Categories
Fréttir

Jólahlaðborð Framsóknar í Suðvesturkjördæmi

Deila grein

30/11/2022

Jólahlaðborð Framsóknar í Suðvesturkjördæmi

Jólahlaðborð Framsóknar í Suðvesturkjördæmi!

Gleðjumst saman og fögnum góðu gengi Framsóknar í kjördæminu. Fjölbreyttar veitingar að hætti hússins og í anda jólannna.

Gulli Valtýs sér um tónlistina.

Viðburðurinn fer fram í Bæjarlind 14-16 laugardaginn 10. desember kl. 12-14. Aðgangseyrir 3000 kr. frítt fyrir börn yngri en 18 ára.

Hlökkum til að sjá ykkur!

Categories
Fréttir

Bæjarmálafundir Framsóknar í Fjarðabyggð

Deila grein

29/11/2022

Bæjarmálafundir Framsóknar í Fjarðabyggð

Framsókn í Fjarðabyggð býður til bæjarmálafunda sem hér segir:

Hildibrand Norðfirði þann 29. nóvember kl. 20:00

Glaðheimar Fáskrúðsfirði þann 30. nóvember kl. 20:00

Beljandi Breiðdalsvík þann 1. desmber kl. 20:00

Boðað verður til funda í öðrum hverfum Fjarðabyggðar í framhaldi af þessum fundum.

Öll velkomin!

Framsókn í Fjarðabyggð

Mynd: fjarðabyggd.is 29. nóvember 2022

Categories
Fréttir

Guðveig afhendir ráðherra skýrslu um bættar aðstæður kjörinna fulltrúa

Deila grein

25/11/2022

Guðveig afhendir ráðherra skýrslu um bættar aðstæður kjörinna fulltrúa

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, tók í dag við lokaskýrslu verkefnisstjórnar um bættar starfsaðstæður kjörinna fulltrúa úr hendi Guðveigar Eyglóardóttur, formanns verkefnisstjórnarinnar. Skýrslan hefur að geyma 15 tillögur um hvernig draga megi úr álagi, stuðla að sanngjarnari kjörum, bættum vinnuaðstæðum og samskiptum kjörinna fulltrúa, sín á milli og við almenning. 

Verkefnið er hluti af gildandi aðgerðaáætlun stjórnvalda á sviði sveitarstjórnarmála. Því er ætlað að bæta aðstæður kjörinna fulltrúa í þeim tilgangi að vinna gegn óvenjumikilli endurnýjun fulltrúa í sveitarstjórnum. Endurnýjunarhlutfall í sveitarstjórnum hefur hækkað milli sveitarstjórnarkosninga á síðustu árum og er nokkuð hærra meðal kvenna (70%) en karla (50%). Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum er þó hvergi hærra á Norðurlöndunum en á Íslandi eða 51%.

Tillögurnar byggja m.a. á tveimur nýlegum úttektum, annars vegar á reynslu og viðhorfi kjörinna fulltrúa og hins vegar á misbeitingu valds í menningu íslenskra sveitarstjórna. 

Nokkrar af tillögum verkefnisstjórnarinnar fela í sér ákall um breytingar á sveitarstjórnarlögum. Þar er hægt að nefna að kjaraákvæði sveitarstjórnarlaga verði endurskoðað í þeim tilgangi að stuðla að sanngjörnum kjörum fulltrúa, tryggja að þeir verði ekki fyrir launatapi og njóti eðlilegra kjara á vinnumarkaði. Mælt er með að teknar verði upp svokallaðar barnagreiðslur að danskri fyrirmynd til kjörinna fulltrúa með börn undir 10 ára aldri á sínu framfæri, m.a. til að standa straum af kostnaði við barnagæslu og koma til móts við annað óhagræði foreldra ungra barna af fundum utan hefðbundins vinnutíma.

Með sama hætti er lagt til að metið verði hvort ástæða sé til að endurskoða ákvæði sveitarstjórnarlaga um rétt kjörinna fulltrúa til upplýsinga og rétt íbúa til upplýsinga um starfsemi sveitarfélagsins ásamt því að skoðað verði hvort ástæða sé til að rýmka viðmið um fjölda fulltrúa í sveitarstjórnum. Af öðrum tillögum er hægt að nefna tillögur um bætt vinnufyrirkomulag, aukna fræðslu og stuðning við kjörna fulltrúa. Með sama hætti er lagt til að Samband íslenskra sveitarfélaga hvetji sveitarstjórnir til þess að setja sér samskiptasáttmála og móta viðeigandi ferla við brotum á sáttmálanum.

Fagteymi vegna eineltis, ofbeldis og áreitni

Lagt er til að fulltrúar ríkis og sveitarfélaga taki höndum saman um stofnun fagteymis til að vernda kjörna aðal- og varafulltrúa í sveitarstjórnum og á Alþingi gagnvart einelti, ofbeldi og kynferðislegri og kynbundinni áreitni. Fagteymið taki við beiðnum um aðstoð, meti, komi í viðeigandi farveg og eftir atvikum fylgi eftir tilkynningum sem því berist og tryggi að þær fái viðhlítandi málsmeðferð. Á vegum fagteymisins verði komið upp miðlægum, gagnagrunni með almennum upplýsingum, lagaramma og úrræðum í tengslum við áreiti og ofbeldi af ýmsu tagi. Jafnframt verði litið til þess hvernig hindra megi áreitni í garð kjörinna fulltrúa á viðburðum á vegum sveitarfélaga og samtaka þeirra.

Rannsókn á starfsaðstæðum sveitarstjórnarfólks leiddi í ljós að 35% kjörinna fulltrúa áttu í samskiptavanda á síðasta kjörtímabili, oftast (86%) við kjörinn fulltrúa í eigin sveitarfélagi. Hátt í fjórðungur (24,8%) hafði orðið fyrir kynferðislegri áreitni á tímabilinu, oftar konur (35,8%) en karlar (14,5%), og oftast (35%) af hendi kjörins fulltrúa í öðru sveitarfélagi. Nærri jafnalgengt var að kjörnir fulltrúar hafi orðið fyrir kynbundnu áreiti (23,4%). 

Eftirtaldir skipuðu verkefnisstjórnina:

Innviðaráðuneytið

  • Guðveig Eyglóardóttir (formaður)
  • Gauti Jóhannesson

Forsætisráðuneytið

  • Bjarki Hjörleifsson

Samband íslenskra sveitarfélaga

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 24. nóvember 2022.

Mynd: stjornarradid.is

Categories
Fréttir

Aðstöðumun læknanema þarf að breyta strax

Deila grein

24/11/2022

Aðstöðumun læknanema þarf að breyta strax

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, ræddi læknaskortinn í landinu í störfum þingsins. Minnti hún á að vilji sé til að veita góða heilbrigðisþjónustu og því áhyggjuefni ef læknaskortur verði alvarlegri á komandi árum.

„Fólksfjölgun og öldrun þjóðarinnar mun eðli málsins samkvæmt krefjast aukinna umsvifa í heilbrigðiskerfinu. Ásamt þessu er mannekla innan geirans eitthvað sem við könnumst of vel við þessa dagana,“ sagði Lilja Rannveig.

Við flytjum inn sérmenntaða lækna til að bregðast við ástandinu og eins með því að tryggja íslenskum námsmönnum tækifæri til læknanáms og aukinnar sérhæfingar.

„Fjöldi íslenskra námsmanna heldur út í læknanám. Í kjölfarið snýr meirihluti þeirra heim með haldbæra reynslu og sérþekkingu sem samfélagið nýtur góðs af. Þeir bætast við þann hóp sem útskrifast úr Háskóla Íslands en hann er eini háskólinn hér á landi sem útskrifar lækna. Hann tekur einungis inn 60 nema á ári sem nægir ekki til að bregðast við þeim skorti sem við horfum upp á,“ sagði Lilja Rannveig.

Aðstöðumunurinn er þó augljós íslenskum læknanemum erlendis í óhag, en þeim er gert að greiða stóran hluta námsgjalda sinna jafnóðum úr eigin vasa eða fá til þess stuðning annarra. Nemar við Háskóla Íslands eru ekki skuldbundnir til þess sama.

„Þetta hafa íslenskir læknanemar sem stunda nám sitt erlendis ítrekað bent á, að þeir fái ekki sama stuðning og þeir sem læra hér heima. … Vegna þessa eru margir sem missa af tækifærinu til að gerast læknar og aðrir neyðast jafnvel til þess að hætta í miðju námi,“ sagði Lilja Rannveig.

„Ávinningur samfélagsins af því að styðja betur við læknanema erlendis er mikill. Þá horfi ég helst til námslánakerfisins og 27. gr. laga um Menntasjóð námsmanna en þar er heimild til sérstakrar ívilnunar námsgreina. Gegnum þá heimild er hægt að gera breytingar á úthlutunarreglum á þann veg að erlendir læknanemar geti fengið lán fyrir allri sinni skólagöngu. Í ljósi aðstæðna er tilefni til þess og ég skora á hæstv. háskólaráðherra að ganga í aðgerðir þess efnis,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.

Categories
Fréttir

Þekking og þjónusta fyrir einhverfa á einum stað

Deila grein

23/11/2022

Þekking og þjónusta fyrir einhverfa á einum stað

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, hefur lagt fram tillögu á Alþingi um að komið verði á fót þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa. Markmiðið er að til staðar verði á einum stað þekking og þjónusta til að mæta þörfum barna og fullorðina. Hlutverk þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa hefði það verkefni að veita þjónustu á sviði ráðgjafar, hæfingar og endurhæfingar ásamt því að afla og miðla þekkingu á aðstæðum einhverfra í því skyni að bæta þjónustu og stuðla að framförum. Auk þess væri hlutverk þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar að sinna fræðslu, ráðgjöf og stuðningi við aðstandendur, skóla og aðrar þjónustustofnanir.

„Hér á landi greinast árlega einstaklingar, fullorðnir og börn, með einhverfu eða raskanir á einhverfurófi, einhverja röskun á taugaþroska sem kemur jafnan fram snemma í barnæsku. Einhverfa er yfirleitt meðfædd og til staðar alla ævi en kemur fram með ólíkum hætti, allt eftir aldri og þroska og færni og sökum þess hve einhverfa er margbreytileg er oft talað um einhverfuróf, “ sagði Ágúst Bjarni.

„Hægt er að hafa áhrif á framvindu einhverfu með markvissum aðgerðum, sérstaklega snemma á lífsleiðinni. Nokkuð er um að einstaklingar greinist á fullorðinsárum með einhverfu og þá oft í framhaldi af kulnun eða öðrum geðrænum vanda. Þegar einstaklingur hefur fengið greiningu á einhverfurófi er mikilvægt að einstaklingurinn og fjölskyldan fái fræðslu um einhverfurófið og aðferðir sem gætu hentað honum vel. Auk þess er mikilvægt, ef um er að ræða leik- eða grunnskólabarn, að samvinna milli heimilis og skóla sé góð,“ sagði Ágúst Bjarni.

Categories
Fréttir

Lífleg dagskrá í Árborg

Deila grein

23/11/2022

Lífleg dagskrá í Árborg

Það verður lífleg dagskrá hjá Framsóknarfélagi Árborgar næstu þrjár vikurnar og eru öll hvött til að taka þátt.

Dagskráin er eftirfarandi:

26. nóv. – Vöfflukaffi – Gestirnir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Vilhjálmur Birgisson formaður SGS mæta og ræða kjaramál

3. des. – Vöfflukaffi – Gestir eru þingmenn Framsóknar í suðurkjördæmi, þau Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson.

9. des. – Jólaglögg á Eyravegi 15, kl. 20:00 og frameftir kvöldi. 

10. des. – Möndlugrautur.

Allir viðburðirnir fara fram á Eyravegi 15. 

Vöfflukaffið og möndlugrauturinn fara fram milli kl. 11:00 og 12:00.

Endilega takið með ykkur gesti.

mynd Tripadvisor 23. nóv.

Categories
Fréttir

Mótun stefnu í fiskeldismálum

Deila grein

22/11/2022

Mótun stefnu í fiskeldismálum

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, vék að vinnu við mótun stefnu um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku fiskeldisins á vegum stjórnvalda á Alþingi í vikunni.

„Fiskeldi er stór og öflug atvinnugrein sem er að fóta sig í íslenskri lögsögu og því eðlilegt að mótuð verði skýr stefna til að sátt ríki um greinina, bæði frá umhverfislegum sjónarmiðum og ekki síst til að mynda samfélagslega sátt,“ sagði Halla Signý.

Sveitarfélög, þar sem sjókvíaeldi er stundað, hafa viljað hraða vinnu til að tryggja þeim aukna hlutdeild í auðlindagjöldunum af eldinu til að standa undir kröfum um innviðauppbyggingu atvinnugreinarinnar.

„Á vef Stjórnarráðsins segir um hugmyndir um mótun fiskeldisstefnunnar, með leyfi forseta: „Mótuð verður heildstæð stefna um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku fiskeldis. Við þá vinnu verður lögð áhersla á tækifæri til atvinnusköpunar og mikilvægi þess að greinin byggist upp á grundvelli sjálfbærni, vísindalegrar þekkingar og verndar villtra laxastofna.“ Þá er tekið fram að gert sé ráð fyrir að niðurstöður vinnunnar verði kynntar á matvælaþingi sem haldið verður á vegum ráðuneytisins sem vinnur að útfærslu stefnunnar, þ.e. matvælaþinginu sem er á morgun,“ sagði Halla Signý.

„En maður hefur lítið frétt af þessari stefnu og ég vil spyrja hæstv. matvælaráðherra hvernig vinnan við matvælastefnuna gangi og þá sérstaklega fiskeldisstefnuna. Í öðru lagi: Ef gert er ráð fyrir því að vinnan við fiskeldisstefnuna dragist á langinn, telur þá hæstv. ráðherra ekki að hraða þurfi sérstaklega að vinnu við að yfirfara laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi, með hliðsjón af því að tryggja sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi stundað skýrar heimildir til töku gjalda af sjókvíaeldi og eins til að tryggja tekjur af greininni til að standa undir þeirri innviðauppbyggingu sem þarf við greinina?,“ sagði Halla Signý að lokum.

Matvælaráðherra svaraði því til að ný matvælastefnan sé hugsuð sem grundvöllur stefnumótunar Íslands í framleiðslu matvæla. Þar séu undir þættir er lúta að loftslagsmarkmiðum, fæðuöryggissjónarmiðum, matvælaöryggi, hringrásarhagkerfi, menntun og rannsóknum o.s.frv.

Ráðherra viðurkenndi að enn væri ekki til staðar stefnumótun stjórnvalda um atvinnugreinina. Ríkisendurskoðun sé að vinna að stöðumati. Ráðherra sagðist leggja mjög mikla áherslu á opið ferli í þessari vinnu, að öll gögn verði lögð fram til samráðs við almenning.

Categories
Fréttir

Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknar, á haustfundi miðstjórnar

Deila grein

21/11/2022

Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknar, á haustfundi miðstjórnar

Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknar, á haustfundi miðstjórnar Framsóknar sem haldinn var í Edinborgarhúsinu Ísafirði 12.-13. nóvember 2022.

Kæru félagar.

Það er virkilega ánægjulegt að sjá ykkur svo mörg hér á fundi miðstjórnar Framsóknar á Ísafirði. Eins og við höfum séð á síðustu árum og finnum fyrir þegar við komum hingað þá eru Vestfirðir á mikilli siglingu. Hér hefur byggst upp öflug atvinnugrein, fiskeldið, sem hefur haft mikil áhrif og hér eins og annars staðar á landinu verður ferðaþjónustan sífellt mikilvægari fyrir byggðirnar. Fjárframlög til samgangna hafa stóraukist á síðustu árum og hafa Vestfirðingar ekki farið varhluta af þeirri miklu sókn. Fyrir rétt tæpum tveimur árum urðu langþráð tímamót þegar Dýrafjarðargöng voru opnuð fyrir umferð og leystu erfiðan farartálma, Hrafnseyrarheiði, af hólmi. Unnið er hörðum höndum að lagningu vegar um Gufudalssveit og einnig styttist í að nýr vegur um Dynjandisheiði komist í gagnið. Þessar vegabætur hafa veruleg áhrif á lífsgæði Vestfirðinga og opna svæðið enn frekar fyrir tækifærum, ekki síst í ferðaþjónustu. Hið magnþrungna landslag dregur marga að og þegar hindrunum hefur verið rutt úr vegi eru tækifærin nær óþrjótandi. Vonir standa einnig til þess að í náinni framtíð muni ný ferja leysa Baldur frá störfum á Breiðafirði.

Kæra Framsóknarfólk.

Rétt rúmt ár er liðið frá þingkosningum og rúmir sjö frá sveitarstjórnarkosningum. Það þarf ekki að útlista í smáatriðum fyrir ykkur hversu magnaður árangur okkar í þessum kosningum var. Þessum mikla árangri náðum við með því að leggja áherslu á stefnu okkar og hugsjónir, með því að hafa unnið sleitulaust að mikilvægum verkefnum á síðasta kjörtímabili, og lagt þau verk í dóm kjósenda. Við erum ein sterk heild: Framsókn. Rætur okkar eru sterkar og böndin sem binda okkur saman eru einnig sterk. Við komum fram sem einn flokkur á þingi og í sveitarstjórnum. Styrkleiki okkar sem hreyfingar er ekki síst fólginn í því.

Helstu áskoranir samfélagsins eru líka sameiginlegar áskoranir þessara tveggja stjórnsýslustiga, ríkis og sveitarfélaga. Húsnæðismálin hafa verið í brennideplinum enda eru þau ekki aðeins spurning um öryggi, lífsgæði, jöfnuð, heldur einnig stórt efnahagsmál. Við þurfum að byggja meira, miklu meira, til að koma á jafnvægi á húsnæðismarkaði. Það er sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga. Síðustu mánuðina hefur innviðaráðuneytið og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun leitt mikla vinnu í þessum efnum.

Í júlí skrifaði ég undir rammasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga sem felur í sér sameiginlega sýn um að byggja þurfi 35 þúsund íbúðir á næstu tíu árum. Það er sameiginlegt mat að þess þurfi til að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði. HMS og sveitarfélögin hafa kortlagt byggingarhæfar lóðir og yfirfarið húsnæðisáætlanir sveitarfélaganna til að tryggja að byggt verði í samræmi við áform rammasamningsins. Þessar vikur og næstu eru viðræður milli HMS og sveitarfélaganna um hvernig þessum markmiðum verður best náð.

Við þekkjum það, Framsóknarfólk, að til þess að ná árangri þarf að ná samstöðu um verkefnin, ná sameiginlegri sýn á vandann, áður en lagt er af stað í að leysa hann. Það er nefnilega ekki nóg að segjast ætla að byggja meira. Ferlið er flókið, hagaðilar margir og samspil við skipulagsmál mikilvægt. Og eins og fyrrverandi borgarstjóri Helsinki sagði þegar ég hitti hann um daginn: skipulagsmál eru ekki eldflaugaverkfræði, þau eru miklu flóknari.

Það er ekki ofsögum sagt að jafnvægi á húsnæðismarkaði er stórt efnahagslegt mál og skortur á húsnæði ógnar þjóðarbúskapnum. Í nýlegri samantekt frá OECD kemur það beinlínis fram að jafnvægi á húsnæðismarkaði verði ekki náð nema með skýrri stefnu í húsnæðismálum þar sem skipulag miðar að fjölbreyttu framboði af húsnæði. Það sé þjóðhagslega brýnt að það sé gott aðgengi að húsnæði á viðráðanlegu verði til að draga úr ójöfnuði. Mikilvægt er að okkur takist að einfalda skipulagsferla til að ná markmiðinu um langtímajafnvægi í húsnæðismálum

Við erum á réttri leið. Ég finn sterkt fyrir því að allir eru í þessum leiðangri af heilum hug enda hagsmunir landsmanna ríkir. Við erum í raun að upplifa þjóðarátak í uppbyggingu húsnæðis.

Húsnæðismál eru efnahagsmál. Við sjáum það skýrt þegar skortur á húsnæði ýtir upp húsnæðisverði og þar með verðbólgu. En það er fleira sem spilar inn í. Við höfum upplifað fordæmalausa tíma, fyrst með heimsfaraldri og síðan með stríði í Úkraínu. Þessar aðstæður í heiminum hafa búið til skort á aðföngum sem samkvæmt lögmálum hagfræðinnar ýtir upp verði. Verðbólguvandinn sem við búum við er því margþættur.

Markvissar aðgerðir Seðlabanka og ríkisstjórnar hafa náð að halda aftur af verðbólgunni sem er með því lægsta sem gerist á Vesturlöndum. Aðalhaldssöm fjárlög og boðaðar aðgerðir í húsnæðismálum hafa slegið á verðbólguna. Það er ekki sársaukalaust að halda aftur af ríkisfjármálunum en þess hefur þó verið gætt að aðhaldið bitni sem allra minnst á þeim sem hafa lægstu kjörin. Okkar góði heilbrigðisráðherra, Willum Þór, hefur staðið í stafni við að leiða fram breytingar í heilbrigðiskerfinu sem auka skilvirkni en á sama tíma verður auknum fjármunum veitt til málaflokksins. Og veitir ekki af. Álagið í heilbrigðiskerfinu hefur verið gríðarlegt og starfsfólks þess hefur unnið þrekvirki á síðustu árum. Fyrir það verður aldrei þakkað nægilega.

Hins vegar stöndum við áfram frammi fyrir áskorunum í heilbrigðismálunum. Við erum að eldast sem þjóð og því fylgja verkefni sem við getum ekki litið fram hjá. Við sjáum líka aukna lífstílssjúkdóma sem við verðum að bregðast við, ekki aðeins með meðferðum heldur ekki síður með forvörnum. Og þar hefur Willum stigið mikilvæg skref, nú síðast með mikilvægri umræðu á Heilbrigðisþingi sem helgað var lýðheilsu. Heilsa eins er hagur allra.

Ásmundur Einar náði á síðasta kjörtímabili að gera málefni barna að forgangsmáli í störfum sínum – og í huga þjóðarinnar. Nýtt ráðuneyti hans, mennta- og barnamálaráðuneytið, vinnur hörðum höndum að innleiðingu farsældarlaganna og leiða fjögur frumkvöðlasveitarfélög vagninn: Árborg, Akureyri, Akranes og Vestmannaeyjar. Nú þegar sést árangur af markvissum aðgerðum þar sem ólíkir aðilar taka sig saman og sinna málefnum barna sem þurfa aðstoð af einhverju tagi með snemmtækri íhlutun. Innleiðing að fullu á landsvísu mun taka 3-5 ár.

Ný heildstæð löggjöf um skólaþjónustu er fram undan sem mun tryggja jafnræði meðal allra, óháð búsetu og skólastigi en hingað til hefur verið mikill munur á skólaþjónustu eftir því hvort barn er í leikskóla, grunnskóla eða framhaldsskóla og eftir því hvar barnið er búsett á landinu.

Önnur verkefni sem eru á borði mennta- og barnamálaráðherra eru íþróttamálin sem hann hefur tekið þétt utan um. Nú stendur yfir undirbúningur vegna byggingar þjóðarhallar fyrir innanhúsíþróttir og er stefnt á að ljúka þeim fasa sem stendur yfir nú árið 2025. Það verður stór dagur í íslenskri íþróttasögu þegar þjóðarhöllin verður tekin í notkun.

Og af því við erum stödd á Ísafirði þá er nýtt verkmenntahús Menntaskólans á Ísafirði að fara í byggingu innan skamms.

Nýtt menningar- og viðskiptaráðuneyti er í mikilli sókn undir stjórn Lilju Daggar. Hún hefur verið sterkur talsmaður menningarinnar og lagt áherslu á öll þau tækifæri sem felast í skapandi greinum, bæði fyrir listamennina sjálfa og þjóðarbúið. Strax síðasta vor fékk hún samþykkt á Alþingi frumvarp sem kvað á um hækkun endurgreiðslu stærri kvikmyndaverkefna úr 25% í 35%. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa því strax í kjölfarið var tilkynnt um stærsta kvikmyndaverkefni sem gert hefur verið hér á landi en umfang þess nemur um 9 milljörðum króna. Fyrsta heildstæða löggjöfin um tónlist og stefnumótun henni tengd verður kynnt á næstunni, ný myndlistarstefna, ný hönnunarstefna, allt eru þetta verk sem fjölga tækifærunum í íslenskri sköpun og ýtir undir aukna verðmætasköpun.

Lilja Dögg er líka ráðherra íslenskunnar og mun ný aðgerðaáætlun varðandi tungumálið okkar senn líta ljós þar sem sérstök áhersla verður lögð á stóraukið aðgengi að íslensku sem annað mál og áframhaldandi vinnu á sviði máltækni.

Ferðaþjónustan gekk í gegnum mikla eldskírn meðan heimsfaraldurinn geisaði. Hún á stóran þátt í því hversu hratt efnahagslífið hefur tekið við sér um allt land og sannaði þar hversu mikilvæg hún er fyrir allar byggðir landsins. Ferðamálaráðherra vinnur nú að aðgerðaáætlun í ferðaþjónustu til ársins 2030 þar sem þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar er viðurkennt og sérstök áhersla verður á dreifingu ferðamamanna um landið, lengingu ferðatímabils á kaldari svæðum og áframhaldandi innviðauppbyggingu.

Það kemur engum á óvart að í málefnum viðskipta og efnahags er hagfræðingurinn Lilja Dögg ómetanleg þegar kemur að stefnumótun flokksins.

Á þingflokksfundi í vikunni gladdist ég mjög við að finna þá eftirvæntingu sem var í þingflokknum vegna komandi miðstjórnarfundar. Ég fullyrði það að sú samstaða, þekking og barátta sem býr í þingflokknum okkar – undir stjórn þingflokksformannsins Ingibjargar Isaksen-  er eitthvað sem allir flokkar öfunda Framsókn af. Ég fullyrði líka að sveitarstjórnarfólkið okkar, sem ég hitti á fundi í gær, er mikill happafengur fyrir stjórnmálaaflið okkar, Framsókn. Ég legg til að við stöndum á fætur og klöppum fyrir þessu öfluga fólki.

Kæra Framsóknarfólk.

Sjálfbærni er hugtak sem hefur verið ofarlega á baugi síðustu árin. Sjálfbærni hvílir á þremur stoðum: samfélagi, efnahag og umhverfi. Við viljum öll að þær kynslóðir sem nú byggja landið skili landinu og samfélaginu til afkomenda okkar í betra ásigkomulagi en við tókum við því í. Við tölum um sjálfbæran rekstur fyrirtækja, heimilisreksturinn verður að vera sjálfbær og svo mætti lengi telja. Við getum verið mjög stolt af þeim atvinnugreinum sem mest eru í umræðunni þegar rætt er um sjálfbærni.

Það er litið til sjávarútvegsins á Íslandi um allan heim sem fyrirmyndar um það hvernig eigi að umgangast sjávarauðlindina og einnig hvernig tekist hefur að byggja upp þessa mikilvægu atvinnugrein án ríkisstyrkja eins og langflest önnur lönd þurfa að gera. Sjávarútvegur myndar auk orkuframleiðslu og ferðaþjónustu þrjár mikilvægustu stoðir íslensks efnahags. Um hann ríkir ekki friður og hefur ekki gert um langa tíð. Nú stendur yfir vinna þar sem reynt er að skapa sátt um þessa mikilvægu atvinnugrein. Í hverju felst ágreiningurinn?

Sumir segja að sjávarútvegurinn greiði allt of lítið til samfélagsins og er þá helst litið til veiðigjalda. Aðrir telja að greinin greiði helst til mikið.

Eitt af vandamálunum við umræðuna um sjávarútveginn felst í því að greinin er mun fjölbreyttari en þessi fáu stóru fyrirtæki sem mest eru í umræðunni. Sjávarútvegurinn er settur saman af mjög ólíkum fyrirtækjum sem sum berjast í bökkum meðan önnur græða stórkostlega á aðganginum að auðlindinni okkar og þeim möguleikum sem vinnslan, nýtingin og markaðsaðstæður bjóða upp á. Ég hef áður fjallað um nauðsyn þess að gera breytingar á kerfinu í sjávarútvegi. Ég hef talað fyrir því að það verði staðfest í stjórnarskrá að fiskurinn í sjónum sé eins og aðrar auðlindir landsins í eigu þjóðarinnar. Ég hef lagt áherslu á það verði að nást sátt um að stærri hluti af ofurhagnaði einstakra fyrirtækja renni til þjóðarinnar. Leiðirnar til þess eru nokkrar.

Ein þeirra felst einfaldlega í þrepaskiptum tekjuskatti fyrirtækja. Það má nefnilega ekki verða þannig að auknar álögur á sjávarútveginn verði til þess að þeir sem minna bolmagn hafa verði undir og samþjöppunin verði enn meiri.

Við þurfum að ræða það í okkar hópi hvernig við sjáum framtíðina fyrir okkur. Hvernig við viljum sjá sjávarútveginn þróast til lengri tíma og hversu miklu hann eigi að skila í þjóðarbúið.

Viljum við sjá stærri hluta kerfisins fyrir krókaaflsbáta, fyrir byggðakerfið, fyrir strandveiðar, – hafa skýrt regluverk um þann þátt og læsa honum með eldveggjum?

En á móti leyfa markaðnum að taka yfir hinn hlutann og taka þ.a.l. mun hærri gjöld/skatta til þjóðarinnar – þar sem verkefnið að hamla samþjöppun – til að tryggja fjölbreytileika – er tapað.

Eða eigum við að styrkja regluverkið eins og við höfum verið að gera á síðustu árum/áratugum og þá með mun öflugari aðgerðum t.a.m. varðandi tengda aðila, kvótaþök og fleira –  eða er þetta bara allt í lagi eins og þetta er?  Þetta þurfum við að ræða.

Önnur grein þar sem sjálfbærni kemur mjög við sögu er landbúnaðurinn okkar. Við erum stolt af íslenskum landbúnaði. En bændur lifa ekki endalaust á stolti.

Stríðið í Úkraínu hefur valdið því að aðföng, sérstaklega áburður, hafa hækkað gríðarlega í verði. Síðastliðið vor var því spáð að margir bændur, sérstaklega sauðfjárbændur, myndu bregða búi í haust. Svartsýnustu spár hafa sem betur fer ekki ræst og má eflaust þakka aðgerðum ríkisstjórnarinnar fyrir það að hluta, en þó helst bændunum sjálfum.

Framsókn, hefur á þingi hvatt til þess að framleiðendum verði gert heimilt að auka samvinnu sína og í sumum tilfellum samruna, til þess að styrkja greinina. Það hefur ekki náðst fullur sigur en við þokumst þó í áttina.

Þessar tvær greinar, sjávarútvegur og landbúnaður, leggja grunninn að fæðuöryggi þjóðarinnar. En til þess að framleiða matvæli verður að vera til orka. Eins og er þá er notkun á jarðefnaeldsneyti langstærstur hluti þeirrar orku sem notaður er í matvælaframleiðslu á meðan ekki eru komnar grænar lausnir í formi rafeldsneytis. Og þá komum við að þeirri grein sem oftast er nefnd þegar sjálfbærni er rædd: orkuframleiðslu.

Við hér á Íslandi erum í ótrúlega góðri stöðu þegar kemur að orku. Við fáum reglulega fréttir af þeirri miklu orkukrísu sem mörg Evrópuríki standa frammi fyrir vegna stríðsins í Úkraínu. Það kostar orðið töluvert fyrir íbúa margra Evrópuríkja að fara í bað. Iðnaður í löndum eins og Þýskalandi stendur frammi fyrir miklum áskorunum vegna orkuskorts og hækkar það verð og minnkar lífsgæði í allri álfunni. Hér á Íslandi eru 80+ prósent af orkunotkuninni í formi græns rafmagns frá vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum og vegna grænnar hitaveitu sem kyndir híbýli okkar langflestra. Það er einstök staða.

Við stöndum nú á tímamótum. Heimurinn þróast hratt. Loftslagsbreytingar hafa knúið áfram þróun, hraða þróun, frá notkun jarðefnaeldsneytis til annarra orkukosta. Við verðum að hætta að tala og byrja að gera. Staða Íslands er einstök að því leyti að við höfum á næstu árum tækifæri til þess að verða algjörlega sjálfbær hvað varðar orku. Við munum ef rétt er á haldið ná fullkomnu orkusjálfstæði. Og orkusjálfstæði þýðir að við stöndum mun betur þegar kemur að fæðuöryggi. Því eins og staðan er í dag þá myndu ekki líða margar vikur frá því að síðasta olíusendingin kæmi til landsins og þangað til við myndum ekki geta framleitt matvæli vegna skorts á eldsneyti.

Alþingi náði síðastliðið vor þeim árangri að afgreiða þriðja áfanga rammaáætlunar. Það var stórt skref. Framundan er að setja lagaramma utan um vindorkunýtingu. Það verður mikilvægt skref því eins og sýnt hefur verið fram á verðum við að framleiða meiri orku til að halda sömu lífsgæðum eða auka þau.

Tækifærin eru mörg og þau eru stór. Þau felast ekki síst í því að framleiða hér á landi rafeldsneyti sem kemur til með að knýja áfram skipaflotann okkar, flugflotann og vinnuvélar í iðnaði og landbúnaði. Það hlýtur að vera okkur sem byggjum þetta land mikið kappsmál að ná þeirri einstöku stöðu.

Stefán Vagn Stefánsson ásamt þingflokknum, leggur til þingsályktun um það að tekið verði til athugunar að stofna ríkisfélag um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi. Með því að stofna  félag í meirihlutaeigu íslenska ríkisins gætum við ekki aðeins lagt okkar lóð á vogarskálarnar í baráttunni við loftslagsbreytingar heldur gætum við lagt grunninn að öflugum samfélagssjóði sem myndi skjóta sterkum stoðum undir efnahag komandi kynslóða.  Landsvirkjun – fyrirtæki þjóðarinnar – sem við seljum aldrei – leikur hér lykil hlutverk.

Með öðrum orðum – við gætum hraðað orkuskiptum – orðið með fyrstu þjóðum – framleitt alla orku innanlands – sparað yfir 100 milljarða af gjaldeyri – og byggt upp nýjan öflugan grænan iðnað ásama tíma.

Hinn kosturinn – er sem sagt að virkja ekki meir – halda áfram að flytja inn orku sem nemur milljón tonnum af jarðefnaeldsneyti fyrir yfir 100 milljarða (150-200) og þurfa að bíða þangað til alþjóðamarkaðurinn framleiðir nóg – líka fyrir litla Ísland.

Kæra Framsóknarfólk.

Við höfum sem stjórnmálahreyfing náð ótrúlegum árangri á síðustu árum. Mín tilfinning er sú að stór hluti þess hversu mjög þjóðin kann að meta störf okkar og stefnu sé sá að við skilgreinum okkur ekki út frá andstæðingum, ekki út frá því hverju við erum á móti, heldur hverju við stöndum fyrir, hver við erum. Við höfum trú á stefnunni okkar, þriðju leiðinni sem Eysteinn Jónsson talaði um. Við erum samvinnufólk. Við trúum því að framtíðin ráðist á miðjunni.

Það er langt í næstu kosningar, þrjú ár, og ef vika er langur tími í pólitík þá eru þrjú ár nokkrar eilífðir. Eina sem við getum treyst á -eigum að treysta á – er stefnan okkar, hugsjónir okkar, og okkur sjálf og dugnað okkar við að vinna þau verk sem þarf að vinna fyrir framtíðar þjóðarinnar. Það voru engir aðrir sem unnu kosningasigra okkar haustið 2021 og vorið 2022 – það vorum við sjálf.

Ég hlakka til að eiga góðan tíma með ykkur hér í faðmi vestfirskra fjalla.

Categories
Fréttir

Ávarp innviðaráðherra á Skipulagsdeginum

Deila grein

21/11/2022

Ávarp innviðaráðherra á Skipulagsdeginum

Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra á Skipulagsdeginum 17. nóvember 2022

Kæru gestir!

Það er mér sönn ánægja að flytja opnunarávarp á Skipulagsdeginum.

Þetta er í fyrsta sinn sem ég flyt ávarp á þessari samkomu sem ráðherra nýs innviðaráðuneytis. Undir það ráðuneyti heyra nú byggðamál, húsnæðismál, skipulagsmál, samgöngur og málefni sveitarstjórna. Sú yfirsýn sem náðst hefur með nýju innviðaráðuneyti felur í sér miklar breytingar og gerir okkur kleift að samhæfa þessa málaflokka, einfalda ferla og gera okkur betur grein fyrir þörfum íbúa um land allt með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi.

Með því að færa skipulagsmálin og húsnæðismálin á milli ráðuneyta og samþætta þau við aðra málaflokka í nýju innviðaráðuneyti næst fram betri yfirsýn, áætlunargerð verður markvissari og hagkvæmni eykst, sem til framtíðar mun aftur leiða til aukins stöðugleika. Á þeirri vegferð leika skilvirkir skipulagsferlar stórt hlutverk og að upplýsingar um húsnæðismarkað séu aðgengilegar á hverjum tíma. Þannig hafa sveitarfélög t.a.m. betri upplýsingar um þörf fyrir byggingarhæfar lóðir til samræmis við húsnæðisáætlanir sveitarfélaga. 

Að mínu mati eru skipulagsmál einn mest spennandi málaflokkur sem ég hef komið að. Málaflokkinn þekki ég vel sem fyrrum sveitarstjórnarmaður og umhverfis- og auðlindaráðherra – og nú á ný sem innviðaráðherra. Og með þessa reynslu veit ég líka að þau geta verið mjög snúin og flókin þar sem þau snerta marga, ef ekki meira og minna flesta málaflokka sem snýr að stjórnsýslunni. Ég hef stundum sagt að í samgöngum séu um 360 þúsund ráðgjafar sem allir hafi eitthvað til málanna að leggja. Skipulagsmál eru um margt flóknari. Því er mikilvægt að skipulagsmálin séu skipuð næst þeim málaflokkum þar sem áskoranirnar eru stærstar á hverjum tíma, núna í samgöngum, húsnæðismálum og sveitarstjórnarmálum.

Góðir gestir

Skipulagsstofnun er um margt einstök stofnun. 

Umgjörð stofnunarinnar er á þann hátt að hún er lögbundin líkt og lægra sett stjórnvald á grundvelli skipulagslaga. Hlutverk stofnunarinnar sem ráðgefandi stofnun er hins vegar meira í ætt við ráðuneytisstofnun gagnvart innviðaráðherra en tekur hins vegar kæranlegar stjórnvaldsákvarðanir á grundvelli laga á forræði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra líkt og lægra sett stjórnvöld gera.

Eitt af því sem Skipulagsstofnun gerir svo vel er að að veita upplýsingar og leiðbeiningar um skipulagsmál. Með öðrum orðum að fylgjast með stöðu skipulagsmála í sveitarfélögum og aðstoða þau og leiðbeina þeim við gerð skipulagsáætlana. Ráðherra leggur hins vegar fram tillögu til þingsályktunar um landskipulagsstefnu sem sveitarfélögin taka mið af við gerð skipulagsáætlana.

Það er gaman frá því að segja að gildandi landsskipulagsstefna var að einhverju leyti unnin þegar ég var umhverfis- og auðlindaráðherra. Eftirmaður minn, Sigrún Magnúsdóttir, tók síðan við keflinu og lagði hana fram árið 2015 sem Alþingi samþykkti ári síðar. 

Ég hef nú ákveðið að hefja vinnu við endurskoðun á gildandi landskipulagsstefnu 2015-2026. Landsskipulagsstefna felur í sér stefnu ríkisins í skipulagsmálum, til leiðbeiningar fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga og aðra áætlanagerð um þróun byggðar og landnýtingu. Hún setur fram stefnu um skipulag á miðhálendi Íslands, í dreifbýli, um búsetumynstur og dreifingu byggðar og loks um skipulag á haf- og strandsvæðum. 

Leiðarljós stefnunnar verða sem fyrr að skipulag stuðli að sjálfbærri þróun, auknum lífsgæðum íbúa og samkeppnishæfni landsins og einstakra landshluta.

Það fer vel á því að málaflokkurinn sé kominn til innviðaráðuneytisins þar sem stefnan tekur mið öðrum áætlunum sem varða landnýtingu, t.d. hvað varðar samgöngur, byggðamál og orkunýtingu auk náttúruverndar.

Fyrstu skrefin við undirbúning endurskoðunarinnar hafa verið stigin og samráð verður haft á öllum stigum málsins eins og ávallt. Breytingin verður þó ekki meiri en svo að gerð verður tillaga um að ný viðfangefni fléttist inn í gildandi stefnu.

Sem ráðherra hef ég lagt fram nokkrar áherslur til grundarvallar í þessari endurskoðun.

Sérstök áhersla á skipulag í þágu loftslagsmála og setja fram stefnu um bindingu kolefnis, draga úr losun frá landnotkun og byggð.

Mikilvægt er að skipulag stuðli að jafnvægi í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis en ég mun koma nánar að húsnæðismálum síðar. 

Þá er áhersla á fjölbreytta ferðamáta og orkuskipti í samgöngum og sett fram stefna sem stuðla að tryggum innviðum fyrir orkuskipti og blöndun byggðar sem stuðlar að tækifærum fyrir fjölbreytta ferðamáta.

Við endurskoðun á landsskipulagsstefnu verði einnig  mótuð nánari stefna um uppbyggingu vegasamgangna á miðhálendinu eins og er skilgreind í gildandi stefnu. Horft verður til þess að skoða útfærslu vega á miðhálendinu með tilliti til orkuskipta í samgöngum og mögulegs öryggishlutverks vega á miðhálendinu sem hjáleiðar vegna náttúruvár.

Lögð verður áhersla á útfærslu úrræða til þess að stuðla að framgangi þjóðhagslega mikilvægrar innviðauppbyggingar. Í skipulagsgerð sveitarfélaga eru teknar ákvarðanir um hvernig uppbyggingu innviða skuli háttað, uppbygging sem í sumum tilvikum hefur áhrif á fleiri en íbúa sveitarfélagsins. Þegar um er að ræða uppbyggingu þjóðhagslega mikilvægra innviða er í sumum tilvikum eins og við gjarnan þekkjum mikilvægt að það sé til staðar farvegur til að móta stefnu sem varðar sameiginlegar skipulagsákvarðanir um þjóðhagslega mikilvæga innviði.

Þá er mikilvægt að huga að skiptingu og útfærslu landbúnaðarlands. Það ríkir samkeppni um land og á það ekki síst við um land í dreifbýli, aukin eftirspurn er eftir landi til skógræktar, undir frístundabyggð, þéttbýlismyndun í dreifbýli og aukinn áhugi á nýtingu vindorku. Það reynir meira á að ná fram sátt í skipulagsgerð og móta þarf stefnur um varðveislu lands sem hentar vel til ræktunar.

Vindorkan og nýting hennar skipar stóran sess í skipulagi og fylgir því nýjar áskoranir, ekki síst vegna sjónrænna áhrifa. Í ríkisstjórnarsáttmálanum er kveðið á um að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum til þess að tryggja örugga afhendingu orkunnar. Við endurskoðun landsskipulagsstefnu er lögð áhersla á að sett verði sett fram stefna og viðmið fyrir ákvarðanir um nýtingu vindorku.

Loks verður við endurskoðun landsskipulagsstefnu stefna um skipulag haf- og strandsvæða endurskoðuð með hliðsjón af lögum um skipulag haf- og strandsvæða, tillögum svæðisráða um strandsvæðisskipulag á Vestfjörðum og Austfjörðum sem og annarri stefnumörkun stjórnvalda er snýr að nýtingu og vernd haf- og strandsvæða.

Innviðaráðuneytið stóð nýlega fyrir samráðsfundum í öllum landshlutum þar sem fjallað var um stefnur og áætlanir sem heyra undir ráðuneytið. Íbúum og sveitarstjórnarfólki um land allt gafst þar tækifæri til að hafa áhrif á stefnumótun í málaflokkum ráðuneytisins. Þessir fundir voru í anda þeirrar samhæfingar sem ég hef áður lýst þar sem þessar málaflokkar hafa svo mikil hver á annan. Á fundunum var fjallað um nýsamþykkta byggðaáætlun, samgönguáætlun og stefnu í sveitarstjórnarmálum, sem eru í reglubundinni endurskoðun og  nýja húsnæðisstefnu sem er í smíðum. Loks var fjallað um áherslur ráðherra í komandi endurskoðun á landsskipulagsstefnu.

Samnefnari þessara áætlana er það sem við höfum nefnt búsetufrelsi. Skilgreining á búsetufrelsi er á þessa leið: Lífsgæði fólks eru ekki síst fólgin í því að það geti búið sér heimili þar sem það helst kýs, í því búsetuformi sem því hentar og njóti sambærilegra umhverfisgæða, innviða og opinberrar þjónustu hvar á landinu sem er.

Fjölbreytt íbúðasamsetning, grunnþjónusta og grunnkerfi fjölbreyttra samgöngumáta óháð staðsetningu á landinu er því grunnstefið í hugtakinu búsetufrelsi.

Góðir gestir – framundan er spennandi dagskrá og viðfangsefnin brýn.

Eitt af viðfangsefnum fundarins hér í dag er fæðuöryggi og orkuskipti. Sem fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ber ég sterkar taugar til innlendrar matvælaframleiðslu en þessar tvær atvinnugreinar leggja grunninn að fæðuöryggi þjóðarinnar. Hvernig ætlum við að knýja áfram skipaflotann okkar, flugflotann og vinnuvélar í iðnaði og landbúnaði? Hvernig ætlum við að ná og viðhalda orkusjálfstæði sem leggur grunn að fæðuöryggi? Tækifærin eru mörg og þau eru stór. 

Við eigum allt undir því að fiskistofnarnir í sjónum séu heilbrigðir og að til staðar sé gott land til ræktunar, ásamt nýjustu þekkingu á framleiðslu og tækjum.

Við vitum að í matvælaframleiðslu, eins og öðrum mikilvægum sviðum samfélagsins, þarf orku, innlenda græna endurnýjanlega orku. Þar erum við raunar í öfundsverðri stöðu á heimsvísu og verðum að nýta þekkingu okkar og aðstæður eins og kostur er. Og þá sérstaklega að gæta að skipulagi og nýtingu landbúnaðarlands til að tryggja innlenda framleiðslu á matvælum og fæðuöryggi, ekki síst á tímum loftslagsvár og stríðsátaka. Orkuskiptin geta ekki aðeins orðið lykill að kolefnishlutleysi heldur hreinlega styrkt efnahagslega stöðu þjóðarinnar.

Loftslagsbreytingar eru ein af stærstu áskorunum samtímans. Loftslagsmálin er verkefni okkar allra, áskorun sem allir þurfa að taka og gera ráð fyrir í atvinnulífinu og daglegu lífi. 

Ríkisstjórnin hefur lagt fram mjög metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum með raunhæfum aðgerðum til að standa við skuldbindingar samkvæmt Parísarsamningnum, sem eru í raun skuldbindingar gagnvart okkur sjálfum. 

Og að því sögðu þarf skipulag að taka mið af samfélaginu hverju sinni en einnig og ekki síst að taka mið af breyttum heimi vegna loftslagsbreytinga. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra.

Categories
Fréttir

Eflum kvikmyndagerð áfram á Íslandi

Deila grein

19/11/2022

Eflum kvikmyndagerð áfram á Íslandi

„Eitt stærsta kvikmyndaver Evrópu er staðsett hér á landi, nánar tiltekið í Gufunesinu í Reykjavík. Þessa dagana er margt um að vera þar enda er gríðarlegt umfang á svæðinu þar sem m.a. ný sería af hinni margverðlaunuðu þáttaröð True detective er tekin upp. Þar er einnig tekið upp á Norðurlandi en sögusvið seríunnar er Alaska í Bandaríkjunum,“ sagði Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins á Alþingi í liðinni viku.

„Með stóru kvikmyndaveri og því sjónarspili sem íslensk náttúra er hefur Ísland lengi verið aðlaðandi starfsumhverfi til kvikmyndagerðar. Tækifærin eru fjölmörg og við í Framsókn vildum grípa þau. Meðal áherslna Framsóknar fyrir síðustu alþingiskosningar var að efla kvikmyndagerð á Íslandi og hækka endurgreiðslur á kostnaði við kvikmyndagerð hérlendis í 35%. Þessar áherslur rötuðu einnig í stjórnarsáttmálann og hafa raungerst í dag og við sjáum þá miklu grósku sem sú ákvörðun leiddi til,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Í öllu þessu felst töluvert aðdráttarafl fyrir erlenda kvikmyndaframleiðendur og ég tek undir það þegar þau orð eru sögð að kvikmyndaiðnaðurinn geti vel verið ein af stoðgreinum íslensks efnahagslífs. Mikið af afleiddum störfum myndast í kringum svona verkefni og það er út af framtaki ríkisstjórnarinnar sem það er möguleiki að taka upp þættina sem ég nefndi áðan hér á landi.“

„Því skiptir miklu máli að styðja áfram vel við kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi. Við sjáum það að kvikmyndaverin hér á landi er uppbókuð fram á vor sem sýnir hversu eftirsóknarvert Ísland er í þessum geira. Í þessu felast endalausir möguleikar og mikill ábati fyrir íslenskt atvinnulíf.“

„Með hæstv. viðskipta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, í broddi fylkingar getum við margfaldað kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi og framleiðendur á Íslandi telja það vel raunhæft. Við getum með sanni sagt að þetta er frábær viðbót við efnahagslíf á Íslandi og sterk stoð til framtíðar,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.