Categories
Greinar

Náttúra og umhverfi undirstaða velferðar

Deila grein

05/09/2014

Náttúra og umhverfi undirstaða velferðar

Sigurður Ingi JóhannssonÍslensk náttúra gegnir lykilhlutverki í efnahagsbata landsins, bæði vegna sérstöðu sinnar hvað endurnýjanlega orku varðar og einstakrar náttúrufegurðar sem er helsta aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn. Lífsgæði Íslendinga felast ekki síst í hreinu umhverfi sem tryggir okkur framúrskarandi vatnsgæði, litla loftmengun og mikið aðgengi að óspilltri náttúru. Þetta eru nokkrar af meginniðurstöðum heildarúttektar Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) á umhverfismálum á Íslandi árin 2001-2013, sem kynnt var í gær.

Meðal annars er fjallað um hvernig efnahagur og náttúra tengjast – hvernig vöxtur og samdráttur hefur bein áhrif á umhverfið og hvernig náttúran hefur lagt grunninn að endurreisn efnahagslífsins. Við getum verið stolt af þeirri eindregnu jákvæðu umsögn sem gefin er en um leið eru settar fram gagnlegar ábendingar um að hverju beri að gæta. Svo jákvæð umsögn vekur okkur til umhugsunar um mikilvægi þess að varðveita gæðin sem felast í umhverfinu og náttúrunni. Við nýtingu auðlinda okkar þurfum við að bera virðingu fyrir umhverfi, náttúru og sérkennum landsins svo þau haldist jafn óspillt og raun ber vitni. Slíkt er brýnt fyrir þjóð sem byggir afkomu sína á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og hreinni náttúru.

Þannig er undirstrikað í skýrslunni að náttúrutengd ferðamennska sé mikilvæg auðlind og að ferðaþjónustan hefur átt hvað ríkastan þátt í viðreisn efnahags landsins. Þá er fjallað um mikilvægi þess að formgera langtímaáætlun um byggingu innviða á ferðamannastöðum sem er í takt við frumvarp til laga um framkvæmdaáætlun um uppbyggingu ferðamannastaða sem ég mun leggja fram í haust. Í umfjöllun um orkumál fá Íslendingar rós í hnappagatið fyrir að vera það OECD-ríki sem státar af hæsta hlutfalli endurnýjanlegrar orku en bent er á að velja þarf af kostgæfni áframhaldandi nýtingu með hámarks arðsemi og langtímahagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Niðurstöður OECD-skýrslunnar undirstrika einnig að náttúra og umhverfi eru undirstaða velferðar í landinu en þrjár greinar – sjávarútvegur, orkuvinnsla og náttúrutengd ferðaþjónusta – standa undir um 4/5 allra okkar útflutningstekna. Því þarf umhverfis- og náttúruvernd að vera samofin allri stefnumörkun, opinberri starfsemi og stjórnsýslu, þvert á alla málaflokka.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. september 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.