Categories
Greinar

Fjölskyldan í forgrunni

Deila grein

14/09/2019

Fjölskyldan í forgrunni

Þing­flokk­ur Fram­sókn­ar geng­ur bjart­sýnn til verka á þessu hausti með sam­vinnu og sam­fé­lags­lega ábyrgð að leiðarljósi. Flokk­ur­inn hef­ur sett fjöl­mörg verk­efni á odd­inn sem mörg hver snúa að bætt­um hag fjöl­skyldna og skil­virk­ari þjón­ustu við þær. Hraðar þjóðfé­lags­breyt­ing­ar skapa fjöl­skyld­um stöðugar áskor­an­ir sem mik­il­vægt er að mæta af festu.

Fé­lags- og barna­málaráðherra vinn­ur að um­bót­um á fæðing­ar­or­lofs­kerf­inu til að auka rétt for­eldra með leng­ingu or­lofs, hækk­un á mánaðarleg­um há­marks­greiðslum og end­ur­skoðun á for­send­um greiðslna. Á ár­inu 2021 mun sam­an­lagður rétt­ur for­eldra til fæðing­ar­or­lofs lengj­ast úr níu í tólf mánuði. Þá munu fram­lög til barna­bóta aukast á næsta ári þegar skerðing­ar­mörk hækka sem þýðir að fleiri njóta barna­bóta.

Nú stend­ur yfir víðtæk end­ur­skoðun á mál­efn­um barna með aðkomu þver­póli­tískr­ar þing­manna­nefnd­ar, sem und­ir­rituð leiðir, og munu fyrstu frum­vörp­in úr þeirri vinnu koma til þings­ins í vet­ur. Vinn­an geng­ur m.a. út á að tryggja betri sam­fellu í nú­ver­andi þjón­ustu og brjóta niður múra milli kerfa. Mark­miðið er að fyr­ir­byggja vanda og tryggja að full­nægj­andi þjón­usta sé fyr­ir hendi þegar henn­ar er þörf, óháð efna­hag. Börn eiga ekki að bíða árum sam­an eft­ir þjón­ustu sem skipt get­ur sköp­un fyr­ir þeirra framtíð.

Heil­brigðis­stefna var samþykkt á síðasta þingi en hún á ræt­ur í þings­álykt­un Fram­sókn­ar frá ár­inu 2016. Það eru sjálf­sögð mann­rétt­indi að all­ar fjöl­skyld­ur eigi jafn­an aðgang að heil­brigðisþjón­ustu óháð efna­hag, stöðu eða bú­setu. Þá held­ur vinna við rót­tæk­ar breyt­ing­ar í hús­næðismál­um áfram og nú með sér­stakri áherslu á köld svæði á lands­byggðinni.

Heild­stæðar aðgerðir mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra hafa skilað sér í stór­auk­inni aðsókn að kenn­ara­námi sem und­ir­bygg­ir enn öfl­ugra mennta­kerfi til framtíðar. Í haust verður lagt fram frum­varp sem mun um­bylta lánaum­hverfi náms­manna. Breyt­ing­arn­ar fela í sér meiri stuðning og jafn­ræði til náms með 30% niður­fell­ingu á lán­um ásamt sér­stök­um stuðningi við barna­fólk. Þess­ar tíma­móta­breyt­ing­ar verða þær mestu sem gerðar hafa verið á Lána­sjóði ís­lenskra náms­manna í 30 ár. Í vet­ur mun ráðherra einnig leggja fram heild­stæða mennta­stefnu til árs­ins 2030 fyr­ir Alþingi. Framúrsk­ar­andi mennt­un er lyk­il­for­senda þess að Ísland geti mætt áskor­un­um framtíðar­inn­ar og skapað ný tæki­færi til að efla sam­fé­lagið. Á Íslandi eiga all­ir að hafa jafn­an aðgang að framúrsk­ar­andi mennt­un, því all­ir geta lært og all­ir skipta máli.

Víðtæk sam­vinna er nú sem áður lyk­ill­inn að ár­angri. Þar ligg­ur grunn­ur­inn að far­sælu sam­fé­lagi.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. september 2019.