Categories
Fréttir Greinar

Er ekki allt í gulu?

Deila grein

02/09/2024

Er ekki allt í gulu?

Gulur september er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum. Um er að ræða mikilvæga og árlega vitundarvakningu þar sem fjölmargir taka höndum saman og vekja athygli á mikilvægi geðheilbrigðis og sjálfsvígsforvarna. Í gulum september sameinumst við á þeirri vegferð að vekja upp von.

Gulur er litur sjálfsvígsforvarna, táknrænn fyrir þá vitundarvakningu sem á sér stað, táknar von, hlýju og birtu ásamt því að vekja upp jákvæðar tilfinningar. Slagorð mánaðarins „er ekki allt í gulu?“ vísar til samkenndar; þess að láta sig náungann varða og hlúa að geðheilsunni.

Fjölbreytt dagskrá verður í tengslum við Gulan september sem hefst með formlegri opnun í ráðhúsi Reykjavíkur. Þann 10. september er alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna og eru landsmenn hvattir til að taka þátt og klæðast gulu.

Lífsbrú

Margt jákvætt hefur gerst á undanförnum árum þegar kemur að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum hér á landi. Verkefnastjóri sjálfsvígsforvarna vinnur með miðstöð sjálfsvígsforvarna sem ber heitið Lífsbrú. Markmið miðstöðvarinnar er að vinna að sjálfsvígsforvörnum í samræmi við aðgerðaráætlun stjórnvalda.

Nafnið Lífsbrú vísar til vitundarvakningar á breiðum grunni um mikilvægi uppbyggilegs og heilbrigðs lífs, allt frá frumbernsku og leggur einnig huglæga brú yfir til þeirra sem haldnir eru sjálfsvígshugsunum; það er alltaf von.

Samhliða opnun miðstöðvarinnar var settur á laggirnar Lífsbrú-sjóður sem ætlað að byggja enn frekar undir sjálfsvígsforvarnir í samræmi við aðgerðaráætlun stjórnvalda.

Uppfærð aðgerðaráætlun

Forvarnir eru viðvarandi verkefni. Starfshópur vinnur nú að því að uppfæra aðgerðaráætlun í sjálfsvígsforvörnum í samræmi við lýðheilsu- og geðheilbrigðisstefnu.

Jafnframt er Ísland þátttakandi í Evrópuverkefninu ,,Joint Action ImpleMENTAL 2022-2024“ sem meðal annars snýr að innleiðingu gagnreyndra sjálfsvígsforvarna og nýtist vel í mótun framtíðarsýnar og aðgerðaráætlunar í sjálfsvígsforvörnum.

Samvinnuverkefni

Geðrækt og forvarnir eru samvinnuverkefni sem er samofið samfélaginu og snertir flesta anga þess. Þannig geta kraftar öflugs hugsjónafólks, félagasamtaka og stjórnvalda komið saman að umbótum og er Lífsbrú vettvangur slíkrar samvinnu. Framlag þessa hugsjónafólks og félagasamtaka er þakkarvert.

Ég vil hvetja sem flest til að taka þátt í gulum september og kynna sér dagskrána sem finna má á vef Embættis Landlæknis.

Við skulum stöðugt minna okkur á að það er alltaf von. Réttum út hjálparhönd, sýnum hlýju, skilning og samhug; framhald seiglu og vonar; allt í gulu.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Lýðheilsuhugsjónin

Deila grein

30/08/2024

Lýðheilsuhugsjónin

Varhugaverð þróun hefur átt sér stað undanfarin misseri í sölu og afhendingu áfengis hér á landi í formi netsölu. Um einkasölufyrirkomulag með áfengi á smásölustigi gilda lög. Markmið þeirra er að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis sem byggist m.a. á bættri lýðheilsu, samfélagslegri ábyrgð og vernd ungs fólks.

Fyrr í sumar sendi undirritaður bréf, til fjármála- og efnahagsráðherra sem fer með framkvæmd laga um verslun með áfengi og tóbak (afrit á dómsmálaráðherra), til þess að vekja máls á markmiðsákvæðum laganna, stefnu ríkisstjórnarinnar og þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Ásamt því að koma áfram ákalli félagasamtaka, heilbrigðisstétta og breiðfylkingu foreldrasamtaka um aðgerðir í þágu lýðheilsu.

Íslenska forvarnarmódelið

Síðustu áratugi hefur hér á landi verið unnið öflugt forvarnarstarf á sviði áfengis og tóbaksforvarna sem kallað er íslenska módelið. Meginmarkmið íslenska forvarnarmódelsins er að ná að virkja allt samfélagið í baráttunni gegn vímuefnum með samvinnu og verndandi þáttum. Okkur tókst, í samvinnu fjölmargra aðila sem starfa í nærumhverfi barna og með þátttöku ungmenna, foreldra og forráðamanna, að byggja undir fjölmarga verndandi þætti í umhverfi ungmenna sem rannsóknir sýna að hafi jákvæð og verndandi áhrif og draga þannig úr áhættuhegðun.

Árangur okkar í áfengis-, vímuefna- og reykingaforvörnum ungmenna hefur vakið athygli út fyrir landsteinana og þar er aðgangsstýring sterkasta vopnið. Þennan árangur megum við ekki gefa eftir því í honum felast ómæld verðmæti fyrir íslenskt samfélag. Íslenska forvarnarmódelið er ekki tímabundið átaksverkefni eða afmörkuð aðgerð heldur er það samofið samfélaginu og þeim viðhorfum sem við höfum tileinkað okkur.

Íslensku samfélagi hefur, umfram flestar aðrar þjóðir, tekist að viðhalda einkasölufyrirkomulagi ríkisins á áfengi og hefur það sett okkur í öfundsverða stöðu. Fyrirkomulagið byggir á augljósum lýðheilsu- og samfélagsrökum sem felast í að takmarka aðgengi og draga þannig úr skaða af völdum neyslu áfengis. Í lögfræðiáliti sem unnið var að beiðni fjármála- og efnahagsráðherra kemur skýrt fram að það fyrirkomulag netverslana sem þróast hefur hér á landi síðustu misseri sé í andstöðu við lög.

Ákall samfélagsins

Ákall samfélagsins um viðbrögð stjórnvalda er skýrt. Áskoranir hafa borist stjórnvöldum frá fjölmörgum fagfélögum og samtökum sem hafa látið þetta mikilvæga mál sig varða. Nú síðast hafa á annan tug félaga innan heilbrigðisstétta á Íslandi skorað á ríkisstjórnina að skera úr um lögmæti netsölu, fylgja eftir markmiðum gildandi laga um einkasölu ÁTVR á áfengi og hvika ekki frá gildandi lýðheilsustefnu til ársins 2030.

Læknafélag Íslands hefur sent frá sér áskorun til alþingismanna um að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að minnka skaða af áfengisneyslu og tekur fram að þar sé stýring á aðgengi að áfengi sterkasta vopnið. Í áskorun félagsins er einnig tekið fram að aukið aðgengi að áfengi, eins og netverslun og heimsending, sé til þess fallið að valda enn meiri skaða í samfélaginu.

Þá hefur Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga skorað á bæði Alþingi að standa vörð um lýðheilsustefnu og heilbrigðisstefnu til 2030 og hvatt ríkisstjórnina til að halda sig við lýðheilsumarkmið stjórnarsáttmálans og standa þannig með heilsu og velferð þjóðarinnar. Sömu sögu er að segja af Félagi lýðheilsufræðinga sem hvetur alla alþingismenn til að standa vörð um lýðheilsu.

Breiðfylking foreldrasamtaka hefur barist ötullega fyrir því að brugðist verði við þessari þróun og hafa jafnframt skorað á alþingismenn að standa vörð um einkasölu ríkisins á áfengi.

Verjum góðan árangur

Það verða alltaf sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar að leggja aukna áherslu á lýðheilsu og forvarnir. Rannsóknir á sviði lýðheilsumála hafa sýnt að takmarkanir á aðgengi að áfengi eru meðal öflugustu forvarnaraðgerða sem við eigum og hefur verið staðfest að þær hafa áhrif til að draga úr neyslu áfengis.

Verjum þann góða árangur sem við höfum náð og viðhöldum því einkasölufyrirkomulagi sem reynst hefur vel. Brýnt er að herða framkvæmd gildandi reglna með það að markmiði að snúa við þeirri þróun sem átt hefur sér stað varðandi aðgengi að áfengi. Sama hvernig á það er litið, þá hlýtur lýðheilsa þjóðarinnar að vega mun þyngra en verslunarfrelsi og markaðsvæðing EES á áfengissölu.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. ágúst 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ylja og skaðaminnkun

Deila grein

12/08/2024

Ylja og skaðaminnkun

Þau ánægjulegu tímamót áttu sér stað fyrr í vikunni er fyrsta staðbundna neyslurýmið hér á landi var formlega opnað. Rauði Kross Íslands rekur þjónustuna á grundvelli samnings við Sjúkratryggingar Íslands og Reykjavíkurborgar í sérútbúnu húsnæði í Borgartúni 5. Þjónustan, sem fengið hefur nafnið Ylja, byggir á skaðaminnkandi hugmyndarfræði sem felur í sér þá nálgun að draga úr afleiðingum vímuefnanotkunarinnar og stuðla að jákvæðum breytingum, bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið í heild.

Neyslurými er lagalega verndað umhverfi þar sem notendur vímuefna, 18 ára og eldri, geta notað vímuefni undir eftirliti sérhæfðs starfsfólks. Markmiðið með rekstri neyslurýmis er að draga úr alvarlegum afleiðingum vímuefnanotkunar í óöruggum aðstæðum s.s. sýkingum, smitsjúkdómum og ofskömmtun ásamt því að veita mikilvæga lágþröskulda heilbrigðisþjónustu, stuðning og ráðgjöf.

Ylja eykur öryggi

Þjónusta Ylju var starfrækt sem færanlegt neyslurými í sérútbúinni bifreið til reynslu í eitt ár frá mars 2022 með það að markmiði að meta þörfina fyrir staðbundið, varanlegt neyslurými hérlendis. Verkefnið dró fram að full þörf er fyrir slíka þjónustu og þann ávinning sem af henni hlýst en samkvæmt skýrslu samtakanna um verkefnið nýttu um 130 einstaklingar sér þjónustu Ylju í tæplega 1400 skipti á tímabilinu.

Í skýrslunni var einnig tekið fram að sérútbúin bifreið eða færanlegt rými er ekki fullnægjandi aðstaða fyrir þessa mikilvægu skaðaminnkandi þjónustu og að staðbundið neyslurými væri skynsamlegt næsta skref.

Í Ylju er veitt nálaskiptaþjónusta og heilbrigðisþjónusta s.s. meðhöndlun sýkinga, sára og skimun fyrir smitsjúkdómum. Þá hefur Ylja hefur einnig lagt áherslu á að mynda traust og tengingu við notendur þjónustunnar og veita þeim sálfélagslegan stuðning og ráðgjöf í þeim tilgangi að stuðla að jákvæðum breytingum fyrir þjónustuþegan.

Skaðaminnkun í verki

Opnun Ylju er til marks um aukna áherslu stjórnvalda á skaðaminnkandi nálgun og úrræði fyrir þann hóp sem glímir við fíknisjúkdóma. Í því samhengi má nefna samning Sjúkratrygginga um frú Ragnheiði, skaðaminnkandi þjónustu Rauða Kross Íslands sem sinnir nálaskiptaþjónustu og heilbrigðisþjónustu á vettvangi. Frú Ragnheiður á einnig í samstarfi við göngudeild smitsjúkdóma um vettvangshjúkrun sem frá og með janúar 2024 veita vettvangsþjónustu tvisvar í viku.

Þá hefur Heilbrigðisráðuneytið í samstarfi við landspíta, markvisst unnið að því að auka aðgengi að Naloxone, sem er tafarlaus neyðarmeðferð við þekktri eða ætlaðri ofskömmtun ópíóða, í skaðaminnkandi tilgangi að kostnaðarlausu.

Í byrjun árs 2023 var sérstöku fjármagni veitt til Heimaþjónustu Reykjavíkurborgar til að ráða 2 hjúkrunarfræðinga sem veita heimilislausum einstaklingum með flóknar þjónustuþarfi nauðsynlega heilbrigðisþjónustu í nærumhverfi.

Aðgengi að viðhaldsmeðferð við ópíóðafíkn hefur verið aukið en sú þjónusta er í dag aðgengileg á sjúkrahúsinu Vogi, Landspítala og hjá geðheilsuteymi fanga.

Á vegum Matthildar, samtaka um skaðaminnkun, stendur yfir tilraunaverkefni, sem styrkt er af heilbrigðisráðuneytinu og snýr að því að ná til einstaklinga sem reykir ópíóða og örvandi vímuefni og veita þeim skaðaminkandi þjónustu í sínu nærumhverfi.

Stefnumótun til framtíðar

Skaðaminnkandi hugmyndafræði er samofin fjölmörgum þáttum samfélagsins. Til að skapa betri umgjörð og framtíðarsýn fyrir skaðaminnkun innan heilbrigðiskerfisins skipaði ég starfshóp sem falið var það verkefni að leggja drög að stefnu og aðgerðaráætlun í skaðaminnkun og á ég von á skýrslu þess efnis um mánaðarmótin.

Þá er einnig að störfum starfshópur sem er að endurskoða stefnu í áfengis og vímuvörnum á heildrænan hátt sem nær til forvarna, meðferðar, endurhæfingar, eftirfylgni og lagaumhverfis og þá er sérstök áhersla á að hún taki mið af þörfum mismunandi hópa.

Samhliðar þessari stefnumótunarvinnu var sett á fót þingmannanefnd um áfengis og vímuvarnarmál sem hefur það hlutverk að rýna þær tillögur sem fram koma í þeim tilgangi að dýpka umræðuna, draga fram ólík sjónarmið og auka samstöðu um aðgerðir stjórnvalda í málaflokknum.

Opnun Ylju markar tímamót og ég er sannfærður um að sú faglega og góða þjónusta sem Rauði Kross Íslands veitir þar muni auka öryggi, draga úr skaða og stuðla að jákvæðum breytingum hjá þjónustuþegum Ylju.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. ágúst 2024.

Categories
Fréttir

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Deila grein

26/02/2024

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar verða á ferð og flugi um land allt næstu daga. Þingflokknum er mikilvægt að heyra raddir kjósenda með reglubundnum hætti. Áhersla verður á heimsóknir í bland við opna fundi.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir alla opna fundi, en einnig má nálgast viðburðina á Facebook: https://fb.me/e/3vOUaC0mJ

Mánudagur 26. febrúar:
Reykjavík – Sykursalnum Grósku, kl. 20.00.
Suðurnesjabær – Samkomuhúsinu Sandgerði, kl. 20.00.

Þriðjudagur 27. febrúar:
Mosfellsbær – Skátaheimili Mosverja, kl. 20.00.
Bláskógabyggð – Efsti Dalur, kl. 20.00.
Borgarbyggð – Landnámssetrinu, kl. 20.00.

Miðvikudagur 28. febrúar:
Kópavogur – Siglingafélaginu Ými, Naustavör 14, kl. 20.00.
Akranes – Dalbraut 4, kl. 20.00.
Vopnafjörður – Safnaðarheimilinu, kl. 18.00.

Fimmtudaginn 29. febrúar:
Reyðarfjörður – Þórðarbúð, Austurvegi 39, kl. 17.30.
Sauðárkrókur – Kaffi Krók, kl. 20:15.
Egilsstaðir – Tehúsið, kl 20.00.
Árborg – Hótel Selfoss, kl 20.00.

Föstudagur 1. mars:
Húsavík – Félagsheimili eldri borgara, Hlyn, kl. 16.00.

Laugardagur 2. mars:
Hafnarfjörður – Kiwanissalnum, Helluhrauni 22, kl. 11.00.

Á næstu vikum munu þingmenn og ráðherrar heimsækja Höfn, Vestmannaeyjar, Vestfirði, en nánari upplýsingar verða birtar síðar.

ATH. að dagskráin kann að taka breytingum með skömmum fyrirvara.

Við erum Framsókn!

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi.

Í meira en öld höfum við unnið að framfaramálum fyrir Ísland með hugsjónir samvinnunnar að leiðarljósi.

Við í Framsókn trúum því að yfirvegað samtal skili samfélaginu meiri árangri en upphrópanir.
Við setjum manngildi ofar auðgildi.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­úr­skarandi Landspítali

Deila grein

16/02/2024

Fram­úr­skarandi Landspítali

Landspítalinn er þungamiðja íslenskrar heilbrigðisþjónustu og gegnir fjölbreyttu og veigamiklu hlutverki innan kerfisins í heild sem háskólasjúkrahús landsins. Starfsemi Landspítala er í stöðugri þróun og vexti og aldrei hafa fleiri einstaklingar starfað á spítalanum og árið 2023.

Undanfarin ár hafa verið viðburðarík í starfsemi Landspítala sem gengið hefur í gegnum ákveðið umbreytingarskeið í þeim tilgangi að styrkja stöðu og hlutverk spítalans fyrir heilbrigðiskerfið í heild, í takt við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Breyttar áherslur og skipulag

Á árinu 2022 var stjórnskipulag spítalans styrkt í þeim tilgangi að auka stuðning við stjórnendur. Skipuð var stjórn sem fékk það hlutverk að marka Landspítala langtímastefnu í samræmi við stefnumörkun og hlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum ásamt því að styðja við faglegan rekstur spítalans.

Þá réðust stjórnendur í umfangsmikla greiningarvinnu á skipulagi spítalans í samvinnu og samráði við stjórn og fagráð spítalans. Sú vinna dró fram mikilvægi þess að fara í ákveðnar breytingar á innra skipulagi til að ná fram mikilvægum umbótum á þjónustu og meiri skilvirkni í þjónustu og rekstri.

Breytt skipulag leggur áherslu á að styrkja klíníska starfsemi spítalans með því að færa ákvörðunarvald og ábyrgð nær framlínu starfsemi stofnunarinnar og einfalda skipulag hennar. Breytingarnar miða einnig að því að efla hlutverk Landspítala sem háskólasjúkrahús og auka veg vísindastarfs innan hans. Hið nýja skipurit tók gildi 1. janúar 2023 og ný framkvæmdastjórn tók til starfa.

Þjónustutengd fjármögnun skilar árangri

Samhliða innleiðingu nýs skipulags hefur markvisst verið unnið að ýmsum umbótum í starfsemi og rekstri spítalans. Mikilvægur liður í þeirri vinnu snýr að innleiðingu á þjónustutengdri fjármögnun. Á árinu 2023 voru stigin afgerandi skref við innleiðingu þess og er Landspítali nú fjármagnaður í auknu mæli með þjónustutengdri fjármögnun í gegnum samning við Sjúkratryggingar Íslands. Slík fjármögnun er afkastatengd og hvetur þar af leiðandi til aukinnar framleiðni. Fjármögnunin endurspeglar raunverulegt umfang þjónustunnar og raunkostnað við veitingu hennar.

Til viðbótar við umbætur í skipulagi og nýtt fjármögnunarkerfi þá hefur Landspítali unnið að fjölmörgum umbótaverkefnum til að bæta þjónustu við sjúklinga. Í því samhengi má nefna nýja bráðadagdeild lyflækninga ásamt fjarþjónustu lyflækninga til stuðnings og ráðgjafar við aðrar heilbrigðisstofnanir og þjónustuveitendur. Lágþröskuldaþjónusta göngudeildar smitsjúkdóma var sett á fót en hún gefur vímuefnanotendum greiðara aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Þá var komið á fót sex stöðugildum félagsráðgjafa og sálfræðinga til að bæta þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á bráðamóttöku, með sérstakri viðbótarfjárveitingu.

Afköst hafa aukist og rekstur er í jafnvægi

Í ljósi þeirra umbóta sem átt hefur sér stað á Landspítala þá er afar ánægjulegt að rýna í starfsemistölur spítalans á árinu 2023 og sjá að þessar breytingar og aðgerðir eru að bera raunverulegan árangur. Afköst spítalans hafa aukist umtalsvert á sama tíma og spítalinn skilaði hagstæðri rekstrarafkomu sem nemur, samkvæmt bráðabirgðauppgjöri, rúmum 600 milljónum króna.

Aukning á skurðaðgerðum sem framkvæmdar voru á spítalanum frá fyrra ári nam rúmlega 8%. Enn fremur fjölgaði legum um 4,3% og heimsóknum á dag- og göngudeildir um 7,7%. Hlutfall dagdeildaraðgerða hefur nær tvöfaldast milli ára sem er afar jákvæð þróun. Þá hafa stafræn samskipti aukist til muna, eða um 7%, en við vitum að stafvæðing í heilbrigðisþjónustu er einn lykilþátturinn í því að okkur takist að mæta lýðfræðilegum breytingum og veita þar með vaxandi hópi sjúklinga góða og árangursríka þjónustu í framtíðinni.

Biðtími styttist og færri bíða

Með auknum afköstum og skilvirkni hefur bið eftir ýmissi þjónustu styst umtalsvert. Um nýliðin áramót hafðist það markmið að ekkert barn beið eftir þjónustu barna og unglingadeildar Landspítala (BUGL) lengur en 90 daga, í samræmi við viðmið embættis landlæknis. Minnismóttaka Landspítala hefur náð með markvissum hætti að stytta bið eftir þjónustu úr 9 mánuðum í september 2022 niður í 3 mánuði á árinu 2023 og þá hefur bið eftir ýmsum valkvæðum skurðaðgerðum s.s. liðskiptaaðgerðum styst töluvert.

Árangur er ekki aðeins mældur í afköstum eða nýtingu heldur er mikilvægt að horfa einnig til gæða þjónustunnar og árangurs af veittri meðferð. Í því samhengi er árangur spítalans og íslenska heilbrigðiskerfisins eftirtektarverður. Sá árangur kemur skýrt fram þegar horft er til árangurs af meðferð bráðatilvika sem og algengra sjúkdóma, í alþjóðlegum samanburði.

Upplifun notenda er einnig mikilvægur mælikvarði. Samkvæmt þjónustukönnun Landspítala sem er framkvæmd árlega má sjá jákvæða þróun á upplifun sjúklinga af þjónustu. Þegar litið er til reynslu sjúklinga í heild af síðustu innlögn fær spítalinn að meðaltali einkunnina 8,34 af 10 og hækkar annað árið í röð.

Spítali á heimsmælikvarða

Þrátt fyrir fámenni íslensku þjóðarinnar þá býr gríðarleg sérþekking og verðmætur mannauður innan spítalans og íslenska heilbrigðiskerfisins sem leggur sig fram um það, á hverjum degi, að veita bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni. Okkur hefur tekist að veita greiðan aðgang að mjög sérhæfðri heilbrigðisþjónustu og reka hér háskólasjúkrahús í fremstu röð.

Það verður því ekki annað sagt en að Landspítalinn kemur bæði sterkari og öflugri undan árinu 2023. Stjórnendur og starfsfólk Landspítala eiga heiður skilið fyrir þá umfangsmiklu umbótavinnu sem átt hefur sér stað á spítalanum og það á öllum að vera það ljóst að árangur Landspítala er árangur starfsfólksins sem þar starfar.

Við getum öll verið stolt af því starfi sem fram fer á spítalanum okkar.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Svar við á­kalli heil­brigðis­starfs­fólks

Deila grein

28/12/2023

Svar við á­kalli heil­brigðis­starfs­fólks

Það voru ánægjuleg og mikilvæg tímamót fyrir íslenska heilbrigðiskerfið þegar frumvarp um hlutlæga refsiábyrgð var samþykkt samhljóða á Alþingi rétt fyrr jól. Frumvarpið á sér langan aðdraganda og byggir á tillögum sem komu fram í skýrslu starfshóps um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu ásamt tillögum til úrbóta frá árinu 2015. Á vormánuðum 2022 fól ég starfshóp að rýna tillögur skýrslunnar frá 2015 og skoða áhrif þess ef refsiábyrgð yrði breytt í samræmi við tillögur skýrslunnar. Starfshópurinn vann á breiðum samráðsgrunni og skilaði af sér drögum að frumvarpi í febrúar á þessu ári og var það lagt fyrir Alþingi.

Með nýjum lögum erum við að innleiða hlutlæga refsiábyrgð heilbrigðisstofnana í þeim tilgangi að auka öryggi sjúklinga, að efla öryggismenningu innan heilbrigðiskerfisins, stuðla að umbótum og fækka alvarlegum atvikum. Einnig er tilgangurinn að bæta starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks með því að skýra og auka réttaröryggi framlínufólks heilbrigðiskerfisins.

Að axla ábyrgð

Starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks einkennist oft af miklum hraða og óvæntum aðstæðum. Öll ákvarðanataka og hvert handtak krefst því ekki aðeins reynslu, þjálfunar og þekkingar heldur líka trausts. Það traust á og þarf að vera gagnkvæmt. Rannsóknir sýna að orsakir alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu eru í langflestum tilfellum margir samverkandi og kerfislægir þættir í starfsemi heilbrigðisstofnunar, en sjaldan sök einstaklinga sem vinna verkin.

Með breyttri nálgun laganna verður nú hægt að koma refsiábyrgð á hendur heilbrigðisstofnunar eða rekstraraðila, fremur en einstaka heilbrigðisstarfsmanni, þegar margir samverkandi þættir eða röð atvika eru orsök alvarlegs atviks. Það kallast hlutlæg og uppsöfnuð refsiábyrgð og með henni axlar heilbrigðiskerfið ábyrgð. Breytingarnar eru svar við ákalli heilbrigðisstarfsfólks og sjúklinga um umbætur við meðferð og rannsókn alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu.

Upplýsa til umbóta

Með lagabreytingunum verður áfram unnið að því að efla rannsóknir á orsökum alvarlegra atvika, gera þær ítarlegri, bæta verkferla og tryggja betur aðkomu sjúklinga og aðstandanda. Sú vinna mun fara af stað á næstunni.

Að rannsaka orsök og upplýsa um ástæður alvarlegra atvika sem upp geta komið við veitingu heilbrigðisþjónustu er mikilvægt til umbóta og sömuleiðis til að fyrirbyggja að slíkt atvik endurtaki sig. Brýnt er að rannsókn kalli fram tillögur til úrbóta fremur en að ákvarða um sök eða ábyrgð.

Öryggismenningin er heilbrigðiskerfinu okkar mikilvæg, og byggir á gagnkvæmu trausti. Sterk öryggismenning eykur gæði og öryggi þjónustunnar ásamt því að stuðla að framþróun og umbótum í heilbrigðiskerfinu.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Gögn eru gulls í­gildi

Deila grein

09/11/2023

Gögn eru gulls í­gildi

Hið árlega heilbrigðisþing verður haldið þriðjudaginn 14. nóvember í Hörpu. Þingið verður að þessu sinni með norrænni skírskotun í tilefni af formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og munu margir innlendir og erlendir fyrirlesarar stíga á stokk í Norðurljósasalnum. Gagnadrifin framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins verður í brennidepli og leitað verður svara við þeirri spurningu hvernig gögn, gagnasöfn og gervigreind geti styrkt íslenskt heilbrigðiskerfi.

Norræna nálgunin á velsæld

Formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni er í forgrunni heilbrigðisþingsins og aðstæður, lausnir, áskoranir og tækifæri eru sett fram í samhengi við það sem best gerist og gengur á öðrum Norðurlöndum. Ráðherranefndin vinnur eftir stefnuáherslum til ársins 2030 sem miða að því að Norðurlöndin verði best samþætt og sjálfbærustu samfélög veraldar í lok áratugarins.

Það er sameiginleg sýn innan ráðherranefndarinnar að gagnadrifin heilbrigðismál og hagnýting framsækinna gervigreindarlausna séu lykilatriði til að tryggja samkeppnishæfni norrænna heilbrigðiskerfa og stuðla að sjálfbærni þeirra. Sú nálgun byggir á þeirri forsendu að heilbrigðismál séu stærsta velferðarmálið og jafnframt ein stærsta áskorun allra þjóða. Heilbrigðismál eru efst á baugi í norrænum stjórnmálum og velsæld norrænu ríkjanna hvílir að mörgu leiti á heilbrigðismálum og hagkerfi sem styður við velsæld.

Viðamikil dagskrá

Dagskrá heilbrigðisþings endurspeglar umfang málefnisins og er fjölbreytt og áhugaverð. Hún er fyrir alla að fylgjast með, vekja til umhugsunar og hvetja til umræðu. Sjónum er beint að því hversu mikilvæg umgjörð og innviðauppbygging innan heilbrigðiskerfisins er þegar kemur að viðkvæmum upplýsingum, geymslu þeirra og notkun. Meginmarkmið með aukinni stafvæðingu og bættri nýtingu á gögnum og gagnagrunnum er að efla heilbrigðiskerfið með tilliti til ákvörðunartöku, samvinnu heilbrigðisstétta, upplýsingagjöf, vísinda og greininga í þágu notenda.

Ofarlega á baugi verða siðferðileg sjónarmið við notkun gagna og gervigreindar í heilbrigðiskerfinu. Notkun gervigreindar innan heilbrigðisgeirans er ekki aðeins mikið tækifæri heldur vekur hún upp margar áleitnar spurningar um tækniframfarir og siðferði. Markmið er að nýta alla framþróun líkt og gervigreindina til góðs og í þágu almennings. Til þess að tryggja að svo verði þarf að svara siðfræðilegum spurningum og tryggja að öll umgjörð og regluverk endurspegli siðferðileg gildi.

Nýjasta tækni og vísindi

Góð heilbrigðisgögn eru gulls ígildi. Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar verður að hvíla á tryggum grunni heilbrigðisgagna, gæðum, skilvirks og réttláts regluverks, trausts og þekkingar. Það þurfa allir að vera á sömu blaðsíðu þegar að kemur að því að taka stór skref í átt að frekari nýtingu heilbrigðisupplýsinga og gagna undir hatti stafrænnar þróunar og vísinda. Þróun sem getur skapað forsendur fyrir öflugra heilbrigðiskerfi sem mætir sívaxandi þörf fyrir flókna og kostnaðarsama heilbrigðisþjónustu.

Á þinginu verður einstaklingsmiðuð heilbrigðisþjónusta í brennidepli. Það er heilbrigðisþjónusta sem byggir á skilningi á því hvað veldur mannlegri fjölbreytni, gögnum sem að henni lúta og hvernig hægt er að nýta þessa auknu þekkingu einstaklingnum til góðs. Sökum þessa er nauðsynlegt að stjórnvöld og heilbrigðiskerfi tryggi leiðir til að ná utan um gögn og gagnagrunna tengdum heilsufarsupplýsingum sem nýta má til bættra ákvarðana, yfirsýnar og spár um framvindu sjúkdóma og lækninga.

Til þess að ná þeim árangri hef ég ákveðið að mynda hóp með helstu hagaðilum og sérfræðingum til að vinna að því að tryggja áframhaldandi framþróun í heilbrigðiskerfinu og efla einstaklingsmiðaða heilbrigðisþjónustu. Framþróun sem byggir á traustum grunni aðgengilegra, öruggra og góðra gagna til að geta nýtt tækniframfarir, vísindaframfarir og gervigreind í þágu fólksins í landinu.

Sækjum saman fram

Framfarir í tækni og vísindum hafa gert okkur kleift að lækna fjölmarga sjúkdóma, halda öðrum í skefjum og fyrirbyggja suma. Áherslur og þarfir breytast með breyttu landslagi tækni, sjúkdóma og aukinni þekkingar. Kröfur til heilbrigðisþjónustu breytast og oftar en ekki eru vísindi og tækni á undan kerfinu og innviðum þess.

Samþætt og samstillt nálgun hins opinbera í samstarfi við helstu sérfræðinga, atvinnulíf, félagasamtök og fólkið í landinu er því nauðsynleg til að undirbúa heilbrigðiskerfið og samfélagið undir markvissa gagnanýtingu og notkun gervigreinar til góðs. Allar stærri ákvarðanir í málaflokknum þurfa að vera vel ígrundaðar og byggja á samtali, samvinnu og sameiginlegum siðfræðilegum gildum þjóðarinnar. Þannig skapast sátt um hvert við stefnum sem þjóð á tækniöld.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Heilbrigðiskerfi í takt við tímann

Deila grein

14/07/2023

Heilbrigðiskerfi í takt við tímann

Árið 1947 var samþykkt á Alþingi að hækka hámarksaldur starfsmanna ríkisins úr 65 árum í 70 ár á þeim forsendum ,,…að flestir opinberir starfsmenn væru færir um að gegna starfinu til sjötugs“. Þó ýmsar breytingar hafi verið gerðar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins frá árinu 1947 þá stendur reglan um 70 ára hámarksaldur starfsmanna ríkisins óbreytt. Á þessum tíma hefur meðalævi Íslendinga lengst um 10 ár. Lífslíkur á Íslandi eru rúmlega 83 ár í dag og með þeim mestu í Evrópu. Samhliða hækkandi lífaldri Íslendinga hefur heilsa eldra fólks batnað til muna og lífsgæði aukist verulega. Ef sömu rök og forsendur giltu nú og árið 1947 þá væri hámarksaldur starfsmanna ríkisins um 80 ár.

Allt frá árinu 1981 hafa endurtekið komið fram tillögur um hækkun starfslokaaldurs opinberra starfsmanna á þeim forsendum að við lifum lengur og við betri heilsu. Þrátt fyrir góðan vilja og samþykktar þingsályktunartillögur hafa áformin ekki raungerst og 70 ára reglan staðið óbreytt. Þar til nú.

70 ára reglan er komin á aldur

Það skýtur skökku við að á sama tíma og mönnun heilbrigðisþjónustu er ein helsta áskorun heilbrigðiskerfisins hefur opinberum heilbrigðisstofnununum verið gert á grundvelli 70 ára reglunnar að segja starfsfólki undantekningarlaust upp þegar það nær 70 ára aldri. Það hefur viðgengist þrátt fyrir gagnkvæman vilja starfsmanns og vinnuveitenda til að halda áfram störfum. Við slíkar aðstæður hafa stjórnendur opinberra heilbrigðisstofnana gripið til þess ráðs að gera tímavinnu- eða verktakasamninga og eru um 2% heilbrigðistarfsfólks á slíkum samningum í dag vegna aldurs.

Tímavinnu- og verktakasamningar eru óhagstæðir fyrir alla aðila og veita starfsmanninum lakari réttindi veikinda, lífeyris- og orlofs ásamt því að fela í sér talsverða launaskerðingu frá fyrri ráðningarsamningi. Slíkt ójafnræði er ekki til þess fallið að styðja við mönnun í heilbrigðisþjónustu eða gera störf innan opinbera heilbrigðiskerfisins aðlaðandi fyrir þá sem hafa náð 70 ára aldri.

Sveigjanleg starfslok

Í tengslum við forgangsverkefni heilbrigðisráðuneytisins varðandi umbætur á starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks og í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar tókum við af skarið á nýafstöðnu þingi með framlagningu frumvarps um hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsfólks úr 70 árum í 75 ár. Frumvarpið var samþykkt undir þinglok og tekur gildi þann 1. janúar 2024. Hér er um margt merkilegt og mikilvægt mál sem snýr að sveigjanlegum starfslokum og umbótum á réttindum og kjörum heilbrigðisstarfsfólks sem bæði vill og getur unnið lengur en til sjötugs.

Í hinu nýsamþykkta frumvarpi um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn er að finna nýtt ákvæði sem veitir heilbrigðisstarfsfólki heimild til undanþágu frá 70 ára reglunni. Markmiðið er fyrst og fremst að bæta réttindi og kjör þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem kjósa að vinna eftir sjötugt ásamt því að styðja við mönnun í heilbrigðisþjónustu.

Í takt við tímann

Ég bind vonir við að þær umbætur sem lagabreytingarnar fela í sér á réttindum og kjörum heilbrigðisstarfsfólks eftir sjötugt séu til þess fallnar að gera störf í heilbrigðisþjónustu eftir sjötugt meira aðlaðandi og eftirsóknarverðari. Ákvæðið markar tímamót og er vonandi fyrsta skrefið í átt að sveigjanlegum starfslokum opinberra starfsmanna og auknu jafnræði.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. júlí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Eitt dauðs­fall er of mikið

Deila grein

30/05/2023

Eitt dauðs­fall er of mikið

Í gær voru áhrifaríkir og fallegir tónleikar haldnir í Hörpu til að vekja athygli á ópíóðafíkn og styrkja skaðaminnkandi úrræði Rauða krossins. Undanfarið hefur mikil umræða skapast í samfélaginu um ópíóðafíkn og þann skaða sem af henni getur hlotist. Hér á landi eru vísbendingar um að ópíóðar séu í aukinni umferð í samfélaginu og að notkun þeirra sé að aukast þrátt fyrir það að dregið hafi úr lyfjaávísunum á ópíóða undanfarin ár. Það er mikilvægt að fylgjast vel með þróuninni, bregðast hratt við og tryggja að viðeigandi úrræði séu til staðar og aðgengi að þeim sé tryggt.

Ráðist í aðgerðir

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögur undirritaðs um víðtækar aðgerðir og fjölbreytt úrræði til að sporna við vímuefnavanda með áherslu á skaðlega notkun ópíóíða og alvarlegar afleiðingar ópíóíðafíknar. Tillögur þessa efnis voru nýlegar kynntar fyrir ríkisstjórn. Þær voru í kjölfarið ræddar í ráðherranefnd um samræmingu mála og ákveðið að útvíkka þær enn frekar í samráði við forsætisráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og auka áður áætlað fjármagn í aðgerðir úr 170 milljónum króna í 225 milljónir króna. Auk aðgerða sem miða að forvörnum, meðferð, endurhæfingu og skaðaminnkun verður gagnasöfnun tengd vímuefnavanda samræmd og efld. Áhersla verður jafnframt lögð á stefnumótun, aukna upplýsingagjöf og fræðslu til almennings.

Aukið fjármagn í rannsóknir, gagnasöfnun og upplýsingamiðlun

Verkefni og aðgerðir sem ráðist verður í á þessu ári eru fjölmörg. Fjármagn verður eyrnamerkt styrkjum til félagasamtaka í verkefni til að vinna gegn fíknisjúkdómum, veita lágþröskuldaþjónustu, stuðning, fræðslu og styðja við fjölskyldur og aðstandendur einstaklinga með fíknisjúkdóma. Aðgengi að viðhaldsmeðferð verður aukið og aðgengi að neyðarlyfi við ofskömmtun ópíóíða bætt enn frekar um allt land. Viðbragðsþjónusta verður efld, afeitrunarplássum fjölgað og samstarf stofnana fyrir fólk í vanda með áherslu—á ópíóíðamisnotkun—verður aukið. Einnig verður ráðist í tilraunaverkefni að norskri fyrirmynd um þverfaglega endurhæfingu við ópíóíðafíkn.

Ráðist verður í vinnu þvert á viðeigandi ráðuneyti og stofnanir við að samræma öflun og birtingu gagna sem gefa raunsanna mynd af umfangi vandans og þróun þessara mála. Með því móti fæst betri yfirsýn, forgangsröðun verður markvissari, öll umræða verður gegnsærri og ákvarðanataka verður markvissari. Setja þarf upp rafrænt skráningarkerfi og gagnagrunn í þessu skyni. Enn fremur verður hlutverk Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum aukið og rannsóknargeta efld með áherslu á mælingar, rannsóknir og tölfræði sem tengjast fíknisjúkdómum. Að lokum er vert að nefna að rekstur neyslurýmis hefur nú þegar verið fjármagnaður af heilbrigðisráðuneytinu og beðið er eftir að Reykjavíkurborg finni neyslurými varanlegt húsnæði.

Stefnumótun um fíknisjúkdóma

Alþingi samþykkti á liðnu ári ályktun um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum er nú til umfjöllunar í þinginu. Þar eru lagðar til fjölmargar aðgerðir sem snúa almennt að geðþjónustu þvert á velferðarkerfið og munu nýtast vel við að þróa og efla þjónustu m.a. vegna fíknisjúkdóma. Til lengri tíma litið er mikilvægt að móta heildstæða stefnu um fíknisjúkdóma sem tekur til forvarna, heilsueflingar, skaðaminnkunar, greiningar, meðferðar og endurhæfingar með áherslu á samvinnu og samhæfingu. Því hefur undirritaður ákveðið að hefja þá vinnu.

Skaðaminnkun

Á liðnum árum hefur hugmyndafræði skaðaminnkunar rutt sér til rúms víða um heim. Skaðaminnkun miðar að því að draga úr skaðlegum afleiðingum hegðunar eða lífsstíls, óháð því hvort hún sé æskileg, lögleg eða ólögleg. Skaðaminnkandi úrræði í fíknisjúkdómum eru meðal annars lyfjameðferð við ópíóðum, neyslurými og afglæpavæðing. Hér á landi hafa nú þegar verið stigin mikilvæg skref varðandi þróun og innleiðingu skaðaminnkandi úrræða en það er tímabært að taka enn stærri skref og vinna að stefnu og aðgerðaáætlun sem styður við það.

Skýr stefna er nauðsynleg

Í viðkvæmum málaflokkum skiptir miklu máli að skýr stefna liggi fyrir til að skapa sátt um aðgerðir. Sérstaklega þegar þær þarfnast aðkomu margra ólíkra hagsmunaaðila. Undirritaður hefur því ákveðið að hefja vinnu við að móta stefnu í skaðaminnkun út frá þeirri þekkingu og reynslu sem hefur myndast og þróa aðgerðaáætlun byggða á henni. Sú vinna mun einnig styrkja og tengjast heildarstefnumótun fyrir fíknisjúkdóma. Starfshópurinn sem verður skipaður er hugsaður sem fámennur kjarnahópur sem verður falið að hafa vítt samráð og eiga virkt samtal við helstu hagaðila til að stuðla að samþættingu, samvinnu og sátt.

Víðtækt samstarf

Vímuefnavandinn er fjölþættur og ekki aðeins einskorðaður við ópíóða eða alvarlegustu birtingarmynd vandans, ótímabær dauðsföll. Því þarf að nálgast verkefnið heildstætt. Hér á landi eru dauðsföll af völdum eitrana ávana- og fíkniefna í flestum tilfellum vegna blandaðrar neyslu og í gegnum tíðina hafa ófá dauðsföll orðið af óbeinum völdum ávana- og fíkniefna sem erfiðara er að henda reiður á. Þegar kemur að ópíóðum vitum við að þeir eru einna hættulegastir vímuefna og því er full ástæða til að rýna í stöðuna og kanna hvar þarf að þétta öryggisnetið. Eitt dauðsfall af völdum vímuefna er einu dauðsfalli of mikið.

Þau verkefni sem hér hefur verið fjallað um kalla á víðtækt samstarf og samráð milli áðurnefndra ráðuneyta, stofnana, stjórnsýslustiga og félagasamtaka til að ná þeim árangri sem að er stefnt. Síðast en ekki síst skiptir aðkoma einstaklinga í vanda og aðstandenda þeirra miklu máli og því verður aukin áhersla á notendasamráð og notendamiðaða þjónustu, hvort sem fjallað er um þau úrræði sem þegar eru fyrir hendi, þróun nýrra úrræða eða stefnumótun.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Lið fyrir lið

Deila grein

31/03/2023

Lið fyrir lið

Í gær var skrifað undir samninga milli Sjúkratrygginga Íslands, Klíníkarinnar í Ármúla og Handlæknastöðvarinnar í Glæsibæ um framkvæmd 700 liðskiptaaðgerða á þessu ári.

Á Íslandi eru tæplega 2000 manns á biðlista eftir liðskiptiaðgerð. Allt of margir á þeim lista hafa beðið of lengi eftir aðgerð þannig að sjúkdómsástandið er farið að skerða lífsgæði og draga verulega úr virkni. Góðu fréttirnar eru þær að við eigum fjölmarga hæfileikaríka skurðlækna hér á landi, öflugt heilbrigðisstarfsfólk og almennt góða aðstöðu til að framkvæma þessar aðgerðir. Við höfum því fulla burði til þess að stytta biðlista og halda í við hratt vaxandi þörf á liðskiptaaðgerðum til framtíðar. Samstillt átak og samvinna kerfisins í heild er forsenda þess að það gangi eftir.

Vaxandi þörf fyrir liðskiptaaðgerðir

Undanfarna áratugi hefur orðið mikil aukning í liðskiptaaðgerðum á heimsvísu og jókst uppsöfnuð þörf fyrir þessum aðgerðum einnig í heimsfaraldrinum. Algengast er að skipt sé um hné og næst algengast er að skipt sé um mjaðmir. Ein helsta undirliggjandi orsök þess að skipta þarf um lið er slitgigt en hún eykst með árunum. Við lifum lengur með slitgigtinni en við gerðum áður og því er þörf fyrir liðskiptaaðgerðir að aukast samhliða breyttri aldurssamsetningu. Aukin þróun og bætt tækni í bæði aðgerðum og gerviliðunum sjálfum hefur aukið möguleikann á liðskiptaaðgerðum fyrr á lífsleiðinni. Sökum þessa hefur aðgerðum einnig fjölgað í yngri aldurshópum. Það er alveg ljóst að þörfin fyrir liðskiptaaðgerðir mun halda áfram að aukast næstu árin og við þeirri þróun þarf að bregðast.

Jafnt aðgengi óháð efnahag

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé réttlætismál. Núverandi fyrirkomulag liðskiptaaðgerða gengur þvert á það markmið. Það er skýrt að óbreytt staða er ekki valmöguleiki. Þegar ekki eru til staðar samningar um þjónustukaup ríkis á einkarekinni heilbrigðisþjónustu sem þörf er á, höfum við ekki tök á að skipuleggja heilbrigðisþjónustu landsins heildstætt.

Ef stytta á bið eftir liðskiptaaðgerðum og á sama tíma mæta vaxandi þörf fyrir slíkum aðgerðum þarf markvisst að halda áfram að fjölga aðgerðum allra þjónustuaðila næstu árin. Til þess að ná því markmiði þarf að huga að mörgu í skipulagi þjónustunnar. Sérstaklega varðandi legurými og mönnun. Við verðum að nýta allt kerfið og virkja alla þjónustuaðila til að taka höndum saman og leysa þetta viðamikla verkefni.

Ekki sækja vatnið yfir lækinn

Í heilbrigðisþjónustu þarf sífellt að endurmeta skipulag og forgangsröðun til að bregðast við síbreytilegum þörfum þjóðfélagsins. Þegar kemur að þjónustukaupum hins opinbera þá er mikilvægt að hafa í huga heilsu og hag þjóðarinnar til lengri tíma. Hún verður ekki tryggð nema með jöfnu aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Allir sjúkratryggðir einstaklingar eiga að komast í liðskiptiaðgerð á ásættanlegum tíma án tillits til efnahags.

Það er vert að hafa í huga að sjúkratryggðir einstaklingar hafa heimildir til að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins á grundvelli EES- samningsins ef ekki er hægt að veita þá þjónustu innan ákveðinna tímamarka hér á landi. Það þjónar ekki hagsmunum sjúklingsins og er ekki skynsamleg nýting á almannafé að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu erlendis sem hægt er að bjóða upp á hér á landi með hagkvæmari hætti.

Samvinna

Við búum svo vel að eiga hæft og vel menntað heilbrigðisstarfsfólk sem hefur ávallt að leiðarljósi að forgangsraða mannafla, fjármunum og aðstöðu í þágu einstaklingsins sem þarf á hjálp að halda. Hér er líka ríkisstjórn sem stendur með heilbrigðiskerfinu og forgangsraðar fjármunum í þágu þess. Við erum lítið land og þurfum á því að halda að geta unnið saman í þágu fólksins í landinu. Ef allir leggja sitt af mörkum, stjórnvöld og þjónustuaðilar óháð rekstrarformi, er mögulegt að eyða biðlistum í liðskiptaaðgerðir og auka lífsgæði fjölmargra Íslendinga.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. mars 2023.