Náttúra

Náttúra

Margt hefur áunnist í umhverfismálum á síðustu misserum. Mjög stór verkefni eru framundan í loftslagsmálum til að Ísland nái markmiðum sínum um samdrátt í losun fyrir 2030 og markmiði ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutlaust land fyrir árið 2040. Því verður ekki náð nema með átaki samfélagsins í heild og með því að nýta öll þau verkfæri sem eru í boði, þar með talið bætta orkunýtingu, orkuskipti, skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. Halda þarf áfram vinnu við skilgreiningu íslenskra náttúruauðlinda til að hægt sé að tryggja sjálfbæra nýtingu þeirra og leggja metnað í að draga úr sóun í íslensku samfélagi. Draga þarf verulega úr plastnotkun, minnka matarsóun og efla frekari endurvinnslu úrgangs.

Virðing fyrir náttúrunni hefur verið grunnstef í stefnu Framsóknarflokksins frá stofnun hans. Íslendingar byggja sína tilveru á skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Mikilvægt er að Íslendingar búi yfir góðri þekkingu á lífríki og náttúru lands og sjávar. Náttúruvernd er ein tegund landnýtingar og mikilvæg undirstaða sjálfbærni og atvinnusköpunar. Verndargildi þarf að meta á faglegan hátt í víðtæku samstarfi og samþætta verndun búsetu- og menningarminja. Við framkvæmdir eða uppbyggingu á svæðum með hátt verndargildi, skiptir miklu að greina á milli þess sem er óafturkræft og þess sem fjarlægja má síðar, án ummerkja í umhverfinu.

Náttúruauðlindir Íslands eru fjölmargar. Auðlindaákvæði verði sett í stjórnarskrá og landsmönnum tryggður sanngjarn arður af sameiginlegum auðlindum. Sjálfbærni skal höfð að leiðarljósi við alla nýtingu náttúruauðlinda. Byggja þarf upp aukinn skilning á verðmætum auðlinda, bæði náttúrulegra auðlinda og þeirra sem byggðar eru upp með ræktun á landi og bústofni.

Deila