Categories
Fréttir Greinar

Staðið við bakið á Grindvíkingum

Deila grein

27/11/2023

Staðið við bakið á Grindvíkingum

Föstu­dags­kvöldið 10. nóv­em­ber 2023 mun aldrei líða Grind­vík­ing­um úr minni. Aldrei áður hafa all­ir íbú­ar heils bæj­ar­fé­lags á Íslandi fengið þau fyr­ir­mæli frá al­manna­varna­yf­ir­völd­um að þeir verði að yf­ir­gefa heim­ili sín inn­an þriggja klukku­stunda vegna yf­ir­vof­andi ógn­ar. Á þessu augna­bliki og öll­um síðan hafa all­ir Íslend­ing­ar fundið til sam­kennd­ar með Grind­vík­ing­um. Viðbrögð þjóðar­inn­ar hafa verið sterk og all­ir lagst á ár­arn­ar við að létta und­ir með Grind­vík­ing­um og eyða eft­ir megni þeirri óvissu sem rík­ir.

Grind­vík­ing­ar eru ekki heima hjá sér þessa dag­ana. Sam­fé­lag þeirra er dreift um landið en ég finn í sam­töl­um mín­um við Grind­vík­inga að hug­ur­inn er heima. Auðvitað.

Frá því að Grind­vík­ing­ar þurftu að yf­ir­gefa bæ­inn sinn hef­ur rík­is­stjórn­in lagt alla áherslu á að styðja við bæj­ar­yf­ir­völd í þeim flóknu verk­efn­um sem við blasa. Það er mik­il­vægt að for­svars­fólk sveit­ar­fé­lags­ins stjórni ferðinni þegar um bæj­ar­fé­lagið þess er að ræða. Rík­is­stjórn­in og öll stjórn­sýsla rík­is­ins er þeim til stuðnings. Það hef­ur verið aðdá­un­ar­vert að fylgj­ast með bæj­ar­stjóra og öðrum þeim sem standa í stafni sveit­ar­fé­lags­ins. Og þakk­arvert að sjá þá miklu vinnu sem viðbragðsaðilar hafa lagt af mörk­um síðustu vik­ur.

Rík­is­stjórn­in hef­ur verið í góðu sam­bandi við bæj­ar­stjóra Grinda­vík­ur um þau verk­efni sem snúa að stjórn­völd­um. Við höf­um stutt við bor­an­ir eft­ir neyslu­vatni vegna hætt­unn­ar af því að vatns­ból Suður­nesja­manna spill­ist. Við höf­um veitt all­ar þær und­anþágur sem þarf til að sveit­ar­stjórn Grinda­vík­ur starfi utan ráðhúss Grinda­vík­ur. Stærsta verk­efnið er þó ann­ars veg­ar að tryggja ör­yggi og fram­færslu og hús­næði. Að öllu þessu hef­ur verið unnið hörðum hönd­um í sam­vinnu við Grinda­vík­ur­bæ þá sól­ar­hringa sem liðnir eru frá rým­ingu.

Fyrsti þátt­ur hús­næðismál­anna var að koma öll­um Grind­vík­ing­um í ör­uggt skjól. Al­manna­varn­ir í sam­starfi við Rauða kross­inn unnu þann þátt hratt og vel. Nú hafa þau rétt keflið til rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem hef­ur lagt nótt við dag að vinna að lausn­um til næstu mánaða. Auðvitað í sam­starfi við Grind­vík­inga. Ann­ars veg­ar er unnið að því að HMS með leigu­fé­lag­inu Bríeti og íbúðafé­lag­inu Bjargi kaupi hús­næði sem get­ur hýst allt að 200 grind­vísk­ar fjöl­skyld­ur á allra næstu vik­um. Hins veg­ar er ann­ar hóp­ur sem hef­ur það hlut­verk að finna ein­inga­hús sem henta Grind­vík­ing­um og finna staðsetn­ingu þar sem slík­um hús­um er hægt að koma niður hratt og ör­ugg­lega. Von­ir standa til að slíkt ferli geti skilað því að á fyrstu mánuðum nýs árs geti Grind­vík­ing­ar flutt tíma­bundið inn í þau hús.

Af­koma fólks­ins í Grinda­vík hef­ur ásamt hús­næðismál­un­um verið í al­gjör­um for­gangi hjá rík­is­stjórn­inni. Sér­stakt frum­varp um tíma­bund­inn stuðning til greiðslu launa var lagt fyr­ir Alþingi fyrr í vik­unni og verður von­andi af­greitt sem lög í upp­hafi næstu viku. Þá var einnig samþykkt í rík­is­stjórn í gær frum­varp um sér­tæk­an hús­næðisstuðning við Grind­vík­inga.

Sam­fé­lag er meira en póst­núm­er. Það er allt skóla­starfið, fé­lags­lífið, vinnustaðirn­ir. Nú er þetta sam­fé­lag tvístrað um stund. En ekki sam­kennd­in. Það fann ég sterkt þegar ég heim­sótti miðstöð Grind­vík­inga í Toll­hús­inu fyrr í vik­unni. Þar ríkti sam­hug­ur og von um að geta snúið aft­ur heim. Heim í Grinda­vík.

Ég get ekki lofað því að næstu vik­ur og mánuðir verði auðveld­ur tími fyr­ir Grind­vík­inga. En ég get lofað því að rík­is­stjórn­in mun gera allt sem í henn­ar valdi stend­ur til að draga úr óvissu og standa vörð um Grind­vík­inga þar til þeir snúa heim.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar og innviðaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Traust og ábyrgð

Deila grein

14/10/2023

Traust og ábyrgð

Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki og Vinstrihreyfingunni – grænu framboði hefur undanfarin ár verið treyst til að takast á við stórar áskoranir með hagsmuni almennings að leiðarljósi og undir því trausti höfum við staðið. Í síðustu kosningum fékk ríkisstjórnin skýrt endurnýjað umboð og gerði með sér sáttmála um áframhaldandi samstarf. Við höfum verið einhuga um að rísa undir því trausti og þeirri ábyrgð að vinna fyrir fólkið í landinu.

Ríkisstjórnin hefur undanfarið unnið að fjölmörgum verkefnum á grundvelli stjórnarsáttmála og drjúgur meirihluti þeirra er kominn vel á veg eða þeim lokið. Á síðari hluta kjörtímabilsins ætlum við að halda ótrauð áfram. Það eru krefjandi aðstæður uppi um þessar mundir og brýn verkefni fram undan. Verðbólga hefur haft áhrif á allt samfélagið. Fólk og fyrirtæki hafa glímt við hækkandi vexti sem reynist mörgum þungt. 

Stærsta verkefni vetrarins er að ná tökum á verðbólgunni. Til að svo megi verða þarf áframhaldandi aðhald í ríkisfjármálum. Á sama tíma ætlum við áfram að veita viðkvæmum hópum skjól fyrir áhrifum hennar. Þrátt fyrir áskoranir er grunnurinn sem lagður hefur verið síðustu ár traustur. Atvinnuleysi er í lágmarki og nýjum tækifærum fjölgar í stöðugt fjölbreyttara atvinnulífi. Afkoma og skuldastaða ríkissjóðs eru langt umfram fyrri væntingar og fara hratt batnandi. Raunhæfar væntingar eru um að verðbólga lækki hratt næstu mánuði og að við náum efnahagslegum stöðugleika á nýju ári. Það er okkar að tryggja að sá ábati skili sér inn á heimilin í landinu.

Það eru hagsmunir allra að farsælir kjarasamningar náist á vinnumarkaði til að skapa forsendur fyrir lækkun verðbólgu og vaxta. Aðilar vinnumarkaðarins hafa kallað eftir áframhaldandi stuðningi við lífskjör launafólks, traustri umgjörð kjarasamninga, stöðugu framboði og öryggi á húsnæðismarkaði og bættri afkomu barnafjölskyldna. Við munum eiga samtal við forystufólk launafólks og atvinnurekenda og leggja okkar af mörkum til að greiða fyrir farsælum langtímasamningum. 

Til að ná sátt og jafnvægi í íslensku samfélagi verður áhersla ríkisstjórnar Íslands næstu mánuði fyrst og fremst á efnahagsmálin og það brýna verkefni að ná niður verðbólgu og vöxtum. Við höfum áður mætt erfiðum aðstæðum. Þeim erfiðleikum höfum við mætt af yfirvegun og öryggi. Það mun ekki breytast. Því getur þjóðin treyst.

Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.

Categories
Fréttir Greinar

Hálfleikur

Deila grein

25/09/2023

Hálfleikur

Í dag eru liðin slétt tvö ár frá Alþingiskosningum. Í þeim vann Framsókn frækinn kosningasigur sem skilaði flokknum 13 þingmönnum og tryggði áframhaldandi stjórnarsamstarf Framsóknar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Sjálfstæðisflokks. Á þeim sex árum sem liðin eru hefur mikið mætt á íslensku samfélagi en um leið hefur mikið áunnist.

Þrátt fyrir að ég hafi síðustu vikur þurft að fara mér hægt vegna aðgerðar sem ég gekkst undir í byrjun mánaðarins hef ég ekki farið varhluta af umræðunni í samfélaginu. Ég finn áhyggjur fólks aukast af afkomu sinni vegna hárrar verðbólgu. Hún er stærsta áhyggjuefnið og stærsta verkefnið sem samfélagið tekst á við þessi misserin. Til að verðbólgan verði kveðin í kútinn þá er ekkert annað í boði en að við stöndum saman.

Samstaða

Íslenskt samfélag er gott. Okkur hefur í gegnum tíðina auðnast að standa saman þegar á bjátar. Skýrasta dæmið um það síðustu árin er heimsfaraldurinn. Í honum sýndi samfélagið að það er fullt af hlýju og samlíðan. Segja má að verðbólgan sé faraldur en stóri munurinn er þó sá að covid lagðist ekki misjafnlega á fólk eftir stöðunni á bankabókinni. Í baráttunni við verðbólguna er erfiðara að ná samstöðu um aðgerðir því þær bitna misjafnlega á fólki eftir því hvernig það stendur fjárhagslega. Hagsmunir heimilanna og lífsgæði barna eru mikilvægasti þátturinn sem taka verður tillit til þegar aðgerðir gegn og vegna verðbólgu eru ákveðnar.

Agi eða örvænting?

Því miður eru engar töfralausnir til sem lækka verðbólgu bara sisona. Agi og samstaða eru lykilþættir í þeirri baráttu. Þegar stjórnmálin standa frammi fyrir erfiðum áskorunum eiga sumir það til að flýja ábyrgð sína og byrja að hrópa á torgum um hin og þessi málefni sem þeir telja geta gefið þeim fleiri like og jafnvel prósentustig í könnunum. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að ríkisstjórnarflokkarnir hafa misst fylgi á síðustu mánuðum. Því fylgir oft titringur eins og fólk hefur tekið eftir. Einstaka stjórnmálamenn og flokkar fara þá ókyrrast og ýfa fjaðrirnar, pota í aðra, stíga á tær, allt til að skapa um sig umtal. Sumir leita uppi leðju til að sletta og polla til að hræra upp í til að skapa ótta, óþol og öfund með von um að þeir sjálfir komist í sviðsljósið. En örvænting fer engum vel. Nær væri að fólk myndi setjast niður og hugsa hvernig best sé að skapa almenna samstöðu um framtíðarsýn og síðast en ekki síst skapa aukið traust á stjórnmálunum og efnahagsstjórn landsins.

Dómsdagsspámenn

Þessa dagana er ekki skortur á dómsdagsspám um ríkisstjórnarsamstarfið í fjölmiðlum, heitum pottum og einstaka þingflokksherbergjum. Það lækkar ekki verðbólgu. Fyrir nokkrum dögum rakst ég á konu sem hafði á orði við mig að henni þætti útlitið nú ekki bjart fyrir stjórnina, hver höndin upp á móti annarri og erfitt að ímynda sér að hún væri á vetur setjandi. Ég sagði við hana að vissulega mætti fólk stundum anda aðeins með nefinu áður en það léti vaða á samstarfsfólk sitt en þetta væri aðallega merki um stress. Eftir smá spjall urðum við sammála um það að það væri nú ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á það að skorast undan ábyrgð á erfiðum tímum. Allavega myndi Framsókn ekki gefast upp.

Seinni hálfleikur

Það eru tvö ár liðin af kjörtímabilinu og við í Framsókn erum stolt af því sem við höfum áorkað á þeim tíma. Leikurinn er þó ekki búinn. Það eru ýmsar áskoranir sem íslenskt samfélag tekst á við. Við í Framsókn byrjum seinni hálfleik með sömu markmið og áður: Að vinna af heilindum að umbótum fyrir íslenskt samfélag með samvinnu. Það er bjargföst skoðun mín að til að ná sigri í baráttunni við verðbólgu verða einhverjir að gefa eftir en fyrst og fremst verða allir að gefa af sér.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og innviðaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Réttlátari húsnæðismarkaður

Deila grein

31/08/2023

Réttlátari húsnæðismarkaður

Á haustþingi lít­ur dags­ins ljós þings­álykt­un­ar­til­laga um hús­næðis­stefnu fyr­ir Ísland en stefn­an var kynnt á Hús­næðisþingi í gær. Það kann að hljóma ein­kenni­lega en það verður í fyrsta sinn sem slík til­laga er lögð fyr­ir Alþingi Íslend­inga. Helsta ástæðan fyr­ir því að slík til­laga hef­ur aldrei áður litið dags­ins ljós er lík­ast til sú að það er ekki fyrr en með nýju innviðaráðuneyti sem hús­næðis- og mann­virkja­mál, skipu­lags­mál og sveit­ar­stjórn­ar­mál eru í fyrsta sinn öll und­ir ábyrgðarsviði eins og sama ráðherr­ans.

Markaður­inn þarf aðstoð

Drög að hús­næðis­stefnu hafa verið í sam­ráðsgátt stjórn­valda síðustu vik­ur og lýk­ur hinu opna sam­ráði mánu­dag­inn 4. sept­em­ber. Meg­in­inn­tak stefn­unn­ar er að hús­næði sé hluti af vel­ferð okk­ar allra. Við þurf­um öll þak yfir höfuðið. Segja má að sú stefna, eða stefnu­leysi, sem ríkt hef­ur feli í stuttu máli í sér að hinn frjálsi markaður eigi að sjá um hús­næðis­stefn­una með lög­mál­um markaðar­ins. Mín skoðun er sú að málið sé ekki svo ein­falt þegar um er að ræða grunnþarf­ir mann­eskj­unn­ar sem hús­næði er svo sann­ar­lega. Það eru og verða alltaf ein­stak­ling­ar og fjöl­skyld­ur sem eiga ein­hverra hluta vegna erfitt með að eign­ast þak yfir höfuðið. Við get­um sem sam­fé­lag ekki snúið blinda aug­anu að þeirri staðreynd. Við erum nor­rænt vel­ferðarsam­fé­lag og get­um lært mikið af frænd­um okk­ar ann­ars staðar á Norður­lönd­um sem hafa þróað öfl­ugt kerfi í kring­um hús­næðismál, ekki síst út frá vel­ferðarsjón­ar­miðum.

Kyn­slóðarúll­ett­an

Stærsta verk­efni stjórn­mál­anna nú er að ná bönd­um á verðbólgu og skapa aðstæður fyr­ir lægri vexti. Það er því stór­kost­legt efna­hags­legt verk­efni að byggja upp hús­næðismarkað sem er laus við þess­ar ýktu sveifl­ur sem við höf­um búið við síðustu ár og ára­tugi, ýkt­ar sveifl­ur á verði hús­næðis sem koma af full­um þunga inn í hús­næðislið vísi­töl­unn­ar sem ekki hef­ur náðst samstaða um að breyta. Því miður. Þess­ar ýktu sveifl­ur búa til eins kon­ar kyn­slóðarúll­ettu sem ger­ir það að verk­um að það að koma þaki yfir höfuðið leggst á órétt­lát­an hátt mis­jafn­lega á kyn­slóðir fyrstu kaup­enda.

Tvenns kon­ar mark­mið

Hús­næðis­stefn­an fel­ur í sér tvenns kon­ar mark­mið. Ann­ars veg­ar mark­miðið um að ná jafn­vægi á hús­næðismarkaði til lengri tíma með því að vinna upp þá upp­bygg­ing­ar­skuld sem orðið hef­ur til eft­ir frostið í kjöl­far banka­hruns­ins og ófull­nægj­andi fram­boðs lóða. Sú yf­ir­sýn sem við höf­um öðlast með þétt­ara sam­starfi rík­is, sveit­ar­fé­laga og bygg­ing­araðila er mik­il­væg­ur grunn­ur til að standa á til að ná þess­um mark­miðum til lengri tíma. Nauðsyn­legt er talið að byggja 35 þúsund íbúðir á næstu tíu árum.

Hins veg­ar er um að ræða skamm­tíma­mark­mið sem miða að því að taka utan um þá hópa sem veik­ast standa fjár­hags­lega og eiga í erfiðleik­um með að eign­ast eða leigja hús­næði. Við vinnu við fjár­mála­áætl­un til árs­ins 2028 var aukið veru­lega við stuðning við hús­næðis­upp­bygg­ingu, bæði með hækk­un stofn­fram­laga til bygg­ing­ar hag­kvæms hús­næðis á viðráðan­legu verði og með breyt­ing­um á skil­mál­um hlut­deild­ar­lána.

Línu­dans á tím­um verðbólgu

Upp­bygg­ing á tím­um verðbólgu er línu­dans. Gæta verður að því að auka ekki á þenslu á sama tíma og vinna verður gegn hús­næðis­skorti sem leiðir til hækk­un­ar á hús­næðis­verði og þar af leiðandi hærri verðbólgu. Þau verk­færi sem eru í verk­færa­k­istu hins op­in­bera og þróuð hafa verið frá því Fram­sókn hélt um tauma í fé­lags­málaráðuneyt­inu árin 2013-2016 og síðar 2017-2021 hafa reynst vel í yf­ir­stand­andi vinnu og munu gera það áfram. Í þeirri kistu er að finna tæki til að skapa jafn­vægi fram­boðs og eft­ir­spurn­ar.

Mik­il­vægt að tryggja ör­yggi leigj­enda

Eitt af því sem verk­tak­ar hafa gagn­rýnt er að verið sé að leggja áherslu á upp­bygg­ingu þroskaðs leigu­markaðar. Þess má geta að leigu­markaður­inn á Íslandi er gjör­ólík­ur því sem þekk­ist hjá hinum nor­rænu þjóðunum. Hann er mun minni og ein­kenn­ist miklu síður af óhagnaðardrifn­um leigu­fé­lög­um. Þeir sem hafa sökkt sér ofan í aðstæður á ís­lensk­um leigu­markaði kom­ast fljótt að því að það sem ein­kenn­ir hann er óör­yggi leigj­enda og er ekki óal­gengt að heyra sög­ur af fólki sem þarf að vera í stöðugum flutn­ing­um milli skóla­hverfa til að tryggja börn­um sín­um þak yfir höfuðið. Ég hef alla tíð verið talsmaður þess að fólk eigi helst að eiga frek­ar en leigja en við get­um ekki horft fram hjá því að alltaf er ein­hver hóp­ur fólks sem annaðhvort vill eða verður að búa í leigu­hús­næði. Það er óá­byrgt að láta sem þessi hóp­ur sé ekki til þótt hann sé ekki stór.

Kæri les­andi.

Fátt er mik­il­væg­ara fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag en það að skapa for­send­ur fyr­ir rétt­lát­ari hús­næðismarkaði. Stór skref hafa verið stig­in á síðustu árum og ný hús­næðis­stefna verður mik­il­væg­ur liður í því að bæta lífs­kjör á Íslandi. Hús­næðismál eru ekki aðeins spurn­ing um vel­ferð held­ur einnig stórt efna­hags­mál. Aukið fram­boð nýrra íbúða á næstu árum er nauðsyn­legt til þess að koma á jafn­vægi á hús­næðismarkaði til framtíðar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. ágúst 2023.

Categories
Fréttir Greinar

2.800 íbúðir fyrir tekju- og eignaminni

Deila grein

22/06/2023

2.800 íbúðir fyrir tekju- og eignaminni

Á þriðju­dag var stór stund í húsa­kynn­um Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un­ar þegar kynnt var þriggja millj­arða út­hlut­un til upp­bygg­ing­ar hag­kvæmra íbúða fyr­ir tekju- og eignam­inni. Á ár­un­um 2023-2025 verða byggðar 2.800 íbúðir fyr­ir þenn­an hóp sem er veru­leg aukn­ing frá fyrri áætl­un­um. Þar af verða 800 byggðar á þessu ári. Þessi út­hlut­un er liður í aðgerðum rík­is­stjórn­ar­inn­ar til að mæta þrýst­ingi á hús­næðismarkaði á krefj­andi verðbólgu­tím­um. Rík­is­stjórn­in hef­ur ákveðið að tvö­falda fram­lög til stofn­lána til leigu­íbúða inn­an al­menna íbúðakerf­is­ins og hlut­deild­ar­lána til íbúðakaupa. Fjár­mögn­un er tryggð með svig­rúmi í fjár­mála­áætl­un og hliðrun annarra verk­efna.

Minni sveifl­ur – meira jafn­vægi

Mik­il­væg­asta verk­efni þess­ara miss­era er að skapa jafn­vægi á hús­næðismarkaði. Við höf­um á síðustu árum og ára­tug­um upp­lifað gríðarleg­ar sveifl­ur á hús­næðismarkaðinum sem hafa ákaf­lega mik­il áhrif á verðbólgu og þar af leiðandi vaxtaum­hverfi fjöl­skyldna og fyr­ir­tækja. Þess­ar miklu sveifl­ur koma verst niður á þeim sem minnst hafa á milli hand­anna.

Stuðning­ur til að eign­ast eða leigja

Við höf­um á síðustu árum verið að búa til nýja um­gjörð til að styðja við ungt fólk og aðra tekju­lága hópa við að eign­ast eða leigja hús­næði á viðráðan­legu verði. Skipta má kerf­inu í tvo hluta. Ann­ars veg­ar er það stofn­lána­kerfið þar sem stutt er við upp­bygg­ingu leigu­íbúða inn­an al­menna hús­næðis­kerf­is­ins. Með því að ríki og sveit­ar­fé­lög leggi til stofn­fram­lög til upp­bygg­ing­ar á veg­um óhagnaðardrif­inna leigu­fé­laga á borð við Bjarg og Bríeti þá er lagður grunn­ur að öfl­ugu al­mennu íbúðakerfi þar sem áhersl­an er lögð á að leigu­fjár­hæð sé að jafnaði ekki um­fram fjórðung tekna. Þar sem ekki er greidd­ur út arður úr leigu­fé­lag­inu þá munu fjár­mun­ir sem safn­ast upp inn­an þeirra verða nýtt­ir til frek­ari upp­bygg­ing­ar á leigu­íbúðum til tekju- og eignam­inni hópa.

Hins veg­ar er það hlut­deild­ar­lána­kerfið. Hlut­deild­ar­lán fel­ast í því að ríkið fjár­fest­ir 20% í eign­inni með fyrsta kaup­anda eða kaup­anda sem hef­ur ekki átt eign í til­tek­inn tíma og því þarf kaup­and­inn ein­ung­is að reiða fram 5% kaup­verðs í út­borg­un. Eng­ir vext­ir eða af­borg­an­ir eru af hlut­deild­ar­láni og þegar eign­in er seld þá fær ríkið sinn 20% hluta til baka. Há­marks­verð er á íbúðunum þannig að þær verði eins hag­kvæm­ar eins og kost­ur er með til­skil­inni stærð og her­bergja­fjölda. Þessi sér­eign­ar­leið höfðar til þeirra sem frek­ar vilja eiga en leigja.

Mark­mið að minnka þrýst­ing

Nú er tím­inn fyr­ir stjórn­völd til að stíga inn með stuðning við þá hópa sem erfiðast eiga með að eign­ast hús­næði eða leigja. Auk­inn stuðning­ur við upp­bygg­ingu hús­næðis fyr­ir þessa hópa er sveiflu­jöfn­un­araðgerð sem lækk­ar þrýst­ing­inn sem er á hús­næðismarkaði og minnk­ar lík­urn­ar á mikl­um hækk­un­um þegar fram í sæk­ir. Í fyrsta skipti eru stjórn­völd kom­in með heild­ar­y­f­ir­sýn yfir hús­næðismál­in. Nú liggja fyr­ir upp­lýs­ing­ar um hvernig hús­næði þarf að byggja, fyr­ir hverja og hvar, en einnig hvaða áform eru fyr­ir hendi um íbúðaupp­bygg­ingu. Sú yf­ir­sýn sem hef­ur náðst með nýju innviðaráðuneyti sem hús­næðis-, skipu­lags- og sveit­ar­stjórn­ar­mál heyra und­ir er gríðarlega mik­il­væg. Hið góða sam­starf á milli Hús­næðis- og mann­virkja­stof­un­un­ar, Skipu­lags­stofn­un­ar í sam­starfi við sveit­ar­fé­lög um að gera fer­il hús­næðis­upp­bygg­ing­ar að einu og skil­virku ferli er hryggj­ar­stykkið í því að okk­ur tak­ist að vinda ofan af því ójafn­vægi sem nú rík­ir í hús­næðismál­un­um.

Rétt­læti á hús­næðismarkaði

Nú er rétt ár síðan ég und­ir­ritaði ramma­sam­komu­lag við Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga um sam­eig­in­lega sýn um upp­bygg­ingu íbúðar­hús­næðis og mark­mið um 35 þúsund nýj­ar íbúðir á næstu tíu árum. Hálft ár er liðið frá fyrsta sam­komu­lagi innviðaráðuneyt­is­ins og HMS við Reykja­vík­ur­borg. Þetta þétta sam­starf rík­is og sveit­ar­fé­laga mark­ar tíma­mót í upp­bygg­ingu hús­næðis og mark­ar leiðina að jafn­vægi á hús­næðismarkaði. Jafn­vægi sem mun tryggja meira rétt­læti og ör­yggi á hús­næðismarkaði.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. júní 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Lýðveldið og framtíðin

Deila grein

17/06/2023

Lýðveldið og framtíðin

Það var fram­sýnt og þýðing­ar­mikið skref sem Alþingi Íslend­inga steig fyr­ir 79 árum, þegar tek­in var ákvörðun um stofn­un lýðveld­is­ins Íslands. Þar með lauk bar­áttu þjóðar­inn­ar fyr­ir fullu frelsi og nýr kafli í sögu henn­ar hófst. Það er enn rík ástæða til þess að fagna þess­um tíma­mót­um. Við fögn­um þess­um áfanga í dag en hverj­um þjóðhátíðar­degi má líkja við vörðu á veg­ferð frels­is og fram­fara til þess að gera ís­lenskt þjóðfé­lag betra í dag en það var í gær.

Saga fram­fara

Sum­um þótti það svaðilför og fjar­stæðukennt á sín­um tíma að þjóð sem taldi inn­an við 130 þúsund manns í svo stóru og víðfeðmu landi gæti dafnað og vaxið sem sjálf­stæð þjóð. Þegar litið er yfir tíma­bilið frá lýðveldis­töku þá er niðurstaðan skýr og ótví­ræð. Íslend­ing­um hef­ur farn­ast vel við að reisa þrótt­mikið og öfl­ugt sam­fé­lag sem þykir einkar far­sælt til bú­setu. All­ar göt­ur frá lýðveld­is­stofn­un hafa alþjóðateng­ing­ar verið sterk­ar og þjóðar­tekj­ur á hvern íbúa eru með þeim mestu í ver­öld­inni og lífs­kjör mjög góð í alþjóðleg­um sam­an­b­urði. Staða Íslands er sterk í sögu­legu sam­hengi þegar flest­ir vel­sæld­ar­mæli­kv­arðar eru kannaðir og skap­andi grein­ar blómastra. Slík­ur ár­ang­ur er ekki sjálf­gef­inn held­ur ligg­ur að baki þrot­laus vinna kyn­slóðanna sem byggt hef­ur landið.

Ábyrgð stjórn­mál­anna

Stjórn­mála­mönn­um hvers tíma er fal­in mik­il ábyrgð að halda á því fjör­eggi sem stjórn lands­ins er. Her­mann Jónas­son, fyrr­ver­andi formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins og for­sæt­is­ráðherra, komst vel að orði í blaðagrein sinni Lýðveldið og framtíðin í 17. júní út­gáfu Tím­ans árið 1944. Þar rit­ar Her­mann; „Í stað bar­átt­unn­ar fyr­ir því að öðlast sjálf­stæðið, hefst ný bar­átta því til varn­ar. Það er sá þátt­ur, sem nú er að hefjast. Það verður meg­in­hlut­verk okk­ar, er nú lif­um, – að tryggja hinu fengna frelsi ör­ugg­an, efna­leg­an og menn­ing­ar­leg­an grund­völl og skila því síðan óskertu til óbor­inna kyn­slóða“. Þetta eru orð að sönnu sem ávallt eiga er­indi við stjórn­mál­in. Að und­an­förnu höf­um við verið minnt á að frjáls sam­fé­lags­gerð er ekki sjálf­gef­in, meðal ann­ars með ófyr­ir­leit­inni og ólög­legri inn­rás Rúss­lands í Úkraínu. Árás­in vek­ur upp ófriðardrauga fortíðar frá tím­um seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar og kalda stríðsins. Þessi ógn­vekj­andi at­b­urðarás alþjóðamál­anna hef­ur sýnt enn frek­ar fram á mik­il­vægi breiðrar sam­vinnu þjóða til að rækta þau grunn­gildi sem mestu máli skipta: Frelsi, lýðræði og mann­rétt­indi.

Aðals­merki þjóðar­inn­ar

Tveir af horn­stein­um lýðræðis­sam­fé­lags­ins eru frjáls­ar kosn­ing­ar og öfl­ug­ir fjöl­miðlar. Það er eng­um vafa und­ir­orpið að öfl­ug­ir fjöl­miðlar skiptu sköp­um í sjálf­stæðis­bar­áttu þjóðar­inn­ar. Miðlun frétta á þjóðtung­unni okk­ar, ís­lensku, var ein helsta rök­semd þess að Íslend­ing­ar væru sér­stök þjóð og að sjálf­stæðis­kröf­ur okk­ar væru rétt­mæt­ar. Vék Her­mann Jónas­son einnig að þessu í fyrr­nefndri þjóðhátíðarút­gáfu Tím­ans árið 1944: „Eitt er víst. Blaðakost­ur á Íslandi er til­tölu­lega sterk­ur. Hann mót­ar móður­málið okk­ar, sem er aðals­merki þjóðar­inn­ar og grund­vall­ar­rétt­ur henn­ar til sjálf­stæðis. Það eru og blöðin sem ráða lang­mestu um góðvilja milli manna og flokka. Blöðin ráða miklu um það, hvaða stefnu áhuga­mál al­menn­ings taka. Þau hafa eins, eins og nú er komið, mik­il áhrif á hugs­an­ir alls al­menn­ings, móta þær eða setja á þær sinn blæ viðkom­andi mönn­um og mál­efn­um. Þau eru skóli og upp­eld­is­stofn­un þjóðar – góður eða vond­ur.“ Það er áhuga­vert að lesa þessi orð Her­manns, 79 árum eft­ir að hann ritaði þau, og heim­færa upp á sam­tím­ann þar sem örar tækni­breyt­ing­ar, eins og í gervi­greind, hafa leitt af sér stór­ar áskor­an­ir fyr­ir fjöl­miðla hér á landi sem og tungu­málið okk­ar.

Stærsta sam­vinnu­verk­efni okk­ar kyn­slóða

Það er mik­il­vægt fyr­ir grund­völl lýðræðis­ins að tak­ast á við slík­ar áskor­an­ir af festu. Her­mann Jónas­son gerði sér grein fyr­ir nauðsyn þess að sjá fyr­ir hætt­ur og tak­ast á við þær frá fyrsta degi. Með það fyr­ir aug­um ritaði hann eft­ir­far­andi: „Það er ekki vanda­laust svo fá­mennri þjóð að vernda sjálf­stæði sitt og lifa menn­ing­ar­lífi sem sjálf­stæð þjóð. Þess­um vanda vilj­um við gera okk­ur grein fyr­ir þegar í upp­hafi. Hætt­urn­ar hverfa því aðeins að menn sjái þær nógu snemma til að af­stýra þeim.“ Í þess­um anda hafa þýðing­ar­mik­il skref verið tek­in á und­an­förn­um árum til þess að styðja við rit­stýrða einka­rekna fjöl­miðla til þess að gera þá bet­ur í stakk búna til þess að tak­ast á við hið breytta lands­lag, sinna lýðræðis­legu hlut­verki sínu og miðla efni á ís­lenskri tungu. Fjöl­miðlastefna og aðgerðir henni tengd­ar verða kynnt­ar í haust. Að sama skapi hef­ur ís­lensk tunga verið sett í önd­vegi með marg­háttuðum aðgerðum til þess að snúa vörn í sókn í henn­ar nafni, meðal ann­ars með mál­tækni­áætl­un stjórn­valda sem stuðlar að því að ís­lensk­an verði gerð gjald­geng í heimi tækn­inn­ar. Viðhald og vöxt­ur ís­lensk­unn­ar er um­fangs­mikið verk­efni sem er mik­il­vægt að heppn­ist vel. Ljóst er að það er ekki á færi ör­fárra ein­stak­linga að vinna slíkt verk, held­ur er um að ræða helsta sam­vinnu­verk­efni okk­ar kyn­slóða. Það er mik­il­vægt að vel tak­ist til enda geym­ir ís­lensk tunga sjálfs­mynd okk­ar sem þjóðar og er und­ir­staða lýðræðis­legr­ar umræðu hér á landi.

Lær­dóm­ar forfeðranna

Til­koma lýðveld­is­ins fyr­ir 79 árum síðan var heilla­drjúgt skref og aflvaki fram­fara. Sú staðreynd, að við get­um fjöl­mennt í hátíðarskapi til þess að fagna þess­um merka áfanga í sögu þjóðar­inn­ar, er ekki sjálf­sögð. Það bar­áttuþrek, sú þraut­seigja og bjart­sýni á framtíð Íslands, sem end­ur­speglaðist í orðum og gjörðum forfeðra okk­ar í sjálf­stæðis­bar­átt­unni, geym­ir mik­il­væga lær­dóma. Þar voru öfl­ug­ir fjöl­miðlarn­ir og þjóðtung­an í lyk­il­hlut­verki. Með sam­vinn­una að leiðarljósi ætl­um við í Fram­sókn að halda áfram að leggja okk­ar af mörk­um til þess að treysta stoðir Íslands, líkt og flokk­ur­inn hef­ur gert í tæp 107 ár, enda skipt­ir lýðveldið og framtíðin okk­ur öll miklu máli. Við ósk­um lands­mönn­um öll­um gleðilegr­ar þjóðhátíðar.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir og Ásmund­ur Ein­ar Daðason.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. júní 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Val um fjölbreytta ferðamáta

Deila grein

16/03/2023

Val um fjölbreytta ferðamáta

Þegar sam­göngusátt­máli rík­is­ins og sex sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu var und­ir­ritaður árið 2019 hafði ríkt frost í upp­bygg­ingu innviða á höfuðborg­ar­svæðinu og í raun frost í sam­skipt­um höfuðborg­ar­svæðis­ins og rík­is­ins er vörðuðu sam­göng­ur. Sam­göngusátt­mál­inn markaði því tíma­mót.

Í sam­göngusátt­mál­an­um felst sam­eig­in­leg sýn á hvernig um­ferðar­vandi höfuðborg­ar­svæðis­ins verður best leyst­ur til lengri tíma. Það er ljóst að til að mæta þörf­um íbúa höfuðborg­ar­svæðis­ins sem eru helm­ing­ur lands­manna verður sá vandi ekki leyst­ur ein­vörðungu með því að styrkja stofn­vega­kerfið. Hann verður held­ur ekki leyst­ur með því að horfa ein­vörðungu á al­menn­ings­sam­göng­ur. Niðurstaða sam­göngusátt­mál­ans er blönduð leið þar sem ann­ars veg­ar eru lagðir mikl­ir fjár­mun­ir í um­fangs­mikl­ar stofn­vega­fram­kvæmd­ir til að bæta flæði um­ferðar um höfuðborg­ar­svæðið og hins veg­ar upp­bygg­ing hágæðaal­menn­ings­sam­gangna. Auk þess er lögð mik­il áhersla á upp­bygg­ingu göngu- og hjóla­stíga.

Öflugra stofn­vega­kerfi

Fram­kvæmd­ir við stofn­vegi eru tæp­ur helm­ing­ur af kostnaði við sam­göngusátt­mál­ann. Af þeim 10 stóru stofn­vega­fram­kvæmd­um sem eru á sviði sátt­mál­ans er þrem­ur lokið. Nú þegar hef­ur verið lokið fram­kvæmd­um við kafla Vest­ur­lands­veg­ar frá Skar­hóla­braut að Hafra­vatns­vegi, kafla Reykja­nes­braut­ar frá Kaldár­sels­vegi að Krýsu­vík­ur­vegi og kafla Suður­lands­veg­ar frá Bæj­ar­hálsi að Vest­ur­lands­vegi. Á næstu mánuðum hefjast fram­kvæmd­ir við langþráða teng­ingu Arn­ar­nes­veg­ar við Breiðholts­braut og und­ir­bún­ing­ur við gatna­mót Reykja­nes­braut­ar og Bú­staðaveg­ar er á loka­metr­un­um. Þess­ar fram­kvæmd­ir eru meðal þeirra mik­il­væg­ustu í sam­göngusátt­mál­an­um og munu greiða veru­lega fyr­ir um­ferð íbúa svæðis­ins.

Hágæða al­menn­ings­sam­göng­ur

Íbúum höfuðborg­ar­svæðis­ins fjölg­ar hratt og nem­ur fjölg­un­in tug­um þúsunda á síðustu tíu árum.. Það er ljóst að til að tryggja betra flæði um­ferðar og þar með auk­in lífs­gæði fólks á svæðinu er nauðsyn­legt að byggja upp hágæðaal­menn­ings­sam­göng­ur eins og við þekkj­um frá þeim lönd­um og borg­um sem við ber­um okk­ur helst sam­an við. Góðar al­menn­ings­sam­göng­ur eru ekki ein­ung­is mik­il­vægt lofts­lags­mál og brýnt til að draga úr svifryks­meng­un held­ur létta þær veru­lega á kostnaði fjöl­skyldna þegar auðveld­ara verður að fækka bíl­um á heim­ili. Auk­in áhersla á al­menn­ings­sam­göng­ur er nefni­lega ekki, eins og sum­ir halda fram, árás á fjöl­skyldu­bíl­inn. Betri al­menn­ings­sam­göng­ur eru nauðsyn­leg­ar til þess að gera um­ferðina skil­virk­ari og betri. Nú þegar nýta höfuðborg­ar­bú­ar um það bil 12 millj­ón­ir ferða í Strætó og er auðvelt að ímynda sér hversu mikið vand­inn myndi aukast við að 30-35 þúsund manns bætt­ust við á hverj­um degi á göt­un­um í fjöl­skyldu­bíl­um. Að sama skapi er aug­ljóst að betri al­menn­ings­sam­göng­ur draga úr um­ferðarþunga og þeim töf­um sem eru vegna um­ferðar­hnúta í dag.

Auk­in áhersla á virka ferðamáta

Eft­ir því sem tím­inn líður nýta stöðugt fleiri sér aðra sam­göngu­máta en bíl og al­menn­ings­sam­göng­ur í dag­legu lífi. Með bætt­um hjóla­stíg­um hafa mögu­leik­arn­ir til að hjóla til og frá vinnu auk­ist veru­lega, bæði á hefðbundn­um reiðhjól­um en einnig á raf­hjól­um og raf­hlaupa­hjól­um. Þró­un­in hef­ur verið hröð síðustu árin frá því að skrifað var und­ir sam­göngusátt­mál­ann og því hef­ur kraf­an um aukna áherslu á upp­bygg­ingu hjóla­stíga auk­ist í takti við aukna notk­un.Bætt­ar sam­göng­ur þýða auk­in lífs­gæði

Sam­göngusátt­mál­inn er risa­stórt verk­efni. Hann er í stöðugri þróun eins og eðli­legt er með svo um­fangs­mikl­ar fram­kvæmd­ir. Um sátt­mál­ann og þá framtíðar­sýn sem hann boðar er breið sátt enda fel­ast í hon­um gríðarleg­ar um­bæt­ur. Bætt­ar sam­göng­ur á höfuðborg­ar­svæðinu þýða auk­in lífs­gæði fyr­ir íbúa svæðis­ins. Þær stytta um­ferðar­tím­ann, minnka meng­un­ina og búa til betri teng­ing­ar fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki á svæðinu. Mik­il­vægt er að íbú­ar höfuðborg­ar­svæðis­ins geti valið sér ferðamáta, hvort sem það er fjöl­skyldu­bíll­inn, al­menn­ings­sam­göng­ur eða gang­andi og hjólandi. Um þessa fjöl­breytni snýst sam­göngusátt­máli höfuðborg­ar­svæðis­ins.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, innviðaráðherra og formaður Fram­sókn­ar. Ein­ar Þor­steins­son, formaður borg­ar­ráðs og odd­viti Fram­sókn­ar í Reykja­vík, Orri Vign­ir Hlöðvers­son, formaður bæj­ar­ráðs og odd­viti Fram­sókn­ar í Kópa­vogi, Valdi­mar Víðis­son, formaður bæj­ar­ráðs og odd­viti Fram­sókn­ar í Hafnar­f­irði, Brynja Dan, odd­viti Fram­sókn­ar í Garðabæ, Halla Kar­en Kristjáns­dótt­ir, formaður bæj­ar­ráðs og odd­viti Fram­sókn­ar í Mos­fells­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Kraftur samfélagsins skapar aukin lífsgæði

Deila grein

14/03/2023

Kraftur samfélagsins skapar aukin lífsgæði

Iðnþing eru mikilvæg samkoma. Íslenskur iðnaður er gríðarlega öflugur og þeir kraftar sem búa í greininni eru dýrmætir fyrir íslenskt samfélag. Við höfum á síðustu árum séð aukna fjölbreytni í íslenskum iðnaði sem er mikilvægt til að efla efnahag þjóðarinnar og draga úr sveiflum sem hafa einkennt íslenskt atvinnu- og efnahagslíf.

Ísland stendur frammi fyrir miklum áskorunum þessa dagana. Verðbólga hefur hækkað á síðustu misserum og ef ekkert verður að gert er hætt við því að við upplifum aftur tíma sem við vonuðum að væru alveg að baki. Ástæður verðbólgunnar eru margar. Við erum tiltölulega nýkomin út úr tímabili heimsfaraldurs þar sem þurfti að ræsa út liðsinni ríkissjóðs til að halda samfélaginu gangandi, fyrirtækjunum starfandi og þar af leiðandi tryggja næga atvinnu fyrir fólk.

Þegar loks fór að léttast á okkur brúnin þá brast á með innrás rússneska hersins í Úkraínu. Afleiðingar þessa stríðs eru gríðarlegar. Stríðið sem geisar í austanverðri Evrópu hefur áhrif á allan heiminn. Útflutningur hrávöru frá Úkraínu er ekki svipur hjá sjón frá því sem áður var og auk þess hefur viðskiptabann við Rússland mikil áhrif, ekki aðeins á orkumarkað Evrópu heldur einnig á aðra þætti evrópsks samfélags. Margföldun orkukostnaðar í Evrópu hefur síðan áhrif á alla viðskiptakeðjuna með tilheyrandi bólgu á verði. Það skilar sér síðan til Íslands í formi hærra vöruverðs og á það jafnt við um matvöru og byggingarefni. Þessu finna allir fyrir, bæði einstaklingar og fyrirtæki.

Verðbólgan er vágestur

Verkefni næstu mánaða er að ná tökum á verðbólgunni. Á Íslandi ríkir þensla. Hér var 6,4% hagvöxtur á síðasta ári. Hér er atvinnuleysi mjög lágt. Einkaneysla er mikil. Til að slá á verðbólguna hefur Seðlabankinn hækkað stýrivexti verulega á síðustu mánuðum. Áhrifa þeirra hækkana er tekið að gæta. Eftirspurn eftir húsnæði hefur dregist saman og húsnæðisverð staðið í stað eða lækkað.

Frostið sem nú ríkir á húsnæðismarkaði og háir vextir munu að öllum líkindum, ef miðað er við söguna, hafa þau áhrif að byggingafyrirtækin halda að sér höndum.

Þær aðstæður sem eru uppi núna eru okkur ekki ókunnugar. Við sjáum á tölum að sveiflur á byggingamarkaði eru miklar. Frostið sem nú ríkir á húsnæðismarkaði og háir vextir munu að öllum líkindum, ef miðað er við söguna, hafa þau áhrif að byggingafyrirtækin halda að sér höndum sem gerir það að verkum að geirinn dregst saman, framboð á nýju húsnæði verður mjög takmarkað og þrýstingurinn frá þeirri kynslóð sem þráir að flytja úr foreldrahúsum og í eigið húsnæði verður gríðarlegur og verð á íbúðarhúsnæði hækkar.

Hvað er þá til ráða?

Bætt yfirsýn og markvissari aðgerðir

Nýtt innviðaráðuneyti varð til eftir kosningar 2021. Nú heyra húsnæðismál, skipulagsmál, samgöngumál og sveitarstjórnarmál undir sama ráðuneytið. Það hefur gert okkur kleift að öðlast betri yfirsýn og ekki síður safna upplýsingum með víðtækum hætti sem byggir undir markvissar aðgerðir.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur unnið að því í samstarfi við innviðaráðuneytið og sveitarfélögin að búa til rafrænar húsnæðisáætlanir sem gera meiri kröfur til sveitarfélaganna um uppbyggingu í takt við íbúaþróun og eftirspurn. Það er ljóst að til að koma í veg fyrir þær sveiflur sem hafa einkennt húsnæðismarkaðinn og ná jafnvægi þarf á næstu tíu árum að byggja 35 þúsund nýjar íbúðir.

Þær miklu sveiflur sem hafa einkennt húsnæðismarkaðinn hafa verið áhrifaþáttur í óstöðugleika í efnahagslífi landsins.

Tímamótasamningar við sveitarfélög

Í júlí á síðasta ári undirritaði ég fyrir hönd ríkisins rammasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga um þessa sameiginlegu framtíðarsýn. Hugmyndin er sú að sveitarfélögin skuldbindi sig til að sjá til þess að lóðaframboð sé nægt til að mæta þörfum markaðarins. Ríki og sveitarfélög munu einnig tryggja að 30% sé hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði byggðar með stuðningi ríkis og sveitarfélaga í formi stofnframlaga eða hlutdeildarlána auk þess sem fimm prósent verði húsnæði fyrir fatlað fólk og aðra hópa í viðkvæmri stöðu.

Jafnvægi í húsnæðismálum er forsenda jafnvægis í efnahagsmálum. Þær miklu sveiflur sem hafa einkennt húsnæðismarkaðinn hafa verið áhrifaþáttur í óstöðugleika í efnahagslífi landsins. Meginmarkmið rammasamnings ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga eru að byggt verði í samræmi við þörf, að framboð íbúða á viðráðanlegu verði sé nægt, að húsnæðisáætlanir haldi utan um og fylgi samningsmarkmiðum og að einn ferill um húsnæðisuppbygginu sé mótaður til að straumlínulaga uppbyggingarferlið sem best má verða.

Nýbyggingar© Axel Jón Fjeldsted (VB MYND/AXEL JÓN)

Koma verður í veg fyrir tímabundið frost

Í byrjun janúar var undirritaður fyrsti samningur ríkisins við sveitarfélag og var hann við Reykjavíkurborg. Hann markaði tímamót. Markmið samningsins er að í Reykjavík verði á næstu tíu árum byggðar um 16 þúsund íbúðir. Á næstu fimm árum verði takturinn í uppbyggingunni hraðari eða allt að tvö þúsund íbúðir á ári til að mæta uppsafnaðri þörf og mun borgin tryggja framboð byggingarsvæða.

Mikilvægi samningsins við Reykjavík á þessum tímapunkti er gríðarlegt. Við þær aðstæður sem hafa skapast á húsnæðismarkaði er brýnt að ríki og sveitarfélög leggi sitt af mörkum til að skapa jafnvægi á húsnæðismarkaði með stofnframlögum. Vaxtastig er hátt og fjármögnun framkvæmda einkaaðila dýr. Til að koma í veg fyrir tímabundið frost í framkvæmdum með tilheyrandi skorti og verðhækkunum þegar birta tekur er það beinlínis skylda stjórnvalda að brúa bilið.

Það er ánægjulegt að fylgjast með stórhuga hugmyndum um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda okkar sem eru uppi víða um land.

Stórkostleg tækifæri í orkugeiranum

Tækifærin sem Ísland hefur á næstu árum eru fjölmörg og leikur íslenskur iðnaður stórt hlutverk í að nýta þau sem best. Orkuskiptin eru í fullum gangi. Ljóst er að til að við getum staðið við alþjóðlegar skuldbindingar og um leið aukið lífsgæði á Íslandi þarf að virkja meira á næstu árum. Ávinningurinn fyrir samfélagið okkar felst ekki aðeins í minni losun. Á ári hverju kaupir íslenskt samfélag jarðefnaeldsneyti fyrir um það bil 120 milljarða króna. Hagur Íslands af því að kaupa innlenda orkugjafa er gríðarlegur. Við öðlumst með því orkusjálfstæði sem er dýrmætt fyrir fullveldi Íslands.

Það er ánægjulegt að fylgjast með stórhuga hugmyndum um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda okkar sem eru uppi víða um land. Við höfum mikla þekkingu og reynslu af orkuöflun sem nýtist okkur vel. Þær hugmyndir sem eru uppi um framleiðslu á rafeldsneyti og lífrænu eldsneyti eru spennandi og gætu ef rétt er á spilum haldið aukið lífsgæði Íslendinga verulega. Stjórnvöld fylgjast vel með þróuninni á þessu sviði.

Hugverkaiðnaðurinn eflist og stækkar

Á síðustu árum hefur hugverkaiðnaðurinn verið í mikilli sókn. Fjölbreytni hans er mikil. Lyfjaiðnaður, tölvuleikjagerð, fjártækni, kvikmyndagerð og fleiri greinar innan hugverkaiðnaðarins hafa sýnt hvers við megum vænta á næstu árum. Framsýni þeirra sem hafa leitt vöxt hugverkaiðnaðarins er lofsverð og mun allt samfélagið njóta ávaxtanna af þessum öfluga iðnaði.

Framtíðin er björt

Það hefur verið frekar dimmt yfir þjóðmálaumræðunni síðustu vikur enda vekur verðbólgan upp slæmar minningar hjá mörgum. Aukið aðhald í ríkisfjármálum, auknar tekjur ríkissjóðs, góðar spár varðandi ferðaþjónustuna á árinu og einkar góð loðnuvertíð ættu þó að gefa fyrirheit um að við náum verðbólgu hratt niður. Íslenskt hagkerfi er öflugt og atvinnuvegirnir verða sífellt kraftmeiri og fjölbreyttari. Íslenskur iðnaður leikur stórt hlutverk í nútíð og mun í framtíðinni leiða íslenskt samfélag til aukinna lífsgæða.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist í sérblaðinu Iðnþing 2023 sem kom út fimmtudaginn 9. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Leið til aukinna lífsgæða fyrir alla

Deila grein

27/02/2023

Leið til aukinna lífsgæða fyrir alla

Heim­ilið er mik­il­væg­asti staður í til­veru okk­ar. Það er at­hvarf okk­ar og mik­il­væg­ur þátt­ur í lífs­ham­ingju. Heim­ili er stór hluti af því að finna til ör­ygg­is.

Að eign­ast heim­ili get­ur verið brekka. Mis­brött eft­ir því hvenær við kom­um fyrst inn á hús­næðismarkaðinn. Það ójafn­vægi sem hef­ur ríkt á ís­lensk­um hús­næðismarkaði bitn­ar mis­jafn­lega á kyn­slóðunum. Sum­ir eru svo heppn­ir að flytja úr for­eldra­hús­um þegar fast­eigna­verð er lágt en aðrir minna lán­sam­ir þegar þensla rík­ir á markaðnum.

Jafn­vægi á hús­næðismarkaði er ekki aðeins mik­il­vægt fyr­ir ein­stak­linga og fjöl­skyld­ur. Þær miklu sveifl­ur sem hafa verið og skap­ast af skorti á fram­boði eitt árið og of­fram­boði annað árið hafa mik­il áhrif á allt hag­kerfið, hafa áhrif á verðbólgu og vexti. Það að ná jafn­vægi er því ekki aðeins mik­il­vægt fyr­ir líf ein­stak­linga og fjöl­skyldna held­ur einnig fyr­ir­tæk­in í land­inu.

Samvinna er lyk­ill að ár­angri

Við gerð lífs­kjara­samn­ing­anna var mik­il áhersla lögð á það í sam­tali verka­lýðsfor­yst­unn­ar, for­ystu sam­taka í at­vinnu­lífi og stjórn­valda að bæta aðstæður á hús­næðismarkaði. Í fram­haldi af því góða sam­tali og sam­starfi hef ég lagt mikla áherslu á að ríkið stígi inn af festu til að fólk geti komið þaki yfir höfuðið, hvort held­ur það er eigið hús­næði eða leigu­hús­næði, og að hús­næðis­kostnaður sé ekki alltof íþyngj­andi og sveifl­urn­ar ekki óbæri­leg­ar.

Stönd­um vörð um lífs­gæði á Íslandi

Í des­em­ber síðastliðnum ákvað rík­is­stjórn­in að grípa til aðgerða í tengsl­um við gerð kjara­samn­inga á al­menn­um vinnu­markaði. Snúa aðgerðirn­ar einkum að stuðningi við lífs­kjör lág- og milli­tekju­fólks með mark­viss­um aðgerðum í hús­næðismál­um og aukn­um stuðningi við barna­fjöl­skyld­ur. Fjölg­un íbúða og upp­bygg­ing í al­menna íbúðakerf­inu með aukn­um stofn­fram­lög­um, end­ur­bæt­ur í hús­næðisstuðningi og bætt rétt­arstaða og hús­næðis­ör­yggi leigj­enda eru meðal þess sem höfuðáhersla er lögð á. Mark­mið þess­ara aðgerða er skýrt og það er að standa vörð um lífs­gæði al­menn­ings á Íslandi.

Hag­kvæm­ar íbúðir á viðráðan­legu verði

Und­an­farna mánuði og vik­ur hef­ur verið unnið að því hörðum hönd­um í innviðaráðuneyt­inu og Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un að und­ir­búa aðgerðir sem miða að því að ná mik­il­vægu jafn­vægi á hús­næðismarkaði. Í fyrra­sum­ar var und­ir­ritaður ramma­samn­ing­ur við Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga um upp­bygg­ingu hús­næðis. Um ára­mót var síðan und­ir­ritaður samn­ing­ur við Reykja­vík­ur­borg þar sem borg­in skuld­bind­ur sig til að tryggja lóðafram­boð í sam­ræmi við mann­fjölg­un og ríki og borg koma með stofn­fram­lög svo hægt sé að skapa stöðugan og rétt­lát­an leigu­markað. 35% þeirra íbúða sem byggðar verða á næstu árum verða það sem kallað er hag­kvæm­ar íbúðir á viðráðan­legu verði. Þær eru sér­stak­lega ætlaðar þeim sem eru tekju­lægri, ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref á íbúðamarkaði og fólki með fötl­un.

Stuðning­ur við fyrstu kaup

Þegar horft er til þess að ná jafn­vægi á hús­næðismarkaði þurfa stjórn­völd að hafa fjöl­breytt tól í verk­færa­k­istu sinni. Sveifl­urn­ar hafa ekki síst áhrif á þá sem eru að koma nýir inn á hús­næðismarkað og því er nauðsyn­legt að styðja sér­stak­lega við þá. Hlut­deild­ar­lán eru mik­il­væg í því til­liti. Þar gefst ungu fólki og tekju­lágu kost­ur á að ríkið eign­ist hlut í fyrstu eign og brúi þannig bilið svo fólk geti komið þaki yfir höfuðið. Nú stend­ur yfir end­ur­skoðun á regl­um er varða hlut­deild­ar­lán með það að mark­miði að aðstoða sér­stak­lega ungt fólk við að flytja úr for­eldra­hús­um eða leigu­hús­næði í eigið.

Mik­il­væg­asta kjara­bót­in

Það mik­il­væga sam­tal sem stjórn­völd hafa átt við for­ystu verka­lýðsfé­lag­anna, at­vinnu­lífið og sveit­ar­fé­lög­in er mik­il­væg­ur grunn­ur fyr­ir þá vinnu sem hef­ur átt sér stað síðustu mánuðina og mun bera ávöxt á næstu miss­er­um. Öll erum við sam­mála um að mik­il­væg­asta kjara­bót­in fyr­ir alla sé að halda hús­næðis­kostnaði í bönd­um. Jafn­vægi á hús­næðismarkaði og lág­ir vext­ir eru tak­markið og því mun­um við ná ef við stönd­um sam­an.

Sigurður Ingi Jóhansson, innviðaráðherra og formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Hugrekki til að takast á við framtíðina

Deila grein

31/12/2022

Hugrekki til að takast á við framtíðina

Kæri lesandi.

Árið 2022 kveður okkur með hörkufrosti, víða snjókomu. Minnir okkur á að við búum á íslandi. Minnir okkur á að máttur náttúruaflanna er mikill. Við gleymum oft þessu afli. Gleymum þeim hörmungum sem fyrri kynslóðir gengu í gegnum, þegar eldgos, óveður og jarðskjálftar tortímdu jafnvel heilu fjölskyldunum, sveitunum. Í því merka riti, Hrakningar á heiðavegum, eftir þá Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson, má lesa frásögn Þórðar Kárasonar á Litla-Fljóti um vetrarferð yfir Hellisheiði árið 1914. Þórður, eins og margir Sunnlendingar, fór til Reykjavíkur á vetrarvertíð. Segir Þórður að leiðin til Reykjavíkur hafi verið farin á þremur dögum. Fyrsta daginn var farið úr Biskupstungum niður á Selfoss, gist í Tryggvaskála. Annan daginn gengið suður yfir Hellisheiði og gistínáttstað á Kolviðarhóli. Síðasta daginn var farið frá Kolviðarhóli til Reykjavíkur. Þegar göngumenn komu upp á Kamba byrjaði að snjóa. Vildu þá einhverjir í hópnum stytta sér leið og fara vestur úr Reykjaskarði leið sem í góðu veðri gat stytt ferðatímann nokkuð. Þórður segir í frásögn sinni: „Ég lét í ljós sem áður, að ég vildi heldur fara veginn, og segir þá sá, sem sótti málið fastast: „Ertu hræddur?“ Ekki kvað ég það vera. En þetta tilsvar var nóg til þess, að ég lagði ekki meira til málanna, og lagði svo allur hópurinn af stað út í bylinn, sem var að skella á, og kennileitislausa hvítuna.“

Það er skemmst frá því að segja að hópurinn villtist en komst með erfiðismunum í Kolviðarhól. Minnstu mátti muna að illa færi.

Af hverju að rifja upp frásögn af vetrarferð sem farin var fyrir rúmlega 100 árum? Ástæðan er margþætt. Ein er sú að það er alltaf mikilvægt að rifja upp hvað fyrri kynslóðir gengu í gegnum. Önnur að sama hvaða tíma við lifum þá hefur veðrið mikil áhrif á líf okkar. Þriðja að maður eigi ekki að ana út í óvissuna, hvað þá að láta mana sig til þess. Fjórða að það sé mikilvægt að skynsemin ráði för.

Sátt um nauðsynlegar breytingar

Við sem búum á Íslandi eigum náttúrunni allt að þakka. Hún er undirstaða efnahags okkar. Samfélag okkar og velmegun hvílir á þremur stoðum sem eiga allt sitt undir náttúrunni: Sjávarútvegur, orkuframleiðsla og ferðaþjónusta. Það er lán okkar sem nú byggjum þetta land að fyrri kynslóðir hafa nýtt tækifærin sem náttúran hefur að bjóða. Við eigum sjávarútveg sem er í fremstu röð í heiminum. Fáar þjóðir, ef einhverjar, hafa náð að skapa jafnmikil verðmæti í sjávarútvegi en byggja um leið á hugmyndinni um sjálfbærni. Það kerfi sem við höfum náð að byggja upp er þó ekki gallalaust frekar en önnur mannanna verk. Verkefni þessarar ríkisstjórnar er enda að ná sátt um nauðsynlegar breytingar á kerfinu. Réttlæti getur nefnilega ekki verið skörinni neðar en hagnaður greinarinnar.

Öryggi í fyrsta sæti

Ferðaþjónustan hefur sýnt það á síðustu tveimur áratugum hvers hún er megnug. Vöxtur hennar hjálpaði samfélaginu hratt út úr efnahagslegum vanda hrunsins. Ferðaþjónustan tók hratt við sér eftir heimsfaraldurinn og á heiðurinn af stórum hluta af þeim hraða efnahagslega viðsnúningi sem hefur náðst. Einhverjir verkir fylgja ávallt hröðum vexti. Það tekur á þegar milljónir manna bætast við sem notendur innviða fámenns lands. Þrátt fyrir fordæmalausa fjárfestingu ríkisins í samgöngum á síðustu árum þarf enn meira til. Mörg stór og mikilvæg verkefni eru á dagskrá á næstu árum. Ekkert þó stærra en Sundabraut sem er byrjað að undirbúa og styttist í hönnun og framkvæmdir. Markmiðið með allri uppbyggingu er greiðar samgöngur sem tengja byggðir en í fyrsta sæti er ætíð öryggi fólks. Líf og heilsa hljóta alltaf að vera í fyrsta sæti.

Við viljum vera kynslóðin sem framkvæmdi

Við getum verið þakklát fyrir þann stórhug sem fyrri kynslóðir sýndu með rafvæðingu landsins og ekki síður hitaveituvæðingu þess á síðustu öld. Fáar þjóðir búa við eins mikið orkuöryggi og við á Íslandi. Hér þarf ekkert gas, ekkert jarðefnaeldsneyti, til að kynda hús okkar og lýsa. Og þau orkuskipti sem standa fyrir dyrum munu gera það að verkum að við getum náð fullu orkusjálfstæði. Til þess þurfum við að sýna hugrekki og framsýni til að verða ekki eftirbátar fyrir kynslóða. Það er spennandi að fylgjast með þeim verkefnum sem eru á teikniborðinu og miða að því að framleiða hér á landi rafeldsneyti sem yrði notað til að knýja stærri farartæki og vinnuvélar á landi, skip og flugvélar. Ljóst er að til þess þarf meiri orku. Það er líka ljóst að til þess að viðhalda þeim lífsgæðum sem við höfum öðlast og helst auka þau þá þarf meiri orku. Sáttin um þá orkuöflun verður til á miðjunni, með skynsamlegum öfgalausum samræðum en þó fyrst og fremst skynsamlegum aðgerðum. Við viljum að framtíðarkynslóðir horfi til okkar tíma og sjái framsýni en dæmi okkur ekki sem kynslóðina sem ræddi vandann í drep en hafði ekki dug til að framkvæma.

Kvikmyndagerð í vexti

Síðasta vor urðu breytingar á lagaumhverfi kvikmyndagerðar á Íslandi sem fólust í að hækka hlutfall endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Nú þegar hafa þessar breytingar aukið veltu íslensks kvikmyndaiðnaðar til mikilla muna og fjölgað störfum sem tengist kvikmyndagerð beint og óbeint. Þessi þróun hefur áhrif víða um landið. Hækkun á endurgreiðsluhlutfalli hefur ekki aðeins þau áhrif að laða til landsins erlenda fjárfestingu heldur styrkir hún íslenska kvikmyndagerð. Það sýnir sagan okkur. Þegar Framsókn stóð fyrir því um síðustu aldamót að endurgreiðslukerfi kvikmynda var komið á fót var stigið skref sem breytti gangi íslenskrar kvikmyndasögu. Íslenskum kvikmyndum fjölgaði enda var þarna komin nýr þáttur í fjármögnun kvikmynda og sjónvarpsefnis. Það er gaman að sjá þessa mikilvægu grein sem hefur gríðarlegt efnahagslegt og ekki síður menningarlegt gildi fyrir þjóðina okkar vaxa og dafna.

Ný sköpun – ný tækifæri

Frá árinu 2017 hefur ríkisstjórnin lagt mikla áherslu á að skapa frjótt umhverfi fyrir nýsköpunarfyrirtæki. Sú áhersla sem lögð hefur veriðánýsköpun er mikilvægur hluti þess að skapa spennandi og verðmæt störf sem eru hluti af hátæknisamfélagi framtíðarinnar. Við sjáum þessa fjórðu stoð hugverkaiðnaðarins eflast hratt en innan þess iðnaðar eru ólíkar greinar eins og lyfjaiðnaður, fjártækni og tölvuleikjagerð. Það segir sig sjálft að þessi fjórða stoð skapar aukið jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Vinna, vöxtur, velferð

Við í Framsókn höfum alltaf lagt mikla áhersluáatvinnulíf í okkar stefnu. Öflugt atvinnulíf er undirstaða velferðar: Vinna, vöxtur, velferð. Samfélagið okkar er flókinn vefnaður. Samfélagið okkar er gott eins og sést á því að það er ofarlega í alþjóðlegum samanburði þátta sem mæla lífsgæði. En það má alltaf gera betur. Og það gerum við með markvissum aðgerðum sem mæta ekki aðeins kröfum um sjálfbært samfélag heldur skila okkur auknum lífsgæðum og fjölbreyttum og spennandi tækifærum fyrir komandi kynslóðir.

Framtíðin ræðst á miðjunni

Þórður Kárason á Litla-Fljóti skrifaði um „kennileitislausa hvítuna“ í grein sinni um vetrarferðir á Hellisheiði. Það má kannski tala um framtíðina sem kennileitislausa hvítu en hlutverk stjórnmála samtímans er að marka leiðina til aukinna lífsgæða fyrir þjóðina. Við í Framsókn vinnum áfram af heilindum að því að bæta samfélagið með samvinnuhugsjónina sem leiðarljós. Við trúum því að samvinnan sé besta leiðin til að ná fram sátt um hvert skuli haldið. Við trúum því að framtíðin ráðist á miðjunni.

Lesandi góður, ég óska þér og þínum farsæls komandi árs.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2022.