Efnahagur

Atvinnu- og efnahagslífið eftir heimsfaraldur

Fjórða stoðin – fjölþættari verðmætasköpun.

 • Framsókn vill efla efnahagslífið til að skjóta fleiri stoðum undir innlenda verðmætasköpun svo sem uppbyggingu í skapandi greinum. Fyrstu skrefin hafa verið stigin með hagvísum skapandi greina og sérstöku rannsóknarsetri. Næsta skref er sérstakt ráðuneyti skapandi greina.
 • Framsókn vill efla kvikmyndagerð á Íslandi og hækka endurgreiðslur á kostnaði við kvikmyndagerð hérlendis í 35%. Samhliða þarf stuðning við uppbyggingu innviða fyrir kvikmyndagerð, skv. nýrri kvikmyndastefnu.
 • Nær ótakmörkuð tækifæri eru í hugverkaiðnaði, svo sem líftækni, lyfjaframleiðslu og tengdum greinum. Framsókn vil hvetja til enn frekari fjárfestinga á sviði hugverkaiðnaðar með fjárfestingastuðningi við stærri verkefni sem skapa verðmæti og störf fyrir þjóðina.
 • Framsókn vill styrkja Tækniþróunarsjóð og bæta skattaumhverfi nýsköpunarfyrirtækja sem og frumkvöðla.

Lítil og meðalstór fyrirtæki – Lykill að uppbyggingu og þróun.

 • Framsókn er málsvari lítilla og meðalstórra fyrirtækja og vill taka upp þrepaskipt tryggingagjald og lækka það á lítil og meðalstór fyrirtæki. Samhliða því er nauðsynlegt að taka upp fleiri þrep í tekjuskatti fyrirtækja. Hreinan hagnað fyrirtækja umfram 200 m.kr. á ári þarf að skattleggja hærra til á móti lækkuninni til að hún dragi ekki úr getu ríkissjóðs til að standa undir öflugu velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfi.
 • Framsókn leggur áherslu á að tekið sé tillit til stærðar fyrirtækja við álagningu ýmissa opinberra gjalda, sem nú eru í formi flatra gjalda og/eða skatta, svo sem gjöld vegna starfsleyfa og úttekta eftirlitsaðila. Þó þessi gjöld skipti litlu máli í heildarsamhenginu er ljóst að þau geta verið íþyngjandi fyrir smærri fyrirtæki, einkum í upphafi reksturs.
 • Framsókn vill nota skattkerfið til að jafna aðstöðu fólks á landsbyggðinni ásamt því að styðja betur við rekstur lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þannig er skattkerfið notað til að fjárfesta í fólki og hvetja til fjölþættari verðmætasköpunar.

Landbúnaður – vanmetin auðlind.

 • Framsókn vill standa vörð um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi með dyggum stuðningi við íslenska matvælaframleiðslu sama í hverju hún felst.
 • Framsókn leggur mikla áherslu á að viðhalda áframhaldandi stöðu Íslands í fremstu röð í  vörn gegn sýklalyfjaónæmi. Það er risastórt heilbrigðismál að komið sé í veg fyrir útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi með ströngum ráðstöfunum, en við sjáum að sýklalyfjaónæmi er orðinn stór vandi víða erlendis. Forskot innlends landbúnaðar liggur ekki síst í lítilli lyfja- og varnarefnanotkun samanborið við flest önnur ríki.
 • Framsókn vill stórefla nýsköpun í matvælaframleiðslu og landnýtingu. Stefna ber að því að öll landnýting og ræktun sé sjálfbær og stuðningur hins opinbera þarf í meira mæli að beinast að því að efla fjölbreyta ræktun og landnýtingu, þar með talið kolefnisbindingu.
 • Jafna þarf samkeppnisstöðuna betur með því að heimila frumframleiðendum samstarf eins og þekkist í öllum Evrópulöndum og afurðastöðvum í kjöti sams konar samstarf og í mjólkurframleiðslu. Bændum ætti að heimila slátrun og vinnslu að undangengnu áhættumati og nauðsynlegri fræðslu.
 • Gagnvart innflutningi þarf að endurskoða tollasamning við ESB vegna forsendubrests m.a. eftir útgöngu Bretlands úr sambandinu.  Þá þarf að efla tolleftirlit verulega og gera sambærilegt og þekkist í samanburðarríkjum.
 • Stofnað verði nýtt landbúnaðar og matvælaráðuneyti þar sem skógrækt og landgræðsla koma saman við eftirlitsstofnanir matvælaöryggis og landbúnaðar.
 • Framsókn vill styðja betur við landgræðslu og skógrækt til að mæta betur skuldbindingum okkar í loftslagsmálum.

Ályktun um endurskipulagning fjármálakerfisins

Við endurskipulagningu fjármálakerfisins leggur Framsóknarflokkurinn áherslu á að fjármálakerfið þjóni fyrst og fremst heimilum og fyrirtækjum í landinu sem skapa störf og raunveruleg verðmæti á landsvísu. Eftirfarandi atriði ber að hafa að leiðarljósi:

Að viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi banka verði aðskilin. Með fullum aðskilnaði er dregið úr hættunni á að ríkissjóður sé beint eða óbeint í ábyrgð fyrir áhættusömum fjárfestingarbankaverkefnum. Með aðskilnaði myndi einnig draga úr hagsmunaárekstrum, samkeppni yrði jafnari og bankar sem nú eru of stórir myndu minnka.

Til að bregðast við fákeppni á bankamarkaði er nauðsynlegt að ríkið eigi einn af stóru bönkunum og reki hann sem samfélagsbanka að þýskri fyrirmynd3. Stóru bankarnir þrír eru samtals með meira en 90% markaðshlutdeild og því mikil hætta á fákeppni í bankaþjónustu.

Framsóknarflokkurinn telur að annar ríkisbankanna eigi að vera áfram í eigu þjóðarinnar, með það markmiði að þjóna samfélaginu sem best. Til að bregðast við fákeppni á bankamarkaði er nauðsynlegt að samfélagsbanki hafi þann tilgang að bjóða góða þjónustu á sem bestum kjörum. Þannig má efla samkeppni í bankaþjónustu á landsvísu.

Seðlabankinn hafi fleiri markmið en verðstöðugleika og fleiri stýritæki en vaxtastigið en markmiðið ætti að vera að stuðla að bættum hag heimilanna.

Seðlabankinn hefur í dag það þrönga markmið að halda verðlagsþróun innan ákveðinna vikmarka. Víða hafa seðlabankar víðtækari skyldur svo sem að stuðla að bættum lífskjörum, hagsæld heimila og hagvexti.
Seðlabankinn bjóði almenningi og fyrirtækjum að geyma laust fé á reikningum. Landsmenn fái þann valkost að geyma reiðufé sitt á öruggum reikningum í Seðlabanka Íslands. Með þessu byðist örugg og nútímaleg leið til að geyma laust fé sem nota mætti til greiðslu í viðskiptum. Færslugjöld á slíkum reikningum gætu verið lægri en hjá bönkum. Greiðslumiðlun í landinu væri þá örugg og ekki lengur ofurseld því að einstakir bankar séu greiðslufærir enda er Seðlabankinn ávallt greiðslufær í eigin gjaldmiðli.

Sjóðfélagalán lífeyrissjóðanna hafa stuðlað að lækkun vaxta og eru örugg langtímafjárfesting.

Þau sjónarmið hafa komið frá talsmönnum banka að setji eigi skorður við sjóðfélagalánum lífeyrissjóðanna. Framsóknarflokkurinn telur mikilvægt að lífeyrissjóðir veiti bönkunum áfram aðhald og samkeppni í íbúðalánum. Enda eru lífeyrissjóðir með aðgang að stöðugu langtímafjármagni og fáir fjárfestingarkostir öruggari en íbúðalán.

3 Þýsk fyrirmynd – Starfandi samfélagsbanki sem er einungis sinnir viðskiptabankastarfsemi s.s. innlánum, útlánum og færsluþjónustu. Samfélagsbanki er sjálfseignarstofnun hugsuð til að þjóna almenningi og litlum og millistórum fyrirtækjum með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.

Skoðað verði að að taka upp gegnumstreymi að hluta í lífeyrissjóðakerfinu. Lífeyrissjóðir hafa fram til þessa byggt alfarið á söfnun sjóða en þessir sjóðir eru orðnir mjög stórir og umfangið meira en ein og hálf landsframleiðsla. Það er ekki til nægur gjaldeyrir fyrir sjóðina til að fjárfesta erlendis nema að litlu leyti, og því þarf að skoða þann möguleika að taka upp gegnumstreymiskerfi að hluta.

Auka skal lýðræði innan lífeyrissjóða.

Framsóknarflokkurinn vill að sjóðsfélagar í lífeyrissjóðum kjósi stjórnir þeirra. Einstaklingar skulu hafa frelsi um hvar lögbundinn lífeyrissparnaður þeirra er ávaxtaður hjá viðurkenndum aðilum. Slík framkvæmd eykur lýðræði félagsmanna og mun ásamt innbyrðis samkeppni vörsluaðila lífeyrissparnaðar bæta gæði kerfisins og minnka hættu á varhugaverðum hagsmunatengslum. Þá er stjórnarseta fulltrúa lífeyrissjóða í þeim fyrirtækjum sem þeir hafa fjárfest í varhugaverð, enda getur hún valdið hagsmunaárekstrum.

Banna ný verðtryggð lán til neytenda.

Byggt verði á vinnu og tillögum nefndar sem skilaði skýrslu um afnám verðtryggingar í janúar 2014. Í hverju skrefi sem tekið verður þarf að leggja áherslu á að gæta stöðugleika og að möguleikar ungs fólks og tekjulágra til að eignast húsnæði skerðist ekki. Framsóknarflokkurinn vill enn fremur skapa hvata og stuðning til þess að heimili geti breytt verðtryggðum lánum í óverðtryggð.

Taka húsnæðisliðinn úr neysluvísitölu.

Fasteignaverð er liður í neysluvísitölu hér á landi og af þeim sökum hafa stýrivextir og höfuðstólar verðtryggðra lána verið hærri en í nágrannalöndum þar sem stuðst er við samræmda vísitölu neysluverðs.
Framsóknarflokkurinn telur mikilvægt að við vinnu við endurskipulagningu fjármálakerfisins verði leitað eftir sjónarmiðum neytenda ekki síður en annarra haghafa á fjármálamarkaði.
Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að hagsmunir neytenda og skattgreiðenda verði hafðir að leiðarljósi við boðaða vinnu við endurskipulagningu fjármálakerfisins, sem m.a. er getið um í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Í því felst að leitað verði leiða til að auka samkeppni á viðskiptabankamarkaði, á sama tíma og dregið verði úr þeirri áhættu sem skattgreiðendur bera af starfsemi fjármálafyrirtækja.
Að fólki verði heimilt að nýta viðbótarlífeyrissparnað, og að hluta skyldulífeyrissparnað, til húsnæðiskaupa (svissneska leiðin4).
Framsóknarflokkurinn vill að heimilt verði að taka út lífeyriseign til húsnæðiskaupa. Vel hefur gengið að nýta hluta viðbótarlífeyrissparnaðar til niðurgreiðslu húsnæðislána og til húsnæðiskaupa. Framsóknarflokkurinn vill að frekari skref verði stigin við að heimila nýtingu á viðbótarlífeyrissparnaði og hluta skyldulífeyrissparnaðar til húsnæðiskaupa hér á landi. Sambærileg leið hefur verið farin í Sviss. Þegar íbúðin er seld er iðgjaldinu skilað aftur inn í lífeyrissjóðinn.

4 Svissnesk fyrirmynd – Heimild til að taka út það iðgjald sem lagt hefur verið í sameignarhluta lífeyrissjóða og nýta sem útborgun við íbúðarkaup. Fjárhæð sem tekin er út ber ekki vexti og er án afborgana. Við sölu íbúðar er iðgjaldinu skilað aftur inn í lífeyrissjóðinn.

Skipuð verði rannsóknarnefnd um þær aðgerðir sem stjórnvöld og fjármálafyrirtæki réðust í eftir hrunið.

Rannsaka þarf aðgerðir stjórnvalda og fjármálafyrirtækja í kjölfar hrunsins og finna út raunverulega stöðu fjármálakerfisins en það verður ekki gert án þess að rannsaka lögmæti þeirra aðgerða sem ráðist var í eftir hrunið, t.d. varðandi endurútreikninga gengistryggðra lána. Einnig þarf að skoða hvort úrvinnsla verðtryggðra og gengistryggðra lána hafi verið í samræmi við lög- og stjórnarskrárvarin réttindi neytenda og skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.

Stöðva skal allar aðfarir sem byggja á fyrrnefndum aðgerðum á meðan vinna við slíka rannsóknarskýrslu stendur yfir.

Við endurskipulagningu fjármálakerfisins er mikilvægt að hagkvæmni sé gætt. Því leggst Framsóknarflokkurinn gegn fyrirhugaðri byggingu Landsbankans á dýrasta byggingasvæði landsins. Aðrar lausnir eru nærtækari.

(Ályktun 35. Flokksþings Framsóknarmanna 2018.)

Deila