Categories
Fréttir

Páll Pétursson látinn

Deila grein

24/11/2020

Páll Pétursson látinn

Páll Pétursson frá Höllustöðum, bóndi, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, lést á Landspítalanum í gær, 23. nóvember, 83 ára að aldri.

Páll var fæddur á Höllustöðum í Blöndudal 17. mars 1937. Foreldrar hans voru Pétur Pétursson (fæddur 30. nóvember 1905, dáinn 7. maí 1977) bóndi á Höllustöðum í Blöndudal og kona hans Hulda Pálsdóttir (fædd 21. ágúst 1908, dáin 9. janúar 1995) húsmóðir. Páll giftist Helgu Ólafsdóttur 26. júlí 1959 en hún var fædd fædd 30. október 1937, dáin 23. maí 1988. Foreldrar hennar voru Ólafur Þ. Þorsteinsson og kona hans Kristine Glatved-Prahl. Páll giftist Sigrúnu Magnúsdóttur giftist Sigrúnu Magnúsdóttur 18. ágúst 1990 (fædd 15. júní 1944) alþingismaður, ráðherra og borgarfulltrúi í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Magnús Jónsson Scheving og kona hans Sólveig Vilhjálmsdóttir. Börn Páls og Helgu eru Kristín (1960), Ólafur Pétur (1962), Páll Gunnar (1967). Dætur Sigrúnar og stjúpdætur Páls eru Sólveig Klara (1971)og Ragnhildur Þóra (1975).

Páll lauk stúdentsprófi frá MA 1957 og var bóndi á Höllustöðum síðan 1957. Skipaður 23. apríl 1995 félagsmálaráðherra, lausn 28. maí 1999. Skipaður 28. maí 1999 félagsmálaráðherra, lausn 23. maí 2003. Páll var formaður FUF í Austur-Húnavatnssýslu 1963–1969. Í hreppsnefnd Svínavatnshrepps 1970–1974. Formaður Veiðifélags Auðkúluheiðar 1972–1977. Fulltrúi Austur-Húnvetninga á fundum Stéttarsambands bænda 1973–1977. Formaður Hrossaræktarsambands Íslands 1974 og 1980. Í Norðurlandaráði 1980–1991, formaður Íslandsdeildar þess 1983–1985. Forseti Norðurlandaráðs 1985 og 1990. Í flugráði 1983–1992. Kjörinn í samstarfsnefnd með Færeyingum og Grænlendingum 1981 um sameiginleg hagsmunamál. Í Rannsóknaráði 1978–1980. Í Vestnorræna þingmannaráðinu 1985–1987, formaður. Í stjórn Landsvirkjunar 1987–1995. Kosinn í Evrópustefnunefnd 1988. Í þingmannanefnd EFTA/EES 1991–1995.

Páll var alþingismaður Norðurlands vestra 1974–2003. Félagsmálaráðherra 1995–2003. Formaður þingflokks Framsóknarmanna 1980–1994. Hann sat í utanríkismálanefnd 1991–1995 (varaform. 1994–1995), iðnaðarnefnd 1991–1995, sérnefnd um stjórnarskrármál 1992–1995.

Við Framsóknarmenn minnumst ráðherra og alþingismanns með djúpri virðingu og þakklæti fyrir störf í þágu Framsóknarflokksins og þjóðarinnar. Framsóknarfólk vottar aðstandendum innilega samúð.

***

Categories
Fréttir

Framtíðin ræðst á miðjunni

Deila grein

21/11/2020

Framtíðin ræðst á miðjunni

Miðstjórnarfundur Framsóknar var haldinn með rafrænum hætti í dag. Hátt á annað hundrað manns tóku þátt í góðum fundi. Tekin var ákvörðun um að halda flokksþing dagana 23.-25. apríl á næsta ári.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, fór yfir sviðið í ræðu sinni en lagði sérstaka áherslu á atvinnumál og þá sérstaklega um þau tækifæri sem liggja í skapandi greinum eins og kvikmyndagerð og tölvuleikjagerð. „Ég sé stórt tækifæri í því að styðja enn frekar við kvikmyndagerðina með því að hækka endurgreiðslur í 35% líkt og gert er í þeim löndum sem keppa við okkur um verkefni. Það skref, í viðbót við metnaðarfulla kvikmyndastefnu sem Lilja Dögg hefur lagt fram, myndi gera kvikmyndagerðina enn öflugri atvinnuveg fyrir Ísland. Þar með yrði lagður hornsteinn að fjórðu stoð efnahagslífsins, stoð skapandi greina. Árið 2019 störfuðu um 26 þúsund manns við ferðaþjónustu á Íslandi. Getum við sett okkur markmið um það að 10-15 þúsund muni starfa í kvikmyndum og tölvuleikjum innan fárra ára og veltan fari úr tæpum 30 milljörðum króna í 300 milljarða? Það er hægt með markvissri stefnu.“

Sigurður Ingi beindi einnig sjónum að hlutverki bankanna í kórónuveirukreppunni. „Seðlabankinn sendi bönkunum skýr skilaboð í vikunni og lækkaði stýrivexti en fram að því höfðu bankarnir hækkað vextina. Vaxtahækkun bankana er ekki til þess fallin að hvetja til fjárfestinga – fjárfestinga sem þarf til að komast út úr krísunni. Hvar liggur þá ábyrgð bankana? Bankarnir segja aukinn fjármagnskostnað vera að sliga þá, – gott og vel. Við lækkuðum reyndar bankaskattinn hraðar til að lækka kostnað bankanna – En ég spyr á móti: Ætlar einhver að græða og hámarka hagnað sinn í krísu sem þessari? Hér verða allir að koma að borðinu sem eru aflögufærir. Bankarnir líka.  Það er grundvöllur þess að snúa hagvexti úr mínus í plús og fá hjólin aftur til að snúast. Seðlabankinn hefur staðið við sitt, ríkissjóður hefur sett fram aðgerðir og stuðningslán verða framlengd. Nú er komið að bönkunum að sýna á spilin.“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar, sagði í ræðu sinni að Framsókn væri flokkur sem stæði við sín fyrirheit og benti því til staðfestingar að flokkurinn hefði nánast stýrt öllum sínum áherslumálum í höfn. „Við höfum gjörbylt námslánakerfinu, til hagsbóta fyrir nemendur með nýjum Menntasjóði. Við höfum hafið kennara til vegs og virðingar og veitt auknu fé til framhalds- og háskóla. Við höfum mótað og fjármagnað kvikmyndastefnu, sem er nauðsynlegur áburður fyrir ört vaxandi list- og atvinnugrein. Og nú hyllir undir byggingu nýrra þjóðarleikvanga, sem aðrir hafa talað um í áratugi.“

Hún lagði einnig mikla áherslu á breytingar í sambandi við starfsmenntanám. „Við erum að ryðja úr vegi kerfislægum hindrunum í starfsmenntakerfinu og viðbrögðin birtast í ótrúlegum áhuga á starfsmenntun sem kallast á við áhugasvið nemenda og þarfir samfélagsins. Iðnmenntaðir munu fá aðgang að háskólum frá og með næsta skólaári, rétt eins og bókmenntaðir framhaldsskólanemar. Tillaga um lagabreytingu í þessa veru er í samráðsgátt stjórnvalda. Aðferðafræði við vinnustaðanám iðn- og starfsnema hefur verið endurskoðuð og námið endurskipulagt, svo skólakerfið tryggi námslok en þau ráðist ekki af aðstæðum nemenda til að komast á starfssamning. Reglugerð í þessa veru verður gefin út á næstunni, en þetta er líklega stærsta breytingin sem orðið hefur á starfsmenntakerfinu í áratugi.“

Í lok ræðu sinnar fjallaði Sigurður Ingi um framtíðina. „Framtíðin ræðst á miðjunni. Það vitum við og það held ég að flestir Íslendingar viti innst inni. Öfgar til hægri og vinstri eru eins og hver önnur tískusveifla. Öfgar til hægri nærast á öfgum til vinstri, þær ýkja ástand og sundra samfélögum. Okkar flokkur, okkar Framsókn, og stefna okkar boða umbætur en ekki byltingar. Við leiðum saman ólík öfl og ólíka hagsmuni til að samfélagið verði á morgun betra en það var í gær. Veturinn verður erfiður fyrir marga en með krafti samfélagsins, með krafti samvinnunnar þá mun hann verða auðveldari. Og eftir vetur kemur vor og þá verðum við vonandi aftur farin að faðma fólkið okkar og getum horft grímulaus fram á veginn.“

Categories
Fréttir

Frábært skref – menntastefna fyrir árin 2020-2030

Deila grein

18/11/2020

Frábært skref – menntastefna fyrir árin 2020-2030

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, vakti máls á framkominni menntastefnu, Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, fyrir árin 2020-2030 í störfum þingsins í dag.

„Stefnan er metnaðarfull og leiðarljós hennar eru þrautseigja, hugrekki, þekking og hamingja. Ég tel afskaplega mikilvægt að stefnan fái ítarlega og markvissa umfjöllun á Alþingi, en einnig að hún verði afgreidd hratt og vel þannig að hún fari að skila árangri sem fyrst. Við þurfum skýra menntastefnu á hverjum tíma,“ sagði Líneik Anna.

Líneik Anna fagnaði því sérstaklega að texti menntastefnunnar væri stuttur og hnitmiðaðar. Það væri merki um vel ígrundaða og skýra stefnu. Jafnframt væri það góð tilbreyting fyrir skólafólk að fá hnitmiðaðan texta til að vinna eftir á máli sem allir skyldu.

„Ég vil líka nota þetta tækifæri og vekja athygli á tengslum menntastefnunnar við vinnu að umbótum í málefnum barna sem fram fer á vegum félags- og barnamálaráðherra. Áhersla menntastefnu um snemmbæran stuðning sem lið í jöfnum tækifærum fyrir alla og áhersla á ábyrgð og samhæfingu þjónustukerfa til að tryggja gæði er einmitt í fullu samræmi og beinum tengslum við vinnu að umbótum í málefnum barna,“ sagði Líneik Anna að lokum.

Categories
Fréttir

Er ekki boðið í hlaðborð bænda!

Deila grein

18/11/2020

Er ekki boðið í hlaðborð bænda!

„Hæstv. forseti. Fuglar eru bæði fallegir og skemmtilegir og gaman er að fylgjast með þeim í náttúrunni. En aukið fæðuframboð veldur fjölgun í stofnum. Síðustu ár hefur álft og gæs fjölgað gríðarlega. Fuglarnir vita sínu viti. Þeir sækja í hlaðborð af góðu grasi og kornið sem er í boði bænda en hlaðborðið er reyndar ekki þeim ætlað. Á vissum svæðum hafa álft og gæs hreinlega gleypt í sig alla uppskeruna. Þær eru gjörsamlega lausar við allar áhyggjur af beitarstýringu og lúta eðlilega engum reglum mannanna,“ sagði Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins í dag.

„Ágangur álfta og gæsa veldur bændum miklu fjárhagslegu tjóni. Bændur hafa reynt að verjast ágangi fugla með ýmsum hætti, bæði með sjónrænum og hljóðrænum aðferðum. Þær duga þó skammt þar sem fuglinn er fljótur að venjast fælunum og kemur fljótt aftur í tún og akra. Með vörnunum er aðeins verið að hrekja fuglana tímabundið af ákveðnum svæðum en þeir leita þá gjarnan til næsta bónda. Slík tilfærsla á vandamálinu er ekki skynsamleg lausn til lengdar og er því nauðsynlegt að bregðast við. Þess vegna hefur sú sem hér stendur ásamt fleirum lagt fram þingsályktunartillögu. Þar er lagt til að umhverfis- og auðlindaráðherra útbúi tillögu til tímabundinna og skilyrtra veiða á álft og gæs utan hefðbundins veiðitíma,“ sagði Þórunn.

„Ef ekki verður brugðist við ákalli bænda, um verkfæri til að verja ræktarlönd, má jafnvel búast við að kornrækt leggist af á ákveðnum svæðum. Það fellur engan veginn að hugmyndum um Matvælalandið Ísland. Hér er ekki lögð fram tillaga um að heimila veiðar úti um allt land alla daga heldur einskorðast tillagan við tjónveiðar á afmörkuðu tímabili þegar sýnt er fram á þungar búsifjar. Hér er um að ræða undanþágu til veiða á þeim svæðum þar sem þörf er talin á aðgerðum vegna ágangs og fugla á tún og akra. Samhliða þessu verður einnig gerð áætlun um að tryggja vernd stofnanna. Nýting og vernd þurfa alltaf að vera í jafnvægi,“ sagði Þórunn að lokum.

Categories
Fréttir

Lilja kynnir nýja menntastefnu!

Deila grein

17/11/2020

Lilja kynnir nýja menntastefnu!

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mælti í dag fyrir þingsályktunartillögu um menntastefnu til ársins 2030. Þingsályktunin er afrakstur yfirgripsmikils samráðs við skólasamfélagið og aðra hagaðila sem hófst veturinn 2018/2019 þegar haldnir voru 23 fræðslu- og umræðufundir um menntamál vítt og breitt um landið. Drög menntastefnunnar voru síðan til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda sl. vetur og bárust margar gagnlegar umsagnir og athugasemdir sem unnið var úr. Þá hafa sérfræðingar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD) verið til ráðgjafar við mótun stefnunnar og skilgreiningar markmiða hennar.

„Á tímum umskipta, óvissu og örra tæknibyltinga verða þjóðir heims að búa sig undir sífellt flóknari áskoranir. Framtíðarhorfur okkar samfélags velta á samkeppnishæfni og sjálfbærni íslenska menntakerfisins. Ný menntastefna tekur mið af því hvernig menntun styrkir, verndar og vekur viðnámsþrótt einstaklinga og samfélaga. Það gleður mig að hún er nú til umræðu hér á Alþingi og fagna umræðu um inntak hennar og framtíðarsýn,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. 

Markmið nýrrar menntastefnu er að veita framúrskarandi menntun í umhverfi þar sem allir geta lært og allir skipta máli. Því eru leiðarljós hennar: þrautseigja, hugrekki, þekking og hamingja. 

Stoðir stefnunnar eru: 

I. Jöfn tækifæri fyrir alla
II. kennsla í fremstu röð
III. hæfni fyrir framtíðina
IV. vellíðan í öndvegi
V. gæði í forgrunni

Ráðgert er að innleiðingu menntastefnunnar verði skipt í þrjú tímabil og að við upphaf hvers tímabils verði lögð fram slík áætlun ásamt aðgerðum og árangursmælikvörðum. Fyrirhugað er að fyrsta áætlunin verði lög fram og kynnt af mennta- og menningarmálaráðherra innan sex mánaða frá samþykkt þingsályktunarinnar.

Hér má lesa þingsályktunartillöguna.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

„Góðar fréttir fá jafnvel litla athygli“

Deila grein

16/11/2020

„Góðar fréttir fá jafnvel litla athygli“

„Margar stórfréttir renna hjá á þessum skrýtnu tímum sem við lifum nú, en þær lifa stutt og gleymast stundum hratt. Góðar fréttir fá jafnvel litla athygli, en það er einmitt ein slík sem ég vil vekja athygli á. Hún kom fram fyrir nokkru síðan, en til að setja það í samhengi og tímalínu var það um það leyti þegar jörðin skalf hvað harðast,“ sagði Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins í liðinni viku. 

„Sumar fréttir fjölluðu um hve stöku þingmenn hlaupa hratt en aðrar um hve aðrir eru magnaðir í að sitja sem fastast. Sitt sýnist hverjum og allir eru góðir í einhverju en enginn er góður í öllu. En fréttina, sem ég vil draga athygli að, má rekja til þess að mikið óveður skall á landið í lok síðasta árs sem varð m.a. til þess að víðtæk og viðamikil truflun varð á fjarskiptum.“

„Forstjóri Neyðarlínunnar, Þórhallur Ólafsson, kallaði eftir stórátaki til að koma í veg fyrir endurtekningu á þessu ástandi því truflun á fjarskiptum orsakaðist í um 80% tilvika af rafmagnsskorti. Í kjölfarið var skipaður átakshópur um eflingu innviða á flutningskerfi og dreifikerfi raforku og fjarskipta. Markmið hópsins var að kortleggja nauðsynlegar úrbætur á innviðum. Hópurinn lagði m.a. til að traust grunnnet fjarskipta yrði tryggt, m.a. með hliðsjón af aðgengi og öryggi. Fjarskiptasambönd skulu uppfylla þarfir almennings og viðbragðsaðila í neyðartilvikum, t.d. sambærilegu óveðri,“ sagði Þórunn.

„Skemmst er frá því að segja að nú hefur kerfið verið bætt á 60 stöðum, settar hafa verið upp varaaflsstöðvar og færanlegar rafstöðvar eru orðnar 25. Þetta er einungis hluti aðgerða sem lúta að því að bæta búsetuskilyrði um landið allt. Það var því gott að heyra áðurnefndan forstjóra Neyðarlínunnar koma fram í fréttum og segja að nú verði tryggt að landsmenn geti hringt í 112 þótt rafmagnsleysi verði.“

„Hæstv. forseti. Það gerist nefnilega margt gott þessa dagana þótt vissulega reyni á, nú þegar við erum á aukaæfingu í óvissuþoli og þrautseigju. Áfram veginn,“ sagði Þórunn að lokum.

  • Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins 13. nóvember 2020.
Categories
Fréttir

Lýðheilsa er fjölþætt og kallar á lausnir á öllum sviðum samfélagsins

Deila grein

16/11/2020

Lýðheilsa er fjölþætt og kallar á lausnir á öllum sviðum samfélagsins

Willum Þór Þórsson, alþingismaður, sagði á Alþingi í liðinni viku að „[e]itt af því sem við leiðum hugann frekar að við þær aðstæður sem við erum að kljást við er lýðheilsa“. 

Willum Þór sagði lýðheilsu vera fjölþætta, enda snéri hún að líkamlegu, félagslegu og andlegu heilbrigði manna. Minnti hann á að allt íþróttastarf yrði að komast af stað að sem fyrst enda mikilvægasta forvörnin til góðrar lýðheilsu.

„Um leið þakka ég og hrósa stjórnvöldum og skólafólki, ekki síst, fyrir að halda skólastarfi gangandi. Það er ómetanlegt og afar mikilvægt framlag til lýðheilsu,“ sagði Willum Þór.

„Ég vil nota tækifærið hér, virðulegi forseti, til að vekja athygli á skilaboðum Geðhjálpar um undirskriftasöfnun sem er í gangi um að setja geðheilbrigði í forgang. Ég vil um leið hnykkja á þeim aðgerðum sem miða að því að hlúa að geðheilbrigði. Þessi skilaboð eru mikilvæg, ekki síst á þessum tímum og minna okkur um leið á mikilvægi forvarnarstarfs. Ég hef auðvitað ekki tíma hér, á þessum tveimur mínútum, til að fara yfir allar nýjar aðgerðir en allar eru þær góðar. Ég vil nefna heildarúttekt á umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi sem er algerlega tímabær til að ná utan um málaflokkinn og tryggja samhæfingu ólíkra málefnasviða og í framhaldinu gagnsæi útgjalda og samspil við aðra þætti samfélagsins. Aukinn stuðningur og fræðsla til foreldra og aukin áhersla á þennan þátt í skólakerfinu og stofnun Geðráðs er mikilvægur liður í að fylgja eftir stefnumótun og aðgerðum á þessu sviði,“ sagði Willum Þór að lokum.

  • Willum Þór Þórsson, alþingismaður, í störfum þingsins 5. nóvember 2020.
Categories
Fréttir

Margar aðgerðir eru komnar til að vera, einkum þær sem snúa að viðkvæmum hópum

Deila grein

16/11/2020

Margar aðgerðir eru komnar til að vera, einkum þær sem snúa að viðkvæmum hópum

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, gerði að umtalsefni á Alþingi í liðinni viku að hollt væri að rifja upp allt það sem vel hefur tekist til í óvæntum aðstæðum. Fór hún sérstaklega yfir þær félagslegu aðgerðir sem farið hefur verið í vegna Covid.

„Stjórnvöld hafa nú þegar notað rúmlega 22 milljarða í úrræði til að viðhalda ráðningarsambandi og tryggja afkomu fólks. Þar vegur hlutabótaleiðin þyngst en alls hafa yfir 35.000 launþegar hjá 6.600 atvinnurekendum fengið greiddar hlutabætur frá því að lögin voru samþykkt en gera má ráð fyrir að 79% þeirra séu enn í ráðningarsamning við vinnuveitenda. Laun hafa verið greidd í sóttkví og tímabundin sumarstörf fyrir námsmenn orðið til hjá ríki og sveitarfélögum,“ sagði Líneik Anna.

Benti Líneik Anna á að framfærendur fatlaðra og langveikra barna hafi getað sótt um eingreiðslu vegna aukinnar umönnunar. Þá voru í vor settar 386 milljónir í ýmsar félagslegar aðgerðir, svo sem Hjálparsíma, 1717, unnið var með Móðurmáli, samtökum um tvítyngi, að fjarkennslu og heimanámsaðstoð og upplýsingar um Covid gerðar aðgengilegar á ýmsum tungumálum. Raunin varð að mikið var óskað eftir þessari þjónustu.

Sagði Líneik Anna ótal margar aðrar aðgerðir sem snúa sérstaklega að vernd heimila, vinnumarkaðsmálum, tómstundastarfi og innflytjendum hafi jafnframt heppnast vel.

„Það er ljóst að þegar allir leggjast á eitt finnast leiðir til að koma okkur í gegnum Covid. Mörg þessara verkefna og aðgerða þarf svo að þróa áfram meðan Covid stendur yfir og sumar eru komnar til að vera, einkum þær sem snúa að viðkvæmum hópum,“ sagði Líneik Anna að lokum.

  • Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins 5. nóvember 2020.
Categories
Fréttir

Tveir fyrrum formenn SUF bornir til grafar í dag

Deila grein

11/11/2020

Tveir fyrrum formenn SUF bornir til grafar í dag

Í dag eru bornir til grafar tveir fyrrum formenn Sambands Ungra Framsóknarmanna, þeir Örlygur Hálfdánarson og Már Pétursson. Framsóknarfólk vottar aðstandendum sína dýpstu samúð.

Örlygur Hálfdánarson

Örlygur var formaður Sambands ungra Framsóknarmanna 1960-1966. Hann fæddist 21. desember 1929 í Viðey á Kollafirði og ólst þar upp og á Seltjarnarnesi og lést á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík 30. október 2020.

„Ég hefi sjaldan heyrt hina svonefndu einstaklingshyggjumenn  viðurkenna jafn augljóslega yfirburði samvinnunnar heldur enn þessa þrjá menn, því það gerðu þeir með því að koma hvergi inn á megin málið, samvinnuhugsjónina, en voru sífellt að japla á gömlum lummum úr æskulýðssíðu Morgunblaðsins. Samvizkan hlýtur að kvelja þessa ungu menn, sem augsýnilega viðurkenna gildi og mátt samvinnuhreyfingarinnar í hjarta sínu en afneita henni þó.  – Örlygur Hálfdánarson á kappræðufundi milli Samvinnuskólans og Verzlunarskólans vorið 1954.

Örlygur kom meðal annars að stofna og var fyrsti formaður félags ungra samvinnumanna, sem fékk nafnið Fræðslu- og kynningarsamtök ungra samvinnumanna, skammstafað FOKUS. Hlutverk félagsins var að auka kynni á samvinnustefnunni meðal æskufólks. Örlygur var jafnframt duglegur að flytja erindi um ræðumennsku og fundarstjórn og fundarreglur, áður en hann varð formaður SUF.

Frétt frá 8. þingi SUF 1960:
Frétt frá 11. þingi SUF 1966:

Már Pétursson

Már var formaður Sambands ungra Framsóknarmanna 1970-1972. Hann fæddist á Guðlaugsstöðum í Blöndudal 11. desember 1939 og lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 31. október 2020.

Á formannsárum Más gaf Samband ungra Framsóknarmanna m.a. út bókina „Land í mótun — byggðaþróun og byggðaskipulag“ en höfundur hennar var Áskell Einarsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Húsavík og síðar framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Norðlendinga. Fjallar bókin um þróun og skipulag byggðanna.

Frétt frá 13. þingi SUF 1970:
Frétt frá 14. þingi SUF 1972:
Categories
Fréttir

Nýr þjóðarleikvangur

Deila grein

11/11/2020

Nýr þjóðarleikvangur

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur fengið samþykkt í ríkisstjórn að hefja viðræður við Reykjavíkurborg um næstu skref vegna byggingar nýs þjóðarleikvangs í knattspyrnu.

„Laugardalsvöllur var reistur af stórhug fyrir 63 árum og hefur reynst vel – fært þjóðinni ógleymanleg augnablik og skilað íslensku knattspyrnufólki á stærstu úrslitakeppnir í heimi,“ segir Lilja Dögg.

„Hann er hins vegar barn síns tíma og langt frá því að uppfylla viðmið, m.a. um öryggi og aðstöðu vallargesta, aðgengi fatlaðs fólk, aðstöðu leikmanna, dómara og fjölmiðla, hitakerfi o.s.frv. Það er því löngu tímabært að ráðast í byggingu nýs þjóðarleikvangs og ég er vongóð um að hann muni rísa á næstu 5 árum.“

Með viðræðum við Reykjavíkurborg er mikilvægt skref stigið í að byggja keppnisaðstöðu sem stenst alþjóðlegar kröfur, en undanfarin ár hefur Laugardalsvöllur þurft undanþágur og sérstakan viðbúnað vegna keppnisleikja í alþjóðlegum mótum. Viðræðurnar munu byggja á valkostagreiningu breska ráðgjafafyrirtækisins AFL, sem varð hlutskarpast í útboði sem efnt var til á evrópska efnahagssvæðinu snemma árs. Í greiningunni er kostnaðar- og tekjumat eftirtalinna valkosta, auk viðskiptaáætlunar og mats á efnahagslegum þáttum:

  • Að núverandi völlur verði að mestu leyti óbreyttur, en ráðist verði í lágmarksendurbætur og -lagfæringar.
  • Að Laugardalsvöllur verði endurbættur svo hann uppfylli kröfur og staðla Knattspyrnusambands Evrópu (EUFA) og Alþjóða knattspyrnusambandsins (FIFA).
  • Að byggður verði nýr 15.000 manna leikvangur, með opnanlegu þaki eða án þaks.
  • Að byggður verði fjölnotaleikvangur með 17.500 sætum, með opnanlegu þaki eða án þaks.

Völlur með sætum fyrir 15.000 áhorfendum talinn hagkvæmasti kosturinn
AFL telur að 15.000 manna leikvangur án þaks sé hagkvæmasti kosturinn, ef eingöngu sé horft til beinna fjárhagslegra þátta. Hins vegar myndi slíkur leikvangur með opnanlegu þaki skila bestu heildarniðurstöðunni m.t.t. vinnsluvirðis, efnahagslegra áhrifa, nýtingar og fleiri þátta. Þá telur AFL að ofangreindir valkostir A og B séu ekki fýsileg langtímalausn.

Valkostagreiningin var unnin að undirlagi Þjóðarleikvangs ehf., félags sem KSÍ, Reykjavíkurborg og ríkið stofnuðu til að halda utan um verkefnið.