Atvinna

Atvinnumál

Atvinna er undirstaða vaxtar og velferðar. Framsóknarflokkurinn fagnar fjölgun um rúmlega 15.000 störf í tíð ríkisstjórnar undir forystu Framsóknarflokksins og telur flokkurinn það forgangsverkefni að fjölga störfum í landinu enn frekar, ekki síst sérfræðistörfum. Lítil og meðalstór fyrirtæki gegna þar lykilhlutverki. Hlutverk ríkisins er fyrst og fremst að skapa hagstæða umgjörð um atvinnulífið, meðal annars með einföldun skattkerfis og regluverks atvinnurekstrar. Koma þarf í veg fyrir að fyrirtæki búi við íþyngjandi kröfur sem ekki þjóna tilgangi sínum. Framleiðni hér á landi er lægri en í nágrannalöndum okkar. Hana þarf að auka og þar með eykst hagkvæmni hagkerfisins. Fyrirtæki eru hluti af samfélaginu og þurfa að sýna samfélagslega ábyrgð.

Mikilvægt er að gefa sem flestum tækifæri á að nýta starfskrafta sína með viðeigandi hætti. Samfélagslegur ávinningur er mikill þar sem félagsleg vandamál eru minni við eðlilega atvinnuþátttöku. Auka þarf samvinnu og skilvirkni á milli stofnana sem annast þjónustu við atvinnuleitendur. Fólki verði gefinn kostur á að hafa sveigjanleg starfslok.

Framsóknarflokkurinn vill hækka menntunarstig á innlendum vinnumarkaði. Tryggja þarf tengsl skóla við atvinnulífið strax á fyrri stigum grunnskólans og byggja brú á milli skóla og atvinnulífsins meðan á námi stendur. Þá skal stefnt að því að auðvelda ungu fólki aðgengi að vinnumarkaði eftir að það lýkur námi. Auka þarf samvinnu stofnana sem annast þjónustu við atvinnuleitendur.

Framsóknarflokkurinn vill efla rannsóknir á þörfum atvinnulífsins meðal annars með því að greina menntunarþörf, mannaflaspár og vinnumarkaðsrannsóknir. Jafnframt er mikilvægt að auka samstarf þeirra aðila sem vinna að rannsóknum á þessu sviði.

Yfirfara þarf reglur sem gilda um lífeyrisréttindi í því skyni að tryggja að atvinnuþátttaka eldri starfsmanna á vinnumarkaði verði til þess að lífeyrisréttindi viðkomandi skerðist ekki.

Framsóknarflokkurinn vill einfalda atvinnuumhverfi smáfyrirtækja og gera það skilvirkara í lögum og reglugerðum.

Landbúnaður

Landbúnaður er mikilvæg atvinnugrein á Íslandi. Fæðu og matvælaöryggi skiptir allar þjóðir miklu máli, ekki síst eybjóðir eins og Ísland. Framsóknarmenn leggja áherslu á að efla beri innlenda matvælaframleiðslu, auka innlenda neyslu og auka útflutning. Aukin neysla á innlendri matvöru og aukin útflutningur bæði spara útgjöld í erlendum gjaldeyri og auka tekjur. Hvetja þarf til nýsköpunar í öllum greinum landbúnaðarins og tryggja að regluverk hamli henni ekki. Áhersla sé lögð á að tryggja fjölskylduvænan landbúnað og að nýliðun í greininni sé tryggð.

Flokksþingið fagnar nýsamþykktum búvörusamningum. Með þeim er fyrirsjáanleiki tryggður og greinin geti fjárfest í samræmi við þau markmið sem stjórnvöld setja, m.a. til að mæta mikilli eftirspurn eftir kjöt- og mjólkurvörum.

Huga verður að því að auka milliríkjaviðskipti með landbúnaðarvörur. Það skal gera með gagnkvæmum samningum, þar sem mið er tekið af stærð markaða. Tollvernd skal vera önnur tveggja meginstoða í stuðningi yfirvalda við landbúnaði líkt og hjá flestum fullvalda ríkjum og ríkjasamböndum. Einhliða niðurfelling tolla kemur ekki til greina.

Gera verður kröfu um að gæði verði ávallt höfð að leiðarljósi við framleiðslu matvæla. Heilbrigði íslensks búfjár er verðmæti sem verður að varðveita. Innlendir dýrastofnar eru lausir við marga sjúkdóma sem herja á dýr í nágrannalöndum. Lyfja- og eiturefnanotkun við matvælaframleiðslu á Íslandi er með því minnsta sem þekkist í heiminum. Draga þarf markvisst fram sérstöðu íslenskrar framleiðslu með áherslu á rekjanleika, heilnæmi og gæði.

Gera þarf kröfu um að þeir sem flytja inn kjöt upplýsi neytendur um magn vaxtahvetjandi lyfja, hormóna og sýklalyfja sem valdið geta sýklalyfjaóþoli í mönnum. Neytendur eiga rétt á að vita við hvaða aðstæður og aðbúnað matur, innlendur sem útlendur, er framleiddur. Tryggja þarf að ekki sé flutt inn kjöt af dýrum sem alin eru við lakari aðstæður, en kröfur eru gerðar um hér á landi. Skýra kröfu verður að gera um upprunamerkingar á öllum matvælum.

Lögð skal áhersla á að dýravelferð sé ávallt í hávegum höfð við alla matvælaframleiðslu. Tryggja þarf þjónustu dýralækna um allt land. Áfram verði stutt við þróun varðandi lífræna framleiðslu. Leggja skal aukna rækt við innlenda fóðurframleiðslu.

Sjávarútvegur

Auðlindir hafsins eru sameign íslensku þjóðarinnar. Sjávarútvegur er ein af grundvallar atvinnugreinum þjóðarinnar og þýðing hans fyrir efnahag landsins er ótvíræð. Gæta verður þess að stoðir hans séu tryggar. Huga verður að nýliðun í sjávarútvegi og efla nýsköpun og tækifæri hennar.

Mikilvægt er að sjávarútvegurinn uppfylli þau þrjú skilyrði sem sett voru í lög um stjórn fiskveiða til þess að um hann ríki sátt. Í fyrsta lagi að auðlindin sé nýtt á sjálfbæran hátt, í öðru lagi að nýting auðlindarinnar sé arðbær og geti skilað arði til þjóðarinnar og í þriðja lagi að treysta atvinnu og byggð um land allt.

Framsóknarflokkurinn vill að sveitarfélög hafi forkaupsrétt á aflahlutdeild sem selja á úr sveitarfélaginu.

Byggðaúrræði fiskveiðistjórnunarkerfisins þarf að nýta áfram á ábyrgan hátt. Þau 5,3% aflaheimilda sem ríkið hefur árlega til afnota til atvinnu-, félags- og byggðaúrræða þurfa að vera markvisst nýtt til að tryggja byggðafestu. Sveitarfélögum á að vera tryggður réttur til að ganga inn í sölu aflahlutdeilda frá byggðarlaginu. Standa skal vörð um strandveiðar í kringum landið til hagsbóta fyrir byggðir.

Fagna ber uppbyggingu fiskeldis með hliðsjón af störfum sem það skapar. Aukinn áhugi er fyrir fiskeldi víða um land á næstu árum miðað við áætlanir fyrirtækja í greininni. En það sem fiskeldi getur verið ógn við náttúrulegt lífríki laxfiska og alls umhverfis eldisstöðva verður að vanda vel til alls undirbúnings og efla kröfur til þeirra aðila sem fá leyfi fyrir frekara eldi laxfiska. Við uppbyggingu fiskeldis er mikilvægt að lágmarka áhrif starfseminnar á lífríkið.

Lögsetja þarf fyrirkomulag strandsvæðaskipulags og ljúka framkvæmd burðaþolsrannsókna sem fyrst á þeim svæðum þar sem uppbygging fiskeldis er fyrirhuguð. Einungis á grundvelli slíkrar vinnu er hægt að skipuleggja nýtingu og verndun strandsvæða til framtíðar og þá hugsanlega veita ný eldisleyfi. Samrýma þarf reglur hér á landi og t.d. í Noregi við leyfisveitingar því ljóst er að því betur sem staðið er að upphafinu, því betur mun reynast til langs tíma.

Jafnframt þarf að auka rannsóknir á fiskeldi, sérstaklega eldi á ófrjóum stofnum, sem ekki geta tímgast við náttúrulega stofna eftir slysasleppingar. Þá þarf að styrkja verulega eftirlitskerfi með starfseminni bæði hvað varðar búnað og heilbrigði. Slíkt eftirlit skal framkvæmt af heilbrigðiseftirliti viðkomandi sveitafélags. Slíkar breytingar eru ekki síst í þágu þeirra er eldið stunda.

Iðnaðar- og orkumál

Ísland er auðugt af hreinum og endurnýjanlegum orkuauðlindum, auk vatns- og jarðvarma sem fólkið í landinu hefur notið góðs af á margvíslegan hátt. Nýir sprotar hafa sprottið upp og vaxið í skjóli þessara auðlinda. Má þar nefna upplýsingatækni en gagnaver eru áhugaverð birtingarmynd hennar. Í gegnum tíðina hefur Framsóknarflokkurinn stutt ötullega við nýsköpun og er það eindreginn vilji flokksmanna að svo verði áfram. Framsóknarflokkurinn telur mikilvægt að sérstaklega verði ýtt undir nýsköpun og fjárfestingu þar sem um er að ræða verkefni og iðnað sem byggja á sjálfbærni og fullvinnslu hráefnis. 

Landsvirkjun er eitt af fjöreggjum þjóðarinnar og mun gegna lykilhlutverki í nýtingu hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa til framtíðar til hagsældar fyrir íslenska þjóð. Því kemur ekki til greina að einkavæða hana eða selja að hluta né framkvæmdir á hennar vegum. Framsóknarflokkurinn telur brýnt að þjóðin fái að njóta ávaxta af starfsemi Landsvirkjunar. 

Framsóknarflokkurinn kvikar ekki frá þeirri stefnu sinni að tækifæri til olíu- og gasvinnslu á Drekasvæðinu verði könnuð til hlítar og hagnýtt, gefi rannsóknir tilefni til þess. Komi til vinnslu skal gæta ýtrustu varúðar í umhverfismálum enda eiga Íslendingar mikið undir auðlindum hafsins. Hefja skal undirbúning að stefnumörkun um umhverfismál og uppbyggingu innviða í tengslum við olíuleit og vinnslu enda er ljóst að talsverð umsvif fylgja ef af verður. Tryggja þarf að sanngjarnt gjald renni til þjóðarinnar vegna nýtingar olíuauðlindanna. 

Framsóknarflokkurinn hafnar öllum hugmyndum um útflutning á raforku. 

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að orka framleidd á Íslandi skuli nýtt til verðmætarsköpunar innanlands. Öflugur iðnaður er undirstaða búsetu og verðmætasköpuna. Eðlilegt er að horft verði til arðsemi af framleiðslu og flutningi raforku í samhengi. 

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á þann mikilvæga ávinning sem hlotist hefur af raforkunýtingu í fyrirtækjum á Íslandi og að staðið sé vörð um samkeppnishæfni þeirra. Tryggja þarf samkeppnishæft orkuverð á Íslandi í alþjóðlegu samhengi. 

Flutningskerfi raforku er ein af lykilstoðum innviða í landinu og þjónar bæði almenningi og fyrirtækjum. Aðgengi að raforku er mikilvægur þáttur í samkeppnishæfni atvinnulífs alls staðar á landinu. Dreifikerfi raforku verði þriggja-fasa. Endurskoða þarf og semja nýja áætlun um frekari umbætur og styrkingu varafls á þeim landsvæðum sem búa við skert afhendingaröryggi. Hringtengingum verði komið upp á sem flestum svæðum og flýtt verði almennri uppbyggingu kerfisins eins og kostur er. Tryggja skal að nýtt háspennu dreifikerfi falli sem best að umhverfi sínu hverju sinni og framkvæmdirnar verði afturkræfar. 

Jarðhitaleit eru umfangsmiklar framkvæmdir sem oft á tíðum eru of áhættu- og kostnaðarsamar fyrir lítil sveitarfélög. Á sama tíma er slík leit mikið hagsmunamál fyrir byggðir landsins. Orkusjóður veitir fjármagn til slíkrar leitar og nauðsynlegt að tryggjan honum nægjanlegt fjármagn. Mikilvægt er að tryggja sjóðnum nauðsynlega fjármuni svo sveitarfélögin á landsbyggðinni geti ráðist í slíkar framkvæmdir. 

Nýsköpun

Framsóknarflokkurinn leggur ríka áherslu á nýsköpun í öllum atvinnugreinum. Flokksmenn eru hlynntir því að veita tímabundnar skattívilnanir til nýsköpunar en auk þess kemur til greina að veita einstaklingum samsvarandi skattaívilnanir vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum. Slík félög skapa atvinnu auk þess að renna styrkari stoðum undir atvinnu- og efnahagslíf framtíðarinnar, sér í lagi verða til verðmæt störf framtíðarinnar. 

Ferðaþjónusta

Ferðaþjónustan er sú grein sem skapar mestan gjaldeyri og fjölda starfa á landinu. Íslensk ferðaþjónusta byggir m.a. á stórkostlegri náttúru, sögu og menningu sem laða að sér sífellt fleiri gesti. Framsóknarflokkurinn vill auka möguleika til búsetu og starfa á öllu landinu og þar getur ferðaþjónustan gegnt lykilhlutverki við byggðastyrkingu á komandi árum. Ferðamennska er einnig ráðandi afl við mótun orðspors landsins og styrkir aðgengi annarrar atvinnustarfsemi að markaðssetningu á erlendri grundu.

Ábyrg ferðaþjónusta er lykilþáttur þess að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna til framtíðar. Setja þarf ferðaþjónustunni skýr markmið í umhverfismálum, öryggismálum og hvað varðar réttindi starfsfólks. Þar má líta til verkfæra eins og Vakans, gæða- og umhverfiskerfis ferðaþjónustunnar, og alþjóðlegra ISO-staðla sem lúta að aga, öryggi og faglegum vinnubrögðum í ferðaþjónustu. Innleiða þarf slíka staðla á sem flestum sviðum ferðaþjónustunnar en þar er mikilvægt að greinin sjálf og opinberir aðilar vinni saman að innleiðingu, framkvæmd og eftirliti. Á sama hátt þarf að gera kröfu til þess að erlend ferðaþjónustufyrirtæki sem starfa hér á landi fullnægi öllum þeim kröfum sem gerðar eru til innlendra ferðaþjónustufyrirtækja. Skýra þarf lög og reglur um starfsemi erlendra aðila hér á landi svo jafnræðis sé gætt og til þess að hægt sé að koma í veg fyrir félagsleg undirboð.

Ferðaþjónustan er ein af mikilvægustu atvinnugreinum landsins. Því skiptir miklu máli að tryggja betra aðgengi að fjölbreyttum námsleiðum í greinum tengdum ferðaþjónustu á framhalds- og háskólastigi.

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á mikilvægi menntunar sem nýtist í greininni og eykur þjónustugæði. Mikilvægt er að stofnaður verði Fagskóli ferðaþjónustugreina þar sem boðið verður upp á þrepaskipt nám í matvælagreinum og öðrum fögum er tengjast ferðaþjónustunni. Mikilvægt er að þróa námsmöguleika innan framhaldsskóla í samræmi við þarfir atvinnulífsins og um leið finna leiðir til að gera nám í ferðaþjónustu aðgengilegt og áhugavert í samkeppni við annað nám. Styrkja þarf faglegan grunn og stefnumótun með aukinni áherslu á rannsóknir, tölulegar upplýsingar, kannanir og spár. Auðvelda þarf aðgengi að hagnýtu starfsnámi inni á vinnustöðum og nýta þá leið til að samræma skilaboð um hvernig áfangastaður Ísland ætlar að vera. Þar skal fagmennska, gestrisni og öryggi gesta vera höfð að leiðarljósi.

Íslensk stjórnvöld þurfa að endurskoða starfsumhverfi ferðaþjónustunnar með það að markmiði að einfalda regluverkið, auka skilvirkni og hvetja til aukinnar nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi í greininni. Einföldun skal þó aldrei gerð á kostnað gæða og ber að draga lærdóm af því sem best hefur gengið erlendis í þeim efnum á undanförnum árum. Færa þarf málefni ferðaþjónustunnar undir eitt ráðuneyti eins og kostur er. Skoða þarf sérstaklega hvort ekki sé hægt að gera stjórnsýslu sem lýtur að ferðaþjónustu skilvirkari með sameiningu stofnana.

Leggja skal á öryggis- og umhverfisgjald á allar komur til landsins. Tekjur af þessu gjaldi munu nýtast til aukinnar umhverfisverndar, uppbyggingar innviða og til að bæta aðstöðu við ferðamannastaði.

Íslensk ferðaþjónusta skapar gríðarlegar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið og skiptir miklu máli fyrir afkomu ríkissjóðs. Landsmenn njóta góðs af því á einn eða annan hátt en engu að síður hefur ekki tekist að tryggja fjármagn í nauðsynlega uppbyggingu innviða til að tryggja þjónustu við ferðamenn, öryggi þeirra og að náttúra sé vernduð fyrir of miklu álagi. Til þess að tryggja fjármuni í þennan málaflokk skal, í samstarfi við hagsmunaaðila, leggja á umhverfis- og öryggisgjald sem lagt verði á allar komur til landsins, jafnt með flugi eða skipum. Tekjur af þessu gjaldi skal nýta til verndunar náttúrunnar, nauðsynlegrar uppbyggingar innviða og til að bæta aðstöðu við ferðamannastaði. Skoða skal misjafna álagningu eftir tímabilum til að hvetja enn frekar til fjölgunar ferðamanna yfir vetrarmánuðina. Víða er stór hluti gistingar í formi heimagistingar (s.s. Airbnb) og af þeirri gistingu innheimtist oft ekki gistináttagjald, hið sama gildir um bílaleigu- og húsbíla. Þetta ástand er ólíðandi og ef halda á innheimtu gistináttagjalds áfram verður að koma í veg fyrir svona ósamræmi. Gistináttagjald skal renna óskipt til sveitarfélaga landsins og útdeilt að hluta til í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ljóst er að auka þarf tekjur til sveitarfélaga enda kostnaður þeirra af ferðamönnum töluverður.

Stórauka skal landvörslu á Íslandi með fagmenntuðum landvörðum með viðurkennd réttindi. Leggja þarf áherslu á stjórnunar- og verndaráætlanir sem fjalla m.a. um landvörslu, vöktun, uppbyggingu og fræðslu. Jákvæð ímynd landsins byggist á upplifun sem tengist hreinleika og sérkennum þess.

Vinna skal að greiningum og stefnumótun fyrir innanlandsflug sem góðan valkost í ferðaþjónustu og fyrir heimamenn. Brýnt er að halda áfram uppbyggingu millilandaflugvalla á Akureyri og á Egilsstöðum og lengja flugbraut á Sauðárkróki, til þess að geta tekið á móti fleiri flugvélum.

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að opnaðar verðir nýjar gáttir í millilandaflugi til og frá Íslandi. Með opnun nýrra gátta verði horft sérstaklega til vetrarferðamennsku og lengingu ferðamannatímabilsins, ásamt því að ferðamannastraumnum og álagi verði betur stýrt um landið. Geta þjóðarinnar til að taka á móti fleiri ferðamönnum eykst og atvinnusköpun í ferðaþjónustu verður traustari víðar um landið.

Deila