Categories
Greinar

Myndlist er skapandi afl

Deila grein

22/02/2018

Myndlist er skapandi afl

Myndlistin gegnir mikilvægu hlutverki í þjóðlífinu, hvort sem er á heimilum, á vinnustöðum eða í hinu opinbera rými. Hún hreyfir við okkur, vekur spurningar og gleður augað. Það yrði vissulega fátæklegt um að litast ef hún væri ekki til staðar.

Listin er löng en lífið er stutt. Á okkar lífsferli njótum ekki aðeins þeirrar listar sem er sköpuð á okkar tímum, heldur einnig þess sem fyrri tímar hafa skilið eftir okkur til handa, til að læra af, njóta og byggja enn frekar á til framtíðar.

Hlutverk stjórnvalda á sviði myndlistar er almennt að reyna að skapa þeim sem vilja helga sig listinni eins gott starfsumhverfi og kostur er hverju sinni. Að frátöldum rekstri veigamikilla stofnana eins og Listasafni Íslands lýtur hlutverk ríkisins á þessu sviði einkum að því að búa í haginn fyrir starf sem aðrir eiga frumkvæði að og stuðla að því eftir föngum að slíkt frumkvæði fái notið sín. Aðgengi að menningu er mikilvægur þáttur þess að lifa í skapandi samfélagi. Þess vegna skiptir máli að allir landsmenn geti notið lista og menningar og tekið þátt í slíku starfi. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að efla umhverfi menningar og skapandi greina og það munum við gera.

Til að vekja athygli á mikilvægi skapandi myndlistar verða íslensku myndlistarverðlaunin afhent í fyrsta sinn í dag, til að fagna því sem vel er gert á sviði myndlistar á Íslandi og til að stuðla að kynningu á íslenskum myndlistarmönnum og myndsköpun þeirra. Með þessum viðburði er fram haldið þeirri tilraun sem hófst með afhendingu svonefndra

Sjónlistarverðlauna fyrir um áratug síðan, enda er vert að myndlistin, líkt og aðrar listgreinar, hafi tækifæri til að fagna því sem vel er gert.

Í myndlistinni eru það myndlistarmennirnir sem eru hið skapandi afl. Við óskum þeim til hamingju með daginn og þökkum mikilsvert framlag þeirra til íslenskrar menningar og þjóðlífs.

 

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Menntamálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Fréttablaðinu, þann 22. febrúar 2018