Categories
Fréttir Greinar

Öryggisógnir í breyttum heimi

Deila grein

19/04/2024

Öryggisógnir í breyttum heimi

Ein af grundvallarskyldum stjórnvalda á hverjum tíma er að tryggja öryggi borgaranna. Fjölmargir þættir falla þar undir sem flestum eru kunnir en stjórnvöld þurfa einnig að vera vakandi fyrir nýjum hættum sem kunna að ógna íslensku samfélagi. Svokallaðar fjölþáttaógnir falla þar undir en hugtakið vísar til samstilltra aðgerða óvinveittra ríkja eða aðila tengdum þeim sem nýta sér kerfislæga veikleika lýðræðisríkja, stofnana og hópa samfélagsins með það að markmiði að veikja áfallaþol samfélagsins, grafa undan lýðræði, trausti og samfélagslegri samheldni til að ná pólitískum, efnahagslegum og/eða hernaðarlegum markmiðum. Þessar aðgerðir geta falist í dreifingu falsfrétta, netárásum, íhlutun í lýðræðislegt ferli og kosningar og erlendar fjárfestingar í mikilvægum innviðum þar sem annarlegar hvatir búa að baki, en aðstaða fjárfesta getur haft áhrif á virkni mikilvægra innviða á grundvelli beins eða óbeins eignarhalds. Fjölþáttaógnir gera greinarmun á stríði og friði óskýrari. Því getur verið erfitt að verjast fjölþáttaógnum og -aðgerðum, enda virða þær hvorki landamæri, skil á milli stofnana innan ríkja né mörk hins opinbera og einkageirans.

Nýjar leiðir til að valda skaða

Segja má að með þeim aðferðum sem beitt er séu farnar leiðir sem valda skaða án þess að beita hefðbundnum hernaði. Árásir geta verið fjölbreyttar og hægt er að beita þeim í skjóli leyndar og afdráttarlausrar neitunar á ábyrgð. Sú aðferð sem helst hefur borið á hér á landi eru netógnir hvers konar. Gleggsta dæmið er nýleg netárás á tölvukerfi háskólans í Reykjavík en á málþingi Defence Iceland sem fór fram í Grósku fimmtudaginn 11. apríl fjallaði Jacky Mallett, lektor í tölvunarfræði við háskólann um rússneska hakkarahópinn Akira sem bar ábyrgð á netárásinni og innbrotinu í kerfi skólans, hvernig hópurinn virkar, þau tól og tæki sem hann nýtir sér og þá veikleika kerfa sem helst er herjað á.

Þá fjallaði Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika um varnir fjármálakerfisins og þá miklu vinnu sem Seðlabankinn hefur ráðist í á undanförnum árum til þess að mæta netógnum. Á opnum fundi efnahags-og viðskiptanefndar Alþingis þann sama dag þar sem skýrsla Seðlabankans til Alþingis um fjármálastöðugleika var til umræðu kom fram í máli Gunnars að ein helsta ógnin í dag við fjármálastöðugleika fælist í netárásum á fjármálainnviði hér á landi. Sú fullyrðing ásamt mýmörgum dæmum þar sem ráðist hefur verið gegn fyrirtækjum og stofnunum hér á landi sýnir glögglega hversu mikilvægt það er fyrir íslenskt samfélag að stórefla netvarnir hér á landi.

Áhætta vegna netárása eykst

Netárásum getur verið beitt t.a.m. með árásum á mikilvæga innviði og/eða samfélagslega mikilvæga þjónustu. Veikleikar í rekstri net- og upplýsingakerfa þeirra geta haft lamandi áhrif á mikilvæga samfélagslega starfsemi og dregið úr almanna- og þjóðaröryggi. Netárásir geta ekki bara lamað fyrirtæki og stofnanir og valdið fjárhagslegum skaða heldur geta netþrjótar komist yfir viðkvæm gögn sem síðan er lekið með ómældum skaða fyrir þá sem um ræðir. Slík gögn geta verið persónuupplýsingar, trúnaðarupplýsingar af ýmsum toga, viðskiptaleyndarmál, rannsóknargögn og svo má lengi telja. Netárásir geta líka falist í gíslatöku gagna þar sem farið er fram á lausnargjald, valdið skemmdum á netkerfum þannig að starfsemi s.s. bankastarfsemi og ýmis mikilvæg starfsemi hins opinbera stöðvast. Þar sem áhættan á netárásum hefur aukist hafa tryggingafélög boðið upp á tryggingarvernd fyrir netárásum sem sýnir í hnotskurn þá alvarlegu ógn sem stafar af athæfinu. Í dæmi Háskólans í Reykjavík er talið fullvíst að netþrjótar njóti verndar og jafnvel liðsinnis og samstarfs við óvinveitt ríki. Netógnir eru því alls ekki einkamál fyrirtækja og einstaklinga heldur miklu frekar sameiginleg ógn við þjóðina í heild.

Mikil samhæfingarvinna nauðsynleg

Ísland er mjög netvætt samfélag sem reiðir sig á virkni mikilvægra innviða á ábyrgð ríkisins, opinberra stofnana og fyrirtækja á almennum markaði. Virkni þessara innviða byggist í auknum mæli á samvirkni skipulags, mannvirkja og net- og upplýsingakerfa. Aðgerðir stjórnvalda sem miða að því að styrkja net- og upplýsingakerfi og áfallaþol samfélagsins falla undir málefnasvið margra ráðuneyta hér á landi. Netglæpir eru rannsakaðir af lögreglu sem fellur undir málefnasvið dómsmálaráðuneytisins, varnarmál landsins falla undir ráðuneyti utanríkismála, fjarskipti og netöryggi falla undir háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, Stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda fellur undir fjármálaráðuneyti, orkumál og orkuöryggi fellur undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og heilbrigðiskerfið undir heilbrigðisráðuneytið svo eitthvað sé nefnt. Mikil samhæfingarvinna er því nauðsynleg til þess að ná ásættanlegum árangri til styrkingar á áfallaþoli samfélagsins. Netöryggisheimurinn fer ört vaxandi hér á landi og því fer þekking á málaflokknum jafnframt ört vaxandi. Ásamt því að taka þátt í öndvegissetri um netöryggismál í Tallin í Lettlandi og um fjölþáttaógnir í Helsinki er starfrækt sérstök netöryggissveit undir Fjarskiptastofu sem í daglegu tali er kölluð CERT-IS. Ísland tekur að auki þátt í netöryggiskeppnum hérlendis og erlendis og fór ein slík keppni fram nýverið er nefnist Gagnaglíman og er stefnan sett á að senda íslenskt lið í Netöryggiskeppni Evrópu (European Cyber Security Challenge, ECSC) sem haldin verður á Ítalíu í haust.

Forvarnir skipta máli

Íslensk fyrirtæki hafa verið að hasla sér völl á sviði forvarna gegn netglæpum á undanförnum árum. Eitt þeirra fyrirtækja er AwereGO sem hjálpar fyrirtækjum og stofnunum við að efla öryggi sitt út frá fræðslu og forvörnum. Stór ástæða innbrota í tölvukerfi gengur út á misnotkun á mannlegum þáttum þar sem starfsmenn eru plataðir með einhverju móti eða glæpamenn nýta sér veikleika ef þekkingu skortir á ábyrgri tölvu-og netnotkun. Má þar nefna vanþekkingu á því hvernig má greina fölsk skilaboð og tölvupósta, skort á uppfærslu lykilorða og tveggja þátta auðkennis, vanþekkingu á mögulegum gagnastuld og svo má lengi telja. Rétt eins og með aðrar forvarnir er alltof algengt að fyrirtæki og stofnanir vanræki þá þætti í starfsemi sinni. Kostnaðurinn við að tryggja tölvukerfi og örugga tölvunotkun er óverulegur samanborið við þann skaða sem innbrot í tölvukerfi getur haft.

Þörf á vitundarvakningu

Stjórnvöld vinna í dag eftir netöryggisstefnu fyrir árin 2022-2037 en í stefnunni er birt framtíðarsýn og markmið stjórnvalda á sviði netöryggis ásamt mælikvörðum og áherslum. Annað af tveimur markmiðum stefnunnar er að efla þekkingu og hæfni með aukinni áherslu á almannafræðslu, menntun, rannsóknir, þróun og alþjóðlega samvinnu. Hitt lýtur að öruggu netumhverfi, þ.e. að til staðar sé öruggt netskipulag sem geti með skilvirkum hætti brugðist við netöryggisatvikum sem ógnað geta þjóðaröryggi, mikilvægum innviðum og réttindum einstaklinga. Ör þróun netöryggismála og síbreytilegar aðstæður krefjast lagaumhverfis sem stuðlar að vernd einstaklinga, atvinnulífs og samfélagsins í heild og að því sé fylgt eftir með löggæslu, þar á meðal með viðeigandi samfélagslegri samvinnu.

Mikilvægt er að taka sérstaklega fram að í stefnunni er lögð áhersla á vernd þeirra sem kunna að vera í viðkvæmri stöðu. Tryggja þarf vernd barna á Netinu með stefnu, skýrri löggjöf og ábyrgð á framkvæmd og eftirfylgni. Í því samhengi telur undirritaður afar mikilvægt að stjórnvöld standi einnig fyrir vitundarvakningu um netöryggi og örugg netnotkun verði tekin inn í aðalnámskrá skóla. Öryggisógnir á netinu eru komnar til að vera og það er afar mikilvægt að við öll aðlögum okkur að breyttum heimi.

Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður framsóknar og situr í Þjóðaröryggisráði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. apríl 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Deila grein

25/03/2024

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Í síðustu viku voru samþykkt lög um breytingar á búvörulögum nr. 99/1993, framleiðendafélög. Þær miklu umræður sem fylgt hafa í kjölfarið hafa væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum manni enda hafa stór orð verið látin falla sem eiga ekki öll rétt á sér.

Staða íslenskra bænda hefur verið erfið um langt skeið. Stóraukning á innfluttum landbúnaðarvörum og stökkbreytingar í verði á aðföngum hefur reynst greininni erfið síðustu ár, bara á síðasta ári jókst innflutningur á kjöti um 17%. Rekstur afurðastöðva í sauðfjár- og nautakjöti hefur lengi átt undir höggi að sækja og augljóst er ef að íslenskt lamba- og nautakjöt á að standast samkeppni frá innfluttu kjöti þarf að bregðast við. Hagræðing verður að eiga sér stað hjá afurðastöðvum til að standast erlenda samkeppni. Afurðastöðvar eru almennt að hluta í eigu bænda. Með þessum breytingum á búvörulögum sem nú hafa verið samþykkt er kjötafurðarstöðvum gert kleift að vinna saman eða sameinast til að ná fram rekstrarhagræði sem gagnast bæði bændum og neytendum.

Hagur bænda og neytenda

Því hefur verið haldið á lofti að þessar breytinga komi til með að stuðla að einokun, hækka vöruverð og verðbólgu. Þessar fullyrðingar eru á þunnum ís. Staðreyndin er sú að hagur bænda og neytenda fer saman. Íslenskur landbúnaður þarf á íslenskum neytendum að halda og á sama tíma þarf innlend framleiðsla að vera samkeppnishæf við innflutta matvöru. Ef ekki er veitt svigrúm til hagræðingar í greininni er næsta víst að neytendur færi sig í auknu mæli yfir í erlenda staðgönguvöru með þeim afleiðingum að það fjari undan íslenskum landbúnaði. Það sama myndi gerast ef sú hagræðing sem nú er möguleg skilar sér ekki til íslenskra neytenda. Hátt verð á innlendri landbúnaðarvöru veldur því að neytendur versla aðrar vörur. Þetta er einfalt reiknisdæmi. Að þessu leyti fara hagsmunir bænda og neytenda saman.

Rétt skal vera rétt

Þá er það hreinlega rangt það sem hefur verið haldið fram að afurðastöðvum sé nú heimilt að sameinast án takmarkana. Þeir sem skoða lögin geta séð að í þau eru skrifuð ákveðin skilyrði hyggist afurðastöðvar nýta sér þessa heimild. Þessi skilyrði voru sett inn í ljósi þess að samrunareglur eiga ekki lengur við. Þessi skilyrði tryggja að allir framleiðendur eru jafnsettir hvað varðar möguleika á að koma búfé til slátrunar óháð staðsetningu. Þá er afurðastöðvum skylt að selja öðrum vinnsluaðilum afurðir til frekari vinnslu á sömu viðskiptakjörum og vinnsluaðilum sem lúta þeirra stjórn. Með þessum skilyrðum er stuðlað að samkeppni og tryggt að aðrir vinnsluaðilar greiði sama verð fyrir sömu vöru og aðilar sem lúta stjórn framleiðendafélaga.

Þá er ekki heimilt að setja skorður við því að framleiðendur færi viðskipti sín til annars aðila. Er þessu skilyrði ætlað að efla og tryggja samningsstöðu bænda og tryggja að samkeppni ríki áfram á markaði. Að lokum er tryggður réttur til að eiga einungis viðskipti við framleiðendafélag um afmarkaða þætti, svo sem slátrun. Með þessu skilyrði er stuðlað að því að tryggja samningsstöðu bænda og fyrirbyggja hindranir fyrir minni keppinauta í slátrun og vinnslu. Þannig verður bændum auðveldað að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir ef þeir kjósa að gera það.

Sérstaða íslenskra kjörframleiðslu

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklalyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag. Nýútkomin skýrsla hóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins í samvinnu við matvæla og umhverfis-, orku- og loflagsráðherra um aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería tekur undir þær staðhæfingar. Í skýrslu hópsins kemur fram að fæðuöryggi muni enn minnka þar sem sýklalyfjaónæmi hefur einnig áhrif á dýraheilbrigði og þar með matvælaframleiðslu. Sýklalyfjanotkun hér á landi í landbúnaði er með því minnsta sem þekkist og hefur það verið staðfest í eftirliti Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar um notkun sýklalyfja í landibúnaði

Það er ekki ofsagt að íslensk matvælaframleiðsla eigi sér sérstöðu á heimsvísu og undir þetta taka helstu sérfræðingar á sviði sýkla- og veirufræða. Þeir hafa brýnt fyrir okkur að verja þurfi þá sérstöðu sem við búum við á Íslandi. Á grunni sérstöðunnar á Ísland að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með banni á dreifingu matvæla sem í greinist sýklalyfjaónæmar bakteríur. Það er bein skylda okkar að standa með íslenskri matvælaframleiðslu. Þá þarf að þora að stíga þau skref sem þarf til að koma því þannig fyrir að heilnæmt kjöt sé á boðstólum íslenskra neytanda á viðráðanlegu verði.

Samstaða frekar en sundrung

Við sem smáþjóð þurfum að standa vörð um innlenda framleiðslu og fyrir því eru fleiri en ein ástæða. Fyrst má þar nefna mikilvægi þess að halda framleiðslunni innanlands vegna allra þeirra starfa sem hún skapar, fyrir utan þá staðreynd að við viljum viðhalda innlendum landbúnaði og matvælaframleiðslu í landinu. Að ótöldu fæðuörygginu, matvælaöryggi með heilnæmi landbúnaðarvara og mikilvægi þess að vera sjálfbær.

Framsókn hefur í gegnum tíðina staðið með landbúnaði og mun ávallt gera, enda á flokkurinn uppruna sinn í sveitum landsins og hefur sú taug aldrei slitnað öll þessi ár. Þingmenn Framsóknar hafa í gegnum tíðina gert sitt besta til þess að vera öflugir málsvarar bænda í landinu. Okkar verkefni nú er að halda áfram að ræða mikilvægi innlends landbúnaðar og koma sjónarmiðum okkar á framfæri við samstarfsflokkanna sem og aðra flokka á Alþingi með hag bænda og neytenda að leiðarljósi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. mars 2024.

Categories
Fréttir

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Deila grein

26/02/2024

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar verða á ferð og flugi um land allt næstu daga. Þingflokknum er mikilvægt að heyra raddir kjósenda með reglubundnum hætti. Áhersla verður á heimsóknir í bland við opna fundi.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir alla opna fundi, en einnig má nálgast viðburðina á Facebook: https://fb.me/e/3vOUaC0mJ

Mánudagur 26. febrúar:
Reykjavík – Sykursalnum Grósku, kl. 20.00.
Suðurnesjabær – Samkomuhúsinu Sandgerði, kl. 20.00.

Þriðjudagur 27. febrúar:
Mosfellsbær – Skátaheimili Mosverja, kl. 20.00.
Bláskógabyggð – Efsti Dalur, kl. 20.00.
Borgarbyggð – Landnámssetrinu, kl. 20.00.

Miðvikudagur 28. febrúar:
Kópavogur – Siglingafélaginu Ými, Naustavör 14, kl. 20.00.
Akranes – Dalbraut 4, kl. 20.00.
Vopnafjörður – Safnaðarheimilinu, kl. 18.00.

Fimmtudaginn 29. febrúar:
Reyðarfjörður – Þórðarbúð, Austurvegi 39, kl. 17.30.
Sauðárkrókur – Kaffi Krók, kl. 20:15.
Egilsstaðir – Tehúsið, kl 20.00.
Árborg – Hótel Selfoss, kl 20.00.

Föstudagur 1. mars:
Húsavík – Félagsheimili eldri borgara, Hlyn, kl. 16.00.

Laugardagur 2. mars:
Hafnarfjörður – Kiwanissalnum, Helluhrauni 22, kl. 11.00.

Á næstu vikum munu þingmenn og ráðherrar heimsækja Höfn, Vestmannaeyjar, Vestfirði, en nánari upplýsingar verða birtar síðar.

ATH. að dagskráin kann að taka breytingum með skömmum fyrirvara.

Við erum Framsókn!

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi.

Í meira en öld höfum við unnið að framfaramálum fyrir Ísland með hugsjónir samvinnunnar að leiðarljósi.

Við í Framsókn trúum því að yfirvegað samtal skili samfélaginu meiri árangri en upphrópanir.
Við setjum manngildi ofar auðgildi.

Categories
Fréttir Greinar

Um vernd mikil­vægra inn­viða

Deila grein

16/11/2023

Um vernd mikil­vægra inn­viða

Þeirri spurningu hefur verið velt upp að undanförnu hvort einkafyrirtækin HS Orka og Bláa lónið eigi að greiða fyrir varnargarða vegna mögulegrar náttúruvár. Því miður hefur í gegnum tíðina heyrst svipuð umræða varðandi uppbyggingu snjóflóðavarnargarða en sem betur fer hefur mér að vitandi ekki verið lagt til að einstaka fyrirtæki greiði þann kostnað ef þau njóta verndar þeirra mannvirkja.

Varnargarðar á Reykjanesi eru hugsaðir til varnar mikilvægum innviðum og almannahagsmunum. Leiðargarður fyrir Orkuverið í Svartsengi er hannaður á hæsta punkt í landslagi. Svo vill til að Bláa lónið fellur þar innan. Önnur fyrirtæki sem hafa starfsemi í Orkugarðinum eru til dæmis ekki innan varnargarðs. Tilgangur garðsins er að verja þá strauma sem koma frá orkuverinu og eru íbúum nauðsynlegir.

Alvarleiki aðstæðna

Nú er komin upp sú staða að eitt öflugasta sveitarfélag landsins er óstarfhæft um óákveðinn tíma. Sú staða að 3.700 íbúar eru á flótta í eigin landi og náttúruvá ógnar lífsviðurværi íbúa á Suðurnesjum sem telur nú um 30.000 manns er staðreynd.

Ef starfsemi í orkuverinu í Svartsengi lamast, er ekkert kalt vatn, ekkert heitt vatn og mjög takmarkað rafmagn á Suðurnesjum. Margt er undir í þeim grafalvarlega atburði og má þar sem dæmi nefna skóla, heilbrigðisstofnanir, varnarmannvirki, alþjóðaflugvöll, hafnir og aðrar stofnanir, þó einhver starfsemi verði með varaafl til skemmri tíma. Án þessara nauðsynja kæmi upp mjög alvarlegt almannavarnarástand á svæðinu í heild, ofan í það alvarlega ástand sem nú þegar er komið upp hjá íbúum í Grindavík.

Veitufyrirtækið HS veitur, sem er í meirihlutaeigu sveitarfélaga, veitir heitu vatni, köldu vatni og rafmagni til Suðurnesjamanna. Eins og gefur að skilja verður sú þjónusta mjög takmörkuð ef eitt stærsta orkuver landsins er úti.

Öxlum ábyrgð

Til samanburðar má nefna að Ofanflóðasjóður fjármagnar fyrst og fremst forvarnaraðgerðir gegn ofanflóðum og er talsverð reynsla komin á þá vinnu í gegnum tíðina. Þó er enn verið að vinna að ákveðnum breytingum á sjóðnum. Í lok ágúst samþykkti ríkisstjórnin að vinna frumvarp um að útvíkka hlutverk Ofanflóðasjóðs þannig að hann kosti einnig varnir gegn ofanflóðum á atvinnusvæðum.

Þá var samþykkt tillaga um að flýta upphafi framkvæmda við ofanflóðavarnir í Neskaupstað og hraða vinnu sem nú er í gangi við ofanflóðavarnir á Seyðisfirði. Aldrei hef ég heyrt neinar mótbárur gegn þessum hugmyndum enda grunar mig að allir séu sammála um að þær séu samfélaginu öllu gríðarlega mikilvægar.

Ég hef nefnt þá skoðun mína að nauðsynlegt sé að stofna hér á landi Náttúruvársjóð sem sameinar hlutverk Ofanflóðasjóðs og Náttúruhamfaratrygginga og tæki til varna gegn ofanflóðum (skriðum og snjóflóðum), jarðhræringum (jarðskjálftum og eldgosum) og flóðavörnum (sjávarflóðum og flóðum í ám og vötnum). Sú hugmynd að einstaka fyrirtæki falli ekki undir varnir eða væri gert að sinna þeim á eigin kostnað er í besta falli fjarstæðukennd. Þess má geta að lífeyrissjóðir landsins eiga stóra hluti bæði í Bláa lóninu og HS Orku en það er í mínum huga aukaatriði. Í umræðu um frumvarp um Vernd mikilvægra innviða á Alþingi kom hvergi fram að einstaka fyrirtæki ættu að vera undanskilin þeirri vernd þó svo ekki hafi verið einhugur um útfærslu forvarnargjalds í frumvarpinu. Það var því táknrænt og gleðilegt þegar þingmenn samþykktu frumvarpið einróma. Saman verðum við að axla ábyrgð og reyna eftir fremsta megni að lágmarka tjón af völdum náttúruhamfara, sé þess einhver kostur.

Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. nóvember 2023.

Categories
Greinar

Heilsa þjóðar

Deila grein

02/02/2023

Heilsa þjóðar

Þeir sem misst hafa heilsuna, tíma­bundið eða um lengri tíma, þekkja vel hversu dýr­mæt heilsan er. Allt annað lendir í öðru sæti þegar fólk lendir í veikindum og lífs­gæði skerðast veru­lega. Geð­raskanir og stoð­kerfis­vanda­mál eru megin­or­sök ör­orku hér á landi og á­skoranir tengdar lífs­stíls­sjúk­dómum vega þungt í þjónustu heil­brigðis­kerfisins. Aukin á­hersla á lýð­heilsu þjóðarinnar er gríðar­lega mikil­vægt skref til fram­tíðar og þar gegna stjórn­völd mikil­vægu hlut­verki.

Ein af þeim leiðum sem Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunin og Em­bætti land­læknis hafa bent á til þess að efla lýð­heilsu er inn­leiðing lýð­heilsu­mats. Við inn­leiðingu matsins er skoðað á kerfis­bundinn hátt hvaða á­hrif lög­gjöf og stjórn­valds­á­kvarðanir hafa á heilsu þeirra hópa sem verða fyrir á­hrifum. Gildir þá einu hvort um já­kvæð eða nei­kvæð á­hrif er að ræða. Til­gangurinn er að undir­byggja betri á­kvarðana­töku og eftir at­vikum bregðast við með mót­vægis­að­gerðum. Það er því grund­vallar­for­senda að stjórn­völd vinni að því mark­miði með öllum þeim kerfum sem ein­kenna vel­ferðar­ríki. Lög­gjöf hefur haft ó­um­deilan­leg á­hrif á heilsu þjóðarinnar í gegnum tíðina. Í lýð­heilsu­stefnu til 2030 er sér­stak­lega tekið fram að stjórn­völdum beri að hafa lýð­heilsu að leiðar­ljósi við alla á­ætlana­gerð og stefnu­mótun. Inn­leiðingin verður því að vera mark­viss rétt eins og á við um kostnaðar­mat eða mat á á­hrifum á jafn­rétti, svo eitt­hvað sé nefnt.

Á haust­þingi lagði ég fram þings­á­lyktunar­til­lögu þess efnis að ríkis­stjórninni yrði falið að hefja vinnu við að festa í sessi lýð­heilsu­mat hér á landi. Lagt er til að skipaður verði sér­fræði­hópur með þátt­töku fagráðu­neyta, fræða­sam­fé­lags og Em­bættis land­læknis sem síðan legði til leiðir sem tryggja rýni allra frum­varpa sem lögð eru fyrir Al­þingi út frá á­hrifum þeirra á lýð­heilsu þjóðarinnar. Nær­tækast er að horfa til Finn­lands í þessum efnum þar sem Finnar hafa sett sér slíkar á­herslur.

Heilsa okkar er undir­staða lífs­gæða og heilsan verður aldrei metin til fjár. Festum því lýð­heilsu­mat í sessi sem eitt skref í átt að bættri lýð­heilsu hér á landi.

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Bættari heilsa með góðu heilsulæsi

Deila grein

09/11/2022

Bættari heilsa með góðu heilsulæsi

Heilbrigðisráðherra hefur boðað til heilbrigðisþings fimmtudaginn 10. nóvember á Hilton Reykjavík Nordica. Að þessu sinni er heilbrigðisþingið helgað lýðheilsu og er öllum opið. 

Lýðheilsuþingið er haldið undir sömu formerkjum og heilbrigðisþingin sem haldin hafa verið árlega frá árinu 2018 þegar gildandi heilbrigðisstefna var í mótun. Á þinginu að þessu sinni verður lögð sérstök áhersla á allt það sem við sem einstaklingar getum gert til þess að efla, vernda og viðhalda góðri heilsu. Með því að helga þingið í ár lýðheilsu er þeim áherslum sem fram koma í nýrri heilbrigðisstefnu fylgt eftir með áherslu á innleiðingu hennar en stefna til ársins 2030 var samþykkt á síðasta löggjafarþingi. 

Á þinginu verður einnig farið yfir hvernig stjórnvöld og stofnanir í samfélaginu geta skapað sem bestar aðstæður til heilsueflingar á öllum stigum æviskeiðsins. Um þessar mundir er að störfum verkefnahópur sem vinnur að mótun aðgerðaáætlunar um framkvæmd lýðheilsustefnu og afrakstur heilbrigðisþingsins á fimmtudaginn mun án efa nýtast við þá vinnu.

Heilsan í dag skiptir máli fyrir framtíðina

Öflugt og gott heilbrigðiskerfi skiptir gríðarlega miklu máli þegar kemur að heilsufari þjóðarinnar og þar koma til álita margir áhrifaþættir. Um langt skeið hefur verið virk samvinna á milli Embættis landlæknis og fjölmargra sveitarfélaga um verkefnið Heilsueflandi samfélag. Sveitarfélögin hafa í auknum mæli lagt áherslu á málaflokkinn og ráðið lýðheilsufulltrúa til starfa. Sveitarfélögin eru m.a. að leggja áherslu á heilsueflandi umhverfi s.s. hjóla- og gönguleiðir, næringu barna í skólum, forvarnir og heilsueflingu eldra fólks svo eitthvað sé nefnt.

Efling lýðheilsu er þverfaglegt verkefni þar sem árangurinn byggist á samvinnu, sannreyndum aðferðum og skýrri stefnumörkun stjórnvalda. Út frá arðsemi skilar löggjöf mestum heilsufarslegum ábata. Út frá þeim rökum er afar mikilvægt að íslensk stjórnvöld meti einnig áhrif löggjafar og stjórnvaldsákvarðana á heilsu landsmanna. 

Við erum sem þjóð að verða meðvitaðri um þá þætti sem stuðla að bættari heilsu okkar. Með því að efla heilsulæsi enn frekar má auka þekkingu og skilning á því hvaða áhrif ólíkir valkostir hafa. það er ótvíræður hagur okkar allra að við leggjum áherslu á að fyrirbyggja sjúkdóma og gera þjóðinni auðveldara fyrir að velja heilbrigðan lífsstíl. Heilbrigðisþing tileinkað lýðheilsu er sannarlega skref í rétta átt.

Heilsa eins, hagur allra!

Jóhann Friðrik Friðriksson, Alþingismaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Heilbrigðiskerfi ekki óheilbrigðiskerfi

Deila grein

21/09/2021

Heilbrigðiskerfi ekki óheilbrigðiskerfi

Fólk sem sækist eftir því að komast til áhrifa í samfélaginu gerir það af ýmsum ástæðum. Það er mín reynsla að mörg hver eiga sín hjartans mál sem flest sækja í upplifun og reynslu sína af lífinu. Frá því að ég hóf þátttöku í stjórnmálum hef ég verið ötull talsmaður nýrrar sýnar í heilbrigðismálum. Sýnar sem byggist fyrst og fremst á heilbrigðisvísindum, heilsueflingu og forvörnum. Því er oft haldið fram að hver og ein manneskja beri ábyrgð á eigin heilsu. Það kann að vera að hluta til rétt en ekki að öllu leyti. Hver ber til dæmis ábyrgð á því að barn sem er 8 ára sé 20 kílóum of þungt? Hver ber ábyrgð á fólki sem liggur inni á lungnadeild og glímir við lungnakrabbamein sem rekja má til langvarandi reykinga frá unglingsárum? Hver ber ábyrgð á andlegri vanlíðan barna og hver ber ábyrgð á því að íbúar þessa lands búi við heilsusamlegt umhverfi? Þessar spurningar eru meðal annars viðfangsefni stjórnmálanna. Hvernig við forgangsröðum fjármunum og út frá hvaða forsendum skiptir lykilmáli.

Mín vegferð og barátta fyrir því að bæta heilsu fólks á öllum aldri er engin tilviljun. Innblásturinn sæki ég í mína reynslu af því að berjast sjálfur við heilsufarsleg vandamál sem framar öðru sliga nú heilbrigðiskerfin um heim allan. Á vegferð minni í gegnum þau 42 ár sem ég hef lifað hef ég varið meira en helmingi ævinnar í að glíma við offitu. Raunar var sú yfirþyngd það mikil um tíma að vinir mínir og ættingjar voru farnir að óttast um líf mitt. Offita er sjúkdómur sem hrjáir fleiri og fleiri íbúa á Íslandi með hverju árinu sem líður. Fylgikvillar offitu eru jafnvel enn hættulegri en kílóafjöldi. Þunglyndi, hjarta- og æðasjúkdómar, sykursýki 2, auknar líkur á ákveðnum krabbameinum, heilablóðfallsáhætta og stoðkerfisvandamál og er þá listinn alls ekki tæmdur.

Allir sammála um hvert þarf að stefna, samt gerist lítið

Mikil umræða hefur verið á Íslandi um offitu, fitusmánun og líkamsdýrkun rétt eins og í öðrum vestrænum ríkjum. Sitt sýnist hverjum þegar sú umræða ber á góma. Offita er þó ekki eina heilsufarslega vandamálið sem við þurfum að mæta á næstu árum og áratugum. Lífsstílstengdir sjúkdómar sem hægt er að fyrirbyggja eru mun fleiri og vandinn sem við blasir verði ekkert að gert mun sliga heilbrigðiskerfið. Það er mín upplifun að á undanförnum árum hefur þessum vanda aðallega verið mætt með plástrum og auknum útgjöldum. Skortur er á langtíma hugsjón í málaflokknum og því situr endurskipulagning heilbrigðismála á hakanum. Ég veit ekki um neinn málsmetandi aðila innan heilbrigðiskerfisins sem ekki er málflutningi mínum sammála. Hvar sem ég kem og hver sem hlustar skilur nákvæmlega mín sjónarmið. Veruleikinn er sá að heilsu okkar er ógnað fyrir margra hluta sakir yfir ævina og þær hættur eru flestar þekktar. Úrræðin eru miðuð að skammtímalausnum á meðan starfsemi heilbrigðiskerfisins leggur enn megináherslu á að taka á vandanum þegar skaðinn er skeður.

Erlendis hefur verið mikil umræða um þátt lífsstílstengdra sjúkdóma í dauðsföllum vegna COVID 19. Þessi umræða hefur ekki ratað á fjörur hér á landi sem kemur á óvart. Mun líklegra er að sjúklingar sem glíma við lífsstílstengda sjúkdóma veikist alvarlega eða jafnvel láti lífið úr COVID 19 en þeir sem búa við góða heilsu. Erlendis hefur þessi staðreynd kallað á umræðu um almenna lýðheilsu. Mikilvægt er að sú umræða fari einnig fram hér á landi.

Horfumst í augu við raunveruleikann og bregðumst við

Skortur á upplýstri umræðu um ýmis heilsufarsleg vandamál getur hamlað því að við horfumst í augu við raunveruleikann. Gleggsta dæmið eru offituaðgerðir en það virðist vera þegjandi samþykki í samfélaginu að ræða þær ekki að neinni alvöru. Hvers vegna framkvæmum við þær aðgerðir ekki alfarið hér á landi og niðurgreiðum þær að fullu? Það er væntanlega vegna þeirra fordóma sem samfélagið hefur gagnvart þeim sem glíma við offitu. Hér skal gera skýran greinarmun á þeim sem eru í yfirþyngd og þeim sem glíma við offitu. Magaaðgerðir eru það algengar á Íslandi að óhætt er að fullyrða að sparnaðurinn til lengri tíma sé verulegur svo ekki sé minnst á aukin lífsgæði. Þekkingarleysið á mikilvægi offituaðgerða og fordómar tröllríða samfélaginu án þess að upplýst umræða fari fram um árangur þeirra og áhættu að neinu marki. Fæstir leiða hugann að því hvernig hægt hefði verið að sporna við þeim gríðarlega offituvanda sem hrjáir þjóðina. Offita meðal íslenskra karla hefur til dæmis aukist úr 7,2% í 22,7%, og meðal kvenna úr 9,5% í 19,3% frá árinu 1990.

1/5 fullorðinna Íslendinga glímir nú við offitu. Hér spretta upp fatabúðir sem sértaklega selja föt á þennan stóra hóp enda þróunin hröð og ógnvænleg. Kyrrseta barna eykst á Íslandi en samt sem áður hefur engum dottið í hug að fjölga íþróttatímum í skólum eða auka markvissa hreyfingu barna á Íslandi til þess að veita einhverja mótspyrnu. Eftir hverju erum við að bíða? Er það yfirlýst markmið okkar að stórlega auka útgjöld til heilbrigðismála nánast einvörðungu til þess að mæta byrði lífsstílstengdra sjúkdóma? Varla.

Heilbrigðismál eru pólitísk og það er stjórnmálanna að setja stefnuna

Ég hef heyrt þá umræðu skjóta upp kollinum reglulega að sjúkdómurinn offita sé einhverskonar líkamsvirðingarvandamál. Það skal sannarlega tekið fram að stór hópur hér á landi er í yfirvigt enda mælikvarðinn sem farið er eftir eflaust orðinn úreltur. Smánun, jaðarsetning og lítilsvirðing gagnvart einstaklingum í yfirvigt er ekki vegurinn til batnaðar. Rannsóknir sýna að slíkt viðhorf hefur einmitt gagnstæð áhrif á meðan staðreyndirnar tala sínu máli. Þegar ég var rétt tæp 200 kíló var ég að deyja úr offitu. Þegar ég var 20 kílóum of þungur var ég að stefna í þessa átt og samfélagið dreifði þeim skilaboðum til mín að ekkert væri að óttast. Ekki var því gefinn gaumur að einu né neinu leyti. Engar fyrirbyggjandi meðferðir voru í boði og í öllum mínum læknisheimsóknum man ég aldrei eftir því að læknirinn gæfi yfirvigt minni og síðar offitu neina sértaka athygli. Sem betur fer hefur kerfið tekið við sér og mun algengara er að læknar gefi offitu gaum en þekktist hér áður fyrr. Útgjöld vegna lífsstílstengdra sjúkdóma halda þó áfram að aukast eins og áður sagði og því fljótum við sofandi að feigðarósi.

Heilbrigðismál eru pólitísk eins og svo margt annað í okkar samfélagi. Það að tryggja að Íslendingar séu við sem besta heilsu út æviskeiðið er líklega einhver besta fjárfesting sem hægt er að ráðast í. Ef þú telur mikilvægt að við hefjumst handa við kerfisbreytingar með það að markmiði að efla andlega, líkamlega og félagslega heilsu fólks þá er kosturinn í komandi kosningum augljós.

Jóhann Friðrik Friðriksson, lýðheilsufræðingur og í 2. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 20. september 2021.

Categories
Greinar

Réttur barna til íþróttaiðkunar

Deila grein

19/02/2021

Réttur barna til íþróttaiðkunar

Árið 1907 tóku lög um skólaskyldu gildi á Íslandi. Samkvæmt ágætri grein Ragnars Þorsteinssonar, fyrrum fræðslustjóra Reykjavíkurborgar, sem kom út í tilefni af 100 ára afmæli laganna var ekki einhugur um útfærsluna í kringum aldamótin þótt flestum hafi verið það ljóst að mikilvægi menntunar fyrir íslensk börn og almenning væri grundvöllur framfara þjóðarinnar til lengri tíma. Mér vitanlega hefur ekki nokkrum Íslendingi dottið í hug að afnema skólaskyldu né láta sér detta sú fásinna í hug að öll börn ættu ekki að hafa sama rétt til menntunar hér á landi óháð efnahag. Við trúum því og treystum að menntun sé hluti mannréttinda okkar og fjárfestingu í menntun barnanna okkar sé vel varið.

Rannsóknir sýna að menntun er ávísun á aukin lífsgæði einstaklinga og samfélaga. Menntun hefur einnig jákvæð áhrif á heilsufar en heilsa okkar er jú eitt það dýrmætasta sem við eigum. Sá sem ekki er við góða heilsu á í erfiðleikum með að njóta annarra þátta daglegs lífs. Lengi býr að fyrstu gerð segir máltækið og því benda rannsóknir til þess að félagsleg umgjörð barna hafi mótandi áhrif á velgengni þeirra á lífsleiðinni. En börn þurfa ekki aðeins menntun. Börn þurfa einnig ást og umhyggju, tækifæri til þess að vera börn og upplifa heiminn í leik og starfi. Börn þurfa að læra samvinnu og öðlast félagsþroska þar sem mikilvægi samstarfs er oft grundvöllur að árangri í lífinu. Börn þurfa virka hreyfingu og þar vega tækifærin til íþróttaiðkunar þungt.

Samkvæmt ÍSÍ má ætla að um 60.000 börn og ungmenni á Íslandi stundi íþróttir en mikilvægi íþrótta er ótvírætt fyrir þroska og heilsu barna auk þess sem forvarnargildi þeirra er staðreynd. Nágrannaþjóðir okkar horfa öfundaraugum á gæði þjálfunar og faglega umgjörð íþróttastarfs hér á landi þar sem áhersla hefur verið lögð á menntun þjálfara og fyrsta flokks aðstöðu. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur um langt skeið lagt mikla áherslu á íþróttir og tómstundir þó svo málaflokkurinn sé ekki lögbundin þjónusta rétt eins og menntakerfið eða velferðarþjónustan. Nýlega var ákveðið að ráðast í gríðarlega metnaðarfulla framkvæmd við Stapaskóla þar sem sundlaug og fullbúið keppnisíþróttahús mun rísa á næstu árum auk þess sem hvatagreiðslur voru hækkaðar og fyrirmyndarsamningar gerðir við íþróttafélögin til þess að efla starf þeirra enn frekar. Fjármunum þessum er vel varið en betur má ef duga skal.

Fyrir rúmri öld var það ákvörðun alþingis að leggja grunninn að menntakerfi okkar til framtíðar. Grunnurinn að íþróttastarfi hér á landi hefur fyrir löngu verið lagður með þrotlausri vinnu sjálfboðaliða en upp á vantar að tryggja öllum börnum og ungmennum gjaldfrjálsar íþróttir hér á landi óháð efnahag þeirra sem að þeim standa. Það er kominn tími til þess að ríkisvaldið viðurkenni mikilvægi íþróttastarfs fyrir lýðheilsu í landinu og fjármagni þennan mikilvæga málaflokk til jafns við sveitarstjórnarstigið. Fyrsta skrefið í þá átt væri mótframlag ríkisins með hverju barni sem stundar íþróttir hér á landi. Langtímaplanið væri svo gjaldfrjálsar íþróttir á Íslandi fyrir öll börn og ungmenni upp að lögaldri. Nánari útfærsla færi fram í samstarfi við íþróttahreyfinguna. Arðurinn af fjárfestingunni væri ómetanlegur til langrar framtíðar.

Jóhann Friðrik Friðriksson, er lýðheilsufræðingur og bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ.

Greinin birtist fyrst á vf.is 18. febrúar 2021.