Framboðsreglur

Framboðsreglur fyrir alþingiskosningar

Lög Framsóknarflokksins um aðferð við val á lista við alþingiskosningar:

Við alþingiskosningar skal kjördæmissamband bjóða fram lista Framsóknarflokksins í sínu kjördæmi. Heimilt er þó, ef eitt kjördæmasamband starfar í Reykjavík, að það bjóði fram á sínum vegum lista Framsóknarflokksins bæði í Reykjavíkurkjördæmi norður og Reykjavíkurkjördæmi suður. Kjördæmisþing velur aðferð við val og gengur endanlega frá framboðslista. Reglur um framboð eiga að liggja fyrir a.m.k. 6 mánuðum fyrir reglulegar alþingiskosningar. Reglur um val frambjóðenda geta verið af fimm gerðum: i) póstkosning; ii) lokað prófkjör; iii) tvöfalt kjördæmisþing; iv) uppstilling; v) opið prófkjör, sbr. gr. 5.1 í lögum Framsóknarflokksins.

Á Flokksþingi Framsóknarmanna 2011 voru gerðar ýmsar breytingar á lögum flokksins. Þar var samþykktur m.a. sérstakur kafli um framboðsmál til að skapa ákveðnari ramma um framboðsmál og tryggja samræmi milli kjördæma. Í lögum Framsóknarflokksins eru því skýrt skilgreindar leiðir við val á lista, sem og ákvæði um fresti og dagsetningar er varða kjörgengi og kosningarétt. Framboðsleiðirnar voru unnar í góðu samstarfi og samvinnu við fjölmarga flokksmenn.

Framboðsreglurnar tryggja að:

  • það séu jöfn tækifæri fyrir alla til að bjóða sig fram
  • félagsmenn hafi raunhæfa möguleika á að hafa áhrif
  • þeir einir hafi áhrif á valið sem eðlilegt er að hafi áhrif
  • sátt um ferlið og væntanlegar niðurstöður
  • það sé samræmi milli vals frambjóðenda og almennrar stefnumörkunar flokksins