Categories
Uncategorized

Samþykkt stjórnarmál ráðherra Framsóknar á kjörtímabilinu

Deila grein

10/05/2024

Samþykkt stjórnarmál ráðherra Framsóknar á kjörtímabilinu

Hér að neðan getur að líta yfirlit yfir samþykkt stjórnarmál ráðherra okkar á Alþingi frá upphafi kjörtímabilsins eða 152. löggjafarþingi.

Sigurður Ingi Jóhannsson

152. löggjafarþing
Frumvörp
Þingsályktunartillögur
153. löggjafarþing
Frumvörp
154. löggjafarþing
Frumvörp
Þingsályktunartillögur

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

152. löggjafarþing
Frumvörp
153. löggjafarþing
Frumvörp
Þingsályktunartillögur
154. löggjafarþing
Frumvörp
Þingsályktunartillögur

Ásmundur Einar Daðason

152. löggjafarþing
Frumvörp
153. löggjafarþing
Frumvörp
154. löggjafarþing
Frumvörp
Þingsályktunartillögur

Willum Þór Þórsson

152. löggjafarþing
Frumvörp
Þingsályktunartillögur
153. löggjafarþing
Frumvörp
Þingsályktunartillögur
154. löggjafarþing
Frumvörp
Categories
Fréttir Uncategorized

Opnir fundir í Norðvesturkjördæmi

Deila grein

27/10/2023

Opnir fundir í Norðvesturkjördæmi

Fundarröð

Þingmenn Framsóknar í Norðvesturkjördæmi þau Halla Signý, Lilja Rannveig og Stefán Vagn fara í fundaröð um kjördæmið.

Opnir fundir verða á ýmsum stöðum. Við hvetjum íbúa á öllum aldri eindregið til að mæta, hitta þingmennina, taka samtalið og spyrja spurninga.

Þann 30. október hittumst við á Hópinu, Hrafnadalsvegi 3, Tálknafirði kl 12:00.

Þann 30. október hittumst við í Skúrnum við Húsið Hrannargötu 2, Ísafirði kl 20:00.

Þann 31. október hittumst við á Vínlandssetrinu, Búðarbraut, Búðardal Kl 17:00. Þann 31. október hittumst við á Galdur brugghús , Hólmavík kl 20:00.

Þann 2. nóvember hittumst við á Dalsbraut 4, Akranesi kl 20:00. Þann 5. Nóvember hittumst við á Sögumiðstöðinni, Grundarfirði kl 20:00.

Þann 6. nóvember hittumst við á Glaðheimum, Blönduósi kl 12:00. Þá bætist Innviðaráðherra og formaður Framsóknar í hópinn

Þann 6. nóvember hittumst við á Kaffi Krók, Aðalgötu 16, Sauðárkróki kl 20:00. Innviðaráðherra og formaður Framsóknar verður einnig með í för.

Categories
Greinar Uncategorized

VERJA ÞARF STERKA STÖÐU RÍKISSJÓÐS Í FJÁRLÖGUM 2023

Deila grein

13/12/2022

VERJA ÞARF STERKA STÖÐU RÍKISSJÓÐS Í FJÁRLÖGUM 2023

Það er fastur liður í aðventudagskrá Alþingis að fjalla um og samþykkja fjárlög fyrir komandi ár. Í upphafi kjörtímabils voru krefjandi tímar fram undan, heimsfaraldur stóð yfir og sama dag og takmörkunum var aflétt hér á landi réðust Rússar inn í Úkraínu. Þessir þættir hafa skapað óvissu bæði hér innanlands sem og í Evrópu. Eðli málsins samkvæmt er það ekki óeðlilegt í ástandi sem þessu að verðbólga og hækkun á aðföngum taki sér pláss í fjárlögum líkt og í heimilisrekstri landsmanna. Staðan í efnahagsmálum í Evrópu er erfiðari en lengi hefur verið.

Skýr afkomubati

Þrátt fyrir þessar staðreyndir er það markmið ríkisstjórnarinnar að verja sterka stöðu ríkissjóðs með því að lækka rekstrarhalla og stöðva hækkun skuldahlutfalls á næsta ári. Í framlögðum fjárlögum má finna skynsamleg skef framávið sem lúta að því að styrkja áfram innviði og grunnþjónustu í landinu en það er sterkur leikur til að verja kaupmátt landsmanna. Þá má einnig finna að dregið er úr útgjöldum enda var verulega bætt í útgjöld til að verja störf og heimili í gegnum heimsfaraldurinn. Það er mikilvægt skref til að vinna gegn verðbólgu þegar horft er til næstu missera í þjóðarbúskapnum. Í fjárlögum næsta árs eru þó jákvæð teikn á lofti um að við séum að vaxa út úr þeim stóru verkefnum sem við höfum staðið frammi fyrir og að viðsnúningur geti orðið hraður ef rétt er haldið á spöðunum.

Treystum heilbrigðisþjónustu

Heilbrigðiskerfið með öllu sínu frábæra starfsfólki hefur staðið sem klettur í gegnum heimsfaraldur þrátt fyrir mikla ágjöf. En svo það geti staðið sterkt áfram þarf að bæta verulega í málaflokkinn. Við erum enn að glíma við eftirköstin eftir faraldurinn og þá þurfum við einnig að mæta næstu áskorun sem er fjölgun landsmanna og stækkandi hópur eldra fólks. Auk þess er til staðar uppsöfnuð þjónustuþörf eftir COVID. Ríkisstjórnin stendur með heilbrigðiskerfinu en framlög til heilbrigðismála hækka um 17,4 ma.kr. á næsta ári. Þar vegur þyngst 6.8 ma.kr raunhækkun til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga til að koma til móts við aukna eftirspurn og öldrun þjóðarinnar. Þá verður áfram haldið við að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað innan heilbrigðiskerfisins með 2. ma. viðbótarframlagi auk þess sem horft er til þess að efla heimahjúkrun.

Framlag til jarðhitaleitarátaks

Í tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Til þess þarf að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar þannig að hægt verði að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkyntar hitaveitur. Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 m.kr fram til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkra rannsókna myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Allt er þetta liður í því að nálgast markmið okkar um að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040.

Ferjurekstur tryggður

Það er örugglega öllum enn í fersku minni þegar Breiðafjarðarferjan Baldur bilaði í siglingu sinni yfir fjörðinn og minnti okkur rækilega á mikilvægi þess að þeir farþegar sem nýta sér þennan samgöngumáta geti treyst á öryggi skipsins. Sveitarfélög beggja megin Breiðafjarðar telja mikilvægt að tryggja þennan samgöngumáta, þrátt fyrir að bættar samgöngur á vegum stæði fyrir dyrum.

Í fjárlögum næsta árs má nú finna 210 m.kr. til þess að tryggja ferjurekstur um Breiðafjörð. Þá er það fyrirséð að núverandi rekstraraðili ferjunnar Baldurs mun hætta siglingum um Breiðafjörð. Þess í stað er gert ráð fyrir því að leigja eða kaupa aðra ferju og hefur eitt skip komið til álita, Röst, sem er nú í siglingum í Norður – Noregi.

Löggæsla efld

Áform eru uppi um að styrkja lögregluna um allt land með því að dreifa verkefnum á lögregluembættin út um landið og dreifa þannig álaginu. Á sama tíma á að styrkja grunnviðbragð lögregluembættanna á landsbyggðunum. Auk þess sem meirihluti fjárlaganefndar lagði til aukna fjárheimild upp á 200 milljónir til að draga úr aðhaldskröfu á lögregluna.

Velferðarfjárlög

Heilt yfir getum við horft til þess að fjárlög fyrir árið 2023 séu velferðarfjárlög, þar má m.a. finna hækkun á frítekjumarki atvinnutekna örorku og endurhæfingalífeyrisþegar í 200 þús , aukið kastljós á heilbrigðiskerfið, tímabundið framlag til sveitarfélaga vegna samræmda móttöku flóttamanna og ásamt sérstöku úrræði í tengslum við móttöku flóttabarna.

Sterk landsbyggð tekur á móti nýjum áskorunum

Við horfum fram á veginn inn í nýja framtíð. Við sjáum það nú að stuðningur stjórnvalda í gegnum heimsfaraldur við atvinnulífið og fjölskyldur í landinu skilaði því að við komum standandi niður eftir heimsfaraldur og stöndum mun betur en margar aðrar þjóðir. Með mörgum ákveðnum og markvissum skrefum voru settir saman aðgerðarpakkar til að verja fólk og fyrirtæki. Áfram verða þó til staðar áskoranir sem takast þarf á við, en þetta ár hefur sýnt að byggðarlög um land allt eru tilbúin í að nýta sér þau tækifæri og sérstöðu sem þau búa við, til að vaxa áfram og dafna.

Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmenn Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 10. desember 2022.

Categories
Fréttir Uncategorized

Bæjarmálafundur Framsóknar í Hveragerði

Deila grein

09/12/2022

Bæjarmálafundur Framsóknar í Hveragerði

Framsókn í Hveragerði býður til bæjarmálafundar á Reykadalur Skáli/Lodge laugardaginn 10. desember kl. 11:00-12:00.

Hittumst og ræðum bæjarmálin yfir rjúkandi kaffibolla í huggulegu umhverfi Reykjadalsskála.

Verið öll velkomin!
Stjórn Framsóknar í Hveragerði 

Categories
Fréttir Uncategorized

Sveitarstjórnaráætlun – nýr starfshópur hefur störf

Deila grein

17/11/2022

Sveitarstjórnaráætlun – nýr starfshópur hefur störf

Nýr starfshópur um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga hélt sinn fyrsta fund í innviðaráðuneytinu í gær. Hópnum er ætlað að skila tillögu til innviðaráðherra um stefnu stjórnvalda gagnvart sveitarfélögum til fimmtán ára 2024 til 2038 og aðgerðaáætlun til fimm ára 2024 til 2028 í byrjun næsta árs. Stefnumótunin byggir á ákvæði sveitarstjórnarlaga um að ráðherra leggi fram endurskoðaða stefnu í málaflokki sveitarfélaga á þriggja ára fresti. Stefnan tekur við af fyrstu stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum sveitarfélaganna í landinu á næsta ári.

Stefán Vagn Stefánsson veitir starfshópnum formennsku fyrir hönd innviðaráðherra. Annar fulltrúi ráðherra í hópnum er Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri í Hafnarfirði. Tveir fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga eru Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður sambandsins og borgarfulltrúi, og Jón Björn Hákonarson, varaformaður sambandsins og bæjarstjóri í Fjarðabyggð. Áheyrnarfulltrúar í hópnum eru Aðalsteinn Þorsteinsson, skrifstofustjóri sveitarfélaga og byggðamála í ráðuneytinu, og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri sambandsins.

Fyrsta stefna og aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum sveitarfélaganna fól m.a. í sér aukinn stuðning Jöfnunarsjóðs við sameiningu sveitarfélaga, átak í stafrænni umbreytingu sveitarfélaga, umbætur á starfsaðstæðum kjörinna fulltrúa og vinnu við fjármálaviðmið og endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga. Endurskoðun stefnumótunarinnar felur m.a. í sér víðtækt samráð við sveitarfélögin í landinu, íbúa og aðra hagsmunaaðila um stöðu sveitarfélaga, áskoranir og tækifæri til framtíðar. Á fyrsta fundi starfshópsins lagði innviðaráðherra áherslu á mikilvægi stefnumótunarinnar, sagðist hlakka til að taka á móti tillögum hópsins og óskaði honum velfarnaðar í vinnunni framundan.

Stefnt er að því að starfshópurinn skili tillögum til ráðherra í mars á næsta ári.

Categories
Fréttir Uncategorized

Fréttatilkynning

Deila grein

13/11/2022

Fréttatilkynning

Nú um helgina fór fram haustfundur miðstjórnar Framsóknar og var fundurinn haldinn á Ísafirði.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, talaði meðal annars í opnunarræðu sinni um þá einstöku stöðu sem við búum við á heimsvísu þegar kemur að orkumálum. Hann benti á að staða Íslands sé einstök, því við höfum tækifæri til, ef rétt er á haldið, að ná fullkomnu orkusjálfstæði. Ísland geti orðið með fyrstu þjóðum til að framleiða alla orku innanlands, spara gjaldeyri og byggja upp nýjan öflugan grænan iðnað. Þá sagði Sigurður Ingi að orkusjálfstæði sé einnig mikilvægt þegar kemur að fæðuöryggi.

Sigurður Ingi fjallaði um mikilvægi þess að ná sátt um að stærri hluti af ofurhagnaði einstakra fyrirtækja renni til þjóðarinnar og nauðsyn þess að gera breytingar á kerfinu í sjávarútvegi, að staðfesta í stjórnarskrá að fiskurinn í sjónum sé eins og aðrar auðlindir landsins í eigu þjóðarinnar. Þá fjallaði Sigurður Ingi um húsnæðismál, enda snúist þau ekki bara um öryggi, lífsgæði og jöfnuð, heldur séu þau einnig stórt efnahagsmál. Því þurfi að byggja miklu meira til að koma jafnvægi á húsnæðismarkaðinn.

Sigurður Ingi dró fram helstu áherslumál ráðherra, breytingar á heilbrigðiskerfinu undir styrkri stjórn Willums Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra. Hann benti á að framundan séu áskoranir í heilbrigðismálunum, þjóðin sé að eldast og því fylgi verkefni sem ekki sé hægt að horfa fram hjá. Þar spila forvarnir lykilhlutverk og Willum hafi þar stigið mikilvæg skref, síðast með mikilvægri umræðu á Heilbrigðisþingi sem helgað var lýðheilsu.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, vinnur áfram að málefnum barna sem ekki aðeins hefur orðið forgangsmál hans heldur einnig snert huga þjóðarinnar. Nú er unnið að nýrri heildstæðri löggjöf um skólaþjónustu sem mun tryggja jafnræði meðal allra, óháð búsetu og skólastigi. Þá hefur Ásmundur Einar tekið þétt utan um íþróttamálin og undirbúningur nýrrar þjóðarhallar er í fullum gangi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur verið sterkur talsmaður menningar og lagt áherslu á skapandi greinar, þær skipta máli fyrir listamenn sem og þjóðarbúið. Stærsta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar er að verða að veruleika, en síðasta vor fékk Lilja samþykkt á Alþingi frumvarp sem kvað á um hækkun endurgreiðslu stærri kvikmyndaverkefna úr 25% í 35%. Þá á ferðaþjónustan stóran þátt í viðspyrnu efnahagslífsins eftir heimsfaraldurinn, ráðherra ferðamála veit það og vinnur því nú að aðgerðaáætlun í ferðaþjónustu til ársins 2030 þar sem þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar er viðurkennt og sérstök áhersla lögð á dreifingu ferðamanna um landið, lengingu ferðatímabils á kaldari svæðum og áframhaldandi innviðauppbyggingu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður flokksins, fór meðal annars í ræðu sinni yfir stöðu efnahagsmála. Hún kom inn á að horfur á heimsvísu séu að versna en þrátt fyrir það sé staðan hér á landi óvenju góð, verðbólga á Íslandi sé næst lægst á EES svæðinu á eftir Sviss. Þar spili stórt hlutverk hversu sjálfbær við erum í orkumálum og mikilvægt sé að halda áfram á því sviði. Þá talaði Lilja um ofurhagnað bankanna og mikilvægi þess að ná utan um hann svo hægt sé að ná fram sátt í samfélaginu.

Categories
Fréttir Uncategorized

Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins

Deila grein

10/11/2022

Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins

Haldinn í Edinborgarhúsinu, Ísafirði 12.-13. nóvember 2022

Dagskrá:

Laugardagur 12. nóv.

12:15 – Setning miðstjórnarfundar, Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar

12:20 – Ræða formanns Framsóknar, Sigurðar Inga Jóhannssonar

12:45 – Ræða varaformanns Framsóknar, Lilja Dögg Alfreðsdóttir

13:00 – Almennar umræður

15:30 – Kaffihlé

16:00 – Inngangur að umræðum um innra starf – Ásmundur Einar Daðason ritari Framsóknar

16:10 – Vinnuhópar um innra starf

18:30 – Fundi frestað til morguns

19:30 – Kvöldverðarhóf

Sunnudagur 13. nóv.

09:30 – Formaður sveitarstjórnarráðs flytur skýrslu

09:40 – Formaður launþegaráðs flytur skýrslu

09:50 – Formaður fræðslu og kynningarnefndar flytur skýrslu

10:00 – Fulltrúi málefnanefndar flytur skýrslu

10:10 – Kaffihlé

10:20 – Umræður um innra starf

12:50 – Kosningar í fastanefndir miðstjórnar, málefnanefnd, fræðslu og kynningarnefnd

12:20 – Hádegisverðarhlé

12:50 – Afgreiðsla mála

13:20 – Önnur mál

13:35 – Fundarslit

Categories
Greinar Uncategorized

Verum fyrir­myndir – berjumst gegn ein­elti!

Deila grein

09/11/2022

Verum fyrir­myndir – berjumst gegn ein­elti!

8. nóvember ár hvert er helgaður baráttunni gegn einelti. Dagurinn var fyrst haldinn formlega hérlendis árið 2011 og hefur verið haldinn árlega síðan. Einelti kemur okkur öllum við og það er góð hugmynd að huga sérstaklega að því, til dæmis á eigin vinnustað, hvort forvarnir og viðbragðsáætlanir gegn einelti séu til staðar og uppfærðar. Þá vil ég einnig hvetja vinnustaði til þess að standa fyrir fræðslu og viðburðum sem hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu og samstöðu í tilefni dagsins.

Einelti getur falist í útilokun, ofbeldi, stafrænu einelti og fleiru. Ekkert form af einelti er betra eða verra en annað – einelti á hvergi að líðast.

Í lögum um grunnskóla segir meðal annars að allir nemendur eigi rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan og að grunnskólar skuli í hvívetna haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. Nemendur eigi rétt á að njóta bernsku sinnar í öllu starfi á vegum skólans. Barn sem verður fyrir einelti í skóla finnur ekki til öryggis og nýtir ekki að fullu hæfileika sinna eða nýtur að fullu bernsku sinnar. Það er lagaskylda á þeim sem starfa í skólum að fylgjast með líðan og almennri velferð nemenda og grípa til nauðsynlegra aðgerða til að bregðast við sé vegið að þeim atriðum.

Barn sem verður fyrir einelti getur glímt við afleiðingar þess um alla ævi, líkt og við höfum séð ótal dæmi um þegar hugrakkir einstaklingar stíga fram og segja sína sögu. Börn eiga ekki að þurfa að glíma við einelti sem þau verða fyrir sjálf, heldur er það skylda okkar fullorðinna að grípa inn í, hafi einelti átt sér stað, og ekki síður að fyrirbyggja að komi til eineltis.

Allir skólar eiga að búa yfir áætlunum gegn einelti og er gott að nýta tækifærið á degi eineltis til að yfirfara þær áætlanir og sjá hvort þurfi að uppfæra þær eða kynna þær betur innan skólanna. Takist skóla, eða sveitarfélaginu sem rekur skólann, ekki að uppræta einelti á eigin vegum er hægt að leita til fagráðs eineltismála sem hefur aðsetur í Menntamálastofnun. Fagráðið er stuðningsaðili við skólasamfélagið, og veitir meðal annars almenna ráðgjöf, leiðbeiningar og upplýsingar auk þess að gefa út ráðgefandi álit á grundvelli gagna sem berast um einstök mál. Fyrirhugað er að efla enn frekar hlutverk fagráðsins en starf þess hefur gefið góða raun.

Það er ekki hægt að skrifa grein um einelti án þess að ræða sérstaklega um stafrænt einelti, sem eðli máls samkvæmt hefur aukist mjög á undanförnum árum. Við sem foreldrar þekkjum fæst hvernig stafrænu einelti er beitt meðal barnanna okkar af eigin raun þar sem sú tækni sem nú er hluti hversdags barna okkar var ekki til staðar þegar við vorum á þeirra aldri. Við þurfum að fylgjast vel með því sem börnin okkar eru að gera á samfélagsmiðlum og grípa inn í strax ef okkur grunar að barn sé að verða fyrir eða beita stafrænu einelti. Á því berum við ábyrgð. Ekki hvað síst þurfum við að sýna í verki að hvers lags niðurrif gagnvart öðru fólki er ekki í boði.

Verum fyrirmyndir!

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. nóvember 2022.

Categories
Greinar Uncategorized

Samstarf á norðurslóðum heldur áfram

Deila grein

09/11/2022

Samstarf á norðurslóðum heldur áfram

Lín­eik Anna Sæv­ars­dótt­ir: „Að hitta full­trúa annarra þjóða á norður­slóðum get­ur aðeins orðið til góðs, sér­stak­lega í því um­róti sem nú á sér stað í heim­in­um.“

Sam­starf á norður­slóðum er okk­ur Íslend­ing­um afar mik­il­vægt enda nauðsyn­legt að sam­tal og sam­vinna fari fram um sam­eig­in­leg mál­efni svæðis­ins. Með þeim um­hverf­is­breyt­ing­um sem nú eiga sér stað auk ut­anaðkom­andi áhrifa standa íbú­ar norður­slóða frammi fyr­ir veru­leg­um áskor­un­um. Mik­il­vægt er að við sem búum þar störf­um sam­an að því að bæta lífs­kjör íbúa á norður­slóðum og styrkja fé­lags­lega og menn­ing­ar­lega þróun á svæðinu.

Eins og mörg­um er kunn­ugt ligg­ur starf Norður­skauts­ráðsins og þing­mannaráðstefn­unn­ar um norður­skauts­mál niðri um þess­ar mund­ir vegna inn­rás­ar Rússa í Úkraínu. Þrátt fyr­ir að form­legt sam­starf liggi niðri sótti þing­manna­nefnd um norður­skauts­mál ráðstefnu um mál­efni norður­skauts­ins sem hald­in var á Græn­landi í sept­em­ber.

Ráðstefn­an var hald­in af danska þing­inu og bar yf­ir­skrift­ina: Ráðstefna þing­manna á norður­slóðum – nor­rænt og norður­am­er­ískt sam­starf. Á ráðstefn­unni komu sam­an þing­menn frá Norður­lönd­un­um og Norður-Am­er­íku og ræddu mál­efni norður­skauts­ins. Þar voru ýmis áhuga­verð verk­efni sem unnið er að á norður­slóðum kynnt með sér­stakri áherslu á Græn­land.

Áhersla á lausn­ir

Til­gang­ur ráðstefn­unn­ar var að deila reynslu og hug­mynd­um, eins og tíðkast hef­ur á þing­mannaráðstefn­unni, sem að jafnaði er hald­in annað hvert ár og hef­ur verið sam­starfs­vett­vang­ur þing­manna aðild­ar­ríkja Norður­skauts­ráðsins frá 1993. Meg­in­viðfangs­efni voru lofts­lags­breyt­ing­ar, sjálf­bær efna­hagsþróun og mann­líf á norður­slóðum. Í því sam­bandi var komið inn á margt áhuga­vert, með áherslu á lausn­ir á áskor­un­um sem fólk á norður­slóðum glím­ir við. Fjallað var um mik­il­vægi þess að íbú­ar við norður­skautið verði í for­ystu við að leita lausna við græna og end­ur­nýj­an­lega orku­öfl­un, fyr­ir stór og smá sam­fé­lög. Dæmi um slík verk­efni eru frek­ari nýt­ing vatns­afls, til­raun­ir með sólarraf­hlöður sem koma skemmti­lega á óvart, rækt­un græn­met­is í gróður­hús­um í Nuuk og hug­mynd­ir um að nýta „jöklamjöl“ til áburðar.

Mörg og mik­il­væg mál­efni

Rétt­indi og varðveisla menn­ing­ar frum­byggja var til umræðu og þar á meðal mik­il­vægi þess að þeir væru sýni­leg­ir í kvik­mynd­um og fjöl­miðlum. Það er svo mik­il­vægt að skoða ver­öld­ina frá sjón­ar­hóli fólks­ins á norður­slóðum. Þá var lögð mik­il áhersla á að halda áfram að yf­ir­stíga mikl­ar fjar­lægðir norður­slóða og byggja upp mögu­leika dreif­býl­is­sam­fé­laga með góðum netteng­ing­um til að efla fjar­heil­brigðis- og vel­ferðarþjón­ustu og ra­f­ræna náms­mögu­leika.

Und­ir­rituð tók þótt í umræðu um geðheil­brigðismál og greindi meðal ann­ars frá ís­lenska for­varn­ar­mód­el­inu í vímu­vörn­um, vinnu að breyt­ing­um í mál­efn­um barna og ný­samþykktri stefnu í geðheil­brigðismál­um. Þar var einnig sagt frá áhuga­verðum rann­sókn­um Græn­lend­inga við að greina þætti sem styrkja geðheil­brigði fólks á norður­slóðum og fjallað um þró­un­ar­verk­efni til sjálfs­efl­ing­ar fólks sem ekki finn­ur sig í skóla­kerf­inu.

Íslenska sendi­nefnd­in sam­an­stend­ur af þrem­ur þing­mönn­um sem eru, auk und­ir­ritaðrar, Eyj­ólf­ur Ármanns­son og Berg­lind Ósk Guðmunds­dótt­ir. Með nefnd­inni starfar alþjóðarit­ar­inn Arna Gerður Bang. Að hitta full­trúa annarra þjóða á norður­slóðum get­ur aðeins orðið til góðs, sér­stak­lega í því um­róti sem nú á sér stað í heim­in­um. Ég get full­yrt að all­ir ráðstefnu­gest­ir hafi farið heim með mik­il­vægt vega­nesti inn í kom­andi verk­efni og stærra tengslanet en áður.

Lín­eik Anna Sæv­ars­dótt­ir, þingmaður Fram­sókn­ar og formaður þing­manna­nefnd­ar um norður­skauts­mál.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 7. nóvember 2022.

Categories
Greinar Uncategorized

Er ástæða til að lækka fasteignaskatta?

Deila grein

03/11/2022

Er ástæða til að lækka fasteignaskatta?

Fasteignagjöld sveitarfélaganna hafa verið mikið til umræðu undanfarna daga og ekki að ósekju. Fasteignamat fyrir árið 2023 hefur hækkað um tugi prósenta um allt land og miðað við óbreytt álagningarhlutfall þá leiðir hækkun fasteignamats sjálfkrafa til aukinnar skattheimtu óháð öðrum þáttum, s.s. launaþróun á viðkomandi svæði, íbúaþróun eða hvort þjónustuþörf hefur aukist að ráði. Þetta er óheppilegt fyrirkomulag þegar sveiflur eru miklar og fyrirsjáanleikinn lítill sem enginn, hvorki fyrir íbúa sem skattgreiðendur eða fyrir sveitarfélögin sem þurfa að skipuleggja sín útgjöld.

Álögur á húseigendur og fyrirtæki aukast um 400 milljónir

Milli áranna 2022 og 2023 hækkar fasteignamat atvinnuhúsnæðis á Akureyri um 11,7% og íbúðarhúsnæðis um 25,6%. Miðað við óbreytta álagningarprósentu má gera ráð fyrir að tekjur Akureyrarbæjar gætu aukist um tæpar 400 milljónir króna vegna fasteignaskatts á árinu 2023 frá árinu í ár. Með öðrum orðum, heimilin taka á sig aukna og ófyrirséða byrði og fjölskyldur greiða hærra hlutfall af tekjum sínum í fasteignaskatt. Skattbyrði fyrirtækjanna hér í bæ þyngist að sama skapi og fátt sem kemur á móti í rekstrarumhverfi þeirra sem auðveldar þeim að standa undir þessari auknu byrði.

Eiga heimili inni lækkun hjá Akureyrarbæ?

Þegar borin eru saman átta fjölmennustu sveitarfélögin, með 10.000 íbúa eða fleiri, kemur í ljós að Akureyri trónir á toppnum með hæstu álagningarprósentu fasteignaskatts íbúðarhúsnæðis. Sé horft til síðustu fimm ára og skoðað hver þróunin hefur verið þá er ljóst að hún miðar heilt yfir í sömu átt og þá að sveitarfélögin hafa verið að lækka fasteignaskattsálagninguna. Akureyrarbær rekur hins vegar lestina hvað þessa þróun varðar, þ.e.a.s. fyrir utan Reykjavíkurborg sem hefur framan af verið með lægsta álagningarhlutfallið. Meðaltalslækkun álagningarhlutfalls á 5 ára tímabili hjá hinum sveitarfélögunum er 17,8% en hjá Akureyrarbæ er lækkunin á sama tíma aðeins 5,7%.

Ef við setjum okkur í hóp með fjórum fjölmennustu sveitarfélögunum (Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Reykjanesbæ) þá hefur álagður fasteignaskattur hlutfallslega hækkað mest hjá Akureyrarbæ á þessu sama tímabili. Tekjur vegna fasteignaskatta hafa með öðrum orðum aukist meira hér þrátt fyrir þá staðreynd að fólksfjölgun hefur verið hægari en í hinum sveitarfélögum, ef frá er talinn Hafnarfjörður, sem gerir samanburðinn enn óhagstæðari fyrir Akureyri. Ef við horfum til næstu þriggja sveitarfélaga á eftir okkur í stærð (Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Árborgar) þá hafa tekjur þeirra vegna fasteignaskatta aukist meira í samanburði við Akureyri, en þar hefur fólksfjölgun hins vegar verið mun hraðari, sem skýrir að stórum hluta auknar tekjur.

Við skerum okkur því sannarlega úr og ekki víst að það sé jákvæður samanburður. Það er vissulega einn af grunnþáttum í starfi bæjarstjórnar að ábyrg fjármálastjórn sé höfð að leiðarljósi. Það ætti þó ekki síður að vera kappsmál bæjarfulltrúa að gæta hófs í gjaldtöku og skattheimtu á íbúa – og á einhverjum tímapunkti hlýtur það að vera sanngirnismál að sækja ekki síauknar tekjur frá heimilum og fyrirtækjum frá ári til árs. Við vitum ekki enn hvaða ákvörðun önnur fjölmennari sveitarfélög koma til með að taka í sinni fjárhagsáætlanagerð en kjörnir fulltrúar flestra þeirra sveitarfélaga sem hér hafa verið nefnd gáfu það þó út í vor að álagningarprósentan yrði lækkuð í takt við hækkun fasteignamats.

Getum við lækkað fasteignaskatta?

Ein stærsta áskorunin í þeirri fjárhagsáætlanagerð sem nú stendur yfir er vaxtaumhverfi núlíðandi stundar. Rétt viðbrögð við þeirri áskorun er hins vegar að fara varlega í fjárfestingar sem kalla á miklar lántökur, aukinn rekstrarkostnað og aukinn fjármagnskostnað. Rétt viðbrögð, gagnvart íbúum okkar, er að horfa til mótvægisaðgerða sem verja lífskjör heimilanna. Í núverandi vaxta- og verðbólguumhverfi þá eigum við að horfa til þess hvort við getum lækkað álagningarhlutfall fasteignagjalda til móts við hækkun fasteignamats, þannig að álagningin, að teknu tilliti til verðlags, hækki ekki milli ára.

Í vikunni var fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árin 2023 – 2026 lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar. Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir óbreyttri álagningarprósentu fasteignaskatts og þar með auknum útgjöldum heimila og fyrirtækja. Við bæjarfulltrúar Framsóknar lögðum hins vegar til að þetta yrði endurskoðað áður en fjárhagsáætlunin er lögð fram til seinni umræðu. Ég á raunar ekki von á öðru en að meirihlutinn skoði það vel og leiti leiða til þess að lækka álögur á bæjarbúa, enda gefur málefnasamningurinn frá í vor ekki tilefni til annars en bjartsýni í þeim efnum.

Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 2. nóvember 2022.