Stjórnskipun og alþjóðamál

Stjórnskipun og alþjóðamál

Framsóknarflokkurinn lýsir yfir fullum stuðningi við núverandi stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Flokkurinn er hlynntur endurskoðun á henni og mikilvægt er að þar sé fyrst horft til breytinga sem lúta að nýju auðlindaákvæði.

Framsóknarflokkurinn styður breytingar á 5. gr. stjórnarskrárinnar þannig að í forsetakosningum sé tryggt að forseti lýðveldisins hafi skýrt umboð frá meirihluta þjóðarinnar. Því þarf að heimila í stjórnarskránni tvær umferðir í forsetakosningum ef enginn frambjóðandi hlýtur hreinan meirihluta atkvæða. Í seinni umferð skuli kosið á milli þeirra tveggja aðila sem hljóta flest atkvæði í fyrri umferð. Með þessari breytingu vill Framsóknarflokkurinn styrkja þær stoðir sem beint lýðræði stjórnarskrárinnar byggir á og hafa umboð forseta með öllu óvéfengjanlegt, til að hafa eftirlit með fulltrúalýðræði Alþingis og láta mál í hendur þjóðarinnar, telji forseti það nauðsynlegt.

Utanríkismál

Meginmarkmið íslenskrar utanríkisstefnu er að gæta hagsmuna lands og þjóðar á alþjóðavettvangi. Sem smáríki á Ísland hag sinn undir því að alþjóðasamningar og lög séu virt og þjóðir leysi sín deilumál friðsamlega. Eins eru það hagsmunir smáríkja að stuðla að 

alþjóðlegri samvinnu til þess að mæta þeim ógnum sem virða hvorki landamæri né leikreglur alþjóðakerfisins. Öflug þátttaka og hagsmunagæsla í alþjóðastarfi er mikilvægur liður í að tryggja sjálfstæði landsins. 

Framsóknarflokkurinn fagnar þeim árangri og mikilvægu áföngum sem náðst hafa á sviði utanríkismála á undanförnum misserum. Fullgildingu Parísar-samningsins og fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem undirritaður var fyrir 9 árum en var fullgiltur hérlendis nýlega að frumkvæði utanríkisráðherra. Framsóknarflokkurinn telur að nýsamþykkt þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu og lög um þjóðaröryggisráð séu mikilvæg fyrir almannahag. 

Reynslan hefur kennt okkur að Ísland þarf að eiga sterka rödd á alþjóðavettvangi. Mikilvægt er að sendiskrifstofur landsins hafi styrk til að sinna nauðsynlegri hagsmunagæslu og fylgja eftir áherslum í utanríkisstefnu. 

Íslendingar eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta með nágrannaþjóðum sínum hvað varðar auðlindir, arfleifð, þjóðmenningu og öryggismál. Samstarf við nágrannaþjóðir okkar skipi sem fyrr mikilvægan sess í utanríkisstefnu landsins. 

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á alþjóðlegt samstarf, m.a. á sviði öryggis, viðskipta, menntunar, menningar, mannréttinda og velferðarmála. Aðgangur að alþjóðlegum mörkuðum er útflutningsþjóð eins og Íslandi lífsnauðsyn. Stjórnvöld skulu markvisst stuðla að auknum útflutningi vöru og þjónustu, þar sem markmiðið er að sem mestur virðisauki verði til á Íslandi með fullvinnslu sem stuðlar að jákvæðum viðskiptajöfnuði og bættum lífskjörum í landinu. Tækifæri íslands sem sjálfstæðs ríkis utan ríkjabandalaga eru nánast óendanleg, og það ber að nýta. 

Fríverslunarsamningar greiða leið fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki en við gerð slíkra samninga þarf ávallt að hafa hagsmuni almennings, gangsæi og óskorað fullveldi þjóðarinnar að leiðarljósi. Stefna skal áfram að fjölgun fríverslunarsamninga, loftferðarsamninga og samninga um vegabréfsáritanir til þess að treysta hag Íslendinga í alþjóðlegum heimi. Kanna skal sérstaklega tækifæri á nýmarkaðssvæðum íslensku viðskiptalífi til hagsbóta 

Ísland taki ekki þátt í viðskiptaþvingunum, nema þeim sem ákveðnar eru á vettvangi öryggisráðs sameinuðu þjóðanna og samþykktar hafa verið af alþingi í hvert sinn. 

Framsóknarflokkurinn vill að Ísland sé í fremstu röð í alþjóðlegri baráttu gegn skattaskjólum 

EES samningurinn hefur veitt aðgang að sameiginlegum markaði Evrópu og verið grunnur að samstarfi Íslands og Evrópusambandsins. Íslendingar skulu áfram leita eftir samstarfi við þjóðir innan og utan Evrópusambandsins á grundvelli frjálsra og sanngjarnra samninga og samvinnu sem byggir á jöfnuði og ábata allra aðila. Með slíkum samskiptum geta íslensk stjórnvöld best tryggt langtíma hagsmuni Íslands. Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins og hafnar því aðild að sambandinu. Framsóknarflokkurinn fagnar því að ríkisstjórn undir forystu Framsóknarflokksins afturkallaði aðildarumsóknina að ESB. Ljóst má vera að forsendur þeirrar umsóknar eru brostnar. 

Gæta skal íslenskra hagsmuna í hvívetna varðandi útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Bretland er stærsta viðskiptaland Íslands, bæði hvað varðar vöru- og þjónustuviðskipti. Ísland skal hafa frumkvæði að viðræðum við stjórnvöld í Bretlandi þar sem markmiðið er að tryggja a.m.k.jafn góð viðskiptakjör milli þjóðanna og nú eru í gildi. 

í ljósi þeirra grundvallarbreytinga sem orðið hafa á vettvangi EES, meðal annars með útgöngu Bretlands og í ljósi vandamála er tengjast Schengen samstarfinu er orðið tímabært að meta árangurin af þessum samningum og velta upp valkostum. 

Mikilvægi Norðurslóða fer vaxandi. Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að Ísland verði virkur aðili í stefnumótun er varðar málefni norðurslóða.. . Ísland á að nýta möguleikana sem kunna að skapast með opnun siglingaleiðar um norðurslóðir og eiga frumkvæði að stofnun alþjóðlegrar öryggis- og björgunarmiðstöðvar með höfuðstöðvar á Íslandi. 

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að öryggi og varnir lands og bjóðar séu tryggð og fagnar nýrri þjóðaröryggisstefnu og þjóðaröryggisráðs. Varnarsamningurinn við Bandaríkin og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu ásamt þátttöku í varnarsamstarfi við aðrar þjóðir á jafnréttisgrundvelli tryggir best öryggi borgaranna og ríkisins enda séu mannréttindi og lýðræði leiðarljós slíks varnarsamstarfs. Þátttaka Íslands í slíku samstarfi skal byggja á borgaralegum, félagslegum, og mannúðartengdum verkefnum. Unnið skal eftir nýsamþykktri þjóðaröryggisstefnu sem tryggir sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna, vernd stjórnkerfis og innviði samfélagsins. 

Hagsmunir Íslands liggja í verndun umhverfis og sjálfbærri nýtingu auðlinda til lands og sjávar. Sjávarútvegur er ein mikilvægasta útflutningsgrein þjóðarinnar. Því er mikilvægt að standa vörð um fiskveiðiauðlindir kringum landið og kynna sjálfbæra fiskveiðistefnu Íslands á alþjóðavettvangi. 

Mannréttinda- og jafnréttismál skipi áfram veglegan sess í utanríkisstefnu Íslands á vettvangi alþjóðastofnana og samskiptum Íslands við önnur ríki og ríkjasambönd. Því er mikilvægt að Ísland sýni gott fordæmi í þessum málarflokki á heimsvísu og beiti sér gegn mannréttindabrotum. Ísland á að tala máli hinsegin fólks á alþjóðavettvangi. 

Unnið skal áfram að uppbyggingu þróunarsamvinnu og miðla þekkingu sem byggð hefur verið upp innanlands á vettvangi Háskóla sameinuðu þjóðanna, í sjálfbærum sjávarútvegi, jarðhita, jafnrétti og landgræðslu. 

Ísland skal áfram beita sér í bættu aðgengi fátækra ríkja að alþjóðaviðskiptum og afnámi viðskiptahindrana gagnvart þeim. Unnið verði að því að framlög Íslands til þróunarsamvinnu endurspegli markmið Sameinuðu þjóðanna. 

Mikilvægt er að Ísland beiti sér áfram fyrir þróunarsamvinnuverkefnum sem stuðla að jafnrétti kynjanna. Sýnt hefur verið fram á aukin efnahagslegan ávinning fyrir ríki heims með virkri þátttöku kvenna á öllum sviðum samfélagsins.

Deila