Fjölskyldan

Fjölskyldan

Framsóknarflokkurinn leggur ríka áherslu á velferð barna. Rannsóknir sýna að líðan barna í skólum landsins fer versnandi. Mikilvægt er að rannsaka þær orsakir sem liggja þar að baki og bregðast strax við

Umgengnisforeldri fái skattaafslátt með hverju greiddu meðlagi. Skilgreina ber ástæðulausar umgengnistálmanir sem ofbeldi í lögum og brot þess efnis verði sjálfkrafa barnaverndarmál.

Framsóknarflokkurinn hafnar lögleiðingu fíkniefna. Auka þarf fræðslu um skaðsemi ávana- og fíkniefna og ráðast skal í sérstakt fræðsluátak gegn kannabisneyslu. Horft verði heildstætt til fjölskyldna þegar barn lendir í vanda vegna fíkniefna og vinna þarf bug á biðlistum eftir meðferðarúrræðum. Foreldrum standi til boða stuðningur, m.a. til að standa straum af kostnaði sem til fellur en lendir utan almannatryggingakerfisins.

Hvatt er til þess að nýbökuðum foreldrum um land allt gefist kostur á fræðslu um uppeldisaðferðir til eflingar jákvæðrar sjálfsmyndar barna og ungmenna. Jafnframt þarf að efla fræðslu til starfsmanna í leik- og grunnskólum og heilbrigðisstarfsmanna vegna tilkynningarskyldu í barnaverndarmálum, því skipt getur sköpum í lífi einstaklings ef gripið er inn í nógu fljótt. Félagsþjónusta sveitarfélaga þarf að geta tryggt fjárhagslegt og félagslegt öryggi íbúa ásamt því að stuðla að velferð á grundvelli samhjálpar. Hún þarf að vera sambærileg um allt land og í boði fyrir alla íbúa. Þörf fyrir félagsleg úrræði leggst mjög misjafnlega á félagsþjónustu sveitarfélaga. Þá skal tryggt að sveitarfélögin hafi burði til að veita þá þjónustu sem þeim er skylt að gera lögum samkvæmt.

Sveitarfélögin þurfa að geta boðið upp á leikskóla mannaða fagfólki, strax að loknu fæðingarorlofi þannig að samfella verði tryggð í umönnun barna. Foreldrar sem þurfa að dvelja fjarri heimili sínu vegna fæðingar barns fái styrk úr fæðingaorlofssjóði til að mæta þeim tíma þannig að fæðingaorlof sé nýtt í þágu barns að lokinni fæðingu.

Framsóknarflokkurinn styður lengingu sameiginlegs fæðingaorlofs foreldra í 12 mánuði og að foreldrar sem þiggja fæðingastyrk fái að dreifa honum á lengri tíma en sex mánuði, eins og býðst þeim foreldrum sem þiggja fæðingarorlof. Greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi skulu ekki vera undir lágmarkslaunum. Þá þarf að finna leiðir til að fjölga dagvistunar- og leikskólaplássum í þeim tilgangi að tryggja að foreldrar komist að fullu á vinnumarkaðinn að fæðingarorlofi loknu.

Framsóknarflokkurinn fagnar tilraunaverkefni BSRB og Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar en rannsóknir sýna að styttri vinnuvika getur leitt til aukinnar ánægju í starfi, meiri afkasta, betri heilsu og þar með betri lífsgæða. Velferðarráðuneytið hefur stýrt sambærilegu verkefni af hálfu hins opinbera með góðum árangri og því mikilvægt að skoða af alvöru styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar á íslenskum vinnumarkaði í heild.

Jafnrétti

Jafnrétti er eitt af grunnstefjum samvinnu- og framsóknarstefnunnar. Framsóknarflokkurinn hafnar allri mismunun á grundvelli kyns, aldurs, fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, trúar, bakgrunns, þjóðernis eða stöðu að öðru leyti. Það er eitt af hlutverkum Framsóknarflokksins að ganga ávallt á undan með góðu fordæmi í jafnréttismálum og útrýma kynbundnum launamun.

Framsóknarflokkurinn vill berjast gegn kynbundnu ofbeldi í íslensku samfélagi með virkum aðgerðum á sem flestum sviðum. Fagna ber opinni umræðu um kynferðislega áreitni sem því miður hefur fengið að líðast víða í okkar samfélagi í skjóli þöggunar. METOO byltingin er dæmi um jákvæða valdeflingu þar sem kraftur fjöldans veitir þolendum styrk til þess að stíga fram í dagsljósið. Framsóknarflokkurinn var fyrstur flokka til þess að bregðast við METOO byltingunni og hefja vinnu við siðareglur gagnvart kynferðislegri áreitni í stjórnmálastarfi. Sérstaklega ber að fagna framlagi félags- og jafnréttismálaráðherra sem hefur ákveðið að skipa nefnd til að meta umfang kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni, ofbeldis og eineltis á íslenskum vinnumarkaði. Niðurstöður þeirrar vinnu verða að skila sér í aðgerðum.

Mikilvægt er að við móttöku útlendinga sé unnið með mannréttindi að leiðarljósi, að framkvæmd laga sé skilvirk og vel sé staðið að skipulagi hvort sem er vegna umsókna um dvöl, atvinnuréttindi eða þjónustu samfélagsins.

Leggja þarf áherslu á góða upplýsingagjöf opinberra aðila til innflytjenda. Þjónusta skóla og velferðarkerfis þarf að taka mið af auknum hreyfanleika fólks milli landa og huga þarf að þörfum innflytjenda, eins og annarra hópa samfélagsins, við opinbera stefnumótun og aðgengi að opinberri þjónustu.

Framsóknarflokkurinn vill stuðla að því að fjölbreyttur bakgrunnur fólks leiði til betri og samkeppnishæfari vinnumarkaðar og að ólík færni starfandi fólks ýti undir framþróun atvinnulífs og skili þannig árangri fyrir samfélagið allt. Brýnt er að fólki af erlendum uppruna sé kynnt réttindi og skyldur bæði starfsmanna og vinnuveitenda. Tryggja þarf að til séu leiðir fyrir innflytjendur til að fá menntun sína metna hérlendis, og auðvelda og samræma afgreiðslu á mati á menntun og starfsréttindum.

Bæta þarf tækifæri innflytjenda til þátttöku í félagsstarfi, lýðræðislegri umræðu og stjórnmálum. Stuðla þarf að faglegri, vandaðri og upplýsandi umfjöllun um málefni innflytjenda og þátttöku þeirra í samfélaginu. Leggja skal áherslu á að draga fram tækifærin sem felast í ólíkum menningarlegum bakgrunni landsmanna og nýta þekkingu innflytjenda til að efla íslenskt samfélag. Mikilvægt er að efla stuðningsnet innflytjenda og vinna þarf markvisst gegn ofbeldi í garð innflytjenda

Húsnæðismá

Framsóknarflokkurinn leggur sem fyrr áherslu á að landsmenn búi við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins og hafi raunverulegt val um búsetuform

Fjarlægja þarf húsnæðisliðinn út úr vísitölu neysluverðs en verð á húsnæði hefur að jafnaði hækkað meira en annað verðlag. Afleiðing þess eins er að verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað um tugi milljarða undanfarin ár. Fylgja þarf fast eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í átt að afnámi verðtryggingar samhliða mótvægisaðgerðum, til þess að standa vörð um möguleika efnaminni fjölskyldna og ungs fólks til að eignast sitt eigið húsnæði.

Húsnæðisvandi ungs fólks er áhyggjuefni og við honum þarf að bregðast af festu. Fagna ber stefnu ríkisstjórnarinnar þar sem ætlunin er að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn og skoða meðal annars nýtingu lífeyrissparnaðar til lausnar.

Framsóknarflokkurinn vill að unnt verði að sækja um afborgunarhlé á námslánum í allt að fimm ár til að mæta ungum fjölskyldum sem eru að kaupa íbúð. Framsóknarflokkurinn fagnar innkomu húsnæðisfélaga sem rekin eru án hagnaðarmarkmiða.

Framsóknarflokkurinn lýsir yfir áhyggjum af sértækum húsnæðisskorti á landsbyggðinni og styður fyrirætlanir félags- og jafnréttismálaráðherra sem ætlaðar eru til að bregðast við því.

Óska á eftir samstarfi við lífeyrissjóðina um uppbyggingu á hagkvæmum íbúðum og hjúkrunarrýmum fyrir aldraða á þeim svæðum þar sem þörfin er brýnust

Stuðningur við fötluð og langveik börn

Tryggja þarf rétt foreldra eftir andlát barns og að stuðningurinn við foreldra á ummönnunargrieðslum verði í samræmi við rétt foreldra til fæðingarorlofs eftir andvana fæðingu eftir 22. viku.

Félagsþjónustu sveitarfélaganna verði falið að gera tillögu að umönnunarmati fyrir langveik börn, líkt og er fyrir fötluð börn í dag.

Nauðsynlegt er að einfalda kerfið sem veitir foreldrum fatlaðra og langveikra barna fjárhagslegan stuðning. Einn liður í því er að breyta áherslum við mat á greiðslum með því að draga úr áherslum á læknisfræðilegar greiningar og auka í stað þess vægi umönnunarinnar sem slíkrar. Þannig verði dregið úr vægi greininga og innlagna á sjúkrahús við mat á umönnun en stuðningur við foreldra langveikra og fatlaðra barna vegna umönnunar verði í samræmi við raunverulega umönnunarþörf barnanna og verði nægjanlegur til að tryggja langveikum og fötluðum börnum og foreldrum þeirra eðlilegt líf og þátttöku í samfélaginu.

Innleiddar verði sérstakar greiðslur vegna umframkostnaðar foreldra vegna langveikra og/eða fatlaðra barna sem verði óháðar efnahag foreldra og mati á umönnunarþörf. í núgildandi kerfi sjúkratrygginga er umframkostnaður ekki bættur. Með umframkostnaði er átt við kostnað sem til fellur vegna fötlunar eða veikinda barns og er umfram það sem almennt er hjá börnum.

Framsóknarflokkurinn leggur til að gerð verði landsáætlun í kringum sjaldgæfa sjúkdóma á Íslandi eins og hin Norðurlöndin hafa þegar komið sér upp.

Deila