Categories
Greinar

Að miða starfslok við færni ekki aldur

Deila grein

15/09/2021

Að miða starfslok við færni ekki aldur

Á mörgum vinnustöðum hér á landi neyðist eldra fólk til að hætta að vinna fyrr en það vildi vegna reglna um starfslok. Aldurstengdar viðmiðanir varðandi starfslok eiga ekkert erindi í því samfélagi sem við búum í. Það er viðurkennd staðreynd að í dag lifir fólk lengur og að fólk kringum sjötugt er enn margt fullfært um að vinna sína vinnu án vandkvæða. Við gerum eldra fólki og vinnumarkaðinum í heild enga greiða með aldurstengdum viðmiðunum sem þessum.

Framsókn vill miða starfslok við hæfni

Fjölmargir einstaklingar hafa gífurlega margt fram að færa þrátt fyrir að vera komið yfir sjötugt. Fólk verður ekki af reynslu, þekkingu, menntun né dugnaði við ákveðinn afmælisdag. Með þeim reglum sem eru við lýði í dag erum við að neita þeim einstaklingum, sem enn vilja fara út úr húsi, taka þátt í samfélaginu og á atvinnumarkaði, hitta fólk og vinnufélaga og afla tekna (sem stundum er mikil þörf á). Að auki missir vinnumarkaðurinn af starfskrafti sem enn er verðmætur.

Eitt áherslumála Framsóknar fyrir komandi alþingiskosningar er að afnema reglur um að fólk fari á eftirlaun eða hætti störfum við ákveðinn aldur. Þeir sem vilja áfram vera virkir á vinnumarkaði eiga að hafa kost á því ef vilji bæði launafólks og vinnuveitanda stendur til þess. Samtal um starfslok eiga að eiga sér stað meðal vinnuveitanda og starfsmanns, en ekki innan lagabálka ríkisins.

Að eldra fólk vinni án skerðinga

Ásamt þessu er það áherslumál hjá Framsókn að eftirlaunafólk fái að vinna eins og það sýnist án skerðinga í almannatryggingakerfinu. Framsókn leggur áherslu á að almenna frítekjumarkið hækki í skrefum og að lífeyrisskerðingar vegna atvinnutekna verði afnumdar. Fjölmargir eftirlaunaþegar hafa enn brennandi áhuga á að vinna en sjá ekki virði þess eins og staðan er í dag miðað við þær skerðingar sem mæta þeim. Að auki eru brýn þörf á aukatekjum hjá mörgum eftirlaunaþegum. Við eigum ekki að láta eldra fólk gjalda fyrir dugnað.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höf. er þingmaður Framsóknar og situr í 3. sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 15. september 2021.

Categories
Greinar

Eyjan græna

Deila grein

15/09/2021

Eyjan græna

Samgöngur til og frá Vestmannaeyjum eru og hafa verið mitt hjartans mál. Ég hef sem þingmaður þessa kjördæmis talað lengi fyrir því í ræðu og riti að samgöngur til og frá Vestmannaeyjum verði að vera skilvirkar. Sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fékk ég tækifæri til að efna þau loforð sem ég gaf og hef unnið sleitulaust að því að bæta samgöngur til Vestmannaeyjar, gera þær skilvirkari í þágu íbúana. Það er ekkert launungarmál að samgöngur hafa gríðarlega mikil áhrif á íbúaþróun, hvort að unga fólkið vilji koma til baka og setjast að og þær spila stórt hlutverk í komu ferðamanna til Vestmannaeyja. Það er ánægjulegt að heyra að fjöldi farþegar sem hefur farið með Herjólfi er á pari við venjulegt árferði, með Þjóðhátíð. Í lok kjörtímabils er rétt að rifja upp það sem gert hefur verið undir minni stjórn.

Herjólfur

Eitt af mínum fyrstu verkum í samgönguráðuneytinu var að breyta fyrri ákvörðun um Vestmannaeyjaferju í samræmi við loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar þannig að ferjan gangi fyrir rafmagni.

Í framhaldi fól samgönguráðuneytið Vegagerðinni að semja um breytingar á hönnun nýju Vestmannaeyjaferjunnar í því skyni að hún muni ganga því sem næst eingöngu fyrir rafmagni.

Nýjan ferjan kom, íbúar kusu um að nota áfram Herjólfsnafnið og gamli Herjólfur er til taks. Ég hef talað um fyrir þessu og í mínum huga er þetta skýrt. Nýr rafvæddur Herjólfur hefur sannað sig.

Nokkrar útfærslur á rekstrarmódeli Herjólfs komu til greina. Í mínum huga er skýrt að endurbættur rekstrarsamningur sem Samgönguráðuneytið gerði við bæjarfélagið undir lok síðasta árs hefur reynst vel. Ávinningur hins nýja samnings er slíkur að félagið getur unnið upp það tap sem orðið hafði á rekstri þess. Þessu til viðbótar þá var á kjörtímabilinu veittur veglegur stuðningur vegna Covid, viðbótarkostnaður bættur vegna tafa á afhendingu á nýjum Herjólfi, , ferðum fjölgað og þjónustan bætt.

Á kjörtímabilinu voru fargjöldin jöfnuð og er því sama gjald hvort sem Herjólfur siglir frá Landeyjahöfn eða Þorlákshöfn. Kostnaður gat áður verið hár ef það þarf að sigla til og frá Þorlákshöfn, sérstaklega fyrir fjölskyldur.

Landeyjahöfn

Vel hefur gengið að hreinsa frá sand og halda Landeyjahöfn opinni fyrir Herjólf. Mikilvæg breyting var gerð að dýpkun Landeyjahafnar er ekki lengur bundin við ákveðinn tíma á ári, nú er hægt að dýpka eftir þörfum.

Endanlegri þróun Landeyjahafnar er ekki lokið og hef ég hug á því að þeirri vinnu ljúki sem fyrst og var það í samræmi við ályktun Alþingis. Óháðir aðilar voru fengnir til að rýna gögn Vegagerðarinnar. Vinna stendur nú yfir að safna betri gögnum með nýju skipi sem munu leiða til niðurstöðu um hverskonar aðgerðir eru nauðsynlegar til úrbóta á Landeyjahöfn. Þá var rafhleðslubúnaður settur upp.

Flug

Þess má geta að í vikunni átti ég fund með bæjarstjórn um reglulegt flug til Vestmannaeyja. Slíkt þarf að skoða með opnum hug og hef ég beðið Vegagerðina að greina þörfina og hvaða möguleika ríkið hefur til að grípa inn í ef um markaðsbrest er að ræða. Þá er ótalið yfirborðsviðhald á flugvelli Vestmannaeyjaflugvallar og Loftbrúin þegar flugsins nýtur við.

Lokaorð

Samgöngur eru lífæð íbúa Vestmannaeyja og hefur bærinn tekið miklum breytingum frá því að Landeyjahöfn var opnuð árið 2010. Fjöldi ferðamanna hefur stóraukist, Íslendingar jafnt sem erlendir ferðamenn. Eins og í öðrum almenningssamgöngum þá byggist þjónustan og traustið til hennar á tíðni ferða, fyrir íbúa og fyrirtæki. Halda þarf áfram að bæta þjónustuna sem þarf að skoða með opnum hug. Áframhaldandi rannsóknir á Landeyjahöfn standa nú yfir með það að markmiði að auka nýtingu hafnarinnar. Ég hef einnig sagt að spennandi er og sjálfsagt að kanna og fá óháðan aðila til að meta til hlítar hvort göng á milli lands og Eyja sé raunhæfur kostur þegar til lengri tíma er litið. Slík úttekt þarf að fara fram á næsta kjörtímabili.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu -og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Eyjafréttum september 2021.

Categories
Greinar

Grænn ávinningur fyrir land og þjóð

Deila grein

15/09/2021

Grænn ávinningur fyrir land og þjóð

Eitt brýnasta umhverfisverndarmál næstu ára er að nýta græna orku og hraða orkuskiptum í samgöngum á landi, í lofti og á sjó. Rafknúnar bifreiðar seljast vel, orkuskipti eru hafin í sjávarútveginum og það hillir undir að slíkt muni einnig eiga sér stað í flugsamgöngum áður en langt um líður. Þetta er jákvæð þróun og við hljótum öll að fagna því að hreinir orkugjafar eru að taka yfir.

Breytingunum fylgir margvíslegur ávinningur fyrir land og þjóð. Mikill gjaldeyrissparnaður verður við að keyra allar innlendar samgöngur á grænni innlendri orku í stað innfluttra og mengandi orkugjafa. Einnig hjálpa breytingarnar okkur að standa við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og tryggja að við verðum í farabroddi í þessum málaflokki á meðal þjóða heims.

Hálendisþjóðgarður – ekki gætt að heildarmyndinni

Í frumvarpi um stofnun Hálendisþjóðgarðs, sem var til umræðu á Alþingi á kjörtímabilinu, var alveg horft fram hjá því hvernig tryggja ætti endurnýjun flutningslína á rafmagni og lokað var á möguleika til nýtingar á endurnýjanlegum orkugjöfum á svæðinu til framtíðar. Þannig var ekki gætt að heildarmyndinni og í raun girt fyrir að Íslendingar uppfylli markmið sín um orkuskipti og geti staðið við skuldbindingar í loftslagsmálum.

Þannig virðist mikilvægasta atriðið oft gleymast í umræðunni. Ef allt þetta á að verða að veruleika, og ef það er markmið okkar að vera forystuþjóð á sviði grænnar orku – þarf að framleiða græna orku. Því er forgangsmál að skoða hvaða möguleikar eru fýsilegir til að veita okkur aukna orku og mikilvægt að greina og velja hagkvæmustu orkukostina.

Það þarf að framleiða græna orku

Eigi Ísland að verða forystuþjóð í nýtingu grænnar orku er nauðsynlegt að ræða af fullri alvöru hvaðan við eigum að fá innlendu grænu orkuna sem á að koma í stað innflutts jarðefnaeldsneytis. Hér á Íslandi eru vatns-, jarðvarma- og vindorka þeir möguleikar sem vænlegastir eru. Þessir valkostir eru ein stærsta auðlind Íslendinga og hana þarf að nýta. Við Íslendingar höfum sýnt það í gegnum árin að við búum yfir mikilli þekkingu og reynslu við að virkja náttúruna en það þarf að umgangast hana og landið okkar af virðingu og varfærni.

Traustir orkuinnviðir um allt land allt eru lykillinn að grænni umbreytingu í atvinnu og samgöngumálum. Á næstu árum þarf að taka enn stærri skref en áður í átt til grænnar atvinnustarfsemi og grænna samfélags. Við getum og eigum að vera í forystu á heimsvísu í þessum málaflokki en til þess að það geti orðið þarf að horfast í augu við þá staðreynd að græn orka, og orkuskipti í landinu, verða ekki að veruleika nema að við framleiðum græna orku.

Ingibjörg Isaksen skipar 1. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi við alþingiskosningar 25. september.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 13. september 2021.

Categories
Greinar

Bætt landnýting – mikilvægasta tækifærið í loftslagsmálum?

Deila grein

14/09/2021

Bætt landnýting – mikilvægasta tækifærið í loftslagsmálum?

Landnýting og sjálfbær landbúnaður er mikilvægasta loftslagmálið á Íslandi. Á heimsvísu er losun gróðurhúsalofttegunda frá landi um fjórðungur af heildarlosun, en hér á landi er hlutfall losunar ríflega 60%.

Það er eðlilegt, enda erum við fá og búum í stóru landi á norðlægum slóðum. Í þessu samhengi er gott að hafa í huga að losun frá landi er um 9-10 milljónir tonna, á meðan losun frá vegasamgöngum er tæp milljón tonna af CO2.

Vegna þessa þurfum við markvissa Framsókn í grænni fjárfestingu ríkisins í landbúnaði og bættri landnýtingu. Með því að auka stuðning við sjálfbæra landnýtingu, auka skógrækt og vinna að strategískum landbótaverkefnum leggur Ísland ekki eingöngu mikið til baráttunnar gegn loftslagsvánni heldur styður jafnframt við tækifæri og framfarir um land allt. Afleiddu áhrifin eru m.a. þessi:

Aukin fæðuframleiðsla og minni þörf fyrir innflutt aðföng, í kjölfar stórátaks í uppbyggingu skjólbelta víða um land. Slík uppbygging skjólbelta hefur í för með sér aukna möguleika til kornræktar. Í dag flytjum við inn ríflega 100 þúsund tonn á ári af korni, til notkunar í landbúnaði. Stefna ætti að því að draga úr þessum innflutningi um 10-15% á ári, samhliða aukinni áherslu á innlenda kornrækt.

Græn störf skapast um allt land og fjölbreytt tækifæri fyrir bændur og umsjónarmenn lands, enda liggja mikil værðmæti í kolefnisbindingunni sem fyrirsjáanlega munu aukast næstu ár og áratugi. Slíkt getur stutt við að snúa þeirri ósjálfbæru byggðaþróun sem hefur átt sér stað síðustu áratugi. Í dag búa um 86% landsmanna á suðvestur-horni landsins. Slíkt hefur haft í för með sér lóðaskort á höfuðborgarsvæðinu, aukna þörf fyrir risafjárfestingar í umferðarmannvirkjum (sem kalla á aukna losun CO2) og minni kraft til uppbyggingar í dreifðum byggðum.

Með áherslu á nýsköpun um allt land, samhliða strategískum landbótaverkefnum, byggist upp mannauður á sviði sjálfbærrar landnýtingar, rannsóknastarfsemi og grænna lausna. Ný skýrsla OECD (https://read.oecd-ilibrary.org/economics/oecd-economic-surveys-iceland-2021_c4edf686-en?_ga=2.144527228.834598284.1630318730-1831108037.1630318729#page91) bendir á nákvæmlega þessi atriði sem mikilvægustu skrefin fyrir Ísland, í samhengi loftslagsmála.

Áhersla á landnýtingu

Geta lands til kolefnisbindingar er afar mikil. Asparskógur getur bundið í kringum 20 tonn af CO2 per hektara. Uppbygging birkiskóga og landgræðsla skilar ekki jafn miklu á hvern hektara, en þó mjög miklu þegar lagt er saman og í samanburði við aðrar lausnir, sem kosta mun meiri fjárfestingu og hafa fyrst og fremst staðbundin áhrif á þéttbýlustu svæðunum. Með þessu er ekki verið að gera lítið úr orkuskiptum, t.d. bílaflotans, heldur fyrst og fremst bent á mikilvægi þess að fjárfesta í loftslagslausnum sem skila miklu fyrir Ísland og umheiminn allan.

Það eru fjölmargar leiðir færar til fjármögnunar grænnar umbyltingar í landnýtingu. Efla þarf græn hvatakerfi og styrki til verkefna á þessu sviði. OECD bendir á mikilvægi kolefnisskatta, sem taka mætti undir, svo lengi sem horft verði til þess að slík skattlagning dragi ekki úr möguleikum til uppbyggingar í dreifðum byggðum landsins. Í því samhengi væri eðlilegt að þær tekjur sem koma frá kolefnissköttum renni til fjárfestingar í landbótum og nýsköpun í landnýtingu. Þannig ýtum við undir sjálfbærar grænar fjárfestingar, Íslandi og umheiminum öllum til framdráttar – í nútíð og framtíð!

Helgi Héðinsson og
Þórarinn Ingi Pétursson,
frambjóðendur Framsóknarflokksins í Norð­austurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu

Categories
Greinar

Leyfum eldra fólki að vinna

Deila grein

13/09/2021

Leyfum eldra fólki að vinna

Eldra fólk hefur mætt ákveðnum órétti hér á landi varðandi starfslok. Þó er það viðurkennd staðreynd að í dag lifir fólk lengur og að fólk kringum sjötugt er enn margt fullfært um að vinna sína vinnu, en í dag gilda reglur um starfslokaaldur á fjölmörgum vinnustöðum. Víðast frá 65 til 70 ára en um það gilda lög um opinbera starfsmenn. Með þessu er vinnumarkaðurinn að neita sér um öflugan starfskraft, starfsreynslu og verðmæta þekkingu á öllum sviðum. Ásamt þessu er verið að vísa einstaklingum á dyr sem vilja vinna og eru enn fullfærir um það. Hér eru augljós sóknarfæri bæði í þágu eldra fólks sem og vinnumarkaðarins.

Framsókn vill leyfa ömmu og afa að vinna

Eldra fólk á að fá að vinna eins og það vill óháð aldri og starfslok eiga að miðast við færni en ekki aldur. Þeir einstaklingar sem vilja og geta haldið áfram að vinna eftir ákveðið „aldurstakmark“ eiga ekki að neyðast til að ljúka störfum. Framsókn vill afnema reglur um að fólk fari á eftirlaun eða hætti störfum við ákveðinn aldur. Þeir sem vilja áfram vera virkir á vinnumarkaði eiga að hafa kost á því ef vilji bæði þeirra og vinnuveitanda er fyrir hendi. Einnig hafa sveigjanleg starfslok hjálpað æði mörgum við að auðvelda breytinguna. Það ætti að vera valkostur í samtali starfsmanns og yfirmanns þegar starfslok eru rædd.

Framsókn vill afnema skerðingar

Að auki á eldra fólk að eiga tækifæri að vinna án þess að þurfa að gjalda fyrir dugnað. Fjölmargt eldra fólk hefur brennandi áhuga á að fara út úr húsi, hitta fólk og starfsfélaga, vinna og taka þannig þátt í samfélaginu, en sjá ekki virði þess með þeim reglum sem eru við lýði í dag. Ásamt því er eldra fólk sem hefur þörf fyrir viðbótartekjur. Það á ekki að hindra fólk í að geta aflað sér tekna. Framsókn leggur áherslu á að almenna frítekjumarkið hækki í áföngum og að lífeyrisskerðingar vegna atvinnutekna verði afnumdar. Áhrif þess á ríkissjóð væru ekki svo gífurleg að það sé ótækt að ganga í slíkar breytingar.

Við eigum að leyfa eldra fólki að vinna. Sú samfélagsmyndun sem blasir við í dag er allt önnur en áður og eldra fólk er margt í töluvert betra formi en tíðkaðist árum áður. Fólk lifir lengur, en lífaldur hefur lengst um meira en tíu ár á síðastliðnum áratugum og enn að lengjast. Fólk vill taka virkan þátt í samfélaginu og á vinnumarkaði eftir getu og þörfum. Ef amma vill vinna eftir sjötugt þá á amma bara að fá að vinna!

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, situr í 3. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík norður

Aðalsteinn Haukur Sverrirsson, situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík suður

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. september 2021.

Categories
Greinar

Lykillinn að betri heimi er falinn í vel­ferð barna

Deila grein

12/09/2021

Lykillinn að betri heimi er falinn í vel­ferð barna

Ásmundur Einar Daðason, Félags- og barnamálaráðherra hefur unnið mikið og gott starf og stigið mörg mikilvæg skref í átt að farsæld barna og fjölskyldna, sem er mjög mikils virði.

Breytingar á barnaverndarlögum

Umfangsmikil vinna við stefnumótun í málefnum barna og þá einkum barnavernd innan stjórnsýslunnar hefur átt sér stað. Þær umbætur sem stefnt er að, eru umfangsmiklar og í raun tvíþættar. Það eru annars vegar tilteknar breytingar innan stjórnsýslunnar í í samræmi við samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og hins vegar þau verkfæri sem barnavernd hefur, þ.e. úrræði og hlutverk ríkis og sveitarfélaga við veitingu úrræðanna og þar með skiptingu kostnaðar á milli stjórnsýslustiga.

Ég fagna þeirri breytingu sem lögð er til og tel tímabært að breyta umgjörð barnaverndar á Íslandi, stækka umdæmin og auka vægi fagfólks. Mín upplifun er þó í flestum tilfellum sú að leitast sé við að fá fólk í nefndirnar sem búa yfir ákveðinni reynslu og þekkingu og að stjórnmálaflokkar horfi til þess við skipun nefndarmanna fremur en að horfa á flokksskírteinið. Með breytingunni er þó tryggt að þeir sem taka ákvarðanir í þessum viðkvæmu en mikilvægu málefnum hafi til þess þá sérþekkingu sem þarf og þverfaglegur grunnur þeirra sé tryggður. Skipan faglegra umdæmisráða er jafnframt til þess fallin að auka trúverðugleika og traust til starfa þeirra og ákvarðana. Þá eykur það jafnframt samræmi við ákvarðanatöku að umdæmisráðin nái yfir stærri svæði en núverandi barnaverndarnefndir, sem eykur fjarlægð á milli þeirra sem þurfa að taka erfiðar ákvarðanir og þeirra sem þær taka til. Þar með myndu barnaverndarnefndir í litlum samfélögum þá heyra sögunni til, enda getur slíkt verið afar óheppilegt og sett alla aðila í óþægilega stöðu. Það þarf þó enn að útfæra lagafrumvarpið betur og skerpa á því, því skýra þarf hlutverk og umgjörð umdæmisráða. Taka þarf af öll tvímæli er varða skráningu mála og gagnaöflun við vinnslu þeirra. Þá er einnig mikilvægt að barnaverndarþjónusta verði samþætt annarri þjónustu og afar brýnt að afnema hindranir milli kerfa og bæta þjónustuna þannig að það létti á notendunum og bæti yfirsýn.

Fjárfestum í börnum og fjölskyldum.

Skapa þarf lagaumhverfi sem miðar að snemmtækum stuðningi við börn til að tryggja aukna samvinnu og samfellu í þjónustu við börn. Til þess að ná þessu markmiði þurfum við að fjárfesta í framtíðinni og auka úrræði í barnaverndarmálum. Við viljum ekki hætta á að ná ekki árangri, þar sem það er möguleiki, vegna þess að lausnin er til, en er ekki í boði. Í dag höfum við úrræði á borð við miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, kvennaathvarf o.fl., sem hafa svo sannarlega sannað gildi sitt. Ég tel mikilvægt að við lítum til slíks úrræðis í þágu barna og setjum á fót svokallað fjölskylduhús sem yrði miðstöð fyrir þjónustu við börn og fjölgar verkfærum barnaverndar.

Fjölskylduhús

Ef fjölskylduhús yrði sett á fót, væri unnt að fækka skammtímavistunum barna utan heimilis svo og lengri tíma fósturráðstöfunum. Úrræðið myndi veita markvissari greiningu og meðferð en hægt hefur verið að veita fram til þessa. Þannig yrði betur hægt að ná utan um foreldra og börn og koma til móts við þarfir þeirra. Í fjölskylduhúsi væri hægt að vinna með samskipti foreldra og barns, beita markvissri kennslu og leiðbeiningum til foreldra og um leið gæta að öryggi barnanna. Þá væri með fjölskylduhúsi möguleiki á að taka á móti börnum/ungmennum sem eru að snúa til baka úr fóstri eða meðferðum til að aðlaga þau aftur heim svo eitthvað sé nefnt.

Öll viljum við vinna að hagsmunum barnanna, enda er það lögmæt skylda okkar. Það vantar þó nokkuð upp á að barnaverndaryfirvöld geti unnið betur með foreldrum. Því miður er það svo að aðilar upplifa sig oft sem gagnaðila barnaverndar og upplifa að barnavernd sé að vinna gegn þeim. Vinna þarf gegn þessari upplifun foreldra og undirbyggja betur samstarf barnaverndar og foreldra í þágu barnanna, enda ætti hagur þeirra að vera sameiginlegt markmið foreldra og barnaverndar. Fjölskylduhús gæti verið þáttur í að ná þessu markmiði.

Ég tel nauðsynlegt að setja á stofn fjölskylduhús í kjördæminu sem yrði staðsett á Akureyri. Slík starfsemi byði upp á fagfólk sem væri sérmenntað til að takast á við tilfallandi vandamál. Fjölskylduhús myndi sinna öllu kjördæminu oggæti orðið sérstakt tilraunaverkefni.

Samvinna eftir skilnað

Í þessu samhengi langar mig einnig að nefna tilraunaverkefnið „samvinna eftir skilnað“, sem hefur reynst vel. Ein algengustu áföll barna er skilnaður foreldra. Það er þó ekki skilnaðurinn sjálfur sem veldur mestum skaða, heldur það hvernig staðið er að honum gagnvart börnunum. Skilnaður foreldra tekur yfirleitt á börn og þá sérstaklega ef ágreiningur er á milli foreldra við skilnaðinn. Það er erfitt að ganga í gegnum skilnað, fólk ræður oft ekki við tilfinningar sínar og leitar því stundum eftir aðstoð. Foreldrar eiga þar af leiðandi oft erfitt með að setja hagsmuni barna sinna framar eigin og láta stjórnast af erfiðum og flóknum tilfinningum við skilnaðinn. Það að bjóða foreldrum upp á sérhæfða ráðgjöf varðandi skilnað er í raun snemmtæk íhlutun, sem getur komið í veg fyrir ágreining á milli aðila, eða að minnsta kosti komið í veg fyrir að slíkur ágreiningur dragist á langinn. Þá stuðlar verkefnið að betri foreldrasamvinnu með hagsmuni barnanna að leiðarljósi sem er ákaflega dýrmætt.

Þetta verkefni er því til þess fallið að koma í veg fyrir alvarlega vanlíðan og kvíða hjá börnum sem lenda á milli foreldra sinna við skilnað, þar sem foreldrar fá leiðbeiningar og aðstoð við að leysa úr mögulegum ágreiningi áður en hann kemst á alvarlegt stig. Verkefnið er mjög mikilvægt fyrir hagsmuni barna og því brýnt að þessu verkefni verði haldið áfram og það tekið upp um allt land. Verkefnið gæti jafnframt dregið úr álagi á sýslumannsembættin, en ljóst er að þar er nú margra mánaða bið eftir sáttameðferð og þurfa foreldrarað bíða mánuðum saman eftir að fá aðstoð við að leysa úr ágreiningi sínum, sem bæði börn og foreldrar líða fyrir. Það er því afar mikilvægt að þessu verkefni verði haldið áfram ásamt því að stoðir sáttameðferðar hjá sýslumönnum í þágu hagsmuna barn séu styrktar.

Af framangreindu er lóst að mörg góð og mikilvæg skref hafa verið stigin í þágu hagsmuna barna, en betur má ef duga skal og því mikilvægara en nokkru sinni að halda vinnunni áfram.

Halldóra Kristín Hauksdóttir.

Höfundur skipar 5. sæti lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. september 2021.

Categories
Greinar

Yfirboð á kostnað skattgreiðenda

Deila grein

11/09/2021

Yfirboð á kostnað skattgreiðenda

Stjórn­mála­flokk­arn­ir kepp­ast nú við að kynna hug­mynd­ir sín­ar um framtíðina. Sum­ir vilja gera allt fyr­ir alla, sem er vel meint en óraun­hæft til lengri tíma. Um­svif og út­gjöld rík­is­ins hafa auk­ist mjög vegna tíma­bund­inna aðstæðna, en slíkt út­streymi úr rík­is­sjóði má ekki verða var­an­legt enda ósjálf­bært. Mik­il­væg­asta verk­efni stjórn­valda á næsta kjör­tíma­bili er að finna jafn­vægið milli op­in­bera geir­ans og al­menna markaðar­ins – tryggja stöðugt efna­hags­ástand og búa svo um hnút­ana, að fyr­ir­tæki af öll­um stærðum og gerðum geti blómstrað. Aðeins þannig get­um við fjár­magnað lífs­gæði okk­ar, bæði til einka- og sam­neyslu.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn geng­ur með skýra sýn til móts við nýtt kjör­tíma­bil. Við vilj­um kraft­mikið at­vinnu­líf, sem fjár­magn­ar góða op­in­bera þjón­ustu. Við vilj­um nota tekj­ur rík­is­sjóðs til að fjár­festa í fólki og halda áfram að laga kerfi hins op­in­bera að þörf­um fólks­ins í land­inu. Við erum trú­verðugur kost­ur þegar kem­ur að því, eins og kerf­is­breyt­ing­ar síðustu ára eru til marks um. Við höf­um leitt mik­il um­bóta­mál, með grund­vall­ar­breyt­ing­um á kerf­um sem voru ryðguð föst. Nýtt lána- og styrkja­kerfi náms­manna er gott dæmi um það, bylt­ing í mál­efn­um barna, nýj­ung­ar í hús­næðismál­um, Loft­brú­in og stór­sókn í sam­göng­um um allt land. Sam­hliða hef­ur fyr­ir­tækja­rekst­ur al­mennt gengið vel, með þeirri aug­ljósu und­an­tekn­ingu sem viðburða- og ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæk­in eru.

Það er brýnt að þau fái nú tæki­færi til að blómstra, líkt og önn­ur fyr­ir­tæki, því öfl­ugt at­vinnu­líf er for­senda stöðug­leika í efna­hags­líf­inu. Sér­stak­lega þarf að huga að litl­um og meðal­stór­um fyr­ir­tækj­um, ný­sköp­un og fyr­ir­tækj­um í skap­andi grein­um. Nær ótak­mörkuð tæki­færi eru í hug­verkaiðnaði, svo sem líf­tækni, lyfja­fram­leiðslu og tengd­um grein­um, og þá sprota vilj­um við vökva. Við vilj­um efla kvik­mynda­gerð, sem skap­ar millj­arða í gjald­eyris­tekj­ur, og auka út­flutn­ing á ráðgjöf, hug­viti og þekk­ingu.

Ekk­ert af of­an­greindu ger­ist í tóma­rúmi, held­ur ein­ung­is með fram­sókn­ar­legri sam­vinnu og seiglu. Dugnaði og fram­taks­semi ein­stak­linga og fyr­ir­tækja. Kerfi og stofn­an­ir rík­is­ins þurfa líka að taka þátt, hugsa í lausn­um og hvetja til fram­fara. Skatt­kerfið gegn­ir þar lyk­il­hlut­verki, enda mik­il­vægt jöfn­un­ar­tæki sem hef­ur þó frek­ar sýnt sveigj­an­leika gagn­vart fólki en fyr­ir­tækj­um.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn er mál­svari lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja og vill taka upp þrepa­skipt trygg­inga­gjald. Lækka trygg­inga­gjald á lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki og taka sam­hliða upp þrepa­skipt­an tekju­skatt, þar sem of­ur­hagnaður er skattlagður meira en hóf­leg­ur. Þannig dreg­ur skatt­lagn­ing ekki úr getu rík­is­sjóðs til að standa und­ir öfl­ugu vel­ferðar-, mennta- og heil­brigðis­kerfi, held­ur dreif­ist hún með öðrum hætti en áður.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn legg­ur ekki til töfra­lausn­ir, held­ur finn­ur praktísk­ar lausn­ir á flókn­um verk­efn­um. Við erum reiðubú­in til sam­starfs við þá sem hugsa á sömu nót­um, deila með okk­ur sýn­inni um sam­vinnu og rétt­látt sam­fé­lag þar sem fólk blómstr­ar á eig­in for­send­um.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og fram­bjóðandi Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. september 2021.

Categories
Greinar

Umhverfismál snerta eldra fólk líka

Deila grein

11/09/2021

Umhverfismál snerta eldra fólk líka

Fram­sókn er, og vill vera, grænn flokk­ur og það krefst stefnu í um­hverf­is­mál­um í víðum skiln­ingi. Marg­ir halda að við sem erum í eldri kant­in­um séum ekki nægj­an­lega um­hverf­is­sinnuð. Ég tel að það sé hinn mesti mis­skiln­ing­ur. Ég tel að við vinn­um dag­lega að um­hverf­is­mál­um með flokk­un á öllu sem hægt er að flokka og því að huga að ná­grenni okk­ar og rækta garðinn okk­ar, hafi fólk garð.

En hvað get­um við gert enn frek­ar? For­dæmið sem hr. Guðni Th. Jó­hann­es­son, for­seti Íslands, hef­ur gefið okk­ur er að fara út og plokka. Þess er þörf mest­allt árið. Þessa iðju gera marg­ir að dag­leg­um göngu­túr og hafa verk for­set­ans verið hvatn­ing fyr­ir alla að taka upp sömu hætti. Leið eldra fólks ligg­ur við hlið yngra fólks í kyn­slóðasátt­mála um að vernda um­hverfið á all­an hátt.

Fram­sókn er í for­ystu um land­vernd. Á síðastliðnu ári náðist t.d. fjölda­hreyf­ing í að safna birki­fræi og skila inn, en það að sá birki­fræi get­ur verið mjög ár­ang­urs­ríkt sem ný skóg­rækt. Það má m.a. sjá þar sem birki­fræ hef­ur fokið í mela og móa. Þar spír­ar fræið og gef­ur af sér ný tré.

Við þurf­um líka öll að venja okk­ur á að hafa vist­væna burðarpoka með okk­ur við inn­kaup. Fram und­an í mörg­um sveit­ar­fé­lög­um er svo að gera flokk­un enn aðgengi­legri og sam­ræmd­ari. Það á að vera krafa til stjórn­mála­manna að beita sér fyr­ir því að allt megi flokka og helst end­ur­vinna. Á landi eins og Íslandi með sína tæru læki og ár þarf sú hugs­un að vera í fyr­ir­rúmi meðal okk­ar allra að virða nátt­úr­una svo af­kom­end­ur okk­ar fái notið henn­ar.

Vist­væn orka hófst með litl­um raf­stöðvum við bæj­ar­læk­inn. Nú þarf að finna fleiri lausn­ir fyr­ir nú­tím­ann, svo sem sól­ar­sell­ur, sem eru t.d. að ryðja sér til rúms í Þýskalandi þar sem bænd­ur leigja út akra fyr­ir sól­ar­sell­ur sem tappa svo af inn á kerf­in. Vind­myll­ur þarf einnig að skoða, en um þær er auðvitað ekki full sátt.

Fram­sókn legg­ur áherslu á vist­væn­ar lausn­ir. Í Dan­mörku og Hollandi er þær víða að finna og gera þær gæfumun­inn hvað varðar fram­leiðslu raf­magns. Mörg stór­fyr­ir­tæki í Evr­ópu eru orðin mjög vist­væn og stór­ar versl­an­ir ganga fram með góðu for­dæmi um vist­væn­ar umbúðir.

Fram­sókn legg­ur megin­á­herslu á að við rækt­um sem mest sjálf og verðum sjálf­bær s.s. í græn­meti, korni og fleiri teg­und­um. Íslensk nær­andi matarol­ía frá Sand­hóli er ein snilld­in sem og vör­ur Valla­nes­bús­ins und­ir merkj­um Móður jarðar. Alls kon­ar heima­gerðar afurðir má finna um allt land og þeir sem hyggj­ast reyna sig við að skapa nýj­ar vör­ur geta fengið aðstoð hjá þró­un­ar­setr­um.

Sjálf­bærni á mörg­um sviðum er hugs­un unga fólks­ins sem við, eldra fólkið, styðjum heils hug­ar. Við í Fram­sókn verðum sterk rödd í um­hverf­is­mál­um framtíðar­inn­ar.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir.

Höf­und­ur er í 3. sæti á lista Fram­sókn­ar í Reykja­vík norður og skóg­ar­bóndi. basend­i6@sim­net.is

Categories
Fréttir

Jón Sigurðsson látinn

Deila grein

11/09/2021

Jón Sigurðsson látinn

Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknrflokksins og ráðherra, er látinn, 75 ára að aldri. Jón lést í gær á líknardeild Landspítalans í Kópavogi. Jón greindist með langt gengið krabbamein í blöðruhálskirtli í ársbyrjun í fyrra.

Jón var fæddur í Kollafirði á Kjalarnesi þann 23. ágúst 1946. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1966 og þremur árum síðar brautskráðist hann með BA-próf í íslensku og sagnfræði frá Háskóla Íslands. Frá útskrift í MR vann hann við kennslustörf í gagnfræðaskólum, menntaskólum og háskólum hér á landi og í Svíþjóð til ársins 1975.

Jón var ritstjóri Tímans frá 1978 til 1981. Hann tók þá við starfi skólastjóra Samvinnuskólans á Bifröst og varð síðar rektor skólans til ársins 1991. Hann útskrifaðist með MA gráðu í menntunarfræðum og kennslustjórnun frá Columbia Pacific University í San Rafael í Bandaríkjunum árið 1988 og doktorsgráðu í sömu greinum árið 1990. Þá lauk hann MBA-gráðu í rekstrarhagfræði og stjórnun frá National University í San Diego í Bandaríkjunum árið 1993.

Jón var seðlabankastjóri á árunum 2003 til 2006. Jón tók við embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde 2006 og gegndi því til ársins 2007. Á sama tíma og hann gegndi ráðherraembættinu var hann formaður Framsóknarflokksins.

Framsóknarfólk minnast formanns og ráðherra með djúpri virðingu og þakklæti. Aðstandendum er vottuð samúð og þakkir fyrir ómældar fórnir í þágu Framsóknarflokksins og íslensku þjóðarinnar.

Categories
Greinar

Fókus á ferðaþjónustu!

Deila grein

11/09/2021

Fókus á ferðaþjónustu!

Á síðasta áratug hefur ferðaþjónusta á Íslandi blómstrað. Fjöldi erlendra ferðamanna fjórfaldaðist frá 2010 til ársins 2019. Þessum vexti hafa fylgt margvísleg tækifæri fyrir byggðir landsins og víða má sjá uppbyggingu, tækifæri, mikinn kraft og lífleg samfélög um land allt. Umræðan í kringum ferðaþjónustuna hefur þó að einhverju leyti einkennst af vaxtarverkjum þar sem áherlan er æði oft á neikvæðar hliðar, fremur en þá staðreynd að ferðaþjónustan renndi þriðju stoðinni undir atvinnulíf landsins og átti gríðarstóran þátt í þeim efnahagsbata sem nú gerir okkur kleyft að vaxta út úr Covid kreppunni.

Öllum er ljóst að fólk og fyrirtæki í ferðaþjónustu urðu fyrir miklu og sértæku áfalli af völdum Covid. Tekjufall varð í mörgum tilfellum gríðarlegt og ef ekki hefðu komið til mjög markvissar aðgerðir stjórnvalda hefðu mörg þeirra staðið frammi fyrir gjaldþroti á liðnum vetri, ef ekki fyrr. Nú horfir hins vegar til betri vegar og ferðaþjónustan mun taka hratt og vel við sér, enda býr Ísland að einstakri náttúrufegurð, mannlífi og nú í hinum sí heitari heimi, loftslagi sem er bærilegt að sumarlagi.

Nýverið birtu Pétur Snæbjörnsson og félagar grein hér á vefnum sem ber heitið Framtíð ferðaþjónustu á Íslandi þar sem velt er vöngum yfir því hvernig hafi tekist að vinna í takt við þá stefnu sem við ræðum jafnan á tillidögum og snýr gjarnan að því að ná til hinna betur borgandi, stuðla að sjálfbærni og því að dreifa ferðamönnum. Niðurstöður þeirra eru sumpart sláandi og sýna svart á hvítu hversu mikið verk við eigum óunnið og hve illa okkur hefur í reynd tekist til.

Sem dæmi voru árið 2009 um 51% af gestakomum á höfuðborgarsvæðinu, en það hlutfall var 63% árið 2019. Á sama tímabili fjölgaði ferðamönnum úr tæplega hálfri milljón í ríflega tvær. Þetta gerist á sama tíma og talað er um mikilvægi þess að dreifa ferðamönnum um landið. Ein afleiðing þessa er að upplifun margra var átroðningur á mjög afmörkuðum svæðum, sem er eiginlega með ólíkindum þegar litið er til þess að nánast hvergi eru færri ferðamenn miðað við stærð lands en á Íslandi.

Áhrifin á fasteignamarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu eru þekkt með tilkomu Airbnb. Hvað hina betur borgandi varðar þá liggur fyrir að meðaleyðsla ferðamanna hefur dregist saman um nærri þriðjung á umræddu tímabili. Sjálfbærni í ferðaþjónustu er svo nánast á byrjunarreit og í raun er það verulegt umhugsunarefni hversu skammt við erum komin í þeim efnum og því miður var andrýmið á Covid tímanum ekki nýtt með nægilega markvissum hætti. Á því sviði er aðkallandi að auka menntun, fræðslu og stuðla að skilvirkri uppbyggingu á ferðamannastöðum og stofnunum ferðaþjónustunnar sem nú eru á víð og dreif um stjórnkerfið.

Hvað þarf að gera?

Það er ódýrt að benda á það sem miður er án þess að koma með tillögur að því sem betur má fara og það er ljóst að í hinum nýja heimi sem blasir við okkur eftir Covid og á tímum loftlagsbreytinga er þörf á ítarlegri naflaskoðun. 

Í fyrsta lagi verðum við að horfa til jafnvægis á milli efnahags-, umhverfis- og samfélagslegra áhrifa í ferðaþjónustu þar sem uppbygging og starfsemi tekur mið af sjálfbærni og sjálfbærri nýtingu auðlinda.

Í öðru lagi, líkt og fram kemur í grein Péturs og félaga, þurfum við að horfa til markvissari aðgerða sem styðja við dreifingu ferðamanna eða öllu heldur tækifæri þeirra til að dreifa sér sjálfir, ekki síst um gullfallega landsbyggðina. Í því samhengi mætti horfa til allra samgöngukerfa landsins með samþættingu að leiðarljósi. Sérstaklega er nauðsynlegt að horfa til uppbyggingar flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum og ryðja úr vegi hindrunum á þeirri vegferð, til að mynda ofuráherslu ISAVIA á uppbyggingu Keflavíkurflugvallar.

Í þriðja lagi þurfum við að bæta uppbyggingu og aðgangsstýringu á fjölförnustu ferðamannastöðum landsins sem í raun ættu að lúta sömu lögmálum og auðlindir sjávar þar sem áherslan er á sjálfbæra nýtingu á grunni rannsókna. Slík áhersla myndi styrkja uppbyggingu áfangastaða um land allt, en einnig styrkja upplifun gesta okkar og ímynd landsins til lengri tíma. 

Í fjórða lagi þarf áhersla í markaðsstarfi að taka mið af þeim markmiðum sem sett eru með það fyrir augum að laða hingað verðmætari ferðamenn en nú er. 

Að lokum er löngu tímabært að ferðaþjónustan fái viðeigandi vægi og rödd innan stjórnkerfisins.

Helgi Héðinsson.

Höfundur hefur starfað í ferðaþjónustu í 16 ár og skipar 4. sætið á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. september 2021.