Categories
Fréttir Greinar

Ófyrirsjáanlegir atburðir kalla á yfirveguð viðbrögð

Deila grein

09/05/2024

Ófyrirsjáanlegir atburðir kalla á yfirveguð viðbrögð

Eitt af mín­um fyrstu embættis­verk­um sem fjár­mála- og efna­hags­ráðherra var að mæla á þingi fyr­ir fjár­mála­áætl­un fyr­ir árin 2025-2029. Eins og kunn­ug­ir vita er um að ræða áætl­un sem ramm­ar inn fjár­mál rík­is­ins næstu fimm árin. Nán­ari út­færsla er síðan í fjár­lög­um hvers árs.

Sterk staða, for­gangs­röðun, lækk­un skulda

Í fjár­mála­áætl­un er lögð sér­stök áhersla á að verja sterka stöðu, for­gangsraða verk­efn­um og lækka skuld­ir. Í því felst að út­gjalda­vexti er haldið í skefj­um til að stuðla að lækk­un verðbólgu og vexti kaup­mátt­ar og nýj­um út­gjöld­um verður mætt með aðhaldi í öðrum rekstri. Mik­il­vægt er að lækka skuld­ir rík­is­ins, ekki aðeins til að lækka vaxta­kostnað held­ur einnig til að ríkið hafi svig­rúm til viðbragða ef áföll skella á okk­ur, hvort sem það er af nátt­úr­unn­ar hendi eða öðrum or­sök­um.

Vöxt­ur hag­sæld­ar í sér­flokki

Ef horft er á stóru mynd­ina þá er vöxt­ur hag­sæld­ar á Íslandi í al­gjör­um sér­flokki á síðustu árum. Kaup­mátt­ur launa hef­ur vaxið veru­lega frá ár­inu 2013 á meðan hann hef­ur staðið í stað eða minnkað ann­ars staðar á Norður­lönd­um og lönd­um Vest­ur-Evr­ópu. Skuld­ir í hlut­falli við ráðstöf­un­ar­tekj­ur heim­ila eru líka í sögu­legu lág­marki. Sama má segja um skuld­ir fyr­ir­tækja.

Lægri vext­ir eru sam­eig­in­leg­ir hags­mun­ir

Rík­is­stjórn­in lagði mikla áherslu á að styðja við það sam­eig­in­lega mark­mið launa­fólks og at­vinnu­rek­enda á al­menn­um markaði að ná niður verðbólgu og vöxt­um með hóf­söm­um lang­tíma­samn­ing­um. Al­menni markaður­inn gekk á und­an með góðu for­dæmi og skiptu þar miklu máli aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Nú er komið að op­in­bera markaðnum sem verður að fylgja for­dæmi þeirra sem þegar hafa samið á al­menn­um markaði. Það er stærsta hags­muna­mál alls launa­fólks að vext­ir lækki. Ábyrgð hins op­in­bera og viðsemj­enda þeirra er því mik­il. Mjög mik­il.

Mjúk lend­ing að raun­ger­ast

Aðgerðir Seðlabanka Íslands og rík­is­stjórn­ar­inn­ar eru farn­ar að hafa áhrif á verðbólgu sem hef­ur lækkað hægt en ör­ugg­lega síðasta árið. Ný fjár­mála­áætl­un styður við áfram­hald­andi lækk­un. Fjár­mála­áætl­un 2025-2029 er hóf­söm. Hún boðar eng­ar bylt­ing­ar og blóðugan niður­skurð. Staðinn er vörður um grund­vall­ar­kerfi sam­fé­lags­ins, svo sem heil­brigðis­kerfið, mennta­kerfið, lög­gæslu og fé­lags­leg úrræði. Sú mjúka lend­ing sem rík­is­stjórn­in hef­ur stefnt að frá því í heims­far­aldr­in­um er að raun­ger­ast.

Ljóst er að alltaf eru tæki­færi til um­bóta í rekstri rík­is­ins. Unnið verður að því að for­gangs­röðun fjár­muna sé ávallt í sam­ræmi við þarf­ir sam­fé­lags­ins.

Rík­is­stjórn­in held­ur yf­ir­veguð um stýrið. Ríf­ur ekki í hand­brems­una, ríf­ur ekki í stýrið. Ófyr­ir­sjá­an­leg­ir at­b­urðir kalla á yf­ir­veguð viðbrögð.

Þannig er nú það.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar og fjár­mála- og efna­hags­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Stuðningur við lang­tíma­kjara­samninga

Deila grein

08/05/2024

Stuðningur við lang­tíma­kjara­samninga

Í gær mælti ég fyrir frumvarpi um fjáraukalög sem tekur utan um þær aðgerðir ríkissstjórnarinnar sem styðja við gerð skynsamlegra langtímakjarasamninga. Það er óhætt að segja að sú samstaða sem náðist á almenna markaðnum um hófsama kjarasamninga til fjögurra ára sé gríðarlega mikilvæg til þess að hér skapist aðstæður þar sem vextir geta farið lækkandi. Sú sameiginlega sýn sem náðist milli launafólks og atvinnurekenda um í hverju hagsmunir samfélagsins fælust er til mikillar fyrirmyndar og sýnir að samvinna ólíkra aðila er ekki aðeins möguleg heldur nauðsynleg til að ná alvöru árangri.

Stjórnvöld áttu í góðu samtali við aðila vinnumarkaðarins í þjóðhagsráði. Út frá þeim samtölum vann ríkisstjórnin hörðum höndum að því að skapa umgjörð sem gæti skilað kjarasamningum til langs tíma sem myndu styðja við lækkun verðbólgu og í kjölfarið lækkun vaxta. Afraksturinn er fjölbreyttur og mun auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna verulega á samningstímanum eða um allt að 500 þúsund krónur á ári.

Sérstakur einskiptis vaxtastuðningur

Til að mæta sérstaklega þeim sem eru með há vaxtaútgjöld vegna íbúðarhúsnæðis kemur til sérstakur einskiptist vaxtastuðningur. Stuðningurinn tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Heildarskostnaður er áætlaður sex milljarðar króna og er ekki gert ráð fyrir að aðgerðin verði enduretekin þar sem forsendur kjarasamninga miðast við að vaxtakostnaður heimila muni lækka.

Hærri barnabætur og minni tekjuskerðingar

Barnabætur verða hækkaðar og dregið úr tekjuskerðingum. Með þessari aðgerð mun foreldrum sem fá stuðning með þessum hætti fjölga um tíu þúsund. Viðbótarkostnaður vegna þessa er áætlaður þrír milljarðar króna.

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir

Ísland hefur skorið sig úr samanburðarlöndum þegar kemur að fjölgun barna sem búa við fátækt. Til að mæta því hafa margir lagt til að dregið verði verulega úr kostnaði fjölskyldna vegna skólamáltíða. Velferðarvaktin er meðal þeirra sem lagt hafa áherslu á þessa leið sem verður farin, að minnsta kosti út samningstímabilið og hefst frá og með næsta skólaári. Kostnaður ríkisins á þessu ári er áætlaður 1,5 milljarðar króna og munu um 45 þúsund börn njóta gjaldfrjálsra skólamáltíða.

Hærri húsnæðisbætur til leigjenda

Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda hækka um 25% og með því að taka tillit til fjölskyldustærðar verða greiddar húsnæðisbætur fyrir allt að sex heimilismenn í stað fjögurra áður. Breytingin tekur gildi fyrsta júní næstkomandi. Kostnaður vegna þessa verður um 1,3 milljarðar á árinu.

Hækkun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði

Hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verða hækkaðar úr 600 þúsund krónum á mánuði í 700 þúsund frá 1. apríl síðastliðnum. Viðbótarkostnaður er áætlaður 600 milljónir króna.

Aukin gjaldfærsla vegna hlutdeildarlána

Með aukinni gjaldfærslu er veitt svigrúm fyrir aukin hlutdeildarlán að upphæð einn milljarður króna. Kostnaður vegna þessa er 320 milljónir króna. Hlutdeildarlánin gagnast þeim sem eru með lágar tekjur litlar eignir og gerir þeim kleift að eignast eigið húsnæði.

Framlag til vinnustaðanámssjóðs hækkað

150 milljónir króna eru ætlaðar til að hækka framlag til vinnustaðanámssjóðs til að efla vinnustaðanám og fjölga tækifærum nema til starfsþjálfunar.

Aukið aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu

Með 50 milljóna króna framlagi er dregið úr kostnaði fólks við að sækja heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð.

Hækkun á hámarksábyrgð Ábyrgðarsjóðs launa

Gert er ráð fyrir 49 milljón króna hækkun framlaga til Ábyrgðarsjóðs launa vegna hækkunar á hámarksábyrgð.

Þær aðgerðir stjórnvalda sem koma fram í frumvarpi til fjáraukalaga eru mikilvægar til þess að hér skapist aðstæður fyrir lækkun vaxta. Nú er pressan á hið opinbera og viðsemjendur þeirra að fylgja skynsamlegu fordæmi almenna markaðarins. Lengra verður ekki gengið af hálfu stjórnvalda.

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. maí 2024.

Categories
Fréttir

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Deila grein

26/02/2024

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar verða á ferð og flugi um land allt næstu daga. Þingflokknum er mikilvægt að heyra raddir kjósenda með reglubundnum hætti. Áhersla verður á heimsóknir í bland við opna fundi.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir alla opna fundi, en einnig má nálgast viðburðina á Facebook: https://fb.me/e/3vOUaC0mJ

Mánudagur 26. febrúar:
Reykjavík – Sykursalnum Grósku, kl. 20.00.
Suðurnesjabær – Samkomuhúsinu Sandgerði, kl. 20.00.

Þriðjudagur 27. febrúar:
Mosfellsbær – Skátaheimili Mosverja, kl. 20.00.
Bláskógabyggð – Efsti Dalur, kl. 20.00.
Borgarbyggð – Landnámssetrinu, kl. 20.00.

Miðvikudagur 28. febrúar:
Kópavogur – Siglingafélaginu Ými, Naustavör 14, kl. 20.00.
Akranes – Dalbraut 4, kl. 20.00.
Vopnafjörður – Safnaðarheimilinu, kl. 18.00.

Fimmtudaginn 29. febrúar:
Reyðarfjörður – Þórðarbúð, Austurvegi 39, kl. 17.30.
Sauðárkrókur – Kaffi Krók, kl. 20:15.
Egilsstaðir – Tehúsið, kl 20.00.
Árborg – Hótel Selfoss, kl 20.00.

Föstudagur 1. mars:
Húsavík – Félagsheimili eldri borgara, Hlyn, kl. 16.00.

Laugardagur 2. mars:
Hafnarfjörður – Kiwanissalnum, Helluhrauni 22, kl. 11.00.

Á næstu vikum munu þingmenn og ráðherrar heimsækja Höfn, Vestmannaeyjar, Vestfirði, en nánari upplýsingar verða birtar síðar.

ATH. að dagskráin kann að taka breytingum með skömmum fyrirvara.

Við erum Framsókn!

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi.

Í meira en öld höfum við unnið að framfaramálum fyrir Ísland með hugsjónir samvinnunnar að leiðarljósi.

Við í Framsókn trúum því að yfirvegað samtal skili samfélaginu meiri árangri en upphrópanir.
Við setjum manngildi ofar auðgildi.

Categories
Fréttir Greinar

Tveggja ára innviðaráðuneyti

Deila grein

01/02/2024

Tveggja ára innviðaráðuneyti

Í dag eru tvö ár liðin frá því að nýtt og öfl­ugt ráðuneyti, innviðaráðuneytið, tók til starfa. Ráðuneytið er ávöxt­ur breytts stjórn­ar­ráðs þar sem ákveðið var að færa mála­flokka á milli ráðuneyta til að stjórn rík­is­ins tæki bet­ur mið af sam­fé­lag­inu og þeim fjöl­breyttu og brýnu verk­efn­um sem vinna þarf að frá degi til dags til að leggja traust­ari grunn að framtíðinni. Í fyrsta sinn voru sam­einaðir und­ir eina yf­ir­stjórn mála­flokk­ar sveit­ar­stjórna, sam­gangna, byggðamála, hús­næðismála og skipu­lags­mála. Með þessu var stigið stórt skref sem hef­ur í för með sér mun betri sýn yfir mála­flokka sem snerta dag­legt líf allra lands­manna.

Vörðum leiðina sam­an

Verk­efni ráðuneyt­is­ins eru mörg og þau eru mik­il­væg. Innviðaráðuneytið býr að því að eiga inn­an vé­banda sinna öfl­ugt fólk sem vinn­ur af krafti við að mæta þörf­um og kröf­um sam­fé­lags­ins. Við höf­um á þeim tveim­ur árum sem liðin eru frá stofn­un ráðuneyt­is­ins lagt mikla áherslu á lif­andi og djúpt sam­tal við sam­fé­lagið. Haustið 2022 voru haldn­ir sam­ráðsfund­ir í sam­vinnu við lands­hluta­sam­tök sveit­ar­fé­laga und­ir yf­ir­skrift­inni Vörðum leiðina sam­an og voru þeir fund­ir mik­il­væg­ur liður í sam­hæf­ingu ráðuneyt­is­ins á sviði stefnu­mót­un­ar í mála­flokk­um byggða-, sam­göngu-, hús­næðis-, sveit­ar­stjórn­ar- og skipu­lags­mála. Þess­ir fund­ir eru þó aðeins brot af því víðtæka sam­ráði og sam­tali sem innviðaráðuneytið á í á hverj­um tíma.

Á þessu þingi og því síðasta hef ég lagt fyr­ir þingið áætlan­ir sem varða alla þessa mála­flokka og hafa tvær þeirra verið samþykkt­ar á Alþingi: Byggðaáætl­un og stefnu­mót­andi áætl­un í mál­efn­um sveit­ar­fé­laga. Þess­ar vik­urn­ar eru nefnd­ir þings­ins að vinna að lands­skipu­lags­stefnu, sam­göngu­áætlun og hús­næðis­stefnu. All­ar eru þess­ar stefn­ur ávext­ir vinnu hins tveggja ára ráðuneyt­is.

Hús­næðismál­in eru í önd­vegi

All­ir mála­flokk­ar ráðuneyt­is­ins eru mik­il­væg­ir. Það er þó ljóst að sá mála­flokk­ur sem hef­ur fengið mesta kast­ljósið þessi fyrstu tvö árin er hús­næðismál­in. Hús­næðis­stefn­an sem nú ligg­ur fyr­ir þing­inu er ótrú­legt en satt fyrsta heild­stæða áætl­un­in um hús­næðismál á Íslandi. Hún mun ramma inn hug­mynda­fræði og aðgerðir sem varða leiðina næstu árin og ára­tug­ina. Ég hef sem innviðaráðherra lagt höfuðáherslu á gott sam­starf við sveit­ar­fé­lög­in sem hafa skipu­lags­valdið og eru því mik­il­væg­ur hlekk­ur í þeirri miklu upp­bygg­ingu hús­næðis sem við verðum að ráðast í á næstu árum. Sum­arið 2022 und­ir­ritaði ég ramma­sam­komu­lag við Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga sem miðar að því að á tíu árum verði byggðar 35 þúsund nýj­ar íbúðir svo þörf sam­fé­lags­ins verði mætt. Stóra mark­miðið í þeirri stefnu er að vinna gegn þeim miklu sveifl­um sem við höf­um upp­lifað á hús­næðismarkaði síðustu ár og ára­tugi með til­heyr­andi áhrif­um á verð, verðbólgu og vexti. Í fram­hald­inu hef­ur verið unnið að samn­ing­um við ein­staka sveit­ar­fé­lög og hef ég und­ir­ritað samn­inga við tvö sveit­ar­fé­lög, Reykja­vík og Vík í Mýr­dal. Fleiri samn­ing­ar eru í upp­sigl­ingu. Þrátt fyr­ir óhag­stætt um­hverfi verðbólgu og hárra vaxta hef­ur þessu stóra verk­efni miðað vel. Þótt fyrstu skref­in hafi þurft að vera styttri og var­færn­ari vegna aðstæðna er mark­miðið um 35 þúsund nýj­ar íbúðir óbreytt. Þarf­ir ört vax­andi sam­fé­lags kalla ein­fald­lega á öfl­ugt sam­starf rík­is, sveit­ar­fé­laga og iðnaðar­ins.

Við ger­um gagn

Fyrstu tvö ár innviðaráðuneyt­is­ins hafa ein­kennst af ákveðnum hugs­un­ar­hætti sem má ramma inn í orðin: Við ger­um gagn. Í þess­um orðum má lesa ákveðna auðmýkt en á sama tíma göm­ul og góð ís­lensk gildi um dugnað og ósér­hlífni.

Við sem störf­um í innviðaráðuneyt­inu mun­um áfram vinna eft­ir þess­um hugs­un­ar­hætti. Þjón­usta okk­ar við sam­fé­lagið er okk­ur alltaf efst í huga. Fyrstu tvö árin eru liðin og við höld­um ótrauð áfram veg­inn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar og innviðaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgnblaðinu 1. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Jarðvegur fyrir framfarir

Deila grein

30/12/2023

Jarðvegur fyrir framfarir

Kæri lesandi.

Í hillu norður í Reykjadal rakst ég á kvæði eftir Huldu, Unni Benediktsdóttur Bjarklind. Kvæðið heitir Mold og birtist í bókinni Segðu mér að sunnan sem kom út árið 1920. Þetta er afar fallegt kvæði, lofsöngur um mold og líf, sem á vel við að rifja upp á þessum kaldasta tíma ársins þegar sól er byrjuð að hækka á lofti á ný.

Þú dökka, raka, mjúka mold,

sem mildi sólar hefur þítt.

Hve ann ég þér, hve óska ég mér,

að um þig streymi sumar nýtt.

Við þekkjum öll mikilvægi moldarinnar, ekki síst við sem búum í sveitum landsins. Moldin er tákn mildi og umhyggju og um leið tákn um vöxt.

Öflugt starf að umbótum

Hlutverk stjórnvalda er ekki síst fólgið í því að skapa frjóan jarðveg til að upp fólk geti nýtt hæfileika sína til að skapa sér og samfélaginu verðmæti. Þau verðmæti geta bæði verið veraldleg og andleg. Oft eru þau hvort tveggja eins og við sjáum á þeirri miklu sókn sem íslensk list er í, bæði hér á landi og erlendis. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra hefur lagt mikla áherslu á að skapa list og menningu góða umgjörð auk þess sem hún hefur unnið að framtíðarstefnu fyrir ferðaþjónustu og undirstrikað mikilvægi neytendamála. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisherra hefur lagt áherslu á að styrkja heilbrigðiskerfið og meðal annars náð samningum við sérfræðilækna og með aðstoð einkaframtaksins náð að lina þjáningar þeirra sem beðið hafa eftir liðskiptum og aðgerðum vegna endómetríósu. Ásmundur Einar Daðson hefur haldið áfram góðum störfum sínum í þágu barna auk þess að hlúa að íþróttastarfi, ekki síst með nýrri afreksstefnu. Þær umbætur sem orðið hafa á vakt þessara dugmiklu ráðherra eiga það sameiginlegt að skapa aðstæður til aukins vaxtar, aðstæður sem gera fólki kleift að springa út.

Nýtt ráðuneyti sannar sig

Innviðaráðuneytið á tveggja ára afmæli um næstu mánaðamót. Með nýju ráðuneyti voru sameinuð undir einum hatti svið samgangna, sveitarstjórnarmála, byggðamála, húsnæðismála og skipulagsmála. Með þessu viðamikla ráðuneyti hefur náðst betri sýn yfir þessa mikilvægu málaflokka og síðast en ekki síst meiri samhæfing. Fyrr í haust lagði ég fyrir þingið stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga sem hefur verið samþykkt. Auk þess lagði ég fyrir þingið samgönguáætlun, landsskipulagsstefnu og húsnæðisstefnu sem allar eru til umfjöllunar í nefndum þingsins. Það sem af er þingi hafa sex frumvörp innviðaráðherra orðið að lögum, þar á meðal lög sem hafa í för með sér nauðsynlega úrbætur í brunavörnum og lög um hagkvæmar íbúðir.

Hlúa þarf að landbúnaði

Landbúnaður er ekki aðeins mikilvæg atvinnugrein fyrir okkur á Íslandi. Landbúnaður er hluti af menningu okkar og varðveitir stofna búfjár og gróðurs og er samtvinnaður menningu okkar frá landnámi. Landbúnaðurinn hefur átt undir högg að sækja vegna aukinnar samkeppni við ódýrar afurðir sem fluttar eru hingað um langan veg frá löndum sem búa oft við lægri laun. Óhagstætt vaxtaumhverfi sem aukin verðbólga hefur leitt af sér hefur einnig lagst þungt á bændur. Ungir bændur hófu upp öfluga raust sína á haustmánuðum til að benda á þessar erfiðu aðstæður. Ríkisstjórnin brást við með aðgerðum sem leggja áherslu á nýliðun og kynslóðaskipti með aðstoð við yngri bændur. Það er þó ekki nóg. Við þurfum að horfa til framtíðar og rífa greinina upp úr hjólförum sem mótuð eru af afskiptaleysi og skort á skilningi á ákveðnum sviðum í íslensku samfélagi.

Lægri vextir eru stórt hagsmunamál

Árið 2023 hefur ekki verið dans á rósum. Við höfum þurft að takast á við verðbólgu sem hefur í för með sér hærri vexti sem leggjast illa á heimili og fyrirtæki. Við sjáum þó að aðgerðir stjórnvalda eru farin að hafa áhrif nú í lok árs. Ábyrg fjárlög skipta þar miklu máli. Einnig er ánægjulegt að sjá að aðilar vinnumarkaðarins ganga fram með það að markmiði að verðbólga lækki. Það er ljóst að stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja er að vextir lækki og gott að náðst hafi samstaða þar um. Ríkisstjórnin mun leggja sitt a f mörkum til að skapa umgjörð sem stuðlar að skynsamlegum kjarasamningum en þó leggja áherslu á að kjarasamningar eru á ábyrgð samningsaðila.

Við stöndum með Grindvíkingum

Þær hamfarir sem dunið hafa yfir í næsta nágrenni Grindavíkur eru þó sá atburður sem er mér efst í huga á þeim tímamótum sem áramót eru. Enginn er ósnortinn af þeirri hugprýði og því æðruleysi sem Grindvíkingar hafa sýnt við erfiðar aðstæður. Það er erfitt að gera sér í hugarlund tilfinninguna að þurfa að yfirgefa heimili sitt um lengri tíma vegna umbrota í náttúrunni. Oft er sagt að óvissan sé versti óvinurinn og það er svo sannarlega satt þegar horft er til Grindavíkur. Vísindin og okkar öfluga fólk sem þau stunda eru okkur mikil stoð þegar kemur að hamförum eins og þeim sem dunið hafa yfir en meira að segja þau geta ekki sagt með fullri vissu til um hvað framtíðin ber í skauti sér.

Innviðaráðuneytið hefur lagt sitt af mörkum til að tryggja húsnæði fyrir sem flesta Grindvíkinga, meðal annars með kaupum Bríetar leigufélags á 80 íbúðum sem grindvískar fjölskyldur hafa nú þegar fengið lyklana að eða fá á næstu dögum. Samvinna stjórnarráðsins við yfirvöld í Grindavík hefur verið þétt frá byrjun og verður það áfram svo lengi sem þörf er á.

Fimmtíu ár eru síðan íbúar heils byggðarlags þurftu að yfirgefa heimili sín. Við þessar aðstæður er skylda okkar sem samfélags að standa þétt við bakið á Grindvíkingum. Vonandi getum við brátt séð lengra fram í tímann svo daglegt líf lifni að nýju í Grindavík, þessu öfluga bæjarfélagi.

Þörf fyrir græna uppbyggingu

Náttúran getur verið grimm en hún er einnig gjöful. Það vitum við á Íslandi sem byggt höfum velsæld okkar á gæðum náttúrunnar, hvort sem það er í landbúnaði, sjávarútvegi, ferðaþjónustu eða með orkunni sem veitir heimilum okkar yl og ljós. Við gerum okkur betur ljós fyrir mikilvægi orkuvinnslu þegar hætta steðjar að. Reistir hafa verið varnargarðar um Svartsengi vegna þeirrar mikilvægu starfsemi þar sem fer fram og tryggir Reykjanesinu öllu hita og birtu. Ísland væri ansi fátækt og mannlífið fátæklegt ef ekki væri fyrir framsýni fyrri kynslóða með raf- og hitaveituvæðingu. Við stöndum framar flestum þjóðum þegar kemur að grænni orku. Það er þó ljóst að ráðast verður í skynsamlega virkjanakosti til að viðhalda lífsgæðum á Íslandi, virkjanakosti sem ganga ekki um of á stórkostlega náttúru okkar. Ábyrg uppbygging verður að eiga sér stað á næstu árum.

Kæri lesandi.

Síðustu áramót voru yfirskyggð af stríði í Úkraínu. Það stríð geisar enn. Ári síðar kveðjum við árið 2023 í skugga annars skelfilegs stríðs fyrir botni Miðjarðarhafs. Hjörtu okkar Íslendinga hafa lengið fundið til með Palestínumönnum. Steingrímur Hermannsson hneykslaði einhverja ráðamenn á Vesturlöndum þegar hann átti fund með Yasser Arafat, leiðtoga Palestínumanna, fyrir margt löngu en vakti með því athygli á aðstæðum þeirra. Ísland varð síðar eitt fyrsta ríkið til að viðurkenna sjálfstætt ríki Palestínu. Við hljótum öll að sameinast í bæn um frið.

Við sem búum á Íslandi getum verið þakklát fyrir friðinn sem ríkir á Íslandi. Þakklát fyrir þá samheldni sem einkennir okkur þegar á bjátar. Þakklát fyrir þann jarðveg sem við erum sprottin upp úr. Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs og farsældar á árinu 2024 og lýk þessum pistli á orðum Huldu:

Þú byrgir hjörtu, hljóð og köld,

við hjarta þitt, sem fallin strá.

Þér fólu eilíf, óþekkt völd

að endurskapa jarðlíf smá.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Staðið við bakið á Grindvíkingum

Deila grein

27/11/2023

Staðið við bakið á Grindvíkingum

Föstu­dags­kvöldið 10. nóv­em­ber 2023 mun aldrei líða Grind­vík­ing­um úr minni. Aldrei áður hafa all­ir íbú­ar heils bæj­ar­fé­lags á Íslandi fengið þau fyr­ir­mæli frá al­manna­varna­yf­ir­völd­um að þeir verði að yf­ir­gefa heim­ili sín inn­an þriggja klukku­stunda vegna yf­ir­vof­andi ógn­ar. Á þessu augna­bliki og öll­um síðan hafa all­ir Íslend­ing­ar fundið til sam­kennd­ar með Grind­vík­ing­um. Viðbrögð þjóðar­inn­ar hafa verið sterk og all­ir lagst á ár­arn­ar við að létta und­ir með Grind­vík­ing­um og eyða eft­ir megni þeirri óvissu sem rík­ir.

Grind­vík­ing­ar eru ekki heima hjá sér þessa dag­ana. Sam­fé­lag þeirra er dreift um landið en ég finn í sam­töl­um mín­um við Grind­vík­inga að hug­ur­inn er heima. Auðvitað.

Frá því að Grind­vík­ing­ar þurftu að yf­ir­gefa bæ­inn sinn hef­ur rík­is­stjórn­in lagt alla áherslu á að styðja við bæj­ar­yf­ir­völd í þeim flóknu verk­efn­um sem við blasa. Það er mik­il­vægt að for­svars­fólk sveit­ar­fé­lags­ins stjórni ferðinni þegar um bæj­ar­fé­lagið þess er að ræða. Rík­is­stjórn­in og öll stjórn­sýsla rík­is­ins er þeim til stuðnings. Það hef­ur verið aðdá­un­ar­vert að fylgj­ast með bæj­ar­stjóra og öðrum þeim sem standa í stafni sveit­ar­fé­lags­ins. Og þakk­arvert að sjá þá miklu vinnu sem viðbragðsaðilar hafa lagt af mörk­um síðustu vik­ur.

Rík­is­stjórn­in hef­ur verið í góðu sam­bandi við bæj­ar­stjóra Grinda­vík­ur um þau verk­efni sem snúa að stjórn­völd­um. Við höf­um stutt við bor­an­ir eft­ir neyslu­vatni vegna hætt­unn­ar af því að vatns­ból Suður­nesja­manna spill­ist. Við höf­um veitt all­ar þær und­anþágur sem þarf til að sveit­ar­stjórn Grinda­vík­ur starfi utan ráðhúss Grinda­vík­ur. Stærsta verk­efnið er þó ann­ars veg­ar að tryggja ör­yggi og fram­færslu og hús­næði. Að öllu þessu hef­ur verið unnið hörðum hönd­um í sam­vinnu við Grinda­vík­ur­bæ þá sól­ar­hringa sem liðnir eru frá rým­ingu.

Fyrsti þátt­ur hús­næðismál­anna var að koma öll­um Grind­vík­ing­um í ör­uggt skjól. Al­manna­varn­ir í sam­starfi við Rauða kross­inn unnu þann þátt hratt og vel. Nú hafa þau rétt keflið til rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem hef­ur lagt nótt við dag að vinna að lausn­um til næstu mánaða. Auðvitað í sam­starfi við Grind­vík­inga. Ann­ars veg­ar er unnið að því að HMS með leigu­fé­lag­inu Bríeti og íbúðafé­lag­inu Bjargi kaupi hús­næði sem get­ur hýst allt að 200 grind­vísk­ar fjöl­skyld­ur á allra næstu vik­um. Hins veg­ar er ann­ar hóp­ur sem hef­ur það hlut­verk að finna ein­inga­hús sem henta Grind­vík­ing­um og finna staðsetn­ingu þar sem slík­um hús­um er hægt að koma niður hratt og ör­ugg­lega. Von­ir standa til að slíkt ferli geti skilað því að á fyrstu mánuðum nýs árs geti Grind­vík­ing­ar flutt tíma­bundið inn í þau hús.

Af­koma fólks­ins í Grinda­vík hef­ur ásamt hús­næðismál­un­um verið í al­gjör­um for­gangi hjá rík­is­stjórn­inni. Sér­stakt frum­varp um tíma­bund­inn stuðning til greiðslu launa var lagt fyr­ir Alþingi fyrr í vik­unni og verður von­andi af­greitt sem lög í upp­hafi næstu viku. Þá var einnig samþykkt í rík­is­stjórn í gær frum­varp um sér­tæk­an hús­næðisstuðning við Grind­vík­inga.

Sam­fé­lag er meira en póst­núm­er. Það er allt skóla­starfið, fé­lags­lífið, vinnustaðirn­ir. Nú er þetta sam­fé­lag tvístrað um stund. En ekki sam­kennd­in. Það fann ég sterkt þegar ég heim­sótti miðstöð Grind­vík­inga í Toll­hús­inu fyrr í vik­unni. Þar ríkti sam­hug­ur og von um að geta snúið aft­ur heim. Heim í Grinda­vík.

Ég get ekki lofað því að næstu vik­ur og mánuðir verði auðveld­ur tími fyr­ir Grind­vík­inga. En ég get lofað því að rík­is­stjórn­in mun gera allt sem í henn­ar valdi stend­ur til að draga úr óvissu og standa vörð um Grind­vík­inga þar til þeir snúa heim.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar og innviðaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Traust og ábyrgð

Deila grein

14/10/2023

Traust og ábyrgð

Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki og Vinstrihreyfingunni – grænu framboði hefur undanfarin ár verið treyst til að takast á við stórar áskoranir með hagsmuni almennings að leiðarljósi og undir því trausti höfum við staðið. Í síðustu kosningum fékk ríkisstjórnin skýrt endurnýjað umboð og gerði með sér sáttmála um áframhaldandi samstarf. Við höfum verið einhuga um að rísa undir því trausti og þeirri ábyrgð að vinna fyrir fólkið í landinu.

Ríkisstjórnin hefur undanfarið unnið að fjölmörgum verkefnum á grundvelli stjórnarsáttmála og drjúgur meirihluti þeirra er kominn vel á veg eða þeim lokið. Á síðari hluta kjörtímabilsins ætlum við að halda ótrauð áfram. Það eru krefjandi aðstæður uppi um þessar mundir og brýn verkefni fram undan. Verðbólga hefur haft áhrif á allt samfélagið. Fólk og fyrirtæki hafa glímt við hækkandi vexti sem reynist mörgum þungt. 

Stærsta verkefni vetrarins er að ná tökum á verðbólgunni. Til að svo megi verða þarf áframhaldandi aðhald í ríkisfjármálum. Á sama tíma ætlum við áfram að veita viðkvæmum hópum skjól fyrir áhrifum hennar. Þrátt fyrir áskoranir er grunnurinn sem lagður hefur verið síðustu ár traustur. Atvinnuleysi er í lágmarki og nýjum tækifærum fjölgar í stöðugt fjölbreyttara atvinnulífi. Afkoma og skuldastaða ríkissjóðs eru langt umfram fyrri væntingar og fara hratt batnandi. Raunhæfar væntingar eru um að verðbólga lækki hratt næstu mánuði og að við náum efnahagslegum stöðugleika á nýju ári. Það er okkar að tryggja að sá ábati skili sér inn á heimilin í landinu.

Það eru hagsmunir allra að farsælir kjarasamningar náist á vinnumarkaði til að skapa forsendur fyrir lækkun verðbólgu og vaxta. Aðilar vinnumarkaðarins hafa kallað eftir áframhaldandi stuðningi við lífskjör launafólks, traustri umgjörð kjarasamninga, stöðugu framboði og öryggi á húsnæðismarkaði og bættri afkomu barnafjölskyldna. Við munum eiga samtal við forystufólk launafólks og atvinnurekenda og leggja okkar af mörkum til að greiða fyrir farsælum langtímasamningum. 

Til að ná sátt og jafnvægi í íslensku samfélagi verður áhersla ríkisstjórnar Íslands næstu mánuði fyrst og fremst á efnahagsmálin og það brýna verkefni að ná niður verðbólgu og vöxtum. Við höfum áður mætt erfiðum aðstæðum. Þeim erfiðleikum höfum við mætt af yfirvegun og öryggi. Það mun ekki breytast. Því getur þjóðin treyst.

Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.

Categories
Fréttir Greinar

Hálfleikur

Deila grein

25/09/2023

Hálfleikur

Í dag eru liðin slétt tvö ár frá Alþingiskosningum. Í þeim vann Framsókn frækinn kosningasigur sem skilaði flokknum 13 þingmönnum og tryggði áframhaldandi stjórnarsamstarf Framsóknar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Sjálfstæðisflokks. Á þeim sex árum sem liðin eru hefur mikið mætt á íslensku samfélagi en um leið hefur mikið áunnist.

Þrátt fyrir að ég hafi síðustu vikur þurft að fara mér hægt vegna aðgerðar sem ég gekkst undir í byrjun mánaðarins hef ég ekki farið varhluta af umræðunni í samfélaginu. Ég finn áhyggjur fólks aukast af afkomu sinni vegna hárrar verðbólgu. Hún er stærsta áhyggjuefnið og stærsta verkefnið sem samfélagið tekst á við þessi misserin. Til að verðbólgan verði kveðin í kútinn þá er ekkert annað í boði en að við stöndum saman.

Samstaða

Íslenskt samfélag er gott. Okkur hefur í gegnum tíðina auðnast að standa saman þegar á bjátar. Skýrasta dæmið um það síðustu árin er heimsfaraldurinn. Í honum sýndi samfélagið að það er fullt af hlýju og samlíðan. Segja má að verðbólgan sé faraldur en stóri munurinn er þó sá að covid lagðist ekki misjafnlega á fólk eftir stöðunni á bankabókinni. Í baráttunni við verðbólguna er erfiðara að ná samstöðu um aðgerðir því þær bitna misjafnlega á fólki eftir því hvernig það stendur fjárhagslega. Hagsmunir heimilanna og lífsgæði barna eru mikilvægasti þátturinn sem taka verður tillit til þegar aðgerðir gegn og vegna verðbólgu eru ákveðnar.

Agi eða örvænting?

Því miður eru engar töfralausnir til sem lækka verðbólgu bara sisona. Agi og samstaða eru lykilþættir í þeirri baráttu. Þegar stjórnmálin standa frammi fyrir erfiðum áskorunum eiga sumir það til að flýja ábyrgð sína og byrja að hrópa á torgum um hin og þessi málefni sem þeir telja geta gefið þeim fleiri like og jafnvel prósentustig í könnunum. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að ríkisstjórnarflokkarnir hafa misst fylgi á síðustu mánuðum. Því fylgir oft titringur eins og fólk hefur tekið eftir. Einstaka stjórnmálamenn og flokkar fara þá ókyrrast og ýfa fjaðrirnar, pota í aðra, stíga á tær, allt til að skapa um sig umtal. Sumir leita uppi leðju til að sletta og polla til að hræra upp í til að skapa ótta, óþol og öfund með von um að þeir sjálfir komist í sviðsljósið. En örvænting fer engum vel. Nær væri að fólk myndi setjast niður og hugsa hvernig best sé að skapa almenna samstöðu um framtíðarsýn og síðast en ekki síst skapa aukið traust á stjórnmálunum og efnahagsstjórn landsins.

Dómsdagsspámenn

Þessa dagana er ekki skortur á dómsdagsspám um ríkisstjórnarsamstarfið í fjölmiðlum, heitum pottum og einstaka þingflokksherbergjum. Það lækkar ekki verðbólgu. Fyrir nokkrum dögum rakst ég á konu sem hafði á orði við mig að henni þætti útlitið nú ekki bjart fyrir stjórnina, hver höndin upp á móti annarri og erfitt að ímynda sér að hún væri á vetur setjandi. Ég sagði við hana að vissulega mætti fólk stundum anda aðeins með nefinu áður en það léti vaða á samstarfsfólk sitt en þetta væri aðallega merki um stress. Eftir smá spjall urðum við sammála um það að það væri nú ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á það að skorast undan ábyrgð á erfiðum tímum. Allavega myndi Framsókn ekki gefast upp.

Seinni hálfleikur

Það eru tvö ár liðin af kjörtímabilinu og við í Framsókn erum stolt af því sem við höfum áorkað á þeim tíma. Leikurinn er þó ekki búinn. Það eru ýmsar áskoranir sem íslenskt samfélag tekst á við. Við í Framsókn byrjum seinni hálfleik með sömu markmið og áður: Að vinna af heilindum að umbótum fyrir íslenskt samfélag með samvinnu. Það er bjargföst skoðun mín að til að ná sigri í baráttunni við verðbólgu verða einhverjir að gefa eftir en fyrst og fremst verða allir að gefa af sér.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og innviðaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Réttlátari húsnæðismarkaður

Deila grein

31/08/2023

Réttlátari húsnæðismarkaður

Á haustþingi lít­ur dags­ins ljós þings­álykt­un­ar­til­laga um hús­næðis­stefnu fyr­ir Ísland en stefn­an var kynnt á Hús­næðisþingi í gær. Það kann að hljóma ein­kenni­lega en það verður í fyrsta sinn sem slík til­laga er lögð fyr­ir Alþingi Íslend­inga. Helsta ástæðan fyr­ir því að slík til­laga hef­ur aldrei áður litið dags­ins ljós er lík­ast til sú að það er ekki fyrr en með nýju innviðaráðuneyti sem hús­næðis- og mann­virkja­mál, skipu­lags­mál og sveit­ar­stjórn­ar­mál eru í fyrsta sinn öll und­ir ábyrgðarsviði eins og sama ráðherr­ans.

Markaður­inn þarf aðstoð

Drög að hús­næðis­stefnu hafa verið í sam­ráðsgátt stjórn­valda síðustu vik­ur og lýk­ur hinu opna sam­ráði mánu­dag­inn 4. sept­em­ber. Meg­in­inn­tak stefn­unn­ar er að hús­næði sé hluti af vel­ferð okk­ar allra. Við þurf­um öll þak yfir höfuðið. Segja má að sú stefna, eða stefnu­leysi, sem ríkt hef­ur feli í stuttu máli í sér að hinn frjálsi markaður eigi að sjá um hús­næðis­stefn­una með lög­mál­um markaðar­ins. Mín skoðun er sú að málið sé ekki svo ein­falt þegar um er að ræða grunnþarf­ir mann­eskj­unn­ar sem hús­næði er svo sann­ar­lega. Það eru og verða alltaf ein­stak­ling­ar og fjöl­skyld­ur sem eiga ein­hverra hluta vegna erfitt með að eign­ast þak yfir höfuðið. Við get­um sem sam­fé­lag ekki snúið blinda aug­anu að þeirri staðreynd. Við erum nor­rænt vel­ferðarsam­fé­lag og get­um lært mikið af frænd­um okk­ar ann­ars staðar á Norður­lönd­um sem hafa þróað öfl­ugt kerfi í kring­um hús­næðismál, ekki síst út frá vel­ferðarsjón­ar­miðum.

Kyn­slóðarúll­ett­an

Stærsta verk­efni stjórn­mál­anna nú er að ná bönd­um á verðbólgu og skapa aðstæður fyr­ir lægri vexti. Það er því stór­kost­legt efna­hags­legt verk­efni að byggja upp hús­næðismarkað sem er laus við þess­ar ýktu sveifl­ur sem við höf­um búið við síðustu ár og ára­tugi, ýkt­ar sveifl­ur á verði hús­næðis sem koma af full­um þunga inn í hús­næðislið vísi­töl­unn­ar sem ekki hef­ur náðst samstaða um að breyta. Því miður. Þess­ar ýktu sveifl­ur búa til eins kon­ar kyn­slóðarúll­ettu sem ger­ir það að verk­um að það að koma þaki yfir höfuðið leggst á órétt­lát­an hátt mis­jafn­lega á kyn­slóðir fyrstu kaup­enda.

Tvenns kon­ar mark­mið

Hús­næðis­stefn­an fel­ur í sér tvenns kon­ar mark­mið. Ann­ars veg­ar mark­miðið um að ná jafn­vægi á hús­næðismarkaði til lengri tíma með því að vinna upp þá upp­bygg­ing­ar­skuld sem orðið hef­ur til eft­ir frostið í kjöl­far banka­hruns­ins og ófull­nægj­andi fram­boðs lóða. Sú yf­ir­sýn sem við höf­um öðlast með þétt­ara sam­starfi rík­is, sveit­ar­fé­laga og bygg­ing­araðila er mik­il­væg­ur grunn­ur til að standa á til að ná þess­um mark­miðum til lengri tíma. Nauðsyn­legt er talið að byggja 35 þúsund íbúðir á næstu tíu árum.

Hins veg­ar er um að ræða skamm­tíma­mark­mið sem miða að því að taka utan um þá hópa sem veik­ast standa fjár­hags­lega og eiga í erfiðleik­um með að eign­ast eða leigja hús­næði. Við vinnu við fjár­mála­áætl­un til árs­ins 2028 var aukið veru­lega við stuðning við hús­næðis­upp­bygg­ingu, bæði með hækk­un stofn­fram­laga til bygg­ing­ar hag­kvæms hús­næðis á viðráðan­legu verði og með breyt­ing­um á skil­mál­um hlut­deild­ar­lána.

Línu­dans á tím­um verðbólgu

Upp­bygg­ing á tím­um verðbólgu er línu­dans. Gæta verður að því að auka ekki á þenslu á sama tíma og vinna verður gegn hús­næðis­skorti sem leiðir til hækk­un­ar á hús­næðis­verði og þar af leiðandi hærri verðbólgu. Þau verk­færi sem eru í verk­færa­k­istu hins op­in­bera og þróuð hafa verið frá því Fram­sókn hélt um tauma í fé­lags­málaráðuneyt­inu árin 2013-2016 og síðar 2017-2021 hafa reynst vel í yf­ir­stand­andi vinnu og munu gera það áfram. Í þeirri kistu er að finna tæki til að skapa jafn­vægi fram­boðs og eft­ir­spurn­ar.

Mik­il­vægt að tryggja ör­yggi leigj­enda

Eitt af því sem verk­tak­ar hafa gagn­rýnt er að verið sé að leggja áherslu á upp­bygg­ingu þroskaðs leigu­markaðar. Þess má geta að leigu­markaður­inn á Íslandi er gjör­ólík­ur því sem þekk­ist hjá hinum nor­rænu þjóðunum. Hann er mun minni og ein­kenn­ist miklu síður af óhagnaðardrifn­um leigu­fé­lög­um. Þeir sem hafa sökkt sér ofan í aðstæður á ís­lensk­um leigu­markaði kom­ast fljótt að því að það sem ein­kenn­ir hann er óör­yggi leigj­enda og er ekki óal­gengt að heyra sög­ur af fólki sem þarf að vera í stöðugum flutn­ing­um milli skóla­hverfa til að tryggja börn­um sín­um þak yfir höfuðið. Ég hef alla tíð verið talsmaður þess að fólk eigi helst að eiga frek­ar en leigja en við get­um ekki horft fram hjá því að alltaf er ein­hver hóp­ur fólks sem annaðhvort vill eða verður að búa í leigu­hús­næði. Það er óá­byrgt að láta sem þessi hóp­ur sé ekki til þótt hann sé ekki stór.

Kæri les­andi.

Fátt er mik­il­væg­ara fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag en það að skapa for­send­ur fyr­ir rétt­lát­ari hús­næðismarkaði. Stór skref hafa verið stig­in á síðustu árum og ný hús­næðis­stefna verður mik­il­væg­ur liður í því að bæta lífs­kjör á Íslandi. Hús­næðismál eru ekki aðeins spurn­ing um vel­ferð held­ur einnig stórt efna­hags­mál. Aukið fram­boð nýrra íbúða á næstu árum er nauðsyn­legt til þess að koma á jafn­vægi á hús­næðismarkaði til framtíðar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. ágúst 2023.

Categories
Fréttir Greinar

2.800 íbúðir fyrir tekju- og eignaminni

Deila grein

22/06/2023

2.800 íbúðir fyrir tekju- og eignaminni

Á þriðju­dag var stór stund í húsa­kynn­um Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un­ar þegar kynnt var þriggja millj­arða út­hlut­un til upp­bygg­ing­ar hag­kvæmra íbúða fyr­ir tekju- og eignam­inni. Á ár­un­um 2023-2025 verða byggðar 2.800 íbúðir fyr­ir þenn­an hóp sem er veru­leg aukn­ing frá fyrri áætl­un­um. Þar af verða 800 byggðar á þessu ári. Þessi út­hlut­un er liður í aðgerðum rík­is­stjórn­ar­inn­ar til að mæta þrýst­ingi á hús­næðismarkaði á krefj­andi verðbólgu­tím­um. Rík­is­stjórn­in hef­ur ákveðið að tvö­falda fram­lög til stofn­lána til leigu­íbúða inn­an al­menna íbúðakerf­is­ins og hlut­deild­ar­lána til íbúðakaupa. Fjár­mögn­un er tryggð með svig­rúmi í fjár­mála­áætl­un og hliðrun annarra verk­efna.

Minni sveifl­ur – meira jafn­vægi

Mik­il­væg­asta verk­efni þess­ara miss­era er að skapa jafn­vægi á hús­næðismarkaði. Við höf­um á síðustu árum og ára­tug­um upp­lifað gríðarleg­ar sveifl­ur á hús­næðismarkaðinum sem hafa ákaf­lega mik­il áhrif á verðbólgu og þar af leiðandi vaxtaum­hverfi fjöl­skyldna og fyr­ir­tækja. Þess­ar miklu sveifl­ur koma verst niður á þeim sem minnst hafa á milli hand­anna.

Stuðning­ur til að eign­ast eða leigja

Við höf­um á síðustu árum verið að búa til nýja um­gjörð til að styðja við ungt fólk og aðra tekju­lága hópa við að eign­ast eða leigja hús­næði á viðráðan­legu verði. Skipta má kerf­inu í tvo hluta. Ann­ars veg­ar er það stofn­lána­kerfið þar sem stutt er við upp­bygg­ingu leigu­íbúða inn­an al­menna hús­næðis­kerf­is­ins. Með því að ríki og sveit­ar­fé­lög leggi til stofn­fram­lög til upp­bygg­ing­ar á veg­um óhagnaðardrif­inna leigu­fé­laga á borð við Bjarg og Bríeti þá er lagður grunn­ur að öfl­ugu al­mennu íbúðakerfi þar sem áhersl­an er lögð á að leigu­fjár­hæð sé að jafnaði ekki um­fram fjórðung tekna. Þar sem ekki er greidd­ur út arður úr leigu­fé­lag­inu þá munu fjár­mun­ir sem safn­ast upp inn­an þeirra verða nýtt­ir til frek­ari upp­bygg­ing­ar á leigu­íbúðum til tekju- og eignam­inni hópa.

Hins veg­ar er það hlut­deild­ar­lána­kerfið. Hlut­deild­ar­lán fel­ast í því að ríkið fjár­fest­ir 20% í eign­inni með fyrsta kaup­anda eða kaup­anda sem hef­ur ekki átt eign í til­tek­inn tíma og því þarf kaup­and­inn ein­ung­is að reiða fram 5% kaup­verðs í út­borg­un. Eng­ir vext­ir eða af­borg­an­ir eru af hlut­deild­ar­láni og þegar eign­in er seld þá fær ríkið sinn 20% hluta til baka. Há­marks­verð er á íbúðunum þannig að þær verði eins hag­kvæm­ar eins og kost­ur er með til­skil­inni stærð og her­bergja­fjölda. Þessi sér­eign­ar­leið höfðar til þeirra sem frek­ar vilja eiga en leigja.

Mark­mið að minnka þrýst­ing

Nú er tím­inn fyr­ir stjórn­völd til að stíga inn með stuðning við þá hópa sem erfiðast eiga með að eign­ast hús­næði eða leigja. Auk­inn stuðning­ur við upp­bygg­ingu hús­næðis fyr­ir þessa hópa er sveiflu­jöfn­un­araðgerð sem lækk­ar þrýst­ing­inn sem er á hús­næðismarkaði og minnk­ar lík­urn­ar á mikl­um hækk­un­um þegar fram í sæk­ir. Í fyrsta skipti eru stjórn­völd kom­in með heild­ar­y­f­ir­sýn yfir hús­næðismál­in. Nú liggja fyr­ir upp­lýs­ing­ar um hvernig hús­næði þarf að byggja, fyr­ir hverja og hvar, en einnig hvaða áform eru fyr­ir hendi um íbúðaupp­bygg­ingu. Sú yf­ir­sýn sem hef­ur náðst með nýju innviðaráðuneyti sem hús­næðis-, skipu­lags- og sveit­ar­stjórn­ar­mál heyra und­ir er gríðarlega mik­il­væg. Hið góða sam­starf á milli Hús­næðis- og mann­virkja­stof­un­un­ar, Skipu­lags­stofn­un­ar í sam­starfi við sveit­ar­fé­lög um að gera fer­il hús­næðis­upp­bygg­ing­ar að einu og skil­virku ferli er hryggj­ar­stykkið í því að okk­ur tak­ist að vinda ofan af því ójafn­vægi sem nú rík­ir í hús­næðismál­un­um.

Rétt­læti á hús­næðismarkaði

Nú er rétt ár síðan ég und­ir­ritaði ramma­sam­komu­lag við Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga um sam­eig­in­lega sýn um upp­bygg­ingu íbúðar­hús­næðis og mark­mið um 35 þúsund nýj­ar íbúðir á næstu tíu árum. Hálft ár er liðið frá fyrsta sam­komu­lagi innviðaráðuneyt­is­ins og HMS við Reykja­vík­ur­borg. Þetta þétta sam­starf rík­is og sveit­ar­fé­laga mark­ar tíma­mót í upp­bygg­ingu hús­næðis og mark­ar leiðina að jafn­vægi á hús­næðismarkaði. Jafn­vægi sem mun tryggja meira rétt­læti og ör­yggi á hús­næðismarkaði.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. júní 2023.