Categories
Fréttir Greinar

Auðlegð þjóða snýst um opin alþjóðaviðskipti

Deila grein

03/10/2023

Auðlegð þjóða snýst um opin alþjóðaviðskipti

Þökk sé þeim mikla krafti sem verið hef­ur í alþjóðaviðskipt­um und­an­farna ára­tugi hafa lífs­kjör hundraða millj­óna manna batnað veru­lega með aukn­um kaup­mætti. Ísland hef­ur tekið virk­an þátt í þess­ari þróun og er eng­um blöðum um það að fletta að efna­hags­leg­ur vöxt­ur lands­ins hef­ur byggst á opn­um alþjóðaviðskipt­um – þar sem hugað hef­ur verið að greiðslu­jöfnuði þjóðarbús­ins.

Hag­saga Íslands er saga fram­fara en um leið og Ísland hóf aft­ur frjáls viðskipti og fór að nýta auðlind­ir lands­ins í eig­in þágu juk­ust hér lífs­gæði og vel­meg­un. Á þeirri veg­ferð hef­ur tækni­væðing sam­fé­lags­ins lagt sitt af mörk­um og skilað auk­inni skil­virkni og nýt­ingu fram­leiðsluþátta. Þannig störfuðu í upp­hafi 20. ald­ar­inn­ar um 80% af vinnu­afl­inu í land­búnaði og sjáv­ar­út­vegi en 100 árum síðar er sam­svar­andi hlut­fall um 10%. Á sama tíma hef­ur verðmæta­sköp­un auk­ist um­tals­vert. Ut­an­rík­is­viðskipti hafa á sama tíma orðið mun fjöl­breytt­ari en þegar um 90% gjald­eyristekna komu frá sjáv­ar­út­vegi. Meg­in­út­flutn­ings­stoðir hag­kerf­is­ins eru fjór­ar í dag; ferðaþjón­usta, sjáv­ar­út­veg­ur, iðnaður og skap­andi grein­ar.

Á und­an­förn­um árum hafa ýms­ar áskor­an­ir birst í heimi alþjóðaviðskipt­anna. Eft­ir að Brett­on-Woods-gjald­miðlaum­gjörðin leið end­an­lega und­ir lok á átt­unda ára­tugn­um tók við tíma­bil sem ein­kennd­ist af efna­hags­legri stöðnun og hárri verðbólgu. Réðust til að mynda Banda­rík­in og Bret­land í um­fangs­mikl­ar kerf­is­breyt­ing­ar til að snúa þeirri þróun við sem fólust meðal ann­ars í því að losa um eign­ar­hald rík­is­ins á ýms­um þátt­um hag­kerf­is­ins, skatt­ar voru lækkaðir, ein­blínt var á fram­boðshliðina og létt var á reglu­verki.

Eft­ir gríðarlegt póli­tískt umrót í Kína ára­tug­ina á und­an náðist samstaða um að hefja mikið efna­hags­legt um­bóta­skeið sem hóst með valda­töku Deng Xia­op­ing 1978. Í kjöl­far þess að Banda­rík­in og Bret­land fóru að styrkj­ast efna­hags­lega ásamt Kína fóru mörg önn­ur ríki að þeirra for­dæmi. Þegar nær er litið eru bestu dæm­in auk­in viðskipti inn­an EFTA, ESB og EES sem styrktu hag­kerfi inn­an þeirra vé­banda og ekki síst þeirra ríkja sem opnuðust eft­ir fall ráðstjórn­ar­ríkj­anna. Að sama skapi skipti sköp­um fyr­ir þróun heimsviðskipta inn­ganga Kína í Alþjóðaviðskipta­stofn­un­ina árið 2001. Í kjöl­farið urðu breyt­ing­ar á sam­keppn­is­hæfni og út­flutn­ingi Kín­verja með til­heyr­andi aukn­ingu í alþjóðaviðskipt­um.

Við höf­um séð viðskipta­hindr­an­ir og -höml­ur aukast tölu­vert und­an­far­inn ára­tug. Í því sam­hengi hef­ur Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn bent á að heims­fram­leiðsla geti dreg­ist sam­an um 7% en það jafn­gild­ir sam­an­lagðri stærð franska og þýska hag­kerf­is­ins! Þetta er þróun sem þjóðir heims verða að hafa aug­un á til að stuðla að áfram­hald­andi lífs­kjara­sókn í heim­in­um.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Hagræðing í bankakerfinu hefur ekki skilað sér til fólksins

Deila grein

02/10/2023

Hagræðing í bankakerfinu hefur ekki skilað sér til fólksins

Mik­il­væg­ar og gagn­leg­ar upp­lýs­ing­ar koma fram í nýrri skýrslu starfs­hóps er Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, skipaði til að meta gjald­töku og arðsemi viðskipta­bank­anna. Hópn­um var ætlað að greina tekju­mynd­un, þar á meðal þókn­an­ir, þjón­ustu- og vaxta­tekj­ur og vaxtamun viðskipta­bank­anna þriggja í nor­ræn­um sam­an­b­urði. Á manna­máli er spurn­ing­in hvort ís­lensk heim­ili greiði hlut­falls­lega meira fyr­ir al­menna viðskipta­bankaþjón­ustu en heim­ili ann­ars staðar á Norður­lönd­um.

Í ljós kem­ur að vaxtamun­ur viðskipta­bank­anna hef­ur verið að aukast. Það kem­ur fram í töl­um og gögn­um þegar upp­gjör bank­anna það sem af er ári eru skoðuð. Það verður að vera krafa okk­ar neyt­enda að bank­arn­ir minnki vaxtamun­inn og skipti þannig ávinn­ingn­um á sann­gjarn­ari hátt. Þá eru sum þjón­ustu­gjöld ógagn­sæ og ekki alltaf ljóst hvað neyt­end­ur eru að greiða fyr­ir. Það er óviðun­andi staða. Nefnt er dæmi um að gjald­taka ís­lensku bank­anna af kortaviðskipt­um í er­lendri mynt sé dul­in en hún veg­ur engu að síður þungt í út­gjöld­um heim­il­anna fyr­ir fjár­málaþjón­ustu. Þá seg­ir að geng­isálag bank­anna á korta­færsl­um skeri sig tölu­vert úr ann­arri gjald­töku því að álagið kem­ur hvergi fram í verðskrám bank­anna og virðist vera breyti­legt milli gjald­miðla og frá ein­um tíma til ann­ars. Um er að ræða 6,6 millj­arða geng­isálag á ís­lenska neyt­end­ur fyr­ir að nota greiðslu­kort sín í er­lend­um færsl­um.

Hærri kostnaður vegna greiðslumiðlun­ar

Í skýrsl­unni kem­ur fram að kostnaður þjóðfé­lags­ins vegna greiðslumiðlun­ar sé mun hærri hér á landi en ann­ars staðar á Norður­lönd­um. Þessi aukni kostnaður við greiðslumiðlun hef­ur í för með sér hærra verð á vöru og þjón­ustu til ís­lenskra neyt­enda, sem á end­an­um bera kostnaðinn. Seðlabank­inn áætl­ar að kostnaður sam­fé­lags­ins af notk­un greiðslumiðla hér á landi á ár­inu 2021 hafi verið um 47 millj­arðar króna eða um 1,43% af vergri lands­fram­leiðslu. Þar af var kostnaður vegna greiðslu­korta ríf­lega 20 millj­arðar króna. Lang­stærst­ur hluti af færsl­un­um fer í gegn­um innviði er­lendra korta­fyr­ir­tækja.

Í skýrsl­unni seg­ir að það geti marg­borgað sig að kanna hvað sé í boði og í hverju kostnaður viðkom­andi liggi helst við bankaþjón­ustu. Vil ég hvetja alla til að skoða þetta gaum­gæfi­lega í sín­um viðskipt­um því það má vera að tæki­færi séu til að lækka til­kynn­ing­ar- og greiðslu­gjöld. Þá seg­ir að einnig sé hægt að at­huga hvort ódýr­ara sé að nota kred­it­kort, de­bet­kort eða kaupa gjald­eyri áður en farið er til út­landa.

Bank­arn­ir standi með fólki og fyr­ir­tækj­um

Það mun verða sam­fé­lags­leg­ur ávinn­ing­ur fólg­inn í öfl­ugri neyt­enda­vakt en sú vakt þarf að vera sam­vinnu­verk­efni okk­ar allra. Starfs­hóp­ur­inn legg­ur fram eft­ir­far­andi til­lög­ur til úr­bóta í skýrsl­unni:

 Sett verði á fót sam­an­b­urðar­vef­sjá með verði fjár­málaþjón­ustu að norskri og sænskri fyr­ir­mynd.

 Kannaðir verði mögu­leik­ar á að draga úr kostnaði í inn­lendri greiðslumiðlun í sam­ræmi við ábend­ing­ar Seðlabanka Íslands í ný­leg­um skýrsl­um.

 Auk­in áhersla verði lögð á fjár­mála­fræðslu fyr­ir al­menn­ing frá hlut­laus­um aðilum til að efla fjár­mála­læsi neyt­enda.

 Stjórn­völd búi til ramma og skýr­ar leik­regl­ur og fyr­ir­tæki setji fram upp­lýs­ing­ar og val­mögu­leika á skilj­an­leg­an hátt.

Bönk­un­um hef­ur tek­ist að auka hagnað og bæta arðsem­ina með auk­inni hagræðingu en í upp­gjör­um bank­anna er ekki að finna jafn skýr merki um lækk­un gjalda til viðskipta­vina. Okk­ur Íslend­ing­um er vita­skuld nauðsyn­legt að eiga sterkt banka­kerfi. En til að styðja og styrkja öfl­ugt at­vinnu- og efna­hags­líf verða viðskipta­bank­ar að njóta al­menns trausts í sam­fé­lag­inu. Ljóst má vera að hér má gera mikið mun bet­ur. Inn­heimta ým­issa gjalda, þókn­ana og vaxta­kostnaðar á ekki að vera neyt­end­um tor­skil­in á all­an hátt. Þá er það jú skýrt dæmi um að sam­keppni skorti á markaðnum og eins það að við neyt­end­ur séum ekki nægi­lega á verði. Það er hins veg­ar að breyt­ast og það er gott. Það er til mik­ils að vinna að ná sam­an um að hér verði spilaður sann­gjarn leik­ur.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður og 1. vara­formaður efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Hálfleikur

Deila grein

25/09/2023

Hálfleikur

Í dag eru liðin slétt tvö ár frá Alþingiskosningum. Í þeim vann Framsókn frækinn kosningasigur sem skilaði flokknum 13 þingmönnum og tryggði áframhaldandi stjórnarsamstarf Framsóknar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Sjálfstæðisflokks. Á þeim sex árum sem liðin eru hefur mikið mætt á íslensku samfélagi en um leið hefur mikið áunnist.

Þrátt fyrir að ég hafi síðustu vikur þurft að fara mér hægt vegna aðgerðar sem ég gekkst undir í byrjun mánaðarins hef ég ekki farið varhluta af umræðunni í samfélaginu. Ég finn áhyggjur fólks aukast af afkomu sinni vegna hárrar verðbólgu. Hún er stærsta áhyggjuefnið og stærsta verkefnið sem samfélagið tekst á við þessi misserin. Til að verðbólgan verði kveðin í kútinn þá er ekkert annað í boði en að við stöndum saman.

Samstaða

Íslenskt samfélag er gott. Okkur hefur í gegnum tíðina auðnast að standa saman þegar á bjátar. Skýrasta dæmið um það síðustu árin er heimsfaraldurinn. Í honum sýndi samfélagið að það er fullt af hlýju og samlíðan. Segja má að verðbólgan sé faraldur en stóri munurinn er þó sá að covid lagðist ekki misjafnlega á fólk eftir stöðunni á bankabókinni. Í baráttunni við verðbólguna er erfiðara að ná samstöðu um aðgerðir því þær bitna misjafnlega á fólki eftir því hvernig það stendur fjárhagslega. Hagsmunir heimilanna og lífsgæði barna eru mikilvægasti þátturinn sem taka verður tillit til þegar aðgerðir gegn og vegna verðbólgu eru ákveðnar.

Agi eða örvænting?

Því miður eru engar töfralausnir til sem lækka verðbólgu bara sisona. Agi og samstaða eru lykilþættir í þeirri baráttu. Þegar stjórnmálin standa frammi fyrir erfiðum áskorunum eiga sumir það til að flýja ábyrgð sína og byrja að hrópa á torgum um hin og þessi málefni sem þeir telja geta gefið þeim fleiri like og jafnvel prósentustig í könnunum. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að ríkisstjórnarflokkarnir hafa misst fylgi á síðustu mánuðum. Því fylgir oft titringur eins og fólk hefur tekið eftir. Einstaka stjórnmálamenn og flokkar fara þá ókyrrast og ýfa fjaðrirnar, pota í aðra, stíga á tær, allt til að skapa um sig umtal. Sumir leita uppi leðju til að sletta og polla til að hræra upp í til að skapa ótta, óþol og öfund með von um að þeir sjálfir komist í sviðsljósið. En örvænting fer engum vel. Nær væri að fólk myndi setjast niður og hugsa hvernig best sé að skapa almenna samstöðu um framtíðarsýn og síðast en ekki síst skapa aukið traust á stjórnmálunum og efnahagsstjórn landsins.

Dómsdagsspámenn

Þessa dagana er ekki skortur á dómsdagsspám um ríkisstjórnarsamstarfið í fjölmiðlum, heitum pottum og einstaka þingflokksherbergjum. Það lækkar ekki verðbólgu. Fyrir nokkrum dögum rakst ég á konu sem hafði á orði við mig að henni þætti útlitið nú ekki bjart fyrir stjórnina, hver höndin upp á móti annarri og erfitt að ímynda sér að hún væri á vetur setjandi. Ég sagði við hana að vissulega mætti fólk stundum anda aðeins með nefinu áður en það léti vaða á samstarfsfólk sitt en þetta væri aðallega merki um stress. Eftir smá spjall urðum við sammála um það að það væri nú ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á það að skorast undan ábyrgð á erfiðum tímum. Allavega myndi Framsókn ekki gefast upp.

Seinni hálfleikur

Það eru tvö ár liðin af kjörtímabilinu og við í Framsókn erum stolt af því sem við höfum áorkað á þeim tíma. Leikurinn er þó ekki búinn. Það eru ýmsar áskoranir sem íslenskt samfélag tekst á við. Við í Framsókn byrjum seinni hálfleik með sömu markmið og áður: Að vinna af heilindum að umbótum fyrir íslenskt samfélag með samvinnu. Það er bjargföst skoðun mín að til að ná sigri í baráttunni við verðbólgu verða einhverjir að gefa eftir en fyrst og fremst verða allir að gefa af sér.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og innviðaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Verðbólga og neytendavernd

Deila grein

25/09/2023

Verðbólga og neytendavernd

Langa­tíma­af­leiðing­ar hárr­ar verðbólgu eru slæm­ar fyr­ir sam­fé­lög. Verðbólg­an hitt­ir einkum fyr­ir þá sem minnst eiga. Hóp­ur­inn sem verst fer út úr verðbólgu­hremm­ing­un­um er sá sem ný­verið kom inn á hús­næðismarkaðinn.

Í riti Seðlabank­ans Fjár­mála­stöðug­leiki 2023/​2, sem kom út í vik­unni, er staða heim­ila og fyr­ir­tækja rýnd í sam­hengi við aukið aðhald pen­inga­stefn­unn­ar að und­an­förnu. Verðbólga og hækk­andi vext­ir hafa þyngt greiðslu­byrði heim­ila og fyr­ir­tækja þó skuld­setn­ing sé lít­il í sögu­legu sam­hengi og eig­in­fjárstaðan góð. Þannig hef­ur hækk­andi vaxta­stig dregið úr um­svif­um á íbúðamarkaði en veru­lega hef­ur dregið úr nýj­um lán­veit­ing­um til heim­ila á ár­inu. Hrein ný íbúðalán fyrstu sjö mánuði árs­ins námu aðeins rúm­um 58 mö.kr., sam­an­borið við 111 ma.kr. á sama tíma­bili á síðasta ári.

Nokk­ur hluti úti­stand­andi óverðtryggðra íbúðalána sem veitt voru á ár­un­um 2020 og 2021 ber fasta vexti sem brátt losna og verða end­ur­skoðaðir með til­heyr­andi hækk­un á greiðslu­byrði lán­anna. Seðlabank­inn ger­ir ráð fyr­ir því að hald­ist vaxta­stig áfram hátt megi að öðru óbreyttu gera ráð fyr­ir að greiðslu­byrði heim­il­anna þyng­ist veru­lega. Hag­kerfið okk­ar má ekki verða eitt­hvert gæfu­hjól, þ.e. að gæf­an ákv­arðist ein­göngu út frá því hvenær komið er inn á hús­næðismarkaðinn. Öruggt þak yfir höfuðið er eitt stærsta vel­ferðar­mál sam­tím­ans.

Staða stóru viðskipta­bank­anna er sterk, eig­in­fjár­hlut­föll þeirra há og arðsemi af reglu­leg­um rekstri góð. Það er í takt við þróun und­an­far­inna ára, sem var meðal ann­ars rak­in í skýrslu starfs­hóps sem ég skipaði um gjald­töku og arðsemi ís­lensku bank­anna og kynnt var ný­lega. Það er eðli­legt að viðskipta­bank­arn­ir nýti þessa stöðu til þess að koma til móts við þau heim­ili sem glíma við og munu glíma við þyngri greiðslu­byrði en áður.

Ein af til­lög­um starfs­hóps um gjald­töku og arðsemi ís­lensku bank­anna var að efla þyrfti neyt­enda­vernd á fjár­mála­markaði. Ég hef þegar komið vinnu við hana í far­veg en haf­in er grein­ing­ar­vinna á veg­um míns ráðuneyt­is í tengsl­um við ákveðna þætti fast­eignalána til neyt­enda og neyt­endalána til að efla neyt­enda­vernd á sviði fjár­málaþjón­ustu. T.a.m. hvernig staðið er að upp­lýs­inga­gjöf og leiðbein­ing­um til neyt­enda í tengsl­um við lán­veit­ing­ar út frá mis­mun­andi lána­form­um, áhrif­um vaxta, verðbólgu o.s.frv. Skoðað verður eft­ir­lits­hlut­verk Neyt­enda­stofu og Seðlabanka Íslands gagn­vart lán­veit­end­um við fram­kvæmd lán­veit­ing­ar til neyt­enda og eft­ir að lán er veitt, þ.m.t. við skil­mála­breyt­ing­ar og van­skil. Þá verður einnig skoðað hvaða upp­lýs­ing­um og leiðbein­ing­um þarf að koma á fram­færi til neyt­enda um mis­mun­andi lána­form, áhrif vaxta, verðbólgu o.s.frv. og hvernig þeim verði miðlað með sem skil­virk­ust­um hætti.

Verðbólga er marg­slungið fyr­ir­bæri og bar­átt­an við hana krefst sam­taka­mátt­ar sam­fé­lags­ins. Þar skipt­ir stuðning­ur við heim­il­in miklu máli og öfl­ug neyt­enda­vakt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Hugum að heyrn

Deila grein

22/09/2023

Hugum að heyrn

Sagt er að menn hafir fimm skilningarvit eða skynfæri: Sjón, heyrn, lyktarskyn, snertiskyn og bragðskyn. Öll eru þau jafn mikilvæg. Þeir sem fæðast með heyrn reiða sig mikið á hana og vilja halda í hana sem lengst. Með snemmtækri íhlutun og forvörnum er hægt að kortleggja og bregðast við ef svo sé ekki raunin. Fólk á öllum aldri býr við skerta heyrn og með hækkandi aldri minnkar heyrnin, um eftirlaunaaldur má búast við tvöföldum fjölda heyrnarskertra einstaklinga. Einn af hverjum sex Íslendingum með skerta heyrn.

Mennta þarf fólk í heyrnarfræðum

Það er bagalegt fyrir þá sem búa við heyrnarskerðingu að geta ekki gengið að þeirri þjónustu sem byggð hefur verið upp á síðustu áratugum með vissu. Eins og staðan er í dag eru um 2000 manns á biðlista hjá Heyrnar og talmeinastöð Íslands (Hér eftir HTÍ). Ástæðan er margvísleg, það vantar sérmenntað fólk til starfa auk þess sem húsnæðið sem stofnunin hefur verið í síðastliðin 50 ár er ekki hentug fyrir starfsemi af þessu tagi og fyrir utan að það er löngu sprungið. Einstaklingar með kuðungsígræðslu geta ekki leitað annað eftir sérfræðiaðstoð líkt og þeim sem sinna greiningu og talmeinaþjónustu. HTÍ gegnir skyldum og hefur þjónustað einstaklinga sem búa við heyrnarskerðingu sl. 40 ár. HTÍ sér um heyrnarmælingu nýbura, greiningu, meðferð og endurhæfingu heyrnarskertra barna og fullorðinna. Þá sinnir HTÍ einnig ráðgjafahlutverk til foreldra, skóla og dvalarheimila svo eitthvað sé nefnt. Heyrnarskert börn og unglingar sem eru undir reglulegu eftirliti HTÍ eru um 300 talsins.

Nú stendur HTÍ frammi fyrir þeirri erfiðu stöðu að ekki fæst fólk með þá sérmenntun sem til þarf svo hægt sé að halda svona starfsemi gangandi. Með hækkandi aldri þjóðarinnar má gera ráð fyrir að í hópi fullorðinna með væga eða slæma heyrnarskerðingu fjölgi um 20 – 30 þúsund manns á næstu 20 árum. Því er brýnt að fara í átak að mennta fólk í heyrnarfræðum hér á landi bæði í framhaldsskólum og í háskólum. Í vor fól Heilbrigðisráðuneytið Landsráði um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu að skoða leiðir til að skapa námstækifæri á þessu sviði. Heilbrigðisbraut Fjölbrautaskólans í Ármúla hefur þegar hafið undirbúning námsins en til þess að byggja upp heildstætt nám skiptir máli skiptir máli að HTÍ sé í stakk búin að taka sinna nemendum sem fari í nám í heyrnartækni.

Heyrumst!

Það er mikilvægt að heildstæð þjónusta sé tryggð og það er þjóðhagslega hagkvæmt að halda henni uppi, því það fjölgar stöðugt í þeim hópi sem þarf á þessari þjónustu að halda. Við verðum að koma í veg fyrir að fólk einangrast félagslega og sé jafnvel frá vinnu vegna skorti á viðeigandi úrræðum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Hvers vegna má ekki ræða hag­ræðingu?

Deila grein

21/09/2023

Hvers vegna má ekki ræða hag­ræðingu?

Síðustu daga hefur sprottið upp mikil og ekki síður mikilvæg umræða um framtíð menntunar og menntastofnana. Menntamálaráðherra ákvað í lok apríl síðastliðnum að setja af stað könnun um aukið samstarf eða sameiningu nokkurra framhaldsskóla á landinu. Markmið þeirrar vinnu hefur ávallt verið að styrkja faglega umgjörð námsins og rekstrarleg málefni skólanna. Það getur í einhverjum tilfellum þýtt sameiningu einstakra skóla til að búa til nýjar og öflugri einingar þar sem það er bæði hægt, og á við, til að takast á við þær breytingar og áskoranir sem fram undan eru á sviði menntamála. Sameining má hins vegar aldrei vera sameiningarinnar vegna, heldur verður að standa traustum fótum og það þarf að vera tryggt að slíkt stuðli að betra námi og traustari umgjörð nemenda og starfsfólks til framtíðar. Það er leiðarljós okkar og ég veit að slíkt er leiðarljós ráðherra málaflokksins.

Hagræðing eða sparnaður?

Með sparnaði er verið að skera niður fjármagn eða færa fjármagn úr einum málalfokki yfir í annan. Hagræðing innan málaflokks snýst hins vegar um að nýta þá fjármuni sem til staðar á betri hátt. Hún snýst um að nýta fjármuni á þá staði þar sem þeir eiga raunverulega heima. Í menntamálum eiga fjármunir að fara í að styrkja menntun nemenda, umgjörð þeirra og umgjörð starfsfólks. Þeir eiga ekki að fara í óþarfa steinsteypu eða rekstrarlega yfirbyggingu. Þetta virðist Sjálfstæðisflokknum hugnast illa. Flokki sem oft og iðulega tala í orði fyrir því að fara vel með og nýta fjármuni með skynsamlegum hætti. Óli Björn Kárason, þingmaður flokksins, skrifaði sérkennilega grein um eina af þessum umræddu tillögum í Morgunblaðið á dögunum og tók það sérstaklega fram að þau áform sem ráðherra hefði kynnt, og þingmaðurinn væri alfarið á móti og aðrir þingmenn flokksins tekið undir, væru ólík öðrum sambærilegum áformum eins og sameiningu annarra stofnana hér á landi. Hvernig má það vera? Þessi rök halda auðvitað engu vatni, ekki dropa, og jaðra við að vera hlægileg frá jafn skynsömum manni og Óla Birni. Hugmyndin er ekki að skera niður, hugmyndin er að nýta fjármuni betur og styrkja menntun. Það er allra hagur. Sjálfstæðisflokkurinn er bara flokkur hins opinbera, líður vel að þenja kerfið út, leggja auknar álögur á fólk í stað þess að fara vel með og sækja fjármuni á þá staði þar sem þeir raunverulega eru. Og standa með venjulegu fólki. Einhvern tímann hefði þetta kallast að vera kominn út í horn, eða jafnvel að magalenda út í skurði. Ég skal ekki segja.

Áskoranir í menntamálum fram undan

Bóknámsnemum er að fækka en nemendum í iðn- og tæknimenntun er að fjölga. Það er áskorun og það þarf kjark til að bregðast við þeirri áskorun. Fyrir um ári síðan var staðan sú að um 700 einstaklingar komust ekki inn í iðnnám. Staðan er einfaldlega þessi að við þurfum að fjárfesta í verknámi, starfsnámi og þá nemendum og umgjörð þeirra sem slíkt nám velja. Við þurfum sérfræðinga og öfluga einstaklinga til að taka þátt í þessum áskorunum sem fram undan eru við að byggja upp, virkja, skapa og taka þátt í nýsköpun og orkuskiptum. Þetta er að gerast mjög hratt. Ljósið í þessu öllu saman, raunar sé ég litla birtu vegna umræðunnar, er að nú hljóta kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að styðja við auknar fjárveitingar til framhaldsskólanna svo að þeir nemendur sem fari í dýrara nám fái tækifæri til að njóta þeirrar nauðsynlegu fjölbreytni sem um er rætt.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. september 2023.

Categories
Fréttir

Breytingar í nefndum hjá þingflokki Framsóknar

Deila grein

20/09/2023

Breytingar í nefndum hjá þingflokki Framsóknar

Í upphafi nýs þingvetrar verða breytingar á skipan þingmanna Framsóknar í fastanefndum Alþingis.

Stefán Vagn Stefánsson er nýr formaður fjárlaganefndar og tekur hann við formennsku af Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, Vinstrihreyfingunni – grænu framboði.

Ágúst Bjarni Garðarsson tekur sæti sem aðalmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í stað Lilju Rannveigar Sigurgeirsdóttur.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir tekur sæti sem aðalmaður í utanríkismálanefnd í stað Jóhanns Friðriks Friðrikssonar. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir tekur einnig sæti sem aðalmaður í allsherjar- og menntamálanefnd í stað Jóhanns Friðriks Friðrikssonar.

Jóhann Friðrik Friðriksson tekur sæti sem aðalmaður í fjárlaganefnd í stað Þórarins Inga Péturssonar. Jóhann Friðrik Friðriksson tekur einnig sæti sem aðalmaður í efnahags- og viðskiptanefnd í stað Hafdísar Hrannar Hafsteinsdóttur.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir tekur sæti sem aðalmaður í atvinnuveganefnd í stað Stefáns Vagns Stefánssonar. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir tekur einnig sæti sem aðalmaður í velferðarnefnd í stað Hafdísar Hrannar Hafsteinsdóttur.

Líneik Anna Sævarsdóttir tekur sæti sem aðalmaður í allsherjar- og menntamálanefnd í stað Lilju Rannveigar Sigurgeirsdóttur.

Þórarinn Ingi Pétursson er nýr formaður atvinnuveganefndar og tekur hann við formennsku af Stefáni Vagni Stefánssyni.

Yfirlit yfir nefndarsetu þingmanna Framsóknar í fastanefndum:

Allsherjar- og menntamálanefnd
 • Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, 2. varaformaður
 • Líneik Anna Sævarsdóttir
Atvinnuveganefnd
 • Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir
 • Þórarinn Ingi Pétursson, formaður
Efnahags- og viðskiptanefnd
 • Ágúst Bjarni Garðarsson, 1. varaformaður
 • Jóhann Friðrik Friðriksson
Fjárlaganefnd
 • Jóhann Friðrik Friðriksson
 • Stefán Vagn Stefánsson, formaður
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd
 • Ágúst Bjarni Garðarsson
 • Halla Signý Kristjánsdóttir
Umhverfis- og samgöngunefnd
 • Halla Signý Kristjánsdóttir
 • Ingibjörg Isaksen
Utanríkismálanefnd
 • Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir
Velferðarnefnd
 • Líneik Anna Sævarsdóttir
 • Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir
Categories
Fréttir

Komum í veg fyrir upplýsingaóreiðu og umræðu með upphrópunum!

Deila grein

20/09/2023

Komum í veg fyrir upplýsingaóreiðu og umræðu með upphrópunum!

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, ræddi kynfræðslu og hinsegin fræðslu í grunnskólum í störfum þingsins. Samfélagsumræðan hefur verið hávær undanfarið vegna kynningar Menntamálastofnunar á kennsluefni í kynlífsfræðslu fyrir 7-10 ára. Fór Hafdís Hrönn yfir að foreldrar óski réttilega eftir upplýsingum um fræðsluna og setji jafnvel fyrirvara við námsefnið eða uppsetningu þess. Foreldrar vilji einnig vita hvað börnin þeirra eru að læra til að geta tekið samtalið heima við.

„Varðandi nær allt annað námsefni væri því fagnað að foreldrar sýndu slíkan áhuga en hvað þessa fræðslu varðar virðist ekki alveg það sama gilda,“ sagði Hafdís Hrönn og bætti við að foreldrar sem vilji frekari upplýsingar um fræðsluna séu ekki að beita fordómafullri orðræðu eða að dreifa falsupplýsingum.

„Foreldrar gera sitt besta í að gæta hagsmuna barna sinna af heilindum og spyrja því gagnrýninna spurninga sem krefjast skýrra svara. Hysterían myndast nefnilega vegna upplýsingaskorts til foreldra. Við þurfum að upplýsa foreldra betur um námsefnið til að koma í veg fyrir svona stöðu í framtíðinni. Með þeim hætti má einmitt koma í veg fyrir upplýsingaóreiðu og að umræða sé leidd áfram af upphrópunum, umræða sem verður að taka af yfirvegun,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Ég styð heils hugar réttindabaráttu hinsegin og kynsegin fólks og mikilvægi þess að við fáum öll fræðslu um fjölbreytileika samfélagsins. Við þurfum líka að fræða um áskoranir einstaklinga með einhverfu og ADHD. Höldum áfram að fræða í átt að meiri samstöðu og umburðarlyndi í samskiptum milli fólks. Með þessu vil ég hvetja til aukins samtals milli heimilis og skóla því að við erum öll í þessu saman, þ.e. að koma börnunum okkar almennilega til manns svo sómi sé að fyrir samfélagið allt,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.


Ræða Hafdísar Hrannar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Kynfræðsla og hinsegin fræðsla í grunnskólum hefur verið mikið í kastljósi samfélagsumræðunnar undanfarið. Í miðju þessarar umræðu eru foreldrar sem spyrja spurninga, kalla eftir upplýsingum um fræðsluna og setja jafnvel fyrirvara við námsefnið eða uppsetningu hennar, foreldrar sem vilja vita hvað börnin þeirra eru að læra til að geta tekið samtalið líka heima við. Varðandi nær allt annað námsefni væri því fagnað að foreldrar sýndu slíkan áhuga en hvað þessa fræðslu varðar virðist ekki alveg það sama gilda. Það er undarlegt að því sé haldið fram að foreldrar séu að beita fordómafullri orðræðu, dreifa falsupplýsingum og valda usla í samfélaginu vegna þess að þeir vilja fá frekari upplýsingar um fræðsluna. Foreldrar gera sitt besta í að gæta hagsmuna barna sinna af heilindum og spyrja því gagnrýninna spurninga sem krefjast skýrra svara. Hysterían myndast nefnilega vegna upplýsingaskorts til foreldra. Við þurfum að upplýsa foreldra betur um námsefnið til að koma í veg fyrir svona stöðu í framtíðinni. Með þeim hætti má einmitt koma í veg fyrir upplýsingaóreiðu og að umræða sé leidd áfram af upphrópunum, umræða sem verður að taka af yfirvegun.

Virðulegi forseti. Ég styð heils hugar réttindabaráttu hinsegin og kynsegin fólks og mikilvægi þess að við fáum öll fræðslu um fjölbreytileika samfélagsins. Við þurfum líka að fræða um áskoranir einstaklinga með einhverfu og ADHD. Höldum áfram að fræða í átt að meiri samstöðu og umburðarlyndi í samskiptum milli fólks. Með þessu vil ég hvetja til aukins samtals milli heimilis og skóla því að við erum öll í þessu saman, þ.e. að koma börnunum okkar almennilega til manns svo sómi sé að fyrir samfélagið allt.“

Categories
Fréttir Greinar

Heilbrigðisþjónusta í heimabyggð

Deila grein

19/09/2023

Heilbrigðisþjónusta í heimabyggð

Íbúar landsbyggðarinnar eru nánast farnir að taka því sem sjálfsögðum hlut að leggja land undir fót með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn til þess að sækja sér sérfræðiþjónustu til Reykjavíkur. Greiningar hafa sýnt að fólk á landsbyggðinni er ólíklegra til þess að sækja sér þjónustu sérfræðilækna heldur en fólk af höfuðborgarsvæðinu og er ólíklegt að það sé vegna þess að fólk á landsbyggðinni sé hraustara heldur fyrir sunnan. Staðreyndin er sú að oft er um langan veg að fara og aðgengi að þjónustu er ekki jafnt.

Það þarf að fjölga ferðum

Líkt og staðan er í dag getur það verið verulega kostnaðarsamt fyrir þá sem eru búsettir á landsbyggðinni að sækja sér heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðið. Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í kostnaði við tvær ferðir sjúkratryggðs á 12 mánaða tímabili, þegar um er að ræða nauðsynlega ferð og þjónustan er ekki í boði í heimabyggð. Undirrituð telur það jafnréttismál fyrir íbúa landsbyggðarinnar að endurgreiðslum vegna slíkra ferða verði fjölgað og jafna með þeim hætti aðgengi íbúa landsins að heilbrigðisþjónustu. Í því samhengi þyrfti í auknum mæli að horfa til þarfa hvers og eins. Rétt er þó að geta þess til að koma í veg fyrir misskilning að ef um alvarlega sjúkdóma er að ræða þá endurgreiða Sjúkratryggingar ferðakostnaði vegna fleiri ferða.

Jafnt aðgengi að sérfræðingum

Með nýjum samningum við sérgreinalækna var stigið mikilvægt skref í átt að betri heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn. Að ná samningunum var meðal mikilvægustu verkefna ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili og það var virkilega ánægjulegt að heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, hafi náð að landa þeim. Tækifærin eru til staðar, verkefnið er að halda áfram á sömu leið. Markmið stjórnvalda er að halda markvisst áfram að bæta heilbrigðiskerfið, tryggja öfluga heilbrigðisþjónustu og jafna aðgengi.

Sú sem hér skrifar telur þörf á að efla enn frekar þjónustu sérfræðilækna við íbúa landsbyggðarinnar. Þónokkrir sérfræðilæknar leggja land undir fót og þjónusta fólk í hinum ýmsu byggðum um land allt. Í því ljósi telur undirrituð það ákjósanlegra að fækka markvisst ferðum fólks af landsbyggðinni þar sem því verður við komið og efla enn frekar ferðir sérfræðinga út á land.

Sérfræðilæknar eru takmörkuð auðlind og því er erfitt að gera kröfu um að þeir hafi fasta starfstöðvar á hverjum degi á landsbyggðinni. En það er mögulegt að auka samstarf milli sérfræðilækna og heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og nýta þá aðstöðu sem víða er til staðar. Sú sem hér skrifar telur mikilvægt að gengið verði til samræðna við sérfræðilækna með það að markmiði að færa þjónustu þeirra nær fólkinu. Með því að fjölga ferðum sérfræðinganna út á land fyrir tilstilli ríkisins til að sinna þjónustunni í heimabyggð er það ekki bara hagræði fyrir þá sem þurfa að leita sér heilbrigðisþjónustu heldur kæmi það einnig til með að spara ríkissjóði talsverðar fjárhæðir. Með einni ferð sérfræðingsins er tugum annarra sparað sömu ferð. Þá eru ótalin jákvæð umhverfisáhrif vegna minni ferðalaga.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. september 2023.

Categories
Fréttir

„Við verðum að tryggja öruggara eftirlit og viðbrögð við slysasleppingum“

Deila grein

19/09/2023

„Við verðum að tryggja öruggara eftirlit og viðbrögð við slysasleppingum“

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, ræddi sjókvíaeldi og laxveiði í störfum þingsins. Rakti hún áhyggjur á möguleikum á erfðablöndun villtra laxa og strokufiska. Síðustu daga hafa verið að veiðast eldislaxar í laxveiðiám á stóru svæði en gat fannst á nótarpoka í sjókví í Patreksfirði fyrir nokkru. Þegar gatið uppgötvaðist kom í ljós að 3.500 fiska vantaði í kvína.

„Hér á landi hefur sjókvíaeldi vaxið með miklum hraða síðustu ár og vakið áhyggjur þeirra sem hafa tekjur sínar af laxveiði. Á bak við báðar þessar atvinnugreinar eru fjölskyldur, samfélög og fyrirtæki sem reiða sig á góða afkomu,“ sagði Lilja Rannveig.

„Þegar kom að skipulagningu sjókvíaeldissvæða var ákveðið að friða tilgreind svæði á landinu fyrir sjókvíaeldi með það að markmiði að minnka líkurnar á því að strokulaxar kæmust í laxveiðiárnar,“ sagði Lilja Rannveig og hélt áfram: „Staðreyndin er sú að það má alltaf gera ráð fyrir því að áföll verði og það munu alltaf einhverjir laxar sleppa úr sjókvíum.“

Til landsins eru komnir kafarar sem fara í ár, leita að laxinum og skjóta með skutulbyssu og sjókvíaeldisfyrirtækið segist ætla að bæta verkferla. „Tryggja verður öruggara eftirlit og viðbrögð við slysasleppingu svo að svona ástand endurtaki sig ekki. Trúverðugleiki og framtíð beggja atvinnugreina er í húfi.“

„Því hef ég óskað eftir sérstakri umræðu við hæstv. matvælaráðherra um slysasleppingar í sjókvíaeldi því að það er mikilvægt að við tökum umræðuna hér í þessum sal,“ Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Sjókvíaeldi og laxveiði. Þessum atvinnugreinum er oft stillt upp sem andstæðum pólum. Á bak við þessar atvinnugreinar eru fjölskyldur, samfélög og fyrirtæki sem reiða sig á afkomu þeirra. Sjókvíaeldi hefur vaxið með miklum hraða hér á landi síðustu ár sem hefur vakið áhyggjur þeirra sem hafa tekjur sínar af laxveiði. Áhyggjurnar snúa að mestu leyti að möguleikum á erfðablöndun villtra laxa og strokufiska. Þegar kom að skipulagningu sjókvíaeldissvæða var ákveðið að friða tilgreind svæði á landinu fyrir sjókvíaeldi með það að markmiði að minnka líkurnar á því að strokulaxar kæmust í laxveiðiárnar. Staðreyndin er sú að það má alltaf gera ráð fyrir því að áföll verði og það munu alltaf einhverjir laxar sleppa úr sjókvíum. En fyrir nokkrum dögum fannst gat á nótarpoka í sjókví í Patreksfirði. Þegar gatið uppgötvaðist kom í ljós að 3.500 fiska vantaði í kvína. Síðustu daga hafa verið að veiðast laxar í laxveiðiám á stóru svæði — á friðuðu svæði. Sá fjöldi fiska sem hafa verið sendir í greiningu til að kanna hvort þeir séu eldisfiskar er kominn á annað hundrað. Til landsins eru komnir kafarar sem fara í ár, leita að laxinum og skjóta með skutulbyssu, sem hljómar smá eins og léleg hasarmynd. Sjókvíaeldisfyrirtækið segist ætla að bæta verkferla til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig en við verðum að tryggja öruggara eftirlit og viðbrögð við slysasleppingu svo að svona ástand endurtaki sig ekki. Trúverðugleiki og framtíð beggja atvinnugreina er í húfi. Því hef ég óskað eftir sérstakri umræðu við hæstv. matvælaráðherra um slysasleppingar í sjókvíaeldi því að það er mikilvægt að við tökum umræðuna hér í þessum sal.“