Categories
Fréttir

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Deila grein

26/02/2024

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar verða á ferð og flugi um land allt næstu daga. Þingflokknum er mikilvægt að heyra raddir kjósenda með reglubundnum hætti. Áhersla verður á heimsóknir í bland við opna fundi.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir alla opna fundi, en einnig má nálgast viðburðina á Facebook: https://fb.me/e/3vOUaC0mJ

Mánudagur 26. febrúar:
Reykjavík – Sykursalnum Grósku, kl. 20.00.
Suðurnesjabær – Samkomuhúsinu Sandgerði, kl. 20.00.

Þriðjudagur 27. febrúar:
Mosfellsbær – Skátaheimili Mosverja, kl. 20.00.
Bláskógabyggð – Efsti Dalur, kl. 20.00.
Borgarbyggð – Landnámssetrinu, kl. 20.00.

Miðvikudagur 28. febrúar:
Kópavogur – Siglingafélaginu Ými, Naustavör 14, kl. 20.00.
Akranes – Dalbraut 4, kl. 20.00.
Vopnafjörður – Safnaðarheimilinu, kl. 18.00.

Fimmtudaginn 29. febrúar:
Reyðarfjörður – Þórðarbúð, Austurvegi 39, kl. 17.30.
Sauðárkrókur – Kaffi Krók, kl. 20:15.
Egilsstaðir – Tehúsið, kl 20.00.
Árborg – Hótel Selfoss, kl 20.00.

Föstudagur 1. mars:
Húsavík – Félagsheimili eldri borgara, Hlyn, kl. 16.00.

Laugardagur 2. mars:
Hafnarfjörður – Kiwanissalnum, Helluhrauni 22, kl. 11.00.

Á næstu vikum munu þingmenn og ráðherrar heimsækja Höfn, Vestmannaeyjar, Vestfirði, en nánari upplýsingar verða birtar síðar.

ATH. að dagskráin kann að taka breytingum með skömmum fyrirvara.

Við erum Framsókn!

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi.

Í meira en öld höfum við unnið að framfaramálum fyrir Ísland með hugsjónir samvinnunnar að leiðarljósi.

Við í Framsókn trúum því að yfirvegað samtal skili samfélaginu meiri árangri en upphrópanir.
Við setjum manngildi ofar auðgildi.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­úr­skarandi Landspítali

Deila grein

16/02/2024

Fram­úr­skarandi Landspítali

Landspítalinn er þungamiðja íslenskrar heilbrigðisþjónustu og gegnir fjölbreyttu og veigamiklu hlutverki innan kerfisins í heild sem háskólasjúkrahús landsins. Starfsemi Landspítala er í stöðugri þróun og vexti og aldrei hafa fleiri einstaklingar starfað á spítalanum og árið 2023.

Undanfarin ár hafa verið viðburðarík í starfsemi Landspítala sem gengið hefur í gegnum ákveðið umbreytingarskeið í þeim tilgangi að styrkja stöðu og hlutverk spítalans fyrir heilbrigðiskerfið í heild, í takt við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Breyttar áherslur og skipulag

Á árinu 2022 var stjórnskipulag spítalans styrkt í þeim tilgangi að auka stuðning við stjórnendur. Skipuð var stjórn sem fékk það hlutverk að marka Landspítala langtímastefnu í samræmi við stefnumörkun og hlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum ásamt því að styðja við faglegan rekstur spítalans.

Þá réðust stjórnendur í umfangsmikla greiningarvinnu á skipulagi spítalans í samvinnu og samráði við stjórn og fagráð spítalans. Sú vinna dró fram mikilvægi þess að fara í ákveðnar breytingar á innra skipulagi til að ná fram mikilvægum umbótum á þjónustu og meiri skilvirkni í þjónustu og rekstri.

Breytt skipulag leggur áherslu á að styrkja klíníska starfsemi spítalans með því að færa ákvörðunarvald og ábyrgð nær framlínu starfsemi stofnunarinnar og einfalda skipulag hennar. Breytingarnar miða einnig að því að efla hlutverk Landspítala sem háskólasjúkrahús og auka veg vísindastarfs innan hans. Hið nýja skipurit tók gildi 1. janúar 2023 og ný framkvæmdastjórn tók til starfa.

Þjónustutengd fjármögnun skilar árangri

Samhliða innleiðingu nýs skipulags hefur markvisst verið unnið að ýmsum umbótum í starfsemi og rekstri spítalans. Mikilvægur liður í þeirri vinnu snýr að innleiðingu á þjónustutengdri fjármögnun. Á árinu 2023 voru stigin afgerandi skref við innleiðingu þess og er Landspítali nú fjármagnaður í auknu mæli með þjónustutengdri fjármögnun í gegnum samning við Sjúkratryggingar Íslands. Slík fjármögnun er afkastatengd og hvetur þar af leiðandi til aukinnar framleiðni. Fjármögnunin endurspeglar raunverulegt umfang þjónustunnar og raunkostnað við veitingu hennar.

Til viðbótar við umbætur í skipulagi og nýtt fjármögnunarkerfi þá hefur Landspítali unnið að fjölmörgum umbótaverkefnum til að bæta þjónustu við sjúklinga. Í því samhengi má nefna nýja bráðadagdeild lyflækninga ásamt fjarþjónustu lyflækninga til stuðnings og ráðgjafar við aðrar heilbrigðisstofnanir og þjónustuveitendur. Lágþröskuldaþjónusta göngudeildar smitsjúkdóma var sett á fót en hún gefur vímuefnanotendum greiðara aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Þá var komið á fót sex stöðugildum félagsráðgjafa og sálfræðinga til að bæta þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á bráðamóttöku, með sérstakri viðbótarfjárveitingu.

Afköst hafa aukist og rekstur er í jafnvægi

Í ljósi þeirra umbóta sem átt hefur sér stað á Landspítala þá er afar ánægjulegt að rýna í starfsemistölur spítalans á árinu 2023 og sjá að þessar breytingar og aðgerðir eru að bera raunverulegan árangur. Afköst spítalans hafa aukist umtalsvert á sama tíma og spítalinn skilaði hagstæðri rekstrarafkomu sem nemur, samkvæmt bráðabirgðauppgjöri, rúmum 600 milljónum króna.

Aukning á skurðaðgerðum sem framkvæmdar voru á spítalanum frá fyrra ári nam rúmlega 8%. Enn fremur fjölgaði legum um 4,3% og heimsóknum á dag- og göngudeildir um 7,7%. Hlutfall dagdeildaraðgerða hefur nær tvöfaldast milli ára sem er afar jákvæð þróun. Þá hafa stafræn samskipti aukist til muna, eða um 7%, en við vitum að stafvæðing í heilbrigðisþjónustu er einn lykilþátturinn í því að okkur takist að mæta lýðfræðilegum breytingum og veita þar með vaxandi hópi sjúklinga góða og árangursríka þjónustu í framtíðinni.

Biðtími styttist og færri bíða

Með auknum afköstum og skilvirkni hefur bið eftir ýmissi þjónustu styst umtalsvert. Um nýliðin áramót hafðist það markmið að ekkert barn beið eftir þjónustu barna og unglingadeildar Landspítala (BUGL) lengur en 90 daga, í samræmi við viðmið embættis landlæknis. Minnismóttaka Landspítala hefur náð með markvissum hætti að stytta bið eftir þjónustu úr 9 mánuðum í september 2022 niður í 3 mánuði á árinu 2023 og þá hefur bið eftir ýmsum valkvæðum skurðaðgerðum s.s. liðskiptaaðgerðum styst töluvert.

Árangur er ekki aðeins mældur í afköstum eða nýtingu heldur er mikilvægt að horfa einnig til gæða þjónustunnar og árangurs af veittri meðferð. Í því samhengi er árangur spítalans og íslenska heilbrigðiskerfisins eftirtektarverður. Sá árangur kemur skýrt fram þegar horft er til árangurs af meðferð bráðatilvika sem og algengra sjúkdóma, í alþjóðlegum samanburði.

Upplifun notenda er einnig mikilvægur mælikvarði. Samkvæmt þjónustukönnun Landspítala sem er framkvæmd árlega má sjá jákvæða þróun á upplifun sjúklinga af þjónustu. Þegar litið er til reynslu sjúklinga í heild af síðustu innlögn fær spítalinn að meðaltali einkunnina 8,34 af 10 og hækkar annað árið í röð.

Spítali á heimsmælikvarða

Þrátt fyrir fámenni íslensku þjóðarinnar þá býr gríðarleg sérþekking og verðmætur mannauður innan spítalans og íslenska heilbrigðiskerfisins sem leggur sig fram um það, á hverjum degi, að veita bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni. Okkur hefur tekist að veita greiðan aðgang að mjög sérhæfðri heilbrigðisþjónustu og reka hér háskólasjúkrahús í fremstu röð.

Það verður því ekki annað sagt en að Landspítalinn kemur bæði sterkari og öflugri undan árinu 2023. Stjórnendur og starfsfólk Landspítala eiga heiður skilið fyrir þá umfangsmiklu umbótavinnu sem átt hefur sér stað á spítalanum og það á öllum að vera það ljóst að árangur Landspítala er árangur starfsfólksins sem þar starfar.

Við getum öll verið stolt af því starfi sem fram fer á spítalanum okkar.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Svar við á­kalli heil­brigðis­starfs­fólks

Deila grein

28/12/2023

Svar við á­kalli heil­brigðis­starfs­fólks

Það voru ánægjuleg og mikilvæg tímamót fyrir íslenska heilbrigðiskerfið þegar frumvarp um hlutlæga refsiábyrgð var samþykkt samhljóða á Alþingi rétt fyrr jól. Frumvarpið á sér langan aðdraganda og byggir á tillögum sem komu fram í skýrslu starfshóps um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu ásamt tillögum til úrbóta frá árinu 2015. Á vormánuðum 2022 fól ég starfshóp að rýna tillögur skýrslunnar frá 2015 og skoða áhrif þess ef refsiábyrgð yrði breytt í samræmi við tillögur skýrslunnar. Starfshópurinn vann á breiðum samráðsgrunni og skilaði af sér drögum að frumvarpi í febrúar á þessu ári og var það lagt fyrir Alþingi.

Með nýjum lögum erum við að innleiða hlutlæga refsiábyrgð heilbrigðisstofnana í þeim tilgangi að auka öryggi sjúklinga, að efla öryggismenningu innan heilbrigðiskerfisins, stuðla að umbótum og fækka alvarlegum atvikum. Einnig er tilgangurinn að bæta starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks með því að skýra og auka réttaröryggi framlínufólks heilbrigðiskerfisins.

Að axla ábyrgð

Starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks einkennist oft af miklum hraða og óvæntum aðstæðum. Öll ákvarðanataka og hvert handtak krefst því ekki aðeins reynslu, þjálfunar og þekkingar heldur líka trausts. Það traust á og þarf að vera gagnkvæmt. Rannsóknir sýna að orsakir alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu eru í langflestum tilfellum margir samverkandi og kerfislægir þættir í starfsemi heilbrigðisstofnunar, en sjaldan sök einstaklinga sem vinna verkin.

Með breyttri nálgun laganna verður nú hægt að koma refsiábyrgð á hendur heilbrigðisstofnunar eða rekstraraðila, fremur en einstaka heilbrigðisstarfsmanni, þegar margir samverkandi þættir eða röð atvika eru orsök alvarlegs atviks. Það kallast hlutlæg og uppsöfnuð refsiábyrgð og með henni axlar heilbrigðiskerfið ábyrgð. Breytingarnar eru svar við ákalli heilbrigðisstarfsfólks og sjúklinga um umbætur við meðferð og rannsókn alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu.

Upplýsa til umbóta

Með lagabreytingunum verður áfram unnið að því að efla rannsóknir á orsökum alvarlegra atvika, gera þær ítarlegri, bæta verkferla og tryggja betur aðkomu sjúklinga og aðstandanda. Sú vinna mun fara af stað á næstunni.

Að rannsaka orsök og upplýsa um ástæður alvarlegra atvika sem upp geta komið við veitingu heilbrigðisþjónustu er mikilvægt til umbóta og sömuleiðis til að fyrirbyggja að slíkt atvik endurtaki sig. Brýnt er að rannsókn kalli fram tillögur til úrbóta fremur en að ákvarða um sök eða ábyrgð.

Öryggismenningin er heilbrigðiskerfinu okkar mikilvæg, og byggir á gagnkvæmu trausti. Sterk öryggismenning eykur gæði og öryggi þjónustunnar ásamt því að stuðla að framþróun og umbótum í heilbrigðiskerfinu.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Gögn eru gulls í­gildi

Deila grein

09/11/2023

Gögn eru gulls í­gildi

Hið árlega heilbrigðisþing verður haldið þriðjudaginn 14. nóvember í Hörpu. Þingið verður að þessu sinni með norrænni skírskotun í tilefni af formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og munu margir innlendir og erlendir fyrirlesarar stíga á stokk í Norðurljósasalnum. Gagnadrifin framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins verður í brennidepli og leitað verður svara við þeirri spurningu hvernig gögn, gagnasöfn og gervigreind geti styrkt íslenskt heilbrigðiskerfi.

Norræna nálgunin á velsæld

Formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni er í forgrunni heilbrigðisþingsins og aðstæður, lausnir, áskoranir og tækifæri eru sett fram í samhengi við það sem best gerist og gengur á öðrum Norðurlöndum. Ráðherranefndin vinnur eftir stefnuáherslum til ársins 2030 sem miða að því að Norðurlöndin verði best samþætt og sjálfbærustu samfélög veraldar í lok áratugarins.

Það er sameiginleg sýn innan ráðherranefndarinnar að gagnadrifin heilbrigðismál og hagnýting framsækinna gervigreindarlausna séu lykilatriði til að tryggja samkeppnishæfni norrænna heilbrigðiskerfa og stuðla að sjálfbærni þeirra. Sú nálgun byggir á þeirri forsendu að heilbrigðismál séu stærsta velferðarmálið og jafnframt ein stærsta áskorun allra þjóða. Heilbrigðismál eru efst á baugi í norrænum stjórnmálum og velsæld norrænu ríkjanna hvílir að mörgu leiti á heilbrigðismálum og hagkerfi sem styður við velsæld.

Viðamikil dagskrá

Dagskrá heilbrigðisþings endurspeglar umfang málefnisins og er fjölbreytt og áhugaverð. Hún er fyrir alla að fylgjast með, vekja til umhugsunar og hvetja til umræðu. Sjónum er beint að því hversu mikilvæg umgjörð og innviðauppbygging innan heilbrigðiskerfisins er þegar kemur að viðkvæmum upplýsingum, geymslu þeirra og notkun. Meginmarkmið með aukinni stafvæðingu og bættri nýtingu á gögnum og gagnagrunnum er að efla heilbrigðiskerfið með tilliti til ákvörðunartöku, samvinnu heilbrigðisstétta, upplýsingagjöf, vísinda og greininga í þágu notenda.

Ofarlega á baugi verða siðferðileg sjónarmið við notkun gagna og gervigreindar í heilbrigðiskerfinu. Notkun gervigreindar innan heilbrigðisgeirans er ekki aðeins mikið tækifæri heldur vekur hún upp margar áleitnar spurningar um tækniframfarir og siðferði. Markmið er að nýta alla framþróun líkt og gervigreindina til góðs og í þágu almennings. Til þess að tryggja að svo verði þarf að svara siðfræðilegum spurningum og tryggja að öll umgjörð og regluverk endurspegli siðferðileg gildi.

Nýjasta tækni og vísindi

Góð heilbrigðisgögn eru gulls ígildi. Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar verður að hvíla á tryggum grunni heilbrigðisgagna, gæðum, skilvirks og réttláts regluverks, trausts og þekkingar. Það þurfa allir að vera á sömu blaðsíðu þegar að kemur að því að taka stór skref í átt að frekari nýtingu heilbrigðisupplýsinga og gagna undir hatti stafrænnar þróunar og vísinda. Þróun sem getur skapað forsendur fyrir öflugra heilbrigðiskerfi sem mætir sívaxandi þörf fyrir flókna og kostnaðarsama heilbrigðisþjónustu.

Á þinginu verður einstaklingsmiðuð heilbrigðisþjónusta í brennidepli. Það er heilbrigðisþjónusta sem byggir á skilningi á því hvað veldur mannlegri fjölbreytni, gögnum sem að henni lúta og hvernig hægt er að nýta þessa auknu þekkingu einstaklingnum til góðs. Sökum þessa er nauðsynlegt að stjórnvöld og heilbrigðiskerfi tryggi leiðir til að ná utan um gögn og gagnagrunna tengdum heilsufarsupplýsingum sem nýta má til bættra ákvarðana, yfirsýnar og spár um framvindu sjúkdóma og lækninga.

Til þess að ná þeim árangri hef ég ákveðið að mynda hóp með helstu hagaðilum og sérfræðingum til að vinna að því að tryggja áframhaldandi framþróun í heilbrigðiskerfinu og efla einstaklingsmiðaða heilbrigðisþjónustu. Framþróun sem byggir á traustum grunni aðgengilegra, öruggra og góðra gagna til að geta nýtt tækniframfarir, vísindaframfarir og gervigreind í þágu fólksins í landinu.

Sækjum saman fram

Framfarir í tækni og vísindum hafa gert okkur kleift að lækna fjölmarga sjúkdóma, halda öðrum í skefjum og fyrirbyggja suma. Áherslur og þarfir breytast með breyttu landslagi tækni, sjúkdóma og aukinni þekkingar. Kröfur til heilbrigðisþjónustu breytast og oftar en ekki eru vísindi og tækni á undan kerfinu og innviðum þess.

Samþætt og samstillt nálgun hins opinbera í samstarfi við helstu sérfræðinga, atvinnulíf, félagasamtök og fólkið í landinu er því nauðsynleg til að undirbúa heilbrigðiskerfið og samfélagið undir markvissa gagnanýtingu og notkun gervigreinar til góðs. Allar stærri ákvarðanir í málaflokknum þurfa að vera vel ígrundaðar og byggja á samtali, samvinnu og sameiginlegum siðfræðilegum gildum þjóðarinnar. Þannig skapast sátt um hvert við stefnum sem þjóð á tækniöld.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Heilbrigðiskerfi í takt við tímann

Deila grein

14/07/2023

Heilbrigðiskerfi í takt við tímann

Árið 1947 var samþykkt á Alþingi að hækka hámarksaldur starfsmanna ríkisins úr 65 árum í 70 ár á þeim forsendum ,,…að flestir opinberir starfsmenn væru færir um að gegna starfinu til sjötugs“. Þó ýmsar breytingar hafi verið gerðar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins frá árinu 1947 þá stendur reglan um 70 ára hámarksaldur starfsmanna ríkisins óbreytt. Á þessum tíma hefur meðalævi Íslendinga lengst um 10 ár. Lífslíkur á Íslandi eru rúmlega 83 ár í dag og með þeim mestu í Evrópu. Samhliða hækkandi lífaldri Íslendinga hefur heilsa eldra fólks batnað til muna og lífsgæði aukist verulega. Ef sömu rök og forsendur giltu nú og árið 1947 þá væri hámarksaldur starfsmanna ríkisins um 80 ár.

Allt frá árinu 1981 hafa endurtekið komið fram tillögur um hækkun starfslokaaldurs opinberra starfsmanna á þeim forsendum að við lifum lengur og við betri heilsu. Þrátt fyrir góðan vilja og samþykktar þingsályktunartillögur hafa áformin ekki raungerst og 70 ára reglan staðið óbreytt. Þar til nú.

70 ára reglan er komin á aldur

Það skýtur skökku við að á sama tíma og mönnun heilbrigðisþjónustu er ein helsta áskorun heilbrigðiskerfisins hefur opinberum heilbrigðisstofnununum verið gert á grundvelli 70 ára reglunnar að segja starfsfólki undantekningarlaust upp þegar það nær 70 ára aldri. Það hefur viðgengist þrátt fyrir gagnkvæman vilja starfsmanns og vinnuveitenda til að halda áfram störfum. Við slíkar aðstæður hafa stjórnendur opinberra heilbrigðisstofnana gripið til þess ráðs að gera tímavinnu- eða verktakasamninga og eru um 2% heilbrigðistarfsfólks á slíkum samningum í dag vegna aldurs.

Tímavinnu- og verktakasamningar eru óhagstæðir fyrir alla aðila og veita starfsmanninum lakari réttindi veikinda, lífeyris- og orlofs ásamt því að fela í sér talsverða launaskerðingu frá fyrri ráðningarsamningi. Slíkt ójafnræði er ekki til þess fallið að styðja við mönnun í heilbrigðisþjónustu eða gera störf innan opinbera heilbrigðiskerfisins aðlaðandi fyrir þá sem hafa náð 70 ára aldri.

Sveigjanleg starfslok

Í tengslum við forgangsverkefni heilbrigðisráðuneytisins varðandi umbætur á starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks og í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar tókum við af skarið á nýafstöðnu þingi með framlagningu frumvarps um hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsfólks úr 70 árum í 75 ár. Frumvarpið var samþykkt undir þinglok og tekur gildi þann 1. janúar 2024. Hér er um margt merkilegt og mikilvægt mál sem snýr að sveigjanlegum starfslokum og umbótum á réttindum og kjörum heilbrigðisstarfsfólks sem bæði vill og getur unnið lengur en til sjötugs.

Í hinu nýsamþykkta frumvarpi um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn er að finna nýtt ákvæði sem veitir heilbrigðisstarfsfólki heimild til undanþágu frá 70 ára reglunni. Markmiðið er fyrst og fremst að bæta réttindi og kjör þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem kjósa að vinna eftir sjötugt ásamt því að styðja við mönnun í heilbrigðisþjónustu.

Í takt við tímann

Ég bind vonir við að þær umbætur sem lagabreytingarnar fela í sér á réttindum og kjörum heilbrigðisstarfsfólks eftir sjötugt séu til þess fallnar að gera störf í heilbrigðisþjónustu eftir sjötugt meira aðlaðandi og eftirsóknarverðari. Ákvæðið markar tímamót og er vonandi fyrsta skrefið í átt að sveigjanlegum starfslokum opinberra starfsmanna og auknu jafnræði.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. júlí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Eitt dauðs­fall er of mikið

Deila grein

30/05/2023

Eitt dauðs­fall er of mikið

Í gær voru áhrifaríkir og fallegir tónleikar haldnir í Hörpu til að vekja athygli á ópíóðafíkn og styrkja skaðaminnkandi úrræði Rauða krossins. Undanfarið hefur mikil umræða skapast í samfélaginu um ópíóðafíkn og þann skaða sem af henni getur hlotist. Hér á landi eru vísbendingar um að ópíóðar séu í aukinni umferð í samfélaginu og að notkun þeirra sé að aukast þrátt fyrir það að dregið hafi úr lyfjaávísunum á ópíóða undanfarin ár. Það er mikilvægt að fylgjast vel með þróuninni, bregðast hratt við og tryggja að viðeigandi úrræði séu til staðar og aðgengi að þeim sé tryggt.

Ráðist í aðgerðir

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögur undirritaðs um víðtækar aðgerðir og fjölbreytt úrræði til að sporna við vímuefnavanda með áherslu á skaðlega notkun ópíóíða og alvarlegar afleiðingar ópíóíðafíknar. Tillögur þessa efnis voru nýlegar kynntar fyrir ríkisstjórn. Þær voru í kjölfarið ræddar í ráðherranefnd um samræmingu mála og ákveðið að útvíkka þær enn frekar í samráði við forsætisráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og auka áður áætlað fjármagn í aðgerðir úr 170 milljónum króna í 225 milljónir króna. Auk aðgerða sem miða að forvörnum, meðferð, endurhæfingu og skaðaminnkun verður gagnasöfnun tengd vímuefnavanda samræmd og efld. Áhersla verður jafnframt lögð á stefnumótun, aukna upplýsingagjöf og fræðslu til almennings.

Aukið fjármagn í rannsóknir, gagnasöfnun og upplýsingamiðlun

Verkefni og aðgerðir sem ráðist verður í á þessu ári eru fjölmörg. Fjármagn verður eyrnamerkt styrkjum til félagasamtaka í verkefni til að vinna gegn fíknisjúkdómum, veita lágþröskuldaþjónustu, stuðning, fræðslu og styðja við fjölskyldur og aðstandendur einstaklinga með fíknisjúkdóma. Aðgengi að viðhaldsmeðferð verður aukið og aðgengi að neyðarlyfi við ofskömmtun ópíóíða bætt enn frekar um allt land. Viðbragðsþjónusta verður efld, afeitrunarplássum fjölgað og samstarf stofnana fyrir fólk í vanda með áherslu—á ópíóíðamisnotkun—verður aukið. Einnig verður ráðist í tilraunaverkefni að norskri fyrirmynd um þverfaglega endurhæfingu við ópíóíðafíkn.

Ráðist verður í vinnu þvert á viðeigandi ráðuneyti og stofnanir við að samræma öflun og birtingu gagna sem gefa raunsanna mynd af umfangi vandans og þróun þessara mála. Með því móti fæst betri yfirsýn, forgangsröðun verður markvissari, öll umræða verður gegnsærri og ákvarðanataka verður markvissari. Setja þarf upp rafrænt skráningarkerfi og gagnagrunn í þessu skyni. Enn fremur verður hlutverk Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum aukið og rannsóknargeta efld með áherslu á mælingar, rannsóknir og tölfræði sem tengjast fíknisjúkdómum. Að lokum er vert að nefna að rekstur neyslurýmis hefur nú þegar verið fjármagnaður af heilbrigðisráðuneytinu og beðið er eftir að Reykjavíkurborg finni neyslurými varanlegt húsnæði.

Stefnumótun um fíknisjúkdóma

Alþingi samþykkti á liðnu ári ályktun um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum er nú til umfjöllunar í þinginu. Þar eru lagðar til fjölmargar aðgerðir sem snúa almennt að geðþjónustu þvert á velferðarkerfið og munu nýtast vel við að þróa og efla þjónustu m.a. vegna fíknisjúkdóma. Til lengri tíma litið er mikilvægt að móta heildstæða stefnu um fíknisjúkdóma sem tekur til forvarna, heilsueflingar, skaðaminnkunar, greiningar, meðferðar og endurhæfingar með áherslu á samvinnu og samhæfingu. Því hefur undirritaður ákveðið að hefja þá vinnu.

Skaðaminnkun

Á liðnum árum hefur hugmyndafræði skaðaminnkunar rutt sér til rúms víða um heim. Skaðaminnkun miðar að því að draga úr skaðlegum afleiðingum hegðunar eða lífsstíls, óháð því hvort hún sé æskileg, lögleg eða ólögleg. Skaðaminnkandi úrræði í fíknisjúkdómum eru meðal annars lyfjameðferð við ópíóðum, neyslurými og afglæpavæðing. Hér á landi hafa nú þegar verið stigin mikilvæg skref varðandi þróun og innleiðingu skaðaminnkandi úrræða en það er tímabært að taka enn stærri skref og vinna að stefnu og aðgerðaáætlun sem styður við það.

Skýr stefna er nauðsynleg

Í viðkvæmum málaflokkum skiptir miklu máli að skýr stefna liggi fyrir til að skapa sátt um aðgerðir. Sérstaklega þegar þær þarfnast aðkomu margra ólíkra hagsmunaaðila. Undirritaður hefur því ákveðið að hefja vinnu við að móta stefnu í skaðaminnkun út frá þeirri þekkingu og reynslu sem hefur myndast og þróa aðgerðaáætlun byggða á henni. Sú vinna mun einnig styrkja og tengjast heildarstefnumótun fyrir fíknisjúkdóma. Starfshópurinn sem verður skipaður er hugsaður sem fámennur kjarnahópur sem verður falið að hafa vítt samráð og eiga virkt samtal við helstu hagaðila til að stuðla að samþættingu, samvinnu og sátt.

Víðtækt samstarf

Vímuefnavandinn er fjölþættur og ekki aðeins einskorðaður við ópíóða eða alvarlegustu birtingarmynd vandans, ótímabær dauðsföll. Því þarf að nálgast verkefnið heildstætt. Hér á landi eru dauðsföll af völdum eitrana ávana- og fíkniefna í flestum tilfellum vegna blandaðrar neyslu og í gegnum tíðina hafa ófá dauðsföll orðið af óbeinum völdum ávana- og fíkniefna sem erfiðara er að henda reiður á. Þegar kemur að ópíóðum vitum við að þeir eru einna hættulegastir vímuefna og því er full ástæða til að rýna í stöðuna og kanna hvar þarf að þétta öryggisnetið. Eitt dauðsfall af völdum vímuefna er einu dauðsfalli of mikið.

Þau verkefni sem hér hefur verið fjallað um kalla á víðtækt samstarf og samráð milli áðurnefndra ráðuneyta, stofnana, stjórnsýslustiga og félagasamtaka til að ná þeim árangri sem að er stefnt. Síðast en ekki síst skiptir aðkoma einstaklinga í vanda og aðstandenda þeirra miklu máli og því verður aukin áhersla á notendasamráð og notendamiðaða þjónustu, hvort sem fjallað er um þau úrræði sem þegar eru fyrir hendi, þróun nýrra úrræða eða stefnumótun.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Lið fyrir lið

Deila grein

31/03/2023

Lið fyrir lið

Í gær var skrifað undir samninga milli Sjúkratrygginga Íslands, Klíníkarinnar í Ármúla og Handlæknastöðvarinnar í Glæsibæ um framkvæmd 700 liðskiptaaðgerða á þessu ári.

Á Íslandi eru tæplega 2000 manns á biðlista eftir liðskiptiaðgerð. Allt of margir á þeim lista hafa beðið of lengi eftir aðgerð þannig að sjúkdómsástandið er farið að skerða lífsgæði og draga verulega úr virkni. Góðu fréttirnar eru þær að við eigum fjölmarga hæfileikaríka skurðlækna hér á landi, öflugt heilbrigðisstarfsfólk og almennt góða aðstöðu til að framkvæma þessar aðgerðir. Við höfum því fulla burði til þess að stytta biðlista og halda í við hratt vaxandi þörf á liðskiptaaðgerðum til framtíðar. Samstillt átak og samvinna kerfisins í heild er forsenda þess að það gangi eftir.

Vaxandi þörf fyrir liðskiptaaðgerðir

Undanfarna áratugi hefur orðið mikil aukning í liðskiptaaðgerðum á heimsvísu og jókst uppsöfnuð þörf fyrir þessum aðgerðum einnig í heimsfaraldrinum. Algengast er að skipt sé um hné og næst algengast er að skipt sé um mjaðmir. Ein helsta undirliggjandi orsök þess að skipta þarf um lið er slitgigt en hún eykst með árunum. Við lifum lengur með slitgigtinni en við gerðum áður og því er þörf fyrir liðskiptaaðgerðir að aukast samhliða breyttri aldurssamsetningu. Aukin þróun og bætt tækni í bæði aðgerðum og gerviliðunum sjálfum hefur aukið möguleikann á liðskiptaaðgerðum fyrr á lífsleiðinni. Sökum þessa hefur aðgerðum einnig fjölgað í yngri aldurshópum. Það er alveg ljóst að þörfin fyrir liðskiptaaðgerðir mun halda áfram að aukast næstu árin og við þeirri þróun þarf að bregðast.

Jafnt aðgengi óháð efnahag

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé réttlætismál. Núverandi fyrirkomulag liðskiptaaðgerða gengur þvert á það markmið. Það er skýrt að óbreytt staða er ekki valmöguleiki. Þegar ekki eru til staðar samningar um þjónustukaup ríkis á einkarekinni heilbrigðisþjónustu sem þörf er á, höfum við ekki tök á að skipuleggja heilbrigðisþjónustu landsins heildstætt.

Ef stytta á bið eftir liðskiptaaðgerðum og á sama tíma mæta vaxandi þörf fyrir slíkum aðgerðum þarf markvisst að halda áfram að fjölga aðgerðum allra þjónustuaðila næstu árin. Til þess að ná því markmiði þarf að huga að mörgu í skipulagi þjónustunnar. Sérstaklega varðandi legurými og mönnun. Við verðum að nýta allt kerfið og virkja alla þjónustuaðila til að taka höndum saman og leysa þetta viðamikla verkefni.

Ekki sækja vatnið yfir lækinn

Í heilbrigðisþjónustu þarf sífellt að endurmeta skipulag og forgangsröðun til að bregðast við síbreytilegum þörfum þjóðfélagsins. Þegar kemur að þjónustukaupum hins opinbera þá er mikilvægt að hafa í huga heilsu og hag þjóðarinnar til lengri tíma. Hún verður ekki tryggð nema með jöfnu aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Allir sjúkratryggðir einstaklingar eiga að komast í liðskiptiaðgerð á ásættanlegum tíma án tillits til efnahags.

Það er vert að hafa í huga að sjúkratryggðir einstaklingar hafa heimildir til að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins á grundvelli EES- samningsins ef ekki er hægt að veita þá þjónustu innan ákveðinna tímamarka hér á landi. Það þjónar ekki hagsmunum sjúklingsins og er ekki skynsamleg nýting á almannafé að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu erlendis sem hægt er að bjóða upp á hér á landi með hagkvæmari hætti.

Samvinna

Við búum svo vel að eiga hæft og vel menntað heilbrigðisstarfsfólk sem hefur ávallt að leiðarljósi að forgangsraða mannafla, fjármunum og aðstöðu í þágu einstaklingsins sem þarf á hjálp að halda. Hér er líka ríkisstjórn sem stendur með heilbrigðiskerfinu og forgangsraðar fjármunum í þágu þess. Við erum lítið land og þurfum á því að halda að geta unnið saman í þágu fólksins í landinu. Ef allir leggja sitt af mörkum, stjórnvöld og þjónustuaðilar óháð rekstrarformi, er mögulegt að eyða biðlistum í liðskiptaaðgerðir og auka lífsgæði fjölmargra Íslendinga.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Stutt við þolendur heimilisofbeldis

Deila grein

29/03/2023

Stutt við þolendur heimilisofbeldis

Heimilisofbeldi er óásættanlegt samfélagslegt mein. Fólk af öllum kynjum verður fyrir heimilisofbeldi og því miður eru tilfellin allt of mörg. Mikilvægt er að þolendur heimilisofbeldis fái jafnt og greitt aðgengi að viðeigandi heilbrigðisþjónustu og stuðning eins fljótt og auðið er. Þjónustu sem er skipulögð með hagsmuni þolenda að leiðarljósi.

Breytingar á þessum málaflokki hafa staðið yfir í ráðuneytinu í nokkur ár. Skýrsla Finnborgar Salome Steinþórsdóttur um kynja- og jafnréttissjónarmið í heilbrigðisþjónustu frá árinu 2021 var kveikjan að því að leggja mat á heilbrigðisþjónustu varðandi kynbundið ofbeldi, skýra verkferla og bæta úrræði. Skipaður var þverfaglegur starfshópur sem var falið að móta samræmt verklag vegna þjónustu við þolendur heimilisofbeldis sem sækja þjónustu á heilbrigðisstofnanir landsins. Síðan þá hefur fjölmargt unnist, í góðu samstarfi milli ráðuneyta og stofnanna. Þar má m.a. nefna að samstarf við ríkislögreglustjóra við útfærslu rafrænnar samskiptagáttar milli heilbrigðiskerfis og lögreglunnar er hafið. Þá hafa félagsráðgjafar og sálfræðingur sem sérstaklega voru ráðnir vegna innleiðingar verklags við móttöku þolenda heimilisofbeldis hafið störf. Einnig hefur sálfræðiþjónusta við þolendur og gerendur í kynferðisbrotamálum verið aukin og hafin er gerð fræðsluefnis og kennslumyndbanda sem mun nýtast víða. Meðal annars við kennslu í háskólum en þörf er á aukinni þekkingu á málaflokknum.

Fljótlega verður innleitt nýtt samræmt verklag við móttöku þolenda heimilisofbeldis í heilbrigðisþjónustu. Verklagið miðar að því að ná á heildstæðan hátt utan um þarfir einstaklingsins. Meðal annars er tenging við félagsráðgjafa og áfallateymi sem getur veitt viðeigandi sálrænan stuðning og mögulega meðferð við áfallastreitu ef þörf krefur. Einnig er boðin tenging við lögmann í viðeigandi málum ef til að mynda um kynferðisbrot er að ræða. Innleidd verður samræmd skráning á þessum málum og leitast við að einfalda allar boðleiðir. Verklagið á að vera til þess fallið að aukagæði þjónustunnar og tryggja samræmi, sanngirni og jafnræði.

Samhliða umbótum á verklagi liggur fyrir Alþingi frumvarp um breytingu breytingum á lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Markmið breytingarinnar er að skýra heimild heilbrigðisstarfsfólks til að tilkynna heimilisofbeldi til lögreglu. Tilkynningin yrði gerð í samráði við sjúkling og er heilbrigðisstarfsfólki þá heimilt að miðla til lögreglu þeim upplýsingum sem eru taldar nauðsynlegar í þeim tilgangi að tryggja nauðsynlega vernd og stuðning.

Samkvæmt íslenskum rannsóknum kemur kona annan hvern dag á bráðamóttökuna á Landspítala vegna líkamlegra áverka í kjölfar heimilisofbeldis. Þá eru ótaldar komur á aðrar heilbrigðisstofnanir, heilsugæslu og til annars heilbrigðisstarfsfólks. Þessar tölur vekja óhug og draga fram þörf fyrir aukinn stuðning, vandaða verkferla og þéttari samvinnu. Ég bind von við að þessar breytingar, sem unnar hafa verið af miklum samtakamætti, skili sér í auknum stuðning við þolendur og öruggara samfélagi.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst 29. mars 2023.

Categories
Greinar

Álag á heilbrigðiskerfið

Deila grein

02/01/2023

Álag á heilbrigðiskerfið

Á landið herja lægðir og á landann herja ýmsar veirusýkingar. Inflúensan mætti snemma í ár og SARS-CoV-2 heldur ótrauð sínu striki. Veður og veirur þessa árstíma reyna verulega á Landspítala og heilbrigðiskerfið allt er undir miklu álagi.

Með samvinnu og samstilltu átaki hefur Landspítali sýnt að hann getur unnið þrekvirki við erfiðar aðstæður. Það sama má segja um aðrar heilbrigðisstofnanir og þjónustuveitendur heilbrigðisþjónustunnar. Ástandið hefur verið þungt á Sjúkrahúsinu á Akureyri og á fleiri stöðum úti á landi. Viðhorfið er sem áður lausnamiðað og allt gert til þess að halda uppi öruggri og góðri þjónustu.

Bognar en brotnar ekki

Fjöldi innlagna hefur sjaldan verið meiri en síðastliðna daga á Landspítala. Stjórnendur og starfsfólk spítalans hafa mætt þessari flóðbylgju á aðdáunarverðan hátt. Bráðamóttaka Landspítala ber hitann og þungann af bráðaþjónustu í landinu. Undanfarið ár hefur verið markvisst unnið að því að styðja við þá mikilvægu starfsemi og heilbrigðiskerfið sem hún er órjúfanlegur hluti af.

Landspítalinn hefur lyft grettistaki er kemur að umbótum í skipulagi starfseminnar og viðbrögðum við auknu álagi. Forgangsraðað er fumlaust í þágu bráðra og brýnna verkefna og álagi er dreift kerfisbundið á allan spítalann. Ný legudeild hefur meðal annars verið opnuð tímabundið nú í vikunni til að bregðast við stöðunni. Einnig er vert að nefna að í sumar fór af stað ný fjarþjónusta bráðadagdeildar lyflækninga og dagdeildin sjálf var stækkuð og efld. Sú starfsemi hefur gengið vel og komum hefur fækkað á bráðamóttökuna fyrir vikið. Fjölmargar aðrar aðgerðir hafa verið framkvæmdar eða eru í vinnslu. Miklar vonir eru bundnar við að ný stjórn og ný framkvæmdastjórn muni halda áfram á þessari góðu vegferð í samráði við starfsmenn spítalans og notendur.

Uppbygging

Stórátak hefur verið í uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma út um allt land og samhliða hefur verið ráðist í umfangsmiklar skipulags- og húsnæðisbreytingar á hjúkrunarheimilum. Þannig hefur tekist að fjölga hjúkrunarrýmum um 120 á þessu ári sem eru tvöfalt fleiri rými en áætlað var. Einnig hefur endurhæfingarrýmum fyrir aldraða, til bæði lengri og skemmri tíma, verið fjölgað um samtals 59 rými. Samhliða hefur heimahjúkrun verið efld til muna og í fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir 300 milljón króna viðbót til að styrkja hana enn frekar. Þeirri vegferð er hvergi nærri lokið og við höldum ótrauð áfram.

Hjúkrunarheimilin og samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa brugðist hratt við kalli ráðuneytisins um aðstoð við að létta á álagi Landspítalans. Á aðeins nokkrum vikum hafa verið opnuð hátt í 30 rými á hjúkrunarheimilum fyrir einstaklinga sem hafa lokið meðferð á Landspítala en bíða þar varanlegs búsetuúrræðis á hjúkrunarheimili. Það er mikilvægt að geta boðið eldri einstaklingum önnur og meira viðeigandi úrræði en sjúkrahúsvist og eiga þessir aðilar því þakkir skilið.

Samtakamáttur

Það hefur sýnt sig að við erum sterkari sem heild. Til að minna okkur á það og efla samvinnu þvert á heilbrigðiskerfið var á árinu stofnað viðbragðsteymi allra viðeigandi aðila í bráðaþjónustu í landinu. Hefur margt gott komið út úr þeirri vinnu sem við búum að í dag og hefur teymið líka skilað af sér umbótaáætlun til 5 ára með það að markmið að tryggja aðgengi, öryggi og gæði bráðaþjónustu landsins til framtíðar. Í okkar fámenna og dreifbýla landi þurfa allir aðilar að taka höndum saman og styðja hvern annan til að ráða við áskoranir heilbrigðiskerfisins.

Út frá vinnu viðbragðsteymisins hefur meðal annars samstarf Landspítala og annarra heilbrigðisstofnanir verið eflt og sjúkraflutningar kortlagðir. Landspítali hefur í auknum mæli tekið að sér ýmsar rannsóknir og aukið ráðgjöf þannig að stofnanir þurfi síður að senda einstaklinga frá sér. Stofnanirnar hafa einnig verið efldar. Rekstrargrunnur Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri hefur verið styrktur í fjárlögum næsta árs og búið er að veita 330 milljónum í að tryggja að rétt tæki og góður aðbúnaður sé til staðar á þeim starfstöðvum sem sinna bráðaþjónustu um land allt. Samningur Læknavaktarinnar um vaktþjónustu og símsvörun hefur einnig verið endurnýjaður og unnið er að því í ráðuneytinu að efla og samþætta alla vegvísun og ráðgjöf í heilbrigðiskerfinu.

Það styttir alltaf upp og lygnir

Það er staðreynd að mannauður heilbrigðiskerfisins er takmörkuð auðlind. Við þurfum því að styðja við hann og stuðla að fjölgun heilbrigðisstarfsmanna. Samhent átak þvert á ráðuneyti er í fullum gangi þar sem forgangsraðað er í þágu menntunar heilbrigðisstarfsmanna og heilbrigðisráðuneytið er að beita sér fyrir því að starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna sé best. Uppbygging nýs Landspítala, áhersla á menntun, vísindi- og nýsköpun, aukið samstarf, bætt skipulag og öryggismenning eru meðal fjölmargra aðgerða sem eru í gangi. Í ljósi langvarandi álags á heilbrigðisstarfsfólk verður sérstöku fjármagni veitt í endurheimt og stuðning á nýju ári.

Allt helst þetta í hendur og saman vinnum við markvisst að því að minnka álag í heilbrigðiskerfinu. Álag á bráðamóttöku Landspítalans er nefnilega birtingarmynd álags í öllu heilbrigðiskerfinu. Höldum bjartsýn inn í nýtt ár með aukna fjárveitingu og fjölda góðra verkefna í farteskinu. Göngum hægt um gleðinnar dyr um áramótin og pössum upp á hvert annað.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. desember 2022.

Categories
Greinar

Staðið með heilbrigðiskerfinu

Deila grein

05/12/2022

Staðið með heilbrigðiskerfinu

Staðið með heilbrigðiskerfinu

Fjárlög komandi árs, sem nú eru til umræðu á Alþingi, endurspegla forgangsröðun og áherslur stjórnvalda. Með rúmlega 12 milljarða viðbótarframlagi til heilbrigðismála fyrir aðra umræðu um fjárlög er ljóst að ríkisstjórnin stendur með heilbrigðiskerfinu og er að efna stjórnarsáttmála um að styrkja heilbrigðiskerfið.

Raunverulegar umbætur til framtíðar þarf að undirbúa vel. Nú er ár síðan undirritaður tók við ráðherrastól heilbrigðisráðuneytisins. Þjóðin var enn í klóm heimsfaraldurs og dagarnir snerust um sóttvarnaraðgerðir og smitstuðla. Þegar það fór að rofa til og samfélagið fór af stað blöstu við fjölmargar áskoranir. Heilbrigðiskerfið okkar hefur staðist eitt erfiðasta álagspróf síðari tíma en það er ljóst að til þess að það nái að fylgja hraðri þróun og breyttum þörfum samfélagsins þarf að bregðast við. Setja þarf skýr markmið og viðmið til grundvallar ákvörðunartöku um það hvernig við forgangsröðum og skipuleggjum framtíðarheilbrigðiskerfið með þarfir þjóðarinnar í forgrunni.

Norræn nálgun á heilbrigðismál

Heilbrigðiskerfið er samofið efnahagslegum- og félagslegum þáttum samfélagsins. Áskoranir kerfisins verða ekki leystar inni á borði eins ráðuneytis heldur þarf aðkomu fleiri ráðuneyta, sveitarfélagar, stofnanna, samtaka, einstaklinga og fyrirtækja.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að aðgangur allra að heilbrigðisþjónustu er réttlætismál. Það er síðan hlutverk heilbrigðisráðuneytis að tryggja jafnan aðgang að bestu mögulegu þjónustu og meðferð sem völ er á yfir allt landið. Til þess þarf að nýta allt kerfið en um leið stýra för varðandi verð, magn og gæði. Þannig náum við raunverulegum árangri til hagsbótar fyrir samfélagið í heild.

Samningar og biðlistar

Langvarandi samningsleysi við þá sem veita heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa hindrar aðgengi og eykur ójöfnuð. Önnur birtingarmynd samningsleysis eru biðlistar og uppsöfnuð þörf fyrir þjónustu þó að heimsfaraldurinn hafi þar líka spilað stórt hlutverk. Það er því mikið hagsmunamál fyrir þjóðina og forgangsmál í heilbrigðisráðuneytinu að það náist samningar.

Í ráðuneytinu höfum við lagt stefnumarkandi línur og opnað á samtal um það hvernig við viljum sjá þennan mikilvæga hluta heilbrigðisþjónustunnar þróast til framtíðar. Það er mjög jákvætt að nú eru helstu samningsaðilar sestir við borðið með sama markmið að leiðarljósi, að jafna aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu. Skref í þá átt var tekið í vikunni þar sem samningar náðust um endómetríósuaðgerðir við Klíníkina. Mikilvægt er að halda áfram á þeirri vegferð og því eru 750 milljónir eyrnamerktar í liðskiptaaðgerðir og verulegar upphæðir í að styrkja rekstrargrunn heilbrigðisstofnanna.

Mannauður

Mönnun í heilbrigðisþjónustu er gríðarleg áskorun á heimsvísu. Fjárlög næsta árs tryggja aukinn stuðning við heilbrigðiskerfið og endurheimt heilbrigðisstarfsfólks. Starfsumhverfi og öryggi eru lykilþættir í því að hlúa að þessum mikilvæga mannauði.

Til að ná betur utan um mönnun í heilbrigðiskerfinu hefur verið sett af stað vinna innan ráðuneytisins sem miðar að því að öðlast heildstæða sýn á stöðu mönnunar í dag og til framtíðar. Til að efla menntun heilbrigðisstétta og fjölga heilbrigðisstarfsmönnum hefur verið ráðist í aukið samstarf við háskóla, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og mennta- og barnarmálaráðuneytið. Samhliða þarf að styrkja framhaldsnám, sérnám lækna, vísindi og nýsköpun og verður meðal annars ný reglugerð um sérnám lækna birt á næstu vikum. Einnig er verið að skipa í starfshóp í þeim tilgangi að nýta ákvæði í menntasjóði íslenskra námsmanna sem snýr að sérstakri ívilnun fyrir heilbrigðisstarfsfólk á landsbyggðinni.

Starfsumhverfi

Að skapa samkeppnishæft starfsumhverfi fyrir okkar vel menntaða heilbrigðisstarfsfólk til framtíðar er nauðsyn. Þannig fóstrum við nýsköpun, framþróun og vísindi og tryggjum að fólkið sem getur unnið hvar sem er í heiminum velji að starfa á Íslandi til að láta gott af sér leiða. Liður í því er aukið fjármagn til fjárfestinga og uppbyggingar heilbrigðisstofnanna. Rúmir 13 milljarðar fara til Nýs Landspítala við Hringbraut þar sem við sjáum núna útveggina rísa upp úr grunninum.

Í öryggiskennd felast verðmæti. Á þingmálaskrá er að finna frumvarp til laga sem snýr að refsiábyrgð heilbrigðisstofnanna og rannsókn óvæntra atvika. Markmiðið er að tryggja betur öryggi sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna. Sömuleiðis er hækkun hámarksstarfsaldurs heilbrigðisstarfsfólks hjá ríkinu að finna á þingmálaskrá vetrarins. Það er liður í að tryggja kjör og réttindi heilbrigðisstarfsmanna sem margir vinna eftir sjötugt.

Samvinna er vænlegust til árangurs

Í stórum málaflokkum eins og lýðheilsu, geðheilbrigðismálum, endurhæfingu og öldrunarþjónustu leggur heilbrigðisráðuneytið mikið upp úr samvinnu. Nýverið skipuðum við ráðherrar heilbrigðismála og félagsmála sameiginlegt endurhæfingarráð sem hefur það hlutverk að vera okkur til ráðgjafar um faglega stefnumörkun og skipulag þjónustu á sviði endurhæfingar. Það er fátt verðmætara en að aðstoða einstaklinga við að ná upp tapaðri færni til að geta haldið sjálfstæði sínu, lífsgæðum og virkni í samfélaginu.

Einnig er sameiginlegt verkefni þvert á ráðuneyti okkar félags- og vinnumálaráðherra, fjármálaráðherra og sveitafélaganna að huga betur að málefnum aldraðra og er stýrihópur þess efnis að störfum. Þá er ekki síður mikilvægt að nefna ályktun Alþingis frá því í vor um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Mikil vinna hefur verið lögð í að móta markvissa áætlun um aðgerðir til að hrinda henni í framkvæmd.

Heilbrigðiskerfið snýst ekki aðeins um öfluga heilbrigðisþjónustu heldur það að gera fólki betur kleift að huga að eigin heilsu. Á heilbrigðisþingi í nóvember voru forvarnir og lýðheilsa í forgrunni. Það var haldið undir yfirskriftinni Heilsa eins, hagur allra. Sú yfirskrift kjarnaði vel viðfangsefni þingsins þar sem góð lýðheilsa er jarðvegurinn sem heilbrigðiskerfið þarf til vaxa og dafna þannig að allir fái notið ávaxtanna.

Forsendur sem standast til framtíðar

Þjóðin er að eldast hratt. Það er staðfesting vaxandi lífsgæða og bættrar stöðu fólks en sú gæfa að eldast felur einnig í sér þörf á breyttri nálgun heilbrigðiskerfisins. Eins og formaður Læknafélags Íslands orðaði það er þessi myndarlega fjárinnspýtingu í heilbrigðiskerfið vísir að nýrri nálgun. Við vitum að aukið fjármagn er nauðsynlegt en ekki nægjanlegt skilyrði fyrir bættri þjónustu. Því er verið að tryggja með metnaðarfullum aðgerðum að verið sé að fjárfesta í breytingum og umbótum til framtíðar.

Traust og góð heilbrigðisþjónusta er ekki aðeins ofarlega á blaði í forgangsröðun þjóðarinnar heldur líka ríkisstjórnarinnar. Þrátt fyrir ágjöf undanfarinna ára í heimsfaraldri eru fjöldamörg tækifæri sem mikilvægt er að grípa. Með því að auka fjárframlög til málaflokksins er ríkisstjórnin að virða þessa forgangsröðun og í kjörstöðu til að fylgja orðum eftir með efndum.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin biritist fyrst í Morgunblaðinu 3. desember 2022.