þá hafa viðbrögð og ákvarðanir stjórnvalda verið fumlaus að bregðast við nýjum verkefnum hverju sinni. Sú gagnrýni sem hefur heyrst frá stjórnarandstöðunni um stefnuleysi stjórnvalda verður fremur andstutt og á við lítil rök að styðjast. Leiðin áfram er að halda þann takt sem í upphafi var sleginn og snúa sér í strauminn með því að halda samfélagslegri virkni gangandi.

Verjum störfin með ábyrgð

Verkefni stjórnvalda er margþætt. Það snýr að einstaklingum, fjölskyldum og samfélaginu öllu. Heildaratvinnuleysi er komið upp í 10% og enn erum við ekki farin að sjá toppinn. Mörg fyrirtæki eiga í rekstrarerfiðleikum og tryggja þarf rekstrarstöðu þeirra til að halda störfum og afla þjóðfélaginu tekna. Verkefnið er að spyrna íslensku efnahagslífi aftur af stað fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Samfélagið þarf á virkri atvinnuþróun og nýsköpun að halda. Vandamál lítilla og meðalstórra fyrirtækja er að þau hafa alltaf minni aðgang að lánsfjármagni til að vaxa og bregðast við ástandinu. Hérna þurfa stjórnvöld að stíga fram með leið til að efla vöxt og samkeppnishæfni fyrirtækja með því að búa til hvata fyrir þá sem ráða fjármagninu til að lána í gjaldeyrisskapandi verkefni. Með þeim skilaboðum minnkum við sveifluna og aukum líkur á því að við náum fyrr til lands.

Víða leynast tækifærin

Mikil gróska hefur verið í nýjum atvinnugreinum sem hafa byggst upp víða um land. Ferðaþjónustan á undir högg að sækja en það er mikilvægt að sú þekking og reynsla sem byggst hefur upp á undanförnum árum glatist ekki. Fiskeldið er ný atvinnugrein sem hefur verið að byggjast upp á undanförnum áratug. Talið er að ef að framleiðslan fari í það magn sem burðaþolsgeta þeirra svæða sem fiskeldinu er afmarkað segir til um verði útflutningsverðmætið nær 65 ma. kr. Þá væri einnig hægt að auka umsvif og verðmæti fiskeldisins með því auka fullvinnslu aflans og fjölga þar með þeim störfum sem snúa að þessari atvinnugrein líkt og Færeyingum hefur tekist. Fullvinnsla matvæla bæði í landbúnaði og sjávarútvegi er mikilvæg. Mörg fyrirtæki á því sviði bíða eftir tækifæri til að vaxa og eru þegar komin á stað með góðar vörur.

Með samvinnu og festu finnum við öflugar leiðir til að halda atvinnulífinu gangandi sem skilar sér í öflugu samfélagi til framtíðar. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. september 2020.

Categories
Greinar

Sveitarstjórnarstigið og leiðin inn í framtíðina

Deila grein

16/09/2020

Sveitarstjórnarstigið og leiðin inn í framtíðina

Reynslan síðustu ár og ekki síst síðustu misseri hefur sýnt að mikilvægt er að skipulag sveitarfélaga sé byggt á traustum viðnámsþolnum sjálfbærum innviðum og svigrúm sé til að bregðast við efnahagslegum sveiflum og breytingum. Sveitarfélög þurfa að þola jafnt að takast á við vöxt og efnahagslegan samdrátt.

Það ástand sem nú ríkir í samfélaginu er vissulega óvenjulegt og hefur gríðarlega mikil áhrif á rekstur og afkomu flestallra sveitarfélaga í landinu og frávik eins og nú blasa við flestum sveitarfélögum kalla á nýjar áskoranir. En óháð því ástandi sem nú blasir við vegna Covid þá hef ég hef starfað í sveitarstjórn frá 2014 og kynnst því að rekstur og fjárfestingargeta sveitarfélagsins er af langstærstum hluta háð framlagi Jöfnunarsjóðs. Fjárhagurinn hefur því verið eins og blaðra síðustu ár sem ýmist er full af gasi eða loftlaus. Verkefni kjörinna fulltrúa hefur oftar en ekki afmarkast af því að takast á við það efnahagsástand sem ríkir á hverjum tíma. Mikilvægt að samkomulag verði gert um það að vinna með langtímasýn og raunsæi þegar kemur að því að leitast við að tryggja stöðugleika í rekstri sveitarfélaga sem gefur til lengri tíma svigrúm til eðlilegrar uppbyggingar og viðhalds á innviðum samfélagsins.

Verkefni og hlutverk sveitarfélaga hafa breyst gríðarlega mikið á síðustu áratugum og krafan um samkeppnishæfa þjónustu eykst frá ári til árs í öllum málaflokkum. Lífsgæði og gildi þeirra þátta sem snúa að lýðheilsu, aðstöðu til heilsueflingar, útivistar, afþreyingar og umhverfis sem styður við góða andlega og líkamlega heilsu hefur meira vægi í dag en nokkru sinni fyrr.

Við gerum þá kröfu að grunn- og leikskólabyggingar séu vel útbúnar og tryggi gott starfsumhverfi og þjónustu fyrir nemendur og starfsfólk, aðgengi að góðum íþróttamannvirkjum, öflugu menningar- og íþróttastarfi er hverju samfélagi lífsnauðsynlegt og mikilvægt er að jarðvegur sé fyrir nýsköpun á hverjum tíma.

Fólk vill búa í samfélagi þar sem vel er hugað að fegrun umhverfis og gott viðhald sé á götum og gangstéttum. Íbúar vilja að álögur séu lágar og kostnaður við dagvistun, íþrótta- og tómstundastarfs sé niðurgreiddur eins og kostur er til að gæta jafnræðis m.a.

Það er skilda okkar kjörinna fulltrúa að horfa til framtíðar og tryggja bæði stöðugleika og framfarir í þjónustu sveitarfélagsins og sjá til þess að uppbygging sé í takt við þarfir samtímans. Það eru nýjar og annarskonar áskoranir sem sveitarstjórnarstigið stendur frammi fyrir í nútíma samfélagi og margt hefur t.a.m. breyst á ekki lengri tíma en 20 árum. Ljóst er að það er, fyrir margra hluta sakir, ómögulegt fyrir fámenn sveitarfélög að standa undir þeim kröfum sem við gerum um aðstöðu, gæði og viðhald innviða í dag. Sveitarstjórnarstigið þarf einfaldlega að styrkjast á landsvísu til að hægt sé að koma til móts við þarfir samtímans.  Það er því nauðsynlegt að endurskoða bæði hlutverk Jöfnunarsjóðs og fjármögnun/aðkomu ríkisins á þeim verkefnum sem falla undir sveitarfélögin. Það er þó grundvallarhlutverk kjörinna fulltrúa að gæta sameiginlegra hagsmuna okkar allra og tryggja að fjármunum sé vel varið til að koma til móts við þarfir nútímans, óháð því hvort þeir koma frá ríkinu eða í gegnum útsvarstekjur.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 16. september 2020.

Categories
Greinar

Orku­jurtir – um­hverfis­vænir orku­gjafar

Deila grein

16/09/2020

Orku­jurtir – um­hverfis­vænir orku­gjafar

Síðastliðið haust flutti undirrituð ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins þingsályktunartillögu um mótun efnahagslegra hvata til að efla ræktun orkujurta á Íslandi. Með henni var Sigurði Inga Jóhannssyni samgöngu og sveitastjórnarráðherra falið að skipa starfshóp til að móta og hrinda í framkvæmd aðgerðaráætlun um efnahagslegan hvata sem styrkja forsendur fyrir ræktun orkujurtanna repju og nepju. Þessi þingsályktunartillaga verður endurflutt í því skyni að stuðla að því að hér verði unnið í því að rækta orkujurtir til framleiðslu á vistvænum orkugjafa. Nauðsynlegt er að styðja við nýjar atvinnugreinar og hjálpa þeim að vaxa og dafna þar til þær geta séð um sig sjálfar.

Orkujurtirnar repja og nepja má rækta með góðum árangri víða um land og getur orðið góð viðbót sem nýsköpun í íslenskum landbúnaði og iðnaði. Ræktun á repju og nepju styður við landgræðslu og jarðvegsundirbúning fyrir aðra ræktun. Við ræktun og vinnslu á repju og nepju verða til þrjár afurðir, olía, fóðurmjöl og stönglar. Stönglarnir eru notaðir sem áburður og undir húsdýr, fóðurmjölið er prótenríkt og hentar vel fyrir nautgripi, svín og eldisfiska. Þá má nota olíuna sem vistvænan orkugjafa á vélar sem brenna dísilolíu. Ræktun á repju og nepju í því skyni að knýja dísilvélar er jákvæð að mörgu leiti. Innlend framleiðsla eflir orkuöryggi Íslands, sparar gjaldeyri og minkar verðsveiflur. Hún er einnig mun umhverfisvænni en notkun jarðefnaeldsneyta. Ræktun á repju og nepju bindur koldíoxíð og dregur úr losun gróðurhúsaloftegunda. Vinnsla á olíu úr fræjum repju og nepju bindur meira koldíoxíð en losnar við bruna á olíunni, öfugt við það sem gerist þegar jarðolía er brennd.

Íslensk stjórnvöld hafa sett sér markmið um að minnka notkun á jarðefnaeldsneyti og nýta frekar orku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Ísland er aðili að Parísar sáttmálanum, samkvæmt sáttmálanum skulu aðildarríkin setja sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda og unnið er að því statt og stöðugt. Það mikið gleðiefni þegar ritað var undir viljayfirlýsingu í síðustu viku milli Samgöngustofu og ISAVIA um samstarf vegna tilraunaverkefnis um íblöndun repjuolíu á stórvirk tæki á Keflavíkurflugvelli. Með samstarfi Samgöngustofu og ISAVIA er stigið mikilvægt skref í orkuskiptum með því að auka hlutdeild innlendra orkugjafa. Með sívaxandi umhverfisvitund og aukinni þekkingu á áhrifum brennslu jarðefnaeldsneytis á hlýnun jarðar hljótum við öll að vera sammála um að nýta umhverfisvæna og sjálfbæra orkugjafa, það er gott fyrir jörðina, landbúnaðinn og efnahaginn. Repjuræktun eflir sjálfbærni íslensk samfélags og styrkir íslenska atvinnuvegi. Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. september 2020.

Categories
Greinar

Sjálfbært sjávarhagkerfi – ávinningur fyrir alla

Deila grein

16/09/2020

Sjálfbært sjávarhagkerfi – ávinningur fyrir alla

Erna Sol­berg, for­sæt­is­ráðherra Nor­egs, var aðalræðumaður á fundi um líf­fræðilega fjöl­breytni sjáv­ar sem Norður­landaráð stóð fyr­ir 14. sept­em­ber sl. Líf­fræðileg fjöl­breytni er eitt af þrem­ur áherslu­mál­um for­mennsku Íslands í Norður­landaráði á þessu ári. Árið 2018 setti Sol­berg á lagg­irn­ar alþjóðlega leiðtoga­nefnd um sjálf­bært sjáv­ar­hag­kerfi. For­sæt­is­ráðherr­ann stýr­ir nefnd­inni en í henni sitja leiðtog­ar fjór­tán strandþjóða. Mark­miðið er að skapa alþjóðleg­an skiln­ing á sjálf­bærri nýt­ingu hafs­ins og góðu ástandi á líf­ríki þess sem skil­ar sér í mik­illi verðmæta­sköp­un.

Alþjóðlega leiðtoga­nefnd­in um sjálf­bært sjáv­ar­hag­kerfi var stofnuð að frum­kvæði Norðmanna. Nefnd­in vill skapa sókn­ar­færi fyr­ir sjálf­bært sjáv­ar­hag­kerfi þar sem ár­ang­urs­rík vernd, sjálf­bær fram­leiðsla og sann­gjörn vel­meg­un hald­ast í hend­ur. Með því að styrkja sam­band manns­ins og hafs­ins, tengja heil­brigði og auðæfi sjáv­ar, starfa með ýms­um hags­munaaðilum og nýta sér nýj­ustu þekk­ingu vill nefnd­in stuðla að betri og traust­ari framtíð fyr­ir menn­ina og móður jörð. Nefnd­in starfar með stjórn­völd­um, at­vinnu­lífi, fjár­mála­stofn­un­um, vís­inda­sam­fé­lag­inu og borg­ara­legu sam­fé­lagi.

Í for­mennskutíð Íslend­inga í Norður­landaráði í ár er ætl­un­in að beina sjón­um að tveim­ur þátt­um sem tengj­ast líf­fræðilegri fjöl­breytni. Ann­ars veg­ar er fyr­ir­hugað að virkja ungt fólk á Norður­lönd­um þannig að það geti haft áhrif á mót­un nýrra alþjóðlegra mark­miða um líf­fræðilega fjöl­breytni á ár­inu 2020. Hinn þátt­ur­inn snýr að líf­fræðilegri fjöl­breytni í hafi sem hef­ur mikið gildi fyr­ir Ísland og önn­ur nor­ræn ríki sem eru mjög háð auðlind­um hafs­ins.

Hlust­um á unga fólkið

Mark­miðið með sam­eig­in­lega fund­in­um var að ræða hlut­verk Norður­landa í vinn­unni að sjálf­bærri stjórn­un sjáv­ar­auðlinda og við að tryggja sjálf­bært sjáv­ar­hag­kerfi í framtíðinni á Norður­lönd­um og um heim all­an. Góð stjórn­un hafs­ins á Norður­lönd­um og alþjóðlega er of­ar­lega á dag­skrá Norður­landaráðs. For­mennskulandið Ísland legg­ur í áætl­un sinni áherslu á líf­fræðilega fjöl­breytni hafs­ins og und­ir­strik­ar að hnign­un líf­fræðilegr­ar fjöl­breytni hafi djúp­stæð áhrif á þjóðir Norður­landa sem eru afar háðar auðlind­um sjáv­ar.

Í opn­un­ar­ræðu fund­ar­ins greindi ég frá áhersl­um for­mennsku­lands­ins Íslands á hafið og líf­fræðilega fjöl­breytni sjáv­ar ásamt hlut­verki ungs fólks í að standa vörð um hana. Unga fólkið hef­ur mjög látið í sér heyra und­an­far­in ár og kraf­ist þess af vald­höf­um – og af okk­ur öll­um – að við breyt­um hegðun okk­ar þannig að kom­andi kyn­slóðir geti áfram notið þess að búa á jörðinni og notið auðlinda henn­ar jafnt í hafi sem á landi. Við, í ís­lensku for­mennsk­unni, og fé­lag­ar okk­ar í Norður­landaráði vilj­um að hlustað verði á þess­ar radd­ir, að ákv­arðanir verði tekn­ar í sam­ráði við unga fólkið og með gagn­sæj­um hætti.

Fram­far­ir í vernd­un fiski­stofna

Nú reyn­ir enn meira en áður á sjáv­ar­út­veg­inn sem grunnstoð sam­fé­lags­ins. Hann hef­ur ekki og hann má ekki bregðast okk­ur. En við þurf­um að gæta að þeirri auðlind sem hann bygg­ist á. Fyrr á öld­um héldu menn að fiski­stofn­ar hafs­ins væru ótæm­andi. Þegar er­lend­ir tog­ar­ar fóru að sækja á Íslands­mið í lok 19. ald­ar með stór­virk­um veiðarfær­um sín­um áttuðum við Íslend­ing­ar okk­ur á því að svo er ekki.

Mikl­ar fram­far­ir hafa orðið í vernd­un fiski­stofna við Ísland síðan þá. Við höf­um líka unnið að því að nýta afl­ann bet­ur og við erum far­in að sækja í fleiri teg­und­ir. Ég gaf ný­lega út, ásamt fleir­um, bók um ís­lenska matþör­unga. Það er dæmi um fæðu úr haf­inu sem mætti nota mun meira en nú er gert. Of­veiði í höf­um er enn víða vanda­mál en á síðustu árum og ára­tug­um höf­um við líka orðið meðvituð um aðrar og enn al­var­legri ógn­ir: Lofts­lags­breyt­ing­ar sem meðal ann­ars valda súrn­un sjáv­ar, meng­un af ýmsu tagi og eyðilegg­ing búsvæða. Allt hef­ur þetta áhrif á líf­fræðilega fjöl­breytni.

Breyta ríkj­andi hugs­un og hátt­semi

Norður­landaráð legg­ur á ár­un­um 2018-2020 sér­staka áherslu á heims­mark­mið Sam­einuðu þjóðanna núm­er 14: Líf í vatni, þar sem eft­ir­far­andi þætt­ir eru í for­grunni: kol­efn­is­los­un frá sjáv­ar­út­vegi, hlýn­un sjáv­ar, súrn­un sjáv­ar og öfl­un frek­ari þekk­ing­ar á þessu sviði, sam­eig­in­leg stefnu­mörk­un Norður­landa um plastúr­gang, aðgerðir gegn ofauðgun Eystra­salts­ins, samn­or­ræn­an gagna­grunn um líf­ríki sjáv­ar og þátt­töku ungs fólks við mót­un nýrra mark­miða fyr­ir nýj­an samn­ing Sam­einuðu þjóðanna um líf­fræðilega fjöl­breytni.

Það er von mín að mark­miðin með starf­semi Alþjóðlegu leiðtoga­nefnd­ar­inn­ar um sjálf­bært sjáv­ar­hag­kerfi verði að veru­leika svo sem að hvetja til, þróa og styðja lausn­ir í þágu heil­brigðis hafs­ins og auðæfa sjáv­ar og að efla rödd viðkvæmra sjáv­ar- og eyja­byggða svo fátt eitt sé nefnt. Fyrsta skref nefnd­ar­inn­ar er þó það að geta breytt ríkj­andi hugs­un og hátt­semi í heim­in­um með því að vera hátt­sett­um leiðtog­um hvatn­ing til að móta stefnu og aðgerðir í þess­um efn­um. Þegar það er stigið get­um við öll haf­ist handa við sjálf­bæra stjórn­un hafs­ins og sjáv­ar­auðlinda.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, for­seti Norður­landaráðs.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. september 2020.

Categories
Fréttir

Áfram veginn – stefnuskrá og listakynning

Deila grein

14/09/2020

Áfram veginn – stefnuskrá og listakynning

Með öflugu fólki í öflugum flokki – traustur fjárhagur er lykillinn að farsælli sameiningu. Við höfum til að bera þá reynslu og þekkingu sem þarf til að stýra fjármálum sveitarfélagsins af ábyrgð. Með því að sýna skynsemi í rekstri munum við geta fjárfest í uppbyggingu skóla og leikskóla því góð aðstaða fyrir börn og ungmenni gerir sveitarfélagið aðlaðandi fyrir fjölskyldur að setjast hér að.

Þannig blómstrar fjárhagur sveitarfélagsins. En þetta gerist ekki af sjálfu sér.

Stefnuskrá og listakynning Framsóknarflokks í nýju sveitarfélagi á Austurlandi.

Categories
Greinar

Íslensk olía á skip og vinnuvélar

Deila grein

14/09/2020

Íslensk olía á skip og vinnuvélar

Rannsóknir sýna að bíódísill úr repjuolíu geti komið í staðinn fyrir jarðefnaeldsneyti. Á Íslandi er ónýtt ræktunarland til staðar fyrir repjuræktun. Hægt er að minnka losun margra gróðurhúsaloftegunda um allt að 70% á tiltölulega auðveldan hátt með því að breyta eldsneytisnotkun skipa og annarra vinnuvéla þannig að þau noti jurtaolíu, bíódísil eða annað lífrænt eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis. Tækifærin felast í ræktun orkujurta á Íslandi.

Tvöföld kolefnisjöfnun

Bíódísill úr repjuolíu er lífræn dísilolía og endurnýjanlegur orkugjafi og telst einn umhverfishlutlausasti orkugjafinn sem getur komið í stað jarðdísilolíu. Repjuræktun felur í sér tvöfalda kolefnisjöfnun með tilliti til útblásturs á koltvísýringi þar sem ræktunin tekur til sín tvöfalt meira af koltvísýringi en brennsla olíunnar gefur frá sér við útblástur. Bíódísil má nota í olíubrennurum og á allar dísilvélar farartækja og varla þarf að breyta vélunum ef skipta skal yfir á bíódísil.

Olíuframleiðsla á ónýttu landi

Ísland hefur þá sérstöðu að ekki þarf að taka undir ræktunina land sem almennt er í ræktun fyrir matjurtir. Það eru góð skipti að skipta mel og söndum út fyrir gula akra, ekki satt? Gott ræktunarland á Íslandi er aðeins 6% af flatarmáli landsins, eða 600.000 hektarar. Þar af eru þegar í ræktun um 120.000 hektarar og tiltækt ræktunarland er því um 480.000 hektarar. Með sérstöku átaki mætti framleiða alla þá olíu sem íslenski skipaflotinn notar á nú ónýttu landi.

Áhersla á fiskiskipaflotann

Í samgönguáætlun íslenskra stjórnvalda er stefnt að því að losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna á Íslandi verði undir 750 þúsund tonnum árið 2020, sem er í samræmi við aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Til að ná þessum markmiðum er lögð áhersla á að auknar verði rannsóknir á umhverfisvænum orkugjöfum til að þróa og framleiða vistvænt eldsneyti. Einnig að markvissar aðgerðir og ívilnanir miði að minni notkun jarðefnaeldsneytis og að samgöngutæki nýti orku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Sérstök áhersla er lögð á að auka notkun lífeldsneytis á fiskiskipaflotann.

Undirrituð hefur lagt fram þingsályktun varðandi ræktun og nýtingu íslenskra og þann 8. sept. sl. undirrituðu Samgöngustofa og Isavia viljayfirlýsingu um kolefnislausan flugvöll, í samræmi við Flugstefnu. Fyrsta skrefið er að prófa íblöndun á repjuolíu á vinnuvélar þjónustudeildar Isavia. Verkefni er spennandi áfangi í orkuskiptum og einmitt í því umhverfi þar sem þróunin í orkuskiptum er hægari en í fólksbílum hentar íblandað eldsneyti mjög vel og verður að jákvæðri kolefnislausn.

Það verður áhugavert að sjá hver næstu skref verða í þeim efnum, þar sem stórkostlega tækifæri felast í aukinni nýtingu íslenskra orkujurta, ekki síst fyrir umhverfið og orkuöryggi þjóðarinnar.

Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Eyjafréttum 9. september 2020.

Categories
Greinar

Hugsum stórt

Deila grein

12/09/2020

Hugsum stórt

Í upp­hafi árs­ins var slaki tek­inn að mynd­ast í efna­hags­kerf­inu og blik­ur voru á lofti eft­ir sam­fellt langt hag­vaxt­ar­skeið á Íslandi. Fregn­ir af COVID-19 voru farn­ar að ber­ast frá Kína, en fáir sáu fyr­ir hversu al­var­leg­ar af­leiðing­arn­ar yrðu af hinni áður óþekktu veiru. Smám sam­an breytt­ist þó heims­mynd­in og í byrj­un mars raun­gerðist vand­inn hér­lend­is, þegar fyrstu inn­an­lands­smit­in greind­ust. Höggið á efna­hags­kerfi heims­ins var þungt og enn eru kerf­in vönkuð.

Efna­hags­horf­ur um all­an heim munu hverf­ast um þróun far­ald­urs­ins og hvernig tekst að halda sam­fé­lags­legri virkni, þar til bólu­efni verður aðgengi­legt öll­um eða veir­an veikist. Við þess­ar aðstæður reyn­ir á grunnstoðir sam­fé­laga; heil­brigðis­kerfi, mennta­kerfi og efna­hagsaðgerðir stjórn­valda. Hér­lend­is er eitt mik­il­væg­asta verk­efnið að ráðast í fjár­fest­ing­ar, grípa þau tæki­færi sem fel­ast í krefj­andi aðstæðum og leggja grunn­inn að hag­sæld næstu ára­tuga.

Sam­fé­lags­leg virkni tryggð

Bar­átt­an við veiruna hef­ur um margt gengið vel hér­lend­is. Heil­brigðis­kerfið hef­ur staðist álagið, þar sem þrot­laus vinna heil­brigðis­starfs­fólks og höfðing­legt fram­lag Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar hafa varðað leiðina. Mennta­kerfið hef­ur einnig staðist prófið og Ísland er eitt fárra landa sem hef­ur ekki lokað skól­um. Þá hafa um­fangs­mikl­ar efna­hagsaðgerðir skilað góðum ár­angri og lagt grunn­inn að næstu skref­um.

Skil­virk efna­hags­stjórn­un og framtíðar­sýn er lyk­il­inn að vel­sæld. Gert er ráð fyr­ir tæp­lega 6% sam­drætti í lands­fram­leiðslu á þessu ári, en viðsnún­ing­ur verði á því næsta með 4% hag­vexti. Sam­drátt­ur upp á 9,3% á öðrum árs­fjórðungi 2020 er sögu­leg­ur, en þó til marks um varn­ar­sig­ur í sam­an­b­urði við ríki á borð við Frakk­land (-14%) og Bret­land (-20%). Þótt óviss­an um þróun far­ald­urs­ins og þeirra at­vinnu­greina sem verst hafa orðið úti sé mik­il, geta stjórn­völd ekki leyft sér að bíða held­ur verða þau að grípa í taum­ana. Vinna hratt og skipu­lega, veita fjár­mun­um í innviðaverk­efni af ólík­um toga og skapa aðstæður fyr­ir fjölg­un virðis­auk­andi starfa til skemmri og lengri tíma.

Rík­is­stjórn­ir grípa bolt­ann

Þróuð hag­kerfi heims­ins gripu flest til rót­tækra efna­hagsaðgerða til að örva hag­kerfi sín í upp­hafi heims­far­ald­urs, með kenni­setn­ing­ar John M. Keynes að leiðarljósi. Sterkt sam­spil rík­is­fjár­mála, pen­inga­stefnu og fjár­mála­kerf­is varð leiðarljós rík­is­stjórna í sam­an­b­urðarlönd­un­um, sem hafa tryggt launþegum at­vinnu­leys­is­bæt­ur og fyr­ir­tækj­um stuðning, svo at­vinnu­lífið kom­ist fljótt af stað þegar heilsu­far­sógn­in er afstaðin. Lang­tíma­vext­ir í stærstu iðnríkj­um eru í sögu­legu lág­marki og viðbúið að svo verði um nokk­urt skeið, ekki síst í ljósi spár Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins sem ger­ir ráð fyr­ir 5% sam­drætti á heimsvísu í ár og efna­hags­bat­inn verði hæg­ari en talið var í fyrstu. Í því felst auk­in áskor­un fyr­ir lítið og opið hag­kerfi, eins og það ís­lenska, sem er um margt háð þróun á alþjóðamörkuðum og fólks­flutn­ing­um milli landa. Á hinn bóg­inn verður áfram mik­il eft­ir­spurn eft­ir helstu út­flutn­ings­vör­um Íslend­inga, mat­væl­um og grænni orku.

Op­in­ber­ar fjár­fest­ing­ar gegn sam­drætti

Í árs­byrj­un var staða rík­is­sjóðs Íslands sterk­ari en flestra ríkja Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (OECD). Hrein­ar skuld­ir rík­is­sjóðs voru aðeins um 20% af lands­fram­leiðslu, sem end­ur­spegl­ar styrka stjórn og niður­greiðslu skulda und­an­far­in ár sam­hliða mikl­um hag­vexti. Upp­gjörsaðferðir og lög frá 2015 um stöðug­leikafram­lög frá slita­bú­um fall­inna banka lögðu grunn­inn að þeirri stöðu, auk þess sem ferðaþjón­ust­an skapaði mikið gjald­eyr­is­inn­flæði. Stjórn­völd hafa því verið í kjör­stöðu til að sníða fjár­veit­ing­ar að þörf­inni og munu laga fram­haldsaðgerðir að raun­veru­leik­an­um sem blas­ir við. Op­in­ber­ar fjár­fest­ing­ar munu vega á móti sam­drætti árs­ins og núna er tím­inn til að hugsa til framtíðar. Fjár­festa í metnaðarfull­um innviðaverk­efn­um, mennt­un, ný­sköp­un, rann­sókn­um og þróun. Við eig­um að fjár­festa í veg­um og brúm, upp­bygg­ingu nýrra at­vinnu­greina og stuðningi við þær sem fyr­ir eru. Við eig­um að efla inn­lenda mat­væla­fram­leiðslu, byggja langþráða þjóðarleik­vanga fyr­ir íþrótt­ir og fjár­festa í nýj­um fyrsta flokks gagna­teng­ing­um Íslands við um­heim­inn. Við eig­um að kynna Ísland bet­ur fyr­ir er­lend­um lang­tíma­fjár­fest­um, fyr­ir­tækj­um og laða til lands­ins hæfi­leika­fólk á öll­um sviðum. Við eig­um að setja okk­ur mark­mið um íbúaþróun og sam­fé­lags­leg­an ár­ang­ur, sem bæði er mæld­ur í hag­vexti og al­mennri vel­ferð fólks sem hér býr. Auka þarf sam­starf hins op­in­bera og at­vinnu­lífs­ins í fjár­fest­ing­um og höfða til þeirra sem sjá framtíð í skap­andi grein­um.

Vext­ir í sögu­legu lág­marki 1%

Vaxta­stig er í sögu­legu lág­marki og hef­ur Seðlabanki Íslands ráðist í um­fangs­mikl­ar aðgerðir til að spyrna við slaka í hag­kerf­inu. Raun­vext­ir Seðlabank­ans hafa lækkað sam­hliða lækk­un nafn­vaxta og eru nú -1,7%. Þessi skil­yrði hafa leitt til þess að heim­il­in í land­inu hafa end­ur­fjármagnað óhag­stæðari lán og um leið aukið ráðstöf­un­ar­fé sitt. Aðstæður hafa einnig leitt af sér, að ávöxt­un­ar­krafa skulda­bréfs­ins sem rík­is­sjóður Íslands gaf út á alþjóðamörkuðum í vor nam aðeins tæp­lega 0,7%. Þrátt fyr­ir sögu­lega lága vexti eru fjár­fest­ing­ar at­vinnu­lífs­ins litl­ar og stjórn­valda bíður það verk­efni örva þær. Minnka óvissu og stuðla að efna­hags­leg­um stöðug­leika sem ýtir und­ir fjár­fest­ing­ar at­vinnu­líf­is­ins, á meðan vaxta­kjör eru hag­stæði. Vext­ir á heimsvísu eru líka sögu­lega lág­ir og pen­inga­prentvél­ar stærstu seðlabank­anna hafa verið mjög virk­ar. Hér­lend­is höf­um við tekið meðvitaðar ákv­arðanir um að gera meira en minna, nýta slak­ann til fulls og fjár­festa til framtíðar svo sam­fé­lagið verði sam­keppn­is­hæft til lengri tíma.

Fjár­mála­kerfið stór þátt­ur í viðspyrnu

Eig­in- og lausa­fjárstaða ís­lenska fjár­mála­kerf­is­ins er býsna sterk og bank­arn­ir því í góðri stöðu til að styðja við heim­il­in og fyr­ir­tæk­in í land­inu. Vita­skuld rík­ir í augna­blik­inu ákveðin óvissa um raun­v­irði út­lána­safna, en með sjálf­bæru og fram­sæknu at­vinnu­lífi skap­ast verðmæti fyr­ir þjóðarbúið sem eyk­ur stöðuleika og getu lán­tak­enda til að standa við skuld­bind­ing­ar sín­ar. Með hag­kvæmri fjár­mögn­un at­vinnu­lífs­ins geta fyr­ir­tæki skapað störf og verðmæti fyr­ir allt sam­fé­lagið, sem er for­senda þess að rík­is­sjóður geti staðið und­ir sam­neysl­unni. Með op­in­ber­um aðgerðum og stuðningi rík­is­ins við at­vinnu­lífið – hluta­bóta­leiðinni, brú­ar- og stuðningslán­um og fjár­veit­ing­um til ótal verk­efna – er stutt við út­lána­vöxt til fyr­ir­tækja, sem verða á brems­unni þar til óvissa minnk­ar. Það má því segja, að mik­il­væg­asta verk­efni stjórn­valda sé að draga úr óviss­unni.

Sjálf­bær viðskipta­jöfnuður

Fyr­ir þjóðarbúið er fátt mik­il­væg­ara en sjálf­bær greiðslu­jöfnuður. Það er því sér­takt gleðiefni, að þrátt fyr­ir áföll­in er bú­ist við af­gangi af viðskipta­jöfnuði á ár­inu, sem nem­ur um 2% af lands­fram­leiðslu. Megin­á­stæðan er hag­felld þróun út­flutn­ings­grein­anna, að frá­tal­inni ferðaþjón­ust­unni. Þannig hef­ur ál­verð farið fram úr vænt­ing­um og horf­ur á mörkuðum fyr­ir sjáv­ar­af­urðir eru betri en ótt­ast var. Tekju­fall ferðaþjón­ust­unn­ar dreg­ur sann­ar­lega mikið úr heild­ar­gjald­eyris­tekj­um þjóðarbús­ins, en sök­um þess að sam­drátt­ur á þjón­ustu­jöfnuði er bæði í inn- og út­flutn­ingi mynd­ast minni halli en ætla mætti. Ferðaþjón­ust­an mun taka við sér og skapa aft­ur mik­il verðmæti, en framtíðar­verk­efni stjórn­valda er að fjölga stoðunum und­ir út­flutn­ings­tekj­um þjóðar­inn­ar og tryggja að hag­kerfið þoli bet­ur áföll og tekju­sam­drátt í einni grein.

Sam­vinna er leiðin

Að feng­inni reynslu um all­an heim er ljóst, að stjórn­völd fá það verk­efni að tryggja vel­ferð, hag­sæld og at­vinnu­stig þegar stór áföll ríða yfir. Kost­ir hins frjálsa markaðskerf­is eru marg­ir, en þörf­in á virku sam­spili rík­is og einkafram­taks­ins er bæði aug­ljós og skyn­sam­leg. Hér­lend­is hef­ur þjóðin öll lagst á eitt við að tryggja sem mesta sam­fé­lags­virkni í heims­far­aldr­in­um og ríkið hef­ur fum­laust stigið inn í krefj­andi aðstæður. Því ætl­um við að halda áfram og kveða niður at­vinnu­leys­is­draug­inn, með nýj­um störf­um, sjálf­bær­um verk­efn­um og stuðningi við fyr­ir­tæki, þar sem það á við. At­vinnu­leysið er helsti óvin­ur sam­fé­lags­ins og það er siðferðis­leg skylda okk­ar að auka verðmæta­sköp­un sem leiðir til fjölg­un­ar starfa. Við vilj­um að all­ir fái tæki­færi til að láta reyna á hæfi­leika sína, hrinda hug­mynd­um í fram­kvæmd og skapa sér ham­ingju­samt líf. Með sam­hug og vilj­ann að vopni mun það tak­ast.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. september 2020.

Categories
Greinar

Loftbrú

Deila grein

12/09/2020

Loftbrú

Þann 9. sept­em­ber sl. kynnti sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra hina skosku leið, sem hef­ur fengið nafnið Loft­brú hér á landi. Að láta skosku leiðina verða að veru­leika var eitt stærsta kosn­ing­ar­loforð Fram­sókn­ar­flokks­ins fyr­ir þetta kjör­tíma­bil. Skoska leiðin er hluti af stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar og fór inn í sam­göngu­áætlun við gerð henn­ar. Málið var síðan samþykkt á Alþingi og er nú orðið að veru­leika. Það er mikið fagnaðarefni að okk­ur hafi tek­ist að upp­fylla þetta lof­orð að fullu, en Fram­sókn hef­ur þurft að hoppa yfir ýms­ar hindr­an­ir til að ná þessu bar­áttu­máli í gegn.

Loft­brú ger­ir inn­an­lands­flugið að enn fýsi­legri kosti fyr­ir íbúa lands­byggðar­inn­ar, þ.e. fyr­ir fólk sem býr á bil­inu 200-300 km akst­urs­fjar­lægð frá höfuðborg­ar­svæðinu. Þetta á líka við íbúa Vest­manna­eyja. Þeir sem geta nýtt sér Loft­brúna fá 40% af­slátt af heild­arfar­gjaldi inn­an­lands­flugs fyr­ir allt að 6 flug­leggi á ári til og frá höfuðborg­ar­svæðinu. Alls ná af­slátt­ar­kjör­in til rúm­lega 60 þúsund íbúa lands­byggðar­inn­ar.

Gert er ráð fyr­ir und­an­tekn­ing­um fyr­ir skil­yrði um bú­setu á lands­byggðinni. Þær und­an­tekn­ing­ar gilda fyr­ir fram­halds­skóla­nema af lands­byggðinni sem fært hef­ur fært lög­heim­ili sitt tíma­bundið á höfuðborg­ar­svæðið vegna náms og börn sem eru með lög­heim­ili á höfuðborg­ar­svæðinu en eiga for­eldra eða for­ráðamenn sem hafa bú­setu á lands­byggðinni. Unnið er að út­færslu á þess­um und­anþágum.

Mark­mið verk­efn­is­ins er að efla inn­an­lands­flug og stuðla að betri teng­ingu lands­ins með upp­bygg­ingu al­menn­ings­sam­gangna. Á lands­byggðinni er oft skort­ur á aðgengi að mik­il­vægri þjón­ustu, en þeir sem bú­sett­ir eru langt utan höfuðborg­ar­svæðis­ins þurfa oft að ferðast lang­an veg til að nýta sér þjón­ustu á höfuðborg­ar­svæðinu sem er jafn­vel bara í boði þar. Með Loft­brú er verið að tryggja greiðara aðgengi íbúa á lands­byggðinni að þjón­ustu á höfuðborg­ar­svæðinu. Þess­ar aðgerðir stuðla að því að þeir sem búa langt frá höfuðborg­ar­svæðinu sitji ekki á hak­an­um vegna bú­setu sinn­ar. Einnig er vert að nefna að nýta megi þessa af­slætti í þeim til­gangi að sækja menn­ingu á höfuðborg­ar­svæðinu og til að heim­sækja ætt­ingja og vini sem bú­sett­ir eru þar.

Þarna er verið að auka aðgengi að þjón­ustu sem ekki er til staðar í heima­byggð, t.a.m. kon­ur sem eru að fara í són­ar­skoðun og það hafa ekki all­ir aðgengi að tann­læknaþjón­ustu í heima­byggð svo fátt eitt sé nefnt. Síðan verður leiðin styttri í leik­hús okk­ar þjóðar­inn­ar því höfuðborg­in er okk­ar allra, hér er því verið að stuðla að frek­ara jafn­rétti fólks, óháð bú­setu, og mik­il­vægt byggðar­mál.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. september 2020.

Categories
Greinar

Lægri flugfargjöld með Loftbrú jafna aðstöðumun íbúa landsins

Deila grein

12/09/2020

Lægri flugfargjöld með Loftbrú jafna aðstöðumun íbúa landsins

Íbúar á landsbyggðinni sem búa lengst frá höfuðborginni eiga þess nú kost á að fá lægri flugfargjöld innanlands. Við höfum undirbúið verkefnið um nokkurt skeið undir heitinu skoska leiðin – en skrefið var stigið til fulls í gær, miðvikudag, þegar ég opnaði Loftbrú með formlegum hætti á þjónustuvefnum Ísland.is. Það var í senn tímabært og sérlega ánægjulegt að koma þessu í loftið.

Loftbrú veitir íbúum með lögheimili á búsetusvæðum fjærst höfuðborginni 40% afslátt af heildarfargjaldi í þremur ferðum á ári (sex flugleggjum) til og frá höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er mjög skýrt, að jafna aðstöðumun íbúa á landinu og bæta aðgengi að miðlægri þjónustu í höfuðborginni. Heilbrigðisþjónustan er sú sem flestir þurfa á að halda, en ekki síður menntun, menning og afþreying. Með þessu er verið að auka möguleika íbúa af landsbyggðinni á félagslegri þátttöku í borgarsamfélaginu sem til staðar er á suðvestur horni Íslands.

Í samtölum mínum við fólk víðsvegar um landið hefur umræða um ójafnt aðgengi að þjónustu oftar en ekki skipað stóran sess í huga fólks. Flestir landsmenn búa á suðvesturhorninu og hefur opinber þjónusta byggst þar upp. Þeir sem búa lengst frá höfuðborginni þurfa því að reiða fram hærri fjárhæðir til að komast á milli landssvæða en þorri landsmanna til að fá aðgang að sömu þjónustu. Þetta er skekkja í kerfinu sem þarf að leiðrétta, ekki síst með það í huga að Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna.

Fyrirmyndin að Loftbrú er sótt til Skotlands. Þar hefur þessi leið heppnast vel og hjálpað til við að halda í og laða að ungt fólk til afskekktra svæða. Skoska leiðin var eitt af loforðum Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar og ein af aðgerðum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Í mínum huga er Loftbrú ein af mikilvægari byggðaaðgerðum sem ráðist hefur verið í og með því tekið stórt skref til að koma á móts við grunnþarfir fólks sem býr úti á landi. Ísland ljóstengt er annað gott dæmi um vel heppnaða byggðaaðgerð sem leggur áherslu á sem mest jafnræði landsmanna hvað varðar aðgang að fjarskiptainnviðum.

Lægri flugfargjöld verða liður í gefa fólki kost á því að velja sér búsetu óháð starfi og leiða til þess að búseta á landsbyggðinni verði auðveldari. Búseta á landsbyggðinni mun styrkjast sem hefur jákvæð áhrif á íbúðarverð. Þá mun leiðrétting þessi hafa víðtæk samfélagsleg áhrif, auka lífsgæði fólks sem eiga þess kost á að skreppa til borgarinnar fyrir lægra fargjald, nýta ferðina og heimsækja ættingja og vini.

Í Skotlandi hefur flugferðum fjölgað og ef greiðsluþátttaka stjórnvalda með þessum hætti hjálpar flugfélögum að halda uppi þjónustustigi er það af hinu góða og stuðlar að öruggum samgöngum. Einhverjir hafa haft þær áhyggjur að flugfélögin myndu sjá sér leik á borði og hækka fargjöldin en mér er það til efst að það væri góð ákvörðun að hækka flugfargjöld til allra hinna sem njóta ekki þessara mótvægisaðgerða.

Það er afskaplega einfalt að nýta sér afsláttarkjör með Loftbrú. Á Ísland.is auðkennir fólk sig með rafrænum skilríkjum og sér þar yfirlit yfir réttindi sín. Þeir sem vilja nýta afsláttinn sækja sérstakan afsláttarkóða sem nota má á bókunarsíðum flugfélaga þegar flug er pantað. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur málið frekar á vefnum Loftbru.is.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. september 2020.