Categories
Greinar

Vel­ferð barna – fram­tíðin krefst þess

Deila grein

08/06/2021

Vel­ferð barna – fram­tíðin krefst þess

Í síðustu viku mælti undirrituð fyrir þremur frumvörpum í þingsal sem koma til með að skipta veigamiklu máli fyrir velferð barna. Þessi þrjú frumvörp má setja saman í einn pakka um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, en þau eru afurð mikillar vinnu að hálfu félags- og barnamálaráðherra yfir kjörtímabilið með það að markmiði að bæta hag allra þeirra barna hér á landi sem þurfa á þjónustu að halda. Fylgst verður með velferð barna og metin þörf fyrir þjónustu og sem mikilvægt er að samráð sé á milli þjónustuveitenda með það að markmiði að þjónustan verði samfelld og samþætt í þágu velferðar barna og fjölskyldna þeirra.

Róttækar breytingar í þágu farsældar barna

Til að ná því markmiði þarf róttækar og veigamiklar breytingar á því kerfi sem er til staðar í dag. Rauði þráðurinn í þessum róttæku og veigamiklu breytingum er snemmtæk íhlutun, þ.e. að gripið verði fyrr inn í að þjónusta börn en áður. Einnig er í fyrsta sinn kveðið á um samræmda mælikvarða sem lýsa stigskiptingu þjónustu í þágu farsældar barna. Öll þjónusta til barna í vanda verður stigskipt eftir því hversu mikil þörfin á þjónustu er. Slík „farsældarþjónusta“ er skilgreind allt frá grunnþjónustu, sem stendur öllum börnum til boða, til mjög sérhæfðrar þjónustu sem gert er ráð fyrir að einungis lítill hluti barna þurfi á að halda. Með heildstæðri mynd af stigskiptri þjónustu í þágu farsældar barna er ætlunin að stuðla að meðalhófi, skilvirkni og samfellu í veitingu þjónustu.

Snemmtæk íhlutun

Eins og áður kom fram er snemmtæk íhlutun þungamiðjan þeirra breytinga sem félags- og barnamálaráðherra hefur hrint af stað. Snemmtækri íhlutun hefur verið beitt á síðustu árum, og nokkur sveitarfélög hafa unnið slíka vinnu innan sinna raða. Sú vinna er talin hafa skilað þeim góðum árangri. Snemmtæk íhlutun er mikilvæg á fyrstu æviárunum fyrir allan síðari þroska einstaklingsins og getur því komið í veg fyrir erfiðleika síðar á lífsleiðinni. Í kjölfarið er þeim börnum fyrr veitt þjónusta en kerfið gerir ráð fyrir í dag.

Framtíðin er björt

Það liggur fyrir að kostnaður fylgi róttækum og stórum breytingum á kerfinu. Hins vegar er talið að arðsemin til lengri tíma verði gríðarleg bæði fyrir sveitarfélög og ríki. Ávinningurinn felst í minni inngripum síðar á ævinni og með því að veita umræddan stuðning sem fyrst hjá börnum er verið að skila þeim sterkari inn í fullorðinsárin. Með samþykkt þessara mála félags- og barnamálaráðherra stígum við skref í átt að því markmiði og leggjum hönd á plóg við að auka farsæld barna hér á landi.

Vegna alls þessa bind ég vonir við það að allir þingmenn á Alþingi sjái hversu jákvætt umrædd mál eru og smelli á græna takkann þegar að því kemur. Framtíðin krefst þess.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir flokkinn í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. júní 2021.

Categories
Greinar

Fjölgun starfa, fram­kvæmdir og menning í Hafnar­firði

Deila grein

08/06/2021

Fjölgun starfa, fram­kvæmdir og menning í Hafnar­firði

Í lok maí samþykkti bæjarráð Hafnarfjarðar áframhaldandi aðgerðir vegna Covid19 sem eru til þess fallnar að styðja enn frekar við íbúa og atvinnulíf í bæjarfélaginu. Aðgerðirnar eru aukin fjárframlög til fjölgunar starfa, til innviðauppbyggingar og til sérstakra menningarviðburða sumarið 2021.

Það birtir til

Það er sérstaklega gleðilegt að sjá hve vel okkur gengur að bólusetja hér á landi. Við erum farin að sjá vel í ljósið við enda ganganna og líf okkar færist því samhliða hægt og bítandi í rétt horf. Verkefni okkar og viðfangsefni verða þó áfram krefjandi. Það mun taka tíma að vinna úr efnahagslegum afleiðingum faraldursins; minni umsvifum fyrirtækja, auknu atvinnuleysi og minni tekjum í samfélaginu. Þó verður að hafa það í huga að tímabundnar stuðningsaðgerðir stjórnvalda hafa heppnast vel og mýkt höggið. Rauði þráðurinn í allri okkar vinnu hér í Hafnarfirði í gegnum faraldurinn hefur verið að halda uppi og tryggja góða og trausta þjónustu við íbúa ásamt því að viðhalda nauðsynlegu framkvæmdastigi.

Aukin framlög til sumarstarfa ungmenna

Samþykkt hefur verið að auka fjármagn um 250 milljónir króna í tímabundin störf. Sérstaklega mikilvægt er að tryggja þátttöku ungs fólks í vinnu og byggja upp fjölbreytta reynslu. Þessi mikla aukning verður til þess að hægt verður að fjölga störfum verulega, en í ár er gert ráð fyrir að störfum muni fjölga um 100 frá því í fyrra og verði þá um 200 störfum fleiri en eru á venjulegu ári. Störfin verða á vegum bæjarins þar sem boðið verður upp á fleiri störf í vinnuskóla, auk myndarlegrar þátttöku í atvinnuátaki stjórnvalda. Þar er boðið upp á sumarstörf fyrir námsmenn og tímabundin störf fyrir fólk í atvinnuleit. Hér er um að ræða fjölbreytt og spennandi störf og verður nýsköpunarstofan, sem sett var upp í Menntasetrinu við Lækinn síðasta sumar, m.a. nýtt.

Kröftug innspýting til framkvæmda og stuðningur við öflugt menningarlíf

Samhliða fjölgun starfa var samþykkt að bæta 340 milljónum króna í framkvæmdir í bæjarfélaginu. Þar má nefna mikla þörf í endurnýjun gangstétta í eldri hverfum auk frágangs í þeim hverfum sem nýrri eru, nauðsynlegt viðhald á skólalóðum og endurnýjun stíga og rafmagns í Hellisgerði. Faraldurinn hefur auk þess haft veruleg áhrif á allt menningarlíf og viðburðarhald undanfarna mánuði. Því hefur verið ákveðið að bæta við 5 milljónum króna til sérstakra menningarviðburða í Hafnarfirði sumarið 2021. Þar, líkt og annars staðar í samfélaginu, er nú að rofa til og ég segi að við getum farið að leyfa okkur að hlakka til hinna ýmsu viðburða. Nú stendur yfir bæjarhátíðin Bjartir dagar og mun hún standa yfir í allt sumar þar sem reynt verður að endurspegla allt það fjölbreytta menningarlíf sem til staðar er í Hafnarfirði. Auk þess styttist óðum í Hjarta Hafnarfjarðar, hátíð sem forsvarsmenn Bæjarbíós halda í góðu samstarfi við Hafnarfjarðarbæ. Hjarta Hafnarfjarðar hefst með glæsilegri dagskrá þann 7. júlí næstkomandi.

Það er bjart framundan. Förum varlega, virðum gildandi reglur en leyfum okkur að hlakka til komandi tíma. Við þurfum á því að halda.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. júní 2021.

Categories
Fréttir

Kynningarblað á frambjóðendum í prófkjöri í Suðurkjördæmi

Deila grein

08/06/2021

Kynningarblað á frambjóðendum í prófkjöri í Suðurkjördæmi

Átta verða í framboði hjá Framsóknarflokknum í Suðurkjördæmi í prófkjöri 19. júní 2021. Kosið verður um fimm efstu sætin. Talning atkvæða mun fara fram sunnudaginn 20. júní.

Í framboði eru:

 • Sigurður Ingi Jóhannsson, Hrunamannahreppi – sækist eftir 1. sæti
 • Jóhann Friðrik Friðriksson, Reykjanesbæ – sækist eftir 2. sæti
 • Silja Dögg Gunnarsdóttir, Reykjanesbæ – sækist eftir 2. sæti
 • Daði Geir Samúelsson, Hrunamannahreppi – sækist eftir 2.- 4. sæti
 • Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Árborg – sækist eftir 3. sæti
 • Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Reykjanesbæ – sækist eftir 3.- 4. sæti
 • Njáll Ragnarsson, Vestmannaeyjum – sækist eftir 3.- 4. sæti
 • Ragnhildur Hrund Jónsdóttir, Vík í Mýrdal – sækist eftir 3.- 5. sæti

Kjósendur skulu velja 5 frambjóðendur, hvorki fleiri né færri, og merkja með tölustöfum við nöfn þeirra og í þeirri röð sem þeir vilja að frambjóðendur taki sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í kjördæminu. Það er 1 við þann sem kjósandi vill að skipi efsta sæti, 2 við þann sem kjósandi vill í annað sæti, 3 við þann sem skipa skal þriðja sætið, o.s.frv.

Athugið að ekki má merkja við færri eða fleiri frambjóðendur en fimm, annars verður atkvæðið ógilt.

Categories
Greinar

Breytingar í barna­vernd

Deila grein

07/06/2021

Breytingar í barna­vernd

Frumvarp um breytingar á barnaverndarlögum frá Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra hefur verið samþykkt úr velferðarnefnd. Nái frumvarpið fram að ganga munu meðal annars barnaverndarnefndir eins og við þekkjum þær lagðar af og umdæmi barnaverndarþjónustu stækkuð. Þessar breytingar eru sprottnar upp úr þeim breytingum sem eiga sér stað við samþættingu á barnaverndarþjónustu við aðra þjónustu í þágu farsældar barna, frumvörpum sem félags- og barnamálaráðherra hefur einnig lagt fram á yfirstandandi þingi. Um er að ræða fyrri hluta heildarendurskoðunar barnaverndarlaga.

Í samráði við sveitarfélögin

Gríðarmikil undirbúningsvinna hefur verið unnin og allt kjörtímabilið hefur verið haft mikið samráð við hlutaðeigandi aðila vegna þeirra breytinga sem liggja fyrir. Samráð hefur verið haft við sveitafélögin frá fyrsta stigi hugmyndanna auk þess sem þjónustuveitendur og þjónustuþegar hafa komið að borðinu. Með því að samþykkja þetta frumvarp er verið að gera miklar og umtalsverðar breytingar á umhverfi barnaverndar í sveitarfélögum, en þau bera ábyrgð á þessum málaflokki. Í dag eru 27 barnaverndarnefndir staðsettar vítt og breytt um landið. Lágmarksíbúatala að baki hverri barnaverndarþjónustu er miðuð við 1500 manns, við þessar breytingar hækkar það lágmark upp í 6000 manns.

Umdæmisráð

Gert er ráð fyrir að sett verði á stofn umdæmisráð barnaverndar sem hafi aðkomu að tilteknum ráðstöfunum barnaverndarþjónustu. Umdæmisráðin skulu vera sérstakar, sjálfstæðar og fjölskipaðar stjórnsýslueiningar á vettvangi sveitarfélaga. Sveitastjórn ber ábyrgð á því að skipa umdæmisráð sem skal starfa í fimm ár. Sveitarfélög geta gert samning sín á milli um samstarf um umdæmisráð enda er lágmarksstærð umdæmisins miðuð við 6000 íbúa. Umdæmisráðið er skipað að lágmarki þremur fagaðilum. Það skal taka ákvarðanir með úrskurði sem barnaverndarmál getur leitt af sér eins og vistun barns utan heimils, forsjársviptingu og umgengni í fóstri og eða vistun. Umdæmisráð eru sjálfstæð í störfum sínum og standa utan við almenna stjórnsýslu sveitarfélaga.

Farsæld barna í fyrirrúmi

Hér er um að ræða mestu breytingar sem ráðist hefur verið í síðustu áratugi. Verið er að gera grundvallarbreytingar á umgjörð og samsetningu barnaverndarnefnda, því í frumvarpinu felst að pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir verða lagðar niður. Þetta frumvarp er einnig partur af miklum breytingum á kerfinu sem ætlað er að gefa færi á samþættingu barnaverndarþjónustu sem veitt er í þágu barna. Þá er líka gert ráð fyrir ítarlegri þátttöku barna við meðferð sinna mála því það er réttur barna að fá upplýsingar um sín mál á barnvænan hátt. Barn frá 15 ára aldri getur veitt samþykki fyrir stuðningsúrræðum sem beinast einungis að því sjálfu svo eitthvað sé nefnd.

Hér er verið að svara þeirri gagnrýni sem hefur verið á umhverfi barnaverndar hér á landi í fjölda ára og mikilvægi þess að færa kerfið til nútímavitundar um réttindi barna.

Halla Signý Kristjánsdóttir er þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Halla Signý eru frambjóðendur til Alþingis fyrir sama flokk.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. júní 2021.

Categories
Fréttir

Af framboðsmálum hjá Framsókn

Deila grein

07/06/2021

Af framboðsmálum hjá Framsókn

Framboðslistar Framsóknar hafa verið samþykkt í öllum kjördæmum, nema í Suðurkjördæmi. En þar fer fram prófkjör laugardaginn 19. júní. Aukakjördæmisþing haldið laugardaginn 26. júní mun ganga fram framboðslistanum að öðru leiti í heild sinni til samþykktar.

Hér að neðan má lesa nánar um stöðu framboðsmála flokksins í hverju kjördæmi og dagskrána framundan.

Stefán Vagn Stefánsson

Norðvesturkjördæmi

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn og forseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar er oddviti listans. Í öðru sæti er Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, háskólanemi og formaður Sambands ungra Framsóknarmanna. Þriðja sætið skipar Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður. Í fjórða sæti er Friðrik Már Sigurðsson, bóndi og formaður byggðarráðs Húnaþings vestra og fimmta sætið skipar Iða Marsibil Jónsdóttir, skrifstofu- og mannauðsstjóri og forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar. Sveinn Bernódusson, járnsmíðameistari í Bolungarvík, skipar heiðurssæti listans. 

Framboðslisti Framsóknar í Norðvesturkjördæmi:

1. Stefán Vagn Stefánsson, Sauðárkróki – Yfirlögregluþjónn og forseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
2. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Borgarbyggð – Háskólanemi og formaður Sambands ungra Framsóknarmanna.
3. Halla Signý Kristjánsdóttir, Önundarfirði – Alþingismaður.
4. Friðrik Már Sigurðsson, Húnaþingi vestra – Bóndi og formaður byggðarráðs Húnaþings vestra.
5. Iða Marsibil Jónsdóttir, Vesturbyggð – Skrifstofu- og mannauðsstjóri og forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar.
6. Elsa Lára Arnardóttir, Akranesi – Aðstoðarskólastjóri, formaður bæjarráðs Akraneskaupstaðar og f.v. alþingismaður.
7. Þorgils Magnússon, Blönduósi – Skipulags- og byggingarfulltrúi.
8. Gunnar Ásgrímsson, Sauðárkróki – Háskólanemi.
9. Kolbrún Ösp Guðrúnardóttir, Stykkishólmi – Nemi.
10. Jóhanna María Sigmundsdóttir, Búðardal – Verkefnastjóri og f.v alþingismaður.
11. Ragnheiður Ingimundardóttir, Strandabyggð – Verslunarstjóri.
12. Gauti Geirsson, Ísafirði – Nemi.
13. Sæþór Már Hinriksson, Sauðárkróki – Tónlistarmaður.
14. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, Borgarbyggð – Lögreglumaður.
15. Sigurdís Katla Jónsdóttir, Dalabyggð – Nemi.
16. Sveinn Bernódusson, Bolungarvík – Járnsmíðameistari.

***

Ingibjörg Isaksen

Norðausturkjördæmi

Ingibjörg Ólöf Isaksen, framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi Akureyrarbæjar er oddviti listans. Í öðru sæti er Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður. Þriðja sætið skipar Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi og alþingismaður. Í fjórða sæti er Helgi Héðinsson, bóndi og oddviti Skútustaðahrepps. Fimmta sætið skipar Halldóra Hauksdóttir, lögfræðingur og sjötta sætið Kristinn Rúnar Tryggvason, bóndi. Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður, skipar heiðurssæti listans.

Framboðslisti Framsóknar í Norðausturkjördæmi:

1. Ingibjörg Ólöf Isaksen, framkvæmdastjóri, Akureyri 
2. Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, Fáskrúðsfirði
3. Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi, Grýtubakkahreppi 
4. Helgi Héðinsson, oddviti, Skútustaðahreppi 
5. Halldóra Hauksdóttir, lögmaður, Akureyri 
6. Kristinn Rúnar Tryggvason, bóndi, Kelduhverfi 
7. Jónína Brynjólfsdóttir, viðskiptalögfræðingur, Egilsstöðum
8. Ari Teitsson, lífeyrisþegi, Þingeyjarsveit 
9. Brynja Rún Benediktsdóttir, verkefnastjóri, Húsavík
10. Eiður Gísli Guðmundsson,  leiðsögumaður, Djúpavogi
11. Íris Hauksdóttir, upplýsingafulltrúi, Dalvíkurbyggð
12. Sverre Andreas Jakobsson, handboltaþjálfari, Akureyri
13. Ásdís Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri, Fljótsdalshreppi
14. Halldóra Magnúsdóttir, leikskólastarfsmaður, Eyjafjarðarsveit
15. Eggert Stefánsson, bóndi, Þistilfirði
16. Rósa Jónsdóttir, nemi, Fjallabyggð
17. Bjarni Stefán Vilhjálmsson, verkstjóri, Stöðvarfirði
18. Alda Ósk Harðardóttir, snyrtifræðimeistari, Egilsstöðum
19. Anna Sigrún Mikaelsdóttir, húsmóðir, Húsavík 
20. Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður, Vopnafirði

***

Willum Þór Þórsson

Suðvesturkjördæmi

 Úrslit urðu þannig í prófkjöri í Suðvesturkjördæmi er fram fór 8. maí:

1. sæti, Willum Þór Þórsson, alþingismaður. Hann fékk 308 atkvæði í 1. sæti. 2. sæti, Ágúst Bjarni Garðarsson, form. bæjarráðs. Hann fékk 262 atkvæði í 1.-2. sæti. 3. sæti, Anna Karen Svövudóttir, þýðandi og samskiptaráðgjafi hjá Heilbrigðisráðuneytinu. Hún fékk 226 atkvæði í 1.–3. sæti. 4. sæti, Kristín Hermannsdóttir, háskólanemi. Hún fékk 198 atkvæði í 1.-4. sæti. 5. sæti, Ívar Atli Sigurjónsson, flugmaður og háskólanemi. Hann fékk 247 atkvæði í 1.-5. sæti.

Aðrir sem tóku þátt í prófkjörinu voru: Linda Hrönn Þórisdóttir, leiðtogi innlendra verkefna hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi, og Þórey Anna Matthíasdóttir, ökuleiðsögumaður.

Framboðslisti Framsóknar í Suðvesturkjördæmi:

 1. Willum Þór Þórsson, Kópavogi
 2. Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafnarfirði
 3. Anna Karen Svövudóttir, Hafnarfirði
 4. Kristín Hermannsdóttir, Kópavogi
 5. Ívar Atli Sigurjónsson, Kópavogi
 6. Svandís Dóra Einarsdóttir, Kópavogi
 7. Ómar Stefánsson, Kópavogi
 8. Halla Karen Kristjánsdóttir, Mosfellsbæ
 9. Baldur Þór Baldvinsson, Kópavogi
 10. Margrét Vala Marteinsdóttir, Hafnarfirði
 11. Valdimar Víðisson, Hafnarfirði
 12. Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, Garðabæ
 13. Einar Gunnarsson, Hafnarfirði
 14. Þorbjörg Sólbjartsdóttir, Mosfellsbæ
 15. Árni Rúnar Árnason, Hafnarfirði
 16. Dóra Sigurðardóttir, Seltjarnarnesi
 17. Páll Marís Pálsson, Kópavogi
 18. Björg Baldursdóttir, Kópavogi
 19. Sigurjón Örn Þórsson, Kópavogi
 20. Tinna Rún Davíðsdóttir Hemstock, Garðabæ
 21. Einar Sveinbjörnsson, Garðabæ
 22. Helga Björk Jónsdóttir, Garðabæ
 23. Einar Bollason, Kópavogi
 24. Hildur Helga Gísladóttir, Hafnarfirði
 25. Birkir Jón Jónsson, Kópavogi
 26. Eygló Harðardóttir, Mosfellsbæ

***

Reykjavík

Í Reykjavík fór fram uppstilling og aukakjördæmaþing afgreiddi tillögur að framboðslistunum.

Framboðslisti Framsóknar í Reykjavíkurkjördæmi suður:

 1. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, 47 ára, mennta- og menningarmálaráðherra
 2. Aðalsteinn Haukur Sverrisson, 47 ára, framkvæmdastjóri, MPM og formaður FR
 3. Sigrún Elsa Smáradóttir, 46 ára, framkvæmdastjóri og f.v. borgarfulltrúi
 4. Íris E. Gísladóttir, 29 ára, frumkvöðull í menntatækni og formaður UngFramsókn í Reykjavík
 5. Þorvaldur Daníelsson, 50 ára, stofnandi Hjólakrafts og MBA
 6. Guðni Ágústsson, 72 ára, f.v. alþingismaður og landbúnaðarráðherra
 7. Hafdís Inga Helgudóttir Hinriksdóttir, 40 ára, félagsráðgafi
 8. Ólafur Hrafn Steinarsson, 30 ára, formaður Rafíþróttasambands Íslands
 9. Ágúst Guðjónsson, 20 ára, lögfræðinemi
 10. Helena Ólafsdóttir, 51 árs, knattspyrnuþjálfari og þáttastjórnandi
 11. Guðrún Lolý Jónsdóttir, 21 árs, leikskólaliði og nemi
 12. Ingvar Mar Jónsson, 47 ára, flugstjóri
 13. Hinrik Viðar B. Waage, 28 ára, nemi í rafvirkjun
 14. Jóhanna Sóley Gunnarsdóttir, 59 ára, sjúkraliði
 15. Björn Ívar Björnsson, 33 ára, verkamaður
 16. Jón Finnbogason, 40 ára, sérfræðingur
 17. Þórunn Benný Birgisdóttir, 40 ára, BA í félagsráðgjöf og iðnnemi
 18. Stefán Þór Björnsson, 47 ára, viðskiptafræðingur
 19. Ásta Björg Björgvinsdóttir, 35 ára, tónlistarkona og forstöðukona í félagsmiðstöð
 20. Níels Árni Lund, 70 ára, f.v. skrifstofustjóri
 21. Frosti Sigurjónsson, 58 ára,  f.v. alþingismaður
 22. Sigrún Magnúsdóttir, 76 ára, f.v. ráðherra og borgarfulltrúi

Framboðslisti Framsóknar í Reykjavíkkjördæmi norður:

 1. Ásmundur Einar Daðason, 38 ára, félags- og barnamálaráðherra
 2. Brynja Dan, 35 ára, frumkvöðull og framkvæmdastjóri
 3. Þórunn Sveinbjörnsdóttir, 75 ára, fráfarandi formaður LEB
 4. Gauti Grétarsson, 60 ára, sjúkraþjálfari
 5. Magnea Gná Jóhannsdóttir, 24 ára, lögfræðingur
 6. Lárus Helgi Ólafsson, 33 ára, kennari og handboltamaður
 7. Unnur Þöll Benediktsdóttir, 25 ára, háskólanemi
 8. Guðjón Þór Jósefsson, 20 ára, laganemi
 9. Kristjana Þórarinsdóttir, 43 ára, sálfræðingur
 10. Ásrún Kristjánsdóttir, 72 ára, hönnuður og myndlistarkona
 11. Bragi Ingólfsson, 83 ára, efnafræðingur
 12. Snjólfur F. Kristbergsson, 81 árs, vélstjóri
 13. Eva Dögg Jóhannesdóttir, 38 ára, líffræðingur
 14. Sveinbjörn Ottesen, 61 árs, verkstjóri
 15. Gerður Hauksdóttir, 62 ára, skrifstofufulltrúi
 16. Friðrik Þór Friðriksson, 67 ára, kvikmyndagerðarmaður
 17. Þórdís Arna Bjarkarsdóttir, 25 ára, læknanemi
 18. Birna Kristín Svavarsdóttir, 68 ára, f.v. hjúkrunarforstjóri
 19. Haraldur Þorvarðarson, 44 ára, kennari og handboltaþjálfari
 20. Dagbjört S. Höskuldsdóttir, 73 ára, fyrrum verslunarkona
 21. Guðmundur Bjarnason, 76 ára, f.v. ráðherra
 22. Jón Sigurðsson, 74 ára, f.v. ráðherra og seðlabankastjóri

***

Suðurkjördæmi

Í Suðurkjördæmi fer fram lokað prófkjör laugardaginn 19. júní 2021.

 • Kosið verður um fimm efstu sætin.
 • Kjörskrá lokar 30 dögum fyrir valdag lokaðs prófkjörs, á miðnætti miðvikudaginn 19. maí 2021.
 • Framboðsfrestur rennur út föstudaginn 4. júní klukkan 12 á hádegi 15 dögum fyrir valdag.

***

Alþingiskosningarnar munu fara fram laugardaginn 25. september 2021.

Hér má nálgast framboðsreglur Framsóknarflokksins.

Dagskráin framundan:

JÚNÍ
 • 12. – vorfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins á Hilton Hótel Nordica í Reykjavík.
 • 15. – lokað prófkjör í Suðurkjördæmi, utankjörfundaratkvæðagreiðsla.
 • 16. – lokað prófkjör í Suðurkjördæmi, utankjörfundaratkvæðagreiðsla.
 • 18. – lokað prófkjör í Suðurkjördæmi, utankjörfundaratkvæðagreiðsla.
 • 19. – lokað prófkjör í Suðurkjördæmi, frá kl. 10.00-18.00.
 • 26. – aukakjördæmisþing KSFS
JÚLÍ
 • 29. – viðmiðunardagur fulltrúatölu á flokksþingi
ÁGÚST
 • 14. – skil á tillögum til lagabreytinga til skrifstofu
 • 21. – skil á kjörbréfum til skrifstofu
 • 28.-29. – 36. FLOKKSÞING FRAMSÓKNARMANNA
SEPTEMBER
 • 25. – alþingiskosningar.
Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknar í Suðvestur samþykktur

Deila grein

06/06/2021

Framboðslisti Framsóknar í Suðvestur samþykktur

Framboðslisti Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar var samþykktur á aukakjördæmisþingi sem haldið var rafrænt í dag. Prófkjör hafði áður farið fram um efstu 5 sæti listans og gerði kjörstjórn tillögu um önnur sæti listans í samræmi við reglur flokksins.

Oddviti listans er Willum Þór Þórsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Í öðru sæti á eftir honum er Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs í Hafnarfirði, í þriðja sæti er Anna Karen Svövudóttir, samskiptafulltrúi og ferðamálafræðingur, í fjórða sæti er Kristín Hermannsdóttir, háskólanemi og í fimmta sæti er Ívar Atli Sigurjónsson, flugmaður og laganemi.

,,Listinn er skipaður öflugum og fjölbreyttum hópi fólks sem er tilbúið að leggja allt sitt fram í þágu landsins alls á grunni hugsjóna Framsóknarflokksins um samvinnu og jöfnuð. Stór verkefni eru framundan og það verður ekkert hik á okkur við að búa sem best í haginn og byggja af krafti aftur upp efnahagslífið og samfélagið allt að loknum heimsfaraldrinum,” segir Willum Þór Þórsson.

Framboðslisti Framsóknar í Suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 25. september 2021:

 1. Willum Þór Þórsson, Kópavogi
 2. Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafnarfirði
 3. Anna Karen Svövudóttir, Hafnarfirði
 4. Kristín Hermannsdóttir, Kópavogi
 5. Ívar Atli Sigurjónsson, Kópavogi
 6. Svandís Dóra Einarsdóttir, Kópavogi
 7. Ómar Stefánsson, Kópavogi
 8. Halla Karen Kristjánsdóttir, Mosfellsbæ
 9. Baldur Þór Baldvinsson, Kópavogi
 10. Margrét Vala Marteinsdóttir, Hafnarfirði
 11. Valdimar Víðisson, Hafnarfirði
 12. Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, Garðabæ
 13. Einar Gunnarsson, Hafnarfirði
 14. Þorbjörg Sólbjartsdóttir, Mosfellsbæ
 15. Árni Rúnar Árnason, Hafnarfirði
 16. Dóra Sigurðardóttir, Seltjarnarnesi
 17. Páll Marís Pálsson, Kópavogi
 18. Björg Baldursdóttir, Kópavogi
 19. Sigurjón Örn Þórsson, Kópavogi
 20. Tinna Rún Davíðsdóttir Hemstock, Garðabæ
 21. Einar Sveinbjörnsson, Garðabæ
 22. Helga Björk Jónsdóttir, Garðabæ
 23. Einar Bollason, Kópavogi
 24. Hildur Helga Gísladóttir, Hafnarfirði
 25. Birkir Jón Jónsson, Kópavogi
 26. Eygló Harðardóttir, Mosfellsbæ
Categories
Greinar

Sjósókn – grunnur að velgengni þjóðar

Deila grein

05/06/2021

Sjósókn – grunnur að velgengni þjóðar

Sigl­ing­ar og sjó­mennska hafa alla tíð verið okk­ur Íslend­ing­um grund­völl­ur bú­setu á land­inu. Skipið er og var þar til á síðustu öld eina sam­skipta­tækið við um­heim­inn. Sjó­menn gegndu mik­il­vægu efna­hags­legu hlut­verki frá ör­ófa tíð og bægðu að auki hung­ur­vof­unni frá þegar ham­far­ir dundu yfir. Til þess að heiðra þetta dugnaðarfólk var í lög­um kveðið á um að fyrsti sunnu­dag­ur júní­mánaðar ár hvert skuli vera al­menn­ur frí­dag­ur sjó­manna og hef­ur hann verið hald­inn ár­lega frá 6. júní 1938. Alla tíð síðan hef­ur sjó­mannadag­ur­inn verið merkisat­b­urður í menn­ingu sjáv­ar­byggða. Það er því ærið til­efni til þess að senda öll­um sjó­mönn­um góðar kveðjur frá ráðuneyti sigl­inga­mála á þess­um degi.

Það sem af er þess­ari öld hef­ur at­vinnu­líf okk­ar tekið stakka­skipt­um og er orðið mun fjöl­breytt­ara en það breyt­ir því ekki að störf sjó­manna eru og verða okk­ur Íslend­ing­um mik­il­væg. Hluti af nýrri auðlegð teng­ist ekki síst afurðum frá fisk­veiðum sem áður var fleygt en færa nú gull í byggðir og nýja at­vinnu­mögu­leika fyr­ir ungt og vel menntað fólk. Næg­ir þar að nefna líf­tækniiðnaðinn sem nýt­ir slóg og roð í lyf, mat­væli og snyrti­vör­ur. Með slíkri þróun eykst enn mik­il­vægi þeirra sem sækja í þjóðarauðlind­ina, fisk­inn í haf­inu og skapa for­send­ur fyr­ir blóm­leg­ar byggðir um land allt.

Í starfi mínu sem ráðherra hafa sigl­inga­mál verið afar mik­il­væg. Þannig liggja fyr­ir Alþingi frum­vörp að nýj­um lög­um um skip sem og nýj­um lög­um um áhafn­ir. Ekki má gleyma að við höf­um gerst aðilar að og inn­leitt alþjóðleg­ar regl­ur um rétt­indi og ör­yggi áhafna flutn­inga­skipa. Í fáum starfs­grein­um eru kon­ur jafn fáar og í sigl­ing­um. Það hef­ur á und­an­förn­um árum verið sér­stök áhersla á að vekja at­hygli ungra kvenna á sigl­ing­um og sjó­mennsku sem at­vinnu. Þar er vígi að vinna og verðugt að minn­ast þess að meiri­hluta Íslands­sög­unn­ar sóttu kon­ur sjó­inn ekki síður en karl­ar.

Örygg­is­mál sjófar­enda eru mér hug­leik­in. Sjó­sókn er enn und­ir­stöðuat­vinnu­grein í þorp­um og bæj­um á lands­byggðinni. Það skipt­ir sköp­um í litl­um sam­fé­lög­um að ör­yggi sjó­manna sé sem best. Mikl­ar fram­far­ir hafa orðið í slysa­vörn­um á sjó, ekki síst með til­komu ör­ygg­is­áætl­un­ar sjófar­enda. Á síðustu árum hef­ur eng­inn far­ist á sjó, sem er gríðarleg fram­för, og slys­um fækkað. Þessi ár­ang­ur hef­ur vakið at­hygli víða um heim. Fyr­ir hon­um eru marg­ar ástæður en mig lang­ar sér­stak­lega að draga fram ómet­an­legt fram­lag Lands­bjarg­ar og Slysa­varna­skóla sjó­manna sem starf­rækt­ur er um borð í Sæ­björg. Rann­sókna­nefnd sam­göngu­slysa hef­ur held­ur ekki látið sitt eft­ir liggja í að leggja til úr­bæt­ur í ör­ygg­is­átt sem oft hafa orðið grunn­ur að auk­inni ör­yggis­vit­und sjó­manna og út­gerða. Ekki má held­ur gleyma vakt­stöð sigl­inga og Land­helg­is­gæslu sem ávallt standa vakt­ina og gæta sjófar­enda. Þá vil ég minn­ast á hags­muna­sam­tök sjófar­enda sem öll gegna mik­il­vægu hlut­verki við að upp­fræða sitt fólk. Mikl­ar um­bæt­ur hafa einnig orðið á upp­lýs­inga­kerf­um til sjófar­enda sem Vega­gerðin held­ur utan um og þróar. Veður­spár hafa verið efld­ar og upp­lýs­ing­ar um veður og sjó­lag, sjáv­ar­föll og öldu­spá eru sí­fellt upp­færðar og aðgengi­leg­ar sjófar­end­um um fjar­skipta­kerfi nán­ast hvar sem er við strend­ur lands­ins og á hafi úti. Með þess­um góðu kerf­um tryggj­um við sigl­inga­ör­yggi eins og best verður á kosið.

Í dag er enn eitt fram­fara­skrefið stigið en þá mun rann­sókna­nefnd sam­göngu­slysa veita mót­töku slysa- og at­vika­skrán­ing­ar­kerf­inu „At­vik Sjó­menn“ að gjöf frá VÍS en með því verður þetta góða kerfi opið öll­um sjó­mönn­um og út­gerðum lands­ins sem von­andi auðveld­ar inn­leiðingu ör­ygg­is­stjórn­un­ar um borð í ís­lensk­um fiski­skip­um. Þess má geta að grunn­ur að ör­ygg­is­hand­bók fyr­ir fiski­skip hef­ur verið unn­inn á veg­um fagráðs um sigl­inga­mál, sigl­ingaráðs, og er aðgengi­leg­ur öll­um. Þá vil ég vekja at­hygli á styrkj­um til hug­vits­manna með það mark­mið að þróa og auka ör­yggi sjófar­enda en þeir eru nú laus­ir til um­sókn­ar.

Á und­an­förn­um árum hafa orðið mikl­ar breyt­ing­ar á um­hverfi sigl­inga við landið. Kom­um farþega­skipa hef­ur fjölgað gríðarlega og fisk­eldi og náma­vinnsla í hafi auk­ist, sem ásamt fleiri nýj­ung­um gera aðrar kröf­ur til hafn­araðstöðu. Í þeirri sam­göngu­áætlun sem nú er í vinnslu er því gert ráð fyr­ir auknu fram­lagi til hafna. Á tím­um hraðra um­hverf­is­breyt­inga er ljóst að um­hverfið við strend­ur lands­ins mun breyt­ast mikið á kom­andi árum. Með hækk­andi sjáv­ar­stöðu aukast þarf­ir fyr­ir sjóvarn­ir og aðlög­un mann­virkja. Sam­tím­is hafa verið stig­in skref til að auka sigl­inga­ör­yggi og sigl­inga­vernd, sem og rétt­indi áhafna í hverf­ul­um heimi.

Á sjó­manna­deg­in­um er ástæða til þess að rifja upp allt það sem áunn­ist hef­ur í ör­ygg­is­mál­um og minna sjó­menn á að þeir eiga hauk í horni þar sem eru starfs­menn sam­gönguráðuneyt­is og þeirra stofn­ana sem fara með sigl­inga­mál. Þá er sigl­ingaráð mik­il­væg­ur sam­starfs- og sam­ráðsvett­vang­ur sam­taka sjó­manna og annarra hags­munaaðila við sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneytið og legg­ur ráðuneytið ríka áherslu á mik­il­vægi þess.

Að lok­um óska ég sjó­mönn­um og sam­tök­um þeirra og út­vegs­manna far­sæld­ar í mik­il­væg­um störf­um í þágu sjó­mennsku og sigl­inga.

Það er ávallt þörf á því að halda gang­andi umræðunni um ör­ygg­is­mál sjó­manna og halda áfram þeirri vinnu sem unn­in er í þágu ör­ygg­is­ins.

Ég óska öll­um sjó­mönn­um og fjöl­skyld­um þeirra til ham­ingju með dag­inn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. júní 2021.

Categories
Greinar

Al­þjóða­dagur for­eldra

Deila grein

01/06/2021

Al­þjóða­dagur for­eldra

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Í dag er alþjóðadagur foreldra. Hlutverkið er ærið en æ minni tími til að sinna því? Skólar, íþróttafélög og aðrir fagaðilar hafa tekið við hlutverki foreldra að einhverju leyti sem uppalendur. Foreldri þarf ekkert að læra til að vera heldur aðeins gera. Það segir í fyrra markmiði foreldrasáttmálans sem er víða í notkun: „Að vekja foreldra og forráðamenn til vitundar um mikilvægi þess að sýna börnum og unglingum umhyggju, virkan stuðning og setja þeim skýr mörk.‟ Ég vil hvetja foreldra að kynna sér sáttmálann. Svo skora ég á ykkur að taka hann upp, beita honum og iðka hann. Það er mikilvægt fyrir foreldra að hafa vettvang til að hittast, heyra frá öðrum hvernig þeir takast á við uppeldi. Ræða sömuleiðis þau gildi og viðhorf sem við teljum eiga erindi í foreldrasamfélagið. Foreldrasáttmálinn getur nýst sem öflugt stuðningstæki í uppeldinu.

Allt sem ætlast er til af foreldrum

Það er að mörgu að hyggja og hver telur sína leið þá bestu við uppeldið. Útivistartími, svefn, þátttaka í frístundastarfi og íþróttum, vinahópur, námið, vímuefni, sjálgfstraust, eftirlit og reglur, alnetið og samfélagsmiðlar og persónueinkenni. Já, viðfangsefnin eru mörg rétt eins og börnin sjálf.

Sömuleiðis vil ég hvetja foreldra til að lesa átjándu og nítjándu grein grunnskólalaga sem fjalla einmitt um foreldra. Þetta er skýrt; foreldrar skulu gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri. Og svo þetta; Foreldrar bera ábyrgð á námi barna sinna og ber þeim að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra.

Sterkustu bandamenn skólanna eru foreldrar

Væntir skólinn einhvers af foreldrum? Já. En það er sömuleiðis hlutverk skóla að upplýsa foreldra hvernig þeir geta stutt við barn sitt, t.d. með því að eiga samræður heima um nám og skóla. Að hlusta. Nám í dag er ekki eins og nám fyrir átján árum. Skólinn væntir þess að foreldrar kynni sér nám barna sinna og þær reglur sem gilda í skólanum. Það er algjörlega nauðsynlegt að foreldrar tali af virðingu um skólann og námið svo börnin heyri. Foreldrar þurfa að fá tækifæri til að taka þátt í námi barna sinna og skólastarfinu almennt. Að halda í gamlar hugmyndir um skólann er hætt við að það hindri nýjungar og tilraunir í skólastarfinu. Þróun er nauðsynleg til að tryggja framtíð nemenda.

Hvað viltu segja við sjálfan þig sem barn?

Já, þau læra af okkur fullorðna fólkinu. Veltu því fyrir okkur hvernig fyrirmyndir við erum. Leyfum við okkur að tala illa um annað fólk, önnur börn, þegar börnin okkar heyra? Eða um vinnuna okkar og samstarfsfélaga. Hvað viltu segja við sjálfan þig þegar þú varst tólf ára ef þú vissir allt sem þú veist í dag? Hvaða boðskap berum við áfram til næstu kynslóðar í hraðadýrkandi neysluveröld?

Hjálmar Bogi Hafliðason, kennari og sveitarstjórnarfulltrúi í Norðurþingi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. júní 2021.

Categories
Greinar

Börnin okkar og betra samfélag

Deila grein

31/05/2021

Börnin okkar og betra samfélag

Ekk­ert í heim­in­um er mik­il­væg­ara en börn­in okk­ar – vellíðan þeirra, ham­ingja og framtíðar­tæki­færi. Það er skylda stjórn­valda að gera allt hvað þau geta svo öll börn vaxi og dafni. Finni sig í skóla og tóm­stund­a­starfi, njóti jafnra tæki­færa óháð bak­grunni og fé­lags­leg­um aðstæðum. Við vilj­um að öll börn fái örvun við hæfi, hvatn­ingu og mennt­un sem legg­ur grunn­inn að framtíð þeirra. Stuðning í erfiðum aðstæðum og hjálp hvenær sem þau þurfa á henni að halda.

Það er leiðarljós Fram­sókn­ar­flokks­ins eins og verk­in sýna, bæði fyrr og síðar. Á þessu kjör­tíma­bili höf­um við breytt fé­lags­kerf­inu og lagað að hags­mun­um barna. Við höf­um eflt og ein­faldað þjón­ustu við börn og fjöl­skyld­ur þeirra, lengt fæðing­ar­or­lof, ráðist í kerf­is­breyt­ing­ar í skóla­kerf­inu, stutt sér­stak­lega við fá­tæk börn og ráðist í mik­il­væg verk­efni til að styrkja stöðu barna af er­lend­um upp­runa. Ný­samþykkt mennta­stefna tek­ur fyrst og fremst mið af þörf­um barna og vinna er haf­in við breyt­ing­ar á sam­ræmdu náms­mati, þar sem hags­mun­ir stofn­ana munu víkja fyr­ir hags­mun­um barna. Í Covid var gríðarleg áhersla lögð á að halda skól­un­um opn­um, til að tryggja mennt­un barna og lág­marka áhrif heims­far­ald­urs á líf þeirra. Það tókst og sam­an­b­urður við önn­ur lönd sýn­ir glögg­lega að ár­ang­ur­inn er merki­leg­ur, því víða voru skól­ar lokaðir með ófyr­ir­séðum lang­tíma­áhrif­um á börn. Við höf­um sagt lestr­ar­vanda barna stríð á hend­ur og gripið til aðgerða til að efla lesskiln­ing. Útgáfa nýrra barna- og ung­linga­bóka hef­ur stór­auk­ist vegna póli­tískr­ar stefnu um stuðning við ís­lenska bóka­út­gáfu.

Það eru ekki nýj­ar frétt­ir að Fram­sókn­ar­flokkn­um sé um­hugað um börn og fjöl­skyld­ur lands­ins. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn inn­leiddi á sín­um tíma feðra­or­lof, rétt­ar­bót sem þótti frum­leg í fyrstu en öll­um þykir sjálf­sögð í dag. Ávinn­ing­ur barna og for­eldra af breyt­ing­unni er ómæld­ur og fjöl­skyldu­tengsl­in sterk­ari.

En við vilj­um gera enn bet­ur, fyr­ir börn úr öll­um átt­um. Búa svo um hnút­ana að öll börn fái jöfn tæki­færi og þjón­ustu við hæfi, til dæm­is sál­fræðiþjón­ustu sem nú er bæði af skorn­um skammti og kostnaðar­söm fyr­ir for­eldra. Slík þjón­usta á að vera eins og önn­ur heil­brigðisþjón­usta; aðgengi­leg fyr­ir alla enda brýnt að leysa úr vanda á fyrstu stig­um hans, en ekki bíða eft­ir því að barnið vaxi og vand­inn með.

Full­orðið fólk, bæði í fjöl­skyld­um og flokk­um, á að kenna börn­um á lífið. Vekja for­vitni þeirra og áhuga á heim­in­um, sjálf­um sér og öðrum. Hjálpa þeim að finna sína styrk­leika, tjá sig, leika sér og læra. Í því verk­efni ætl­ar Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn ekki að láta sitt eft­ir liggja og við vilj­um að Ísland verði barn­vænsta sam­fé­lag í heimi. Taktu þátt í því með okk­ur.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. maí 2021.

Categories
Greinar

Til al­manna­heilla

Deila grein

28/05/2021

Til al­manna­heilla

Á dögunum voru samþykkt ný lög frá Alþingi. Í þeim fellst m.a. að lögaðilar sem starfa til almannaheilla eru undanþegnir tekjuskatti af tilgreindum fjármagnstekjum, fest hefur verið í sessi heimild þeirra til að fá endurgreidd 100% virðisaukaskatts af vinnulið vegna byggingarvinnu, hlutfall frádráttarheimildar atvinnurekenda vegna fjárframlaga til almannaheilla tvöfaldist í tilteknum tilvikum og einstaklingum er heimilt að draga tiltekin fjárframlög til lögaðila sem starfa til almannaheilla frá skattskyldum tekjum að nánari skilyrðum uppfylltum. Þetta mál er ekki dottið af himnum ofan heldur hefur átt sér töluverðan aðdraganda.

7 ára meðganga

Upphaf málsins má rekja til þingsályktunartillögu sem Willum Þór Þórsson flutti á 143. löggjafarþingi 2013-2014. Tillagan hljóðaði upp á endurskoðun á virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar og fól í sér að íþrótta- og ungmennafélög yrðu undanþegin virðisaukaskatti af starfsemi sinni að öllu leyti ásamt því að íþrótta- og ungmennafélög fengju heimild til að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af byggingu íþróttamannvirkja á íþróttasvæðum sínum, vinnulaunum og efniskaupum. Willum lagði áherslu á að mikilvægt væri að skoða efnahagslegt mikilvægi íþrótta og áhrif skipulagðs íþróttastarfs á vegum íþróttahreyfingarinnar í víðu samhengi. Hlutverk ríkisins hlyti að vera að tryggja sem besta umgjörð og aðbúnað fyrir almennings- og afreksíþróttir þjóðinni til heilla. Íþróttahreyfingin væri þjóðhagslega mikilvæg og meginmarkmið tillögunnar væri að leggja til að ríkisstjórnin kæmi að því að efla skipulagða íþróttastarfsemi ásamt þátttöku foreldra og annarra.

Þingsályktunin náði ekki fram að ganga á þessum tíma. Willum Þór Þórsson lagði málið fram aftur en í breyttri mynd sem frumvarp á 144. löggjafarþingi og aftur á 145. löggjafarþingi. Frumvarpið var til breytinga á lögum um virðisaukaskatt og miðaði að því að breyta virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar með sama hætti og lagt er til í þingsályktunartillögunni. Fjármála- og efnahagsráðherra hafði á þessum tíma skipað stýrihóp til að endurskoða reglur um virðisaukaskatt og vörugjöld í því skyni að einfalda og bæta skilvirkni kerfisins og lagði nefndin til að þessar tillögur yrðu teknar til skoðunar hjá stýrihópnum.

Hugmyndin þróast áfram

Á 145. löggjafarþingi lagði atvinnuveganefnd undir formennsku Jóns Gunnarssonar fram frumvarp til laga um endurgreiðslu til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda. Með frumvarpinu var lagt til að setja á fót sérstakt endurgreiðslukerfi til að efla hvers kyns starfsemi félagasamtaka til almannaheilla hér á landi. Með frumvarpinu var lögð til heimild til að endurgreiða félagasamtökum til almannaheilla fjárhæð sem nemur virðisaukaskatti vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda. Markmiðið með frumvarpinu var að styðja við starfsemi félagasamtaka af þessu tagi, til að mynda til að hvetja til uppbyggingu á ýmiss konar aðstöðu. Frumvarpið fékk ekki afgreiðslu á 145. löggjafarþingi og var endurflutt á 148. og 149. löggjafarþingi.

Starfshópur skipaður

Hinn 1. apríl 2019 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp sem falið var að leggja fram tillögur að breytingum á þeim lögum sem giltu um skattlagningu starfsemi sem félli undir þriðja geirann. Hitann og þungann af þeirri vinnu báru Óli Björn Kárason og Willum Þór Þórsson. Af framangreindu er ljóst að umræða um breytingar á skattalegu umhverfi lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir þriðja geirann, með það að markmiði að efla það mikilvæga starf sem þar fer fram, hefur átt nokkurn aðdraganda.

Mikilvægt skref

Það var mjög ánægjulegt fyrir mig að fá að vera framsögumaður á þessu máli og fá að taka þátt í þessu verkefni því að það voru aðrir þingmenn sem hafa borið hitann og þungann af því. Þetta er eitt af þeim málum sem margir hafa beðið eftir sem starfa í þessum geira. Fyrst og fremst snýr þetta að óhagnaðardrifnum félögum þar sem fólk leggur mikið á sig með ókeypis vinnuframlagi. Þessi nýju lög koma til með að efla og styrkja starfsemi sem er öllum til heilla hvar sem er, því að mörg eru félögin og starfsemin fjölbreytt. Hér er verulega verið að koma til móts við alla mikilvægu starfsemi sem unnin er í þessum félögum. Það er dásamlegt að vera þingmaður þegar svona mál eru afgreidd. Til hamingju allir þeir sem lögðu á sig mikla vinnu síðustu ár til þess að ná þessum breytingum fram. Áfram veginn!

Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi og frambjóðandi til Alþingis fyrir sama flokk.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. maí 2021.