Categories
Fréttir Greinar

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Deila grein

25/03/2024

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Í síðustu viku voru samþykkt lög um breytingar á búvörulögum nr. 99/1993, framleiðendafélög. Þær miklu umræður sem fylgt hafa í kjölfarið hafa væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum manni enda hafa stór orð verið látin falla sem eiga ekki öll rétt á sér.

Staða íslenskra bænda hefur verið erfið um langt skeið. Stóraukning á innfluttum landbúnaðarvörum og stökkbreytingar í verði á aðföngum hefur reynst greininni erfið síðustu ár, bara á síðasta ári jókst innflutningur á kjöti um 17%. Rekstur afurðastöðva í sauðfjár- og nautakjöti hefur lengi átt undir höggi að sækja og augljóst er ef að íslenskt lamba- og nautakjöt á að standast samkeppni frá innfluttu kjöti þarf að bregðast við. Hagræðing verður að eiga sér stað hjá afurðastöðvum til að standast erlenda samkeppni. Afurðastöðvar eru almennt að hluta í eigu bænda. Með þessum breytingum á búvörulögum sem nú hafa verið samþykkt er kjötafurðarstöðvum gert kleift að vinna saman eða sameinast til að ná fram rekstrarhagræði sem gagnast bæði bændum og neytendum.

Hagur bænda og neytenda

Því hefur verið haldið á lofti að þessar breytinga komi til með að stuðla að einokun, hækka vöruverð og verðbólgu. Þessar fullyrðingar eru á þunnum ís. Staðreyndin er sú að hagur bænda og neytenda fer saman. Íslenskur landbúnaður þarf á íslenskum neytendum að halda og á sama tíma þarf innlend framleiðsla að vera samkeppnishæf við innflutta matvöru. Ef ekki er veitt svigrúm til hagræðingar í greininni er næsta víst að neytendur færi sig í auknu mæli yfir í erlenda staðgönguvöru með þeim afleiðingum að það fjari undan íslenskum landbúnaði. Það sama myndi gerast ef sú hagræðing sem nú er möguleg skilar sér ekki til íslenskra neytenda. Hátt verð á innlendri landbúnaðarvöru veldur því að neytendur versla aðrar vörur. Þetta er einfalt reiknisdæmi. Að þessu leyti fara hagsmunir bænda og neytenda saman.

Rétt skal vera rétt

Þá er það hreinlega rangt það sem hefur verið haldið fram að afurðastöðvum sé nú heimilt að sameinast án takmarkana. Þeir sem skoða lögin geta séð að í þau eru skrifuð ákveðin skilyrði hyggist afurðastöðvar nýta sér þessa heimild. Þessi skilyrði voru sett inn í ljósi þess að samrunareglur eiga ekki lengur við. Þessi skilyrði tryggja að allir framleiðendur eru jafnsettir hvað varðar möguleika á að koma búfé til slátrunar óháð staðsetningu. Þá er afurðastöðvum skylt að selja öðrum vinnsluaðilum afurðir til frekari vinnslu á sömu viðskiptakjörum og vinnsluaðilum sem lúta þeirra stjórn. Með þessum skilyrðum er stuðlað að samkeppni og tryggt að aðrir vinnsluaðilar greiði sama verð fyrir sömu vöru og aðilar sem lúta stjórn framleiðendafélaga.

Þá er ekki heimilt að setja skorður við því að framleiðendur færi viðskipti sín til annars aðila. Er þessu skilyrði ætlað að efla og tryggja samningsstöðu bænda og tryggja að samkeppni ríki áfram á markaði. Að lokum er tryggður réttur til að eiga einungis viðskipti við framleiðendafélag um afmarkaða þætti, svo sem slátrun. Með þessu skilyrði er stuðlað að því að tryggja samningsstöðu bænda og fyrirbyggja hindranir fyrir minni keppinauta í slátrun og vinnslu. Þannig verður bændum auðveldað að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir ef þeir kjósa að gera það.

Sérstaða íslenskra kjörframleiðslu

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklalyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag. Nýútkomin skýrsla hóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins í samvinnu við matvæla og umhverfis-, orku- og loflagsráðherra um aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería tekur undir þær staðhæfingar. Í skýrslu hópsins kemur fram að fæðuöryggi muni enn minnka þar sem sýklalyfjaónæmi hefur einnig áhrif á dýraheilbrigði og þar með matvælaframleiðslu. Sýklalyfjanotkun hér á landi í landbúnaði er með því minnsta sem þekkist og hefur það verið staðfest í eftirliti Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar um notkun sýklalyfja í landibúnaði

Það er ekki ofsagt að íslensk matvælaframleiðsla eigi sér sérstöðu á heimsvísu og undir þetta taka helstu sérfræðingar á sviði sýkla- og veirufræða. Þeir hafa brýnt fyrir okkur að verja þurfi þá sérstöðu sem við búum við á Íslandi. Á grunni sérstöðunnar á Ísland að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með banni á dreifingu matvæla sem í greinist sýklalyfjaónæmar bakteríur. Það er bein skylda okkar að standa með íslenskri matvælaframleiðslu. Þá þarf að þora að stíga þau skref sem þarf til að koma því þannig fyrir að heilnæmt kjöt sé á boðstólum íslenskra neytanda á viðráðanlegu verði.

Samstaða frekar en sundrung

Við sem smáþjóð þurfum að standa vörð um innlenda framleiðslu og fyrir því eru fleiri en ein ástæða. Fyrst má þar nefna mikilvægi þess að halda framleiðslunni innanlands vegna allra þeirra starfa sem hún skapar, fyrir utan þá staðreynd að við viljum viðhalda innlendum landbúnaði og matvælaframleiðslu í landinu. Að ótöldu fæðuörygginu, matvælaöryggi með heilnæmi landbúnaðarvara og mikilvægi þess að vera sjálfbær.

Framsókn hefur í gegnum tíðina staðið með landbúnaði og mun ávallt gera, enda á flokkurinn uppruna sinn í sveitum landsins og hefur sú taug aldrei slitnað öll þessi ár. Þingmenn Framsóknar hafa í gegnum tíðina gert sitt besta til þess að vera öflugir málsvarar bænda í landinu. Okkar verkefni nú er að halda áfram að ræða mikilvægi innlends landbúnaðar og koma sjónarmiðum okkar á framfæri við samstarfsflokkanna sem og aðra flokka á Alþingi með hag bænda og neytenda að leiðarljósi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. mars 2024.

Categories
Fréttir

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Deila grein

26/02/2024

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar verða á ferð og flugi um land allt næstu daga. Þingflokknum er mikilvægt að heyra raddir kjósenda með reglubundnum hætti. Áhersla verður á heimsóknir í bland við opna fundi.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir alla opna fundi, en einnig má nálgast viðburðina á Facebook: https://fb.me/e/3vOUaC0mJ

Mánudagur 26. febrúar:
Reykjavík – Sykursalnum Grósku, kl. 20.00.
Suðurnesjabær – Samkomuhúsinu Sandgerði, kl. 20.00.

Þriðjudagur 27. febrúar:
Mosfellsbær – Skátaheimili Mosverja, kl. 20.00.
Bláskógabyggð – Efsti Dalur, kl. 20.00.
Borgarbyggð – Landnámssetrinu, kl. 20.00.

Miðvikudagur 28. febrúar:
Kópavogur – Siglingafélaginu Ými, Naustavör 14, kl. 20.00.
Akranes – Dalbraut 4, kl. 20.00.
Vopnafjörður – Safnaðarheimilinu, kl. 18.00.

Fimmtudaginn 29. febrúar:
Reyðarfjörður – Þórðarbúð, Austurvegi 39, kl. 17.30.
Sauðárkrókur – Kaffi Krók, kl. 20:15.
Egilsstaðir – Tehúsið, kl 20.00.
Árborg – Hótel Selfoss, kl 20.00.

Föstudagur 1. mars:
Húsavík – Félagsheimili eldri borgara, Hlyn, kl. 16.00.

Laugardagur 2. mars:
Hafnarfjörður – Kiwanissalnum, Helluhrauni 22, kl. 11.00.

Á næstu vikum munu þingmenn og ráðherrar heimsækja Höfn, Vestmannaeyjar, Vestfirði, en nánari upplýsingar verða birtar síðar.

ATH. að dagskráin kann að taka breytingum með skömmum fyrirvara.

Við erum Framsókn!

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi.

Í meira en öld höfum við unnið að framfaramálum fyrir Ísland með hugsjónir samvinnunnar að leiðarljósi.

Við í Framsókn trúum því að yfirvegað samtal skili samfélaginu meiri árangri en upphrópanir.
Við setjum manngildi ofar auðgildi.

Categories
Fréttir Greinar

Ábyrg og sterk ríkisfjármál

Deila grein

08/06/2023

Ábyrg og sterk ríkisfjármál

Efna­hags­stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar hef­ur verið far­sæl. At­vinnu­stig er hátt og kröft­ug­ur hag­vöxt­ur. Það er eft­ir­sókn­ar­vert að búa á Íslandi og við sjá­um það í vax­andi mann­fjölda. Hins veg­ar mæl­ist verðbólga 9,5% og er of há. Því er það verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar núm­er 1, 2 og 3 að hún lækki. Trú­verðug­leiki efna­hags­stefn­unn­ar er und­ir því kom­inn að það tak­ist.

Mik­ill þrótt­ur hef­ur verið í ís­lenska hag­kerf­inu en vöxt­ur þess á síðasta ári mæld­ist 6,4% og hef­ur ekki verið meiri en síðan 2007. Hag­vöxt­ur­inn held­ur áfram að vera knú­inn áfram af mikl­um vexti inn­lendr­ar eft­ir­spurn­ar en hún hef­ur vaxið um 8,6%. Lík­legt er þó að það hæg­ist á vexti einka­neyslu vegna þess að aðgengi heim­ila og fyr­ir­tækja að láns­fé er að minnka og fjár­mála­leg skil­yrði hafa þrengst vegna ít­rekaðra stýri­vaxta­hækk­ana Seðlabanka Íslands. Við erum þegar far­in að sjá teikn þess, þar sem einka­neysla jóskt á fyrsta árs­fjórðungi um 2,5%. Að sama skapi hef­ur at­vinnu­vega­fjár­fest­ing dreg­ist sam­an um 14% á þess­um árs­fjórðungi. Að lok­um má nefna að korta­velta hef­ur dreg­ist sam­an að raun­v­irði og er það í fyrsta sinn í lang­an tíma! Að auki er já­kvætt að sjá að viðskipta­kjör vöru og þjón­ustu hafa batnað á milli ára um 3%, sem hef­ur já­kvæð áhrif á gengi krón­unn­ar og ætti að hafa já­kvæð áhrif á verðbólguþróun enda hef­ur gengið verið að styrkj­ast.

Verðbólga hef­ur verið þrálát­ari en vænt­ing­ar stóðu. Inn­lend verðbólga hef­ur verið mik­ill en á móti hef­ur verðbólga á heimsvísu lækkað og gengi krón­unn­ar sterkt sök­um mik­ils gangs í ferðaþjón­ust­unni. Vænt­ing­ar markaðsaðila um verðbólgu­horf­ur eru enn of háar og Seðlabanki Íslands spá­ir að verðbólga verði 8% út árið. Sam­kvæmt könn­un Seðlabanka Íslands frá því í maí, þá bú­ast markaðsaðilar við að stýri­vext­ir verði 8,5% út þenn­an árs­fjórðung og verði svo komn­ir niður í 6% eft­ir tvö ár.

Þetta er of há verðbólga og því hafa stjórn­völd brugðist við með af­ger­andi hætti til að stemma við verðbólgu­horf­um.

Fyrst ber að nefna að lög­um verður breytt þannig að laun þjóðkjör­inna full­trúa og æðstu emb­ætt­is­manna rík­is­ins hækki um 2,5% í stað 6% hinn 1. júlí nk. Þannig verði tryggt að laun æðstu emb­ætt­is­manna skapi ekki auk­inn verðbólguþrýst­ing. Hækk­un­in tek­ur mið að verðbólgu­mark­miði Seðlabanka Íslands en það er 2,5%. Þetta eru skýr skila­boð um að rík­is­stjórn­in er á skýrri veg­ferð um að náð verðbólgu­mark­miðið ná­ist.

Hús­næðis­verð hækkaði um 25,5% á höfuðborg­ar­svæðinu í júlí í fyrra og er meg­in­or­sök­in er fram­boðsskort­ur. Fram­boð íbúða hef­ur þó verið að aukast og farið er að draga úr hækk­un verðs á hús­næði. Rík­is­stjórn­in er að taka enn frek­ari skref til að draga úr fram­boðsskorti og því verða stofn­fram­lög til upp­bygg­ing­ar leigu­íbúða inn­an al­menna íbúðakerf­is­ins tvö­földuð og fram­lög til hlut­deild­ar­lána verða auk­in enn frek­ar þannig að í stað þess að 500 íbúðir verði byggðar ár­lega árin 2024 og 2025. Því verða íbúðirn­ar 1000 á ári. Auk þess verður 250 nýj­um íbúðum bætt við fyrri áætlan­ir þessa árs og verða þá sam­tals tæp­lega 800. Þetta styður við aukið fram­boð á hús­næðismarkaði. Hér er rík­is­stjórn­in enn og aft­ur að stíga stór skref til að auka fram­boðið og nauðsyn­legt að sveit­ar­fé­lög­in styðji við þessa upp­bygg­ingu.

Í þeim stóru og mik­il­vægu verk­efn­um sem fram und­an eru á næstu mánuðum, þá er stærsta að ná verðbólg­unni niður. Það þarf breiðfylk­ingu og sam­stöðu til að það tak­ist, því þó skila­boð rík­i­s­tjórn­ar­inn­ar séu skýr í nýrri fjár­mála­áætl­un um aukið aðhald á tíma­bili áætl­un­ar­inn­ar þá þurfa fleiri hagaðilar og al­menn­ing­ur að leggja sitt lóð á voga­skál­arn­ar. Með sam­vinnu að leiðarljósi mun­um við ná þeim ár­angri sem við stefn­um að.

Stefán Vagn Stefánsson, odd­viti Fram­sókn­ar í Norðvest­ur­kjör­dæmi, formaður at­vinnu­vega­nefnd­ar og nefnd­armaður í fjár­laga­nefnd.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júní 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Langþráðri niðurstöðu náð

Deila grein

17/05/2023

Langþráðri niðurstöðu náð

Þau ánægjulegu tíðindi bárust seinni partinn í gær að sáttir hafi náðst vegna fyrirhugaðrar löggjafar ESB um losunarheimildir á flugferðir. Á blaðamannafundi sem Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, og Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra héldu í forsetabústaðnum kom fram að tekið verði tillit til séríslenskra aðstæðna og að Ísland muni hljóta undanþágur sem gildir til tveggja ára og hægt verði að deila á milli flugfélaga.

Hér er um að ræða eitt stærsta hagsmunamál Íslands frá því EES- samningurinn var tekin upp og íslensk stjórnvöld hafa verið vakin og sofin yfir því að tryggja að Ísland þurfi ekki að undirgangast íþyngjandi losunarskatt sem fyrirhugað var að leggja á flugleggi til og frá landinu. Ef þessum mikilvæga áfanga hefði ekki verið náð hefði verið fyrirséð að kostnaður vegna ferðalaga til og frá landinu hefði hækka umtalsvert, en við sem eyþjóð erum í ólíkri stöðu en flest önnur lönd í Evrópu.

Við þurfum þó að draga úr olíunotkun

Þrátt fyrir að þessu mikilvæga hagsmunamáli hafi verið náð höfum við en verk að vinna. Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið í loftlagsmálum og þar er flugið ekki undanskilið. Stefnt er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Notkun olíu er helsti losunvaldurinn og fer 52% af allir olíunotkun Íslendinga í flug. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér markmið um að hætta alfarið að nota olíu og unnið er allra leiða til þess. Eigi orkuskiptin að ganga upp er fyrirséð að finna þurfi aðra nýja græna endurnýjanlega orkugjafa í stað olíunnar.

Rafeldsneytisframleiðsla

Sá sem hér skrifar lagði í vetur fram þingsályktunartillögu um stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi en framleiðsla rafeldsneytis sem vetnis eða annars rafeldsneytis í formi ammóníaks, metanóls eða metans, eru græn tækifæri sem bíða þess að vera nýtt. Rafeldsneyti má nýta í þyngri farartæki líkt og flugvélar og skip. Auk þess að framleiða endurnýjanlega orkugjafa til að fullnægja þörfum innan lands liggja einnig gríðarleg tækifæri í að hefja útflutning á rafeldsneyti. Framleiðsla á rafeldsneyti er kostnaðarsöm aðgerð en þótt framleiðsla á rafeldsneyti og sala sé í dag hlutfallslega lítil þá er áhugi fjárfesta mikill og það felast ákveðin tækifæri í því að fjármagna framleiðsluna þegar markaðir eru orðnir tryggir.

Mikilvægi þess að Ísland geti orðið sjálfbært er kemur að öflun á rafeldsneyti er ótvírætt eins og núverandi ástand heimsmála sýnir svo rækilega. Sjálfbærni í orkuöflun er þjóðaröryggismál fyrir utan þá þjóðhagslegu hagsmuni sem af því hljótast að framleiða innlenda orkugjafa til notkunar í orkuskiptum Íslendinga. Framtíðartækifærin eru því mikil þegar kemur að framleiðslu á rafeldsneyti og þetta styður við markmið okkar um orkusjálfstæði Íslands og öruggar samgöngur til og frá landi.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. maí 2023.

Categories
Greinar

Straum­hvörf fyrir sauð­fjár­bændur

Deila grein

05/05/2023

Straum­hvörf fyrir sauð­fjár­bændur

Í lok liðins mánaðar voru staðfest þau gleðilegu tíðindi að Íslensk Erfðagreining muni taka þátt í því að rannsaka riðu í íslensku sauðfé, en riða er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur sem leggst á sauðfé og veldur svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu. Sjúkdómurinn er erfiður viðureignar og ekki hefur verið fundið upp bóluefni til þess að verjast honum. Sú aðferð sem hefur verið notuð hér á landi, þegar upp hefur komið riða á bæ, hefur verið að slátra öllu fé á bænum, fara í jarðvegsskipti, hreinsa, brenna og sótthreinsa. Hér er um er að ræða verulega íþyngjandi aðgerð með tilheyrandi áfalli fyrir alla sem málið snertir.

Verndandi arfgerð

Fram til þessa höfum við ekki haft önnur úrræði við að uppræta sjúkdóminn en að aflífa stofninn. Í kjölfarið á því að fundist hefur arfgerð sem er verndandi gegn riðu eru nú loksins möguleikar á breyttri aðferðarfræði við útrýmingu á riðuveiki. ARR-arfgerðin hefur hlotið viðurkenningu sem verndandi arfgerð en til eru fleiri arfgerðir sem ekki eru viðurkenndar en unnið er að rannsóknum á þeim. Það er mat þeirra sem hér skrifa undir að mikilvægt sé að styðja við enn frekari rannsóknir og vinnu við að greina íslenska fjárstofninn. Þannig má rækta upp stofn sem er ónæmur gegn riðunni. Á þeim forsendum hefur Íslensk Erfðagreining nú komið að borðinu.

Aðkoma Íslenskrar erfðagreiningar mikilvæg

Það er mikið fagnaðarefni að fá Íslenska Erfðagreiningu til liðs við sauðfjárbændur, Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins (RML) og fleiri sem hafa látið sig málið varða. Aðkoma Íslenskrar Erfðagreiningar er mjög mikilvæg þar sem hægt er setja aukinn þunga í að arfgerðagreina íslenska fjárstofninn með öflugra og ódýrari hætti þar sem fyrirtækið hefur yfir að ráða aflmiklum tækjum og sérfræðingum á þessu sviði. Það þekkjum við frá heimsfaraldri covid. Íslensk Erfðagreining sannar nú enn og ný mikilvægi sitt en nú í þágu íslensku sauðkindarinnar.

Ljósið við endann

Verkefnið nú er að finna allar þær kindur sem bera riðuþolna arfgerð. Í framhaldi af því verður svo hægt að dreifa þeim um landið og byggja upp sterkan fjárstofn sem tekur ekki riðu. Fyrirséð er að þetta verkefni komi til með að taka nokkur ár. Þrátt fyrir dimma daga sem gengið hafa yfir sjáum við nú loks ljósið við enda ganganna, og í kjölfarið breytt vinnubrögð sömuleiðis. Niðurskurður mun vonandi von bráðar tilheyra fortíðinni. Framtíðin er samvinnuverkefni bænda, vísindamanna og stjórnvalda.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Stefán Vagn Stefánsson, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Fljóta­göng og sam­göngur í Fljótum og til Siglu­fjarðar

Deila grein

29/04/2023

Fljóta­göng og sam­göngur í Fljótum og til Siglu­fjarðar

Nú í vikunni var birt sláandi mynd af ástandi Siglufjarðarvegar. Þar sést greinilega hversu mikið hefur hrunið úr hlíðinni, en það er stutt í að vegurinn verði í raun ófær eða honum lokað sem öryggisráðstöfun.

Öllum ætti að vera ljóst að núverandi veglína er ekki framtíðarlausn og að horfa verði til annarra leiða hvað varðar samgöngur milli Fljóta og Siglufjarðar. Að þessu sögðu er ljóst að framkvæmdir við Fljótagöng þola enga bið og hefja þarf undirbúning þeirra strax. Göng á milli Fljóta og Siglufjarðar yrðu gríðarleg samgöngubót fyrir vegfarendur á þessari leið en ekki síður myndi slík framkvæmd auka umferðaröryggi verulega.

Öryggi í forgangi

Öryggi þeirra sem um vegina fara er að mínu mati sá þáttur sem sérstaklega þarf að horfa til við forgangsröðun jarðgangna. Íbúar í Fljótum sækja mikla þjónustu til Siglufjarðar og því ljóst að samfélagsleg áhrif Fljótagangna yrðu mikil. Þungaflutningar frá Siglufirði t.d. með sjávarafurðir suður myndu nýta leiðina um Fljót þar sem sú vegalengd er töluvert styttri en inn Eyjafjörð og Öxnadalsheiði. Því myndi þessi gangnagerð skila fyrirtækjum á svæðinu mikilli hagræðingu. Eins eru börn í Fljótum að sækja skólaþjónustu til Siglufjarðar og íbúar í einhverjum mæli vinnu. Hugsum um fólkið og öryggi þeirra sem þjónustuna þurfa að sækja annað.

Við þurfum að vera tilbúin

Það er hins vegar ljóst að þó svo að Fljótagöngum yrði forgangsraðað ofarlega í nýrri jarðgangnaáætlun, sem boðuð hefur verið í vor og ákvörðun tekin um að hefjast strax handa við undirbúning og framkvæmd gangnanna, er tíminn frá ákvörðun til opnunar talinn í árum. Því er afar brýnt að Vegagerðin sé tilbúin að bregðast við ef Siglufjarðarvegur lokast, en eins og áður var sagt getur slíkt gerst með stuttum fyrirvara og í raun hvenær sem er.

Skynsamlegasta aðgerðin, sem ég tel í raun einboðin, er að farið verði strax í það að laga veginn um Lágheiði og gera hann tilbúinn til að taka við þeirri umferð sem kæmi ef Siglufjarðarvegur lokast. Ekki er verið að tala um að byggja um malbikaðan uppbyggðan veg heldur einfaldlega laga veginn þannig að hann sé akstursfær allt árið. Með þessu móti yrði einnig komið til móts við íbúa og fyrirtæki á svæðinu, sem árum saman hafa barist fyrir uppbyggingu á þeim vegi og er ill- eða ófær stóran hluta vetrarins.

Við þurfum að horfast í augu við þá staðreynd að Siglufjarðarvegur getur lokast án fyrirvara. Þá verðum við að vera kominn af stað með varaplan, sem að mínu mati er uppbygging og lagfæring á veginum um Lágheiði á meðan Fljótagöng eru í undirbúningi.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Ís­lenskt ra­f­elds­neyti í eigu þjóðarinnar

Deila grein

28/01/2023

Ís­lenskt ra­f­elds­neyti í eigu þjóðarinnar

Fyrir áramótin mælti ég fyrir tillögu minni til þingsályktunar á Alþingi um að fela ríkisstjórninni að taka til frumathugunar stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi. Líta má við þessa frumathugun til starfsemi Equinor í Noregi, fyrrum Statoil, sem er nú 67% í eigu norska ríkisins.

Rafeldsneyti og framtíðin

Hugmyndin að þessari þingsályktunartillögu er nokkuð löng en orkuskiptin hafa kallað á umræðu um rafeldsneyti sem einn af þeim orkukostum sem til greina koma sem eldsneyti framtíðarinnar.

Við sem þjóð höfum ákveðin markmið í átt að kolefnishlutleysi og ætlum okkur að standast skuldbindingar okkar í loftlagsmálum. Ásamt því að framleiða endurnýjanlega orkugjafa til að fullnægja þörfum innanlands, liggja einnig gríðarleg tækifæri í að hefja útflutning á rafeldsneyti. Framleiðsla á rafeldsneyti er kostnaðarsöm aðgerð en þó framleiðsla á rafeldsneyti og sala sé í dag hlutfallslega lítil þá er áhugi fjárfesta mikill og það felast ákveðin tækifæri í því að fjármagna framleiðsluna þegar markaðir eru orðnir tryggir. Á heimsvísu er gert ráð fyrir að kostnaðarliðir fari lækkandi á næstu árum. Eitt af tækifærum Íslands við framleiðslu rafeldsneytis er að nýta mögulega árstíðabundna umframorku og hámarka arðsemi.

Fjölmargir aðilar hafa sýnt áhuga á að hefja framleiðslu á rafeldsneyti hér á landi sem er jákvætt. Er bæði um innlenda en þó aðallega erlenda aðila að ræða. Forstjóri Landsvirkjunar hefur sagt opinberlega að Landsvirkjun sé ekki að fara að leggja til orku í slík verkefni enda sé hún ekki til í því magni sem þarf til að slík framleiðsla beri sig. En áhugi þessara aðila er til kominn sökum þess að tækifærin í því að framleiða grænt rafeldsneyti hér á landi eru gríðarleg og mjög ábatasöm fjárfesting til lengri tíma litið. Rafeldsneytisframleiðsla er einnig stór þáttur í orkuskiptum þjóðarinnar og partur af því að ná þeim markmiðum í loftlagsmálum sem við höfum sett okkur.

Gagnrýnt hefur verið á undanförnum árum að arður stóriðjunnar og fiskeldis hér á landi fari úr landi. Gera má ráð fyrir að svipuð umræða fari af stað þegar umsóknir rafeldsneytisfyrirtækjanna koma til afgreiðslu. Til að skapa megi um það betri sátt hef ég horft til Noregs og hvernig Norðmenn, árið 1972 stofnuðu Statoil, ríkisrekið olíufyrirtæki, til að halda utan um vinnslu og dreifingu á olíu og gasi sem fyrirtækið vinnur í norskri lögsögu.

Nýtum sóknarfærin

Framangreint leiðir okkur að þeirri spurningu hvort ekki sé skynsamlegt að stofnað verði fyrirtæki í eigu ríkisins, jafnvel undir eða í samstarfi við Landsvirkjun sem sjái um framleiðslu á rafeldsneyti til orkuskipta á Íslandi með möguleika á útflutningi, enda óljóst hvort markaður hér á landi sé nægilega stór svo framkvæmdin sé arðbær. Með þessu móti getum við orðið sjálfbær um orku, stigið risa skref í orkuskiptum og stutt við markmið stjórnvalda í loftlagsmálum. Arðinn af framkvæmdinni mætti setja í samfélagssjóð, að fyrirmynd Norðmanna, ásamt hluta eða öllum hagnaði Landsvirkjunar og því ljóst að um verulegar upphæðir yrði að ræða á ári hverju. Slíkan sjóð mætti t.d. nota til að bregðast við áföllum í efnahagslífi landsins eða öðrum óvæntum atvikum sem við þekkjum því miður aðeins of vel þessi misserin. Högg ríkissjóðs yrði þá minna og efnahagslegur stöðugleiki meiri.

Ég vona að vel verði tekið í tillöguna, en í henni er óskað eftir því að málið verði skoðað. Ég er sannfærður um að framleiðsla á íslensku rafeldsneyti í eigu þjóðarinnar sé farsælt skref og muni skila okkur áfram í orkuskiptunum og setja Ísland í sérflokk þegar kemur að sjálfbærni í orkumálum.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. janúar 2023.

Categories
Greinar Uncategorized

VERJA ÞARF STERKA STÖÐU RÍKISSJÓÐS Í FJÁRLÖGUM 2023

Deila grein

13/12/2022

VERJA ÞARF STERKA STÖÐU RÍKISSJÓÐS Í FJÁRLÖGUM 2023

Það er fastur liður í aðventudagskrá Alþingis að fjalla um og samþykkja fjárlög fyrir komandi ár. Í upphafi kjörtímabils voru krefjandi tímar fram undan, heimsfaraldur stóð yfir og sama dag og takmörkunum var aflétt hér á landi réðust Rússar inn í Úkraínu. Þessir þættir hafa skapað óvissu bæði hér innanlands sem og í Evrópu. Eðli málsins samkvæmt er það ekki óeðlilegt í ástandi sem þessu að verðbólga og hækkun á aðföngum taki sér pláss í fjárlögum líkt og í heimilisrekstri landsmanna. Staðan í efnahagsmálum í Evrópu er erfiðari en lengi hefur verið.

Skýr afkomubati

Þrátt fyrir þessar staðreyndir er það markmið ríkisstjórnarinnar að verja sterka stöðu ríkissjóðs með því að lækka rekstrarhalla og stöðva hækkun skuldahlutfalls á næsta ári. Í framlögðum fjárlögum má finna skynsamleg skef framávið sem lúta að því að styrkja áfram innviði og grunnþjónustu í landinu en það er sterkur leikur til að verja kaupmátt landsmanna. Þá má einnig finna að dregið er úr útgjöldum enda var verulega bætt í útgjöld til að verja störf og heimili í gegnum heimsfaraldurinn. Það er mikilvægt skref til að vinna gegn verðbólgu þegar horft er til næstu missera í þjóðarbúskapnum. Í fjárlögum næsta árs eru þó jákvæð teikn á lofti um að við séum að vaxa út úr þeim stóru verkefnum sem við höfum staðið frammi fyrir og að viðsnúningur geti orðið hraður ef rétt er haldið á spöðunum.

Treystum heilbrigðisþjónustu

Heilbrigðiskerfið með öllu sínu frábæra starfsfólki hefur staðið sem klettur í gegnum heimsfaraldur þrátt fyrir mikla ágjöf. En svo það geti staðið sterkt áfram þarf að bæta verulega í málaflokkinn. Við erum enn að glíma við eftirköstin eftir faraldurinn og þá þurfum við einnig að mæta næstu áskorun sem er fjölgun landsmanna og stækkandi hópur eldra fólks. Auk þess er til staðar uppsöfnuð þjónustuþörf eftir COVID. Ríkisstjórnin stendur með heilbrigðiskerfinu en framlög til heilbrigðismála hækka um 17,4 ma.kr. á næsta ári. Þar vegur þyngst 6.8 ma.kr raunhækkun til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga til að koma til móts við aukna eftirspurn og öldrun þjóðarinnar. Þá verður áfram haldið við að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað innan heilbrigðiskerfisins með 2. ma. viðbótarframlagi auk þess sem horft er til þess að efla heimahjúkrun.

Framlag til jarðhitaleitarátaks

Í tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Til þess þarf að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar þannig að hægt verði að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkyntar hitaveitur. Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 m.kr fram til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkra rannsókna myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Allt er þetta liður í því að nálgast markmið okkar um að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040.

Ferjurekstur tryggður

Það er örugglega öllum enn í fersku minni þegar Breiðafjarðarferjan Baldur bilaði í siglingu sinni yfir fjörðinn og minnti okkur rækilega á mikilvægi þess að þeir farþegar sem nýta sér þennan samgöngumáta geti treyst á öryggi skipsins. Sveitarfélög beggja megin Breiðafjarðar telja mikilvægt að tryggja þennan samgöngumáta, þrátt fyrir að bættar samgöngur á vegum stæði fyrir dyrum.

Í fjárlögum næsta árs má nú finna 210 m.kr. til þess að tryggja ferjurekstur um Breiðafjörð. Þá er það fyrirséð að núverandi rekstraraðili ferjunnar Baldurs mun hætta siglingum um Breiðafjörð. Þess í stað er gert ráð fyrir því að leigja eða kaupa aðra ferju og hefur eitt skip komið til álita, Röst, sem er nú í siglingum í Norður – Noregi.

Löggæsla efld

Áform eru uppi um að styrkja lögregluna um allt land með því að dreifa verkefnum á lögregluembættin út um landið og dreifa þannig álaginu. Á sama tíma á að styrkja grunnviðbragð lögregluembættanna á landsbyggðunum. Auk þess sem meirihluti fjárlaganefndar lagði til aukna fjárheimild upp á 200 milljónir til að draga úr aðhaldskröfu á lögregluna.

Velferðarfjárlög

Heilt yfir getum við horft til þess að fjárlög fyrir árið 2023 séu velferðarfjárlög, þar má m.a. finna hækkun á frítekjumarki atvinnutekna örorku og endurhæfingalífeyrisþegar í 200 þús , aukið kastljós á heilbrigðiskerfið, tímabundið framlag til sveitarfélaga vegna samræmda móttöku flóttamanna og ásamt sérstöku úrræði í tengslum við móttöku flóttabarna.

Sterk landsbyggð tekur á móti nýjum áskorunum

Við horfum fram á veginn inn í nýja framtíð. Við sjáum það nú að stuðningur stjórnvalda í gegnum heimsfaraldur við atvinnulífið og fjölskyldur í landinu skilaði því að við komum standandi niður eftir heimsfaraldur og stöndum mun betur en margar aðrar þjóðir. Með mörgum ákveðnum og markvissum skrefum voru settir saman aðgerðarpakkar til að verja fólk og fyrirtæki. Áfram verða þó til staðar áskoranir sem takast þarf á við, en þetta ár hefur sýnt að byggðarlög um land allt eru tilbúin í að nýta sér þau tækifæri og sérstöðu sem þau búa við, til að vaxa áfram og dafna.

Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmenn Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 10. desember 2022.

Categories
Greinar

Þýðing nagla­dekkja­gjalds?

Deila grein

04/11/2022

Þýðing nagla­dekkja­gjalds?

Síðustu daga hefur umræða um svokallað „nagladekkjagjald“ litið dagsins ljós eftir að Umhverfisstofnun viðraði hugmyndir um slíkt gjald. Sú hugmynd gengur út á það að sveitarfélögum verði veitt heimild til að rukka ökumenn um gjald þegar þeir keyra á vegum þess á nagladekkjum. Að mati stofnunarinnar er hægt að draga úr svifryksmengun með slíkri aðgerð. Vissulega er svifryksmengun skaðvaldur á lýðheilsu fólks, og okkur ber að tryggja viðunandi umhverfisgæði. Hins vegar staldra margir, af góðri ástæðu, við þessa hugmynd.

Raunverulegi kostnaðurinn

Margar vangaveltur vakna varðandi aðgerðina, þýðingu hennar og framkvæmd. Margt er óljóst í þessum efnum, en við getum verið sammála um eitt. Það er að vissulega mun gjaldtaka sem þessi skapa sveitarfélögum aukinn hagnað og dregið að einhverju magni úr svifryksmengun, en við allan plús kemur mínusinn fram einhvers staðar. Hver er kostnaðurinn?

Duldi kostnaðurinn við þessa aðgerð ekki fram í tölum á Excel skjali, enda er ekki hægt að meta hann til verðs. Í raun er hann ekki svo dulinn því við vitum öll tilgang nagladekkja. Að draga úr notkun nagladekkja dregur einnig úr umferðaröryggi.

Engan afslátt af öryggi

Öryggi fólks á alltaf að vera í fararbroddi þegar við ræðum aðgerðir í samgöngum. Sú ætlan að heimila sveitarfélögum val um að leggja gjald á notendur nagladekkja er andstæð umferðaröryggi. Við værum að stuðla að aukinni notkun illa útbúna dekkja í umferðinni. Undirritaður starfaði sem lögreglumaður í 23 ár og hef séð afleiðingar af slæmum dekkjabúnaði bifreiða of oft til að geta talið þau óþörf. Aðstæður á götum Reykjavíkurborgar, þjóðvegum landsins og byggðum um land allt geta óvænt orðið stór hættulegar og þar hafa nagladekk sífellt endurtekið reynst nauðsynlegar. Við eigum ekki að gefa neinn afslátt þegar það kemur að öryggi fólks í umferðinni.

Frekar viljum við lágmarka alla hættu og draga úr tjóni á ökutækjum, slysum á fólki og dauðaslysum. Hér á landi höfum við náð góðum árangri í umferðaröryggi og höfum ekki efni á því að taka skref til baka í þeim efnum.

Landsbyggðarskattur?

Þá horfir undirritaður sérstaklega til umferðaröryggis einstaklinga sem búa utan höfuðborgarsvæðisins og þurfa reglulega að aka þangað vegna vinnu, til að sækja þjónustu eða hvað annað sem þarf. Plúsinn á Excel skjalinu kemur augljóslega að mestu leyti úr þeirra vasa.

Þess má geta að vinnusóknarsvæði landsbyggðarinnar teljast oft í tugum kílómetra og erfitt er að áætla veður og færð. Allt frá ljúfu logni yfir í frost og rok. Við vitum aldrei fullkomlega hvaða veðrátta mætir þér. Þess vegna verðum við að útbúa ökutækin okkar í samræmi við það. Þessar aðstæður krefjast viðunandi öryggisbúnaðar, þ.á.m. nagladekkja, enda hafa aðstæður hér á landi oft verið til þess fallnar að nagladekk hafa reynst nauðsynleg. Ætla sveitarfélög sér það í alvöru að leggja gjald á fólk sem nauðsynlega þarf á nagladekkjum að halda öryggisins vegna?

Verulega óljós framkvæmd

Að auki má vissulega setja spurningamerki við framkvæmd slíkrar aðgerðar, en hún er með öllu óljós og erfitt er að átta sig á því hvernig hún eigi að vera. Að vísu væri hún nokkuð skrautleg, og þá sérstaklega hvað varðar einstaklinga sem keyra milli sveitarfélaga. Þar koma einstaklingar af landsbyggðinni aftur sérstaklega til álita.

Þegar ég, sem bý í Skagafirði og keyri töluvert til höfuðborgarsvæðisins og til baka vinnunnar vegna, keyri til dæmis til Leifsstöðvar í flug. Förum stuttlega yfir þá ferð:

Ég legg af stað að heiman í Skagafirði, þá yfir í Skagabyggð, Húnabyggð, Húnaþing vestra, Borgarbyggð, Hvalfjarðarsveit, Reykjavíkurborg, Mosfellsbæ, aftur Reykjavíkurborg, þá Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð, Voga, Reykjanesbæ og loks Suðurnesjabæ.

Til að forðast furðulega gjaldtöku yrði undirritaður að vera með tvöfaldan dekkjagang og skipta um dekk á miðri ferð ef sum þessara sveitarfélaga myndu leggja á umrætt gjald. Það liggur fyrir að dæmið gangi ekki upp.

Að sama skapi veltir maður fyrir sér að væntanlega yrði gjaldtakan innt af hverju sveitarfélagi fyrir sig. Spurningin er þá þessi: myndi einstaklingur sem færi í sambærilega ferð að greiða hverju einasta sveitarfélagi gjaldið. Þessi ferð væri orðin töluvert dýrari þar sem bensíngjaldið væri varla það sem ökumaður hefði lengur áhyggjur af.

Leiðin áfram

Af öllu þessu þá er augljóst að hugmyndin eigi ekki stoð í raunveruleikanum nema þá með það í huga að fólk eigi að neyðast til að greiða enn eitt gjaldið fyrir að geta ferðast í eigið ökutæki.

Það að draga úr svifryksmengun er vissulega göfugt markmið sem við sammælumst um. Hins vegar eru umrædd hugmynd Umhverfisstofnunar slæm. Ef hugsað er um hvernig hægt sé að stuðla að fallegra umhverfi, betri umhverfisgæðum og aukinni lýðheilsu þá varðar það einnig sveitarfélögin og þjónustu þeirra. Þá aðallega hreinsun gatna og gangstétta, sem lengi hefur sætt gagnrýnni t.d. í Reykjavíkurborg. Má vera að Reykjavíkurborg og eftir atvikum önnur sveitarfélög geti staðið betur að hreinsun gatna til að minnka svifryksmengun í sínu nærumhverfi? já ég tel svo vera. Það er leiðin áfram.

Stefán Vagn Stefánsson, Alþingismaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Sýslumönnum skal ekki fækka

Deila grein

27/03/2022

Sýslumönnum skal ekki fækka

Síðastliðna daga hef­ur sprottið upp umræða um fækk­un sýslu­mann­sembætta hér á landi. Talað er um að sam­eina ákveðin embætti í eitt og jafn­vel að fækka sýslu­mönn­um í ein­ung­is einn sýslu­mann, sem myndi hafa allt Ísland sem sitt um­dæmi. Þetta er áhyggju­efni þar sem sýslu­menn sinna veiga­miklu hlut­verki inn­an sinna um­dæma. Þeir þjóna sínu nærsam­fé­lagi í mik­il­væg­um og per­sónu­leg­um mál­um íbúa þess hvort sem það eru þing­lýs­ing­ar, gjaldþrot eða mik­il­væg mál­efni fjöl­skyldna. Af þessu er aug­ljóst að mik­il­vægi þess að sýslu­menn séu inn­an hand­ar er óum­deilt. Sýslu­menn eru umboðsmenn hins op­in­bera í héraði. Ef þau áform sem búið er að boða yrðu að veru­leika þá verður búið að eyða grund­vall­ar­hlut­verki þeirra.

Haft er eft­ir for­manni Fé­lags sýslu­manna að dóms­málaráðuneytið hafi fundað með sýslu­mönn­um um málið og að efa­semd­ir séu um ágæti þess inn­an þeirra raða. Skilj­an­lega, enda er nauðsyn­legt að sýslu­menn séu til staðar í nærum­hverf­inu og hafi ein­hverja teng­ingu við sam­fé­lagið. Með brott­hvarfi þeirra úr um­dæm­inu eyðist sú teng­ing, eðli máls­ins sam­kvæmt.

Vissu­lega bjóða tækninýj­ung­ar fjórðu iðnbylt­ing­ar­inn­ar upp á nýj­ung­ar, tæki­færi og upp­færslu ferla og aðferða. Þó er aug­ljóst að áform um að fækka sýslu­mann­sembætt­um tölu­vert brjóta í bága við byggðasjón­ar­mið, en við höf­um skuld­bundið okk­ur til að vinna í þágu þeirra. Fækk­un embætt­anna hef­ur í för með sér nei­kvæð áhrif á mörg byggðarlög, þá helst utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Ásamt því er aug­ljóst að at­vinnu­tæki­fær­um í fá­menn­ari byggðum fækk­ar, en það er göm­ul saga og ný að op­in­ber störf hverfi af lands­byggðinni í óþökk íbúa. Boðað hef­ur verið að með þessu verði störf­um og verk­efn­um sýslu­manna fjölgað, sem er af hinu góða, enda höf­um við í Fram­sókn verið öt­ul­ir tals­menn fjölg­un­ar op­in­berra starfa á lands­byggðinni. Það færi bet­ur á því að halda sýslu­mönn­um og nú­ver­andi um­dæm­a­mörk­um og færa þau störf sem áætlan­ir eru upp um að flytja í kjöl­far breyt­ing­anna til nú­ver­andi embætta og þar með styrkja þær mik­il­vægu stjórn­sýslu­ein­ing­ar sem sýslu­mann­sembætt­in eru í dag.

Fækk­un sýslu­mann­sembætta þvert yfir landið mun ekki verða með mínu samþykki. Hún fer gegn þeim mark­miðum sem sett voru fram í stjórn­arsátt­mála Fram­sókn­ar, Sjálf­stæðis­flokks­ins og Vinstri hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs. Fækk­un­in yrði mikið högg inn­an ým­issa byggða þvert yfir landið. Rök­in fyr­ir henni halda ekki vatni eins og staðan er í dag.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. mars 2022.