Categories
Fréttir

„Við viljum sjá íslenska ferðaþjónustu vera leiðandi í sjálfbærri þróun“

Deila grein

10/09/2024

„Við viljum sjá íslenska ferðaþjónustu vera leiðandi í sjálfbærri þróun“

Ný ferðamálastefna verður framkvæmd af krafti og fyrstu aðgerðir kynntar nú í vikunni. Samkvæmt nýbirtu frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2025 er heildarfjárheimild til málaflokks ferðaþjónustu áætluð 2.415,3 m.kr. Undir málaflokkinn heyrir meðal annars Ferðamálastofa, Flugþróunarsjóður og Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

,,Ferðaþjónustan er stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein landsins og það er mikilvægt að tryggja henni sterka umgjörð til þess að vaxa og dafna. Við viljum sjá íslenska ferðaþjónustu vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahags-, umhverfis- og samfélagslegs jafnvægis og að hún sé arðsöm og samkeppnishæf í samanburði við önnur ríki,‘‘ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra.

Fjölbreyttar aðgerðir raungerast

Um 200 milljónum króna verður ráðstafað í forgangsaðgerðir í nýju stefnunni. Má sem dæmi nefna:

  • Bætt öryggi ferðamanna.
  • Fjármögnun og rekstur áfangastaða.
  • Þróun verkfærakistu til að meta þolmörk og bregðast við álagi á áfangastöðum ferðamanna.
  • Innleiðing álagsstýringar á áfangastöðum ferðamanna.
  • Stutt við áfangastaðastofur landshlutanna sem stoðkerfi ferðaþjónustunnar.
  • Aukið fjármagn til rannsókna, opið gagnarými fyrir ferðaþjónustu og samstarf um rannsóknir á sviði ferðamála.
  • Aukin áhersla á sanngildi og sérstöðu íslenskrar tungu og menningar.

Þá er greiningarvinnu á framtíðarhorfum í ferðaþjónustu, í samvinnu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, menningar- og viðskiptaráðuneytisins og Íslandsstofu að ljúka. Greiningarvinnan verður nýtt til að undirbyggja frekari ákvarðanatöku í tengslum við markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað ferðamanna.

Stutt betur við aukna dreifingu ferðamanna um landið

Aukin áhersla verður lögð á dreifingu ferðamanna um landið með hækkun á fjárheimild Flugþróunarsjóðs sem nemur 100 m.kr. Flugþróunarsjóður hefur það að markmiði að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands svo koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði. Síðustu ár hefur náðst mikill árangur, nú síðast með tilkomu beins flugs með EasyJet til og frá London Gatwick. Beint flug stuðlar að betri rekstrarskilyrðum fyrirtækja víðar um land, meiri nýtingu innviða utan háannar, bættum búsetuskilyrðum og auknum lífsgæðum heimamanna.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Þetta er allt að koma!

Deila grein

10/09/2024

Þetta er allt að koma!

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Framsóknar, kynnti fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2025 í dag. Áhersla er lögð á forgangsröðun og bætta afkomu ríkissjóðs með markvissu aðhaldi í opinberum umsvifum. Unnið er áfram eftir áframhaldandi hjöðnun verðbólgu og betri skilyrði fyrir lækkun vaxta. Heilbrigðis- og velferðarmál lúta ekki aðhaldskröfu og er það í samræmi við þá ætlan ríkisstjórnarinnar að hlúa að viðkvæmum hópum.

„Í morgun kynnti ég sem fjármála- og efnahagsráðherra mitt fyrsta fjárlagafrumvarp sem ég síðan mæli fyrir á fimmtudag á Alþingi Íslendinga. Markmið þess er að stuðla enn frekar að lækkun verðbólgu og í kjölfarið lækkun vaxta. Það er stærsta hagsmunamál samfélagsins okkar.

Við höfum síðustu misserin verið að glíma við verðbólgu sem er langt yfir því sem ásættanlegt getur talist. Seðlabankinn hefur beitt öflugu verkfæri, stýrivöxtum, til að vinna gegn þenslu. Ríkisstjórnin hefur beitt ríkisfjármálunum til að styðja við stefnu Seðlabankans og hefur verðbólga verið á hægfara niðurleið síðasta árið. Sú fjármálaáætlun sem samþykkt var á Alþingi síðasta vor er með sama markmið: Að stuðla að lækkun verðbólgu.“ – Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Í morgun kynnti ég sem fjármála- og efnahagsráðherra mitt fyrsta fjárlagafrumvarp sem ég síðan mæli fyrir á fimmtudag á…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Þriðjudagur, 10. september 2024

Gert er ráð fyrir að á árinu 2025 batni afkoman talsvert milli ára frá uppfærðri áætlun fyrir yfirstandandi ár, eða um 0,4% af vergri landsframleiðslu (VLF). Það verður tæplega 41 ma.kr halli á heildarafkomu ríkissjóðs, eða sem samsvarar 0,8% af VLF, samanborið við ríflega 57 ma.kr halla á yfirstandandi ári. Það er mikill viðsnúningur frá tímum heimsfaraldurs kórónuveirunnar þegar halli ríkissjóðs náði hámarki við rúmlega 8% af VLF. Áætlað að frumjöfnuður ríkissjóðs 2025, þ.e. afkoma án vaxtagjalda og tekna, verði jákvæður um rúmlega 36 ma.kr., eða 0,7% af VLF, sem er rúmlega 4 ma.kr. bati milli ára.

Heilbrigðs- og velferðarkerfið varið með markvissum ráðstöfunum og forgangsröðun brýnna verkefna

Í fjárlagafrumvarpinu er áhersla lögð á hóflegan raunvöxt útgjalda og sem fyrr segir er forgangsraðað og hagrætt í þágu viðkvæmra hópa. Til viðbótar almennri aðhaldskröfu og öðrum útgjaldalækkunum sem tilgreindar eru í fjármálaáætlun er nú búið að útfæra niður á einstaka gjaldaliði 9 ma.kr. afkomubætandi ráðstafanir sem gert var ráð fyrir í áætluninni. Samanlagt skila þessar breytingar um 29 ma.kr. lækkun útgjalda á næsta ári samanborið við fyrri áætlanir. Verður þetta að hluta nýtt til forgangsröðunar nýrra og brýnna verkefna.

Velferðarkerfi verða styrkt:

  • Nýtt örorkukerfi sem tekur gildi í september á næsta ári mun bæta kjör örorkulífeyrisþega verulega.
  • Kjör ellilífeyrisþega batna en almennt frítekjumark ellilífeyris hækkar um 46% í ársbyrjun 2025. Það þýðir 138 þús.kr. kjarabót á ári.
  • Aukinn þungi verður settur á inngildingu flóttafólks og innflytjenda í íslenskt samfélag og fjárframlög til styttingar málsmeðferðartíma við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd verða aukin.

Samgöngur bættar:

  • Nýframkvæmdir og viðhald á vegakerfinu verða áfram í forgrunni
  • Framlög til uppbyggingar samgönguinnviða og almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu verða aukin um 6,4 ma.kr.

Heilbrigðismál áfram í forgangi:

  • Alls aukast framlög til málaflokksins milli ára um 10,4 ma.kr. á föstu verðlagi eða sem nemur um 3%.
  • Fjárveitingar til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga verða auknar vegna fjölgunar og öldrunar þjóðarinnar
  • Aukið fjármagn verður sett í rekstur nýrra hjúkrunarrýma.
  • Framlög vegna lyfja og hjálpartækja aukast um 1,3 ma.kr.
  • Áframhaldandi kraftur verður í byggingu nýs Landsspítala en á árinu 2025 verður 18,4 ma.kr. varið til verkefnisins.

Fjárfestingar og fjármagnstilfærslur:

  • Hafist verður handa við byggingu nýs fangelsis í stað Litla-Hrauns.
  • Fyrstu skrefin tekin í átt að byggingu Þjóðarhallar.

Rannsóknir og þróun:

  • Áframhaldandi stuðningur við fyrirtæki vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar.

Stuðningur við ungt fólk sem verðbólga og háir vextir bitna einkum á

Brýnt er að horfast í augu við að helsta meðalið við verðbólgu, þ.e. háir stýrivextir Seðlabankans, hefur mest áhrif á skuldsetta heimili. Vaxtabyrði ungs fólks hefur aukist hraðar en annarra aldurshópa.

Aðgerðir stjórnvalda til að styðja við markmið langtímakjarasamninga eru í forgangi og styðja sérstaklega við barnafólk, leigjendur og skuldsetta íbúðaeigendur á tímabili samningsins.

Sérstakur vaxtastuðningur til heimila með íbúðalán var greiddur út á liðnu ári, grunnfjárhæðir húsnæðisbóta og eignaskerðingarmörk í húsnæðisbótakerfinu voru hækkuð umtalsvert og stuðningur við barnafjölskyldur stórefldur. Umfang aðgerðanna nemur um 14 ma.kr. á árinu 2025. Í tengslum við gerð langtímakjarasamninga ákvað ríkisstjórnin að styðja við byggingu 1.000 íbúða á ári á samningstímanum með stofnframlögum til almennra íbúða og hlutdeildarlánum og er fjármögnun þeirra tryggð.

Ný og aukin verkefni í fjárlagafrumvarpi 2025

Allt efni fjárlagafrumvarpsins er aðgengilegt á fjárlög.is.

Categories
Fréttir Greinar

Breytingar, gjörið svo vel

Deila grein

07/09/2024

Breytingar, gjörið svo vel

Lykillinn að því að geta veitt borgarbúum góða þjónustu er að reka borgina með ábyrgum hætti. Í upphafi kjörtímabilsins kom í ljós 16 milljarða halli á borgarsjóði. Meirihlutinn einsetti sér að snúa honum í afgang á tveimur árum. Í fyrra náðist með markvissum hagræðingaraðgerðum að minnka hallann um tæpa 11 milljarða. Sex mánaða uppgjör borgarinnar í ár sýnir að við erum komin réttu megin við núllið og skilum tæplega 200 milljóna króna afgangi. Verkefninu er þó ekki lokið.

Þetta er í fyrsta sinn í fimm ár sem A – hluti borgarinnar er rekinn með afgangi en A-hluti borgarinnar er sá hluti rekstrarins sem er fjármagnaður með skatttekjum. Rekstrarniðurstaða bæði A- og B-hluta er einnig jákvæð um 406 milljónir og er 7,1 milljarði betri en á sama tíma í fyrra. Í A- og B- hluta eru fyrirtæki borgarinnar reiknuð með, m.a. Orkuveitan sem er langstærsta fyrirtæki borgarinnar.

Stöðugildi standa í stað milli ára

Þetta er áfangasigur fyrir meirihlutann í borginni og þetta er áfangasigur fyrir borgarbúa. Verkefnið er að halda áfram á sömu braut. Síðan ég settist í borgarstjórn og við í Framsókn í meirihluta borgarstjórnar höfum við séð jákvæð merki um að fjármálin séu að þróast í rétta átt með skýrum rekstraráherslum og höfum raunar verið í hagræðingaraðgerðum allt kjörtímabilið.

Stærstur hluti útgjalda borgarinnar eru laun. Þess vegna skiptir miklu máli að sýna aðhald í ráðningum. Undanfarin ár hefur stöðugildum fjölgað en nú höfum við innleitt ráðningarreglur og stafræna yfirsýn til þess að ná betri tökum á starfsmannafjölda. Í sex mánaða uppgjörinu sjáum við hversu vel þetta nýja verklag virkar, stöðugildi borgarinnar standa í stað milli ára þrátt fyrir að íbúum fjölgi og þjónusta sé aukin.

Með innri hagræðingu, betra skipulagi og sama starfsmannafjölda hjá borginni náum við að veita ört stækkandi hópi Reykvíkinga betri þjónustu í velferðarmálum, skólamálum, fjölskyldum á flótta og bætum snjómokstur og sorphirðu svo fátt eitt sé nefnt.

Skýr fókus á markmiðin

Jákvætt sex mánaða uppgjör gefur góð fyrirheit um framhaldið en við erum ekki komin fyrir vind. Nú er unnið að fjárhagsáætlun næsta árs og það er afar mikilvægt að sýna áfram þétt aðhald enda brýnt að eyða ekki um efni fram. Ég er þakklátur öflugum hópi stjórnenda borgarinnar sem vinnur samhentur með meirihlutanum að því að snúa við rekstri borgarinnar í anda þeirra breytinga sem við höfum sett á oddinn.

Áætlanir fyrir næstu misseri eru skýr, að taka fleiri skref í átt að ábyrgum rekstri og skapa svigrúm til þess að bæta enn frekar þjónustu við Reykvíkinga.

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Tölum um sam­keppni í land­búnaði

Deila grein

05/09/2024

Tölum um sam­keppni í land­búnaði

Síðan frumvarp matvælaráðherra um breytingar á búvörulögum gekk í gildi á vordögum hafa umræður verið háværar í fjölmiðlum um spillingu, einokun og hagsmunapot formanns atvinnuveganefndar á málinu. Síðast í gær fór Kastljós RÚV vandlega yfir meintan glæpaferil málsins.

Samkeppni landbúnaðarins á Íslandi

Í Kastljósi gærdagsins var rætt um samkeppni í landbúnaði á Íslandi og látið í veðri vaka að hann væri einungis í þágu bænda og afurðastöðva á kjötvörumarkaði og móti þessu mætti íslenski neytandinn síns lítið. Að vegna þessara breytinga á búvörulögum væri samkeppnin orðin engin og að ólöglegt samráð ríki.

Íslensk framleiðsla á landbúnaðarafurðum fyrir neytendamarkað býr víð gríðarlega samkeppni við erlenda aðila. Ef við erum að tala um kjötmarkaðinn þá jókst innflutningur á kjöti um 17% á árinu 2023. Hlutfallsaukning á innfluttu kjöti hefur verið svipuð í nokkur ár og nú þegar er 30% af heildarmarkaði svína og nautakjöts innfluttur.

Kjötframleiðsla innanlands árið 2023 var alls 30.076 tonn. Af því var kindakjöt 8000 tonn og hefur minnkað um 2000 tonn frá árinu 2017. Það er ljóst að íslenskt lambakjöt á í gríðarlegri samkeppni við aðra kjötframleiðslu og innflutningur sækir stöðugt á. Afurðastöðvar í sauðfjárrækt, sem eru í minni sniðum en tíðkast erlendis og eru starfræktar í sex vikur yfir árið, eru því augljóslega Davíð gegn Golíat í þessu samhengi.

Ég held að Samkeppniseftirlitið geti hallað sér rólega aftur því markaðurinn sér fullkomlega um aðhaldið. Með umræddum breytingum er vonandi hægt að styrkja íslenska sauðfjárframleiðslu og aðra íslenska kjötframleiðslu, þó ekki nema til að verjast falli. Samkeppniseftirlitið ætti frekar að taka stöðu með íslenskum afurðum og þá íslenskum neytendum í leiðinni líkt og er verið að gera í löndunum í kringum okkur.

Matvælaöryggi

Á dögunum var rætt um matvælaöryggi og að við þyrftum sem eyþjóð að beina sjónar okkar að því. Það felst þjóðhagslegt öryggi í því að huga að innlendri matvælaframleiðslu og tryggja fæðuöryggi. Við höfum hlýtt kalli markaðarins um innflutning og þá um leið fjölbreytni í vöruúrvali og lægra matvælaverði í einhverjum tilfellum. En í mörgum tilfellum er innflutningur matvöru óbeinn stuðningur við lága staðla í umhverfismálum, hreinlæti, heilbrigði og dýravelferð. Þá erum við líka að byggja undir léleg kjör og aðbúnað bænda og landbúnaðarverkafólks.

Um meinta hagsmunaárekstra

Í Kastljósi var oftar en tvisvar minnst á að formaður atvinnuveganefndar og framsögumaður málsins, Þórarinn Ingi Pétursson, hafi gengið þennan veg með eigin hagsmuni að leiðarljósi. Ég verð að segja að það hefur verið lágt hjá honum tímakaupið og þeirra sem hafa barist fyrir þessu í áraraðir. Framsókn hefur lagt fram frumvarp sama efnis síðan ég lagði það fram í nóvember 2018. Þegar Þórarinn Ingi kom inn á þing sem varamaður tók hann við málinu og hefur lagt það fram sem framsögumaður í sinni þingmennsku. Málið var unnið í samráði og samvinnu við Bændasamtökin, sem hafa stutt málið frá fyrstu framlagningu. Hagsmunir Þórarins Inga snúa að 2.8 milljóna inneign í afurðastöð sem hann og aðrir sauðfjárbændur áttu og KS hefur keypt núna. Inneignin hefur safnast upp á 12 árum þegar sauðfjárbændur hafa þurft að leggja til hluta af innleggi sínu til að rétta af tap á rekstri. Þórarinn Ingi hefur þó gefið út þá yfirlýsingu að hann ætli ekki að innheimta sinn hlut við þessa sölu. Við sem þingmenn berum ábyrgð á hagsmunum þjóðarinnar og í þessu máli var hugsað um hagsmuni heildarinnar.

Við í Framsókn höfum ávallt verið óhrædd við að benda á það augljósa; að það þurfi að styðja og vernda íslenska landbúnaðinn. Með því að styðja við íslenska landbúnaðarframleiðslu tryggjum við ekki aðeins fæðuöryggi, heldur verndum einnig störf fólks og tryggjum fjölbreytni atvinnulífsins. Það gleymist nefnilega oft að þúsundir einstaklinga starfa við matvælaframleiðslu hér á landi.

Með því að efla íslenskan landbúnað er hægt að draga úr niðursveiflunni í hagkerfinu og um leið tryggja fæðu- og matvælaöryggi í landinu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. september 2024.

Categories
Fréttir

Gulur september um geðrækt og forvarnir

Deila grein

04/09/2024

Gulur september um geðrækt og forvarnir

Hafinn er gulur september, helgaður samvinnu stofnana og félagasamtaka sem vinna að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum. Gulur er litur sjálfsvígsforvarna og táknrænn fyrir þá vitundarvakningu sem er markmið mánaðarins og einkennist af fjölbreyttum viðburðum sem allir fjalla um þetta mikilvæga samfélagsmál á einn eða annan hátt.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra flutti ávarp þegar formlegri dagskrá mánaðarins var ýtt úr vör í Ráðhúsi Reykjavíkur og fjallar jafnframt um þessi mál í nýlegri blaðagrein. Hann leggur áherslu á að forvarnir séu viðvarandi verkefni sem þurfi að nálgast samkvæmt bestu þekkingu á hverjum tíma. Starfshópur á hans vegum vinnur nú að því að uppfæra aðgerðaáætlun í sjálfsvígsforvörnum í samræmi við lýðheilsu- og geðheilbrigðisstefnu og er stefnt að því að uppfærð áætlun verði tilbúin fyrir lok mánaðarins:

„Ég bind vonir við að uppfærð aðgerðaáætlun í sjálfsvígsforvörnum muni stuðla að betra geðheilbrigði fólksins í landinu og draga markvisst úr tíðni sjálfsvíga.“ 

„Mestum árangri náum við með því að virkja sem flesta til þátttöku og efla vitund fólks um þá staðreynd að geðheilbrigði er ein af grundvallarforsendum heilbrigðis okkar.“ Hann bendir á að allir geti lagt eitthvað af mörkum: „Með því að rétta út hjálpar hönd, sýna hlýju, skilning og samhug þá getum við öll haft áhrif.“

Gulur september er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum. Um er að ræða…

Posted by Willum Þór Þórsson on Sunnudagur, 1. september 2024

Lífsbrú, miðstöð sjálfsvígsforvarna

Til þess að styðja enn frekar við sjálfsvígsforvarnir var á síðasta ári veitt varanleg fjárveiting til stöðugildis verkefnastjóra sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis auk þess sem Lífsbrú, miðstöð sjálfsvígsforvarna var stofnuð. Með stofnun Lífsbrúar er nú komin vettvangur fyrir sjálfsvígsforvarnir í landinu. Markmið miðstöðvarinnar er að vinna að sjálfsvígsforvörnum í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda. Samhliða opnun miðstöðvarinnar var settur á laggirnar Lífsbrúarsjóður sem ætlað er að byggja undir og styðja við sjálfsvígsforvarnir. 

Geðrækt og forvarnir byggjast á samvinnu

Heilbrigðisráðherra leggur áherslu á að geðrækt og forvarnir eru samvinnuverkefni sem er samofið samfélaginu, enda snerti það flesta anga þess. Fjölmargir aðilar, jafnt stofnanir, félagasamtök og einstaklingar vinni óeigingjarnt og afar mikilvægt starf á þessu sviði af hugsjón og eldmóði. Þetta sé ómetanlegt og mikilvægt fyrir stjórnvöld og framgang markmiða þeirrar stefnu sem mörkuð hefur verið í málaflokknum.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Aðgerðirn­ar eru grunn­ur að þjóðrátaki

Deila grein

04/09/2024

Aðgerðirn­ar eru grunn­ur að þjóðrátaki

Nýskipaður aðgerðahópur vegna ofbeldis í garð og á meðal barna hóf störf í dag. Hópnum er falið að hrinda í framkvæmd aðgerðum sem mennta- og barnamálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið kynntu á blaðamannafundi 25. júní sl. og aðgerðum heilbrigðisráðuneytisins er lúta að heilbrigði og vellíðan barna. Með aðgerðunum er ætlunin að sporna við þróun í átt að auknu ofbeldi, auka forvarnarstarf og leiða saman fjölbreytta þjónustu- og viðbragðsaðila í samstilltu átaki gegn vaxandi ofbeldi meðal barna og ungmenna á Íslandi.

„Þetta er mjög al­var­leg þróun og við vilj­um alls ekki að þetta haldi áfram að vaxa með þeim hætti sem verið hef­ur og við verðum að vinda ofan af þessu. Það eru all­ir sam­mála um það að við verðum að stíga eins fast inn og mögu­legt er og við verðum að ná að virkja alla aðila í þessu. Aðgerðirn­ar eru grunn­ur að þjóðrátaki og eiga að miða að því að virkja allt sam­fé­lagið með for­vörn­um, sam­tali og líka efl­ingu lög­gæslu,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Frá því að grunur vaknar um að barn hafi orðið fyrir alvarlegu ofbeldi eða er líklegt til að verða fyrir því, skiptir sköpum hvernig brugðist er við til þess að tryggja vernd, vellíðan og öryggi þess. Hið sama á við um barn sem hefur beitt eða er líklegt til að beita ofbeldi. Þjónusta sem tekur mið af þörfum barna er einn mikilvægasti liðurinn í því að tryggja börnum viðeigandi og tímanlega aðstoð þegar hennar er þörf.

Mikil áhersla er lögð á þétta og góða samvinnu allra þeirra sem koma að málefnum barna. Hópurinn er skipaður fulltrúum mennta- og barnamálaráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, Reykjavíkurborgar, Barna- og fjölskyldustofu, heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, embættis ríkislögreglustjóra, lögregluembætta og Heimilis og skóla.

Starfshópnum er ætlað að forgangsraða aðgerðum, móta áætlun um framkvæmd og innleiðingu þeirra, fylgja innleiðingunni eftir og mæla árangur. Með markvissri innleiðingu aðgerða, eftirfylgni og árangursmælingum er ekki einungis verið að mæta þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin hér á landi heldur gefst einnig kostur á því að varpa ljósi á umfang og eðli vandans og bregðast rétt við. Slíkt er afar þarft til þess að tryggja viðeigandi viðbrögð og úrræði, auk þess sem það dregur úr líkunum á ófyrirséðum neikvæðum afleiðingum inngrips.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Ætlað að sporna við skaða af völdum ópíóðafíknar

Deila grein

03/09/2024

Ætlað að sporna við skaða af völdum ópíóðafíknar

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, hefur staðfest viðauka við samning Sjúkratrygginga Íslands og SÁÁ um flýtiþjónustu vegna fíknsjúkdóma og snemminngrip fyrir einstaklinga með alvarlega ópíóíðafíkn. Samningur þess efnis var undirritaður í dag við sjúkrahúsið á Vogi.

Willum Þór segir mjög mikilvægan áfanga felast í þessum samningsviðauka sem feli í sér aukna þjónustu og bætt aðgengi:

„Auk þess að fjölga viðhaldsmeðferðum er ánægjulegt að sjá flýtimóttöku raungerast, samvinnu stofnana, Landspítala og SÁÁ fyrir þau sem eru í brýnni þörf á innlögn eða meðferð.“ 

Viðaukinn felur í sér viðbótarþjónustu sem heilbrigðisstofnanir geta vísað í og þannig aukið aðgengi að mikilvægri meðferð í þeim tilgangi að tryggja tímanlegt aðgengi. Hann er liður í að stytta bið eftir þjónustu ásamt því að auka aðgengi að viðeigandi úrræðum að undangengnu faglegu mati á meðferðarþörf. Með þessum hætti má skapa samfellu milli þjónustuþrepa í heilbrigðisþjónustu og auka samvinnu við aðra þjónustuveitendur. Lagt er upp með að viðaukasamningurinn verði hluti af nýjum heildarsamningi um þjónustu SÁÁ sem stefnt er að taki gildi um áramótin.

Samningurinn er liður í aðgerðum stjórnvalda til að sporna við skaða af völdum ópíóðafíknar sem samþykktar voru í ríkisstjórn. Þar var sérstaklega lagt til að þróuð yrði flýtimóttaka þar sem einstaklingum í bráðum vanda er tryggt aðgengi að gagnreyndri heilbrigðisþjónustu á borð við fráhvarfsmeðferð, vímuefnameðferð eða viðhaldsmeðferð sem mætir þeirra þörfum.

Aukin þjónusta

Tilvísanir í þjónustuna fara í sérstakan farveg innan SÁÁ, með faglegu mati á þörf og aðgengi að viðeigandi þjónustustigi. Jafnframt gerir viðaukinn SÁÁ kleift að auka þjónustu við einstaklinga með ópíóíðafíkn og miðað er við að allt að 450 einstaklingar hafi aðgang að lyfjameðferð við ópíóíðafíkn árlega í göngudeild. Sigurður H. Helgason forstjóri Sjúkratrygginga fagnar þessu viðbótar skrefi sem nú hefur verið tekið „Það er fyrst og fremst ánægjulegt að þessi hópur fái öflugri þjónustu og stuðning sem svo lengi hefur verið beðið eftir.“  Undir það tekur Anna Hildur Guðmundsdóttir formaður SÁÁ og bætir við að hann muni efla þjónustu SÁÁ en frekar. „Þessi viðauki gerir okkur kleift að styrkja enn frekar starfið okkar og auka þjónustu. Við fáum betri yfirsýn yfir þörfina fyrir meðferð á öllum stigum og hvernig hún birtist í heilbrigðiskerfinu, auk þess sem hún eykur gagnsæi um hvernig okkur gengur að mæta þessari þörf í góðri samvinnu við Sjúkratryggingar og heilbrigðisyfirvöld.“ 

Liður í aðgerðum stjórnvalda

Umfangsmikil stefnumótun stendur yfir í heilbrigðisráðuneytinu í málaflokknum og er starfshópur að störfum að uppfæra heildarstefnu í áfengis- og vímuvörnum. Sú stefna mun taka til forvarna, meðferðarúrræða, eftirfylgni meðferðar, endurhæfingar og lagaumhverfis. Áhersla er lögð á að stefnan taki mið af mismunandi þörfum hópa með tilliti til meðferðar við fíknisjúkdómi.

Samhliða vinnu starfshópsins er unnið að stöðumati og kortlagningu á þeirri heilbrigðisþjónustu sem er fyrir hendi í dag fyrir fólk sem þarf á meðferð eða endurhæfingu að halda vegna vímuefnavanda. Sú vinna mun styðja við stefnumótun í málaflokknum til framtíðar.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Viljayfirlýsing um uppbyggingu Laugardalsvallar og nýjan frjálsíþróttaleikvang

Deila grein

03/09/2024

Viljayfirlýsing um uppbyggingu Laugardalsvallar og nýjan frjálsíþróttaleikvang

Forsætisráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, Reykjavíkurborg, Knattspyrnusamband Íslands og Frjálsíþróttasamband Íslands undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um framtíðaruppbyggingu þjóðarleikvanga fyrir knattspyrnu og frjálsíþróttir í Laugardal.

Með yfirlýsingunni er stefnt að uppbyggingu tveggja aðskilinna þjóðarleikvanga utanhúss í Laugardal, þar sem þegar er unnið að uppbyggingu þjóðarhallar fyrir innanhússíþróttir.

Laugardalsvöllur yrði þannig byggður upp sem knattspyrnuvöllur eingöngu, þar sem mögulegt yrði að leika stærstan hluta ársins, en nýr þjóðarleikvangur í frjálsíþróttum risi á nýjum stað í Laugardal.

Alþjóðlegur árangur kallar á bætta aðstöðu

Markmiðið er að byggja upp leikvanga í knattspyrnu og frjálsíþróttum með heildarumgjörð og búnað sem uppfylla kröfur til alþjóðlegra keppnisviðburða.

Metnaður stjórnvalda stendur eðli málsins samkvæmt til þess að styðja við sívaxandi árangur og afrek Íslendinga í alþjóðlegri íþróttakeppni, en mikilvægt er að leikvangar standist ríkar kröfur alþjóðlegra íþróttasambanda til alþjóðlegrar keppni.

Laugardalsvöllur, sem hefur verið vettvangur glæsilegra íþróttaafreka frá 1959, er sá leikvangur sem kemst næst því að uppfylla alþjóðlegar kröfur – en þar er hins vegar úrbóta þörf.

Góður árangur íslenskra landsliða og félagsliða í knattspyrnu leiðir til þess að spila þarf leiki í alþjóðlegri keppni allt árið um kring. Fyrsti áfangi í uppbyggingu Laugardalsvallar verður að skipta út núverandi grasi á vellinum fyrir blandað gras (svokallað hybrid-gras) og setja hitunarkerfi undir völlinn. Markmiðið er að gera Laugardalsvöll þannig leikfæran mun stærri hluta ársins en nú er.

Ríki og borg leggja hvor um sig allt að 250 m.kr. til framkvæmdarinnar. Þjóðarleikvangur ehf., sem er í eigu ríkisins, Reykjavíkurborgar og KSÍ, annast verkið.

Framúrskarandi aðstaða fyrir frjálsar íþróttir

Með ákvörðun um notkun hybrid-grass á Laugardalsvelli er þar með útilokuð keppni í kastgreinum frjálsíþrótta. Því verður lagt kapp á að reisa nýjan þjóðarleikvang fyrir frjálsíþróttir og hrinda þeirri vinnu af stað eins fljótt og kostur er. Í því samhengi er m.a. horft til keppni á Smáþjóðameistaramóti á Íslandi 2028 sem og Smáþjóðaleika, fáum árum síðar. Vinnan muni byggja á tillögum starfshóps mennta- og menningarmálaráðuneytisins um þjóðarleikvang í frjálsíþróttum frá árinu 2021. Leikvanginum er þannig ætlað að vera opinn og aðgengilegur þjóðarleikvangur lýðheilsu sem og mikilvægur þáttur í afreksuppbyggingu með tengingu við Afreksmiðstöð Íslands.

Þá mun mennta- og barnamálaráðherra, sem fer með málefni íþrótta, leggja fram tillögur að aðstöðu fyrir æfingar og keppni í frjálsíþróttum á meðan á uppbyggingu nýs leikvangs stendur í samstarfi við Frjálsíþróttasamband Íslands.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir Greinar

Ofbeldið skal stöðvað

Deila grein

03/09/2024

Ofbeldið skal stöðvað

Þjóðin er harmi sleg­in eft­ir að frétt­ir bár­ust af því að eitt okk­ar, Bryn­dís Klara Birg­is­dótt­ir, 17 ára, lést í kjöl­far al­var­legra áverka sem henni voru veitt­ir. Það er þyngra en tár­um taki að þetta hafi gerst í okk­ar sam­fé­lagi. Sorg­in er enn erfiðari þar sem um er að ræða unga mann­eskju sem átti bjarta framtíð fyr­ir sér. Öll þjóðin finn­ur fyr­ir missin­um og sárs­auk­an­um í svona harm­leik.

Í gegn­um tíðina höf­um við búið í sam­fé­lagi þar sem tíðni al­var­legra glæpa er lág í alþjóðleg­um sam­an­b­urði. Hins veg­ar hafa á und­an­förn­um árum reglu­lega borist frétt­ir af al­var­leg­um at­vik­um hjá ungu fólki þar sem gróft of­beldi hef­ur fengið laus­an taum­inn og vopn­um er beitt, hvort sem það er inn­an veggja skóla, skemmti­staða eða á al­manna­færi. Það gef­ur auga­leið að þessi þróun er al­gjör­lega óviðun­andi og við verðum öll að stöðva hana. Að sama skapi verðum við að skilja hvað veld­ur þess­ari breyt­ingu til að geta breytt sam­fé­lag­inu til betri veg­ar. Að und­an­förnu hafa stjórn­völd í aukn­um mæli sett þunga í að mæta þess­um nýja veru­leika og munu gera það sem þarf til að stöðva þessa þróun. Þetta er eitt stærsta sam­fé­lags­verk­efni okk­ar og er ég sann­færð um að þjóðarátak gegn of­beldi muni skila okk­ur ár­angri og gera sam­fé­lagið ör­ugg­ara. Ísland er sterkt sam­fé­lag og hef­ur tek­ist á við mikl­ar áskor­an­ir í gegn­um tíðina. Við ætl­um okk­ur að vinna bug á þess­ari þróun og snúa henni við – og það get­um við. Slíkt hef­ur tek­ist í öðrum lönd­um og þangað þurf­um við meðal ann­ars að líta. Öll finn­um við hvernig harm­leik­ur sem þessi slær okk­ur og við vilj­um ekki að slíkt end­ur­taki sig. Sam­vinna fjöl­marga aðila mun skipta máli á þeirri veg­ferð sem er fram und­an. Hvort sem um er að ræða lög­reglu­yf­ir­völd, frí­stunda­heim­ili, skóla­sam­fé­lagið í víðu sam­hengi, for­eldra, fé­lags­miðstöðvarn­ar, heil­brigðis­kerfið, fé­lagsþjón­ust­una, barna­mála­yf­ir­völd, íþrótta­fé­lög, lista­fólkið okk­ar og síðast en ekki síst unga fólkið sjálft.

Tök­um hönd­um sam­an og snú­um þess­ari þróun við sem sam­fé­lag. Að því sögðu sendi ég fjöl­skyldu og vin­um Bryn­dís­ar mín­ar inni­leg­ustu samúðarkveðjur.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. september 2024.

Categories
Fréttir

Íslenskt efnahagslíf – horfur stöðugar!

Deila grein

02/09/2024

Íslenskt efnahagslíf – horfur stöðugar!

Lánshæfismatsfyrirtækið Fitch Ratings hefur birt (30. ágúst 2024) mat á lánshæfi ríkissjóðs og segir horfur stöðugar. Fitch segir að A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs endurspegli miklar tekjur á mann og góða stjórnarhætti sem eru sambærilegri við lönd með AAA og AA lánshæfiseinkunn. Smæð hagkerfisins, einsleitni útflutnings og háar opinberar skuldir halda aftur af einkunninni.

Ríkissjóður býr yfir umtalsverðum viðnámsþrótti, er skýrist af miklum gjaldeyrisforða og góðri sjóðsstöðu, sem mun draga úr næmni gagnvart ytri áföllum.

  • Til styrkleika teljast verulegar lífeyrissjóðseignir, traust fjármálakerfi og sterkir efnahagsreikningar einkageirans.

Aukin tiltrú á markverða og viðvarandi lækkun í skuldahlutfalli hins opinbera, meiri leitnivöxtur þjóðarbúsins og/eða vísbendingar um aukna fjölbreytni hagkerfisins sem minnka næmni Íslands gagnvart ytri áföllum gætu haft jákvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs.

Markvert verra skuldahlutfall hins opinbera, til dæmis vegna viðvarandi slaka í ríkisfjármálum, eða alvarlegt efnahagsáfall, til dæmis vegna skarprar leiðréttingar á fasteignamarkaði, gætu haft neikvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs.

Verðbólga og verðbólguvæntingar eru enn yfir efri mörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands (2,5%). Gert er ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali 6,1% árið 2024 og fari niður í 4,1% árið 2025. Það eru jákvæðar fréttir frá því verðbólgan mældist hæst 10,2% í janúar 2023.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bjartsýnn um stöðu og horfur í íslenskum efnahagsmálum

Árleg skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um íslenskt efnahagslíf hefur verið birt. Sjóðurinn gerir reglubundnar úttektir á efnahagslífi aðildarlanda sinna á grundvelli 4. greinar stofnsáttmálans (e. Article IV Consultation). Sendinefnd frá sjóðnum var hér á landi í maí síðastliðnum til viðræðna við íslensk stjórnvöld og aðra hagaðila.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að sjóðurinn telji að:

  • styrk og samræmd aðhaldsstefna stjórnvalda hafi dregið úr ójafnvægi innanlands og gagnvart útlöndum.
  • aðhald bæði peningamála og opinberra fjármála er talið hæfilegt og nú er útlit fyrir að dragi úr verðbólgu og hagvexti til skemmri tíma. Heilt á litið eru horfur góðar.
  • þegar hægja tekur á umsvifum í hagkerfinu ætti efnahagsstefnan að tryggja mjúka lendingu, ná verðbólgu niður í markmið og draga úr halla í ríkisfjármálum til að auka viðnámsþrótt gegn áföllum í framtíðinni.
  • áframhaldandi árangur við innleiðingu helstu ráðlegginga sjóðsins úr úttekt á fjármálakerfinu sem lauk 2023 (FSAP) er mikilvægur til að styðja við fjármálastöðugleika. Kerfisumbætur ættu að miða að því að hlúa að nýsköpun og viðhalda árangri í að auka fjölbreytni í íslensku efnahagslífi ásamt því að hraða grænni umbreytingu.
  • hagvaxtarhorfur til meðallangs tíma eru  bjartar og sjóðurinn spáir meiri hagvexti að jafnaði hér en í öðrum þróuðum ríkjum.
  • sjóðurinn telur að aukin fjölbreytni í íslensku efnahagslífi og stuðningur stjórnvalda við nýsköpun, sem þegar er farinn að skila árangri, styðji áfram við framleiðnivöxt og aukinn viðnámsþrótt hagkerfisins gagnvart áföllum.
  • nýgerðir kjarasamningar eru stórt skref í rétta átt á íslenskum vinnumarkaði. Samningarnir stuðla að minni verðbólgu ásamt því varðveita samkeppnishæfni þjóðarbúsins gagnvart útlöndum.

Sjóðurinn styður áform stjórnvalda um áframhaldandi aðhald í ríkisfjármálum og samræmast metnaðarfull markmið stjórnvalda í fjármálaáætlun áranna 2025-29 bættu svigrúmi opinberra fjármála til að mæta framtíðaráföllum.

Upptaka fjármálareglna að nýju telur sjóðurinn að muni stuðla að sjálfbærni í opinberum fjármálum og efnahagslegum stöðugleika. Þrátt fyrir framangreint telur AGS að frekari aðgerða sé þörf til að tryggja að aðhaldsstig ríkissjóðs verði áfram hæfilegt. Sjóðurinn telur t.a.m. rétt að snúa við raunaukningu útgjalda frá fjármálaáætlun 2023-2027 sem sumpart er komin til vegna þess að faraldurstengd útgjöld hafa ekki fengið að renna sitt skeið. Þá leggur sjóðurinn áherslu á að ríkissjóður spari allar tekjur sem eru umfram áætlanir.