Categories
Fréttir Nýjast

Ávarp Einars Þorsteinssonar borgarstjóra

Deila grein

24/04/2024

Ávarp Einars Þorsteinssonar borgarstjóra

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, ávarpaði 37. Flokksþing Framsóknar sem fram fór um liðna helgi. Einar er fyrsti borgarstórinn í sögu Framsóknar og fer afar vel af stað með sínu vaska liði.

Ræðu Einars má sjá hér: https://fb.watch/rFeX9tzf7w/

Ræða borgarstjóra í heild:

Kæru vinir og félagar

Þau gæfustu lifa af – en ég kem betur að því á eftir.

Mikið er gaman að vera hérna með ykkur – á þessum áhugverðu tímum í íslenskum stjórnmálum.

Við erum á tímum þar sem við erum að takast á í umræðunni um grundvallarhugtök, hugtök sem lýsa því hvernig við ætlum að leysa stóru áskoranir samfélagsins. Og ég fyllist stolti þegar ég lít hérna yfir salinn – stolti yfir því að tilheyra hópi fólks sem velur að mæta hingað á laugardegi til þess að ræða hvað við getum gert til þess að samfélagið okkar megi þroskast, þróast og verða betra.

Og áskoranirnar eru stórar. Íslenskt samfélag vex hratt, og í Reykjavík hefur vöxturinn aldrei verið jafn hraður. Ríflega 4000 manns fluttu til borgarinnar í fyrra og á hverri viku flytja 90 manns til höfuðborgarsvæðisins. Þetta reynir á alla innviði, leik og grunnskóla, félagsþjónustu, húsnæðismálin, þjónustu við fatlað fólk, og svo auðvitað samgöngumálin. Þess vegna er gott að vera í flokki sem hefur málefni fjölskyldna í forgrunni, stendur með þeim sem höllum fæti standa og hefur leitt stærsta samgönguverkefni Íslandssögunnar sem er samgöngusáttmálinn á höfuðborgarsvæðinu.

Það er nefnilega þannig að það er útilokað fyrir höfuðborgarsvæðið allt að halda áfram að vaxa nema allar þær fjölbreyttu innviðaframkvæmdir sem sáttmálanum fylgja – komist til framkvæmda. Og auðvitað er þetta risastórt mál í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Því það þýðir ekkert að segja fólki að breyta ferðavenjum sínum, að fækka bílferðum – nema bjóða upp á raunverulegan valkost með öflugum almenningssamgöngum. Og þetta er ekki einkamál höfuðborgarsvæðisins því höfuðborgin þjónar landinu öllu.

Í drögum að borgarstefnu sem Sigurður Ingi formaður okkar setti í gang kemur fram að samfélagslegt áhrifasvæði Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins markast af Hvítá-Hvítá, þ.e. um Suðurnes, austur á Selfoss og norður að Borgarnesi. Íbúafjöldi telur um 318 þúsund íbúa eða tæp 82% þjóðarinnar.

Þá er í drögunum lagt til að Akureyri yrði skilgreind sem svæðisborg – Áhrifasvæði Akureyrar nær um Eyjafjörð og að einhverju marki austur til Húsavíkur og Mývatnssveitar. Íbúafjöldi telur rúmlega 30.000 manns eða um 8% þjóðarinnar. Samanlagt nær áhrifasvæði höfuðborgarsvæðisins og Akureyrar til 90% þjóðarinnar. 

Ég nefni þetta því ég tel afar mikilvægt að við ákvarðanir um skipulag og uppbyggingu innviða verði horft á höfuðborgarsvæðið og Akureyri og áhrifasvæðin bæði sem tvær heildir þegar kemur að atvinnusókn, búsetu og samgöngum innan þess. Þetta þýðir ekki að við eigum að gleyma öðrum landshlutum, þvert á móti – en það er mikilvægt að taka ákvarðanir sem byggja á þessari sýn um hagsmuni áhrifasvæðisins.

En hvernig leysum við stórar áskoranir?

Framsóknarflokkurinn hefur í meira en heila öld starfað á grundvelli þeirrar hugsjónar að það borgi sig að vinna saman. Við höfum alltaf trúað því að summa hlutanna geti orðið stærri en heildin með góðri samvinnu. Okkar leiðarljós gegnum öll þessi ár er það að ef við nálgumst verkefni dagsins og áskoranir morgundagsins öfgalaust af miðjunni og vinnum saman – þá náum við árangri. Samvinna virkaði í gamladaga og samvinna virkar í dag.

Það var samvinna sem leiddi af sér uppbyggingu um allt land á þeim tímum sem við vorum fátækasta þjóð Evrópu. Það bjuggu 90 þúsund manns í landinu, við vorum enn undir Dönum – og Reykvíkingar voru 15 þúsund. Og á þessum tímum hófst á grundvelli samvinnu uppbygging um allt land á sviði skólamála, verslunar, og lýðheilsumála sem renndu stoðum undir sjálfstæða þjóð.

Samfélagið á þessum tíma beinlínis hrópaði á samhent átak fólks sem vildi stuðla að nauðsynlegum framförum og jákvæðum breytingum. Þarna varð til samvinnuhugsjónin – leiðarstef okkar Framsóknarfólks – sem hefur skilað okkur umbyltingu á lífsháttum og kjörum landsmanna gegnum árin. Þetta ákall frá almenningi er enn hærra í dag.

Charles Darwin setti fram kenninguna um dýraríkið – að þau hæfustu lifðu af. Herbert Spencer sem var heimspekingur og félagsfræðingur ákvað að færa þetta yfir á samfélag manna – og meðal annars uppúr þeirri hugmynd spratt sú hugmynd að keppni – þar sem maður keppir um gæði lífsins við næsta mann skapi mestu velsældina. Þetta er grunnur markaðskerfisins – sem í grunninn er afar mikilvægt.

En við vitum að samfélagið er ekki svona einfalt – afleiðingar óheflaðrar markaðshyggju eru aukinn ójöfnuður og við sjáum að þótt jöfnuður sé mjög mikill á Íslandi þá er hann að grafa undan stærstu lýðræðisríkjum í kringum okkur. Besta – eða versta birtingarmyndin af því er sú – að allar líkur eru á því að DonaldTrump verði kosinn aftur forseti bandaríkjanna. Við sjáum slíka skautun tæta samfélög í sundur og búa til aðstæður þar sem fólk hatast og vinnur á móti hvort öðru. Mótefnið við þessu ástandi hlýtur að vera öfgalaus samvinna af miðjunni.

Og talandi um Trump – við notum aldrei andheitið við orðið polarisation/skautun– en ef við hugsum það aðeins þá er það auðvitað orðið samvinna – það er vera tilbúin að hlusta, taka mark á og virða skoðanir annarra og vinna saman að hagsmunum samfélagsins.

Þau hæfustu lifa af – Ég rakst á ansi góða setningu frá rithöfundinum Sverri Norland um daginn. Hann sagði – þau gæfustu lifa af.  Í dýraríkinu eru það dýrin eða lífverurnar sem vinna saman, meðvitað eða ómeðvitað, býflugan sem frjóvgar blómið, sveppurinn sem lifir á trénu, tréð sem veitir smáblómunum skjól. Þið vitið hvað ég er að fara. Þetta á þó enn betur við um samfélag manna. Við sjáum það af framlagi Framsóknar til samfélagsins í gegnum áratugina.

Það er áhugavert að velta orðanotkun fyrir sér í þessu samhengi. Það má velta fyrir sér þeim fjölmörgu orðum í íslenskri orðabók sem eiga það sameiginlegt að byrja á „sam“. Samvinnufélag, saman, samstarf, samheldni, samvinna, samfélag, samskipti… Allt er þetta jákvæð orð.

Ég sagði áðan að við værum á þeim tímum þar sem við þurfum að takast á við stórar áskoranir. Og sem betur fer er samvinnan við lýði. Og ekki bara hér á Íslandi – heldur fer hún vaxandi erlendis.

Meira að segja í mekka kapitalismans í Bandaríkjunum er kaupfélagshugsjónin – sem við Framsóknarfólk þekkjum svo vel – að ryðja sér til rúms undir heitinu co-ops. Labbið niður Manhattan og kíkið inn í matvörubúð undir merkjum co-ops. Íbúinn greiðir vægt gjald en tryggir sér aðgang að gæða matvælum og góðri þjónustu. Þetta rekstarform þrífst í fleiri geirum. Fólks stofnar fyrirtæki, húsnæðisfélögeða kaupir búgarð og rekur í sameiningu. Þetta er áhugaverð þróun.

Og hvað er deilihagkerfi annað en samvinnulausn? Hopphjólin sem skiptumst á að nota, airbnb, fataloppurnar – allt byggir þetta á að einn nýtir og svo næsti. Og á stærri skala þá sjáum við gríðarlega verðmætasköpun í viðskiptalífinu á grundvelli samvinnu. Allir klasarnir – Orkuklasinn, Sjávarklasinn, Fjártækniklasinn, allt gengur þetta út á að fólk sameinast yfirleitt undir einu þaki, deilir þekkingu og reynslu og vinnur saman að því að þróa lausnir sem gagnast samfélaginu en skapa líka arð fyrir eigendur. Húsið Gróska í Vatnsmýrinni er frábært dæmi um samvinnuhugsun þar sem þekkingarfyrirtæki vinna saman innan háskólasamfélagsins til að þróa lausnir og skapa verðmæti.

Hringrásarhagkerfið er dæmigerð samvinnuhugsun – þar sem einn nýtir afurðir annarra til að skapa verðmæti og grunnurinn er ávallt samvinna – eitt frábært dæmi um þetta er fyrirtækið Kerecis sem nýtir fiskroð frá fiskvinnslunni á Ísafirði og þróaði lækningavöru – og fyrirtækið var selt fyrir 175 milljarða í fyrra. Samvinna og markaðshagkerfi eru því ekki andstæður heldur er samvinnan tól til að nýta betur þekkingu og ná meiri árangri.

Við fulltrúar Framsóknar í Reykjavík höfum lagt kapp á að auka samvinnu og samtal á milli flokka í borginni. Ég held að það gangi ágætlega en borgarstjórn var hástökkvari í síðustu traustsmælingu Gallup þar sem traust á borgarstjórn jókst um 7% frá síðustu mælingu. Áskoranirnar eru margar í borginni. Við leiðum meirihlutann úr stóli borgarstjóra í fyrsta skipti og eitt af mínum fyrstu verkefnum var að fara út í öll hverfi og eiga beint og milliliðalaust samtal við borgarbúa.

Þessir fundir hafa verið afar góðir og mikil næring fyrir mig að hlusta á sjónarmið borgarbúa. Það er nefnilega hlutverk okkar stjórnmálamanna að hlusta og taka skoðanir þeirra sem fela okkur umboð sitt til greina. Jafnvel þótt við þurfum stundum að taka erfiðar ákvarðanir.

Kæru vinir – Niðurstaða mín er sú að maður gerir ekkert einn – Verkefnin okkar, stór og smá – ganga betur og ganga upp yfir höfuð ef við finnum sameiginlega fleti og vinnum saman. Þetta höfum við Framsóknarfólk alltaf vitað og almenningur veit það líka. Það er frábært að finna kraftinn sem er hér í salnum, njótum flokksþingsins og höldum áfram að vinna verkin og skila árangri. Til þess erum við.

Categories
Fréttir Nýjast Uncategorized

Bjartsýnisverðlaun Framsóknar 2024

Deila grein

24/04/2024

Bjartsýnisverðlaun Framsóknar 2024

Á 37. Flokksþingi Framsóknar um liðna helgi voru veitt Bjartsýnisverðlaun Framsóknar. Bjartsýnisverðlaun Framsóknar eru veitt aðilum utan flokksins sem hafa lagt eitthvað jákvætt að mörkum til íslensks samfélags.

Þann 20. apríl, á kvöldverðarhófi flokksþings Framsóknar voru verðlaunin veitt Rauða krossinum á höfuðborgarsvæðinu fyrir verkefnið: Frú Ragnheiður.

Frú Ragnheiður vinnur eftir hugmyndafræði skaðaminnkunar þar sem lögð er áhersla á að fyrirbyggja þann skaða og þá áhættu sem hlýst af notkun vímuefna.   

Frú Ragnheiður hefur það að markmiði að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og óafturkræfan skaða sem og að auka lífsgæði og bæta heilsufar einstaklinga sem nota vímuefni í æð með því að veita lágþröskuldaþjónustu í nærumhverfi einstaklinga. Lækkun á tíðni sýkinga og útbreiðslu smitsjúkdóma á borð við HIV og lifrarbólgu C, færri dauðsföll af völdum ofskömmtunar, ábyrgari neysluhegðun og minna af notuðum sprautubúnaði í almenningsrýmum eru á meðal þess ávinnings sem hlýst af verkefninu án mikils tilkostnaðar. 

Ósk Sigurðardóttir, deildarstjóri Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu, veitti verðlaunum viðtöku og óskar Framsókn henni og Rauða krossinum innilega til hamingju með verðlaunin.

Categories
Fréttir

Yfirlitsræða Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknar

Deila grein

24/04/2024

Yfirlitsræða Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknar

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og fjármála- og efnahagsráðherra flutti kraftmikla ræðu á 37. Flokksþingi Framsóknar, sem fram fór um liðna helgi.

Ræðuna má sjá hér: https://fb.watch/rCEFzr4TeO/

Ræða Sigurðar Inga í heild

Kæra Framsóknarfólk.

Mikið er gaman að sjá ykkur svo mörg á 37. Flokksþingi Framsóknar.

Síðast þegar við hittumst á flokksþingi vorum við nýkomin út úr heimsfaraldrinum og Rússar höfðu þá nýverið ráðist á nágranna sína í Úkraínu. Innrás Rússa í Úkraínu stendur enn og sér ekki fyrir endann á því skelfilega ástandi sem þar ríkir.

Við höfum, Íslendingar, staðið með bandalagsþjóðum okkar í Nató og stjórnvöldum í Úkraínu. Hryllingurinn á Gaza hefur staðið yfir í hálft ár. Ísland var eitt fyrsta ríkið sem viðurkenndi sjálfstæði Palestínu og eru þær þjóðir sem það hafa gert enn í miklum minnihluta ríkja heims. Síðustu daga hafa síðan ógnvænleg tíðindi borist frá Miðausturlöndum. Íran gerði árás á Ísrael með skotflaugum og drónum og í lok vikunnar gerði Ísrael drónaárás á Íran. Hættan á stigmögnun átaka á þessu svæði er veruleg.

Þessi vaxandi ólga í alþjóðamálum hefur haft mikil áhrif á líf fólks um allan heim. Einnig hér á landi því hækkun á heimsmarkaðsverði á ýmsum aðföngum hefur áhrif á verðbólgu og framkvæmdir hér á landi. Þessi skelfilegi ófriður víða um heim hefur líka þau áhrif að milljónir manna eru á flótta. 

Við höfum ekki farið varhluta af þeirri þróun hér á landi. Á árunum 2017–2021 voru útgjöld til málaflokka sem snerta málefni útlendinga nokkuð stöðug. Árið 2022 nærri tvöfölduðust útgjöldin frá árinu 2021. Hið sama gerðist árið 2023. Útgjöld til þessara málaflokka hafa frá árinu 2017 ríflega þrefaldast að raunvirði.

Ríkisstjórnin hefur sammælst um að ná tökum á þessum málum til að koma í veg fyrir að kerfið springi og til að innviðir landsins ráði betur við að hjálpa við inngildingu fólks af erlendum uppruna. Afgreiðslutími umsókna um alþjóðlega vernd verður styttur um helming, fyrirkomulagi verði breytt þannig að færri sæki um vernd sem ekki uppfylla skilyrði og ráðist verður í átak til að flýta afgreiðslu umsækjenda frá Venesúela sem beðið hafa niðurstöðu Útlendingastofnunar. Þessar aðgerðir koma til að lækka kostnað hins opinbera verulega.

Samhliða fyrrnefndum aðgerðum verður ráðist í aðgerðir til að jafna tækifæri í íslensku samfélagi til að stuðla að því að fleiri fái blómstrað og samfélagið njóti krafta þeirra.

Þessi samstaða ríkisstjórnarinnar í málefnum útlendinga er mikilvæg og hún byggir á mannúð.

Hún byggir á því að við hlúum að því stöðugt fjölbreyttara samfélagi sem við eigum saman.

Hún byggir á því að við lærum af mistökum nágrannaþjóða okkar og leyfum því ekki að gerast að samfélag okkar tvístrist í ólíka hópa og hættuleg skautun vaði uppi í stjórnmálum.

Lífsgæði okkar byggjast á því að samfélagið sé friðsamlegt og sanngjarnt.

Að allir fái tækifæri.

Að enginn sé skilinn eftir.

Að börn þeirra sem flutt hafa hingað til að taka þátt í samfélaginu njóti sömu tækifæra og þeirra sem fæðast hér.

Á síðustu mánuðum höfum við upplifað atburði sem ég held að fæst okkar hafi nokkurn tíma órað fyrir. Heilt byggðarlag var rýmt vegna jarðhræringa og er ekki útséð með hvenær þær taka enda.

Reykjanesið er vaknað með látum.

Ég hef fylgst með Grindvíkingum með aðdáun, hvernig þeir hafa af virðingarverðri yfirvegun tekist á við atburði sem hafa snúið lífi þeirra á hvolf. Stjórnvöld hafa eftir megni staðið við bak Grindvíkinga á þessum erfiðu tímum. Sérstakur stuðningur hefur verið veittur vegna húsnæðis og afkomu og fyrrum ráðuneyti mitt, innviðaráðuneytið, leiddi vinnu við kaup á húsnæði til leigu fyrir Grindvíkinga í gegnum leigufélagið Bríeti. Þessar vikurnar vinnur félagið Þórkatla að því að kaupa rúmlega 700 húseignir af Grindvíkingum.

Þetta hefur ekki gengið hnökralaust fyrir sig enda verkefnið gríðarlega flókið og umfangsmikið. Mikil vinna stendur yfir til að bæta úr því sem aflaga hefur farið.

Ég ber í brjósti þá von að við sjáum Grindavík byggjast upp að nýju. Ég skil þann sársauka sem Grindvíkingar eru að ganga í gegnum og mun gera mitt til að líf fólks frá Grindavík verði bærilegra.

Grindavík mun rísa.

Ég er stoltur af íslensku samfélagi. Við erum í efstu sætum eftirsóknarverðra alþjóðlegra lista um lífskjör og lífsgæði.

Við erum græn.

Við búum við jöfnuð.

Við erum tæknivædd.

Við erum hamingjusöm.

En auðvitað er ekki allt fullkomið. Auðvitað er verk að vinna til að bæta samfélagið.

Og þess vegna erum við hér á Flokksþingi Framsóknar.

Til að marka stefnu flokksins og áherslumál svo við getum nýtt afl flokksins okkar til framfara, til aukinna lífsgæða á Íslandi.

Stærsta viðfangsefni samfélagsins nú um stundir er að ná tökum á verðbólgunni sem hefur plagað okkur líkt og flest vestræn ríki síðustu misserin. Við erum nefnilega ekki einstök þegar kemur að verðbólgu eins og oft mætti halda af umræðunni.

Það sem gerir okkur þó sérstök þegar kemur að hagkerfinu er þó að hér erum við að berjast við verulegan hagvöxt.

Okkar leið og leið ríkisstjórnarinnar hefur verið sú að stefna á mjúka lendingu.

Við rífum ekki í handbremsur. Við tökum þétt utan um ríkisfjármálin, tökum þétt utan um samfélagið svo ekki verði neinar kollsteypur.

Við stjórnum af skynsemi.

Af ábyrgð.

Við heyrum oft gagnrýnisraddir sem segja ríkisstjórnina verklausa. Að þeir þrír flokkar sem mynduðu árið 2017 ríkisstjórn þvert yfir miðjuna í íslenskum stjórnmálum hafi sammælst um kyrrstöðu.

Þetta er rangt.

Kolrangt.

Árangurinn sem þessi ríkisstjórn hefur náð er verulegur. Fyrst vil ég nefna að á síðan 2017 hafa tvisvar verið gerðir langtímakjarasamningar á vinnumarkaði.

Fyrir örfáum vikum vorum undirritaðir kjarasamningar á almenna markaðnum sem marka tímamót. Breiðfylking verkalýðsfélaga undir forystu Vilhjálms Birgissonar og Sólveigar Önnu Jónsdóttur sýndi mikla framsýni og hugrekki með því að stíga fram með hófsamar kröfur með það að markmiði að ná tökum á verðbólgunni til að skapa forsendur fyrir lækkun vaxta.

Verkalýðsforystan á almenna markaðnum og Samtök atvinnulífsins náðu saman og þar skipti aðkoma ríkis og sveitarfélaga miklu máli.

Aukinn kraftur í uppbyggingu innan almenna íbúðakerfisins að norrænni fyrirmynd, auknar barnabætur, einskiptis vaxtabótaauki, hækkun greiðslna í fæðingarolofi, gjaldfrjálsar skólamáltíðir, allt eru þetta aðgerðir sem skipta heimilin í landinu gríðarlega miklu máli.

Þetta eru aðgerðir sem með lækkandi vaxtastigi munu skila fólki auknum lífsgæðum. Lykilatriði í þessum árangri var að samningsaðilar á almenna vinnumarkaðnum unnu saman. Þau komu sér saman um sameiginlega hagsmuni launafólks og atvinnurekenda.

Afraksturinn er hófsamir kjarasamningar með góðum stuðningi hins opinbera. Svona á samvinna að vera.

Og ég fullyrði það að sú samsetning ríkisstjórnar sem Íslendingar hafa notið frá árinu 2017 er lykilatriði í því að langtímasamningar á vinnumarkaði hafi náðst.

Ég er stoltur af vinnu ráðherra okkar í Framsókn.

Varaformaður okkar, Lilja Dögg, hefur náð frábærum árangri sem menningar- og viðskiptaráðherra.

Ég fullyrði að enginn ráðherra menningarmála hefur unnið af jafnmiklum krafti og heilindum fyrir menningu og listir í landinu. Stefnumótun í öllum undirgreinum skapandi greina er lokið eða komin vel á veg. 35% endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar er komin til framkvæmdar og sýnir nýleg úttekt að hver króna skilar 6,8 krónum inn í hagkerfið. Sérstakt menningarframlag streymisveitna mun renna inn í Kvikmyndasjóð. Þjóðarópera, fjölgun listamannalauna, uppbygging sögustaða.

Allt eru  þetta mál sem skipta íslenskt samfélag miklu máli.

Að ég nefni ekki áherslu Lilju Daggar á íslenska tungu sem skiptir öllu máli fyrir menningu okkar og ekki síst samhengi menningar, sögu og samfélags.

Í ferðamálunum hefur hún unnið að stefnu um framtíðarsýn og aðgerðaáætlun í víðtæku samráði við hagaðila og heimafólk.

Ný lög um samvinnufélög eru líka nokkuð sem gleður samvinnuhjarta okkar í Framsókn.

Ásmundur Einar hefur af miklum krafti fylgt eftir vinnu sinni við farsældarlög í þágu barna frá síðasta kjörtímabili.

Íþróttahreyfingin hefur ekki farið varhluta af störfum hans en í undirbúningi er umbylting í afreksstarfi í íþróttum og aðbúnaði afreksfólks þar sem meðal annars er dregið verulega úr ferðakostnaði afreksfólks á landsbyggðinni. Nú stendur yfir uppbygging starfsstöðva íþróttahreyfingarinnar um allt land sem munu efla íþróttastarf og tækifæri allra barna til þátttöku í íþróttum.

Þegar hefur verið skrifað undir vegna viðbygginga við fjóra verknámsskóla í Breiðholti, á Ísafirði, á Sauðárkróki og í Reykjanesbæ og munu fleiri skólar fylgja í kjölfarið.

Ný stofnun, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hefur tekið til starfa sem mun veita kennurum mun meiri stuðning við störf sín auk þess að gegna lykilhlutverki í innleiðingu nýrra laga um inngildandi menntun en það verður lagt fram í haust.

Þá er rétt að fagna því sérstaklega að ný Þjóðarhöll er komin í útboðsferli og er fjármögnuð að fullu.

Willum Þór hefur unnið stórvirki í heilbrigðisráðuneytinu.

Landspítalinn hefur verið styrktur verulega, stjórn hefur verið sett yfir spítalann, innleiðing á þjónustutengdri fjármögnun hefur gengið vel og rekstur spítalans er orðinn jákvæður, sem er mikið afrek.

Lykilatriði í stefnu Framsóknar er að tryggja gott og jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu og hefur stuðningur vegna ferðalaga verið stóraukinn.

Allt umtal um heilbrigðiskerfið er nú gjörbreytt, sú samvinnuhugsun sem fylgir Willum í ráðuneytinu hefur komið á meiri ró og samstöðu innan heilbrigðiskerfisins.

Talandi um samvinnu þá náðist tímamótasamningur við sérgreinalækna sem höfðu verið samningslausir síðan 2019. Nú þegar hafa meira en hundrað þúsund manns nýtt sér þjónustu sérgreinalækna og áætla Sjúktratryggingar Íslands að samningurinn hafi sparað sjúklingum 1,3 milljarða króna frá gildistöku.

Eins og þið vitið urðu breytingar í mínum högum fyrir skemmstu þegar ég færði mig um set úr stóli innviðaráðherra í stól fjármála- og efnahagsráðherra.

Það voru nokkur tíðindi enda hefur ekki Framsóknarmaður setið í stóli fjármálaráðherra í 45 ár, eða frá því Tómas Árnason sat þar í stjórn Ólafs Jóhannessonar.

Fram á síðasta dag í innviðaráðuneytinu var ég að vinna hörðum höndum að því að ýta brýnum málum áfram, samgönguáætlun sem umhverfis- og samgöngunefnd þingsins vinnur að, nýjum húsaleigulögum, stefnumótun á sviði húsnæðis, landsskipulagsstefnu, jarðgangaáætlun og svo mætti áfram telja.

Ölfusárbrú hefur nú þegar verið boðin út.

Áfram er unnið að undirbúningi Sundabrautar og eins og einhverjir hafa eflaust séð í fjölmiðlum síðustu daga þá eru rannsóknir á jarðvegi í fullum gangi. Vinnan við udnirbúning Sundabrautar hefur staðið lengi yfir. Umhverfismati lýkur nú í lok sumars og verður Sundabraut boðin út árið 2026.

Nýtt hlutverk er ekki síður mikilvægra en það eldra og hlakka ég til að vinna þjóðinni gagn úr þeim stóli.

Þingflokkurinn okkar hefur staðið sig gríðarlega vel í störfum sínum undir stjórn Ingibjargar Isaksen. Það hefur reynt verulega á fólkið okkar á þingi, ekki síst vegna þess hvað flokkarnir sem standa að ríkisstjórninni eru ólíkir. Þingmennirnir okkar hafa sýnt það og sannað að samvinna og vinnusemi getur skilað miklum árangri.

Í umræðu um stjórnmál á Íslandi hættir okkur oft til að horfa einungis til landsmálanna. Þó eru sveitarstjórnarmálin miklu nær fólki í sínu daglega lífi.

Við eigum gríðaröflugt sveitarstjórnarfólk um allt land og í nokkrum sveitarfélögum erum við með hreinan meirihluta.

Það sem er þó algjörlega nýtt fyrir Framsókn, flokkinn okkar sem var stofnaður árið 1916, er að við eigum borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, sem tók við lyklavöldum að Reykjavík í janúar og hefur farið afar vel af stað í starfi.

Kæru félagar.

Í upptalningu minni hér að framan um árangur og áherslur í ríkisstjórn má heyra að málefni byggðanna eru okkur í Framsókn ávallt hugleikin.

Þau tímamót urðu nú fyrir skemmstu að ný búvörulög voru samþykkt á Alþingi Íslendinga. Í þeim felst að afurðastöðvar bænda geta nú unnið saman og sameinast með það að markmiði að auka hagræðingu, bændum og neytendum til hagsbóta. Er þetta í samræmi við löggjöf nágrannalandanna og margra landa í Evrópu.

Og eins og svo oft þegar stigin eru skref til að bæta stöðu bænda þá verður uppi fótur og fit í heildsalaklúbbnum og dramatískar yfirlýsingar falla um árás á neytendur og jafnvel grunnstoðir samfélagsins.

Landbúnaður er gríðarlega mikilvæg atvinnugrein fyrir Íslenskt samfélag. Saga okkar, menning, heilbrigði og byggðafesta er nátengd landbúnaði.

Við getum ekki og megum ekki vera svo hrædd að við leyfum ekki bændum að búa við svipaðar samkeppnisaðstæður og bændur í nágrannalöndunum.

Hverra hagsmuna værum við að gæta með því?

Já, maður spyr sig, hverra hagsmuna?

Því ekki eru það hagsmunir neytenda að bændur flosni upp og við þurfum að reiða okkur algjörlega á innflutning.

Annar er sá málaflokkur sem aldrei ríkir lognmolla um eru orkumálin.

Í umræðu um orkumál er ekki aðeins rifist um hvort rétt sé að virkja meira eða minna heldur er rifist um hvort hér sé orkuskortur eða orkugnótt.

Eitthvað sem maður hefði haldið að skynsamt fólk gæti orðið sammála um hvort væri.

 Það er auðvitað þannig að við verðum að leggja okkur öll fram um að nýta þá orku sem framleidd er í dag á sem bestan og skynsamastan hátt.

Það getur ekki verið markmið í sjálfu sér að virkja meira því virkjunum fylgir það að við gefum eftir ein gæði fyrir önnur.

Það er þó dagljóst að skortur á orku kallar fram hærra verð. Það að fyrirtæki sjái sig knúin til að nýta dísilvélar til að framleiða raforku fyrir bræðslur og aðra framleiðslu getur ekki verið ásættanlegt ástand.

Eins og í flestu liggur lausnin á miðjunni.

Leyfum jöðrunum að öskra sig hása og finnum skynsamlegar lausnir til þess að hér geti orkuskiptin gengið hratt og örugglega fyrir sig og til þess að við getum byggt hér upp öfluga atvinnuvegi og skapað verðmæt störf fyrir framtíðina.

Við eigum ekki að skammast okkar fyrir að framleiða græna orku.

Við eigum að vera stolt.

Þessi umgjörð sem hefur skapast um orkuframleiðslu á Íslandi með Landsvirkjun sem krúnudjásnið er öfundarefni annarra þjóða.

Landsvirkjun nálgast nú eitt þúsund milljarða virði og því virði hefur hún náð án þess að ríkið hafi greitt krónu inn í eigið fé fyrirtækisins. Skuldir Landsvirkjunar í dag eru hverfandi og geta hennar til að greiða í arð til ríkisins eru allt að þrjátíu milljarðar á ári.

Og allt þetta hefur orðið til á sama tíma og heimilin og fyrirtækin greiða hvað lægsta verð í Evropu fyrir orkuna.

Landsvirkjun hefur verið lykilfyrirtæki þegar kemur að því að byggja upp það lífsgæðasamfélag sem við búum í.

Landsvirkjun eigum við saman, þjóðin, og njótum ávaxtanna af henni saman.

Þannig á það líka að vera.

Við höfum undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum sem geta orðið verulega íþyngjandi ef við ætlum einungis að mæta þeim með samdrætti. Hagsmunir íslensks samfélags felast augljóslega í því að flytja sem minnst inn af jarðefnaeldsneyti og nýta sem best okkar hreinu innlendu orku.

Þess vegna verður kerfið, sérstaklega leyfisveitingakerfið, að vera skilvirkt og skiljanlegt og ekki beinlínis tefja og vinna gegn heilbrigðri uppbyggingu.

Kæra Framsóknarfólk.

Það er ekki hægt að halda öðru fram en að síðasta ár hafi einkennst af átökum í íslenskum stjórnmálum. Eins og svo oft þá eru þessi átök minni inni í eiginlegu samstarfi flokkanna sem mynda ríkisstjórnina en þeim mun meiri í fjölmiðlum.

Við í Framsókn höfum haft þá stefnu í samstarfinu í ríkisstjórn og á Alþingi að einbeita okkur að þeim verkefnum sem viið vorum kosin til að sinna frekar en að hrópa á torgum allt það sem við erum ósammála hinum flokkunum um.

Við tókum að okkur verkefni og það ætlum við að klára.

Framsókn stendur í miðju stjórnmálanna,

kletturinn í hafinu,

sem haggast ekki mikið þótt brjóti á.

Veður stjórnmálanna er ekki ólíkt íslenskri veðráttu með það að það skiptast á skin og skúrir. Það er mikilvægt í suddatíð að muna eftir sólskinsdögum og halda reisn, setja undir sig hausinn og vinna.

Við munum uppskera þegar að kosningum kemur.

Verk okkar og stefna eru unnin fyrir þjóðina og þjóðin þekkir okkur þótt hún gleymi okkur stundum í kringum skoðanakannanir þar sem fer með himinskautum flokkur sem tekur hringrásarhagkerfið svo alvarlega að hann hefur tekið stefnumál okkar í Framsókn og æltar að gera sínum.

Svo langt gekk Samfylkingin reyndar í kosningabæklingi sínum um heilbrigðiskerfið að þau lýstu í sumum tilfellum aðgerðum sem við höfum nú þegar komið í framkvæmd.

Það er alveg ný staða í stjórnmálum þegar flokkar eru farnir að lofa að gera það sem aðrir hafa þegar gert.

En er ekki oft sagt að eftirherman sé æðsta stig aðdáunar.

Kæru vinir.

Ég stend hér í dag fullur stolts af flokknum mínum.

Ég er stoltur af árangri okkar.

Ég er stoltur af stöðu okkar í íslenskum stjórnmálum og þá er ég ekki síst stoltur af því hvernig við sem flokkur förum með völdin.

Sú hugsjón sem sameinar okkur er samvinnan. Hún er einstakt veganesti þegar kemur að því að vinna að framförum og úrbótum.

Samvinna felur í sér að við hlustum.

Hún felur í sér að við stillum okkur ekki upp sem andstæðingum heldur finnum við þá fleti, þau mál sem sameina, og þaðan vinnum við að árangri fyrir þjóðina.

Ég vona að þið njótið þess um helgina að láta raddir ykkar og skoðanir hljóma. Flokksþing Framsóknar er einstök samkoma, sannkölluð hátíð, þar sem stefnan til framtíðar er mörkuð.

Njótið vel.

Categories
Fréttir Nýjast

Ræða Lilju Daggar Alfreðsdóttur, varaformanns Framsóknar

Deila grein

24/04/2024

Ræða Lilju Daggar Alfreðsdóttur, varaformanns Framsóknar

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og menningar- og viðskiptaráðherra flutti öfluga ræðu á 37. Flokksþingi Framsóknar, sem fram fór síðastliðna helgi.

Ræðuna má sjá hér: https://fb.watch/rEFT1w85Oe/

Ræða Lilju Daggar í heild

Þingforseti, formaður Framsóknarflokksins, og kæru félagar

Það er ávallt frábær tilfinning að koma hingað til fundar við ykkur og deila flokksþingi með ykkur  vegna þess að það er eitt það skemmtilegasta sem ég geri í stjórnmálunum að koma hingað vegna þess að hér sækir maður kraftinn, hugsjóninaog samvinnuhugsjónina til þess að halda áfram í störfum okkar fyrir ykkur. 

Í yfir 107 ár hefur Framsóknarflokkurinn fylgt þjóðinni og sótt umboð til hennar í þágu þess að gera samfélagið okkar betra í dag en það var í gær. 

Það er mikill heiður fyrir hvern þann flokk sem fær hið lýðræðislega umboð kjósenda til þess að stýra landinu, enda er það megin grundvöllur þess þjóðfélagsskipulags sem við búum við. 

Kæru félagar, í ár er haldið upp á 80 ára lýðveldisafmæli þjóðarinnar. Umskipti og framfarir einnar þjóðar á þessum tíma eru feykileg.  Frá því að vera ein fátækasta þjóðin í Evrópu, í það að vera með hæstu meðaltekjur í álfunni. Samkvæmt nýrri mælingu Sameinuðu þjóðanna er best að búa í þremur löndum það eru Sviss, Noregur og Ísland. 

Mig langar að biðja ykkur að fara í smá ferðalag með mér og rifja upp þær áskoranir sem samfélagið okkar stóð frammi fyrir ca. 80 árum. Á þessum nákvæmlega sama degi var sumardagurinn fyrsti, og þjóðin, hún var full eftirvæntingar eftir því að sólin myndi hækka á lofti og líka eftir hinu langþráða sjálfstæði þjóðarinnar. En á sama tíma var auðvitað seinni heimstyrjöldin í algleymingi og forsíður blaðanna voru eitthvað á þessa lund: Gagnsókn Þjóðverja fer harðnandi – Allhörð árás á London, og auðvitað er það enn í dag þannig því miður þannig að við búum við ófrið, enn er hið hræðilega stríð í Úkraínu og mikill ófriður fyrir botni Miðjarðarhafsins.

En það auðvitað svo að á sama tíma erum við mjög þakklát fyrir það að búa hér á Íslandi, fjarri vígaslóðum. Mig langar líka kæru félagar að minna okkur á það að er svo miklum ólíkindum að fyrir sléttum 80 árum stóð yfir sjöunda flokksþing Framsóknarflokksins, og þá var hinn ungi nýji leiðtogi, Hermann Jónasson, formaður flokksins, og þegar ég var að undirbúa mig fyrir þetta flokksþing þá fór ég að líta á þær stjórnmálaályktanir sem voru samþykktar. Það er alveg ljóst að rauði þráðurinn í gegnum þær allar er skýr: Aukin verðmætasköpun er undirstaða velferðar. 

Og þannig komust flokksmenn til að mynda að orði í atvinnumálayfirlýsingu sinni, með leyfi fundarstjóra: Flokksþingið telur að landið ráði yfir nægum auðlindum til þess að veita öllum þeim er byggja fullnægjandi lífsnauðsynjar og lífsþægindi. Það er nú bara þannig kæru félagar með okkur framsóknarfólk, að við þurfum ekkert að  finna upp hjólið í þessum efnum. Grunngildi okkar og stefna hún hefur nefnilega staðist tímans tönn og á þeim grundvelli hefur flokkurinn okkar staðið með borg, bæjum og að sjálfsögðu sveitum landsins.

Svo svona aðeins á léttu nótunum, þá er gaman að fylgjast með forsetakosningunum, það er eins og allir hafi fengið svona framsóknarmennskuna bara beint í æð. Það eru allir frambjóðendur komnir í lopapeysuna, farnir út á land og það er mynd af þeim með hundum eða lambi og allir brosandi, og það má eiginlega segja að við séum að hofa uppá svona lítinn Guðna Ágústsson í hverjum einasta frambjóðanda. 

En kæru félagar, talandi um svona framsóknarmennsku þá hefur það verið mjög merkilegt að fylgjast með stjórnmálaþróun síðustu misserin. Það er eins og ákveðinn stjórnmálaflokkur hafi eignilega ákveðið að ganga alveg inn í okkar flokk en samt ekki. Og um hvaða flokk er ég að tala, að sjálfsögðu Samfylkinguna. Það er þannig að hún er komin með nýja stefnu og nýjan formann. Og nú er stefnan sirka svona: Engin innganga í Evrópusambandið, nú vilja þau greiða fyrir að ráðast í nýtingu fleiri virkjanakosta, og vilja raunsæjar og skynsamar breytingar á málefnum útlendinga, svo nokkur dæmi séu tekin. 

Það hefur verið alveg gríðarlega merkilegt að fylgjast með þessari U-beygju, hverri U-beygjunni á fætur annarri í málflutningi Samfylkingarinnar og þau eru í raun og veru að keppast við það að gera okkar stefnu að þeirra stefnu. Ég er ekkert hissa á því, því við erum með frábæra stefnu. Það er auðvitað þessi góða miðjustefna.  En svo ég taki þetta nú svona á aðeins alvarlegra plan, því hver tekur Samfylkinguna alvarlega, nei ég er bara að grínast, þetta var bara létt grín. 

En þá er það bara þannig að þú getur ekki tekið Samfylkinguna úr Samfylkingunni algjörlega.  Og þú getur heldur ekki snúið þínu eigin DNA á hvolf, sí svona, meira og minna í öllum  helstu málum. Ég er sannfærð um það að verði Samfylkingin leiðandi í íslenskum stjórnmálum þá verði Evrópusambandsaðild komin á dagskrá íslenskra stjórnmála og með tilheyrandi sjálfstæðisfórn, og það er alveg ljós í mínum huga að við framsóknarfólk verðum að koma í veg fyrir það. Og það er gríðarlega mikilvægt, sérstaklega þegar við erum að fagna 80 ára lýðveldisafmælinu að við stöndum þessa vakt. Það er þannig að þjóðinni alveg frá landnámi hefur alltaf vegnað best þegar við höfum efnahagslegt sjálfstæði og það getur ekki og það má ekki vera þannig að við sofnum eitthvað á þeirri vakt. Ég get lofað ykkur því að þá fer að fjara undan þessum góðu lífsgæðum sem við höfum hér á Íslandi í dag. 

En eins og við þekkjum kæru félagar þá verða lífsgæði ekki til í tómarúmi. Það þarf að hafa fyrir verðmætasköpun og það þarf að hafa kjark og þor til þess að búa svo um hnútana að það sé hægt. Þannig hefur græn raforkuframleiðsla verði einn helsti burðarás lífskjarasóknar í landinu og lagt grunninn að því samkeppnisforskoti sem við höfum á alþjóðavísu og það er svo að fjölmargar þjóðir líta hingað til okkar og líta á þann

árangur sem við höfum náð. Ég ætla ekki að neita því að sú kyrrstaða sem hefur verið í  raforkuvinnslu hér á landi hún veldur auðvitað gríðarlegum áhyggjum. Við þessi fámenna þjóð séum að flækja hlutina svo mikið þegar kemur að nýtingu virkjanakosta að við endum á því að brenna jarðefnaeldsneyti til að knýja atvinnulífið áfram. 

Ég get bara lofað ykkur því að hefði framsóknarmanneskja verið að stýra orkumálunum eins og við gerðum hérna fyrir nokkrum árum, þá hefði þetta aldrei gerst, ég get bara lofað ykkur því. Og auðvitað er það þannig að eitt af forgangsmálunum verður núna að rjúfa þessa kyrrstöðu, að fara frá  rauðu ljósi yfir á grænt ljós í orkumálunum. Það er nefnilega þannig að þeim hagkerfum sem vegnar vel í dag og mun vegna vel í framtíðinni, þau búa öll við næga orku og það er þannig að ef við ætlum að taka þátt í framtíðarhagkerfinu, sem gengur út á allar þessar grunnstoðir okkar, en í auknum mæli út á að nýta gervigreind, þá verður að vera til næg orka, og þau ríki sem búa hana til á hagkvæman og grænan hátt, þau verða leiðandi í framtíðinni. Við verðum að sjá til þess að svo verði. 

Mig langar aðeins að nefna og formaðurinn kom inn á þjóðarfyrirtækið okkar Landsvirkjun. Það er gríðarlega mikilvægt að þjóðin átti sig á þeim verðmætum sem eru þar. Núna á síðustu misserum hafa komið 55 milljarðar í arðgreiðslur frá Landsvirkjun, og það er alveg ljós að á okkar vakt út af mikilvægi fyrirtækisins fyrir framtíðina og af því að öll þjóðin hefur tekið þátt í að byggja það upp þá erum við aldrei að fara gefa því eitthvað undir fótinn að það verði mögulega hægt að einkavæða það að einhverjum hluta eða brjóta fyrirtækið upp. 

Það verður þannig að það verður ekki  einn dropi einkavæddur hjá Landsvirkjun á okkar vakt. Aðeins að matvælaframleiðslu. Ég man þá tíð að það þótti næstum því púkalegt að tala um fæðuöryggi þjóðarinnar og mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu, en alveg eins og það er orðið svakalega svalt að vera í lopapeysu og halda á lömbum, þá er orðið mjög svalt líka að tala um landbúnaðarframleiðslu  og að það hafi þurft í raun og veru heilan heimsfaraldur til þess að fólk áttaði sig á því hvað þetta skiptir miklu máli fyrir þjóðaröryggi að hlúa að íslenskum landbúnaði er auðvitað með ólíkindum. En þetta vitum við kæru félagar að skiptir gríðarlega miklu máli að þjóðin geti séð til þess að hér sé sjálfbær og heilnæmur landbúnaður og ég er gríðarlega stolt af því að vera í flokki þar sem við erum með allar þessar hetjur sem hafa staðið með landbúnaðinum gegnum súrt og sætt og við skulum halda áfram að gera það og passa upp það að hann sé samkeppnishæfur og við séum ekki að reglurnar í kringum íslenskan landbúnað að þær séu miklu strangari og erfiðari en gengur og gerist í nágrannaríkjum okkar. Þannig að ég er mjög stolt af því hvað við höfum verið að gera á þingi á síðustu misserum. 

Aðeins að hagkerfinu okkar. Nú er það svo að hagvöxtur á Íslandi hann hefur verið mikill. Um 20% á þremur árum og þetta er fáheyrður vöxtur. Allt sem hagfræðin og efnahagsspekúlantar eru að tala um þessa dagana er leitin að hagvexti framtíðar. Bæði erum við lánsöm um að það hefur verið mikill hagvöxtur og hagvaxtar horfur Íslands eru líka mjög góðar. Við höfum því miður þó þurft að vera kljást við mikla verðbólgu, en hún er sem betur fer lækkandi og ég tel að það sé algjört grundvallaratriði að við náum henni niður og setjum ávallt eins og við höfum verið að gera heimilin í fyrsta sæti og það sem við gerðum í síðustu kjarasamningum var svo sannarlega það með því að bjóða upp á aukinn vaxtastuðning og gjaldfrjálsar skólamáltíðir og við verðum alltaf að vera þessi flokkur að vita að fólkið þarf að vita að hjartað okkar það slær með heimilinum í landinu, af því  að ef heimilin eru ekki sterk þá er Ísland ekki sterkt. 

En kæru félagar, ég vildi nefna það hér að ég er gríðarlega þakklát og stolt að fá að starfa í ykkar umboði og ég er líka rosalega þakklát fyrir það samstarf sem við öll og ég á persónulega við formann flokksins Sigurð Inga. Sigurður Ingi, hann hefur leitt flokkinn til forystu og sigurs á síðustu árum og jafnvel þó að þetta hafi á tímabili þegar ég og Sigurður vorum nýbúin að taka við verið dálítil brekka en með samvinnu góðum samskiptum og alveg frábæru baklandi þá hefur okkur öllum í sameiningu tekist að leiða flokkinn okkar til sigurs og ljósi þess þá hef ég mikinn áhuga á því að leita eftir endurnýjuðu umboði ykkar til þess að gegna stöðu varaformanns áfram. 

En svona alveg í lokin, því þið eruð öll dálítið mikið skemmtileg þá vildi ég bara segja ég hlakka mjög mikið til þess að eyða helginni með ykkur og ég vænti mikils af ykkur hérna  seinna í kvöld, þið vitið hvað ég meina, og svo bara kærar þakkir fyrir mig og njótið þess að vera saman hér í dag og um helgina. Takk fyrir.

Categories
Fréttir Nýjast

Jafnréttisviðurkenning Framsóknar

Deila grein

24/04/2024

Jafnréttisviðurkenning Framsóknar

Á 37. Flokksþingi Framsóknar síðastliðna helgi var jafnréttisviðurkenning Framsóknar veitt.

Jafnréttisnefnd Framsóknar veitir verðlaunin á hverju flokksþingi einstaklingi sem hefur skarað fram úr að framgengi jafnréttisáætlunar flokksins. Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Norðvestur kjördæmis, veitti verðlaunin fyrir hönd nefndarinnar.

Guðný Sverrisdóttir á Grenivík fékk verðlaunin að þessu sinni og hafði Halla Signý þetta um hana að segja við afhendinguna:

“Hún hefur brotið marga múra í gegnum tíðina og glerþökin hafa splundrast með þátttöku hennar í sínum störfum og ekki síst í félagsstarfi. Guðný hefur setið í stjórnum á landsvísu á vegum sveitarfélaga og þá vil ég helst nefna stjórnarsetu í Jöfnunarsjóðnum og fleira mætti telja.

Ég man eftir að heyra í Guðnýju í fjölmiðlum, kjarnyrt og bjó ekki viðtölin í neinn skrautpappir, ég sá haft eftir henni að það væri hreint ótrúlegt hvað spyrlar í fjölmiðlum vissu lítið um landsbyggðina, þarna fór kona sem barðist fyrir sínu landssvæði og gerði það vel.

Þegar Guðný tók við sveitastjórastöðunni árið1987 var hún eina konan á landinu sem sem gegndi framkvæmdastjórastöðu í  sveitarfélagi og var það um árabil eða þangað til Ingibjörg Sólrún tók við borgarstjórastólnum 1994.

Guðný gegndi þeirri stöðu  í 27 ár en, þá stofnaði hún ásamt tveimur öðrum konum , ráðgjafafyrirtækið Ráðrík og þar voru samankomnar konur með miklu reynslu úr stjórnsýslunni.  Ég spurði hana einu sinni af hverju hún hefði stofnað þetta fyrirtæki, og hún svaraði að bragði; ,,Nú eftir að ég hætti sem Sveitastjóri þá var ég 64 ára og ég bara nennti því ekki að hætta að vinna” Mér fannst þetta gott svar og öðrum hvatning.

Ég hringdi í Guðnýju til að fara yfir nokkrar staðreyndir, og spurði þá hvað hún gæti helst státað sig af. ,,Nú ég hef nú bara verið ég sjálf”.

Hún hefur sem sagt alltaf starfað við það sem við viljum öll vera. Við sjálf.”

Framsókn óskar Guðnýju Sverrisdóttur innilega til hamingju.

Categories
Fréttir Nýjast Uncategorized

Gullmerki Framsóknar veitt í fyrsta sinn

Deila grein

23/04/2024

Gullmerki Framsóknar veitt í fyrsta sinn

Á 37. Flokksþingi Framsóknar um liðna helgi var gullmerki Framsóknar veitt í fyrsta sinn.

Ritari Framsóknar skal veita gullmerki Framsóknar einstaklingi sem um árabil hefur unnið framúrskarandi og óeigingjarnt starf með sérstaka áherslu á innra starf flokksins, störf í grasrót og skal viðkomandi hafa sýnt áralangt óyggjandi traust við flokkinn. Á flokksþingi var ákveðið að veita tveimur einstaklingum fyrstu gullmerki Framsóknar og afhenti Ásmundur Einar Daðason, ritari Framsóknar, þeim Einari Gunnari Einarssyni og Sigrúnu Magnúsdóttur gullmerki Framsóknar á kvöldverðarhófi flokksþings Framsóknar þann 20. apríl.

Við afhendinguna hafði Ásmundur Einar þessi orð um að segja um feril Einars Gunnars fyrir Framsókn:

,,Einar gerðist félagi í Framsókn fyrir Alþingiskosningarnar 1987 og hefur hann starfað fyrir flokkinn frá árinu 2002, fyrst á skrifstofu flokksins og nú fyrir þingflokkinn.

Einar hefur einnig sinnt ótal trúnaðarstörfum fyrir Framsókn, hann sat í miðstjórn, stjórn og framkvæmdastjórn SUF og endaði ferilinn þar sem skoðunarmaður reikninga. Þá var hann formaður í svæðisfélagi FUF og formaður kjördæmissambands ungra framsóknarmanna í Reykjaneskjördæmi. Þá hefur hann setið sem miðstjórnarfulltrúi. Einar hefur unnið með sjö formönnum Framsóknar og sex framkvæmdastjórum.

Það er einkennandi fyrir Einar, að þegar hann er spurður um hvaða skilaboðum hann vilji koma til ungs fólks sem er að íhuga þátttöku í stjórnmálum eða öðru sjálfboðaliðsstarfi. Þar setur hann unga fólkið sjálft í forgang, að það þurfi fyrst af öllu að huga að menntun sinni, en spennandi og kraftmikið stjórnmálastarf sé gott með. Þar gefist umfram allt tækifæri til að mynda tengsl við fólk á öllum aldri og alls staðar af landinu.

Ósérhlífnin og dugnaðurinn birtist í svari Einars þegar hann er spurður um hvað honum þyki skemmtilegast í flokksstarfinu. Þar svara hann því til að kosningabarátta sé allra skemmtilegasti tíminn. Þar sem liðmönnum sé skipað í framlínuna, í stuðnings- og bakvarðasveit. Tengsl sem verða til í kosningabaráttu endist í áratugi. Eins sé gaman að kynnast nýju fólki sem skipar sér í hlutverk í flokknum, sjá það vaxa til taka að sér skýrari og viðameiri verkefni í flokksstarfinu.

Þá segir Einar, þegar hann er beðinn að lýsa Framsókn: Þetta er fyrst og fremst hópur fólks sem vill með hugsjónir samvinnu og jafnaðar að leiðarljósi gera samfélagið enn betra. Horfa fram veginn, sjá fyrir verkefnin og úrlausnir þeirra og takast á við flókna og óvænta viðburði af heiðarleika, fordæmalaust og án allra kreddukenninga. Við erum hópur fólks sem tökumst á, en að því loknu erum við heild sem talar einni röddu. Einar endurspeglar þetta sterkt með sínu óeigingjarna starfi sem hann hefur lagt til Framsóknar.

Að lokum, til að undirstrika stöðugleika Einars í flokksstarfinu, þá mætti hann á sitt fyrsta flokksþing 1988, sem var það tuttugasta í sögu flokksins, nú erum við mætt á 37. Flokksþing Framsóknar og hefur Einar aðeins misst af einu þingi allan þennan tíma.

Það var heiður að fá að sæma Einar Gunnar Einarsson gullmerki Framsóknar.”

Við afhendingu á gullmerkinu til Sigrúnar Magnúsdóttur hafði Ásmundur Einar þetta að segja:

,,Sigrún gerðist félagi í Framsókn í upphafi áttunda áratugarins og hefur hún starfað af krafti fyrir flokkinn frá þeim tíma. Áður hafði hún boðið sig fram í sveitarstjórnarkosningum fyrir óháðan lista vestur á fjörðum þar sem hún var reyndar alltaf kölluð Framsóknarkonan!

Félag framsóknarkvenna í Reykjavík var eitt af fyrstu félögunum sem Sigrún gekk til liðs við innan flokksins. Í framboðsmálum þá bauð hún sig fyrst fram til borgarstjórnar og varð varaborgarfulltrúi fyrst og svo borgarfulltrúi í 16 ár. Sigrún hefur verið formaður félags framsóknarkvenna, flokksfélagsins og fulltrúaráðs Reykjavíkur en þaá sat hún einnig í framkvæmdastjórn flokksins. Sigrún varð fyrst varaþingmaður 1979 og kom inn á þing 1980 og 1982. Hún var síðan kjörin á Alþingi árið 2013 og var Umhverfis- og auðlindaráðherra frá árinu 2014-2017. Hún hefur þá sérstöðu að hafa flutt ræður á Alþingi með meira en 30 ára millibili.

Sigrún hefur verið fulltrúi í miðstjórn í mörg ár og nú síðast hefur hún staðið vaktina á síðdegisvatkinni hér í Reykjavík. Sigrún lýsir störfum sínum fyrir flokkinn þannig: „Líf mitt hefur snúist meira og minna um framsókn“

Hún hefur unnið með öllum formönnum frá því að hún gekk til liðs við flokkinn og svo nefndi hún sérstaklega að hún hafi óbeint unnið með Eysteini á sinum tíma og að áhugi hans og stuðningum við stofnun félags framsóknarkvenna hafi verið dýrmætur.

Skilaboð hennar til ungs fólks sem íhugar að taka þátt í stjórnmálum eru skýr. Það efli mann og þroski, geri ekkert nema gott þó stundum blási á móti. Þá sé varla til betri reynsla en að störf á vegum Framsóknar og því að kynnast starfi stjórnmálaafls.

Hún lýsir því sem einu aðalsmerki Framsóknar hversu öflug félagsmálataugin sé í okkur, það sjáist á fyrrverandi þingmönnum, engir séu jafn virkir þar eins og Framsókn.

Aðspurð um hvað henni þyki skemmtilegast við að starfa í flokknum þá segir hún að það sé ótrúleg tilfinning að tilheyra svona félagsmálaafli. Ekkert sé jafn skemmtilegt og að mæta á flokksþing, skemmtilegasta sem hún gerir er að hitta félaga alls staðar af landinu. Þá vill hún lýsa flokknum sem einfaldlega fólkinu sem er í honum, fólk sem vill keyra á samvinnu og félagshyggju og binst þeim samtökum.

Sigrún segist ekki sjá eftir þeim tíma sem hefur farið í Framsókn, og hún sé þakklát fyrir að hafa gengið í flokkinn og að hafa fengið að eyða ævinni í þessum einstaka félagsskap.

Það var heiður að fá að sæma Sigrúnu Magnúsdóttir gullmerki Framsóknar.”

Framsókn óskar Einari Gunnari Einarssyni og Sigrúnu Magnúsdóttur innilega til hamingju með verðlaunin og þakkar þeim fyrir vel unnin og óeigingjörn störf í gegnum árin.

Categories
Fréttir

Glæsilegt Flokksþing Framsóknar

Deila grein

22/04/2024

Glæsilegt Flokksþing Framsóknar

37. Flokksþing Framsóknar var haldið á Hilton Reykjavík Nordica síðastliðna helgi. Þingið var stórglæsilegt í alla staði, en þar kom fjöldi Framsóknarfólks af landinu öllu saman.

Flokksþing Framsóknar hefur æðsta vald í málefnum flokksins, kýs flokknum forystu og leggur línur hvað varðar málefni og stefnu flokksins. Starfið í aðdraganda þingsins og á þinginu er sannkölluð lýðræðisveisla þar sem á þriðja hundrað félaga tók virkan þátt í yfirferð á stefnu flokksins með þátttöku í málefnastarfi.

Forystan endurkjörin með yfirgnæfandi stuðningi

Forysta Framsóknar endurnýjaði á þinginu umboð sitt með yfirgnæfandi stuðningi þingsins. Formaður flokksins Sigurður Ingi Jóhannsson, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður og Ásmundur Einar Daðason, ritari flokksins, hlutu öll glæsilega kosningu.

Samþykktar voru allmargar ályktanir og munu þær birtast í heild sinni á næstu dögum. Jafnframt voru samþykktar breytingar á lögum flokksins eftir viðamikla vinnu starfshóps um innra starf flokksins undir forystu Ásmundar Einars Daðasonar, ritara flokksins.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, með yfirlitsræðu á flokksþingi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar, með ræðu á flokksþingi.

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, með ávarp á flokksþingi.

Categories
Fréttir

Forysta Framsóknar endurkjörin með yfirgnæfandi stuðningi!

Deila grein

21/04/2024

Forysta Framsóknar endurkjörin með yfirgnæfandi stuðningi!

Sigurður Ingi Jóhannsson var á 37. Flokksþingi Framsóknar endurkjörinn formaður flokksins með rúmlega 96% greiddra atkvæða. Sigurður Ingi hefur verið formaður frá árinu 2016.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir var endurkjörin varaformaður Framsóknar með tæplega 90% greiddra atkvæða. Lilja Dögg hefur verið varaformaður frá árinu 2016.

Ásmundur Einar Daðason var endurkjörinn ritari Framsóknar með rúmlega 95% atkvæða. Hann hefur verið ritari Framsóknar frá árinu 2022.

Categories
Fréttir

37. Flokksþing Framsóknar sett

Deila grein

20/04/2024

37. Flokksþing Framsóknar sett

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, setti 37. Flokksþing Framsóknar við hátíðlega athöfn á Hilton Reykjavík Nordica í morgun. Yfirskrift Flokksþingsins er „Kletturinn í hafinu“.

Það var vel mætt á þingið við setningu þess og stefnir í enn meiri þátttöku síðar í dag er formaður flokksins mun flytja yfirlitsræðu sína.
Á Flokksþingi ákveður Framsóknarfólk meginstefnu flokksins í landsmálum, setur flokknum lög og hefur æðsta vald í málefnum hans.

Sigurður Ingi fagnar í dag 62 ára afmæli sínu og því var mjög viðeigandi að hefja þingið á að syngja afmælissönginn en Framsóknarfólk veit fátt skemmtilegra en að bresta í söng.

Við hvetjum ykkur til að fylgjast með miðlunum okkar í dag, bæði á Facebook og á Instagram en ræður formanns og varaformanns verða í beinu streymi á visir.is á facebook síðu Framsóknar.

Innilega til hamingju með daginn Sigurður Ingi og til hamingju með daginn allt Framsóknarfólk!

Categories
Fréttir Greinar

Öryggisógnir í breyttum heimi

Deila grein

19/04/2024

Öryggisógnir í breyttum heimi

Ein af grundvallarskyldum stjórnvalda á hverjum tíma er að tryggja öryggi borgaranna. Fjölmargir þættir falla þar undir sem flestum eru kunnir en stjórnvöld þurfa einnig að vera vakandi fyrir nýjum hættum sem kunna að ógna íslensku samfélagi. Svokallaðar fjölþáttaógnir falla þar undir en hugtakið vísar til samstilltra aðgerða óvinveittra ríkja eða aðila tengdum þeim sem nýta sér kerfislæga veikleika lýðræðisríkja, stofnana og hópa samfélagsins með það að markmiði að veikja áfallaþol samfélagsins, grafa undan lýðræði, trausti og samfélagslegri samheldni til að ná pólitískum, efnahagslegum og/eða hernaðarlegum markmiðum. Þessar aðgerðir geta falist í dreifingu falsfrétta, netárásum, íhlutun í lýðræðislegt ferli og kosningar og erlendar fjárfestingar í mikilvægum innviðum þar sem annarlegar hvatir búa að baki, en aðstaða fjárfesta getur haft áhrif á virkni mikilvægra innviða á grundvelli beins eða óbeins eignarhalds. Fjölþáttaógnir gera greinarmun á stríði og friði óskýrari. Því getur verið erfitt að verjast fjölþáttaógnum og -aðgerðum, enda virða þær hvorki landamæri, skil á milli stofnana innan ríkja né mörk hins opinbera og einkageirans.

Nýjar leiðir til að valda skaða

Segja má að með þeim aðferðum sem beitt er séu farnar leiðir sem valda skaða án þess að beita hefðbundnum hernaði. Árásir geta verið fjölbreyttar og hægt er að beita þeim í skjóli leyndar og afdráttarlausrar neitunar á ábyrgð. Sú aðferð sem helst hefur borið á hér á landi eru netógnir hvers konar. Gleggsta dæmið er nýleg netárás á tölvukerfi háskólans í Reykjavík en á málþingi Defence Iceland sem fór fram í Grósku fimmtudaginn 11. apríl fjallaði Jacky Mallett, lektor í tölvunarfræði við háskólann um rússneska hakkarahópinn Akira sem bar ábyrgð á netárásinni og innbrotinu í kerfi skólans, hvernig hópurinn virkar, þau tól og tæki sem hann nýtir sér og þá veikleika kerfa sem helst er herjað á.

Þá fjallaði Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika um varnir fjármálakerfisins og þá miklu vinnu sem Seðlabankinn hefur ráðist í á undanförnum árum til þess að mæta netógnum. Á opnum fundi efnahags-og viðskiptanefndar Alþingis þann sama dag þar sem skýrsla Seðlabankans til Alþingis um fjármálastöðugleika var til umræðu kom fram í máli Gunnars að ein helsta ógnin í dag við fjármálastöðugleika fælist í netárásum á fjármálainnviði hér á landi. Sú fullyrðing ásamt mýmörgum dæmum þar sem ráðist hefur verið gegn fyrirtækjum og stofnunum hér á landi sýnir glögglega hversu mikilvægt það er fyrir íslenskt samfélag að stórefla netvarnir hér á landi.

Áhætta vegna netárása eykst

Netárásum getur verið beitt t.a.m. með árásum á mikilvæga innviði og/eða samfélagslega mikilvæga þjónustu. Veikleikar í rekstri net- og upplýsingakerfa þeirra geta haft lamandi áhrif á mikilvæga samfélagslega starfsemi og dregið úr almanna- og þjóðaröryggi. Netárásir geta ekki bara lamað fyrirtæki og stofnanir og valdið fjárhagslegum skaða heldur geta netþrjótar komist yfir viðkvæm gögn sem síðan er lekið með ómældum skaða fyrir þá sem um ræðir. Slík gögn geta verið persónuupplýsingar, trúnaðarupplýsingar af ýmsum toga, viðskiptaleyndarmál, rannsóknargögn og svo má lengi telja. Netárásir geta líka falist í gíslatöku gagna þar sem farið er fram á lausnargjald, valdið skemmdum á netkerfum þannig að starfsemi s.s. bankastarfsemi og ýmis mikilvæg starfsemi hins opinbera stöðvast. Þar sem áhættan á netárásum hefur aukist hafa tryggingafélög boðið upp á tryggingarvernd fyrir netárásum sem sýnir í hnotskurn þá alvarlegu ógn sem stafar af athæfinu. Í dæmi Háskólans í Reykjavík er talið fullvíst að netþrjótar njóti verndar og jafnvel liðsinnis og samstarfs við óvinveitt ríki. Netógnir eru því alls ekki einkamál fyrirtækja og einstaklinga heldur miklu frekar sameiginleg ógn við þjóðina í heild.

Mikil samhæfingarvinna nauðsynleg

Ísland er mjög netvætt samfélag sem reiðir sig á virkni mikilvægra innviða á ábyrgð ríkisins, opinberra stofnana og fyrirtækja á almennum markaði. Virkni þessara innviða byggist í auknum mæli á samvirkni skipulags, mannvirkja og net- og upplýsingakerfa. Aðgerðir stjórnvalda sem miða að því að styrkja net- og upplýsingakerfi og áfallaþol samfélagsins falla undir málefnasvið margra ráðuneyta hér á landi. Netglæpir eru rannsakaðir af lögreglu sem fellur undir málefnasvið dómsmálaráðuneytisins, varnarmál landsins falla undir ráðuneyti utanríkismála, fjarskipti og netöryggi falla undir háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, Stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda fellur undir fjármálaráðuneyti, orkumál og orkuöryggi fellur undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og heilbrigðiskerfið undir heilbrigðisráðuneytið svo eitthvað sé nefnt. Mikil samhæfingarvinna er því nauðsynleg til þess að ná ásættanlegum árangri til styrkingar á áfallaþoli samfélagsins. Netöryggisheimurinn fer ört vaxandi hér á landi og því fer þekking á málaflokknum jafnframt ört vaxandi. Ásamt því að taka þátt í öndvegissetri um netöryggismál í Tallin í Lettlandi og um fjölþáttaógnir í Helsinki er starfrækt sérstök netöryggissveit undir Fjarskiptastofu sem í daglegu tali er kölluð CERT-IS. Ísland tekur að auki þátt í netöryggiskeppnum hérlendis og erlendis og fór ein slík keppni fram nýverið er nefnist Gagnaglíman og er stefnan sett á að senda íslenskt lið í Netöryggiskeppni Evrópu (European Cyber Security Challenge, ECSC) sem haldin verður á Ítalíu í haust.

Forvarnir skipta máli

Íslensk fyrirtæki hafa verið að hasla sér völl á sviði forvarna gegn netglæpum á undanförnum árum. Eitt þeirra fyrirtækja er AwereGO sem hjálpar fyrirtækjum og stofnunum við að efla öryggi sitt út frá fræðslu og forvörnum. Stór ástæða innbrota í tölvukerfi gengur út á misnotkun á mannlegum þáttum þar sem starfsmenn eru plataðir með einhverju móti eða glæpamenn nýta sér veikleika ef þekkingu skortir á ábyrgri tölvu-og netnotkun. Má þar nefna vanþekkingu á því hvernig má greina fölsk skilaboð og tölvupósta, skort á uppfærslu lykilorða og tveggja þátta auðkennis, vanþekkingu á mögulegum gagnastuld og svo má lengi telja. Rétt eins og með aðrar forvarnir er alltof algengt að fyrirtæki og stofnanir vanræki þá þætti í starfsemi sinni. Kostnaðurinn við að tryggja tölvukerfi og örugga tölvunotkun er óverulegur samanborið við þann skaða sem innbrot í tölvukerfi getur haft.

Þörf á vitundarvakningu

Stjórnvöld vinna í dag eftir netöryggisstefnu fyrir árin 2022-2037 en í stefnunni er birt framtíðarsýn og markmið stjórnvalda á sviði netöryggis ásamt mælikvörðum og áherslum. Annað af tveimur markmiðum stefnunnar er að efla þekkingu og hæfni með aukinni áherslu á almannafræðslu, menntun, rannsóknir, þróun og alþjóðlega samvinnu. Hitt lýtur að öruggu netumhverfi, þ.e. að til staðar sé öruggt netskipulag sem geti með skilvirkum hætti brugðist við netöryggisatvikum sem ógnað geta þjóðaröryggi, mikilvægum innviðum og réttindum einstaklinga. Ör þróun netöryggismála og síbreytilegar aðstæður krefjast lagaumhverfis sem stuðlar að vernd einstaklinga, atvinnulífs og samfélagsins í heild og að því sé fylgt eftir með löggæslu, þar á meðal með viðeigandi samfélagslegri samvinnu.

Mikilvægt er að taka sérstaklega fram að í stefnunni er lögð áhersla á vernd þeirra sem kunna að vera í viðkvæmri stöðu. Tryggja þarf vernd barna á Netinu með stefnu, skýrri löggjöf og ábyrgð á framkvæmd og eftirfylgni. Í því samhengi telur undirritaður afar mikilvægt að stjórnvöld standi einnig fyrir vitundarvakningu um netöryggi og örugg netnotkun verði tekin inn í aðalnámskrá skóla. Öryggisógnir á netinu eru komnar til að vera og það er afar mikilvægt að við öll aðlögum okkur að breyttum heimi.

Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður framsóknar og situr í Þjóðaröryggisráði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. apríl 2024.