Samgöngur

Samgöngumál – innviðir verðmætasköpunar

 • Stórkostleg aukning í framlögum til samgöngumála er raunveruleiki. Alls staðar er verið að byggja upp. Öflugir og öruggir innviðir eru grunnurinn að betri lífsgæðum. Á kjörtímabilinu hefur aldrei áður verið varið jafn miklum fjármunum til samgangna. Mikið hefur áunnist, en framkvæmda og viðhaldsþörf er hvergi nærri lokið.
 • Framsókn vill halda áfram bæta umferðaröryggi og miðar að því m.a. að fækka einbreiðum brúm á hringveginum og halda áfram að aðskilja akstursstefnur á umferðarþyngstu vegköflum landsins. Framundan eru einu mestu umbreytingar í samgöngum sem sést hafa. Tvöföldun Reykjanesbrautar, tvöföldun vega á milli Hveragerðis og Selfoss og tvöföldun vegar um Kjalarnes.
 • Framsókn leggur áherslu á að stytta vegalengdir milli byggða, efla atvinnusvæði á landinu öllu og draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda.
 • Framsókn vill sjá áframhaldandi uppbyggingu samkvæmt Samgönguáætlun. Halda þarf áfram með samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum og samstarfi á milli hins opinbera og atvinnulífs. Sem dæmi má nefna nýja brú yfir Ölfusá, brú yfir Hornafjarðarfljót og nýjan veg yfir Öxi.
 • Sundabraut hefur verið á dagskrá allt kjörtímabilið og verður stórkostleg samgöngubót sem losar um umferðarhnúta. Á kjörtímabilinu hefur verið unnið að undirbúningi svo framkvæmdir geta hafist árið 2026 eins og áætlanir gera ráð fyrir.
 • Framsókn vill að í uppbyggingu innviða á hálendinu verði hugað að því til framtíðar að rafmagnsbílar komist um. Þá verði sérstök áhersla lögð á vegina um Kjöl og að Fjallabaki. Ekki síst vegna mögulegs öryggishlutverks þeirra ef náttúruvá ber að dyrum.
 • Framsókn vill halda áfram að styrkja og efla innanlandsflugvelli, fjölga tækifærum í ferðaþjónustu og skapa atvinnu heima fyrir.
 • Framsókn hefur lagt áherslu á uppbyggingu hafna og mun halda henni áfram. Þær gegna lykilhlutverki í verðmætasköpun.
 • Framsókn vill tryggja framgang Samgöngusáttmálans til að liðka fyrir umferð á höfuðborgarsvæðinu og vinna að kolefnishlutlausu Íslandi.
 • Framsókn vill að á hverjum tíma sé alltaf unnið að byggingu að minnsta kosti einna jarðganga á landinu.

(Kosningastefnuskrá Framsóknar 2021.)

Samgöngumál

 • Greiðar samgönguleiðir eru lífæð búsetu í landinu. Eftir viðhaldsleysi vegakerfisins  undanfarinn áratug og stóraukna umferð allra síðustu árin er brýn nauðsyn, ef ekki á illa að fara, að stórauka framlög til viðhalds og betrumbóta á þjóðvegakerfi landsmanna. 
 • Móta þarf framtíðarstefnu um fjármögnun vegakerfisins. Það er stefna Framsóknarflokksins að tekjur af olíu- og bensíngjöldum, auk bifreiðagjalda og vörugjalda innflutnings ökutækja renni til reksturs, viðhalds og uppbyggingar á  vegakerfi landsmanna. Jákvæð þróun bílaflota landsins í umhverfisvænni átt hefur og mun í sífellt meira mæli leiða til þess að þessi gjöld munu lækka.
 • Til fjármögnunar stærri samgönguframkvæmda verði leitað til lífeyrissjóða eftir lánsfé  sem um leið myndi veita lífeyrissjóðakerfinu trygga ávöxtun til langs tíma. 
 • Útfæra þarf nýjar tekjuleiðir sem endurspegla afnot af þjóðvegakerfinu. Eldsneytisskattar myndi áfram tekjugrunn samgangna á landi og/eða að aksturstengd gjöld leysi þá af hólmi. Framsóknarflokkurinn hafnar tollhliðum á núverandi þjóðvegum. 
 • Skattalegum hvötum, m.a. kolefnisgjöldum verði beitt sem stjórntæki til að hvetja til að  ökutæki séu knúin vistvænum og innlendum orkugjöfum. 
 • Framsóknarflokkurinn vill að öryggi vegfarenda þjóðvega landsins sé tryggt. Umferðaröryggi á að vera leiðarljós í öllu viðhaldi vega og nýframkvæmdum. Aukið eftirlit og löggæsla bætir öryggi vegfarenda. Þá þarf að bæta farsímasamband á  þjóðvegum umtalsvert. 
 • Framsóknarflokkurinn vill að samgönguáætlun verði hugsuð upp á nýtt og í stað einnar  heildarsamgönguáætlunar afgreiði Alþingi tvær áætlanir. Sú fyrri er til skemmri tíma og taki einkum mið af umferðaröryggi og greiningu Vegagerðarinnar með viðurkenndum aðferðum á helstu slysa- og hættustöðum í vegakerfinu. Hinn hluti samgönguáætlunar er til lengri tíma og miðast við uppbyggingu vegakerfis, tengingar byggðarlaga, styttingar leiða, jarðgöng sem og flugvalla- og hafnaáætlun. 
 • Sveitarfélög hafa hver haldið úti almenningssamgöngum af myndarskap og við þröngan kost. Almenningssamgöngur verði hugsaðar og útfærðar heildstætt upp á nýtt með aðkomu stjórnvalda. Markmiðið er að fjölga kostum bæði í þéttbýli, dreifbýli og á  milli landshluta þar sem beita á nýrri tækni og umhverfishugsun til að gera þær ódýrari  og aðgengilegri fyrir landsmenn. Framsóknarflokkurinn telur að innanlandsflug og  ferjusiglingar innanlands séu hluti af almenningssamgöngum. 
 • Reykjavíkurflugvöllur er óumdeilanlega miðstöð innanlands- og sjúkraflugs. Á meðan  ekki kemur fram raunhæfur og jafnhentugur kostur í stað Reykjavíkurflugvallar er brýnt  að ráðast sem fyrst í að lagfæra afgreiðslu og móttöku farþega. 
 • Reynslan sýnir að óbreyttur Keflavíkurflugvöllur veitir ekki nægjanlegt flugöryggi og  nothæfi vallarins er skert í óveðri. Með stóraukinni flugumferð á síðustu árum og áfram til framtíðar er mikilvægt að hugað verði að öðrum fullbúnum alþjóðaflugvelli sem  jafnframt verði varavöllur Keflavíkurflugvallar. 
 • Framsóknarflokkurinn telur hugmyndir um flugvöll í Hvassahrauni óraunhæfar og telur  hagkvæmara væri að efla bæði Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvöll í þeirra hlutverkum. 
 • Miðstöð innanlandsflugs á Íslandi er í Reykjavík og millilandaflugs á Suðurnesjum.  Svæðisskipulag Suðurnesja sem samþykkt hefur verið af öllum sveitarfélögum  svæðisins gerir ekki ráð fyrir flugstarfsemi í Hvassahrauni. Hvassahraun liggur á  vatnsverndarsvæði á svokölluðu fjarsvæði vatnsverndar fyrir Suðurnes. Við  skilgreiningu fjarsvæðis er litið til þátta eins og misgengis og sprungna þar sem gæta  þarf sérstakrar varúðar og því eru framkvæmdir þar takmörkum settar. Áætlað er að  flugvallarframkvæmdir í Hvassahrauni geti kostað yfir 200 milljarða króna. Fjármunum  er mun betur varið til vegamála þar sem stórátaks er þörf. 
 • Gera skal heildarstefnu fyrir allt landið um uppbyggingu innviða fyrir flugsamgöngur.  Stefnu sem kveður á um hvar eiga að vera flugvellir, hvernig þeir eiga að vera búnir og  hverju þeir eiga að geta þjónað? Gildir einu hvort um er að ræða innanlandsflugvelli,  millilandaflugvelli eða varavelli. Með þessari stefnu þarf að fylgja áætlun um  uppbyggingu og viðhald í samræmi við hana. 
 • Net- og upplýsingaöryggi þarf að taka alvarlega og föstum tökum.  Framsóknarflokkurinn vill hraða stefnumótun stjórnvalda um net- og upplýsingaöryggi,  með áherslu á netöryggi, að tryggja auðkenningu og nafnleynd. 
 • Tryggja þarf aðgengi að einni hljóðvarpsrás í öllum byggðum landsins og meðfram  helstu stofnvegum.

(Ályktun 35. Flokksþings Framsóknarmanna 2018.)

Deila