Menning

Menningarmál 

Framsóknarflokkurinn fagnar þeirri miklu grósku sem er í íslensku menningarlífi. Mikilvægt er að standa vörð um helstu menningarstofnanir þjóðarinnar og styðja jafnframt ötullt starf áhugamanna. Mikilvægt er að styðja enn frekar við skapandi greinar, listir og menningarstarfsemi, ekki síst vegna þess að sýnt hefur verið fram á að slíkur stuðningur skilar sér margfalt til baka til samfélagsins. Sérstaklega þarf að huga að uppbyggingu aðstöðu og stuðningi við menningarstarfsemi og skapandi greinar utan höfuðborgarsvæðisins. 

Framsóknarflokkurinn vill efla Kvikmyndasjóð Íslands og kanna með hvaða hætti hægt er að greiða enn frekar fyrir en nú er að erlendir kvikmyndaframleiðendur sjái sér hag í því að taka upp kvikmyndir sínar hérlendis. Einnig þarf að horfa til þess hvernig greiða má götu annarra listgreina í sama tilgangi. 

Öflugt menningarlíf er hornsteinn öflugs mannlífs. Það gefur ómælt af sér og hefur bæði menningarlega þýðingu og efnahagslega. Það skilar árangri í jákvæðri kynningu á landi og þjóð á erlendri grundu. Við viljum að á Íslandi verði fjölbreytt listnám útbreitt og viðurkennt. Lykilsöfn í íslensku samfélagi verða að hafa góða aðstöðu til sýninga og varðveislu muna, sem og til frekari rannsókna og söfnunar. Við fögnum þeirri grósku sem ríkir í nýsköpun og starfsemi lítilla safna og setra, sérstaklega á landsbyggðinni. Menningarsamningar hafa gefið góða raun og viljum við fjölga þeim sem og styrkja þá sem fyrir eru. Höfundarétt ber að virða. Einnig þarf að tryggja Náttúruminjarsafni viðunandi aðstöðu sem fyrst. 

Fjölmiðlar eru mikilvæg upplýsingaveita almennings í lýðræðislegu samfélagi. Auka þarf gagnsæi um útbreidda fjölmiðla þannig að eignarhald sé skýrt sem og til að koma í veg fyrir samþjöppun. Ríkisútvarpið á að gegna mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi með hlutlægri umfjöllun og standa vörð um ísl. tungu. Á RÚV hvílir rík, lýðræðis- og samfélagsleg skylda og því ber að þjóna öllu landinu. Útvarpsgjaldið verður því að renna óskipt til RÚV. Standa skal vörð um íslenska tungu, efla rannsóknir á þróun hennar og leggja áherslu á aðgerðir til að tryggja notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni. 

Framsóknarflokkurinn leggur ríka áherslu á mikilvægi íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfa. Tryggja þarf jafna aðstöðu kynjanna og samþætta leik og nám eftir því sem kostur er. Stuðla ber að því að sem flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi hvort sem um ræðir íþróttir, listnám, listsköpun eða félagsstarf. Slíkt starf þroskar einstaklinginn og hefur mikið forvarnargildi. Brýnt er að ríkið tryggi betri rekstrargrundvöll æskulýðs- og tómstundafélaga. 

Deila