Categories
Fréttir

Tryggja skal eldra fólki samhæfða þjónustu við hæfi á réttu þjónustustigi og á réttum tíma

Deila grein

23/06/2022

Tryggja skal eldra fólki samhæfða þjónustu við hæfi á réttu þjónustustigi og á réttum tíma

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Helgi Pétursson, formaður Landsambands eldri borgara, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk. Þar lýsa þessir aðilar yfir vilja til þess að auka samstarf og samvinnu varðandi málefni eldra fólks með það að markmiði að tryggja eldra fólki samhæfða þjónustu við hæfi, á réttu þjónustustigi og á réttum tíma hvort sem um er að ræða stuðningsþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu á vegum ríkisins.

Skipuð hefur verið verkefnastjórn sem hefur það hlutverk að leiða vinnu við heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk, að stuðla að samvinnu og samhæfingu á milli ráðuneyta, sveitarfélaga og annarra þjónustuaðila, forgangsraða og útfæra tímasett markmið í aðgerðaáætlun til fjögurra ára sem lögð verði fram á Alþingi vorið 2023. Í framhaldi af því skal verkefnastjórnin vinna skipulega að innleiðingu og framkvæmd fyrrgreindrar aðgerðaáætlunar meðal annars með tillögum um hvaða breytingar á lögum og reglugerðum þarf að ráðast í til að ná fram þeim markmiðum sem sett eru fram.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram það markmið að tryggja eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um er að ræða stuðningsþjónustu eða heilbrigðisþjónustu, á forsendum þess sjálfs, á réttu þjónustustigi og á viðunandi tíma. Þverfaglegt samstarf félags- og heilbrigðisþjónustu er grundvallaratriði til að ná fram samlegðaráhrifum fagþekkingar á hvoru sviði fyrir sig og tryggja þannig betri þjónustu við stækkandi þjóðfélagshóp meðal annars með samþættingu á þjónustu, forvörnum, heilsueflingu og aukinni virkni fólks.

Categories
Fréttir

Sóltún Heilsusetur opnar 1. september – Nýmæli í öldrunarþjónustu

Deila grein

21/06/2022

Sóltún Heilsusetur opnar 1. september – Nýmæli í öldrunarþjónustu

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) og Sóltún öldrunarþjónusta ehf. hafa gert með sér samning sem kveður á um nýja tegund sérhæfðrar þjónustu við aldraða. Þjónustan verður veitt í endurgerðu húsnæði gamla Sólvangs í Hafnarfirði. Þar verða rými fyrir 39 einstaklinga sem gert er ráð fyrir að dvelji þar skamma hríð og njóti einstaklingsmiðaðrar, heildrænnar og þverfaglegrar endurhæfingar. Markmiðið er að viðhalda og auka virkni viðkomandi í daglegu lífi og efla þannig getu þeirra til sjálfstæðrar búsetu á eigin heimili sem lengst. Gert er ráð fyrir að árlega verði hægt að veita að minnsta kosti 400 einstaklingum þessa þjónustu.

„Það er mér mikil ánægja að staðfesta samninginn um þessa þjónustu sem ég tel að marki tímamót. Við eigum að leggja miklu meiri áherslu á virkar forvarnir og endurhæfingu eins og hér verður gert og ég sé fyrir mér að þetta geti orðið fyrirmynd að sambærilegri þjónustu miklu víðar og um allt land“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

„Við hlökkum mikið til að bjóða nýtt og spennandi þjónustuúrræði í Sóltúni Heilsusetri á Sólvangi. Með fjölþættri heilsueflingu í skammtímadvöl  er horft til þess að hjálpa fólki að bæta lífsgæði sín, sjálfstæði og hreysti á efri árum og draga úr þörf þess fyrir aðstoð annarra við athafnir daglegs lífs“, segir Halla Thoroddsen, framkvæmdastjóri Sóltúns öldrunarþjónustu ehf. 

„Þessi samningur SÍ og Sóltúns öldrunarþjónustu felur í sér einstaklega spennandi nýsköpun sem mun stuðla að því að aldraðir geti haldið lengur getu sinni og færni til að búa á eigin heimili og seinka þar með þörf þeirra til að flytja á hjúkrunarheimili. Þverfagleg endurhæfing með fyrirbyggjandi áherslum þar sem unnið er með virkni fólksins, næringar- og heilsufarsástand er örugglega lykill að góðum árangri“ segir María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.

Fyrirkomulag þjónustunnar sem samningurinn kveður á um felur í sér ákveðin nýmæli. Byggt verður á einstaklingmiðuðum áætlunum sem fela í sér fræðslu, viðtöl sérfæðinga, einstaklings- og hópþjálfun, heilsueflandi þjálfun og virkni. Miðað er við að þeir sem sæki úrræðið njóti að jafnaði endurhæfingar í fjórar vikur en í ákveðnum tilvikum allt að sex vikur. Veitt verður að lágmarki 5 klukkustunda einstaklingsmeðferð og 20 klukkustunda einstaklingamiðuð hópmeðferð á viku fyrir hvern einstakling. Þjónustan verður veitt alla mánuði ársins, alla daga vikunnar að undanskildum 10 dögum ár hvert í kringum jól og áramót.

Dregið úr þörf fyrir bráðaþjónustu og innlagnir á sjúkrahús

Til að byrja með er gert ráð fyrir að heimahjúkrun og heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu geti vísað fólki í þessa þjónustu. Þetta er nýmæli og talið líklegt til að draga úr þörf fyrir heimsóknir á bráðamóttöku.  Þá er einnig horft til þess að með því endurhæfingar- og forvarnarstarfi sem þjónustan felur í sér megi draga úr líkum á alvarlegum heilsubresti sem útheimtir þjónustu á bráðamóttöku eða leiðir til ótímabærrar innlagnar á sjúkrahús. Þjónustunni er þannig ætlað að létta álagi af Landspítala, auka stuðning við aðstandendur aldraðra sem oft eru undir miklu álagi og síðast en ekki síst að bæta lífsgæði þeirra sem þjónustunnar njóta og gera þeim betur kleift að búa lengur heima en ella. 

Starfsemin hefst 1. september

Sóltún Heilsusetur opnar þjónustu sína á Sólvangi þann 1. september næstkomandi í samræmi við samning Sóltúns öldrunarþjónustu ehf. og Sjúkratrygginga Íslands sem gildir til loka mars 2025. Um greiðsluþátttöku einstaklinga fyrir þá þjónustu sem veitt er samkvæmt samningnum fer samkvæmt reglugerð nr. 1112/2006 um stofnanaþjónustu fyrir aldraða.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 20. júní 2022

Categories
Fréttir

17. júní ávarp formanns!

Deila grein

17/06/2022

17. júní ávarp formanns!

Kæra Framsóknarfólk!

Upp er runninn sautjándi júní, þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga. Landið okkar hefur tekið græna litinn sem fer því svo vel. Og það á ekki einungis við tún, hlíðar og skóga heldur hefur græni liturinn færst yfir samfélagið. Sumir tala um grænu bylgjuna þegar rætt er um árangur Framsóknar í kosningunum í haust og vor. Fyrir ári síðan, í byrjun júní, var fylgi Framsóknar að mælast 10,4% sem var örlítið undir fylgi okkar í þingkosningunum 2017. Við höfðum á því kjörtímabili búið við slakar skoðanakannanir. Í september 2020, réttu ári fyrir þingkosningar, mældumst við með 6,7% fylgi í könnun Gallup. En við misstum ekki móðinn, gleymdum ekki erindi okkar og uppruna, heldur héldum ótrauð áfram að berjast fyrir stefnumálum okkar og hugsjónum.

Árangur Framsóknar hefur ekki orðið að veruleika fyrir einhverja heppni. Að baki þessa árangurs er þrotlaus vinna flokksfólks um allt land. Metnaðarfullir frambjóðendur mega síns lítils ef ekki væri fyrir öfluga grasrót sem leggur nótt við dag í kosningabaráttu fyrir þing- og sveitarstjórnarkosningar.

Á þjóðhátíðardaginn 2022 horfi ég stoltur á árangur okkar í Framsókn. Stoltur af því öfluga fólki sem flokkurinn hefur á að skipa um allt land. Stoltur af þeim krafti sem í fólkinu mínu býr, fólki sem gefst aldrei upp, fólki sem vinnur saman að því að bæta samfélagið okkar.

Ég er þakklátur fyrir það að standa í stafni þessa merka umbótaafls sem Framsókn er.

Ég óska ykkur, kæru félagar, gleðilegs þjóðhátíðardags og vona að sumarið verði ykkur gjöfult og gott.

Kær kveðja, Sigurður Ingi

Categories
Fréttir

Ísland á að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu

Deila grein

14/06/2022

Ísland á að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður Þingflokks Framsóknar, sagði í umræðu um Rammaáætlun á Alþingi í dag að til að geta leyst farsællega úr misflóknum verkefnum verði að hafa þá eiginleika að geta horft til allra átta og geta átt gott samtal og samvinnu.

Rammaáætlun er mikilvægt stjórntæki, eitt af mörgum sem varðar vernd svæða og orkunýtingu, sem vert sé að halda í, efla og styrkja frekar. Hins vegar liggja fyrir fjölmargar athugasemdir um nauðsyn þess að löggjöfin verði endurskoðuð.

Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun verði endurskoðuð frá grunni til að tryggja ábyrga og skynsamlega nýtingu og vernd virkjunarkosta á Íslandi. Í ljósi reynslunnar er mikilvægt að í þá endurskoðun verði ráðist án tafar. Við þá endurskoðun skiptir höfuðmáli að skapa traust á því ferli sem rammaáætlun er, útrýma tortryggni og auka sátt um einstaka virkjunarkosti og forsendur fyrir því að ráðist yrði í nýtingu og vernd þeirra. Enn fremur er mikilvægt að endurskoðað ferli stuðli að markmiðum um orkuöryggi, orkusjálfstæði og sjálfbærni í takt við orkustefnu Íslands.

Ræða Ingibjargar Isaksen:

„Virðulegi forseti!

Ábyrgð okkar sem störfum hér á Alþingi er mikil og fyrir okkur liggja mörg misflókin verkefni. Til að geta leyst farsællega úr þeim þurfum við að hafa þá eiginleika að geta horft til allra átta. Hvort sem er til nútíðar, fortíðar en ekki síður til framtíðar. Að geta átt gott samtal og samvinnu verður oft og tíðum til þess að niðurstaða næst í flókin verkefni – svo var í vinnu tengdum svokölluðum ramma.

Allt í frosti frá 2013

Saman höfum við í umhverfis- og samgöngunefnd loksins náð sátt um ramman sem segja má að legið hafi í frosti allt frá árinu 2013. Þýðingarmikil og langþráð sátt og samstaða hefur nú verið náð, en fyrir nefndina hafa komið fjölmargir gestir og þakka ég þeim fyrir góð innlegg og umræður.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að Ísland eigi að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu. Við viljum að Ísland skipi sér í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsvánni og ætlum okkur að uppfylla ákvæði Parísarsamningsins. Við höfum jafnframt sett okkur markmið um að Íslands nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja.

Orkuskipti eru ríkur þáttur í framlagi Íslands til að ná árangri í baráttunni við loftslagsvánni. En svo þeim markmiðum sé náð verðum við að tryggja aðgang að grænni orku með sjálfbærri þróun að leiðarljósi. Okkar hlutverk er að nýta ekki meira en við þurfum, huga að sjálfbærni og umhverfisvænni lifnaðarháttum. Það er brýnt að við temjum okkur betra og heilbrigðara neyslumynstur.

Mikilvægt er að sátt ríki um þær virkjanir sem þarf til þess að byggja upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag. Mestu skiptir að það verði gert af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins samhliða því að horft sé til betri orkunýtingar, þá þarf að koma í veg fyrir tap á orku úr orkukerfinu ásamt því að bæta nýtingu á þeim virkjunum sem fyrir eru.

Ósvarað um hvaðan orka framtíðarinnar eigi að koma

Rammaáætlunin er mikilvægt stjórntæki sem varðar vernd svæða og orkunýtingu og sem vert er að halda í og styrkja enn frekar. Hún nær yfir helstu orkulindir landsins og í meðferð hennar á að taka tillit til ólíkra hagsmuna á breiðum grundvelli. Rammaáætlun er ætlað að tryggja að nýting landsvæða byggist á langtímasjónarmiðum og víðtæku samráði um verndargildi náttúru og menningar, hagkvæmni og arðsemi.

Mikilvægt er að þróa áfram þetta góða verkfæri okkar í ljósi breyttra áherslna í ferðaþjónustu, samfélaginu, skuldbindingum Íslands og stöðu í heimsmálum.  Ég fagna því að samstaða hafi loks náðist um þau atriðið sem tiltekin eru í nefndaráliti, það er vissulega ekki sjálfgefið.

Stór hluti af landinu er nú þegar í nýtingu eða vernd sem einnig telst til nýtingar. Það er mikilvægt að við nýtum landið okkar af varfærni því við viljum að komandi kynslóðir fái að njóta ósnortinnar náttúru. Okkar dýrmætasti arfur til komandi kynslóða er hrein og tær náttúra, en svo við getum skilað af okkur arfinum með þeim hætti þurfum við að skipuleggja hvernig við göngum um náttúru landsins með skýrri framtíðarsýn.

Vernd og friðun á tilteknum landsvæðum er góðra gjalda verð, en gæta þarf varúðar þegar ákveðið er að friðlýsa stór svæði til framtíðar. Enn er ósvarað um hvaðan orka framtíðarinnar eigi að koma og það er ekki okkar að taka ákvarðanir um það fyrir komandi kynslóðir. Þó að við hér tökum ekki ákvarðanir að friðlýsa tiltekin svæði þýðir það þó ekki að við höfum fyrirætlanir að nýta þau, heldur skiljum við þær ákvarðanir eftir fyrir þingmenn framtíðarinnar.

Orkusjálfstæði þjóða verður sífellt mikilvægara í kvikum heimi og nauðsynlegt að þjóðir geti brugðist hratt við breyttum forsendum.

Í þessu samhengi má þar nefna virkjunarkostir í Skjálfandafljóti, þ.e. Fljótshnúksvirkjun, Hrafnabjargavirkjun A, B og C, en þeir eru í verndarflokki samkvæmt fyrirliggjandi tillögu og telur meiri hlutinn ekki tilefni til að leggja til breytingar á því. Skjálfandafljót er eitt af þeim svæðum þar sem leggja þarf mat á friðlýsingu heilla vatnasviða samhliða endurskoðun á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Ekki er rétt að taka ákvörðun um friðlýsingu heilla vatnasviða fyrr en þetta mat liggur fyrir.

Þá hefur í samræmi við markmið stjórnarsáttmálans kostum í biðflokki verið fjölgað. Betra fer á því að virkjunarkostir séu flokkaðir í biðflokk heldur en verndar eða nýtingarflokk á meðan frekari gagna er aflað. Mikilvægt er að samfélagsleg áhrif og óvissa um raunveruleg áhrif framkvæmda á náttúru og lífríki liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin um hvort svæði eigi að fara í verndar eða nýtingarflokk.

Það að svæði séu flutt í biðflokk þýðir ekki að þau séu sjálfkrafa komin í nýtingarflokk eða verndarflokk heldur er verið að endurmeta og endurskoða þessa kosti, það er langt síðan að fyrri verkefnastjórn gerði tillögu um þessi svæði og síðan hefur margt breyst.

Þá hafa einnig kostir sem ekki áttu heima í biðflokki verið teknir út. Athugasemdir komu fram að fjölmarga virkjunarkosti væri að finna í biðflokki áætlunarinnar sem enginn virkjunaraðili hafi óskað eftir mati á. Má þar nefna meðal annars virkjunarkosti á Torfajökulssvæðinu, í laxveiðiám á Austurlandi og aðra kosti sem Orkustofnun hefur að eigin frumkvæði og á grundvelli heimildar í lögum nr. 48/2011 falið verkefnisstjórn að fjalla um.

Um er að ræða 28 virkjunarkosti, ýmist til nýtingar vatnsafls eða jarðhita. Ástæða þess að viðkomandi virkjunarkostir eru flokkaðir í biðflokk er fyrst og fremst sú að ekki eru til nægjanleg gögn um viðkomandi virkjunarkost og því ekki nægilegar forsendur til að hægt sé að leggja til flokkun í verndarflokk eða nýtingarflokk.

Á meðan virkjunarkosturinn flokkast í biðflokk eru hins vegar takmörk lögð á aðra landnýtingu á svæðinu. Þannig eru dæmi um að ekki sé hægt að friðlýsa virkjunarkosti í verndarflokki gegn orkuvinnslu þar sem virkjunarkostur innan sama svæðis er í biðflokki.

Því mætti segja að viðkomandi virkjunarkostur sé að vissu leyti fastur í biðflokki þar sem enginn virkjunaraðili er að vinna í þróun hans, og þar á meðal öflun nauðsynlegra gagna til að hægt sé að leggja til endanlega flokkun í vernd eða nýtingu. Því leggur meiri hlutinn til sem hluti af þeirri sátt sem mikilvægt er að náist um áætlunina að fella þessa tilteknu kosti úr áætluninni þar sem enginn virkjunaraðili stendur að baki þeim. Þetta tel ég vera mikilvægt og nauðsynlegt skref.

Framtíðin býr í vindinum

Þá er beislun vindorku loksins komin á dagskrá fyrir alvöru. Fjölbreytni í orkuöflun stuðlar að bættu orkuöryggi og sveigjanleika orkukerfisins. Þó að Ísland búi enn yfir óbeisluðu vatnsafli og jarðvarma, er skynsamlegt að auka fjölbreytni í orkugjöfum með hagnýtingu vindorku og annarra nýrra endurnýjanlegra orkukosti fyrir raforkuvinnslu.

Vindorka er bæði hagkvæm og endurnýjanleg og sem slík einn af betri kostum til framtíðar orkuvinnslu. Í fyrirliggjandi tillögu er í fyrsta sinn að finna virkjunarkosti í vindorku. Vindorkukostinum í Búrfellslundi er raðað í biðflokk í fyrirliggjandi tillögu með þeim rökum að hann sé á röskuðu svæði sem hafi lágt verndargildi en áhrif hans á ferðamennsku og útivist séu hins vegar mikil.

Meirihluti nefndarinnar leggur þó til að virkjunarkosturinn verði færður úr biðflokki í nýtingarflokk með þeim rökum að virkjunarkosturinn er á hendi opinbers fyrirtækis og á svæði sem er þegar raskað og með lágt verndargildi. Auk þess sem sjónræn áhrif eru töluvert minni en upphaflega var áætlað. Þá telur meirihlutinn að Búrfellslundur geti verið mikilvægur hluti þess að tryggja betur nýtingu þeirra vatnsaflsvirkjana sem fyrir eru á svæðinu auk þess sem það rennir styrkari stoðum undir orkuöryggi.

Öll sú orka sem býr í vindinum getur verið lykilþáttur þegar kemur að því að tappa af þeim þrýstingi sem skapast hefur á kerfið síðustu ár vegna tafa í afgreiðslu á rammanum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að setja eigi sérstök lög um nýtingu vindorku með það að markmiðið að einfalda uppbyggingu vindorkuvera. Leggja á áherslu á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verður að tryggja afhendingaröryggi og lágmarka umhverfisáhrif. Framtíðin býr svo sannarlega í vindinum.

Í dag státar engin önnur þjóð af jafn háu hlutfalli grænnar orku af heildarorkunotkun og við Íslendingar gerum. Af því getum við verið stolt. Langan tíma tekur að virkja nýja orkukosti, langtímaáætlanir þurfa að gera ráð fyrir orkukostum til að mæta framtíðarþörfum og auka þannig fyrirsjáanleika og stöðugleika. Því skiptir gríðarlegu máli að sátt hafi náðst um þann ramma sem við leggjum fram hér í dag. Takk fyrir góða vinnu.“

Categories
Fréttir

Störf þingsins: Stefán Vagn og Ágúst Bjarni

Deila grein

14/06/2022

Störf þingsins: Stefán Vagn og Ágúst Bjarni

Stefán Vagn Stefánsson og Ágúst Bjarni Garðarsson voru í störfum þingsins á Alþingi í dag.

Stefán Vagn ræddi löggæslumál og stöðu löggæslunnar á Íslandi. Fór hann yfir að mat sitt væri að þær breytingar að lögregluembættin fengu sérstakan lögreglustjóra hafi verið mikið gæfuspor og lyft lögreglunni og löggæslunni upp á annan og miklu betri stall. En það veki undrun sína með nýju lögregluráði að ekki er einn einasti lögreglumaður í því lögregluráði. Mikilvægt væri að rödd lögreglumanna fái að heyrast á slíkum samráðsvettvangi þegar verið er að ræða um framtíð og stefnu lögreglunnar til komandi ára.

Ágúst Bjarni sagði það mikilvægt og nauðsynlegt að tryggja hér öfluga uppbyggingu um land allt, samvinnuverkefnið milli ríkis og sveitarfélaga og sagðist hann fagna þeim aðgerðum sem ríkið hefur boðað í þeim efnum til að tryggja að svo verði. Nefndi hann að spennan sem er nú á markaðnum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, hafi margvísleg áhrif á heimili og stöðu þeirra. Ákveðnir hópar hafa verið að stækka við sig og spennt bogann og hækkandi vaxtastig hafi haft veruleg áhrif á mánaðarlegar greiðslur þess hóps og auðvitað annarra. Vill hann hvetja sveitarfélög til að stilla álagningarstuðulinn af með þeim hætti að hækkunin bitni ekki öll á íbúum sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafi til þess fullt vald.

Stefán Vagn Stefánsson í störfum þingsins:

„Virðulegur forseti. Það sem mig langar að gera að umtalsefni mínu hér í ræðu í dag eru löggæslumál og staða löggæslunnar á Íslandi. Sá málaflokkur er reyndar efni í umræðu í heilan dag en mig langar að taka eitt mál sérstaklega til umfjöllunar úr þeim fjölmörgu álitaefnum sem koma til greina þegar lögreglan er annars vegar.

Sameining lögregluembættanna og aðskilnaður við sýslumenn 2015 var mikið framfaraskref fyrir lögregluna. Ég vil meina að þær breytingar að lögregluembættin fengu sérstakan lögreglustjóra hafi verið mikið gæfuspor og lyft lögreglunni og löggæslunni upp á annan og miklu betri stall. Þær breytingar tókust almennt vel þó svo að í slíkum breytingum séu alltaf einhverjir hnökrar sem þarf að laga, en núna árið 2022 eru þeir flestir ef ekki allir í baksýnisspeglinum. Engin stofnun er þó sterkari en starfsfólkið sem í henni starfar. Mikill mannauður er í lögreglunni og það er mikilvægt að hlúa vel að starfsmönnum og tryggja að þeir geti þroskast og eflst í starfi, sér og embættunum til framdráttar. Með nýju lögregluráði var komið á samstarfsvettvangi lögreglustjóra um framtíð og stefnu löggæslunnar til komandi ára. Það er vel. Það er þó eitt sem vekur undrun mína og hefur gert frá stofnun lögregluráðs, það er einfaldlega sú staðreynd að ekki er einn einasti lögreglumaður í því lögregluráði. Það er mikilvægt að rödd lögreglumanna fái að heyrast á slíkum samráðsvettvangi þegar verið er að ræða um framtíð og stefnu lögreglunnar til komandi ára.

Virðulegur forseti. Ég skora á dómsmálaráðherra að gera bragarbót á því og tryggja að rödd lögreglumanna, fagstéttarinnar, fái að heyrast í lögregluráði í framtíðinni og gera breytingar sem til þarf á lögregluráði svo lögreglan muni eiga fulltrúa þar í framtíðinni.“

***

Ágúst Bjarni Garðarsson í störfum þingsins:

„Virðulegur forseti. Ég vil gera stöðuna á húsnæðismarkaði að umtalsefni mínu og hef svo sem gert það áður í þessum ræðustól. Það er mikilvægt í ljósi þeirrar stöðu sem við öll stöndum frammi fyrir og það er nauðsynlegt og samvinnuverkefni milli ríkis og sveitarfélaga að tryggja hér öfluga uppbyggingu um land allt. Ég fagna þeim aðgerðum sem ríkið hefur boðað í þeim efnum til að tryggja að svo verði. Það þarf að stytta alla ferla — ég þekki það bara af eigin raun og ég held að við könnumst öll við það sem hér erum inni — án þess auðvitað að það bitni á vinnubrögðum framkvæmdaraðila. Í þessu samhengi er mikilvægt að treysta þær stofnanir sem mikilvægar eru svo tillögur að uppbyggingu fái sanngjarna og faglega meðferð og afgreiðslu. Við sjáum það öll að það álag sem er nú á markaðnum, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, hefur margvísleg áhrif á heimili og stöðu þeirra. Ákveðnir hópar hafa verið að stækka við sig og spenna bogann, ef svo má segja, og hækkandi vaxtastig hefur haft veruleg áhrif á mánaðarlegar greiðslur þess hóps og auðvitað annarra. Við sjáum það núna á nýlegri hækkun á miklu fasteignamati og ég held að það sé rétt í því sambandi að hvetja sveitarfélög til að stíga þar inn og — hvað segir maður? — éta þessa hækkun ekki í einum bita heldur stilla álagningarstuðulinn af með þeim hætti að hækkunin bitni ekki öll á íbúum sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafa til þess fullt vald.“

***

Categories
Fréttir

Störf þingsins: Halla Signý og Jóhann Friðrik

Deila grein

09/06/2022

Störf þingsins: Halla Signý og Jóhann Friðrik

Halla Signý Kristjánsdóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson voru í störfum þingsins á Alþingi í dag. Halla Signý segir Vestfirðinga eiga Íslandsmet í þolinmæði er kemur að samgöngubótum en nú hillir loks undir aðgerðir enda fullfjármagnaðar framkvæmdir komnar á rekspöl. Metnaðarfullar samgönguáætlanir á Vestfjörðum upp á 20 milljarða kr. eru nú á áætlun í samræmi við samgönguáætlun til 2024.

Jóhann Friðrik benti á að áfengislög eru frá 1998 og að margt breyst frá þeim tíma, ekki síst á sviði forvarna og rannsókna. Lagði hann áherslu á mikilvægi þess að fram fari heildarendurskoðun á áfengislögum með að markmiði að taka tillit til samkeppnissjónarmiða, misræmis á milli innlendra og erlendra aðila, en fyrst og síðast sjónarmiða er snúa að forvörnum, áhrifum áfengisneyslu á börn og unglinga og lýðheilsu í landinu.

Halla Signý Kristjánsdóttir í störfum þingsins:

„Virðulegi forseti. Við Vestfirðingar, líkt og íbúar annarra landshluta, erum háð greiðum samgöngum í okkar daglega lífi alla daga ársins. Með samþjöppun grunnþjónustu og stærri atvinnusvæðum skiptir enn meira máli en áður að hafa greiðar samgöngur og sú þróun er ekki að fara að breytast næstu áratugi. Vestfirðingar eiga örugglega Íslandsmet í þolinmæði þegar kemur að samgöngubótum og nú er útlit fyrir að þeir sem búa og starfa á Vestfjörðum geti farið að anda léttar. 20 milljarða kr. metnaðarfullar samgönguáætlanir á Vestfjörðum eru nú í áætlun og fullfjármagnaðar í samræmi við fimm ára samgönguáætlun, 2020–2024. Upphafið var stórframkvæmd við Dýrafjarðargöng sem kallar á enn meiri framkvæmdir. Já, við skulum tala um Dynjandisheiðina. Framkvæmdir við mikilvægar endurbætur á Vestfjarðavegi um Dynjandisheiði eru þegar hafnar. Í síðustu viku var auglýst útboð á 13 km kafla sem skal vera lokið árið 2024. Þegar þessum kafla lokið erum við að sjá nýframkvæmdir á 25 km kafla á heiðinni. Frá opnun Dýrafjarðarganga hefur ekki alltaf verið auðvelt að halda veginum um heiðinna opnum yfir verstu vetrarmánuðina. Uppbygging vegarins bætir aðstæður til vetrarþjónustu og þegar hann verður tilbúinn verður það raunverulegur möguleiki að halda greiðum samgöngum milli norður- og suðursvæðis allt árið um kring.

Virðulegi forseti. Enn eitt stóra verkefnið er hafið í Gufudalssveit. Það hillir undir að vegur um Teigsskóg verði að veruleika. Vinna við veginn hafin og þar með er séð fyrir áratugadeilur um vegstæðið. Það er ánægjulegt að sjá að þeir sem fengu verkið eru meðvitaðir um að það er verið að vinna á ósnortnu landi og hafa það að leiðarljósi að lágmarka röskun. Víðar er verið að vinna að endurbótum í fjórðungnum og samtals er verið að vinna á nærri 18 km kafla á þessu svæði. Allar þessar endurbætur eru mikilvægar fyrir okkur, hvort sem við búum á Vestfjörðum eða annars staðar á landinu.“

Jóhann Friðrik Friðriksson í störfum þingsins:

„Virðulegi forseti. Eitthvert vinsælasta viðfangsefni hér á þingi ár eftir ár snýr að áfengislöggjöfinni í landinu. Enginn þarf að velkjast í vafa um þá staðreynd að áfengi er alls ekki eins og hver önnur vara. Heilsufarslegur og samfélagslegur skaði af áfengisneyslu er gríðarlegur og veldur umtalsvert meiri skaða en öll önnur vímuefni, enda eina löglega vímuefnið á markaði. Sem betur fer nota flestir áfengi í hófi en rannsóknir sýna að hömlur á aðgengi skila árangri í þeirri viðleitni stjórnvalda að lágmarka óæskileg áhrif á lýðheilsu í landinu. Sem dæmi um frumvörp sem snúa að breytingum á áfengislögum og koma upp í hugann má nefna frumvarp um aðkomu sveitarfélaga að staðarvali áfengisverslana, sala áfengis á framleiðslustað, frumvarp um sölu áfengis á sunnudögum og leyfi til sölu áfengis í íslenskum netverslunum. Mér að vitandi liggur ekki lýðheilsumat til grundvallar þessum frumvörpum. Myndi það vera verulega til bóta og mun ég því leggja slíkt til.

Virðulegi forseti. Sjálfur er ég hlynntur frelsi með ábyrgð og vill því taka fram að í 1. gr. áfengislaga segir, með leyfi forseta: „Tilgangur laga þessara er að vinna gegn misnotkun áfengis.“ Lögin eru frá 1998, en frá þeim tíma hefur margt breyst, sér í lagi á sviði forvarna og rannsókna. Ég tel því mikilvægt að farið verði í heildarendurskoðun á áfengislögum með það að markmiði að taka tillit til samkeppnissjónarmiða, misræmis á milli innlendra og erlendra aðila, en fyrst og fremst þeirra sjónarmiða er snúa að forvörnum, áhrifum áfengisneyslu á börn og unglinga og lýðheilsu í landinu.“

Categories
Fréttir

Treystum atvinnu og byggð um land allt

Deila grein

09/06/2022

Treystum atvinnu og byggð um land allt

Ingibjörg Isaksen og Stefán Vagn Stefánsson töluðu fyrir hönd Framsóknar í eldhúsdagsumræðum á Alþingi.

Ingibjörg talaði um orkumál, fæðuöryggi og heilbrigðismál. Hún sagði að á síðustu árum hafi verið gríðarlegt álag á heilbrigðiskerfið en það væri ekkert nema fyrir mannauðinn sem þar starfar.

Takk, framlínufólk í heilbrigðiskerfinu!

Covid faraldurinn reyndi mikið á framlínufólkið í heilbrigðiskerfinu, sem lagði á sig ómælda vinnu. Samstaða þess og ósérhlífni hélt heilbrigðiskerfinu gangandi. Sagði hún að við getum seint þakkað þeim nægilega. Nýtti hún tækifærið og sagði takk!

Nauðsynlegt að gefa út ný virkjanaleyfi

Hún sagði að það sé Alþingis að standa vaktina að ná kolefnishlutleysi. Það þurfi fjölbreyttar lausnir í orkumálum; nýjar virkjanir og styrking núverandi virkjana. Nauðsynlegt sé að gefa út ný virkjanaleyfi, því vernd og virkjun geti haldist í hendur. Hún sagði nóg af grænni orku sem mætti nýta í sátt við náttúruna.

Ingibjörg sagði afleiðingar stríðsins í Úkraínu hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir bændur. Það geti leitt til þess að framboð á innlendri vöru dragist saman og leitt til þess að fæðuöryggi verði í hættu. Það þurfi að bregðast við.

Samtal og samvinna leiðarljós í þágu samfélagsins alls

Stefán Vagn fór yfir það sem ríkisstjórninni hefur tekist vel upp með og að nú þurfi að halda áfram. Með samtali og samvinnu að leiðarljósi vinnum við best í þágu samfélagsins alls. Fólk á ekki að sæta mismunun vegna búsetu í neinni mynd og hvað þá innan stjórnsýslunnar.

Byggðamál og byggðaþróun eru málaflokkar sem við eigum að gera hátt undir höfði. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa skref verið stigin í átt að jöfnun búsetuskilyrða.

Búsetuskilyrði jöfnuð enn frekar með skattkerfinu

Stefán Vagn nefndi t.d. verkefnið „Óstaðbundin störf“ og að tryggja þurfi góðar samgöngur um allt land því það skapi fleiri atvinnutækifæri. Hann ræddi hvort ekki væri kominn tími til að nýta skattkerfið til að jafna búsetuskilyrði enn frekar og aðstöðumun fólks í dreifðari byggðum. Þannig mætti t.d. hvetja lítil og meðalstór fyrirtæki áfram utan höfuðborgarsvæðisins.

Stefán Vagn sagði engan tíma mega missa að bregðast við vanda bænda, og að mikilvægt sé að taka samtalið en á sama tíma bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum. Það sé mikilvægt til þess að ná árangri.

Categories
Fréttir

Eldhúsdagur: ræða Stefáns Vagns Stefánssonar

Deila grein

09/06/2022

Eldhúsdagur: ræða Stefáns Vagns Stefánssonar

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Mig langar að tala um að halda áfram. Síðastliðin fjögur og hálft ár hefur miklu verið áorkað þrátt fyrir mikinn öldugang. Ríkisstjórninni hefur tekist að rétta skútuna af og sigla henni í rétta átt þrátt fyrir ólgusjó í formi kórónuveirufaraldursins og nú innrásar Rússa í Úkraínu. En við ætlum að halda áfram. Mörg þjóðþrifamál bíða afgreiðslu okkar og það er okkar á Alþingi að vakta þau, breyta og bæta og að lokum afgreiða þau með besta mögulega hætti. Með samtali og samvinnu að leiðarljósi vinnum við best í þágu samfélagsins alls.

Við í Framsókn leggjum áherslu á að setja allt landið á dagskrá, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Það á enginn að mæta afgangi. Okkur ber að sameinast um það markmið að jafna búsetuskilyrði þvert yfir landið. Fólk á ekki að sæta mismunun vegna búsetu í neinni mynd og hvað þá innan stjórnsýslunnar. Í þeirri vinnu eru margir boltar sem við þurfum að grípa. Byggðamál og byggðaþróun eru málaflokkar sem við eigum að gera hátt undir höfði. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa skref verið stigin í átt að jöfnun búsetuskilyrða. Má þar nefna verkefnið „Óstaðbundin störf“ þar sem opinber störf eru greind á nýjan máta. Eru þau staðbundin eða er hægt að vinna þau hvar sem er? Þau síðarnefndu eiga að vera skilgreind sem störf án staðsetningar, störf sem hægt er að vinna á Sauðárkróki, Ísafirði, Reykjavík eða í Borgarfirði. Þetta verkefni skiptir landsbyggðina miklu máli og getur breytt sviðsmynd Íslands á jákvæðan máta. Einnig velti ég fyrir mér hvort tími sé kominn á að nýta skattkerfið okkar til að jafna búsetuskilyrði enn frekar og aðstöðumun fólks í dreifðari byggðum. Þannig getum við t.d. hvatt lítil og meðalstór fyrirtæki áfram utan höfuðborgarsvæðisins. Með því getum við bætt fjölþætta verðmætasköpun um allt land og fjárfest í fólki. Fordæmin eru til staðar en verkefni sem þetta hefur gefist vel í Noregi þar sem skattkerfið hefur verið nýtt í þágu byggðaþróunar.

Við höfum gert stórátak í samgöngumálum á síðastliðnum árum og höfum háleit markmið um að halda áfram veginn. Það á við bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Fullnægjandi samgöngur eru undirstaða samkeppnishæfs samfélags og velmegunar þjóðarinnar. Með góðum samgöngum komumst við langt í jöfnun búsetuskilyrða en samgöngur eru forsenda byggða og innviða verðmætasköpunar. Hér er mikilvægt að ýta ekki á bremsuna. Við ætlum að gefa í, stytta vegalengdir á milli byggða, efla atvinnusvæði á landinu öllu og bæta umferðaröryggi.

Við í Framsókn trúum á fjölgun fjölbreytilegra atvinnutækifæra þvert yfir landið. Þar spila óstaðbundin störf stóra rullu. Á sömu hlið teningsins má nefna nýsköpun, ferðaþjónustu og spennandi tækifæri í kvikmyndagerð.

Á landsbyggðinni eru landbúnaður og sjávarútvegur burðarstoðir í atvinnulífi og grunnstoðir fæðuöryggis Íslands. Mikilvægt er að standa vörð um þessar starfsgreinar, ekki aðeins fyrir þá sem þar vinna heldur einnig í þágu neytenda og fæðuöryggis þjóðarinnar. Fæðuöryggi er þjóðaröryggismál og við eigum að horfa þannig á málaflokkinn. Í landbúnaði berjast margir í bökkum við að finna rekstrargrundvöll í núverandi stöðu og ekki hefur stríðið í Úkraínu bætt aðstæður með hækkandi kostnaði á aðföngum. Við megum engan tíma missa við að finna lausnir á þeirri stöðu sem bændur lifa við í dag. Vinna þarf með landbúnaði og sjávarútvegi í sátt í leit að lausnum. Mikilvægi sáttar og samvinnu er óumdeilt og þau sjónarmið verða að vera leiðarljós í nýrri vinnu samráðsnefndar um sjávarútvegsstefnu sem matvælaráðherra hefur nú skipað.

Verkefnin fram undan eru misjöfn að stærð og burðum. Með samvinnu, samtali og virðingu fyrir ólíkum skoðunum munum við komast í gegnum þau saman. Það er verkefnið.

Góðir landsmenn. Ég óska þingmönnum og landsmönnum öllum gleðilegs sumars.

Categories
Fréttir

Eldhúsdagur: ræða Ingibjargar Isaksen

Deila grein

08/06/2022

Eldhúsdagur: ræða Ingibjargar Isaksen

Hæstv. forseti, kæru landsmenn!

Nú líður að lokum þingvetrar. Það hefur verið mikill heiður að fá að starfa í þessum sal í þágu þess að gera samfélagið okkar betra fyrir alla. Verkefnin hafa verið mörg og ólík og hefði ég kosið að fleiri mál hefðu komist í gegn á þessu þingi, en vinna þessa vetrar mun skila sér áfram á næsta þingi. Öll þau mál sem rædd hafa verið hér eru mikilvæg en nokkur standa þó upp úr.

Staðan í orkumálum þjóðarinnar hefur verið mér sérstaklega hugleikin. Svo virðist sem að á síðustu árum hafi fólk, bæði hér inni og í samfélaginu, forðast að ræða orkumál og hefur það leitt til ákveðnar stöðnunar. Útlit er fyrir að sú stöðnun hafi loksins verið rofin.

Í stjórnarsáttmálanum kemur fram það markmið að Ísland nái kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040 með fullum orkuskiptum og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Hér er um að ræða göfugt markmið og það er okkar hér á Alþingi að standa vaktina.

En svo hægt sé að ná þeim markmiðum er mikilvægt að horfa á heildarmyndina.

Við þurfum fjölbreyttar lausnir í orkumálum. Nýjar virkjanir, aflaukning virkjana sem þegar eru til staðar, styrking á flutningskerfi raforku og dreifikerfum, og áhersla á bætta orkunýtni og orkusparnað eru allt liðir í því að búa okkur undir framtíðina. Til að mæta orkuþörf er mikilvægt að gefa út ný virkjunarleyfi. Dæmin hafa sannað að vernd og nýting geta haldist í hendur og þangað stefnum við. Á sama tíma og lönd í kringum okkur leita logandi ljósi að nýjum umhverfisvænum orkukostum höfum við aðgang að innlendri grænni orku. Við erum rík af náttúruauðlindum og getum nýtt þær með skynsamlegum og hætti í sátt við náttúruna.

Það er óumflýjanlegt að nýta þurfi tækifæri til grænnar orkuframleiðslu í auknum mæli. Þar getum við náð sátt með tilliti til náttúruverndar, menningarsögulegra minja, hagkvæmni og sjálfbærni.

Þá er beislun vindorku loksins komin á dagskrá fyrir alvöru, en svo hægt sé að nýta vindorkuna þarf öflugra flutningskerfi og vatnsafl sem spilar með. Stefnt er að því að reisa tvo vindorkulundi í landi í eigu Landsvirkjunar. Hér er ríkið að stíga mikilvæg fyrstu skref. Vindorka er bæði hagkvæm og endurnýjanleg og sem slík einn af betri kostum til framtíðar orkuvinnslu.

Í dag státar engin önnur þjóð af jafn háu hlutfalli grænnar orku af heildar orkunotkun og við Íslendingar gerum. Af því getum við verið stolt.

Hæstvirtur innviðaráðherra lagði fram á þessu þingi frumvarp um breytingu á skipulagslögum sem liðkar fyrir framkvæmdir vegna flutningskerfis raforku. Það er gríðarlega brýnt að flutningskerfi raforku sé byggt upp til þess að þjóna markmiðum raforkulaga um öryggi, skilvirkni og hagkvæmni. Þetta frumvarp þjónar framtíðinni, enda er öflugt flutningskerfi forsenda orkuskipta og árangurs í loftlagsmálum. Styrking flutningskerfis raforku þolir enga bið, en á hverju ári tapast kringum 10 milljarðar króna vegna núverandi flutningskerfis. Hér eru atvinnu- og uppbyggingartækifæri til staðar.

Í upphafi þings vofði heimsfaraldurinn enn yfir en við vorum farin að sjá til lands með von um að heimurinn tæki við sér eftir langan vetur. Strax í kjölfar faraldursins barst okkur önnur áskorun. Innrás Rússa í Úkraínu sem hefur snert okkur öll og afleiðingarnar hafa teygt anga sína hingað.

Úkraína er stærsti kornframleiðandi í Evrópu, sem er undirstaða dýrafóðurs. Skortur á fóðri hér á landi getur valdið framleiðslustöðvun í eggja,- alifugla- og svínarækt og dregur úr framleiðslu í nautgriparækt, mjólkuriðnaði og að einhverju marki í sauðfjárrækt. Einnig standa bændur fyrir erfiðum ákvörðunum eftir miklar verðhækkanir á aðföngum vegna stríðsins.

Staðan er grafalvarleg. Ef ekki verður brugðist við með einhverjum hætti kann framboð á innlendri vöru að dragast verulega saman næstu misseri og þar með ógnað fæðuöryggi landsins.

Mikilvægi fæðuöryggis og íslensks landbúnaðar hefur lengi verið í brennidepli hjá okkur í Framsókn. Standa verður vörð um landbúnaðinn og leita þarf varanlegra lausna á vanda bænda til framtíðar.

Norðmenn hafa brugðist við m.a. með auka greiðslum til bænda sem bæta fyrir óvenjulegar kostnaðarhækkanir á þessu ári. Hæstvirtur matvælaráðherra hefur skipað starfshóp sem á að vinna hratt og örugglega að tillögum til að bregðast við síhækkandi verðlagi á aðföngum til bænda. Ég treysti á að starfshópurinn komi með raunhæfar tillögur.

Þingflokkur Framsóknar hefur rætt þá tillögu að bændur fái undanþágu á virðisaukaskatti á innleggi, sem kemur sem útskattur á framleiðanda, til tveggja ára. Þannig má tryggja allt annan rekstrargrundvöll fyrir bændur þar sem neytendur finna ekki fyrir verðhækkunum. Framsókn hefur einnig beitt sér fyrir að afurðarstöðvar í kjötiðnaði verði heimilað samstarf og samvinnu með því er hægt að ná fram mun meiri hagræðingu innan afurðageirans en nú er.

Áskoranir liggja víðar. Á síðustu árum hefur verið gríðarlegt álag á heilbrigðiskerfið og verkefnabunkinn er stór. Heilbrigðiskerfið væri ekkert ef ekki væri fyrir allan þann mannauð sem við búum yfir. Mönnun heilbrigðisstarfsfólks er viðvarandi áskorun hér heima sem og erlendis.

Covid faraldurinn reyndi mikið á framlínufólkið okkar í heilbrigðiskerfinu, sem lagði á sig ómælda vinnu. Með þeirra samstöðu og ósérhlífni náðist að halda heilbrigðiskerfinu gangandi. Þar léku þrautseigja og útsjónarsemi lykilhlutverk í óeigingjarnri vinnu framlínufólksins okkar. Við getum seint þakkað þeim nægilega. Til þeirra vil ég nýta tækifærið hér og segja takk!

Það getur verið freistandi að leggja mat á heiminn út frá eigin forsendum en þegar unnið er að stórum málum verðum við að geta borið þann þroska að skilja aðstæður annarra og leita sameiginlegra leiða. Ég veit að við hér á Alþingi getum lagst saman á árarnar þvert á flokkslínur til þess að vinna að bættu heilbrigðiskerfi. Með samvinnu og samtali að leiðarstefi getum við komist í gegnum hvaða brimskafla sem er. Við byggjum á góðum grunni en það þarf kraft og þor til þess að halda áfram. Íslenska þjóðin er í eðli sínu jákvæð, úrræðagóð og stendur saman. Það höfum við margsannað.

Kæru landsmenn,

Ég hlakka til áframhaldandi samvinnu. Sumarið tekur nú á móti okkur opnum örmum. Ég vil óska öllum gleðilegs sumars og vona að allir njóti sólarinnar. Við eigum það svo sannarlega skilið.

Categories
Fréttir

Einar verður borgar­stjóri árið 2024

Deila grein

07/06/2022

Einar verður borgar­stjóri árið 2024

Nýr meirihlutasáttmáli í borgarstjórn var kynntur í Elliðaárdal í gær mánudaginn 6. júní. Sáttmálinn endurspeglar vel þær breytingar sem Framsókn boðaði fyrir kosningar.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, mun taka við sem borgarstjóri í ársbyrjun 2024 og verður þar af leiðandi fyrsti borgarstjóri Framsóknar!

Um meirihlutann og málefnasamninginn segir Einar:

“Hér hafi verið fjórir ólíkir flokkar með ólíkar stefnur í mörgum málum en þó með sameiginlega sýn í mörgum öðrum málum. Kosningabaráttan hafi hins vegar leitt í ljós kröfu um breytingar í húsnæðismálum, samgöngumálum og ýmsum velferðarmálum.”

„Og ég held að það sé óhætt að segja að við náðum mjög vel saman utan um þessi mál í okkar viðræðum. Og er þakklátur fyrir það að við vorum öll lausnamiðuð, samstarfsfús og mjög einbeitt í því að ná saman texta sem tryggir áframhaldandi vegferð í borginni, velferð og aukna uppbyggingu í húsnæðismálum.“

Meirihlutasáttmálinn, sem telur 33 síður, en á fyrstu síðum hans er farið yfir fyrstu breytingarnar sem á að ráðast í.

Meirihlutasáttmáli í borgarstjórn 2022-2026