Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Brýrnar brenndar

Deila grein

19/06/2025

Brýrnar brenndar

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og þingmaður í suðurkjördæmi ritaði grein í Morgunblaðið sem var birt 19. júní 2025:

,,Alla mína stjórnmálatíð hef ég í mínum störfum lagt gríðarlega áherslu á að hugsa Ísland sem eina heild. Það hefur verið mín byggðastefna að byggja brýr milli höfuðborgarsvæðisins þar sem flestir búa og byggða landsins, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Þess vegna þykir mér sárt að horfa upp á Kristrúnarstjórnina ráðast að grundvallaratvinnuvegi landsbyggðarinnar, sjávarútvegi, og í allri umræðu brenna niður þær brýr sem höfðu verið byggðar á síðustu árum og áratugum.

Undirstaða byggðar er atvinna. Það hélt ég að við vissum öll. Stærstu átakamál síðustu áratuga hafa jafnan snúið að atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Er þar nærtækast að nefna Kárahnjúkavirkjun sem var algjör lykilforsenda fyrir því að álver var reist við Reyðarfjörð. Þau sár sem voru rist í þeirri umræðu voru djúp en voru orðin nokkuð gróin í tíð síðustu ríkisstjórnar. Því hvað sem fólk vill halda um þá ríkisstjórn þá var hún í vinnu fyrir allt landið, alla þjóðina.

Sjávarútvegur er umdeild grein á Íslandi. Því miður – því þessi grein hefur verið kjölfestan í þeim lífsgæðum sem við höfum byggt upp hér á landi. Kvótakerfinu var komið á vegna þess að samfélög um allt land voru að veikjast vegna óheftra veiða, veikjast vegna stöðugra áfalla í rekstri fyrirtækja sem áttu að vera burðarásar samfélaganna. Kvótakerfið og framsal veiðiheimilda voru nauðsynleg tæki til að skapa raunverulegan, stöðugan rekstrargrundvöll fyrir sjávarútvegsfyrirtæki um allt land. Greinin náði styrk og gerði það meðal annars með sameiningum. Hér hafa risið öflug fyrirtæki í grein sem allar aðrar þjóðir öfunda okkur Íslendinga af. Þetta ferli var ekki sársaukalaust frekar en önnur hagræðing. Ákveðin svæði og ákveðin fyrirtæki urðu sterk en önnur síður. Það er þó ljóst að án þessarar hagræðingar hefði þjóðarbúið sjálft aldrei náð þeim styrk sem hefur haldið lífsgæðum á Íslandi uppi.

Ég heyrði einn stjórnarþingmann svara því til í útvarpsviðtali að ef ákvarðanir ríkisstjórnarinnar myndu valda áföllum í einstaka byggðarlögum á landsbyggðinni yrði gripið til byggðaaðgerða. Hann hnýtti síðan við þeirri möntru sem stjórnarliðar virðast hafa skrifað á handarbak sitt: Og svo munum við byggja vegi fyrir ágóðann af tvöföldun veiðigjaldanna.

Það er gott að byggja vegi. Í ráðherratíð minni tvöfölduðust framlög til vegamála þannig að ég er fyrsti maðurinn til að samþykkja aukin framlög til samgangna. Það er hins vegar sérstakt að heyra stjórnarþingmenn aftur og aftur tengja tvöföldun veiðigjalda við aukningu fjármagns til vegaframkvæmda því þegar litið er á þá fjármálaáætlun sem nýja ríkisstjórnin – sem með mikilli sjálfumgleði kallar sig verkstjórnina – hefur lagt fram þá er ekki einu sinni að sjá að þeir miklu fjármunir sem renna til ríkisins með nýju kílómetragjaldi muni allir skila sér til samgöngumála. Reyndar munar allt að 20 milljörðum þegar horft er til tímabils áætlunarinnar.

Það er enginn of góður til að greiða til samfélagsins. Og þeir sem halda því fram að sjávarútvegurinn geri það ekki eru á villigötum. Veiðigjöld eru einungis lítill hluti af því sem greinin greiðir til ríkisins í formi skatta og gjalda. Það sem er einna sárast að horfa upp á, í þessari framgöngu hinnar nýju ríkisstjórnar er að hún virðir að vettugi varúðarorð sveitarfélaganna sem reiða sig að miklu leyti á útsvarstekjur frá sjávarútvegi, útgerð og vinnslu. Höggið sem sveitarfélögin óttast að útsvartekjur þeirra gætu orðið fyrir eru heldur ekki prívat vandi sjávarútvegssveitarfélaganna. Ef útsvarstekjur þeirra lækka, þá lækka framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna sem síðan hefur áhrif á öll sveitarfélög á landinu.

Ég vona að Kristrúnarstjórnin átti sig á því að stjórnvöld verða að hugsa um landið í heild, þjóðina í heild. Ég vona að hún hætti að brenna brýr með orðum sínum og gjörðum.”

Categories
Fréttir Greinar

Skref aftur á bak fyrir konur með endómetríósu

Deila grein

12/06/2025

Skref aftur á bak fyrir konur með endómetríósu

Fyrir margar konur sem lifa með endómetríósu hefur lífið snúist um langvarandi verki, bið og baráttu fyrir því að fá hlustun og viðeigandi meðferð. Í gegnum árin hefur Endófélagið unnið ómetanlegt starf við að vekja athygli á þessum ósýnilega sjúkdómi og skapa umræðu sem snýst um skilning, stuðning og virðingu. Það hefur skipt sköpum fyrir fjölmargar konur sem áður voru ósýnilegar í heilbrigðiskerfinu.

Framsókn hefur lengi lagt áherslu á málefni kvenna með endómetríósu og unnið að bættri þjónustu. Eygló Harðardóttir vann ötullega að því að varpa ljósi á þennan sjúkdóm á meðan hún gegndi þingmennsku. Henni tókst, ásamt öðru baráttufólki, að koma umræðunni af stað á stjórnmálavettvangi og leggja grunn að þeirri vitundarvakningu sem hefur átt sér stað á undanförnum árum.

Með áherslum nýs heilbrigðisráðherra hefur skapast óvissa um hvernig sinna eigi þeim konum sem bíða eftir nauðsynlegum aðgerðum vegna endómetríósu. Þess vegna er brýnt að þessari óvissu verði eytt og að stór hópur kvenna þurfi ekki að bera fjárhagslega byrði til að endurheimta lífsgæði sín. Framsókn hefur einmitt lagt áherslu á að heilbrigðiskerfið eigi að snúast um einstaklinginn, ekki kerfið. Það þarf að nálgast þessi mál af yfirvegun, með skilningi og samráði, rétt eins og Willum Þór gerði þegar hann gegndi embætti heilbrigðisráðherra. Við skuldum konunum með endómetríósu skýr svör, raunhæfar lausnir og heilbrigðiskerfi sem setur lífsgæði þeirra í forgang.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. júní 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Gríðar­legir hags­munir í húfi

Deila grein

31/05/2025

Gríðar­legir hags­munir í húfi

Orðspor íslensks sjávarútvegs er meðal mikilvægustu verðmæta greinarinnar. Á alþjóðlegum mörkuðum njóta íslenskar fiskafurðir mikils álits, ekki aðeins vegna gæða heldur einnig vegna þess að þær eru afurðir sjálfbærra og ábyrgra veiða. Þetta traust hefur byggst upp áratugum saman með sameiginlegu átaki útgerða, stjórnvalda og vísindastofnana sem hafa lagt áherslu á að tryggja vandaða og gagnsæja nýtingu auðlinda hafsins.

Frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingar á strandveiðum er mjög gagnrýniverð, ekki síst vegna vinnubragðanna. Að leggja fram lagabreytingar með engu samráði, undir lok þings, án þess að kalla til vísindasamfélagið eða hagsmunaaðila er óboðlegt. Vinnubrögð sem þessi rjúfa traust og vekja óneitanlega upp um spurningar óstöðugleika og ábyrgðarleysi í íslenskri fiskveiðistjórnun, ekki bara hér innanlands heldur einnig á alþjóðavettvangi.

Ef farið er að sveigja þá stefnu sem hefur verið rækilega mótuð um áratugaskeið, stefnu sem byggð er á vísindalegum grunni mun orðspor íslensks sjávarútvegs skaðast verulega. Útflutningsverðmæti upp á tugi eða hundruð milljarða króna eru í húfi. Kaupendur á erlendum mörkuðum greiða hærra verð fyrir fisk sem kemur frá sjálfbærum og stöðugum veiðisvæðum. Ef sú mynd brestur, getur verðfallið orðið hratt og áhrifin gríðarleg, ekki aðeins á útflutningstekjur heldur einnig á störf sjómanna, fiskverkafólks og rekstur sjávarútvegsfyrirtækja.

Það er einfaldlega ekki ásættanlegt að meðhöndla svona mikilvægt mál með þeim hætti sem ríkisstjórnin gerir. Fiskveiðistjórnunarkerfið er einn af hornsteinum íslensks efnahagslífs og grundvallarbreytingar á því eins og hér er lagt til þarfnast raunverulegs samráðs og vandaðrar vinnu. Tilraunakenndar breytingar í pólitísku skjóli síðustu daga þings er ekki rétt leið. Ríkisstjórnin þarf að axla ábyrgð í þessu máli og við megum ekki undir neinum kringumstæðum hætta orðspori þjóðarinnar, því það getur tekið langan tíma að byggja það upp á ný.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Hlutdeildarlánin – skref að réttlátari húsnæðismarkaði

Deila grein

29/05/2025

Hlutdeildarlánin – skref að réttlátari húsnæðismarkaði

Fé­lags- og hús­næðismálaráðherra svaraði ný­verið fyr­ir­spurn sem ég lagði fram á Alþingi um áhrif hlut­deild­ar­lána. Í svar­inu kom skýrt fram að þetta úrræði – sem Fram­sókn setti á lagg­irn­ar til að styðja við fyrstu kaup­end­ur – hef­ur skilað raun­veru­leg­um ár­angri. Það hef­ur sér­stak­lega nýst ungu og tekju­lágu fólki sem ella hefði ekki haft kost á að kaupa sér íbúðar­hús­næði. Hlut­deild­ar­lán­in voru fyrst veitt í lok árs 2020 og síðan þá hafa 1.006 lán verið af­greidd fyr­ir um 10,4 millj­arða króna. Hlut­deild­ar­lán hafa verið veitt í 29 sveit­ar­fé­lög­um víðs veg­ar um landið, þar af flest í Reykja­vík, Hafnar­f­irði og Reykja­nes­bæ.

Hug­mynd­in felst í því að ríkið taki að sér hlut­verk sem for­eldr­ar gegna oft – að styðja ungt fólk við fyrstu fast­eigna­kaup. Flest­ir búa ekki við þær aðstæður að geta leitað til for­eldra sinna um aðstoð við út­borg­un og því stíg­ur ríkið inn með þess­um stuðningi.

Reynsl­an sýn­ir að hlut­deild­ar­lán­in hafa haft mjög já­kvæð áhrif fyr­ir sam­fé­lagið í heild. Rík­is­sjóður á hlut í þess­um eign­um og virði þeirra hef­ur hækkað. Úti­stand­andi hlut­deild­ar­lán eru að upp­haf­legri fjár­hæð um 9,5 millj­arðar. Miðað við þróun fast­eigna­verðs er virði þeirra nú 12,8 millj­arðar og óinn­leyst­ur mis­mun­ur því um 3,3 millj­arðar. Að auki hafa 112 lán þegar verið greidd upp – með að meðaltali 34% hærri end­ur­greiðslu en upp­haf­leg upp­hæð.

Hlut­deild­ar­lán­in hafa því stuðlað að fé­lags­leg­um stöðug­leika og stór­bætt stöðu fjöl­margra án þess að vera fjár­hags­leg byrði fyr­ir ríkið. Þessi nálg­un – að styðja við sér­eign­ar­stefn­una og veita fólki tæki­færi til að byggja upp sjálf­stæði á traust­um grunni – er kjarni þess sem Fram­sókn stend­ur fyr­ir.

Það er ljóst að eft­ir­spurn­in er mik­il og í ljósi góðrar reynslu og sam­fé­lags­legs ávinn­ings er mik­il­vægt að fjölga út­hlutuðum lán­um en áætlað er að um 300 lán verði veitt á þessu ári og um 260 á ári næstu fjög­ur ár. Það þarf einnig að tryggja aukið fjár­magn og sveigj­an­leika, m.a. með ár­legri end­ur­skoðun á tekju­mörk­um og há­marks­verði fast­eigna.

Við í Fram­sókn mun­um halda áfram að beita okk­ur fyr­ir rétt­lát­ari og aðgengi­legri hús­næðismarkaði. Hlut­deild­ar­lán­in hafa sýnt að það er hægt að byggja upp raun­veru­leg tæki­færi fyr­ir fólk – og ávinn­ing fyr­ir sam­fé­lagið allt.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Tími til um­bóta í byggingar­eftir­liti

Deila grein

13/05/2025

Tími til um­bóta í byggingar­eftir­liti

Húsnæðismál eru eitt stærsta hagsmunamál almennings. Þegar fólk fjárfestir í íbúð, leggur það oft stærstu fjárhagslegu skuldbindingu ævi sinnar undir. Þá skiptir öllu máli að sú íbúð sé örugg, vönduð og án leyndra galla. Því miður hefur íslenskt kerfi í mannvirkjagerð um árabil dregist aftur úr og núverandi fyrirkomulag byggingareftirlits veitir hvorki neytendum næga vernd né stuðlar að faglegri og skilvirkri uppbyggingu.

Ný skýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem unnin var í framhaldi af vinnu sem ég sem innviðaráðherra beitti mér fyrir, dregur þetta skýrt fram. Þar er lagður fram vegvísir að breyttu eftirliti á Íslandi, sem setur fram djörf en nauðsynleg markmið fyrir íslenskan mannvirkjaiðnað.

Um er að ræða kerfisbreytingar sem lúta að ytra eftirliti, ábyrgð í framkvæmd og tryggingum. Meðal tillagna er að leggja niður byggingarstjórakerfið, koma á fót óháðum skoðunarstofum sem framkvæma eftirlit og festa í sessi lögbundna byggingargallatryggingu sem verndar kaupanda, jafnvel ef byggingaraðili verður gjaldþrota. Þessar breytingar eru ekki einungis til að auka gæði í mannvirkjagerð – þær eru líka efnahagslega skynsamlegar.

Kostnaður vegna byggingargalla er nú metinn á að minnsta kosti 25 milljarða króna árlega. Með því að færa ábyrgð til þeirra aðila sem raunverulega ráða yfir verkinu – hönnuða, iðnmeistara og einkum verkeiganda – má draga úr ósýnilegum áhættuþáttum sem valda skaða fyrir neytendur og samfélagið í heild. Lögbundin byggingargallatrygging, að danskri fyrirmynd, getur þar orðið lykilatriði.

Skýrslan undirstrikar einnig mikilvægi stafrænnar þróunar, samræmingar umsóknarferla og gagnsæis í framkvæmdum. Með því að nýta Mannvirkjaskrá sem miðlægt kerfi má einfalda stjórnsýsluna, draga úr kostnaði og tryggja rekjanleika. Þetta eru raunhæfar og framkvæmanlegar tillögur sem eiga sér fyrirmynd í árangursríkum breytingum á rafmagnseftirliti frá árinu 1997.

Umbætur af þessu tagi gerast ekki á einni nóttu. Þær krefjast samráðs, aðlögunar og samstöðu. En með réttum skrefum má byggja upp kerfi sem umbunar vönduðum aðilum og ver neytendur gegn dýrum og oft ósýnilegum byggingargöllum.

Nú er rétti tíminn til að hrinda þessum breytingum í framkvæmd. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur lagt traustan grunn. Næsta skref er pólitísk forysta og breið samstaða um að framtíð mannvirkjagerðar á Íslandi eigi að byggjast á ábyrgð, gagnsæi og hagsmunum almennings. Það er mikilvægt að nú verði unnið hratt og vel að framgangi málsins sem snýr að grundvallarhagsmunum fyrir alla landsmenn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Laxeldi og auðlindir – tryggjum íslensk yfirráð

Deila grein

08/05/2025

Laxeldi og auðlindir – tryggjum íslensk yfirráð

Lax­eldi í sjó hef­ur á und­an­förn­um árum vaxið hraðar en flest­ar aðrar at­vinnu­grein­ar á Íslandi. Þessi ört stækk­andi at­vinnu­grein nýt­ir stór­brotn­ar auðlind­ir okk­ar; hafsvæðið, hreina orku, vatnið og landið sjálft. Í ljósi þess að áður­nefnd­ar auðlind­ir eru tak­markaðar er mik­il­vægt að horfa til framtíðar með lang­tíma­hags­muni þjóðar­inn­ar að leiðarljósi þegar kem­ur að eign­ar­haldi og stjórn þessa geira.

Í dag er staðan sú að stór hluti fyr­ir­tækja í sjókvía­eldi við Íslands­strend­ur er í eigu er­lendra aðila, einkum frá Nor­egi. Er­lend fjár­fest­ing er mik­il­væg ís­lensku sam­fé­lagi, en það má ekki gleym­ast að yf­ir­ráð yfir auðlind­um og lyk­il­innviðum eiga að vera í hönd­um þjóðar­inn­ar sjálfr­ar.

Því er skrefið sem lagt er til í þings­álykt­un­ar­til­lögu, sem ég hef lagt fram á Alþingi ásamt þing­flokki Fram­sókn­ar, um að tak­marka eign­ar­hald er­lendra aðila í sjókvía­eldi við 25% afar mik­il­vægt. Ég vona að aðrir flokk­ar muni styðja við fram­gang þessa mik­il­væga máls á þingi. Þetta mál er í sam­ræmi við aðrar áhersl­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins um að tryggja inn­lent eign­ar­hald á bújörðum og for­gang al­menn­ings að raf­orku, og eru þetta þing­mál sem Fram­sókn hef­ur lagt fram á þessu lög­gjaf­arþingi. Mark­miðið er að tryggja yf­ir­ráð þjóðar­inn­ar yfir lyk­i­lauðlind­um sín­um. Með því styrkj­um við sjálfs­for­ræði Íslend­inga yfir at­vinnu­starf­semi sem bygg­ir á þjóðarauði, rétt eins og gert hef­ur verið í sjáv­ar­út­vegi um ára­bil. Við tryggj­um að ábat­inn verði nýtt­ur inn­an­lands til að efla byggðir, stuðla að ný­sköp­un, standa und­ir vax­andi kröf­um um sjálf­bærni og verja nátt­úru lands­ins.

Lög­gjöf í anda þess­ar­ar til­lögu er ekk­ert eins­dæmi. Í Fær­eyj­um hafa sam­bæri­leg­ar regl­ur tryggt að arður­inn af lax­eldi nýt­ist fær­eysku sam­fé­lagi, og reynsl­an þaðan sýn­ir að sjálf­stæð eign­arstaða styrk­ir bæði at­vinnu­grein­ina og sam­fé­lagið sem styður við hana.

Með skýr­um regl­um um eign­ar­hald í lax­eldi tryggj­um við að auðlind­ir okk­ar verði áfram und­ir okk­ar stjórn, að ís­lenskt sam­fé­lag njóti ávinn­ings­ins og að við byggj­um und­ir framtíðar­vel­ferð í sátt við nátt­úr­una. Það er lyk­il­atriði fyr­ir sjálf­stæði okk­ar sem þjóðar og fyr­ir heill næstu kyn­slóða.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fjármálaráðherra á villigötum

Deila grein

20/03/2025

Fjármálaráðherra á villigötum

Það fel­ast gríðarleg tæki­færi fyr­ir íbúðar­kaup­end­ur í því að fjár­mála­fyr­ir­tæki geti boðið fram löng óverðtryggð lán á föst­um vöxt­um. Nú er kom­in fram skýrsla dr. Jóns Helga Eg­ils­son­ar sem skýr­ir for­send­ur og fyr­ir­mynd­ir frá öðrum lönd­um.

Það er miður að fjár­málaráðherra hafi kosið að mistúlka hluta niðurstaðna skýrslu um leiðir til að bæta láns­kjör á ís­lensk­um hús­næðismarkaði með þeim hætti sem hann hef­ur gert op­in­ber­lega.

Skýrsl­an er mjög skýr: Hún set­ur fram sex til­lög­ur til að bæta kjör íbúðalána og að strax verði ráðist í að hrinda þeim í fram­kvæmd. Ráðherra hef­ur valið að hafna því á þeim for­send­um að til­laga um að efla markað með vaxta­skipta­samn­inga sé áhættu­söm fyr­ir ríkið og líkt við Íbúðalána­sjóð! Með því að efla markað með vaxta­skipta­samn­inga geta aðilar á markaði bætt eig­in fjár­stýr­ingu. Þetta er þekkt og viður­kennd aðferð í lönd­un­um í kring­um okk­ur og hef­ur sannað sig í að nýt­ast bæði bönk­um, fyr­ir­tækj­um og einnig við fjár­stýr­ingu rík­is­sjóða. Sem dæmi er markaður með vaxta­skipta­samn­inga í Nor­egi og Svíþjóð mik­il­væg for­senda þess að bank­ar geta boðið hag­kvæm íbúðalán á föst­um vöxt­um til langs tíma. Rík­is­sjóðir landa nýta vaxta­skipta­samn­inga í sinni fjár­stýr­ingu. Rík­is­sjóður Íslands hef­ur um ára­bil nýtt vaxta­skipta­samn­inga í sinni fjár­stýr­ingu en get­ur notið þess í aukn­um mæli ef um­gjörð þessa markaðar verður bætt, eins og lagt er til í skýrsl­unni.

Vaxta­skipta­markaðir í lönd­un­um í kring­um okk­ur gera bönk­um kleift að bjóða lán með föst­um vöxt­um til lengri tíma en þeir ella gætu. Rík­is­sjóður get­ur lagað fjár­mögn­un að sín­um þörf­um á hag­kvæm­ari kjör­um. Báðir aðilar njóta hag­kvæmni.

Það er því óviðeig­andi og vill­andi að fjár­málaráðherra tengi til­lög­ur um vaxta­skipta­samn­inga við reynsl­una af Íbúðalána­sjóði! Þetta eru al­ger­lega ótengd mál og eiga ekk­ert sam­eig­in­legt. Vaxta­skipta­samn­ing­ar eru nýtt­ir út um all­an heim af fyr­ir­tækj­um, bönk­um og líf­eyr­is­sjóðum sem verk­færi í fjár­stýr­ingu til að draga úr áhættu og bæta kjör – ekki til þess að auka hana eins og fjár­málaráðherra virðist halda.

Í ljósi svara ráðherra er vert að velta upp hvort um sé að ræða vanþekk­ingu eða póli­tísk­an út­úr­snún­ing til að ýta und­ir stefnu Viðreisn­ar um ESB-aðild, sem oft er sögð nauðsyn­leg til að bæta láns­kjör al­menn­ings á Íslandi. Skýrsl­an sýn­ir þvert á móti að bæta má láns­kjör á Íslandi án þess að ganga í ESB. Spurn­ing­in sem vakn­ar er hvort það sé það sem raun­veru­lega fer fyr­ir brjóstið á ráðherra.

Það er brýnt að umræðan sé byggð á staðreynd­um og fag­legri þekk­ingu, ekki póli­tísk­um út­úr­snún­ing­um eða röng­um sam­an­b­urði sem get­ur villt fyr­ir og hindrað að hægt sé að bæta láns­kjör fyr­ir al­menn­ing.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Hvernig á að fjármagna aukin útgjöld ríkissjóðs?

Deila grein

12/03/2025

Hvernig á að fjármagna aukin útgjöld ríkissjóðs?

Ríkissjóður stendur frammi fyrir mikilli áskorun. Boðuð útgjöld nýrrar ríkisstjórnar hafa vakið upp spurningar um hvernig eigi að fjármagna þessa aukningu án þess að grafa undan stöðugleika í efnahagslífinu. Í ljósi þess að við erum nú að ná markverðum árangri við að lækka verðbólgu og stýrivaxtaferlið er í fullum gangi er brýnt að stjórnvöld sýni aðhald í ríkisfjármálum og grípi ekki til aðgerða sem gætu ýtt undir verðbólguþrýsting.

Fjárlög síðustu ríkisstjórnar miðuðu að því að tryggja stöðugleika í ríkisfjármálum og tryggja þannig að efnahagslífið haldi jafnvægi. Ef aukin útgjöld leiða til meiri skuldsetningar ríkissjóðs án hagræðingar eða skýrrar tekjuöflunar getur það leitt til aukinnar verðbólgu og hækkunar stýrivaxta, sem bitnar mest á heimilum og fyrirtækjum.

Óljósar skattahækkanir valda áhyggjum

Í nýliðinni kjördæmaviku þar sem þingflokkur Framsóknar hélt 19 opna stjórnmálafundi kom meðal annars fram að mörgum þykir skortur á skýrleika um fyrirhugaðar skattahækkanir á ferðaþjónustu og sjávarútveg. Þessar atvinnugreinar eru burðarásar í efnahagslífinu og óvissa um skattlagningu getur dregið úr fjárfestingu og valdið röskun á markaði. Margir hafa áhyggjur af því að auknar álögur geti dregið úr samkeppnishæfni þessara greina og haft keðjuverkandi áhrif á aðra hluta hagkerfisins.

Ferðaþjónustan hefur farið í gegnum mikið umbreytingartímabil eftir heimsfaraldurinn og treystir á stöðugleika og fyrirsjáanleika til áframhaldandi vaxtar. Óvæntar skattahækkanir gætu dregið úr aðdráttarafli Íslands sem áfangastaðar, sérstaklega ef verðlag hækkar verulega. Að sama skapi er sjávarútvegur ein mikilvægasta útflutningsgrein landsins, og skattahækkanir gætu leitt til minni arðsemi, samdrætti í fjárfestingu og neikvæðra áhrifa á efnahagslífið í heild. Ég hef áhyggjur af því að hækkun veiðigjalda muni sérstaklega bitna á minni og meðalstórum fjölskyldufyrirtækjum sem eru burðarásar atvinnulífs í mörgum byggðarlögum. Reyndar hefur það raungerst að smærri útgerðir hafa nú þegar ákveðið að leggja upp laupana í ljósi boðaðra hækkana sem mun leiða til aukinnar samþjöppunar í sjávarútvegi sem er þvert á gefin fyrirheit núverandi ríkisstjórnarflokka.

Hvernig á að fjármagna aukin útgjöld án óstöðugleika?

Ríkisstjórnin stendur frammi fyrir tveimur valkostum: annaðhvort að halda aftur af útgjöldum eða tryggja skýra tekjuöflun án þess að ógna efnahagslegum stöðugleika. Einn möguleiki væri að einblína á hagkvæmari nýtingu fjármuna ríkissjóðs í stað þess að leggja auknar álögur á atvinnugreinar. Með meiri aga í ríkisfjármálum og hagræðingu í opinberum rekstri mætti draga úr þörfinni fyrir skattahækkanir. Einnig mætti horfa til þess að auka skatttekjur með því að efla hagvöxt frekar en að setja beinar álögur á tilteknar atvinnugreinar.

Stjórnvöld þurfa að sýna ábyrgð

Til þess að viðhalda trausti á íslensku efnahagslífi þurfa stjórnvöld að koma fram með skýra stefnu um hvernig boðuð útgjöld verða fjármögnuð án þess að grafa undan efnahagslegum stöðugleika. Ef stjórnvöld halda áfram á óljósri braut skattahækkana á atvinnulífið án þess að útskýra áhrif þeirra, er hætta á að þetta leiði til minni fjárfestingar, minni hagvaxtar og efnahagslegs óstöðugleika.

Í ljósi alls þessa er mikilvægt að ríkisstjórnin sýni forystu í ríkisfjármálum og tryggi að allar ákvarðanir um útgjöld og skattheimtu séu byggðar á langtímahugsun og ábyrgri hagstjórn. Hvernig ætlar forsætisráðherra að tryggja að boðuð útgjöld verði fjármögnuð án þess að bitna á hagvexti, stöðugu verðlagi og almennri velferð?

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 12. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Styrkleiki og sérstaða Íslands í utanríkismálum

Deila grein

08/03/2025

Styrkleiki og sérstaða Íslands í utanríkismálum

Við lif­um á óvissu­tím­um þar sem ör­ygg­is­mál í Evr­ópu og víðar eru í brenni­depli. Stríðsátök og versn­andi sam­skipti stór­velda hafa sett alþjóðakerfið í upp­nám og gert það ljóst að smærri ríki, á borð við Ísland, þurfa að huga sér­stak­lega að lang­tíma­hags­mun­um sín­um í ut­an­rík­is­mál­um. Á slík­um tím­um er nauðsyn­legt að Ísland haldi skýrri stefnu í ör­ygg­is­mál­um og byggi á þeim varn­artengsl­um sem hafa reynst far­sæl.

Við höf­um sér­stöðu á meðal Evr­ópuþjóða, ekki síst vegna varn­ar­samn­ings­ins við Banda­rík­in, sem hef­ur tryggt ör­yggi okk­ar í ára­tugi. Við erum ekki í sömu stöðu og marg­ar aðrar þjóðir á meg­in­landi Evr­ópu sem standa and­spæn­is bein­um ógn­un­um vegna stríðsrekst­urs. Þess í stað eig­um við að leggja áherslu á að styrkja þau alþjóðlegu tengsl sem hafa reynst okk­ur best og viðhalda varn­ar­sam­starfi okk­ar á traust­um grunni.

Örygg­is- og varn­ar­sam­starf skipt­ir sköp­um

Ísland hef­ur ára­tuga­langa reynslu af varn­ar­sam­starfi við Banda­rík­in og Atlants­hafs­banda­lagið (NATO). Varn­ar­samn­ing­ur­inn og aðild­in að NATO hafa verið horn­stein­ar ís­lenskr­ar ut­an­rík­is­stefnu og tryggt um leið ör­yggi lands­ins án þess að við þyrft­um að byggja upp eig­in herafla. Staðsetn­ing lands­ins í norður­höf­um skipt­ir máli í alþjóðlegu ör­yggi og ger­ir Ísland að lyk­ilþætti í varn­ar­stefnu NATO.

Með aukn­um ör­ygg­is­áskor­un­um í Evr­ópu hef­ur NATO eflt viðveru sína á Íslandi. Þessi stefna hef­ur skilað sér í aukn­um varn­ar­viðbúnaði og þannig dregið úr hætt­um sem gætu skap­ast í norður­höf­um. Það er því lyk­il­atriði að halda áfram á þess­ari braut og styrkja varn­artengsl okk­ar við banda­lagið í heild sinni.

Mik­il­vægi öfl­ugra varn­artengsla

Ísland hef­ur í ára­tugi átt far­sælt sam­starf við banda­lagsþjóðir sín­ar, bæði inn­an NATO og á tví­hliða grunni. Sam­starf okk­ar við Norður­landa­rík­in, Bret­land og Kan­ada hef­ur styrkt varn­ar­stöðu lands­ins og er mik­il­vægt að halda því áfram. Norður­landa­rík­in hafa sýnt fram á mik­il­vægi svæðis­bund­inn­ar sam­vinnu í ör­ygg­is­mál­um og Ísland get­ur áfram verið hluti af slíkri stefnu án þess að tapa sjálf­stæði sínu í alþjóðamál­um.

Aðild að Evr­ópu­sam­band­inu myndi veikja stöðu Íslands

Aðild að Evr­ópu­sam­band­inu myndi hafa víðtæk áhrif á ut­an­rík­is­stefnu okk­ar og skerða sveigj­an­leika lands­ins í mik­il­væg­um ör­ygg­is­mál­um. Evr­ópu­sam­bandið er póli­tískt tolla­banda­lag sem hef­ur vaxið langt út fyr­ir upp­haf­legt efna­hags­sam­starf og tek­ur nú af­drifa­rík­ar ákv­arðanir um ör­ygg­is- og varn­ar­mál aðild­ar­ríkj­anna.

Ef Ísland gengi í Evr­ópu­sam­bandið myndi það skerða mögu­leika okk­ar til sjálf­stæðrar ákv­arðana­töku í ör­ygg­is­mál­um og gæti dregið úr virkni varn­ar­samn­ings­ins við Banda­rík­in. Auk þess eru óljós áhrif og eng­in góð sem slík aðild hefði á önn­ur NATO-ríki sem treysta á sam­starf við Ísland í norður­höf­um.

Ekki sundra þjóðinni með ónauðsyn­leg­um deil­um

Á tím­um eins og þess­um er mik­il­vægt að ein­blína á lang­tíma­hags­muni Íslands og tryggja ör­yggi þjóðar­inn­ar með skyn­sam­legri stefnu í alþjóðamál­um. Það er ekki ráðlegt að opna á deil­ur um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu og færa þar með all­an fókus ut­an­rík­is­stefnu lands­ins yfir í það verk­efni.

Í stað þess að beina orku okk­ar í slík­ar deil­ur þurf­um við að styrkja varn­ar­sam­starfið, tryggja áfram­hald­andi efna­hags­leg­an stöðug­leika og vera leiðandi afl í alþjóðasam­starfi sem gagn­ast Íslandi sem sjálf­stæðu ríki. Þannig tryggj­um við stöðu okk­ar í sí­breyti­legu alþjóðakerfi án þess að fórna sjálf­stæði okk­ar í mik­il­væg­um mál­um. Við í Fram­sókn erum til í slíkt þver­póli­tískt sam­starf.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ó­verð­tryggð hús­næðis­lán til 25 ára

Deila grein

19/02/2025

Ó­verð­tryggð hús­næðis­lán til 25 ára

Í gær mælti ég fyrir þingsályktun á Alþingi þess efnis að fasteignakaupendur geti tekið óverðtryggð lán á föstum vöxtum til langs tíma. Um er að ræða gríðarlega mikilvægt hagsmunamál fyrir heimili landsins. Þessi möguleiki er sjálfsagður hjá öðrum Norðurlandaþjóðum en hefur ekki verið tryggður íslenskum neytendum. Stórar fjárhagslegar ákvarðanir á borð við fasteignakaup ættu að byggja á fyrirsjáanleika í afborgunum og hagstæðum kjörum, en íslenskir bankar bjóða ekki upp á sambærileg lán og gerist erlendis.

Þessar aðgerðir hafa verið til umfjöllunar innan fjármálaráðuneytisins og voru hluti af skoðun sem ég hóf fljótlega eftir að ég kom í fjármálaráðuneytið á síðasta ári. Nú liggur fyrir skýrsla, grundvölluð á þeirri vinnu sem ég setti af stað, og mikilvægt að afrakstur þeirrar vinnu nái nú fram að ganga. Við eigum að tryggja íslenskum heimilum sömu valmöguleika og fasteignakaupendur hafa í nágrannalöndunum í stað þess að vera föst í úreltu fjármálafyrirkomulagi sem vinnur gegn þeirra hagsmunum.

Íslenskir bankar eru of smáir og bundnir eigin fjármagnskostnaði, sem gerir þeim erfitt fyrir að veita óverðtryggð lán á hagstæðum kjörum til lengri tíma. Á hinn bóginn er íslenska ríkið og lífeyrissjóðir í sterkari stöðu til að veita slíka fjármögnun, sem gæti útvegað heimilum stöðugri og hagstæðari lánskjör.

Til að bankar geti veitt óverðtryggð fasteignalán til lengri tíma, það er yfir 20 ár, þarf íslenski fjármálamarkaðurinn að þróast. Stjórnvöld hafa hér tækifæri til að bæta regluverk og gera fjármálamarkaðinn sveigjanlegri, svo fjármálastofnanir geti boðið upp á slík lán líkt og í nágrannalöndunum. Áhrif þessarar kerfisbreytingar gæti einnig haft í för með sér lægri vaxtakostnað fyrir ríkissjóð þannig að þar er til mikils að vinna.

Gríðarlegur samfélagslegur ávinningur

Með innleiðingu óverðtryggðra langtímalána á hagstæðum föstum vöxtum fá fasteignakaupendur fyrirsjáanlega fjármögnun og eru ekki berskjaldaðir fyrir hækkandi vöxtum eða verðbólgu. Það veitir heimilum stöðugleika og dregur úr áhættu. Önnur áhrif þessarar kerfisbreytingar að fólk mun síður taka verðtryggð húsnæðislán og færa sig í stöðugra umhverfi.

Eins og áður sagði þá liggja nú fyrir útfærslur á þessari leið en þeirri vinnu var skilað til fjármálaráðuneytisins fyrir nokkrum vikum. Ríkisstjórninni er því ekkert að vanbúnaði að hefja innleiðingu þessarar kjarabótar fyrir íslensk heimili. Við í Framsókn munum fylgja þessu máli fast eftir og kalla eftir aðgerðum til þess að þetta markmið okkar náist.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. febrúar 2025.